Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 254  —  228. mál.
Frumvarp til lagaum skylduskil til safna.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)I. KAFLI


Almenn ákvæði.
1. gr.
Tilgangur.

    Tilgangur þeirrar skilaskyldu sem á er lögð í lögum þessum er að tryggja:
     1.      að unnt sé að varðveita til frambúðar þann íslenska menningararf sem skilaskylda nær til samkvæmt lögum þessum;
     2.      að unnt sé að gera og gefa út tæmandi skrár um þetta efni eða tiltekinn hluta þess;
     3.      að efnið geti verið tiltækt til nota vegna rannsókna og fræðiiðkana eða annarra réttmætra þarfa.

2. gr.
Varðveislusöfn.

    Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Amtsbókasafninu á Akureyri og Kvikmyndasafni Íslands er gert að varðveita skyldueintök og fara með þau í samræmi við tilgang þessara laga skv. 1. gr.

II. KAFLI
Skilaskyld verk.
3. gr.
Skilaskylda.

    Af verkum sem gefin eru út eða birt hér á landi skal afhenda eintök til skylduskila samkvæmt því sem kveðið er á um í 4.–11. gr.
    Verk telst birt í skilningi laga þessara þegar eintök af því hafa verið löglega gefin út eða þegar það er með réttri heimild gert aðgengilegt almenningi með öðrum hætti, svo sem ef það er flutt eða sýnt opinberlega eða er aðgengilegt almenningi á rafrænu formi um tölvunet.
    Verk telst birt hér á landi þótt það sé framleitt erlendis ef það er sérstaklega ætlað til dreifingar hér á landi.

4. gr.
Verk sem gefin eru út á pappír.

    Af verkum sem gefin eru út á pappír skal afhenda fjögur eintök.
    Séu verk framleidd hér á landi hvílir skilaskyldan á framleiðsluaðila, þ.e. þeim sem skilar frá sér fullbúnu verki, prentsmiðju, fjölföldunarstofu eða bókbandsstofu. Sé ekki ljóst hver sá aðili er eða skil bregðast hjá honum getur móttökusafn farið fram á að útgefandi eða sá sem sér um dreifingu verkanna inni skilaskylduna af hendi.
    Þegar um er að ræða verk sem framleitt er erlendis hvílir skilaskyldan á útgefanda þess.
    Landsbókasafn veitir viðtöku verkum samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Landsbókasafn skal varðveita þrjú eintök en Amtsbókasafnið eitt eintak.
    Séu afbrigði í texta, myndefni, pappír eða öðrum frágangi sama upplags af útgefnu verki skal að auki afhenda eitt eintak af hverju afbrigði. Tölusetning eintaka er þó undanþegin þessu ákvæði. Landsbókasafn varðveitir þau eintök sem hér um ræðir.
    Nýjar útgáfur af verkum eru einnig háðar skilaskyldu, enn fremur endurprentanir.

5. gr.
Örgögn og skyggnur.

    Af verkum sem gefin eru út sem örgögn, á skyggnum eða á samsvarandi miðlum skal afhenda þrjú eintök og hvílir skilaskylda á útgefanda.
    Landsbókasafn veitir viðtöku efni samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Landsbókasafn varðveitir tvö eintök en Amtsbókasafnið eitt.

6. gr.
Hljóðrit.

    Af útgefnum hljóðritum, þ.e. hvers konar tal- og tónupptökum, þ.m.t. hljóðbókum, skal afhenda þrjú eintök og hvílir skilaskylda á útgefanda.
    Landsbókasafn veitir hljóðritunum viðtöku og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Landsbókasafn varðveitir tvö eintök en Amtsbókasafnið eitt.

7. gr.
Verk útgefin á rafrænu formi.

    Af verkum sem gefin eru út á geisladiski, disklingi eða sambærilegu formi skal afhenda þrjú eintök og hvílir skilaskylda á útgefanda.
    Skylda til afhendingar skv. 1. mgr. nær ekki til tölvuforrita nema forritið sé birt ásamt verki af annarri tegund sem skilaskylda nær til.
    Landsbókasafn veitir viðtöku efni samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Landsbókasafn varðveitir tvö eintök en Amtsbókasafnið eitt.

8. gr.
Verk á rafrænu formi á almennu tölvuneti.

    Sá sem birtir verk á rafrænu formi á almennu tölvuneti skal veita móttökusafni aðgang að verkinu. Hann skal láta safninu í té aðgangsorð og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að stofnunin fái aðgang að verkinu. Afhendingarskyldu telst fullnægt sé móttökusafni gert kleift að taka til sín eintak af verkinu.
    Skylda til afhendingar skv. 1. mgr. nær ekki til tölvuforrita nema forritið sé birt ásamt verki af annarri tegund sem skilaskylda nær til.
    Landsbókasafn skal varðveita verk sem birtast á rafrænu formi á neti. Safnið setur nánari reglur um afhendingu þessara gagna.

9. gr.
Samsettar útgáfur.

    Af samsettum útgáfum, svo sem prentuðu efni, skyggnum, myndböndum, hljóðritum, geisladiskum, tölvudisklingum o.fl., skal afhenda fjögur eintök. Gildir einu hvort hið afhendingarskylda birtist á tvenns konar miðlum eða fleiri tegundum miðla.
    Skilaskylda hvílir á útgefanda.
    Landsbókasafn veitir viðtöku verkum samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Landsbókasafn varðveitir þrjú eintök en Amtsbókasafnið eitt.

10. gr.
Útvarpsefni.

    Útsendar dagskrár Ríkisútvarpsins – hljóðvarps og sjónvarps – skal afhenda í einu eintaki. Aðrar íslenskar hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar skulu láta í té eitt eintak af þeim hlutum dagskrár sem móttökusafn kallar eftir.
    Skilaskylda útvarpsefnis hvílir á rekstraraðila.
    Kvikmyndasafn Íslands skal varðveita dagskrár samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Heimilt er móttökusafni að gera samkomulag við Ríkisútvarpið um að það varðveiti dagskrár þess, bæði hljóðvarps og sjónvarps.

11. gr.
Kvikmyndir.

    Af íslenskum kvikmyndum sem gefnar eru út eða sýndar opinberlega skulu afhent tvö eintök. Skal annað eintakið vera frumeintak eða ígildi þess enda virði móttökusafnið aðgangsheimildir allra þeirra er rétt eiga á aðgangi að frumeintakinu. Hitt filmueintakið má vera notað sýningareintak. Ef kvikmynd er birt á fleiri en einu formi, til dæmis bæði á filmu og myndbandi, skal afhenda tvö eintök af hvorri/hverri gerð.
    Af íslenskum kvikmyndum sem gefnar eru út á myndböndum, mynddiskum eða á öðru sambærilegu formi skal til viðbótar afhenda eitt sýningareintak.
    Af erlendum kvikmyndum með íslenskum texta eða íslensku tali sem sýndar eru í kvikmyndahúsum skal afhenda eitt sýningareintak. Móttökusafni skal heimilt að varðveita einungis úrval þeirra mynda sem eru afhendingarskyldar samkvæmt þessari málsgrein.
    Af erlendum kvikmyndum sem eru með íslenskum texta eða íslensku tali og dreift er til almennings á myndböndum, mynddiskum eða á öðru formi skal afhenda tvö ónotuð eintök.
    Kynningarefni tengt kvikmyndum, svo sem veggspjöld, annað álíka prentefni og ljósmyndir, skal afhent í tveimur eintökum.
    Sé kvikmynd tekin á filmu afhendir framleiðandi móttökusafni skriflega aðgangsheimild að frumeintaki kvikmyndarinnar innan mánaðar frá frumsýningu myndarinnar. Aðgangsheimild þessi heimilar móttökusafni að gera sýningareintök af myndinni á eigin kostnað og taka hana í sína vörslu að sjö árum liðnum eða fyrr í samráði við framleiðanda og aðra þá sem eiga aðgang að frumeintakinu.
    Skilaskylda íslenskrar kvikmyndar hvílir á framleiðanda hennar. Skilaskylda erlendrar kvikmyndar hvílir á dreifingaraðila hér á landi.
    Kvikmyndasafn Íslands varðveitir efni samkvæmt þessari grein og hefur eftirlit með skilum þess samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð, sbr. þó 9. mgr. Þó skal eintak íslenskra kvikmynda sem kveðið er á um í 2. mgr. varðveitt í Landsbókasafni. Kvikmyndasafn Íslands varðveitir það kynningarefni sem um getur í 5. mgr.
    Frumeintak af íslenskum kvikmyndum sem framleiddar eru á filmu skal afhent innan sjö ára frá frumsýningardegi. Ef frumeintak kvikmyndar er enn í notkun að sjö árum liðnum er heimilt að varðveita frumeintak kvikmyndarinnar í framköllunarfyrirtæki í samráði við móttökusafn. Framleiðanda ber skylda til að láta móttökusafn vita um allar breytingar á vistun myndarinnar. Sýningareintak af slíkum myndum skal afhenda innan tveggja ára frá frumsýningardegi. Móttökusafni skal einnig heimilt að láta gera nýtt sýningareintak á eigin kostnað.
    Íslenskar kvikmyndir sem framleiddar eru á myndbandi eða á formi sem ekki krefst þess að þjónusta sé sótt til útlanda vegna framköllunar skulu afhentar innan árs frá frumsýningu eða útgáfu.
    Sé íslensk kvikmynd samframleiðsla með erlendum aðila getur hinn íslenski framleiðandi mælt fyrir um að í stað afhendingar til Kvikmyndasafns Íslands verði frumeintak varðveitt á erlendu kvikmyndasafni sem á aðild að alþjóðasamtökum kvikmyndasafna, FIAF. Í slíku tilviki skal framleiðandi tilkynna Kvikmyndasafni Íslands hvaða erlent safn varðveitir frumeintakið.

III. KAFLI
Framkvæmd skylduskila.
12. gr.
Frágangur efnis.

    Skilaskyld verk skal afhenda í endanlegri gerð og á því formi sem þau birtast notendum. Skyldueintök skulu vera heil og gallalaus. Með verkunum skal afhent það efni sem er framleitt til þess að fylgja þeim við dreifingu.
    Móttökusafni er heimilt að semja við skilaskyldan aðila um sérstakan frágang á efni ef þurfa þykir.

13. gr.
Innsiglun.

    Það efni sem er trúnaðar- eða einkamál og aðeins birt til mjög takmarkaðra afnota getur útgefandi ákveðið að móttökusafn geymi innsiglað tiltekinn tíma og er safni skylt að heita því með skriflegri yfirlýsingu ef óskað er. Sá tími sem efni er þannig innsiglað að ósk útgefanda má ekki fara fram úr gildistíma höfundaréttar. Útgefandi getur ákveðið að þann tíma sem prentað eða fjölfaldað efni er innsiglað séu öll skyldueintök varðveitt í Landsbókasafni. Af efni sem opinber yfirvöld gera upptækt skulu lögregluyfirvöld tryggja skil eintaka og kveða á um innsiglun þeirra.


14. gr.
Tæknilegar upplýsingar.

    Skilaskyldum aðila ber að verða við óskum móttökusafns um að láta í té þær tæknilegu upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að verkið komi að notum. Hinn skilaskyldi getur farið fram á að þessar tæknilegu upplýsingar verði ekki látnar óviðkomandi í té.

15. gr.
Meðferð verka.

    Skilaskyld verk eru aðgengileg notendum að því marki sem höfundalög heimila.

16. gr.
Skráning.

    Safn skal gera skrár um þau verk sem það varðveitir samkvæmt lögum þessum. Nánar skal mælt fyrir um skráninguna í reglugerð. Útgefanda er skylt að verða við ósk móttökusafns um að veita þær upplýsingar um útgefið verk sem eru nauðsynlegar vegna skráningarinnar.

17. gr.
Kostnaður af skylduskilum.

    Skilaskyldur aðili ber kostnað af skylduskilum. Þó ber útgefandi kostnað af skilum verka skv. 4. gr.
    Setja má í reglugerð heimildarákvæði um að móttökusafn greiði í vissum tilvikum fyrir skilaskyld verk og afhendingu þeirra.

18. gr.
Lok reksturs hjá skilaskyldum aðila.

    Falli skilaskyldur aðili frá eða verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta tekur dánar- eða þrotabúið við skyldum hans samkvæmt lögum þessum.

19. gr.
Undanþágur.

    Undanþeginn skylduskilum er prentaður gjaldmiðill, svo sem bankaseðlar, verðbréf og frímerki.
    Í reglugerð er heimilt að mæla fyrir um frekari undanþágur frá skylduskilum.

20. gr.
Nánari ákvæði.

    Í reglugerð skal kveðið nánar á um framkvæmd skilaskyldu, svo sem um skilagrein er fylgja skuli efninu, hámarksfrest á skilum og þess háttar.

IV. KAFLI
Viðurlög.
21. gr.

    Nú afhendir skilaskyldur aðili ekki verk innan þess frests sem ákveðinn er í lögum þessum eða reglugerð og getur þá móttökusafnið að undangenginni aðvörun lagt á hann dagsektir. Kröfu um dagsektir má innheimta með aðför.

V. KAFLI
Gildistaka.
22. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög nr. 43/1977, um skylduskil til safna. Jafnframt fellur úr gildi ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 66/1985, um Þjóðskjalasafn Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Var það lagt fram á 125. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Fyrir framlagningu nú hefur það verið endurskoðað í ljósi athugasemda sem menntamálanefnd bárust og nokkrar breytingar gerðar á því. Í hinni endurskoðuðu gerð er ekki gert ráð fyrir að tölvuforrit falli undir skylduskilin nema forritið sé birt ásamt annarri tegund sem skilaskylda nær til. Að öðru leyti eru ákvæði um skil rafrænna gagna, þ.m.t. á neti, óbreytt. Þá hefur frumvarpinu verið breytt þannig að rýmkaður er aðgangur framleiðenda íslenskra kvikmynda að frumeintaki myndar og tekið fram að annað skilaskyldueintakið geti verið notað sýningareintak. Einnig er lagt til að heimilað verði að varðveita frumeintakið í erlendu framköllunarfyrirtæki í samráði við móttökusafnið ef eintakið er enn í notkun að sjö árum liðnum.
    1. ágúst 1997 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að endurskoða gildandi lagaákvæði um skylduskil til safna. Var nefndinni falið að semja drög að frumvarpi til nýrra laga um þetta efni, ásamt greinargerð. Tillögur nefndarinnar áttu m.a. að taka til eftirtalinna atriða:
     a.      Hvaða efni skuli lúta skilaskyldu og á hverjum skyldan skuli hvíla. Í því sambandi átti sérstaklega að hafa hliðsjón af þróun sem orðið hefur frá því að núgildandi lög voru sett, að því er varðar framleiðslutækni, formbúning gagna og dreifingarhætti.
     b.      Hvaða stofnanir skuli vera móttöku- og varðveislustöðvar skilaskylds efnis og einstakra efnistegunda.
     c.      Hversu umfangsmikil skylduskilin skuli vera að því er varðar eintakafjölda.
     d.      Hvaða reglur skuli gilda um varðveislu og afnot skilaskylds efnis, m.a. í ljósi höfundalaga, nr. 73/1972, með síðari breytingum.
    Nefndinni var ætlað að kanna hvernig þessum málum væri nú skipað í nágrannalöndum Íslands, í meginatriðum, og gera grein fyrir því í skýrslu sinni. Loks var henni falið að meta og gera grein fyrir kostnaði af þeirri tilhögun sem hún gerir tillögu um.
    Í nefndinni áttu sæti: Einar Sigurðsson landsbókavörður, formaður nefndarinnar, Böðvar Bjarki Pétursson, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, Erla S. Árnadóttir hæstaréttarlögmaður og Þóra Óskarsdóttir bókasafnsfræðingur.

Tilgangur laga um skylduskil.

    Tilgangur lagaákvæða um skylduskil er að tryggja að sá hluti þjóðararfsins og menningar okkar sem lögin ná til varðveitist fyrir komandi kynslóðir, verði skráður og sé aðgengilegur til rannsókna og skoðunar.

Söguleg þróun.


    Fyrstu lög um skylduskil til íslenskra safna voru sett 1886. Samkvæmt þeim voru Landsbókasafni látin í té tvö eintök prentaðs efnis, en amtsbókasöfnin á Akureyri og í Stykkishólmi fengu eitt eintak hvort. Auk þess voru Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn afhent tvö eintök og háskólabókasafninu þar eitt eintak. Skilaskyldan nam því alls sjö eintökum.
    Fyrir þennan tíma eða allt frá árinu 1662 hafði íslenskum prentsmiðjum verið gert skylt að senda Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn og síðar einnig bókasafni Hafnarháskóla eintök af öllu því sem prentað var hér á landi.
    Árið 1909 bættust Amtsbókasafnið á Seyðisfirði og Bókasafn Ísafjarðar í hóp prentskilasafna, 1928 Amtsbókasafnið í Færeyjum og 1939 háskólabókasafnið í Winnipeg. Árið 1941 samþykkti Alþingi að hið nýstofnaða Háskólabókasafn fengi framvegis eitt eintak af öllu því efni sem Landsbókasafni bæri að fá tvö eintök af. Hafði þá Háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn helst úr lestinni. Samtals voru prentskilaeintökin ellefu þegar hér var komið.
    Samkvæmt lögum um skylduskil frá 1949 var prentsmiðjum landsins gert að láta Landsbókasafni í té fjögur eintök af smáprenti, átta eintök af blöðum sem koma út einu sinni í viku eða oftar og tólf eintök af öllu öðru prentmáli. Skyldi Landsbókasafn varðveita tvö eintök, eitt var lagt til Háskólabókasafns og eitt til bókasafns Norðurlands á Akureyri. Öðrum skyldueintökum skyldi Landsbókasafn ráðstafa til bókasafna og vísindastofnana. Nánari skipting þeirra var ákveðin þannig í reglugerð að bókasöfnin í Stykkishólmi, á Ísafirði og á Seyðisfirði skyldu hafa rétt til að velja úr þeim ritum sem væru ein örk eða stærri og úr tímaritum sem kæmu út mánaðarlega eða sjaldnar. Því sem afgangs yrði skyldi úthlutað til erlendra bókasafna og vísindastofnana og ættu þjóðbókasöfn Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar að sitja í fyrirrúmi, en vestan hafs háskólabókasafnið í Winnipeg.
    Þegar kom til þess að setja ný lög um skylduskil, í stað laganna frá 1949, fól menntamálaráðuneytið Finnboga Guðmundssyni landsbókaverði, Ólafi Pálmasyni, deildarstjóra í Landsbókasafni, og Knúti Hallssyni skrifstofustjóra að semja frumvarp um efnið, og var það lagt fram á vorþinginu 1974 en dagaði uppi bæði þá og á næstu þingum, var loks samþykkt nokkuð breytt vorið 1977. Skyldueintökum var þá fækkað í fjögur en þau voru áður í sumum tilvikum tólf eins og áður segir. Heimilt skyldi þó landsbókaverði að óska afhendingar á allt að tíu eintökum af ríkisstyrktum ritum. Í reynd hefur þessu ákvæði ekki verið fylgt eftir nema að hluta til.
    Af eintökunum fjórum skyldi Landsbókasafn varðveita tvö eintök, annað sem varaeintak en Amtsbókasafnið á Akureyri og Háskólabókasafnið sitt hvort, og hefur síðarnefnda safnið að vissu marki haft rétt til að lána ritin út.
    Nýmæli í lögunum frá 1977 er að afhenda skuli þrjú eintök af hljómplötum og öðrum útgefnum tón- og talupptökum . Landsbókasafnið skal varðveita tvö eintök en Amtsbókasafnið á Akureyri eitt.

Alþjóðlegar viðmiðanir.

    Það er hlutverk þjóðbókasafna að safna skráðri menningarsögu þjóðar sinnar. Þjóðbókasafnið ber ábyrgð á því að efnið sé vel skipulagt og ávallt til reiðu til rannsókna og skoðunar. Flest þjóðbókasöfn hafa byggt upp innlendan safnkost með skylduskilum. Skylduskil í flestum löndum hafa lengst af takmarkast við prentuð verk vegna þeirrar aldagömlu hefðar að öll útgáfa hefur birst prentuð á pappír. Á undanförnum áratugum hefur önnur tækni rutt sér til rúms, og útgáfa á nýjum miðlum fer vaxandi með ári hverju. Því hafa þjóðir hver af annarri endurskoðað lög sín um skylduskil í því skyni að þau taki til þessara nýju útgáfumiðla.
    Árið 1981 gaf UNESCO út í samvinnu við IFLA (International Federation of Library Associations and Institutions) tillögur að lögum um skylduskil ( Guidelines for Legal Deposit, Jean Lunn, UNESCO 1981). Þar er mælt með því að hafa lögin rammalög svo að þau geti átt við sem flesta útgáfumiðla sem kynnu að verða til í framtíðinni en láta lögunum fylgja nánari ákvæði í reglugerð vegna þess að auðveldara er að breyta reglugerð en lögum. Áhersla er lögð á að tilgangur skylduskila sé vel greindur.
    Í Guidelines for Legislation for National Library Services (Peter Johan Lor, UNESCO 1997) er einnig mælt með því að forðast nákvæmar skilgreiningar, heldur nota frekar almennt orðalag til þess að hægt sé að fella þar undir verk og miðla sem kunna að koma fram síðar.
    Í The Legal Deposit of Electronic Publications (a Working Group of the Conference of Directors of National Libraries, UNESCO 1997) er mælt með því að lög séu eins víðtæk og mögulegt er. Þar er einnig ráðlagt að taka með frekar en útiloka efni sem einhver vafi leikur á að skuli vera skilaskylt. Varað er við því að gera greinarmun á rafrænum útgáfum í föstu formi og rafrænum útgáfum á neti (e. off-line og on-line) og mælt með því að taka með bæði útgáfuformin, sérstaklega þar sem horfur eru á hraðri þróun í átt að netútgáfum. Það er svo undir óskum þjóðbókasafnsins komið, svo og tæknilegum forsendum, hversu langt er gengið í innheimtunni, og má eftir atvikum mæla fyrir um slíkt í reglugerð.

Norræn lög um skilaskyldu.

    Hinir nýju miðlunarhættir og fjölbreytileiki gagna gerir það að verkum að setning laga um skylduskil til safna er miklu flóknara viðfangsefni nú en áður. Gildir þá einu að kalla hvort hugað er að lagasetningu í litlu samfélagi eða stóru. Nefndin sem að málinu vann reyndi hins vegar að nýta sem best þá vinnu sem lögð hefur verið í málið með þeim þjóðum sem eru okkur menningarlega skyldastar, og hefur þá eðlilega öðru fremur verið litið til annarra Norðurlandaþjóða. Þær ýmist vinna nú að nýrri lagasetningu eða hafa endurnýjað löggjöf sína um skylduskil á síðustu árum.
     Norsk lög um skylduskil tóku gildi 1. júlí 1990. Þau voru á þeim tíma einhver hin róttækustu í heiminum að því er tekur til nýrra miðla. Eigi að síður eru þau nú þegar í endurskoðun. Aðalatriði laganna eru þessi:
    Skilaskylda nær til birtra verka, þ.e. verka sem hafa verið gerð aðgengileg almenningi.
    Verkum á pappír og skyldum miðlum, örgögnum og ljósmyndum á að skila í sjö eintökum.
    Hljóðrit, kvikmyndir, myndbönd, verk á tölvutæku formi og samsett verk á þessum miðlum á að afhenda í tveimur eintökum.
    Útvarps- og sjónvarpssendingar á að afhenda í einu eintaki.
    Gögn ber að afhenda án þess að greitt sé fyrir þau eða sendingu þeirra. Heimilt er þó móttökusafni að láta greiðslu koma fyrir mjög dýr verk að einhverju eða öllu leyti ef eftir er sótt.
    Í reglugerð frá 25. maí 1990 er kveðið á um framkvæmd skylduskila, svo sem form og frágang efnis, upplýsingar er fylgi, skilafrest, móttökustofnanir , í hvaða tilvikum skyldan hvíli á útgefanda, framleiðanda eða innflytjanda, undanþágur o.fl.
    Þá mælir reglugerðin fyrir um að móttökustofnun kvikmynda og myndbanda sé Norsk filminstitutt.
    Óslóardeild þjóðbókasafnsins er móttökusafn fyrir hljóðrit, annað efni fer til þjóðbókasafnsdeildarinnar í Mo i Rana og deilist þaðan út til annarra móttökustofnana, nema tvö eintök sem haldið er á staðnum. Er annað ætlað til millisafnalána og þess háttar, hitt er varaeintak, varðveitt í traustri neðanjarðargeymslu.
    Norsku skylduskilalögin setja eins og áður segir strangari reglur um skil rafrænna gagna en algengt var orðið á þeim tíma sem þau voru sett. Reglugerðarákvæði heimila þó þjóðbókasafninu að taka ákvarðanir um hverju það vill safna af rafrænu efni. Framkvæmdin hefur reynst vandkvæðum bundin, einkum þegar gögnum í föstu formi (svo sem disklingum og CD-ROM) sleppir. Álitamálin varða m.a. skilgreiningu þess sem afhenda skal og hvernig varðveita skuli, m.a. með tilliti til úreldingar á búnaði. Höfundaréttarmál eru líka nálæg, svo og hvernig standa skuli að skráningu. Starfshópur reifaði þennan vanda í skýrslu í desember 1995 ( Rapport fra arbeidsgruppe vedrørende problemer knyttet til pliktavlevering av elektronisk publiserte dokument, Oslo/Mo i Rana). Þá hefur síðan 1. nóvember 1996 verið unnið að verkefni í Mo i Rana um tilhögun skila á tímaritum á rafrænu formi.
     Sænsk lög um skylduskil tóku gildi 1. janúar 1994. Um svipað leyti var gefin út reglugerð þar sem mælt er nánar fyrir um útfærslu laganna.
    Gagnstætt því sem er um norsku og dönsku lögin um skylduskil, svo og ráðleggingar UNESCO, eru sænsku lögin mjög ítarleg.
    Aðalatriði laganna eru þessi:
    Skilaskylda nær til verka sem birt hafa verið almenningi, þ.e. boðin til sölu, leigu, útláns eða á annan hátt dreift opinberlega, eða í fyrirtækjum til stórra lokaðra hópa.
    Prentað mál er að jafnaði afhent í sjö eintökum. Móttökustofnanir eru Konunglega bókasafnið og háskólabókasafnið í Lundi sem er eins konar varaþjóðbókasafn, svo og fimm önnur háskólabókasöfn, og er aðgengi að efninu í meginatriðum háð ákvörðun viðkomandi háskóla. Skylduskilaefni sem er varðveitt í Konunglega bókasafninu er ekki heimilt að lána út.
    Efni á blindraletri er afhent í tveimur eintökum.
    Kvikmyndir, myndbönd og hljóðrit eru afhent í einu eintaki, sömuleiðis dagskrár útvarps og sjónvarps. Móttökusafn er Arkivet för ljud och bild (ALB) sem er sjálfstæð stofnun.
    Sænsku skylduskilalögin fela þannig í sér lagafyrirmæli um hvers kyns skilaskylt efni, óháð því hver varðveislustofnunin er.
    Í reglugerð nr. 1439 frá 9. desember 1993 er m.a. mælt fyrir um varðveislu skylduskilaeintaka og notkun, svo og um gerð afrita í ALB og útlán þeirra.
    Gildandi lög hafa ekki reynst fullnægjandi í öllum atriðum. Þau taka til að mynda aðeins til rafrænna gagna í föstu formi (svo sem disklinga og CD-ROM), en ekki rafrænna gagna á neti.
    Svíar hafa stofnað til starfshóps sem vinnur að því að búa til forrit til að slæða upp sænskt efni á vefnum sem vera ætti skilaskylt. Verkefnið gengur undir nafninu Kulturarw³, og er fylgst af áhuga með framgangi þess bæði annars staðar á Norðurlöndum og víðar.
    Í september 1998 kom út skýrsla nefndar sem skipuð var til að endurskoða lögin með tilliti til rafrænna gagna, E-plikt (SOU 1998:111). Þar eru m.a. lagðar til eftirfarandi breytingar:
    Margmiðlunarverkum í föstu formi (t.d. CD-ROM) skal skilað í átta eintökum. Eitt eintak fer til ALB eins og áður, en bókasöfnunum eru tryggð sjö eintök eins og um prentað efni væri að ræða.
    Verk sem birtast á rafrænu formi á neti eiga að afhendast í tveimur eintökum eftir beiðni, en einnig er hægt að afhenda verkin rafrænt um tölvunet. Taka skal tillit til tæknilegra og fjárhagslegra aðstæðna þess afhendingarskylda þegar ákveðið er á hvernig formi verkin eiga að afhendast. Skylda til að veita móttökusafni aðgang að rafrænu efni á neti hvílir á þeim er stofnar til gagnasafns .
     Dönsk lög
um skilaskyldu tóku gildi 1. janúar 1998. Þau eru mjög stuttorð, ekki síður en þau norsku, en jafnhliða gildistöku þeirra var gefin út reglugerð sem telja verður forsendu þess að hægt sé að starfa eftir lögunum, og er þar m.a. kveðið á um hvaða efni er afhendingarskylt og hvað ekki, hver á að afhenda og hvenær og hvaða stofnanir veita efninu viðtöku og varðveita það.
    Aðalatriði laganna eru þessi:
    Öll verk sem eru gefin út skal afhenda í tveimur eintökum, óháð þeim miðli sem notaður er við framleiðsluna.
    Skilaskylda nær til útgefinna verka, þ.e. verka sem hafa verið sett á markað með samþykki höfundar eða dreift til almennings á annan hátt. Verk er einnig talið útgefið ef það er aðgengilegt í gagnabanka þannig að unnt sé að afrita það þegar notanda hentar. Með útgáfu er enn fremur átt við dreifingu verka til almennings með heimild í 2. kafla höfundalaga, nr. 395/1995.
    Rafræn gögn í föstu formi eru skilaskyld (svo sem disklingar og CD-ROM), en rafræn gögn á neti því aðeins að þau birtist sem endanleg afmörkuð heild. Tölvuforrit eru eingöngu skilaskyld þegar þau eru hluti skilaskylds verks. Í tillögu nefndarinnar sem undirbjó drög að frumvarpinu var gert ráð fyrir að allt rafrænt efni yrði skilaskylt, en í reglugerð yrði kveðið á um framkvæmd eftir atvikum. Þetta var einnig skoðun forstöðumanna aðalmóttökusafnanna. Niðurstaðan varð þó sú sem að ofan greinir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé tímabært að kveða á um skilaskyldu gagna sem séu uppfærð reglulega. Áður en ákvæði um slík gögn verði sett í lög þurfi að kanna nánar lagaleg og tæknileg atriði varðandi söfnun, varðveislu og not þessa efnis.
    Um afnot af efni sem afhent er á grundvelli laganna segir að það skuli aðgengilegt notendum að því marki sem höfundalög heimili. Eintök á rafrænu formi megi þó aðeins vera aðgengileg í húsakynnum safnsins og rafræn eintakagerð sé ekki heimil.
    Aðalmóttökusöfn þess efnis sem tilgreint er í lögunum eru Konunglega bókasafnið og Statsbiblioteket í Árósum.
    Það var vilji margra, þar á meðal forráðamanna framangreindra safna, að um heildarlöggjöf yrði að ræða sem tæki til alls efnis, hver sem móttökustofnunin væri. Ráðuneytið vildi þó ekki stíga það skref í sambandi við þessa lagasetningu. Þannig gilda áfram ákvæði dönsku kvikmyndalaganna frá 27. febrúar 1997 um afhendingu á kvikmyndum til Filmmuseet (myndbönd eru þó afhent til Statsbiblioteket), og útvarpsefni er áfram afhent samkvæmt frjálsu samkomulagi við Statsbiblioteket. Það er varðveitt þar í þeirri deild safnsins sem nefnist Statens Mediesamling.
     Finnsk lög um skylduskil eru frá 1980. Þau mæla fyrir um skil á sex eintökum prentaðs efnis og hljóðrita, en árið 1984 voru sett lög um skil á kvikmyndum og myndböndum til finnska kvikmyndasafnsins.
    Endurskoðun gildandi laga hefur verið til umræðu í nokkur ár. Menntamálaráðuneytið hafði lengi vel í hyggju að setja heildarlög sem tækju einnig til kvikmynda og útvarpsefnis. Með því þótti þó of mikið í fang færst, og var horfið að því að hraða frekar endurskoðun núgildandi laga með það að markmiði að tryggja heimtur og varðveislu rafrænna gagna. Ráðuneytið setti því á stofn vinnuhóp í september 1997 til að gera tillögu um lagasetningu er tæki til prentaðra og rafrænna gagna, og skilaði hann áliti ári síðar.
    Í tillögum vinnuhópsins er ekki gert ráð fyrir að allar móttökustofnanirnar sex taki við öllu skilaskyldu efni, heldur verði einungis um tvö heildstæð eintök að ræða. Annað þeirra verði í þjóðbókasafninu (háskólabókasafninu í Helsingfors), þ.e. bæði prentað efni og rafrænt. Hitt eintakið fer til bókasafns finnska háskólans í Åbo að því er tekur til prentmáls, en háskólabókasafninu í Jyväskylä er falin ábyrgð á varðveislu rafræns efnis.
    Tillaga vinnuhópsins er því að einungis verði afhent tvö eintök af öðru prentuðu efni en bókum og tímaritum sem áfram komi í sex eintökum. Óbreyttar endurútgáfur verða ekki skilaskyldar. Þar sem öll dagblöð eru sett á örfilmu verður einungis um eitt prentað eintak af þeim að ræða. Hið sama gildir um nýsigögn, svo sem hljóðrit, en myndbönd fara til kvikmyndasafnsins. Tilgangurinn með þessum takmörkunum er að minnka flæði skylduskilaefnis. Í starfshópnum var rætt um þörfina á heildareintaki finnskrar útgáfu vegna millisafnalána. Þetta náðist ekki fram þar sem ekki reyndist unnt að fjölga skylduskilaeintökum og ekkert núverandi móttökusafna vildi heldur gefa eftir sitt eintak.
    Gert er ráð fyrir að rafræn gögn í föstu formi verði afhent í tveimur eintökum, en gögn á neti í einu eintaki. Einungis er skylt að afhenda það efni á netinu sem er raunverulegar útgáfur. Svokölluðu gráu efni sem öllum er opið á netinu mun þjóðbókasafnið safna með sjálfvirkum aðferðum og koma fyrir í gagnasafni. Stofnað hefur verið til sérstaks þróunarverkefnis, EVA, til að koma þessu í framkvæmd.
    Margmiðlunarefni kallaði á miklar umræður í starfshópnum. Niðurstaðan varð sú að Kvikmyndasafnið sækist einungis eftir efni sem flokkast sem kvikmyndir, en margmiðlunarefni, svo sem alfræðibækur, gengur til þjóðbókasafnsins.
    Starfshópurinn leggur á það áherslu að rafræn gögn séu aðgengileg notendum í móttökusafninu. Þau yrðu hins vegar ekki fjölfölduð né þeim dreift til annarra safna sem millisafnalán. Þetta kallar á þróaðar öryggisráðstafanir.
    Gert var ráð fyrir að ný skylduskilalög tækju gildi árið 2000. Kostnaður við þau var áætlaður í skýrslunni. Bent var á að með móttöku og varðveislu rafræns efnis væri létt af útgefendum verulegri fjárhagsábyrgð. Annar mikilvægur þáttur er trygging þess að efnið sé upprunalegt og ófalsað.

Gildandi lög hér á landi og framkvæmd þeirra.

    Menningararfinum, að svo miklu leyti sem hann er áþreifanlegur, má skipta gróflega í þrennt:
     a.      útgefin og birt hugverk,
     b.      opinber skjöl,
     c.      menningarminjar, nytjamuni og listgripi.
    Útgefin hugverk eru í ríkum mæli geymd og skráð í bókasöfnum. Núgildandi lög um skylduskil til safna, nr. 43/1977, kveða á um skylduskil á prentuðum og fjölfölduðum texta og myndefni. Einnig eru hljómplötur og aðrar tón- og talupptökur skilaskyldar. Rit eru afhent í fjórum eintökum, og eru þrjú þeirra nú varðveitt í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, en Amtsbókasafnið á Akureyri varðveitir eitt eintak. Hljómplötur og aðrar tón- og talupptökur skulu afhentar í þremur eintökum. Eru tvö þeirra varðveitt í Landsbókasafni en eitt í Amtsbókasafninu. Eitt þeirra eintaka sem Landsbókasafni er gert að varðveita er varaeintak sem er ekki til notkunar nema í undantekningartilvikum en er varðveitt í sérstökum þar til gerðum geymslum. Eitt eintak prentaðs efnis er geymt í þjóðdeild Landsbókasafns og er þar aðgengilegt til notkunar á lestrarsal. Þriðja eintakið er til almennari notkunar samkvæmt nánari reglum svo sem verið hefur. Eintak Amtsbókasafnsins er einungis til notkunar á lestrarsal.
    Skilaskylt efni er skráð í Gegni, tölvukerfi Landsbókasafns, og þannig gert aðgengilegt notendum. Íslensk bókaskrá og Íslensk hljóðritaskrá eru gefnar út á hverju ári með upplýsingum um íslenska bókaútgáfu og hljóðritaútgáfu.
    Aðrar tegundir hugverka en hér hafa verið taldar eru ekki skilaskyldar samkvæmt gildandi lögum um skylduskil til safna. Samkvæmt lögum nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal Kvikmyndasafn Íslands safna íslenskum kvikmyndum og kvikmyndum um íslenskt efni. Í lögunum er heimild til setningar reglugerðar um skylduskil á kvikmyndum, en slík reglugerð hefur ekki verið sett.
    Lög um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, taka til skjala og annarra skráðra heimilda þjóðarsögunnar. Með skjölum er í lögunum átt við gögn sem orðið hafa til við starfsemi á vegum stofnunar eða einstaklings. Lögin taka ekki til prentaðs og fjölfaldaðs efnis, en stofnun sem gefur slíkt efni út skal geyma eitt eintak í skjalasafni sínu. Í lögunum er kveðið á um skyldu opinberra aðila til að afhenda skjöl til Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna. Safninu er þó heimilt að taka við gögnum annarra en afhendingarskyldra aðila og mun hafa tekið við gögnum einkaaðila í einhverjum mæli. Samkvæmt athugasemdum við 5. gr. frumvarps til laga um Þjóðskjalasafn er hér átt við einkaskjalasöfn merkra stjórnmálamanna eða listamanna, svo og skjöl atvinnufyrirtækja og félaga. Jafnframt er bent á að stefna þurfi að því að ákveðin verkaskipting komist á milli Þjóðskjalasafns, héraðsskjalasafna og handritadeildar Landsbókasafns um söfnun einkaskjala.
    Haustið 1997 skipaði menntamálaráðherra nefnd er gera skyldi tillögur um tölvugögn er væru háð skilaskyldu til Þjóðskjalasafns eða héraðsskjalasafna. Í skýrslu nefndarinnar eru taldar upp tegundir tölvuskjala: „Tölvuskjöl geta verið hvers konar tölvutækar skrár, ritvinnslugögn, gagnagrunnar, rafræn skilaboð, myndir (einnig hreyfimyndir) og hljóð.“ Þessi tölvuskjöl falla undir skylduskilalög ef þau eru birt. Opinberar stofnanir hafa gert og munu í auknum mæli gera tölvuskjöl sín og gagnagrunna aðgengilega almenningi á netinu. Má hér nefna sem dæmi skjöl á vefsíðum opinberra stofnana. 8. gr. þessa frumvarps mælir fyrir um skilaskyldu verka sem birtast á rafrænu formi. Er því ljóst að skylda Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns til varðveislu þessara gagna skarast að einhverju leyti. Ætlast verður til að Þjóðskjalasafn (og héraðsskjalasöfn) annars vegar og Landsbókasafn hins vegar móti sér í framkvæmd svipaða verkaskiptingu um varðveislu rafrænna gagna og þegar hefur verið við lýði um gögn á hefðbundna formi.
    Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga um Þjóðskjalasafn skal Ríkisútvarpið (hljóðvarp og sjónvarp) varðveita myndir, plötur og hljómbönd í samráði við þjóðskjalavörð. Skv. 5. gr. laga um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, ber Ríkisútvarpinu að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni stofnunarinnar verði varðveitt til frambúðar. Í því skyni starfar nefnd skipuð fulltrúum frá Þjóðskjalasafni og Ríkisútvarpi sem ákveður hvaða efni Ríkisútvarpið geymir.
    Samkvæmt 25. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000, er hverjum sem hefur heimild til rekstrar útvarps skylt að varðveita í a.m.k. 18 mánuði hljóðupptökur af öllu frumsömdu útsendu efni. Fréttir er þó heimilt að varðveita í handriti. Engin lagaákvæði skylda einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar til að varðveita útsent efni lengur en hér greinir.
    Myndlist, nytjamunir, listgripir og margvíslegar menningarminjar er varðveitt í listasöfnum og minjasöfnum. Lög nr. 58/1988 gilda um Listasafn Íslands og þjóðminjalög, nr. 88/1989, um þjóðminjavörsluna í landinu. Með frumvarpi þessu eru ekki lagðar til neinar breytingar á varðveislu þessa efnis.

Fyrirhugaðar breytingar á löggjöf um skylduskil.

    Miklar breytingar hafa orðið á listsköpun, útgáfuháttum og fjölmiðlun síðan lög um skylduskil til safna, nr. 43/1977, voru sett. Má nefna tilkomu íslensks kvikmyndaiðnaðar, einkarekinna útvarps- og sjónvarpsstöðva og útgáfu margs konar efnis á rafrænu formi. Tímabært er því orðið að endurskoða lögin til að tryggja að tilgangi þeirra um varðveislu menningararfsins verði náð. Nauðsynlegt er að ákvæði um skylduskil nái til allra útgefinna og birtra verka án tillits til þess hvaða miðill er notaður við framleiðslu verkanna og dreifingu.
    Nefndin hugaði sérstaklega að því á hvern hátt mundi hentugast að haga varðveislu kvikmynda og útvarpsefnis. Í þessu skyni og til að afla upplýsinga um núverandi fyrirkomulag á varðveislu þessa efnis fékk nefndin á sinn fund Jón Þór Hannesson, formann Framleiðendafélagsins (aðild eiga fyrirtæki sem framleiða myndir fyrir sjónvarp), Björn Sigurðsson, formann Félags kvikmyndahúsaeigenda, Ara Kristinsson, formann Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Elínu S. Kristinsdóttur, deildarstjóra safnadeildar RÚV, og frá Stöð 2 Ástþrúði Sveinsdóttur safnvörð og Lovísu Óladóttur, dagskrárstjóra innlendrar dagskrárdeildar.
    Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði um skylduskil kvikmynda og útvarpsefnis ættu heima í heildarlögum um skylduskil frekar en í sérlögum.
    Hér skulu nefndar nokkrar breytingar frá gildandi lögum sem felast í frumvarpinu:
    —    Efni, sem ekki hefur verið skilaskylt, verður það nú. Er þar um að ræða kvikmyndir, útvarpsefni, efni á rafrænum miðlum, auk örgagna og myndefnis á skyggnum.
    —    Útgáfa og birting verka verður notuð sem viðmiðun um skilaskyldu. Í gildandi lögum er miðað við fjölföldun á texta og myndefni og útgáfu hljóðrita.
    —    Afnumið er ákvæði 13. gr. um ríkisstyrkta útgáfu.
    —    Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um á hverjum skilaskylda hvílir en kveðið er á um hverjir beri kostnað af skilunum.
    —    Fjöldi eintaka sem skila ber er óbreyttur hvað varðar efni sem er háð skilaskyldu samkvæmt gildandi lögum, þ.e. fjögur eintök af efni sem gefið er út á pappír og þrjú eintök af hljóðritum. Hins vegar er lagt til að skilað verði þremur eintökum af örgögnum, skyggnum og gögnum sem gefin eru út á rafrænu formi, svo sem CD-ROM, en fjórum eintökum af samsettum útgáfum. Gert er ráð fyrir að myndbönd verði afhent í tveimur eintökum, nema íslenskar kvikmyndir á myndböndum sem verði afhentar í þremur eintökum. Af íslenskum kvikmyndum framleiddum á filmu verði afhent tvö eintök og skal annað vera frumeintak eða ígildi þess.
    —    Lagt er til að frestir til afhendingar efnis verði ákveðnir í reglugerð. Þó er lagt til að lögfest verði regla um að frumeintak kvikmynda skuli afhent innan sjö ára frá frumsýningardegi. Er ástæða þess sú að framleiðanda kvikmyndar er þörf á því að hafa aðgang að frumeintaki meðan verkið er í dreifingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá núgildandi lögum, en þó er fellt brott ákvæði c-liðar um opinbera stjórnsýslu sem líta má svo á að geti fallið undir hugtakið „réttmætar þarfir“. Undir það hugtak falla einnig þau tilvik þegar efni er ekki aðgengilegt annars staðar. Í II. kafla laganna er fjallað um hvaða verk eru skilaskyld. Ákvæði þessarar greinar áréttar þann tilgang laganna að varðveita menningararfinn, skrá hann og veita aðgang að honum til afmarkaðra nota. Þau not sem heimiluð eru af skilaskyldum verkum takmarkast einkum við rannsóknar- og fræðistörf, en ekki er ætlast til þess að almennur aðgangur sé að verkunum til afþreyingar.

Um 2. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið var hinu nýstofnaða Háskólabókasafni aukið við sem skylduskilasafni árið 1941. Við sameiningu þess og Landsbókasafns árið 1994 færðist skilaskylda beggja safna til hinnar nýju stofnunar, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, sbr. lög nr. 71/1994.
    Gert er ráð fyrir að Landsbókasafn Íslands– Háskólabókasafn verði áfram aðalvarðveislusafn efnis sem þangað hefur verið skilað hingað til og taki við skylduskilaeintökum fyrir sig og Amtsbókasafnið á Akureyri. Ekki þykir ástæða til að hrófla við því að skylduskilin fari til Amtsbókasafnsins á Akureyri eins og verið hefur síðan fyrstu lög um skylduskil til íslenskra safna voru sett árið 1886.
    Svo sem fram kemur í 4.–11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að eitt eintak af efni sem gefið er út á pappír og sem örgögn, hljóðrit og samsettar útgáfur, sem og eitt eintak af verkum á geisladiskum (CD-ROM) eða sambærilegu formi, verði geymt í Amtsbókasafninu. Kvikmyndasafn Íslands varðveitir allar myndupptökur, nema þriðja eintak af íslenskum kvikmyndum á myndböndum sem Landsbókasafn varðveitir, svo og útvarpsefni, en Landsbókasafn varðveitir rafræn gögn af neti.

Um 3. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum er hvers kyns fjölfaldaður texti og fjölfaldað myndefni skilaskylt, svo og útgefin hljóðrit. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að skilaskylda nái til verka sem hafa verið gefin út eða birt hér á landi. Liggja til þess tvær ástæður. Nýir fjölföldunar- og útgáfuhættir hafa það í för með sér að óhægt er um vik að nota framleiðsluaðferð sem viðmiðun um skilaskyldu. Með frumvarpinu er lagt til að fleiri tegundir efnis verði gerðar skilaskyldar en nú er, þ.e. örgögn, skyggnur, gögn á rafrænu formi, útvarpsefni og kvikmyndir. Þykir rétt að nota sömu viðmiðun um allar tegundir af efni eftir því sem við á. Er þetta einnig til samræmis við löggjöf annars staðar á Norðurlöndum.
    Hugtökin útgáfa og birting eru hér skilgreind að mestu á sama hátt og í höfundalögum, nr. 73/1972. Með útgáfu og birtingu er þannig átt við að verk sem eru flutt eða sýnd opinberlega, t.d. kvikmyndir sem sýndar eru í kvikmyndahúsum, sjónvarpi og annars staðar, og verk sem eru gefin út og þannig dreift til almennings með sölu, láni, leigu eða á annan hátt. Samkvæmt höfundalögum eru verk einnig birt með því að sýna eintök af þeim opinberlega, sbr. sýningu myndlistarverka á opinberum listsýningum, en skilaskylda nær ekki til verka sem birt eru á þann hátt. Orðið „sýnt“ í 2. mgr. 3. gr. vísar til merkingar orðsins í daglegu máli, þ.e. sýningar myndefnis, t.d. í kvikmyndahúsum. Skilgreining frumvarpsins á hugtakinu birting víkur frá skilgreiningu höfundalaga að því leyti að samkvæmt frumvarpinu er ekki skilyrði að verki hafi verið dreift til almennings í álitsverðum fjölda eintaka eins og krafist er samkvæmt höfundalögum. Það að verk hafi verið löglega gefið út eða birt vísar til þess að birtingin eigi sér annaðhvort stað með samþykki höfundar eða á grundvelli II. kafla höfundalaga, en þar er að finna nokkur ákvæði sem heimila útgáfu eða flutning verks í tilteknum tilgangi án þess að leita þurfi samþykkis höfundar.
    Í 2. mgr. eru tekin af tvímæli um að verk sem miðlað er til almennings rafrænt, þannig að hægt sé að nálgast það fyrir tilstuðlan almenns tölvunets, teljist birt í skilningi laganna . Þetta á einnig við þegar eintök af verki eru til reiðu eftir pöntun (e. on demand).
    Í 3. mgr. eru tekin af tvímæli um að undir verk birt hér á landi falli verk sem framleidd eru erlendis ef útgáfan er gerð með það sérstaklega fyrir augum að verkinu verði dreift hér á landi. Til marks um að verk sé framleitt með það sérstaklega fyrir augum að vera dreift hér á landi má t.d. hafa að verk sé á íslensku máli eða gefið út af íslenskum útgefanda. Verk sem íslenskir aðilar láta framleiða erlendis fyrir alþjóðlegan markað eru hins vegar ekki skilaskyld. Ekki er heldur lagt til að skilaskylda nái til verka sem íslenskir aðilar framleiða hér á landi ef framleiðslan er fyrir erlenda útgefendur og ætluð til dreifingar erlendis. Er talið að þessi verk falli utan tilgangs laganna þar sem fremur er um íslenskt handbragð að ræða en íslensk verk.

Um 4. gr.

    Með þessari grein er kveðið á um skilaskyldu verka sem eru gefin út á pappír. Hér er um að ræða m.a. bækur, dagblöð, tímarit, árbækur, ársskýrslur, ársreikninga og þess háttar, verðlista, vöruskrár, bæklinga, leikskrár og skylt efni, einblöðunga, nótur, kort og myndir, þar með talin plaköt, akstursáætlanir, framleiðslulýsingar, hnattlíkön, upphleypt kort, spil, auglýsingar, söluskrár og póstkort. Tegundir efnis sem falla undir þessa grein eru hinar sömu og samkvæmt gildandi lögum, en um útgáfuhugtakið vísast til 3. gr. og athugasemda við hana.
    Samkvæmt gildandi lögum hvílir skilaskyldan á prentsmiðju eða fjölföldunaraðila. Frumvarpið gerir ráð fyrir því sem meginreglu að skilaskyldan hvíli á þeim sem skilar frá sér fullbúnu verki . Þegar svo stendur á að skilaskylt verk verður til á fleiri en einum stað skal sá aðili sem fullbýr verkið til dreifingar vera ábyrgur fyrir skilum þess í endanlegum búningi. Þetta getur í vissum tilvikum haft í för með sér að skilaskyldan flytjist frá prentsmiðjunum til bókbandsstofanna.
    Í þeim tilvikum að afbrigði koma fyrir í útgáfu mæla núgildandi lög fyrir um að skila skuli þremur eintökum af algengustu gerð en einu eintaki af hverju afbrigði. Er lögð til sú breyting að skila skuli fjórum eintökum af algengustu gerð en auk þess skuli skila einu eintaki af afbrigðum. Tölusetning eintaka er þó undanskilin þessu ákvæði.
    Nýjar útgáfur og endurprentanir af verkum eru skilaskyldar samkvæmt gildandi lögum, og er lagt til að það ákvæði haldist óbreytt.
    Rétt er að vekja athygli á því að vegna nýrrar tækni verða mörk prentunar og ljósritunar ógleggri en áður var. Prentstofur og fjölföldunarstofur hafa tekið í notkun það sem kalla má stafrænar ljósritunarvélar sem gera stofunum kleift að verða við óskum viðskiptavina um fjölföldun gagna í mjög litlu upplagi í einu. Mætti kveða á um það í reglugerð að Landsbókasafni beri að setja viðmiðunarreglur um skil á slíku efni og semja um framkvæmdina við þau fyrirtæki sem í hlut eiga.

Um 5. gr.

    Lagt er til að örgögn, þ.e. örfilmur og örfisjur, verði skilaskyld þó að þau séu jafnframt gefin út í öðru formi. Ekki eru þó skilaskyld örgögn sem eru framleidd í opinberum söfnum til þess að hlífa frumgögnunum þó að þeim sé dreift í nokkrum eintökum til annarra viðlíka stofnana. Efni á þessu formi hefur hingað til ekki fallið undir skilaskyldu.
    Lagt er til að ljósmyndir sem eru fjölfaldaðar til útgáfu sem skyggnur verði skilaskyldar. Þetta efni hefur ekki verið skilaskylt hingað til.

Um 6. gr.

    Með hljóðritum er átt við hvers kyns miðla sem eingöngu hýsa upptökur á tali og tónum. Um getur verið að ræða hljómplötur, hljóðsnældur eða geisladiska (CD). Hljóðútgáfur í formi hljóðbóka og hljóðblaða, þ.e. textar sem eru talaðir inn á hljómband, verða líka skilaskyldar. Hafi hljóðupptökur verið gefnar út á fleiri en einum miðli (plötur, diskar, snældur) eru allar gerðirnar skilaskyldar.
    Hljóðrit hafa verið skilaskyld samkvæmt gildandi lögum.

Um 7. gr.


    Undir þessa grein fellur margs konar efni, t.d. skrifaður texti, tal, tónlist og önnur hljóð, tölvugrafík, myndlist, ljósmyndir, kvikmyndir og margt fleira, einnig samsetningar af þessu efni, svokallað margmiðlunarefni. Greinin tekur þannig til allra rafrænna miðla í föstu formi, þar á meðal geisladiska (t.d. CD-ROM). Sumt af þessu efni getur jafnframt verið á öðrum miðlum, en annað er einungis í tölvutæku formi, t.d. tölvuleikir og önnur gagnvirk verk.
    Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að ákvæðið nái ekki til tölvuforrita sem gefin eru út ein og sér. Sé hins vegar tölvuforrit hluti af útgefnu efni sem inniheldur aðrar tegundir verka er forritið nauðsynlegt til nýtingar verksins og nær skilaskyldan þá að sjálfsögðu jafnframt til forritsins.
    Efni í þessu formi hefur ekki verið skilaskylt.

Um 8. gr.

    Greinin tekur til efnis er birtist í rafrænu formi á tölvuneti, hvort heldur um er að ræða verk sem frumbirt er á netinu, verk sem jafnframt er gefið út á prenti eða endurútgáfu þar sem prentaðri útgáfu er snúið í rafrænt form.
    Tölvuforrit sem birt eru á neti eru undanþegin skilaskyldu nema þau séu birt ásamt verki af annarri tegund er skilaskylda nær til og er um að ræða sambærilegt ákvæði og 2. mgr. 7. gr.
    Við samningu frumvarpsins var farin sú leið að leggja ekki almenna skyldu á útgefendur og aðra er birta efni á neti til að tilkynna um birtingu efnis. Ákvæðið mælir fyrir um að sá sem birtir verk, er skilaskylda nær til, skuli veita móttökusafni aðgang að verkinu. Í því felst að sé efni aðgengilegt almenningi þarf hinn skilaskyldi ekki að takast á hendur sérstakar aðgerðir í þessu sambandi heldur mun móttökusafnið sjálft sjá um að leita efnið uppi og afrita það. Sé hins vegar um að ræða efni sem aðeins er aðgengilegt með áskrift eða sambærilegum hætti er lögð sú skylda á þann sem birtir að afhenda móttökusafni aðgangsorð og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að það geti nálgast efnið.
    Af 12. gr. frumvarpsins leiðir að sá sem birtir verk hefur þá skyldu að gera móttökusafni kleift að nálgast efni á því formi er það birtist notendum. Frumvarpið felur hins vegar ekki í sér skyldu til að afhenda móttökusafni leyfi til notkunar hugbúnaðar, svo sem gagnagrunnsforrita, eða aðgang að vélbúnaði er kann að vera nauðsynlegur við notkun efnis. Á hinn bóginn er þeim sem birtir skylt á grundvelli 14. gr. frumvarpsins að verða við óskum safns um að láta í té tæknilegar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að efnið komi að notum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Landsbókasafnið skuli varðveita verk sem birtast í rafrænu formi á neti. Er gert ráð fyrir að safnið skrái og geri þetta efni aðgengilegt með sambærilegum hætti og þau verk er fram að þessu hafa verið háð skilaskyldu.

Um 9. gr.


    Með samsettum verkum er átt við útgáfur þar sem efni er gefið út á miðlum af ólíkri gerð en dreift í einu lagi. Algengast er að prentuðu máli fylgi efni á myndböndum, hljóðsnældum, skyggnum, tölvudiskum eða geisladiskum (t.d. CD-ROM).
    Einnig getur verið um annars konar samsett verk að ræða, svo sem skyggnuflokka með hljóði.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur fylgiefni með prentuðum útgáfum verið skilaskylt, en ekki hefur verið skylt að skila samsettum útgáfum á öðrum miðlum. Með frumvarpinu er lagt til að hvers kyns samsettar útgáfur verði háðar skilaskyldu.

Um 10. gr.

    Hér er lögð til sú nýbreytni að dagskrár Ríkisútvarpsins verði varðveittar til frambúðar í heild sinni en ekki einungis valdir hlutar eins og verið hefur. Í almennum athugasemdum er vikið að samstarfi Þjóðskjalasafns og Ríkisútvarps á vettvangi nefndar um söfnun og grisjun dagskrárefnis Ríkisútvarpsins. Í frumvarpi þessu er lagt til það nýmæli að allt efni Ríkisútvarpsins sé varðveitt og ekki grisjað. Í 22. gr. frumvarps þessa er lagt til að 3. mgr. 3. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, falli niður. Jafnframt eru lagðar þær skyldur á einkastöðvar að þær láti í té þá hluta dagskrár sem móttökusafn óskar eftir. Þannig mundi t.d. dagskrá Stöðvar 2 væntanlega verða varðveitt í heild sinni, en af dagskrám annarra stöðva sem minni dreifingu hafa yrði varðveitt að lágmarki svo sem ein vika af hverri árstíð.
    Heildarsöfnun af þessum toga tíðkast í flestum nágrannalandanna, enda er litið svo á að dagskrár í heild sinni séu ómetanlegur mælikvarði á tíðarandann á hverjum tíma.
    Útfærsla söfnunarinnar er mismunandi eftir löndum. Ýmist sjá stöðvarnar sjálfar um söfnun dagskránna og skila þeim svo til móttökusafns (t.d. í Svíþjóð og Danmörku) eða móttökusafn sér sjálft um söfnun í gegnum móttökubúnað (t.d. í Bretlandi). Þetta þarf að útfæra hér á landi.
    Gert er ráð fyrir að Kvikmyndasafn Íslands sjái um varðveislu efnisins. Rétt þykir þó, þar sem Ríkisútvarpið er með safnadeild, að heimila því að sjá um varðveislu sinnar dagskrár, enda sé tryggt aðgengi að efninu, sbr. 1. gr.

Um 11. gr.

    Skilaskylda á kvikmyndum er nýmæli. Með „kvikmynd“ er í frumvarpinu átt við allar tegundir hreyfimynda, óháð því á hvers kyns miðil tekið er upp eða hvaða útsendingarform er notað. Skyldan nær þannig jafnt til kvikmynda sem teknar eru upp á filmu, myndbönd eða á rafrænt form. Hér er t.d. um að ræða bíómyndir, heimildarmyndir, tilraunamyndir (e. experimental films) og auglýsingar. Margt af því efni sem framleitt er fyrir sjónvarp, svo sem fréttir, fréttaskýringar og ýmsir umræðu- og spurningaþættir, mundu hins vegar ekki teljast til heildstæðra kvikmyndaverka í skilningi frumvarpsins. Slíkt efni er skilaskylt skv. 10. gr. um útvarpsefni.
    Lagt er til að skilaskylda íslenskra kvikmynda hvíli á framleiðanda, þ.e. þeim aðila er ber fjárhagsábyrgð á gerð myndarinnar, en að hinn íslenski dreifingaraðili sé ábyrgur fyrir skilum erlendra kvikmynda.
    Með íslenskri kvikmynd er átt við mynd sem er framleidd af íslenskum framleiðanda eða meðframleiðanda og er með íslensku tali. Kvikmynd með erlendu tali getur þó talist íslensk ef til hennar er lagt verulegt íslenskt framlag, listrænt eða tæknilegt, og myndin er hluti af íslenskri kvikmyndamenningu. Með íslenskum framleiðanda er átt við einstakling, fyrirtæki eða stofnun sem á lögheimili eða er skrásett á Íslandi.
    Frumvarpið kveður á um að einungis skuli afhenda frumeintak af endanlegri gerð myndar en ekki fráklipp. Fráklipp hefur í sumum tilvikum verulegt heimildagildi. Verður afhending þess í slíkum tilvikum að vera samkomulagsatriði, en ekki þykir fært að setja reglur um afhendingu þess í lög.
    Framköllun íslenskra kvikmynda fer að öllu leyti fram erlendis. Gert er ráð fyrir að framleiðandi geti dregið afhendingu frumeintaks eða ígildis þess í allt að sjö ár frá frumsýningardegi. Að liðnum þeim tíma hefur framleiðandi yfirleitt ekki þörf fyrir að búa til fleiri eintök af verkinu og ætti að geta afhent frumeintak eða ígildi þess til varðveislusafns.
    Algengt er að í samframleiðslu og dreifingarsamningum sé lofað aðgangi að frumeintaki myndarinnar í lengri tíma en sjö ár. Ekki er líklegt að þetta verði mikið notað en þó geta alltaf átt sér stað skemmdir á öðrum móðureintökum myndarinnar sem gera það nauðsynlegt að farið sé aftur í frumeintakið. Sýningareintök af kvikmyndum eru mjög dýr, hvert eintak kostar frá 150.000 kr. upp í 800.000 kr. Ekki er hægt að ætlast til af framleiðanda sem framleitt hefur kvikmynd í einu eintaki sem kostar 800.000 kr. að hann afhendi móttökusafni annað eintak sem mundi kosta hann aðrar 800.000 kr.
    Mikilvægasta atriðið til þess að vera viss um að móttökusafn nái örugglega að komast yfir frumeintak myndarinnar að sjö árum liðnum er að móttökusafn fái strax í upphafi aðgangsheimild (e. Laboratory letter of access) að frumeintaki myndarinnar. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar framleiðslufyrirtæki hefur orðið gjaldþrota og enginn finnst til að sjá um skil til safnsins að sjö árum liðnum. Þá er nauðsynlegt að safnið hafi bréf upp á það að það hafi forræði yfir frumeintaki myndarinnar.
    Þegar íslenskar kvikmyndir eru samframleiddar með erlendum aðilum getur hinn íslenski framleiðandi þurft að skuldbinda sig til að sjá um að frumeintak sé varðveitt hjá tilteknum erlendum aðila. Þykir því rétt að heimila að frumeintak sé í slíkum tilvikum varðveitt hjá erlendu safni.
    Að öðru leyti varðveitir Kvikmyndasafn Íslands efni samkvæmt þessari grein. Þó er gerð tillaga um að eitt sýningareintak af íslenskum kvikmyndum sem kveðið er á um í 2. mgr. verði varðveitt í Landsbókasafni, enda er góð aðstaða í tón- og mynddeild safnsins fyrir þá sem vilja kynna sér hvaðeina sem lýtur að íslenskri kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Notkun þess eintaks sem afhent yrði Landsbókasafni samkvæmt þessari grein yrði með sama hætti og í Kvikmyndasafni Íslands, þ.e. eintakið væri ekki lánað út, heldur yrði það eingöngu til skoðunar á staðnum.
    Kvikmyndir endast misvel, af sumum kvikmyndum er enn verið að gera afrit sjö árum eftir að þær voru frumsýndar. Þá hafa sumir kvikmyndagerðarmenn tekjur af því að selja einstök myndskeið úr myndum sínum. Þar sem ekkert framköllunarfyrirtæki er hér á landi væri afar óhagkvæmt fyrir þessa aðila að vista frumeintök sín á Íslandi og þurfa sífellt að senda þau til útlanda vegna eintakagerðar. Þetta mundi þó að öllum líkindum aldrei eiga við um nema 10–15% kvikmynda.

Um 12. gr.

    Í 12. gr. eru ítarlegri ákvæði en eru í gildandi lögum um frágang skilaskyldra eintaka. Er gert ráð fyrir að þau beri að afhenda í endanlegri gerð og í því formi og ástandi sem þau birtast notendum ásamt því efni sem er framleitt til þess að fylgja verkunum í sölu eða dreifingu, t.d. hlífðarkápum, kössum eða hylkjum, notkunarreglum og viðlíka efni.
    Breytingin styðst við reynslu af gildandi lögum og tekur einnig mið af nýlegri löggjöf grannlandanna. Jafnframt þykir rétt að kveða á um að móttökusafni sé heimilt að semja við skilaskyldan aðila um sérstakan frágang á efni ef þurfa þykir. Þannig gæti t.d. verið heppilegt að fá í óskornum örkum prentað efni sem búið er í hendur notendum með því að skera arkirnar við kjöl, fræsa þær og líma þannig inn í kápu.
    Prufuprent eða annars konar ófullgerð eintök útgefins verks eru ekki skilaskyld.

Um 13. gr.

    Samsvarandi ákvæði er í gildandi lögum. Var talið rétt að leggja til að taka ákvæðið upp í frumvarpið þó að þýðing þess muni væntanlega minnka frá því sem verið hefur.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Líklegt er að skilaskylt efni verði í sumum tilvikum aðeins nýtt með aðstoð sérstaks tæknibúnaðar. Þurfa söfnin því að koma upp slíkum búnaði og halda honum við, ellegar færa efnið á nýtt form sem gengur við þann búnað sem tiltækur er á hverjum tíma.
    Þegar sá tæknibúnaður sem efnið krefst er í samræmi við staðla er oft nægilegt að veita upplýsingar um fyrir hvaða gerð búnaðar efnið er framleitt. Í vissum tilvikum er hægt að tryggja aðgengi að efninu og koma í veg fyrir að efnið glatist á forgengilegum miðlum með því að færa það í tíma yfir á nýjan miðil eða aðlaga það nýjum stöðlum sama miðils, t.d. færa efni af gömlum hljómplötum yfir á diska eða stafræna miðla. Samkvæmt höfundalögum er ráðherra heimilt að ákveðnu marki að setja reglur um slíka afritun.
    Skylduskil efnis á tölvutæku formi eru gagnslaus þegar til lengdar lætur ef varðveislustofnuninni gefst ekki í tíma kostur á upplýsingum um hinar tæknilegu forsendur þess að efnið komi að gagni. Frumvarpið gerir því ráð fyrir heimild til að krefja skilaaðila um slíkar upplýsingar ef nauðsynlegt er.
    Tæknilegar upplýsingar af því tagi sem hér er um að ræða geta verið háðar viðskiptaleynd. Skilaaðili getur því sett það skilyrði að þær verði ekki látnar óviðkomandi í té.

Um 15. gr.

    Í gildandi lögum er kveðið á um takmörkun útlána á eintökum sem fengin eru með skylduskilum. Lagt er til að þessi takmörkun verði afnumin. Eðlilegt þykir að skylduskilaefnið sé að meginstefnu til aðgengilegt notendum að því marki sem höfundalög heimila. Eðli málsins samkvæmt ber þó móttökusafni ætíð að fara þannig með skylduskilaefni að varðveisluskyldu sé fullnægt. Mætti í reglugerð kveða nánar á um meðferð móttökusafns á skylduskilaefni.
    Ekki er nú ljóst hvernig ákvæðum höfundalaga verður í framtíðinni háttað um aðgang almennings að efni á rafrænu formi. Fyrir liggur tilskipun Evrópusambandsins nr. 29/2001 um höfundarétt og hliðstæð réttindi í upplýsingasamfélaginu (Directive 2001/29/EC of the European Parliament and of the Council of 22 May 2001 on the harmonisation of certain aspects of copyright and related rights in the information society) sem mun væntanlega kalla á breytingar á íslenskum höfundalögum, en hverjar þær nákvæmlega verða liggur ekki fyrir. Með hliðsjón af þessari stöðu mála þykir rétt að vísa hér almennt til ákvæða höfundalaga.

Um 16. gr.

    Landsbókasafni er samkvæmt gildandi lögum gert að gera skrár um það efni sem safnið fær í skylduskilum. Amtsbókasafninu á Akureyri hefur ekki verið skylt að gera sérstaka skrá yfir það efni sem það hefur fengið í skylduskilum. Eðlilegast er að sambærilegar reglur gildi um skráningu allra verka sem eru hluti af íslenskri menningarsögu og afhent samkvæmt ákvæðum laganna. Mætti hugsa sér að verkin yrðu skráð í sameiginlegan gagnagrunn sem yrði aðgengilegur öllum landsmönnum á netinu, en í frumvarpinu er lagt í vald ráðherra að mæla nánar fyrir um skráninguna í reglugerð.
    Ákvæðið um að útgefanda sé skylt að gefa upplýsingar um verkin er nýmæli og styðst við lög um skilaskyldu á Norðurlöndum. Löng hefð er fyrir því að eintökum fylgi upplýsingar um útgefanda, útgáfustað, útgáfuár og höfunda þegar um er að ræða prentað mál. Alþjóðlegir staðlar mæla líka fyrir um það. Með því að samræma upplýsingarnar sem eiga að fylgja öllum skilaskyldum verkum er hægt að tryggja rétta skráningu á útgefnu eða birtu efni án tillits til miðilsins sem verkið birtist á.

Um 17. gr.

    1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því sem meginreglu að skyldueintök séu afhent endurgjaldslaust og að þeir sem skyldan beinist að greiði flutningskostnað. Í sumum tilvikum kann þessi skylda þó að verða þungbær, og er með þessu ákvæði veitt færi á að bregðast við slíku. Höfð eru m.a. í huga tilvik þegar um er að ræða efni sem er sérstaklega dýrt í framleiðslu, útgáfur í dýru bandi eða útgáfur sem gefnar eru út í litlu upplagi.

Um 18. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Eðli málsins samkvæmt getur skilaskylda aldrei náð til alls þess sem gefið er út eða birt. Eðlilegt er að ýmislegt smáprent, t.d. eyðublöð sem eru ætluð til útfyllingar, umbúðir, bréfsefni, nafnspjöld, umslög og dagatöl sem ekki eru ritstýrð (eru án texta) falli utan marka laganna.
    Í gildandi lögum er sérstaklega tekið fram að undanþeginn skilaskyldu sé prentaður gjaldmiðill, svo sem bankaseðlar, verðbréf og frímerki. Er lagt til að sú regla gildi áfram.
    Samkvæmt gildandi lögum er Landsbókasafni falið að setja reglur um hvaða tegundir smáprents aðrar skuli vera undanþegnar skilaskyldu. Eðlilegast þykir að ráðuneytið setji ákvæði um allar frekari undanþágur í reglugerð í samráði við móttökusöfnin.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er nýtt. Í gildandi lögum er að nokkru kveðið á um þessi atriði, en betur þykir hæfa að ákvæði um þau verði sett í reglugerð. Þó er lagt til að kveðið sé á um skilafrest á kvikmyndum í lögunum sjálfum, sbr. 11. gr.

Um 21. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skylduskil til safna.


    Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar á skilaskyldu til safna, einkum til samræmis við þróun er varðar framleiðslutækni, formbúning gagna og dreifingarhætti frá því að gildandi lög, nr. 43/1977, voru sett.
    Helstu breytingar sem hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs eru sem hér segir, og er þá byggt á kostnaðaráætlun nefndar menntamálaráðherra er samdi drög að frumvarpi um sama efni sem lagt var fyrir á 125. löggjafarþingi:
     1.      Íslenskar kvikmyndir, erlendar kvikmyndir með íslensku tali eða skýringartexta og kynningarefni tengt kvikmyndum verður skilaskylt. Einnig verður meira af efni íslenskra hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva skilaskylt en nú er. Kvikmyndasafni Íslands er ætlað að kalla inn efnið og varðveita það, en myndbönd og mynddiskar skulu einnig varðveittir á Landsbókasafni–Háskólabókasafni. Stofnkostnaður er lauslega áætlaður 26–35 m.kr. og liggur hann í auknu geymslu- og skrifstofuhúsnæði og innréttingum. Árlegur rekstrarkostnaður, m.a. vegna launa starfsmanna, húsnæðis, umbúða og skrifstofuþjónustu, er áætlaður 13–18 m.kr. Að auki má áætla lauslega að kostnaður Ríkisútvarpsins aukist um 6–11 m.kr. á ári, aðallega vegna húsnæðis og skráningar. Ekki er lagt mat á kostnað annarra skilaskyldra aðila.
     2.      Verk sem gefin eru út á rafrænum miðlum, svo sem geisladiskum, disklingum eða á almennu tölvuneti verði skilaskyld, þó ekki tölvuforrit sem birt eru ásamt verki af annarri tegund. Einnig verði hljóðbækur og efni á skyggnum skilaskylt. Landsbókasafni Íslands–Háskólabókasafni er ætlað að innkalla og varðveita efnið auk þess sem Amtsbókasafninu á Akureyri er ætlað að varðveita hluta þess. Stofnkostnaður vegna kaupa og þróunar á tölvubúnaði til að safna, varðveita og veita aðgang að gögnum er áætlaður um 9–11 m.kr. Árlegur launakostnaður starfsmanna, viðhald og afskriftir búnaðar, auk skrifstofuþjónustu og annars sem fellur til er áætlaður 11–16 m.kr.
     3.      Í þeim tilvikum sem afbrigði koma fyrir í útgefnu riti er lagt til að því sé skilað í fjórum eintökum af algengustu gerð, í stað þriggja samkvæmt gildandi lögum, en einu eintaki af hverju afbrigði. Gert er ráð fyrir að þetta hafi óveruleg áhrif á fjölda skilaskyldra eintaka og þar með kostnað ríkisins.
     4.      Gert er ráð fyrir að ekki verði lengur ætlast til þess að aðilar sem njóta ríkisstyrks til útgáfu á ritum skili allt að tíu eintökum. Þrjú þessara eintaka hafa verið afhent bókasöfnunum í Stykkishólmi, á Ísafirði og Seyðisfirði. Gera má ráð fyrir að bókakaup þessara safna og Landsbókasafnsins aukist. Kostnaðarauki ríkisins vegna Landsbókasafnsins er áætlaður 1–3 m.kr. á ári.
     5.      Kostnaður við kynningarmál er áætlaður 2 m.kr. fyrsta árið en 0,5 m.kr. á ári eftir það.
     6.      Skilaskyldum aðilum og útgefendum er ætlað að bera kostnað af skylduskilum. Þó er gert ráð fyrir reglugerðarheimild í frumvarpinu um að móttökusafn greiði í vissum tilvikum fyrir skilaskylt efni og afhendingu þess. Það á fyrst og fremst við um efni sem er sérstaklega dýrt í framleiðslu, útgáfur í dýru bandi eða útgáfur í litlu upplagi. Kostnaður við þetta er afar óviss og er hér slegið á 2–4 m.kr. á ári.
    Að öllu samanlögðu er áætlað, verði frumvarpið að lögum, að stofnkostnaður verði að lágmarki 35–46 m.kr. og árlegur rekstrarkostnaður 34–53 m.kr., en hann getur hæglega orðið mun meiri. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þau taki gildi í ársbyrjun 2003.