Fyrst kvenna á þingi - 90 ár

Þess var minnst með hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu hinn 8. júlí 2012 að þá voru 90 ár liðin frá því að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi, en hún var landskjörin alþingismaður 1922–1930. Af því tilefni bauð forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi, bæði sem þingmenn og varaþingmenn, til hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu. Á hátíðarsamkomunni flutti forseti Alþingis ávarp og tvö erindi voru flutt af fyrrverandi þingmönnum, Kristín Ástgeirsdóttir fjallaði um Ingibjörgu H. Bjarnason og Helga Guðrún Jónasdóttir ræddi um stjórnmálaþátttöku kvenna. Kvennakórinn Vox feminae söng við athöfnina.

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur

Ágætu hátíðargestir.

Ég býð ykkur allar hjartanlega velkomnar til þessarar hátíðarsamkomu sem haldin er í tilefni þess að þennan dag fyrir 90 árum, laugardaginn 8. júlí 1922, var Ingibjörg H. Bjarnason fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi – en hún var þá forstöðukona Kvennaskólans í Reykjavík.

Við getum örugglega allar verið sammála um að það er ákaflega mikilvægt að halda í heiðri minningu þeirra kvenna sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttunni. Án þeirra forustu og þrautseigju værum við sannarlega ekki í þeirri stöðu sem við höfum þó náð. Það ber okkur að þakka um leið og við höfum í huga að við megum aldrei slaka á í baráttunni fyrir jafnri stöðu kvenna og karla. 

Hingað er boðið í dag öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi, bæði sem aðal- og varamenn, og konum sem komið hafa með beinum hætti að lagasetningu. Þetta er dágóður hópur því að mér telst svo til að 213 konum hafi verið boðið hingað í dag. Af þeim hafa 123 haft tök á að þekkjast boðið og vil ég láta í ljós ánægju mína með þessa góðu þátttöku. 

Ég vil einnig geta þess að síðan 1922 hafa 230 konur tekið sæti á Alþingi sem kjörnir fulltrúar, ýmist sem aðal- eða varamenn. Í dag er staddur í þessum sal rúmlega helmingur þessara kvenna. Þá vil ég nefna að ein kona hefur setið á Alþingi í krafti embættisstöðu sinnar, en það er Ragna Árnadóttir sem fyrst kvenna gegndi embætti utanþingsráðherra. 

Fjórar konur hafa skipað æðstu stöðu löggjafans. Það er mér sérstök ánægja að forverar mínar úr þeim hópi eru hér með okkur í dag, þær Guðrún Helgadóttir, Salome Þorkelsdóttir og Sólveig Pétursdóttir. Einnig er hér í dag Ragnhildur Helgadóttir sem fyrst kvenna gegndi embætti forseta þingdeildar. 

Þá vil ég nefna Jóhönnu Sigurðardóttur sem ekki hafði tök á að koma en er forsætisráðherra fyrst íslenskra kvenna. Með þeim áfanga hafa konur náð að skipa allar fjórar æðstu stöður íslenska ríkisins. 

En með okkur eru ekki eingöngu konur sem setið hafa á Alþingi. Sérstakir heiðursgestir eru þrír brautryðjendur, konur sem allar hafa komið að lagasetningu í starfi sínu. Þær eru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir, en þær hafa báðar gegnt embætti forseta Hæstaréttar og sem slíkar verið handhafar forsetavalds. Ég býð þær allar þrjár innilega velkomnar hér með okkur í dag.

Það er til merkis um þann mikla mannauð sem hér er samankominn að þau tvö hátíðarerindi sem hér verða flutt flytja konur sem báðar hafa setið á Alþingi. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisráðs, sat tvö full kjörtímabil sem aðalmaður á Alþingi, lengst af fyrir Kvennalista auk þess sem hún hafði einnig setið áður á þingi sem varamaður. Helga Guðrún Jónasdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, tók fjórum sinnum sæti á Alþingi sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst vel við hæfi að fulltrúar þessara meginhópa, þingmanna og varaþingmanna, tali hér í dag. 

Þegar við hugsum til Ingibjargar og þeirra kvenna sem hér sátu einar meðal karla á Alþingi fyrstu áratugina hlýtur hugurinn að reika til þess karllæga umhverfis sem þær þurftu að starfa í. Það hefur örugglega verið erfitt að vera ein við slíkar aðstæður – þótt ekki hafi þær kvartað svo ég viti. 

Ég minnist þess sjálf að mér þótti þingið ekki auðveldur heimur þegar ég kom hingað fyrst sem varamaður fyrir Framsóknarflokkinn 17. febrúar 1987, fyrir rúmum 25 árum. Þá átti engin kona sæti í þingflokki framsóknarmanna. Ég man að ég nefndi það á mínum fyrsta þingflokksfundi að það væri ekki boðlegt að engin kona sæti á þingi fyrir flokkinn. Viðbrögð voru lítil. Nokkrum dögum síðar tók önnur kona sæti sem varamaður í þingflokknum, Magdalena M. Sigurðardóttir, og var strax mikill styrkur af því að vera þar tvær. Frá þessum fyrstu þingsetudögum mínum er þó sterkust í minningunni sú mikla samkennd sem ég varð vör við meðal þeirra níu kvenna sem áttu fast sæti á Alþingi. Að öllum ólöstuðum vil ég þó sérstaklega nefna þær hlýju móttökur sem ég fékk frá Kvennalistakonunum sem ég verð þeim ævarandi þakklát fyrir. Ég minnist þess að þegar ég flutti jómfrúrræðu mína, viku eftir að ég tók sæti, og mælti fyrir þingsályktunartillögu um neyslu- og manneldisstefnu, þá tók enginn karlmaður til máls en tvær konur tjáðu sig um málið, þær Guðrún Agnarsdóttir Kvennalista og Kolbrún Jónsdóttir Alþýðuflokki. 

Í ljósi minnar fyrstu reynslu af þingsetu finnst mér ég að svolitlu leyti geta sett mig í spor þeirra kvenna sem fyrstar tóku sæti á Alþingi og þurftu að starfa í því karlaveldi sem þessi vinnustaður hefur lengst af verið. 

Í dag höfum við þó náð þeim árangri að af 63 þingmönnum eru konur 25, þ.e. tæp 40% þingheims. Erum við í hópi þeirra þjóða sem bestum árangri hafa náð í þeim efnum en við vorum reyndar 43% eftir síðustu alþingiskosningar.

Það styttist í að minnst verði annars stórviðburðar í réttindabaráttu kvenna. Eftir tæp þrjú ár, þann 19. júní 2015, verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. 

Margar ykkar sem hér eruð voruð á fundi sem ég kallaði til 31. mars sl. til að ræða undirbúning að því að minnast þessara tímamóta. Sá fundur tókst einstaklega vel og sýndi að stór og breiður hópur kvenna og karla er reiðubúinn að leggja þessu verkefni lið. Margar góðar hugmyndir komu fram um hvernig við ættum að standa að málum á hátíðarárinu. 

Úr þeim hugmyndum á eftir að vinna frekar auk þess sem ljóst er að við verðum að tryggja fjárhagslegan grundvöll verkefnisins. Þá þarf að huga að ýmsum praktískum atriðum eins og því að koma á fót nefnd til að hafa á hendi undirbúning og skipulagningu viðburða á hátíðarárinu. Ég mun því beita mér fyrir því að í haust leggi þær konur sem sitja á Alþingi fram þingsályktunartillögu sem ýti þessu verkefni úr vör. 

Það hefur ekki farið fram hjá neinni ykkar að við höfum í tilefni þessarar hátíðarsamkomu sett hér á vegg í þingsalnum málverk af fyrstu konunni á þingi. Þetta málverk er eftir Gunnlaug Blöndal listmálara. Verður ekki annað sagt en að honum hafi tekist einstaklega vel upp. Portrettið hafði verið í eigu Ingibjargar og gáfu ættingjar hennar Alþingi það árið 2005. Það liggja hins vegar hvorki fyrir upplýsingar um hvenær það var málað né af hvaða tilefni. Ef einhver þekkir sögu þessa verks væri vel þegið að fá að heyra hana síðar. Ég býð ykkur aftur innilega velkomnar til Alþingis af þessu merka tilefni.

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur (pdf).

Ávarp Kristínar Ástgeirsdóttur um Ingibjörgu H. Bjarnason

Fyrst kvenna á þingi


Ágætu hátíðargestir.

„Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski, aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það, að ráðist sé á þær sérstaklega af því, að þær eru konur.“

Þessi orð skrifaði Ingibjörg H. Bjarnason í grein í Lögréttu árið 1930, skömmu eftir að þingsetu hennar lauk. Þau segja allt sem segja þarf um það hvernig henni leið þau átta ár sem hún sat á Alþingi. Hún var fyrst, hún var ein og hún var ekki boðin velkomin af öllum í sölum Alþingis. Hún fékk að heyra athugasemdir sem beindust að útliti hennar, aldri og þeirri staðreynd að hún var ógift og barnlaus. Hún var ásökuð um svik við málstað kvenna og hún var beitt þöggun. Hún átti þó sínar góðu stundir og kom nokkrum mikilvægum málum í höfn einkum framan af þingferlinum.

Ingibjörg H. Bjarnason fæddist árið 1867 á Þingeyri við Dýrafjörð en flutti barnung til Bíldudals þar sem faðir hennar rak verslun. Hún ólst upp í hópi fjögurra bræðra en foreldrar hennar misstu nokkur börn, líklega úr barnaveiki. Þegar Ingibjörg var á tíunda ári varð faðir hennar, Hákon Bjarnason, úti á Mýrdalssandi. Fjölskylda hennar varð því fyrir miklum harmi sem eflaust hefur haft sín áhrif á börnin. Þremur árum síðar seldi móðir hennar, Jóhanna Þorleifsdóttir, verslunina og flutti til Reykjavíkur, væntanlega til að koma börnum sínum til mennta. Þrír bræðra Ingibjargar, þeir Þorleifur, Lárus og Ágúst, urðu hálærðir menn, doktorar og prófessorar, en sá fjórði, Brynjólfur, fetaði í fótspor föðurins og gerðist kaupmaður.

Ingibjörg hlaut óvenjumikla menntun miðað við það sem konum bauðst á þeim tíma. Hún stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík og sótti einnig tíma hjá Þóru Pétursdóttur sem meðal annars kenndi teikningu og hannyrðir. Ingibjörg hélt síðan til náms í Danmörku. Þar lauk hún fyrst Íslendinga námi sem leikfimikennari.

Eftir að Ingibjörg kom heim frá námi árið 1896 gekk hún til liðs við kvennahreyfinguna og var virk í Thorvaldsensfélaginu og Hinu íslenska kvenfélagi sem var þá eina félagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Síðar varð hún félagi í Hringnum, Lestrarfélagi kvenna og Heimilisiðnaðarfélaginu. 

Ingibjörg vann fyrir sér með kennslu þar til hún varð skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík 1906. Hún var í öðru sæti á framboðslista kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1910 og var efst á kvennalistanum sem boðinn var fram í alþingiskosningunum árið 1922 en þá átti að kjósa þrjá þingmenn í landskjöri. Þeim tveimur konum sem sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur hafði verið „sparkað“ fyrr um veturinn og var framboðið til Alþingis, sem var í nafni kosninganefndar kvenna, tilraun til að ná valdi til baka og tryggja að konur ættu einhvers staðar kjörna fulltrúa og málsvara. Ingibjörg náði kjöri og sat á Alþingi til ársins 1930.

Ferill Ingibjargar sýnir að hún var virk í félagslífi og baráttu kvenna fyrir bættum réttindum. Árið 1915 var hún valin í nefnd kvenna sem afhenti Alþingi þakkarávarp er konur eldri en 40 ára fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Eftir þá afhendingu var haldinn útifundur á Austurvelli og þar hélt Ingibjörg ræðu sem sýnir að hún var meðal áhrifakvenna innan kvennahreyfingarinnar. Í kjölfarið vildi íslenska kvennahreyfingin þakka fyrir kosningarréttinn með því að færa þjóðinni gjöf og hún var ekki af minna taginu. Það átti að byggja Landspítala. Sjóður var stofnaður og varð Ingibjörg formaður sjóðstjórnar sem safnaði miklum peningum næstu árin. 

Kosningabarátta kvenna árið 1922 varpar ljósi á hugmyndir Ingibjargar og þess hóps kvenna sem stóð að framboðinu. Í ávarpi kosninganefndar kvenna var lögð áhersla á að velferðarmálin vantaði talsmann á þingi, til að mynda Landspítalamálið. Minnt var á að konur sæju heiminn öðrum augum en karlar, þær sæju vanda þar sem karlar sæju engan. Í ávarpi Ingibjargar til kjósenda sagði hún um hlutverk sitt á Alþingi: „ ... mun ég álíta mig komna þangað til þess að gæta hagsmuna þjóðar minnar, svo sem ég best veit – til að fylgja því sem flestum má að gagni koma á sameiginlegu þjóðarheimili karla og kvenna. En auðvitað býst ég við að þau mál gætu komið fyrir, að ég sérstaklega yrði að gæta hagsmuna kvenna.“

Kosningarnar fóru fram 8. júlí en það tók langan tíma að safna atkvæðunum saman til Reykjavíkur og telja þau. Úrslit lágu fyrir 24. ágúst og þá kom í ljós að kvennalistinn hafði fengið 22,4% atkvæða. Ingibjörg var réttkjörin við misjafna hrifningu dagblaðanna. Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, brást hinn versti við, enda taldi hann kvennalistann hafa haft þingsæti af Alþýðuflokknum. Hann sakaði konur um heimsku, þær hefðu ekki vitað hvað þær voru að kjósa. 

Þing kom ekki saman fyrr en 15. febrúar 1923. Á fyrsta þinginu sem Ingibjörg sat reyndi á samstöðu kvenna. Til umræðu var gamalt en viðkvæmt baráttumál sem meðal annars snerist um betra siðferði. Það var sjálft áfengisbannið sem var í húfi.

Algjört áfengisbann gekk í gildi á Íslandi árið 1915. Bindindishreyfingin hafði lengi barist fyrir slíku banni og var mikið fylgi við það innan kvennahreyfingarinnar.

Spánn var um þessar mundir mikilvægasti markaður Íslendinga en saltfiskur var aðalútflutningsvara landsins. Spánverjar hótuðu að hætta að kaupa saltfisk ef Íslendingar keyptu ekki vörur af þeim. Árið 1922 samþykkti Alþingi undanþágu frá áfengisbanninu og leyfði innflutning svokallaðra Spánarvína í eitt ár gegn miklum mótmælum. Árið 1923 samþykkti Alþingi að afnema bannið gagnvart vínum frá Spáni þar sem gríðarlegir þjóðarhagsmunir væru í húfi. Ingibjörg H. Bjarnason greiddi atkvæði með því en gerði ekki grein fyrir ástæðum þess. Afstaða hennar olli mörgum kvenréttindakonum miklum vonbrigðum og var hún gagnrýnd harðlega og samþykktir gerðar á landsfundi kvenna sumarið 1923 vegna þessa máls.

Deilan um Spánarvínin varð þingmönnum svo erfið vegna mikilla mótmæla að borin var fram sérstök þingsályktunartillaga til að skýra og réttlæta þessa gjörð þingsins en það er algjört einsdæmi í sögu Alþingis. Það er sérkennilegt hve treg Ingibjörg var til að verja sig þegar hún lenti í andstöðu, hvort sem það var innan þings eða utan, og það kom henni í koll síðustu ár hennar á þingi þegar árásir á hana jukust og allt var tínt til. RagnhildurPétursdóttir, formaður Hins íslenska kvenfélags, gaf út heilan bækling árið 1928 gegn Ingibjörgu einkum vegna andstöðu hennar við húsmæðrastefnuna sem vikið verður að síðar. Að mínum dómi átti að koma í veg fyrir að Ingibjörg byði sig fram aftur en það stóð reyndar aldrei til eftir því sem best er vitað.

Árið 1924 gerðist Ingibjörg einn af stofnendum Íhaldsflokksins. Sagan endurtók sig: Hún gerði ekki opinberlega grein fyrir ástæðum þess að hún tók þessa ákvörðun en segja má að þar með hafi hún gengið gegn þeim forsendum sem kvennalistinn byggðist á. Í kosningabaráttunni var lögð mikil áhersla á að kvennalistinn væri sjálfstæður listi allra kvenna. Eftir kosningarnar leyfði Morgunblaðið sér að leggja saman atkvæði lista Jóns Magnússonar ráðherra og kvennalistans sem hlut borgaralegra afla. Því mótmæltu fulltrúar kvennalistans og sögðu að hinn nýkjörni fulltrúi „teldist að svo stöddu ekki til neins sérstaks flokks sem nú væri til í landinu.“

Afar líklegt er að Ingibjörg hafi talið sig vera of einangraða utan flokka og að hún myndi ekki ná baráttumálum sínum fram ein á báti. Kenning mín er sú að Ingibjörg hafi samið við Íhaldsflokkinn um Landspítalamálið og framtíð Kvennaskólans í Reykjavík gegn því að hún gengi til liðs við hinn nýja flokk. Það munaði um atkvæði hennar til að flokkurinn næði meiri hluta á þingi. Veturinn eftir að stjórn Íhaldsflokksins var mynduð var gerður samningur um byggingu Landspítala og frumvarp lagt fram um að Kvennaskólinn yrði gerður að ríkisskóla en fjárhagur hans var mjög ótraustur. Landspítalinn var byggður en Kvennaskólinn varð ekki ríkisskóli fyrr en löngu síðar.

Ingibjörg var mjög sjálfstæð sem þingkona, fór sínar eigin leiðir og lagðist stundum gegn málum flokksbræðra sinna, t.d. því hjartans máli Jóns Þorlákssonar að leggja járnbraut austur fyrir fjall. Reyndar naut hún afar sjaldan stuðnings frá þeim. Í umræðum árið 1929 viðurkenndi hún meira að segja að hafa kosið kvennaframboðið 1926. Tryggðin við flokkinn var ekki meiri en það.

Menntun kvenna varð Ingibjörgu mjög erfitt mál. Það snerist um það hvort leggja skyldi höfuðáherslu á að mennta konur sem húsmæður og beina þeim inn á heimilin eða hvort þeim ættu að vera allar leiðir opnar til þátttöku og starfa úti á vinnumarkaðnum. Það þarf vart að taka fram að Ingibjörg vildi sjá konur sem víðast í áhrifastöðum. Ingibjörg átti í miklum deilum við Jónas Jónsson frá Hriflu sem beitti sér fyrir uppbyggingu húsmæðraskóla bæði áður og eftir að hann varð menntamálaráðherra. Það sem gerði stöðu Ingibjargar sérstaklega erfiða var að hávær hluti kvennahreyfingarinnar var á sömu skoðun og Jónas og sætti Ingibjörg harðri gagnrýni úr þeirri átt. Ingibjörg lýsti skoðun sinni þannig að hún sæi ekki að það eina sem konum byðist væri að „sitja undir askloki því sem kallast að gæta bús og barna ... Nútíminn heimtar meira af konunum, og þær vilja fá tækifæri til þess að búa sig undir störf á sem flestum sviðum.“

Þar er skemmst frá að segja að sjónarmið Ingibjargar urðu undir og hófst mikil uppbygging húsmæðraskóla um land allt, húsmæðrastefnan varð ofan á meðan örfáar konur stunduðu langskólanám. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur hefur túlkað þessa deilu sem átök um hlutverk kvenna innan þjóðríkisins. Margir, bæði karlar og konur, töldu utanaðkomandi hugmyndir millistríðsáranna um „nýju konuna“, frjálsu konuna í silkisokkum og með drengjakoll, ógna heimilunum og þjóðlegum gildum.

Þegar kom að velferðarmálum og réttindamálum kvenna naut Ingibjörg óskoraðs stuðnings kvennahreyfingarinnar enda bar hún erindi hennar og tillögur inn á þing. Þegar á reyndi létu kvenfélögin sér í léttu rúmi liggja að Ingibjörg tilheyrði Íhaldsflokknum. Þau reyndu ýmist að nýta sér setu hennar á þingi eða styðja þau málefni sem hún beitti sér fyrir með jákvæðum umsögnum og áskorunum. 

Eins og áður er nefnt lagði Ingibjörg mikla áherslu á byggingu Landspítalans. Árið 1925 var gerður samningur um byggingu spítalans og lagði Landspítalasjóðurinn þá fram helming áætlaðs byggingarkostnaðar. Þetta var mikið velferðarmál sem komst í höfn skömmu eftir að Ingibjörg kvaddi þingið en spítalinn tók til starfa í lok árs 1930. Ingibjörg studdi einnig Hringinn með ráðum og dáð en félagið vann að byggingu berklahælis í Kópavogi. Það voru engin smáverkefni sem kvenfélögin sinntu í heilbrigðismálum sem þeim fannst ríkið ekki sinna sem skyldi.

Af öðrum málum sem Ingibjörg lagði fram má nefna tillögu um að útrýma úr lögum rétti kvenna til að skorast undan kjöri en slíkar undanþágur var að finna í mörgum lagabálkum um verkefni sveitarfélaga. Tillagan var samþykkt eftir ótrúlegt þref, þar sem m.a. var nefnt að ekki ætti að skylda húsmæður með lögum til að vera að heiman dögum saman. Ingibjörg vildi þó gera undanþágu varðandi nefnd um kynbætur hrossa en þá gripu þingmenn tækifærið og spurðu hvers hrossaræktin ætti að gjalda og sögðu hana ekki samkvæma sjálfri sér. Ingibjörg dró þegar í land og sagði að vel mætti vera að einhverjar konur hefðu vit og áhuga á kynbótum hrossa. Þá lagði Ingibjörg fram tillögur um styrki til gamalmenna og sjúklinga og mál um bætta stöðu óskilgetinna barna. Síðasttalda málið var baráttumál Mæðrastyrksnefndar sem var stofnuð árið 1928 í kjölfar hörmulegs sjóslyss. Ingibjörg lagði fram margar tillögur um stuðning við kvennasamtök og einstaklinga. Þar má nefna styrk til Bandalags kvenna til að skrifa sögu íslenskra kvenna í þúsund ár í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930. Því miður náði sú tillaga ekki fram að ganga. Þá lagði hún til að þingið styrkti Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til ferðar á afmælisþing alþjóða kosningaréttarsambandsins sem haldið var í Berlín árið 1929 og var það samþykkt. Af því tilefni birti Spegillinn mynd af Bríeti fljúgandi á kústi á leið á nornaþing. Segir það nokkuð um hvernig litið var á hina öldnu baráttukonu og kvennahreyfinguna þótt reyndar hafi verið um grín að ræða.

Þótt nokkrar tillögur Ingibjargar væru samþykktar var andstaðan og þögnin sem ríkti um aðrar og mun mikilvægari tillögur hennar áberandi síðustu ár hennar á þingi. Þar má t.d. nefna stórmerka tillögu um að hæfar konur yrðu skipaðar í allar opinberar nefndir. Hún var samþykkt í efri deild, þar sem Ingibjörg sat, eftir töluvert andóf, en felld umræðulaust í neðri deild. 

Eins og fram hefur komið mætti Ingibjörg gagnrýni, árásum, stríðni ogjafnvel dónaskap. Það gilti líka um aðra þingmenn en orðræðan gagnvart Ingibjörgu var óneitanlega krydduð kvenfyrirlitningu. Hún var sökuð um að láta tilfinningarnar ráða í stað rökvísi sem hún sagði vera slúður og var greinilega mjög örg yfir slíkum athugasemdum. Ingibjörg var dregin inn í kosningabaráttuna árið 1926 þegar kvennalisti var boðinn fram í síðasta sinn á vegum Kvenréttindafélags Íslands og Hins íslenska kvenfélags. Ingibjörg kom ekki nálægt kosningabaráttunni að því er séð verður en hún varð engu að síður fyrir hörðum árásum. 

Stjórnmálaflokkarnir voru ákveðnir í að koma í veg fyrir að önnur kona yrði kjörin á þing af kvennalista. Ingibjörg var það víti sem konur áttu að varast. Hún var svikari, íhald og „sá öfuguggi að vinna í þinginu gegn kynsystrum sínum“ sagði Jónas frá Hriflu. Á þingi var vísað til útlits hennar, t.d. er Magnús Kristjánsson fjármálaráðherra sagði um hana í umræðum um Landspítalann að kvennaríkið vildi hafa endaskipti á hlutunum og að konur gerðust nú breiðar í sessi. Ingibjörg brást hin reiðasta við þessum ummælum og sagði: 

„Jeg skil þetta sem það eigi að vera fyndni og ætla ekki að fara að svara því. En jeg skil ekki, að vera mín á Alþingi gefi tilefni til að álíta, að þessi samkoma sje nokkuð ver skipuð, þótt konur eigi þar sæti. Að stjórnin fari sínu fram hvað sem konur segja, það má vel vera. En konur eru meira en helmingur þjóðarinnar og kjósendanna, – geta orðið helmingur Alþingis, þegar stundir líða, hver veit. Og þá kann að vera, að hæstv. landsstjórn fari að taka tillit til þess, sem konur segja.“

Jónas frá Hriflu sakaði Ingibjörgu stöðugt um svik við málstað kvenna en ekkert var fjær lagi. Hann sagði m.a.: „[Ingibjörg] hefur gleymt kynsystrum sínum og áhugamálum þeirra en elt Íhaldsflokkinn og þó einkum hv. 4. landskj. út á allar hans pólitísku villigötur ... Hún lætur sér sæma að níðast á allri húsmæðrafræðslu í landinu.“ Undir lok ferils hennar lét Jónas eftirfarandi ummæli falla: „[Hjá Ingibjörgu kemur fram] sams konar ergelsi og öfund einsog kemur fram hjá konum, sem eru farnar að eldast, en hafa engin afkvæmi eignast, gagnvart heiðarlegum mæðrum ... Og ekki get ég gert að því, þó hv. 2.landskj. þm. [Ingibjörg] sé dálítið leiðinlegur.“ Þarna vísaði hann til þess að hin virðulega skólastýra sem var að verða 62 ára væri að eldast, ætti ekki börn og væri hreinlega leiðinleg. Svoleiðis fólk átti greinilega lítið erindi inn á hið háa Alþingi að hans dómi.


Eftir að setu Ingibjargar lauk á þingi sneri hún sér alfarið að stjórn Kvennaskólans í Reykjavík. Heilsu hennar hrakaði og hún leitaði sér lækninga erlendis. Eftir að Ísland var hernumið af Bretum vorið 1940 kom Ingibjörg aðeins við sögu. Annars vegar leigði hún breska hernum Kvennaskólann til að afla fjár en hins vegar varð hún yrkisefni í frægum slagara þar sem hún er sögð banna námsmeyjum að notast við það sem náttúran gaf þeim en hvísla sjálf: „það er draumur að vera með dáta og dansa fram á nótt“. Ekki beinlínis í anda hinnar virtu skólastýru. Ingibjörg lést 1941 og var hennar minnst mjög hlýlega, jafnvel af Jónasi frá Hriflu. Átök fyrri ára voru gleymd og grafin. Þegar hún lést sat engin kona á þingi og eins og við vitum liðu margir áratugir þar til þeim tók að fjölga að ráði. Það tekur tíma að breyta hugarfari og ríkjandi gildum. Einhverjir verða að ríða ávaðið og það er erfitt að komast yfir straumharða á.

Góðir hátíðargestir: Það sem er mikilvægast þegar við horfum til baka er að Ingibjörg H. Bjarnason kom mikilvægum málum á dagskrá, sem arftakar hennar fylgdu eftir síðar. Hún naut lengst af stuðnings kvennahreyfingarinnar og var fyrst og fremst fulltrúi hennar. Hún var mikilvæg fyrirmynd, málsvari kvenna, barna og þeirra sem minna máttu sín í íslensku samfélagi. Blessuð sé minning Ingibjargar H. Bjarnason.

Ingibjörg H. Bjarnason, Kristín Ástgeirsdóttir (pdf).

Ávarp Helgu Guðrúnar Jónasdóttur, stjórnmálaþátttaka kvenna

Stjórnmálaþátttaka kvenna 

Ágætu hátíðargestir. 

Kæru systur, til hamingju með daginn. Ásta Ragnheiður á miklar þakkir skilið fyrir forgöngu hennar um svo veglega hátíðardagskrá. Kærar þakkir, frú forseti. 

Stjórnmálaþátttaka kvenna spannar breitt svið, eða allt frá einstaklingunum og þeim mörgu kvennasamtökum sem koma við sögu, að sögu hugmyndanna, hugmyndafræðilegra átaka og mótun gildakerfa. Þar sem þessi saga er svo margbrotin og stórkostleg, langar mig til að nálgast viðfangefnið út frá nokkrum ólíkum og kannski ekki alltaf hefðbundnum sjónarhornum – og með réttindabaráttu kvenna sem útgangspunkt. Það er nú einu sinni svo að stjórnmálaþáttta kvenna hófst sem barátta fyrir tilverurétti, barátta sem stendur reyndar enn og sér vart fyrir endann á. 

Einfaldasta nálgunin hér er líklega sú tölfræðilega. Sjálf tölfræðin er einnig, eðli málsins samkvæmt, tiltölulega einföld í sniðum og því fljótafgreidd. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að hlutur kvenna var nákvæmlega enginn, ekki fyrr en í byrjun síðustu aldar. Hlutur þeirra er einnig ákaflega hógvær langt fram eftir öldinni, allt fram á 9. áratuginn. Þá tekur hann kipp og hafa allar tölur upp því hafa verið upp á við og það svo bratt að, að tölfræðilega séð styttist nú óðum í að því langþráða takmarki verði náð að konur og karlar standi jafnt að vígi í stjórnmálum. 

Það dregur þessa glæsilegu mynd enn frekar fram að Ísland skipar nú, þriðja árið í röð, efsta sætið á alþjóðlega Gender Gap Report listanum hjá Economic Forum, en samkvæmt honum njóta konur á Íslandi hlutfallslega mesta kynjajafnréttis í heimi með 85% af tækifærum karla – og gott ef Ísland reyndist ekki einnig hástökkvari könnunarinnar á einhverjum tímapunkti, með mestu hlutfallslegu aukninguna á milli ára. 

Sigranir eru þó ekki bara tölfræðilegir, því stjórnmálaþátttöku kvenna má einnig nálgast sem einstaka sigurgöngu, og sigrarnir eru margir og glæstir. Hindrunum hefur af þrautseigju verið rutt úr vegi, einni af annarri og braut aukinnar stjórnmálaþátttöku kvenna vörðuð glæstum áfangasigrum allt frá árinu 1882, þegar konur fengu fyrst kosningarétt í héraði, afar takmaðan en kosningarétt þó. 

Fyrsta kvennaframboðið reið á vaðið árið 1908 í Reykjavík og tveimur árum síðar buðu konur fram sérstaka lista bæði á Akureyri og Seyðisfirði. Fimmtán árum síðar er næsta stóráfanga náð, þegar Ingibjörg H. Bjarnason rauf svo eftirminnilega karlamúrinn á Alþingi, eins og Kristín rakti svo skemmtilega hér áðan. Til frekari stórtíðinda dregur svo ekki fyrr en árið 1957, þegar Hulda Jakobsdóttir í Kópavogi varð fyrst kvenna bæjarstjóri. Skömmu síðar, eða árið 1959, varð Auður Auðuns svo fyrst kvenna borgarstjóri í Reykjavík og árið 1970 bætti hún um betur sem fyrsta konan til að gegna ráðherraembætti. Að sléttum áratug liðnum braust sigursól kvennabaráttunnar svo fram á nýjan leik með kjöri Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands árið 1980. Sem kunnugt er náði Vigdís jafnframt þeim einstæða árangri að verða fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heims. Aðeins tveimur árum síðar eða árið 1982 voru Samtök um kvennaframboð stofnuð. Þetta síðara kvennaframboð náði einnig frábærum árangri, bæði í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og bæjarstjórnarkosningum á Akureyri - og einstökum árangri í Alþingiskosningum, en Kvennalistinn náði mest sex þingkonum í þingiskosningunum árið 1987.

Sá árangur er eins og áður segir einstakur og vakti ekki síður alþjóðlega athygli en kjör Vigdísar. Hlutur kvenna bæði á sveitarstjórnar- og landsstjórnarstiginu tók samhliða mikinn kipp, fór úr nánast engu í um 20% á árunum 1986 og 87. Komu þar til bæði bein áhrif Kvennalistans og ruðningsáhrif á aðra stjórnmálaflokka. Konur þorðu, vildu og gátu. 

Þegar hér var komið sögu, féllu karlavígin hvert af öðru á methraða. Konur voru loks skipaðar hæstaréttadómarar, vígðust til prests, urðu iðnaðarmenn, flugmenn, strætisvagnabílstjórar og svo mætti lengja telja. Þegar allt kom til alls, hvað var þá svona merkilegt við það að vera karlmaður. Bora gat í vegg eða skipta um dekk á vörubíl – ekkert mál sungu töffarnir í Grýlunum. Og þann 24. október 1975 unnu konur eitt stærsta þrekvirki baráttusögunnar, þegar þær tóku höndum saman um fyrsta kvennafrídaginn. Yfir 90% kvenna lögðu niður vinnu þann dag til að sýna fram á samtakamátt sinn og vilja gegn misskiptingu valda og launa og hafa konur þessa lands endurtekið kvennafrídaginn með miklum bravúr í tvígang síðan eða árið 2005 og 2010, auk þess sem Skotturnar tóku formlega til starfa snemma ársins 2010 sem formlegur samstarfsvettvangur kvennahreyfinganna um kvennafrídag – svo væntanlega megum við eiga von á meiru úr þessari góðu átt. 

Ég má svo til með að undirstrika það sérstaklega að kvennafrídagurinn okkar er algjörlega einstakur í sinni röð. Hvergi í heiminum hafa konur sýnt annan eins samtakamátt og baráttuþrek. Þá er ekki síður mikils um vert, að um kvennafrídaginn hefur tekist afar breitt samstarf þvert á starfsgreinar og stjórnmálaskoðanir – sem er svo vitaskuld meginforsenda þess að hann hefur slegið jafn rækilega í gegn og raun ber vitni. 

En, góðir hátíðargestir. Stjórnmálaþátttaka kvenna spannar fleiri víddir en eftirtekarverðan árangur og glæsta sigra. Átök, svíðandi ósigrar, háðung, spott og spé – allt eru þetta dæmi um þær dökku hliðar sem tölfræðin nær sjaldnast að upplýsa. 

Þessi hátíðarstund okkar hefði sem dæmi runnið upp með nokkuð öðrum hætti, ef réttindabarátta kvenna hefði gengið þrautarlaust fyrir sig upp úr þarsíðustu aldamótum. Þannig var, að Bríet Bjarnhéðinsdóttir skipaði 4. sætið á framboðslista Heimastjórnarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 1916 og fékk flokkurinn þrjá menn kjörna. Ný lög höfðu á hinn bóginn tekið gildi um listaútstrikanir, og gerðu þau að verkum að hún færðist niður um eitt sæti, niður í það fimmta. Hannes Hafstein, fyrsti maður listans, dró sig hins vegar óvænt í hlé á kjörtímabilinu miðju og Bríet hefði því orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi, þegar árið 1918, hefði ekki verið fyrir þessi nýju lög og afar veika stöðu kvenna í stjórnmálum.

Þessi stutta og að vissu leyti hádramatíska saga, er um margt lýsandi fyrir eina helstu áskorun kvennastjórnmálanna. Konur þóttu alls ekki við hæfi á vettvangi stjórnmálanna og krafan var skýr sem gerð var til þess, að kvenfólk þekkti sinn stað í þjóðfélaginu sem móðir, kona eða meyja. Á vinnukonur var aldrei minnst, hvað þá einstæðar mæður sem máttu eiginlega bara skammast sín. 

Eina aðkoma kvenna að sjálfstæðisbaráttunni, langstærsta og fyrirferðarmesta málefni stjórnmálanna á þessum tíma, var að klæðast á almannafæri kyrtlinum eða skautbúningnum sem Sigurður Guðmundsson málari hannaði laust eftir miðja 19. öld og gefa með þeim táknræna hætti yfirráðum Dana langt nef í alíslenskum klæðum. Segir það meira en margt annað. Konum var almennt ekki treyst til að tjá stjórnmálaskoðanir með öðrum hætti en í klæðaburði. 

Auk hugrekkis í ómældum mæli, hefur skrápurinn einnig þurft að vera þykkur. Bríet var að öllu leyti dæmigerður stjórnmálaforingi á síns tíma mælikvarða, að því einu undanskildu að vera kona. Kvenréttindafélagið var á þessum tíma það sem nefna má pólitískan arm kvennahreyfinganna, ekki ósvipað Alþýðuflokknum sem var pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar eða Framsóknarflokkunum sem var stjórnmálaflokkur bændasamvinnuhreyfingarinnar. Að vera felld niður um sæti hefur því verið niðurlægjandi fyrir Bríeti, formann Kvenréttindafélagsins, ritstjórann og stjórnmálaforingjann í Reykjavík. Þau skilaboð kjósenda sem fólust í því, er ekki hægt að skilja öðruvísi en sem fremur harðsvíraða ábendingu til hennar um að hafa sig á brott úr karlaheimi stjórnmálanna. 

Það er svo til marks um þann stugg sem körlunum stóð almennt af stjórnmálaþátttöku kvenna, að þegar 30 ára harðri baráttu fyrir kosningarétti lauk loks árið 1915, var hann skammtaður naumt úr hnefa valdhafanna. Einungis konur sem voru 40 ára og eldri fengu kosningarétt og stóð síðan til að lækka aldursmörkin árlega um eitt ár, þar til 25 ára aldurmörkum yrði náð að 15 árum liðnum. Danir bundu óvænt enda á þessi áform, en þeir reyndust ófáanlegir til að taka mark á þessum séríslenska öryggisventli á kosningaþátttöku kvenna, þegar semja þurfti nýja stjórnarskrá vegna fullveldis landsins 1918 og fengu konur og vinnuhjú því sömu réttindi og karlar þegar nýja stjórnarskráin var lögfest árið 1920. 

Viðlíka hömlur höfðu enda hvergi sést annars staðar og tilgangurinn augljóslega sá að veita körlum pólitískt skjól með því að hægja á kosningaþátttöku kvenna. Landsfeðrunum hraus hugur við afleiðingum þess að konur streymdu inn í kjörklefana. Og ekki bætti óvænt velgengni kvennaframboðanna úr skák, en í Reykjavík unnu konurnar stórsigur, fengu langflest atkvæði af þeim 18 listum sem boðnir voru fram og fjóra bæjarfulltrúa af 15. Konunum gekk að því er virtist, bara einum of vel og þær voru ekki að gefa kost á sér til þess eins að vera með, heldur til þess að byggja upp, breyta og bæta . Tónninn var settur og karlarnir töldu sér augljóslega ekki til setunnar boðið. 

Og hvaða óábyrgu mál voru það síðan sem þetta skelfilega kvenfólk setti á oddinn. Sem nærtækt dæmi má nefna að Bríet beitti sér meðal annars fyrir holræsagerð og malbikun gatna, og svo hart gekk hún fram í malbikuninni að fyrsti gufuvaltarinn sem fenginn var til landsins árið 1912, gekk aldrei undir öðru nafni en Bríet – hvaða merkingu sem leggja má svo í það. 

Landspítalinn og Háskóli Íslands eða leikskólar og fæðingarorlof - þau eru mörg og eftirtektarverð þau brýnu framfaramál sem konur hafa komið á dagskrá stjórnmálanna. Það kom því fljótlega í ljós að áherslur kvenna og forgangsröðun er allt, allt önnur en hjá körlum. Og afleiðingarnar sem karlanir óttuðust svo mjög, þær má sjá stað - meðal annars - í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarinnar og sókn til aukinnar velferðar, eða hvernig skyldi efnahagslegri uppbyggingu hafa reitt hér af, hefðu konur ekki streymt út á vinnumarkaðinn upp úr sjöunda áratugnum? 

Ágæta hátíðarsamkoma. Tæpt hefur verið á stjórnmálaþátttöku kvenna í afar grófum dráttum út frá þremur ólíkum sjónarhornum eða tölfræðinni, sigrum kvennabaráttunnar og samfélagslegum átakalínum. Hvað það síðastnefnda varðar liggur áraþúsundagamalt gildakerfi undir. Samfélagsgerðin sem konur gerðu upphaflega uppreisn gegn var í grunninn staðnað bændasamfélag sem byggði alfarið á hörðum gildum feðraveldsins, oftar en ekki í sinni harðneskjulegustu mynd, með konuna sem þjónandi ambátt heimilisins. Og margt bendir til þess að feðraveldið, með sína kynbundnu hlutverkaskiptingu og kynjaða veruleika sé enn helsi á stjórnmálaþátttöku kvenna og jafnréttisbaráttu almennt - þrátt fyrir þá staðreynd að gamla bændasamfélagið er löngu liðið undir lok. Að konum hafi virst nær ógerningur, að gegna stöðu forsætisráðherra, hefur sem dæmi verið haft til marks um sterka stöðu karlastjórnmálanna - þegar allt kemur til alls. Það var jú ekki fyrr en á árinu 2008, eða heilli öld eftir fyrsta kvennaframboðið, sem Jóhanna Sigurðardóttir verður fyrst kvenna forsætisráðherra og sem kunnugt er við fordæmalausar aðstæður, nánast í bankahruni miðju. 

Rannsóknir tala einnig skýru máli og má í því sambandi nefna rannsókn Bergljótar Þrastardóttur, á viðhorfum og reynslu kvenna í pólitísku starfi á sveitartjórnarstiginu, sem birtist í lokaverkefni hennar til MPA gráðu nú í vor og ber þann lýsandi titil - Ég hef ákveðin völd, en þau eru ekki viðurkennd. Er þar vitnað í eitt af þeim 14 viðtölum við stjórnmálakonur sem rannsóknin byggir á.

Í ágripi lokaverkefnisins kemur m.a. fram að hreyfanleiki sé mun meiri á konum inn og út úr sveitarstjórnarmálum. Markmið rannsóknarinnar hafi því verið að öðlast þekkingu á stjórnmálakerfinu, reglum og vinnubrögðum innan stjórnmálaflokka og starfsumhverfi sveitarstjórnarstigsins með hliðsjón af reynslu sveitarsjórnarkvennanna sjálfra.

Meginniðurstöðurnar eru svo þær, að vinnumenning á sveitarstjórnarstiginu mótast samkvæmt hefðbundnum hugmyndum karla um leikreglur stjórnmálanna, sem eru að langmestu leyti betur sniðnar að körlum en konum. Þessar hugmyndir hafa áhrif á viðhorf og stöðu kvenna innan pólitískra skipulagsheilda þar sem konur upplifa oft ákveðnar hindranir eins og þöggun, útilokun frá valdastöðum og ákveðið virðingaleysi við þá málaflokka sem þær vinna fremur að en karlar. Konur hafa áhuga á stjórnmálastarfi, en telja sig oft hafa komist að vegna utanaðkomandi þrýstings á flokkana um aukinn sýnileika kvenna - en ekki vegna persónulegra eiginleika eða mannkosta. Konurnar vilja því sjá ákveðnar breytingar hvað varðar vinnulag í pólitískum skipulagsheildum þar sem meiri áhersla þarf að vera á samvinnu, gagnsæi, sveigjanleika og lýðræðisleg vinnubrögð. Slíkar breytingar myndu þannig laða fleiri konur að stjórnmálastarfi og lengja starfstíma þeirra á þeim vettvangi. Þessi niðurstaða verður vart skilin á annan veg en þann að konur eru enn að berjast fyrir tilverurétti í stjórnmálunum. 

Ágæta hátíðarsamkoma. Þurfum við frekari vitnana við. Grátt feðraveldið glottir þarna við tönn - í þögguninni, valdaútilokuninni og kerfisbundinni gengisfellingu á þeim málflokkum sem konur gefa sig að. Vissulega er rannsóknin bundin sveitarstjórnarstiginu en stjórnmálamenningin er mjög líklega sú sama þar og annars staðar í stjórnkerfinu.Þetta segir okkur að þrátt fyrir sigrana og sannfærandi tölfræðina, stöndum við í grunninn enn í sömu sporum og þær Bríet og Ingibjörg. Baráttan hefur vissulega breyst í tímans rás, forsendurnar eru ekki þær sömu og umbúnaðurinn annar, en þessar breytingar ná aðeins til ytra byrðisins. Innra byrðið stendur enn óhaggað - karlakúltúr stjórnmálanna. Baráttan snýst ekki lengur um aðgang kvenna að stjórnkerfinu og rétt á völdum, heldur að beiting valds af hálfu kvenna öðlist viðukenndan sess, að þær séu jafn vel til þess fallnar að stjórna og karlar. Að þöggunin verði brotin á bak aftur, útilokunin og kerfisbundna gengisfellingin, sem kemur með svo margvíslegu móti í veg fyrir að konur í stjórnmálum geti í reynd beitt þeim völdum og áhrifum sem þátttaka í stjórnmálum veitir hverju sinni eða seilst til aukinna áhrifa. Að móðirin, konan og meyjan verði trúðverðugar í hlutverki valdsmannsins, þvert á viðtekin viðhorf karlastjórnmála. 

Ágætu heiðursgestir. Á tímamótum er við hæfi að líta yfir farinn veg. Samvinna og samstaða hefur frá upphafi verið eitt beittasta vopn kvennabaráttunnar. Þetta er ekki samstaða sem útheimtir að við hugsum eins, kjósum eins eða tölum eins. Það er, þvert á móti, fjöldinn í öllum sínum margbreytileika sem er helsti styrkurinn. Höfum jafnframt hugfast að sagan er okkar megin, afrekshlutfall kvenna er hátt í stjórnmálum og eru vinningslíkurnar því algjörlega okkar megin. Takk fyrir og góðar stundir.

Stjórnmálaþátttaka kvenna, Helga Guðrún Jónasdóttir (pdf).


Hátíðarhöld á Alþingi í tilefni af því að 90 ár voru frá því að kona tók fyrst sæti á Alþingi

Hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Guðrún Erlendsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og fyrrverandi þingforsetar, Salome Þorkelsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir (þáverandi forseti Alþingis) og Sólveig Pétursdóttir.