Tilkynningar

Fimmta græna skrefinu fagnað

25.2.2022

Forseti Alþingis og yfirstjórn skrifstofu Alþingis tóku í dag á móti viðurkenningu frá Umhverfisstofnun í tilefni þess að Alþingi hefur tekið 5. og síðasta Græna skrefið. Fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun og er nýsamþykkt umhverfis- og loftslagsstefna hluti af því verkefni.

Með umhverfis- og loftslagsstefnunni skuldbindur Alþingi sig til þess að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif sem hljótast af starfseminni og að stuðla að fræðslu á sviði umhverfismála til þingmanna og starfsfólks. Stefnan inniheldur skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og kolefnisjöfnun starfsemi Alþingis ásamt aðgerðaáætlun um hvernig ná eigi þeim markmiðum. Umhverfis- og loftslagsstefnan er sett fram til ársins 2030 og endurskoðuð árlega.

Öflugt umhverfisstarf hefur verið á Alþingi undanfarin ár og er það hluti af menningu vinnustaðarins að huga að umhverfinu í hvívetna. Umhverfissjónarmið voru höfð að leiðarljósi við hönnun og byggingu á nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis sem tekið verður í notkun árið 2023. Húsnæðið verður með BREEAM-vottun um visthæfi nýrra bygginga en helstu þættir sem eru skoðaðir við BREEAM-vottun bygginga eru orka, mengun, heilsa og vellíðan, efnisval, úrgangur, umhverfisstjórnun, vatn, landnotkun og vistfræði og nýsköpun. BREEAM-vottunin mun veita aðhald og stuðning við að ná fram því markmiði að minnka kolefnisspor Alþingis.

Afhending3

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, afhendir Birgi Ármannssyni, forseta Alþingis, viðurkenningu fyrir að Alþingi hefur nú náð 5. græna skrefinu. 

FimmskrefFyrsta græna skrefið var tekið 26. október 2018 það fimmta og síðasta 25. febrúar 2022. Og áfram verður haldið. Með nýsamþykktri umhverfis- og loftslagsstefnu skuldbindur Alþingi sig til þess að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif sem hljótast af starfseminni og að stuðla að fræðslu á sviði umhverfismála til þingmanna og starfsfólks.