Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 469  —  348. mál.




Frumvarp til laga



um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu
og endurbætur menningarbygginga.
1. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 3.–6. gr. þeirra, skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 335 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 2002.

Um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingu.
2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 140/1996:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „6.000“ í 3. málsl. kemur: 8.500.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „25.000“ í 7. málsl. kemur: 50.000.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „12.500“ í 7. málsl. kemur: 25.000.

Um breytingu á lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands.
3. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „25.000“ í 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: 32.500.

Um breytingu á lögum nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri.
4. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „25.000“ í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: 32.500.

Um breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.
5. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „25.000 “ í 1. málsl. 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 32.500.

Um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingu.
6. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „462“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 125/2001, kemur: 593.

Um breytingu á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingu.
7. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 124/1997, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands vera 566 kr. á mánuði árið 2002 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

Um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, með síðari breytingu.
8. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 39. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 124/1997, skal gjald sem rennur til kirkjugarða landsins vera 232 kr. á mánuði árið 2002 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

Um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.
9. gr.

    8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

Um breytingu á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingu.
10. gr.

    2. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 151/1998, orðast svo:
    Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili er 6,60 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg, 8,90 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg, en 2.200 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreiðar umfram það. Þó skal gjaldið ekki vera lægra en 3.300 kr. og ekki hærra en 39.800 kr. á hverju gjaldtímabili.


Um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingu.
11. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 1. mgr. 71. gr. b laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2000:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „125“ kemur: 300.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „65“ kemur: 150.


12. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2002.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Að venju byggir frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002 á ákveðnum forsendum um tekjur og gjöld sem taka mið af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum. Við undirbúning fjárlagafrumvarpsins var stefnt að ákveðnum afgangi á ríkissjóði og er það stefna stjórnvalda að þau markmið beri að verja til að viðhalda stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins. Ríkissjóður mun þannig mæta minnkandi tekjum og auknum hagrænum útgjöldum með lækkun og frestun verkefna sem áður hafði verið áformað að ráðast í. Eru það eðlileg viðbrögð við þeirri stöðu sem er í efnahagslífinu og einkafyrirtæki og heimili takast á við.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að nokkrum lagagreinum sem lögbinda ákveðin útgjöld og ákvarða tekjur verði breytt. Samhliða eru við þriðju umræðu um frumvarp til fjárlaga lagður til fjöldi breytinga um lækkun ríkisútgjalda á ýmsum sviðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að afnema þá tilhögun sem fest hafði rætur víða og fólst í því að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Lög um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, nr. 83/1989, með síðari breytingum, hafa að geyma ákvæði af því tagi. Með slíkum ákvæðum er fjárveitingavald Alþingis í raun fyrir fram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum, sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins, til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Ákvæði um lögmælt framlög verða því að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja. Af þeim sökum eru í fjárlagafrumvarpinu lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun hins sérstaka eignarskatts sem kveðið er á um í lögum nr. 83/1989, eins og 23. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, gerir reyndar ráð fyrir. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þessara skerðinga í almennum lögum jafnframt.
    Samkvæmt lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, nr. 83/1989, með síðari breytingum, renna tekjur af sérstökum eignarskatti í sérstakan sjóð, sem varið er til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 2002 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 713.4 m.kr. Hér er lagt til að af þessum tekjum renni 378.4 m.kr. í ríkissjóð.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, er heimilað að gera nemendum að greiða innritunargjald við upphaf námsannar eða skólaárs. Skal upphæð gjaldsins taka mið af kostnaði vegna ýmiss konar kennsluefnis og pappírsvara sem framhaldsskólarnir láta nemendum í té, en er þó að hámarki bundin við 6.000 kr.
    Grunnurinn að skipulegri innheimtu gjalda af þessu tagi var lagður árið 1991 og hefur fjárhæð þeirra tekið litlum breytingum síðan. Á sama tímabili hefur sú þjónusta, sem tekjum af því er ætlað að mæta, á hinn bóginn farið stigvaxandi og er nú mun meiri, en nemendum stóð til boða við upphaf síðasta áratugar. Hér er þó aðeins lagt til að hámarki gjaldsins verði breytt í samræmi við þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa á tímabilinu, og hækkað samkvæmt því í 8.500 kr. eða um 41,7%. Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án byggingarkostnaðar var árið 1991 154,9 stig, en var í ágúst á þessu ári 214,1 stig. Verðlagsþróun tímabilsins 1991 til ágúst 2001 er því 38,2%. Gera má ráð fyrir að á miðju ári 2002 hafi vísitala neysluverðs hækkað um a.m.k. 40% frá árinu 1991. Gert er ráð fyrir að breytingin geti skilað framhaldsskólunum 38.4 m.kr. í auknar tekjur.
    Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996 er ennfremur heimilað að innheimta efnisgjald af nemendum, sem njóta verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli lætur þeim í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Gjaldið skal taka mið af raunverulegum efniskostnaði, en má þó ekki vera hærra en 25.000 kr. á skólaári eða 12.500 kr. á önn. Hér er lagt til að hámark þetta verði hækkað um 100% í 25.000 kr. á önn eða 50.000 kr. á skólaári. Með þeirri breytingu er komið á móts við þarfir þeirra skóla, sem bjóða upp á tiltölulega dýrt verknám, t.d. í matvæla- og málmiðngreinum, enda hefur reynslan sýnt að gildandi hámark er ekki í samræmi við raunverulegan efniskostnað í þeim greinum. Breytingin snertir þó ekki nema hluta nemenda þar sem efniskostnaður í flestum námsgreinum er undir núverandi hámarki. Gert er ráð fyrir að þessi breyting geti skilað framhaldsskólum 10 m.kr. í auknar tekjur.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands, er nemendum gert að greiða skrásetningargjald við upphaf skólaárs, sem taka skal mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og pappírsvara, sem skólinn lætur nemendum í té. Fjárhæð gjaldsins er þó bundin við 25.000 kr. hámark. Með skírskotun til sömu sjónarmiða og gerð var grein fyrir í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins, um hækkun þeirra kostnaðarliða, sem tekjum af skrásetningargjaldi er ætlað að mæta, og aukna þjónustu við nemendur, er hér lagt til að hámark þetta verði í samræmi við verðlagsþróun undanfarinna ára hækkað í 32.500 kr. eða um 30%. Gert er ráð fyrir breyting þessi geti skilað skólanum 8.9 m.kr. í auknar tekjur.

Um 4. og 5. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, greiða stúdentar skrásetningargjald við skrásetningu í hvorn skóla um sig, sem má að hámarki nema 25.000 kr. Samkvæmt lögskýringargögnum er gjaldinu ætlað að mæta kostnaði af margvíslegri þjónustu, sem stúdentum er veitt á námstímanum, svo sem skráningu í námskeið og próf, varðveislu og miðlun upplýsinga um námsferil þeirra, auglýsingar og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu stúdentaskrár, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum skólanna.
    Með skírskotun til sömu sjónarmiða og gerð var grein fyrir í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins, um hækkun þeirra kostnaðarliða, sem tekjum af skrásetningargjaldi er ætlað að mæta, og aukna þjónustu við nemendur, er hér lagt til að hámark þetta verði í samræmi við verðlagsþróun undanfarinna ára hækkað í 32.500 kr. eða um 30%. Gert er ráð fyrir breyting þessi geti skilað Háskóla Íslands 34.6 m.kr. og Háskólanum á Akureyri 4.9 m.kr. í auknar tekjur.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að tekjur Fiskistofu af veiðieftirlitsgjaldi hækki um 50 m.kr. og standi að fullu undir kostnaði við veiðieftirlit. Lagt er til að gjaldið hækki í þessu skyni úr 462 kr. fyrir hvert þorskígildistonn úthlutaðs eða landaðs afla í 593 kr.


Um 7. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum hækka sóknargjöld ár hvert miðað við breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári. Þar sem gjaldið hefur mörg undanfarin ár hækkað að fullu sem nemur breytingum á tekjuskattstofni hefur það hækkað umfram almennar verðlagshækkanir til annarra rekstrarverkefna sem fjármögnuð eru úr ríkissjóði. Hér er lagt til að fjárhæð fyrir hvern einstakling verði óbreytt frá árinu 2001 og verði 566 kr. á mánuði. Rétt er að benda á að framlagið hækkar þó sem nemur áætlaðri fjölgun einstaklinga milli ára en hún er talin verða 1%. Breytingin felur í sér að hækkun framlagsins verður 64 m.kr. í stað 165 m.kr. að óbreyttum lögum.

Um 8. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum hækkar kirkjugarðsgjald ár hvert miðað við breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári. Þar sem gjaldið hefur mörg undanfarin ár hækkað að fullu sem nemur breytingum á tekjuskattstofni hefur það hækkað umfram almennar verðlagshækkanir til annarra rekstrarverkefna sem fjármögnuð eru úr ríkissjóði. Hér er lagt til að fjárhæð fyrir hvern einstakling verði óbreytt frá árinu 2001 og verði 232 kr. á mánuði. Rétt er að benda á að framlagið hækkar þó sem nemur áætlaðri fjölgun einstaklinga milli ára en hún er talin verða 1%. Breytingin felur í sér að hækkun framlagsins árið 2002 verður 22 m.kr. í stað 55 m.kr. að óbreyttum lögum.

Um 9. gr.

    Lagt er til að 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, verði felldur brott. Hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fer ekki fram á sjúkrahótelum, en þeir sem þar dvelja eru til meðferðar eða rannsóknar á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun. Því verður að telja óeðlilegt að skilgreina sjúkrahótel sem sjúkrahús. Rekstur sjúkrahótela er að mestu kostaður af hinu opinbera og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Eðlilegt þykir þó að unnt sé að innheimta hóflegt gjald fyrir dvöl sjúklings á sjúkrahóteli, svo sem vegna fæðiskostnaðar, og er gert ráð fyrir að það verði ákveðið í þjónustusamningi. Með því að breyta skilgreiningu sjúkrahúsa á þann veg að sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, falli ekki undir sjúkrahús eru tekin af tvímæli um að slík innheimta sé heimil.

Um 10. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi. Í desember 1998 var bifreiðagjaldið hækkað í 6,00 kr. pr. kg. og 8,10 kr. umfram 1000 kg. og 2000 kr. af hverju byrjuðu tonni umfram 3000 kg. Hækkun neysluverðsvísitölunnar frá því í desember 1998 fram til nóvember 2001 er 18,8%. Hér er lagt til að bifreiðagjald hækki um 10%. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði 260 m.kr. í auknar tekjur.

Um 11. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 60/1998, um loftferðir, er innheimt sérstakt vopnaleitargjald til að standa straum af kostnaði við vopnaleit á flugvöllum. Hér er lagt til að gjaldið verði hækkað úr 125 kr. í 300 kr. á hvern farþega sem ferðast frá Íslandi til annarra landa. Áætlað er að hækkunin skili Flugmálastjórn 70 m.kr. í auknar tekjur sem varið verður til að standa straum af hækkun á kostnaði við vopnaleit í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september sl.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar til að áform í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2002 nái fram að ganga. Verður fjallað um greinar frumvarpsins og lagt mat á áhrif þeirra á tekjur og gjöld ríkissjóðs.
    1. gr. Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur í sjóð sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 2002 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 713,4 m.kr. Í frumvarpinu er lagt til að tekjur umfram 335 m.kr. af skattinum, eða um 378,4 m.kr., renni í ríkissjóð.
    2. gr. Lagt er til að lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, verði breytt þannig að hámarksgjald sem skólanefndum framhaldsskóla er heimilt að láta hvern nemanda greiða fyrir innritun hækki úr 6.000 kr. í 8.500 kr. á ári Einnig er lagt til að heimilt verði að láta hvern nemanda endurgreiða allt að 50.000 kr. á ári í stað 25.000 kr. vegna efnis sem skólinn lætur honum í té. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að tekjur skólanna aukist um 38,4 m.kr. vegna innritunargjalds og um 10 m.kr. vegna efnisgjalds.
    3.–5. gr. Lagt er til að lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands, nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri og nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, verði breytt þannig að skólunum verði heimilt að innheimta allt að 32.500 kr. skráningargjald af hverjum nemanda í stað 25.000 kr. eins og nú er. Miðað er við að breytingin hafi einnig áhrif á framlög ríkisins til Tækniskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Áætlað er að innheimta gjaldsins skili háskólunum allt að 57,7 m.kr. auknum tekjum.
    6. gr. Lagt er til að lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum verði breytt þannig að það hækki um 131 kr. á þorskígildistonn, úr 462 kr. í 593 kr. Áætlað er að hækkunin skili 50 m.kr. auknum tekjum í ríkissjóð á árinu 2002 og er gjaldtakan miðuð við að tekjur af því standi að fullu undir kostnaði við veiðieftirlit.
    7. gr. Lagt er til að lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., verði breytt þannig að gjald sem ríkissjóður greiðir á einstakling nemi 566 kr. á mánuði árið 2002, eins og á árinu 2001. Verði frumvarpið að lögum hækkar framlag um 64 m.kr. milli áranna 2001 og 2002 í stað 165 m.kr. að óbreyttum lögum, þ.e. útgjöld ríkisins verða 101 m.kr. lægri fyrir vikið.
    8. gr. Lagt er til að lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, verði breytt þannig að gjald sem ríkissjóður greiðir á einstakling nemi 232 kr. sem er sama fjárhæð og greidd er á árinu 2001. Verði frumvarpið óbreytt að lögum hækkar framlag um 22 m.kr. milli áranna 2001 og 2002 í stað 55 m.kr. að óbreyttum lögum, þ.e. útgjöld ríkisins verða 33 m.kr. lægri fyrir vikið.
    9. gr. Lagt er til að lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, verði breytt þannig að sjúkraheimili, öðru nafni sjúkrahótel, falli ekki undir skilgreiningu á sjúkrahúsi. Breytingin leiðir til þess að heimilt verður m.a. að innheimta gjald fyrir dvöl fólks á sjúkraheimilum. Gert er ráð fyrir að gjaldtakan skili 10 m.kr. tekjum á árinu 2002.
    10. gr. Lagt er til að bifreiðagjald skv. lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum, hækki um 10% frá 1. janúar 2002 og er áætlað að það skili 260 m.kr. auknum tekjum í ríkissjóð.
    11. gr. Lagt er til að vopnaleitargjald sem innheimt er samkvæmt lögum nr. 60/1998, um loftferðir, verði hækkað úr 125 kr. í 300 kr. á hvern fullorðinn farþega sem ferðast frá Íslandi til annarra landa og úr 65 kr. í 150 kr. á hvert barn. Áætlað er að hækkunin skili 70 m.kr. auknum tekjum á ári.
    Að öllu samanlögðu er áætlað að frumvarpið, verði það að lögum, leiði til 1.008,5 m.kr. betri afkomu ríkissjóðs.