Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn

Frumkvæðismál (2102253)
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
15.03.2021 43. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á meintum brotum á sóttvarnalögum
Nefndin ræddi málið.

Formaður lagði til að nefndin gerði hlé á umfjöllun sinni um málið. Enginn hreyfði andmælum og var tillagan samþykkt.
10.03.2021 42. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á meintum brotum á sóttvarnalögum
Nefndin ræddi málið.
09.03.2021 41. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn á meintum brotum á sóttvarnalögum
Nefndin ræddi málið.

Brynjar Níelsson lagði fram tillögu um að nefndin lyki umfjöllun sinni um málið. Þorsteinn Sæmundsson tók undir tillöguna.

Formaður lagði til að umræðu um málið yrði frestað. Enginn hreyfði andmælum og var það samþykkt.
08.03.2021 40. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn
Nefndin ræddi málið.

Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson lögðu fram eftirfarandi bókun:

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gegnir mikilvægu hlutverki ekki síst til að tryggja að Alþingi geti sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu. Til að geta sinnt þessu hlutverki verður trúverðugleiki nefndarinnar að vera hafinn yfir alla vafa og nefndarmenn, ekki síst formaður, verða að hafa burði til þess að sinna störfum sínum af sanngirni, óhlutdrægni og gæta þess að festast ekki í pólitískum skotgröfum.

Þrír nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd töldu, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar, nauðsynlegt að óska eftir að dómsmálaráðherra og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, kæmu á lokaðan fund nefndarinnar til að gera grein fyrir samskiptum þeirra á aðfangadag á síðasta ári í tengslum við meint sóttvarnarbrot í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Bæði ráðherra og lögreglustjóri brugðust hratt og vel við beiðninni og komu til fundar 1. og 2. mars.

Á fundum nefndarinnar svöruðu bæði dómsmálaráðherra og lögreglustjóri öllum spurningum með skýrum hætti og án undanbragða. Ekkert kom fram sem gefur tilefni til að ætla annað en að samskiptin þeirra á aðfangadag hafi verið eðlileg og í samræmi við lög og góða stjórnsýslu.

Í þingskaparlögum og starfsreglum fastanefnda kemur skýrt fram að óheimilt sé „að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi nema með leyfi viðkomandi“. Það lýsir ekki miklum drengskap í garð annarra nefndarmanna eða gesta að nýta það sem fram fer á lokuðum fundum til rangfærslna í þeim tilgangi að koma höggi á pólitískan andstæðing. Þetta hefur formaður nefndarinnar, Jón Þór Ólafsson, því miður gert í viðtölum við fjölmiðla eftir fundi með ráðherra og lögreglustjóra, líklega í trausti þess að aðrir nefndarmenn virði trúnað við gesti.

Í svari lögreglustjórans til fréttastofu Ríkisútvarpsins og birt var 4. mars eftir yfirlýsingar formann nefndarinnar í fjölmiðlum, segir að samskiptin hafi snúið að upplýsingagjöf lögregluembættisins og hvernig að henni var staðið þennan dag og engu öðru. Slíkt falli undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra samkvæmt lögum. Orðrétt segir lögreglustjóri í yfirlýsingu til fréttastofu Ríkisútvarpsins:

„Ég tel ekki að ráðherra hafi með þessu haft afskipti af rannsókn sakamáls hjá embættinu.“

Trúverðugleiki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur beðið hnekki með framkomu formannsins. Gestir sem koma fyrir nefndina hafa enga tryggingu lengur fyrir því að ákvæði þingskaparlaga um trúnað haldi eða upplýsingar sem þeir veita séu ekki nýttar í pólitískum tilgangi með útúrsnúningi og dylgjum. Og þar með verður nefndin ófær um að sinna skyldum sínum.

Ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hafi með framkomu sinni brugðist skyldum sínum sem formaður og grafið undan möguleikum nefndarinnar til að sinna nauðsynlegu eftirlitshlutverki sínu í framtíðinni. Störf okkar í nefndinni munu eðlilega taka mið af þeim trúnaðarbresti sem orðin er og verður á meðan Jón Þór situr sem formaður.

Jón Þór Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson lögðu fram eftirfarandi bókun sem Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir tók undir:

Í samræmi við lög og skyldur sínar hóf stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis athugun á tveimur beinum símtölum dómsmálaráðherra til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag. Það gerði nefndin í kjölfar þess að fréttir voru sagðar af þessum samskiptum ráðherrans við lögreglustjórann í fjölmiðlum.

Á fundi með dómsmálaráðherra og lögreglustjóra um þessi símtöl komu fram upplýsingar sem þeim nefndarmönnum sem standa að þessari bókun þóttu gefa tilefni til frekari eftirgrennslana. Þessar upplýsingar hafa ekki komið fram opinberlega og ekki hefur verið vitnað til orða gestanna.

Órökstuddar ásakanir Óla Björns Kárasonar um að formaður hafi brotið trúnað standast því ekki skoðun og bæði formaður og aðrir nefndarmenn sem tjáðu sig um málið virtu trúnað samkvæmt lögum um þingsköp. Bókun Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar sem gefur annað í skyn er til þess fallin að grafa undan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og þingmönnum sem þar sinna eftirliti. Það er alvarlegt að hindra eða trufla stjórnarskrárbundna eftirlitsskyldu þingmanna og þingnefnda.
02.03.2021 39. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn
Á fund nefndarinnar mættu Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, og Margrét Kristín Pálsdóttir frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Gestir gerðu grein fyrir sjónarmiðum við málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.
01.03.2021 38. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn
Nefndin fékk á sinn fund Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Hauk Guðmundsson frá dómsmálaráðuneyti. Ráðherra gerði grein fyrir sjónarmiðum við málið og svaraði spurningum nefndarmanna.

Nefndin ræddi málið.