Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1976, 139. löggjafarþing 788. mál: gjaldeyrismál og tollalög (reglur um gjaldeyrishöft).
Lög nr. 127 27. september 2011.

Lög um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, tollalögum og lögum um Seðlabanka Íslands.


I. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

1. gr.

     Inngangsmálsliður orðskýringar á „fjármagnshreyfingum“ í 1. gr. laganna orðast svo: Fjármagnshreyfingar á milli landa merkja yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli landa og yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli innlendra og erlendra aðila sem tengjast:

2. gr.

     Á eftir orðunum „skv. 4. gr., 5. gr.“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 13. gr. a – 13. gr. n.

3. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna koma sautján nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (13. gr. a.)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara og 9. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, skulu fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti sem tilgreind eru í ákvæðum 13. gr. b – 13. gr. n vera óheimil fram til 31. desember 2013.
     
     b. (13. gr. b.)
     Eftirfarandi fjármagnshreyfingar milli landa eru óheimilar:
 1. Viðskipti og útgáfa verðbréfa, hlutdeildarskírteina í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, peningamarkaðsskjala og annarra framseljanlegra fjármálagerninga.
 2. Innlegg á og úttektir af reikningum í lánastofnunum.
 3. Lánveitingar, lántökur og útgáfa ábyrgða sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.
 4. Inn- og útflutningur verðbréfa og innlends og erlends gjaldeyris.
 5. Framvirk viðskipti, afleiðuviðskipti, viðskipti með valrétti, gjaldmiðla- og vaxtaskipti og önnur skyld gjaldeyrisviðskipti þar sem íslenska krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna.
 6. Gjafir og styrkir og aðrar hreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–5. tölul. og eru til þess fallnar að valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum.

     Allar fjármagnshreyfingar skv. 1. mgr. á milli landa í erlendum gjaldeyri eru óheimilar nema um sé að ræða greiðslu vegna kaupa á vöru eða þjónustu eða annarra fjármagnshreyfinga sem sérstaklega eru undanþegnar í lögum þessum. Þá er einstaklingi sem er erlendur aðili heimilt að flytja út erlendan gjaldeyri ef sýnt er fram á að féð sé til framfærslu. Nær heimildin vegna framfærslu til fjármagnshreyfinga á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 3.000.000 kr. fyrir einstakling, 6.000.000 kr. fyrir hjón/sambúðaraðila og 2.000.000 kr. fyrir hvert ólögráða barn sem lýtur forsjá og er með lögheimili hjá framangreindum. Enn fremur er heimilt að flytja út erlendan gjaldeyri í eigu einstaklings sé sýnt fram á að fjármunirnir séu andvirði slysabóta eða arfs sem honum hefur tæmst við dánarbússkipti. Námsmenn sem sýnt geta fram á að þeir séu í námi erlendis teljast erlendir aðilar í skilningi þessa ákvæðis.
     Allar fjármagnshreyfingar skv. 1. mgr. á milli landa í innlendum gjaldeyri, eru óheimilar. Undanþegnar banni 1. málsl. eru:
 1. Fjármagnshreyfingar sem eru sérstaklega undanþegnar í lögum þessum og greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
 2. Fjármagnshreyfingar vegna vöru- og þjónustuviðskipta, sem ekki fara fram í erlendum gjaldmiðli, þar sem greiðslan fer fram með úttektum af reikningi í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
 3. Fjármagnshreyfingar vegna fasteignaviðskipta hér á landi og viðskipta með fjármálagerninga sem Seðlabanki Íslands metur gilda til tryggingar í viðskiptum við bankann samkvæmt reglum um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands, og útgefnir eru í innlendum gjaldeyri, þegar greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í eigu kaupanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
 4. Fjármagnshreyfingar vegna greiðslu á kröfum úr þrotabúi og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðasamningi, sbr. lög nr. 21/1991, og greiðsla fer fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.

     
     c. (13. gr. c.)
     Gjaldeyrisviðskipti milli innlendra og erlendra aðila þar sem innlendur gjaldeyrir er hluti af viðskiptunum eru óheimil.
     Innlendum aðila er óheimilt að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, þegar greiðsla fer fram með innlendum gjaldeyri, nema hann sýni fram á að féð sé til notkunar í vöru- og þjónustuviðskiptum eða vegna fjármagnshreyfinga samkvæmt ákvæðum 13. gr. j og 13. gr. k. Gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta milli tveggja innlendra aðila eru óheimil.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er erlendum aðila heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi vegna fjármagnshreyfinga skv. 13. gr. j, vegna slíkra greiðslna frá innlendum aðila hér á landi, og 2. mgr. 13. gr. k. Þá er erlendum aðilum heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi þar sem hann er með viðskipti sín ef sýnt er fram á að féð sé til framfærslu. Nær heimildin vegna framfærslu til kaupa á erlendum gjaldeyri á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 3.000.000 kr. fyrir einstakling, 6.000.000 kr. fyrir hjón/sambúðaraðila og 2.000.000 kr. fyrir hvert ólögráða barn sem lýtur forsjá og er með lögheimili hjá framangreindum. Enn fremur er heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir andvirði slysabóta eða arfs sem einstaklingi hefur tæmst við dánarbússkipti. Námsmenn sem sýnt geta fram á að þeir séu í námi erlendis teljast erlendir aðilar í skilningi þessa ákvæðis.
     Jafnframt er erlendum aðilum heimilt að kaupa innlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
     
     d. (13. gr. d.)
     Kaup innlendra aðila á gjaldeyri í reiðufé eru óheimil nema samkvæmt sérstakri heimild í lögum þessum. Sama á við um úttektir í reiðufé af gjaldeyrisreikningum í fjármálafyrirtækjum hér á landi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er einstaklingi sem er innlendur aðili heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri í reiðufé hjá fjármálafyrirtæki hér á landi þar sem aðili er með viðskipti sín eða taka erlendan gjaldeyri í reiðufé út af gjaldeyrisreikningi í fjármálafyrirtæki hér á landi að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
 1. Að gjaldeyririnn sé ætlaður til notkunar vegna ferðalaga erlendis. Við kaup eða úttekt skal einstaklingur sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvittunar fyrir greiðslu á ferð sinni sem fyrirhuguð er innan fjögurra vikna. Þegar um er að ræða áhafnarmeðlimi sem ekki hafa farseðil skal sýnt fram á ferðalag með framvísun vaktaskipulags eða öðrum sannanlegum hætti.
 2. Að ekki sé keyptur eða tekinn út erlendur gjaldeyrir í reiðufé fyrir upphæð sem samsvarar meira en 350.000 kr. á kaup- eða úttektardegi fyrir hvern einstakling skv. 1. tölul. í hverjum almanaksmánuði.
 3. Að sýnt sé fram á að einstaklingur, eða forráðamaður hans ef um ólögráða einstakling er að ræða, sé eigandi fjármunanna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn, eða gjaldeyrisreikningsins sem tekið er út af. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er einstaklingi þó heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir maka.
 4. Að einstaklingurinn sem tilgreindur var við kaup eða úttekt gjaldeyrisins fari sjálfur með féð úr landi.

     Verði ekki af fyrirhugaðri ferð skal gjaldeyri skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá því að það liggur fyrir.
     Einstaklingur sem er innlendur aðili og dvelur tímabundið erlendis, lengur en einn almanaksmánuð en þó ekki lengur en sex almanaksmánuði í senn, hefur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri í hverjum almanaksmánuði sem hann dvelur erlendis og flytja hann erlendis, á reikning sinn hjá fjármálafyrirtæki þar sem hann dvelur.
     Þá hefur einstaklingur, sem er erlendur aðili og er staddur hér á landi tímabundið vegna ferðalaga, heimild til að kaupa erlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi, fyrir allt að jafnvirði 350.000 kr. í reiðufé í hverjum almanaksmánuði, ef sýnt er fram á að féð sé til notkunar á ferðalögum erlendis.
     Fjármálafyrirtæki hér á landi getur sótt um undanþágu frá 2. mgr. sem heimilar útibúi fjármálafyrirtækis að selja einstaklingi, sem er innlendur aðili en ekki með viðskipti sín hjá viðkomandi fjármálafyrirtæki, erlendan gjaldeyri fyrir allt að jafnvirði 350.000 kr. í reiðufé í hverjum almanaksmánuði, ef sýnt er fram á að féð sé til notkunar á ferðalögum erlendis. Seðlabanki Íslands skal birta opinberlega upplýsingar um þá aðila sem fá undanþágu á grundvelli ákvæðisins.
     
     e. (13. gr. e.)
     Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peningamarkaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri er óheimil. Þó er aðilum sem fjárfest hafa í slíkum fjármálagerningum fyrir 28. nóvember 2008 heimilt að endurfjárfesta. Nú eru fjármunir sem losna við sölu eða uppgreiðslu, eða falla til vegna arð- og vaxtagreiðslna, nýttir í heild eða að hluta til að fjárfesta aftur í hvers konar erlendri fjárfestingu innan tveggja vikna og telst það þá endurfjárfesting í skilningi 2. málsl.
     Söluandvirði vegna viðskipta með fjármálagerning skv. 1. mgr., útgefinn í innlendum gjaldeyri, milli innlendra og erlendra aðila sem gerð eru upp hérlendis skal leggja inn á reikning viðkomandi seljanda í fjármálafyrirtæki hér á landi.
     Uppgjör viðskipta í erlendum gjaldeyri með fjármálagerninga skv. 1. mgr., útgefna í innlendum gjaldeyri, er óheimilt.
     Óheimilt er að gefa út og/eða selja fjármálagerninga skv. 1. mgr. þar sem uppgjör fer fram í öðrum gjaldeyri en útgáfan og innlendur gjaldeyrir er einn af gjaldmiðlum uppgjörs. Hafi útgáfa farið fram í innlendum gjaldeyri er skylt að leggja andvirði sölu inn á reikning í innlendum gjaldeyri á nafni útgefanda í fjármálafyrirtæki hér á landi.
     Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fyrirframgreiðslu af fjármálagerningum skv. 1. mgr. eru óheimilar.
     
     f. (13. gr. f.)
     Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fjárfestinga í peningakröfum í erlendum gjaldeyri og öðrum sambærilegum kröfuréttindum sem ekki falla undir 13. gr. e, eru óheimilar.
     Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fasteignaviðskipta erlendis eru óheimilar nema sýnt sé fram á að viðskiptin séu gerð vegna búferlaflutninga aðila. Hámarksfjárhæð gjaldeyriskaupa og fjármagnsflutninga vegna kaupa á einni fasteign sem tengjast búferlaflutningum er jafnvirði 100.000.000 kr.
     Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna fjárfestingar í öðrum eignum í erlendum gjaldeyri, þ.m.t. hrávöru, farartækjum og vinnuvélum, sem eru hvorki eðlilegur þáttur í atvinnustarfsemi aðila né ætluð til innflutnings fyrir framleiðslu hans, eru óheimilar. Þrátt fyrir bann 1. málsl. eru gjaldeyriskaup og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna kaupa á vélknúnu ökutæki heimil í eitt skipti, séu kaupin í tengslum við búferlaflutninga kaupandans úr landi, enda nemi fjárhæðin eigi meira en jafnvirði 10.000.000 kr.
     
     g. (13. gr. g.)
     Lántökur og lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila í öðrum tilvikum en vegna viðskipta á milli landa með vöru og þjónustu eru óheimilar, nema slíkar lántökur og lánveitingar séu milli félaga innan sömu samstæðu.
     Þrátt fyrir 1. mgr. skulu lántökur og lánveitingar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði vera heimilar:
 1. Lán hvers aðila sé eigi hærra en sem nemur 10.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í gjaldeyri á almanaksárinu.
 2. Lánstími sé eigi skemmri en eitt ár.
 3. Gjaldeyrisyfirfærslur vegna lánsins séu í samræmi við ákvæði 13. gr. l.
 4. Lánasamningar, þ.m.t. allir viðaukar og fylgiskjöl, séu sendir til þess fjármálafyrirtækis sem annast fjármagnshreyfingar, innan viku frá undirskrift slíkra samninga.

     Óheimilt er að fyrirframgreiða lánveitingar og lántökur innlendra aðila til erlendra aðila.
     Óheimilt er að endurgreiða lán milli innlendra og erlendra aðila með innlendum gjaldeyri ef lánveitingin fór fram í erlendum gjaldeyri. Óheimilt er að endurgreiða lán milli innlendra og erlendra aðila með erlendum gjaldeyri ef lánveitingin fór fram í innlendum gjaldeyri.
     Ákvæði þessarar greinar koma ekki í veg fyrir að lántökur og lánveitingar milli innlendra og erlendra aðila séu framlengdar, að því gefnu að aðrir skilmálar gildi að sama leyti og áður.
     
     h. (13. gr. h.)
     Óheimilt er að ganga í eða takast á hendur ábyrgð á greiðslum á milli innlendra og erlendra aðila.
     Ákvæði þessarar greinar gilda hvorki um ábyrgðir vegna vöru- og þjónustuviðskipta né um ábyrgðir milli félaga innan samstæðu.
     
     i. (13. gr. i.)
     Óheimilt er að eiga afleiðuviðskipti þar sem innlendur gjaldeyrir er í samningi gagnvart erlendum gjaldeyri, hvort sem um er að ræða gjaldeyris- eða verðbréfasamning eða sambland gjaldeyris- og verðbréfasamnings eða sambærilega fjármálagerninga.
     Afleiðuviðskipti sem eingöngu eru vegna vöru- og þjónustuviðskipta falla ekki undir þetta ákvæði.
     
     j. (13. gr. j.)
     Fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslu á vöxtum, verðbótum, arði og samningsbundnum afborgunum eru undanþegnar reglum þessum, sbr. 1. mgr. og 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. b og 2. og 3. mgr. 13. gr. c. Innlendum aðilum er heimilt að kaupa erlendan gjaldeyri til greiðslu samningsbundinna afborgana lána í erlendum gjaldeyri, hjá því innlenda fjármálafyrirtæki sem veitti viðkomandi lán.
     Með vöxtum skv. 1. mgr. er aðeins átt við vexti af innstæðum í innlendum fjármálafyrirtækjum og áfallna vexti af skuldabréfum sem útgefin eru af innlendum aðilum.
     Við útreikning á vöxtum skv. 1. mgr., vegna skuldabréfa sem safna vöxtum daglega, skulu vextir reiknast í hlutfalli við þann tíma sem aðili hefur átt bréfið. Vexti af eingreiðslubréfum með forvöxtum, t.d. af ríkisvíxlum, skal reikna sem mun á milli útgáfuverðs (kaupverðs á útgáfudegi) og nafnverðs. Vextir eingreiðslubréfa falla jafnt (línulega) yfir líftíma bréfsins.
     Með verðbótum í skilningi 1. mgr. er átt við verðbætur á vöxtum og höfuðstólsgreiðslum.
     Arður er fellur til við lækkun hlutafjár eða vegna slita á félagi, skv. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, telst ekki arður í skilningi 1. mgr.
     Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna greiðslna samkvæmt ákvæði þessu verða að hafa átt sér stað innan sex mánaða frá því að þær komust eða gátu komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans.
     
     k. (13. gr. k.)
     Þrátt fyrir bann 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. b eru fjármagnshreyfingar á milli landa vegna gjafa og styrkja innlendra aðila til erlendra aðila, svo sem einstaklinga, góðgerðasamtaka eða hliðstæðra aðila, heimilar fyrir allt að 3.000.000 kr. á almanaksári. Fjármagnshreyfingar vegna gjafa og styrkja skulu lagðar inn á reikning í eigu móttakanda og skulu gefandi og styrkveitandi vera raunverulegir eigendur þeirra fjármuna sem um ræðir.
     Laun sem erlendur aðili hefur aflað hérlendis síðastliðna sex mánuði eru undanþegin reglum þessum, sbr. 1. mgr. og 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. b. Þá skulu gjaldeyrisviðskipti vegna slíkra fjármagnshreyfinga ekki takmarkast af 1. mgr. 13. gr. c. Það sama á við um laun innlends aðila sem búsettur er erlendis vegna starfs eða náms. Námslán, atvinnuleysisbætur, lífeyrisgreiðslur, þ.m.t. elli- og örorkulífeyrir og greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar og aðrar sambærilegar greiðslur, teljast laun í skilningi þessarar málsgreinar.
     
     l. (13. gr. l.)
     Öllum erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar eignast, svo sem fyrir seldar vörur og þjónustu, eða með öðrum hætti, skal skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan þriggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans. Skilaskylda skv. 1. málsl. er uppfyllt þegar erlendur gjaldeyrir er varðveittur á gjaldeyrisreikningi hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.
     Skilaskylda nær ekki til innlendra aðila sem hafa búsetu erlendis vegna starfs eða náms.
     
     m. (13. gr. m.)
     Innlend nýfjárfesting skal vera ótakmörkuð.
     Nýfjárfesting í skilningi þessa ákvæðis er fjárfesting sem gerð er eftir 31. október 2009 fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris, sem skipt er í innlendan gjaldeyri hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Afleiðusamningar teljast ekki til nýfjárfestingar. Innstæður á erlendum gjaldeyrisreikningum í innlendum fjármálafyrirtækjum, sem urðu til fyrir 31. október 2009, og tekjur vegna útflutningsviðskipta teljast ekki til nýs innstreymis erlends gjaldeyris.
     Gjaldeyrisviðskipti, þar sem nýju innstreymi erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri í samræmi við 2. mgr., falla ekki undir 1. mgr. 13. gr. c.
     Fjárfestir skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna um nýfjárfestingu til Seðlabanka Íslands innan tveggja vikna frá því að nýju innstreymi erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri. Slíkri tilkynningu skulu fylgja gögn sem sýna fram á að um nýfjárfestingu í skilningi þessa ákvæðis sé að ræða.
     Að fenginni staðfestingu Seðlabankans um að fjármunir hafi losnað við sölu á nýfjárfestingu skulu slíkir fjármunir ekki falla undir takmarkanir skv. 13. gr. b og 13. gr. c.
     
     n. (13. gr. n.)
     Seðlabanki Íslands og ríkissjóður eru undanþegnir 13. gr. b – 13. gr. m laga þessara.
     Eftirfarandi aðilar skulu undanþegnir 13. gr. b – 13. gr. m laga þessara að undanskildum 3. mgr. 13. gr. b, 13. gr. c og 13. gr. i.:
 1. Innlendir aðilar sem eru aðilar að fjárfestingarsamningi við íslenska ríkið.
 2. Innlendir aðilar sem starfa samkvæmt leyfi iðnaðarráðherra til olíuleitar samkvæmt lögum nr. 13/2001.

     Eftirfarandi aðilar eru undanþegnir 1. mgr. 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f og ákvæðum 13. gr. g og 13. gr. h:
 1. Fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkissjóðs, sem starfa samkvæmt sérlögum.
 2. Sveitarfélög og fyrirtæki í meirihlutaeigu sveitarfélaga, sem starfa samkvæmt sérlögum.

     Lögaðili, sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið við yfirráðum yfir með því að skipa honum skilanefnd eða bráðabirgðastjórn, og lögaðili, sem héraðsdómari hefur skipað slitastjórn samkvæmt lögum nr. 161/2002, eru undanþegnir 2. mgr. 13. gr. b, 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f, 13. gr. g, 13. gr. h og 13. gr. l.
     Fyrirtæki, sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum erlendis, geta fengið undanþágu frá 1. mgr. 13. gr. e, 1. mgr. 13. gr. f, 13. gr. g, 13. gr. h og 13. gr. l. Þau fyrirtæki sem telja sig uppfylla skilyrði 1. málsl. skulu senda umsókn til Seðlabanka Íslands og sýna fram á að þau uppfylli skilyrðin ásamt staðfestingu löggilts endurskoðanda. Seðlabanki Íslands birtir lista yfir þá aðila sem fá undanþágu á þessum grundvelli. Fyrirtæki sem fá undanþágu samkvæmt þessari málsgrein skulu þegar 12 mánuðir eru liðnir frá staðfestingu Seðlabankans um undanþágu sýna fram á að þau uppfylli enn þá skilyrði þessarar málsgreinar og senda gögn því til staðfestingar til Seðlabanka Íslands ásamt staðfestingu löggilts endurskoðanda þar um. Skal slík staðfesting berast Seðlabankanum á 12 mánaða fresti eftir það. Komi í ljós að fyrirtæki uppfylli ekki lengur skilyrði þessarar málsgreinar verður undanþágan felld úr gildi.
     Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki, sem starfa undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, aðrir en lögaðilar sem falla undir 4. mgr., hafa heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti sín á milli með beinum viðskiptum, framvirkum samningum og skiptasamningum. Einnig eru viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki undanþegin ákvæðum 13. gr. g, 13. gr. h og 13. gr. l. Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að taka á móti peningamarkaðsinnlánum í innlendum gjaldeyri frá erlendum aðilum, í samræmi við heimildir þeirra samkvæmt lögum nr. 161/2002.
     
     o. (13. gr. o.)
     Ákvæði 7. gr. gilda um heimildir Seðlabanka Íslands til að veita undanþágur frá ákvæðum 13. gr. b – 13. gr. n. Þó skal ekki innheimta leyfisgjald þegar undanþágur eru veittar. Seðlabankinn getur sett skilyrði fyrir undanþágu. Þrátt fyrir orðalag 7. gr. getur Seðlabankinn veitt almennar undanþágur án undangenginnar umsóknar þar að lútandi. Umsóknir um undanþágur skulu berast Seðlabankanum bréflega ásamt gögnum er málið varða.
     Seðlabankinn getur sett nánari reglur um framkvæmd ákvæða 13. gr. b – 13. gr. n.
     
     p. (13. gr. p.)
     Þegar gjaldeyrishöft eru ekki lengur til staðar, sbr. 13. gr. a, en þó eigi síðar en 1. apríl 2014, skal Seðlabanki Íslands eyða þeim upplýsingum sem aflað er á grundvelli 1., 2. og 4. mgr. 15. gr. e, 15. gr. f og 1. og 2. mgr. 15. gr. g. Það á þó ekki við um gögn er varða meint brot gegn lögum um gjaldeyrismál og upplýsingar sem liggja til grundvallar niðurstöðum rannsókna á meintum brotum.
     
     q. (13. gr. q.)
     Efnahags- og viðskiptaráðherra skal árlega gefa Alþingi skýrslu um framgang áætlunar um afnám gjaldeyrishafta, sbr. 13. gr. a. Ákvæðið skal sæta endurskoðun í aðdraganda að gerð skýrslunnar.

4. gr.

     Á eftir 6. tölul. 2. mgr. 15. gr. a laganna kemur nýr töluliður er orðast svo, og breytast númer annarra töluliða til samræmis við það: 13. gr. a – 13. gr. n um bann við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum.

5. gr.

     Á eftir 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur nýr töluliður er orðast svo, og breytast númer annarra töluliða til samræmis við það: 13. gr. a – 13. gr. n um bann við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum.

6. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
     Fram til 31. desember 2013 getur Seðlabankinn bundið gjaldeyrisviðskipti sín skilyrðum hvað varðar innra skipulag og fjárfestingarstefnu viðskiptamanna, eignarhald og fjármögnun þeirra, lágmarkstíma á eignarhaldi hluta eða hlutabréfa útgefinna af viðskiptamönnum, ráðstöfun þeirra á gjaldeyri til nánar tilgreindra fjárfestinga og lágmarkstíma á fjárfestingu þeirra.

7. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. september 2011“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 31. desember 2013.

II. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

8. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. september 2011“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 31. desember 2013.

III. KAFLI
Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 2. mgr. 17. gr. er Seðlabankanum heimilt, fram til 31. desember 2013, að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki, enda sé um að ræða viðskipti sem Seðlabankinn metur nauðsynleg til þess að hægt sé að losa um takmarkanir sem settar hafa verið á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti.

IV. KAFLI
Gildistaka.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.