Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 556  —  4. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Með tillögunni er lagt til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem lagt verði fyrir Alþingi svo fljótt sem verða má. Tillagan var fyrst flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt nokkuð breytt.
    Á síðasta þingi var mikill meiri hluti umsagnaraðila á móti því að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni yrði heimiluð eða taldi það ekki tímabært. Sama gildir um þessa tillögu þrátt fyrir breytingar til batnaðar, en 10 af 13 umsagnaraðilum voru á því máli. Aðrir umsagnaraðilar veltu flestir upp erfiðum siðferðislegum spurningum og tóku almennt ekki beina afstöðu með málinu.
    Meiri hluti velferðarnefndar tiltekur 14 mikilvæg atriði sem kanna þurfi hvernig eigi að fara með við samningu frumvarps. Ýmsar siðferðislegar og lagalegar spurningar vöknuðu einnig um íslenska löggjöf um móður- og föðurhugtakið, ættleiðingar, réttindi samkynhneigðra með tilliti til réttinda gagnkynhneigðra, feðrun óskilgetinna barna, rétt barna til að þekkja uppruna sinn, eggjagjöf, sæðisgjöf og tæknifrjóvgun.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að allt þetta verði skoðað mjög vel. Jafnframt telur 2. minni hluti mikilvægt að samhliða verði skoðað hvort rétt sé að formfesta enn frekar bann við staðgöngumæðrun og lögleiða viðurlög við því þegar það bann er brotið, þá sérstaklega staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Ekki sé nóg að huga einingis að því hvernig sé hægt að heimila staðgöngumæðrun líkt og lagt er til í tillögunni.
    Annar minni hluti tekur jafnframt undir þá varnagla sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans og 1. minni hluta en leggur áherslu á að málið verði unnið frekar áður en ákvörðun verði tekin um að fela velferðarráðherra smíði frumvarps sem heimili staðgöngumæðrun.

Alþingi, 15. desember 2011.Eygló Harðardóttir.