Um skjöl og ræður

Alþingistíðindi

Alþingistíðindi eru til í prentaðri útgáfu frá 1845 til ársins 2009 (136. löggjafarþings).

Málsnúmer - þingskjalsnúmer

Þingmál hvers löggjafarþings sem lögð eru fram á skjölum fá tvö hlaupandi númer, málsnúmer og þingskjalsnúmer. Öll viðbótarþingskjöl í þingmálinu hafa sama málsnúmer en fá eigið þingskjalsnúmer. Málsnúmerið auðkennir þannig þingskjöl í hverju máli fyrir sig. Til dæmis er fjárlagafrumvarp yfirleitt með málsnúmer 1 og þingskjalsnúmer 1 en síðan bætast við málið fleiri skjöl þegar nefnd lýkur afgreiðslu eða þegar breytingartillögur koma fram (t.d. 1. mál, þskj. 345). Öll þingmál falla niður í lok hvers löggjafarþings.

Þingmál á skjölum eru:

  • Frumvörp 
  • Þingsályktunartillögur

Þingskjöl sem verða til við umfjöllun og afgreiðslu frumvarpa og þingsályktunartillagna:

  • Nefndarálit (þar á meðal frá meiri hluta og minni hluta ef nefnd klofnar)
  • Breytingartillögur
  • Stöðuskjöl (frumvarp eftir 2. umræðu með öllum samþykktum breytingum)
  • Lokaskjal (lög, þingsályktanir)

Þingmál sem tengjast eftirlitsstörfum alþingismanna eru:

  • Fyrirspurnir
  • Skýrslur og skýrslubeiðnir

Þingmál án skjala eru:

Mál á dagskrá þingfundar sem eru ekki á þingskjali

  • Sérstök umræða
  • Störf þingsins
  • Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagur)
  • Stefnuræða forsætisráðherra
  • Óundirbúnar fyrirspurnir (óundirbúinn fyrirspurnatími)
  • Munnleg skýrsla
  • Kosningar í nefndir og ráð
  • Minningarorð

Mál sem ekki eru á þingskjali og eru tekin upp á þingfundi utan dagskrár:

  • Tilkynningar
  • Um fundarstjórn
  • Afbrigði um dagskrármál
  • Varamaður tekur þingsæti
  • Rannsókn kjörbréfs
  • Þingsetning
  • Þingfrestun

Vinnsla og frágangur á skjölum og ræðum

Þingræður

Frá september 2019 hefur gervigreindur talgreinir skrifað upp ræður þingmanna og sérfræðingar í útgáfudeild fara yfir og lagfæra textann. Bráðabirgðaútgáfa ræðutexta verður aðgengileg á vefnum undir nafni ræðumanns jafnskjótt og hann hefur verið yfirlesinn. Fyrir þann tíma var ræðutextinn sleginn inn eftir hljóðupptökum í UTF-8 textaskjöl með XML markup. Frá 1992 til október 2004 var textinn í iso-8859-1 textaskjölum með SGML markup.

Þingskjöl

Skjalavinnsla útgáfudeildar vinnur nær öll þingskjöl í WordPerfect en þeim er síðan breytt vélrænt í HTML sem birtist á vefnum. Þau eru jafnframt gefin út sem PDF á vefnum. Einstaka þingskjöl eru einungis tiltæk sem PDF, svo sem fjárlög og flestar skýrslur ráðherra. Einnig eru hlutar af sumum skjölum aðeins aðgengilegir í PDF-útgáfunni.

Ný þingskjöl birtast að jafnaði á vefnum skömmu eftir að þeim er útbýtt. Skjölin koma inn í textaleit nóttina eða helgina eftir að þau birtast á vefnum.

Word-sniðmát fyrir þingskjöl og upplýsingar um útlit þeirra.

Eldri texti

Unnið hefur verið að því að birta efni á vef þingsins sem áður var eingöngu gefið út í prentaðri útgáfu.

Efnisyfirlit Alþingistíðinda

Heiti mála hafa verið skráð í gagnagrunninn aftur til 1907 (20. löggjafarþings) og efnisorð o.fl. hafa að mestu verið skráð aftur til 1936 (50. löggjafarþings). Þingmenn og varamenn, nefndaseta, flutningsmenn og númer þingskjala, ræðumenn, umræður og fleira hefur einnig verið skráð og þannig er innihald efnisyfirlits Alþingistíðinda frá þessum þingum að mestu aðgengilegt á vefnum.

R E P R O

Standi REPRO í skjali þýðir það að skjalið eða hluti þess er myndað í prentsmiðju og textinn því ekki til á tölvutæku formi á skrifstofu Alþingis. Oft er um að ræða stjórnarfrumvörp sem unnin hafa verið í ráðuneytum.

Tenging við lagasafn

Undir stjórnartíðindanúmeri samþykktra frumvarpa er tilvísun í lagasafn. Þar sem ýmis lög eru ekki sett í lagasafnið, svo sem fjárlög, fjáraukalög og breytingalög, og lög hafa fallið brott síðar er þessi tilvísun oft óvirk.