Skýrslur til Alþingis

Almennt

Ef ráðherra óskar að gera grein fyrir opinberu málefni gerir hann það með skýrslu til Alþingis er skal prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þá leggja ráðherrar fram skýrslur samkvæmt lagaskyldu.

Þá getur fastanefnd gert þinginu grein fyrir athugun sinni á þingmáli sem hún hefur ekki lokið umfjöllun um og einnig getur nefnd gefið þinginu skýrslu um störf sín. Alþjóðanefndir skila á hverju ári skýrslu um störf sín. 

Skýrsla samkvæmt beiðni

Eftirlitsstörf alþingismanna taka til opinberra málefna og fara m.a. fram með skýrslubeiðnum, sbr. 49. gr. þingskapa. Níu þingmenn geta farið fram á að ráðherra gefi þinginu skýrslu um opinber málefni, sbr. 54. gr. þingskapa. Nefnd eða meiri hluti nefndar getur einnig óskað eftir skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Þá geta níu þingmenn einnig óskað eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda, sbr. 4. mgr. 54. gr. þingskapa. Skýrslubeiðni má fylgja stutt greinargerð til skýringar, sbr. 1. mgr. 54. gr. þingskapa.

Vinnslutími

Hafi skýrslubeiðni níu þingmanna, nefndar eða meiri hluta nefndar verið tekin fyrir á þingfundi og leyfð skal ráðherra ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi, sbr. 54. gr. þingskapa.

Leiðbeiningar/sniðmát

Á vef Alþingis eru leiðbeiningar um þingskjöl og sniðmát.


Skýrslur þurfa að vera með inngangi, sjá sniðmát (skýrsla ráðherra/skýrsla samkvæmt beiðni), þannig að fram komi að skýrsla sé frá [x]ráðherra til Alþingis um [heiti skýrslu]. Nefndir og aðilar utan þings geta ekki skilað Alþingi skýrslu og því þarf ráðherra sem ætlar að skila slíkri skýrslu að gera hana að sinni.

Skýrslur ráðherra til Alþingis þurfa að berast skrifstofu Alþingis á netfangið skraning@althingi.is.

Birting á vef/prentun

Á vef Alþingis má birta öll gögn sem annars skal prenta. Telst sú birting jafngild prentun, nema annað sé tekið fram, sbr. 5. mgr. 96. gr. þingskapa.

Skýrslur birtar sem rafræn fylgiskjöl þurfa að hafa þingskjal/forsíðu þar sem gerð er grein fyrir skýrslu, þ.e. tilurð og efni og hlekk í hina rafrænu skýrslu. Hlekkurinn fæst hjá skjalavinnslu útgáfudeildar: skjalavinnsla@althingi.is.

Skýrslur sem ráðherrar vilja dreifa í prentuðum eintökum þarf að láta prenta (Prentmet Oddi) og senda Alþingi ásamt pdf-útgáfu til birtingar á vef Alþingis.

Dæmi um framsetningu skýrslna

Frumkvæði ráðherra: Skýrsla lögð fyrir Alþingi að frumkvæði ráðherra, sbr. 1. mgr. 53. gr. þingskapa.
Forsíða ásamt formála og skýrslu Stjórnarráðs Íslands, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 

Lagaskylda: Skýrsla frá forsætisráðherra skv. 5. mgr. 3. gr. laga um þjóðlendur.
Skýrsla með forsíðu/kápu 

Lagaskylda: Skýrsla frá forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2019 skv. 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis.
Skýrsla í sniðmáti 

Lagaskylda: Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um eftirlit með lánum með ríkisábyrgð.
Þingskjal ásamt fylgiskjali með tengli í skýrslu eftirlitsnefndar 

Beiðni: Skýrsla frá utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, samkvæmt beiðni.
Tengill í skýrslu með 2 bls. kynningu á aðdraganda þess að ráðherra skipar starfshóp til að vinna skýrsluna ásamt rafrænu fylgiskjali, 302 bls., skýrsla starfshóps um málið

Beiðni: Skýrsla frá mennta- og menningarmálaráðherra um árangur og áhrif þess að námstími til stúdentsprófs var styttur úr fjórum árum í þrjú ár, samkvæmt beiðni.
Skýrsla með forsíðu/kápu. Þingskjalsnúmer vantar á skjalið og það því verið stimplað með númerinu fyrir dreifingu í þingsal