Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 573. máls.

Þingskjal 890  —  573. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
     2.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.
     4.      Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
     2.      Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.
     4.      Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
    Starfsheimildir verðbréfasjóða takmarkast við að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum eignum, svo sem hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
    Tilskipun 2009/65/EB leysir af hólmi eldri tilskipanir um starfsemi verðbréfasjóða og mælir fyrir um almenn skilyrði fyrir rekstri og starfsemi þeirra. Þar er að finna breytingar sem ætlað er að draga úr skriffinnsku og stjórnsýslulegum hindrunum fyrir dreifingu eigna verðbréfasjóða yfir landamæri, búa til umgjörð fyrir samruna milli verðbréfasjóða, skilgreina lykilupplýsingar fyrir fjárfesta sem koma eiga í stað ákvæða um einfaldaða lýsingu og auðvelda samvinnu milli eftirlitsaðila í aðildarríkjunum. Í tilskipuninni eru enn fremur tilgreindar þær eignir sem verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í, auk reglna um fjölbreytni og seljanleika eignasafns sjóðanna. Með þessum breytingum er leitast við að auka samkeppnishæfni verðbréfasjóða í aðildarríkjunum, en verðbréfasjóðir í Evrópu eru mun smærri en sambærilegir sjóðir í Bandaríkjunum og rekstrarkostnaður þeirra er allt að tvöfaldur á við það sem þar þekkist.
    Rétt er að vekja athygli á að tilskipuninni tengjast tvær tilskipanir og tvær reglugerðir, þ.e. tilskipun 2010/42/EB sem varðar samruna sjóða, móðursjóði og hvernig tilkynningu sjóða til eftirlitsaðila skal vera háttað, tilskipun 2010/43/EB sem varðar hegðunarreglur fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða, reglugerð 583/2010 sem varðar lykilupplýsingar til fjárfesta og reglugerð 584/2010 sem varðar það hvernig fyrirhugaðri markaðssetningu verðbréfasjóðs skal vera háttað. Unnið er að innleiðingu þessara gerða samhliða innleiðingu tilskipunar 2009/65/EB.

4. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu.
    Markmið tilskipunarinnar er að tryggja samræmda innleiðingu og beitingu ákvæða tilskipunar 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana. Hún felur í sér tæknilegar breytingar á viðauka við tilskipun 2006/48/EB um eiginfjárkröfu lánastofnana og fjárfestingarfélaga varðandi áhættustjórnun.
    Samkvæmt niðurstöðum vinnuhóps um eiginfjárkröfur (Capital Requirements Directive Transposition Group – CRDTG) var talið nauðsynlegt að sérgreina betur nokkra viðauka í umræddri tilskipun til þess að tryggja samræmda framkvæmd. Nokkur ákvæði samsvöruðu ekki traustri áhættustjórnun lánastofnana og því var talið nauðsynlegt að gera umræddar breytingar.

5. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB.
    Tilskipuninni er ætlað að koma í staðinn fyrir og víkka gildissvið tilskipunar 2000/46/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og eftirlit með þeim, auk þess sem hún felur í sér breytingar á tveimur öðrum tilskipunum. Tilskipunin hefur m.a. að geyma hlutlausari og einfaldari skilgreiningu á rafeyri, ný ákvæði varðandi eftirlit og skýrari ákvæði um beitingu innlausnarákvæða.
    Talið var nauðsynlegt að endurskoða tilskipunina frá árinu 2000 þar sem mörg ákvæði hennar voru talin hindra starfsemi raunverulegs innri markaðar fyrir rafeyrisþjónustu og notendavæna þróun hennar. Í nýju tilskipuninni er að finna skýra skilgreiningu á rafeyri sem er tæknilega hlutlaus. Eftirlitskerfi rafeyrisfyrirtækja er endurskoðað og samræmt og aðlagað betur þeirri áhættu sem umrædd fyrirtæki starfa við. Tilskipuninni er ætlað að tryggja meira samræmi í þeim kröfum sem gerðar eru til rafeyrisfyrirtækja.
    Í tilskipuninni eru settar reglur um stofnfjármagn ásamt reglum um viðhald þess til þess að tryggja neytendavernd og trausta og heiðarlega starfsemi rafeyrisfyrirtækja. Þess er krafist að stofnfjármagn rafeyrisfyrirtækja nemi a.m.k. 350.000 evrum.
    Enn fremur eru settar reglur um innlausn rafeyris. Aðildarríkin eiga að tryggja að sá sem hefur rafeyri undir höndum geti krafist þess að fá jafngildi hans afhent í peningum.

6.     Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu.
    Tilmælin varða starfskjör í fjármálageiranum. Þau eru ekki lagalega bindandi heldur er aðildarríkjunum boðið að setja ákveðnar reglur á þessu sviði. Lagt er til að aðildarríkin setji reglur sem tryggi að starfskjarastefna fyrir starfsmenn sem taki áhættu (risk-taking staff) sé í samræmi við og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun. Jafnvægi á að vera milli fastra launa og bónusgreiðslna og greiðslu meginhluta bónusgreiðslna skal frestað til að tekið sé tillit til sveiflna í viðskiptalífinu og hagkerfinu sem geta haft áhrif á árangur. Mælingar á frammistöðu skulu taka tillit til langtímaárangurs og skulu aðlagaðar til að taka tillit til undirliggjandi þátta varðandi áhættu, fjármagnskostnað og aðgang að lánsfé. Fjármálastofnanir ættu einnig að geta krafist endurgreiðslu á bónusgreiðslum ef í ljós kemur að þær hafi verið byggðar á röngum upplýsingum. Starfskjarastefnan ætti einnig að vera gagnsæ og skýr og innihalda ákvæði til að draga úr hagsmunaárekstrum. Stjórn og annað starfslið sem kemur að hönnun og framkvæmd starfskjarastefnunnar ætti að vera óháð og upplýsa ætti hluthafa um starfskjarastefnuna á viðeigandi hátt. Loks ættu eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði að yfirfara og leggja mat á starfskjarastefnu fjármálastofnana til að tryggja að stefnan sé í samræmi við skilvirka áhættustjórnun.

7. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra fyrirhugar að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp til breytinga á lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 2009/65/EB. Efni tilskipunar 2009/83/EB verður innleitt með breytingum á reglum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu. Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipana 2009/65/EB og 2009/83/EB hafi veruleg áhrif hér á landi.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra fyrirhugar einnig að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp til laga um rafeyrisfyrirtæki sem ætlað er að innleiða ákvæði tilskipunar 2009/110/EB. Líklegt er að sérákvæði um rafeyrisfyrirtæki verði þá felld úr lögum um fjármálafyrirtæki. Innleiðing tilskipunarinnar mun líklega leiða til aukinnar útgáfu og notkunar rafeyris hér á landi.
    Ísland hefur nú þegar tekið tillit til tilmæla framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB með setningu 57. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en ákvæðið kom inn í lögin með lögum nr. 75/2010. Þar er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið setji reglur um kaupaukakerfi (Reglur Fjármálaeftirlitsins nr. 700/2011 um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja).



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 120/2010

frá 10. nóvember 2010

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 frá 2. júlí 2010 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði ( 2 ).

3)         Fella ber inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu ( 3 ).

4)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB ( 4 ).

5)         Fella ber inn í samninginn tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu ( 5 ).

6)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2009/65/EB fellur úr gildi, hinn 1. júlí 2011, tilskipun ráðsins 85/611/EBE ( 6 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum þannig að brottfellingin komi til framkvæmda 1. júlí 2011.

7)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2009/110/EB fellur úr gildi, hinn 30. apríl 2011, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB ( 7 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum þannig að brottfellingin komi til framkvæmda 30. apríl 2011.

8)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB ( 8 ), sem var felld inn í samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 ( 9 ) frá 26. september 2003, féll úr gildi tilskipun ráðsins 77/92/EBE ( 10 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði IX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.             Liðir 30 (tilskipun ráðsins 85/611/EBE) og 30a (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB) verði endurtölusettir sem liðir 30a og 30b.

2.             Eftirfarandi liður bætist við á undan nýjum lið 30a (tilskipun ráðsins 85/611/EBE):

            „30.     32009 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB frá 13. júlí 2009 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (endurútgefin) (Stjtíð. ESB L 302, 17.11.2009, bls. 32).“

3.             Texti nýs liðar 30a (tilskipun ráðsins 85/611/EBE) falli brott þannig að brottfellingin komi til framkvæmda 1. júlí 2011.

4.             15. liður (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB) verði endurtölusettur sem liður 15a.

5.             Eftirfarandi liður bætist við á undan nýjum lið 15a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB):

            „15.     32009 L 0110: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB (Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7).“

6.             Texti nýs liðar 15a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB) falli brott þannig að brottfellingin komi til framkvæmda 30. apríl 2011.

7.             Eftirfarandi undirliðir bætist við í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB):

            „–     32009 L 0083: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2009/83/EB frá 27. júlí 2009 (Stjtíð. ESB L 196, 28.7.2009, bls. 14),

            –         32009 L 0110: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7).“

8.             Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 23b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB):

            „–     32009 L 0110: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7).“

9.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir 43. lið (tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2007/ 657/EB):

        „44.     32009 H 0384: Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2009/384/EB frá 30. apríl 2009 um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu (Stjtíð. ESB L 120, 15.5.2009, bls. 22).“

10.    Textinn í 13. lið (tilskipun ráðsins 77/92/EBE) falli brott.

11.    Liðir 29f (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2004/72/EB) og 29g (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB) verði endurtölusettir sem liðir 29c og 29d.

12.    Liður 29ga (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB) verði endurtölusettur sem liður 29da.

13.    Liður 29h (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007) verði endurtölusettur sem liður 29e.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipana 2009/65/EB, 2009/83/EB og 2009/110/EB og tilmæla 2009/384/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 11. nóvember 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 10. nóvember 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Stefán Haukur Jóhannesson

formaður.


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/65/EB
frá 13. júlí 2009
um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS)
(endurútgefin)
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 1 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) ( 2 ) hefur nokkrum sinnum verið breytt í veigamiklum atriðum ( 3 ). Þar sem um frekari breytingar verður að ræða er rétt að endurútgefa hana fyrir skýrleika sakir.
2)          Tilskipun 85/611/EBE hefur haft mikil áhrif á þróun og árangur evrópska fjárfestingarsjóðageirans. Þrátt fyrir endurbætur sem teknar hafa verið upp eftir innleiðingu hennar, einkum árið 2001, hefur það komið betur í ljós að breytinga á lagaramma fyrir verðbréfasjóði er þörf, til þess að aðlaga hann að fjármálamörkuðum tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Grænbók framkvæmdastjórnarinnar frá 12. júlí 2005 um umbætur á ramma Evrópusambandsins að því er varðar fjárfestingarsjóði varð kveikjan að opinberri umræðu um með hvaða hætti skyldi breyta tilskipun 85/611/EBE til þess að takast á við þessar nýju áskoranir. Það ítarlega samráðsferli leiddi til þeirrar, að mestu, sameiginlegu niðurstöðu að verulegra breytinga á tilskipuninni væri þörf.
3)          Landslög sem gilda um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu skulu samræmd með það í huga að samræma samkeppnisskilyrði þessara fyrirtækja á vettvangi Bandalagsins, á sama tíma og tryggð er skilvirkari og einsleitari vernd eigenda hlutdeildarskírteina. Þess háttar samræming stuðlar að afléttingu takmarkana á frjálsu flæði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða innan Bandalagsins.
4)          Með hliðsjón af þessum markmiðum, er æskilegt að kveða á um sameiginlegar grundvallarreglur um starfsleyfi, eftirlit, skipan og starfsemi verðbréfasjóða, sem komið er á fót í aðildarríkjunum, og þær upplýsingar sem þeim er skylt að birta.
5)          Samræmingin skal takmarkast við lög aðildarríkjanna um verðbréfasjóði, aðra en þá sem eru lokaðir, sem bjóða almenningi innan Bandalagsins hlutdeildarskírteini sín til sölu. Æskilegt er að verðbréfasjóðum sé heimilt, sem hluti af fjárfestingarmarkmiði sínu, að fjárfesta í fjármálagerningum, öðrum en framseljanlegum verðbréfum, sem eru nægjanlega seljanleg. Í þessari tilskipun eru skráðir þeir fjármálagerningar sem koma til greina sem fjárfestingar í verðbréfasafni verðbréfasjóðs. Val á fjárfestingum fyrir verðbréfasafn, með því að nota vísitölu, heyrir undir stjórnunaraðferðir.
6)          Ef í ákvæðum þessarar tilskipunar er gerð krafa um að verðbréfasjóðir grípi til aðgerða skal ríkja sá skilningur að þau ákvæði vísi til rekstrarfélags í þeim tilvikum sem verðbréfasjóðir eru stofnaðir sem sameignarsjóður undir stjórn rekstrarfélags og þar sem sameignarsjóður er ekki í stöðu til að aðhafast sjálfur vegna þess að hann hefur ekki réttarstöðu lögaðila.
7)          Einingar verðbréfasjóðs teljast vera fjármálagerningar að því er varðar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 1 ).
8)          Leyfi, sem rekstrarfélagi er veitt í heimaaðildarríki sínu, ætti að tryggja vernd fjárfesta og gjaldþol rekstarfélaga með það fyrir augum að stuðla að stöðugleika fjármálakerfisins. Sú aðferð sem samþykkt er með þessari tilskipun er að ná fram nauðsynlegri lágmarkssamræmingu til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á leyfum og fyrirkomulagi á varfærniseftirlit sem gerir það að verkum að hægt er að gefa út eitt leyfi sem gildir alls staðar í Bandalaginu og beita meginreglu um að láta heimaaðildarríkið annast eftirlit.
9)          Til að tryggja að rekstrarfélagið geti rækt þær skyldur sem fylgja starfsemi þess og til að tryggja með þeim hætti stöðugleika þess er gerð krafa um stofnfé og eiginfjárviðbót. Til að taka mið af þeirri þróun sem á sér stað, einkum að því er varðar eiginfjárkröfur vegna rekstraráhættu innan Bandalagsins og á alþjóðavettvangi að öðru leyti, þarf að endurskoða þessar kröfur, þ.m.t. kröfur um notkun ábyrgða.
10)          Til að vernda fjárfesta er nauðsynlegt að tryggja innra eftirlit í öllum rekstrarfélögum, einkum með því að hafa tvo stjórnendur og fullnægjandi innra eftirlitskerfi.
11)          Í krafti meginreglunnar um eftirlit heimaaðildarríkis ber að heimila rekstrarfélögum með leyfi í heimaaðildarríki sínu að veita þá þjónustu, sem þau hafa leyfi fyrir, í gervöllu Bandalaginu með því að koma á fót útibúum eða á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu.
12)          Að því er varðar sameiginlega stjórnun eignasafns (rekstur fjárhaldssjóða/sameignarsjóða eða fjárfestingarfélaga) ætti starfsleyfi, sem veitt er rekstrarfélagi í heimaaðildarríki sínu, að gera félaginu kleift að stunda eftirfarandi starfsemi í gistiaðildarríkjum með fyrirvara um XI. kafla: að dreifa, með því að koma á fót útibúi, hlutdeildarskírteinum í samræmdum fjárhaldssjóðum/sameignarsjóðum sem reknir eru af því félagi í heimaaðildarríki þess; að dreifa hlutabréfum samræmdra fjárfestingarfélaga sem félagið rekur, með því að koma á fót útibúi; að dreifa hlutdeildarskírteinum samræmdra fjárhaldssjóða/sameignarsjóða eða hlutabréfum samræmdra fjárfestingarfélaga sem önnur rekstrarfélög reka; að annast öll önnur störf og verkefni sem fylgja sameiginlegri stjórnun verðbréfasafns; að stýra eignum fjárfestingarfélaga sem stofnuð eru í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríki rekstrarfélagsins; að annast, á grundvelli umboða og fyrir hönd rekstrarfélaga sem stofnuð eru í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríki rekstrarfélagsins, þau störf sem fylgja sameiginlegri stjórnun verðbréfasafns. Ef rekstrarfélag dreifir hlutdeildarskírteinum eigin samræmdra fjárhaldssjóða/sameignarsjóða eða hlutabréfum í eigin samræmdum fjárfestingarfélögum í gistiaðildarríkjum, án þess að koma á fót útibúi, skal það aðeins falla undir reglur um markaðssetningu yfir landamæri.
13)          Með tilliti til umfangs starfsemi rekstrarfélaga og til að taka tillit til landslaga og heimila þess háttar félögum að ná fram marktækri stærðarhagkvæmni er einnig æskilegt að leyfa slíkum félögum að stunda stýringu fjárfestingasafna fyrir einstaka viðskiptavini (e. individual portfolio management), þ.m.t. lífeyrissjóðir sem og tiltekin viðbótarstarfsemi í tengslum við meginstarfsemi án þess að það hafi áhrif á stöðugleika þess háttar fyrirtækja. Þó er rétt að mæla fyrir um sérstakar reglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra þegar rekstrarfélög hafa bæði heimild til að starfa við sameiginlega og einstaklingsmiðaða stýringu verðbréfasafna.
14)          Stýring einstakra fjárfestingasafna er fjárfestingarþjónusta sem fellur undir tilskipun 2004/ 39/EB. Til að tryggja einsleitan regluramma á þessu sviði er æskilegt að rekstrarfélög lúti þeim rekstrarskilyrðum sem mælt er fyrir um í þeirri tilskipun enda taka leyfi þeirra einnig til þessarar þjónustu.
15)          Að jafnaði ætti heimaaðildarríki að geta sett strangari reglur en mælt er fyrir um í þessari tilskipun, einkum að því er varðar skilyrði fyrir leyfi, varfærniskröfur, reglur um reikningsskil og útboðslýsingar.
16)          Æskilegt er að settar verði reglur sem skilgreina forsendurnar fyrir því að rekstrarfélag megi, á grundvelli umboða, vista tiltekin verkefni og störf hjá þriðju aðilum til að auka skilvirkni í rekstri starfseminnar. Til að tryggja rétta beitingu meginreglnanna um eftirlit heimaaðildarríkis skulu aðildarríki, sem leyfa þannig úthlutun verkefna, sjá til þess að rekstrarfélagið, sem þau veittu leyfi, feli ekki alla starfsemi sína einum eða fleiri þriðju aðilum og verði þar með að póstkassafyrirtæki og að umboðin komi ekki í veg fyrir skilvirkt eftirlit með rekstrarfélaginu. Þótt rekstrarfélagið hafi vistað verkefni sín hjá öðrum aðilum skal það í engum tilvikum hafa áhrif á skaðabótaábyrgð þess félags og vörslufyrirtækja gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina og lögbærum yfirvöldum.
17)          Til þess að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði og viðeigandi eftirlit til langs tíma, skal framkvæmdastjórnin hafa möguleika á að rannsaka möguleika til þess að samræma fyrirkomulag úthlutunar á vettvangi Bandalagsins.
18)          Í meginreglunum um eftirlit heimaaðildarríkis er þess krafist að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna afturkalli eða veiti ekki leyfi þegar t.a.m. efni starfsáætlana, landfræðileg staðsetning eða starfsemi, sem fer fram þá stundina, bendir ótvírætt til þess að rekstrarfélag hafi valið réttarkerfi tiltekins aðildarríkis til að komast hjá strangari ákvæðum sem gilda í aðildarríkinu þar sem það hefur í hyggju að reka eða rekur nú þegar stærstan hluta starfsemi sinnar. Samkvæmt þessari tilskipun ætti rekstrarfélag að hafa leyfi í aðildarríkinu þar sem það er með skráða skrifstofu. Í samræmi við meginreglurnar um eftirlit heimaaðildarríkis, skulu einungis lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags teljast hæf til að hafa eftirlit með skipulagi rekstrarfélags, þ.m.t. öllum verklagsreglum og tilföngum við framkvæmd stjórnunar sem um getur í II. viðauka, sem ætti að falla undir lög heimaaðildarríkis um rekstrarfélög.
19)          Ef verðbréfasjóður er undir stjórn rekstrarfélags sem hefur starfsleyfi í aðildarríki öðru en heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins, ætti viðkomandi rekstrarfélag að samþykkja og koma á viðeigandi málsmeðferð og fyrirkomulagi til að meðhöndla kvartanir fjárfesta, svo sem með viðeigandi ákvæðum varðandi fyrirkomulag dreifingar eða með heimilisfangi í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, sem þarf ekki að vera heimilisfang sjálfs rekstrarfélagsins. Slíkt rekstrarfélag skal einnig koma á fót viðeigandi málsmeðferð og fyrirkomulagi til að gera upplýsingar aðgengilegar að beiðni almennings eða lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs, svo sem með tilnefningu tengiliðs, úr hópi starfsmanna rekstrarfélags, til að meðhöndla beiðnir um upplýsingar. Þess skal þó ekki krafist samkvæmt lögum heimaaðildarríkis um verðbréfasjóði að þess háttar rekstrarfélag hafi staðarfulltrúa í því aðildarríki til að uppfylla þær skyldur.
20)          Lögbær yfirvöld, sem veita verðbréfasjóði starfsleyfi, skulu taka tillit til reglna sameignarsjóðs eða stofnsamnings rekstrarfélags, val á vörslufyrirtæki og getu rekstrarfélags til að stýra verðbréfasjóði. Ef rekstrarfélag er stofnsett í öðru aðildarríki, skulu lögbær yfirvöld geta treyst á staðfestingu, útgefinni af lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélags, varðandi tegund verðbréfasjóðs sem rekstrarfélagi er heimilt að stýra. Starfsleyfi verðbréfasjóðs skal ekki vera með fyrirvara um viðbótar eiginfjárkröfur til rekstrarfélags, staðsetningu skráðrar skrifstofu rekstrarfélags í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, eða staðsetningu hvers konar starfsemi rekstrarfélags í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs.
21)          Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skulu vera hæf til að hafa eftirlit með því hvort farið er að reglum varðandi stofnun og rekstur verðbréfasjóðs, sem skal falla undir lög heimaaðildarríkis um verðbréfasjóði. Í þessu skyni skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs geta nálgast upplýsingar beint frá rekstrarfélagi. Einkum geta lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags krafist þess að rekstrarfélag veiti upplýsingar um viðskipti í tengslum við fjárfestingar verðbréfasjóðs sem leyfðar eru í því aðildarríki, þ.m.t. upplýsingar úr bókum og gögnum varðandi þau viðskipti og reikningsskil sjóðs. Til að ráða bót á brotum á reglum sem eru á þeirra ábyrgð, skulu lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki rekstrarfélags geta treyst á samvinnu lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki rekstrarfélags og, ef nauðsyn krefur, geta gripið til aðgerða beint gegn rekstrarfélagi.
22)          Það skal vera mögulegt fyrir heimaaðildarríki verðbréfasjóðs að kveða á um reglur varðandi inntak eigendaskrár hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs. Skipulag viðhalds og staðsetning þeirrar skrár skal þó áfram vera hluti af skipulagsráðstöfunum rekstrarfélags.
23)          Það er nauðsynlegt að veita heimaaðildarríki verðbréfasjóðs öll úrræði til að bæta fyrir hvers konar brot á reglum verðbréfasjóðs. Í því skyni skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs geta gripið til forvarnarráðstafana og samþykkt viðurlög að því er varðar rekstrarfélagið. Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs eiga ekki annars úrkosti, skulu þau geta krafist þess að rekstrarfélag hætti rekstri verðbréfasjóðs. Aðildarríki skulu kveða á um nauðsynleg ákvæði til að tryggja skipulega stjórnun eða félagsslit verðbréfasjóðs í slíkum tilvikum.
24)          Til að koma í veg fyrir eftirlitshögnun (e. supervisory arbitrage) og til að stuðla að tiltrú á skilvirkni eftirlits lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríkinu, skal hafna starfsleyfum ef verðbréfasjóðum er ekki heimilt að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín í heimaaðildarríki sínu. Þegar verðbréfasjóður hefur fengið starfsleyfi skal hann hafa val um í hvaða aðildarríki eða -ríkjum hann markaðssetur hlutdeildarskírteini sín, í samræmi við þessa tilskipun.
25)          Til að vernda hagsmuni hluthafa og tryggja jöfn samkeppnisskilyrði á markaðnum fyrir samræmd fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu er gerð krafa um að fjárfestingarfélög ráði yfir stofnfé. Að því er varðar fjárfestingarfélög sem hafa tilnefnt rekstrarfélög mun þessu skilyrði þó teljast fullnægt með viðbótarstofnfé rekstrarfélagsins.
26)          Ef til eru gildandi reglur um starfshætti fyrirtækja og úthlutun verkefna og ef þess konar úthlutun rekstrarfélags er heimil samkvæmt lögum heimaaðildarríkis þess, skulu viðurkennd fjárfestingarfélög fara að þeim reglum, að breyttu breytanda, annað hvort beint, ef þau hafa ekki tilnefnt rekstrarfélag sem er viðurkennt í samræmi við þessa tilskipun, eða óbeint, ef þau hafa tilnefnt slíkt rekstrarfélag.
27)          Þrátt fyrir þörf á styrkingu verðbréfasjóða, getur samruni verðbréfasjóða leitt til margvíslegra lagalegra og stjórnsýslulegra erfiðleika í Bandalaginu. Til þess að bæta starfsemi innri markaðarins er því nauðsynlegt að mæla fyrir um ákvæði Bandalagsins sem auðvelda samruna verðbréfasjóða (og fjárfestingadeilda þeirra). Þrátt fyrir að sum aðildarríki séu líkleg til þess að leyfa aðeins samningsbundna sjóði, skal hvert aðildarríki leyfa og viðurkenna samruna allra tegunda verðbréfasjóða (samningsbundinna, fyrirtækja- og einingasjóða) yfir landamæri án þess að aðildarríki þurfi að innleiða ný lagaleg form verðbréfasjóða í landslög sín.
28)          Tilskipun þessi varðar þær samrunaaðferðir sem oftast er beitt í aðildarríkjunum. Samkvæmt henni er þess ekki krafist að öll aðildarríki innleiði allar þrjár aðferðirnar í landslög sín, en hvert aðildarríki skal viðurkenna yfirfærslu eigna í kjölfar þessara samrunaaðferða. Tilskipun þessi kemur ekki í veg fyrir að verðbréfasjóðir noti aðrar aðferðir eingöngu á landsbundnum grundvelli, við aðstæður þar sem enginn af hlutaðeigandi verðbréfasjóðum hefur tilkynnt um markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna yfir landamæri. Þess háttar samruni mun áfram falla undir viðeigandi ákvæði landslaga. Landsreglur um ákvörðunarbæran meirihluta skulu hvorki mismuna samrunum innanlands og yfir landamæri, né vera strangari en þær reglur sem settar eru fram varðandi samruna viðskiptafyrirtækja.
29)          Til að tryggja hagsmuni fjárfesta, skulu aðildarríki krefjast þess að fyrirhugaður samruni verðbréfasjóða, innanlands eða yfir landamæri, sé með fyrirvara um leyfi lögbærra yfirvalda. Að því er varðar samruna yfir landamæri, skulu lögbær yfirvöld samrunasjóðanna leyfa samrunann til þess að hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina, sem í reynd flytjast á milli verðbréfasjóða, séu tryggðir á viðeigandi hátt. Ef um er að ræða fleiri en einn samrunasjóð og slíkir verðbréfasjóðir hafi lögheimili í öðrum aðildarríkjum, verða lögbær yfirvöld hvers samrunasjóðs að leyfa samrunann, í náinni samvinnu við hvert annað, þ.m.t. með viðeigandi upplýsingaskiptum. Þar sem einnig þarf að vernda hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina viðtökusjóðs, skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki viðtökusjóðs taka tillit til þeirra.
30)          Eigendur hlutdeildarskírteina bæði samruna- og viðtökusjóða, skulu einnig geta krafist endurkaupa eða innlausnar á hlutdeildarskírteinum sínum eða, ef það er mögulegt, að þeim sé breytt í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóðum með sambærilega fjárfestingarstefnu og undir stjórn sama rekstrarfélags eða tengds fyrirtækis. Sá réttur skal ekki vera með fyrirvara um nokkurs konar viðbótarkostnað, fyrir utan þóknanir, sem hlutaðeigandi verðbréfasjóður heldur eftir til að standa straum af kostnaði við sölu á einstökum eignum í öllum tilvikum, eins og sett er fram í útboðslýsingum samruna- og viðtökusjóðanna.
31)          Eftirlit þriðja aðila með samrunum skal einnig tryggt. Vörslufyrirtæki hvers verðbréfasjóðs sem tekur þátt í samrunanum skulu staðfesta samræmi sameiginlegrar áætlunar um samruna við viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar og sjóðsreglna verðbréfasjóðanna. Annaðhvort vörslufyrirtæki eða óháður endurskoðandi skal taka saman skýrslu fyrir hönd allra hlutaðeigandi verðbréfasjóða í samrunanum sem staðfestir aðferðir við mat á eignum og skuldum slíkra verðbréfasjóða og aðferð við útreikning á skiptihlutfalli eins og það er sett fram í sameiginlegri samrunaáætlun sem og raunverulegt skiptihlutfall og, eftir atvikum, greiðslu í handbæru fé fyrir hvert hlutdeildarskírteini. Til að takmarka kostnað í tengslum við samruna yfir landamæri, skal vera mögulegt að taka saman eina skýrslu fyrir alla hlutaðeigandi verðbréfasjóði og skal löggiltum endurskoðanda samruna- eða viðtökusjóðsins, gert kleift að taka hana saman. Að því er varðar vernd fjárfesta, skulu eigendur hlutdeildarskírteina geta fengið afrit af þeirri skýrslu endurgjaldslaust, óski þeir eftir því.
32)          Það er sérstaklega mikilvægt að eigendur hlutdeildarskírteina fái fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðan samruna og að réttindi þeirra séu nægilega vel tryggð. Enda þótt hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina samrunasjóðs verði fyrir mestum áhrifum af samrunanum, skulu hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina viðtökusjóðs einnig tryggðir.
33)          Ákvæði varðandi samruna, sem sett eru fram í þessari tilskipun, hafa ekki áhrif á beitingu löggjafar um eftirlit með samþjöppun fyrirtækja, einkum reglugerð ráðsins (EB) nr. 139/2004 frá 20. janúar 2004 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja (samrunareglugerð EB) ( 1 ).
34)          Frjáls markaðssetning hlutdeildarskírteina, sem gefin eru út af verðbréfasjóðum, sem heimilt er að fjárfesta fyrir allt að 100% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum útgefnum af sama útgefanda (ríki, staðaryfirvöldum o.s.frv.), skal ekki hafa bein eða óbein truflandi áhrif á starfsemi fjármagnsmarkaðarins eða fjármögnun aðildarríkjanna.
35)          Skilgreiningin á framseljanlegum verðbréfum í þessari tilskipun á einungis við að því er varðar þessa tilskipun og hefur engin áhrif á ýmsar skilgreiningar í löggjöf einstakra ríkja, í öðru skyni, s.s. varðandi skattlagningu. Þar af leiðandi tekur þessi skilgreining ekki til hlutabréfa og annarra jafngildra verðbréfa sem gefin eru út af aðilum s.s. byggingarfélögum (e. building societies) eða atvinnugreina- og styrktarstofnunum (e. industrial and provident societies) en ekki er unnt að yfirfæra eignarrétt á þeim í reynd á annan hátt en þann að útgefandi kaupi þau aftur.
36)          Undir peningamarkaðsgerninga heyra framseljanlegir gerningar sem viðskipti eru að jafnaði stunduð með á peningamarkaði frekar en á skipulegum mörkuðum, t.d. ríkis- og sveitarfélagavíxlar, innlánsskírteini, viðskiptabréf, meðallöng skuldabréf og víxlar sem bankar ábyrgjast.
37)          Hugtakið skipulegur markaður í þessari tilskipun samsvarar hugtakinu í tilskipun 2004/39/ EB.
38)          Æskilegt er að leyfa verðbréfasjóði að fjárfesta eignir sínar í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og öðrum opnum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta einnig í lausafjáreignum, eins og um getur í þessari tilskipun, og starfa samkvæmt meginreglunni um áhættudreifingu. Nauðsynlegt er að verðbréfasjóðir eða önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem verðbréfasjóðir fjárfesta í, séu undir skilvirku eftirliti.
39)          Greiða ber fyrir þróun möguleika verðbréfasjóða á að fjárfesta í verðbréfasjóðum og öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu. Því er mikilvægt að tryggja að slík fjárfestingarstarfsemi dragi ekki úr vernd fjárfesta. Vegna aukinna möguleika verðbréfasjóða á að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu er nauðsynlegt að setja ákveðnar reglur um magntakmarkanir, birtingu upplýsinga og hvernig koma eigi í veg fyrir keðjuverkun (e. the cascade phenomenon).
40)          Til að tekið sé tillit til markaðsþróunar og vegna tilkomu efnahags- og myntsamstarfsins er æskilegt að verðbréfasjóðir fái heimild til að fjárfesta í bankainnlánum. Til að tryggja að fjárfestingar í innlánum séu innleysanlegar skulu innlánin gjaldkræf við kröfu eða unnt skal vera að taka þau út. Ef fé er lagt inn til geymslu hjá lánastofnun sem er með skráða skrifstofu í þriðja landi skal lánastofnunin lúta varfærnisreglum sem jafngilda að minnsta kosti þeim sem mælt er fyrir um í löggjöf Bandalagsins.
41)          Til viðbótar við þau tilvik, þar sem verðbréfasjóður fjárfestir í bankainnlánum samkvæmt sjóðsreglum sínum eða stofnsamningum, skal vera mögulegt að heimila öllum verðbréfasjóðum að eiga viðbótarlausaeignir, svo sem hlaupareikningsinnstæður. Réttlæta má eign þess konar viðbótarlausaeigna, m.a. í eftirfarandi tilvikum: til að standa straum af hlaupandi greiðslum eða sérstökum greiðslum; þegar um sölu er að ræða, í þann tíma sem það tekur að endurfjárfesta í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsgerningum eða í öðrum peningalegum eignum sem kveðið er á um í þessari tilskipun; eða í þann tíma sem er strangt til tekið nauðsynlegur þegar fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, fjármálagerningum á peningamarkaði og í öðrum peningalegum eignum er frestað vegna óhagstæðra markaðsskilyrða.
42)          Af varfærnisástæðum er nauðsynlegt að forðast að of mikið af fjárfestingum verðbréfasjóðs sé hjá einum aðila eða hjá aðilum sem tilheyra sömu samstæðu ef fjárfestingarnar fela í sér mótaðilaáhættu fyrir sjóðinn.
43)          Verðbréfasjóðir skulu hafa skýlaust leyfi til að fjárfesta í afleiddum fjármálagerningum, bæði innan ramma almennrar fjárfestingarstefnu sinnar eða til áhættuvarna, til að þeir geti náð settu fjárhagslegu markmiði eða fylgt því áhættusniði (e. risk profile) sem tilgreint er í útboðslýsingunni. Til að tryggja vernd fjárfesta er nauðsynlegt að takmarka hugsanlega hámarksáhættu vegna afleiddra fjármálagerninga til að hún fari ekki yfir hreint heildarvirði eignasafns verðbréfasjóðsins. Til að áhætta og skuldbindingar vegna viðskipta með afleiður séu ætíð ljósar og til að fylgjast með því að ekki sé farið yfir leyfilegt hámark fjárfestinga þarf stöðugt að mæla og vakta þessa áhættu og skuldbindingar. Loks skulu verðbréfasjóðir lýsa áætlunum sínum, aðferðum og mörkum fjárfestinga í viðskiptum með afleiður til að tryggja vernd fjárfesta með birtingu upplýsinga.
44)          Það er nauðsynlegt að ráðstafanir til að bregðast við mögulegum mismun á hagsmunum að því er varðar afurðir þar sem útlánaáhætta færist til við verðbréfun, eins og fyrirhugað er að því er varðar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 varðandi stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB frá 14. júní 2006 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( 2 ), séu samræmdar og samfelldar í öllum viðkomandi reglugerðum fjármálageirans. Framkvæmdastjórnin mun setja fram viðeigandi tillögur að nýrri löggjöf, þ.m.t. að því er varðar þessa tilskipun, til að tryggja slíkt samræmi og samfellu, eftir að hafa með viðeigandi hætti tekið tillit til áhrifa þess konar tillaga.
45)          Að því er afleiður varðar sem verslað er með utan skipulegra verðbréfamarkaða ber að gera kröfur um hæfi mótaðila og gerninga, lausafjárstöðu og stöðugt mat á stöðu. Markmiðið með þessum kröfum er að tryggja nægilega vernd fjárfesta, ámóta þeirri vernd sem þeir njóta þegar þeir kaupa afleiður sem verslað er með á skipulegum mörkuðum.
46)          Aldrei skal nota viðskipti með afleiður til að sniðganga þær reglur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Að því er varðar afleiður sem verslað er með utan skipulegra verðbréfamarkaða skulu frekari reglur um áhættudreifingu gilda um áhættu gagnvart einum mótaðila eða samstæðu mótaðila.
47)          Sumar aðferðir við stýringu eignasafns hjá fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum eða skuldabréfum, byggjast á því að líkja eftir hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölum. Æskilegt er að leyfa verðbréfasjóðum að líkja eftir vel þekktum og viðurkenndum hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölum. Því kann í þessu skyni að vera nauðsynlegt að setja sveigjanlegri reglur um áhættudreifingu fyrir verðbréfasjóði sem fjárfesta í hlutabréfum eða skuldabréfum.
48)          Fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem heyra undir gildissvið þessarar tilskipunar, skulu ekki hafa annað að markmiði en sameiginlega fjárfestingu fyrir fé frá almenningi í samræmi við reglur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Í þeim tilvikum, sem greint er frá í þessari tilskipun, skal verðbréfasjóði gert kleift að hafa dótturfélög ef það er nauðsynlegt til að annast með skilvirkum hætti tiltekna starfsemi fyrir eigin hönd, sem einnig er skilgreind í þessari tilskipun. Tryggja þarf skilvirkt eftirlit með verðbréfasjóðum. Því er stofnun dótturfélags verðbréfasjóðs í þriðja landi aðeins leyfð í þeim tilvikum og við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Hin almenna skylda, að starfa aðeins með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi og einkum það markmið að auka kostnaðarhagkvæmni, getur aldrei réttlætt að verðbréfasjóður geri ráðstafanir sem geta hindrað lögbær yfirvöld í að gegna eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
49)          Í upphaflegri útgáfu tilskipunar 85/611/EBE er tilgreind undanþága frá takmörkun á hlutfalli eigna verðbréfasjóðs sem hann má fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum útgefnum af sama útgefanda, sem átti við í tilviki skuldabréfa sem aðildarríki gaf út eða ábyrgðist. Sér í lagi heimilaði sú undanþága verðbréfasjóðum að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í þess háttar skuldabréfum. Áþekk en takmarkaðri undanþága er réttlætanleg að því er varðar skuldabréf einkafyrirtækja sem, jafnvel án ríkisábyrgðar, bjóða fjárfestum sérstaka ábyrgð samkvæmt sértækum reglum sem við eiga. Því er nauðsynlegt að rýmka undanþáguna svo hún nái yfir öll skuldabréf einkafyrirtækja sem uppfylla sameiginleg skilyrði, en láta aðildarríkjunum eftir að útbúa lista yfir skuldabréf sem þau ætla, eftir því sem við á, að veita undanþágu.
50)          Nokkur aðildarríki hafa samþykkt ákvæði sem heimila ósamræmdum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu að safna saman eignum sínum í einn svokallaðan deildaskiptan sjóð. Til að mögulegt sé að leyfa verðbréfasjóðum að notfæra sér þessa skipan, er nauðsynlegt að undanskilja sjóðsdeildir sem vilja safna eignum sínum í deildaskiptan sjóð frá banninu við að fjárfesta meira en 10% eigna sinna eða, eftir því sem við á, 20% af eignum sínum í einu fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu. Þess konar undanþága er réttlætanleg þar eð sjóðsdeild fjárfestir allar eða nær allar eignir sínar í dreifðu eignasafni deildaskipta sjóðsins, sem sjálfur fellur undir reglur um áhættudreifingu verðbréfasjóða.
51)          Til að stuðla að skilvirkum rekstri innri markaðarins og tryggja sambærilega vernd fjárfesta í gervöllu Bandalaginu, skal skipan deildaskiptra sjóða og sjóðsdeilda leyfð bæði þegar deildaskiptum sjóði og sjóðsdeild er komið á fót í sama aðildarríki og þegar þeim er komið á fót í mismunandi aðildarríkjum. Til að gera fjárfestum kleift að átta sig betur á skipan deildaskiptra sjóða og sjóðsdeilda og gera eftirlitsaðilum auðveldara að hafa eftirlit með þeim, einkum þegar starfsemi þeirra nær yfir landamæri, skal engin sjóðsdeild geta fjárfest í fleiri en einum deildaskiptum sjóði. Til að tryggja sambærilega vernd fjárfesta í gervöllu Bandalaginu skal deildaskipti sjóðurinn sjálfur vera viðurkenndur verðbréfasjóður. Til þess að koma í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrði, skulu ákvæði um tilkynningu á markaðssetningu yfir landamæri ekki eiga við ef deildaskiptur sjóður aflar ekki fjármagns frá almenningi í öðru aðildarríki en því þar sem hann er stofnsettur, heldur hefur aðeins eina eða fleiri sjóðsdeildir í því aðildarríki.
52)          Til þess að vernda fjárfesta sjóðsdeildar, skulu fjárfestingar sjóðsdeildarinnar í deildaskiptum sjóði vera með fyrirvara um fyrirframsamþykki lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis sjóðsdeildar. Einungis þarf samþykki fyrir fyrstu fjárfestingu sjóðsdeildar í deildaskiptum sjóði, sem fer yfir það hámark sem á við um fjárfestingu hennar í öðrum verðbréfasjóði. Til að stuðla að skilvirkum rekstri innri markaðarins og tryggja sambærilega vernd fjárfesta í gervöllu Bandalaginu, skulu þau skilyrði sem þarf að uppfylla og skjöl og upplýsingar sem þarf að leggja fram til að samþykkja fjárfestingu sjóðsdeildar í deildaskiptum sjóði vera tæmandi.
53)          Til að gera sjóðsdeild mögulegt að þjóna hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina sem best og nánar tiltekið setja hana í stöðu þar sem hún getur fengið allar þær upplýsingar og skjöl frá deildaskiptum sjóði sem nauðsynleg eru til að standa við skuldbindingar sínar, skulu sjóðsdeild og deildaskiptur sjóður gera bindandi og framfylgjanlegt samkomulag. Ef bæði sjóðsdeild og deildaskiptur sjóður eru undir stjórn sama rekstrarfélags skal þó vera fullnægjandi að sá síðarnefndi setji innri viðskiptareglur. Samkomulag um skipti á upplýsingum milli vörslufyrirtækjanna og endurskoðenda sjóðsdeilda og deildaskiptra sjóða, eftir því sem við á, skal tryggja flæði upplýsinga og skjala sem þarf til þess að vörslufyrirtæki eða endurskoðandi sjóðsdeildar geti gegnt skyldum sínum. Þessi tilskipun skal tryggja að vörsluaðilar eða endurskoðendur teljist ekki brjóta neinar takmarkanir um upplýsingagjöf eða gagnavernd, ef þau skilyrði eru uppfyllt.
54)          Til að tryggja hagsmunum fjárfesta sjóðsdeildar hátt verndarstig skal laga útboðslýsingu, fjárfestaupplýsingar, sem og allt markaðsefni að séreiginleikum í skipan deildaskiptra sjóða og sjóðsdeilda. Fjárfesting sjóðsdeildar í deildaskiptum sjóði skal ekki hafa áhrif á getu sjóðsdeildar til endurkaupa eða innlausnar hlutdeildarskírteina að beiðni eigenda hlutdeildarskírteina sjóðsins eða til að gæta hagsmuna eigenda hlutdeildarskírteina sem best.
55)          Vernda skal eigendur hlutdeildarskírteina gegn því að vera krafðir um óréttlætanlegan viðbótarkostnað, samkvæmt þessari tilskipun, með því að banna deildaskiptum sjóðum að innheimta áskriftar- og innlausnarþóknanir af sjóðsdeildum. Deildaskiptir sjóðir skulu þó geta innheimt áskriftar- eða innlausnarþóknanir af öðrum fjárfestum í deildaskiptum sjóðum.
56)          Umreikningsreglurnar skulu gera það mögulegt að breyta starfandi verðbréfasjóðum í sjóðsdeildir. Þær skulu jafnframt vernda eigendur hlutdeildarskírteina með fullnægjandi hætti. Þar sem umbreyting er grundvallarbreyting á fjárfestingarstefnu, skal þess krafist að verðbréfasjóður í umbreytingu leggi fram fullnægjandi upplýsingar til eigenda hlutdeildarskírteina svo þeir geti ákveðið hvort þeir vilji viðhalda fjárfestingu sinni. Lögbær yfirvöld skulu ekki krefjast þess að sjóðsdeild leggi fram meiri eða aðrar upplýsingar en tilgreint er í þessari tilskipun.
57)          Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki deildaskipts sjóðs eru upplýst um frávik að því er varðar móðursjóð eða komast að því að deildaskiptur sjóður starfar ekki í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, geta þau ákveðið að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að eigendur hlutdeildarskírteina í deildaskiptum sjóðum séu upplýstir með viðeigandi hætti.
58)          Aðildarríki skulu gera skýran greinarmun á markaðsefni og skyldubundinni upplýsingagjöf til fjárfesta samkvæmt þessari tilskipun. Skyldubundin upplýsingagjöf til fjárfesta felur meðal annars í sér fjárfestaupplýsingar, útboðslýsingu og árs- og hálfsársreikninga.
59)          Fjárfestaupplýsingar skulu lagðar fram sem sérstakt skjal til fjárfesta, endurgjaldslaust og tímanlega fyrir áskrift að verðbréfasjóðum, til þess að hjálpa þeim að taka upplýsta ákvörðun um fjárfestingu. Fjárfestaupplýsingar skulu aðeins fela í sér þætti sem nauðsynlegir eru til að taka þess háttar ákvarðanir. Eðli upplýsinga sem birtar eru í fjárfestaupplýsingum skulu að fullu samræmdar til að tryggja fullnægjandi vernd fjárfesta og samanburðarhæfi. Fjárfestaupplýsingar skulu settar fram í stuttu máli. Eitt skjal í takmarkaðri lengd sem setur upplýsingar fram í tiltekinni röð á best við til þess að ná fram þeirri skýru og einföldu framsetningu sem krafist er af almennum fjárfestum, og ætti að nýtast við gagnlegan samanburð, einkum varðandi kostnað og áhættusnið, sem á við um fjárfestingarákvörðunina.
60)          Lögbær yfirvöld hvers aðildarríkis geta komið fjárfestaupplýsingum, sem eiga við alla verðbréfasjóði sem heimilaðir eru í því aðildarríki, á framfæri við almenning á til þess ætluðum hluta vefseturs síns.
61)          Útbúa skal fjárfestaupplýsingar fyrir alla verðbréfasjóði. Rekstrarfélög eða, eftir atvikum, fjárfestingarfélög skulu veita viðeigandi aðilum fjárfestaupplýsingar, í samræmi við þá dreifingaraðferð sem notuð er (bein sala eða sala í gegnum millilið). Milliliðir skulu veita viðskiptavinum og mögulegum viðskiptavinum fjárfestaupplýsingar.
62)          Verðbréfasjóðir skulu geta markaðssett hlutdeildarskírteini sín í öðrum aðildarríkjum með fyrirvara um tilkynningaraðferð sem byggir á bættum samskiptum milli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna. Eftir útsendingu fullfrágenginnar tilkynningar frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs, skal það ekki vera mögulegt fyrir gistiaðildarríki verðbréfasjóðs að neita verðbréfasjóði, sem stofnsettur er í öðru aðildarríki, um aðgang að markaði þess eða vefengja leyfi sem gefið er út af öðru aðildarríki.
63)          Verðbréfasjóðir skulu geta markaðssett hlutdeildarskírteini sín með fyrirvara um að nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að greiðslur til eigenda hlutdeildarskírteina, endurkaup eða innlausn eininga og aðgengi að upplýsingum sem verðbréfasjóði er skylt að leggja fram sé framkvæmanlegt.
64)          Til að auðvelda markaðssetningu hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða yfir landamæri, skal hafa eftirlit með því hvort verðbréfasjóðir fari að ákvæðum laga, reglugerða og stjórnsýslumeðferða, sem gilda í gistiaðildarríki verðbréfasjóðs, við framkvæmd markaðssetningar á hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, eftir að verðbréfasjóður hefur fengið aðgang að markaði viðkomandi aðildarríkis. Eftirlitið skal ná yfir það hvort framkvæmd markaðssetningar sé fullnægjandi, einkum hvort fyrirkomulag dreifingar sé fullnægjandi og skyldu um framsetningu markaðsefnis á sanngjarnan hátt, skýran og ekki blekkjandi. Þessi tilskipun skal ekki koma í veg fyrir að lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis sannreyni að markaðsefni, að undanskildum fjárfestaupplýsingum, útboðslýsingum og árs- og hálfsársreikningum, sé í samræmi við landslög áður en verðbréfasjóðum er heimilt að nota það, með fyrirvara um að þess háttar eftirlit sé án mismununar og komi ekki í veg fyrir að verðbréfasjóður fái aðgang að markaðnum.
65)          Í þeim tilgangi að bæta réttarvissu er þörf á að tryggja að verðbréfasjóður, sem markaðssetur hlutdeildarskírteini sín yfir landamæri, hafi auðveldan aðgang, í formi rafrænnar útgáfu og á venjubundnu tungumáli alþjóðafjármálageira, til að fullgera upplýsingar um lög og stjórnsýslufyrirmæli sem eiga við í gistiaðildarríki verðbréfasjóðs, sem tengjast sérstaklega fyrirkomulagi við markaðssetningu hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs. Skuldbindingar vegna þess konar birtingar skulu falla undir landslög.
66)          Til að auðvelda aðgang verðbréfasjóða að markaði annarra aðildarríkja, skulu verðbréfasjóðir aðeins skyldugir til að þýða fjárfestaupplýsingar yfir á opinbert tungumál eða eitt af opinberum tungumálum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs eða tungumál sem samþykkt er af lögbærum yfirvöldum þess. Í fjárfestaupplýsingum skulu tilgreind þau tungumál sem önnur skyldubundin upplýsingaskjöl og viðbótarupplýsingar eru aðgengileg á. Þýðingar skulu vera á ábyrgð verðbréfasjóða, sem skulu ákveða hvort einföld eða löggilt þýðing sé nauðsynleg.
67)          Til að auðvelda aðgang að mörkuðum annarra aðildarríkja er mikilvægt að birta upplýsingar um tilkynningargjöld.
68)          Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar stjórnsýslu- og skipulagsráðstafanir til að gera samstarf innlendra yfirvalda og lögbærra yfirvalda annarra aðildarríkja kleift, þ.m.t. með tvíhliða eða marghliða samkomulagi milli þeirra yfirvalda, sem gæti stuðlað að valfrjálsri úthlutun verkefna.
69)          Nauðsynlegt er að bæta samleitni valdheimilda lögbærra yfirvalda til að leggja grunn að sambærilegri framkvæmd þessarar tilskipunar í öllum aðildarríkjunum. Sameiginlegar lágmarksvaldheimildir, í samræmi við þær sem faldar eru lögbærum yfirvöldum samkvæmt annarri löggjöf Bandalagsins um fjármálaþjónustu, skulu tryggja skilvirkni eftirlits. Auk þess skulu aðildarríki mæla fyrir um reglur um viðurlög, sem geta falið í sér refsi- eða stjórnsýsluviðurlög, og stjórnsýsluráðstafanir, sem eiga við brot á þessari tilskipun. Aðildarríki skulu einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þessum viðurlögum sé framfylgt.
70)          Nauðsynlegt er að styrkja ákvæði um upplýsingaskipti á milli lögbærra innlendra yfirvalda og að styrkja þá aðstoðar- og samstarfsskyldu sem þau hafa hvert gagnvart öðru.
71)          Að því er varðar þjónustustarfsemi yfir landamæri, skal setja viðkomandi lögbærum yfirvöldum skýrar valdheimildir til þess að koma í veg fyrir eyður eða skörun, í samræmi við gildandi lög.
72)          Ákvæði í þessari tilskipun varðandi skilvirka framkvæmd lögbærra yfirvalda á eftirlitshlutverki sínu ná yfir eftirlit á samstæðugrundvelli, sem verður að hafa með verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi hans, enda sé kveðið á um slíkt í lögum Bandalagsins. Þegar svo ber undir verða yfirvöldin, sem sótt er um leyfi til, að vera fær um að benda á yfirvöld sem eru bær til að hafa eftirlit á samstæðugrundvelli með þeim verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi hans.
73)          Í meginreglunum um eftirlit heimaaðildarríkis er gengið út frá því að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna afturkalli eða veiti ekki leyfi þegar til að mynda efni starfsáætlana, landfræðileg staðsetning eða starfsemi, sem fer fram þá stundina, bendir ótvírætt til þess að verðbréfasjóður eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi hans hafi valið réttarkerfi tiltekins aðildarríkis til að komast hjá strangari ákvæðum sem gilda í aðildarríkinu þar sem það hefur í hyggju að reka eða rekur nú þegar stærstan hluta starfsemi sinnar.
74)          Tiltekið athæfi, s.s. svik eða innherjaviðskipti, getur haft áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins og það hversu heilsteypt það er, jafnvel þegar það snertir önnur félög en verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem taka þátt í starfsemi þeirra.
75)          Rétt er að gera ráð fyrir þeim möguleika að skipst sé á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda og yfirvalda eða stofnana sem í krafti stöðu sinnar stuðla að því að auka stöðugleika fjármálakerfisins. Til að vernda þá leynd sem hvílir yfir upplýsingunum verður að gæta þess að fjöldi viðtakenda sé mjög takmarkaður.
76)          Nauðsynlegt er að tilgreina við hvaða skilyrði slík upplýsingaskipti eru heimiluð.
77)          Þegar kveðið er á um að einungis megi afhenda upplýsingar með skýlausu samþykki lögbærra yfirvalda geta þau, þegar svo ber undir, sett það skilyrði fyrir samþykki sínu að farið sé að ströngum skilyrðum.
78)          Einnig ætti að heimila skipti á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda annars vegar og hins vegar seðlabanka, stofnana sem gegna svipuðu hlutverki á sviði peningamála og seðlabankar eða, eftir atvikum, annarra opinberra yfirvalda sem annast eftirlit með greiðslukerfum.
79)          Í þessari tilskipun skal innleiða sömu þagnarskyldu og sömu möguleika á upplýsingaskiptum yfirvalda sem bera ábyrgð á leyfisveitingu og eftirliti með verðbréfasjóðum og fyrirtækjum sem taka þátt í þess háttar leyfisveitingum og eftirliti og varðandi yfirvöld sem bera ábyrgð á leyfisveitingu og eftirliti með lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum og vátryggingafélögum.
80)          Í því skyni að auka varfærniseftirlit með verðbréfasjóðum eða fyrirtækjum sem taka þátt í starfsemi þeirra og vernd viðskiptavina verðbréfasjóða eða fyrirtækja sem taka þátt í starfsemi þeirra skal mæla fyrir um að löggiltum endurskoðendum beri skylda til að upplýsa lögbær yfirvöld jafnharðan, í þeim tilvikum sem kveðið er á um í þessari tilskipun, komist þeir við störf sín að einhverju því sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhagsstöðu eða stjórnsýslu og reikningshald verðbréfasjóðs eða fyrirtækis sem tekur þátt í starfsemi hans.
81)          Með hliðsjón af settu markmiði þessarar tilskipunar er æskilegt að aðildarríkin kveði á um að sama skylda gildi í öllum tilvikum þegar endurskoðandi kemst að einhverjum þess háttar staðreyndum við störf sín í félagi sem hefur náin tengsl við verðbréfasjóð eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi hans.
82)          Skylda endurskoðenda til að upplýsa lögbær yfirvöld, eftir því sem við á, um tilteknar staðreyndir og ákvarðanir, sem varða verðbréfasjóð eða fyrirtæki, sem tekur þátt í starfsemi hans, og þeir hafa komist á snoðir um við störf sín í félagi öðru en verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, breytir í sjálfu sér ekki eðli starfa þeirra í viðkomandi félagi né heldur með hvaða hætti þeir inna störf sín af hendi í félaginu.
83)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á landsreglur varðandi skattlagningu, þ.m.t. fyrirkomulag sem aðildarríki geta komið á til að tryggja að farið sé að ákvæðum þeirra reglna á þeirra yfirráðasvæði.
84)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
85)          Einkum skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja eftirfarandi framkvæmdarráðstafanir. Að því er varðar rekstrarfélög, skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem tilgreina upplýsingar um skipulagskröfur, áhættustýringu, hagsmunaárekstra og siðareglur. Að því er varðar vörslufyrirtæki, skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem tilgreina þær ráðstafanir sem vörslufyrirtæki skulu gera til að uppfylla skyldur sínar að því er varðar verðbréfasjóði undir stjórn rekstrarfélags, sem stofnsett er í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, og einstök atriði samkomulags milli vörsluaðila og rekstrarfélags. Þessar framkvæmdarráðstafanir eiga að auðvelda samræmda beitingu á skuldbindingum rekstrarfélaga og vörsluaðila en eiga ekki að vera forsenda þess að koma í framkvæmd rétti rekstrarfélaga til að hefja og stunda þá starfsemi sem þeir hafa fengið leyfi fyrir í heimaaðildarríki sínu í gervöllu Bandalaginu með því að koma á fót útibúum eða samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, þ.m.t. stjórnun verðbréfasjóðs í öðru aðildarríki.
86)          Að því er varðar samruna, skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem gerðar eru til að tilgreina ítarlegt inntak, snið og aðferð við að veita eigendum hlutdeildarskírteina upplýsingar.
87)          Að því er varðar skipan deildaskiptra sjóða og sjóðsdeilda skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem gerðar eru til að tilgreina inntak samkomulags milli deildaskiptra sjóða og sjóðsdeilda eða innri reglna um góða viðskiptahætti, inntak samkomulags um upplýsingaskipti annaðhvort milli vörslufyrirtækja eða endurskoðenda þeirra, skilgreiningu á viðeigandi ráðstöfunum til að samræma tímasetningu útreikninga og birtingar á verðmæti hreinnar eignar þeirra til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að sjá fyrir verðsveiflur á mörkuðum, áhrif samruna deildaskipts sjóðs á starfsleyfi sjóðsdeildar, tegund frávika vegna deildaskipts sjóðs sem þarf að tilkynna sjóðsdeild, snið og aðferð við að veita upplýsingar til eigenda hlutdeildarskírteina ef um er að ræða umbreytingu verðbréfasjóðs í sjóðsdeild, ferlið við mat og endurskoðun tilfærslu á eignum frá sjóðsdeild til deildaskipts sjóðs, og hlutverk vörsluaðila sjóðsdeildar í þessu ferli.
88)          Að því er varðar ákvæði um birtingu upplýsinga, skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem gerðar eru til að tilgreina sérstök skilyrði sem skulu uppfyllt ef útboðslýsing er lögð fram á varanlegum miðli öðrum en pappír eða á vefsetri, sem telst ekki varanlegur miðill, sundurliðað og tæmandi inntak, snið og framsetningu fjárfestaupplýsinga þar sem tekið er tillit til mismunandi eðlis eða þátta hlutaðeigandi verðbréfasjóða, og sérstök skilyrði varðandi útgáfu fjárfestaupplýsinga á varanlegum miðli öðrum en pappír eða á vefsetri sem telst ekki varanlegur miðill.
89)          Að því er varðar tilkynningu skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir sem gerðar eru til að tilgreina gildissvið upplýsinga um gildandi, staðbundnar reglur sem lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis skulu birta og tæknileg atriði um aðgang lögbærra yfirvalda gistiaðildarríkis að vistuðum og uppfærðum skjölum verðbréfasjóðs.
90)          Framkvæmdastjórninni skal einnig veitt umboð til þess meðal annars að skýra skilgreiningar og samræma hugtakanotkun og afmarka skilgreiningar í samræmi við síðari gerðir um verðbréfasjóði og tengd mál.
91)          Þar eð ráðstafanirnar, sem um getur í 85.–90. forsendu, eru almennar ráðstafanir og miða að því að breyta atriðum, sem ekki teljast til grundvallaratriða í þessari tilskipun, með því að bæta við hana nýjum atriðum, sem ekki teljast grundvallaratriði, skulu þær samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
92)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar að svo miklu leyti sem þær fela í sér samþykkt reglna með sameiginleg einkenni sem eiga við á vettvangi Bandalagsins og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná þessum markmiðum.
93)          Skyldan að lögleiða þessa tilskipun skal takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulegar breytingu, samanborið við tilskipanir sem breytt er með henni. Skyldan að taka óbreyttu ákvæðin upp leiðir af fyrri tilskipununum.
94)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna varðandi fresti þeirra til að lögleiða og beita tilskipunum, sem eru tilgreindar í B-hluta III. viðauka.
95)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

EFNISYFIRLIT

I. KAFLI    EFNI, GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR     1. til 4. gr.
II. KAFLI    STARFSLEYFI VERÐBRÉFASJÓÐA     5. gr.
III. KAFLI    SKYLDUR ER VARÐA REKSTRARFÉLÖG     
1. ÞÁTTUR    Skilyrði fyrir að hefja starfsemi     6. til 8. gr.
2. ÞÁTTUR    Tengsl við þriðju lönd     9. gr.
3. ÞÁTTUR    Rekstrarskilyrði     10. til 15. gr.
4. ÞÁTTUR    Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu     16. til 21. gr.
IV. KAFLI    SKYLDUR ER VARÐA VÖRSLUFYRIRTÆKI     22. til 26. gr.
V. KAFLI    SKYLDUR ER VARÐA FJÁRFESTINGARFÉLÖG
1. ÞÁTTUR    Skilyrði fyrir að hefja starfsemi     27. til 29. gr.
2. ÞÁTTUR    Rekstrarskilyrði     30. og 31. gr.
3. ÞÁTTUR    Skyldur er varða vörslufyrirtæki     32. til 36. gr.
VI. KAFLI    SAMRUNAR VERÐBRÉFASJÓÐA
1. ÞÁTTUR    Meginregla, leyfi og samþykki     37. til 40. gr.
2. ÞÁTTUR    Eftirlit þriðja aðila, upplýsingar til eigenda hlutdeildarskírteina og önnur réttindi eigenda hlutdeildarskírteina     41. til 45. gr.
3. ÞÁTTUR    Kostnaður og gildistaka     46. til 48. gr.
VII. KAFLI    SKULDBINDINGAR VARÐANDI FJÁRFESTINGARSTEFNU VERÐBRÉFASJÓÐA     49. til 57. gr.
VIII. KAFLI    SKIPAN DEILDASKIPTRA SJÓÐA OG SJÓÐSDEILDA
1. ÞÁTTUR    Gildissvið og samþykki     58. og 59. gr.
2. ÞÁTTUR    Sameiginleg ákvæði fyrir sjóðsdeildir og deildaskipta sjóði     60. gr.
3. ÞÁTTUR    Vörsluaðilar og endurskoðendur     61. og 62. gr.
4. ÞÁTTUR    Skyldubundnar upplýsingar og markaðsefni frá sjóðsdeild     63. gr.
5. ÞÁTTUR    Umbreyting starfandi verðbréfasjóða í sjóðsdeildir og breytingar á deildaskiptum sjóði     64. gr.
6. ÞÁTTUR    Skuldbindingar og lögbær yfirvöld     65. gr. til 67. gr.
IX. KAFLI    SKULDBINDINGAR VARÐANDI UPPLÝSINGAR SEM BER AÐ VEITA FJÁRFESTUM
1. ÞÁTTUR    Birting útboðslýsingar og reglulegra skýrslna     68. til 75. gr.
2. ÞÁTTUR    Birting annarra upplýsinga     76. og 77. gr.
3. ÞÁTTUR    Fjárfestaupplýsingar     78. til 82. gr.
X. KAFLI    ALMENNAR SKYLDUR VERÐBRÉFASJÓÐA     83. til 90. gr.
XI. KAFLI    SÉRSTÖK ÁKVÆÐI SEM EIGA VIÐ VERÐBRÉFASJÓÐI SEM MARKAÐSSETJA HLUTDEILDARSKÍRTEINI SÍN Í AÐILDARRÍKJUM ÖÐRUM EN ÞEIM SEM ÞEIR HAFA STAÐFESTU Í     91. til 96. gr.
XII. KAFLI    ÁKVÆÐI VARÐANDI YFIRVÖLD SEM BERA ÁBYRGÐ Á LEYFISVEITINGU OG EFTIRLITI     97. til 110. gr.
XIII. KAFLI    EVRÓPSKA VERÐBRÉFANEFNDIN     111. og 112. gr.
XIV. KAFLI    UNDANÞÁGUR, BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
1. ÞÁTTUR    Undanþágur     113. og 114. gr.
2. ÞÁTTUR    Bráðabirgða- og lokaákvæði     115. til 119. gr.
I. VIÐAUKI    Fylgiskjöl A og B
II. VIÐAUKI    Verkefni sem felast í sameiginlegri stýringu eignasafns
III. VIÐAUKI
A-hluti    Niðurfelld tilskipun með skrá yfir síðari breytingar hennar
B-hluti    Skrá yfir fresti til lögleiðingar og beitingar í aðildarríkjum
IV. VIÐAUKI    Samsvörunartafla

I. KAFLI
EFNI, GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.

1.     Þessi tilskipun gildir um verðbréfasjóði (e. UCITS) sem hafa staðfestu innan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna.
2.     Í tilskipun þessari, og með fyrirvara um 3. gr., merkir verðbréfasjóður fyrirtæki:
a)    sem hefur eingöngu að markmiði sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum eða í öðrum lausafjáreignum, sem um getur í 1. mgr. 50. gr., fyrir fé sem aflað er meðal almennings og sem starfar á grundvelli áhættudreifingar og
b)    sem hefur hlutdeildarskírteini sem eru, að beiðni eigenda, endurkeypt eða innleyst, beint eða óbeint, með eignum fyrirtækjanna. Aðgerðir verðbréfasjóðs, sem ætlað er að sjá til þess að skráð verðmæti hlutdeildarskírteina hans í kauphöll víki ekki verulega frá verðmæti hreinnar eignar þeirra, skulu taldar jafngilda slíkum endurkaupum og innlausn.
Aðildarríki geta heimilað að nokkrar fjárfestingardeildir séu í verðbréfasjóði.
3.     Þau fyrirtæki, sem um getur í 2. mgr. geta verið stofnuð í samræmi við samningalög (sem sameignarsjóðir undir stjórn rekstrarfélaga), fjárvörslulög (sem fjárhaldssjóðir) eða stofnsamþykkt (sem fjárfestingarfélög).
Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „sameignarsjóður“ nær einnig yfir fjárhaldssjóði,
b)    „hlutdeildarskírteini“ verðbréfasjóða nær einnig yfir hlutabréf í verðbréfasjóðum.
4.     Þessi tilskipun gildir ekki um fjárfestingarfélög sem fyrir milligöngu dótturfélaga festa eignir sínar einkum í öðru en framseljanlegum verðbréfum.
5.     Aðildarríki skulu banna að verðbréfasjóðum sem þessi tilskipun gildir um verði breytt í fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem þessi tilskipun nær ekki til.
6.     Með fyrirvara um ákvæði laga Bandalagsins sem gilda um fjármagnsflutninga og með fyrirvara um 91. og 92. gr. og aðra undirgrein 1. mgr. 108. gr., skal ekkert aðildarríki beita neinum öðrum ákvæðum á því sviði sem fellur undir þessa tilskipun um verðbréfasjóði sem stofnsettir eru í öðru aðildarríki eða hlutdeildarskírteini útgefin af þess háttar verðbréfasjóði, ef þeir verðbréfasjóðir markaðssetja hlutdeildarskírteini sín innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis.
7.     Þrátt fyrir þennan kafla getur aðildarríki gert strangari kröfur til verðbréfasjóðs sem stofnsett er innan yfirráðasvæðis þess eða sem koma til viðbótar þeim sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, að því tilskildu að þær séu almenns eðlis og stangist ekki á við ákvæði þessarar tilskipunar.

2. gr.

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „vörslufyrirtæki“: stofnun sem hefur verið falin þau störf sem um getur í 22. og 32. gr. og heyrir undir önnur ákvæði sem mælt er fyrir um í IV. kafla og 3. þætti V. kafla,
b)    „rekstrarfélag“: félag sem annast rekstur verðbréfasjóða í formi fjárhaldssjóða eða fjárfestingarfélaga (sameiginleg stjórnun verðbréfasafns verðbréfasjóða),
c)    „heimaaðildarríki rekstrarfélags“: aðildarríkið þar sem rekstrarfélagið er með skráða skrifstofu,
d)    „gistiaðildarríki rekstrarfélags“: aðildarríki sem er ekki heimaaðildarríki en þar sem rekstrarfélagið er með útibú eða veitir þjónustu,
e)    „heimaaðildarríki verðbréfasjóðs“: aðildarríki þar sem verðbréfasjóður hefur starfsleyfi samkvæmt 5. gr.,
f)    „gistiaðildarríki verðbréfasjóðs“: aðildarríki, sem er ekki heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðsins eru markaðssett,
g)    „útibú“: starfsstöð sem er hluti af rekstrarfélagi, án réttarstöðu lögaðila og veitir þá þjónustu sem rekstrarfélagið hefur fengið leyfi fyrir,
h)    „lögbær yfirvöld“: yfirvöldin sem hvert aðildarríki tilnefnir skv. 97. gr.,
i)    „náin tengsl“: þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast í gegnum:
    i.    „hlutdeild“: eignarhald á minnst 20 % atkvæðisréttar eða eigin fjár fyrirtækis, beint eða með yfirráðarétti, eða
    ii.    „yfirráð“: samband „móðurfyrirtækis“ og „dótturfyrirtækis“, eins og skilgreint er í 1. og 2. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983, byggt á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um samstæðureikninga ( 1 ) og í öllum tilvikum sem um getur í 1. og 2. mgr. 1. gr. í tilskipun 83/349/EBE, eða líkum tengslum milli einstaklinga eða lögaðila og fyrirtækis,
j)    „virk eignarhlutdeild“: bein eða óbein eignarhlutdeild í rekstrarfélagi sem nemur 10 % eða meira af höfuðstól eða atkvæðisrétti eða gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun rekstrarfélagsins sem eignarhlutdeildin er í,
k)    „stofnfé“: fjármagn samkvæmt skilgreiningu í a- og b-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB,
l)    „eigið fé“: eigið fé samkvæmt skilgreiningu í 1. þætti 2. kafla V. bálks tilskipunar 2006/48/EB,
m)    „varanlegur miðill“: sérhvert tæki sem gerir fjárfesti kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til að fletta upp í þeim síðar, í hæfilegan tíma eftir tilgangi upplýsinganna og sem gerir kleift að afrita upplýsingarnar, sem geymdar eru, óbreyttar,
n)    „framseljanleg verðbréf“:
    i.    hlutabréf í félögum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í félögum (hér á eftir nefnd „hlutabréf“),
    ii.    skuldabréf og önnur form á breytingu skulda í verðbréf (hér á eftir nefnd „skuldabréf“),
    iii.    öll önnur framseljanleg verðbréf sem veita rétt til öflunar slíkra framseljanlegra verðbréfa með áskrift eða skiptum,
o)    „peningamarkaðsgerningar“: gerningar sem að öllu jöfnu er verslað með á peningamarkaði, eru auðseljanlegir og sem unnt er að reikna nákvæmt verðmæti fyrir hvenær sem er,
p)    „samruni“: framkvæmd þar sem:
    i.    einn eða fleiri verðbréfasjóðir eða fjárfestingardeildir þeirra, „samrunasjóður“, við upplausn án þess að vera slitið, yfirfærir allar eignir sínar og skuldir til annars starfandi verðbréfasjóðs eða fjárfestingardeildar hans, „viðtökusjóðs“, í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina í þeim sjóði til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðs og, ef við á, greiðslu í reiðufé sem fer ekki umfram 10% af verðmæti hreinnar eignar þessara hlutdeildarskírteina,
    ii.    tveir eða fleiri verðbréfasjóðir eða fjárfestingardeildir þeirra, „samrunasjóðir“, yfirfæra, við upplausn án þess að vera slitið, allar eignir sínar og skuldir til verðbréfasjóðs sem þeir mynda eða fjárfestingardeildar þess sjóðs, „viðtökusjóðs“, í skiptum fyrir útgáfu hlutdeildarskírteina í þeim sjóði til handa eigendum hlutdeildarskírteina samrunasjóðs og, ef við á, greiðslu reiðufjár sem er ekki umfram 10 % verðmæti hreinnar eignar þeirra hlutdeildarskírteina,
    iii.    einn eða fleiri verðbréfasjóðir eða fjárfestingardeildir þeirra, „samrunasjóður“, sem heldur áfram að vera til þar til skuldbindingar hafa verið efndar, yfirfærir hreina eign sína til annarrar fjárfestingardeildar sama verðbréfasjóðs, til verðbréfasjóðs sem hann myndar eða annars starfandi verðbréfasjóðs eða fjárfestingardeildar hans, „viðtökusjóðs“,
q)    „samruni yfir landamæri“: samruni verðbréfasjóða:
    i.    þar sem að minnsta kosti tveir þeirra hafa staðfestu í mismunandi aðildarríkjum, eða
    ii.    hafa staðfestu í sama aðildarríki, inn í nýlega stofnaðan verðbréfasjóð með staðfestu í öðru aðildarríki,
r)    „innlendur samruni“: samruni verðbréfasjóða sem hafa staðfestu í sama aðildarríki þar sem að minnsta kosti einn hlutaðeigandi verðbréfasjóða hefur verið tilkynntur samkvæmt 93. gr.
2.     Að því er varðar b-lið 1. mgr., skal reglulegur rekstur rekstrarfélags fela í sér þá starfsemi sem um getur í II. viðauka.
3.     Að því er varðar g-lið 1. mgr., skal telja allar starfsstöðvar, sem hafa staðfestu í einu aðildarríki á vegum rekstrarfélags, sem hefur aðalskrifstofu í öðru aðildarríki, sem eitt útibú.
4.     Eftirfarandi á við að því er varðar ii. lið i-liðar 1. mgr.:
a)    líta ber á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis sem er höfuð þessara fyrirtækja,
b)    þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir einum og sama aðilanum með yfirráðatengslum ber að líta svo á að náin tengsl séu einnig á milli þeirra.
5.     Að því er varðar j-lið 1. mgr. skal taka mið af atkvæðisréttinum sem um getur í 9. og 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað ( 1 ).
6.     Að því er varðar l-lið 1. mgr. skulu 13. til 16. gr. tilskipunar 2006/49/EB gilda að breyttu breytanda.
7.     Að því er varðar n-lið 1. mgr. skulu þær aðferðir og gerningar sem um getur í 51. gr. ekki teljast til framseljanlegra verðbréfa.

3. gr.

Eftirfarandi fyrirtæki falla ekki undir þessa tilskipun:
a)    lokuð fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu,
b)    fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem afla fjármagns án þess að bjóða almenningi innan Bandalagsins eða einhvers hluta þess hlutdeildarskírteini sín til kaups,
c)    fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem selja hlutdeildarskírteini sín samkvæmt sjóðsreglum eða félagssamþykktum fjárfestingarfélaganna, eingöngu til almennings í þriðju löndum,
d)    flokkar fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu sem mælt er fyrir um í reglugerðum aðildarríkjanna þar sem þess háttar fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu hafa staðfestu, og sem reglurnar sem mælt er fyrir um í VII. kafla og 83. gr. eiga ekki við um með tilliti til fjárfestinga- og lánastefnu þeirra.

4. gr.

Að því er þessa tilskipun varðar telst verðbréfasjóður hafa staðfestu í heimaaðildarríki sínu.

II. KAFLI
STARFSLEYFI VERÐBRÉFASJÓÐA
5. gr.

1.     Verðbréfasjóður skal ekki stunda starfsemi sem slíkur nema hafa hlotið löggildingu í samræmi við þessa tilskipun.
Sú löggilding skal gilda í öllum aðildarríkjum.
2.     Sameignarsjóður skal aðeins fá starfsleyfi ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis hans hefur samþykkt umsókn rekstrarfélags um leyfi til að stjórna þeim sameignarsjóði, sjóðsreglurnar og val á vörslufyrirtæki. Fjárfestingarfélag skal aðeins fá starfsleyfi ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis þess hafa samþykkt bæði stofnsamning þess og val á vörslufyrirtæki og, ef við á, umsókn tilnefnds rekstrarfélags um að stjórna því fjárfestingarfélagi.
3.     Án þess að hafa áhrif á 2. mgr., skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs ákvarða um umsókn rekstrarfélags um að stjórna verðbréfasjóði samkvæmt 20. gr., ef verðbréfasjóður hefur ekki staðfestu í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins. Leyfisveiting skal hvorki vera með fyrirvara um að verðbréfasjóður sé undir stjórn rekstrarfélags, sem hefur skráða skrifstofu í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, né að rekstrarfélag stundi eða feli öðrum einhvers konar starfsemi í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs.
4.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skulu ekki veita verðbréfasjóði starfsleyfi ef:
a)    þau telja að fjárfestingarfélag fari ekki að forsendum sem mælt er fyrir um í V. kafla eða
b)    rekstrarfélag hefur ekki leyfi fyrir stjórn verðbréfasjóðs í heimaaðildarríki sínu.
Án þess að hafa áhrif á 2. mgr. 29. gr., skal rekstrarfélagið eða, eftir atvikum, fjárfestingarfélagið upplýst, innan tveggja mánaða frá framlagningu fullfrágenginnar umsóknar, hvort leyfi fyrir verðbréfasjóði hafi verið veitt eða ekki.
Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skulu ekki veita verðbréfasjóði leyfi ef stjórnarmenn vörslufyrirtækis fullnægja ekki skilyrðum um góðan orðstír eða næga reynslu, einnig með tilliti til þeirrar tegundar verðbréfasjóðs sem ætlunin er að reka. Í því skyni verður tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum um nöfn stjórnarmanna vörslufyrirtækisins og allra eftirmanna þeirra.
Stjórnarmenn eru þeir sem samkvæmt lögum eða stofnsamningum eru í fyrirsvari fyrir vörslufyrirtækið eða þeir sem raunverulega ákveða stefnu þess.
5.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skulu ekki veita verðbréfasjóði starfsleyfi ef lagalegar hindranir (t.d. ákvæði í sjóðsreglum eða stofnsamningum) standa í vegi fyrir að hann markaðssetji hlutdeildarskírteini sín í heimaaðildarríki sínu.
6.     Ekki má skipta um rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki eða breyta sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélagsins án samþykkis lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins.
7.     Aðildarríkin skulu tryggja auðvelt aðgengi að fullbúnum upplýsingum um lög og stjórnsýslufyrirmæli um framkvæmd þessarar tilskipunar, sem eiga við stofnun og rekstur verðbréfasjóða, með fjarmiðlum eða með rafrænum hætti. Aðildarríkin skulu tryggja að þær upplýsingar séu aðgengilegar í það minnsta á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, lagðar fram á skýran og ótvíræðan hátt, og uppfærðar reglulega.

III. KAFLI
SKYLDUR ER VARÐA REKSTRARFÉLÖG
1. ÞÁTTUR
Skilyrði fyrir að hefja starfsemi
6. gr.

1.     Rekstrarfélagi skal ekki vera heimilt að hefja starfsemi fyrr en að fengnu opinberu leyfi frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins. Leyfi, sem rekstrarfélagi er veitt samkvæmt þessari tilskipun, skal gilda í öllum aðildarríkjunum.
2.     Rekstrarfélög mega ekki stunda aðra starfsemi en rekstur verðbréfasjóða sem fengið hafa leyfi samkvæmt þessari tilskipun nema þegar um er að ræða viðbótarrekstur á öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem falla ekki undir þessa tilskipun og eru ástæða þess að rekstrarfélagið sætir varfærniseftirliti, en sem ekki er hægt að markaðssetja hlutdeildarskírteini í, í öðrum aðildarríkjum samkvæmt þessari tilskipun.
Stjórnun verðbréfasjóða skal, að því er þessa tilskipun varðar, fela í sér þá starfsemi sem um getur í II. viðauka.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. geta aðildarríkin heimilað rekstrarfélögum að veita eftirtalda þjónustu til viðbótar við rekstur verðbréfasjóða:
a)    stjórnun fjárfestingarsafna, þ.m.t. þeim sem eru í eigu lífeyrissjóða, á grundvelli sérstakra umboða frá einstökum fjárfestum ef i viðkomandi fjárfestingarsafni eru einn eða fleiri af þeim gerningum sem skráðir eru í C-þætti I. viðauka tilskipunar 2004/39/EB og
b)    sem viðbótarþjónustu:
    i.    fjárfestingarráðgjöf varðandi einn eða fleiri þeirra gerninga sem skráðir eru í C-þætti I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB,
    ii.    vörslu og umsýslu í tengslum við hlutdeildarskírteini í fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu.
Í engum tilvikum má veita rekstrarfélögum leyfi samkvæmt þessari tilskipun til að veita einvörðungu þá þjónustu sem um getur í þessari málsgrein eða til að veita viðbótarþjónustu án þess að hafa leyfi fyrir þjónustunni sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar.
4.     Ákvæði 2. mgr. 2. gr. og 12., 13. og 19. gr. tilskipunar 2004/39/EB skulu gilda um þá þjónustu sem rekstrarfélög veita og sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar.

7. gr.

1.     Með fyrirvara um önnur almenn skilyrði í landslögum skulu lögbær yfirvöld ekki veita rekstrarfélagi leyfi nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
a)    stofnfé rekstrarfélagsins sé a.m.k. 125 000 evrur, að teknu tilliti til eftirfarandi:
    i.    ef virði eignasafna rekstrarfélags er umfram 250 000 000 evrur, skal rekstrarfélaginu skylt að hafa yfir að ráða eiginfjárviðbót sem er jöfn 0,02 % af þeirri fjárhæð sem nemur verðmæti verðbréfasafns rekstrarfélags umfram 250 000 000 evrur, en heildarfjárhæð stofnfjár og eiginfjárviðbótar sem krafist er, skal þó ekki vera hærri en 10 000 000 evrur.
    ii.    að því er varðar þessa málsgrein skulu eftirfarandi verðbréfasöfn teljast verðbréfasöfn rekstrarfélagsins:
        –    sameignarsjóðir, sem rekstrarfélagið rekur, þ.m.t. verðbréfasöfn sem það hefur falið öðrum aðilum að stýra, en að undanskildum verðbréfasöfnum sem því hefur verið falið að stýra,
        –    fjárfestingarfélög sem rekstrarfélagið hefur verið tilnefnt fyrir sem rekstrarfélag,
        –    önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur, þ.m.t. verðbréfasöfn sem það hefur falið öðrum aðilum að stýra, en að undanskildum verðbréfasöfnum sem því hefur verið falið að stýra.
    iii.    án tillits til fjárhæðar þessara krafna skal eigið fé rekstrarfélagsins aldrei vera undir þeirri fjárhæð sem mælt er fyrir um í 21. gr. tilskipunar 2006/49/EB,
b)    að þeir einstaklingar, sem í reynd stýra starfsemi rekstrarfélags, hafi nægilega góðan orðstír og næga reynslu, einnig í tengslum við þá gerð verðbréfasjóðs sem rekstrarfélagið stjórnar, að nöfn þeirra einstaklinga og allra eftirmanna þeirra séu tilkynnt lögbærum yfirvöldum þegar í stað og að minnsta kosti tveir einstaklingar, sem uppfylla þessi skilyrði, ákveði starfshætti rekstrarfélags,
c)    leyfisumsókninni fylgi starfsáætlun, þar sem a.m.k. komi fram hvernig stjórnskipulagi rekstrarfélagsins sé háttað, og
d)    aðalskrifstofa rekstrarfélagsins og skráð skrifstofa þess séu í sama aðildarríki.
Að því er varðar a-lið fyrstu undirgreinar geta aðildarríki heimilað rekstrarfélögum að leggja ekki fram allt að 50% eiginfjárviðbótar, sem um getur í i. lið a-liðar, ef þau hafa fengið ábyrgð fyrir samsvarandi fjárhæð frá lánastofnun eða vátryggingafélagi sem hefur skráða skrifstofu í aðildarríki eða þriðja landi þar sem það lýtur varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja jafngildar þeim sem kveðið er á um í lögum Bandalagsins.
2.     Ef náin tengsl eru milli rekstrarfélags og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita starfsleyfi ef sýnt er að þessi nánu tengsl komi ekki í veg fyrir að þau sinni eftirlitshlutverki sínu.
Lögbær yfirvöld skulu jafnframt synja veitingu starfsleyfis ef lög eða stjórnsýsluákvæði þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem rekstrarfélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
Lögbær yfirvöld skulu krefjast þess að rekstrarfélög veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar svo þau geti gengið úr skugga um að jafnan sé farið að skilyrðunum sem um getur í þessari málsgrein.
3.     Lögbær yfirvöld skulu innan sex mánaða frá því að umsækjandi leggur fram fullbúna umsókn tilkynna honum um hvort starfsleyfi hafi verið veitt eða ekki. Ef synjað er um leyfi skal tilgreina ástæður.
4.     Rekstrarfélagi er heimilt að hefja starfsemi þegar í stað eftir að starfsleyfi hefur verið veitt.
5.     Lögbærum yfirvöldum er eingöngu heimilt að afturkalla starfsleyfi sem veitt hefur verið rekstrarfélagi, sem fellur undir þessa tilskipun, ef félagið:
a)    nýtir ekki leyfið innan tólf mánaða, afsalar sér afdráttarlaust leyfinu eða hefur hætt starfseminni, sem heyrir undir þessa tilskipun, meira en sex mánuðum áður, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum,
b)    hefur fengið starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt,
c)    uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir leyfisveitingu,
d)    uppfyllir ekki lengur ákvæði tilskipunar 2006/49/ EBE ef leyfið tekur einnig til einstaklingsmiðaðrar stjórnunar fjárfestingarsafns sem um getur í a- lið 3. mgr. 6. gr. þessarar tilskipunar,
e)    hefur brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun eða
f)    fellur undir ákvæði í landslögum um afturköllun starfsleyfis.

8. gr.

1.     Lögbær yfirvöld skulu ekki veita rekstrarfélögum leyfi til að hefja starfsemi fyrr en þau hafa fengið upplýsingar um nöfn allra hluthafa eða félagsaðila sem ráða beint eða óbeint yfir virkri eignarhlutdeild sem einstaklingar eða lögaðilar, svo og hve stóran hlut þeir eiga.
Lögbær yfirvöld skulu synja um leyfi ef þau telja áðurnefnda hluthafa eða félagsaðila, sem um getur í fyrstu undirgrein, ekki hæfa, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að tryggja trausta og varfærna stjórnun rekstrarfélaga.
2.     Ef um er að ræða útibú rekstrarfélaga sem hafa skráða skrifstofu utan Bandalagsins og eru að hefja starfsemi eða stunda þegar starfsemi skulu aðildarríkin ekki beita ákvæðum sem fela í sér hagstæðari kjör en þau útibú njóta sem hafa skráða skrifstofu í aðildarríkjunum.
3.     Hafa skal fyrirfram samráð við lögbær yfirvöld viðkomandi aðildarríkis í tengslum við veitingu starfsleyfis til rekstrarfélags ef það er eitt eftirfarandi:
a)    dótturfyrirtæki annars rekstrarfélags, fjárfestingarfyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafyrirtækis með leyfi í öðru aðildarríki,
b)    dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis annars rekstrarfélags, fjárfestingarfyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafyrirtækis með leyfi í öðru aðildarríki eða
c)    fyrirtæki undir stjórn sama einstaklings eða lögaðila og stjórnar öðru rekstrarfélagi, fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnun eða vátryggingafyrirtæki með leyfi í öðru aðildarríki.

2. ÞÁTTUR
Tengsl við þriðju lönd
9. gr.

1.     Reglur um tengsl við þriðju lönd skulu vera í samræmi við viðeigandi reglur sem mælt er fyrir um í 15. gr. tilskipunar 2004/39/EB.
Í þessari tilskipun skal orðið „fjárfestingarfyrirtæki“, eitt eða fleiri, í 15. gr. tilskipunar 2004/39/EB túlkað sem „rekstrarfélag“ annars vegar og „rekstrarfélög“ hins vegar og orðin „veita fjárfestingarþjónustu“ í 1. mgr. 15. gr. tilskipunar 2004/39/EB skulu túlkuð sem „veita þjónustu“.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem verðbréfasjóðir eiga í við markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna í þriðja landi.

3. ÞÁTTUR
Rekstrarskilyrði
10. gr.

1.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins skulu krefjast þess að rekstrarfélög, sem þau hafa veitt leyfi, uppfylli ávallt skilyrðin sem sett eru í 6. gr. og 1. og 2. mgr. 7. gr.
Eigið fé rekstrarfélags skal ekki fara niður fyrir mörkin sem tilgreind eru í a-lið 1. mgr. 7. gr. Ef eigið fé fer samt niður fyrir mörkin geta lögbær yfirvöld veitt slíkum fyrirtækjum tiltekinn frest til úrbóta eða til að hætta starfsemi ef réttlætanlegt þykir.
2.     Varfærniseftirlit með rekstrarfélagi skal vera á ábyrgð lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins, hvort sem rekstrarfélagið stofnar útibú eða veitir þjónustu í öðru aðildarríki eða ekki, án þess að það hafi áhrif á þau ákvæði þessarar tilskipunar sem gera lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélagsins ábyrg.

11. gr.

1.     Virk eignarhlutdeild í rekstrarfélögum skal heyra undir sömu reglur og mælt er fyrir um í 10. gr., 10. gr. a og 10 gr. b tilskipunar 2004/39/EB.
2.     Í þessari tilskipun skal orðið „fjárfestingarfyrirtæki“, eitt eða fleiri, sem um getur í 10. gr. tilskipunar 2004/39/EB, túlkað sem „rekstrarfélag“ annars vegar og „rekstrarfélög“ hins vegar.

12. gr.

1.     Hvert aðildarríki skal semja varfærnisreglur sem rekstrarfélögum, sem hafa starfsleyfi í því aðildarríki, er ávallt skylt að fara eftir við rekstur verðbréfasjóða með leyfi samkvæmt þessari tilskipun.
Einkum skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags, með hliðsjón af tegund þess verðbréfasjóðs, sem viðkomandi rekstrarfélag rekur, krefjast þess að rekstrarfélagið:
a)    hafi traustar stjórnunar- og bókhaldsaðferðir, eftirlits- og öryggisfyrirkomulag við rafræna gagnavinnslu og fullnægjandi innra eftirlit, sem einkum tekur til reglna um einkaviðskipti starfsmanna þess eða reglna um eignarhlutdeild eða stjórnun fjárfestinga í fjármálagerningum í þeim tilgangi að fjárfesta fyrir eigin reikning, þannig að tryggt sé, í það minnsta, að rekja megi uppruna allra viðskipta sem varða verðbréfasjóðinn, hverjir séu aðilar að viðskiptunum, eðli viðskiptanna, hvenær og hvar þau áttu sér stað og að fjárfest sé fyrir eignir verðbréfasjóða, sem rekstrarfélagið rekur í samræmi við sjóðsreglur eða félagssamþykktir og gildandi lagaákvæði,
b)    sé uppbyggt og skipulagt á þann hátt að dregið sé eins og unnt er úr þeirri hættu að hagsmunaárekstrar milli rekstrarfélagsins og viðskiptavina þess, milli viðskiptavina félagsins innbyrðis eða milli viðskiptavinar þess og verðbréfasjóðs eða milli tveggja verðbréfasjóða skaði hagsmuni verðbréfasjóðsins eða hagsmuni viðskiptavina.
2.     Ef leyfi rekstrarfélags tekur einnig til einstaklingsmiðaðrar stjórnunar fjárfestingarsafna eins og um getur í a-lið 3. mgr. 6. gr. skal félagið:
a)    ekki hafa leyfi til að fjárfesta allt safn eða hluta af safni fjárfestis í hlutdeildarskírteinum fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu sem það stjórnar, nema að fengnu leyfi viðskiptavinarins til þess,
b)    heyra undir ákvæðin, sem sett eru í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB frá 3. mars 1997 um bótakerfi fyrir fjárfesta ( 1 ), að því er varðar þjónustuna sem um getur í 3. mgr. 6. gr.
3.     Með fyrirvara um 116. gr. skal framkvæmdastjórnin eigi síðar en 1. júlí 2010 samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreind er málsmeðferð og fyrirkomulag, sem um getur í a-lið annarrar undirgreinar 1. mgr., og uppbygging og skipulagskröfur til að lágmarka þá hagsmunaárekstra sem um getur í b-lið annarrar undirgreinar 1. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

13. gr.

1.     Ef lög heimaaðildarríkis rekstrarfélags heimila rekstrarfélögum að vista eitt eða fleiri af verkefnum sínum hjá þriðju aðilum í þeim tilgangi að gera starfsemi fyrirtækisins skilvirkari skal öllum eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
a)    rekstrarfélag verður að upplýsa lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis síns á viðeigandi hátt, lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags skulu án tafar senda upplýsingarnar til lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins,
b)    umboðið skal ekki hindra skilvirkt eftirlit með rekstrarfélaginu og einkum skal það ekki koma í veg fyrir að rekstrarfélagið starfi eða að viðkomandi verðbréfasjóður sé rekinn með hagsmuni fjárfestanna að leiðarljósi,
c)    ef verkefni, sem vistað er hjá öðrum aðilum, varðar fjárfestingarstýringu er aðeins heimilt að veita fyrirtækjum umboð þegar leyfi þeirra eða skráning taka til eignastýringar og þau sæta varfærniseftirliti. Vistun verkefna verður að vera í samræmi við viðmiðanir um fjárfestingarráðstöfun sem rekstrarfélög ákveða með reglulegu millibili,
d)    ef umboðið varðar fjárfestingarstýringu og er veitt fyrirtæki í þriðja landi skal samvinna viðkomandi eftirlitsyfirvalda vera tryggð,
e)    ekki skal veita vörslufyrirtæki eða öðru fyrirtæki, sem kann að hafa hagsmuni, sem fara í bága við hagsmuni rekstrarfélagsins eða eigenda hlutdeildarskírteina, umboð sem varðar þá grunnstarfsemi sem felst í fjárfestingarstýringu,
f)    gera skal ráðstafanir, sem gera þeim, sem annast rekstur rekstrarfélagsins, kleift að vakta starfsemi fyrirtækisins, sem fær umboðið, með skilvirkum hætti og hvenær sem er,
g)    umboðið skal ekki koma í veg fyrir að þeir sem annast rekstur rekstrarfélagsins geti hvenær sem er gefið frekari fyrirmæli til fyrirtækisins, sem tiltekin verkefni hafa verið vistuð hjá, eða afturkallað umboðið umsvifalaust ef það þjónar hagsmunum fjárfesta,
h)    með hliðsjón af þeirri tegund verkefna sem ætlunin er að vista skal fyrirtækið, sem fela á verkefnin, vera hæft til og fært um að annast umrædd verkefni og
i)    í útboðslýsingum verðbréfasjóðsins verður að telja upp þau verkefni sem rekstrarfélaginu hefur verið heimilað að vista hjá öðrum í samræmi við þessa grein.
2.     Skuldbindingar rekstrarfélags eða vörslufyrirtækis skulu ekki verða fyrir áhrifum af úthlutun rekstrarfélagsins á hvers konar verkefnum til þriðju aðila. Rekstrarfélag skal ekki vista verkefni sín í þeim mæli að það endi sem póstkassafyrirtæki.

14. gr.

1.     Hvert aðildarríki skal semja siðareglur sem rekstrarfélögum með leyfi í því aðildarríki er ávallt skylt að fara eftir. Með slíkum reglum skal a.m.k. komið í framkvæmd þeim meginreglunum sem settar eru fram í þessari málsgrein. Þessar meginreglur skulu tryggja að rekstrarfélag:
a)    starfi á heiðarlegan og sanngjarnan hátt með hagsmuni verðbréfasjóðsins, sem það rekur, og heildarvirkni innri markaðarins að leiðarljósi,
b)    annist viðskipti sín af kunnáttusemi, umhyggju og kostgæfni með hagsmuni verðbréfasjóðsins, sem það rekur, og heildarvirkni innri markaðarins að leiðarljósi,
c)    hafi yfir að ráða og noti á skilvirkan hátt fjármuni og aðferðir sem þörf er á vegna starfseminnar,
d)    reyni að forðast hagsmunaárekstra og, ef ekki verður hjá þeim komist, láti verðbréfasjóðinn, sem það rekur, njóta sanngjarnrar meðferðar og
e)    fari að öllum gildandi ákvæðum um framkvæmd starfsemi sinnar til að tryggja sem best hagsmuni fjárfesta sinna og heildarvirkni innri markaðarins.
2.     Með fyrirvara um 116. gr. skal framkvæmdastjórnin eigi síðar en 1. júlí 2010 samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að tryggja að rekstrarfélag starfi í samræmi við þær skyldur sem settar eru fram í 1. mgr., einkum:
a)    að koma á fót viðeigandi viðmiðunum fyrir heiðarlega og sanngjarna viðskiptahætti og annist viðskipti sín af kunnáttusemi, umhyggju og kostgæfni með hagsmuni verðbréfasjóðs að leiðarljósi,
b)    að tilgreina þær meginreglur sem krafist er til að tryggja að rekstrarfélög noti á skilvirkan hátt fjármuni og aðferðir sem þarf til að starfsemi þeirra sé viðunandi og
c)    að skilgreina þau skref sem sanngjarnt væri að ætla að rekstrarfélög tækju til að greina, að fyrirbyggja, stýra eða upplýsa um hagsmunaárekstra sem og til að koma á viðeigandi viðmiðunum til að ákvarða tegundir hagsmunaárekstra sem gætu skaðað hagsmuni verðbréfasjóðsins.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

15. gr.

Rekstrarfélög eða, ef við á, fjárfestingarfélög, skulu gera ráðstafanir í samræmi við 92. gr. og koma á fót viðeigandi málsmeðferð og ráðstöfunum til að tryggja að þau taki á tilhlýðilegan hátt á kvörtunum fjárfesta og að engar takmarkanir séu á því að fjárfestar leiti réttar síns ef rekstrarfélag hefur leyfi í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki verðbréfasjóðs. Þær ráðstafanir skulu gera fjárfestum kleift að leggja fram kvartanir á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þeirra aðildarríkis.
Rekstrarfélög skulu einnig koma á fót viðeigandi málsmeðferð og ráðstöfunum til að gera upplýsingar aðgengilegar að beiðni almennings eða lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs.

4. ÞÁTTUR
Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu
16. gr.

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rekstrarfélög, sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis þess hafa veitt leyfi, geti stundað þá starfsemi á yfirráðasvæðum þeirra sem leyfið tekur til, annaðhvort með því að stofna útibú eða á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu.
Ef rekstrarfélag, sem hefur þannig leyfi, áformar að markaðssetja einungis hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði sem það stýrir eins og kveðið er á um í II. viðauka, án þess að koma á fót útíbúi, í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins, án þess að ætla sér að stunda neina aðra starfsemi eða veita aðra þjónustu, skal sú markaðssetning aðeins falla undir kröfurnar í XI. kafla.
2.     Aðildarríkjunum er óheimilt að krefjast leyfis, stofnframlags eða annarra sambærilegra ráðstafana vegna stofnunar útibús eða þjónustustarfsemi.
3.     Með fyrirvara um skilyrðin sem sett eru fram í þessari grein, skal verðbréfasjóði frjálst að tilnefna eða vera undir stjórn rekstrarfélags sem hefur leyfi í aðildarríki öðru en heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar, að því tilskildu að þess háttar rekstrarfélag starfi í samræmi við:
a)    ákvæði 17. eða 18. gr. og
b)    ákvæði 19. og 20. gr.

17. gr.

1.     Auk þess að uppfylla skilyrði 6. og 7. gr. skal rekstrarfélag, sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis til að stunda þá starfsemi, sem það hefur fengið leyfi fyrir, tilkynna það lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu.
2.     Aðildarríki skulu krefja hvert rekstrarfélag, sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, um eftirfarandi upplýsingar með tilkynningunni sem um getur í 1. mgr.:
a)    á yfirráðasvæði hvaða aðildarríkis rekstrarfélagið hyggst stofna útibú,
b)    starfsáætlun þar sem lýst er fyrirhugaðri starfsemi og þjónustu skv. 2. og 3. mgr. 6. gr. ásamt stjórnskipulagi útibús, sem skal fela í sér lýsingu á ferli áhættustýringar sem rekstrarfélag hefur komið á. Einnig skal hún fela í sér lýsingu á málsmeðferð og ráðstöfunum sem gerðar eru í samræmi við 15. gr.,
c)    heimilisfang í gistiaðildarríkinu þar sem skjöl eru látin í té og
d)    nöfn þeirra sem bera ábyrgð á stjórn útibúsins.
3.     Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags hafa ekki ástæðu til að efast um að stjórnskipulag eða fjárhagsstaða rekstrarfélags sé fullnægjandi, með tilliti til þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er, skulu þau innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna, sem um getur í 2. mgr., tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins um þær og láta hlutaðeigandi rekstrarfélag vita. Þau skulu einnig senda nákvæmar upplýsingar um öll bótakerfi sem eru ætluð til að vernda fjárfesta.
Neiti lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins að veita lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis rekstrarfélagsins upplýsingarnar sem um getur í 2. mgr. ber þeim að greina hlutaðeigandi rekstrarfélagi frá ástæðum fyrir synjuninni innan tveggja mánaða frá því að þeim hafa borist allar upplýsingar. Heimilt er að áfrýja til dómstóla í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins ef um er að ræða synjun eða ef ekkert svar berst.
Ef rekstrarfélag óskar eftir að hafa stýringu verðbréfasafns sameiginlega, svo sem um getur í II. viðauka, skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins láta fylgja staðfestingu með þeim skjölum sem send eru til lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki rekstrarfélags á því að rekstrarfélag hafi leyfi samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar, lýsingu á gildissviði leyfis rekstrarfélagsins og ítarlegar upplýsingar um takmarkanir á þeim gerðum verðbréfasjóða sem rekstrarfélaginu er heimilt að stjórna.
4.     Rekstrarfélag, sem stundar starfsemi í formi útibús innan yfirráðasvæðis gistiaðildarríkis, skal starfa í samræmi við þær reglur sem gistiaðildarríki rekstrarfélagsins semur skv. 14. gr.
5.     Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki rekstrarfélags skulu bera ábyrgð á eftirliti með því að farið sé að ákvæðum 4. mgr.
6.     Áður en útibú rekstrarfélags hefur starfsemi og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að upplýsingarnar, sem um getur í 2. mgr., berast lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins, skulu þau undirbúa eftirlit með því að rekstrarfélag fari að ákvæðum reglna sem þau bera ábyrgð á.
7.     Þegar tilkynning berst frá lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis rekstrarfélags, eða hafi frestur sá sem kveðið er á um í 6. mgr. runnið út án þess að tilkynning hafi borist frá þeim, má stofna útibúið og hefja starfsemi.
8.     Ef breytingar verða á einstökum atriðum, sem tilkynnt eru skv. b-, c- eða d-lið 2. mgr., skal rekstrarfélag tilkynna lögbærum yfirvöldum heima- og gistiaðildarríkja rekstrarfélagsins skriflega um breytinguna, a.m.k. einum mánuði áður en hún er gerð, til að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags geti tekið ákvörðun um breytinguna skv. 3. mgr. og lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélagsins geti gert það sama skv. 6. mgr.
9.     Ef breytingar verða á einstökum atriðum, sem tilkynnt eru samkvæmt fyrstu undirgrein 3. mgr., skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags tilkynna það yfirvöldum gistiaðildarríkis rekstrarfélags.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu uppfæra upplýsingarnar í staðfestingunni, sem um getur í þriðju undirgrein 3. mgr., og upplýsa lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélags í hvert sinn sem breyting er verður á gildissviði leyfis rekstrarfélagsins eða á upplýsingum um hvers konar takmarkanir á þeim gerðum verðbréfasjóða sem rekstrarfélaginu er heimilt að stjórna.

18. gr.

1.     Hvert það rekstrarfélag, sem í fyrsta sinn óskar eftir að stunda starfsemi, sem það hefur leyfi fyrir á yfirráðasvæði annars aðildarríkis á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu, skal koma eftirfarandi upplýsingum til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins:
a)    á yfirráðasvæði hvaða aðildarríkis rekstrarfélagið hyggst starfa og
b)    starfsáætlun þar sem lýst er fyrirhugaðri starfsemi og þjónustu sem um getur í 2. og 3. mgr. 6. gr., sem skal fela í sér lýsingu á ferli áhættustýringar sem rekstrarfélag hefur innleitt. Einnig skal hún fela í sér lýsingu á málsmeðferð og ráðstöfunum sem gerðar eru í samræmi við 15. gr.
2.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar, sem um ræðir í 1. mgr., senda hana lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu einnig senda nákvæmar upplýsingar um hvers konar bótakerfi sem ætlað er að vernda fjárfesta.
Ef rekstrarfélag óskar eftir að hafa stýringu verðbréfasafns sameiginlega, svo sem um getur í II. viðauka, skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags láta fylgja staðfestingu með þeim skjölum sem send eru til lögbærra yfirvalda á því að rekstrarfélag hafi leyfi samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar, lýsingu á gildissviði leyfis rekstrarfélagsins ítarlegar upplýsingar um takmarkanir á þeim gerðum verðbréfasjóða sem rekstrarfélaginu er heimilt að stjórna.
Þrátt fyrir ákvæði 20. og 93. gr. getur rekstrarfélagið hafið starfsemi í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins.
3.     Rekstrarfélag, sem stundar starfsemi samkvæmt frelsi til að veita þjónustu, skal starfa í samræmi við þær reglur sem samdar eru af heimaaðildarríki rekstrarfélagsins skv. 14. gr.
4.     Ef inntaki upplýsinga sem sendar eru í samræmi við b-lið 1. mgr. er breytt, skal rekstrarfélag tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis og gistiaðildarríkis rekstrarfélagsins skriflega um breytinguna áður en breytingin kemur til framkvæmdar. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu uppfæra upplýsingar sem eru í staðfestingunni sem um getur í 2. mgr. og upplýsa lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélags hvenær sem breyting kann að verða á gildissviði leyfis rekstrarfélagsins eða á upplýsingum um hvers konar takmarkanir á þeim gerðum verðbréfasjóða sem rekstrarfélaginu er heimilt að stjórna.

19. gr.

1.     Rekstrarfélag, sem stundar starfsemi á sviði sameiginlegrar stjórnunar verðbréfasafna yfir landamæri með því að koma á fót útibúi eða í samræmi við frelsi til að veita þjónustu, skal fara að reglum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins að því er varðar skipulag rekstrarfélagsins, þ.m.t. fyrirkomulag úthlutunar, áhættustýringu, varfærnisreglur og eftirlit, þá málsmeðferð sem um getur í 12. gr. og upplýsingaskylda rekstrarfélagsins. Þær reglur skulu ekki vera strangari en þær sem eiga við um rekstrarfélög sem stunda starfsemi sína eingöngu í heimaaðildarríki sínu.
2.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags skulu bera ábyrgð á eftirliti með því að farið sé að ákvæðum 1. mgr.
3.     Rekstrarfélag, sem stundar starfsemi á sviði sameiginlegrar stjórnunar verðbréfasafns yfir landamæri með því að koma á fót útibúi eða í samræmi við frelsi til að veita þjónustu, skal starfa í samræmi við reglur heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs sem eiga við um stofnun og rekstur verðbréfasjóðs, nánar tiltekið þær reglur sem eiga við um:
a)    stofnun og starfsleyfi verðbréfasjóðsins,
b)    útgáfu og innlausn hlutdeildarskírteina og hlutabréfa,
c)    fjárfestingarstefnu og takmarkanir, þ.m.t. útreikningar á heildaráhættu og skuldsetningu,
d)    takmarkanir á lántöku, útlánastarfsemi og skortsölu,
e)    mat á eignum og reikningsskil verðbréfasjóðs,
f)    útreikning á útgáfu- eða innlausnarverði, og villur í útreikningi á verðmæti hreinnar eignar og tengdu bótakerfi fyrir fjárfesta,
g)    útgreiðslu eða endurfjárfestingu tekna,
h)    kröfur verðbréfasjóðs um birtingu og skýrslugjöf, þ.m.t. útboðslýsing, fjárfestaupplýsingar og reglulegar skýrslur,
i)    fyrirkomulag vegna markaðssetningar,
j)    tengsl við eigendur hlutdeildarskírteina,
k)    samruna og endurskipulagningu verðbréfasjóða,
l)    slit, þ.m.t. félagsslit (e. liquidation), verðbréfasjóða,
m)    eftir atvikum, inntak skrár yfir eigendur hlutdeildarskírteina,
n)    leyfis- og eftirlitsgjöld varðandi verðbréfasjóði og
o)    beitingu atkvæðisréttar eigenda hlutdeildarskírteina og öðrum réttindum eigenda eininga í tengslum við a- til m-lið.
4.     Rekstrarfélagið skal starfa í samræmi við skuldbindingar sem settar eru fram í sjóðsreglum eða í stofnsamningi sem og skuldbindingar sem settar eru fram í útboðslýsingu, sem skulu vera í samræmi við gildandi lög sem um getur í 1. og 3. mgr.
5.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skulu bera ábyrgð á eftirliti með því að farið sé að ákvæðum 3. og 4. mgr.
6.     Rekstrarfélagið skal ákvarða og bera ábyrgð á samþykki og framkvæmd allra ráðstafana og skipulagsákvarðana sem nauðsynlegar eru til að tryggja að farið sé að reglum í tengslum við stofnun og rekstur verðbréfasjóða og að skuldbindingum sem settar eru fram í sjóðsreglum eða stofnsamningi, sem og að skuldbindingum sem settar eru fram í útboðslýsingu.
7.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu bera ábyrgð á eftirliti með því hvort fyrirkomulag og skipulag rekstrarfélags sé fullnægjandi svo að rekstrarfélagið sé í aðstöðu til að starfa í samræmi við skuldbindingar og reglur varðandi stofnun og rekstur allra verðbréfasjóða sem það stjórnar.
8.     Aðildarríki skulu tryggja að hvert það rekstrarfélag sem hefur leyfi til að starfa í aðildarríki falli ekki undir neinar viðbótarkröfur sem komið er á í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs að því er varðar viðfangsefni þessarar tilskipunar, að undanskildum þeim tilvikum sem sérstaklega er getið í þessari tilskipun.

20. gr.

1.     Með fyrirvara um 5. gr. skal rekstrarfélag sem áformar að stýra verðbréfasjóði, sem komið er á fót í öðru aðildarríki, leggja fram eftirfarandi skjöl hjá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins:
a)    skriflegt samkomulag við vörslufyrirtækið sem um getur í 23. og 33. gr. og
b)    upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar varðandi starfsemi fjárfestingarstýringar og stjórnsýslu sem um getur í II. viðauka.
Ef rekstrarfélag stýrir þegar öðrum sams konar verðbréfasjóðum í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skal tilvísun í þau skjöl sem þegar hafa verið lögð fram vera fullnægjandi.
2.     Að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er að tryggja að farið sé að reglum, sem lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs bera ábyrgð á, er þeim heimilt að krefja lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags um skýringar og upplýsingar varðandi þau skjöl sem um getur í 1. mgr. og, á grundvelli staðfestingar sem um getur í 17. og 18. gr., hvort sú gerð verðbréfasjóðs, sem sótt er um leyfi fyrir, falli undir gildissvið leyfis rekstrarfélags. Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags skulu, eftir atvikum, leggja fram álit sitt innan 10 virkra daga frá upphaflegri umsókn.
3.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs geta einungis hafnað umsókn rekstrarfélags ef:
a)    rekstrarfélagið starfar ekki í samræmi við reglur sem falla undir ábyrgð þeirra skv. 19. gr.,
b)    rekstrarfélagið hefur ekki leyfi lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis síns til að stjórna þeirri gerð verðbréfasjóða sem sótt er um leyfi fyrir eða
c)    rekstrarfélagið hefur ekki lagt fram þau skjöl sem um getur í 1. mgr.
Áður en umsókn er hafnað, skulu lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs ráðfæra sig við lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins.
4. Rekstrarfélagið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs um allar verulegar síðari breytingar á þeim skjölum sem um getur í 1. mgr.

21. gr.

1.     Gistiaðildarríki rekstrarfélags getur krafist þess, vegna hagskýrslugerðar, að öll rekstrarfélög með útibú á yfirráðasvæði þess gefi lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki reglulega skýrslu um starfsemi sína í því gistiaðildarríki.
2.     Gistiaðildarríki rekstrarfélags getur krafist þess að rekstrarfélög, sem reka fyrirtæki á yfirráðasvæði þess með því að stofna útibú eða í samræmi við frelsi til að veita þjónustu, gefi þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til eftirlits með því að þau fari að reglum sem gilda um rekstrarfélög í viðkomandi gistiaðildarríki.
Þessar kröfur skulu ekki vera strangari en þær sem sama aðildarríki gerir til rekstrarfélaga, sem hafa leyfi í því aðildarríki, varðandi eftirlit með því hvort þau fari að sömu reglum.
Rekstrarfélög skulu tryggja að málsmeðferð og ráðstafanir, sem um getur í 15. gr., geri lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs kleift að afla þeirra upplýsingar, sem um getur í þessari málsgrein, beint frá rekstrarfélaginu.
3.     Ef lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki rekstrarfélags komast að raun um að rekstrarfélag, sem er með útibú eða veitir þjónustu á yfirráðasvæði þeirra, fer ekki að einhverri þeirra reglna sem gilda í gistiaðildarríkinu, skulu þau yfirvöld krefjast þess að hlutaðeigandi rekstrarfélag fari að settum reglum og upplýsa lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins um það.
4.     Ef hlutaðeigandi rekstrarfélag neitar að veita lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélags upplýsingar, sem falla undir ábyrgðarsvið þess, eða gerir ekki nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að settum reglum, sem um getur í 3. mgr., skulu lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins upplýsa lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins um það. Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags skulu, við fyrsta tækifæri, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rekstrarfélag leggi fram þær upplýsingar sem gistiaðildarríki rekstrarfélagsins óskar eftir skv. 2. mgr. eða fari að settum reglum. Tilkynna ber lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins hvers eðlis þær ráðstafanir eru.
5.     Ef rekstrarfélagið neitar enn að leggja fram upplýsingar sem gistiaðildarríki rekstrarfélagsins óskar eftir skv. 2. mgr., þrátt fyrir ráðstafanir, sem lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélags grípa til, eða vegna þess að þær ráðstafanir reynast ófullnægjandi eða ekki tiltækar í viðkomandi aðildarríki, eða ef um er að ræða viðvarandi brot þess á ákvæðum laga eða reglna, sem um getur í sömu málsgrein og í gildi eru í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins, er lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis heimilt, eftir að hafa upplýst lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins, að grípa til viðeigandi ráðstafana, þ.m.t. skv. 98. og 99. gr., til að hindra eða refsa fyrir brot, eftir því sem nauðsyn krefur, til að koma í veg fyrir að það rekstrarfélag stofni til frekari viðskipta á yfirráðasvæði þess. Aðildarríkin skulu sjá til þess að á yfirráðasvæðum þeirra sé unnt að birta rekstrarfélögum nauðsynleg lagaskjöl vegna þessara ráðstafana. Ef sú þjónusta, sem veitt er í gistiaðildarríki rekstrarfélags, er stýring verðbréfasjóðs getur gistiaðildarríki rekstrarfélagsins krafist þess að rekstrarfélagið hætti stýringu viðkomandi verðbréfasjóðs.
6.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til skv. 4. eða 5. mgr. og fela í sér ráðstafanir eða viðurlög, skulu vera rökstuddar á tilhlýðilegan hátt og ber að tilkynna þær hlutaðeigandi rekstrarfélagi. Öllum slíkum ráðstöfunum má skjóta til dómstóla í aðildarríkinu sem samþykkti þær.
7.     Áður en lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélags fylgja málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 3., 4. eða 5. mgr. geta þau gert nauðsynlegar varúðarráðstafanir í bráðatilvikum til að vernda hagsmuni fjárfesta og annarra sem veitt er þjónusta. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum annarra hlutaðeigandi aðildarríkja um slíkar ráðstafanir við fyrsta tækifæri.
Framkvæmdastjórnin getur, eftir samráð við lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja, ákveðið að viðkomandi aðildarríki skuli breyta þessum ráðstöfunum eða afturkalla þær.
8.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu ráðfæra sig við lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins áður en leyfi rekstrarfélagsins er afturkallað. Í þess háttar tilvikum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs gera viðeigandi ráðstafanir til að gæta hagsmuna fjárfesta. Þær ráðstafanir geta falið í sér ákvarðanir sem koma í veg fyrir að hlutaðeigandi rekstrarfélag stofni til frekari viðskipta á yfirráðasvæði þess.
Framkvæmdastjórnin skal gefa skýrslu um slík tilvik annað hvert ár.
9.     Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hve oft og í hvers konar tilvikum synjað er um leyfi skv. 17. gr., eða umsókn hafnað skv. 20. gr., og um allar ráðstafanir sem hafa verið gerðar samkvæmt 5. mgr. þessarar greinar.
Framkvæmdastjórnin skal gefa skýrslu um slík tilvik annað hvert ár.

IV. KAFLI
SKYLDUR ER VARÐA VÖRSLUFYRIRTÆKI
22. gr.

1.     Fela skal vörslufyrirtæki eignir sameignarsjóðs til vörslu.
2.     Ábyrgð vörslufyrirtækis skv. 24. gr. breytist ekki þó að það hafi falið þriðja aðila einhverjar eða allar eignir sem því hefur verið falið að varðveita.
3.     Vörslufyrirtæki skal:
a)    tryggja að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina fyrir hönd sameignarsjóðs eða af hálfu rekstrarfélags fari fram í samræmi við gildandi landslög og sjóðsreglur,
b)    tryggja að virði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við gildandi landslög og sjóðsreglur,
c)    framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags, nema þau brjóti í bága við gildandi landslög eða sjóðsreglur,
d)    tryggja að í viðskiptum með eignir sameignarsjóðs sé endurgjaldinu fyrir þær skilað innan eðlilegra tímamarka,
e)    tryggja að tekjur sameignarsjóðs séu notaðar í samræmi við gildandi landslög og sjóðsreglur.

23. gr.

1.     Vörslufyrirtæki skal annaðhvort hafa skráða skrifstofu eða hafa staðfestu í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs.
2.     Vörslufyrirtæki skal vera stofnun sem er háð varfærniseftirliti og viðvarandi eftirliti. Það verður einnig að veita nægjanlega fjárhags- og faglega tryggingu fyrir því að geta stundað rekstur sem vörslufyrirtæki og uppfyllt þær skyldur sem fylgja rekstrinum.
3.     Aðildarríki skulu ákvarða hvaða flokkar stofnana, sem um getur í 2. mgr., skulu teljast vera hæf vörslufyrirtæki.
4.     Vörslufyrirtæki skal gera lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs kleift að nálgast allar upplýsingar sem vörslufyrirtæki hefur safnað við framkvæmd verkefna sinna og eru nauðsynlegar fyrir lögbær yfirvöld við eftirlit þeirra með verðbréfasjóði samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar, óski þau eftir þeim.
5.     Ef heimaaðildarríki rekstrarfélags er ekki það sama og heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, skal vörslufyrirtæki skrifa undir skriflegt samkomulag við rekstrarfélagið sem stýrir flæði upplýsinga sem taldar eru nauðsynlegar til að það geti sinnt starfseminni sem sett er fram í 22. gr. og í öðrum lögum, reglugerðum eða stjórnsýslufyrirmælum sem eiga við vörslufyrirtæki í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs.
6.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir í tengslum við ráðstafanir sem vörslufyrirtæki á að grípa til, til þess að það geti uppfyllt skyldur sínar varðandi verðbréfasjóð undir stjórn rekstrarfélags sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki, þ.m.t. þau einstöku atriði sem þurfa að vera í hefðbundnu samkomulagi vörslufyrirtækis og rekstrarfélags í samræmi við 5. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

24. gr.

Vörslufyrirtæki skal, í samræmi við landslög í heimaaðildarríki verðbréfasjóðs, bera ábyrgð gagnvart rekstrarfélaginu og eigendum hlutdeildarskírteina vegna alls tjóns sem það bakar þeim með óafsakanlegri vanrækslu á skyldum sínum eða með því að sinna þeim illa.
Ábyrgð gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina getur verið bein eða óbein í gegnum rekstrarfélagið með hliðsjón af því hvernig sambandi vörslufyrirtækis, rekstrarfélags og eigenda hlutdeildarskírteina er háttað að lögum.

25. gr.

1.     Sama félag má ekki starfa bæði sem rekstrarfélag og vörslufyrirtæki.
2.     Rekstrarfélag og vörslufyrirtæki skulu vera óháð í störfum sínum og starfa einungis í þágu hagsmuna eigenda hlutdeildarskírteina.

26. gr.

Í lögum eða sjóðsreglum skal mælt fyrir um skilyrði fyrir því að skipt sé um rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki og reglur til að tryggja vernd eigenda hlutdeildarskírteina ef slík skipti eiga sér stað.

V. KAFLI
SKYLDUR ER VARÐA FJÁRFESTINGARFÉLÖG
1. ÞÁTTUR
Skilyrði fyrir að hefja starfsemi
27. gr.

Fjárfestingarfélagi er ekki heimilt að hefja starfsemi fyrr en að fengnu opinberu leyfi frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis fjárfestingarfélagsins.
Aðildarríkin skulu ákveða hvert skuli vera rekstrarform fjárfestingarfélags að lögum.
Skráð aðsetur fjárfestingarfélags skal vera í heimaaðildarríki fjárfestingarfélagsins.

28. gr.

Engu fjárfestingarfélagi skal heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í 2. mgr. 1. gr.

29. gr.

1.     Með fyrirvara um önnur almenn skilyrði í landslögum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis fjárfestingarfélags ekki veita fjárfestingarfélagi, sem hefur ekki tilnefnt rekstrarfélag, starfsleyfi nema fjárfestingarfélagið hafi nægilegt stofnfé, að fjárhæð a.m.k. 300 000 evrur.
Hafi fjárfestingarfélag ekki tilnefnt rekstrarfélag með starfsleyfi samkvæmt þessari tilskipun skulu auk þess gilda eftirfarandi skilyrði:
a)    starfsleyfið skal ekki veitt nema umsókninni um leyfið fylgi starfsáætlun þar sem m.a. kemur fram hvernig stjórnskipulagi fjárfestingarfélagsins er háttað,
b)    stjórnarmenn fjárfestingarfélags skulu fullnægja skilyrðum um gott mannorð og fullnægjandi reynslu, einnig m.t.t. þeirrar tegundar starfsemi sem fjárfestingarfélagið stundar og í því skyni verður tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum um nöfn stjórnarmanna og allra eftirmanna þeirra. Stefna fjárfestingarfélagsins skal mótuð af a.m.k. tveimur einstaklingum sem uppfylla þessi skilyrði, og „stjórnarmenn“ eru þeir sem, samkvæmt lögum eða stofnsamningi, eru í fyrirsvari fyrir fjárfestingarfélagið eða þeir sem raunverulega ákvarða stefnu þess og
c)    ef náin tengsl eru milli fjárfestingarfélags og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita leyfi ef sýnt er að þessi nánu tengsl komi ekki í veg fyrir að þau gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis fjárfestingarfélags skulu jafnframt synja um leyfi ef lög og stjórnsýsluákvæði þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem fjárfestingarfélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis fjárfestingarfélags skulu krefjast þess að fjárfestingarfélög veiti þeim þær upplýsingar sem þau þarfnast.
2.     Ef fjárfestingarfélag hefur ekki tilnefnt rekstrarfélag, skal tilkynna fjárfestingarfélaginu, innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn er lögð fram, hvort starfsleyfi hafi verið veitt eða ekki. Ef synjað er um leyfi skal tilgreina ástæður.
3.     Fjárfestingarfélagi er heimilt að hefja starfsemi þegar í stað eftir að leyfi hefur verið veitt.
4.     Lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis fjárfestingarfélags er eingöngu heimilt að afturkalla leyfi sem veitt hefur verið fjárfestingarfélagi sem fellur undir þessa tilskipun ef félagið:
a)    nýtir ekki leyfið innan tólf mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hefur hætt starfseminni, sem heyrir undir þessa tilskipun, meira en sex mánuðum áður nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum,
b)    hefur fengið starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt,
c)    uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir leyfisveitingu,
d)    hefur brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun eða
e)    fellur undir ákvæði í landslögum um afturköllun starfsleyfis.

2. ÞÁTTUR
Rekstrarskilyrði
30. gr.

Ákvæði 13. og 14. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um fjárfestingarfélög sem hafa ekki tilnefnt rekstrarfélag sem fengið hefur leyfi samkvæmt þessari tilskipun.
Að því er varðar þær greinar sem um getur í fyrstu málsgrein, skal hugtakið „rekstrarfélag“ túlkað sem „fjárfestingarfélag“.
Fjárfestingarfélögum er einungis heimilt að stýra eignum í eigin eignasafni og mega í engum tilvikum taka við umboði um eignastýringu fyrir hönd þriðja aðila.

31. gr.

Hvert heimaaðildarríki fjárfestingarfélags skal semja varfærnisreglur sem fjárfestingarfélögum, sem hafa ekki tilnefnt rekstrarfélag, sem fengið hefur leyfi samkvæmt þessari tilskipun, er ávallt skylt að fara eftir.
Einkum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis fjárfestingarfélagsins, með hliðsjón af tegund fjárfestingarfélagsins, krefjast þess að rekstrarfélagið hafi traust stjórnunar- og bókhaldsfyrirkomulag, eftirlits- og öryggisfyrirkomulag á rafrænni gagnavinnslu og fullnægjandi innra eftirlit, sem einkum tekur til reglna um einkaviðskipti starfsmanna þess eða reglna um eignarhlutdeild eða stjórnun fjárfestinga í fjármálagerningum í þeim tilgangi að fjárfesta eigið stofnfé, þannig að tryggt sé, a.m.k., að rekja megi uppruna allra viðskipta sem varða fyrirtækið, hverjir séu aðilar að viðskiptunum, eðli viðskiptanna, hvenær og hvar þau áttu sér stað og að fjárfest sé fyrir eignir fjárfestingarfélagsins í samræmi við félagssamþykktir og gildandi lagaákvæði.

3. ÞÁTTUR
Skyldur er varða vörslufyrirtæki
32. gr.

1.     Fela skal vörslufyrirtæki eignir fjárfestingarfélags til vörslu.
2.     Það breytir ekki ábyrgð vörslufyrirtækis samkvæmt 34. gr. þótt það hafi falið þriðja aðila einhverjar eða allar eignir sem því hefur verið falið að varðveita.
3.     Vörslufyrirtæki skal tryggja eftirfarandi:
a)    að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina sem fram fer af hálfu fjárfestingarfélags eða fyrir þess hönd sé framkvæmd samkvæmt lögum og stofnsamningum fjárfestingarfélagsins,
b)    að endurgjald vegna viðskipta, sem taka til eigna fjárfestingarfélags, sé greitt til félagsins innan venjubundinna tímamarka og
c)    að tekjur fjárfestingarfélags séu nýttar í samræmi við lög og stofnsamninga þess.
4.     Heimaaðildarríki fjárfestingarfélags getur ákveðið að fjárfestingarfélögum, sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þess og markaðssetja hlutdeildarskírteini sín einungis í einni eða fleiri kauphöllum, þar sem hlutdeildarskírteini þeirra eru opinberlega skráð, þurfi ekki að hafa vörsluaðila í skilningi þessarar tilskipunar.
Ákvæði 76., 84. og 85. gr. skulu ekki gilda um þess háttar fjárfestingarfélög. Þó skulu reglur um mat á eignum þess háttar fjárfestingarfélaga koma fram í gildandi landslögum eða í stofnsamningi þeirra.
5.     Heimaaðildarríki fjárfestingarfélags getur ákveðið að fjárfestingarfélögum, sem eru stofnsett á yfirráðasvæði þess og markaðssetja a.m.k. 80% af hlutdeildarskírteinum sínum í einni eða fleiri kauphöllum sem tilnefndar eru í stofnsamningum þeirra, þurfi ekki að hafa vörsluaðila í skilningi þessarar tilskipunar, að því tilskildu að hlutdeildarskírteini þeirra verði tekin til opinberrar skráningar í kauphöll þeirra aðildarríkja þar sem hlutdeildarskírteinin eru sett á markað, og að öll viðskipti sem þess háttar fjárfestingarfélag kann að eiga fyrir utan kauphöll fari aðeins fram á sama verði og í kauphöllinni.
Í stofnsamningi fjárfestingarfélags skal tilgreina þá kauphöll í landinu sem markaðssett er í og þar sem viðmiðunarverð fjárfestingarfélags í viðskiptum utan kauphallar í því landi ákvarðast.
Aðildarríki skal aðeins nýta sér undanþágu sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein ef það telur að eigendur hlutdeildarskírteina njóti sambærilegrar verndar og eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum sem hafa vörsluaðila í skilningi þessarar tilskipunar.
Fjárfestingarfélög, sem um getur í þessari málsgrein og 4. mgr., skulu einkum:
a)    tilgreina útreikningsaðferð á verðmæti hreinnar eignar sinnar í hlutdeildarskírteinum í stofnsamningum sínum, ef hún er ekki tilgreind í landslögum,
b)    hafa afskipti af markaði til að koma í veg fyrir að virði hlutdeildarskírteina þeirra sem skráð eru í kauphöll víki um meira en 5% frá verðmæti hreinnar eignar þeirra,
c)    fastsetja verðmæti hreinnar eignar hlutdeildarskírteina sinna, tilkynna lögbærum yfirvöldum um það minnst tvisvar í viku og birta það tvisvar í mánuði.
Óháður endurskoðandi skal a.m.k. tvisvar í mánuði sjá til þess að útreikningur á virði hlutdeildarskírteina fari fram í samræmi við lög og stofnsamninga fjárfestingarfélagsins.
Í þeim tilvikum skal endurskoðandinn sjá til þess að eignir fjárfestingarfélagsins séu notaðar til fjárfestingar samkvæmt reglum sem kveðið er á um í lögum og stofnsamningum fjárfestingarfélagsins.
6.     Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hvaða fjárfestingarfélög njóti góðs af undanþágunni sem um getur í 4. og 5. mgr.

33. gr.

1.     Vörslufyrirtæki skal annaðhvort hafa skráða skrifstofu eða hafa staðfestu í sama aðildarríki og fjárfestingarfélagið.
2.     Vörslufyrirtæki skal vera stofnun sem er háð varfærniseftirliti og viðvarandi eftirliti.
3.     Aðildarríki skulu ákveða hvers konar stofnanir, sem falla undir 2. mgr., geta verið vörslufyrirtæki.
4.     Vörslufyrirtæki skal gera lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs kleift að fá, óski þau þess, allar upplýsingar sem vörslufyrirtæki hefur aflað við framkvæmd verkefna sinna og eru nauðsynlegar lögbærum yfirvöldum við eftirlit þeirra með því að verðbréfasjóðurinn fylgi þessari tilskipun.
5.     Ef heimaaðildarríki rekstrarfélags er ekki hið sama og heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skal vörslufyrirtækið undirrita skriflegt samkomulag við rekstrarfélagið sem stýrir flæði upplýsinga sem taldar eru nauðsynlegar til að það geti sinnt þeirri starfsemi sem fram kemur í 32. gr. og í öðrum lögum, reglugerðum eða stjórnsýslufyrirmælum sem eiga við um vörslufyrirtæki í heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins.
6.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að samþykkja framkvæmdarráðstafanir í tengslum við ráðstafanir sem vörslufyrirtæki gerir svo að það geti uppfyllt skyldur sínar við verðbréfasjóð undir stjórn rekstrarfélags sem stofnsett er í öðru aðildarríki, þ.m.t. þau einstöku atriði sem þurfa að vera í hefðbundnu samkomulagi vörslufyrirtækis og rekstrarfélags í samræmi við 5. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

34. gr.

Vörslufyrirtæki skal, í samræmi við landslög í heimaaðildarríki fjárfestingarfélags, bera ábyrgð gagnvart fjárfestingarfélaginu og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem það bakar þeim með óafsakanlegri vanrækslu á skyldum sínum eða með því að sinna þeim illa.

35. gr.

1.     Sama félagi er óheimilt að starfa bæði sem fjárfestingarfélag og vörslufyrirtæki.
2.     Vörslufyrirtæki skal við störf sín einungis starfa í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.

36. gr.

Í lögum eða stofnsamningum fjárfestingarfélags skal mæla fyrir um skilyrðin fyrir því að skipt sé um vörslufyrirtæki og reglur til að tryggja vernd eigenda hlutdeildarskírteina ef slík skipti eiga sér stað.

VI. KAFLI
SAMRUNAR VERÐBRÉFASJÓÐA
1. ÞÁTTUR
Meginregla, leyfi og samþykki
37. gr.

Að því er þennan kafla varðar skal verðbréfasjóður einnig taka til fjárfestingardeilda sjóðsins.

38. gr.

1.     Aðildarríki skulu, með fyrirvara um skilyrðin sem sett eru fram í þessum kafla og án tillits til þess með hvaða hætti verðbréfasjóðir eru stofnaðir skv. 3. mgr. 1. gr., heimila samruna yfir landamæri og innanlands eins og skilgreint í q- og r-lið 1. mgr. 2. gr. í samræmi við eina eða fleiri samrunaaðferðir sem kveðið er á um í p-lið 1. mgr. 2. gr.
2.     Samrunaaðferðir, sem beitt er við samruna yfir landamæri, eins og þær eru skilgreindar í q-lið 1. mgr. 2. gr., skulu vera í samræmi við lög heimaaðildarríkis samrunasjóðsins.
Samrunaaðferðir, sem beitt er við samruna innanlands eins og þær eru skilgreindar í r-lið 1. mgr. 2. gr., skulu vera í samræmi við lög þess aðildarríkis sem verðbréfasjóðurinn hefur staðfestu í.

39. gr.

1.     Samrunar skulu vera með fyrirvara um fyrirframleyfi frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis samrunasjóðs.
2.     Samrunasjóður skal láta lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu í té eftirfarandi upplýsingar:
a)    sameiginlega samrunaáætlun fyrirhugaðs samruna sem samþykkt er af samrunasjóði og viðtökusjóði,
b)    uppfærða útgáfu af útboðslýsingu viðtökusjóðs og lykilupplýsinga hans fyrir fjárfesta, sem um getur í 78. gr., ef honum er komið á fót í öðru aðildarríki,
c)    yfirlýsingu frá hverjum vörsluaðila samruna- og viðtökusjóða, til staðfestingar á að þeir hafi í samræmi við 41. gr. sannreynt að einstök atriði, sem sett eru fram í a-, f-, og g-lið 1. mgr. 40. gr., séu í samræmi við kröfur þessarar tilskipunar og sjóðsreglur eða stofnsamninga viðkomandi verðbréfasjóða þeirra og
d)    upplýsingar um fyrirhugaðan samruna sem samruna- og viðtökusjóðir hyggjast veita viðkomandi eigendum hlutdeildarskírteina.
Þær upplýsingar skal leggja fram þannig að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkja bæði samruna- og viðtökusjóðs geti lesið þær á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum þess aðildarríkis eða þeirra aðildarríkja, eða á tungumáli þau lögbæru yfirvöld hafa samþykkt.
3.     Þegar umsóknin er fullbúin skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðs tafarlaust senda afrit af upplýsingunum, sem um getur í 2. mgr., til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis viðtökusjóðs. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkja samrunasjóða og viðtökusjóða skulu hvor fyrir sig taka tillit til hugsanlegra áhrifa fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina í samruna- og viðtökusjóðum og meta hvort eigendum hlutdeildarskírteina hafi verið veittar viðhlítandi upplýsingar.
Ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðs telja það nauðsynlegt, geta þau krafist þess skriflega að upplýsingar, sem veittar eru eigendum hlutdeildarskírteina viðtökusjóðs, séu skýrðar.
Ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis viðtökusjóðs telja það nauðsynlegt geta þau krafist þess skriflega, eigi síðar en 15 virkum dögum eftir viðtöku afrita af öllum upplýsingum sem um getur í 2. mgr., að viðtökusjóður breyti upplýsingunum sem veita skal eigendum hlutdeildarskírteina.
Í því tilviki skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis viðtökusjóðs tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis samrunasjóðsins um óánægju sína. Þau skulu tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis samrunasjóðsins innan 20 virkra daga frá því þeim er tilkynnt þar um, hvort þau telji að leiðréttar upplýsingar, sem veittar eru eigendum hlutdeildarskírteina viðtökusjóðsins, séu fullnægjandi.
4.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðs, skulu heimila fyrirhugaðan samruna ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)    fyrirhugaður samruni uppfyllir allar kröfur í 39. til 42. gr.,
b)    tilkynnt hefur verið, í samræmi við 93. gr., að viðtökusjóðurinn hafi sett hlutdeildarskírteini sín á markað í öllum aðildarríkjum þar sem samrunasjóðurinn er annaðhvort með leyfi eða tilkynnt hefur verið að hlutdeildarskírteini hans hafi verið sett á markað í samræmi við 93. gr., og
c)    lögbær yfirvöld heimaaðildarríkja samruna- og viðtökusjóða telja upplýsingarnar, sem veita skal eigendum hlutdeildarskírteina, fullnægjandi eða engar vísbendingar um óánægju lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis viðtökusjóðsins hafa komið fram samkvæmt fjórðu undirgrein 3. mgr.
5.     Ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðs telja að umsóknin sé ekki fullbúin skulu þau óska eftir viðbótarupplýsingum innan 10 virkra daga frá viðtöku þeirra upplýsinga sem um getur í 2. mgr.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðsins skulu upplýsa samrunasjóð, innan 20 virkra daga, um að lagðar hafi verið fram fullbúnar upplýsingar, í samræmi við 2. mgr., hvort sem veitt hefur verið leyfi fyrir samruna eða ekki.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðsins skulu einnig upplýsa lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis viðtökusjóðsins um ákvörðun sína.
6.     Aðildarríki geta, í samræmi við aðra undirgrein 1. mgr. 57. gr., veitt undanþágu frá 52. til 55. gr. að því er varðar viðtökusjóð.

40. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að samruna- og viðtökusjóðir geri sameiginlega samrunaáætlun.
Í sameiginlegu samrunaáætluninni skal tilgreina eftirfarandi einstök atriði:
a)    auðkenningu á tegund samruna og viðkomandi verðbréfasjóðs,
b)    aðdraganda og grunnforsendur fyrirhugaðs samruna,
c)    væntanleg áhrif fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina, bæði samruna- og viðtökusjóða,
d)    viðmiðanir, sem samþykktar eru varðandi mat á eignum, og, eftir atvikum, skuldbindingar á þeim degi sem skiptahlutfall er reiknað, eins og um getur í 1. mgr. 47. gr.,
e)    aðferð við útreikning á skiptihlutfalli,
f)    áætlaðan gildistökudag samruna,
g)    reglur sem eiga við, annars vegar um yfirfærslu eigna og hins vegar um skipti á hlutdeildarskírteinum og
h)    ef um er að ræða samruna skv. ii. lið p-liðar 1. mgr. 2. gr. og, eftir atvikum, iii. lið p-liðar 1. mgr. 2. gr., sjóðsreglur eða stofnsamninga nýstofnaðs verðbréfasjóðs sem öðrum er rennt saman við.
Lögbær yfirvöld skulu ekki gera kröfu um að einhverjar viðbótarupplýsingar séu í sameiginlegri samrunaáætlun.
2.     Samrunasjóður og viðtökusjóður geta ákveðið að bæta fleiri liðum í sameiginlega samrunaáætlun.

2. ÞÁTTUR
Eftirlit þriðja aðila, upplýsingar til eigenda hlutdeildarskírteina og önnur réttindi eigenda hlutdeildarskírteina
41. gr.

Aðildarríki skulu krefjast staðfestingar frá vörsluaðilum samruna- og viðtökusjóða á samræmi einstakra atriða sem sett eru fram í a-, f-, og g-lið 1. mgr. 40. gr., við kröfur þessarar tilskipunar og sjóðsreglur eða stofnsamninga viðkomandi verðbréfasjóða þeirra.

42. gr.

1.     Lög heimaaðildarríkis samrunasjóðs skulu annaðhvort fela vörslufyrirtæki eða óháðum endurskoðanda, sem er viðurkenndur í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga ( 1 ), að staðfesta eftirfarandi:
a)    þær viðmiðanir, sem eru samþykktar um mat á eignum, og, eftir atvikum, skuldbindingar á þeim degi sem skiptahlutfall er reiknað, eins og um getur í 1. mgr. 47. gr.,
b)    greiðslu í handbæru fé, eftir atvikum, og
c)    aðferð við útreikning á skiptihlutfalli sem og raunverulegt skiptihlutfall ákvarðað á þeim degi sem hlutfallið er reiknað, eins og um getur í 1. mgr. 47. gr.
2.     Löggiltir endurskoðendur samrunasjóðs eða löggiltur endurskoðandi viðtökusjóðs skal teljast óháður endurskoðandi að því er varðar 1. mgr.
3.     Afrit af skýrslum óháðs endurskoðanda, eða, eftir atvikum, vörslufyrirtækis, skulu gerð aðgengileg, án endurgjalds, eigendum hlutdeildarskírteina bæði samrunasjóðs og viðtökusjóðs og viðkomandi lögbærum yfirvöldum þeirra, fari þeir fram á það.

43. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að samruna- og viðtökusjóðir afhendi viðeigandi og nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaðan samruna til viðkomandi eigenda hlutdeildarskírteina, til að gera þeim kleift að taka upplýsta ákvörðun um áhrif tillögunnar á fjárfestingu þeirra.
2.     Þær upplýsingar skal aðeins afhenda eigendum hlutdeildarskírteina samruna- og viðtökusjóða eftir að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis samrunasjóðs hafa heimilað fyrirhugaðan samruna skv. 39. gr.
Þær skulu afhentar minnst 30 dögum fyrir lokadag til að krefjast endurkaupa eða innlausnar eða, eftir atvikum, umbreytingar án viðbótarkostnaðar skv. 1. mgr. 45. gr.
3.     Upplýsingar sem afhentar eru eigendum hlutdeildarskírteina samruna- og viðtökusjóða skulu fela í sér viðeigandi og nákvæmar upplýsingar um fyrirhugaðan samruna til þess að gera þeim kleift að taka upplýsta ákvörðun um möguleg áhrif samruna á fjárfestingu þeirra og til að þeir geti neytt réttinda sinna skv. 44. og 45. gr.
Upplýsingar skal m.a. veita um eftirfarandi:
a)    aðdraganda og grunnforsendur fyrirhugaðs samruna,
b)    möguleg áhrif fyrirhugaðs samruna á eigendur hlutdeildarskírteina, þ.m.t., en ekki einskorðað við, verulegan mismun að því er varðar fjárfestingarstefnu og -áætlun, kostnað, væntan árangur, reglubundnar skýrslur, möguleg áhrif þynningar á árangur og, ef við á, áberandi viðvörun til fjárfesta um að skattaleg meðferð geti breyst í kjölfar samruna,
c)    öll sértæk réttindi, sem eigendur hlutdeildarskírteina hafa í tengslum við fyrirhugaðan samruna, þ.m.t., en ekki einskorðað við, rétt til viðbótarupplýsinga, rétt til afrits af skýrslu óháðs endurskoðanda eða vörslufyrirtækis, sé farið fram á það, og rétt til að óska eftir endurkaupum eða innlausn eða, eftir atvikum, umbreytingu á hlutdeildarskírteinum þeirra án endurgjalds, eins og tilgreint er í 1. mgr. 45. gr., og lokadag til nýtingar á þeim rétti,
d)    atriði sem varða málsmeðferð og áætlaðan gildistökudag samruna og
e)    afrit af fjárfestaupplýsingum viðtökusjóða, sem um getur í 78. gr.
4.     Ef tilkynnt hefur verið um samruna- eða viðtökusjóði í samræmi við 93. gr. skal afhenda upplýsingarnar, sem um getur í 3. mgr., á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum viðkomandi gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs, eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld þess samþykkja. Þeir verðbréfasjóðir sem krafist er að leggi fram upplýsingarnar skulu bera ábyrgð á þýðingum þeirra. Sú þýðing skal endurspegla inntak frumritsins nákvæmlega.
5.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina nákvæmt inntak, snið og aðferð við afhendingu upplýsinganna sem um getur í 1. og 3. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

44. gr.

Ef í landslögum aðildarríkis er krafist samþykkis eigenda hlutdeildarskírteina við samruna verðbréfasjóða skulu aðildarríkin tryggja að samþykki þurfi ekki meira en 75% greiddra atkvæða þeirra eigenda hlutdeildarskírteina sem eru viðstaddir eða eiga fulltrúa á aðalfundi eigenda hlutdeildarskírteina.
Fyrsta málsgrein skal ekki hafa áhrif á landslög um viðveru ákvörðunarbærs meirihluta. Aðildarríki skulu hvorki koma á strangari reglum um viðveru ákvörðunarbærs meirihluta varðandi samruna yfir landamæri en samruna innanlands né strangari reglum um viðveru ákvörðunarbærs meirihluta að því er varðar samruna verðbréfasjóða en samruna viðskiptafyrirtækja.

45. gr.

1.     Í lögum aðildarríkjanna skal kveðið á um að eigendur hlutdeildarskírteina bæði í samruna- og viðtökusjóðum hafi heimild, án annars gjalds en því sem verðbréfasjóðurinn heldur eftir til að standa undir kostnaði við sölu eigna, til að óska eftir endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina sinna eða, þar sem þess er kostur, að breyta þeim í hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði með sambærilega fjárfestingarstefnu og undir stjórn sama rekstrarfélags eða hvers annars félags sem rekstrarfélagið tengist vegna sameiginlegs rekstrar eða stjórnenda eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild. Sá réttur skal taka gildi frá þeirri stundu sem eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóði og viðtökusjóði hafa fengið upplýsingar um fyrirhugaðan samruna í samræmi við 43. gr. og fellur úr gildi fimm virkum dögum þann dag sem skiptihlutfall er reiknað, eins og um getur í 1. mgr. 47. gr.
2.     Að því er varðar samruna verðbréfasjóða geta aðildarríkin, þrátt fyrir 1. mgr. og þrátt fyrir 1. mgr. 84. gr., heimilað lögbærum yfirvöldum að krefjast eða leyfa tímabundna frestun áskriftar, endurkaupa eða innlausnar hlutdeildarskírteina, að því tilskildu að slík frestun sé réttlætanleg til að vernda eigendur hlutdeildarskírteinanna.

3. ÞÁTTUR
Kostnaður og gildistaka
46. gr.

Aðildarríki skulu tryggja að hvers konar laga-, ráðgjafar- eða stjórnunarkostnaður í tengslum við undirbúning og lok samruna verði hvorki gjaldfærður á samruna- né viðtökusjóði, né neinn af eigendum hlutdeildarskírteina þeirra, nema í þeim tilvikum þar sem verðbréfasjóður hefur ekki tilnefnt rekstrarfélag.

47. gr.

1. Að því er varðar samruna innanlands skal í lögum aðildarríkis ákvörðuð sú dagsetning þegar samruni tekur gildi ásamt dagsetningu þegar útreikningur á skiptihlutfalli hlutdeildarskírteina samrunasjóðs yfir í hlutdeildarskírteini viðtökusjóðs á sér stað og, eftir atvikum, dagsetningu ákvörðunar á viðeigandi verðmæti hreinnar eignar vegna greiðslna í handbæru fé.
Að því er varðar samruna yfir landamæri skulu þessar dagsetningar ákvarðaðar samkvæmt lögum heimaaðildarríkis viðtökuverðbréfasjóðsins. Aðildarríki skulu, eftir atvikum, sjá til þess að eigendur hlutdeildarskírteina í viðtökusjóði og samrunasjóði samþykki þessar dagsetningar.
2.     Gildistaka samrunans skal gerð opinber með öllum tilhlýðilegum ráðum eftir því sem mælt er fyrir um í lögum heimaaðildarríkis viðtökusjóðsins og skal lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis viðtökusjóðsins og samrunasjóðsins tilkynnt um hana.
3.     Ekki skal unnt að lýsa ógildan samruna sem hefur öðlast gildi eins og kveðið er á um í 1. mgr.

48. gr.

1.     Samruni, sem tekið hefur gildi í samræmi við i. lið p-liðar 1. mgr. 2. gr., hefur eftirfarandi áhrif:
a)    allar eignir og skuldir samrunasjóðs flytjast yfir í viðtökusjóð, eða, eftir atvikum, til vörslufyrirtækis viðtökusjóðsins,
b)    eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóði verða eigendur að hlutdeildarskírteinum í viðtökusjóði og eiga, eftir atvikum, rétt á greiðslu í handbæru fé sem ekki er yfir 10% af verðmæti hreinnar eignar hlutdeildarskírteina þeirra í samrunasjóðnum og
c)    samrunasjóðir hætta að vera til daginn sem samruninn öðlast gildi.
2. Samruni, sem hefur öðlast gildi í samræmi við ii. lið p-liðar í 1. mgr. 2. gr., hefur eftirfarandi áhrif:
a)    allar eignir og skuldir samrunasjóðs flytjast yfir í nýstofnaðan viðtökusjóð, eða, eftir atvikum, í vörslufyrirtæki viðtökusjóðsins,
b)    eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóði verða eigendur að hlutdeildarskírteinum í nýstofnuðum viðtökusjóði og eiga þeir, eftir atvikum, rétt á greiðslu í handbæru fé sem ekki er yfir 10% af verðmæti hreinnar eignar hlutdeildarskírteina þeirra í samrunasjóðnum og
c)    samrunasjóðir hætta að vera til daginn sem samruninn öðlast gildi.
3.     Samruni, sem hefur öðlast gildi í samræmi við iii. lið p-liðar í 1. mgr. 2. gr., hefur eftirfarandi áhrif:
a)    hreinar eignir samrunasjóðsins flytjast yfir í viðtökusjóðinn, eða, eftir atvikum, í vörslufyrirtæki viðtökusjóðsins,
b)    eigendur hlutdeildarskírteina í samrunasjóðnum verða eigendur hlutdeildarskírteina í viðtökusjóðnum og
c)    samrunasjóðurinn heldur áfram að vera til þar til gengið hefur verið frá skuldum.
4.     Aðildarríki skulu sjá til þess að sett verði verklagsregla sem rekstrarfélag viðtökusjóðs notar til að staðfesta við vörslufyrirtæki viðtökusjóðs að yfirfærslu eigna og, eftir atvikum, skulda sé lokið. Ef viðtökusjóður hefur ekki tilnefnt rekstrarfélag, skal hann staðfesta þetta við vörslufyrirtæki sitt.

VII. KAFLI
SKULDBINDINGAR VARÐANDI FJÁRFESTINGARSTEFNU VERÐBRÉFASJÓÐA
49. gr.

Ef í verðbréfasjóði eru fleiri en ein fjárfestingardeild skal hver deild teljast sérstakur verðbréfasjóður að því er varðar þennan kafla.

50. gr.

1. Verðbréfasjóðir mega einungis fjárfesta í einu eða fleiri af eftirfarandi:
a)    framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem skráð eru eða viðskipti eru með á skipulegum markaði í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB,
b)    framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem viðskipti eru með á öðrum skipulegum markaði í aðildarríki sem starfar á reglubundinn hátt og er opinn almenningi,
c)    framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem teknir hafa verið til opinberrar skráningar í kauphöll í þriðja landi eða sem viðskipti eru með á annars konar skipulegum markaði í þriðja landi, sem starfar á reglubundinn hátt og er viðurkenndur og opinn almenningi, að því tilskildu að lögbær yfirvöld samþykki val á kauphöll eða markaði eða kveðið sé á um það í lögum eða sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélagsins,
d)    nýútgefnum, framseljanlegum verðbréfum, að því tilskildu að:
    i.    í útgáfuskilmálum sé skuldbinding um að sótt verði um opinbera skráningu í kauphöll eða á öðrum skipulegum markaði, sem starfar á reglubundinn hátt og er viðurkenndur og opinn almenningi, að því tilskildu að val á kauphöll eða markaði hafi verið samþykkt af lögbærum yfirvöldum eða kveðið sé á um það í lögum eða sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélagsins, og
    ii.    skráningin, sem um getur í i. lið, eigi sér stað innan árs frá útgáfu,
e)    hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, sem hafa fengið leyfi samkvæmt þessari tilskipun, eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, í skilningi a- og b-liðar 2. mgr. 1. gr., án tillits til þess hvort þau eru stofnsett í aðildarríki, að því tilskildu:
    i.    að þessi önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu hafi leyfi samkvæmt lögum, sem kveða á um að þau heyri undir eftirlit sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðanna telja sambærilegt við eftirlit samkvæmt lögum Bandalagsins, og svo fremi að samstarf yfirvalda sé tryggt með fullnægjandi hætti,
    ii.    að eigendur hlutdeildarskírteina í öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu njóti sambærilegrar verndar og kveðið er á um fyrir eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum, einkum að reglur um aðgreiningu eigna, lántöku, lánveitingu og um skortsölu framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga séu sambærilegar kröfum í þessari tilskipun,
    iii.    að skýrt sé frá starfsemi annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í hálfsárs- og ársreikningum til að unnt sé að meta eignir og skuldir, tekjur og rekstur á skýrslutímabilinu og
    iv.    að þeim verðbréfasjóðum eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem ætlunin er að kaupa hlutdeildarskírteini í, sé óheimilt, samkvæmt sjóðsreglum þeirra eða stofnsamningum, að fjárfesta meira en 10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu,
f)    innlánum hjá lánastofnunum, sem eru gjaldkræf eftir kröfu eða sem taka má út og hafa mest 12 mánaða binditíma, að því tilskildu að skráð skrifstofa lánastofnunarinnar sé í aðildarríki eða, ef skráð skrifstofa hennar er í þriðja landi, að hún heyri undir varfærnisreglur sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðanna telja að jafngildi þeim sem mælt er fyrir um í löggjöf Bandalagsins
g)    afleiddum fjármálagerningum, þ.m.t. sambærilegir gerningar sem greiddir eru með reiðufé, sem verslað er með á skipulegum mörkuðum, sem um getur í a-, b- og c-lið, eða afleiddum fjármálagerningum sem viðskipti eru með utan skipulegra verðbréfamarkaða, að því tilskildu:
    i.    að undirliggjandi afleiður séu gerningar sem falla undir þessa málsgrein, fjármálavísitölur, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni sem fram kemur í sjóðsreglum eða stofnsamningum sjóðsins,
    ii.    að mótaðilar að viðskiptum með afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða séu stofnanir sem sæta varfærniseftirliti og tilheyra flokkum sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins viðurkenna og
    iii.    að verðmæti afleiða utan skipulegra verðbréfamarkaða sé reiknað daglega, þannig að það sé áreiðanlegt og unnt sé að staðfesta það, og að unnt sé að selja þær, innleysa eða loka með mótfærslu á sannvirði hverju sinni að frumkvæði verðbréfasjóðsins eða
h)    öðrum peningamarkaðsgerningum en viðskipti eru með á skipulegum mörkuðum, sem heyra undir o-lið 1. mgr. 2. gr., ef útgáfa eða útgefandi þessara gerninga sætir lögbundnu eftirliti sem hefur þann tilgang að vernda fjárfesta og sparifé, og að því tilskildu:
    i.    að ríkisstjórn eða svæðis- eða staðaryfirvöld eða seðlabanki aðildarríkis, Seðlabanki Evrópu, Bandalagið eða Fjárfestingarbanki Evrópu, þriðja land eða, ef um sambandsríki er að ræða, eitt ríkjanna í sambandinu eða opinber eða alþjóðleg stofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríkjanna eiga aðild að, gefi þau út eða ábyrgist þau,
    ii.    að fyrirtæki gefi þau út ef viðskipti eiga sér stað með verðbréf þess á skipulegum mörkuðum sem um getur í a-, b- eða c-lið,
    iii.    að stofnun, sem sætir varfærniseftirliti, í samræmi við viðmiðanir, sem skilgreindar eru í lögum Bandalagsins, eða stofnun, sem lýtur og hlítir varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja að minnsta kosti jafnstrangar og þær sem mælt er fyrir um í lögum Bandalagsins, gefi þau út eða ábyrgist þau eða
    iv.    að aðrir aðilar, sem tilheyra flokkum sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins hafa viðurkennt, gefi þau út eða ábyrgist þau, að því tilskildu að fjárfesting í slíkum gerningum heyri undir fjárfestavernd sem jafngildir þeirri vernd sem kveðið er á um í i., ii. eða iii. lið og að því tilskildu að útgefandi sé félag með eigið fé og varasjóði sem nema að minnsta kosti 10 000 000 evra og sem leggur fram og birtir ársreikninga sína í samræmi við fjórðu tilskipun ráðsins 78/ 660/EBE frá 25. júlí 1978, byggt á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 1 ), sé aðili innan félagasamstæðu með eitt eða fleiri skráð félög sem helgar sig fjármögnun samstæðunnar eða er aðili sem helgar sig fjármögnun verðbréfunar með stoð í lánasamningi við fjármálastofnun.
2.     Verðbréfasjóður skal þó ekki:
a)    fjárfesta meira en 10% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsgerningum, öðrum en þeim sem um getur í 1. mgr. eða
b)    eignast eðalmálma eða skírteini fyrir þeim.
Verðbréfasjóðir mega eiga viðbótarlausaeignir.
3.     Fjárfestingarfélögum er heimilt að eignast lausafé eða fasteignir sem eru nauðsynlegar til að stunda starfsemi þess.

51. gr.

1.     Rekstrar- eða fjárfestingarfélag skal beita áhættustýringarferli sem gerir því kleift að vakta og meta stöðuáhættu á hverjum tíma og hlut hennar í heildaráhættusnið eignasafnsins.
Það skal nota aðferð til að leggja nákvæmt og óháð mat á verðmæti afleiða utan skipulegra verðbréfamarkaða.
Það skal tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis síns reglubundið um tegundir afleiðugerninga, undirliggjandi áhættu, magntakmarkanir og aðferðirnar sem það beitir til að meta áhættu í tengslum við viðskipti með afleiðugerninga að því er varðar hvern verðbréfasjóð sem stýrt er.
2.     Aðildarríkin geta heimilað verðbréfasjóðum að nota aðferðir og gerninga, sem varða framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerninga, með þeim skilyrðum og innan þeirra marka sem aðildarríkin mæla fyrir um, að því tilskildu að þessar aðferðir og gerningar séu notuð til að auka skilvirkni í stýringu eignasafna.
Þegar þessi viðskipti varða notkun afleiðugerninga skulu framangreind skilyrði og mörk vera í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
Þessi viðskipti mega ekki í neinum tilvikum verða til þess að verðbréfasjóðurinn víki frá fjárfestingarmarkmiðum sínum eins og þau eru sett fram í sjóðsreglum, stofnsamningum eða útboðslýsingu sjóðsins.
3. Verðbréfasjóður skal tryggja að heildaráhætta hans vegna afleiðugerninga fari ekki yfir hreint heildarvirði eignasafns hans.
Við útreikning áhættu skal taka mið af núvirði undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, hreyfing líklegri þróun fjármálamarkaða og líftíma samninga. Þetta gildir einnig um þriðju og fjórðu undirgrein.
Verðbréfasjóði er heimilt, innan ramma fjárfestingarstefnu sinnar og innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í 5. mgr. 52. gr., að fjárfesta í afleiðugerningum, svo fremi að samanlögð áhætta undirliggjandi eigna fari ekki yfir leyfilegt hámark fjárfestinga sem mælt er fyrir um í 52. gr. Þegar verðbréfasjóður fjárfestir í afleiðugerningum sem byggjast á vísitölu geta aðildarríkin veitt heimild til þess að ekki þurfi að safna fjárfestingunum saman að því er varðar þau mörk sem mælt er fyrir um í 52. gr.
Ef framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðgerningar fela í sér afleiðu skal tekið mið af því þegar farið er að kröfum þessarar greinar.
4.     Með fyrirvara um 116. gr., skal framkvæmdastjórnin eigi síðar en 1. júlí 2010 samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem eftirfarandi er tilgreint:
a)    viðmiðanir við mat á því hvort áhættustýringarferlið, sem rekstrarfélag notar í samræmi við fyrstu undirgrein 1. mgr., sé fullnægjandi,
b)    ítarlegar reglur um nákvæmt og óháð mat á virði afleiða utan skipulegra verðbréfamarkaða og
c)    ítarlegar reglur um inntak og málsmeðferð vegna miðlunar upplýsinga, sem um getur í þriðju undirgrein 1. mgr., til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

52. gr.

1.     Verðbréfasjóður skal ekki fjárfesta meira en sem nemur:
a)    5% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsgerningum, útgefnum af sama útgefanda, eða
b)    20% af eignum sínum í innlánum hjá sama aðila.
Áhætta verðbréfasjóðs gagnvart mótaðila í viðskiptum með afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða má hvorki fara yfir:
a)    10% af eignum hans ef mótaðilinn er lánastofnun sem um getur í f-lið 1. mgr. 50. gr., né
b)    5% af eignum hans í öðrum tilvikum.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5% mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein 1. mgr., upp í 10% að hámarki. Fjárfesti verðbréfasjóður hins vegar meira en 5% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum einstakra útgefenda má heildarverðmæti slíkra fjárfestinga ekki nema meira en 40% af heildarverðmæti eigna sjóðsins. Þessar takmarkanir gilda ekki um innlán og viðskipti með afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða við fjármálastofnanir sem sæta varfærniseftirliti.
Þrátt fyrir einstök mörk, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., skal verðbréfasjóður ekki safna saman eftirfarandi, ef það leiðir til þess að fjárfest er fyrir meira en 20% af eignum hans í útgáfum eins aðila:
a)    framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsgerningum útgefnum af þeim aðila,
b)    innlánum hjá viðkomandi aðila eða
c)    áhættukröfum í tengslum við afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða gagnvart þeim aðila.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5% mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein 1. mgr., í 35% að hámarki ef aðildarríki, staðaryfirvöld þess, þriðja land eða alþjóðastofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríki eiga aðild að, hefur gefið út eða ábyrgst hin framseljanlegu verðbréf eða peningamarkaðsgerninga.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5% mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein 1. mgr., í 25% að hámarki ef um er að ræða tiltekin skuldabréf sem eru gefin út af lánastofnun sem er með skráða skrifstofu sína í aðildarríki og sætir samkvæmt lögum sérstöku opinberu eftirliti sem ætlað er að vernda eigendur skuldabréfa. Andvirði slíkra bréfa skal samkvæmt lögum einkum notað til fjárfestingar í eignum sem staðið geta undir kröfum sem eru bundnar bréfunum allan gildistíma bréfanna og standi útgefandi skulda bréfanna ekki í skilum skal endurgreiðsla höfuðstóls og áfallinna vaxta af þeim hafa forgang af andvirði eignanna.
Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% af eignum sínum í skuldabréfunum, sem um getur í fyrstu undirgrein og einn útgefandi gefur út, skal samanlagt verðmæti þeirra fjárfestinga ekki nema meira en 80% af eignum sjóðsins.
Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skrá yfir tegundir skuldabréfa, sem um getur í fyrstu undirgrein, og tegundir útgefenda sem, samkvæmt lögum og reglum um eftirlit, sbr. þá undirgrein, er heimilað að gefa út skuldabréf sem fullnægja skilyrðum sem sett eru fram í þessari grein. Tilkynning um hvernig ábyrgð er háttað skal fylgja þessum skrám. Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað framsenda þessar upplýsingar öðrum aðildarríkjum ásamt athugasemdum sem hún telur eiga við og sjá til þess að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi. Evrópska verðbréfanefndin skiptist á skoðunum um þessar upplýsingar, eins og um getur í 1. mgr. 112 gr.
5.     Við beitingu 40% markanna, sem um getur í 2. mgr., skal ekki litið til framseljanlegu verðbréfanna og peningamarkaðsgerninganna sem um getur í 3. og 4. mgr.
Takmarkanir, sem kveðið er á um í 1.–4. mgr., má ekki leggja saman og því skulu fjárfestingar, sem eru í samræmi við 1.–4. mgr., í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsgerningum, innlánum eða afleiðum sama útgefanda, ekki vera samtals umfram 35% af eignum verðbréfasjóðsins.
Félög, sem teljast til sömu samstæðu í samstæðureikningsskilum samkvæmt skilgreiningu í tilskipun 83/349/EBE eða í samræmi við viðurkenndar alþjóðlegar reikningsskilareglur, skulu teljast einn aðili við útreikning á mörkum samkvæmt þessari grein.
Aðildarríkin geta leyft uppsafnaða fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum, innan sömu samstæðu, sem nemur allt að 20 %.

53. gr.

1.     Með fyrirvara um mörkin, sem mælt er fyrir um í 56. gr., er aðildarríkjunum heimilt að hækka mörkin, sem mælt er fyrir um í 52. gr., í allt að 20% fyrir fjárfestingu í hlutabréfum eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs, samkvæmt sjóðsreglum eða stofnsamningum, er að líkja eftir tiltekinni hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu sem lögbær yfirvöld viðurkenna á eftirfarandi forsendum:
a)    vísitalan hefur fullnægjandi áhættudreifingu,
b)    vísitalan endurspeglar viðkomandi markað með fullnægjandi hætti og
c)    vísitalan verður birt opinberlega með viðeigandi hætti.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka mörkin, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., í 35% að hámarki ef sérstakar aðstæður á markaðnum réttlæta það, einkum á skipulegum mörkuðum þar sem tiltekin framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðsgerningar eru ríkjandi. Fjárfesting upp að þessu marki er aðeins leyfð fyrir einn útgefanda.

54. gr.

1.     Þrátt fyrir ákvæði 52. gr. geta aðildarríki leyft verðbréfasjóðum að fjárfesta, í samræmi við meginregluna um áhættudreifingu, allt að 100 % af eignum sínum í mismunandi framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum sem aðildarríki, eða eitt eða fleiri staðbundin yfirvöld þess, þriðja land, eða alþjóðastofnun sem eitt eða fleiri aðildarríki tilheyra, gefa út eða ábyrgjast.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs mega aðeins veita þess háttar undanþágu ef þau telja að eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðnum njóti sambærilegrar verndar og eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði sem fylgir þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í 52. gr.
Slíkur verðbréfasjóður skal eiga verðbréf úr a.m.k. sex útgáfum, en verðbréf frá hverri fyrir sig skulu ekki vera umfram 30% af heildareignum hans.
2.     Þeir verðbréfasjóðir sem um getur í 1. mgr. skulu í sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélags kveða skýrt á um aðildarríki, staðaryfirvöld, eða alþjóðastofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréf sem þau hyggjast fjárfesta umfram 35% af eignum sínum í.
Þær sjóðsreglur eða stofnsamningar skulu vera samþykktir af lögbærum yfirvöldum.
3.     Hver verðbréfasjóður sem um getur í 1. mgr. skal hafa áberandi yfirlýsingu í útboðslýsingu og markaðsefni sínu, þar sem vakin er athygli á slíku samþykki og nefnd þau aðildarríki, staðaryfirvöld, eða alþjóðastofnanir sem gefa út þau verðbréf sem sjóðurinn fyrirhugar að eða búinn er að fjárfesta meira en 35% af eignum sínum í.

55. gr.

1.     Verðbréfasjóði er heimilt að eignast hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem um getur í e-lið 1. mgr. 50. mgr., að því tilskildu að hann fjárfesti ekki meira en10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum eins verðbréfasjóðs eða annars fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu. Aðildarríkjunum er heimilt að hækka hámarkið upp í 20% að hámarki.
2.     Heildarfjárfesting verðbréfasjóðs í hlutdeildarskírteinum annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða má þó ekki fara yfir 30% af eignum hans.
Aðildarríkin geta heimilað, ef verðbréfasjóður hefur eignast hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, að samanlagðar eignir viðkomandi verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu þurfi ekki að vera undir mörkunum sem mælt er fyrir um í 52. gr.
3.     Ef verðbréfasjóður fjárfestir í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, sem er stjórnað beint eða með umboði af sama rekstrarfélagi eða öðru félagi, sem rekstrarfélagið tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstrarfélaginu eða hinu félaginu ekki heimilt að taka áskriftar- eða innlausnargjald fyrir fjárfestingu sjóðsins í hlutdeildarskírteinum hinna verðbréfasjóðanna eða fyrirtækjanna um sameiginlega fjárfestingu.
Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum eða fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu skal í útboðslýsingu hans tilgreina hámarksstjórnunarkostnað, sem verðbréfasjóðurinn sjálfur og einnig hinir verðbréfasjóðirnir eða fyrirtækin um sameiginlega fjárfestingu, sem hann hyggst fjárfesta í, skulu bera. Í ársreikningum verðbréfasjóðsins skal tilgreina hámarkshlutfall stjórnunarkostnaðar sem annars vegar verðbréfasjóðurinn sjálfur og hins vegar hinir verðbréfasjóðirnir eða fyrirtækin um sameiginlega fjárfestingu, sem hann fjárfestir í, bera.

56. gr.

1.     Fjárfestingarfélag eða rekstrarfélag, sem starfar í tengslum við alla sameignarsjóði, sem það stjórnar og fellur innan gildissviðs þessarar tilskipunar, skal ekki eignast nein hlutabréf með atkvæðisrétti sem myndi gera því kleift að hafa veruleg áhrif á rekstur útgáfuaðila.
Aðildarríki skulu, þar til frekari samræming verður, hafa hliðsjón af gildandi reglum í löggjöf annarra aðildarríkja sem skilgreina þá meginreglu sem tilgreind er í fyrstu undirgrein.
2.     Verðbréfasjóði er óheimilt að eignast meira en sem nemur:
a)    10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einum útgáfuaðila,
b)    10% af skuldabréfum útgefnum af einum útgáfuaðila,
c)    25% af hlutdeildarskírteinum í einum verðbréfasjóði eða öðru fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í skilningi a- og b-liðar 2. mgr. 1. gr. eða
d)    10% af peningamarkaðsgerningum, útgefnum af einum útgefanda.
Víkja má frá þeim mörkum sem mælt er fyrir um í b-, c- og d-lið ef ekki er unnt við yfirtöku að reikna heildarfjárhæð skuldabréfa eða peningamarkaðsgerninga eða hreina fjárhæð útgefinna verðbréfa.
3.     Aðildarríki getur fallið frá beitingu 1. og 2. mgr. að því er varðar:
a)    framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerninga sem aðildarríki eða staðaryfirvöld í því gefa út eða ábyrgjast,
b)    framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerninga sem þriðja land gefur út eða ábyrgist,
c)    framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerninga, sem alþjóðastofnun sem eitt eða fleiri aðildarríki tilheyrir, gefur út,
d)    hlutabréf verðbréfasjóðs í eigin fé fyrirtækis með réttarstöðu lögaðila í þriðja landi sem fjárfestir aðallega í verðbréfum útgáfuaðila, sem hafa skráða skrifstofu í því landi, ef þess konar eignarhald er, samkvæmt lögum þess lands, eina leiðin sem verðbréfasjóður hefur til að fjárfesta í verðbréfum útgáfuaðila í því landi eða
e)    hlutabréf fjárfestingarfélags eða -félaga í eigin fé dótturfyrirtækja sem eingöngu sinna, og aðeins fyrir hönd fjárfestingarfélagsins eða -félaganna, rekstri, ráðgjöf eða markaðssetningu í því landi þar sem dótturfélagið hefur staðfestu, að því er varðar endurkaup hlutdeildarskírteina að beiðni eigenda hlutdeildarskírteinanna.
Sú undanþága sem um getur í d-lið fyrstu undirgreinar þessarar málsgreinar skal einungis eiga við ef fjárfestingarstefna fyrirtækisins frá þriðja landi er í samræmi við þau mörk sem mælt er fyrir um í 52. og 55. gr. og 1. og 2. mgr. þessarar greinar. Ef farið er yfir þau mörk sem sett eru í 52. og 55. gr., skal beita 57. gr. að breyttu breytanda.

57. gr.

1.     Verðbréfasjóðir þurfa ekki að hlíta þeim mörkum sem mælt er fyrir um í þessum kafla þegar þeir notfæra sér áskriftarréttindi sem fylgja framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum í eigu þeirra.
Aðildarríkin geta undanþegið verðbréfasjóði, sem hafa nýlega fengið leyfi, ákvæðum 52.–55. gr. í sex mánuði frá veitingu leyfis til þeirra enda sé tryggt að hlítt sé meginreglunni um áhættudreifingu.
2.     Ef farið er fram úr þeim mörkum sem um getur í 1. mgr., af ástæðum sem verðbréfasjóður ræður ekki við eða vegna þess að áskriftarréttur er nýttur, skulu úrbætur á því vera forgangsmarkmið við söluviðskipti verðbréfasjóðsins, að teknu tilliti til hagsmuna eigenda hlutdeildarskírteina.

VIII. KAFLI
SKIPAN DEILDASKIPTRA SJÓÐA OG SJÓÐSDEILDA
1. ÞÁTTUR
Gildissvið og samþykki
58. gr.

1.     Sjóðsdeild er verðbréfasjóður, eða fjárfestingardeild sjóðs, sem hefur fengið leyfi til að fjárfesta, þrátt fyrir a-lið 2. mgr. 1. gr., 50., 52. og 55. gr. og c-lið 2. mgr. 56. gr., að minnsta kosti 85% eigna sinna í einingum annars verðbréfasjóðs eða fjárfestingardeild hans (deildaskiptum sjóði).
2.     Sjóðsdeild er heimilt að fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í einum eða fleiri af eftirfarandi:
a)    viðbótarlausaeignum í samræmi við aðra undirgrein 2. mgr. 50. gr.,
b)    afleiðugerningum, sem aðeins má nota til áhættuvarna, í samræmi við g-lið 1. mgr. 50. gr. og 2. og 3. mgr. 51. gr.,
c)    lausafé og fastafjármunum sem eru nauðsynlegir til að stunda starfsemi sjóðsins, ef sjóðsdeild er fjárfestingarfélag.
Sjóðsdeild skal, til að fara að ákvæðum 3. mgr. 51. gr., reikna heildaráhættu sína í tengslum við afleiðugerninga með því að leggja saman beina áhættu sína skv. b-lið fyrstu undirgreinar og annaðhvort:
a)    raunverulega áhættu deildaskipts sjóðs gagnvart afleiðugerningum í hlutfalli við fjárfestingu sjóðsdeildar í móðursjóði eða
b)    hugsanlegt hámark heildaráhættu deildaskipts sjóðs gagnvart afleiðugerningum sem kveðið er á um í sjóðsreglum eða stofnsamningi deildaskipts sjóðs í hlutfalli við fjárfestingu sjóðsdeildar í deildaskiptum sjóði.
3.     Deildaskiptur sjóður er verðbréfasjóður eða fjárfestingardeild sjóðs sem:
a)    hefur að minnsta kosti eina sjóðsdeild meðal eigenda hlutdeildarskírteina sinna,
b)    er ekki sjálfur sjóðsdeild og
c)    á ekki hlutdeildarskírteini í sjóðsdeild.
4.     Eftirfarandi undanþágur eiga við um deildaskipta sjóði:
a)    ef að minnsta kosti tvær sjóðsdeildir eiga hlutdeildarskírteini í deildaskiptum sjóði eiga a-liður 2. mgr. 1. gr. og b-liður 3. gr. ekki við og hefur því deildaskipti sjóðurinn val um hvort hann aflar fjármagns frá öðrum fjárfestum,
b)    ef deildaskiptur sjóður aflar ekki fjármagns meðal almennings í öðru aðildarríki en því sem hann er stofnsettur í, en hefur aðeins eina fleiri sjóðsdeildir í því aðildarríki, gilda XI. kafli og önnur undirgrein 1. mgr. 108. gr. ekki.

59. gr.

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að fjárfesting sjóðsdeildar í tilteknum deildaskiptum sjóði, sem er umfram gildandi hámark skv. 1. mgr. 55. gr. að því er varðar fjárfestingar í öðrum verðbréfasjóðum, sé með fyrirvara um fyrirframsamþykki lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis sjóðsdeildarinnar.
2.     Sjóðsdeild skal, innan 15 virkra daga frá framlagningu fullfrágenginnar umsóknar, vera upplýst um það hvort lögbær yfirvöld hafa samþykkt fjárfestingu sjóðsdeildar í deildaskiptum sjóði eða ekki.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar skulu veita leyfi ef sjóðsdeild, vörslufyrirtæki hennar og endurskoðandi, sem og deildaskiptur sjóður, uppfylla öll skilyrði sem sett eru fram í þessum kafla. Í því skyni skal sjóðsdeild láta lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu í té eftirfarandi gögn:
a)    sjóðsreglur eða stofnsamning sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs,
b)    útboðslýsingu og fjárfestaupplýsingar sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs, sem um getur í 78. gr.,
c)    samkomulag milli sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs eða innri viðskiptasiðareglur, sem um getur í 1. mgr. 60. gr.,
d)    eftir atvikum, upplýsingar sem láta skal eigendum hlutdeildarskírteina í té skv. 1. mgr. 64. gr.,
e)    ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild hafa mismunandi vörslufyrirtæki, samkomulag um upplýsingaskipti, sem um getur í 1. mgr. 61. gr. milli viðkomandi vörslufyrirtækja, og
f)    ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild hafa mismunandi endurskoðendur, samkomulag um upplýsingaskipti, sem um getur í 1. mgr. 62. gr. milli viðkomandi endurskoðenda þeirra.
Ef sjóðsdeild er stofnsett í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki deildaskipts sjóðs skal sjóðsdeild einnig leggja fram staðfestingu lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis deildaskipts sjóðs á að deildaskiptur sjóður sé verðbréfasjóður eða fjárfestingardeild slíks sjóðs sem uppfyllir skilyrðin sem sett eru fram í b- og c-lið 3. mgr. 58. gr. Sjóðsdeild skal leggja fram skjöl á opinberu tungumáli, eða einu af opinberum tungumálum, heimaaðildarríkis sjóðsdeildar eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld hennar samþykkja.

2. ÞÁTTUR
Sameiginleg ákvæði fyrir sjóðsdeildir og deildaskipta sjóði
60. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að deildaskiptur sjóður leggi fram öll gögn og upplýsingar til sjóðsdeildar sem nauðsynlegar eru til að sjóðsdeildin geti uppfyllt skilyrðin sem sett eru fram í þessari tilskipun. Í þeim tilgangi skal sjóðsdeild gera samkomulag við deildaskiptan sjóð.
Sjóðsdeild skal ekki fjárfesta umfram hámarkið, sem gildir skv. 1. mgr. 55. gr., í hlutdeildarskírteinum þess deildaskipta sjóðs fyrr en samkomulagið, sem um getur í fyrstu undirgrein, hefur tekið gildi. Það samkomulag skal gert aðgengilegt, samkvæmt beiðni og án endurgjalds, öllum eigendum hlutdeildarskírteina.
Ef bæði sjóðsdeild og deildaskiptur sjóður eru undir stjórn sama rekstrarfélags mega innri viðskiptasiðareglur, sem tryggja að farið sé að skilyrðum, sem sett eru fram í þessari málsgrein, koma í stað samkomulagsins.
2.     Deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að samræma tímasetningu útreikninga á verðmæti hreinnar eignar og birtingar til að koma í veg fyrir að hægt sé að sjá fyrir verðsveiflur hlutdeildarskírteina þeirra á mörkuðum og koma í veg fyrir tækifæri til högnunar.
3.     Ef, með fyrirvara um 84. gr., deildaskiptur sjóður frestar tímabundið endurkaupum, innlausn eða áskrift á hlutdeildarskírteinum sínum, hvort sem það er að eigin frumkvæði eða að ósk lögbærra yfirvalda hans, er hverri sjóðsdeild hans heimilt að fresta endurkaupum, innlausn eða áskrift á hlutdeildarskírteinum sínum, þrátt fyrir skilyrði sem sett eru fram í 2. mgr. 84. gr., innan sama tímabils og deildaskipti sjóðurinn.
4.     Ef deildaskiptum sjóði er slitið, skal einnig slíta sjóðsdeild, nema lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis hennar samþykki:
a)    fjárfestingu sem nemur minnst 85% af eignum sjóðsdeildar í hlutdeildarskírteinum annars deildaskipts sjóðs eða
b)    breytingu á sjóðsreglum eða stofnsamningi til þess að gera sjóðsdeild kleift að breytast í verðbréfasjóð sem ekki er sjóðsdeild.
Með fyrirvara um sértæk ákvæði landslaga varðandi skyldubundin félagsslit skulu félagsslit deildaskipts sjóðs eiga sér stað í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir að deildaskiptur sjóður hefur upplýst alla eigendur hlutdeildarskírteina í honum og lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar um bindandi ákvörðun um félagsslit.
5.     Ef deildaskiptur sjóður rennur saman við annan verðbréfasjóð eða er skipt upp í tvo eða fleiri verðbréfasjóði skal sjóðsdeild slitið, nema lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar veiti henni leyfi til að:
a)    starfa áfram sem sjóðsdeild deildaskipta sjóðsins eða annars verðbréfasjóðs sem verður til við samruna eða skiptingu deildaskipta sjóðsins,
b)    fjárfesta að minnsta kosti 85% af eignum sínum í hlutdeildaskírteinum annars deildaskipts sjóðs sem ekki hefur orðið við samrunann eða skiptinguna eða
c)    breyta sjóðsreglum eða stofnsamningi hans til þess að breyta honum í verðbréfasjóð sem er ekki sjóðsdeild.
Enginn samruni eða skipting deildaskipts sjóðs skal öðlast gildi nema deildaskiptur sjóður hafi afhent þær upplýsingar sem um getur í 43. gr., eða sambærilegar upplýsingar, öllum eigendum hlutdeildaskírteina í sjóðnum og lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis sjóðsdeilda sinna, eigi síðar en 60 dögum fyrir áformaðan gildistökudag.
Hafi lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar ekki veitt leyfi samkvæmt a-lið fyrstu undirgreinar skal deildaskiptur sjóður gera sjóðsdeild kleift að endurkaupa eða innleysa öll hlutdeildarskírteini í deildaskipta sjóðnum áður en samruni eða skipting deildaskipta sjóðsins tekur gildi.
6.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina:
a)    inntak samkomulags eða þær innri viðskiptasiðareglur sem um getur í 1. mgr.,
b)    hverjar þeirra ráðstafana sem um getur í 2. mgr. teljast viðeigandi og
c)    málsmeðferð við samþykki sem þarf skv. 4. og 5. gr. ef um er að ræða félagsslit, samruna eða skiptingu deildaskipts sjóðs.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

3. ÞÁTTUR
Vörsluaðilar og endurskoðendur
61. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess, ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild hafa mismunandi vörsluaðila, að þeir vörsluaðilar geri samkomulag um upplýsingaskipti til þess að tryggja að báðir vörsluaðilarnir uppfylli skyldur sínar.
Sjóðsdeild skal ekki fjárfesta í hlutdeildarskírteinum deildaskipts sjóðs fyrr en slíkt samkomulag hefur tekið gildi.
Ef þeir starfa í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í þessum kafla, teljast hvorki vörslufyrirtæki deildaskipts sjóðs né sjóðsdeildar brjóta í bága við neinar af þeim reglum sem takmarka birtingu upplýsinga eða varða gagnavernd, ef kveðið er á um þess háttar reglur í samningi eða í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Slík reglufylgni skal ekki skapa slíku vörslufyrirtæki eða nokkrum einstaklingi, sem kemur fram fyrir þess hönd, bótaábyrgð af neinu tagi.
Aðildarríki skulu krefjast þess að sjóðsdeild eða, eftir atvikum, rekstrarfélag sjóðsdeildar sjái um að veita vörslufyrirtæki sjóðsdeildar þær upplýsingar um deildaskiptan sjóð sem krafist er til þess að vörslufyrirtæki sjóðsdeildar geti uppfyllt skyldur sínar.
2.     Vörslufyrirtæki deildaskipts sjóðs skal tafarlaust upplýsa lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis deildaskipts sjóðs, sjóðsdeild eða, eftir atvikum, rekstrarfélag og vörslufyrirtæki sjóðsdeildar, um hvers konar frávik frá réttri framkvæmd sem það verður vart við að því er varðar deildaskiptan sjóð og teljast hafa neikvæð áhrif á sjóðsdeild.
3.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreint er enn frekar um:
a)    einstök atriði, sem þurfa að vera í samkomulaginu, sem um getur í 1. mgr., og
b)    hvers konar frávik frá réttri framkvæmd, sem um getur í 2. mgr., sem teljast hafa neikvæð áhrif á sjóðsdeild.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

62. gr.

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess, ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild hafa mismunandi endurskoðendur, að endurskoðendurnir komist að samkomulagi um upplýsingaskipti til þess að tryggja að báðir endurskoðendurnir uppfylli skyldur sínar, þ.m.t. þær ráðstafanir sem eru gerðar til að farið sé að ákvæðum 2. mgr.
Sjóðsdeild skal ekki fjárfesta í hlutdeildarskírteinum deildaskipts sjóðs fyrr en slíkt samkomulag hefur tekið gildi.
2.     Í úttektarskýrslu skal endurskoðandi sjóðsdeildar taka tillit til úttektarskýrslu deildaskipts sjóðs. Ef sjóðsdeild og deildaskiptur sjóður hafa mismunandi uppgjörsár, skal endurskoðandi deildaskipts sjóðs taka saman sérstaka skýrslu á lokadagsetningu sjóðsdeildar.
Endurskoðandi sjóðsdeildar skal einkum greina frá því hvers konar frávik frá réttri framkvæmd úttektarskýrsla deildaskipts sjóðs leiðir í ljós og um áhrif þeirra á sjóðsdeild.
3.     Ef endurskoðandi deildaskipts sjóðs og sjóðsdeildar starfa í samræmi við skilyrðin, sem sett eru fram í þessum kafla, telst hvorugur þeirra brjóta í bága við einhverjar af þeim reglum sem takmarka birtingu upplýsinga eða varða gagnavernd ef kveðið er á um þess háttar reglur í samningi eða í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Þó að slíkur endurskoðandi eða einhver fulltrúi hans fylgi þannig reglum ber hann ekki bótaábyrgð af neinu tagi.
4.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina inntak samkomulagsins sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

4. ÞÁTTUR
Skyldubundnar upplýsingar og markaðsefni frá sjóðsdeild
63. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að til viðbótar við þær upplýsingar sem kveðið er á um í fylgiskjali A í I. viðauka skuli útboðslýsing sjóðsdeildar fela í sér eftirfarandi upplýsingar:
a)    yfirlýsingu um að sjóðsdeild sé sjóðsdeild tiltekins deildaskipts sjóðs og fjárfesti sem slík varanlega 85% eða meira af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum deildaskipta sjóðsins,
b)    fjárfestingarmarkmið og -stefnu, að meðtöldu áhættusniði og hvort frammistaða sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs sé nákvæmlega eins, eða að hvaða marki og hvers vegna hún er mismunandi, að meðtalinni lýsingu á fjárfestingum sem gerðar eru í samræmi við 2. mgr. 58. gr.,
c)    stutta lýsingu á deildaskiptum sjóði, skipulagi hans, fjárfestingarmarkmiðum og -stefnu, þ.m.t. áhættusnið, og upplýsingum um það hvernig megi nálgast útboðslýsingu móðurverðbréfasjóðs,
d)    samantekt á samkomulagi milli sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs eða innri viðskiptasiðareglum sem um getur í 1. mgr. 60. gr.,
e)    hvernig eigendur hlutdeildarskírteina geta nálgast frekari upplýsingar um deildaskiptan sjóð og samkomulag á milli sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs samkvæmt 1. mgr. 60. gr.,
f)    lýsingu á hvers konar endurgjaldi eða endurgreiðslu kostnaðar, sem sjóðsdeild ber að greiða, með skírskotun til fjárfestingar hennar í hlutdeildarskírteinum deildaskipts sjóðs, sem og samanlögðu gjaldi sjóðsdeildar og deildaskipts sjóðs, og
g)    lýsingu á skattalegum áhrifum fjárfestingar í deildaskiptum sjóði á sjóðsdeild.
2.     Auk þeirra upplýsinga, sem kveðið er á um í fylgiskjali B í I. viðauka, skal í ársreikningum sjóðsdeildar vera yfirlýsing um samanlögð gjöld sjóðsdeildarinnar og deildaskipta sjóðsins.
Í árs- og hálfsársreikningum dótturverðbréfasjóðs skal koma fram með hvaða hætti hægt er að nálgast árs- og hálfsársreikninga deildaskipta verðbréfasjóðsins.
3.     Til viðbótar við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 74. og 82. gr. skal sjóðsdeild senda útboðslýsinguna, fjárfestaupplýsingar, sem um getur í 78. gr., og allar breytingar á þeim, sem og árs- og hálfsársreikninga deildaskipta sjóðsins, til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis síns.
4.     Sjóðsdeild skal í öllu markaðsefni, sem máli skiptir, upplýsa að hún fjárfesti varanlega 85% eða meira af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum deildaskipts sjóðs.
5.     Sjóðsdeild skal senda eintak af útboðslýsingu, auk árs- og hálfsársreikninga deildaskipta verðbréfasjóðsins, á pappír til fjárfesta samkvæmt beiðni og án endurgjalds.

5. ÞÁTTUR
Umbreyting starfandi verðbréfasjóða í sjóðsdeildir og breytingar á deildaskiptum sjóði
64. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að sjóðsdeild, sem þegar stundar starfsemi sem verðbréfasjóður, þ.m.t. sem sjóðsdeild annars deildaskipts sjóðs, veiti eigendum hlutdeildarskírteina þeirra eftirfarandi upplýsingar:
a)    yfirlýsingu þess efnis að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar hafi samþykkt fjárfestingu sjóðsdeildar í hlutdeildarskírteinum þess konar deildaskipts sjóðs,
b)    fjárfestaupplýsingar, sem um getur í 78. gr., varðandi sjóðsdeild og deildaskiptan sjóð,
c)    hvaða dag sjóðsdeild ætlar að hefja fjárfestingu í deildaskipta sjóðnum eða, ef hann hefur þegar fjárfest í honum, þann dag sem fjárfesting sjóðsins fer fram yfir gildandi hámark skv. 1. mgr. 55. gr. og
d)    yfirlýsingu þess efnis að eigendur hlutdeildarskírteina hafi heimild til að óska eftir endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina sinna innan 30 daga án nokkurs annars kostnaðar en þess sem verðbréfasjóður heldur eftir til að mæta kostnaði við eignalosun og skal sú heimild taka gildi frá þeirri stundu sem sjóðsdeild hefur lagt fram upplýsingarnar sem um getur í þessari málsgrein.
Þær upplýsingar skulu lagðar fram eigi síðar en 30 dögum fyrir þann dag sem um getur í c-lið fyrstu undirgreinar.
2.     Ef sjóðsdeild hefur verið tilkynnt í samræmi við 93. gr., skulu upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., veittar á opinberu tungumáli, eða einu af opinberum tungumálum, viðkomandi gistiaðildarríkis sjóðsdeildar, eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld þess samþykkja. Sjóðsdeild skal bera ábyrgð á þýðingunni. Sú þýðing skal endurspegla inntak frumritsins nákvæmlega.
3.     Aðildarríki skulu tryggja að sjóðsdeild fjárfesti ekki í hlutdeildarskírteinum tiltekins deildaskipts sjóðs umfram gildandi hámark skv. 1. mgr. 55. gr. áður en 30 daga tímabilið, sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr., er liðið.
4.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreint er:
a)    á hvaða sniði og með hvaða hætti skuli veita þær upplýsingar sem um getur í 1. mgr. eða
b)    yfirfæri sjóðsdeild allar eignir sínar eða hluta þeirra til deildaskipts sjóðs í skiptum fyrir hlutdeildarskírteini, þá aðferð sem notuð er við mat og endurskoðun á þess háttar framlagi í fríðu og hlutverk vörslufyrirtækis sjóðsdeildar í því ferli.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

6. ÞÁTTUR
Skuldbindingar og lögbær yfirvöld
65. gr.

1.     Sjóðsdeild skal hafa skilvirkt eftirlit með starfsemi deildaskipts sjóðs. Þegar sú skylda er uppfyllt getur sjóðsdeild notað upplýsingar og gögn frá deildaskipta sjóðnum eða, eftir atvikum, rekstrarfélagi hans, vörslufyrirtæki og endurskoðanda, nema ástæða sé til þess að efast um nákvæmni þeirra.
2.     Ef sjóðsdeild, rekstrarfélag hennar eða einstaklingur, sem er annaðhvort fulltrúi sjóðsdeildarinnar eða rekstrarfélags hennar, tekur við umboðslaunum, þóknun eða öðrum peningalegum ávinningi í tengslum við fjárfestingu í hlutdeildarskírteinum deildaskipts sjóðs, skulu launin, þóknunin eða peningalegi ávinningurinn bætast við eignir sjóðsdeildarinnar.

66. gr.

1.     Deildaskiptur sjóður skal tafarlaust upplýsa lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki sínu um deili á hverri þeirri sjóðsdeild sem fjárfestir í hlutdeildarskírteinum hans. Ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild eru stofnsett í mismunandi aðildarríkjum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis deildaskipta sjóðsins tafarlaust upplýsa lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildarinnar um þá fjárfestingu.
2.     Deildaskiptur sjóður skal ekki innheimta áskriftar- eða innlausnarþóknanir vegna fjárfestinga sjóðsdeildar í hlutdeildarskírteinum hans né vegna innlausnar á þeim.
3.     Deildaskiptur sjóður skal tryggja tímanlegt aðgengi sjóðsdeildar, eða eftir atvikum rekstrarfélags hennar, sem og lögbærra yfirvalda, vörslufyrirtækis og endurskoðanda sjóðsdeildar, að öllum upplýsingum, sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun, öðrum lögum Bandalagsins, gildandi landslögum viðkomandi landa, sjóðsreglum eða stofnsamningi.

67. gr.

1.     Ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild eru stofnsett í sama aðildarríki skulu lögbær yfirvöld tafarlaust upplýsa sjóðsdeildina um sérhverja ákvörðun, ráðstöfun, frávik frá skilyrðum þessa kafla eða frá þeim upplýsingum, sem gefnar eru skv. 1. mgr. 106. gr., að því er varðar deildaskipta sjóðinn eða, eftir atvikum, rekstrarfélag hans, vörslufyrirtæki eða endurskoðanda.
2.     Ef deildaskiptur sjóður og sjóðsdeild eru stofnsett hvort í sínu aðildarríkinu skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis deildaskipta sjóðsins tafarlaust upplýsa lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildarinnar um hvers konar ákvörðun, ráðstöfun, frávik frá skilyrðum þessa kafla eða frá þeim upplýsingum, sem gefnar eru samkvæmt 1. mgr. 106. gr., að því er varðar deildaskipta sjóðinn eða, eftir atvikum, rekstrarfélag hans, vörslufyrirtæki eða endurskoðanda. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis sjóðsdeildar skulu síðan tafarlaust upplýsa sjóðsdeildina þar um.

IX. KAFLI
SKULDBINDINGAR VARÐANDI UPPLÝSINGAR SEM BER AÐ VEITA FJÁRFESTUM
1. ÞÁTTUR
Birting útboðslýsingar og reglulegra skýrslna
68. gr.

1.     Fjárfestingarfélag og rekstrarfélag, fyrir hvern sameignarsjóð sem það rekur, skulu gefa út eftirfarandi:
a)    útboðslýsingu,
b)    ársreikninga fyrir hvert fjárhagsár og
c)    hálfsársreikninga sem taka til fyrstu sex mánaða fjárhagsársins.
2.     Árs- og hálfsársreikninga skal birta innan eftirfarandi tímamarka sem miðast við lok þess tímabils sem þeir taka til:
a)    fjögurra mánaða, ef um er að ræða ársreikninga eða
b)    tveggja mánaða, ef um er að ræða hálfsársreikninga.

69. gr.

1.     Útboðslýsingin skal hafa að geyma þær upplýsingar sem fjárfestum eru nauðsynlegar til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um þá fjárfestingu sem þeim er boðin, einkum um þá áhættu sem henni fylgir.
Í útboðslýsingu skal, óháð gerningunum sem fjárfest er í, gerð grein fyrir áhættusniði sjóðsins með skilmerkilegum og auðskiljanlegum hætti.
2.     Útboðslýsingin skal a.m.k. hafa að geyma þær upplýsingar sem kveðið er á um í fylgiskjali A með I. viðauka hafi þær upplýsingar ekki þegar komið fram í sjóðsreglum eða stofnsamningum sem fylgja skulu útboðslýsingu skv. 1. mgr. 71. gr.
3.     Í ársreikningum skulu vera efnahagsreikningur eða yfirlit um eignir og skuldir, sundurliðaður rekstrarreikningur fyrir reikningsskilaárið, skýrsla um starfsemi á reikningsskilaárinu og þær upplýsingar aðrar sem kveðið er á um í fylgiskjali B með I. viðauka, svo og aðrar upplýsingar sem máli skipta og gera fjárfestum kleift að meta af þekkingu framvinduna í starfsemi verðbréfasjóðsins og árangur starfseminnar.
4.     Í hálfsársreikningum skulu a.m.k. vera þær upplýsingar sem kveðið er á um í I.–IV. þætti fylgiskjals B með I. viðauka. Þegar verðbréfasjóður hefur greitt eða fyrirhugar að greiða út árshlutaarð skulu tölulegar upplýsingar sýna afkomu eftir skatta á því sex mánaða tímabili, sem um er að ræða, og þann árshlutaarð sem greiddur hefur verið eða fyrirhugað er að greiða.

70. gr.

1.     Í útboðslýsingu skulu koma fram þær tegundir eigna sem verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í. Einnig skal tilgreint hvort viðskipti með afleiðugerninga séu heimil og, ef svo er, skal koma fram áberandi yfirlýsing um hvort stunda megi þessi viðskipti sem áhættuvörn eða til að ná fjárfestingarmarkmiðum og hvaða áhrif notkun afleiðugerninga kunni að hafa á áhættusnið sjóðsins.
2.     Fjárfesti verðbréfasjóður fyrst og fremst í öðrum tegundum eigna, samkvæmt skilgreiningu í 50. gr., en framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum eða líkir eftir tilteknum hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölum í samræmi við 53. gr. skal vakin sérstök athygli á fjárfestingarstefnu hans með áberandi yfirlýsingu í útboðslýsingu og, ef þörf krefur, öðru markaðsefni.
3.     Ef bókfært virði eigna verðbréfasjóðs er líklegt til að sveiflast mikið vegna samsetningar eignasafns hans eða aðferða sem beitt er við stjórnun eignasafns skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og, ef þörf krefur, öðru markaðsefni.
4.     Óski fjárfestir eftir því er rekstrarfélagi skylt að veita frekari upplýsingar um magntakmarkanir sem gilda um áhættustjórnun verðbréfasjóðsins, aðferðirnar sem beitt er í þessu skyni og undanfarandi þróun, með tilliti til áhættu og ávöxtunar, í helstu flokkum gerninga sem sjóðurinn fjárfestir í.

71. gr.

1.     Sjóðsreglur eða stofnsamningar fjárfestingarfélags skulu vera hluti útboðslýsingar og fylgja henni.
2.     Gögnin, sem um getur í 1. mgr., þurfa þó ekki að fylgja útboðslýsingu enda sé eigendum hlutdeildarskírteina tilkynnt að þeim verði send gögnin ef þeir óska þess eða skýrt frá því hvar þau liggja frammi til athugunar í hverju aðildarríki þar sem hlutdeildarskírteinin eru markaðssett.

72. gr.

Grundvallaratriði útboðslýsingar skulu uppfærð reglulega.

73. gr.

Reikningsskilaupplýsingar sem fram koma í ársreikningum skulu endurskoðaðar af einum eða fleiri löggiltum endurskoðendum í samræmi við tilskipun 2006/43/EB. Áritun endurskoðanda ásamt öllum athugasemdum hans skal birt í heild í ársreikningunum.

74. gr.

Verðbréfasjóður skal senda útboðslýsingu sína ásamt breytingum, svo og ársreikningum og hálfsársreikningum til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins. Verðbréfasjóður skal leggja þau gögn fram til handa lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins, sé þess óskað.

75. gr.

1.     Útboðslýsing og síðustu árs- og hálfsársreikningar skulu látnir fjárfestum í té endurgjaldslaust, sé þess óskað.
2.     Útboðslýsingu má leggja fram á varanlegum miðli eða á vefsetri. Fjárfestum skal sent eintak á pappír endurgjaldslaust sé þess óskað.
3.     Ársreikningar og hálfsársreikningar skulu vera aðgengilegir fjárfestum með þeim hætti sem tilgreint er í útboðslýsingunni og í fjárfestaupplýsingum sem um getur í 78. gr. Fjárfestum skal sent eintak af ársreikningum og hálfsársreikningum á pappír endurgjaldslaust sé þess óskað.
4.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreind eru sérstök skilyrði sem þarf að uppfylla þegar útboðslýsing er lögð fram á varanlegum miðli, öðrum en pappír, eða á vefsetri, sem ekki telst varanlegur miðill.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun, sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

2. ÞÁTTUR
Birting annarra upplýsinga
76. gr.

Verðbréfasjóður skal tilkynna með viðeigandi hætti um útgáfu-, sölu-, endurkaups- eða innlausnarverð á hlutdeildarskírteinum sínum í hvert skipti sem hann gefur út, selur, endurkaupir eða innleysir þau, og ekki sjaldnar en tvisvar í mánuði.
Lögbær yfirvöld geta þó heimilað verðbréfasjóði að fækka tilkynningunum í eina í mánuði með því skilyrði að undanþágan stofni ekki hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteinanna í hættu.

77. gr.

Allt markaðsefni til fjárfesta skal vera greinilega auðkennt sem slíkt. Það skal vera óvilhallt, skýrt og ekki villandi. Einkum skal það markaðsefni, sem felur í sér tilboð um kaup á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóði og sértækar upplýsingar um verðbréfasjóð ekki fela í sér yfirlýsingu sem er í mótsögn við eða dregur úr marktækni upplýsinganna sem eru í útboðslýsingunni eða fjárfestaupplýsingum sem um getur í 78. gr. Í því skal koma fram að útboðslýsing sé fyrir hendi og að fjárfestaupplýsingar, sem um getur í 78. gr., liggi fyrir. Í því skal tilgreint hvar og á hvaða tungumáli fjárfestar, eða hugsanlegir fjárfestar, geti nálgast þess háttar upplýsingar eða gögn eða hvernig þeir geti fengið aðgang að þeim.

3. ÞÁTTUR
Fjárfestaupplýsingar
78. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að fjárfestingarfélag og rekstrarfélag, vegna hvers sameignarsjóðs sem þau stýra, útbúi stutt skjal með fjárfestaupplýsingum. Það skjal skal nefnt „fjárfestaupplýsingar“ í þessari tilskipun. Orðið „fjárfestaupplýsingar“ skal sett skýrt fram í því skjali, á einu þeirra tungumála sem um getur í b-lið 1. mgr. 94. gr.
2.     Fjárfestaupplýsingar skulu fela í sér viðeigandi upplýsingar um mikilvæg einkenni viðkomandi verðbréfasjóðs, sem láta skal fjárfestum í té svo að þeir geti með góðu móti skilið eðli og áhættu þeirrar fjárfestingarvöru sem þeim er boðin og, þar af leiðandi, tekið upplýsta ákvörðun um fjárfestingu.
3.     Fjárfestaupplýsingar skulu fela í sér upplýsingar um eftirfarandi mikilvæga þætti að því er varðar viðkomandi verðbréfasjóði:
a)    auðkenni verðbréfasjóðs,
b)    stutta lýsingu á fjárfestingarmarkmiðum og fjárfestingarstefnu hans,
c)    kynningu á fyrri frammistöðu eða, ef við á, mögulegum sviðsmyndum frammistöðu,
d)    kostnað og tengd gjöld og
e)    áhættu á móti ávinningi fjárfestingar, þ.m.t. viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir í tengslum við þá áhættu sem fylgir fjárfestingu í viðkomandi verðbréfasjóði.
Þessir mikilvægu þættir skulu vera fjárfestum auðskiljanlegir án tilvísunar í önnur gögn.
4.     Í fjárfestaupplýsingum skal koma skýrt fram hvar og hvernig hægt er að fá viðbótarupplýsingar í tengslum við fyrirhugaða fjárfestingu, þ.m.t. en ekki einskorðað við hvar og hvernig hægt er að fá útboðslýsingu og árs- og hálfsársreikninga, án endurgjalds og hvenær sem er, sé þess óskað, og á því tungumáli sem fjárfestar geta fengið þær upplýsingar.
5.     Fjárfestaupplýsingar skulu ritaðar á gagnorðan hátt og á máli sem leikmenn geta skilið. Þær skulu settar fram á almennu formi, sem gerir samanburð mögulegan, og skulu lagðar fram á þann hátt sem líklegt er að almennur fjárfestir skilji.
6.     Fjárfestaupplýsingar skal nota án breytinga eða viðbóta, að þýðingum undanskildum, í öllum aðildarríkjum þar sem tilkynnt er að verðbréfasjóður markaðssetji hlutdeildarskírteini sín í samræmi við 93. gr.
7.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem eftirfarandi er skilgreint:
a)    ítarlegt og tæmandi inntak fjárfestaupplýsinga sem afhenda skal fjárfestum eins og um getur í 2., 3. og 4. mgr.,
b)    ítarlegt og tæmandi inntak fjárfestaupplýsinga sem leggja skal fram til fjárfesta í sérstökum tilvikum svo sem hér segir:
    i.    í tengslum við verðbréfasjóði með mismunandi fjárfestingardeildir, fjárfestaupplýsingar, sem afhentar eru fjárfestum sem eru áskrifendur sérstakrar fjárfestingardeildar, þ.m.t. hvernig fjárfestir getur fært sig á milli fjárfestingardeilda og kostnaður sem því tengist,
    ii.    í tengslum við verðbréfasjóði með mismunandi flokka hlutabréfa, fjárfestaupplýsingar sem afhentar eru fjárfestum sem eru áskrifendur að tilteknum hlutabréfaflokki,
    iii.    í tengslum við sjóðasjóði, fjárfestaupplýsingar sem afhentar eru fjárfestum sem eru áskrifendur að verðbréfasjóði sem sjálfur fjárfestir í öðrum verðbréfasjóðum eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem um getur í e-lið 1. mgr. 50. gr.,
    iv.    í tengslum við deildaskipta sjóði og sjóðsdeildir, fjárfestaupplýsingar sem afhentar eru fjárfestum sem eru áskrifendur að sjóðsdeild og
    v.    í tengslum við afleiðutengda, höfuðstólsvarða og aðra sambærilega verðbréfasjóði, fjárfestaupplýsingar sem afhentar eru fjárfestum með hliðsjón af sérstökum einkennum þess háttar verðbréfasjóða og
c)    nákvæmar upplýsingar um snið og framsetningu fjárfestaupplýsinga sem afhenda skal fjárfestum eins og um getur í 5. mgr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

79. gr.

1.     Fjárfestaupplýsingar skulu veittar áður en samningur er gerður (e. pre-contractual). Þær skulu vera óvilhallar, skýrar og ekki villandi. Þær skulu vera í samræmi við viðeigandi hluta útboðslýsingar.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að einkaréttarábyrgð falli ekki á neinn aðila eingöngu á grundvelli fjárfestaupplýsinga, þ.m.t. þýðingar á þeim, nema þær séu villandi, ónákvæmar eða í ósamræmi við aðra hluta útboðslýsingarinnar. Í fjárfestaupplýsingum skal vera skýr viðvörun að því er þetta varðar.

80. gr.

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að fjárfestingarfélag og rekstrarfélag, fyrir hvern sameignarsjóð sem það stýrir, sem, beint eða fyrir milligöngu annars einstaklings eða lögaðila, sem er kemur fram fyrir hönd þess í fullri og skilyrðislausri ábyrgð þess, selja hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði til fjárfesta veiti fjárfestum fjárfestaupplýsingar um viðkomandi verðbréfasjóð, tímanlega fyrir fyrirhugaða áskrift þeirra að hlutdeildarskírteinum í þess háttar verðbréfasjóði.
2.     Aðildarríki skulu krefjast þess að fjárfestingarfélag og rekstrarfélag, að því er varðar hvern sameignarsjóð sem það stýrir, sem hvorki selja fjárfestum hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði beint né í gegnum annan einstakling eða lögaðila, sem kemur fram fyrir hönd þess í fullri og skilyrðislausri ábyrgð þess, afhendi fjárfestaupplýsingar framleiðendum vara og milliliðum sem selja eða veita ráðgjöf hugsanlegum fjárfestum í þess háttar verðbréfasjóði eða vörum sem bera áhættu gagnvart þess háttar verðbréfasjóðum, óski þeir þess. Aðildarríki skulu gera kröfu um að milliliðir, sem selja eða veita fjárfestum ráðgjöf um hugsanlegar fjárfestingar í verðbréfasjóðum, afhendi viðskiptavinum eða hugsanlegum viðskiptavinum fjárfestaupplýsingar.
3.     Fjárfestaupplýsingar skulu afhentar fjárfestum endurgjaldslaust.

81. gr.

1.     Aðildarríki skulu heimila fjárfestingarfélögum og rekstrarfélögum, fyrir hvern sameignarsjóð sem þau stýra, að leggja fram fjárfestaupplýsingar á varanlegum miðli eða á vefsetri. Fjárfestum skal sent eintak á pappír endurgjaldslaust, óski þeir þess.
Auk þess skal uppfærð útgáfa fjárfestaupplýsinga gerð aðgengileg á vefsetri fjárfestingarfélagsins eða rekstrarfélagsins.
2.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem skilgreina sérstök skilyrði sem þarf að uppfylla þegar fjárfestaupplýsingar eru lagðar fram á varanlegum miðli, öðrum en pappír eða á vefsetri, sem ekki telst varanlegur miðill.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

82. gr.

1.     Verðbréfasjóðir skulu senda fjárfestaupplýsingar og allar breytingar á þeim til lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki sínu.
2.     Grundvallaratriði fjárfestaupplýsinga skulu uppfærð reglulega.

X. KAFLI
ALMENNAR SKYLDUR VERÐBRÉFASJÓÐA
83. gr.

1.     Eftirfarandi aðilar skulu ekki taka lán:
a)    fjárfestingarfélag,
b)    rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki sem kemur fram fyrir hönd sameignarsjóðs.
Verðbréfasjóði er þó heimilt að afla sér erlends gjaldmiðils með „skiptisamningi“.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. getur aðildarríki heimilað verðbréfasjóði að taka lán, að því tilskildu að þess háttar lántaka sé:
a)    tímabundin og samsvari:
    –    ekki meira en 10% eigna fjárfestingarfélags, ef um þess háttar félag er að ræða, eða
    –    ekki meira en 10% af virði sameignarsjóðs, ef um er að ræða slíkan sjóð, eða
b)    sem nemur að hámarki 10% af eignum ef um er að ræða fjárfestingarfélag, enda sé lánið tekið til þess að gera yfirtöku fastafjármuna, sem nauðsynlegir eru til að stunda beina starfsemi sjóðsins, mögulega.
Ef verðbréfasjóður hefur heimild til að taka lán samkvæmt a- og b-lið skal sú lántaka ekki nema meiru en 15% af heildareignum sjóðsins.

84. gr.

1.     Verðbréfasjóði er skylt að endurkaupa eða innleysa hlutdeildarskírteini sín að beiðni hvaða eiganda hlutdeildarskírteina sem er.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.:
a)    getur verðbréfasjóður, í samræmi við viðeigandi landslög, sjóðsreglur eða stofnsamninga fjárfestingarfélagsins, frestað um tíma endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina sinna,
b)    getur heimaaðildarríki verðbréfasjóðs heimilað lögbærum yfirvöldum sínum að krefjast frestunar á endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina m.t.t. hagsmuna eigenda þeirra eða almennings.
Tímabundin frestun, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, skal aðeins leyfð í undantekningartilvikum þegar aðstæður krefjast þess og ef frestun er réttlætanleg með hliðsjón af hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteinanna.
3.     Ef um er að ræða tímabundna frestun skv. a-lið 2. mgr. skal verðbréfasjóður tilkynna án tafar lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis síns um ákvörðun sína og lögbærum yfirvöldum allra annarra aðildarríkja þar sem hlutdeildarskírteini þess eru markaðssett.

85. gr.

Í gildandi landslögum, sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélagsins skulu vera reglur um mat á eignum og reglur um útreikning á sölu- eða útgáfuverði og endurkaups- eða innlausnarverði hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði.

86. gr.

Tekjum verðbréfasjóðs skal úthlutað eða varið á þann hátt sem lög, sjóðsreglur eða stofnsamningar fjárfestingarfélags segja til um.

87. gr.

Verðbréfasjóður má ekki gefa út hlutdeildarskírteini nema jafnvirði hreins útgáfuverðs sé greitt til hans innan venjulegra tímamarka. Þetta skal ekki koma í veg fyrir dreifingu jöfnunarbréfa.

88. gr.

1.     Með fyrirvara um beitingu 50. og 51. gr., skulu eftirfarandi aðilar ekki veita lán eða ganga í ábyrgðir fyrir þriðja aðila:
a)    fjárfestingarfélag,
b)    rekstrarfélag eða vörsluaðili sem kemur fram fyrir hönd sameignarsjóðs.
2.     Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir að slík fyrirtæki megi eignast framseljanleg verðbréf, peningamarkaðsgerninga eða aðra fjármálagerninga, sem um getur í e-, g- og h-lið 1. mgr. 50. gr., sem ekki eru að fullu greiddir.

89. gr.

Eftirfarandi aðilar skulu ekki skortselja framseljanleg verðbréf, peningamarkaðsgerninga eða aðra fjármálagerninga, sem um getur í e-, g- og h-lið 1. mgr. 50. gr.:
a)    fjárfestingarfélag,
b)    rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki sem kemur fram fyrir hönd sameignarsjóðs.

90. gr.

Lög heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs eða sjóðsreglur skulu mæla fyrir um þá þóknun og kostnað sem rekstrarfélag má krefja sameignarsjóð um og útreikningsaðferð slíkrar þóknunar.
Í lögum eða stofnsamningum fjárfestingarfélags skal mælt fyrir um hvers konar kostnað sem félagið þarf að bera.

XI. KAFLI
SÉRSTÖK ÁKVÆÐI SEM EIGA VIÐ VERÐBRÉFASJÓÐI SEM MARKAÐSSETJA HLUTDEILDARSKÍRTEINI SÍN Í AÐILDARRÍKJUM ÖÐRUM EN ÞEIM SEM ÞEIR HAFA STAÐFESTU Í
91. gr.

1.     Gistiaðildarríki verðbréfasjóðs skulu tryggja að verðbréfasjóður geti markaðssett hlutdeildarskírteini sín á yfirráðasvæði þeirra í kjölfar tilkynningar í samræmi við 93. gr.
2.     Gistiaðildarríki verðbréfasjóðs skulu ekki gera neinar viðbótarkröfur eða leggja stjórnsýslumeðferð á verðbréfasjóð sem um getur í 1. mgr. að því er varðar það svið sem tilskipun þessi gildir um.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að auðvelt sé úr fjarlægð og með rafrænum hætti að nálgast fullbúnar upplýsingar um lög og stjórnsýslufyrirmæli sem ekki falla innan gildissviðs þessarar tilskipun en eiga sérstaklega við um fyrirkomulag markaðssetningar hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði sem stofnsettur er í öðru aðildarríki innan yfirráðasvæðis þeirra. Aðildarríkin skulu sjá til þess að þær upplýsingar séu tiltækar á tungumáli, sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, lagðar fram á skýran og ótvíræðan hátt og dagréttar.
4.     Að því er varðar þennan kafla, skal verðbréfasjóður einnig ná yfir fjárfestingardeildir sjóðsins.

92. gr.

Verðbréfasjóðir skulu, í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli sem gilda í aðildarríkinu þar sem hlutdeildarskírteini þeirra eru markaðssett, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðstaða sé fyrir hendi í því aðildarríki til að greiða eigendum hlutdeildarskírteinanna, endurkaupa eða innleysa þau og veita þær upplýsingar sem verðbréfasjóði er skylt að leggja fram.

93. gr.

1.     Áformi verðbréfasjóður að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki sínu skal hann fyrst tilkynna það lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis síns.
Í tilkynningunni skulu vera upplýsingar um tilhögun markaðssetningar hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðsins í gistiaðildarríkinu, þ.m.t. varðandi hlutabréfaflokka, þar sem við á. Með tilliti til 1. mgr. 16. gr. skal koma fram í tilkynningunni að rekstrarfélagið, sem stýrir verðbréfasjóðnum, setji hann á markað.
2.     Verðbréfasjóður skal láta nýjustu útgáfa af eftirfarandi fylgja með tilkynningu sinni, eins og um getur í 1. mgr.:
a)    sjóðsreglum eða stofnsamningum sínum, útboðslýsingu og, eftir því sem við á, nýjustu ársreikningum og síðari hálfsársreikningum, í þýðingu í samræmi við ákvæði c- og d-liðar 1. mgr. 94. gr., og
b)    fjárfestaupplýsingum, sem um getur í 78. gr., í þýðingu í samræmi við b- og d-lið 1. mgr. 94. gr.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs skulu staðfesta hvort gögnin, sem verðbréfasjóður leggur fram í samræmi við 1. og 2. mgr., séu fullnægjandi.
Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs skulu senda þau fullbúnu gögn sem um getur í 1. og 2. mgr. til lögbærra yfirvalda þess aðildarríkis þar sem verðbréfasjóður fyrirhugar að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín, eigi síðar en 10 virkum dögum eftir viðtökudag tilkynningar ásamt fullbúnum gögnum sem kveðið er á um í 2. mgr. Gögnunum skal fylgja staðfesting á að verðbréfasjóður uppfylli skilyrðin sem sett eru með tilskipun þessari.
Eftir sendingu gagnanna, skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs tafarlaust tilkynna verðbréfasjóðnum um sendinguna. Verðbréfasjóðurinn getur fengið aðgang að markaði gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs frá og með dagsetningu þeirrar tilkynningar.
4.     Aðildarríki skulu tryggja að tilkynningin sem um getur í 1. mgr. og staðfestingin sem um getur í 3. mgr. séu lagðar fram á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, nema heima- og gistiaðildarríki verðbréfasjóðs samþykki að tilkynningin og staðfestingin sem lögð er fram sé á opinberu tungumáli beggja aðildarríkja.
5.     Aðildarríki skulu tryggja að rafræn sending og skráning gagna, sem um getur í 3. mgr., sé viðurkennd af lögbærum yfirvöldum þeirra.
6.     Að því er varðar málsmeðferð um tilkynningar sem sett er fram í þessari grein skulu lögbær yfirvöld í aðildarríkinu þar sem verðbréfasjóður fyrirhugar að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín ekki krefjast frekari gagna, skírteina eða upplýsinga annarra en þeirra sem kveðið er á um í þessari grein.
7.     Heimaaðildarríki verðbréfasjóðs skal tryggja að lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs hafi rafrænan aðgang að þeim gögnum sem um getur í 2. mgr. og, ef við á, öllum þýðingum á þeim. Það skal tryggja að verðbréfasjóðurinn uppfæri þau gögn og þýðingar. Verðbréfasjóðurinn skal tilkynna lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðsins um allar breytingar á þeim gögnum sem um getur í 2. mgr. og skal upplýsa um það hvar hægt er að afla þeirra gagna með rafrænum hætti.
8.     Ef um er að ræða breytingu á upplýsingum varðandi fyrirkomulag markaðssetningar í tilkynningunni í samræmi við 1. mgr. eða breytingu að því er varðar flokka hlutabréfa, sem á að markaðssetja, skal verðbréfasjóður tilkynna um hana skriflega til lögbærra yfirvalda gistiaðildarríkis áður en breytingarnar eru gerðar.

94. gr.

1.     Ef verðbréfasjóður setur hlutdeildarskírteini sín á markað í gistiaðildarríki verðbréfasjóðs skal hann afhenda fjárfestum innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis allar upplýsingar og gögn, sem krafist er skv. IX. kafla að fjárfestum séu látnar í té í heimaaðildarríki hans.
Þær upplýsingar og gögn skulu lögð afhent fjárfestum í samræmi við eftirfarandi ákvæði:
a)    með fyrirvara um ákvæði IX. kafla, skulu þessar upplýsingar eða gögn lögð fram fyrir fjárfesta eins og mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs,
b)    fjárfestaupplýsingar, sem um getur í 78. gr., skulu þýddar á opinbert tungumál, eða eitt af opinberum tungumálum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðsins, eða á tungumál sem lögbær yfirvöld þess aðildarríkis samþykkja,
c)    upplýsingar eða gögn, önnur en fjárfestaupplýsingar, sem um getur í 78. gr., skulu þýdd, að vali verðbréfasjóðs, á opinbert tungumál, eða eitt af opinberum tungumálum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs, á tungumál sem lögbær yfirvöld þess aðildarríkis samþykkja eða á tungumál, sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, og
d)    þýðingar á upplýsingum eða gögnum skv. b- eða c-lið skulu gerðar á ábyrgð verðbréfasjóðs og skulu endurspegla inntak upphaflegu upplýsinganna nákvæmlega.
2.     Þau skilyrði sem sett eru fram í 1. mgr. skulu einnig gilda um hvers konar breytingar á upplýsingum og gögnum sem þar eru nefnd.
3.     Birtingartíðni útgáfu-, sölu-, endurkaupa- eða innlausnarverðs hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs skv. 76. gr. fellur undir lög og stjórnsýslufyrirmæli heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs.

95. gr.

1.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreint er:
a)    gildissvið upplýsinga sem um getur í 3. mgr. 91. gr.,
b)    hvernig auðvelda skuli aðgengi lögbærra yfirvalda gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs að upplýsingum og gögnum, sem um getur í 1., 2., og 3. mgr. 93. gr., í samræmi við 7. mgr. 93. gr.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að bæta við hana, skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun sem um getur í 2. mgr. 112. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin getur einnig samþykkt framkvæmdarráðstafanir þar sem tilgreint er:
a)    snið og inntak staðlaðrar tilkynningar sem verðbréfasjóður notar varðandi tilkynningu sem um getur í 1. mgr. 93. gr., þ.m.t. upplýsingar um það hvaða gögn þýðingarnar eiga við,
b)    snið og inntak staðlaðrar staðfestingar sem lögbær yfirvöld aðildarríkis nota skv. 3. mgr. 93. gr.,
c)    verklagsreglu við upplýsingaskipti og notkun rafrænna samskipta milli lögbærra yfirvalda þegar þau gefa út tilkynningu samkvæmt ákvæðum 93. gr.
Þessar ráðstafanir skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð sem um getur í 3. mgr. 112. gr.

96. gr.

Verðbréfasjóði er heimilt, vegna rekstrar síns, að nota sömu tilvísun í rekstrarform sitt að lögum (svo sem fjárfestingarfélag eða sameignarsjóðum) í því heiti sem hann notar í gistiaðildarríki og hann notar í heimaaðildarríki sínu.

XII. KAFLI
ÁKVÆÐI VARÐANDI YFIRVÖLD SEM BERA ÁBYRGÐ Á LEYFISVEITINGU OG EFTIRLITI
97. gr.

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna þau lögbæru yfirvöld sem gegna skulu störfum þeim sem kveðið er á um í tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni þar um og tilgreina verkaskiptingu milli þeirra ef við á.
2.     Lögbær yfirvöld skulu vera opinber yfirvöld eða aðilar tilnefndir af opinberum yfirvöldum.
3.     Yfirvöldin í heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins skulu vera lögbær til að hafa eftirlit með þeim verðbréfasjóði, þ.m.t. skv. 19. gr, ef við á. Yfirvöld gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs skulu þó vera lögbær til að hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum sem falla utan þess sviðs sem þessi tilskipun tekur til og kröfunum sem settar eru fram í 92. og 94. gr.

98. gr.

1.     Lögbær yfirvöld skulu fá allar þær eftirlitsheimildir og rannsóknarvald sem nauðsynlegt er svo þau geti sinnt hlutverki sínu. Þeim valdheimildum skal beitt:
a)    beint,
b)    í samstarfi við önnur yfirvöld,
c)    með úthlutun, á ábyrgð lögbærra yfirvalda, til aðila, sem hafa fengið úthlutað verkefnum, eða
d)    með því að leita til dómsyfirvalda.
2.     Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skulu lögbær yfirvöld, í það minnsta, hafa valdheimildir til að:
a)    fá aðgang að öllum gögnum á hvaða formi sem er og fá í hendur afrit af þeim,
b)    krefjast upplýsinga frá hvaða aðila sem er og, ef þörf er á, boða aðila á fund í því skyni að afla hjá honum upplýsinga,
c)    framkvæma vettvangsskoðun,
d)    krefjast gagnaskráa sem til eru um símtöl og gagnaskipti,
e)    krefjast þess að bundinn sé endir á hvers konar starfsvenjur sem brjóta í bága við ákvæðin sem hafa verið samþykkt með framkvæmd þessarar tilskipunar,
f)    óska eftir frystingu eða upptöku eigna,
g)    óska eftir tímabundnu banni við atvinnustarfsemi,
h)    krefjast þess að fjárfestingarfélög, rekstrarfélög eða vörsluaðilar með starfsleyfi leggi fram upplýsingar,
i)    samþykkja hvers kyns ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingarfélög, rekstrarfélög eða vörsluaðilar uppfylli áfram kröfurnar í þessari tilskipun,
j)    krefjast frestunar á útgáfu, endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina til þess að gæta hagsmuna eigenda hlutdeildarskírteina eða almennings,
k)    afturkalla starfsleyfi sem verðbréfasjóði, rekstrarfélagi eða vörslufyrirtæki hafði verið veitt,
l)    vísa málum til saksóknar og
m)    heimila endurskoðendum eða sérfræðingum að annast sannprófanir eða rannsóknir.

99. gr.

1.     Aðildarríkin skulu setja reglur um ráðstafanir og viðurlög við brotum gegn landsbundnum ákvæðum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim reglum sé framfylgt. Með fyrirvara um málsmeðferð við afturköllun starfsleyfis eða rétt aðildarríkis til að beita refsiviðurlögum skulu aðildarríkin einkum tryggja, í samræmi við landslög, að gerðar verði viðeigandi stjórnsýsluráðstafanir eða að stjórnsýsluviðurlögum verði beitt gagnvart aðilum, sem eru ábyrgir, þegar ekki hefur verið farið að ákvæðum sem samþykkt eru við framkvæmd þessarar tilskipunar.
Ráðstafanirnar og viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif.
2.     Án þess að útiloka reglur um ráðstafanir og viðurlög, sem eiga við um brot á öðrum ákvæðum landslaga, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun, skulu aðildarríki einkum mæla fyrir um skilvirkar, hóflegar og letjandi ráðstafanir og viðurlög varðandi þá skyldu að leggja fram fjárfestaupplýsingar með þeim hætti sem líklegt er að almennir fjárfestar skilji skv. 5. mgr. 78. gr.
3.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbærum yfirvöldum sé heimilt að birta almenningi upplýsingar um allar ráðstafanir eða viðurlög sem verður beitt við broti á ákvæðunum sem hafa verið samþykktar við framkvæmd þessarar tilskipunar, nema slík birting kunni að tefla fjármálamarkaðinum í tvísýnu, skaða hagsmuni fjárfesta eða valda viðkomandi aðilum óþarflega miklum skaða.

100. gr.

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að tekin verði upp skilvirk og árangursrík kæru- og úrlausnarmeðferð við lausn deilumála á sviði neytendamála utan dómstóla varðandi starfsemi verðbréfasjóða og nota til þess stofnanir sem eru til fyrir, eftir því sem við á.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lög og ákvæði reglna hindri ekki að þær stofnanir sem um getur í 1. mgr. hafi með sér skilvirkt samstarf við lausn deilna yfir landamæri.

101. gr.

1.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu vinna saman þegar nauðsyn ber til svo að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun eða nýtt valdheimildir sínar sem mælt er fyrir um annaðhvort í þessari tilskipun eða í landslögum.
Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar stjórnunar- og skipulagsráðstafanir til að greiða fyrir þeirri samvinnu sem kveðið er á um í þessari málsgrein.
Lögbær yfirvöld skulu nota valdheimildir sínar í því skyni að taka upp samstarf jafnvel þegar atferlið, sem er til rannsóknar, felur ekki í sér brot á gildandi reglum í því aðildarríki.
2.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu tafarlaust láta hver öðrum í té þær upplýsingar sem þau þarfnast til að vinna störf sín samkvæmt þessari tilskipun.
3.     Þegar lögbært yfirvald eins aðildarríkis hefur góða ástæðu til að ætla að einingar, sem ekki falla undir eftirlit þess lögbæra yfirvalds, stundi eða hafi stundað starfsemi, sem brýtur í bága við ákvæði þessarar tilskipunar, á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skal það tilkynna lögbærum yfirvöldum í því aðildarríki um það eins nákvæmlega og unnt er. Yfirvöldin, sem taka við tilkynningunni, skulu grípa til viðeigandi aðgerða, tilkynna lögbæra yfirvaldinu, sem sendi tilkynninguna, um niðurstöður aðgerða og, eftir því sem unnt er, um mikilvæga þætti í framvindu málsins. Þessi málsgrein er með fyrirvara um valdheimildir lögbæra yfirvaldsins sem sendir tilkynninguna.
4.     Lögbær yfirvöld í einu aðildarríki geta óskað eftir samstarfi við lögbær yfirvöld annars aðildarríkis við eftirlitsstarfsemi eða vegna sannprófunar á staðnum eða rannsóknar innan yfirráðasvæðis þess síðarnefnda innan ramma valdheimilda þeirra samkvæmt þessari tilskipun. Ef lögbært yfirvald tekur á móti beiðni um sannprófun á staðnum eða rannsókn skal það:
a)    annast sannprófanirnar eða rannsóknirnar sjálft,
b)    heimila yfirvaldinu, sem leggur fram beiðnina, að annast sannprófunina eða rannsóknina eða
c)    heimila endurskoðendum eða sérfræðingum að annast sannprófunina eða rannsóknina.
5.     Ef sannprófun eða rannsókn er framkvæmd innan yfirráðasvæðis eins aðildarríkis af lögbæru yfirvaldi sama aðildarríkis getur lögbært yfirvald í því aðildarríki sem óskaði eftir samstarfi farið fram á að embættismenn þess verði í fylgd með þeim embættismönnum sem framkvæma sannprófun eða rannsókn. Sannprófunin eða rannsóknin skal þó háð heildareftirliti af hálfu aðildarríkisins þar sem hún fer fram.
Ef sannprófun eða rannsókn er framkvæmd innan yfirráðasvæðis eins aðildarríkis af lögbæru yfirvaldi annars aðildarríkis, getur lögbært yfirvald í því aðildarríki þar sem sannprófunin eða rannsóknin fer fram krafist þess að eigin embættismenn þess fylgi þeim embættismönnum sem framkvæma sannprófun eða rannsókn.
6.     Lögbær yfirvöld þess aðildarríkis þar sem sannprófunin eða rannsóknin er framkvæmd geta einungis neitað að skiptast á upplýsingum, eins og kveðið er á um í 2. mgr., eða verða við beiðni um samstarf um rannsókn eða sannprófun á staðnum, eins og kveðið er á um í 4. mgr. ef:
a)    slík rannsókn, sannprófun á staðnum eða upplýsingaskipti gætu haft neikvæð áhrif á fullveldi, öryggi eða allsherjarreglu viðkomandi aðildarríkis,
b)    dómsmál hefur þegar hafist að því er varðar sömu einstaklinga og sömu aðgerðir fyrir yfirvöldum þess aðildarríkis,
c)    lokadómur að því er varðar sömu einstaklinga og sömu aðgerðir hefur þegar fallið í því aðildarríki.
7.     Lögbær yfirvöld skulu tilkynna þeim lögbæru yfirvöldum, sem leggja fram beiðni, um allar ákvarðanir sem teknar eru skv. 6. mgr. Í þeirri tilkynningu skulu vera upplýsingar um ástæður ákvörðunar þeirra.
8.     Lögbær yfirvöld geta vakið athygli samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila, sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/77/EB ( 1 ), á aðstæðum þar sem beiðni:
a)    um upplýsingaskipti, sem kveðið er á um í 109. gr., hefur verið hafnað eða ekki hefur verið brugðist við henni innan hæfilegs frests,
b)    um rannsókn eða sannprófun á staðnum, sem kveðið er á um í 110. gr., hefur verið hafnað eða ekki hefur brugðist við henni innan hæfilegs frests eða
c)    um leyfi embættismanna þeirra til að fylgja embættismönnum lögbærs yfirvalds hins aðildarríkisins hefur verið hafnað eða ekki hefur verið brugðist við henni innan hæfilegs frests.
9.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir varðandi málsmeðferð vegna sannprófunar á staðnum og rannsókna.
Þessar ráðstafanir skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð sem um getur í 3. mgr. 112. gr.

102. gr.

1.     Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir um að allir þeir sem vinna fyrir eða hafa unnið fyrir lögbær yfirvöld, sem og endurskoðendur og sérfræðingar, sem koma fram fyrir hönd lögbærra yfirvalda, séu bundnir þagnarskyldu. Sú skylda felur í sér að þeir mega ekki skýra neinum einstaklingum eða yfirvöldum frá trúnaðarmálum sem þeir öðlast vitneskju um við störf sín nema um sé að ræða samantekt eða útdrátt af því tagi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstaka verðbréfasjóði, rekstrarfélög og vörsluaðila (fyrirtæki sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóðs), nema um sé að ræða mál sem heyra undir hegningarlög.
Ef verðbréfasjóður, eða fyrirtæki sem tekur þátt í starfsemi hans, er lýstur gjaldþrota eða tekinn nauðugur til slitameðferðar má tilgreina trúnaðarupplýsingar í máli fyrir einkamála- eða verslunarrétti, snerti þau ekki þriðju aðila sem hefur tekið þátt í að reyna að bjarga fyrirtækinu.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að lögbær yfirvöld aðildarríkja skiptist á upplýsingum í samræmi við þessa tilskipun eða önnur lög Bandalagsins sem eiga við verðbréfasjóði eða fyrirtæki sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóða. Um slíkar upplýsingar skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í 1. mgr.
Lögbær yfirvöld, sem skiptast á upplýsingum við önnur lögbær yfirvöld samkvæmt þessari tilskipun, mega tilkynna, þegar samskiptin fara fram, að slíkar upplýsingar megi ekki birta án beins samþykkis þeirra, en í því tilviki er þeim aðeins heimilt að skiptast á slíkum upplýsingum sé það gert í þeim tilgangi sem yfirvöldin hafa samþykkt.
3.     Aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við lögbær yfirvöld þriðju landa, eða yfirvöld eða stofnanir þriðju landa, eins og ákvarðað er í 5. mgr. þessarar greinar og 1. mgr. 103. gr., ef á upplýsingunum hvílir þagnarskylda í a.m.k. sama mæli og um getur í þessari grein. Slík upplýsingaskipti skulu fara fram í þeim tilgangi að fyrrgreind yfirvöld eða stofnanir geti sinnt eftirlitsstörfum sínum.
Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og, eftir því sem við á, þá einungis til þeirra nota sem þau yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.
4.     Lögbær yfirvöld, sem fá í hendur trúnaðarupplýsingar skv. 1. eða 2. mgr., mega einungis nota þær upplýsingar í starfi sínu í þeim tilgangi:
a)    að kanna hvort skilyrðin fyrir því að hefja rekstur verðbréfasjóðs eða fyrirtækja, sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, séu uppfyllt og að auðvelda vöktun á þeirri starfsemi, stjórnunar- og bókhaldsaðferðum og innri eftirlitskerfum,
b)    að beita viðurlögum,
c)    að senda stjórnsýslukærur vegna ákvarðana lögbærra yfirvalda og
d)    að stofna til málareksturs skv. 2. mgr. 107. gr.
5.     Ákvæði 1. og 4. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir upplýsingaskipti innan aðildarríkis eða milli aðildarríkja ef þau skipti eiga sér stað milli lögbærs yfirvalds og:
a)    yfirvalda sem annast opinbert eftirlit með lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum, vátryggingafélögum eða öðrum fjármálastofnunum, eða yfirvalda sem annast eftirlit með fjármálamörkuðum,
b)    stofnana sem tengjast félagsslitum eða gjaldþroti verðbréfasjóðs eða fyrirtækja sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, eða hlutaðeigandi stofnana í sambærilegu ferli, eða
c)    einstaklinga sem annast framkvæmd lögboðinnar endurskoðunar á reikningum vátryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja eða annarra fjármálastofnana.
Einkum skulu ákvæði 1. og 4. mgr. ekki koma í veg fyrir getu lögbærra yfirvalda, sem tilgreind eru hér að framan, til að sinna eftirlitshlutverki sínu eða afhendingu upplýsinga til stofnana sem stjórna bótakerfum, sem nauðsynlegar eru til að þær geti innt störf sín af hendi.
Um upplýsingaskipti samkvæmt fyrstu undirgrein skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu sem sett eru fram í 1. mgr.

103. gr.

1.     Þrátt fyrir 1. til 4. mgr. 102. gr. geta aðildarríkin leyft upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda og:
a)    yfirvalda sem annast eftirlit með stofnunum sem tengjast félagsslitum og gjaldþroti verðbréfasjóðs eða fyrirtækis sem tekur þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, eða hlutaðeigandi stofnana í sambærilegu ferli,
b)    yfirvalda sem annast eftirlit með einstaklingum sem sjá um lögboðna endurskoðun reikninga vátryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja eða annarra fjármálastofnana.
2.     Aðildarríki, sem nýta sér þá undanþágu sem kveðið er á um í 1. mgr., skulu gera kröfu um að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    að upplýsingarnar séu notaðar til að annast eftirlit eins og um getur í 1. mgr.,
b)    að upplýsingarnar, sem fengnar eru í þessu sambandi, falli undir ákvæði 1. mgr. 102. gr. um þagnarskyldu og
c)    ef upplýsingarnar eru upprunnar í öðru aðildarríki, að sé ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og, eftir því sem við á, þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.
3.     Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum í té heiti þeirra yfirvalda sem mega fá upplýsingar skv. 1. mgr.
4.     Þrátt fyrir 1. til 4. mgr. 102. gr. geta aðildarríkin, í því skyni að auka stöðugleika fjármálakerfisins og gera það heilsteyptara, leyft skipti á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda og yfirvalda eða stofnana sem hafa það hlutverk samkvæmt lögum að koma upp um og rannsaka brot á félagarétti.
5.     Aðildarríki, sem nýta sér þá undanþágu sem kveðið er á um í 4. mgr., skulu gera kröfu um að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt hið minnsta:
a)    að upplýsingarnar séu notaðar til framkvæmdar þeirra verkefna sem um getur í 4. mgr.,
b)    að um upplýsingar sem eru fengnar í þessu sambandi gildi ákvæði 1. mgr. 102. gr. um þagnarskyldu og
c)    ef upplýsingarnar eru upprunnar í öðru aðildarríki, að sé ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis lögbærra yfirvalda sem hafa afhent þær og, eftir því sem við á, þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.
Að því er varðar c-lið ber yfirvöldum eða stofnunum, sem um getur í 4. mgr., að gera þeim lögbæru yfirvöldunum sem afhentu upplýsingarnar grein fyrir nöfnum og umboði aðilanna sem eiga að fá þær.
6.     Ef svo ber undir í aðildarríki að yfirvöld eða stofnanir, sem um getur í 4. mgr., njóta við uppljóstranir eða rannsóknir sínar aðstoðar einstaklinga, sem hafa verið tilnefndir í þessu skyni vegna sérþekkingar sinnar en starfa ekki á vegum hins opinbera, er heimilt að láta hugsanleg upplýsingaskipti, sem kveðið er á um í þeirri málsgrein, ná einnig til slíkra einstaklinga með þeim skilyrðum sem sett eru í 5. mgr.
7.     Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum í té heiti þeirra yfirvalda eða stofnana sem mega fá upplýsingar skv. 4. mgr.

104. gr.

1.     Ákvæði 102. og 103. gr. skulu ekki koma í veg fyrir að lögbært yfirvald sendi seðlabanka, og öðrum stofnunum sem gegna sambærilegu hlutverki á sviði peningamála, upplýsingar sem koma að haldi við störf þeirra, né heldur skulu þessi ákvæði koma í veg fyrir að þau yfirvöld eða stofnanir afhendi lögbærum yfirvöldum upplýsingar, sem þau gætu þurft að því er varðar 4. mgr. 102. gr. Um upplýsingar, sem fengnar eru í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 1. mgr. 102. gr. um þagnarskyldu.
2.     Ákvæði 102. og 103. gr. skulu ekki koma í veg fyrir að lögbær yfirvöld sendi upplýsingarnar, sem um getur í 1.–4. mgr. 102. gr., til greiðslujöfnunarstöðvar eða sambærilegrar stofnunar, sem er heimilt samkvæmt landslögum að annast greiðslujöfnun eða uppgjör á markaði í viðkomandi aðildarríki, ef þau telja það nauðsynlegt til að tryggja snurðulausa starfsemi þessara stofnana með hliðsjón af vanskilum eða hugsanlegum vanskilum á markaðinum.
Um upplýsingar, sem eru fengnar í þessu sambandi, skulu gilda ákvæði 1. mgr. 102. gr. um þagnarskyldu.
Aðildarríkin skulu þó sjá til þess að einungis sé heimilt að afhenda upplýsingar, sem eru fengnar skv. 2. mgr. 102. gr., í tilvikum sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar greinar, ef fyrir liggur skýlaust samþykki þeirra lögbæru yfirvalda sem létu þær í té.
3.     Þrátt fyrir ákvæðin, sem um getur í 1. og 4. mgr. 102. gr. og samkvæmt heimild í lögum, geta aðildarríkin heimilað að tilteknar upplýsingar séu veittar öðrum deildum í stjórnsýslu þeirra sem bera ábyrgð á löggjöf um eftirlit með verðbréfasjóðum, fyrirtækjum, sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóða, lánastofnunum, fjármálastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum og vátryggingafélögum svo og eftirlitsmönnum sem starfa samkvæmt fullu umboði frá þessum deildum.
Slíkar upplýsingar má þó aðeins veita þegar þess er þörf vegna varfærnieftirlits með starfseminni.
Aðildarríkin skulu þó ákvarða að upplýsingar, sem eru fengnar skv. 2. og 5. mgr. 102. gr., séu aldrei veittar í þeim tilvikum sem um getur í þessari málsgrein nema fyrir liggi skýlaust samþykki þeirra lögbæru yfirvalda sem létu þær í té.

105. gr.

Framkvæmdastjórnin getur samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem varða málsmeðferð við upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda.
Þessar ráðstafanir skulu samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð sem um getur í 3. mgr. 112. gr.

106. gr.

1.     Aðildarríkin skulu hið minnsta tryggja að hverjum þeim einstaklingi, sem til þess hefur heimild í skilningi tilskipunar 2006/43/EB, og annast í verðbréfasjóði, eða fyrirtæki, sem tekur þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, þá lögboðnu endurskoðun sem um getur í 51. gr. tilskipunar 78/660/EBE, 37. gr. tilskipunar 83/349/EBE eða 73. gr. þessarar tilskipunar, eða annað lögboðið verkefni, skuli skylt að upplýsa lögbær yfirvöld jafnharðan um málsatvik eða ákvörðun varðandi fyrirtækið, sem viðkomandi hefur orðið áskynja um í starfi sínu og líklegt er að leiði til einhvers af eftirfarandi:
a)    umtalsverðs brots á lögum eða stjórnsýslufyrirmælum, þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða sem fjalla sérstaklega um starfsemi verðbréfasjóða eða fyrirtækja, sem taka þátt í starfsemi verðbréfasjóðs,
b)    skerðingar á áframhaldandi starfsemi verðbréfasjóðs eða fyrirtækis, sem tekur þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, eða
c)    að neitað verði um áritun á reikningsskil eða að fyrirvarar verði settir.
Þessum sama einstaklingi ber skylda til að upplýsa um málsatvik og ákvarðanir, sem hann verður áskynja um í verkefni sínu, sem lýst er í a-lið, í fyrirtæki sem hefur náin tengsl vegna yfirráðatengsla við verðbréfasjóð eða fyrirtæki, sem tekur þátt í starfsemi verðbréfasjóðs, þar sem hann vinnur framangreint verkefni.
2.     Ekki skal litið svo á að það athæfi einstaklinga, sem til þess hafa heimild í samræmi við tilskipun 2006/43/EB, í góðri trú að upplýsa lögbær yfirvöld um málsatvik eða ákvarðanir skv. 1. mgr., sé brot á þagnarskyldu sem komið hefur verið á með samningi eða lögum eða stjórnsýsluákvæðum og skal ekki kalla þá til ábyrgðar með neinum hætti.

107. gr.

1.     Lögbær yfirvöld skulu gefa skriflega ástæðu fyrir öllum ákvörðunum um synjun leyfisveitingar eða hvers konar neikvæðri ákvörðun sem tekin er við framkvæmd almennra ráðstafana sem samþykktar eru í krafti þessarar tilskipunar, og skulu þau greina umsækjendum frá þeim.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að allar ákvarðanir, sem teknar eru í samræmi við lög eða stjórnsýsluákvæði, sem samþykkt eru í samræmi við þessa tilskipun, séu vel rökstuddar og falli undir rétt til að áfrýja til dómstóla, þ.m.t. að ákvörðun hafi ekki verið tekin innan sex mánaða frá framlagningu umsóknar um starfsleyfi, þar sem fram koma allar upplýsingar sem krafist er.
3.     Aðildarríkin skulu kveða á um að ein eða fleiri eftirtalinna aðila geti, eins og ákvarðað er samkvæmt landslögum, í þágu neytenda og í samræmi við landslög, hafið málssókn fyrir dómstólum eða þar til bærum stjórnsýslustofnunum til að tryggja að ákvæðum landslaga um framkvæmd þessarar tilskipunar verði beitt:
a)    opinberar stofnanir eða fulltrúar þeirra,
b)    neytendasamtök sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta við verndun neytenda eða
c)    fagfélög sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta við verndun félagsmanna sinna.

108. gr.

1.     Einungis yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs skulu hafa valdheimildir til að grípa til aðgerða gegn þeim verðbréfasjóði ef hann brýtur gegn lögum eða stjórnsýslufyrirmælum eða hvers konar reglum sem settar er fram í sjóðsreglum eða stofnsamningum fjárfestingarfélags.
Þó geta yfirvöld gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs gripið til aðgerða gegn þeim verðbréfasjóði ef hann brýtur í bága við ákvæði laga og stjórnsýslufyrirmæla, sem eru í gildi í því aðildarríki, en falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar eða þeirra krafna sem settar eru fram í 92. og 94. gr.
2.     Allar ákvarðanir um að afturkalla starfsleyfi, eða annars konar alvarleg ráðstöfun gegn verðbréfasjóði, eða hvers konar frestun á útgáfu, endurkaupum eða innlausn hlutdeildarskírteina, sem lögð er á verðbréfasjóð, skulu yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs tilkynna yfirvöldum gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs án tafar og, ef rekstrarfélag verðbréfasjóðs er stofnað í öðru aðildarríki, lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags eða lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs geta gripið til aðgerða gegn rekstrarfélaginu ef það brýtur reglur innan ábyrgðsviðs þeirra, hvers fyrir sig.
4.     Ef lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs hafa skýrar og sannanlegar ástæður til að ætla að verðbréfasjóður, sem markaðssetur hlutdeildarskírteini sín innan yfirráðasvæðis þess aðildarríkis, uppfylli ekki þær skyldur sem ákvæði, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun en veita lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs ekki valdheimildir, hafa í för með sér skulu þau vísa málinu til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins, sem skal grípa til viðeigandi ráðstafana.
5.     Ef verðbréfasjóður starfar áfram með hætti sem er augljóslega skaðlegur hagsmunum fjárfesta í heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins, þrátt fyrir ráðstafanir sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins gera eða vegna þess að slíkar ráðstafanir reynast ófullnægjandi eða ef heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins bregst ekki við innan hæfilegs tímaramma, geta lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins gripið til eftirfarandi aðgerða:
a)    eftir að hafa upplýst lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðsins, gert allar viðeigandi ráðstafanir sem þörf krefur í til að gæta hagsmuna fjárfesta, þ.m.t. möguleiki á að koma í veg fyrir að viðkomandi verðbréfasjóður stundi frekari markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna innan yfirráðasvæðis gistiaðildarríkis verðbréfasjóðsins, eða
b)    ef nauðsyn krefur, vakið athygli samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði á málinu.
Framkvæmdastjórnin skal upplýst án tafar um hvers konar ráðstafanir gripið er til skv. a-lið fyrstu undirgreinar.
6.     Aðildarríki skulu sjá til þess að innan yfirráðasvæða þeirra sé lagalega fært að birta þau lagaskjöl sem nauðsynleg eru vegna ráðstafana sem gistiaðildarríki verðbréfasjóðs gæti þurft að grípa til vegna verðbréfasjóðs skv. 2.–5. gr.

109. gr.

1.     Ef rekstrarfélag starfar í einu eða fleiri gistiaðildarríkjum rekstrarfélagsins með því að veita þjónustu eða með því að koma á fót útibúum skulu lögbær yfirvöld í öllum viðkomandi aðildarríkjum hafa með sér náið samstarf.
Þau skulu samkvæmt beiðni veita hvert öðru allar upplýsingar varðandi stjórnun og eignarhald slíkra rekstrarfélaga, sem geta auðveldað eftirlit með þeim, og allar upplýsingar sem kunna að auðvelda vöktun þessara félaga. Einkum skulu yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags taka þátt í samvinnu til að tryggja að yfirvöld gistiaðildarríkja rekstrarfélags afli upplýsinganna sem um getur í 2. mgr. 21. gr.
2.     Ef nauðsyn krefur vegna beitingar eftirlitsheimilda heimaaðildarríkis skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis rekstrarfélags tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélags um allar ráðstafanir sem gistiaðildarríki rekstrarfélags grípur til skv. 5. mgr. 21. gr. sem hafa í för með sér ráðstafanir eða refsiaðgerðir gagnvart rekstrarfélagi eða takmarkanir á starfsemi rekstrarfélagsins.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélags skulu, án tafar, tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs um hvers konar vandamál sem greind eru á vettvangi rekstrarfélags, sem geta haft efnisleg áhrif á getu rekstrarfélagsins til að uppfylla skyldur sínar með fullnægjandi hætti að því er varðar verðbréfasjóð eða um hvers konar brot á kröfum samkvæmt III. kafla.
4.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs skulu, án tafar, tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins um hvers konar vandamál sem greind eru á vettvangi verðbréfasjóðsins, sem geta haft efnisleg áhrif á getu rekstrarfélags til að uppfylla skyldur sínar með fullnægjandi hætti eða fara að þeim ákvæðum þessarar tilskipunar sem falla undir ábyrgð heimaaðildarríkis verðbréfasjóðs.

110. gr.

1.     Hvert gistiaðildarríki rekstrarfélags skal sjá til þess, ef rekstrarfélag með starfsleyfi í öðru aðildarríki stundar starfsemi á yfirráðasvæði þess með útibúi, að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins eða milligöngumenn, sem þau velja til þess, geti sjálf sannprófað á staðnum upplýsingarnar, sem um getur í 109. gr., eftir að hafa skýrt lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins frá því.
2.     Ákvæði 1. mgr. hafa ekki áhrif á rétt lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins til að framkvæma sannprófun á staðnum á útibúum sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þess aðildarríkis, þegar þau rækja skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun.

XIII. KAFLI
EVRÓPSKA VERÐBRÉFANEFNDIN
111. gr.

Framkvæmdastjórnin getur samþykkt tæknilegar breytingar á þessari tilskipun á eftirfarandi sviðum:
a)    nánari útlistun skilgreininga til að tryggja sams konar beitingu þessarar tilskipunar í gervöllu Bandalaginu eða
b)    samræming hugtaka og afmörkun skilgreininga í samræmi við síðari lagasetningu um verðbréfasjóði og skyld mál.
Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, skulu samþykktar í samræmi við þá reglunefndarmeðferð með grannskoðun, sem um getur í 2. mgr. 112. gr.

112. gr.

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar evrópsku verðbréfanefndarinnar sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/528/ EB ( 1 ).
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/ 468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

XIV. KAFLI
UNDANÞÁGUR, BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
1. ÞÁTTUR
Undanþágur
113. gr.

1.     Að því er varðar danska verðbréfasjóði eingöngu, skal farið með veðbréf (d. pantebreve) sem gefin eru út í Danmörku á sama hátt og framseljanleg verðbréf sem um getur í b-lið 1. mgr. 50. gr.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 32. gr. geta lögbær yfirvöld heimilað þeim verðbréfasjóðum sem höfðu, þann 20. desember 1985, tvo eða fleiri vörsluaðila í samræmi við landslög þeirra að viðhalda þeim fjölda vörsluaðila ef þau yfirvöld hafa tryggingu fyrir því að starfsemin, sem fyrirhugað er að stunda skv. 3. mgr. 22. gr. og 3. mgr. 32. gr., verði í raun stunduð.
3.     Þrátt fyrir 16. gr. geta aðildarríki heimilað rekstrarfélögum að gefa út handhafaskírteini fyrir skráð verðbréf annarra félaga.

114. gr.

1.     Fjárfestingarfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í fyrsta lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB, sem hafa aðeins leyfi til að annast þá þjónustu sem kveðið er á um í 4. lið þáttar A og í 5. lið í viðaukanum við þá tilskipun, geta fengið leyfi samkvæmt þessari tilskipun til að stjórna verðbréfasjóðum sem rekstrarfélög. Í því tilviki skulu þessi fjárfestingarfyrirtæki afsala sér leyfinu sem þau hafa fengið samkvæmt tilskipun 2004/39/EB.
2.     Rekstrarfélög, sem hafa fengið leyfi fyrir 13. febrúar 2004 í heimaaðildarríki sínu samkvæmt tilskipun 85/611/EBE til að stjórna verðbréfasjóðum, teljast hafa leyfi að því er varðar þessa grein ef lög þess aðildarríkis kveða á um að forsenda þess að þau fái að hefja slíka starfsemi sé að þau uppfylli skilyrði sem jafngilda þeim sem sett eru í 7. og 8. gr.

2. ÞÁTTUR
Bráðabirgða- og lokaákvæði
115. gr.

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. júlí 2013, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar.

116. gr.

1.     Aðildarríki skulu, eigi síðar en 30. júní 2011, samþykkja og birta lög og stjórnsýslufyrirmæli sem nauðsynleg eru til að uppfylla skilyrði annarrar undirgreinar 2. mgr. 1. gr., b-liðar 3. mgr. 1. gr., e-, m-, p-, q- og r-liðar 1. mgr. 2. gr., 5. mgr. 2. gr., 4. gr., 1.–4. mgr. og 6. og. 7. mgr. 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 12. gr., inngangsorða 1. mgr. 13. gr., a- og i- liðar 1. mgr. 13. gr., 15. gr., 1. mgr. 16. gr., 3. mgr. 16. gr., 1. mgr. 17. gr., b-liðar 2. mgr. 17. gr., fyrstu og annarrar undirgreinar 3. mgr. 17. gr., 4.–7. mgr. 17. gr., annarrar undirgreinar 9. mgr. 17. gr., inngangshluta 1. mgr. 18. gr., b-liðar 1. mgr. 18. gr., þriðju og fjórðu undirgreinar 2. mgr. 18. gr., 3. og 4. mgr. 18. gr., 19. og 20. gr., 2.–6. mgr. og 8. og 9. mgr. 21. gr., 1. mgr. 22. gr., a-, d- og e-liðar 3. mgr. 22. gr., 1., 2., 4. og 5. mgr. 23. gr., þriðju málsgreinar 27. gr., 2. mgr. 29. gr., 2., 4., og 5. mgr. 33. gr., 37.–42. gr., 1.–5. mgr. 43. gr., 44.–49. gr., inngangsorða 1. mgr. 50. gr., 3. mgr. 50. gr., þriðju undirgreinar 1. mgr. 51. gr., 3. mgr. 54. gr., 1. mgr. 56. gr., inngangsorða fyrstu undirgreinar 2. mgr. 56. gr., 58. og 59. gr., 1.–5. mgr. 60. gr., 1. og 2. mgr. 61. gr., 1., 2. og 3. mgr. 62. gr., 63. gr., 1., 2. og 3. mgr. 64. gr., 65., 66. og 67. gr., inngangsorða og a- liðar 1. mgr. 68. gr., 1. og 2. mgr. 69. gr., 2. og 3. mgr. 70. gr., 71., 72. og 74. gr., 1., 2. og 3. mgr. 75. gr., 77.–82. gr., b-liðar 1. mgr. 83. gr., annars undirliðar a-liðar 2. mgr. 83. gr., 86. gr., b-liðar 1. mgr. 88. gr., b-liðar 89. gr., 90.–94. gr., 96.–100. gr., 1.–8. mgr. 101. gr., annarrar undirgreinar 2. mgr. 102. gr., 5. mgr. 102. mgr., 107. og 108. gr., 2., 3. og 4. mgr. 109. gr., 110. gr. og I. viðauka. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þau skulu beita þessum ráðstöfunum frá 1. júlí 2011.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Í þeim skal einnig vera yfirlýsing um að líta beri á tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum í tilskipun 85/611/EBE sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun og hvernig yfirlýsingin skal sett fram.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni texta helstu ákvæða í landslögum sem þau samþykkja á því sviði sem tilskipun þessi tekur til.

117. gr.

Tilskipun 85/611/EBE, eins og henni var breytt með tilskipunum sem eru tilgreindar í A-hluta III. viðauka, er felld úr gildi frá og með 1. júlí 2011, með fyrirvara um skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar þá fresti til lögleiðingar og beitingar tilskipananna sem tilgreindar eru í B-hluta III. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í IV. viðauka.
Líta skal á tilvísanir í einfaldaða útboðslýsingu sem tilvísanir í fjárfestaupplýsingar sem um getur í 78. gr.

118. gr.

1.     Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Ákvæði 1. mgr. 1. gr., fyrstu undirgreinar 2. mgr. 1. gr., a-liðar 3. mgr. 1. gr., 4.–7. mgr. 1. gr., a- til d- liðar, f- til l-liðar, n- og o-liðar 1. mgr. 2. gr., 2., 3. og 4. mgr. 2. gr., 6. og 7. mgr. 2. gr., 3. gr., 5. mgr. 5. gr., 2., 3. og 4. mgr. 6. gr., 7.–11. gr., 2. mgr. 12. gr., b- til h-liðar 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 16. gr., a-, c- og d-liðar 2. mgr. 17. gr., annarar undirgreinar 3. mgr. 17. gr., 8. mgr. 17. gr., fyrstu undirgreinar 9. mgr. 17. gr., 1. mgr. 18. gr. að undanskildum inngangsorðum og a-lið, fyrstu og annarrar undirgreinar 2. mgr. 18. gr., 1. og 7. mgr. 21. gr., 2. mgr. 22. gr., b- og c-liðar 3. mgr. 22. gr., 3. mgr. 23. gr., 24. gr., 25. og 26. gr., fyrstu og annarrar málsgreinar 27. gr., 28. gr., 1., 3. og 4. mgr. 29. gr., 30., 31. og 32. gr., 1. og 3. mgr. 33. gr., 34., 35. og 36. gr., a- til h-liðar 1. mgr. 50. gr., 2. mgr. 50. gr., fyrstu og annarrar undirgreinar 1. mgr. 51. gr., 2. og 3. mgr. 51. gr., 52. og 53. gr., 1. og 2. mgr. 54. gr., 55. gr., fyrstu undirgreinar 2. mgr. 56. gr., annarrar undirgreinar 2. mgr. 56. gr., 3. mgr. 56. gr., 57. gr., 2. mgr. 68. gr., 3. og 4. mgr. 69. gr., 1. og 4. mgr. 70. gr., 73. og 76. gr., 1. mgr. 83. gr. að undanskildum b-lið, a-liðar 2. mgr. 83. gr. að undanskildum öðrum undirlið, 84., 85. og 87. gr., 1. mgr. 88. gr. að undanskildum b-lið, 2. mgr. 88. gr., 89. gr. að undanskildum b-lið, 1. mgr. 102. gr., fyrstu undirgreinar 2. mgr. 102. gr., 3. og 4. mgr. 102. gr., 103.–106. gr., 1. mgr. 109. gr., 111., 112., 113. og 117. gr. og II., III., og IV. viðauka skulu gilda frá og með 1. júlí 2011.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að í stað einfaldaðrar útboðslýsingar sinnar, sem gerð er í samræmi við ákvæði tilskipunar 85/611/EBE, setji verðbréfasjóðir fjárfestaupplýsingar, sem gerðar eru í samræmi við 78. gr., eins fljótt og unnt er og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að frestur til að innleiða í landslög allar þær framkvæmdarráðstafanir sem um getur í 7. mgr. 78. gr. rennur út. Á þeim tíma skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis verðbréfasjóðs áfram viðurkenna einfaldaða útboðslýsingu verðbréfasjóða sem markaðssettir eru innan yfirráðasvæðis þeirra aðildarríkja.

119. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel, 13. júlí 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING E. ERLANDSSON
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
FYLGISKJAL A

1.    Upplýsingar varðandi sameignarsjóð 1.    Upplýsingar varðandi rekstrarfélag, þ.m.t. upplýsingar um það hvort rekstrarfélag er stofnsett í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki verðbréfasjóðs. 1.    Upplýsingar um fjárfestingarfélag
1.1.    Heiti 1.1.    Heiti eða gerð, félagsform, skráð skrifstofa og aðalskrifstofa, ef önnur en skráð skrifstofa. 1.1.    Heiti eða gerð, félagsform, skráð skrifstofa og aðalskrifstofa, ef önnur en skráð skrifstofa.
1.2.    Stofndagur sameignarsjóðs Upplýsingar um líftíma, ef takmarkaður. 1.2.    Stofndagur fyrirtækis. Upplýsingar um líftíma, ef takmarkaður. 1.2.    Stofndagur fyrirtækis. Upplýsingar um líftíma, ef takmarkaður.
1.3.    Upplýsingar um aðra sameignarsjóði sem fyrirtækið kann að stýra. 1.3.    Þegar um er að ræða fjárfestingarfélög með aðgreindar fjárfestingardeildir skal tilgreina deildirnar.
1.4.    Yfirlýsing um það hvar hægt er að nálgast sjóðsreglur, ef þær fylgja ekki, og reglubundnar skýrslur. 1.4.    Yfirlýsing um það hvar hægt er að nálgast stofnsamninga, ef þeir fylgja ekki, og reglubundnar skýrslur.
1.5.    Stuttar skýringar fyrir eigendur hlutdeildarskírteina á því skattkerfi sem um sameignarsjóðinn gildir. Upplýsingar um það hvort skattur á tekjur og hagnað, sem sameignarsjóðurinn greiðir eigendum hlutdeildarskírteinanna, sé staðgreiddur. 1.5.    Stuttar skýringar fyrir eigandi hlutdeildarskírteina á því skattkerfi sem um félagið gilda. Upplýsingar um hvort skattur á tekjur og hagnað sem félagið greiðir eigendum hlutdeildarskírteinanna sé staðgreiddur.
1.6.    Reikningsskila- og birtingartími. 1.6.    Reikningsskila- og birtingartími.
1.7.    Nöfn þeirra einstaklinga sem bera ábyrgð á endurskoðun upplýsinga í reikningsskilum sem um getur í 73. gr. 1.7.    Nöfn þeirra einstaklinga sem bera ábyrgð á endurskoðun upplýsinga í reikningsskilum sem um getur í 73. gr.
1.8.    Nöfn allra aðila í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn og stöðu þeirra innan fyrirtækisins Upplýsingar um helstu störf þeirra utan félagsins ef það skiptir máli að hvað fyrirtækið snertir. 1.8.    Nöfn allra aðila í stjórn, framkvæmdastjórn og eftirlitsstjórn og stöðu þeirra innan félagsins. Upplýsingar um aðalstarf þeirra utan fyrirtækis ef það skiptir máli hvað félagið snertir.
1.9.    Fjárhæð skráðs hlutafjár og hversu mikið hefur verið greitt. 1.9.    Höfuðstóll
1.10.    Upplýsingar um tegundir og helstu einkenni hlutdeildarskírteinanna, einkum:
–    eðli þeirra réttinda (hlutbundinna, persónubundinna eða annarra) sem hlutdeildarskírteini veitir,
–    einkenni hlutdeildarskírteina: nafnbréf eða handhafabréf. Upp lýs ingar um tilgreint verðgildi,
–    upphafleg verðbréf eða skírteini sem veita sönnun fyrir eignarrétti; færsla í skrá eða reikning,
–    upplýsingar um atkvæðisrétt eigenda hlutdeildarskírteina, ef hann er fyrir hendi,
–    við hvaða aðstæður megi ákveða að gera sameignarsjóðinn upp og hvernig að því skuli staðið, einkum m.t.t. réttar eigenda hlut deildar skírteinanna.
1.10.    Upplýsingar um tegundir og helstu einkenni hlut deildar skírteinanna, einkum:
–    upphafleg verðbréf eða skírteini sem veita sönnun fyrir eignarrétti; færsla í skrá eða reikning,
–    einkenni hlutdeildarskírteina: nafn bréf eða handhafabréf. upplýsingar um tilgreint verðgildi,
–    upplýsingar um atkvæðisrétt eig enda hlutdeildarskírteinanna,
–    við hvaða aðstæður megi ákveða að slíta félaginu og hvernig að því skuli staðið, einkum m.t.t. réttar eigenda hlutdeildarskírteinanna.
1.11.    Eftir atvikum, upplýsingar um kauphallir eða markaði sem hlutdeildarskírteini þess eru skráð eða viðskipti með þau fara fram. 1.11.    Eftir atvikum, upplýsingar um kauphallir eða markaði sem hlutdeildarskírteini þess eru skráð eða viðskipti með þau fara fram.
1.12.    Tilhögun og skilyrði fyrir útgáfu og sölu hlutdeildarskírteina. 1.12.    Tilhögun og skilyrði fyrir útgáfu og sölu hlutdeildarskírteina.
1.13.    Tilhögun og skilyrði fyrir endur kaupum eða innlausn hlut deildar skírteina og við hvaða aðstæður megi fresta endurkaupum eða innlausn. 1.13.    Tilhögun og skilyrði fyrir endur kaupum eða innlausn hlutdeildar skírteina og við hvaða aðstæður megi fresta endurkaupum eða inn lausn. Þegar um er að ræða fjárfestingarfélag með aðgreindar fjárfestingardeildir skal greina frá því hvernig eigandi hlutdeildar skírteina getur flutt sig milli deilda og hvaða kostnaður fylgir því.
1.14.    Reglur um útreikning og ráð stöfun tekna. 1.14.    Reglur um útreikning og ráð stöfun tekna.
1.15.    Fjárfestingarmarkmið sameignar sjóðsins, þ.m.t. fjárhagsleg mark mið (þ.e. uppsöfnunar- eða tekju sjóður), fjárfestingarstefna (t.d. sérhæfing eftir landsvæðum eða atvinnugreinum), takmarkanir á þeirri fjárfestingarstefnu og til greining um aðferðir og skjöl eða lántökuheimild sem heimilt er að nota við rekstur sameignar sjóðsins. 1.15.    Fjárfestingarmarkmið félagsins, þar á meðal fjárhagsleg markmið (þ.e. uppsöfnunar- eða tekju sjóður), fjárfestingarstefna (t.d. sérhæfing eftir landsvæðum eða atvinnugreinum), takmarkanir á þeirri fjárfestingarstefnu og tilgreining um aðferðir og skjöl eða lántökuheimild sem heimilt er að nota við rekstur félagsins.
1.16.    Reglur um mat á eignum. 1.16.    Reglur um mat á eignum.
1.17.    Ákvörðun um sölu- eða útgáfu verð og endurkaups- eða inn lausnar verð hlutdeildarskírteina, einkum:
–    hvernig og hve oft verð er reiknað,
–    upplýsingar um kostnað af sölu eða útgáfu og endurkaup eða inn lausn hlutdeildarskírteina,
–    hvernig, hvar og hve oft þetta verð sé birt.
1.17.    Ákvörðun um sölu- eða útgáfu verð og endurkaups- eða inn lausnarverð hlutdeildarskírteina, einkum:
–    hvernig og hve oft verð er reiknað,
–    upplýsingar um kostnað af sölu eða útgáfu og endurkaup eða inn lausn eininga,
–    hvernig, hvar og hve oft þetta verð er birt.(1).
1.18.    Upplýsingar um fyrirkomulag, upphæð og útreikning þóknunar sem sameignarsjóðurinn skal greiða rekstrarfélaginu, vörslu fyrirtækinu eða þriðju aðilum ásamt upplýsingum um endur greiðslu sameignarsjóðsins á kostnaði til rekstrarfélagsins, vörslufyrirtækisins eða þriðju aðila. 1.18.    Upplýsingar um fyrirkomulag, fjárhæð og útreikning þóknunar sem félagið greiðir fram kvæmda stjórum sínum og stjórnar mönn um í framkvæmdastjórn og eftir litsstjórn, vörslufyrirtæki eða þriðju aðilum, ásamt endur greiðslu kostnaðar sem félagið greiðir framkvæmdastjórum sínum, vörslufyrirtækinu eða þriðju aðilum.
(1)    Fjárfestingarfélög í skilningi 5. mgr. 32. gr. þessarar tilskipunar skulu einnig tilgreina:
    –    hvernig og hve oft reikna skuli verðmæti hreinnar eignar hlutdeildarskírteina,
    –    hvernig, hvar og hve oft það virði er birt,
    –    þá kauphöll í markaðslandinu sem ræður því verði sem viðskipti utan kauphallar í því landi fara fram á.

2.    Upplýsingar um vörslufyrirtæki:
    2.1.    Heiti eða gerð, félagsform, skráð skrifstofa og aðalskrifstofa, ef hún er önnur en skráða skrifstofan,
    2.2.    Meginstarfsemi.
3.    Upplýsingar um ráðgjafafyrirtæki eða ytri fjárfestingaráðgjafa sem veita ráðgjöf samkvæmt samningi sem greitt er fyrir með eignum verðbréfasjóðsins:
    3.1.    Heiti eða gerð fyrirtækis eða nafn ráðgjafans,
    3.2.    Þau ákvæði samningsins við rekstrarfélagið eða fjárfestingarfélagið sem máli skipta og kunna að varða eigendur hlutdeildarskírteina nema þau sem varða þóknun.
    3.3.    Önnur starfsemi sem máli skiptir.
4.    Upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna til eigenda hlutdeildarskírteina, endurkaupa eða innlausna hlutdeildarskírteina og veitinga upplýsinga varðandi verðbréfasjóð. Slíkar upplýsingar verður ávallt að veita í því aðildarríki þar sem verðbréfasjóðurinn er stofnaður. Ef hlutdeildarskírteini eru sett á markað í öðru aðildarríki skal einnig veita þess háttar upplýsingar varðandi það aðildarríki í útboðslýsingunni sem gefin er út í því.
5.    Aðrar upplýsingar um fjárfestingar:
    5.1.    Upplýsingar um fyrri árangur verðbréfasjóðs (eftir því sem við á), en þær má birta í útboðslýsingunni eða láta þær fylgja henni,
    5.2.    Lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem verðbréfasjóðurinn miðast við.
6.    Fjárhagslegar upplýsingar:
    6.1.    Hugsanlegur kostnaður eða gjöld, að undanskildum þeim útgjöldum sem um getur í lið 1.17, og skal greina á milli þeirra sem eigandi hlutdeildarskírteina greiðir og þeirra sem greidd eru af eignum verðbréfasjóðs.

Fylgiskjal B
Upplýsingar sem veittar skulu í reglubundnum skýrslum

I.    Yfirlit um eignir og skuldir:
    –    framseljanleg verðbréf,
    –    bankainnstæður,
    –    aðrar eignir,
    –    heildareignir,
    –    skuldir,
    –    verðmæti hreinnar eignar.
II.     Fjöldi hlutdeildarskírteina í umferð
III.     Verðmæti hreinnar eignar fyrir hvert skírteini
IV.    Eignasafn, sundurliðað eftir:
    a)    framseljanlegum verðbréfum sem tekin hafa verið til opinberrar skráningar í kauphöll,
    b)    framseljanlegum verðbréfum sem ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði,
    c)    nýútgefnum framseljanlegum verðbréfum, þeirrar tegundar sem um getur í d-lið 1. mgr. 50. gr.,
    d)    öðrum framseljanlegum verðbréfum, þeirrar tegundar sem um getur í a-lið 2. mgr. 50. gr.
    og greind í samræmi við þær viðmiðanir sem helst eiga við í ljósi fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðsins (t.d. efnahag, landfræðilega legu eða gjaldmiðil) sem hlutfall af hreinum eignum; það hlutfall sem hver framangreindur fjárfestingaflokkur myndar í heildareign verðbréfasjóðs.
    Greinargerð um breytingar á samsetningu eignasafns á viðmiðunartímabili.
V.    Greinargerð um þróun mála er varða eignir verðbréfasjóðs á viðmiðunartímabilinu, þ.m.t. eftirfarandi:
    –    tekjur af fjárfestingum,
    –    aðrar tekjur,
    –    stjórnunarkostnaður,
    –    þóknun vörslufyrirtækis,
    –    annar kostnaður og skattar,
    –    hreinar tekjur,
    –    ráðstöfun tekna og endurfjárfesting,
    –    breytingar á fjármagnsreikningi,
    –    virðishækkun eða afskriftir fjárfestinga,
    –    aðrar breytingar sem hafa áhrif á eignir og skuldir verðbréfasjóðs,
    –    viðskiptakostnaður, sem er kostnaður sem verðbréfasjóðurinn stofnar til í tengslum við viðskipti með eignasafn sitt.
VI.     Samanburðartafla sem nær yfir þrjú næstliðin fjárhagsár og hefur að geyma, fyrir hvert fjárhagsár, við lok þess:
    –    heildarverðmæti hreinnar eignar,
    –    verðmæti hreinnar eignar fyrir hvert hlutdeildarskírteini.
VII.     Upplýsingar, sundurliðaðar eftir flokkum viðskipta í skilningi 51. gr. sem verðbréfasjóður hefur stundað á viðmiðunartímabilinu sem skýrsla tekur til, um fjárhæð skuldbindinga sem af þeim viðskiptum stafa.

II. VIÐAUKI
Verkefni sem felast í sameiginlegri stýringu eignasafns:

–    Fjárfestingarstýring.
–    Umsýsla:
    a)    lögfræðiþjónusta og bókhaldsþjónusta í tengslum við stjórnun sjóðsins,
    b)    fyrirspurnir viðskiptamanna,
    c)    mat og verðlagning (þ.m.t. skattframtal),
    d)    eftirlit með að reglum sé fylgt,
    e)    viðhald skrár yfir eigendur hlutdeildarskírteina,
    f)    tekjudreifing,
    g)    útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina,
    h)    uppgjör samninga (þ.m.t. sending vottorða),
    i)    skráning,
–    Markaðssetning.

III. VIÐAUKI
A-HLUTI
Niðurfelld tilskipun ásamt skrá yfir síðari breytingar hennar
(sem um getur í 117. gr.)

Tilskipun ráðsins 85/611/EBE
(Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3.)
Tilskipun ráðsins 88/220/EBE
(Stjtíð. EB L 100, 19.4.1988, bls. 31.)
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/26/EB
(Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7.)
Einungis ákvæði 1. gr. (fjórði undirliður), 7. mgr. 4. gr. og 5. gr. (fimmti undirliður)
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB
(Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27.)
Einungis 1. gr.
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB
(Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 20.)
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB
(Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 35.)
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB
(Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.)
Einungis 66. gr.
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB
(Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9.)
Einungis 9. gr.
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/18/EB
(Stjtíð. ESB L 76, 19.3.2008, bls. 42.)

B-HLUTI
Skrá yfir fresti til lögleiðingar og beitingar í aðildarríkjum
(sem um getur í 117. gr.)

Tilskipun Frestur til lögleiðingar Gildistökudagur
85/611/EBE 1. október 1989
88/220/EBE 1. október 1989
95/26/EB 18. júlí 1996
2000/64/EB 17. nóvember 2002
2001/107/EB 13. ágúst 2003 13. febrúar 2004
2001/108/EB 13. ágúst 2003 13. febrúar 2004
2004/39/EB 30. apríl 2006
2005/1/EB 13. maí 2005

IV. VIÐAUKI
Samsvörunartafla

Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 1. gr.
Inngangsorð 2. mgr. 1. gr. Inngangsorð 2. mgr. 1. gr.
Fyrsti og annar undirliður 2. mgr. 1. gr. a- og b-liður 2. mgr. 1. gr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 1. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 1. gr. Fyrsta undirgrein 3. mgr. 1. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 1. gr. a-liður annarrar undirgreinar 3. mgr. 1. gr.
b-liður annarrar undirgreinar 3. mgr. 1. gr.
4. til 7. mgr. 1. gr. 4. til 7. mgr. 1. gr.
Inngangsorð 8. mgr. 1. gr. Inngangsorð n-liðar 1. mgr. 2. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður 8. mgr. 1. gr. i., ii. og iii. liður n-liðar 1. mgr. 2. gr.
Lokasetning 8. mgr. 1. gr. 7. mgr. 2. gr.
9. mgr. 1. gr. o-liður 1. mgr. 2. gr.
Inngangsorð 1. gr. a Inngangsorð1. mgr. 2. gr.
1. liður 1. gr. a a-liður 1. mgr. 2. gr.
Fyrsti hluti setningar 2. liðar 1. gr. a b-liður 1. mgr. 2. gr.
Annar hluti setningar 2. liðar 1. gr. a 2. mgr. 2. gr.
3. til 5. liður 1. gr. a c- til e-liður 1. mgr. 2. gr.
6. liður 1. gr. a f-liður 1. mgr. 2. gr.
Fyrsti hluti setningar 7. liðar 1. gr. a g-liður 1. mgr. 2. gr.
Annar hluti setningar 7. liðar 1. gr. a 2. mgr. 3. gr.
8. til 9. liður 1. gr. a h- og i- liður 1. mgr. 2. gr.
Fyrsta undirgrein 10. liðar 1. gr. a j-liður 1. mgr. 2. gr.
Önnur undirgrein 10. liðar. 1. gr. a 5. mgr. 2. gr.
11. liður 1. gr. a
12. liður og fyrsta setning 13. liðar 1. gr. a i. og ii. liður 1. mgr. 2. gr.
Önnur setning 13. liðar. 1. gr. a a-liður 4. mgr. 2. gr.
14. liður og fyrsta setning 15. liðar 1. gr. a k- og l-liður 1. mgr. 2. gr.
Önnur setning 15. liðar. 1. gr. a 6. mgr. 2. gr.
m-liður 1. mgr. 2. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 2. gr. Inngangsorð 3. gr.
Fyrsti, annar, þriðji og fjórði undirliður 1. mgr. 2. gr. a-, b-, c- og d-liður 3. gr.
2. mgr. 2. gr.
3. gr. 4. gr.
1. og 2. mgr. 4. gr. 1. og 2. mgr. 5. gr.
3. mgr. 5. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 4. gr. a- og b-liður fyrsta undirliðar 4. mgr. 5. gr.
Önnur undirgrein 4. mgr. 5. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 4. gr. Þriðja undirgrein 4. mgr. 5. gr.
Þriðja undirgrein 3. mgr. 4. gr. fjórða undirgrein 4. mgr. 5. gr.
3. mgr. a í 4. gr. 5. mgr. 5. gr.
4. mgr. 4. gr. 6. mgr. 5. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
7. mgr. 5. gr.
1. og 2. mgr. 5. gr. 1. og 2. mgr. 6. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 3. mgr. 5. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 3. mgr. 6. gr.
a-liður fyrstu undirgreinar 3. mgr. 5. gr. a-liður fyrstu undirgreinar 3. mgr. 6. gr.
Inngangsorð b-liðar fyrstu undirgreinar 3. mgr. 5. gr. Inngangsorð b-liðar fyrstu undirgreinar 3. mgr. 6. gr.
Fyrsti og annar undirliður b-liðar í fyrstu undirgreinar 3. mgr. 5. gr. i. og ii. liður b-liðar í fyrstu undirgreinar 3. mgr. 6.gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 5. gr. Önnur undirgrein 3. mgr. 6. gr.
4. mgr. 5. gr. 4. mgr. 6. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 5. gr. a Inngangsorð 1. mgr. 7. gr.
Inngangsorð a-liðar 1. mgr. 5. gr. a Inngangsorð a-liðar 1. mgr. 7. gr.
Fyrsti undirliður a-liðar 1. mgr. 5. gr. a i. liður a-liðar 1. mgr. 7. gr.
Inngangsorð annars undirliðar í a-lið 1. mgr. 5. gr. a Inngangsorð ii. liðar a-liðar 1. mgr. 7. gr.
i., ii. og iii. liður annars undirliðar 1. mgr. 5. gr. a Fyrsti, annar og þriðji undirliður ii. liðar a-liðar 1. mgr. 7. gr.
Þriðji og fjórði undirliður a-liðar 1. mgr. 5. gr. a iii. liður a-liðar 1. mgr. 7. gr.
Fimmti undirliður a-liðar 1. mgr. 5. gr. a
b- til d-liður 1. mgr. 5. gr. a b- til d-liður 1. mgr. 7. gr.
2. til 5. mgr. 5. gr. a 2. til 5. mgr. 7. gr.
5. gr. b 8. gr.
5. gr. c 9. gr.
5. gr. d 10. gr.
5. gr. e 11. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 5. gr. f Fyrsta undirgrein 1. mgr. 12. gr.
a-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 5. gr. f a-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 12. gr.
Fyrsta setning b-liðar annarrar undirgreinar 1. mgr. 5. gr. f b-liður annarrar undirgreinar 1. mgr. 12. gr.
Síðasta setning b-liðar annarrar undirgreinar 1. mgr. 5. gr. f
Inngangsorð 2. mgr. 5. gr. f Inngangsorð 2. mgr. 12. gr.
Fyrsti og annar undirliður 2. mgr. 5. gr. f a- og b-liður 2. mgr. 12. gr.
3. mgr. 12. gr.
5. gr. g 13. gr.
5. gr. h 1. mgr. 14. gr.
2. mgr. 14. gr.
15. gr.
1. mgr. 6. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 16. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 16. gr.
2. mgr. 6. gr. 2. mgr. 16. gr.
3. mgr. 16. gr.
1. mgr. 6 gr. a 1. mgr. 17. gr.
2. mgr. 6. gr. a 2. mgr. 17. gr.
3. mgr. 6. gr. a Fyrsta og önnur undirgrein 3. mgr. 17. gr.
Þriðja undirgrein 3. mgr. 17. gr.
4. til 5. mgr. 17. gr.
4. til 6. mgr. 6. gr. a 6. til 8. mgr. 17. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
7. mgr. 6. gr. a Fyrsta undirgrein 9. mgr. 17. gr.
Önnur undirgrein 9. mgr. 17. gr.
1. mgr. 6. gr. b 1. mgr. 18. gr.
2. mgr. 6. gr. b Fyrsta og önnur undirgrein 2. mgr. 18. gr.
Þriðja undirgrein 2. mgr. 18. gr.
Fyrsta undirgrein 3. mgr. 6. gr. b Fjórða undirgrein 2. mgr. 18. gr.
Önnur undirgrein 3. mgr. 6. gr. b
3. mgr. 18. gr.
4. mgr. 6. gr. b 4. mgr. 18. gr.
5. mgr. 6. gr. b
19. til 20. gr.
1. mgr. 6. gr. c 1. mgr. 21. gr.
Fyrsta undirgrein 2. mgr. 6. gr. c
Önnur undirgrein 2. mgr. 6. gr. c Fyrsta og önnur undirgrein 2. mgr. 21. gr.
Þriðja undirgrein 2. mgr. 21. gr.
3. til 5. mgr. 6. gr. c 3. til 5. mgr. 21. gr.
6. mgr. 6. gr. c
7. til 10. mgr. 6. gr. c 6. til 9. mgr. 21. gr.
7. gr. 22. gr.
8. gr. 1. til 3. mgr. 23. gr.
4. til 6. mgr. 23. gr.
9. gr. 24. gr.
10. gr. 25. gr.
11. gr. 26. gr.
12. gr. Fyrsta og önnur undirgrein 27. gr.
Þriðja undirgrein 27. gr.
13. gr. 28. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 13. gr. a Fyrsta undirgrein 1. mgr. 29. gr.
Inngangsorð annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. a Inngangsorð annarar undirgreinar 1. mgr. 29. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 13. gr. a a-, b- og c-liður í annarri undirgrein 1. mgr. 29. gr.
Þriðja og fjórða undirgrein 1. mgr. 13. gr. a Þriðja og fjórða undirgrein 1. mgr. 29. gr.
2., 3. og 4. mgr. 13. gr. a 2., 3. og 4. mgr. 29. gr.
13. gr. b 30. gr.
13. gr. c 31. gr.
14. gr. 32. gr.
15. gr. 1. til 3. mgr. 33. gr.
4. til 6. mgr. 33. gr.
16. gr. 34. gr.
17. gr. 35. gr.
18. gr. 36. gr.
37. til 49. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 19. gr. Inngangsorð 1. mgr. 50. gr.
a- til c-liður. 1. mgr. 19. gr. a- til c-liður. 1. mgr. 50. gr.
Inngangsorð d-liðar 1. mgr. 19. gr. Inngangsorð d-liðar 1. mgr. 50. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
Fyrsti og annar undirliður d-liðar 1. mgr. 19. gr. i. og ii. liður d-liðar 1. mgr. 50. gr.
Inngangsorð e-liðar 1. mgr. 19. gr. Inngangsorð e-liðar 1. mgr. 50. gr.
Fyrsti, annar, þriðji og fjórði undirliður e-liðar 1. mgr. 19. gr. i., ii., iii. og iv. liður e-liðar 1. mgr. 50. gr.
f-liður 1. mgr. 19. gr. f-liður 1. mgr. 50. gr.
Inngangsorð g-liðar 1. mgr. 19. gr. Inngangsorð g-liðar 1. mgr. 50. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður g-liðar 1. mgr. 19. gr. i., ii. og iii. liður g-liðar 1. mgr. 50. gr.
Inngangsorð h-liðar 1. mgr. 19. gr. Inngangsorð h-liðar 1. mgr. 50. gr.
Fyrsti, annar, þriðji og fjórði undirliður h-liðar 1. mgr. 19. gr. i., ii., iii. og iv. liður h-liðar 1. mgr. 50. gr.
Inngangsorð 2. mgr. 19. gr. Inngangsorð 2. mgr. 50. gr.
a-liður 2. mgr. 19. gr. a-liður 2. mgr. 50. gr.
c-liður 2. mgr. 19. gr. b-liður 2. mgr. 50. gr.
d-liður 2. mgr. 19. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 50. gr.
19. mgr. 4. gr. 50. mgr. 3. gr.
1. til 3. mgr. 21. gr. 1. til 3. mgr. 51. gr.
4. mgr. 21. gr.
4. mgr. 51. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 22. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 52. gr.
Inngangsorð annarar undirgreinar 1. mgr. 22. gr. Inngangsorð annarar undirgreinar 1. mgr. 52. gr.
Fyrsti og annar undirliður annarrar undirgreinar 1. mgr. 22. gr. a- og b-liður annarrar undirgreinar í 1. mgr. 52. gr.
Fyrsta undirgrein 2. mgr. 22. gr. Fyrsta undirgrein 2. mgr. 52. gr.
Inngangsorð annarar undirgreinar 2. mgr. 22. gr. Inngangsorð annarar undirgreinar 2. mgr. 52. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður annarrar undirgreinar 2. mgr. 22. gr. a-, b- og c-liður í annarri undirgrein 2. mgr. 52. gr.
3. til 5. mgr. 22. gr. 3. til 5. mgr. 52. gr.
Inngangsorð1. mgr. 22. gr. a Inngangsorð 1. mgr. 53. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður 1. mgr. 22. gr. a a-, b- og c-liður 1. mgr. 53. gr.
2. mgr. 22. gr. a 2. mgr. 53. gr.
23. gr. 54. gr.
24. gr. 55. gr.
24. gr. a 70. gr.
1. mgr. 25. gr. 1. mgr. 56. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 2. mgr. 25. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 2. mgr. 56. gr.
Fyrsti, annar, þriðji og fjórði undirliður fyrstu undirgreinar 2. mgr. 25. gr. a-, b-, c- og d-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 56. gr.
Önnur undirgrein 2. mgr. 25. gr. Önnur undirgrein 2. mgr. 56. gr.
3. mgr. 25. gr. 3. mgr. 56. gr.
26. gr. 57. gr.
58. til 67. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 27. gr. Inngangsorð 1. mgr. 68. gr.
Fyrsti undirliður 1. mgr. 27. gr.
Annar, þriðji og fjórði undirliður 1. mgr. 27. gr. a-, b- og c-liður 1. mgr. 68. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
Inngangsorð 2. mgr. 27. gr. Inngangsorð 2. mgr. 68. gr.
Fyrsti og annar undirliður 2. mgr. 27. gr. a- og b-liður 2. mgr. 68. gr.
1. og 2. mgr. 28. gr. 1. og 2. mgr. 69. gr.
3. og 4. mgr. 28. gr.
5. og 6. mgr. 28. gr. 3. og 4. mgr. 69. gr.
29. gr. 71. gr.
30. gr. 72. gr.
31. gr. 73. gr.
32. gr. 74. gr.
Fyrsta undirgrein 1. mgr. 33. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 33. gr. 1. mgr. 75. gr.
2. mgr. 33. gr. 1. mgr. 75. gr.
3. mgr. 33. gr. 3. mgr. 75. gr.
4. mgr. 75. gr.
34. gr. 76. gr.
35. gr. 77. gr.
78. til 82. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 36. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 83. gr.
Fyrsti og annar undirliður fyrstu undirgreinar 1. mgr. 36. gr. a- og b-liður fyrstu undirgreinar í 1. mgr. 83. gr.
Lokaorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 36. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 83. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 36. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 83. gr.
2. mgr. 36. gr. 2. mgr. 83. gr.
37. gr. 84. gr.
38. gr. 85. gr.
39. gr. 86. gr.
40. gr. 87. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 41. gr. Inngangsorð 1. mgr. 88. gr.
Fyrsti og annar undirliður 1. mgr. 41. gr. a- og b-liður 1. mgr. 88. gr.
Lokasetning 1. mgr. 41. gr. Inngangsorð 1. mgr. 88. gr.
2. mgr. 41. gr. 2. mgr. 88. gr.
Inngangsorð 42. gr. Inngangsorð 89. gr.
Fyrsti og annar undirliður 42. gr. a- og b-liður 89. gr.
Lokasetning 42. gr. Inngangsorð 89. gr.
43. gr. 90. gr.
1. til 3. mgr. 44. gr.
1. til 4. mgr. 91. gr.
45. gr. 92. gr.
Inngangsorð fyrstu málsgreinar 46. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 93. gr.
Önnur undirgrein 1. mgr. 93. gr.
Fyrsti undirliður fyrstu málsgreinar 46. gr.
Annar, þriðji og fjórði undirliður fyrstu málsgreinar. 46. gr. a-liður 2. mgr. 93. gr.
Fimmti undirliður 1. mgr. 46. gr.
Önnur málsgrein 46. gr.
b-liður 2. mgr. 93. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
3. til 8. mgr. 93. gr.
47. gr. 94. gr.
95. gr.
48. gr. 96. gr.
1. til 3. mgr. 49. gr. 1. til 3. mgr. 97. gr.
4. mgr. 49. gr.
98. til 100. gr.
1. mgr. 50. gr. 1. mgr. 101. gr.
2. til 9. mgr. 101. gr.
2. til 4. mgr. 50. gr. 1. til 3. mgr. 102. gr.
Inngangsorð 5. mgr. 50. gr. Inngangsorð 4. mgr. 102. gr.
Fyrsti, annar, þriðji og fjórði undirliður 5. mgr. 50. gr. a-, b-, c- og d-liður 4. mgr. 102. gr.
Inngangsorð og a- og b-liður í 6. mgr. 50. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 5. mgr. 102. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður b-liðar 6. mgr. 50. gr. a-, b- og c-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 102. gr.
Lokasetning b-liðar 6. mgr. 50. gr. Önnur og þriðja undirgrein 5. mgr. 102. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 7. mgr. 50. gr. Inngangsorð 1. mgr. 103. gr.
Fyrsti og annar undirliður fyrstu undirgreinar 7. mgr. 50. gr. a- og b-liður 1. mgr. 103. gr.
Inngangsorð annarar undirgreinar 7. mgr. 50. gr. Inngangsorð 2. mgr. 103. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður annarrar undirgreinar 7. mgr. 50. gr. a-, b- og c-liður 2. mgr. 103. gr.
Þriðja undirgrein 7. mgr. 50. gr. 3. mgr. 103. gr.
Fyrsta undirgrein 8. mgr. 50. gr. 4. mgr. 103. gr.
Inngangsorð annarar undirgreinar 8. mgr. 50. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 5. mgr. 103. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður annarrar undirgreinar 8. mgr. 50. gr. a-, b- og c-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 103. gr.
Þriðja undirgrein 8. mgr. 50. gr. 6. mgr. 103. gr.
fjórða undirgrein 8. mgr. 50. gr. Önnur undirgrein 5. mgr. 103. gr.
Fimmta undirgrein 8. mgr. 50. gr. 7. mgr. 103. gr.
Sjötta undirgrein 8. mgr. 50. gr.
9. til 11. mgr. 50. gr. 1. til 3. mgr. 104. gr.
105. gr.
Inngangsorð 1. mgr. 50. gr. a Inngangsorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 106. gr.
Inngangsorð a-liðar 1. mgr. 50. gr. a Inngangsorð fyrstu undirgreinar 1. mgr. 106. gr.
Fyrsti, annar og þriðji undirliður 1. mgr. 50. gr. a a-, b- og c-liður í fyrstu undirgrein 1. mgr. 106. gr.
b-liður 1. mgr. 50. gr. a Önnur undirgrein 1. mgr. 106. gr.
2. mgr. 50. gr. a 2. mgr. 106. gr.
1. og 2. mgr. 51. gr. 1. og 2. mgr. 107. gr.
3. mgr. 107. gr.
1. mgr. 52. gr. Fyrsta undirgrein 1. mgr. 108. gr.
2. mgr. 52. gr. Önnur undirgrein 1. mgr. 108. gr.
3. mgr. 52. gr. 2. mgr. 108. gr.
3. til 6. mgr. 108. gr.
52. gr. a 1. og 2. mgr. 109. gr.
Tilskipun 85/611/EBE Þessi tilskipun
3. og 4. mgr. 109. gr.
1. mgr. 52. gr. b 1. mgr. 110. gr.
2. mgr. 52. gr. b
3. mgr. 52. gr. b 2. mgr. 110. gr.
53. gr. a 111. gr.
1. mgr. 53. gr. b 1. mgr. 112. gr.
2. mgr. 53. gr. b 2. mgr. 112. gr.
3. mgr. 112. gr.
54. gr. 1. mgr. 113. gr.
55. gr. 2. mgr. 113. gr.
1. mgr. 56. gr. 3. mgr. 113. gr.
2. mgr. 56. gr.
57. gr.
114. gr.
58. gr. 2. mgr. 116. gr.
115. gr.
1. mgr. 116. gr.
117. og 118. gr.
59. gr. 119. gr.
Fylgiskjöl A og B í I. viðauka, Fylgiskjöl A og B í I. viðauka,
Fylgiskjal C í I. viðauka,
II. viðauki II. viðauki
III. viðauki
IV. viðauki
Fylgiskjal III.


TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 2009/83/EB
frá 27. júlí 2009
um breytingu á tilteknum viðaukum við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB að því er varðar tæknileg ákvæði um áhættustýringu
(Texti sem varðar EES)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ), einkum l-lið 1. mgr. 150. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Til að tryggja samræmda framkvæmd og beitingu tilskipunar 2006/48/EB alls staðar innan Evrópusambandsins kom evrópska bankaeftirlitsnefndin á fót vinnuhópi (Hópur vegna lögleiðingar tilskipunar um eiginfjárkröfur – CRDTG) árið 2006 sem falið var það verkefni að fjalla um og leysa álitaefni í tengslum við framkvæmd og beitingu tilskipunarinnar. Samkvæmt vinnuhópnum þarf að tilgreina nánar viss tæknileg ákvæði, sem tiltekin eru í V., VI., VII., VIII., IX., X. og XII. viðauka tilskipunar 2006/48/EB, til þess að tryggja samleitni í beitingu þeirra. Auk þess eru tiltekin ákvæði ekki í samræmi við traustar áhættustýringaraðferðir lánastofnana. Af þeim sökum er rétt að leiðrétta þessi ákvæði.
2)          Til að tryggja að innri markaðnum sé að fullu komið á er nauðsynlegt að skýra hvernig lánastofnun getur sýnt fram á að um sé að ræða umtalsverða yfirfærslu á áhættu utan efnahagsreiknings hennar. Einnig er rétt að hækka breytistuðul lausafjárfyrirgreiðslu sem lánastofnanir veita utan efnahagsreiknings.
3)          Því ber að breyta tilskipun 2006/48/EB til samræmis við það.
4)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru í samræmi við álit evrópsku bankanefndarinnar.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 2006/48/EB er breytt sem hér segir:
1.     Í stað 8. liðar í V. viðauka komi eftirfarandi:
    „8.    Áhætta, sem verður til vegna verðbréfunarviðskipta, þar sem lánastofnanir eru fjárfestir, upphafs- eða aðildarlánastofnun, skal metin og dregið úr henni með viðeigandi stefnumörkun og verklagsreglum. Stefnumörkun og verklagsreglur þessar skulu einkum tryggja að efnahagslegt inntak viðskiptanna endurspeglist að fullu í áhættumati og stjórnunarákvörðunum.“,
2.    Ákvæðum 1. hluta VI. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    í stað inngangsorðanna í 29. lið komi eftirfarandi:
         „29.    Áhættukröfur gagnvart stofnunum með lengri eftirstöðvatíma en þrjá mánuði fram að gjalddaga sem hafa lánshæfismat frá tilnefndri utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun, skulu áhættuvegnar í samræmi við töflu 4, í samræmi við ákvörðun lögbærra yfirvalda um lánshæfismat viðurkenndra utanaðkomandi lánshæfismatsstofnana í sex þrepum á matskvarðanum fyrir lánshæfisgæði.“
    b)    í stað inngangsorðanna í 31. lið komi eftirfarandi:
         „31.    Áhættukröfur gagnvart stofnun með styttri eftirstöðvatíma en þrjá mánuði fram að gjalddaga sem hefur lánshæfismat frá tilnefndri utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun, skulu áhættuvegnar í samræmi við töflu 5, í samræmi við ákvörðun lögbærra yfirvalda um lánshæfismat viðurkenndra utanaðkomandi lánshæfismatsstofnana á sex þrepum á matskvarðanum fyrir lánshæfisgæði.“
    c)    Í stað 14. liðar komi eftirfarandi:
         „14.    ÁHÆTTUKRÖFUR GAGNVART STOFNUNUM OG FYRIRTÆKJUM MEÐ SKAMMTÍMALÁNSHÆFISMAT
    d)    í stað inngangsorðanna í 73. lið komi eftirfarandi:
         „73.    Áhættukröfur gagnvart stofnunum sem 29. til 32. liður eiga við um og áhættukröfur gagnvart fyrirtækjum sem hafa lánshæfismat til skamms tíma frá tilnefndri utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun skulu áhættuvegnar í samræmi við töflu 7, í samræmi við ákvörðun lögbærra yfirvalda um lánshæfismat viðurkenndra utanaðkomandi lánshæfismatsstofnana í sex þrepum á matskvarðanum fyrir lánshæfisgæði:“,
    e)    eftirfarandi 90. liður bætist við:
         „90.    Virði áhættukröfu vegna leigusamninga skal vera afvöxtuð lágmarksleigugreiðsla. „Lágmarksleigugreiðslur“ eru greiðslur á leigutímanum sem leigutakinn er eða getur verið krafinn um að greiða og öll vildarkjör (þ.e. að nokkuð víst sé að rétturinn verði nýttur). Allt tryggt hrakvirði, sem uppfyllir skilyrðin í 26., 27. og 28. lið 1. hluta VIII. viðauka, að því er varðar hæfi aðila sem veita vörn, ásamt lágmarkskröfunum um færslu annarra tegunda trygginga í 14. til 19. lið 2. hluta VIII. viðauka, skal einnig vera innifalið í lágmarksleigugreiðslum. Þessum áhættukröfum skal raðað á viðeigandi flokk áhættukröfu í samræmi við 79. gr. Sé áhættukrafan hrakvirði leigðra eigna skal reikna fjárhæðir áhættuveginna áhættukrafna þannig: 1/t * 100% * virði áhættukröfu þar sem t er hærra en 1 og sá fjöldi ára sem næstur er heilum árum af eftirstandandi leigu.“
3.    Ákvæðum 1. hluta VII. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 25. liðar komi eftirfarandi:
         „25.    Fjárhæð áhættuveginnar áhættukröfu skal vera hugsanlegt tap á hlutabréfaáhættu lánastofnunarinnar, sem er fengið með notkun innri vágildislíkana sem eru háð 99. hundraðshlutamarki miðað við einhliða öryggismörk munarins á ársfjórðungslegum skýrslum og viðkomandi áhættulausum vöxtum, reiknað á löngu úrtakstímabili, margfaldað með 12,5. Fjárhæð áhættuveginnar áhættukröfu á stigi hlutabréfasafns skal ekki vera lægri en summa lágmarksfjárhæða þeirra áhættuveginna áhættukrafna sem krafist er samkvæmt aðferðinni „líkur á vanefndum/tap að gefnum vanefndum“ (PD/LGD) og samsvarandi fjárhæða vænts taps, margfölduð með 12,5 og reiknuð á grundvelli virðislíkinda vanefnda, sem eru sett fram í 24. lið 2. hluta, og samsvarandi virðis taps að gefnum vanefndum sem sett er fram í 25. og 26. lið 2. hluta.“,
    b)    Í stað 27. liðar komi eftirfarandi:
         „27.    Fjárhæðir áhættuveginna áhættukrafna skulu reiknaðar í samræmi við eftirfarandi formúlu:
                Fjárhæð áhættuveginnar áhættukröfu = 100% * virði áhættukröfu, sé áhættukrafan hrakvirði leigðra eigna skal reikna fjárhæð hennar þannig:
                1/t * 100% * virði áhættukröfu,
                þar sem t er hærra gildi eftirfarandi: 1 eða næsti fjöldi heilla ára eftirstandandi leigu.“
4.    Ákvæðum 2. hluta VII. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi komi í stað c-liðar 13. liðar:
         „c)    Vegna áhættukrafna sem verða til vegna afleiðugerninga sem eru að öllu eða mestu leyti tryggðir (eins og lýst er í IV. viðauka) og lánveitinga sem eru tryggðar að öllu eða nær öllu leyti með veði í verðbréfum og háðar rammasamningi um skuldajöfnun skal M vera vegið meðaltal eftirstandandi binditíma viðskiptanna og skal M vera a.m.k. 10 dagar. Vegna endurhverfra viðskipta, verðbréfa- eða hrávörulánveitinga eða -lántöku samkvæmt rammasamningi um skuldajöfnun skal M vera vegið meðaltal eftirstandandi binditíma viðskiptanna og skal M vera a.m.k. 5 dagar. Fjárhæð sem liggur til grundvallar hverjum viðskiptum skal notuð sem vog á binditímann,“,
    b)    í stað inngangsorðanna í 14. lið komi eftirfarandi:
         „14.    Þrátt fyrir a-, b-, c-, d- og e-lið 13. liðar skal M vera a.m.k. einn dagur vegna:“
5.    Í 4. hluta VII. viðauka komi eftirfarandi í stað 96. liðar:
    „96.    Kröfurnar í 97.–104. lið skulu ekki gilda um tryggingar, sem stofnanir, ríkisstjórnir, seðlabankar og viðskiptafyrirtæki setja fram, sem uppfylla kröfurnar, sem mælt er fyrir um í g-lið 26. liðar í 1. hluta VIII. viðauka, ef lánastofnunin hefur fengið samþykki fyrir að beita reglunum í 78.–83. gr. vegna áhættukrafna gagnvart slíkum aðilum. Í þessu tilviki skulu kröfurnar í 90.–93. gr. gilda.“,
6.    Ákvæðum 1. hluta VIII. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í 9. lið bætist eftirfarandi undirliður við:
        „Takmarki fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sig ekki við fjárfestingu í gerningum sem eru hæf veð skv. 7. og 8. lið, má færa hlutdeild með verðmæti veðhæfra eigna sem tryggingu samkvæmt þeirri forsendu að fyrirtækið um sameiginlega fjárfestingu hafi fjárfest eins mikið og umboð þess leyfir í óveðhæfum eignum. Í þeim tilvikum þar sem óveðhæfar eignir geta haft neikvætt virði vegna skuldbindinga eða ábyrgðarskuldbindinga sem leiða af eignarhaldi reiknar lánastofnunin heildarvirði óveðhæfra eigna og lækkar virði veðhæfra eigna um virði óveðhæfra eigna, sé hið síðara með neikvæða samtölu.“,
    b)    Í 11. lið bætist eftirfarandi undirliður við:
        „Takmarki fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sig ekki við fjárfestingu í gerningum, sem eru hæf veð skv. 7. og 8. lið, og liðum, sem um getur í a-lið þessa liðar, má færa hlutdeild með verðmæti veðhæfra eigna sem tryggingu samkvæmt þeirri forsendu að fyrirtækið um sameiginlega fjárfestingu hafi fjárfest eins mikið og umboð þess leyfir í óveðhæfum eignum. Í tilvikum, þar sem óveðhæfar eignir geta haft neikvætt virði vegna skuldbindinga eða ábyrgðarskuldbindinga, sem leiða af eignarhaldi, reiknar lánastofnunin heildarvirði óveðhæfra eigna og lækkar virði veðhæfra eigna um virði óveðhæfra eigna, sé hið síðara með neikvæða samtölu.“,
7.    Ákvæðum 2. hluta VIII. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 13. liðar komi eftirfarandi:
        „13.    Uppfylla skal öll eftirfarandi skilyrði til að unnt sé að viðurkenna líftryggingarsamninga sem eru veðsettir lánastofnuninni sem veitir lánið:
                a)    líftryggingin er veðsett eða yfirfærð lánastofnuninni sem lánar,
                b)    fyrirtækið, sem veitir líftrygginguna, skal vera upplýst um veðsetninguna eða úthlutunina og þar af leiðandi ekki greiða hana út samkvæmt skilmálum hennar nema með samþykki lánastofnunarinnar sem lánar,
                c)    lánastofnun er heimilt að afturkalla trygginguna og taka við endurkaupsvirði komi til vanskila lántaka,
                d)    lánastofnunin, sem lánar, er upplýst um allar hugsanlegar vanefndir tryggingartaka varðandi innborganir samkvæmt tryggingarskilmálunum,
                e)    útlánavörnin gildir allan binditíma lánsins. Þegar því verður ekki viðkomið vegna loka tryggingatengsla áður en lánatengsl falla úr gildi, verður lánastofnun að sjá til þess að fjárhæðin, sem leidd er af tryggingarsamningi, gegni hlutverki tryggingar fyrir lánastofnun til loka lánssamningsins,
                f)    veðsetning eða framsal er lögmætt og aðfararhæft í öllum viðkomandi lögsögum við samþykki lánssamningsins,
                g)    félagið, sem veitir líftrygginguna, fastsetur endurkaupsvirðið og er ekki hægt að lækka það,
                h)    greiða skal endurkaupsvirðið fljótt upp þegar farið er fram á það,
                i)    ekki er hægt að fara fram á endurkaupsvirðið án samþykkis lánastofnunar,
                j)    félagið, sem veitir líftrygginguna, fellur undir tilskipun 2002/83/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/17/EB ( *) eða fellur undir eftirlit lögbærra yfirvalda þriðja lands þar sem eftirlits- og lagareglur eru að minnsta kosti jafnstrangar og þær sem stuðst er við í Bandalaginu.“
                

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. EB L 110, 20.4.2001, bls. 28.
    b)    í stað inngangsorðanna í 16. lið komi eftirfarandi:
        „16.    Ef áhættukrafa er varin með ábyrgð sem er í gagnábyrgð ríkisstjórna eða seðlabanka, héraðsstjórna eða staðaryfirvalda, opinberra aðila, þar sem farið er með kröfur sem kröfur á þær ríkisstjórnir sem stofnað er til í þeirra lögsögu, skv. 78.–83. gr., sem fjölþjóðlegra þróunarbanka eða alþjóðastofnana, sem gefin er 0% áhættuvog samkvæmt, eða með skírskotun til 78.–83. gr., eða opinberra aðila, kröfur sem farið er með sem kröfur á lánastofnanir, skv. 78.–83. gr., má fara með áhættukröfuna eins og hún sé varin með ábyrgð sem viðkomandi eining veitir, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:“,
8.    Ákvæðum 3. hluta VIII. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 24. liðar komi eftirfarandi:
        „24.    Einfalda aðferðin við fjárhagslegar tryggingar skal aðeins vera tiltæk þegar fjárhæðir áhættuveginna áhættukrafna eru reiknaðar í samræmi við 78.–83. gr. Lánastofnun getur ekki bæði notað einfalda aðferð fjárhagslegra trygginga og heildaraðferð fjárhagslegra trygginga, nema að því er varðar 1. mgr. 85. gr. og 1. mgr. 89. gr. Lánastofnanir skulu sýna lögbærum yfirvöldum fram á að beiting beggja aðferðanna í undantekningartilvikum sé ekki notuð á valvísan hátt í þeim tilgangi að draga úr lágmarkskröfum um eigið fé og hefur ekki í för með sér eftirlitshögnun (regulatory arbitrage).“,
    b)    Í stað 26. liðar komi eftirfarandi:
        „26.    Áhættuvog, sem væri notuð skv. 78.–83. gr. ef lánveitandinn hefði beina áhættukröfu í tryggingargerningi, skal notuð á þá hluta virðis áhættukrafnanna sem eru veðsettir með markaðsvirði viðurkenndrar tryggingar. Í því skyni skal virði áhættukröfu liðar utan efnahagsreiknings, sem skráður er í II. viðauka, vera 100% af virði hans, fremur en af virði áhættukröfunnar sem um getur í 1. mgr. 78. gr. Áhættuvog veðsetts hluta skal að lágmarki vera 20%, að undanskildu því sem tilgreint er í 27.–29. lið. Eftirstöðvar virðis áhættukröfu skulu hljóta þá áhættuvog sem væri beitt á ótryggða áhættukröfu gagnvart mótaðila skv. 78.–83. gr.“,
    c)    Í stað skilgreiningarinnar á breytunni „E“ í 33. lið komi eftirfarandi:
        „E er virði áhættukröfu, sem væri ákvarðað skv. 78.–83. gr. eða 84.–89. gr., eins og við á, ef áhættukrafan væri ekki veðsett. Í því skyni skulu fjárhæðir áhættukröfu í lið utan efnahagsreiknings, sem tilgreindur er í II. viðauka, vera 100% af virði hans fyrir lánastofnanir sem reikna áhættuvegnar fjárhæðir áhættukrafna skv. 78.–83. gr., fremur en virði áhættukrafna sem er tilgreint í 1. mgr. 78. gr., og fyrir lánastofnanir, sem reikna áhættuvegnar fjárhæðir áhættukrafna skv. 84.–89. gr., skal reikna áhættuvirði liða, sem tilgreindir eru í 9.–11. lið, 3. hluta, VII. viðauka með breytistuðlinum 100%, fremur en með breytistuðlum eða hlutföllum sem eru gefin upp í þessum liðum.“,
    d)    Eftirfarandi málsliður bætist við í 69. lið:
        „Í því skyni skal reikna virði áhættukröfu í liðum sem tilgreindir eru í 9., 10. og 11. lið í 3. hluta VII. viðauka með breytistuðli eða hlutfalli af 100%, fremur en með breytistuðlunum eða hlutföllunum sem eru tilgreind í þessum liðum.“,
    e)    Í stað 75. liðar komi eftirfarandi:
        „75.    Nýti lögbær yfirvöld í aðildarríki sér heimildina skv. 73. lið er lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki heimilt að leyfa lánastofnunum sínum að nota áhættuvogir sem eru heimilaðar skv. 73. lið að því er varðar áhættukröfur með veði í íbúðar- eða viðskiptahúsnæði á yfirráðasvæði fyrrverandi aðildarríkis sem fellur undir sömu skilyrði og eiga við í fyrrverandi aðildarríki.“,
    f)    Í stað 80. liðar komi eftirfarandi:
        „80.    Þegar skilyrðin, sem fram koma í 13. lið í 2. hluta, eru uppfyllt skal sá hluti veðsettrar áhættukröfu af gildandi endurkaupsvirði útlánavarnar sem fellur undir skilmála 24. liðar í 1. hluta vera annað af eftirfarandi:
                a)    í samræmi við áhættuvogir sem tilgreindar eru í lið 80a ef áhættukrafan er með fyrirvara um ákvæði 78.–83. gr.,
                b)    hluti úthlutaðs taps að gefnum 40% vanefndum, þar sem áhættan er með fyrirvara um ákvæði 84.–89. gr. en fellur ekki undir eigið mat lánastofnunar á tapi að gefnum vanefndum.
                Sé um misvægi gjaldmiðla að ræða skal lækka núverandi endurkaupsvirði skv. 84. lið svo að virði útlánavarnarinnar sé núverandi endurkaupsvirði líftryggingarsamningsins.“,
    g)    Eftirfarandi 80. lið a skal bætt við á eftir 80. lið:
        „80a.    Að því er varðar a-lið 80. liðar skal nota eftirfarandi áhættuvogir á grundvelli þeirrar áhættuvogar sem ótryggðar forgangskröfur félagsins nota sem veitir líftrygginguna:
                a)    áhættuvog 20%, þar sem ótryggðar forgangskröfur félagsins, sem veitir líftrygginguna, eru settar í 20% áhættuvog,
                b)    áhættuvog 35%, þar sem ótryggðar forgangskröfur félagsins, sem veitir líftrygginguna, eru settar í 50% áhættuvog,
                c)    áhættuvog 70%, þar sem ótryggðar forgangskröfur félagsins, sem veitir líftrygginguna, eru settar í 100% áhættuvog,
                d)    áhættuvog 150%, þar sem ótryggðar forgangskröfur félagsins, sem veitir líftrygginguna, eru settar í 150% áhættuvog.“,
    h)    Í stað 87. liðar komi eftirfarandi:
        „87.    Að því er varðar 80. gr. skal g vera áhættuvog sem nota þarf á áhættukröfu, ef virði áhættukröfunnar (E) er að fullu varið með ófjármagnaðri útlánavörn (G A), þar sem:
                E er virði áhættukröfu skv. 78. gr., að því er þetta varðar, skal virði áhættukröfunnar í lið utan efnahagsreiknings, sem skráð er í II. viðauka vera 100% af virði hennar, fremur en af virði áhættukröfu sem tilgreint er í 1. mgr. 78. gr.,
                g er áhættuvog áhættukröfu þess sem veitir gagnábyrgð, eins og tilgreint er skv. 78.–83. gr., og
                G A er virði G* eins og það er reiknað skv. 84. lið og leiðrétt enn frekar vegna misræmis í binditíma, eins og mælt er fyrir um í 4. hluta.“,
    i)    Í stað skilgreiningarinnar á breytunni „E“ í 88. lið komi eftirfarandi:
        „E er virði áhættukröfunnar samkvæmt 78. gr. Í þessum tilgangi skal virði áhættukröfu liðar utan efnahagsreiknings, sem er skráð í II. viðauka, vera 100% af virði hennar, fremur en af virði áhættukröfunnar sem um getur í 1. mgr. 78. gr.,“,
    j)    Í stað 90., 91. og 92. liðar komi eftirfarandi:
        „90.    Fyrir þann hluta sem virði áhættukröfunnar (E) tekur til (sem er byggt á leiðréttu virði útlánavarnar G A) geta líkur á vanskilum einstakra skuldara að því er 2. hluta VII. viðauka varðar verið líkur veitanda verndar á vanskilum einstakra skuldara eða líkur á vanskilum einstakra skuldara milli lántaka og ábyrgðaraðila sé ekki tekin ábyrgð á fullum skiptanleika. Sé um víkjandi áhættukröfu og ófjármagnaða vörn að ræða, sem ekki er víkjandi, skal tap að gefnum vanskilum skuldara, í skilningi 2. hluta VII. viðauka, vera það sem tengist forgangskröfum.
        91.    Fyrir þann hluta sem virði áhættukröfu (E) tekur ekki til skulu líkur á vanskilum einstakra skuldara vera líkur lántaka á vanskilum, en tap að gefnum vanskilum skuldara skal vera tap vegna þeirrar áhættu sem liggur til grundvallar.
        92.    G A er virði G* sem reiknað er skv. 84. lið og leiðrétt frekar vegna misræmis binditíma eins og mælt er fyrir um í 4. hluta. E er virði áhættukröfunnar skv. 3. hluta VII. viðauka. Að því er þetta varðar skal reikna virði áhættukröfu liða, sem fram koma í 9.–11. lið í 3. hluta VII. viðauka með breytistuðli eða hlutfalli af 100%, fremur en með breytistuðlum eða hlutföllum sem eru tilgreind í þessum liðum.“,
9.    Ákvæðum 2. hluta IX. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 1. lið:
        i.    Eftirfarandi komi í stað inngangsorðanna:
            „1.    Upphafslánastofnun hefðbundinnar verðbréfunar er heimilt að undanskilja verðbréfaðar áhættukröfur í útreikningi fjárhæða áhættuveginna áhættukrafna og fjárhæða vænts taps ef annað af eftirfarandi er uppfyllt:
                a)    talið er að umtalsverð lánsáhætta í tengslum við verðbréfaðar áhættukröfur hafi verið yfirfærð til þriðju aðila,
                b)    upphafslánastofnun beitir 1250% áhættuvog á allar verðbréfaðar stöður sem hún varðveitir í umræddri verðbréfun, eða dregur þessar verðbréfuðu stöður frá eigin sjóðum skv. r-lið 57. gr.“,
        ii.    eftirfarandi liðir 1a til 1d bætast við á eftir inngangsorðunum:
            „1a.    Hafi lögbær yfirvöld í sérstöku tilviki ákveðið að möguleg lækkun fjárhæða áhættuveginna áhættukrafna, sem upprunaleg lánastofnun gæti náð með þessari verðbréfun, verði ekki rökstudd með yfirfærslu samsvarandi lánsáhættu til þriðju aðila, skal tekið til athugunar að yfirfæra umtalsverða lánsáhættu í eftirfarandi tilvikum:
                    a)    áhættuvegnar fjárhæðir áhættukrafna þeirra verðbréfuðu millilagsstaðna, sem upphafleg lánastofnun varðveitir í þessari verðbréfun, eru ekki hærri en 50% af áhættuvegnum fjárhæðum áhættukrafna allra verðbréfaðra millilagsstaðna sem er að finna í þessari verðbréfun,
                    b)    ef engar verðbréfaðar millilagsstöður eru í tiltekinni verðbréfun og lánveitandi getur sýnt fram á að virði áhættukröfu verðbréfunarstaðna, sem væri háð frádrætti frá eigin tekjum eða með 1250% áhættuvog, væri umtalsvert hærra en viðunandi mat á væntu tapi á verðbréfunaráhættu, varðveitir lánastofnun lánveitanda ekki meira en 20% af áhættuvirði verðbréfunarstaðna sem væru háðar frádrætti frá eigin tekjum eða með 1250% áhættuvog.
            1b.    Að því er varðar lið 1a eru verðbréfaðar millilagsstöður þær verðbréfuðu stöður sem lægri áhættuvog en 1250% gildir um og sem hafa minni forgang en sú staða sem hefur mestan forgang í þessari verðbréfun og minni forgang en allar aðrar verðbréfaðar stöður í þessari verðbréfun sem:
                    a)    þegar um er að ræða verðbréfaða stöðu, sem fellur undir 6.–36. lið í 4. hluta, er úthlutað 1. lánshæfisgæðaþrepi eða
                    b)    þegar um er að ræða verðbréfaða stöðu, sem fellur undir 37.–76. lið í 4. hluta, er úthlutað 1. eða 2. lánshæfisgæðaþrepi skv. 3. hluta.
            1c.     Annar kostur, auk liða 1a og 1b, er að líta svo á að umtalsverð lánsáhætta hafi verið yfirfærð ef lögbær yfirvöld telja að lánastofnun hafi fullnægjandi stefnu og aðferðir sem tryggi að sú lækkun eiginfjárkröfu, sem lántaki getur náð með verðbréfun, sé rökstudd með samsvarandi yfirfærslu lánsáhættu til þriðju aðila. Lögbær yfirvöld skulu einungis telja þetta fullnægjandi ef upphafleg lánastofnun getur sýnt fram á að slík yfirfærsla lánsáhættu til þriðju aðila sé einnig viðurkennd í tengslum við innri áhættustýringu lánastofnunar og úthlutun hennar á innra fé.
            1d.    Til viðbótar við liði 1 til 1c skal eftirfarandi skilyrðum fullnægt:“,
    b)    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 2. lið:
        i.    Eftirfarandi komi í stað inngangsorðanna:
            „2.    Upphafslánastofnun gerviverðbréfunar (synthetic) er heimilt að reikna fjárhæðir áhættuveginna áhættukrafna og, þar sem við á, fjárhæðir vænts taps vegna verðbréfaðra áhættukrafna í samræmi við 3. og 4. lið, sé annað af eftirfarandi uppfyllt:
                a)    umtalsverð útlánaáhætta er talin hafa verið yfirfærð til þriðju aðila, annaðhvort með fjármagnaðri eða ófjármagnaðri útlánavörn,
                b)    upphafslánastofnun beitir 1250% áhættuvog á allar verðbréfaðar stöður, sem hún varðveitir í þessari verðbréfun, eða dregur þessar verðbréfuðu stöður frá eigin sjóðum skv. r-lið 57. gr.“,
        ii.    Eftirfarandi liðir 2a til 2d bætast við á eftir inngangsorðunum:
            „2a.    Hafi lögbær yfirvöld í sérstökum tilvikum ákveðið að möguleg lækkun fjárhæða áhættuveginna áhættukrafna, sem upprunaleg lánastofnun getur náð með þessari verðbréfun, byggist ekki á yfirfærslu samsvarandi lánsáhættu til þriðju aðila skal telja að umtalsverð lánsáhætta hafi verið yfirfærð ef annað eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
                    a)    áhættuvegnar fjárhæðir áhættukrafna verðbréfaðra millilagsstaðna sem upphafleg lánastofnun varðveitir í þessari verðbréfun eru ekki hærri en 50% af áhættuvog áhættufjárhæða allra verðbréfaðra millilagsstaðna sem fyrir hendi eru í þessari verðbréfun,
                    b)    ef engar verðbréfaðar millilagsstöður eru í tiltekinni verðbréfun og lánveitandi getur sýnt fram á að virði áhættukrafna verðbréfunarstaðna, sem væri háð frádrætti frá eigin tekjum eða með 1250% áhættuvog, væri umtalsvert hærra en viðunandi mat á væntu tapi á verðbréfunaráhættu, varðveitir lánastofnun lánveitanda ekki meira en 20% af áhættuvirði verðbréfunarstaðna, sem væru háðar frádrætti frá eigin tekjum, eða með 1250% áhættuvog.
            2b.    Að því er varðar lið 2a eru verðbréfaðar millilagsstöður þær verðbréfuðu stöður sem fá lægri áhættuvog en 1250% og hafa minni forgang en staðan í þessari verðbréfun sem hefur mestan forgang og minni forgang en verðbréfuð staða í þessari verðbréfun sem:
                    a)    þegar um verðbréfaða stöðu er að ræða, fellur undir 6.–36. lið í 4. hluta, er úthlutað 1. lánshæfisgæðaþrepi eða
                    b)    þegar um verðbréfaða stöðu er að ræða, fellur undir 37.–76. lið í 4. hluta, er úthlutað 1. eða 2. lánshæfisgæðaþrepi skv. 3. hluta.
            2c.     Annar kostur, auk liða 2a og 2b, er að líta svo á að umtalsverð lánsáhætta hafi verið yfirfærð ef lögbær yfirvöld telja að lánastofnun hafi fullnægjandi stefnu og aðferðir sem tryggi að sú lækkun eiginfjárkröfu sem lántaki getur náð með verðbréfun sé rökstudd með samsvarandi lánsáhættu til þriðju aðila. Lögbær yfirvöld skulu einungis telja þetta fullnægjandi ef upphafleg lánastofnun getur sýnt fram á að slík yfirfærsla lánsáhættu til þriðju aðila sé einnig viðurkennd í tengslum við innri áhættustýringu lánastofnunar og úthlutun hennar á innra fé.
            2d.    Auk þess skal flutningurinn uppfylla eftirfarandi skilyrði:“,
10.    Ákvæðum 4. hluta IX. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað inngangsorðanna í 13. mgr. komi eftirfarandi:
        „Þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt ákvarðast virði áhættukröfu með því að nota 50% umbreytingarstuðul á nafnverð lausafjárfyrirgreiðslu:“,
    b)    Liður 2.4.2 og 14. liður falli brott,
    c)    Ákvæði 48. liðar falli brott,
    d)    Liður 3.5.1 og 56. liður falli brott,
11.    Í 2. hluta X. viðauka komi eftirfarandi í stað 1. liðar:
    „1.    Reikna skal eiginfjárkröfu vegna rekstraráhættu sem þriggja ára meðaltal árlegra samtalna eiginfjárkrafna eftir viðskiptasviðunum sem um getur í töflu 2. Á hverju ári er hægt að jafna neikvæðar eiginfjárkröfur (sem verða til vegna neikvæðra, vergra tekna), á hvaða viðskiptasviði sem er, við jákvæðar eiginfjárkröfur á öðrum viðskiptasviðum án takmarkana. Sé samanlögð eiginfjárkrafa á öllum viðskiptasviðum innan ákveðins árs neikvæð skal virðið fyrir það ár sem notað er í útreikningunum vera núll.“,
12.    Ákvæðum 3. hluta X. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 14. liðar komi eftirfarandi:
        „14.    Lánastofnanir verða að vera færar um að kortleggja upplýsingar sínar um fengna reynslu af tapi inn á viðskiptasviðin, sem eru skilgreind í 2. hluta, og inn á atburðategundir, sem eru skilgreindar í 5. hluta, og veita lögbærum yfirvöldum þessar upplýsingar, óski þau eftir þeim. Tapatburðum, sem hafa áhrif á heila stofnun, skal úthluta á viðbótarviðskiptasviðið „fyrirtækisliðir“ í undantekningartilvikum. Skjalfesta þarf hlutlægar viðmiðanir vegna dreifingar á tapi á tilgreind viðskiptasvið og atburði. Tap rekstraráhættu, sem tengist lánsáhættu og hefur jafnan verið innifalið í innri gagnagrunni yfir lánsáhættu, verður að vera skráð í gagnagrunn yfir rekstraráhættu og tilgreint sérstaklega. Slíkt tap er ekki hluti af kostnaði vegna rekstraráhættu, svo fremi það sé áfram farið með það sem lánsáhættu í tengslum við útreikning á lágmarkskröfum um eigið fé. Tap vegna rekstraráhættu, sem tengist markaðsáhættu, skal vera innifalið í kröfum um eigið fé vegna rekstraráhættu.“,
    b)    Í stað 29. liðar komi eftirfarandi:
        „29.    Fjármagnstakmörkun sem leiðir af viðurkenningu trygginga og annarra aðferða við yfirfærslu áhættu má ekki vera hærri en 20% af eiginfjárkröfu vegna rekstraráhættu fyrir viðurkenningu aðferða við að draga úr útlánaáhættu.“,
13.    Í 10. lið 2. hluta XII. viðauka bætast eftirfarandi d- og e-liður við:
    „d)    hæsta gildi, lægsta gildi og meðalgildi daglegra mælinga vágildis (value-at-risk) á skýrslutímabilinu og mæling vágildis við lok tímabilsins,
    e)    samanburður daglegra mælinga vágildis við lok dags við eins dags breytingar á verðgildi verðbréfasafnsins við lok síðari viðskiptadags ásamt greiningu mikilvægra mælinga sem fara yfir mörk á skýrslutímabilinu.“,
14.    Í 3. hluta XII. viðauka komi eftirfarandi í stað 3. liðar:
    „3.    Lánastofnanir, sem nota aðferðina, sem er sett fram í 105. gr. við útreikninga á kröfum um eigið fé vegna rekstraráhættu, skulu birta lýsingu á notkun trygginga og annarra aðferða við yfirfærslu áhættu í því skyni að draga úr áhættunni.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. október 2010. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða og samsvörunartöflu milli viðkomandi ákvæða og þessarar tilskipunar.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 31. desember 2010.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel, 27. júlí 2009.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Charlie McCREEVY
framkvæmdastjóri.


Fylgiskjal IV.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/110/EB
frá 16. september 2009
um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr. og 95. gr. hans,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/ EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og eftirlit með þeim ( 4 ) var samþykkt til að bregðast við tilkomu nýs búnaðar fyrir rafrænar fyrirframgreiðslur og var ætlað að mynda skýran lagaramma til að styrkja innri markaðinn og tryggja um leið fullnægjandi stig varfærniseftirlits.
2)          Í greinargerð sinni um tilskipun 2000/46/EB lagði framkvæmdastjórnin áherslu á þörfina á að endurskoða tilskipunina þar sem sum ákvæði hennar voru talin hafa komið í veg fyrir tilkomu raunverulegs innri markaðar fyrir þjónustu með rafeyri og þróun slíkrar notendavænnar þjónustu.
3)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/ 64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðinum ( 5 ) var settur nútímalegur og samræmdur lagarammi um greiðsluþjónustu, þ.m.t. samræming á innlendum ákvæðum um varfærniseftirlit með nýjum flokki greiðslumiðlana, nánar tiltekið greiðslustofnunum.
4)          Með það að markmiði að afnema aðgangshindranir að markaði og stuðla að stofnun og rekstri viðskiptastarfsemi sem felst í útgáfu rafeyris, þarf að endurskoða reglurnar sem rafeyrisfyrirtæki eiga að lúta til að tryggja öllum greiðslumiðlunum jöfn samkeppnisskilyrði.
5)          Rétt þykir að takmarka beitingu þessarar tilskipunar við greiðslumiðlanir sem gefa út rafeyri. Þessi tilskipun gildir ekki um peningaleg verðmæti sem geymd eru í búnaði fyrir fyrirframgreiðslur og sem aðeins er ætlað að taka á sértækum þörfum á takmarkaðan hátt, þar sem handhafi rafeyrisins getur aðeins keypt vörur eða þjónustu fyrir þeirra tilstilli á athafnasvæði útgefanda rafeyrisins, eða innan afmarkaðs þjónustukerfis í beinu viðskiptasambandi við viðurkenndan útgefanda, eða þar sem aðeins er hægt að nota hann til að fá takmarkað úrval vöru og þjónustu. Búnaður telst notaður innan afmarkaðs þjónustukerfis ef aðeins er hægt að nota hann til að kaupa vörur eða þjónustu í tiltekinni verslun eða verslanakeðju, eða vegna þess að aðeins er hægt að nota hann til að fá takmarkað úrval vöru eða þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu greiðslustaðarins. Þessi búnaður getur tekið til viðskiptakorta, eldsneytiskorta, meðlimakorta, korta fyrir almenningssamgöngur, matarmiða eða miða vegna þjónustu (t.d. fyrir dagvistun barna, eða fyrir félagsleg kerfi eða þjónustukerfi sem notuð eru til að niðurgreiða laun starfsfólks sem annast húsverk, s.s þrif, straujun og garðvinnu), sem stundum falla undir sérstakan skatt eða lagaramma vinnumarkaðarins sem ætlað er að stuðla að notkun slíks búnaðar til að ná þeim markmiðum sem mælt er fyrir um í félagsmálalöggjöf. Ef slíkur búnaður með sérstakan tilgang þróast yfir í almennan búnað gildir undanþágan frá gildissviði þessarar tilskipunar ekki lengur. Búnaður sem hægt er að nota í verslunum skráðra kaupmanna er ekki undanþeginn gildissviði þessarar tilskipunar þar sem slíkur búnaður er venjulega notaður í sístækkandi kerfi þjónustuveitanda.
6)          Einnig þykir rétt að þessi tilskipun gildi ekki um peningaleg verðmæti sem notuð eru til að kaupa stafrænar vörur eða þjónustu ef rekstraraðilinn, með skírskotun til eðlis vörunnar eða þjónustunnar, eykur innra virði þeirra, t.d. með aðgangs-, leitar- eða miðlunarkerfi, að því tilskildu að aðeins sé hægt að nota þær vörur eða þjónustu sem um ræðir með stafrænum búnaði, t.d. farsíma eða tölvu, og að því tilskildu að rekstraraðili fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatækni sé ekki einvörðungu milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vöru og þjónustu. Hér gildir að áskrifandi að farsíma eða öðrum stafrænum kerfum greiðir rekstraraðila netkerfis beint og hvorki er um að ræða bein tengsl greiðslu né bein tengsl skuldara og lánardrottins milli áskrifanda netsins og þriðja aðila, sem er birgir, hvað varðar vörur eða þjónustu sem afhentar eru sem hluti af viðskiptunum.
7)          Það er við hæfi að taka upp skýra skilgreiningu á rafeyri til að gera hann tæknilega hlutlausan. Skilgreiningin skal taka til allra aðstæðna þar sem greiðslumiðlunin gefur út fyrirframgreidd geymd verðmæti í skiptum fyrir fjármuni sem nota má til greiðslu, þar sem þriðji aðili samþykkir slíka greiðslu.
8)          Skilgreiningin á rafeyri skal ná yfir rafeyri, hvort sem hann er geymdur í greiðslubúnaði í eigu handhafa rafeyrisins eða í fjargeymslu á netþjóni í umsjá hans gegnum sérstakan reikning fyrir rafeyri. Skilgreiningin skal vera nógu víð til að hún hindri ekki tækniþróun og skal ekki aðeins taka til alls rafeyrisbúnaðar sem völ er á nú á markaði heldur einnig búnaðar sem þróunin kann að hafa í för með sér.
9)          Varfærniseftirlitsreglur fyrir rafeyrisfyrirtæki skal endurskoða og samræma betur áhættunni sem þau standa frammi fyrir. Reglurnar skulu einnig samræmast varfærniseftirlitsreglunum sem gilda um greiðslufyrirtæki samkvæmt tilskipun 2007/64/EB. Í þessu tilliti skulu viðeigandi ákvæði tilskipunar 2007/64/EB gilda að breyttu breytanda um rafeyrisfyrirtæki, með fyrirvara um ákvæði þessarar tilskipunar. Vísun til „greiðslustofnunar“ í tilskipun 2007/64/ EB þarf því að lesa sem vísun til rafeyrisfyrirtækis, vísun til „greiðslumiðlunar“ þarf að lesa sem vísun til starfsemi greiðslumiðlana og útgáfu rafeyris, vísun til „notanda greiðslumiðlunar“ þarf að lesa sem vísun til notanda greiðslumiðlunar og handhafa rafeyris, vísun til „þessarar tilskipunar“ þarf að lesa sem vísun til tilvísunar 2007/64/EB og þessarar tilskipunar, vísun til II. bálks í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til II. bálks í tilskipun 2007/ 64/EB og II. bálks í þessari tilskipun, vísun til 6. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 4. gr. í þessari tilskipun, vísun til 1. mgr. 7. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 1. mgr. 5. gr. í þessari tilskipun, vísun til 2. mgr. 7. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 6. mgr. 5. gr. í þessari tilskipun, vísun til 8. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 2.–5. mgr. 5. gr. í þessari tilskipun, vísun til 9. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 7. gr. í þessari tilskipun, vísun til 1. mgr. 16. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til c- til e-liðar 1. mgr. 6. gr. í þessari tilskipun og vísun til 26. gr. í tilskipun 2007/64/EB þarf að lesa sem vísun til 9. gr. í þessari tilskipun.
10)          Viðurkennt er að rafeyrisfyrirtæki dreifa rafeyri, þ.m.t. með því að selja eða endurselja rafeyrisbúnað til almennings, búi með því til leið til að dreifa rafeyri til viðskiptavina, eða innleysa rafeyri að kröfu þeirra eða bæta á rafeyrisbúnað þeirra, í gegnum einstaklinga eða lögaðila fyrir þeirra hönd, í samræmi við kröfur sem viðskiptalíkön þeirra útheimta. Þrátt fyrir að rafeyrisfyrirtæki eiga ekki að hafa leyfi til að gefa út rafeyri með milligöngu umboðsmanna ætti þeim eigi að síður að vera heimilt að inna af hendi þá greiðsluþjónustu sem talin er upp í viðauka við tilskipun 2007/64/EB gegnum umboðsaðila, að uppfylltum skilyrðum í 17. gr. í þeirri tilskipun.
11)          Þörf er á reglum fyrir stofnfé auk bindingar fjármagns vegna starfsemi til að tryggja viðeigandi stig neytendaverndar og traustan og varkáran rekstur rafeyrisfyrirtækja. Þegar tekið er tillit til sérhæfni rafeyris skal kveða á um viðbótaraðferð við útreikning á bindingu fjármagns vegna starfsemi. Full gætni að því er varðar eftirlit skal viðhöfð til að tryggja að farið sé með sams konar áhættu á sama hátt hvað varðar allar greiðslumiðlanir, og að útreikningsaðferðin taki til sérstakra aðstæðna í viðskiptum í tilteknu rafeyrisfyrirtæki. Að auki skal gera ráðstafanir til að þess sé krafist af rafeyrisfyrirtækjum að þau haldi fjármunum handhafa rafeyris aðskildum frá fjármunum rafeyrisfyrirtækisins vegna annarrar starfsemi. Rafeyrisfyrirtæki skulu einnig falla undir skilvirkar kröfur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
12)          Rekstur greiðslukerfa er starfsemi sem er ekki einskorðuð við sérstaka flokka fyrirtækja. Mikilvægt er þó að viðurkenna að það gildir ekki aðeins um greiðslufyrirtæki heldur einnig rafeyrisfyrirtæki að þau geta starfrækt greiðslukerfi.
13)          Útgáfa rafeyris telst ekki innlánastarfsemi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ), með hliðsjón af sérkennum hans sem rafræns staðgengils fyrir mynt og peningaseðla, sem yfirleitt skal nota til greiðslu lágra fjárhæða og ekki í sparnaðarskyni. Rafeyrisfyrirtækjum skal ekki vera heimilt að veita lán af þeim fjármunum sem tekið er við eða sem geymdir eru í þeim tilgangi að gefa út rafeyri. Þá skal útgefendum rafeyris hvorki vera heimilt að greiða vexti né aðrar bætur, nema bæturnar tengist því ekki hversu lengi handhafi rafeyrisins sé handhafi rafeyris. Meðal skilyrða fyrir veitingu og viðhaldi starfsleyfis fyrir rafeyrisfyrirtæki skulu vera varfærniskröfur sem eru í réttu hlutfalli við rekstraráhættu og fjárhagslega áhættu sem fylgja starfsemi þess háttar fyrirtækja í tengslum við útgáfu rafeyris, óháð annarri viðskiptastarfsemi á vegum rafeyrisfyrirtækisins.
14)          Þó er nauðsynlegt að viðhalda jöfnum samkeppnisskilyrðum milli rafeyrisfyrirtækja og lánastofnana með tilliti til útgáfu rafeyris til að tryggja sanngjarna samkeppni fyrir sömu þjónustu milli fleiri fyrirtækja í þágu handhafa rafeyris. Þetta takmark á að nást með því að vega einfaldari sérkenni varfærniseftirlitsreglnanna, sem eiga við um rafeyrisfyrirtæki, móti ákvæðum sem eru strangari en þau sem gilda um lánastofnanir, einkum að því er varðar varðveislu fjármuna handhafa rafeyris. Vegna mikilvægis þess að varðveita fjármunina er nauðsynlegt að upplýsa lögbær yfirvöld fyrir fram um allar efnislegar breytingar, s.s. á varðveisluráðstöfunum, lánastofnunum þar sem varðir fjármunir eru varðveittir, eða á vátryggingafélögum eða lánastofnunum sem tryggja eða ábyrgjast fjármunina sem varðveittir eru.
15)          Reglur um útibú rafeyrisfyrirtækja sem hafa aðalskrifstofu sína í löndum utan Bandalagsins skulu vera hliðstæðar í öllum aðildarríkjum. Mikilvægt er að kveða á um að slíkar reglur séu ekki hagstæðari en þær sem gilda um útibú rafeyrisfyrirtækja sem hafa aðalskrifstofu sína í öðru aðildarríki. Bandalagið skal geta gert samninga við þriðju lönd sem gera ráð fyrir beitingu reglna sem veita útibúum rafeyrisfyrirtækja með aðalskrifstofu í löndum utan Bandalagsins sömu réttindi á yfirráðasvæðum þess. Útibú rafeyrisfyrirtækja með aðalskrifstofu í löndum utan Bandalagsins skulu hvorki njóta góðs af staðfesturétti skv. 43. gr. sáttmálans í öðrum aðildarríkjum en þeim þar sem þau hafa staðfestu né frelsi til að veita þjónustu skv. 2. málsgrein 49. gr. sáttmálans.
16)          Rétt er að leyfa aðildarríkjum að fella niður beitingu tiltekinna ákvæða þessarar tilskipunar að því er varðar fyrirtæki sem aðeins gefa út rafeyri í lágum fjárhæðum. Fyrirtæki sem njóta góðs af slíkri niðurfellingu skulu ekki eiga rétt á að beita staðfesturétti eða frelsi til að veita þjónustu, og þau skulu ekki beita þessum réttindum óbeint sem aðilar að greiðslukerfi. Þó er æskilegt að skrá upplýsingar um allar einingar sem veita rafeyrisþjónustu, þ.m.t. þær sem njóta góðs af niðurfellingu. Í því skyni skulu aðildarríkin færa þessar einingar í skrá um rafeyrisfyrirtæki.
17)          Af varfærnisástæðum skulu aðildarríki tryggja að einungis rafeyrisfyrirtæki sem til þess hafa starfsleyfi, eða sem njóta góðs af niðurfellingu í samræmi við þessa tilskipun, lánastofnanir með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2006/ 48/EB, póstgíróstofnanir sem landslög leyfa að gefi út rafeyri, stofnanir sem vísað er til í 2. gr. í tilskipun 2006/48/EB, Seðlabanki Evrópu, seðlabankar einstakra aðildarríkja þegar þeir koma ekki fram sem yfirvald í peningamálum eða önnur opinber yfirvöld og aðildarríki eða svæðisbundin eða staðbundin yfirvöld þeirra þegar þau gegna hlutverki opinberra yfirvalda, geti gefið út rafeyri.
18)          Rafeyrir þarf að vera innleysanlegur til að viðhalda trausti handhafa rafeyrisins á honum. Að rafeyrir sé innleysanlegur merkir ekki að líta beri á fjármuni, sem tekið er við í skiptum fyrir rafeyri, sem innlán eða aðra endurgreiðanlega fjármuni að því er varðar tilskipun 2006/ 48/EB. Innlausn skal vera möguleg hvenær sem er, á nafnverði og án möguleika á samkomulagi um lágmark fyrir innlausn. Innlausn skal að jafnaði vera ókeypis. Í tilvikum sem tilgreind eru í þessari tilskipun skal þó vera gerlegt að krefjast hlutfallslegs og kostnaðarmiðaðs gjalds með fyrirvara um innlenda löggjöf um skatta- eða félagsmál eða hvers konar skuldbindingar útgefanda rafeyrisins samkvæmt annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða aðildarríkja, s.s. varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, allar aðgerðir til að frysta fjármuni og hver önnur sérráðstöfun í tengslum við forvarnir og rannsóknir á glæpum.
19)          Handhafar rafeyris skulu hafa aðgang að kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar við lausn deilumála. Í þessu tilliti skulu viðeigandi ákvæði 5. kafla IV. bálks við tilskipun 2007/ 64/EB því gilda að breyttu breytanda í samhengi þessarar tilskipunar, með fyrirvara um ákvæði hennar. Vísun í „greiðslumiðlun“ í tilskipun 2007/64/EB þarf því að lesa sem vísun til útgefanda rafeyris, vísun í „notanda greiðsluþjónustu“ þarf að lesa sem vísun til handhafa rafeyris og vísun í III. og IV. bálk við tilskipun 2007/64/EB sem vísun í III. bálk við þessari tilskipun.
20)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
21)          Framkvæmdastjórninni skal einkum veitt umboð til að samþykkja framkvæmdarákvæði til að taka mið af verðbólgu eða tækniþróun og markaðsþróun og tryggja samleitna beitingu undanþáganna frá þessari tilskipun. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar verður að samþykkja þær í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með athugun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/ 468/EB.
22)          Endurskoða þarf skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar. Þess skal því krafist af framkvæmdastjórninni að hún leggi fram skýrslu þremur árum eftir að frestur til lögleiðingar þessarar tilskipunar rennur út. Aðildarríkin skulu láta framkvæmdastjórninni í té upplýsingar hvað varðar beitingu sumra ákvæða þessarar tilskipunar.
23)          Í þágu réttarvissu þarf bráðabirgðafyrirkomulag til að tryggja að rafeyrisfyrirtæki sem hafa hafið starfsemi sína í samræmi við landslög sem varðar lögleiðingu tilskipunar 2000/46/EB geti haldið áfram þessari starfsemi innan viðkomandi aðildarríkis í tilgreindan tíma. Sá tími skal ekki vera lengri hvað varðar rafeyrisfyrirtæki sem hafa notið góðs af undanþágunni í 8. gr. tilskipunar 2000/46/EB.
24)          Í þessari tilskipun er sett fram ný skilgreining á rafeyri en útgáfa á honum getur haft ávinning af frávikunum í 34. og 53. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB. Því skal breyta hinum einfölduðu reglum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna fyrir rafeyrisfyrirtæki samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB frá 26. október 2005 um að koma í veg fyrir notkun fjármálakerfisins til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka ( 2 ).
25)          Samkvæmt tilskipun 2006/48/EB er litið svo á að rafeyrisfyrirtæki séu lánastofnanir þó að þau geti hvorki tekið á móti innlánum né veitt fjármuni frá almenningi að láni. Miðað við reglurnar sem settar eru fram í þessari tilskipun er við hæfi að breyta skilgreiningunni á lánastofnun í tilskipun 2006/48/EB til að tryggja að ekki sé litið svo á að rafeyrisfyrirtæki séu lánastofnanir. Lánastofnunum skal þó áfram heimilt að gefa út rafeyri og annast þá starfsemi í öllu Bandalaginu, svo framarlega sem þær hafa hlotið gagnkvæma viðurkenningu og heyri undir heildarreglur um varfærniseftirlit í samræmi við löggjöf Bandalagsins á sviði bankastarfsemi. Til þess að viðhalda jöfnum samkeppnisskilyrðum skulu lánastofnanir þó á hinn bóginn geta annast þá starfsemi í gegnum dótturfyrirtæki samkvæmt reglum þessarar tilskipunar um varfærniseftirlit, frekar en samkvæmt tilskipun 2006/48/EB.
26)          Ákvæði þessarar tilskipunar koma í stað allra samsvarandi ákvæða í tilskipun 2000/46/EB. Því ber að fella tilskipun 2000/46/EB úr gildi.
27)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar vegna þess að það krefst samræmingar margra ólíkra reglna, sem gilda innan lagakerfa hinna ýmsu aðildarríkja, og markmiðin nást því betur á vettvangi Bandalagsins, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, sem mælt er fyrir um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
28)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær,
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. BÁLKUR
GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru settar reglur um rekstur starfsemi sem felst í að gefa út rafeyri, og skulu aðildarríkin í því skyni viðurkenna eftirfarandi flokka útgefanda rafeyris:
a)    lánastofnanir eins og þær eru skilgreindar í 1. lið 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, þ.m.t., í samræmi við landslög, útibú þeirra í merkingu 3. liðar 4. gr. í þeirri tilskipun, ef slíkt útibú er innan Bandalagsins og aðalskrifstofa þess er utan Bandalagsins, í samræmi við 38. gr. þeirrar tilskipunar,
b)    rafeyrisfyrirtæki eins og þau eru skilgreind í 1. lið 2. gr. þessarar tilskipunar, þ.m.t. í samræmi við 8. gr. þessarar tilskipunar og landslög, útibú þeirra ef slíkt útibú er innan Bandalagsins og aðalskrifstofa þess utan Bandalagsins,
c)    póstgíróstofnanir, sem hafa rétt samkvæmt landslögum til að gefa út rafeyri,
d)    Seðlabanki Evrópu og seðlabankar einstakra ríkja þegar þeir starfa ekki á eigin vegum sem yfirvald í peningamálum eða önnur opinber yfirvöld,
e)    aðildarríki eða svæðisbundin eða staðbundin yfirvöld þeirra, þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld.
2.     Í ákvæðum II. bálks þessarar tilskipunar er mælt fyrir um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim.
3.     Aðildarríkin geta undanþegið stofnanirnar, sem um getur í 2. gr. tilskipunar 2006/48/EB, frá öllum eða hluta ákvæða II. bálks þessarar tilskipunar, að undanskildum þeim sem um getur í fyrsta og öðrum undirlið þeirrar greinar.
4.     Þessi tilskipun gildir ekki um peningaleg verðmæti sem geymd eru í búnaði sem undanþágur gilda um eins og tilgreint er í k-lið 3. gr. í tilskipun 2007/ 64/EB.
5.     Þessi tilskipun gildir ekki um peningaleg verðmæti sem notuð eru fyrir greiðslur sem undanþágur gilda um eins og tilgreint er í 1. mgr. 3. gr. í tilskipun 2007/64/EB.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „rafeyrisfyrirtæki“: lögaðili sem hefur fengið starfsleyfi til að gefa út rafeyri skv. II. bálki,
2.    „rafeyrir“: geymd, peningaleg verðmæti á rafrænu formi, þ.m.t. á segulformi, sem krafa sem gefin er út á útgefandann við viðtöku fjármuna eins og þeir eru skilgreindir í 5. lið 4. gr. tilskipunar 2007/64/EB, og sem samþykktur er af einstaklingi eða lögaðila, öðrum en útgefanda rafeyrisins.
3.    „útgefandi rafeyris“: stofnanir sem um getur í 1. mgr. 1. gr., stofnanir sem njóta góðs af undanþágunni í 3. mgr. 1. gr. og lögaðilar sem njóta góðs af undanþágu í 9. gr.,
4.    „meðaltal útistandandi rafeyris“: meðaltal heildarfjárhæðar fjárskulda sem tengist rafeyri sem gefinn er út við lok hvers almanaksdags sex mánuði aftur í tímann, reiknað út fyrsta almanaksdag hvers almanaksmánaðar og sótt er um í þeim almanaksmánuði.

II. BÁLKUR
KRÖFUR UM STOFNUN OG REKSTUR RAFEYRISFYRIRTÆKJA OG VARFÆRNISEFTIRLIT MEÐ ÞEIM
3. gr.
Almennar varfærnisreglur

1.     Með fyrirvara um þessa tilskipun skulu 5. gr., 10.–15. gr., 7. mgr. 17. gr. og 18.–25. gr. tilskipunar 2007/64/EB gilda að breyttu breytanda um rafeyrisfyrirtæki.
2.     Rafeyrisfyrirtæki skulu tilkynna lögbærum yfirvöldum fyrir fram um breytingar sem máli skipta hvað varðar ráðstafanir til að varðveita fjármuni sem veitt hefur verið viðtaka í skiptum fyrir útgefinn rafeyri.
3.     Einstaklingur eða lögaðili sem hefur ákveðið að taka yfir eða ráðstafa, beint eða óbeint, virkri eignarhlutdeild, í merkingu 11. liðar 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, í rafeyrisfyrirtæki eða til að auka frekar eða draga úr, beint eða óbeint, þessari virku eignarhlutdeild svo að hlutfall hlutafjár eða atkvæðisréttar nemi, fari yfir eða fari undir 20%, 30% eða 50%, eða þannig að rafeyrisfyrirtæki yrði, eða hætti að vera, dótturfélag hans, skal tilkynna lögbærum yfirvöldum um fyrirætlan sína áður en kemur til slíkrar yfirtöku, sölu, aukningar eða minnkunar.
Hinn fyrirhugaði yfirtökuaðili skal veita lögbæru yfirvaldi upplýsingar um hve stórum hluta þeir hyggjast ráða yfir og viðeigandi upplýsingar sem getið er um í 4. mgr. 19. gr. a í tilskipun 2006/ 48/EB.
Ef líklegt er að áhrif þeirra aðila sem um getur í 2. undirlið hafi slæm áhrif á trausta og varfærna stjórnun fyrirtækis skuli lögbær yfirvöld láta andstöðu sína í ljós eða grípa til annarra viðeigandi ráðstafana til að binda enda á það ástand. Slíkar ráðstafanir geta tekið til lögbanns, refsiaðgerða gagnvart stjórnendum eða forstöðumönnum, eða sviptingar atkvæðisréttar sem fylgir hlutabréfum hluthafa eða aðila sem um ræðir.
Svipaðar ráðstafanir skulu gilda gagnvart einstaklingum og lögpersónum sem ekki standa við þá skuldbindingu að veita upplýsingar fyrir fram, svo sem kveðið er á um í þessari málsgrein.
Ef eignarhlutdeildar er aflað þrátt fyrir andstöðu lögbærra yfirvalda skulu þessi yfirvöld, óháð öðrum refsiaðgerðum sem gripið er til, sjá svo um að því sé frestað að viðkomandi fái að neyta atkvæðisréttar síns eða að greidd atkvæði séu ógild eða hægt sé að ógilda þau.
Aðildarríkjum er heimilt að fella niður, eða leyfa lögbærum yfirvöldum sínum að fella niður, beitingu skuldbindinganna, að hluta eða öllu leyti, samkvæmt þessari málsgrein hvað varðar rafeyrisfyrirtæki sem annast einhverja eða alla þá starfsemi sem talin er upp í e-lið 1. mgr. 6. gr.
4.     Aðildarríkin skulu leyfa rafeyrisfyrirtækjum að dreifa rafeyri og innleysa hann, gegnum einstaklinga eða lögaðila sem koma fram fyrir þeirra hönd. Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki, með því að ráða til þess slíkan einstakling eða lögaðila, skal hún fara að málsmeðferðinni sem sett er fram í 25. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB.
5.     Rafeyrisfyrirtæki skal ekki virkja umboðsaðila til að gefa út rafeyri þrátt fyrir 4. mgr. Rafeyrisfyrirtæki skal vera heimilt að veita greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. fyrir tilstilli umboðsaðila, en aðeins að uppfylltum skilyrðum í 17. gr. tilskipunar 2007/64/EB.

4. gr.
Stofnfé

Aðildarríki skulu krefjast þess að við viðtöku starfsleyfis eigi rafeyrisfyrirtæki stofnfé sem í eru þeir liðir sem settir eru fram í a- og b-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB og nemi a.m.k. 350.000 evrum.

5. gr.
Eigið fé

1.     Eigið fé rafeyrisfyrirtækis, eins og það er skilgreint í 57.–61. gr. og 63., 64. og 66. gr. tilskipunar 2006/48/EB, má ekki fara niður fyrir þá upphæð sem krafist er skv. 2.–5. mgr. þessarar gr. eða 4. gr. þessarar tilskipunar, eftir því hvor er hærri.
2.     Hvað varðar starfsemina sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. og tengist ekki útgáfu rafeyris skulu kröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækis reiknaðar í samræmi við eina af þremur aðferðum (A, B eða C) sem settar eru fram í 1. og 2. mgr. 8. gr. í tilskipun 2007/64/EB. Lögbær yfirvöld skulu ákvarða viðeigandi aðferðir í samræmi við landslög.
Hvað varðar starfsemi sem tengist útgáfu rafeyris skal reikna kröfur um eigið fé rafeyrisfyrirtækis í samræmi við aðferð D eins og hún er sett fram í 3. mgr.
Rafeyrisfyrirtæki skulu ávallt hafa yfir að ráða eigin fé sem er að minnsta kosti jafnt summu krafnanna sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein.
3.     Aðferð D: Eigið fé rafeyrisfyrirtækis hvað varðar starfsemina sem tengist útgáfu rafeyris skal nema 2% hið minnsta af meðaltali útistandandi rafeyris.
4.     Ef rafeyrisfyrirtæki stundar einhverja af þeirri stafsemi sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. og tengist hvorki útgáfu rafeyris né neinnar þeirrar starfsemi sem um getur í b-lið til e-lið 1. mgr. 6. gr. og fjárhæð útistandandi rafeyris er ekki þekkt fyrir fram skulu lögbær yfirvöld heimila rafeyrisfyrirtækjum að reikna út kröfur um eigið fé á grundvelli dæmigerðs hlutar sem talið er að verði notaður til að gefa út rafeyri, að því tilskildu að hægt sé að meta slíkan dæmigerðan hlut með góðu móti á grundvelli sögulegra gagna og með þeim hætti að lögbær yfirvöld samþykki. Ef rafeyrisfyrirtæki hefur ekki starfað í nægilega langan tíma skulu kröfur til þess um eigið fé reiknaðar á grundvelli áætlaðs útistandandi rafeyris eins og fram kemur í viðskiptaáætlun þess, með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem lögbær yfirvöld kunna að hafa óskað eftir.
5.     Lögbær yfirvöld geta, á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, áhættutapsferlum, áhættugagnagrunns og innri eftirlitskerfum rafeyrisfyrirtækis gert kröfu um að eigið fé rafeyrisfyrirtækisins sé allt að 20% hærra en fjárhæðin sem gæti leitt af beitingu aðferðarinnar sem er valin í samræmi við 2. mgr., eða heimilað rafeyrisfyrirtækinu að fjárhæð eigin fjár sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem myndi leiða af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 2. mgr.
6.     Aðildarríki skulu grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir endurtekna notkun þátta sem geta talist til eigin fjár:
a)    ef rafeyrisfyrirtæki tilheyrir sömu samstæðu og annað rafeyrisfyrirtæki, lánastofnun, greiðslustofnun, fjárfestingarfyrirtæki, eignastýringafyrirtæki eða trygginga- eða endurtryggingafélag,
b)    ef rafeyrisfyrirtæki annast aðra starfsemi en útgáfu rafeyris
7.     Ef skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 69. gr. tilskipunar 2006/48/EB, eru uppfyllt geta aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra valið að beita ekki 2. og 3. gr. þessarar tilskipunar gagnvart rafeyrisfyrirtækjum sem falla undir samstæðueftirlit móðurlánastofnunar samkvæmt tilskipun 2006/48/EB.

6. gr.
Starfsemi

1.     Rafeyrisfyrirtækjum er heimilt, auk útgáfu rafeyris, að annast eftirfarandi starfsemi:
a)    veitingu greiðsluþjónustu sem talin er upp í viðauka við tilskipun 2007/64/EB,
b)    lánveitingar í tengslum við greiðsluþjónustu sem um getur í 4., 5. og 7. lið í viðauka við tilskipun 2007/64/EB, ef skilyrðin í 3. og 5. mgr. 16. gr. við þá tilskipun eru uppfyllt,
c)    veitingu rekstrarþjónustu og nátengda stoðþjónustu hvað varðar útgáfu rafeyris eða veitingu greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið,
d)    rekstur greiðslukerfa eins og þau eru skilgreind í 6. lið 4. gr. í tilskipun 2007/64/EB og án þess að hafa áhrif á 28. gr. við þá tilskipun,
e)    aðra starfsemi en útgáfu rafeyris, með hliðsjón af viðeigandi lögum Bandalagsins og landslögum einstakra ríkja.
Lán sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar skulu ekki veitt af þeim fjármunum sem tekið er við í skiptum fyrir útgefinn rafeyri og eru varðveitt í samræmi við 1. mgr. 7. gr.
2.     Rafeyrisfyrirtæki skulu ekki taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi 5. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
3.     Öllum fjármunum sem rafeyrisfyrirtæki taka við frá handhöfum rafeyris skal skipt fyrir rafeyri án tafar. Rafeyrisfyrirtæki skulu ekki taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi 5. gr. í tilskipun 2006/48/EB.
4.     Ákvæði 2. og 4. mgr. 16. gr. í tilskipun 2007/64/ EB skulu gilda um fjármuni sem veitt er viðtaka fyrir starfsemi sem um getur í a-lið 1. gr. og tengjast ekki útgáfu rafeyris.

7. gr.
Kröfur um varðveislu fjármuna

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að rafeyrisfyrirtæki varðveiti þá fjármuni sem veitt hefur verið viðtaka í skiptum fyrir rafeyri sem gefinn hefur verið út í samræmi við 1. og 2. mgr. 9. gr. í tilskipun 2007/ 64/EB. Ekki þarf að varðveita fjármuni, sem tekið er við sem greiðslu með greiðslumiðli, fyrr en þeir eru færðir sem tekjur á greiðslureikning rafeyrisfyrirtækisins eða þeir eru gerðir aðgengilegir rafeyrisfyrirtækinu í samræmi við kröfur um framkvæmdartíma sem mælt er fyrir um í tilskipun 2007/64/EB þar sem það á við. Hvað sem öðru líður skulu slíkir fjármunir varðveittir eigi síðar en fimm virkum dögum síðar, eins og þeir eru skilgreindir í 27. lið 4. gr. í þeirri tilskipun, eftir útgáfu rafeyris.
2.     Að því er varðar 1. mgr., eru öruggar, áhættulitlar eignir eignaliðir sem falla undir einn af flokkunum sem settir eru fram í töflu 1 í 14. lið í I. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB frá 14. júní 2006 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( 1 ) þar sem gjald fyrir tiltekið áhættufjármagn er 1,6% að hámarki, að undanskildum öðrum fullgildum liðum eins og þeir eru skilgreindir í 15. lið þess viðauka.
Að því er varðar 1. mgr. eru öruggar, áhættulitlar eignir líka eignaliðir í verðbréfasjóðum (UCITS) sem fjárfesta eingöngu í eignum sem tilgreindar eru í fyrstu undirgrein.
Í undantekningartilvikum og með nægilegum rökum er lögbærum yfirvöldum heimilt, á grundvelli mats á öryggi, binditíma, virði eða öðrum áhættuþáttum eignanna sem tilgreindar eru í fyrstu eða annarri undirgrein, að ákvarða hverjar þessara eigna eru ekki öruggar og áhættulitlar eignir að því er varðar 1. mgr.
3.     Ákvæði 9. gr. í tilskipun 2007/64/EB skulu gilda um rafeyrisfyrirtæki að því er varðar starfsemi sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. þessarar tilskipunar og tengist ekki útgáfu rafeyris.
4.     Að því er varðar 1. og 3. mgr. geta aðildarríki eða lögbær yfirvöld þeirra ákveðið, í samræmi við landslög, hvaða aðferðum rafeyrisfyrirtæki skuli beita til að varðveita fjármuni.

8. gr.
Tengsl við þriðju lönd

1.     Aðildarríkin skulu ekki beita ákvæðum gagnvart útibúi rafeyrisfyrirtækis með aðalskrifstofu utan Bandalagsins, hvort heldur er við stofnun þess eða rekstur, sem fela í sér hagstæðari kjör en veitt eru rafeyrisfyrirtæki með aðalskrifstofur sínar innan Bandalagsins.
2.     Lögbær yfirvöld skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um öll starfsleyfi sem veitt eru útibúum rafeyrisfyrirtækja með aðalskrifstofur utan Bandalagsins.
3.     Með fyrirvara um 1. mgr. er Bandalaginu heimilt, með samningum sem gerðir eru við eitt eða fleiri þriðju lönd, að samþykkja að beita ákvæðum sem veita útibúum rafeyrisfyrirtækja, sem hafa aðalskrifstofur sínar utan Bandalagsins, jafngild réttindi á öllu yfirráðasvæði Bandalagsins.

9. gr.
Valfrjálsar undanþágur

1.     Aðildarríkjum er heimilt að fella niður, eða leyfa lögbærum yfirvöldum sínum að fella niður málsmeðferðir og skilyrði, að hluta eða öllu leyti, sem sett eru fram í 3., 4., 5. og 7. gr. þessarar tilskipunar, að undanskildum 20., 22., 23. og 24. gr. tilskipunar 2007/64/EB, og heimilað að lögaðilar séu færðir í skrá um rafeyrisfyrirtæki ef báðum eftirfarandi kröfum er fullnægt:
a)    starfsemin í heild skapar að meðaltali útistandandi fjárhæð rafeyris sem fer ekki yfir þau mörk sem aðildarríkið tiltekur, en sem í engum tilfellum nemur hærri fjárhæð en 5.000.000 evrum, og
b)    enginn þeirra einstaklinga, sem ábyrgir eru fyrir stjórn eða rekstri fyrirtækisins, hafi verið dæmdur fyrir brot sem tengjast peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eða öðrum fjármálaglæpum.
Ef rafeyrisfyrirtæki stundar einhverja af þeirri starfsemi sem um getur í a-lið 1. mgr. 6. gr. og tengist hvorki útgáfu rafeyris né neinni þeirri starfsemi sem um getur í b- til e-lið 1. mgr. 6. gr. og fjárhæð útistandandi rafeyris er óþekkt fyrir fram skulu lögbær yfirvöld heimila rafeyrisfyrirtækjum að beita ákvæðum a-liðar fyrstu undirgreinar á grundvelli dæmigerðs hlutar sem talið er að verði notaður til að gefa út rafeyri, að því tilskildu að hægt sé að meta slíkan dæmigerðan hlut með góðu móti á grundvelli sögulegra gagna og með þeim hætti að lögbær yfirvöld samþykki. Ef rafeyrisfyrirtæki hefur ekki starfað í nægilega langan tíma skal sú krafa metin á grundvelli áætlaðs útistandandi rafeyris eins og fram kemur í viðskiptaáætlun þess, með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem lögbær yfirvöld kunna að hafa óskað eftir.
Aðildarríkin geta einnig kveðið á um að valfrjálsar undanþágur, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, séu háðar viðbótarkröfum um hámarksfjárhæð til geymslu á greiðslumiðlinum eða á greiðslureikningi neytanda þar sem rafeyririnn er geymdur.
Lögaðili, sem skráður er í samræmi við þessa grein, getur aðeins veitt greiðsluþjónustu sem tengist ekki rafeyri sem gefinn er út í samræmi við þessa grein, að uppfylltum skilyrðum í 26. gr. tilskipunar 2007/ 64/EB.
2.     Gera skal kröfu um að lögaðili, sem skráður er í samræmi við 1. mgr., hafi aðalskrifstofu í aðildarríkinu þar sem reksturinn fer í reynd fram.
3.     Farið skal með lögaðila sem skráður er í samræmi við 1. gr. sem rafeyrisfyrirtæki. Þó skulu 9. mgr. 10. gr. og 25. gr. tilskipunar 2007/64/EB ekki gilda um hann.
4.     Aðildarríki geta kveðið á um að lögaðili, sem skráður er í samræmi við 1. mgr., geti aðeins tekið þátt í hluta þeirrar starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 6. gr.
5.     Lögaðili sem um getur í 1. gr. skal:
a)    tilkynna lögbærum yfirvöldum um allar breytingar á eigin aðstæðum sem skipta máli hvað varðar skilyrðin sem tiltekin eru í 1. gr., og
b)    gera grein fyrir meðaltali útistandandi rafeyris a.m.k. árlega, á þeim degi sem lögbær yfirvöld tilgreina.
6.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að viðkomandi lögaðili sæki um starfsleyfi innan 30 almanaksdaga í samræmi við 3. gr. ef skilyrðin, sem sett eru fram í 1., 2. og 4. mgr., eru ekki lengur uppfyllt. Þeim lögaðilum, sem ekki hafa sótt um starfsleyfi innan þess tíma, skal bannað að gefa út rafeyri, í samræmi við 10. gr.
7.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld sín hafi fullnægjandi valdheimildir til að sannreyna að áfram sé farið að kröfum þeim sem mælt er fyrir um í þessari grein.
8.     Þessi grein gildir ekki að því er varðar ákvæðin í tilskipun 2005/60/EB eða landsbundin ákvæði einstakra aðildarríkja gegn peningaþvætti.
9.     Ef aðildarríki nýtir sér undanþáguna sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það eigi síðar en 30. apríl 2011. Aðildarríkið skal þegar í stað tilkynna framkvæmdastjórninni um síðari breytingar. Auk þess skal aðildarríkið tilkynna framkvæmdastjórninni um fjölda lögaðila og, á ársgrundvelli, um heildarfjárhæð útgefins útistandandi rafeyris 31. desember á hverju almanaksári eins og um getur í 1. mgr.

III. BÁLKUR
ÚTGÁFA RAFEYRIS OG MÖGULEIKI Á INNLAUSN
10. gr.
Bann við útgáfu rafeyris

Með fyrirvara um 18. gr. skulu aðildarríkin banna einstaklingum eða lögaðilum, sem eru ekki útgefendur rafeyris, að gefa út rafeyri.

11. gr.
Útgáfa og möguleiki á innlausn

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að útgefendur rafeyris gefi út rafeyri á nafnverði þegar tekið er við fjármunum.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að útgefendur rafeyris innleysi, hvenær sem er og á nafnverði, peningaleg verðmæti rafeyris í þeirra vörslu að kröfu handhafa rafeyrisins.
3.     Í samningnum milli útgefanda rafeyris og handhafa skal, á greinilegan og áberandi hátt, tilgreina skilyrði fyrir innlausn, þ.m.t. allar tengdar þóknanir, og skal handhafi rafeyrisins upplýstur um þessi skilyrði áður en samningur eða tilboð verða bindandi fyrir hann.
4.     Aðeins má taka þóknun fyrir innlausn ef það er tilgreint í samningnum í samræmi við 3. mgr. og aðeins í eftirfarandi tilvikum:
a)    ef gerð er krafa um innlausn fyrir lok samningsins,
b)    ef samningurinn kveður á um daginn sem hann fellur úr gildi og handhafi rafeyrisins segir samningnum upp fyrir þann dag, eða
c)    ef innlausnar er krafist meira en ári eftir daginn sem samningurinn féll úr gildi.
Allar slíkar þóknanir skulu vera hóflegar og í réttu hlutfalli við raunverulegan kostnað sem útgefandi rafeyrisins stofnar til.
5.     Ef innlausnar er krafist áður en samningurinn fellur úr gildi getur handhafi rafeyrisins krafist innlausnar hans í heild eða að hluta.
6.     Ef handhafi rafeyrisins krefst innlausnar allt að ári eftir að samningurinn fellur úr gildi:
a)    skal samtala peningalegs verðmætis rafeyrisins innleyst, eða
b)    skal innleysa alla þá fjármuni sem handhafi rafeyrisins krefst, ef rafeyrisfyrirtæki stundar einhverja eða alla þá starfsemi sem skráð er í e-lið 1. mgr. 6. gr. og ekki er vitað fyrir fram hvaða hlutfall fjármuna á að nota sem rafeyri,
7.     Þrátt fyrir 4., 5. og 6. mgr. skal réttur aðila til innlausnar, annarra en neytanda sem tekur við rafeyri, lúta samningsbundnu samkomulagi milli útgefanda rafeyrisins og þess aðila.

12. gr.
Bann við vöxtum

Aðildarríkin skulu banna að veittar séu þóknanir eða aðrar bætur vegna þess tíma sem handhafi rafeyris hefur þá með höndum.

13. gr.
Kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar fyrir lausn deilumála

Með fyrirvara um þessa tilskipun skal 5. kafli í IV. bálki tilskipunar 2007/64/EB gilda að breyttu breytanda um útgefendur rafeyris að því er varðar skyldur þeirra sem leiða af þessum bálki.

IV. BÁLKUR
LOKAÁKVÆÐI OG FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR
14. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

1.     Framkvæmdastjórnin getur samþykkt ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að uppfæra ákvæði þessarar tilskipunar til að hafa hliðsjón af verðbólgu eða tækni- og markaðsþróun. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, skulu samþykktar í samræmi við þá stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 2. mgr. 15. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja ráðstafanir til að tryggja samleitni í beitingu undanþáganna sem um getur í 4. og 5. mgr. 1. gr. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, skulu samþykktar í samræmi við þá stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 2. mgr. 15. gr.

15. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar greiðslunefndarinnar sem komið er á fót í samræmi við 85. gr. tilskipunar 2007/64/EB.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/ 468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

16. gr.
Full samhæfing

1.     Með fyrirvara um 1. gr. (3. mgr.), 3. gr. (6. undirgrein 3. mgr. ), 5. gr. (7. mgr.), 7. gr. (4. mgr.), 9. gr. og 18. gr. (2. mgr.), og að því marki sem þessi tilskipun felur í sér samhæfingu, skulu aðildarríkin ekki viðhalda eða taka upp önnur ákvæði en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að útgefandi rafeyris víki ekki frá ákvæðum landslaga, þannig að það skaði handhafa rafeyris, að því er varðar framkvæmd og samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar nema sérstaklega sé kveðið á um það í henni.

17. gr.
Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. nóvember 2012, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna og Evrópska seðlabankann um framkvæmd þessarar tilskipunar og áhrif hennar, einkum að því er varðar varfærniskröfur vegna rafeyrisfyrirtækja, ásamt tillögu um endurskoðun hennar, eftir því sem við á.

18. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Aðildarríkin skulu heimila rafeyrisfyrirtækjum sem hafa hafið starfsemi fyrir 30. apríl 2011 í samræmi við landslög sem varða lögleiðingu tilskipunar 2000/46/EB, í aðildarríkinu þar sem aðalskrifstofur þeirra eru, að halda áfram þeirri starfsemi í viðkomandi aðildarlandi, eða öðrum aðildarríkjum, í samræmi við það gagnkvæma viðurkenningarfyrirkomulag sem kveðið er á um í tilskipun 2000/46/EB, án þess að krafa sé gerð um að þau sæki um starfsleyfi í samræmi við 3. gr. þessarar tilskipunar eða þau hlíti hinum ákvæðunum sem mælt er fyrir um eða sem um getur í II. bálki þessarar tilskipunar.
Aðildarríkin skulu krefjast þess að þau rafeyrisfyrirtæki leggi fram allar viðeigandi upplýsingar til lögbærra yfirvalda til að þau geti, eigi síðar en 30. október 2011, metið hvort rafeyrisfyrirtækin uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, og ef ekki, til hvaða ráðstafana þurfi að grípa til, til að tryggja að farið sé að ákvæðum eða hvort innköllun starfsleyfis sé viðeigandi.
Veita skal rafeyrisfyrirtækjum sem fara að ákvæðum starfsleyfi, þau færð á skrá og þess krafist að þau uppfylli kröfurnar í II. bálki. Ef rafeyrisfyrirtæki uppfylla ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun í síðasta lagi 30. október 2011 skal þeim bannað að gefa út rafeyri.
2.     Aðildarríkin geta kveðið á um að rafeyrisfyrirtækjum sé sjálfkrafa veitt starfsleyfi og að þau séu færð á skrá eins og kveðið er á um í 3. gr. ef lögbær yfirvöld hafa þegar sannanir fyrir því að viðkomandi rafeyrisfyrirtæki uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í 3., 4. og 5. gr. Áður en starfsleyfi er veitt skulu lögbær yfirvöld tilkynna það viðkomandi rafeyrisfyrirtækjum.
3.     Aðildarríkin skulu heimila rafeyrisfyrirtækjum sem hafa hafið starfsemi fyrir 30. apríl 2011 í samræmi við landslög sem varða lögleiðingu 8. gr. tilskipunar 2000/46/EB, að halda áfram þeirri starfsemi í viðkomandi aðildarlandi í samræmi við tilskipun 2000/46/EB til 30. apríl 2012, án þess að krafa sé gerð um að þau sæki um starfsleyfi skv. 3. gr. þessarar tilskipunar eða hlíti hinum ákvæðunum sem mælt er fyrir um, eða sem um getur, í II. bálki þessarar tilskipunar. Rafeyrisfyrirtækjum sem hvorki hafa fengið starfsleyfi á þessu tímabili né undanþágu í skilningi 9. gr. þessarar tilskipunar skal bannað að gefa út rafeyri.

19. gr.
Breytingar á tilskipun 2005/60/EB

Tilskipun 2005/60/EB er breytt sem hér segir:
1.     Í stað a-liðar 2. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
    „a)    fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og annast einn eða fleiri af þeim þáttum sem taldir eru í 2.–12. lið og 14. og 15. lið í I. viðauka við tilskipun 2006/48/EB, þ.m.t. starfsemi gjaldeyrismiðlana (bureaux de change),“
2.     Í stað d-liðar 5. mgr. 11. gr. kemur eftirfarandi:
    „d)    rafeyri, eins og hann er skilgreindur í 2. lið 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim ( 1 ) þar sem hámarksfjárhæð sem vistuð er rafrænt í miðlinum skal vera 250 evrur, ef ekki er unnt að endurhlaða hann, eða, ef hægt er að endurhlaða miðilinn, fjárhæð að hámarki 2500 evrur á almanaksárinu, nema þegar fjárhæð að upphæð 1000 evrur eða meira á sama almanaksári er innleyst að kröfu handhafa rafeyrisins í samræmi við 11. gr. tilskipunar 2009/110/EB. Að því er varðar greiðslumiðlun innanlands geta aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra hækkað fjárhæðina úr 250 evrum, sem um getur í þessum lið, í 500 evrur að hámarki.“

20. gr.
Breytingar á tilskipun 2006/48/EB

Tilskipun 2006/48/EB er breytt sem hér segir:
1.     Ákvæðum 4. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 1. liðar komi eftirfarandi:
        „1.    „lánastofnun“: fyrirtæki sem starfar við að taka á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veita lán fyrir eigin reikning,“
    b)    Í stað 5. liðar komi eftirfarandi:
        „5.    „fjármálastofnun“: fyrirtæki sem er ekki lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja eða alla þá starfsemi sem um getur í 2.–12. lið og 15. lið í I. viðauka,“
2.     Eftirfarandi liður bætist við I. viðauka:
    „15.    Útgáfa rafeyris.“

21. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 2000/46/EB falli úr gildi frá og með 30. apríl 2011, með fyrirvara um 1. og 3. mgr. 18. gr. þessarar tilskipunar.
Líta ber á tilvísun í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísun í þessa tilskipun.

22. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. apríl 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ráðstafana.
Þau skulu beita þessum ráðstöfunum frá 30. apríl 2011.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

23. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

24. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 16. september 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK C. MALMSTRÖM
forseti. forseti.
Fylgiskjal V.

Tilmæli framkvæmdastjórnarinnar
frá 30. apríl 2009
um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu
(Texti sem varðar EES)
(2009/384/EB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum öðrum undirlið 211. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Mikil áhættusækni í fjármálaþjónustunni, einkum í bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum, hefur stuðlað að falli fjármálafyrirtækja og kerfislægum vandamálum í aðildarríkjunum og á alþjóðavettvangi. Þessi vandamál hafa breiðst út til annarra þátta hagkerfisins og leitt til mikils kostnaðar fyrir þjóðfélagið.
2)          Þótt það sé ekki meginástæða fjármálakreppunnar, sem breiddist út á árunum 2007 og 2008, er það útbreidd skoðun að óheppilegar starfskjaravenjur í fjármálaþjónustunni hafi einnig hvatt til mikillar áhættusækni og þannig stuðlað að umtalsverðu tapi stórra fjármálafyrirtækja.
3)          Starfskjaravenjur í stórum hluta fjármálaþjónustunnar hafa gengið gegn skilvirkri og traustri áhættustýringu. Þessar venjur urðu til þess að tilhneiging var til að umbuna fyrir skammtímahagnað og hvatti starfsfólk til að stunda óþarflega áhættusama starfsemi sem gaf hærri tekjur til skamms tíma en skildi fjármálafyrirtæki hugsanlega eftir óvarin fyrir meira tapi til langs tíma litið.
4)          Ef áhættustýringar- og eftirlitskerfi væru öflug og afar skilvirk væru þessir hvatar til áhættusækni, sem starfskjaravenjur fela í sér, að jafnaði í samræmi við áhættuþol fjármálafyrirtækis. Öll áhættustýringar- og eftirlitskerfi hafa þó sínar takmarkanir, líkt og komið hefur í ljós með fjármálakreppunni, og geta þau verið gagnslaus gagnvart þeirri áhættu sem skapast vegna óheppilegra hvata, því áhætta verður sífellt flóknari sem og þær margvíslegu leiðir sem hægt er að fara við að taka áhættu. Einfaldur aðskilnaður milli starfsemi rekstrareininga og starfsfólks, sem ber ábyrgð á áhættustýringar- og eftirlitskerfum, er af þessum sökum nauðsynlegur en ekki lengur nægjanlegur.
5)          Heppilegir hvatar innan starfskjarakerfisins ættu að draga úr álagi á áhættustýringu og auka líkurnar á því að þessi kerfi verði skilvirk. Því er þörf á að setja meginreglur um trausta starfskjarastefnu.
6)          Vegna þrýstings af völdum samkeppni í fjármálaþjónustunni og þess að mörg fjármálafyrirtæki starfa yfir landamæri er mikilvægt að tryggja samræmda beitingu á reglum um starfskjarastefnu í öllum aðildarríkjunum. Þó er viðurkennt að til að ná betri árangri þyrfti að hrinda reglum um trausta starfskjarastefnu í framkvæmd um allan heim og á samræmdan hátt.
7)          Í orðsendingu sinni til vorfundar leiðtogaráðsins, „Drifkraftur efnahagsbata Evrópu“ ( 1 ), lagði framkvæmdastjórnin fram áætlun sína um að endurheimta og viðhalda stöðugu og áreiðanlegu fjármálakerfi. Í orðsendingunni kom m.a. fram að ný tilmæli um starfskjör á sviði fjármálaþjónustu yrðu lögð fram í því skyni að bæta áhættustýringu í fjármálafyrirtækjum og samstilla hvata og varanlegan árangur.
8)          Í þessum tilmælum eru settar fram meginreglur um starfskjarastefnu á sviði fjármálaþjónustu sem skulu gilda um öll fjármálafyrirtæki er starfa í fjármálaþjónustu.
9)          Verið getur að þessar meginreglur skipti meira máli fyrir fjármálafyrirtæki í tilteknum greinum en í öðrum, í ljósi gildandi reglugerða og viðtekinna starfsvenja í fjármálaþjónustu. Þessar meginreglur skulu gilda samhliða hverri þeirri reglu eða reglugerð sem gildir um tiltekið fjármálasvið. Ekki skal þó fjallað um þóknanir og umboðslaun til miðlara og utanaðkomandi þjónustuaðila, þegar um útvistaða starfsemi er að ræða, þar sem greiðsluvenjur er varða slíkar þóknanir og umboðslaun falla nú þegar að hluta til undir sérstakt fyrirkomulag, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 1 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga ( 2 ). Enn fremur eru þessi tilmæli með fyrirvara um réttindi aðila vinnumarkaðarins í almennum kjarasamningum, ef við á.
10)          Að því er varðar verðbréf í fjármálafyrirtækjum sem skráð eru á skipulegum markaði, í skilningi tilskipunar 2004/39/EB, í einu eða fleiri aðildarríkjum, gilda þessi tilmæli til viðbótar og ásamt tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2004/913/EB frá 14. desember 2004 um að stuðla að viðeigandi fyrirkomulagi að því er varðar starfskjör stjórnenda skráðra félaga ( 3 ) og tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2009/ 385/EB frá 30. apríl 2009 sem koma til viðbótar við tilmæli 2004/913/EB og 2005/162/EB að því er varðar fyrirkomulag á starfskjörum stjórnenda í skráðum félögum ( 4 ).
11)          Starfskjarastefna einstakra fjármálafyrirtækja skal einnig miðuð við stærð viðkomandi fjármálafyrirtækis, sem og eðli starfseminnar og hve flókin hún er.
12)          Taka skal upp starfskjarastefnu sem tekur mið af áhættunni, er í samræmi við skilvirka áhættustýringu og hefur ekki í för með sér óhóflega áhættu.
13)          Starfskjarastefna skal taka til þeirra flokka starfsfólks sem hafa veruleg áhrif á áhættustefnu fjármálafyrirtækisins með störfum sínum. Til að komast hjá því að hvatt sé til óhóflegrar áhættusækni skal samþykkja sérstakt fyrirkomulag að því er varðar starfskjör starfsfólks í þessum flokkum.
14)          Starfskjarastefna skal miða að því að samræma persónuleg markmið starfsfólks við langtímahagsmuni viðkomandi fjármálafyrirtækis. Mat á árangurstengdum þáttum starfskjara skal byggt á árangri til lengri tíma litið og taka tillit til útistandandi áhættu sem árangurinn er bundinn. Árangursmatið skal ná yfir nokkurra ára tímabil, t.d. þrjú eða fimm ár, til að tryggja að það sé byggt á árangri til lengri tíma litið og að útgreiðslu á árangurstengdum þáttum starfskjara sé dreift yfir viðskiptalotu fyrirtækisins.
15)          Fjármálafyrirtæki skulu geta endurheimt breytilega þætti starfskjara sem voru veittir fyrir árangur á grundvelli gagna sem síðar kemur í ljós að eru sannanlega rangfærð.
16)          Almenna reglan er að greiðslur í tengslum við riftun samnings fyrir lok samningstíma, sem veittar eru á grundvelli samnings, eiga ekki að vera umbun fyrir misbrest. Um stjórnendur skráðra fjármálafyrirtækja skulu gilda sérstök ákvæði um starfslokagreiðslur sem sett eru fram í tilmælum 2009/385/EB.
17)          Til að starfskjarastefnan sé í samræmi við markmið, starfsstefnu, verðmætamat og langtímahagsmuni fjármálastofnunarinnar, skal, auk rekstrarárangurs, taka aðra þætti til athugunar, s.s. hvort kerfum og eftirliti fjármálastofnunarinnar sé fylgt, sem og stöðlunum sem gilda um tengslin við viðskiptavini og fjárfesta.
18)          Skilvirkir stjórnunarhættir eru nauðsynlegt skilyrði fyrir því að starfskjarastefnan sé traust. Ferli við ákvarðanatöku varðandi starfskjarastefnu fjármálafyrirtækis skal vera opið innan fyrirtækisins og skal útfært þannig að komist sé hjá hagsmunaárekstrum og að óhæði þeirra sem hlut eiga að máli sé tryggt.
19)          Stjórn fjármálafyrirtækisins skal bera endanlega ábyrgð á því að koma á starfskjarastefnu fyrir fjármálafyrirtækið í heild sem og eftirliti með framkvæmd hennar. Til að nauðsynleg sérþekking fáist skal eftirlitsstarfið vera hluti af þessu ferli og, eftir því sem við á, starf mannauðsdeilda og sérfræðinga. Eftirlitsstarfið skal m.a. taka til útfærslu og endurskoðunar á framkvæmd starfskjarastefnunnar og skal það vera nægilega vel launað til að laða að hæfa einstaklinga og til að tryggja sjálfstæði þeirra frá þeim rekstrareiningum sem þeir hafa eftirlit með. Löggiltur endurskoðandi skal, innan marka skyldu sinnar til skýrslugjafar, skýra yfirstjórninni eða endurskoðunarnefndinni frá umtalsverðum veikleikum sem í ljós koma við endurskoðun á framkvæmd starfskjarastefnunnar.
20)          Meiri líkur eru á að eftirlit með útfærslu og framkvæmd starfskjarastefnunnar beri árangur ef hagsmunaaðilar í fjármálafyrirtækinu, þ.m.t., eftir atvikum, fulltrúar starfsmanna, eru upplýstir á tilhlýðilegan hátt um starfskjarastefnuna og taki þátt í því ferli að koma henni á fót og hafa eftirlit með henni. Fjármálafyrirtæki skulu í þessu skyni gefa hagsmunaaðilum sínum viðeigandi upplýsingar.
21)          Efla skal framkvæmd þeirra meginreglna sem mælt er fyrir um í þessum tilmælum með athugun eftirlitsaðila á landsvísu. Því skal heildarmat eftirlitsaðila á því hversu traust fjármálafyrirtækið er fela í sér mat á því hvort í starfskjarastefnu þess sé meginreglunum, sem mælt er fyrir um í þessum tilmælum, fylgt.
22)          Aðildarríki skulu sjá til þess að útibú fjármálafyrirtækja, sem hafa skráða skrifstofu eða aðalskrifstofu sína í þriðja landi og sem starfa á yfirráðasvæði aðildarríkis, lúti sambærilegum meginreglum um starfskjarastefnu og gilda um fjármálafyrirtæki sem hafa skráða skrifstofu eða aðalskrifstofu sína á yfirráðasvæði aðildarríkis.
23)          Þessi tilmæli gilda með fyrirvara um ráðstafanir sem aðildarríkin kunna að samþykkja að því er varðar starfskjarastefnur fjármálafyrirtækja sem njóta ríkisaðstoðar.
24)          Tilkynning um ráðstafanir, sem aðildarríkin gera í samræmi við þessi tilmæli, skal fela í sér skýr tímamörk fyrir fjármálafyrirtæki til að samþykkja starfskjarastefnu í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í þessum tilmælum.
LAGT TIL EFTIRFARANDI:

I. ÞÁTTUR
Gildissvið og skilgreiningar

1.     Gildissvið
1.1.    Aðildarríki skulu sjá til þess að meginreglurnar, sem eru í II., III. og IV. þætti, gildi um öll fjármálafyrirtæki sem hafa skráða skrifstofu eða aðalskrifstofu sína á þeirra yfirráðasvæði.
1.2.    Aðildarríki skulu sjá til þess að meginreglurnar, sem eru í II., III. og IV. þætti, gildi um starfskjör þeirra flokka starfsfólks sem hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækisins með störfum sínum.
1.3.    Þegar ráðstafanir eru gerðar til að tryggja að fjármálafyrirtæki framkvæmi þessar meginreglur skulu aðildarríki hafa hliðsjón af eðli og stærð viðkomandi fjármálafyrirtækja sem og því tiltekna sviði sem starfsemi þeirra er á.
1.4.    Aðildarríki skulu beita meginreglunum sem eru í II., III. og IV. þætti gagnvart fjármálafyrirtækjum á einstaklingsgrundvelli og á samstæðugrundvelli. Meginreglur um trausta starfskjarastefnu skulu á grundvelli samstæðunnar gilda um móðurfyrirtækið og dótturfélög þess, þ.m.t. þau sem stofnuð hafa verið í aflandsfjármálamiðstöðvum.
1.5.    Þessi tilmæli gilda ekki um þóknun og umboðslaun til miðlara og utanaðkomandi þjónustuaðila, þegar um útvistaða starfsemi er að ræða.
2.     Skilgreiningar að því er þessi tilmæli varðar
2.1.    „Fjármálafyrirtæki“: fyrirtæki, óháð réttarstöðu, hvort sem það er eftirlitsskylt eða ekki, þar sem einhver af eftirfarandi atvinnustarfsemi er stunduð:
    a)    tekið er við innlánum og öðrum endurgreiðanlegum fjármunum,
    b)    fjárfestingarþjónusta er veitt og/eða þar er stunduð fjárfestingarstarfsemi í skilningi tilskipunar 2004/39/EB,
    c)    fengist er við vátrygginga- eða endurtryggingastarfsemi,
    d)    starfsemi sem er sambærileg þeirri sem sett er fram í a-, b- eða c-lið.
    Til fjármálafyrirtækja teljast, en takmarkast ekki við, lánastofnanir, fjárfestingarfyrirtæki, vátrygginga- og endurtryggingafélög, lífeyrissjóðir og sameiginlegir fjárfestingarsjóðir.
2.2.    „Stjórnarmaður“: stjórnarmaður í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fjármálafyrirtækis.
2.3.    „Eftirlitsstarf“: áhættustýring, innra eftirlit og sambærileg störf innan fjármálafyrirtækis.
2.4.    „Breytilegir þættir starfskjara“: þættir er varða starfskjararéttindi sem veitt eru á grundvelli árangursviðmiðana, þ.m.t. kaupaukar.

II. ÞÁTTUR
Starfskjarastefna

3.     Almenn atriði
3.1.    Aðildarríki skulu tryggja að fjármálafyrirtæki komi á, framkvæmi og viðhaldi starfskjarastefnu sem samrýmist og stuðlar að traustri og skilvirkri áhættustýringu og sem hvetur ekki til óhóflegrar áhættusækni.
3.2.    Starfskjarastefna skal vera í samræmi við starfsstefnu, markmið, gildi og langtímahagsmuni fjármálafyrirtækisins, svo sem möguleika á sjálfbærum vexti, og í samræmi við meginreglurnar sem varða vernd viðskiptavina og fjárfesta þegar þjónusta er veitt.
4.     Uppbygging starfskjarastefnu
4.1.    Feli starfskjör í sér breytilega þætti eða kaupauka, skal vera viðeigandi jafnvægi á milli fastra og breytilegra starfskjaraþátta í gerð starfskjarastefnunnar. Viðeigandi jafnvægi starfskjaraþátta getur verið mismunandi frá einum starfsmanni til annars, eftir markaðsaðstæðum og því tiltekna samhengi sem fjármálafyrirtækið starfar í. Aðildarríki skulu tryggja að í starfskjarastefnu fjármálafyrirtækis sé hámarksgildi sett á breytilega þáttinn.
4.2.    Fastur þáttur starfskjaranna skal samsvara nægilega háu hlutfalli heildarstarfskjara til að fjármálafyrirtækið geti rekið sveigjanlega kaupaukastefnu. Fjármálafyrirtæki skal m.a. vera unnt að halda eftir kaupauka, að hluta til eða í heild, þegar viðkomandi einstaklingur, viðkomandi rekstrareining eða fjármálafyrirtækið uppfyllir ekki árangursviðmiðanir. Fjármálafyrirtækinu skal einnig vera unnt að halda eftir kaupaukum þegar staða þess versnar verulega, einkum þegar ekki er lengur hægt að gera ráð fyrir að það geti eða muni geta viðhaldið áframhaldandi rekstrarhæfi.
4.3.    Sé umtalsverður kaupauki veittur skal fresta stærsta hluta hans í lágmarkstíma. Fjárhæð hins frestaða hluta kaupaukans skal ákvörðuð í tengslum við heildarfjárhæð kaupaukans í samanburði við heildarfjárhæð starfskjaranna.
4.4.    Við ákvörðun um þann hluta kaupaukans sem er frestað skal taka tillit til þeirrar útistandandi áhættu sem árangurstengdi kaupaukinn er bundinn en sá hluti getur tekið til hlutabréfa, valréttar, handbærs fjár eða annarra fjármuna sem frestað er að greiða þar til lágmarkstíma lýkur. Við mat á framtíðarárangri, sem frestaði hlutinn tengist, skal taka tillit til áhættu eins og fram kemur í 5. lið.
4.5.    Greiðslur í tengslum við riftun samnings fyrir lok samningstíma, sem veittar eru á grundvelli samnings, skulu miðast við árangur sem náðst hefur á tilteknu tímabili og útfærðar þannig að þær séu ekki umbun fyrir misbrest.
4.6.    Aðildarríki skulu sjá til þess að yfirstjórn fjármálafyrirtækis geti krafið starfsfólk um að endurgreiða alla eða hluta af kaupaukum sem hafa verið veittir fyrir árangur á grundvelli gagna sem síðar kemur í ljós að eru sannanlega rangfærð.
4.7.    Reglulega skal uppfæra uppbyggingu starfskjarastefnunnar til að tryggja að hún þróist í samræmi við breytingar á stöðu viðkomandi fjármálafyrirtækis.
5.     Árangursmælingar
5.1.    Séu starfskjör árangurstengd skal heildarfjárhæð þeirra byggð á samsettu mati á árangri einstaklingsins, viðkomandi rekstrareiningar og heildarárangri fjármálafyrirtækisins.
5.2.    Árangursmatið skal ná yfir nokkurra ára tímabil til að tryggja að það sé byggt á árangri til lengri tíma litið og að útgreiðslu á kaupaukum sé dreift yfir viðskiptalotu fyrirtækisins.
5.3.    Í árangursmælingunum, sem kaupaukar og kaupaukasjóðir grundvallast á, skal felast leiðrétting á núverandi áhættu og framtíðaráhættu í tengslum við þann árangur sem miðað er við og tekið skal tillit til fjármagns- og lausafjárkostnaðar.
5.4.    Þegar mat er lagt á árangur einstakra starfsmanna skal tekið tillit til ófjárhagslegra viðmiðana, s.s. hvort innri reglum og verklagsreglum er fylgt og hvort farið er eftir þeim stöðlum sem gilda um tengsl við viðskiptavini og fjárfesta.
6.     Stjórnunarhættir
6.1.    Starfskjarastefnan skal fela í sér ráðstafanir til að komast hjá hagsmunaárekstrum. Verklagsreglur um ákvörðun starfskjara innan fjármálafyrirtækis skulu vera skýrar og skjalfestar og gagnsæjar innan fyrirtækisins.
6.2.    Yfirstjórnin skal ákvarða starfskjör stjórnenda. Auk þess skal yfirstjórnin setja meginreglurnar um starfskjarastefnu fjármálafyrirtækisins og bera ábyrgð á framkvæmd hennar.
6.3.    Eftirlitsstarf og, eftir því sem við á, mannauðsdeildir og utanaðkomandi sérfræðingar skulu einnig taka til útfærslu starfskjarastefnunnar.
6.4.    Stjórnarmenn yfirstjórnar, sem ábyrgir eru fyrir starfskjarastefnunni, sem og nefndarmenn starfskjaranefnda og starfsmenn, sem taka þátt í útfærslu og framkvæmd starfskjarastefnunnar, skulu búa yfir viðeigandi sérþekkingu og vera óháðir rekstrareiningum sem þeir hafa eftirlit með og skal þeim þannig vera unnt að mynda sér sjálfstæða skoðun á því hversu hentug starfskjarastefnan er, þ.m.t. þýðing hennar fyrir áhættu og áhættustýringu.
6.5.    Með fyrirvara um heildarábyrgð yfirstjórnarinnar, eins og hún er sett fram í lið 6.2, skal a.m.k. árlega fara fram miðlæg og sjálfstæð innri endurskoðun með eftirlitsstarfi á því hvort sé farið að þeim stefnumiðum og verklagsreglum sem yfirstjórnin hefur sett við framkvæmd starfskjarastefnunnar. Þeir sem sinna eftirlitsstarfinu skulu gefa yfirstjórninni skýrslu um niðurstöður þessarar endurskoðunar.
6.6.    Starfsmenn, sem hafa eftirlit með höndum, skulu vera óháðir rekstrareiningunum, sem þeir hafa eftirlit með, hafa viðeigandi heimildir og skulu fá launagreiðslur í samræmi við þau markmið sem þeir ná, óháð árangri þeirra rekstrarsviða sem þeir hafa eftirlit með. Að því er varðar vátryggingafélög, þ.m.t. endurtryggingafélög, skulu starfsmenn deildarinnar, sem sjá um tryggingafræðileg málefni, og sá tryggingarfræðingur sem ber ábyrgð, meðal annars hljóta starfskjör í réttu hlutfalli við stöðu þeirra hjá vátryggingafélaginu, en ekki með hliðsjón af árangri viðkomandi félags.
6.7.    Meginreglur starfskjarastefnunnar skulu vera aðgengilegar þeim starfsmönnum sem þær gilda um. Þessir starfsmenn skulu upplýstir fyrir fram um þær viðmiðanir sem nota á til að ákvarða starfskjör þeirra, sem og um matsferlið. Matsferlið og starfskjarastefnan skulu skjalfest á tilhlýðilegan hátt og ljós hlutaðeigandi starfsmönnum.

III. ÞÁTTUR
Birting upplýsinga

7.    Með fyrirvara um ákvæði um þagnarskyldu og gagnavernd skal fjármálafyrirtækið greina hlutaðeigandi hagsmunaaðilum á skýran og auðskiljanlegan hátt frá viðeigandi upplýsingum um starfskjarastefnuna, sem um getur í II. þætti, og uppfærslum á henni, verði breytingar á stefnunni. Birting þess háttar upplýsinga getur verið í formi sérstakrar yfirlýsingar um starfskjarastefnu, reglubundinnar birtingar í árlegum reikningsskilum eða með öðru móti.
8.    Greina skal frá eftirfarandi upplýsingum:
    a)    upplýsingum um ákvarðanatökuferlið sem fylgt er þegar starfskjarastefnan er mótuð, þ.m.t. ef við á, upplýsingar um samsetningu og umboð starfskjaranefndar, nafn þess utanaðkomandi ráðgjafa sem veitt hefur þjónustu við mótun starfskjarastefnunnar og hlutverk hlutaðeigandi hagsmunaaðila,
    b)    upplýsingum um tengsl milli launa og árangurs,
    c)    upplýsingum um viðmiðanir sem notaðar eru við árangursmælingar og áhættuleiðréttingu,
    d)    upplýsingum um árangursviðmiðanir sem réttur til hlutabréfa, valréttar eða breytilegra þátta starfskjara byggist á,
    e)    helstu breytum og rökstuðningi fyrir árlegu kaupaukakerfi og annarri umbun í fríðu.
9.    Þegar ákveðið er hvaða upplýsingar eigi að birta skulu aðildarríki taka tillit til eðlis og stærðar viðkomandi fjármálafyrirtækja sem og þess á hvaða tiltekna sviði starfsemi þeirra er.

IV. ÞÁTTUR
Eftirlit

10.    Aðildarríki skulu tryggja að lögbær yfirvöld taki tillit til stærðar fjármálafyrirtækisins, eðlis starfseminnar og þess hve flókin hún er þegar kannað er hvort meginreglum, sem eru í II. og III. þætti, sé fylgt.
11.    Aðildarríki skulu tryggja að fjármálafyrirtæki geti skýrt lögbærum yfirvöldum frá starfskjarastefnunni sem fellur undir þessi tilmæli, þ.m.t. hvort þau fylgi þeim meginreglum sem sett eru fram í þessum tilmælum, með sérstakri yfirlýsingu um starfskjarastefnu sem skal uppfærð eftir því sem þörf krefur.
12.    Aðildarríki skulu tryggja að lögbær yfirvöld geti farið fram á og haft aðgang að öllum upplýsingum sem þau þarfnast til að meta að hve miklu leyti meginreglunum í II. og III. þætti er fylgt.

V. ÞÁTTUR
Lokaákvæði

13.    Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að beitingu þessara tilmæla fyrir 31. desember 2009 og tilkynna framkvæmdastjórninni um þær ráðstafanir sem eru gerðar í samræmi við þessi tilmæli til að framkvæmdastjórnin geti fylgst náið með stöðunni og metið á þeim grundvelli hvort frekari ráðstafana er þörf.
14.    Tilmælum þessum er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 30. apríl 2009.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Siim Kallas
varaforseti

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 277, 21.10.2010, bls. 39, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 59, 21.10.2010, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 302, 17.11.2009, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 196, 28.7.2009, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 120, 15.5.2009, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    ESB L 331, 18.12.2003, bls. 34, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 64, 18.12.2003, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Stjtíð. EB L 26, 31.1.1977, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 11
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Álit Evrópuþingsins frá 13. janúar 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 22. júní 2009.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 14
(3)    Sjá A-hluta III. viðauka.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. ESB L 24, 29.1.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 201.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 20
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 23
(1)    Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 24
(1)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 25
(1)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 26
(1)    Stjtíð. ESB L 25, 29.1.2009, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Stjtíð. EB L 191, 13.7.2001, bls. 45.
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 29
(1)    Álit frá 26. febrúar 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 30
(2)    Stjtíð. ESB C 30, 6.2.2009, bls.1.
Neðanmálsgrein: 31
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 24. apríl 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2009.
Neðanmálsgrein: 32
(4)    Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 33
(5)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 34
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 35
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 36
(2)    Stjtíð. ESB L 309, 25.11.2005, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 37
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls.1.
Neðanmálsgrein: 38
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 201.
Neðanmálsgrein: 39
(1)    Stjtíð. ESB L 267, 10.10.2009, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 40
(1)    COM(2009) 114.
Neðanmálsgrein: 41
(1)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 42
(2)    Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 43
(3)    Stjtíð. ESB L 385, 29.12.2004, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 44
(4)    Sjá bls. 28 í þessum Stjórnartíðindum.