Ingibjörg H. Bjarnason

Ingibjörg H. Bjarnason tók fyrst kvenna sæti á Alþingi 15. febrúar 1923 en hún var landskjörinn alþingismaður í kosningum 8. júlí 1922.  Hún sat á þingi frá 1923 til 1930.

Í ávarpi sínu til kjósenda sagði hún um hlutverk sitt á Alþingi:

 „ ... mun ég álíta mig komna þangað til þess að gæta hagsmuna þjóðar minnar, svo sem ég best veit – til að fylgja því sem flestum má að gagni koma á sameiginlegu þjóðarheimili karla og kvenna. En auðvitað býst ég við að þau mál gætu komið fyrir, að ég sérstaklega yrði að gæta hagsmuna kvenna.“

Ingibjörg H. Bjarnason í þingsal

Um veru sína á Alþingi skrifaði Ingibjörg stuttu eftir að þingsetu hennar lauk:

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því, að þær eru konur.“ 

Þingmál Ingibjargar 1923–1930

Bygging Landspítalans

Ingibjörg lagði mikla áherslu á byggingu Landspítalans og hennar fyrsta verk þegar hún settist á Alþingi var að leggja fram tillögu til þingsályktunar um að bygging spítalans yrði sett í algjöran forgang. Á næsta þingi flutti hún aðra tillögu til þingsályktunar með nánari tillögum um tilhögun byggingar Landspítala.

 Báðar tillögurnar hlutu samþykki þingsins.

Árið 1925 var gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn þá fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Þetta var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930.

Málefni kvenna, velferðar- og réttindamál

Þegar kom að velferðarmálum og réttindamálum kvenna naut Ingibjörg óskoraðs stuðnings kvennahreyfingarinnar enda bar hún erindi hennar og tillögur inn á þing. Hún flutti meðal annars tillögu til þingsályktunar um undirbúning breytinga á fátæktarlöggjöfinni þess efnis að útilokað yrði að mæður yrðu að láta börn frá sér fara vegna fátækraflutnings, sú tillaga var samþykkt.

Styrkir til gamalmenna og sjúklinga og bætt staða óskilgetinna barna

Ingibjörg lagði einnig fram tillögur um styrki til gamalmenna og sjúklinga og mál um bætta stöðu óskilgetinna barna.

Menntun kvenna

Menntun kvenna varð Ingibjörgu erfitt mál. Það snerist um það hvort leggja skyldi höfuðáherslu á að mennta konur sem húsmæður og beina þeim inn á heimilin eða hvort þeim ættu að vera allar leiðir opnar til þátttöku og starfa úti á vinnumarkaðnum. Ingibjörg lýsti skoðun sinni þannig að hún sæi ekki að það eina sem konum byðist væri að „sitja undir askloki því sem kallast að gæta bús og barna ... Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.“
Sjónarmið Ingibjargar urðu undir og hófst mikil uppbygging húsmæðraskóla um land allt, húsmæðrastefnan varð ofan á en örfáar konur stunduðu langskólanám.

Konur skorist ekki undan kjöri

Ingibjörg lagði fram tillögu um að útrýma úr lögum rétti kvenna til að skorast undan kjöri en slíkar undanþágur var að finna í mörgum lagabálkum um verkefni sveitarfélaga. Tillagan var samþykkt eftir mikið þref, þar sem m.a. var nefnt að ekki ætti að skylda húsmæður með lögum til að vera að heiman dögum saman.

 Öll þingmál og ræður Ingibjargar á Alþingi eru á síðu með æviágripi hennar.

 

Íhaldsflokkurinn 1924