Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
2018 nr. 140 21. desember
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 58. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2015/849. Breytt með: L. 55/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 910/2014). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019). L. 163/2019 (tóku gildi 4. jan. 2020 nema 6.–9. gr. sem tóku gildi 1. mars 2020 og 3. gr. sem tekur gildi 1. júní 2020, sbr. l. 8/2020, 3. gr.). L. 45/2020 (tóku gildi 4. júní 2020; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2011/61/ESB, 2013/14/ESB). L. 96/2020 (tóku gildi 23. júlí 2020; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 15. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2018/843, 2018/1108, 2019/758). L. 10/2021 (tóku gildi 5. mars 2021). L. 116/2021 (tóku gildi 1. sept. 2021; um lagaskil sjá 136. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2007/16/EB, 2009/65/EB, 2013/14/ESB, 2014/91/ESB, 2010/78/ESB). L. 62/2022 (tóku gildi 13. júlí 2022).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
dómsmálaráðherra eða
dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.
Markmið laga þessara er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.
2. gr.
Gildissvið.
Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
a. [Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, [rekstraraðilar sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða],
1) [rekstrarfélög verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði]
2) og lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda sem ekki falla jafnframt undir n-lið.]
3)
b. Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
c. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
d. Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
e. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
f. Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
g. Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
h. Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
i. [Gjaldeyrisskiptaþjónusta]
4) að undanskildum þeim aðilum sem öll eftirfarandi skilyrði eiga við um:
1. gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
2. heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári og
3. gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
j. [Þjónustuveitendur sýndareigna, sbr. skilgreiningu í 3. gr.]
4)
k. …
4)
l. Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
m. Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
n. [Fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum.]
3)
o. Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
p. Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
[q. Skartgripa- og gullsalar, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.]
3)
[r.]
3) Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
[s.]
3) [Önnur starfsemi, ótalin hér að framan, þar sem lögaðilar og einstaklingar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.]
3)
[t.]
3) Einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.
[u. Aðilar sem geyma eða eiga viðskipti með listmuni, sem eru geymdir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1. mgr.
69. gr. tollalaga, nr. 88/2005, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.]
3)
Ákvæði laga þessara eru ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram.
1)L. 10/2021, 1. gr. 2)L. 116/2021, 137. gr. 3)L. 96/2020, 1. gr. 4)L. 62/2022, 1. gr.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í lögum þessum merkir:
1.
Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
2.
Aðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:
a. aðstoðar við stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
b. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
c. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið eða aðra tengda þjónustu,
d. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
e. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.
3.
Ávinningur: Hvers kyns hagnaður og eignir, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.
4.
Efnahagslegur tilgangur: Ástæður að baki inn- og útgreiðslu, þ.e. hvaða vöru eða þjónustu er verið að greiða fyrir.
5.
Eftirlitsaðilar: Fjármálaeftirlitið og ríkisskattstjóri.
6.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla: Einstaklingar, innlendir og erlendir, sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum.
Til háttsettra einstaklinga í opinberri þjónustu teljast:
a. þjóðhöfðingjar, ráðherrar og staðgenglar ráðherra eða aðstoðarráðherrar,
b. þingmenn,
c. einstaklingar í [stjórnum]
1) stjórnmálaflokka,
d. hæstaréttardómarar, dómarar við stjórnlagadómstóla eða aðrir háttsettir dómarar við dómstóla þaðan sem niðurstöðu er ekki hægt að áfrýja nema í undantekningartilvikum,
e. [ríkisendurskoðandi]
2) og hæstráðendur seðlabanka,
f. sendiherrar, staðgenglar sendiherra og háttsettir yfirmenn herja,
g. fulltrúar í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækja í eigu ríkis,
h. framkvæmdastjórar, aðstoðarframkvæmdastjórar og stjórnarmenn alþjóðasamtaka og alþjóðastofnana.
Störf sem talin eru upp í a–h-liðum eiga ekki við um millistjórnendur.
Til nánustu fjölskyldu teljast:
a. maki,
b. sambúðarmaki í skráðri sambúð,
c. börn, stjúpbörn og makar þeirra eða sambúðarmakar í skráðri sambúð,
d. foreldrar.
Til náinna samstarfsmanna teljast:
a. einstaklingar sem vitað er að hafi verið raunverulegir eigendur lögaðila með einstaklingi sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu eða aðrir þekktir samstarfsmenn,
b. einstaklingar sem hafa átt náin viðskiptatengsl við einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu,
c. einstaklingur sem er einn raunverulegur eigandi lögaðila sem vitað er að var stofnaður til hagsbóta fyrir einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu.
7.
Fjármögnun hryðjuverka: Öflun fjár, hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða að hluta til að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a – 100. gr. c almennra hegningarlaga.
8.
[Gjaldeyrisskiptaþjónusta:]2) Starfsemi þar sem í atvinnuskyni fara fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris.
9.
Gjaldmiðill: Seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess lögbærir opinberir aðilar gefa út og eru viðurkenndir lögmæltir gjaldmiðlar.
10.
Millifærsla fjármuna: Hvers konar færsla fjármuna með rafrænum hætti í gegnum greiðslukerfi aðila skv. a- og d–g-lið 1. mgr. 2. gr., innan lands eða yfir landamæri, sem framkvæmd er af greiðanda sem getur verið einstaklingur eða lögaðili og ætlað er að veita viðtakanda aðgang að fjármunum. Viðtakandi getur verið sá sami og greiðandi.
11.
Viðskipti tilkynningarskyldra aðila: Þegar fjármálafyrirtæki veitir tilkynningarskyldum aðila fjármálaþjónustu m.a. í formi innstæðureikninga, alþjóðlegra millifærslna, greiðslujöfnunar, lausafjárstýringar, lánveitinga, verðbréfaviðskipta eða fjárfestinga.
12.
Peningaþvætti: Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum; einnig þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
13.
Raunverulegur eigandi: Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskipti eða starfsemi er stunduð eða framkvæmd. Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:
a. Í tilviki lögaðila:
1. einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila; ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir,
2. ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda skv. 1. tölul., t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara eða ef vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.
b. Í tilviki fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, allir eftirtaldir aðilar:
1. fjárvörsluaðili,
2. stofnaðili,
3. ábyrgðaraðili, ef við á,
4. rétthafi, einn eða fleiri; ef rétthafi hefur ekki verið tilgreindur telst rétthafi vera hver sá einstaklingur eða hópur einstaklinga sem mun njóta ávinnings af stofnun fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila,
5. aðrir einstaklingar sem hafa yfirráð, með beinum eða óbeinum hætti, yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegum aðila.
14.
Refsiverð háttsemi: Háttsemi sem fellur undir ákvæði 100. gr. a – 100. gr. c eða
264. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Vísvitandi svik gagnvart fjárhagslegum hagsmunum Evrópusambandsins að fjárhæð 50.000 evrur eða meira með fölsuðum, röngum, villandi eða ófullnægjandi yfirlýsingum eða skjölum sem leiða til misnotkunar á fjármunum Evrópusambandsins eða notkun þeirra í öðrum en yfirlýstum tilgangi teljast jafnframt vera refsiverð háttsemi.
15.
Skelbanki: Fjármálafyrirtæki eða sambærilegur aðili án raunverulegrar starfsemi eða heimilisfesti í því landi þar sem honum er veitt heimild til að starfa sem er jafnframt ótengdur eftirlitsskyldri samstæðu sem lýtur skilvirku eftirliti hjá viðeigandi eftirlitsaðila.
16. [
Sýndareignir: Hvers konar verðmæti á stafrænu formi:
a. sem hægt er að nota sem greiðslu eða fjárfestingu og hægt er að miðla, og
b. sem teljast ekki til rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris eða gjaldmiðils sem er gefinn út af seðlabanka eða öðrum stjórnvöldum.]
2)
17.
Tilkynningarskyldir aðilar: Aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 2. gr.
18.
Viðurkennd persónuskilríki: Gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum. Til gildra persónuskilríkja teljast [m.a.]
2) vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á fullgildum undirskriftarbúnaði …
3)
19.
Yfirstjórn: Aðili með fullnægjandi þekkingu á áhættu tilkynningarskylds aðila vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka sem er nægilega háttsettur til að taka ákvarðanir varðandi slíka áhættu. Viðkomandi þarf ekki í öllum tilvikum að vera stjórnarmaður hjá tilkynningarskyldum aðila.
20.
Þjónustuveitandi stafrænna veskja: Einstaklingur eða lögaðili sem býður upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár, hvort sem er með hugbúnaði, kerfi eða annars konar miðli til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé.
[21.
Áhættuþættir: Breytilegir þættir sem annaðhvort einir sér eða samanlagt geta aukið eða dregið úr hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
22.
Eðlislæg áhætta: Áhætta áður en tekið er tillit til stýringa og annarra aðferða til að draga úr eða stýra áhættu.
23.
Eftirstæð áhætta: Áhætta sem er til staðar eftir að tekið hefur verið tillit til stýringa og annarra aðferða til að draga úr eða stýra áhættu.
24.
Samningssamband: Viðskiptasamband milli tilkynningarskylds aðila og viðskiptamanns sem:
a. er til komið vegna viðskipta viðskiptamanns hjá tilkynningarskylda aðilanum og
b. gert er ráð fyrir, á þeim tíma sem stofnað er til viðskiptasambandsins, að vari um ákveðinn tíma.
25.
Þjónustuveitandi sýndareigna: Einstaklingur eða lögaðili sem:
a. skiptir sýndareignum yfir í gjaldmiðil eða rafeyri,
b. skiptir gjaldmiðli eða rafeyri yfir í sýndareignir,
c. skiptir sýndareignum yfir í aðrar sýndareignir,
d. varðveitir, framselur eða millifærir sýndareignir, fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila,
e. veitir þjónustu í tengslum við útgáfu, útboð eða sölu sýndareigna,
f. er þjónustuveitandi stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 20. tölul., eða
g. fer með öðrum hætti með umráð yfir sýndareignum í atvinnuskyni.
26.
Rafeyrir: Rafeyrir sem fellur undir gildissvið laga um útgáfu og meðferð rafeyris.
27.
Samstæða: Samstæða eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga.]
2)
1)L. 96/2020, 2. gr. 2)L. 62/2022, 2. gr. 3)L. 55/2019, 10. gr.
II. kafli.
Áhættumat og áhættusöm ríki.
4. gr.
Áhættumat.
Ríkislögreglustjóri skal gera áhættumat sem inniheldur greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og leiðir til að draga úr greindri áhættu. Áhættumatið skal uppfært á tveggja ára fresti eða oftar ef tilefni er til. Stjórnvöldum er skylt að veita ríkislögreglustjóra upplýsingar sem nauðsynlegar eru við gerð áhættumats.
Stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skv. 39. gr. skal samræma aðgerðir til að draga úr greindri áhættu.
Við gerð áhættumatsins skal tekið tillit til áhættumats sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins framkvæmir, afla víðtækra upplýsinga, bæði frá stjórnvöldum og öðrum sem kunna að búa yfir upplýsingum, og taka tillit til annarra viðeigandi þátta.
Áhættumat skv. 1. mgr. skal:
a. notað til að gera úrbætur á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal greina aðstæður þar sem beita skal aukinni áreiðanleikakönnun og tilgreina til hvaða aðgerða þurfi að grípa,
b. greina atvinnugreinar eða aðstæður sem fela í sér litla eða mikla hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka,
c. notað til að greina hvar þörf er á úrbótum á regluverki,
d. fjalla um skipulag og umgjörð aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
e. notað til að úthluta og forgangsraða fjármunum, búnaði og mannauði,
f. vera eftirlitsaðilum skv. 38. gr. til leiðbeiningar við áhættumiðað eftirlit,
g. notað til að deila viðeigandi upplýsingum tímanlega með tilkynningarskyldum aðilum til notkunar við gerð eigin áhættumats skv. 5. gr.,
h. birt opinberlega, í heild eða að hluta.
Afhenda skal þjóðaröryggisráði, lögbærum stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum, evrópskum eftirlitsstofnunum, Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum stjórnvöldum annarra aðildarríkja afrit af áhættumatinu.
[5. gr.
Áhættumat tilkynningarskyldra aðila.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu gera áhættumat á starfsemi sinni, samningssamböndum og einstökum viðskiptum í samræmi við ákvæði þetta.
A. Áhættumat á starfsemi.
Áhættumat á starfsemi felur í sér að bera kennsl á og meta hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í starfsemi tilkynningarskylds aðila út frá helstu veikleikum og ógnum sem að starfseminni beinast. Matið skal innihalda skriflega heildstæða greiningu og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum.
Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat skv. 4. gr. til hliðsjónar ásamt fyrirliggjandi upplýsingum um þekkta áhættu og áhættuþætti. Áhættumat skal taka mið af stærð, eðli, umfangi og margbreytileika í starfsemi tilkynningarskylds aðila.
Áður en áhættumat er unnið skal tilkynningarskyldur aðili skjalfesta þá aðferðafræði sem notuð verður við gerð áhættumatsins. Fara skal fram reglulegt mat á aðferðafræði og hún uppfærð ef tilefni er til.
Í áhættumati skal m.a. fjallað um:
a. eðlislæga áhættu, áhættuflokkun einstakra áhættuþátta og forsendur þeirrar niðurstöðu,
b. gæði stýringa og annarra aðferða til að draga úr áhættu,
c. eftirstæða áhættu og áhættuflokkun einstakra áhættuþátta.
Áhættumat skv. 1. mgr. skal uppfært á tveggja ára fresti eða oftar ef tilefni er til. Ávallt skal framkvæma áhættumat áður en nýjar vörur eða þjónusta er sett á markað og þegar teknar eru í notkun nýjar dreifileiðir og ný tækni.
Eftirlitsaðilum og öðrum lögbærum stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum skal afhent afrit af áhættumati sé þess óskað.
Eftirlitsaðilar geta ákveðið að gera ekki kröfu um áhættumat skv. 1. mgr. þar sem tiltekin starfsemi eða viðskipti eru þess eðlis að áhættuþættir eru skýrir og þekktir og viðeigandi ráðstafanir til að draga úr áhættu eru til staðar.
B. Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum.
Áður en áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum fer fram skal tilkynningarskyldur aðili skjalfesta þá aðferðafræði sem notuð verður við gerð áhættumatsins. Fara skal fram reglulegt mat á aðferðafræði og hún uppfærð ef tilefni er til.
Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum skal byggja á áhættumati á starfsemi skv. A-lið.
Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum skal notað til að ákveða tegund og umfang áreiðanleikakönnunar, m.a. til þess að meta hvort beita eigi aukinni áreiðanleikakönnun eða hvort heimilt sé að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun. Áhættumatið er einnig grundvöllur ákvörðunar um með hvaða hætti eftirlit með samningssamböndum og einstökum viðskiptum skuli framkvæmt hjá tilkynningarskyldum aðilum.
Við mat á því hvernig samningssambönd og einstök viðskipti skulu áhættuflokkuð skal horft til allra viðeigandi áhættuþátta sem geta, einir sér eða samanlagt, aukið eða dregið úr áhættu vegna peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Horfa skal til þeirrar heildaráhættu sem tengist samningssambandi og einstökum viðskiptum, m.a. til:
a. starfsemi, orðspors og stjórnmálalegra tengsla viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
b. ríkja eða ríkjasvæða sem tengjast viðskiptasambandinu,
c. áhættuþátta sem tengjast þeirri vöru, þjónustu eða færslum sem sóst er eftir,
d. dreifileiða sem notaðar eru,
e. þess hvort viðskiptamaður noti milligönguaðila til að koma fram fyrir sína hönd,
f. þess hvort viðskiptamaður sé lögaðili með flókið eignarhald eða stjórnskipulag,
g. þess hvort viðskiptamaður sé fjárvörslusjóður eða sambærilegur aðili, og
h. þess hvort viðskiptamaður stundi aðallega reiðufjárviðskipti.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu tryggja að áhættumat á samningssamböndum endurspegli fyrirliggjandi áhættu á hverjum tíma og sé í samræmi við þau viðskipti sem viðskiptamaður stundar.]
1)
1)L. 62/2022, 3. gr.
[5. gr. a.
Stefna, stýringar og verkferlar.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa skjalfesta stefnu, stýringar og verkferla til að draga úr og stýra áhættu sem stafar af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Byggja skal stefnu, stýringar og verkferla á áhættumati skv. 5. gr. Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila samkvæmt þessu ákvæði skulu vera í samræmi við stærð, eðli, umfang og margbreytileika í starfsemi tilkynningarskylds aðila.
Stefna, stýringar og verkferlar skv. 1. mgr. skulu að lágmarki fela í sér, eftir því sem við á:
a. ákvæði um þróun og uppfærslu stefnu, stýringa og verkferla, þ.m.t. aðferðir við áhættustýringu, áreiðanleikakönnun, tilkynningar um grunsamleg viðskipti, varðveislu gagna, innra eftirlit og tilnefningu ábyrgðarmanns, og könnun á hæfi starfsmanna, og
b. kröfu um sjálfstæða endurskoðunardeild eða sjálfstæða úttektaraðila til að framkvæma úttekt á og prófa þá þætti sem um getur í a-lið.
Stefna tilkynningarskylds aðila skal samþykkt af stjórn og stýringar og verkferlar skulu samþykkt af yfirstjórn. Yfirstjórn skal hafa eftirlit með framkvæmd stefnu, stýringa og verkferla og gefa fyrirmæli um auknar ráðstafanir þar sem við á.]
1)
1)L. 62/2022, 3. gr.
6. gr.
Áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki.
Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum skulu birta tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
III. kafli.
Áreiðanleikakönnun.
7. gr.
Nafnlaus viðskipti.
Tilkynningarskyldum aðilum skv. a–k-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að bjóða upp á nafnlaus viðskipti. Komi í ljós að viðskiptamaður sé þegar í nafnlausum viðskiptum skal þess krafist að hann sanni á sér deili og afla skal upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 10. gr. liggi þær upplýsingar ekki þegar fyrir.
Hafi ekki reynst mögulegt að afla upplýsinga um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda skv. 1. mgr. skal eftir því sem við á fylgja 11. mgr. 10. gr.
Tilkynningarskyldum aðilum skv. a–m-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald.
8. gr.
Tilvik þar sem áreiðanleikakönnun skal framkvæmd.
Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði þessa kafla í eftirfarandi tilvikum:
a. við upphaf …
1) samningssambands,
b. vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
c. við millifærslu fjármuna, sbr. 10. tölul. 3. gr., þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
d. við viðskipti með vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
e. við útgreiðslu vinninga hjá tilkynningarskyldum aðilum skv. [t-lið]
2) 1. mgr. 2. gr. að fjárhæð 2.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem greiðslurnar fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
f. þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana,
g. þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda séu réttar eða nægilega áreiðanlegar,
[h. vegna einstakra viðskipta með sýndareignir að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
i. við millifærslu sýndareigna, þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni].
1)
1)L. 62/2022, 4. gr. 2)L. 96/2020, 3. gr.
9. gr.
Heimild til að víkja frá áreiðanleikakönnun á grundvelli áhættumats.
Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að víkja frá einstökum þáttum áreiðanleikakönnunar skv. a–d-lið 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. við útgáfu rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris. Slíkt er þó eingöngu heimilt ef áhættumat skv. 4. og 5. gr., eftir því sem við á, sýnir fram á litla áhættu og þar sem öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a. um er að ræða rafeyri sem er geymdur á greiðslumiðli sem ekki er hægt að endurhlaða, eða mánaðarlegar færslur fara ekki yfir [150 evrur]
1) miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni og einungis er hægt að nota greiðslumiðilinn vegna greiðslna innan sama lands,
b. fjárhæð rafeyris sem á hverjum tíma er geymd á greiðslumiðli fer ekki yfir [150 evrur]
1) miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
c. greiðslumiðillinn er eingöngu notaður til að greiða fyrir vörur eða þjónustu,
d. útgefandi greiðslumiðilsins hefur fullnægjandi eftirlit með færslum og samningssamböndum sínum til að greina óvenjulegar eða grunsamlegar færslur,
e. innlausn, [úttekt í reiðufé eða fjargreiðsla]
1) er ekki umfram [50 evrur]
1) miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
[f. ekki er hægt að fjármagna greiðslumiðilinn með nafnlausum rafeyri].
2)
…
1)
Tilkynningarskyldir aðilar sem hafa leyfi til að veita greiðsluþjónustu sem færsluhirðar skulu eingöngu samþykkja greiðslur sem gerðar eru með nafnlausum fyrirframgreiddum kortum útgefnum í löndum utan aðildarríkja ef kortin uppfylla kröfur um áreiðanleikakönnun sem samsvara þeim sem eru tilgreindar í a–d-lið 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. og kröfur sambærilegar þeim sem eru tilgreindar í …
2) 1. mgr.
1)L. 96/2020, 4. gr. 2)L. 62/2022, 5. gr.
10. gr.
Könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.
Áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að:
a. einstaklingar sanni á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja,
b. lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sanni á sér deili með upplýsingum úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum; [þeir sem koma fram fyrir hönd viðskiptamanns gagnvart tilkynningarskyldum aðila skulu sýna fram á að þeir hafi til þess heimild og sanna á sér deili skv. a-lið],
1)
c. aðilar sem koma fram fyrir hönd fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila, þ.e. fjárvörsluaðilar, veiti tilkynningarskyldum aðilum upplýsingar um raunverulega eigendur; þeir skulu jafnframt að eigin frumkvæði upplýsa tilkynningarskylda aðila um stöðu sína sem fjárvörsluaðili,
d. þeir sem koma fram fyrir hönd þriðja aðila sýni fram á að þeir séu réttilega að prókúru eða sérstakri heimild komnir og sanni á sér deili skv. a-lið,
e. fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um raunverulegan eiganda og [þær upplýsingar hafi verið sannreyndar].
1)
Tilkynningarskyldur aðili skal ávallt afla fullnægjandi upplýsinga um viðskiptamann og raunverulegan eiganda, sbr. 1. mgr., og grípa til réttmætra ráðstafana til að sannreyna upplýsingar skv. 1. mgr., t.d. með upplýsingum úr opinberri skrá. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og að hann skilji eignarhald, starfsemi og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða aðrir sambærilegir aðilar. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver endanlegur móttakandi fjár er, eða hver raunverulegur eigandi er, skal krefjast frekari upplýsinga. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, skal tilkynningarskyldur aðili grípa til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns. [Í slíkum tilvikum skal varðveita gögn sem sýna fram á þær ráðstafanir sem gerðar eru til að auðkenna einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns og þau vandkvæði sem upp kunna að koma við slíka auðkenningu.]
2)
Leggja skal mat á, eða ef við á afla viðeigandi upplýsinga um, tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta hjá verðandi viðskiptamanni.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu:
a. hafa reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn,
b. afla fullnægjandi upplýsinga um viðskipti sem fara fram á samningstímanum til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar og áhættumat skv. 5. gr.,
c. staðfesta eftir því sem við á uppruna þeirra fjármuna sem notaðir er í viðskiptum,
d. grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna viðeigandi upplýsingar,
e. uppfæra upplýsingar um viðskiptamenn reglulega og afla frekari upplýsinga í samræmi við lög þessi eftir því sem þörf krefur.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu meta hvort viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila og hafi þeir vitneskju um að svo sé, eða ástæðu til að ætla það, ber þeim að sannreyna hver sá þriðji aðili er, sbr. 1. og 2. mgr.
…
1)
Þegar um áhættu- og söfnunarlíftryggingar er að ræða skulu aðilar skv. b- og c-lið 1. mgr. 2. gr., til viðbótar við áreiðanleikakönnun skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar, framkvæma áreiðanleikakönnun á rétthafa um leið og hann er þekktur eða tilnefndur í samræmi við eftirfarandi:
a. afla upplýsinga um nafn rétthafa sé hann einstaklingur, fjárvörslusjóður eða sambærilegir aðilar,
b. ef rétthafi er tilnefndur eftir einkennum, flokki eða svipuðum sérkennum eða er óþekktur skal fullnægjandi upplýsinga aflað til þess að sanna deili á honum, sbr. a-lið 1. mgr., eigi síðar en við útgreiðslu samningsins í heild eða að hluta.
Þegar áhættu- og söfnunarlíftrygging er framseld, að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila, skal tilkynningarskyldur aðili skv. b- og c-lið 1. mgr. 2. gr., ef honum er kunnugt um framsalið, afla viðeigandi upplýsinga um þann aðila sem hlýtur ávinning af samningnum, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Ávallt skal staðfesta deili á rétthafa við útgreiðslu samningsins í heild eða að hluta.
Ef rétthafi fjárvörslusjóða eða sambærilegs aðila er tilnefndur eftir einkennum, flokki eða svipuðum sérkennum skal fullnægjandi upplýsinga aflað til þess að sanna deili á rétthafa við útgreiðslu samningsins eða þegar hann nýtir sér réttindi samkvæmt samningnum með öðrum hætti.
Ásamt því að framkvæma áreiðanleikakönnun á öllum nýjum viðskiptamönnum skulu tilkynningarskyldir aðilar kanna áreiðanleika upplýsinga um núverandi viðskiptamenn, m.a. þegar breytingar verða á samningssambandinu eða einstökum þáttum þess og ef tilkynningarskyldum aðila er skylt að endurskoða reglulega raunverulegt eignarhald samkvæmt lögum eða öðrum skuldbindingum. Áreiðanleikakönnun skal ávallt vera framkvæmd á grundvelli áhættumats skv. 5. gr. og styðjast skal við allar nauðsynlegar upplýsingar.
Hafi ekki reynst mögulegt að framkvæma áreiðanleikakönnun í samræmi við þetta ákvæði, að teknu tilliti til áhættumats tilkynningarskylds aðila, og ekki eru uppi þær aðstæður sem heimila undanþágu frá því skv. 1. og 2. mgr. 11. gr., er óheimilt að framkvæma viðskipti eða stofna til samningssambands við viðkomandi. Hafi þegar verið stofnað til samningssambands skal binda enda á það án tafar. Skal jafnframt metið hvort ástæða sé til að senda skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynningu skv. 21. gr.
Ef áframhaldandi áreiðanleikakönnun gæti hindrað rannsókn eða lögsókn vegna grunsamlegra viðskipta er tilkynningarskyldum aðila heimilt að láta hjá líða að framkvæma fullnægjandi áreiðanleikakönnun og eftir atvikum heimilt að stofna til samningssambands eða láta viðskipti ná fram að ganga. Tilkynna skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu án tafar um slíkar aðstæður.
1)L. 62/2022, 6. gr. 2)L. 96/2020, 5. gr.
11. gr.
Tímabundin frestun á framkvæmd áreiðanleikakönnunar.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 10. gr. og til þess að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta má fresta því að sannreyna upplýsingar skv. 1. mgr. 10. gr. þar til samningssamband hefur stofnast í þeim tilvikum þar sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. [Í slíkum tilvikum skulu upplýsingar skv. 1. mgr. 10. gr. sannreyndar eins fljótt og því verður komið við.]
1)
Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að stofna til samningssambands við viðskiptamann þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt að því tilskildu að tryggt sé að viðskiptamaðurinn geti ekki framkvæmt viðskipti fyrr en áreiðanleikakönnun skv. 10. gr. hefur farið fram, að teknu tilliti til áhættumats tilkynningarskylds aðila og reglugerðar um áreiðanleikakönnun skv. 56. gr.
Ákvæði 2. mgr. gildir ekki um störf tilkynningarskyldra aðila skv. l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.
1)L. 62/2022, 7. gr.
12. gr.
Einfölduð áreiðanleikakönnun.
Hafi áhættumat skv. 4. eða 5. gr. sýnt fram á litla hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er tilkynningarskyldum aðilum heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í samræmi við áhættumatið og reglugerð um áreiðanleikakönnun skv. a-lið 56. gr.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa fullnægjandi eftirlit með færslum viðskiptamanna og samningssamböndum sínum til að greina óvenjulegar eða grunsamlegar færslur, þrátt fyrir að framkvæmd hafi verið einfölduð áreiðanleikakönnun á viðskiptamanni skv. 1. mgr.
13. gr.
Aukin áreiðanleikakönnun.
[Tilkynningarskyldir aðilar skulu beita aukinni áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða:
a. viðskipti við einstaklinga, lögaðila, fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila sem tengjast áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki, sbr. 14. gr.,
b. tilvik skv. 15.–17. gr.,
c. önnur tilvik en skv. a- eða b-lið þegar áhættumat tilkynningarskylds aðila gefur til kynna meiri áhættu, eða
d. tilvik þar sem áhætta telst að öðru leyti meiri.
Aukin áreiðanleikakönnun felst í því að afla aukinna upplýsinga, gera auknar kröfur til gæða þeirra upplýsinga sem er aflað og að framkvæma aukið eftirlit til að ganga úr skugga um að áhættu sem tengist einstökum viðskiptum eða samningssamböndum sé stýrt eða að áhættan sé ekki lengur í samræmi við áhættuvilja tilkynningarskylds aðila.]
1)
Tilkynningarskyldir aðilar skulu rannsaka, eins og unnt er, bakgrunn og tilgang allra færslna sem a.m.k. eitt af eftirtöldum skilyrðum á við um:
a. um er að ræða flóknar færslur,
b. um er að ræða óvenjulega háar færslur,
c. um er að ræða óvenjulegt viðskiptamynstur eða
d. um er að ræða færslur sem virðast hvorki hafa efnahagslegan né löglegan tilgang.
Allar slíkar færslur og samningssambönd sem þeim tengjast skulu sæta auknu eftirliti í þeim tilgangi að greina hvort um grunsamleg viðskipti er að ræða.
[Ekki er skylt að beita aukinni áreiðanleikakönnun þótt um sé að ræða aðila skv. a-lið 1. mgr., þegar um er að ræða viðskipti við útibú eða dótturfélög tilkynningarskyldra aðila með staðfestu í aðildarríki, að því tilskildu að viðkomandi útibú og dótturfélög fari að öllu leyti eftir stefnu og aðferðum samstæðunnar skv. 32. gr. Slík útibú og dótturfélög skulu meðhöndluð samkvæmt áhættumati tilkynningarskylds aðila.]
1)
1)L. 62/2022, 8. gr.
14. gr.
Aukin áreiðanleikakönnun viðskiptamanna í áhættusömum ríkjum.
Þegar um er að ræða viðskipti eða samningssamband [sem tengist]
1) áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki skv. 6. gr. eða reglugerð um áhættusöm ríki, sbr. 56. gr., skulu tilkynningarskyldir aðilar framkvæma aukna áreiðanleikakönnun sem að lágmarki felur í sér að:
a. afla aukinna upplýsinga um viðskiptamann og raunverulegan eiganda,
b. afla aukinna upplýsinga um fyrirhugað eðli samningssambandsins,
c. afla upplýsinga um uppruna fjármuna og uppruna auðs viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
d. afla upplýsinga um tilgang fyrirhugaðra viðskipta eða þegar framkvæmdra viðskipta,
e. afla samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta eða til áframhaldandi viðskipta, ef til þeirra hefur verið stofnað nú þegar,
f. hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu með því að fjölga úttektum og þeim aðferðum sem er beitt við eftirlit og skoða sérstaklega óvenjuleg viðskiptamynstur,
g. fara fram á að fyrsta greiðsla sé innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi sem hann hefur sjálfur stofnað til í starfandi fjármálafyrirtæki sem sætir sambærilegum kröfum um áreiðanleikakönnun og kveðið er á um í lögum þessum.
Til viðbótar við ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu tilkynningarskyldir aðilar, þegar við á og til þess að draga úr áhættu, beita einum eða fleiri eftirfarandi þáttum:
a. viðbótarþáttum vegna aukinnar áreiðanleikakönnunar, sem tilkynningarskyldur aðili hefur sjálfur ákvarðað hverjir skuli vera, á grundvelli áhættumats,
b. hafa aukið eða kerfisbundið eftirlit með framkvæmd viðskipta,
c. draga úr eða takmarka samningssamband eða viðskipti við einstaklinga, lögaðila eða aðra sambærilega aðila frá áhættusömum ríkjum.
Til viðbótar við ráðstafanir skv. 1. mgr. geta eftirlitsaðilar, eftir því sem við á:
a. neitað tilkynningarskyldum aðila frá áhættusömum ríkjum, eða ríkjum sem ekki hafa sambærilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi kveða á um, að stofna hér dótturfélag eða starfrækja hér útibú eða umboðsskrifstofu,
b. bannað tilkynningarskyldum aðila að stofna útibú eða umboðsskrifstofu í áhættusömum ríkjum eða ríkjum sem ekki hafa sambærilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og kveðið er á um í lögum þessum,
c. skyldað lána- og fjármálastofnanir til að yfirfara og aðlaga eða, ef nauðsyn krefur, binda enda á viðskipti við mótaðila í áhættusömum ríkjum,
d. krafist aukins eftirlits eða ytri endurskoðunar fyrir útibú og dótturfélög tilkynningarskyldra aðila sem staðsett eru í áhættusömum ríkjum,
e. krafist aukins eftirlits ytri endurskoðenda með samstæðu vegna útibúa og dótturfélaga sem staðsett eru í áhættusömum ríkjum.
1)L. 62/2022, 9. gr.
15. gr.
Viðskipti tilkynningarskyldra aðila.
Í viðskiptum yfir landamæri, við aðila frá löndum utan aðildarríkja, skulu tilkynningarskyldir aðilar skv. a–k-lið 1. mgr. 2. gr., til viðbótar við áreiðanleikakönnun skv. 10. gr., uppfylla öll eftirtalin skilyrði þegar stofnað er til samningssambands:
a. afla fullnægjandi upplýsinga um starfsemi mótaðilans til að skilja rekstur og starfsemi viðkomandi, meta út frá opinberum gögnum orðspor viðkomandi og staðreyna gæði eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með honum,
b. fullvissa sig um gæði verkferla, stýringar og varnir gagnaðila til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
c. afla samþykkis frá yfirstjórn áður en viðskiptum er komið á,
d. skrásetja skyldur hvors aðila fyrir sig samkvæmt lögum þessum og
e. fá staðfest, þegar um greiðslustreymisreikninga er að ræða, að gagnaðili hafi framkvæmt viðeigandi áreiðanleikakönnun og meti reglulega upplýsingar um viðskiptamenn sem hafa beinan aðgang að reikningum hjá viðkomandi tilkynningarskyldum aðila skv. a-lið 1. mgr. 2. gr. og geti veitt viðeigandi upplýsingar um viðskiptamann sé þess óskað.
16. gr.
Viðskipti tilkynningarskyldra aðila við skelbanka.
Tilkynningarskyldum aðilum skv. a–k-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að stofna til eða halda áfram viðskiptum við skelbanka. Þeim er jafnframt óheimilt að eiga í viðskiptum við mótaðila sem heimilar skelbanka að nota reikninga sína. Hafi þegar verið stofnað til samningssambands við slíka aðila skal binda enda á það án tafar.
17. gr.
Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra.
Sé viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skulu tilkynningarskyldir aðilar, til viðbótar við áreiðanleikakönnun samkvæmt þessum kafla:
a. fá samþykki yfirstjórnar áður en stofnað er til samningssambands eða viðskipta eða þeim er haldið áfram,
b. grípa til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs viðkomandi og uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum,
c. hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu með sama hætti og skv. 1. mgr. meta hvort vátryggður eða rétthafi áhættu- og söfnunarlíftrygginga sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Athugunin skal fara fram eigi síðar en við tilnefningu rétthafa eða útgreiðslu vátryggingarinnar í heild eða að hluta.
Sé vátryggður eða rétthafi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skulu tilkynningarskyldir aðilar til viðbótar við áreiðanleikakönnun samkvæmt þessum kafla:
a. upplýsa yfirstjórn áður en úthlutun eða útgreiðsla í heild eða að hluta fer fram,
b. hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
Breytist staða viðskiptamanns eftir að samningssambandi hefur verið komið á þannig að hann teljist einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna eiga 1. og 2. mgr. jafnframt við. Skal þá þegar afla samþykkis frá yfirstjórn, sbr. a-lið 2. mgr., áður en samningssambandi er haldið áfram.
Breytist staða viðskiptamanns eftir að samningssambandi hefur verið komið á þannig að hann teljist ekki lengur einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna skulu tilkynningarskyldir aðilar þrátt fyrir það láta viðkomandi sæta auknu eftirliti í samræmi við þetta ákvæði. Eftirlitið skal að lágmarki standa næstu 12 mánuði og þar til áhætta sem stafar af fyrri störfum telst ekki lengur til staðar.
IV. kafli.
Upplýsingar frá þriðja aðila.
18. gr.
Áreiðanleikakönnun þriðja aðila.
Tilkynningarskyldur aðili þarf ekki áður en viðskipti hefjast að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann skv. a–e-lið 1. mgr. 10. gr. ef samsvarandi upplýsingar um áreiðanleika hans koma fram fyrir tilstilli annars tilkynningarskylds aðila. Endanleg ábyrgð á könnun á áreiðanleika viðskiptamanns skv. III. kafla hvílir á þeim tilkynningarskylda aðila sem móttekur upplýsingar.
Heimild tilkynningarskylds aðila skv. 1. mgr. er háð því skilyrði að sá sem veitir upplýsingarnar:
a. framkvæmi áreiðanleikakönnun og varðveiti gögn í samræmi við kröfur þessara laga og
b. lúti sambærilegu eftirliti og lög þessi kveða á um.
Tilkynningarskyldur aðili skal staðreyna að þriðji aðili uppfylli kröfur þessarar málsgreinar.
Tilkynningarskyldur aðili, sem [byggir]
1) á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skal hafa hliðsjón af hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í því ríki þar sem viðkomandi aðili er staðsettur. Þrátt fyrir 1. mgr. er tilkynningarskyldum aðilum óheimilt að byggja á upplýsingum frá fyrirtækjum með staðfestu í áhættusömum og ósamvinnuþýðum ríkjum skv. 6. gr. og reglugerð um áhættusöm ríki, sbr. 56. gr.
Tilkynningarskyldur aðili, sem [byggir]
1) á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skal tryggja að hann fái án tafar afhentar þær upplýsingar sem kveðið er á um í a–e-lið 1. mgr. 10. gr.
Tilkynningarskyldur aðili sem tekur við upplýsingum skv. 1. mgr. skal gera skriflegan samning við þann aðila sem veitir upplýsingarnar þar sem staðfestir eru þættir skv. 2. mgr. og að veitandi upplýsinga muni án tafar, sé þess óskað, afhenda afrit af viðurkenndum persónuskilríkjum og eftir atvikum öðrum gögnum sem sanna hver viðskiptamaður og raunverulegur eigandi er.
Skyldur samkvæmt ákvæði þessu gilda ekki um útvistunaraðila eða umboðsmenn sem teljast vera hluti af tilkynningarskyldum aðila.
1)L. 62/2022, 10. gr.
19. gr.
Upplýsingar innan samstæðu.
[Seðlabanki Íslands],
1) sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, getur með samkomulagi við lögbær stjórnvöld innan aðildarríkja, þar sem útibú og dótturfélög samstæðunnar eru staðsett, heimilað tilkynningarskyldum aðila skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. að reiða sig á upplýsingar innan samstæðunnar, að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:
a. tilkynningarskyldur aðili reiði sig á upplýsingar frá öðrum tilkynningarskyldum aðila innan sömu samstæðu,
b. öll félög innan samstæðunnar framkvæmi áreiðanleikakönnun, varðveiti gögn og hafi stefnur, ferla og aðferðir til að verjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi í samræmi við kröfur þessara laga eða sambærilegar reglur,
c. eftirlit með innleiðingu þátta skv. b-lið fari fram á samstæðugrunni og sé annaðhvort í höndum Fjármálaeftirlitsins eða lögbærs stjórnvalds annars ríkis.
1)L. 91/2019, 69. gr.
V. kafli.
Móttaka tilkynninga og tilkynningarskylda.
20. gr.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu sér um greiningu á mótteknum tilkynningum, aflar nauðsynlegra viðbótarupplýsinga og miðlar greiningunni til lögbærra stjórnvalda. Greiningar sem skrifstofa fjármálagreininga lögreglu framkvæmir eru:
a. aðgerðagreining sem beinist að einstökum málum eða tilteknum viðfangsefnum eða viðeigandi völdum upplýsingum, allt eftir tegund og umfangi fyrirliggjandi upplýsinga og notkun þeirra að greiningu lokinni, og
b. stefnumiðuð greining sem ætlað er að greina þróun og mynstur við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Í tengslum við greiningu og athuganir mála samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra er einstaklingum, lögaðilum, opinberum aðilum, fjárvörslusjóðum og sambærilegum aðilum skylt að láta skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða greiningu eða athugun mála hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.
Einstaklingum og lögaðilum sem beiðni skv. 2. mgr. er beint að er óheimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðnina.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu getur gefið tilkynningarskyldum aðilum fyrirmæli um að framkvæma ekki eða stöðva viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka á meðan greining fer fram og upplýsingum er komið á framfæri við viðeigandi stjórnvöld skv. [40. gr.]
1)
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu getur gefið fyrirmæli skv. 4. mgr. í þeim tilgangi að aðstoða systurstofnanir sínar í aðildarríkjum og systurstofnanir utan aðildarríkja sem gerður hefur verið samstarfssamningur við skv. 9. mgr. 42. gr.
1)L. 96/2020, 6. gr.
21. gr.
Tilkynningar tilkynningarskyldra aðila.
Tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur skulu tímanlega:
a. tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, með þeim hætti sem hún ákveður, um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi,
b. bregðast við fyrirspurnum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um viðbótarupplýsingar sem tengjast tilkynningum og
c. veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu allar nauðsynlegar upplýsingar sem hún óskar eftir í tengslum við tilkynningar.
Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sem eiga sér stað í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer skv. 28. gr.
Ábyrgðarmaður sem tilnefndur er í samræmi við 34. gr. skal tryggja að tilkynningar skv. 1. mgr. séu sendar á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þess ríkis þar sem tilkynningarskyldur aðili er með staðfestu.
22. gr.
Skylda til að forðast viðskipti.
Forðast skal viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi, þar til tilkynning hefur verið send skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í samræmi við a-lið 1. mgr. 21. gr., leiðbeiningar hafa borist frá skrifstofunni og þeim hefur verið fylgt.
Í tilkynningu skal, ef við á, koma fram innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað rannsókn á hendur þeim sem hafa hagsmuni af viðskiptunum skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.
23. gr.
Tilkynningarskylda eftirlitsaðila og annarra aðila.
Verði Fjármálaeftirlitinu eða ríkisskattstjóra við framkvæmd starfa sinna kunnugt um viðskipti sem ætla má að tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða fái embættin upplýsingar um slík viðskipti skulu þau, þrátt fyrir lögbundna þagnarskyldu, án tafar tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þar um. Sömu skyldur hvíla á öllum öðrum opinberum aðilum. Tilkynning eftirlitsaðila samkvæmt þessu ákvæði breytir ekki skyldum eftirlitsaðila um tilkynningar til annarra aðila sem á þeim kunna að hvíla lögum samkvæmt.
Skyldur skv. 1. mgr. hvíla einnig á kauphöllum samkvæmt lögum um kauphallir.
Öllum öðrum aðilum er heimilt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
24. gr.
Miðlun upplýsinga í góðri trú.
Þegar tilkynningarskyldur aðili, starfsmaður hans eða stjórnandi veitir skrifstofu fjármálagreininga lögreglu upplýsingar í góðri trú samkvæmt lögum þessum telst það ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn lögum samkvæmt eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi einstaklingum, lögaðilum eða starfsmönnum þeirra.
25. gr.
Aðferðir og kerfi til að halda utan um tilkynningar.
Eftirlitsaðilar skulu hafa ferla til þess að taka við og fylgja eftir tilkynningum um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum, og reglugerðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim, og tilkynningum um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ferlar samkvæmt þessu ákvæði skulu:
a. vera aðskildir frá öðrum óskyldum ferlum hjá eftirlitsaðilanum,
b. tryggja að heimilt sé að senda nafnlausar tilkynningar,
c. tryggja að tilkynningar séu skráðar og ef upplýsingar sem fram koma í tilkynningu má rekja beint eða óbeint til þess sem tilkynnti skulu þær fara leynt, nema skylt sé að veita slíkar upplýsingar lögum samkvæmt til lögreglu eða á grundvelli dómsúrskurðar,
d. fjalla um vernd þeirra sem tilkynna um brot og réttindi þeirra sem sakaðir eru um brot,
e. tryggja að vinnsla og meðhöndlun persónuupplýsinga sé í samræmi við [löggjöf um]
1) persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa skjalfesta ferla, sbr. 1. mgr., til að stuðla að því að starfsmenn þeirra eða aðilar í sambærilegri stöðu tilkynni um brot á lögum þessum, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Einstaklingur sem tekur við tilkynningum samkvæmt þessari grein og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
1)L. 62/2022, 11. gr.
26. gr.
Vernd einstaklinga sem tilkynna um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
Einstaklingur skal njóta verndar tilkynni hann í góðri trú um grunsemdir um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka hvort sem er til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðila eða innan þess tilkynningarskylda aðila sem hann starfar hjá. Sama á við um tilkynningar um brot á lögum þessum.
Undir 1. mgr. fellur m.a. að viðkomandi njóti nafnleyndar auk þess sem vinnuveitanda er óheimilt að rýra réttindi hans, segja upp starfssamningi, slíta honum eða láta einstakling gjalda þess á annan hátt að hann hafi tilkynnt um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
Komi upp sú staða sem nefnd er í 2. mgr., eftir að einstaklingur tilkynnir grun skv. 1. mgr., skal vinnuveitandi sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að viðkomandi hafi tilkynnt um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
VI. kafli.
Bann við upplýsingagjöf.
27. gr.
Bann við upplýsingagjöf.
Tilkynningarskyldum aðilum, stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða þriðji aðili fái ekki vitneskju um að skrifstofu fjármálagreininga lögreglu muni verða eða hafi verið send tilkynning skv. 21. gr. eða að greining á grundvelli slíkrar tilkynningar sé hafin eða kunni að verða hrundið af stað.
Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir miðlun upplýsinga á grundvelli tilkynningar til aðila sem sinna eftirliti samkvæmt lögum þessum og í þágu lögregluaðgerða.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er miðlun heimil:
a. milli aðila sem nefndir eru í a–i-lið 1. mgr. 2. gr. og eru hluti af samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga,
b. milli aðila sem nefndir eru í a–i-lið 1. mgr. 2. gr. og útibúa þeirra og dótturfélaga utan Evrópska efnahagssvæðisins, að því tilskildu að útibúin og dótturfélögin uppfylli að fullu stefnu og ferla samstæðunnar í samræmi við 32. gr. og að stefnur og ferlar samstæðunnar uppfylli kröfur laga þessara,
c. [milli aðila sem nefndir eru í l- og m-lið 1. mgr. 2. gr., eða aðila frá þriðju ríkjum sem gera sambærilegar kröfur og gerðar eru í lögum þessum, og sinna starfi sínu hjá sama lögaðila eða tengdum lögaðila sem deilir eignarhaldi, stjórnun eða sama neti fyrirtækja],
1)
d. milli aðila sem nefndir eru í a–k-lið 1. mgr. 2. gr. að því tilskildu að öllum eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
1. [að báðir aðilar tilheyri sömu starfsgrein og séu frá aðildarríki eða þriðja ríki sem gerir sambærilegar kröfur og gerðar eru í lögum þessum],
1)
2. að málið varði einstakling eða lögaðila sem er viðskiptavinur hjá báðum aðilum,
3. að upplýsingarnar varði viðskipti sem snerta báða aðila,
4. að báðir aðilar hafi sambærilegar skyldur hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þagnarskyldu og vernd persónuupplýsinga og
5. að upplýsingarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að hindra peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Aðilar sem nefndir eru í l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. sem ráða viðskiptavinum sínum frá því að taka þátt í ólöglegu athæfi teljast ekki hafa brotið 1. mgr. um bann við upplýsingagjöf.
1)L. 62/2022, 12. gr.
VII. kafli.
Persónuvernd, varðveisla gagna og tölfræði.
28. gr.
Varðveisla gagna.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu varðveita eftirfarandi gögn og upplýsingar, þar á meðal upplýsingar sem hefur verið aflað með rafrænum hætti, að lágmarki í fimm ár frá því að samningssambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað:
a. afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakönnunar í samræmi við III. kafla,
b. aðferðir við áreiðanleikakönnun,
c. nauðsynleg fylgiskjöl og viðskiptayfirlit, hvort sem er frumrit eða afrit sem eru nauðsynleg til að sýna fram á færslur viðskiptamanna og hægt væri að nota við meðferð máls fyrir dómi.
Gögnum sem varðveitt eru í samræmi við 1. mgr. skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til varðveislu þeirra í samræmi við [löggjöf um]
1) persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu geta kveðið á um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk 1. mgr. ef tilefni er til, þó ekki lengur en í fimm ár til viðbótar.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu setja sér verklagsreglur þar sem kveðið er á um aðgang starfsmanna og aðgangstakmarkanir þeirra að gögnum og upplýsingum sem varðveitt eru á grundvelli þessara laga.
1)L. 62/2022, 11. gr.
29. gr.
Vinnsla persónuupplýsinga.
Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast [löggjöf um]
1) persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og eingöngu vera í þeim tilgangi að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Önnur vinnsla, notkun eða miðlun er óheimil á grundvelli þessara laga.
Tilkynningarskyldur aðili skal veita nýjum viðskiptamönnum upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum og um tilgang vinnslunnar áður en hann stofnar til samningssambands eða áður en einstök viðskipti eru framkvæmd. Að lágmarki skal upplýsa um skyldur tilkynningarskyldra aðila um vinnslu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum.
Þrátt fyrir [löggjöf um]
1) persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga á hinn skráði ekki rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar hafa verið skráðar af tilkynningarskyldum aðilum ef slík upplýsingagjöf:
a. kemur í veg fyrir að tilkynningarskyldur aðili, eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum eða skrifstofa fjármálagreininga lögreglu geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögunum eða
b. hindrar greiningar, rannsóknir eða aðrar aðgerðir samkvæmt lögum þessum eða veldur því að vörnum, rannsóknum eða greiningum á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er stefnt í hættu.
Vinnsla og varðveisla gagna og upplýsinga samkvæmt lögum þessum telst til almannahagsmuna.
1)L. 62/2022, 11. gr.
30. gr.
Kerfi til að halda utan um gögn og upplýsingar.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast skjótt við fyrirspurnum frá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu eða öðrum lögbærum stjórnvöldum hvort sem upplýsingarnar varða tiltekna aðila eða tiltekin viðskipti. Tryggja skal að miðlun trúnaðarupplýsinga sé framkvæmd með öruggum hætti.
31. gr.
Tölfræðiupplýsingar.
Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum, skrifstofa fjármálagreininga lögreglu og eftir atvikum önnur viðeigandi stjórnvöld skulu safna og halda utan um viðeigandi tölfræðiupplýsingar sem m.a. eru:
a. gögn um stærð og mikilvægi mismunandi atvinnugreina sem falla undir lög þessi, þar á meðal fjölda einstaklinga og lögaðila sem tilheyra hverri atvinnugrein og fjárhagslegt mikilvægi hverrar atvinnugreinar,
b. gögn um tilkynningar og rannsóknir tengdar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal árlegar tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eftirfylgni slíkra tilkynninga, fjölda rannsókna, fjölda saksókna, fjölda sakfellinga, tegundir frumbrota þar sem slíkar upplýsingar eru tiltækar og verðmæti eigna sem hafa verið frystar, haldlagðar eða gerðar upptækar,
c. gögn um fjölda og hlutfall af tilkynningum sem leiða til frekari rannsókna, ásamt árlegri skýrslu til tilkynningarskyldra aðila þar sem fram koma upplýsingar um gagnsemi tilkynninga þeirra og endurgjöf á þær,
d. gögn um fjölda upplýsingabeiðna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu frá erlendum systurstofnunum, hversu mörgum beiðnum var ekki unnt að verða við og í hve mörgum tilvikum orðið var við beiðni í heild eða að hluta, sundurliðað eftir ríkjum,
e. fjöldi stöðugilda hjá eftirlitsaðilum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sem starfa að aðgerðum samkvæmt lögum þessum,
f. fjöldi athugana eftirlitsaðila, þar á meðal vettvangsathugana, og fjöldi brota sem athuganir leiða í ljós og viðurlaga eða annarra ráðstafana eftirlitsaðila,
g. fjöldi upplýsingabeiðna frá erlendum systurstofnunum um raunverulega eigendur.
Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu birtar árlega í samandregnu formi.
VIII. kafli.
Innri starfshættir og þjálfun starfsmanna.
32. gr.
Innri starfshættir.
Tilkynningarskyldir aðilar sem eru hluti af samstæðu skulu á samstæðugrunni setja sér stefnu og ferla, þar á meðal um vernd persónuupplýsinga og upplýsingamiðlun innan samstæðunnar, varðandi málefni sem heyra undir lög þessi. Jafnframt skal innleiða stefnur og ferla hjá útibúum og dótturfélögum í ríkjum innan og utan aðildarríkja.
Tilkynningarskyldir aðilar skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. sem stunda starfsemi í öðru aðildarríki skulu fylgja ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem gilda í gistiríkinu ef þar eru gerðar að lágmarki sömu kröfur og í lögum þessum.
Tilkynningarskyldir aðilar skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. sem stunda starfsemi í gegnum útibú eða dótturfélag í ríki utan aðildarríkja þar sem vægari kröfur eru gerðar en samkvæmt lögum þessum skulu fylgja lögum þessum að því marki sem lög viðkomandi ríkis heimila.
Ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu þess efnis. Jafnframt skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili tryggja að hlutaðeigandi útibú eða dótturfélög bregðist við hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka með öðrum viðeigandi ráðstöfunum. Sé ekki unnt að tryggja viðeigandi ráðstafanir með öðrum leiðum skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu sem skal þá viðhafa aukið eftirlit sem getur m.a. falist í því að farið verði fram á að ekki sé stofnað til samningssambanda eða þeim slitið, færslur verði bannaðar og, ef nauðsyn krefur, að farið verði fram á að samstæðan láti af starfsemi í viðkomandi ríki.
Tilkynningarskyldum aðilum sem tilheyra sömu samstæðu er skylt að miðla sín á milli tilkynningum, sem sendar hafa verið skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, um grun um að fjármuni megi rekja til refsiverðrar háttsemi, nema skrifstofa fjármálagreininga lögreglu fari fram á að það sé ekki gert. Þeim er einnig heimilt að miðla sín á milli öðrum upplýsingum sem falla undir lög þessi.
Fjármálaeftirlitið skal tilkynna evrópsku eftirlitsstofnununum ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja þar sem útibú eða dótturfélag tilkynningarskylds aðila er staðsett heimilar ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. Við mat á því hvort ríki utan aðildarríkja uppfyllir kröfur ákvæðisins skal horft til þess hvort löggjöf viðkomandi ríkis hindrar:
a. innleiðingu á stefnum og ferlum, þar á meðal um þagnarskyldu og verndun persónuupplýsinga, og
b. upplýsingaskipti.
[Rafeyrisfyrirtæki og greiðsluþjónustuveitendur sem veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús og hafa höfuðstöðvar sínar í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu tilnefna miðlægan tengilið hér á landi til að tryggja að þau fari að lögum þessum og til að auðvelda eftirlit með þeim, þ.m.t. gagnaöflun eftirlitsaðila.]
1)
1)L. 96/2020, 7. gr.
33. gr.
Þjálfun starfsmanna.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn þeirra, þar á meðal [starfsmenn útibúa og dótturfélaga],
1) hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og öðlist viðeigandi þekkingu á ákvæðum þessara laga og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Þjálfunin skal taka mið af áhættu, eðli og stærð tilkynningarskylds aðila. Þjálfunin skal fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum til að tryggja að starfsmenn þekki skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum þessum, þar á meðal um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna og tilkynningarskyldu, ásamt því sem þeir fái upplýsingar um þróun innan málaflokksins og nýjustu aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu setja sérstakar reglur um hvaða athuganir skuli gerðar á umsækjendum um stöður hjá þeim, með hliðsjón af markmiðum laga þessara, og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf.
1)L. 62/2022, 13. gr.
34. gr.
Ábyrgðarmenn.
Tilkynningarskyldir aðilar bera ábyrgð á því að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim sé framfylgt. Þeim er skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við 21. gr. og hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem geta skipt máli vegna tilkynninga.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og viðeigandi eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns skv. 1. mgr.
Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að innleiddar séu stefnur, [stýringar]
1) og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laga þessara í starfsemi tilkynningarskyldra aðila.
1)L. 62/2022, 14. gr.
IX. kafli.
Skráningarskylda.
35. gr.
[Skráningarskylda aðila sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og þjónustuveitenda sýndareigna.]1)
[Eftirtaldir einstaklingar eða lögaðilar eru skráningarskyldir hjá Seðlabanka Íslands:
a. aðilar sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu, og
b. þjónustuveitendur sýndareigna.
Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr.
Stundi skráningarskyldur aðili skv. 1. mgr. starfsemi hér á landi skal hún stunduð frá fastri starfsstöð.
Skráningarskyldur aðili skv. 1. mgr. skal veita upplýsingar um framkvæmdastjóra, stjórnarmenn, stofnendur, hluthafa og raunverulega eigendur ásamt ítarlegri lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og upplýsingum um starfsstöð. Auk þess skal skráningarskyldur aðili veita upplýsingar um fyrirhugaðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka samkvæmt lögum þessum, sérstaklega varðandi áhættumat, könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, stefnu, stýringar og verkferla, þjálfun starfsmanna, ábyrgðarmann og rannsóknar- og tilkynningarskyldu. Seðlabanki Íslands getur óskað frekari upplýsinga í tengslum við skráningu sé það talið nauðsynlegt.]
1)
Um þagnarskyldu aðila skv. 1. mgr., stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu þeirra fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
[Seðlabanki Íslands]
2) setur nánari reglur
3) um framkvæmd og skilyrði skráningar og framkvæmd viðskipta.
1)L. 62/2022, 15. gr. 2)L. 91/2019, 70. gr. 3)
Rgl. 151/2023.
36. gr.
Skráningarskylda ýmissa aðila.
Eftirfarandi einstaklingar og lögaðilar eru skráningarskyldir hjá ríkisskattstjóra:
a. aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. [r-lið]
1) 1. mgr. 2. gr.,
b. aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila, sbr. l-lið 1. mgr. 2. gr.,
c. skattaráðgjafar, sbr. l-lið 1. mgr. 2. gr.,
d. aðilar sem selja eðalmálma og eðalsteina,
e. listmunasalar og listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, sbr. p-lið 1. mgr. 2. gr.
Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr., og endurskoðunarfyrirtæki og lögmannsstofur, sbr. l- og m-lið 1. mgr. 2. gr.
Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar.
1)L. 96/2020, 8. gr.
37. gr.
Skilyrði skráningar.
[Neita skal um skráningu skv. 1. mgr. 35. gr. ef:
a. skráningarskyldur aðili, raunverulegir eigendur, stjórn eða framkvæmdastjóri eru ekki lögráða, hafa ekki gott orðspor eða hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota,
b. skráningarskyldur aðili, raunverulegir eigendur, stjórn eða framkvæmdastjóri, hafa á síðustu tíu árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum þessum, almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um gjaldeyrismál eða sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi,
c. stjórn eða framkvæmdastjóri eru ekki fjárhagslega sjálfstæð eða hafa ekki yfir að ráða þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi,
d. skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur þessara laga.
Skráningarskyldur aðili, raunverulegir eigendur, stjórn og framkvæmdastjóri skv. 1. mgr. 35. gr. skulu á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði samkvæmt þessari grein. Seðlabanki Íslands getur á hverjum tíma tekið hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skv. 1. mgr. þessarar greinar til sérstakrar skoðunar. Seðlabanki Íslands setur nánari reglur
1) um hæfisskilyrði samkvæmt þessari grein, þar á meðal um hvað felist í fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi, góðu orðspori og fjárhagslegu sjálfstæði, og hvernig staðið skuli að hæfismati.]
2)
Neita skal um skráningu skv. 36. gr. ef skráningarskyldir aðilar, stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa ekki forræði á búi sínu eða hafa á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða, eftir því sem við á, þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi aðila. Þá skal neita um skráningu ef skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur þessara laga.
Fella skal skráðan aðila af skrá skv. 35. og 36. gr. ef um skráningarskylda aðila eða stjórnendur eða raunverulega eigendur starfseminnar háttar svo sem um getur í 1. eða 2. mgr.
1)
Rgl. 152/2023. 2)L. 62/2022, 16. gr.
[IX. kafli A.
Skrá um bankareikninga.]1)
1)L. 96/2020, 9. gr.
[37. gr. a.
Skrá um bankareikninga.
Viðskiptabönkum, sparisjóðum, lánafyrirtækjum og greiðsluþjónustuveitendum með starfsleyfi hér á landi er skylt að veita upplýsingar eða aðgang að upplýsingum skv. 2. mgr. og í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur skv. 5. mgr. Án tafar skal veita upplýsingar eða aðgang að upplýsingum um allar breytingar á áður veittum upplýsingum samkvæmt þessari grein. Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæðum þessarar greinar.
Halda skal skrá um bankareikninga þar sem eftirtaldar upplýsingar skulu vera aðgengilegar:
1. Nafn og kennitala eiganda sérhvers innláns- og greiðslureiknings.
2. Nafn og kennitala umboðsmanns eiganda sérhvers reiknings og aðila sem hefur heimild til að framkvæma færslur af reikningi, ef við á.
3. Nafn og kennitala raunverulegs eiganda þess sem er eigandi reiknings, ef við á.
4. Reikningsnúmer sérhvers reiknings auk alþjóðlegs bankareikningsnúmers (IBAN-númers).
5. Dagsetning á opnun og lokun reiknings.
6. Nafn og kennitala leigutaka geymsluhólfa og leigutími.
Starfsmenn skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skulu hafa aðgang að skrá um bankareikninga í þeim tilgangi að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum. Starfsmenn eftirlitsaðila samkvæmt lögum þessum skulu einnig hafa aðgang að upplýsingum í skránni um bankareikninga í þeim tilgangi að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögunum.
Upplýsingar skulu varðveittar í skrá um bankareikninga í samræmi við ákvæði 28. gr. Um miðlun upplýsinga úr skrá samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum XI. kafla. Heimilt er að tengja skrá um bankareikninga við samtengda skrá innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Ráðherra skal í reglugerð kveða á um starfrækslu skrár um bankareikninga sem inniheldur upplýsingar um eigendur innlánsreikninga og greiðslureikninga og leigutaka geymsluhólfa. Í reglugerðinni skal kveðið á um hvort skráin byggist á gagnagrunni eða kerfi sem sækir gögn við sérhverja leit. Þá skal í reglugerðinni kveðið á um hvaða stjórnvald skuli starfrækja skrána og hvernig eftirliti með notkun hennar skuli háttað.]
1)
1)L. 96/2020, 9. gr.
X. kafli.
Eftirlit.
38. gr.
Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í a–k-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem gilda um starfsemi eftirlitsskyldra aðila.
Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir [l–u-lið]
1) 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim, auk þess að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins. [Ríkisskattstjóri hefur jafnframt eftirlit með
almannaheillafélögum samkvæmt lögum um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, hvað varðar peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.]
1)
Í tengslum við eftirlit og athuganir mála samkvæmt lögum þessum er einstaklingum, lögaðilum, opinberum aðilum, fjárvörslusjóðum og sambærilegum aðilum skylt að láta eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum án tafar í té allar upplýsingar og gögn sem þeir telja nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varði þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna geta eftirlitsaðilar gert vettvangskannanir hjá tilkynningarskyldum aðilum og óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem þeir telja þörf á.
Einstaklingum og lögaðilum sem beiðni skv. 3. mgr. er beint að er óheimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðnina.
Eftirlitsaðilar og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skulu veita lögbærum stjórnvöldum heimaríkja alla nauðsynlega aðstoð við eftirlit með erlendum tilkynningarskyldum aðilum sem starfa hér á landi en eru með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Eftirlitsaðilum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er heimilt að gera samning um samvinnu og miðlun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði við systurstofnanir utan aðildarríkja að því tilskildu að þær uppfylli kröfur um þagnarskyldu og önnur ákvæði þessara laga.
Eftirlitsaðilar skulu með reglubundnum hætti yfirfara áhættumat tilkynningarskyldra aðila skv. 5. gr. og hvort þeir fylgi áhættumatinu. Jafnframt skulu eftirlitsaðilar yfirfara áhættumat þegar mikilvægar breytingar verða á stjórnun eða starfsemi tilkynningarskyldra aðila.
Við mat á áhættumati og innleiðingu stefnu, ferla og reglna hjá tilkynningarskyldum aðilum skulu eftirlitsaðilar taka tillit til þess svigrúms sem tilkynningarskyldir aðilar hafa skv. 5. gr.
1)L. 96/2020, 10. gr.
XI. kafli.
Samhæfing og samvinna.
39. gr.
Samhæfing.
Ráðherra skipar stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir tilnefningu hagsmunaaðila. Aðild að stýrihópnum eiga eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og önnur stjórnvöld sem koma að framkvæmd málaflokksins. Stýrihópurinn skal vinna að samhæfingu aðgerða vegna varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Þrátt fyrir þagnarskyldu aðila sem eiga sæti í stýrihópi er þeim heimilt að deila upplýsingum og gögnum sín á milli til þess að vinna að markmiðum 1. mgr.
40. gr.
Samvinna innan lands.
Þrátt fyrir þagnarskyldu er aðilum sem sinna eftirliti samkvæmt lögum þessum og öðrum lögbærum stjórnvöldum, þ.m.t. skattyfirvöldum og lögreglu, sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skylt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni, að deila upplýsingum og gögnum sín á milli sem falla undir lög þessi varði málefnið upplýsingar eða gögn sem kunna að heyra undir valdsvið þess sem upplýsingum er deilt með. Stjórnvöld skulu með sama hætti veita gagnkvæma aðstoð í málum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Miðlun upplýsinga og gagna skv. 1. mgr. skal framkvæmd á öruggan hátt og fara fram eins fljótt og unnt er.
Móttakanda gagna og upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði er eingöngu heimilt að nota veitt gögn og upplýsingar við framkvæmd starfa sinna í samræmi við markmið þessara laga. Afhending móttekinna gagna og upplýsinga til þriðja aðila er óheimil án afdráttarlauss samþykkis frá því stjórnvaldi sem veitti upplýsingarnar.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er ekki skylt að veita upplýsingar samkvæmt þessu ákvæði ef líkur eru á því að slík upplýsingagjöf hafi neikvæð áhrif á yfirstandandi rannsóknir eða greiningar. Sama á við um sérstakar aðstæður þar sem upplýsingagjöf gæti valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við nauðsyn upplýsinganna eða upplýsingarnar samræmast ekki tilgangi beiðninnar.
Lögbær stjórnvöld skulu veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu endurgjöf vegna upplýsinga sem hún hefur miðlað í samræmi við þetta ákvæði. Veita skal upplýsingar um notkun upplýsinganna og niðurstöðu athugunar eða rannsóknar sem fór fram á grundvelli upplýsinganna.
Stjórnvöld sem um ræðir í 1. mgr. skulu setja sér sameiginlegar reglur um með hvaða hætti upplýsingum og gögnum samkvæmt þessu ákvæði er miðlað.
41. gr.
Samvinna við erlendar systurstofnanir.
Þrátt fyrir þagnarskyldu skulu aðilar sem sinna eftirliti samkvæmt lögum þessum og önnur lögbær stjórnvöld, t.d. skattyfirvöld, sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, veita systurstofnunum sínum í aðildarríkjum umbeðna aðstoð nema aðstæður séu þær sem um getur í 3. mgr. 42. gr. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun. Með sömu skilyrðum er eftirlitsaðilum og lögbærum stjórnvöldum heimilt að eigin frumkvæði að miðla upplýsingum til systurstofnana í öðrum aðildarríkjum varði upplýsingarnar viðkomandi aðildarríki.
Stjórnvöldum skv. 1. mgr. er óheimilt að hafna beiðni um aðstoð, gögn eða upplýsingar á grundvelli þess að:
a. beiðnin tengist jafnframt skattamálum,
b. þagnarskylda komi í veg fyrir aðstoð, nema um sé að ræða störf tilkynningarskyldra aðila skv. l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli,
c. beiðnin tengist máli sem er í athugun, rannsókn eða málaferli í gangi, nema aðstoð muni hafa neikvæð áhrif á meðferð málsins,
d. staða stjórnvalds sem beiðni er beint til er önnur en þess stjórnvalds sem óskar aðstoðar, gagna eða upplýsinga.
Aðilar skv. 1. mgr. skulu nota allar þær heimildir sem þeir hafa samkvæmt lögum til að aðstoða við framkomna beiðni skv. 1. mgr., m.a. með því að afla upplýsinga frá tilkynningarskyldum aðilum ef við á.
Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skulu veita systurstofnunum sínum í aðildarríkjum upplýsingar úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, endurgjaldslaust og eins fljótt og verða má, komi fram beiðni þess efnis.
Um miðlun upplýsinga, notkun veittra upplýsinga, endurgjöf, samninga við lönd utan aðildarríkja og áframsendingu upplýsinga fer skv. 42. gr., eftir því sem við á.
42. gr.
Samvinna og miðlun upplýsinga skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Þrátt fyrir þagnarskyldu skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, að eigin frumkvæði eða samkvæmt framkominni beiðni frá systurstofnun í aðildarríki, vinna með og miðla eins fljótt og unnt er viðeigandi upplýsingum um meðferð eða greiningu mála sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka auk upplýsinga um einstaklinga eða lögaðila sem þeim tengjast. Upplýsingum skal miðlað án tillits til tegundar frumbrots og hvort upplýsingar um það liggi fyrir. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun.
Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skal nota allar þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lögum til að aðstoða við framkomna beiðni skv. 1. mgr., m.a. með því að afla upplýsinga frá tilkynningarskyldum aðilum ef við á.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er óheimilt að hafna beiðni um upplýsingar nema afhending þeirra:
a. gæti ógnað öryggi ríkisins, almannaöryggi eða öðrum sambærilegum hagsmunum eða
b. brjóti í bága við íslensk lög eða alþjóðalög.
Hafi skrifstofa fjármálagreininga lögreglu veitt systurstofnun gögn eða upplýsingar og viðkomandi stofnun óskar eftir heimild til að áframsenda þær til lögbærra stjórnvalda í sínu ríki skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu svara beiðninni eins fljótt og auðið er. Verða skal við slíkri beiðni án tillits til tegundar frumbrots nema:
a. beiðnin falli ekki undir gildissvið þessara laga,
b. áframsending upplýsinganna mundi hafa neikvæð áhrif á rannsókn sakamáls,
c. veiting upplýsinganna fari í bága við grundvallarákvæði íslenskra laga.
Sé áframsendingu hafnað skulu fylgja henni viðeigandi útskýringar.
Varði tilkynning skv. a-lið 1. mgr. 21. gr. annað aðildarríki skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tafarlaust áframsenda tilkynninguna til systurstofnunar viðkomandi ríkis.
Óski skrifstofa fjármálagreininga lögreglu eftir aðstoð frá systurstofnun í öðru aðildarríki skal í beiðni tilgreina staðreyndir og forsögu máls, ástæðu fyrir beiðni og með hvaða hætti umbeðnar upplýsingar verði notaðar. Beiðni um upplýsingar frá tilkynningarskyldum aðilum annarra ríkja skal beint til systurstofnana viðkomandi ríkis. Sé þess óskað skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eins fljótt og unnt er, veita endurgjöf um þær upplýsingar sem hún hefur móttekið samkvæmt þessu ákvæði.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er eingöngu heimilt að nota veittar upplýsingar við framkvæmd starfa sinna í samræmi við markmið þessara laga og í samræmi við beiðni skv. 6. mgr. Veitanda upplýsinga er heimilt að setja frekari hömlur við notkun veittra upplýsinga telji hann það nauðsynlegt og ber móttakanda að virða allar settar takmarkanir.
Afhending upplýsinga og notkun sem ekki samræmist beiðni skv. 6. mgr. er óheimil án afdráttarlauss samþykkis frá því stjórnvaldi sem veitti upplýsingarnar.
Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er heimilt að gera samning um samvinnu og miðlun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði við systurstofnanir utan aðildarríkja að því tilskildu að þær uppfylli kröfur um þagnarskyldu og önnur ákvæði þessara laga.
Mismunandi skilgreiningar aðildarríkja á refsiverðri háttsemi skv. 14. tölul. 3. gr. koma ekki í veg fyrir miðlun og notkun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði.
Miðlun skrifstofu fjármálagreininga lögreglu á trúnaðarupplýsingum skal framkvæmd á öruggan hátt.
43. gr.
Upplýsingar til evrópskra eftirlitsstofnana.
Eftirlitsaðilum og öðrum lögbærum stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum er heimilt að veita hinum evrópsku eftirlitsstofnunum samkvæmt lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, og Seðlabanka Evrópu (ECB), allar upplýsingar sem stofnununum eru nauðsynlegar til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
Stjórnvöldum er skylt að láta Eftirlitsstofnun EFTA, EFTA-dómstólnum eða eftir atvikum öðrum stofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins í té allar þær upplýsingar og gögn sem stofnunum þessum eru nauðsynleg til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
XII. kafli.
Þvingunarúrræði og viðurlög.
44. gr.
Úrbætur.
Komi í ljós að tilkynningarskyldur aðili fylgi ekki lögum þessum eða reglugerðum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra skulu eftirlitsaðilar skv. 38. gr. krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
[44. gr. a.
Um ákvörðun viðurlaga.
Við ákvörðun um tegund og umfang viðurlaga samkvæmt þessum kafla skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þar á meðal eftirfarandi atriða eftir því sem við á:
a. alvarleika brots,
b. hvað brotið hefur staðið lengi,
c. ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
d. fjárhagsstöðu hins brotlega,
e. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
f. hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
g. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
h. samstarfsvilja hins brotlega,
i. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.]
1)
1)L. 62/2022, 17. gr.
45. gr.
Dagsektir.
Eftirlitsaðilar skv. 38. gr. geta lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila og aðila skv. 3. mgr. 38. gr. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan frests skv. 44. gr. Dagsektir leggjast á þangað til farið hefur verið að kröfum eftirlitsaðila. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Dagsektir skulu ákveðnar af [Fjármálaeftirlitinu]
1) eða ríkisskattstjóra eftir því sem við á.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum eftirlitsaðila nema [Fjármálaeftirlitið]
1) eða ríkisskattstjóri, eftir því sem við á, samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra.
Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
1)L. 91/2019, 71. gr.
46. gr.
Stjórnvaldssektir.
Eftirlitsaðilar geta lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra:
1. 5. gr. um áhættumat tilkynningarskyldra aðila,
2. 7. gr. um nafnlaus viðskipti og þátttöku í viðskiptum til að dylja raunverulegt eignarhald,
3. 8. gr. um tilvik þar sem áreiðanleikakönnun skal framkvæmd,
4. 10. gr. um könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn,
5. 11. gr. um tímabundna frestun á framkvæmd áreiðanleikakönnunar,
6. 12. gr. um einfaldaða áreiðanleikakönnun,
7. 13. gr. um aukna áreiðanleikakönnun,
8. 14. gr. um aukna áreiðanleikakönnun viðskiptamanna í áhættusömum ríkjum,
9. 15. gr. um viðskipti tilkynningarskyldra aðila,
10. 16. gr. um viðskipti tilkynningarskyldra aðila við skelbanka,
11. 17. gr. um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla,
12. 18. gr. um áreiðanleikakönnun þriðja aðila,
13. 21. gr. um tilkynningar tilkynningarskyldra aðila,
14. 22. gr. um skyldu til að forðast viðskipti,
15. 1. mgr. 27. gr. um bann við upplýsingagjöf,
16. 28. gr. um varðveislu gagna,
17. 30. gr. um kerfi til að halda utan um gögn og upplýsingar,
18. 32. gr. um innri starfshætti,
19. 33. gr. um þjálfun starfsmanna,
20. 3. mgr. 34. gr. um skyldu ábyrgðarmanns til að sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna,
21. 35. gr. ef starfsemi er stunduð án skráningar,
22. 36. gr. ef starfsemi er stunduð án skráningar,
23. 3. mgr. 38. gr. með því að veita eftirlitsaðilum rangar eða villandi upplýsingar,
24. 4. mgr. 38. gr. með því að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðni skv. 3. mgr. 38. gr.,
25. i-lið 56. gr. um hvaða upplýsingar skulu fylgja millifærslum og ákvæðum reglugerðar með stoð í ákvæðinu um að láta viðeigandi upplýsingar um greiðanda og viðtakanda greiðslu fylgja með millifærslu, varðveislu gagna og að koma á skilvirku og áhættumiðuðu verklagi.
…
1)
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. a–h-lið 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 5 millj. kr. til 800 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila geta numið frá 500 þús. kr. til 625 millj. kr.
Þrátt fyrir 3. mgr. geta stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. a–h-lið 1. mgr. 2. gr. verið allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. [i–u-lið]
2) 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 500 þús. kr. til 500 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila geta numið frá 100 þús. kr. til 125 millj. kr.
Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir [3., 4. og 5. mgr.],
1) orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur.
Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af [Fjármálaeftirlitinu]
3) eða ríkisskattstjóra, eftir því sem við á, og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun álagningar þeirra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann ef brotið var í þágu hans.
Eftirlitsaðilar skulu, eftir því sem við á, vinna saman og samræma aðgerðir við beitingu viðurlaga.
1)L. 62/2022, 18. gr. 2)L. 96/2020, 11. gr. 3)L. 91/2019, 72. gr.
47. gr.
Sátt.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglugerðir eða reglur sem settar eru á grundvelli þeirra eða ákvarðanir eftirlitsaðila sem á þeim byggjast er eftirlitsaðilum heimilt að ljúka málinu með sátt, með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands og ríkisskattstjóri]
1) setja nánari reglur
2) um framkvæmd ákvæðisins.
1)L. 91/2019, 73. gr. 2)
Rgl. 326/2019. Rg. 1132/2020.
48. gr.
Réttur til að fella ekki á sig sök.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta [eða öðrum viðurlögum samkvæmt lögum þessum]
1) hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Eftirlitsaðilar skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
1)L. 62/2022, 19. gr.
49. gr.
[Frestur til að beita viðurlögum.]1)
Heimild eftirlitsaðila til að leggja á stjórnvaldssektir [eða beita öðrum viðurlögum]
1) samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
1)L. 62/2022, 20. gr.
50. gr.
Brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra.
Eftirlitsaðilar geta vikið stjórn tilkynningarskylds aðila skv. 1. mgr. 2. gr. frá í heild eða að hluta, sem og framkvæmdastjóra, hafi verið brotið með alvarlegum, ítrekuðum eða kerfisbundnum hætti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Viðkomandi er óheimilt að taka sæti í stjórn eða framkvæmdastjórn tilkynningarskylds aðila, sem fellur undir gildissvið laga þessara, næstu fimm ár eftir brottvikningu.
Eftirlitsaðilar skulu tilkynna fyrirtækjaskrá um brottvikningu skv. 1. mgr. eigi síðar en sjö dögum eftir að hún var tilkynnt viðkomandi.
51. gr.
Afturköllun starfsleyfis o.fl.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afturkalla starfsleyfi eða skráningu tilkynningarskylds aðila skv. a–g- og i–k-lið 1. mgr. 2. gr. í heild eða að hluta brjóti hann vísvitandi, alvarlega, ítrekað eða kerfisbundið gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra.
Gerist lífeyrissjóður skv. h-lið 1. mgr. 2. gr. brotlegur með þeim hætti sem um getur í 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið tilkynna það þeim ráðherra sem fer með málefni lífeyrissjóða sem getur, ef við á, skipað lífeyrissjóði umsjónarmann í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
52. gr.
Málshöfðunarfrestur.
Nú vill aðili ekki una ákvörðun eftirlitsaðila samkvæmt lögum þessum og getur hann þá höfðað mál til ógildingar henni fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó afturköllun starfsleyfis eða skráningar skv. 51. gr.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðun skv. 45. gr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðun skv. 45. gr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðra stjórnvalds eða úrskurðarnefndar.
53. gr.
Opinber birting viðurlaga.
Eftirlitsaðilar skulu birta á vefsíðu sinni öll stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. Ákvarðanir skulu birtar eins fljótt og unnt er eftir að brotlegum aðila hefur verið tilkynnt ákvörðunin. Í tilkynningunni skal að lágmarki upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu. Ekki er skylt að birta upplýsingar um viðurlög ef brotið sætir enn rannsókn.
Ef birting skv. 1. mgr. veldur hlutaðeigandi aðila tjóni sem er ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir eða birtingin verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins eða rannsóknarhagsmunum í hættu skal viðkomandi eftirlitsaðili:
a. fresta birtingu þar til slíkar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi,
b. birta upplýsingar um beitingu viðurlaga en fresta nafngreiningu þar til slíkar aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi,
c. ekki birta neinar upplýsingar ef birting skv. a- eða b-lið stefnir hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu eða ef réttmæti fyrir birtingu ákvörðunarinnar, samanborið við þá hagsmuni sem um ræðir, er minni háttar.
Eftirlitsaðilar skulu birta með sama hætti og greinir í 1. mgr. ef mál hefur verið höfðað til ógildingar á ákvörðun um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og niðurstöður málsins.
Upplýsingar sem birtar eru samkvæmt þessu ákvæði skulu vera aðgengilegar á vefsíðu eftirlitsaðila að lágmarki í fimm ár. Persónuupplýsingar skulu þó ekki vera aðgengilegar lengur en málefnalegar ástæður krefjast samkvæmt [löggjöf um]
1) persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Eftirlitsaðilar skulu birta
2) opinberlega þá stefnu sem þeir fylgja við framkvæmd birtingar samkvæmt þessu ákvæði.
1)L. 62/2022, 11. gr. 2)
Rgl. 1131/2020.
54. gr.
Upplýsingar um viðurlög til evrópsku eftirlitsstofnananna.
Fjármálaeftirlitið skal tilkynna evrópsku eftirlitsstofnununum um öll viðurlög sem það leggur á samkvæmt þessum lögum, þar á meðal hvort mál hafi verið höfðuð til ógildingar á viðurlagaákvörðunum og niðurstöðu þeirra mála.
XIII. kafli.
Ýmis ákvæði.
55. gr.
Þagnarskylda.
Aðilar sem taka á móti upplýsingum skv. 39.–43. gr. eða tilkynningum samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu. Þeim er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi aðilum frá upplýsingum sem miðlað er til þeirra á grundvelli þessara laga og leynt eiga að fara, nema dómari úrskurði að upplýsingarnar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingarnar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.
Þrátt fyrir þagnarskyldu skv. 1. mgr. er þeim sem eiga sæti í stýrihópi skv. 39. gr. heimilt að miðla innan eigin stjórnvalds upplýsingum sem heyra undir valdsvið viðkomandi stjórnvalds.
56. gr.
Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð
1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal:
a. um framkvæmd áhættumats skv. II. kafla,
b. um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki, þar á meðal um tilkynningar í millifærslum, bann við að stofna til samningssambands og bann eða takmörkun á upplýsingagjöf til einstaklinga og lögaðila með tengsl við áhættusöm eða ósamvinnuþýð ríki skv. II. kafla,
c. um framkvæmd áreiðanleikakönnunar, aukinnar áreiðanleikakönnunar og einfaldaðrar áreiðanleikakönnunar skv. III. kafla; í reglugerðinni skal m.a. fjallað um hvaða þætti áreiðanleikakönnunar skuli uppfylla þegar tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun og hvaða viðbótarkröfur skuli gera við aukna áreiðanleikakönnun,
d. um aðila í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, þ.m.t. talið hvaða störf teljist til háttsettra opinberra starfa skv. III. kafla,
e. um framkvæmd tilkynningarskyldu og aðrar skyldur aðila skv. V. kafla,
f. um viðeigandi ráðstafanir og lágmarkskröfur skv. 4. mgr. 32. gr.,
g. um hlutverk ábyrgðarmanna skv. VIII. kafla,
h. [um álagningu dagsekta, stjórnvaldssekta og annarra viðurlaga skv. XII. kafla],
2)
i. um hvaða upplýsingar skulu fylgja millifærslum,
[j. um kröfur til rafeyrisfyrirtækja og greiðsluþjónustuveitenda um að tilnefna miðlægan tengilið skv. 7. mgr. 32. gr.]
3)
1)Rg. 70/2019. Rg. 545/2019. Rg. 745/2019. Rg. 105/2020, sbr. 956/2020, 512/2021, 725/2022, 557/2023, 795/2023, 1261/2023 og 448/2024. Rg. 1196/2020. Rg. 1420/2020, sbr. 88/2023. 2)L. 62/2022, 21. gr. 3)L. 96/2020, 12. gr.
57. gr.
Innleiðing á tilskipun.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB.
[Lög þessi eru jafnframt sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverka og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB, framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1108 frá 7. maí 2018 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar kröfur um tilnefningu miðlægs tengiliðar fyrir rafeyrisfyrirtæki og greiðsluþjónustuveitendur og framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/758 frá 31. janúar 2019, um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar lágmarksráðstafanir og aukið eftirlit sem lána- og fjármálastofnanir viðhafa til að takmarka hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í ákveðnum þriðju ríkjum.]
1)
1)L. 96/2020, 13. gr.
58. gr.
Gildistaka.
Lög þessi taka gildi 1. janúar 2019.
…
Þrátt fyrir 1. mgr. kemur ákvæði 3. mgr. 9. gr. til framkvæmda 1. janúar 2020.
59. gr.
Breytingar á öðrum lögum. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Fyrsta áhættumat skv. 4. gr. skal gefið út eigi síðar en 1. apríl 2019.
II.
Áhættumat tilkynningarskyldra aðila skv. 5. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júní 2019.
III.
Tilkynningarskyldir aðilar skulu eigi síðar en 1. janúar 2020 hafa aflað upplýsinga um raunverulegan eiganda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 7. gr., vegna viðskiptamanna sem í ljós kemur að hafa verið í nafnlausum viðskiptum við gildistöku laga þessara.
IV.
Aðilum skv. 36. gr. ber að skrá sig hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en sex mánuðum eftir gildistöku laga þessara.
V.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 38. gr. skulu fulltrúar Neytendastofu, endurskoðendaráðs og eftirlitsnefndar fasteignasala eiga sæti í stýrihópi um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og aðstoða ríkisskattstjóra við úttektir frá gildistöku laga þessara og fram til 1. júní 2019.