Skjalagerð

Framsetning þingskjala

Við gerð þingskjala ber að nota sniðmát. Í þeim eru stílar fyrir meginmál, mismunandi gerðir fyrirsagna og tölu- og stafliði til að auðvelda uppsetningu, sjá nánari leiðbeiningar hér.

Sniðmát (templates)

Útlit og efni þingskjala

 • Uppsetning skal vera látlaus, t.d. er lítið um leturbreytingar.
 • Þingskjöl eru prentuð í crown-broti sem er töluvert minna en A4. Prentflötur er 20,5 x 13,8 cm. Myndir, töflur og annað þarf að rúmast innan þess ramma.
 • Letur: Times New Roman. Leturstærð: Texti í meginmáli og fyrirsagnir eru 10,5 punktar nema fyrirsögn skjalsins. Smærra letur er stundum notað í töflum og víðar ef sérstök ástæða þykir til.
 • Prentun er að jafnaði í svart-hvítu. Myndir í lit sjást í pdf-útgáfu.
 • Blaðsíðunúmer eru efst á síðu fyrir miðju. Blaðsíðutal þarf að vera samfellt.
 • Fyrsta lína málsgreinar er alltaf inndregin og ekki er aukabil milli málsgreina.
 • Stílar fyrir meginmál og mismunandi gerðir fyrirsagna eru í kassanum Stílsnið (Styles) á heim-flipanum (Home) á borðanum efst. Með örinni neðst í hægra horninu á Stílsniða-kassanum er aðgengilegur listi yfir stílana.
 • Greinargerðir þurfa að vera hnitmiðaðar og til skýringar á efni og markmiði með flutningi máls. Stutt greinargerð má fylgja breytingartillögu við lagafrumvarp, sbr. 46. gr., og skýrslubeiðni, sbr. 54. gr. laga um þingsköp Alþingis.
 • Heimilda er almennt getið í almennum texta en í undantekningartilfellum í neðanmálsgrein. Fylgiskjöl mega fylgja þingmálum ef nauðsynlegt er talið.
 • Við endurflutning mála skal geta málsnúmers frá fyrri / síðasta flutningi máls, þ.e. var áður lagt fram á xxx. löggjafarþingi (xx. mál). Uppfæra þarf efni, þ.m.t. lög, upplýsingar og tölur sem hafa breyst frá fyrri flutningi.
 • Nánari upplýsingar fást hjá skjalavinnslu útgáfudeildar: skjalavinnsla@althingi.is

Númer

 • Þingfundadeild gefur skjölum númer eftir að þau hafa verið send til framlagningar á skraning@althingi.is. Þingskjöl bera þingskjalsnúmer og málsnúmer. Öll skjöl í sama þingmáli hafa sameiginlegt málsnúmer en mismunandi þingskjalsnúmer. Sem dæmi má nefna að svar ber sama málsnúmer og viðkomandi fyrirspurn en fær sitt eigið þingskjalsnúmer þegar svarið hefur verið skráð.
 • Í þingskjölum koma ekki fram útgáfuupplýsingar, svo sem um prentsmiðju og ISBN-/ISSN-númer.

Annað