Tilvísanir í Alþingistíðindi

Alþingistíðindi eru til í prentaðri útgáfu til 136. löggjafarþings 2008-2009. Frá og með 137. löggjafarþingi 2009 koma Alþingistíðindi ekki út í prentaðri útgáfu

Vefútgáfa Alþingistíðinda

Á vefsíðu Alþingis eru birtar þingræður og þingskjöl.
Þegar vísað er í þingræðu á vef Alþingis, þá þarf að geta þess hvenær upplýsingarnar voru sóttar á vefinn vegna þess að hugsanlegt er að einhverjar breytingar verði gerðar á textanum.

Tilvísun til vefútgáfu frumvarps um jarðhitaréttindi á 122. löggjafarþingi yrði þannig:
Frumvarp til laga um jarðhitaréttindi, þskj. 56, 56. mál.
Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð:
http://www.althingi.is/altext/122/s/0056.html.
[Sótt á vefinn 24.11.1998].

Bráðabirgðaútgáfa þingræðna er send út á vefinn jafnskjótt og ræður hafa verið ritaðar. Eins og þar kemur fram er óheimilt að vísa til bráðabirgðaútgáfu.
Tilvísun í vefútgáfu af ræðu Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra í utandagskrárumræðum á Alþingi um málefni LÍN yrði þannig:
Björn Bjarnason (1997). Utandagskrárumræður um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, 9. október. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð:
http://www.althingi.is/altext/122/10/r09103704.sgml.
[Sótt á vefinn 24.11.1998].

Þingskjöl (A)

Þingskjöl eru tölusett í hlaupandi röð frá 1 og áfram eftir tölu þeirra á hverju löggjafarþingi. Þingskjal er prentað plagg sem er bókað í skjalaskrá Alþingis og útbýtt formlega með tilkynningu.
Enn fremur fær hvert þingmál málsnúmer sem hvert þingskjal um málið er auðkennt með. Fyrsta mál, sem lagt er fram á hverju löggjafarþingi, verður þingmál númer 1, næsta verður þingmál númer 2 o.s.frv. Í hverju þingmáli er eitt þingskjal eða fleiri og hefur hvert þeirra sérstakt þingskjalsnúmer og málsnúmerið auk þess. Hér á eftir fara dæmi um hvernig vísa má til þingskjala.

Þingskjöl prentuð í endanlegri útgáfu Alþingistíðinda (til 136. þings 2008-2009).
Frumvarp til laga um jarðhitaréttindi, þingskjal 56.
Alþingistíðindi 1997–98, 122. löggjafarþing. A. Þingskjöl, bls. 745 –749.
Skammstafað: Frv. til laga um jarðhitaréttindi, þskj. 56. Alþtíð. 1997–98, 122. lögþ. A: 745–749.

Sérprentuð þingskjöl (lausaskjöl):
Frumvarp til laga um jarðhitaréttindi, 56. mál, þskj. 56. Alþingi 1997–98, 122. löggjafarþing.
Skammstafað: Frv. til laga um jarðhitaréttindi, 56. mál, þskj. 56. Alþingi 1997–98, 122. lögþ.

Umræður (B)

Í B-hluta Alþingistíðinda eru umræður sem fram fóru í þinginu og er þeim skipað í tímaröð eftir því hvenær þær fóru fram. Tölutilvísanir í umræður í efnisyfirliti Alþingistíðinda merkja dálkatal. Hér á eftir fer dæmi um hvernig vísa má til umræðna.

Í umræðum utan dagskrár 9. október 1997 um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna sagði Björn Bjarnason menntamálaráðherra: „Það er að koma í ljós á grundvelli stjórnsýslulaga og annarra reglna sem gilda að nauðsynlegt er að fara ofan í margar starfsaðferðir sem gilt hafa í okkar stjórnkerfi og gera þær skýrari.“

Tilvísun: Alþingistíðindi 1997– 98, 122. löggjafarþing B. Umræður: 266–267.
Skammstafað: Alþt. 1997–98, 122. lögþ. B.: 266–267.

Í efnisyfirliti Alþingistíðinda er vísað í umræður í B-hluta með skammstöfuninni umr.: og dálkatal sett þar fyrir aftan. Einfaldast er að vísa í B-hluta þannig: Alþingistíðindi 1997–1998. 122. lögþ. B. Umr.: 266–267.