Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir

2010 nr. 97 28. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 3. júlí 2010. Breytt með: L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 79/2011 (tóku gildi 29. júní 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.
[Ráðherra] 1) er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem verður að fullu í eigu ríkisins og hefur það að markmiði að standa að lagningu Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi austur fyrir Ölfusárbrú að nýjum gatnamótum við núverandi Suðurlandsveg og Vesturlandsvegar frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum og til að ljúka við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Víknavegi, ásamt nauðsynlegum undirbúningi.
Ráðherra er heimilt að fela félaginu að annast rekstur og viðhald þessara vega.
Hlutafé félagsins við stofnun er 20 millj. kr. sem greiðast úr ríkissjóði. Við stofnun félagsins er allt hlutafé þess í eigu íslenska ríkisins og er sala þess og ráðstöfun óheimil.
[Sá ráðherra er fer með eignir ríkisins] 1) fer með hlut ríkisins í félaginu.
Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.
    1)L. 126/2011, 532. gr.
2. gr. Heimild Vegagerðarinnar til að taka þátt í stofnun hlutafélags.
Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags sem hefur það að markmiði að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Heimilt er Vegagerðinni að eiga allt að 51% hlutafjár í félaginu og leggja til þess hlutafé í samræmi við fjárheimildir.
Ráðherra er heimilt að fela félaginu að annast rekstur og viðhald jarðganganna.
3. gr. Tilgangur félaganna.
Tilgangur félaganna er að annast framkvæmdir skv. 1. og 2. gr., þ.m.t. áætlanagerð, hönnun, útboð, samningsgerð við verktaka og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og taka gjald af umferð um viðkomandi vegi.
Félögunum er heimilt að kaupa einstaka eða alla verkþætti sem kveðið er á um í 1. mgr. af Vegagerðinni.
Félögunum er heimilt, að fengnu samþykki [ráðherra], 1) að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félaganna skal nánar lýst í samþykktum þeirra.
    1)L. 162/2010, 259. gr.
4. gr. Stjórnir félaganna.
Stjórnir félaganna skulu við stofnun þeirra skipaðar þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
Stjórnir félaganna skulu eins og unnt er vinna að verkefnum sem félögunum eru falin í samráði og samvinnu við helstu hagsmunaaðila verkefna.
Stjórnir félaganna ráða framkvæmdastjóra sem skulu hafa reynslu af vegagerð og háskólamenntun sem nýtist í starfi.
Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.
5. gr. Samningar ríkisins við félögin.
Ráðherra er heimilt að gera samninga við félögin um uppbyggingu, rekstur og viðhald þeirra framkvæmda sem þau annast uppbyggingu á skv. 1. og 2. gr.
6. gr. Gjaldskrá.
Félögunum er heimilt að innheimta gjald fyrir notkun mannvirkja sem þeim hefur verið falið að annast framkvæmdir við. Gjaldið skal standa undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd viðkomandi mannvirkja, auk eftirlits og kostnaðar við álagningu og innheimtu gjalda. Þá er heimilt að fella inn í gjaldið kostnað við rekstur og viðhald viðkomandi vegar samkvæmt nánari ákvörðun [ráðherra]. 1) Félögin skulu auglýsa gjaldskrár sínar og breytingar á þeim á heimasíðu sinni.
Eigandi ökutækis eða umráðamaður, ef um kaupleigu er að ræða, ber ábyrgð á greiðslu gjalda. Gjöld skv. 1. mgr. eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
Félögunum er heimilt, að fengnu samþykki [ráðherra], 1) að gera samninga við aðra um innheimtu gjalda skv. 1. mgr.
    1)L. 162/2010, 259. gr.
[7. gr. Eignarnámsheimild.
Vegagerðinni er heimilt að taka eignarnámi land, jarðefni og önnur réttindi sem þörf verður á vegna framkvæmda sem félög skv. 1. og 2. gr. standa að. Um málsmeðferð vegna eignarnámsákvörðunarinnar gilda þau ákvæði VII. kafla vegalaga sem varða eignarnám.] 1)
    1)L. 79/2011, 1. gr.
[8. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
    1)L. 79/2011, 1. gr.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði 7. gr. gilda um eignarnámsákvarðanir sem teknar eru eftir gildistöku laga þessara.
Málsmeðferð vegna töku ákvarðana um eignarnám sem hafist hefur fyrir gildistöku laga þessara telst fullnægjandi undirbúningur að ákvörðun um eignarnám samkvæmt lögum þessum, enda uppfylli allir þættir hennar ákvæði málsmeðferðarreglna VII. kafla vegalaga, nr. 80/2007, með síðari breytingum.] 1)
    1)L. 79/2011, 2. gr.