Fyrirspurnir

Eftirlitsstörf alþingismanna fara m.a. fram með fyrirspurnum til ráðherra og taka til opinberra málefna, sbr. 54. gr. stjórnarskrárinnar. Með opinberu málefni er átt við sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings, sbr. 49. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Þingmaður leggur fram skriflega fyrirspurn til ráðherra á þingskjali og getur beiðst þess að henni sé annaðhvort svarað munnlega á fyrirspurnafundi í þingsal eða ráðherra veiti skriflegt svar við henni, sbr. 57. gr. þingskapa.

Til viðbótar skriflegum fyrirspurnum geta þingmenn á sérstökum fyrirspurnartíma (að jafnaði tvisvar í viku) borið fram fyrirspurn munnlega um efni sem ráðherra veit ekki fyrir fram hvað er. Slíkar fyrirspurnir eru kallaðar óundirbúnar fyrirspurnir.

Nokkur atriði til athugunar við gerð skriflegra fyrirspurna  

  1. Fyrirspurn skal beint til þess ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna, og skal varða opinbert málefni, sbr. 1. mgr. 57. gr. þingskapa.
  2. Hægt er að beina fyrirspurnum til forseta Alþingis um stjórnsýslu á vegum þingsins en einungis til skriflegs svars, sbr. 3. mgr. 8. gr. þingskapa.
  3. Heiti fyrirspurnar skal ná utan um efni hennar, vera hnitmiðuð og stutt.
  4. Fyrirspurn skal vera skýr, um afmörkuð atriði og miðað skal við að hægt sé að svara henni í stuttu máli, sbr. 1. mgr. 57. gr. þingskapa.
  5. Fyrirspurn getur verið í nokkrum liðum og skal framsetning þeirra vera í rökréttri röð.
  6. Fyrirspurn getur verið til munnlegs eða skriflegs svars.
  7. Miðað skal við að umfang fyrirspurnar sem óskað er munnlegs svars við sé ekki meira en svo að ráðherra geti svarað henni á þeim fimm mínútum sem hann hefur til svars.
  8. Miðað skal við að fyrirspurn sem óskað er skriflegs svars við sé ekki umfangsmeiri en svo að hægt sé að svara henni innan 15 virkra daga, sbr. 6. mgr. 57. gr. þingskapa. Sé kallað eftir ítarlegri upplýsingum er eðlilegra að óskað sé eftir skriflegri skýrslu um málið frá ráðherra, sbr. 54. gr. þingskapa.
  9. Greinargerð má fylgja fyrirspurn sem óskað er skriflegs svars við, sbr. 1. mgr. 57. gr. þingskapa. Skal miðað við að hún sé sem styst og ekki lengri en ein málsgrein (sbr. Háttvirtan þingmann).
  10. Áður en fyrirspurn er útbýtt meðal þingmanna á fundi er borið undir forseta hvort fyrirspurn skuli leyfð, sbr. 2. mgr. 57. gr. þingskapa.