39. fundur
umhverfis- og samgöngunefndar á 149. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, fimmtudaginn 7. febrúar 2019 kl. 09:03


Mættir:

Bergþór Ólason (BergÓ) formaður, kl. 09:03
Jón Gunnarsson (JónG) 1. varaformaður, kl. 09:03
Ari Trausti Guðmundsson (ATG) 2. varaformaður, kl. 09:03
Björn Leví Gunnarsson (BLG), kl. 09:03
Hanna Katrín Friðriksson (HKF), kl. 09:03
Helga Vala Helgadóttir (HVH), kl. 09:03
Karl Gauti Hjaltason (KGH), kl. 09:03
Líneik Anna Sævarsdóttir (LínS), kl. 09:03
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (RBB), kl. 09:03
Vilhjálmur Árnason (VilÁ), kl. 09:03

Nefndarritari: Hildur Eva Sigurðardóttir

Bókað:

1) Fundargerð Kl. 09:03
Frestað.

2) Kosning formanns og 1. og 2. varaformanns Kl. 09:04
Helga Vala Helgadóttir lagði til að kosið yrði að nýju um formann og varaformenn nefndarinnar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um þingsköp Alþingis og að Hanna Katrín Friðriksson yrði formaður, Ari Trausti Guðmundsson 1. varaformaður og Jón Gunnarsson 2. varaformaður.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson tóku undir beiðnina. Björn Leví Gunnarsson áheyrnarfulltrúi lýsti yfir stuðningi við hana. Ekki var meiri hluti fyrir beiðninni og hún því ekki tæk til afgreiðslu.

Bergþór Ólason lagði til kosið yrði að nýju um formann og varaformenn nefndarinnar skv. 4. mgr. 14. gr. laga um þingsköp Alþingis og að Jón Gunnarsson yrði formaður, Ari Trausti Guðmundsson 1. varaformaður og Líneik Anna Sævarsdóttir 2. varaformaður.
Jón Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Karl Gauti Hjaltason studdu beiðnina og var hún því rétt fram borin af meiri hluta nefndarmanna skv. 4. mgr. 14. gr. laga um þingsköp.

Gengið var til kosninga, að beiðni Helgu Völu Helgadóttur var kosið um hvert og eitt embætti.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson, Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason kusu Jón Gunnarsson í embætti formanns.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Helga Vala Helgadóttir kusu Hönnu Katrínu Friðriksson í embætti formanns.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson, Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason kusu Ara Trausta Guðmundsson í embætti 1. varaformanns.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Helga Vala Helgadóttir kusu Hönnu Katrínu Friðriksson í embætti 1. varaformanns.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson, Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason kusu Líneik Önnu Sævarsdóttur í embætti 2. varaformanns.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Helga Vala Helgadóttir kusu Hönnu Katrínu Friðriksson í embætti 2. varaformanns.

Rétt kjörin í stjórn nefndarinnar voru Jón Gunnarsson formaður, Ari Trausti Guðmundsson 1. varaformaður og Líneik Anna Sævarsdóttir 2. varaformaður.

Að kosningu lokinni lagði Bergþór Ólason fram eftirfarandi bókun:
Það er ánægjulegt að sjá að með þessari breytingu á stjórn nefndarinnar komist sá friður á sem allir nefndarmenn sækjast eftir. Það var mér ánægja, í kjölfar þess að meirihluti nefndarmanna gerði tillögu um að fram færi kosning um stjórn umhverfis- og samgöngunefndar, að gera það að tillögu minni að Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, verði kosinn formaður, Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri-hreyfingunni grænu framboði, 1.varaformaður og Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki, verði 2.varaformaður, með þeim formerkjum að miðað sé við að taka kjör til stjórnar nefndarinnar til endurskoðunar í fyrstu viku maí 2019.

Helga Vala Helgadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Athugasemdir eru gerðar við eftirfarandi orðalag í bókun fráfarandi formanns, Bergþórs Ólasonar „að tillaga hans um breytingu á stjórn nefndarinnar sé með þeim formerkjum að miðað sé við að taka kjör til stjórnar nefndarinnar til endurskoðunar í fyrstu viku maí 2019“ enda samræmist það ekki lögum um þingsköp Alþingis að kosning sé tímabundin
Hanna Katrín Friðriksson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi, tóku undir bókunina.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Vegna ummæla um að minni hlutinn hefði ekki náð að leysa úr ágreiningi um formannssæti sem samkvæmt samkomulagi tilheyrir stjórnarandstöðuflokkum er rétt að árétta að minni hlutinn hefur borið upp sínar tillögur á fundinum um formennsku í nefndinni. Geri athugasemd við að enginn úr minni hluta sitji nú í stjórn nefndarinnar.
Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir og Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi, tóku undir bókunina.

Hanna Katrín Friðriksson lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég geri athugasemdir við ummæli um að meiri hlutinn hafi tekið við stjórn nefndarinnar til að koma á starfsfriði í nefndinni. Samkomulag er um að minni hluti á þingi eigi þrjú formannssæti í nefndum og það var brotið af meiri hlutanum hér. Minni hluti nefndarinnar lagði fram tillögu að nýjum formanni úr hópi minni hlutans, hér var tekin hrein og skýr afstaða gegn henni.
Helga Vala Helgadóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi, tóku undir bókunina.

3) Starfið framundan Kl. 09:41
Formaður gerði grein fyrir nauðsyn aukafunda og lengri funda nefndarinnar þar sem mörg verkefni biðu.

Helga Vala Helgadóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Minnt er á að ekki er hægt að halda aukafundi nema með samþykki allra nefndarmanna og þarf að bera upp hvern og einn fund til samþykktar. Þannig sé ekki hægt að líta svo á hér sé veitt almennt samþykki fyrir aukafundum eða lengri fundum.
Hanna Katrín Friðriksson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi, tóku undir bókunina.

4) Önnur mál Kl. 09:46
Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 09:46