Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 571. máls.

Þingskjal 888  —  571. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2004/113/EB frá 13. desember 2004 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2004/ 113/EB frá 13. desember 2004 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.
    Með tilskipun 2004/113/EB eru settar reglur til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis vegna viðskipta með vöru og þjónustu, með það að markmiði að koma til framkvæmda meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun ráðsins 2004/113/EB frá 13. desember 2004 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.
    Eins og áður segir eru með tilskipuninni settar reglur til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu, með það að markmiði að koma til framkvæmda meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna.
    Tilskipunin á við um alla er bjóða fram þjónustu og vörur sem eru aðgengilegar almenningi. Þetta á bæði við um opinbera geirann sem og einkageirann. Sú meginregla er sett fram að óheimilt sé að mismuna á grundvelli kynferðis varðandi aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu. Tekið er fram að bannið taki einnig til lakari meðferðar á konum vegna meðgöngu og fæðingar. Áreitni og kynferðisleg áreitni teljast til mismununar á grundvelli kynferðis í þessu sambandi og er bann lagt við hvoru tveggja.
    Ákveðnar undantekningar eru í tilskipuninni frá meginreglunni um bann við mismunun á grundvelli kynferðis. Þannig er heimilt að beita hagstæðari ákvæðum sem lúta að vernd kvenna, einkum með tilliti til meðgöngu og fæðingar. Þá útilokar tilskipunin ekki mismunun ef lögmæt markmið réttlæta að vörur og þjónusta séu eingöngu eða aðallega veitt einstaklingum af öðru kyninu og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.
    Tilskipunin kveður sérstaklega á um þá meginreglu að tryggja skuli að notkun kynferðis sem stuðuls í útreikningum á iðgjaldi og bótum í tryggingastarfsemi og skyldri fjármálaþjónustu leiði ekki til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga. Sama á við um kostnað tengdan meðgöngu og fæðingu.
    Tilskipunin kveður á um lágmarkskröfur hvað varðar tryggingu á jöfnum rétti karla og kvenna hvað varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu. Einstökum aðildarríkjum er því heimilt að lögleiða ákvæði sem ganga lengra í að tryggja fullt jafnrétti í þessum efnum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2004/113/EB kallar á lagabreytingar hér á landi og hyggst velferðarráðherra leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum hennar. Innleiðingin mun hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt verður skoðað hvort breyta þurfi lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Velferðarráðuneytið mun vinna að innleiðingunni í nánu samstarfi við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Jafnréttisstofu. Ef innleiðingin leiðir til breytinga á lögum um vátryggingarsamninga verður einnig haft samráð við Fjármálaeftirlitið og starfandi tryggingafélög á markaði.
    Ekki er gert ráð fyrir að efni tilskipunarinnar hafi í för með sér teljandi efnahagsleg eða stjórnsýsluleg áhrif.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 147/2009

frá 4. desember 2009

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 51/2009 frá 24. apríl 2009 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun ráðsins 2004/113/EB frá 13. desember 2004 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 21b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/54/EB) í XVIII. viðauka við samninginn:

„21c.          32004 L 0113: Tilskipun ráðsins 2004/113/EB frá 13. desember 2004 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu (Stjtíð. ESB L 373, 21.12.2004, bls. 37).

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                Vísanir til „21. desember 2007“ í 5. og 17. gr. lesist „30. júní 2010“.“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2004/113/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 5. desember 2009, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 4. desember 2009.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
O.H. Sletnes
formaður.



Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

vegna ákvörðunar nr. 147/2009 um að fella tilskipun 2004/113/EB inn í samninginn


„Tilskipun 2004/113/EB byggist á 13. gr. EB-sáttmálans sem bættist við samkvæmt ákvæðum Amsterdamsáttmálans og á sér ekki samsvörun í EES-samningnum. Tilskipun 2004/113/ EB er felld inn í EES-samninginn með fyrirvara um gildissvið samningsins.“
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN RÁÐSINS 2004/113/EB
frá 13. desember 2004
um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og      afhendingu á vörum og þjónustu

RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 13. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í samræmi við 6. gr. sáttmálans um Evrópusambandið er Sambandið byggt á meginreglum um frelsi, lýðræði, virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi og á meginreglum réttarríkis, en þessar meginreglur eru sameiginlegar öllum aðildarríkjunum, og ber Sambandinu að virða, sem almennar meginreglur í lögum Bandalagsins, þau grundvallarréttindi sem eru tryggð í Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis og sem eiga uppruna sinn í sameiginlegum, stjórnarskrárbundnum hefðum aðildarríkjanna.
2)          Réttur allra manna til jafnréttis að lögum og til verndar gegn mismunun er almennur réttur sem viðurkenndur er í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (almennu mannréttindayfirlýsingunni), samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum, alþjóðasamningnum um afnám alls kynþáttamisréttis, samningum Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og í Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem öll aðildarríkin hafa undirritað.
3)          Jafnframt því að leggja bann við mismunun er mikilvægt að virða önnur grundvallarréttindi og frelsi, m.a. að tryggja vernd einkalífs og fjölskyldulífs og viðskipta, sem eiga sér stað í þessu samhengi, auk trúfrelsis.
4)          Jafnrétti karla og kvenna er grundvallarregla í Evrópusambandinu. Í 21. og 23. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er lagt bann við mismunun á grundvelli kynferðis og sú krafa gerð að jafnrétti karla og kvenna sé tryggt á öllum sviðum.
5)          Í 2. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins er kveðið á um að eitt af grundvallarverkefnum Bandalagsins sé að stuðla að slíku jafnrétti. Á sama hátt er kveðið á um í 2. mgr. 3. gr. sáttmálans, að Bandalagið miði að því í öllum störfum sínum að afnema ójöfnuð og stuðla að jafnrétti karla og kvenna.
6)          Framkvæmdastjórnin tilkynnti í orðsendingu sinni um framkvæmdaáætlun um félagsmál að hún hygðist leggja til tilskipun um kynjamismunun utan vinnumarkaðarins. Slík tillaga samræmist að öllu leyti ákvörðun ráðsins 2001/51/EB frá 20. desember 2000 um að koma á fót áætlun í tengslum við rammaátak Bandalagsins um jafnrétti kynjanna (2001– 2005) ( 4 ) sem tekur til allra stefnumála Bandalagsins og miðast við að stuðla að jafnrétti karla og kvenna með því að aðlaga þessi stefnumál og gera hagnýtar ráðstafanir til að bæta stöðu karla og kvenna í samfélaginu.
7)          Á fundi sínum í Nice 7. og 9. desember 2000 fór leiðtogaráðið þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún efldi jafnréttistengd réttindi með því að samþykkja tillögu að tilskipun um að stuðla að jafnrétti kynjanna á öðrum sviðum en í atvinnumálum og atvinnulífi.
8)          Framkvæmdastjórnin hefur samþykkt marga lagagerninga til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynjamismunun á vinnumarkaðinum. Þessir gerningar hafa leitt í ljós hversu mikilvæg löggjöfin er í baráttunni gegn mismunun.
9)          Kynjamismunun, þ.m.t. áreitni og kynferðisleg áreitni, viðgengst einnig utan vinnumarkaðarins. Þess háttar mismunun getur verið jafn skaðleg, og getur hindrað að karlar og konur samlagist að öllu leyti og farsællega í efnahagslegu og félagslegu lífi.
10)          Vandamálin eru einkum augljós að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu. Því skal koma í veg fyrir og uppræta kynjamismun á þessu sviði. Samanber tilskipun ráðsins 2000/43/EB frá 29. júní 2000 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar og þjóðernis ( 1 ) verður þessu markmiði betur náð með löggjöf Bandalagsins.
11)          Með slíkri löggjöf er rétt að banna kynjamismunun að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu. Með vörum er átt við vörur í skilningi ákvæða stofnsáttmála Evrópubandalagsins að því er varðar frjálsa vöruflutninga. Með þjónustu er átt við þjónustu í skilningi 50. gr. sáttmálans.
12)          Til að koma í veg fyrir kynjamismunun skal þessi tilskipun gilda hvort tveggja um beina mismunun og óbeina mismunun. Bein mismunun á sér aðeins stað þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð á grundvelli kynferðis en annar einstaklingur við sambærilegar aðstæður. Samkvæmt því tengist t.d. mismunun kynjanna, að því er varðar heilbrigðisþjónustu, vegna líkamlegs munar á kynjunum, ekki sambærilegum aðstæðum og telst því ekki vera mismunun.
13)          Bann við mismunun skal því gilda um einstaklinga sem útvega vörur og þjónustu, sem almenningur getur nálgast, og eru í boði utan einka- og fjölskyldulífs og viðskipti sem eru stunduð í þessu samhengi. Það skal ekki gilda um efni fjölmiðla eða auglýsingar, né heldur um menntun í almennum eða einkareknum skólum.
14)          Allir einstaklingar njóta þess frelsis að gera samninga, þ.m.t. frelsi til að velja samningsaðila í viðskiptum. Einstaklingur sem býður vörur eða þjónustu kann að hafa margar huglægar ástæður fyrir vali sínu á samningsaðila. Að því tilskildu að val á samstarfsaðila byggist ekki á kynferði þess einstaklings skal þessi tilskipun ekki brjóta í bága við frelsi einstaklingsins til að velja sér samningsaðila.
15)          Nú þegar eru fyrir hendi nokkrir lagagerningar um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf. Þess vegna skal þessi tilskipun ekki gilda um það svið. Sami rökstuðningur gildir um mál er varða sjálfstæða atvinnustarfsemi, að því tilskildu að þau falli undir gildandi lagagerninga. Tilskipunin skal einungis gilda um tryggingar og lífeyrisgreiðslur sem eru séreign, valfrjálsar og óviðkomandi ráðningarsambandi.
16)          Mismunur í meðferð er aðeins viðurkenndur ef hægt er að réttlæta hann með lögmætu markmiði. Lögmætt markmið getur t.d. verið verndun þolenda kynferðisofbeldis (t.d. að koma á fót athvarfi fyrir annað kynið), ástæður sem lúta að einkalífi og velsæmi (t.d. varðandi gistingu hjá einstaklingi á heimili hans), að stuðla að jafnrétti kynjanna eða hagsmunum karla eða kvenna (t.d. sjálfboðaliðasamtök fyrir annað kynið), félagafrelsi (þegar um er að ræða aðild að einkafélögum fyrir annað kynið) og skipulegu íþróttastarfi (t.d. íþróttaviðburðir fyrir annað kynið). Allar takmarkanir skulu hins vegar vera viðeigandi og nauðsynlegar í samræmi við viðmiðanirnar sem leiðir af dómaframkvæmd Dómstóls Evrópubandalaganna.
17)          Samkvæmt meginreglunni um jafna meðferð að því er varðar aðgang að vörum og þjónustu er þess ekki krafist að körlum og konum sé alltaf útveguð sameiginleg aðstaða, að því tilskildu að aðstaðan sé ekki hagstæðari fyrir annað kynið.
18)          Algengt er að nota tryggingafræðilega stuðla í tengslum við kynferði í tryggingastarfsemi og annarri skyldri fjármálaþjónustu. Í því skyni að tryggja jafna meðferð karla og kvenna ætti notkun kynferðis sem tryggingafræðilegs stuðuls ekki að leiða til mismunar á iðgjöldum og bótum einstaklinga. Til þess að komast hjá skyndilegum breytingum á markaðinum skal beiting þessarar reglu eingöngu gilda um nýja samninga sem gerðir eru eftir lögleiðingu þessarar tilskipunar.
19)          Tilteknir áhættuflokkar geta verið mismunandi eftir kynferði. Í sumum tilvikum er kynferði einn þáttanna, en ekki endilega sá eini, sem sker úr um mat á tryggðri áhættu. Að því er varðar samninga sem tryggja þessa áhættuflokka geta aðildarríki ákveðið að heimila undanþágur frá reglunni um iðgjöld og bætur fyrir bæði kynin, svo fremi þau geti tryggt að tryggingafræðileg og tölfræðileg gögn sem liggja til grundvallar útreikningunum séu áreiðanleg og reglulega uppfærð, og að almenningur hafi aðgang að þeim. Undanþágur eru aðeins veittar ef innlend löggjöf hefur ekki þegar beitt reglunni um bæði kynin. Fimm árum eftir lögleiðingu þessar tilskipunar skulu aðildarríkin endurskoða rökstuðninginn fyrir þessum undanþágum og taka tillit til nýjustu tryggingafræðilegra og tölfræðilegra gagna og skýrslu frá framkvæmdastjórninni þremur árum eftir að þessi tilskipun er lögleidd.
20)          Lakari meðferð á konum vegna meðgöngu og fæðingar skal teljast bein kynjamismunun og því bönnuð í tryggingastarfsemi og skyldri fjármálaþjónustu. Kostnaður vegna hættu á meðgöngu og fæðingu skal því ekki eingöngu eignaður öðru kyninu.
21)          Tryggja ber þeim sem hefur verið mismunað á grundvelli kynferðis nauðsynlega réttarvernd. Til að tryggja skilvirkari vernd skal einnig veita félögum, samtökum og öðrum lögaðilum heimild, sem aðildarríkin ákvarða nánar, til að koma að máli, annaðhvort fyrir hönd þolanda mismununar eða til stuðnings honum, sbr. þó málsmeðferðarreglur landslaga um fyrirsvar og málsvörn fyrir rétti.
22)          Aðlaga skal reglur um sönnunarbyrði þegar um mismunun við fyrstu sýn ( prima facie) er að ræða og, til að unnt sé að beita meginreglunni um jafna meðferð á skilvirkan hátt, skal sönnunarbyrðin færast yfir á hinn stefnda ef lögð eru fram sönnunargögn um slíka mismunun.
23)          Skilvirk framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð útheimtir fullnægjandi réttarvernd fyrir þolendur slæmrar meðferðar.
24)          Með það fyrir augum að vinna meginreglunni um jafna meðferð aukið fylgi skulu aðildarríkin hvetja til skoðanaskipta við viðeigandi hagsmunaaðila sem eiga, í samræmi við landslög og venju, lögmætra hagsmuna að gæta í baráttunni gegn kynjamismunun að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.
25)          Vernd gegn kynjamismunun styrktist ef í hverju aðildarríki væri aðili eða aðilar sem væru færir um að greina þau vandamál sem um er að ræða, kanna hugsanlegar lausnir og sjá þolendum fyrir raunhæfri aðstoð. Aðilinn eða aðilarnir geta verið þeir sömu og þeir sem á landsvísu bera ábyrgð á að verja mannréttindi, standa vörð um réttindi einstaklinga eða um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð.
26)          Í þessari tilskipun er mælt fyrir um lágmarkskröfur þannig að aðildarríkin eigi kost á að setja hagstæðari ákvæði eða viðhalda þeim. Ekki er unnt að bera fyrir sig framkvæmd þessarar tilskipunar til að réttlæta afturför á þessu sviði frá því sem nú tíðkast í aðildarríkjunum.
27)          Aðildarríkjunum ber að kveða á um skilvirk viðurlög við brotum gegn skyldum samkvæmt þessari tilskipun og séu þau í eðlilegu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif.
28)          Þar eð aðildarríkin geta ekki með fullnægjandi hætti náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e.a.s. að tryggja sameiginlega víðtæka vernd gegn mismunun í öllum aðildarríkjunum, og þeim verður því betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
29)          Aðildarríkin eru hvött, í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) til að setja fram fyrir sig og í þágu Bandalagsins sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og birta þær.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Markmið

Markmiðið með þessari tilskipun er að mæla fyrir um ramma til að berjast gegn kynjamismunun í tengslum við aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu með það fyrir augum að framfylgja meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna í aðildarríkjunum.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    bein mismunun: þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð á grundvelli kynferðis en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða fengi við sambærilegar aðstæður,
b)    óbein mismunun: þegar að því er virðist hlutlaust ákvæði, viðmiðun eða venja setur fólk af öðru kyninu í síðri stöðu en fólk af hinu kyninu, nema viðkomandi ákvæði, viðmiðun eða venja sé réttlætt á hlutlægan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná því markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar,
c)    áreitni: þegar óæskilegt framferði, sem tengist kynferði einstaklings, á sér stað og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu einstaklings og skapa ógnandi, fjandsamlegt, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða særandi andrúmsloft,
d)    kynferðisleg áreitni: þegar einhvers konar óæskilegt framferði, líkamlegt, með orðum, án orða eða af kynferðislegum toga, á sér stað og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu einstaklings, einkum þegar skapað er ógnandi, fjandsamlegt, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða særandi andrúmsloft.

3. gr.
Gildissvið

1.     Innan marka þeirra heimilda sem Bandalagið hefur skal þessi tilskipun gilda um alla einstaklinga sem útvega vörur og þjónustu á almennum markaði, án tillits til viðkomandi einstaklings, bæði að því er varðar opinbera geirann og einkageirann, þ.m.t. opinbera aðila, og sem eru í boði utan þess sviðs sem tekur til einka- og fjölskyldulífs og viðskipta sem eru stunduð í þessu samhengi.
2.     Þessi tilskipun skal ekki í brjóta í bága við frelsi einstaklingsins til að velja sér samningsaðila, að því tilskildu að val á samningsaðila byggist ekki á kynferði þess einstaklings.
3.     Þessi tilskipun skal ekki gilda um efni fjölmiðla og auglýsingar, né heldur um menntun.
4.     Þessi tilskipun gildir ekki um málefni er varða atvinnu og störf. Þessi tilskipun gildir ekki um málefni er varða sjálfstæða atvinnustarfsemi, að því tilskildu að þessi mál falli undir aðrar lagagerðir Bandalagsins.

4. gr.
Meginregla um jafna meðferð

1.     Í þessari tilskipun merkir meginreglan um jafna meðferð karla og kvenna að:
a)    ekki skuli viðgangast nokkur bein kynjamismunun, þ.m.t. lakari meðferð á konum vegna meðgöngu og fæðingar,
b)    ekki skuli viðgangast nokkur óbein kynjamismunun.
2.     Þessi tilskipun er með fyrirvara um hagstæðari ákvæði varðandi vernd kvenna, einkum með tilliti til meðgöngu og fæðingar.
3.     Áreitni og kynferðisleg áreitni í skilningi þessarar tilskipunar skal teljast mismunun á grundvelli kynferðis og skal því bönnuð. Óheimilt er að leggja til grundvallar ákvörðun, sem hefur áhrif á einstakling, hvort að hann hefur amast við eða sætt sig við slíkt framferði.
4.     Fyrirmæli um beina eða óbeina kynjamismunun skal teljast mismunun í skilningi þessarar tilskipunar.
5.     Þessi tilskipun skal ekki útiloka mismunandi meðferð ef lögmæt markmið réttlæta að vörur og þjónusta séu eingöngu eða aðallega veittar einstaklingum af öðru kyninu og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

5. gr.
Tryggingafræðilegir stuðlar

1.     Aðildarríki skulu tryggja að í öllum nýjum samningum, sem gerðir eru eftir 21. desember 2007 í síðasta lagi, leiði notkun kynferðis sem stuðuls í útreikningum á iðgjaldi og bótum í tryggingastarfsemi og skyldri fjármálaþjónustu ekki til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. geta aðildarríkin ákveðið fyrir 21. desember 2007 að leyfa hlutfallslegan mismun á iðgjöldum og bótum einstaklinga þar sem beiting kynferðis er ákvarðandi þáttur við mat á áhættu sem grundvallast á viðeigandi og nákvæmum tryggingafræðilegum og tölfræðilegum gögnum. Viðkomandi aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og tryggja að tekin séu saman nákvæm gögn, sem varða beitingu kynferðis sem ákvarðandi tryggingafræðilegs stuðuls og að þau séu birt og uppfærð reglulega. Þessi aðildarríki skulu endurskoða ákvörðun sína fimm árum eftir 21. desember 2007 að teknu tilliti til skýrslu framkvæmdastjórnarinnar, sem um getur í 16. gr., og skulu framsenda niðurstöðurnar úr þessari endurskoðun til framkvæmdastjórnarinnar.
3.     Í öllum tilvikum skal kostnaður tengdur meðgöngu og fæðingu ekki leiða til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.
Aðildarríki geta frestað framkvæmd þeirra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að fara að ákvæðum þessarar málsgreinar í mest tvö ár frá 21. desember 2007. Í því tilviki skal viðkomandi aðildarríki tafarlaust gera framkvæmdastjórninni grein fyrir því.

6. gr.
Sértækar aðgerðir

Til að tryggja fullt jafnrétti kynjanna í raun skal meginreglan um jafna meðferð ekki hindra neitt aðildarríkjanna í að viðhalda eða samþykkja sértækar ráðstafanir til að koma í veg eða bæta fyrir ókosti sem tengjast kynferði.

7. gr.
Lágmarkskröfur

1.     Aðildarríkjunum er heimilt að setja eða viðhalda ákvæðum sem eru hagstæðari, að því er við kemur vernd meginreglunnar um jafna meðferð karla og kvenna, en ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
2.     Framkvæmd þessarar tilskipunar skal ekki undir nokkrum kringumstæðum vera tilefni til að draga úr þeirri vernd gegn mismunun sem aðildarríkin þegar veita á sviðum sem tilskipun þessi tekur til.

II. KAFLI
ÚRRÆÐI OG FRAMKVÆMD
8. gr.
Réttindi varin

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að allir þeir, sem telja sig rangindum beitta vegna þess að meginreglunni um jafna meðferð hefur ekki verið fylgt í tilviki þeirra, eigi kost á dóms- og stjórnsýslumeðferð, einnig sáttameðferð þegar þau telja það við hæfi, til að tryggja að skyldum samkvæmt þessari tilskipun sé framfylgt, þótt aðstæðurnar, sem mismununin á að hafa átt sér stað við, séu ekki lengur fyrir hendi.
2.     Aðildarríkin skulu innleiða í réttarkerfi sín nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja raunverulegar og skilvirkar bætur eða endurgjald sem aðildarríkin ákvarða fyrir tap eða skaða, sem einstaklingur verður fyrir vegna mismununar í skilningi þessar tilskipunar, á þann hátt sem er letjandi og í réttu hlutfalli við skaðann. Þótt sett séu fyrirframákveðin efri mörk skal það ekki takmarka slíkar bætur eða endurgjald.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að félög, samtök eða aðrir lögaðilar, sem í samræmi við viðmiðanir í landslögum eiga lögmætra hagsmuna að gæta í því að tryggja að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar, geti átt aðild að dóms- eða stjórnsýslumeðferð sem miðar að því að fullnægja þeim skyldum sem þessi tilskipun hefur í för með sér, fyrir hönd kæranda eða til stuðnings honum og með eða án hans samþykkis.
4.     Ákvæði 1. og 3. mgr. hafa ekki áhrif á reglur landsréttar um fresti til höfða mál með tilliti til meginreglunnar um jafna meðferð.

9. gr.
Sönnunarbyrði

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við eigin réttarkerfi, til að tryggja að það sé stefnda að sanna að meginreglan um jafna meðferð hafi ekki verið brotin ef þeir sem telja sig beitta rangindum, þar eð meginreglunni um jafna meðferð hafi ekki verið beitt í þeirra tilviki, leggja fyrir dómstóla eða önnur lögbær yfirvöld staðreyndir sem gefa ástæðu til að ætla að bein eða óbein mismunun hafi átt sér stað.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin innleiði sönnunarreglur sem eru hagstæðari fyrir kærendur.
3.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki gilda um meðferð sakamála.
4.     Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. skulu einnig gilda í þeirri málsmeðferð sem um getur í 3. mgr. 8. gr.
5.     Aðildarríkin þurfa ekki að beita 1. mgr. í þeim málum þar sem dómstólum eða öðrum lögbærum aðila ber að rannsaka málsatvik.

10. gr.
Vernd gegn refsiaðgerðum

Aðildarríkin skulu setja ákvæði í eigin réttarkerfi um nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda einstaklinga gegn óhagstæðri meðferð eða óhagstæðum afleiðingum vegna viðbragða við kæru eða málarekstri sem hefur það að markmiði að sjá til þess að meginreglan um jafna meðferð sé virt.

11. gr.
Skoðanaskipti við hlutaðeigandi hagsmunaaðila

Með það fyrir augum að vinna meginreglunni um jafna meðferð aukið fylgi skulu aðildarríkin hvetja til skoðanaskipta við hlutaðeigandi hagsmunaaðila sem eiga í samræmi við landslög og venju lögmætra hagsmuna að gæta í baráttunni gegn kynjamismunun að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu.

III. KAFLI
AÐILAR SEM VINNA AÐ JAFNRI MEÐFERÐ
12. gr.

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna og gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir einn eða fleiri aðila sem eiga að stuðla að, greina, fylgjast með og styðja jafna meðferð allra einstaklinga án kynjamismununar. Þessir aðilar tilheyrt stofnunum sem hafa fengið það verkefni á landsvísu að verja mannréttindi, standa vörð um réttindi einstaklinga eða um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að hæfni aðilanna, sem um getur í 1. mgr., feli í sér:
a)    með fyrirvara um rétt þolenda og félaga, samtaka eða annarra lögaðila, sem um getur í 2. mgr. 8. gr., að þolendur mismununar sé veitt óháð aðstoð við að reka kærumál vegna mismununar,
b)    að óháðar kannanir séu gerðar á mismunun,
c)    að óháðar skýrslur séu birtar og tilmæli sett fram í málum er varða slíka mismunun.

IV. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
13. gr.
Ákvæði virt

Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að meginreglan um jafna meðferð sé virt að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu innan gildissviðs þessarar tilskipunar, einkum að:
a)    lög og stjórnsýslufyrirmæli, sem brjóta í bága við meginregluna um jafna meðferð, séu afnumin,
b)    öll samningsbundin ákvæði, eigin reglur fyrirtækja og reglur um fyrirtæki sem rekin eru í hagnaðarskyni, eða ekki eru rekin í hagnaðarskyni, sem brjóta í bága við meginregluna um jafna meðferð eru, eða kunna að verða, lýst ógild eða þeim breytt.

14. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin, sem geta verið greiðsla skaðabóta til þolanda mismununar, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði eigi síðar en 21. desember 2007 og skulu tilkynna henni án tafar um síðari breytingar á þeim.

15. gr.
Miðlun upplýsinga

Aðildarríkin skulu sjá til þess að allir viðkomandi aðilar á öllu yfirráðasvæði þeirra fái vitneskju eftir viðeigandi leiðum um ákvæði, sem eru samþykkt á grundvelli þessarar tilskipunar, og um viðeigandi ákvæði sem þegar eru í gildi.

16. gr.
Skýrslur

1.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni allar tiltækar upplýsingar varðandi beitingu þessarar tilskipunar fyrir 21. desember 2009 og á fimm ára fresti eftir það.
Framkvæmdastjórnin skal taka saman yfirlitsskýrslu, m.a. með endurskoðun á gildandi venjum aðildarríkja í tengslum við 5. gr. með tilliti til notkunar kynferðis sem stuðuls við útreikning á iðgjöldum og bótum. Hún skal leggja þessa skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 21. desember 2010. Framkvæmdastjórnin skal láta tillögur um að breyta tilskipuninni fylgja skýrslunni, ef við á.
2.     Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar skal taka tillit til sjónarmiða hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

17. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 21. desember 2007 til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um birtingu slíkrar tilvísunar.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

18. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

19. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 13. desember 2004.

Fyrir hönd ráðsins,
B. R. BOT
forseti.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 162, 25.6.2009, bls. 32, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 33, 25.6.2009, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 373, 21.12.2004, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Áliti var skilað 30. mars 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 241, 28.9.2004, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. ESB C 121, 30.4.2004, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 17, 19.1.2001, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 180, 19.7.2000, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.