Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 611. máls.
    
Þingskjal 961  —  611. mál.Tillaga til þingsályktunar

um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar
um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/29/ EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er varðar breytingar á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/29/EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda.
    Tilskipun 2009/29/EB felur í sér víðtæka endurskoðun á tilskipun 2003/87/EB sem kom á fót viðskiptakerfi með losunarheimildir innan Evrópusambandsins. Meðal þess sem breytist er að frá og með 1. janúar 2013 munu fleiri tegundir staðbundinnar iðnaðarstarfsemi og fleiri gróðurhúsalofttegundir falla undir kerfið en áður. Auk þess verða veigamiklar breytingar á uppbyggingu og stjórnskipulagi kerfisins hvað snertir staðbundinn iðnað. Hinar nýju reglur fela í sér meiri einsleitni og samræmingu við framkvæmd kerfisins og aukna miðstýringu af hálfu Evrópusambandsins.
    Innleiðing umræddrar tilskipunar hér á landi kallar á lagabreytingar. Vegna þess hve skammur frestur er til að taka hana upp í EES-samninginn, innleiða hana í EES/EFTA-ríkjunum og til að ákvarða hlutfall losunarheimilda sem úthlutað verður endurgjaldslaust til einstakra fyrirtækja innan EES/EFTA-ríkjanna er nauðsynlegt að ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar um upptöku tilskipunarinnar í samninginn geti tekið gildi þegar í stað, m.ö.o. að ekki verði settur stjórnskipulegur fyrirvari af hálfu einstakra EES/EFTA-ríkja. Því er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni fyrir fram að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar þar sem kveðið verður á um upptöku tilskipunarinnar í samninginn.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni tilskipunarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Tilskipun 2009/29/ EB er prentuð sem fylgiskjal með tillögunni.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara og samþykki Alþingis.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2009/29/EB kallar á lagabreytingar hér á landi. Sem áður segir eru ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar almennt teknar með stjórnskipulegum fyrirvara og í kjölfarið leitað heimildar Alþingis fyrir staðfestingu ákvörðunarinnar. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins EES/EFTA-ríkis hefur í för með sér að viðkomandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast ekki gildi fyrr en að liðnum tilteknum tíma frá því er viðkomandi ríki lýsir því yfir að það aflétti fyrirvaranum.
    Upptaka tilskipunar 2009/29/EB í EES-samninginn og þátttaka EES/EFTA-ríkjanna í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar krefjast þess að EES/EFTA-ríkin safni saman og afhendi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins upplýsingar um sögulega losun í ríkjum sínum frá þeirri starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfið. Að öðrum kosti er ekki unnt að ákvarða og úthluta losunarheimildum til fyrirtækja í EES/EFTA-ríkjunum. Forsenda þess að upplýsingar EES/EFTA-ríkjanna verði teknar með í útreikningum framkvæmdastjórnarinnar er jafnframt sú að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku tilskipunar 2009/29/EB hafi öðlast gildi. Mjög aðkallandi er orðið að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þess efnis verði tekin og öðlist gildi, til þess að unnt sé að reikna út losunarheimildir EES/EFTA-ríkjanna samkvæmt framansögðu, áður en hinar breyttu reglur taka gildi innan Evrópusambandsins.
    Af þessum sökum er mikilvægt að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku tilskipunarinnar öðlist gildi um leið og hún verður tekin, þ.e. að ekkert EES/EFTA-ríkjanna þriggja setji stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina, en slíkt frestar gildistöku ákvörðunarinnar þar til eftir að fyrirvaranum hefur verið aflétt. Því er leitað fyrirframheimildar Alþingis fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta þá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er kveður á um upptöku umræddrar tilskipunar í EES-samninginn án stjórnskipulegs fyrirvara.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/29/EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda.
    Tilskipun 2009/29/EB felur í sér víðtæka endurskoðun á tilskipun 2003/87/EB sem kom á fót viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda innan ESB. Meðal þess sem breytist er að frá 1. janúar 2013 falla fleiri tegundir staðbundinnar iðnaðarstarfsemi og fleiri gróðurhúsalofttegundir undir kerfið en áður. Auk þess verða veigamiklar breytingar á uppbyggingu og stjórnskipulagi kerfisins hvað snertir staðbundinn iðnað. Hinar nýju reglur fela í sér meiri einsleitni og samræmingu við framkvæmd kerfisins og aukna miðstýringu af hálfu Evrópusambandsins. Fjöldi losunarheimilda í kerfinu verður ekki ákveðinn af hverju aðildarríki fyrir sig með landsbundnum úthlutunaráætlunum, líkt og verið hefur, heldur verða ein sameiginleg losunarmörk fyrir Evrópusambandið í heild. Losunarheimildum verður úthlutað eftir samræmdum reglum fyrir allt sambandið og taka þær m.a. mið af orkunýtni fyrirtækja. Úthlutunarviðmið verða því ekki lengur á forræði hvers aðildarríkis. Þá verða sífellt fleiri losunarheimildir boðnar upp með það að markmiði að engum losunarheimildum verði úthlutað endurgjaldslaust árið 2027.
    Með tilskipun 2009/29/EB eru ýmsar nýjar tegundir iðnaðarstarfsemi og nýjar gróðurhúsalofttegundir felldar undir kerfið. Eftir breytinguna heyrir m.a. losun koltvísýrings vegna járnframleiðslu og járnvinnslu (þar á meðal járnblendis) og losun koltvísýrings og flúorkolefna (PFC) vegna álframleiðslu undir viðskiptakerfið. Þá er föngun, flutningur og geymsla koltvísýrings í jarðlögum samkvæmt tilskipun 2009/31/EB felld undir gildissvið kerfisins.
    Aðildarríkjum er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að undanskilja frá gildissviði tilskipunar 2003/87/EB starfsstöðvar sem losa minna en 25 þúsund tonn af koltvísýringsígildi árlega og, ef um er að ræða brennslustöðvar, hafa skráð nafnvarmaafl undir 35 MW.
    Framkvæmdastjórnin tilkynnti með ákvörðun 2010/384/ESB hver yrði heildarfjöldi losunarheimilda í Evrópusambandinu árið 2013. Frá 1. janúar 2013 skulu aðildarríki bjóða upp allar losunarheimildir sem ekki er skylt að úthluta endurgjaldslaust samkvæmt tilskipuninni. Hlutdeild hvers ríkis í uppboðsheimildum er reiknuð samkvæmt eftirfarandi reglum:
     a.      88% uppboðsheimilda skiptist milli aðildarríkjanna í hlutfalli við vottaða losun þeirra í kerfinu árið 2005 eða meðaltalslosun tímabilsins 2005–2007, eftir því hvor talan er hærri. Ef aðildarríki var ekki aðili að viðskiptakerfinu árið 2005 skal miðað við vottaða losun í kerfinu árið 2007.
     b.      10% uppboðsheimilda skal skipt milli tiltekinna aðildarríkja í samræmi við hlutfallstölur sem fram koma í viðauka IIa með það að markmiði að auka samheldni og vöxt í Evrópusambandinu.
     c.      2% uppboðsheimilda skal skipt milli aðildarríkja þar sem losun var a.m.k. 20% minni árið 2005 en á viðmiðunarári þess samkvæmt Kýótó-bókuninni. Skipting þessara losunarheimilda ræðst af hlutfallstölum í viðauka IIb.
    Aðildarríki eru hvött til þess að verja a.m.k. 50% af tekjum af uppboði í aðgerðir sem tengjast baráttunni gegn hlýnun jarðar, m.a. til að stuðla að aukinni notkun loftslagsvænnar orku, koma í veg fyrir skógeyðingu og fjármagna rannsóknir og þróun sparneytinnar tækni í þeim geirum sem falla undir viðskiptakerfið. Tilskipunin gerir ráð fyrir því að uppboð losunarheimilda verði smám saman meginreglan í viðskiptakerfinu.
    Frá 1. janúar 2013 gilda samræmdar reglur um endurgjaldslausa úthlutun til lögaðila í kerfinu, óháð því í hvaða aðildarríki þeir starfa. Úthlutunin byggist á árangursviðmiði (e. benchmark) sem ákvarðað hefur verið fyrir hverja tegund starfsemi.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að geirar eða undirgeirar sem er sérstaklega hætt við svonefndum kolefnisleka (e. carbon leakage) fái hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust en aðrir geirar, eða 100% af losun þessara geira árin 2005–2007. Þetta hlutfall skal haldast óbreytt á tímabilinu 2013–2020. Með kolefnisleka er átt við að viðskiptakerfið leiði til mikillar hækkunar á framleiðslukostnaði fyrirtækja vegna hærra raforkuverðs og hamli samkeppni þeirra við fyrirtæki í ríkjum utan ESB. Nær öll starfsemi á Íslandi sem fellur undir viðskiptakerfið frá 2013 er á nefndum lista og mun því fá hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust á tímabilinu 2013–2020 en almenna reglan segir til um.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu 5% af heildarfjölda losunarheimilda í kerfinu sett í sérstakan sjóð fyrir svokallaða nýja þátttakendur, þ.e. lögaðila sem hefja starfsemi sem fellur undir gildissvið viðskiptakerfisins eða auka starfsemi sína umtalsvert eftir tiltekið tímamark.
    Ákvæði tilskipunar 2003/87/EB, sbr. tilskipanir 2004/101/EB og 2008/101/EB, gilda áfram á tímabilinu 2013–2020 að því er varðar aðra þætti viðskiptakerfisins en hér hafa verið raktir, þó með nokkrum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/29/EB. Er hér m.a. um að ræða skyldu til að afhenda losunarheimildir, viðskipti með losunarheimildir, skráningu losunarheimilda, eftirlit, vottun og viðurlög við vanefndum.

4. Fyrirhuguð upptaka tilskipunar 2009/29/ESB í EES-samninginn, lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Í viðræðum EFTA-ríkjanna við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á vettvangi EES- samstarfsins hefur verið gert ráð fyrir því að losunarheimildir EFTA-ríkjanna verði í sama potti og losunarheimildir ríkja Evrópusambandsins þegar til úthlutunar kemur. Sú niðurstaða er EFTA-ríkjunum, þ.m.t. Íslandi, mun hagfelldari en ef sérstakur pottur losunarheimilda yrði veittur EFTA-ríkjunum til úthlutunar. Gert er ráð fyrir að losunarheimildum fjölgi hlutfallslega með upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn og að heildarfjöldi losunarheimilda á EES-svæðinu öllu verði ákveðinn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar um.
    Þessi lausn, þ.e. að losunarheimildir EES/EFTA-ríkjanna séu í sama potti og losunarheimildir ríkja Evrópusambandsins, gerir kröfu til þess að EES/EFTA-ríkin afhendi upplýsingar um sögulega losun og annað sem máli kann að skipta, áður en til úthlutunar úr pottinum kemur, nánar tiltekið fyrir lok ágúst 2012. Til þess að svo geti orðið þarf ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku tilskipunar 2009/29/EB í EES-samninginn jafnframt að hafa öðlast gildi.
    Umhverfisráðherra fyrirhugar að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, til innleiðingar á tilskipun 2009/29/EB. Enn eru þó ýmsir óvissuþættir um efni ákvörðunar sameiginlegu EES- nefndarinnar um upptöku umræddrar tilskipunar í EES-samninginn. Þeir óvissuþættir geta mögulega tafið meðferð fyrirhugaðs lagafrumvarps á yfirstandandi löggjafarþingi.
    Af þeim sökum þykir varlegra, í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem EES/EFTA-ríkin hafa af því að falla undir hið breytta viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda strax frá upphafi gildistíma þess 1. janúar 2013, að leggja til við Alþingi að það heimili fyrir fram að Ísland samþykki ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku umræddrar tilskipunar í EES-samninginn, án þess að settur verði stjórnskipulegur fyrirvari af Íslands hálfu. Slíkt mundi tryggja hvað Ísland varðar að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gæti tekið þegar gildi, óháð framgangi lagafrumvarps þess sem umhverfisráðherra hyggst leggja fram til innleiðingar tilskipun 2009/29/EB.
Fylgiskjal I.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/29/EB
frá 23. apríl 2009
um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/ 87/EB ( 4 ) er komið á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins (kerfi Bandalagsins) til að stuðla að því að dregið verði úr losun þeirra á kostnaðarhagkvæman og efnahagslega skilvirkan hátt.
2)    Lokamarkmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), sem var samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins með ákvörðun ráðsins 94/69/EB ( 5 ), er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu stöðugum undir tilteknum gildum þannig að komið verði í veg fyrir hættulegar veðurfarsbreytingar af mannavöldum.
    Til að það markmið náist má heildarhækkun hnattræns ársmeðalhita við yfirborð jarðar ekki vera meiri en 2 °C miðað við gildin fyrir iðnbyltinguna. Í nýjustu matsskýrslu milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar (IPCC) kemur fram að eigi markmiðið að nást verði losun gróðurhúslofttegunda á heimsvísu að ná hámarki eigi síðar en 2020. Þetta merkir að Bandalagið þarf að efla viðleitni sína í þessa veru, skjót þátttaka iðnríkja er brýn og hvetja þarf þróunarlönd til að taka þátt í ferlinu við að draga úr losun.
3)    Í mars 2007 skuldbatt leiðtogaráðið sig til að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu um a.m.k. 20% niður fyrir gildi ársins 1990 fyrir 2020 og um 30% að því tilskildu að önnur iðnríki skuldbyndu sig til að minnka losun á sambærilegan hátti og að þau þróunarlönd, sem best eru stödd efnahagslega, legðu sitt af mörkum í samræmi við ábyrgð sína og getu. Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu skal hafa minnkað um 50% fyrir árið 2050 miðað við gildi ársins 1990. Öll svið efnahagslífsins skulu leggja sitt af mörkum til að ná þessum markmiðum um minnkun losunar, þ.m.t. alþjóðasjóflutningar og flugsamgöngur. Flugsamgöngur leggja sitt af mörkum í þessum samdrætti á losun með því að verða hluti af kerfi Bandalagsins. Hafi aðildarríkin ekki samþykkt neinn alþjóðasamning sem felur í sér markmið um að draga úr losun frá alþjóðasjóflutningum í samræmi við viðmiðanir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) eða Bandalagið ekki samþykkt neinn sambærilegan samning í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar fyrir 31. desember 2011, skal framkvæmdastjórnin leggja fram tillögu um að hafa losun frá alþjóðasjóflutningum með í skuldbindingum Bandalagsins um að draga úr losun, með það fyrir augum að gerðin, sem lögð er fram, öðlist gildi eigi síðar en 2013. Slík tillaga ætti að lágmarka allar neikvæðar afleiðingar fyrir samkeppnishæfni Bandalagsins og taka jafnframt mið af hugsanlegum ávinningi fyrir umhverfið.
4)    Í ályktun sinni frá 31. janúar 2008 um niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar á Balí (COP 13 og COP/MOP 3) ( 6 ) ítrekaði Evrópuþingið þá afstöðu sína að iðnvædd lönd skuli skuldbinda sig til að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um a.m.k. 30% fyrir árið 2020 og um 60 til 80% fyrir 2050 miðað við gildi ársins 1990. Þar eð Evrópusambandið gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu úr COP 15-ráðstefnunni, sem haldin verður í Kaupmannahöfn árið 2009, skal það hefja undirbúning að metnaðarfyllri markmiðum um að draga úr losun fyrir 2020 og þaðan í frá og leitast við að tryggja að eftir 2013 verði í kerfi Bandalagsins boðið upp á strangari losunartakmarkanir, ef þörf krefur, sem hluti af framlagi Sambandsins til síðari tíma alþjóðasamnings um loftslagsbreytingar (hér á eftir nefndur alþjóðasamningurinn um loftslagsbreytingar).
5)    Til að stuðla að því að þessum langtímamarkmiðum verði náð er rétt að ákveða fyrirsjáanlegan feril sem skal liggja til grundvallar samdrætti á losun frá stöðvum sem kerfi Bandalagsins nær til. Til að Bandalagið nái að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 20% miðað við gildi ársins 1990 líkt og það hefur skuldbundið sig til, á kostnaðarhagkvæman máta, skulu losunarheimildir, sem úthlutað er fyrir þessar stöðvar, vera eigi síðar en árið 2020 um 21% undir gildunum fyrir losun ársins 2005.
6)    Til að gera kerfi Bandalagsins áreiðanlegra skal mæla fyrir um ákvæði til að láta kerfi Bandalagsins leggja meira af mörkum til samdráttar á heildarlosun um meira en 20%, einkum í ljósi þess að leiðtogaráðið hefur sett það markmið að minnka losun um 30% eigi síðar en árið 2020 en það er talið nauðsynlegt frá vísindalegu sjónarmiði ef koma á í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar.
7)    Þegar Bandalagið og þriðju lönd hafa gert með sér alþjóðasamning um loftslagsbreytingar sem kveður á um að grípa skuli til viðeigandi aðgerða á heimsvísu eftir árið 2012 er mikilvægt að sjá til þess að ávinnsluheimildir, sem rekja má til skerðingar á losun í þessum löndum, verði aðgengilegar. Áður en slíkur samningur er gerður skal samt sem áður skapa aukna vissu um að áfram megi nota ávinnsluheimildir frá löndum utan Bandalagsins.
8)    Reynslan af fyrsta viðskiptatímabilinu sýnir að möguleikar eru fólgnir í kerfi Bandalagsins og að ef lokið verður við landsbundnar úthlutunaráætlanir á öðru viðskiptatímabili muni það skila talsverðri minnkun á losun fyrir 2012, en endurmat, sem fram fór árið 2007, staðfestir að þörf er á samræmdara kerfi um viðskipti með losunarheimildir til að nýta betur ávinninginn af viðskiptum með heimildirnar, til að komast hjá því að innri markaðurinn raskist og greiða fyrir tengslum milli viðskiptakerfa með losunarheimildir. Enn fremur skal gera kerfið áreiðanlegra og víkka út gildissvið þess með því að bæta við það nýjum geirum og lofttegundum, í því skyni að styrkja kolefnisverðteikn (carbon price signal), sem er nauðsynlegt til að hrinda af stað nauðsynlegum fjárfestingum, og með því að bjóða upp á ný tækifæri til að draga úr losun, sem mun leiða til almennrar lækkunar á kostnaði við að draga úr losun og gera kerfið skilvirkara.
9)    Skilgreiningin á gróðurhúsalofttegundum skal vera í samræmi við skilgreininguna í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og gera þarf skýrari grein fyrir því hvernig hnatthlýnunarmáttur einstakra gróðurhúsalofttegunda er ákvarðaður og uppfærður.
10)    Víkka skal Bandalagskerfið út þannig að það taki til losunar frá öðrum stöðvum sem hægt er að vakta, gera grein fyrir í skýrslum og sannprófa með jafn mikilli nákvæmni og krafist er í núgildandi reglum um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun.
11)    Ef gripið hefur verið til sambærilegra ráðstafana, einkum að því er varðar skattlagningu, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá litlum stöðvum sem ekki fara yfir viðmiðunarmörkin 25000 tonn af jafngildi koltvísýrings á ári skal vera til málsmeðferð sem heimilar aðildarríkjum að undanþiggja slíkar litlar stöðvar kerfinu fyrir viðskipti með losunarheimildir, svo lengi sem þessar ráðstafanir eru í gildi. Einnig er heimilt að undanþiggja sjúkrahús kerfinu ef þau gera sambærilegar ráðstafanir. Þessi viðmiðunarmörk bjóða upp á hlutfallslega mesta ávinninginn af lækkuðum stjórnunarkostnaði fyrir hvert tonn af jafngildi koltvísýrings sem er undanþegið kerfinu, þar eð stjórnsýslan verður einfaldari. Vegna þess að horfið verður frá fimm ára úthlutunartímabilum, og í þeim tilgangi að auka öryggi og fyrirsjáanleika, skal mæla fyrir um ákvæði sem varða tíðni endurskoðunar leyfa til að losa gróðurhúsalofttegundir. Það er í verkahring aðildarríkjanna að leggja fram tillögur um ráðstafanir sem gilda fyrir litlar stöðvar sem leiða til minnkaðrar losunar sem svarar til þeirrar minnkunar sem næst með kerfi Bandalagsins. Til slíkra ráðstafana geta m.a. talist skattlagning, samkomulag við atvinnugreinar og reglusetning. Í ljósi þess að nauðsynlegt er að draga úr óþarfa stjórnsýsluálagi vegna smærri losenda er aðildarríkjum heimilt að taka upp einfaldaðar málsmeðferðir og ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun.
12)    Upplýsingar um beitingu þessarar reglugerðar skulu vera vel aðgengilegar, einkum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
13)    Heildarfjöldi losunarheimilda í Bandalaginu skal minnka línulega, reiknað frá miðpunkti tímabilsins 2008 til 2012, til að tryggja að kerfið fyrir viðskipti með losunarheimildir dragi með tímanum úr losun á jafnan og fyrirsjáanlegan hátt. Losunarheimildum skal fækka árlega um sem nemur 1,74% af losunarheimildum sem aðildarríki gefa út samkvæmt ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir fyrir tímabilið 2008 til 2012, svo að kerfi Bandalagsins stuðli að því á kostnaðarhagkvæman máta að uppfylla þá skuldbindingu Bandalagsins að draga úr losun sem nemur a.m.k. 20% eigi síðar en árið 2020.
14)    Þetta framlag jafngildir samdrætti á losun árið 2020 um sem nemur 21% miðað við gildi ársins 2005, þ.m.t. áhrifin af víkkun gildissviðsins frá tímabilinu 2005 til 2007 til tímabilsins frá 2008 til 2012 og losunartölunum fyrir viðskiptageirann frá 2005, sem notaðar voru við mat á landsbundnum úthlutunaráætlunum Búlgaríu og Rúmeníu fyrir tímabilið frá 2008 til 2012, sem þýðir að gefa má út að hámarki 1720 milljónir losunarheimilda árið 2020. Nákvæmur fjöldi losunarheimilda verður reiknaður þegar aðildarríki hafa gefið út losunarheimildir samkvæmt ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir þeirra fyrir tímabilið frá 2008 til 2012, vegna þess að samþykki fyrir úthlutunum til sumra stöðva er háð því að losun frá þeim hafi verið sönnuð og staðfest. Þegar losunarheimildir hafa verið gefnar út fyrir tímabilið 2008 til 2012 mun framkvæmdastjórnin gera grein fyrir heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu. Leiðrétta skal heildarfjöldann í öllu Bandalaginu í tengslum við stöðvar sem falla undir kerfi Bandalagsins eða eru undanþegnar því á tímabilinu 2008 til 2012 eða frá og með árinu 2013.
15)    Viðbótarframlagið, sem mun koma frá hagkerfi Bandalagsins, útheimtir m.a. að endurskoðað kerfi Bandalagsins sé rekið af eins mikilli efnahagslegri skilvirkni og kostur er og á grundvelli fullkomlega samræmdra skilyrða fyrir úthlutun innan Bandalagsins. Því skal það vera grundvallarregla að úthlutun fari fram með uppboði, þar sem það er einfaldasta og, að því almennt er talið, efnahagslega skilvirkasta fyrirkomulagið. Það ætti einnig að koma í veg fyrir óvenjulega mikinn hagnað og gera nýja aðila og hagkerfi, sem eru í hraðari vexti en almennt gerist, samkeppnishæf við stöðvar sem þegar eru í rekstri.
16)    Í því skyni að viðhalda hagkvæmni kerfis Bandalagsins fyrir umhverfið og stjórnsýsluna, komast hjá röskun á samkeppni og skjótri tæmingu varasjóða nýrra aðila skal samræma reglur um nýja aðila til að tryggja að öll aðildarríki beiti sömu aðferð, einkum að því er varðar skilgreininguna á „umtalsverðri stækkun“ stöðva. Því ber að bæta við ákvæðum um samþykkt samræmdra reglna fyrir beitingu þessarar tilskipunar. Í þessum reglum skal „umtalsverð stækkun“ skilgreind, þar sem það á við, sem stækkun sem nemur a.m.k. 10% af núverandi, uppsettri afkastagetu stöðvarinnar eða veruleg aukning á losun frá stöðinni sem er tengd aukningunni á uppsettu afkastagetunni. Ekki skal úthluta úr varasjóðum nýrra aðila nema með hliðsjón af umtalsverðri stækkun viðkomandi stöðvar.
17)    Öll aðildarríki munu þurfa að fjárfesta verulega til að draga úr kolefnisnotkun í hagkerfi sínu fyrir árið 2020 og þau aðildarríki, þar sem tekjur á íbúa eru enn talsvert undir meðaltali í Bandalaginu og sem eru að reyna að komast á sama velmegunarstig og ríkari aðildarríki, munu þurfa að leggja talsvert á sig til að bæta orkunýtni sína. Markmiðin, sem miða að því að koma í veg fyrir röskun á samkeppni í Bandalaginu og tryggja mestu, efnahagslegu skilvirkni á meðan verið er að breyta hagkerfi Bandalagsins og færa það í áttina að öruggu og sjálfbæru hagkerfi með lítilli losun koltvísýrings, fela það í sér að óviðeigandi er að meðhöndla atvinnuvegi á mismunandi hátt í kerfi Bandalagsins í hinum ýmsu aðildarríkjum. Því er nauðsynlegt að þróa aðrar aðferðir til að styðja viðleitni þessara aðildarríkja sem hafa hlutfallslega lægri tekjur á mann og betri vaxtarhorfur. Skipta skal 88% af heildarfjölda þeirra losunarheimilda, sem verða boðnar upp, milli aðildarríkja samkvæmt hlutdeild þeirra í heildarlosun í kerfi Bandalagsins árið 2005 eða meðaltalinu fyrir tímabilið 2005 til 2007, hvort heldur er hærra. Skipta skal 10% af heildarfjöldanum þannig að það gagnist tilteknum aðildarríkjum, sem skulu nota þann hluta til að draga úr losun og laga sig að áhrifum loftslagsbreytinga, í því skyni að efla samstöðu og vöxt í Bandalaginu. Skipting þessara 10 prósenta skal miðast við tekjur á hvern mann árið 2005 og vaxtarhorfur aðildarríkja og skulu þau aðildarríki, þar sem meðaltekjur eru lágar og vaxtarhorfurnar miklar, hljóta meira en önnur. Aðildarríki, þar sem meðaltekjur á einstakling eru meira en 20% yfir meðaltalinu í Bandalaginu, skulu leggja sitt af mörkum til þessarar skiptingar, nema þegar beinn kostnaður af heildarpakkanum, eins og hann er metinn í mati framkvæmdastjórnarinnar á áhrifunum sem fylgja öllum framkvæmdarráðstöfununum fyrir markmið ESB varðandi loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku fyrir árið 2020, er meiri en 0,7% af vergri landsframleiðslu. Skipta skal 2% til viðbótar af heildarfjölda losunarheimilda, sem verða boðnar upp, milli aðildarríkja sem árið 2005 losuðu a.m.k. 20% minna af gróðurhúsalofttegundum en á grunnárinu sem gildir fyrir þau samkvæmt Kýótóbókuninni.
18)    Í ljósi þess að mikils átaks er þörf til að sporna við loftslagsbreytingum og aðlagast óhjákvæmilegum afleiðingum þeirra er við hæfi að minnst 50% ágóðans af uppboði á losunarheimildum verði varið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að aðlagast áhrifunum af loftslagsbreytingum, að fjármagna rannsóknir og þróun sem tengjast minnkun á losun og aðlögun, að þróa endurnýtanlega orkugjafa til að Sambandið geti staðið við þá skuldbindingu sína að endurnýtanleg orka verði 20% af orkunotkuninni fyrir 2020, að Bandalagið geti staðið við þá skuldbindingu sína að bæta orkunýtni um 20% fyrir 2020, að fjármagna umhverfisvæna föngun gróðurhúsalofttegunda og geymslu þeirra í jörðu, að leggja framlag í alþjóðlega sjóðinn fyrir orkunýtni og endurnýjanlega orku og í aðlögunarsjóðinn, sem komið var á fót á Poznan- ráðstefnunni um loftslagsbreytingar (COP 14 og COP/MOP 4), að fjármagna ráðstafanir til að koma í veg fyrir skógeyðingu og stuðla að aðlögun í þróunarlöndum og að bregðast við samfélagsmálum á borð við hugsanlega hækkun raforkuverðs hjá heimilum með tekjur sem eru lágar eða í meðallagi. Þetta hlutfall er talsvert lægra en áætlaður nettóhagnaður opinberra yfirvalda af uppboðshaldi, að teknu tilliti til þess að tekjur af fyrirtækjasköttum muni hugsanlega lækka. Þar að auki skal verja ágóða af uppboði losunarheimilda til þess að greiða stjórnunarkostnað vegna rekstrar á kerfi Bandalagsins. Í þessari tilskipun skulu einnig vera ákvæði um vöktun á því hvernig fjármunum af uppboðshaldi er varið í þessum tilgangi. Þó að aðildarríki veiti upplýsingar um það hvernig fjármunum er varið losna þau ekki undan þeirri skyldu, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að tilkynna um tilteknar, landsbundnar ráðstafanir. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á niðurstöður úr hvers kyns síðari tíma málsmeðferðum í tengslum við ríkisaðstoð sem kann að verða veitt í samræmi við 87. og 88. gr. sáttmálans.
19)    Uppboð á öllum losunarheimildum skal því vera reglan fyrir orkugeirann frá og með árinu 2013, með hliðsjón af því að hann getur velt auknum kostnaði í tengslum við koltvísýring út í afurðaverðið, og ekki skal úthluta neinum endurgjaldslausum losunarheimildum fyrir föngun og geymslu koltvísýrings þar eð hvatinn til þess er sá að ekki er skylt að skila inn losunarheimildum fyrir losun sem er geymd. Til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni geta raforkuframleiðendur fengið losunarheimildir án endurgjalds vegna fjarhitunar eða -kælingar og vegna hitunar eða kælingar sem byggist á samvinnslu raf- og varmaorku með góðri nýtingu eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB frá 11. febrúar 2004 um að auka samvinnslu raf- og varmaorku sem byggist á eftirspurn eftir notvarma á innri orkumarkaðinum ( 7 ) ef endurgjaldslaus úthlutun kemur til vegna slíks varma sem er framleiddur af stöðvum í öðrum geirum.
20)    Helsti langtímahvatinn í tengslum við föngun og geymslu koltvísýrings og nýrrar tækni á sviði endurnýjanlegrar orku er sá að ekki þarf að skila inn losunarheimildum fyrir losun koltvísýrings sem er geymd varanlega eða ekki losuð. Til að flýta fyrir kynningu á fyrstu viðskiptalegu stöðvunum og nýskapandi tækni á sviði endurnýjanlegrar orku skal auk þess leggja til hliðar losunarheimildir úr varasjóðum nýrra aðila til að tryggja að einhver umbun sé í boði fyrir fyrstu stöðvarnar af þessum toga í Sambandinu fyrir þann koltvísýring, sem er geymdur, eða ekki losaður, í nægjanlegu magni í tonnum talið, að því gefnu að gengið hafi verið frá samkomulagi um miðlun þekkingar. Viðbótarfjármögnunin skal renna til verkefna sem eru nógu stór í sniðum, nýskapandi í eðli sínu og svo vel meðfjármögnuð af hálfu viðkomandi rekstraraðila að fjármögnunin taki til meira en helmings af fjárfestingarkostnaðinum og einnig skal taka tillit til þess hversu raunhæft verkefnið er.
21)    Fyrir aðra geira, sem falla undir kerfi Bandalagsins, skal komið á fót aðlögunarkerfi þar sem endurgjaldslaus úthlutun í öllu Bandalaginu fyrir árið 2013 yrði 80% af þeim fjölda sem svaraði til hundraðshlutans af allri losun í Bandalaginu á tímabilinu frá 2005 til 2007 sem þessar stöðvar losuðu sem hlutfall af árlegum heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu. Eftir það skal draga úr endurgjaldslausum úthlutunum jafnt og þétt með hverju ári þannig að 30% úthlutana verði endurgjaldslausar árið 2020, með það að markmiði að þær verði engar árið 2027.
22)    Til að tryggja eðlilega starfsemi kolefnis- og raforkumarkaðarins skulu uppboð losunarheimilda fyrir tímabilið frá og með árinu 2013 hefjast eigi síðar en 2011 og skulu þau fara fram samkvæmt skýrum og hlutlægum meginreglum sem skilgreindar eru með góðum fyrirvara.
23)    Í samræmdum reglum innan alls Bandalagsins (fyrirframákveðnum viðmiðunum) skal kveðið á um endurgjaldslausar úthlutanir á aðlögunartímabilinu til stöðva í þeim tilgangi að lágmarka röskun á samkeppni innan Bandalagsins. Þessar reglur skulu taka mið af skilvirkustu tækni, sem í boði er á sviði gróðurhúsalofttegunda og orkunýtingar, staðgöngulausnum, annars konar framleiðsluaðferðum, notkun lífmassa, endurnýjanlegum orkugjöfum og föngun og geymslu koltvísýrings. Mikilvægt er að slíkar reglur feli aldrei í sér hvata til að auka losun og að þær tryggi að aukið hlutfall þessara losunarheimilda sé boðið upp. Úthlutanir verða að hafa verið ákveðnar áður en viðskiptatímabilið hefst svo að markaðurinn starfi eðlilega. Í þessum samræmdu reglum má einnig taka tillit til losunar sem tengist notkun brennanlegs úrgangslofts þegar ekki er hægt að komast hjá því að slíkt loft verði til í framleiðsluferlinu. Hvað þetta varðar geta reglurnar kveðið á um að losunarheimildum sé úthlutað án endurgjalds til rekstraraðila stöðva, sem brenna viðkomandi úrgangslofti, eða rekstraraðila stöðvanna þar sem þetta loft verður til. Einnig skal koma í veg fyrir að reglurnar valdi óþarfa röskun á samkeppni á mörkuðum fyrir rafmagn og hitun og kælingu fyrir iðjuver. Enn fremur skal koma í veg fyrir að þær valdi óþarfa röskun á samkeppni milli mismunandi iðnaðarstarfsemi sem fer fram í stöðvum, sem eru reknar af einum rekstraraðila, og framleiðslu í útvistuðum stöðvum. Þessar reglur gilda um nýja aðila sem reka sömu starfsemi og stöðvar sem fyrir eru og fá endurgjaldslausa úthlutun á aðlögunartímabilinu. Til að koma í veg fyrir hvers kyns röskun á samkeppni á innri markaðnum skal ekki úthluta neinum endurgjaldslausum losunarheimildum í tengslum við raforku sem nýir aðilar framleiða. Verði einhverjar losunarheimildir eftir í varasjóði nýrra aðila árið 2020 skulu þær boðnar upp.
24)    Sá góði árangur, sem náðist á 13. ráðstefnu aðila að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og á 3. fundi aðila að Kýótóbókuninni, sem haldinn var á Balí í Indónesíu 3.–14. desember 2007, er Bandalaginu hvatning til að halda áfram að leiða samningaviðræður um metnaðarfullan alþjóðasamning um loftslagsbreytingar sem hefur það markmið að hnattræn hlýnun verði ekki meiri en 2 °C. Fari svo að önnur iðnríki og aðrir stórir losendur gróðurhúsalofttegunda gerist ekki aðilar að þessum alþjóðasamningi gæti það leitt til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda í þriðju löndum, þar sem iðnaður er ekki jafnháður sambærilegum takmörkunum á losun kolefnis (kolefnisleka), og jafnframt haft neikvæð, efnahagsleg áhrif á tiltekna, orkufreka geira og undirgeira í Bandalaginu sem eiga í alþjóðlegri samkeppni. Þetta gæti grafið undan trúverðugleika Bandalagsins og rýrt ávinninginn af aðgerðum þess á sviði umhverfismála. Til að bregðast við hættunni á kolefnisleka skal Bandalagið úthluta 100% losunarheimilda endurgjaldslaust til geira eða undirgeira sem uppfylla viðkomandi viðmiðanir. Skilgreiningin á þessum geirum og undirgeirum og nauðsynlegar ráðstafanir skulu háðar endurmati til að tryggja að gripið sé til aðgerða, gerist þess þörf, og til að komast hjá því að ívilna þeim um of. Í tilvikum tiltekinna geira eða undirgeira, þegar hægt er að færa gild rök fyrir að ekki verði komist hjá kolefnisleka á annan hátt, þar sem stórum hluta framleiðslukostnaðar er vegna raforku sem er framleidd á hagkvæman hátt, má við aðgerðirnar, sem gripið er til, taka tillit til raforkunotkunar í framleiðsluferlinu en án þess að heildarfjölda losunarheimilda sé breytt. Til að byrja með skal meta hættuna á kolefnisleka í þessum geirum eða undirgeirum með þriggja tölustafa kerfi (NACE-3-kóði), eða út frá fjögurra tölustafa kerfi (NACE-4-kóði) eftir því sem við á og ef viðeigandi gögn liggja fyrir.
25)    Framkvæmdastjórnin skal því endurmeta stöðuna fyrir 30. júní 2010, ráðgast við alla viðkomandi aðila vinnumarkaðarins og, í ljósi niðurstaðna alþjóðlegu viðræðnanna, leggja fram skýrslu ásamt viðeigandi tillögum. Í ljósi þessa skal framkvæmdastjórnin tilgreina eigi síðar en 31. desember 2009 í hvaða orkufreku iðngeirum og undirgeirum kolefnisleki er líklegur. Hún skal byggja greiningu sína á mati á vanhæfni iðngreina til að vísa velta kostnaðinum af tilskildum losunarheimildum út í vöruverð án þess að missa umtalsverða markaðshlutdeild til stöðva utan Bandalagsins sem ekki grípa til sambærilegra aðgerða til að draga úr losun sinni. Orkufrekar iðngreinar, þar sem talið er að áhætta á kolefnisleka sé mikil, gætu fengið fleiri endurgjaldslausar losunarheimildir eða koma mætti á fót skilvirku kolefnisjöfnunarkerfi í því skyni að láta stöðvar í Bandalaginu, þar sem áhætta á kolefnisleka er mikil, standa jafnfætis stöðvum í þriðju löndum. Með slíku kerfi væri hægt að gera kröfur til innflytjenda sem væru í engu vægari en þær sem eiga við um stöðvar í Bandalaginu, til dæmis kröfu um innskil losunarheimilda. Allar aðgerðir, sem gripið er til, skulu vera í samræmi við meginreglur rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, einkum meginregluna um sameiginlega en mismunandi ábyrgð og getu hverju sinni, þar sem tillit er tekið til sérstakra aðstæðna hjá þeim löndum sem eru komin skemmst á veg í þróun. Þær þyrftu líka að vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Bandalagsins, þ.m.t. skuldbindingarnar sem fylgja samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina.
26)    Umræður í leiðtogaráðinu um ákvörðun á því hvaða geirar eða undirgeirar séu í mikilli áhættu á því að verða fyrir kolefnisleka eru sérstaks eðlis og hafa ekki á nokkurn hátt áhrif á beitingu framkvæmdavaldsins sem framkvæmdastjórninni er falið skv. 202. gr. sáttmálans.
27)    Aðildarríkin geta talið nauðsynlegt að bæta tilteknum stöðvum, sem staðfest hefur verið að séu í umtalsverðri áhættu á að verða fyrir kolefnisleka, upp kostnað sem tengist losun gróðurhúsalofttegunda og hefur verið velt út í verð á rafmagni. Slíkan stuðning skal einungis veita ef það er nauðsynlegt og í réttu hlutfalli við þörfina og ætti hann að tryggja að hvatanum í kerfi Bandalagsins til þess að spara orku og örva áframhaldandi umskipti í eftirspurn frá „gráu“ til „græns“ rafmagns verði viðhaldið.
28)    Til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði innan Bandalagsins skal samræma notkun rekstraraðila innan kerfis Bandalagsins á ávinnsluheimildum vegna skerðingar á losun utan Bandalagsins. Í Kýótóbókuninni eru sett fram magnbundin markmið um losun fyrir iðnríkin á tímabilinu 2008 til 2012 og þar er kveðið á um að til verði einingar vottaðrar losunarskerðingar (CER) í verkefnum í kerfi hreinleikaþróunar (CDM) og losunarskerðingareiningar (ERU) í verkefnum í sameiginlegri framkvæmd (JI) og um það hvernig iðnríkin geta notað þær til þess að uppfylla þessi markmið að hluta. Þótt Kýótóbókunin heimili ekki að losunarskerðingareiningar verði til frá og með 2013 án þess að ný, magnbundin markmið um losun verði sett fyrir gistilönd er hugsanlegt að ávinnsluheimildir verði áfram til í kerfi hreinleikaþróunar. Þegar alþjóðasamningur hefur náðst um loftslagsbreytingar skal kveða á um frekari notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga frá löndum sem hafa fullgilt samninginn. Meðan slíkur samningur er ekki fyrir hendi græfi það undan þessu frumkvæði ef kveðið væri á um frekari notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga og erfiðara yrði að ná markmiðum Bandalagsins um aukna notkun á endurnýjanlegri orku. Notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga skal vera í samræmi við markmiðið sem Bandalagið setti þess efnis að framleiða 20% orkunnar með endurnýjanlegum orkugjöfum eigi síðar en 2020 og stuðla að orkunýtni, nýsköpun og tækniþróun. Svo lengi sem það samræmist þessum markmiðum skal halda því opnu að ná samningum við þriðju lönd til að stuðla að skerðingu á losun í þessum löndum sem hafa í för með sér raunverulega viðbótarskerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda og örva jafnframt nýsköpun hjá fyrirtækjum sem eru stofnuð í Bandalaginu og tækniþróun í þriðju löndum. Fleiri en eitt land geta fullgilt slíkan samning. Þegar Bandalagið hefur samþykkt fullnægjandi alþjóðasamning um loftslagsbreytingar skal auðvelda aðgengi að þessum ávinnsluheimildum frá verkefnum í þriðju löndum samhliða því að losunarskerðingin, sem ná skal innan kerfis Bandalagsins, verður meiri.
29)    Í þágu fyrirsjáanleika skulu rekstraraðilar upplýstir um möguleika þeirra til að nota eftir 2012 einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar að því marki sem var leyft á tímabilinu 2008 til 2012 frá tegundum verkefna sem fullnægðu kröfum um notkun í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012. Þar eð aðildarríki geta ekki flutt einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem rekstraraðilar hafa yfir að ráða, milli skuldbindingartímabila samkvæmt alþjóðasamningum („yfirfærsla“ („banking“) á einingum vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningum) fyrir 2015, og eingöngu ef aðildarríki heimila yfirfærslu þessara eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga í tengslum við takmarkaðan rétt til þess að yfirfæra slíkar ávinnsluheimildir skal ábyrgjast það með því að skylda aðildarríkin til þess að láta rekstraraðilana skipta út slíkum einingum vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningum, sem voru gefnar út vegna losunarskerðingar fyrir 2012, fyrir losunarheimildir sem gilda frá og með 2013. Þar eð aðildarríkin skulu hins vegar ekki vera skuldbundin til þess að samþykkja einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar sem ekki er öruggt að þau muni geta notað í þágu alþjóðlegra skuldbindinga sinna skal þessi krafa ekki gilda lengur en til 31. mars 2015. Rekstraraðilarnir skulu hafa sömu vissu varðandi slíkar einingar vottaðrar losunarskerðingar sem gefnar voru út vegna verkefna sem hófust fyrir 2013 og varða losunarskerðingu frá og með 2013. Mikilvægt er að ávinnsluheimildir úr verkefnum, sem rekstraraðili notar, endurspegli raunverulega, sannanlega og varanlega frekari skerðingu á losun og hafi skýran ávinning sem stuðlar að sjálfbærni og hafi engin umtalsverð, neikvæð, félagsleg áhrif eða neikvæð áhrif á umhverfið. Koma skal á málsmeðferð sem gerir það kleift að útiloka tilteknar tegundir verkefna.
30)    Ef það dregst að alþjóðasamningur náist um loftslagsbreytingar skal bjóða þann kost að nota ávinnsluheimildir úr háþróuðum verkefnum í kerfi Bandalagsins með samningum við þriðju lönd. Slíkir samningar, sem geta verið hvort sem er tvíhliða eða marghliða, gætu tryggt að verkefni, sem sköpuðu einingar vottaðrar losunarskerðingar til 2012, en geta ekki gert það lengur samkvæmt Kýótóbókuninni, verði áfram viðurkennd í kerfi Bandalagsins.
31)    Þau lönd, sem eru komin skemmst á veg í þróun, eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum og þau bera aðeins ábyrgð á litlum hluta losunar á gróðurhúsalofttegundum. Því skal setja það í sérstakan forgang að fjalla um þarfir landa, sem eru komin skemmst á veg í þróun, þegar tekjur af uppboðum eru notaðar til að styðja aðlögun landa, sem eru komin skemmst á veg í þróun, að áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Þar eð hafist hefur verið handa við fá verkefni í kerfi hreinleikaþróunar í þessum löndum þykir rétt að skapa vissu um að ávinnsluheimildir úr verkefnum, sem hófust eftir 2012 í löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun, þótt alþjóðasamningur hafi ekki náðst um loftslagsbreytingar, verði samþykktar ef þessi verkefni eru augljóslega hrein viðbót og þau stuðla að sjálfbærri þróun. Þennan rétt skulu lönd, sem eru skemmst á veg komin í þróun, hafa til 2020, að því tilskildu að þau hafi þá annaðhvort fullgilt alþjóðasamning um loftslagsbreytingar eða tvíhliða eða marghliða samning við Bandalagið.
32)    Þegar alþjóðasamningur um loftslagsbreytingar hefur náðst má nota viðbótarávinnsluheimildir sem nema helmingnum af viðbótarskerðingunni sem orðið hefur í kerfi Bandalagsins, og ávinnsluheimildir úr háþróuðum verkefnum í kerfi hreinleikaþróunar í þriðju löndum skulu eingöngu samþykktar í kerfi Bandalagsins frá 2103, þegar þessi lönd hafa fullgilt alþjóðasamninginn.
33)    Bandalagið og aðildarríki þess skulu eingöngu leyfa starfsemi við verkefni þar sem allir þátttakendur í verkefninu hafa höfuðstöðvar annaðhvort í landi, sem hefur gert alþjóðasamning sem tengist slíkum verkefnum, í því skyni að vinna gegn svokallaðri „hentistefnu“ af hálfu fyrirtækja sem hafa ekki gert alþjóðasamning, nema ef þessi fyrirtæki hafa aðsetur í þriðju löndum eða í stjórnsýslueiningum eða í svæðisbundnum einingum sem tengjast kerfi Bandalagsins.
34)    Sú staðreynd að tiltekin ákvæði þessarar tilskipunar vísa til samþykkis af hálfu Bandalagsins á alþjóðasamningi um loftslagsbreytingar kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin fullgildi þennan samning einnig.
35)    Í ljósi reynslunnar þykir rétt að betrumbæta ákvæðin í kerfi Bandalagsins sem varða vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun.
36)    Sambandið skal vinna að því að koma á fót alþjóðlega viðurkenndu kerfi til að draga úr skógeyðingu og efla nýskógrækt og endurræktun skóga og stuðla að markmiðinu, innan rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, um að þróa fjármögnunarkerfi, að teknu tilliti til fyrirliggjandi tilhögunar, sem yrði liður í að koma á skilvirkum, árangursríkum, sanngjörnum og samræmdum fjármálaramma (financial architecture) í tengslum við alþjóðasamninginn um loftslagsbreytingar sem gera skal á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn um loftslagsbreytingar (COP 15 og COP/MOP 5).
37)    Bæta skal við skilgreiningu á „bruna“ í tilskipuninni til þess að koma því til skila að tilskipun 2003/87/EB tekur til allra tegunda af kötlum, brennurum, hverflum, hiturum, bræðsluofnum, brennsluofnum, glæðingarofnum, hitunarofnum, þurrkofnum, hreyflum, efnarafölum, tengibrunaeiningum (chemical looping combustion units), afgaslogum, eftirbrennurum og hvarfakútum.
38)    Til að tryggja að unnt sé að flytja losunarheimildir milli aðila innan Bandalagsins án nokkurra takmarkana og til að tryggja að tengja megi kerfi Bandalagsins við kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir í þriðju löndum og í stjórnsýslueiningum og svæðisbundnum einingum, skulu allar losunarheimildir, frá og með janúar 2012, vistaðar í skrá Bandalagsins sem komið var á fót með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB frá 11. febrúar 2004 um aðferð til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda í Bandalaginu og um framkvæmd Kýótóbókunarinnar ( 8 ). Þetta skal ekki hafa áhrif á hald landsskráa yfir losun sem fellur ekki undir kerfi Bandalagsins. Skrá Bandalagsins skal vera jafngagnleg og landsskrárnar.
39)    Frá og með 2013 skal vistvæn föngun, flutningur og geymsla CO 2 í jörðu falla á samræmdan hátt undir kerfi Bandalagsins.
40)    Gera skal ráðstafanir til þess að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á því að losunarheimildir séu tækar bæði í kerfi Bandalagsins og öðrum bindandi kerfum um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem hafa algilt losunarþak sem hefur verið fastsett fyrir þriðja land eða stjórnsýslueiningar eða svæðisbundnar einingar.
41)    Þriðju lönd, sem liggja að Sambandinu, skulu hvött til þess að gerast aðilar að kerfi Bandalagsins ef þau fullnægja ákvæðum þessarar tilskipunar. Framkvæmdastjórnin skal leggja allt kapp á samningaviðræður við umsóknarlönd, hugsanleg umsóknarlönd og lönd, sem falla undir evrópsku nágrannastefnuna, og leggja þeim til fjárhagslega og tæknilega aðstoð til að stuðla að því að þetta markmið náist. Þetta yrði til þess að auðvelda miðlun tækni og þekkingar til þessara landa sem stuðlar að efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum ávinningi fyrir alla.
42)    Þessi tilskipun ætti að stuðla að því að samningar náist um viðurkenningu á því að koma megi á viðskiptum með losunarheimildir milli kerfis Bandalagsins og annarra bindandi kerfa um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem hafa algilt losunarþak (absolute emissions gap) og samrýmast kerfi Bandalagsins, að teknu tilliti til metnaðar í umhverfismálum og þess hvort fyrir hendi sé traust og samanburðarhæf vöktun og skýrslugjöf um losun og kerfi til að staðfesta hana og kerfi til þess að tryggja að farið sé að viðkomandi ákvæðum.
43)    Með hliðsjón af fenginni reynslu af kerfi Bandalagsins ætti að vera unnt að gefa út losunarheimildir fyrir verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að því tilskildu að þessi verkefni séu unnin í samræmi við samræmdar reglur, sem samþykktar hafa verið á vettvangi Bandalagsins, og að þessi verkefni hafi ekki í för með sér að skerðing losunar verði tvítalin eða þau hindri rýmkun á gildissviði kerfis Bandalagsins eða framkvæmd annarra stefnuúrræða sem falla ekki undir kerfi Bandalagsins en stuðla að því að draga úr losun.
44)    Nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari tilskipun í framkvæmd skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 9 ).
45)    Framkvæmdastjórninni skal einkum veitt umboð til þess að samþykkja ráðstafanir til þess að samræma reglur um skilgreininguna á „nýjum þátttakanda“, um uppboð á losunarheimildum, úthlutun losunarheimilda í öllu Bandalaginu á tilteknu aðlögunartímabili, fastsetningu viðmiðana og fyrirkomulags, sem gildir um val á tilteknum tilraunaverkefnum, samantekt skrár yfir geira eða undirgeira þar sem fyrir hendi er umtalsverð áhætta á kolefnisleka, notkun ávinnsluheimilda, vöktun, skýrslugjöf og staðfestingu á losun, faggildingu þeirra sem annast staðfestingu, beitingu samræmdra reglna um verkefnin og um breytingu á tilteknum viðaukum. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við þær nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
46)    Því ber að breyta tilskipun 2003/87/EB til samræmis við það.
47)    Rétt þykir að kveða á um skjóta innleiðingu þessara ákvæða sem eru til undirbúnings á endurskoðuðum rekstri á kerfi Bandalagsins frá og með 2013.
48)    Til að ljúka megi viðskiptatímabilinu 2008 til 2012 á réttan hátt gilda ákvæði tilskipunar 2003/87/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2004/101/EB ( 10 ), tilskipunar 2008/101/ EB ( 11 ) og reglugerðar (EB) nr. 219/2009 ( 12 ), áfram án þess að það hafi áhrif á möguleika framkvæmdastjórnarinnar til að samþykkja ráðstafanir sem eru nauðsynlegar vegna endurskoðaðs rekstrar á kerfi Bandalagsins frá og með 2013.
49)    Beiting þessarar tilskipunar hefur ekki áhrif á beitingu ákvæða 87. gr. og 88. gr. sáttmálans.
50)    Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
51)    Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve tilskipunin er umfangsmikil og hefur víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
52)    Í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 13 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og að birta þær.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 2003/87/EB

Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 2003/87/EB:
1.    Eftirfarandi málsgreinar bætist við 1. gr.:
    „Í þessari tilskipun er einnig kveðið á um að auka skuli skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda til þess að stuðla að því að sú skerðing náist sem talin er nauðsynleg af vísindalegum ástæðum til þess að komast hjá hættulegum loftslagsbreytingum.
    Í þessari tilskipun er einnig mælt fyrir um ákvæði um mat og framkvæmd á strangari skuldbindingu Bandalagsins um skerðingu sem nemur 20% og öðlast gildi eftir samþykki Bandalagsins á alþjóðasamningi um loftslagsbreytingar sem hefur í för með sér skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda umfram það sem krafa er gerð um í 9. gr., sem endurspeglast í 30% skuldbindingunni sem leiðtogaráðið staðfesti í mars 2007.“
2.    Ákvæðum 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi komi í stað c-liðar:
         „c)    „gróðurhúsalofttegundir“: lofttegundirnar sem eru tilgreindar í II. viðauka og aðrir loftkenndir efnisþættir andrúmsloftsins, náttúrulegir og af mannavöldum, sem gleypa innrauða geislun og senda hana frá sér aftur“.
    b)    Í stað h-liðar komi eftirfarandi:
         h)    „nýr þátttakandi“:
            –    stöð þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka og sem hefur fengið leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda í fyrsta skipti eftir 30. júní 2011,
            –    stöð þar sem fram fer starfsemi sem fellur í fyrsta skipti undir kerfi Bandalagsins skv. 1. mgr. eða 2. mgr. 24. gr. eða
            –    stöð þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka eða starfsemi sem fellur undir kerfi Bandalagsins skv. 1. eða 2. mgr. 24. gr. eða þar sem um er að ræða umtalsverða stækkun eftir 30. júní 2011, einungis að því er varðar þá stækkun.
    c)    Eftirfarandi liðir bætist við:
        t)    „bruni“: oxun eldsneytis, óháð því hvernig varmi, raforka eða vélræn orka, sem myndast við ferlið, er notuð og önnur starfsemi sem tengist beint, þ.m.t. hreinsun úrgangslofts.
         u)    „raforkuframleiðandi“: stöð sem hefur, þann 1. janúar 2005 eða þar á eftir, framleitt raforku til sölu til þriðja aðila, þar sem engin starfsemi, sem um getur í I. viðauka önnur en „bruni eldsneytis“, fer fram.
3.    Í 2. mgr. 3. gr. c komi orðin „1. mgr. 13. gr.“. í stað orðanna „2. mgr. 11. gr.“.
4.    Í 3. gr. g komi orðin „reglugerðina sem um getur í 14. gr.“ í stað „viðmiðunarreglurnar sem voru samþykktar skv. 14. gr.“
5.    Í stað 4. gr. komi eftirfarandi:
     „4. gr.
     Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda
    Aðildarríki skulu tryggja að frá og með 1. janúar 2005 fari ekki fram í neinni stöð starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka og hefur í för með sér losun sem tilgreind er varðandi starfsemina, nema rekstraraðili hennar hafi fengið leyfi sem gefið er út af lögbæru yfirvaldi í samræmi við 5. og 6. gr. eða stöðin falli ekki undir kerfi Bandalagsins skv. 27. gr. Þetta gildir einnig um stöðvar sem 24. gr. nær yfir.“
6.    Eftirfarandi komi í stað d-liðar 5. gr.:
    „d)    ráðstöfunum sem ráðgerðar eru til að vakta losun og gefa skýrslu um hana í samræmi við reglugerðina sem um getur í 14. gr.“
7.    Ákvæðum 6. gr. er breytt sem hér segir:
    a) eftirfarandi undirgrein bætist við 1. mgr.:
        „Lögbært yfirvald skal, á að a.m.k. fimm ára fresti, endurskoða leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda og gera breytingar eftir því sem við á.“
    b)    Eftirfarandi komi í stað c-liðar 2. mgr.:
        c)    áætlun um vöktun sem uppfyllir kröfurnar í reglugerðinni sem um getur í 14. gr. Aðildarríkin geta heimilað rekstraraðilum að uppfæra áætlanir um vöktun án þess að leyfinu sé breytt. Rekstraraðilum ber að leggja uppfærðar áætlanir um vöktun fyrir lögbært yfirvald til samþykkis.“
8.    Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:
     „7. gr.
    Breytingar á stöðvum
    Rekstraraðilinn skal veita lögbæra yfirvaldinu upplýsingar um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli eða starfsemi stöðvarinnar, eða stækkun hennar eða verulega minnkun á vinnslugetu, sem kunna að leiða til þess að uppfæra þurfi leyfið til losunar gróðurhúsalofttegunda. Lögbæra yfirvaldið skal uppfæra leyfið eftir því sem við á. Taki nýr rekstraraðili við stöðinni skal lögbært yfirvald uppfæra leyfið þannig að nafn hans og heimilisfang komi fram í leyfinu.“
9.    Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
     „9. gr.
     Heildarfjöldi losunarheimilda í öllu Bandalaginu
    Heildarfjöldi losunarheimilda í Bandalaginu, sem gefinn er út hvert ár frá og með 2013, skal minnka línulega frá miðpunkti tímabilsins 2008 til 2012. Losunarheimildum skal fækka samkvæmt línulegum stuðli sem nemur 1,74% og miðast við meðalheildarfjölda heimilda á ári sem aðildarríki gefa út í samræmi við ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir fyrir tímabilið 2008 til 2012.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 30. júní 2010, gefa út algildan heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu fyrir árið 2013 á grundvelli heildarfjölda losunarheimilda sem aðildarríki hafa veitt eða munu veita í samræmi við ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um landsbundnar úthlutunaráætlanir fyrir tímabilið 2008 til 2012.
    Framkvæmdastjórnin skal endurskoða línulega stuðulinn og leggja fram tillögu til Evrópuþingsins og ráðsins eftir því sem við á, frá og með 2020, með það í huga að ákvörðun verði samþykkt eigi síðar en 2025.“
10.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „9. gr. a
     Leiðrétting heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu
    1. Að því er varðar stöðvar, sem falla undir kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012 skv. 1. mgr. 24. gr., skal fjöldi losunarheimilda, sem gefa skal út frá 1. janúar 2013, leiðréttur svo að hann endurspegli árlegan meðalheildarfjölda útgefinna heimilda til viðkomandi stöðva á því tímabili er þær voru hluti af kerfinu, sem hefur verið leiðréttur samkvæmt línulega stuðlinum sem um getur í 9. gr.
    2. Að því er varðar stöðvar, þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem er tilgreind í I. viðauka og sem einvörðungu falla undir kerfi Bandalagsins frá 2013 og áfram, skulu aðildarríkin tryggja að rekstraraðilar slíkra stöðva leggi fram hjá lögbæru yfirvaldi vel rökstudd gögn um losun, sannprófuð af óháðum aðila, svo að hægt sé að taka tillit til þeirra við leiðréttingu heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu sem gefa á út.
    Slík gögn skulu lögð fyrir viðkomandi lögbært yfirvald eigi síðar en 30. apríl 2010 í samræmi við ákvæði 1. mgr. 14. gr.
    Séu gögnin, sem lögð eru fram, vel rökstudd skal lögbært yfirvald tilkynna það framkvæmdastjórninni eigi síðar en 30. júní 2010 og heildarfjöldi losunarheimilda, sem gefa á út og hefur verið leiðréttur samkvæmt línulegum stuðli sem um getur í 9. gr., leiðréttur samkvæmt því. Þegar um er að ræða stöðvar sem losa gróðurhúsalofttegundir, aðrar en koltvísýring, getur lögbært yfirvald tilkynnt minna magn losunar í samræmi við getu stöðvanna til að draga úr losun.
    3. Framkvæmdastjórnin skal birta leiðréttingu á losunarheimildum sem um getur í 1. og 2. mgr. eigi síðar en 30. september 2010.
    4. Að því er varðar stöðvar sem falla ekki undir kerfi Bandalagsins skv. 27. gr. skal fjöldi losunarheimilda í öllu Bandalaginu, sem gefa skal út frá 1. janúar 2013, leiðréttur til lækkunar svo hann endurspegli árlegt meðaltal sannprófaðrar losunar í þessum stöðvum á tímabilinu 2008 til 2012, leiðrétt samkvæmt línulega stuðlinum sem um getur í 9. gr.“
11.    Í stað 10. gr. komi eftirfarandi:
     „10. gr.
    Uppboð losunarheimilda
    1. Frá og með árinu 2013 skulu aðildarríkin bjóða upp allar losunarheimildir sem ekki er úthlutað án endurgjalds í samræmi við 10. gr. a og 10. gr. c. Eigi síðar en 31. desember 2010 skal framkvæmdastjórnin ákvarða og birta áætlaðan fjölda losunarheimilda sem verða boðnar upp.
    2. Heildarfjölda losunarheimilda, sem hvert aðildarríki býður upp, skal skipta sem hér segir:
    a)    88% af heildarfjölda þeirra losunarheimilda, sem verða boðnar upp, skal skipt milli aðildarríkja samkvæmt hlutdeild sem samsvarar hlutdeild hlutaðeigandi aðildarríkis af sannprófaðri losun í kerfi Bandalagsins árið 2005 eða meðaltalinu fyrir tímabilið 2005 til 2007, hvort heldur er hærra,
    b)    10% af heildarfjölda þeirra losunarheimilda, sem verða boðnar upp, skal skipt milli tiltekinna aðildarríkja í því skyni að efla samstöðu og vöxt í Bandalaginu og auka með því fjölda heimilda sem þau aðildarríki bjóða upp skv. a-lið og samkvæmt þeim hundraðshlutum sem eru tilgreindir í II. viðauka a og
    c)    2% af heildarfjölda þeirra losunarheimilda, sem verða boðnar upp, skal skipt milli aðildarríkja sem árið 2005 losuðu a.m.k. 20% minna af gróðurhúsalofttegundum en á grunnárinu sem gildir fyrir þau samkvæmt Kýótóbókuninni. Skipting hundraðshluta milli hlutaðeigandi aðildarríkja kemur fram í II. viðauka b.
    Að því er varðar a-lið, vegna aðildarríkja sem ekki voru hluti af kerfi Bandalagsins árið 2005, skal reikna hlutdeild þeirra út frá sannprófuðum gögnum um losun samkvæmt kerfi Bandalagsins árið 2007.
    Ef nauðsyn krefur skulu hundraðshlutarnir, sem um getur í b- og c-lið, aðlagaðir hlutfallslega til þess að tryggja að skiptingin sé annars vegar 10% og hins vegar 2%.
    3. Aðildarríkin skulu ákveða hvernig tekjum af uppboði á losunarheimildum er ráðstafað. Nota skal a.m.k. 50% af tekjum af uppboði á losunarheimildum, sem um getur í 2. mgr., þ.m.t. allar tekjur sem um getur í b- og c-lið 2. mgr., eða jafngildi þessara tekna metið til fjár, í eitt eða fleira af eftirfarandi:
    a)    að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.m.t. með framlögum í alþjóðlega sjóðinn fyrir orkunýtni og endurnýjanlega orku og í aðlögunarsjóðinn sem komið var á fót á Poznan-ráðstefnunni um loftslagsbreytingar (COP 14 og COP/MOP 4), til að aðlagast áhrifum af loftlagsbreytingum og til að fjármagna rannsóknir og þróun og tilraunaverkefni til að draga úr losun og til þess að aðlagast loftslagsbreytingum, þ.m.t. þátttaka í framtaksverkefnum innan ramma skipulagsáætlunar fyrir Evrópu um orkutækni og evrópskra tækniverkvanga;
    b)    að þróa endurnýjanlega orku til þess að geta staðið við þá skuldbindingu Bandalagsins að 20% þeirrar orku, sem notuð er fyrir 2020, séu endurnýjanleg, sem og að þróa aðra tækni sem stuðlar að umbreytingu til öruggs og sjálfbærs hagkerfis þar sem losun koltvísýrings er lítil og stuðlar að því að Bandalagið uppfylli þá skuldbindingu að auka orkunýtni um 20% fyrir árið 2020,
    c)    ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir skógeyðingu og efla nýskógrækt og endurræktun skóga í þróunarlöndum sem hafa fullgilt alþjóðasamning um loftslagsbreytingar, til að miðla tækni og greiða fyrir aðlögun þróunarlanda að skaðlegum áhrifum af loftslagsbreytingum í þessum löndum,
    d)    bindingu kolefnis í skógum í Bandalaginu;
    e)    umhverfisvæna föngun koltvísýrings og geymslu hans í jörðu, einkum frá orkuverum sem nýta jarðefnaeldsneyti í föstu formi og ýmsum geirum og undirgeirum í iðnaði, þ.m.t. í þriðju löndum,
    f)    að hvetja til notkunar almenningssamgangna og samgangna sem valda lítilli losun,
    g)    að fjármagna rannsóknir og þróun í orkunýtni og hreinni tækni í þeim geirum sem þessi tilskipun nær til,
    h)    ráðstafanir, sem ætlað er að auka orkunýtni og einangrun eða veita fjárstuðning til að fást við félagslega þætti hjá heimilum sem eru með tekjur sem eru lágar eða í meðallagi,
    i)    að greiða stjórnunarkostnað vegna rekstrar á kerfi Bandalagsins.
    Skal litið svo á að aðildarríkin hafi uppfyllt ákvæði þessarar málsgreinar ef þau hafa sett fram og fylgja efnahags- eða skattastefnu, einkum í þriðju löndum, eða stefnu í eigin reglusetningu sem leiðir til fjárhagsstuðnings, er varðar markmiðin sem sett eru fram í fyrstu undirgrein og jafngilda a.m.k. 50% tekna af uppboði losunarheimilda, sem um getur í 2. mgr., að meðtöldum öllum tekjum sem um getur í b- og c-lið 2. mgr.
    Aðildarríkin skulu gera framkvæmdastjórninni grein fyrir því hvernig tekjum er ráðstafað og um þær aðgerðir sem þau grípa til, samkvæmt þessari málsgrein, í skýrslum þeirra sem lagðar eru fram samkvæmt ákvörðun nr. 280/2004/EB.
    4. Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 30. júní 2010, samþykkja reglugerð um tímasetningu, stjórnun og aðra þætti uppboða til að tryggja að þau fari fram með opnum, gagnsæjum og samræmdum hætti og á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna þarf ferlið að vera áreiðanlegt, einkum að því er varðar tímasetningu og röðun uppboða og áætlaðan fjölda losunarheimilda sem verða til ráðstöfunar.
    Uppboð skulu útfærð þannig að tryggt sé að:
    a)    rekstraraðilar, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki sem falla undir kerfi Bandalagsins, hafi óhindraðan, sanngjarnan og jafnan aðgang,
    b)    allir þátttakendur hafi aðgang að sömu upplýsingum á sama tíma og að þátttakendur grafi ekki undan framvindu uppboðsins,
    c)    skipulagning og þátttaka í uppboðum sé kostnaðarhagkvæm og að komið sé í veg fyrir óþarfa umsýslukostnað og
    d)    smærri losendur hafi aðgang að leyfum.
    Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skal samþykkt í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    Aðildarríkin skulu gefa skýrslu um rétta framkvæmd uppboðsreglnanna fyrir hvert uppboð, einkum með tilliti til þess að aðgangur sé með sanngjörnum hætti og frjáls og með tilliti til gagnsæis, verðmyndunar og tæknilegra og verklegra þátta. Skýrslurnar skulu lagðar fram innan mánaðar frá því að viðkomandi uppboð fór fram og skulu birtar á vefsetri framkvæmdastjórnarinnar.
    5. Framkvæmdastjórnin skal vakta starfsemi evrópska kolefnismarkaðarins. Hún skal árlega leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um starfsemi kolefnismarkaðarins, þ.m.t. um framkvæmd uppboða, seljanleika og umfang viðskiptanna. Aðildarríkin skulu tryggja, ef þörf er á, að allar upplýsingar, sem máli skipta, séu lagðar fyrir framkvæmdastjórnina a.m.k. tveimur mánuðum áður en framkvæmdastjórnin samþykkir skýrsluna.“
12.    Eftirfarandi greinar bætist við:
     „10. gr. a
     Bráðabirgðareglur um samræmda úthlutun án endurgjalds í öllu Bandalaginu
    1. Framkvæmdastjórnin skal samþykkja, eigi síðar en 31. desember 2010, framkvæmdarráðstafanir, sem eru að öllu leyti samræmdar og gilda í öllu Bandalaginu, um úthlutun losunarheimilda sem um getur í 4., 5., 7. og 12. mgr., þ.m.t. nauðsynleg ákvæði fyrir samræmda beitingu 19. mgr.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    Ráðstafanirnar sem um getur í fyrstu undirgrein skulu, eftir því sem unnt er, ákvarða fyrirframákveðnar viðmiðanir alls staðar í Bandalaginu til að tryggja að úthlutanir fari fram þannig að þær séu hvati til skerðingar á losun gróðurhúsalofttegunda og notkunar á tækni sem stuðlar að orkunýtni með því að hafa hliðsjón af skilvirkustu tækni, staðgönguefnum, staðgönguframleiðsluaðferðum, samvinnslu raf- og varmaorku með góða orkunýtni og orkunýtinni endurnýtingu úrgangslofts og með því að nota lífmassa og fanga og geyma koltvísýring, þar sem slík aðstaða er fyrir hendi, og þær skulu ekki fela í sér hvata til að auka losun. Engin úthlutun án endurgjalds skal fara fram að því er varðar raforkuframleiðslu, að undanskildum þeim tilvikum sem falla undir 10. gr. c og að undanskilinni raforku sem framleidd er með úrgangslofti.
    Viðmiðanirnar skulu að jafnaði reiknaðar út fyrir vöru í stað aðfanga fyrir hvern geira og undirgeira til að hámarka skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda og sparnað af orkunýtni í hverju framleiðsluferli geirans eða undirgeirans sem um er að ræða.
    Við skilgreiningu á meginreglunum fyrir ákvörðun fyrirframákveðinna viðmiðana í einstökum geirum og undirgeirum skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við viðkomandi hagsmunaaðila, þ.m.t. geirana og undirgeirana sem um er að ræða.
    Framkvæmdastjórnin skal, þegar Bandalagið hefur samþykkt alþjóðasamning um loftslagsbreytingar sem leiðir til bindandi skerðingar á losun gróðurhúsalofttegunda sem er sambærileg við skerðingar Bandalagsins, endurskoða þessar ráðstafanir svo úthlutun án endurgjalds fari einungis fram ef hún er að fullu réttlætanleg í ljósi þess samnings.
    2. Við skilgreiningu á meginreglunum fyrir fyrirframákveðnar viðmiðanir í einstökum geirum og undirgeirum skal upphafspunkturinn miðast við meðalárangurinn hjá 10% af skilvirkustu stöðvunum í tilteknum geira eða undirgeira í Bandalaginu á árunum 2007 til 2008. Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við viðkomandi hagsmunaaðila, þ.m.t. geirana og undirgeirana sem um er að ræða.
    Reglugerðirnar skv. 14. gr. og 15. gr. skulu kveða á um samræmdar reglur um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun losunar gróðurhúsalofttegunda sem tengist framleiðslu í því skyni að ákvarða fyrirframákveðnu viðmiðanirnar.
    3. Með fyrirvara um 4. mgr. og 8. mgr. og þrátt fyrir ákvæði 10. gr. c skulu engar úthlutanir án endurgjalds fara fram til raforkuframleiðenda, stöðva sem fanga koltvísýring, vegna leiðslna sem flytja koltvísýring eða til geymslustaða fyrir koltvísýring.
    4. Úthlutun án endurgjalds skal veitt til fjarhitunar og samvinnslu með góða orkunýtni, eins og hún er skilgreind í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB, til þess að mæta efnahagstengdri eftirspurn að því er varðar framleiðslu á varma og kælingu. Á hverju ári eftir 2013 skal heildarúthlutun til slíkra stöðva, að því er varðar framleiðslu á varma, leiðrétt með línulega stuðlinum sem um getur í 9. gr.
    5. Hámark árlegs fjölda losunarheimilda, sem er grunnurinn að útreikningi á úthlutun til stöðva sem ekki falla undir 3. mgr. og eru ekki nýir aðilar, skal ekki vera meira en summan af:
    a)    árlegum heildarfjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu, eins og hann er ákvarðaður skv. 9. gr., margfölduðum með hlutdeild losunar frá stöðvum, sem ekki falla undir 3. mgr., í heildarmeðaltali sannprófaðrar losunar, á tímabilinu 2005–2007, frá stöðvum sem falla undir kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012 og
    b)    meðaltali árlegrar, sannprófaðrar heildarlosunar á tímabilinu 2005 til 2007 frá stöðvum sem einungis falla undir kerfi Bandalagsins frá og með 2013 og falla ekki undir 3. mgr., leiðréttu með línulega stuðlinum sem um getur í 9. gr.
    Ef þörf er á skal beita samræmdum leiðréttingarstuðli sem liggur þvert á atvinnugreinar.
    6. Aðildarríkin mega einnig samþykkja fjárhagsráðstafanir í þágu geira eða undirgeira, þar sem umtalsverð áhætta á kolefnisleka hefur reynst vera fyrir hendi vegna kostnaðar sem tengist losun gróðurhúsalofttegunda og hefur verið velt út í rafmagnsverð, í þeim tilgangi að bæta upp þann kostnað, og þar sem slíkar fjárhagsráðstafanir eru í samræmi við gildandi reglur um ríkisaðstoð og þær reglur um ríkisaðstoð sem verða samþykktar á þessu sviði.
    Ráðstafanirnar skulu byggðar á fyrirframákveðnum viðmiðunum fyrir óbeina losun á koltvísýringi fyrir hverja framleiðslueiningu. Fyrirframákveðnu viðmiðanirnar reiknast fyrir tiltekinn geira eða undirgeira sem margfeldið af raforkunotkuninni fyrir hverja framleiðslueiningu, sem samsvarar skilvirkustu tækni sem völ er á, og af koltvísýringslosuninni frá þeirri blöndu af rafmagnsframleiðslu í Evrópu sem máli skiptir í þessu samhengi.
    7. Fimm hundraðshlutar þess fjölda losunarheimilda í öllu Bandalaginu, sem ákvarðaður er í samræmi við 9. gr. og 9. gr. a á tímabilinu 2013 til 2020, skulu lagðir til hliðar fyrir nýja aðila og vera hámarksfjöldi sem má úthluta nýjum aðilum í samræmi við reglurnar sem samþykktar eru skv. 1. mgr. þessarar greinar. Losunarheimildir í þessum varasjóði alls Bandalagsins, sem er hvorki úthlutað til nýrra aðila né nýttar skv. 8., 9. og 10. mgr. þessarar greinar á tímabilinu 2013 til 2020, skulu boðnar upp af aðildarríkjunum, að teknu tilliti til þess í hve miklum mæli stöðvar hafa notið góðs af þessum varasjóði, í samræmi við 2. mgr. 10. gr., og að því er varðar nákvæmar reglur og tímasetningu, 4. mgr. 10. gr., og til viðeigandi framkvæmdarákvæða.
    Úthlutanir skulu leiðréttar með línulega stuðlinum sem um getur í 9. gr.
    Engin úthlutun án endurgjalds skal fara fram að því er varðar raforkuframleiðslu nýrra þátttakenda.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2010, samþykkja samræmdar reglur um skilgreininguna á „nýjum þátttakanda“, einkum að því er varðar skilgreininguna á „umtalsverðri stækkun“.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    8. Allt að 300 milljónir losunarheimilda í varasjóði nýrra aðila skulu vera til ráðstöfunar til 31. desember 2015 til að stuðla að því að allt að 12 viðskiptatengd tilraunaverkefni verði sett í gang og rekin sem miða að því að CO 2 verði fangað og geymt á þann hátt sem er öruggur fyrir umhverfið, svo og tilraunaverkefni er varða nýskapandi tækni í tengslum við endurnýjanlega orku á yfirráðasvæði Sambandsins.
    Losunarheimildirnar skulu vera til ráðstöfunar til að styðja tilraunaverkefni sem stuðla að þróun á stöðum, sem eru landfræðilega jafndreifðir, á víðtækri kolefnisföngun og -geymslu og nýskapandi tækni í tengslum við endurnýjanlega orku sem er, enn sem komið er, ekki raunhæf í viðskiptalegu tilliti. Úthlutun þeirra skal fara eftir því magni CO 2-losunar sem staðfest hefur verið að komist hafi verið hjá.
    Verkefni skulu valin á grundvelli hlutlægra og gagnsærra viðmiðana sem m.a. fela í sér kröfur um miðlun þekkingar. Þessar viðmiðanir og ráðstafanir skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr. og gerðar aðgengilegar almenningi.
    Taka skal losunarheimildir frá vegna verkefna sem uppfylla þær viðmiðanir sem um getur í þriðju undirgreininni. Stuðningur til þessara verkefna skal veittur gegnum aðildarríkin og skal koma til viðbótar umtalsverðri, sameiginlegri fjármögnun frá rekstraraðila stöðvarinnar. Þau skulu enn fremur njóta sameiginlegrar fjármögnunar af hálfu viðkomandi aðildarríkis, svo og með hjálp annarra tækja. Ekkert verkefni skal njóta stuðnings með kerfinu sem er tilgreint í þessari málsgrein sem er umfram 15% af heildarfjölda losunarheimilda sem eru til ráðstöfunar í þessum tilgangi. Taka skal tillit til þessara losunarheimilda í 7. mgr.
    9. Litháen, sem skv. 1. gr. bókunar nr. 4 um Ignalina-kjarnorkuverið í Litháen, sem fylgir með í viðauka við lögin um aðild frá 2003, hefur skuldbundið sig til þess að loka 2. einingu í Ignalina-kjarnorkuverinu eigi síðar en 31. desember 2009, getur gert tilkall til losunarheimilda úr varasjóði nýrra aðila í því skyni að bjóða þær upp í samræmi við reglugerðina í 4. mgr. 10. gr., að því tilskildu að staðfest heildarlosun í Litháen á tímabilinu 2013 til 2015 í kerfi Bandalagsins sé meiri en summa allra losunarheimilda, sem gefnar hafa verið út án endurgjalds á þessu tímabili til handa stöðvum í Litháen vegna losunar við rafmagnsframleiðslu, og þrír áttundu hlutar losunarheimilda úr varasjóði nýrra aðila sem Litháen skyldi bjóða upp á tímabilinu 2013 til 2020. Heildarfjöldi slíkra losunarheimilda skal svara til umframlosunarinnar á því tímabili ef umframlosunin stafar af aukinni losun frá raforkuframleiðslu, að frádregnum þeim fjölda sem er úthlutað í því aðildarríki á tímabilinu 2008 til 2012 og er umfram sannprófaða losun í Litháen í kerfi Bandalagsins á tímabilinu. Taka skal tillit til allra slíkra losunarheimilda í 7. mgr.
    10. Öll aðildarríki, sem hafa raforkukerfi sem er tengt Litháen, og sem kaupa af Litháen og flytja inn til eigin nota meira en sem nemur 15% af þeirri orku, sem Litháen notar í eigin þágu, og þar sem losunin hefur aukist vegna nýrra fjárfestinga í raforkuframleiðslu, geta beitt 9. mgr. að breyttu breytanda að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fram í þeirri málsgrein.
    11. Með fyrirvara um 10. gr. b skal fjöldi losunarheimilda, sem er úthlutað endurgjaldslaust skv. 4. til 7. mgr. þessarar greinar á árinu 2013, vera 80% af þeim fjölda sem ákvarðaður er í samræmi við ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. Eftir það skal úthlutunum án endurgjalds fækka jafnmikið á hverju ári þannig að 30% úthlutana verði án endurgjalds árið 2020, með það í huga að árið 2027 verði engar úthlutanir án endurgjalds.
    12. Með fyrirvara um 10. gr. b skal úthluta stöðvum, sem eru í geirum eða undirgeirum þar sem fyrir hendi er umtalsverð áhætta á kolefnisleka, á árinu 2013 og á hverju ári eftir það til 2020 losunarheimildum án endurgjalds sem nemur 100% af þeim fjölda sem er ákvarðaður í samræmi við ráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr.
    13. Eigi síðar en 31. desember 2009 og fimmta hvert ár eftir það skal framkvæmdastjórnin, að lokinni umræðu í leiðtogaráðinu, taka saman skrá yfir geirana og undirgeirana, sem um getur í 12. mgr., á grundvelli viðmiðananna sem um getur í 14. til 17. mgr.
    Árlega getur framkvæmdastjórnin, að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis, bætt við geira eða undirgeira í skrána sem um getur í fyrstu undirgreininni ef hún getur sýnt fram á það, í skýrslu um greiningu, að viðkomandi geiri eða undirgeiri fullnægi viðmiðununum í 14. til 17. mgr. eftir að orðið hefur breyting sem hefur umtalsverð áhrif á starfsemina í geiranum eða undirgeiranum.
    Við framkvæmd þessarar greinar skal framkvæmdastjórnin hafa samráð við aðildarríkin, viðkomandi geira og undirgeira og aðra hagsmunaaðila sem málið varðar.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    14. Við ákvörðun á þeim geirum og undirgeirum, sem um getur í 12. mgr., skal framkvæmdastjórnin meta, á vettvangi Bandalagsins, að hve miklu leyti viðkomandi geirar eða undirgeirar geta, miðað við viðkomandi aðgreiningu, velt beina kostnaðinum af tilskildum losunarheimildum og óbeina kostnaðinum af hærra raforkuverði, sem hlýst af framkvæmd þessarar tilskipunar, út í framleiðsluverðið án umtalsverðs taps á markaðshlutdeild til stöðva utan Bandalagsins sem hafa verri kolefnisnýtingu. Matið skal grundvallast á meðalkolefnisverði samkvæmt mati framkvæmdastjórnarinnar á mati á áhrifum sem fylgja röð ráðstafana sem tengjast markmiðum ESB um loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku fyrir 2020 og gögn, liggi þau fyrir, um viðskipti, framleiðslu og vinnsluvirði síðustu þrjú árin fyrir hvern geira eða undirgeira.
    15. Geiri eða undirgeiri telst vera í umtalsverðri áhættu á kolefnisleka ef:
    a)    summa beins og óbeins viðbótarkostnaðar, sem hlýst af framkvæmd þessarar tilskipunar, leiðir til verulega aukins framleiðslukostnaðar, reiknað sem hlutfall af vergu vinnsluvirði, sem nemur a.m.k. 5%, og
    b)    umfang viðskipta við þriðju lönd, skilgreint sem hlutfallið milli heildarverðmætis útflutnings til þriðju landa, að viðbættu verðmæti innflutnings frá þriðju löndum, og heildarstærðar markaðarins í Bandalaginu (árleg velta að viðbættum heildarinnflutningi frá þriðju löndum), er yfir 10%.
    16. Þrátt fyrir 15. mgr. geta geiri eða undirgeiri einnig talist vera í umtalsverðri áhættu á kolefnisleka ef:
    a)    summa beins og óbeins viðbótarkostnaðar, sem hlýst af framkvæmd þessarar tilskipunar, leiðir til sérlega mikillar aukningar á framleiðslukostnaði, reiknað sem hlutfall af vergu vinnsluvirði, sem nemur a.m.k. 30 %, eða
    b)    umfang viðskipta við þriðju lönd, skilgreint sem hlutfallið milli heildarverðmætis útflutnings til þriðju landa, að viðbættu verðmæti innflutnings frá þriðju löndum, og heildarstærðar markaðarins í Bandalaginu (árleg velta að viðbættum heildarinnflutningi frá þriðju löndum), er yfir 30 %.
    17. Auka má við skrána, sem um getur í 13. mgr., að loknu eigindlegu mati og að teknu tilliti til eftirfarandi viðmiðana, liggi viðkomandi gögn fyrir:
    a)    að hve miklu leyti einstakar stöðvar í viðkomandi geira eða undirgeira geta dregið úr losun eða raforkunotkun, m.a. og eftir því sem við á með tilliti til aukins framleiðslukostnaðar sem tengd fjárfesting getur haft í för með sér, t.d. ef skilvirkasta tækni er notuð,
    b)    núverandi og áætluð markaðseinkenni, m.a. tilvik þar sem viðskiptaáhættan eða aukning beins og óbeins kostnaðar er nærri þeim mörkum sem tilgreind eru í 16. mgr.,
    c)    hagnaðarhlutfall sem hugsanlegur vísir um langtímafjárfestingu eða ákvarðanir um flutning.
    18. Skráin, sem um getur í 13. mgr., skal tekin saman með hliðsjón af eftirfarandi, liggi viðkomandi gögn fyrir:
    a)    að hve miklu leyti þriðju lönd, sem hafa afgerandi hlutdeild í heimframleiðslu vara í geirum eða undirgeirum sem teljast vera í áhættu á kolefnisleka, skuldbinda sig eindregið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi geirum eða undirgeirum í sama mæli og Bandalagið og innan sama tímaramma og
    b)    að hve miklu leyti kolefnisnýtni stöðva í þessum löndum er sambærileg við nýtnina í Bandalaginu.
    19. Engum endurgjaldslausum losunarheimildum skal úthlutað til stöðvar sem hefur hætt rekstri, nema rekstraraðilinn sýni lögbæru yfirvaldi fram á að stöðin muni halda áfram framleiðslu innan tiltekins og hæfilegs tíma. Stöðvar teljast hafa hætt rekstri ef leyfi þeirra til þess að losa gróðurhúsalofttegundir hefur runnið út eða hefur verið afturkallað eða þeim er það tæknilega ókleift að halda uppi starfsemi eða hefja hana á ný.
    20. Í þeim ráðstöfunum, sem samþykktar eru skv. 1. mgr., skal framkvæmdastjórnin einnig gera ráðstafanir til þess að skilgreina stöðvar sem hætta rekstri að hluta eða draga umtalsvert úr starfsemi sinni, og ráðstafanir til þess að samþykkja, eftir því sem við á, fjölda endurgjaldslausra losunarheimilda sem þeim er úthlutað þessu til samræmis.
     10. gr. b
     Ráðstafanir til að styðja tiltekna, orkufreka iðnaðargeira ef um kolefnisleka er að ræða
    1. Eigi síðar en 30. júní 2010 skal framkvæmdastjórnin, með hliðsjón af niðurstöðunum úr alþjóðlegum samningaviðræðum og ef þær leiða til skerðingar á losun gróðurhúsalofttegunda og að höfðu samráði við alla viðkomandi aðila vinnumarkaðarins, leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu um greiningu á ástandinu í orkufreku iðnaðargeirunum sem hafa verið skilgreindir þannig að þar sé umtalsverð áhætta á kolefnisleka. Þessu skal fylgt eftir með viðeigandi tillögum, sem geta m.a. verið:
    a)    leiðrétting á hlutfalli þeirra losunarheimilda, sem þessir geirar eða undirgeirar fá án endurgjalds, skv. 10. gr. a,
    b)    upptaka í kerfi Bandalagsins að því er varðar innflytjendur vara sem eru framleiddar í geirum eða undirgeirum sem eru ákvarðaðir í samræmi við 10. gr. a,
    c)    mat á áhrifum kolefnisleka á orkuöryggi aðildarríkjanna, einkum þar sem raforkutengingar við aðra hluta Sambandsins eru ófullnægjandi og þar sem raforkutengingar við þriðju lönd eru fyrir hendi, og viðeigandi ráðstafanir í þessu tilliti.
    Þegar vegið er og metið hvaða ráðstafanir séu viðeigandi skal einnig taka tillit til allra bindandi samninga innan atvinnugreina, sem hafa í för með sér skerðingu á hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli sem er nauðsynlegur til þess að sporna við loftslagsbreytingum á skilvirkan hátt, sem unnt er að vakta og sannprófa og sem falla undir lögboðið fyrirkomulag við framkvæmd.
    2. Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 31. mars 2011 meta hvort ákvarðanirnar, sem teknar voru varðandi hlutfall endurgjaldslausra losunarheimilda, sem geirar eða undirgeirar fengu úthlutað í samræmi við 1. mgr., þ.m.t. áhrifin af setningu fyrirframákveðnu viðmiðananna í 2. mgr. 10. gr. a, séu líklegar til þess að hafa umtalsverð áhrif á fjölda losunarheimilda sem aðildarríkin bjóða upp í samræmi við b-lið 2. mgr. 10. gr., miðað við sviðsmynd þar sem heildaruppboð færi fram fyrir alla geira á árinu 2020. Hún skal, eftir því sem við á, leggja fram fullnægjandi tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið, þar sem tillit er tekið til hugsanlegra, félagslegra og efnahagslegra áhrifa vegna slíkra tillagna.
     10. gr. c
     Möguleiki á endurgjaldslausri úthlutun á aðlögunartímabilinu til að færa raforkuframleiðslu til nútímahorfs
    1. Með fyrirvara um 1. til 5. mgr. 10. gr. a geta aðildarríkin staðið að úthlutun án endurgjalds á aðlögunartímabilinu til stöðva í raforkuframleiðslu sem eru í rekstri eigi síðar en 31. desember 2008 eða til stöðva í raforkuframleiðslu þar sem fjárfestingarferlið fyrir þær hófst í reynd eigi síðar en þann sama dag, að því tilskildu að einu af eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:
    a)    raforkunet viðkomandi lands var hvorki beint né óbeint tengt samtengda netinu sem samtök um samræmingu flutnings á raforku (UCTE) starfrækja,
    b)    árið 2007 var raforkunet viðkomandi lands einungis beint eða óbeint tengt netinu sem samtök um samræmingu flutnings á raforku starfrækja með einni línu með minna en 400 MW afkastagetu eða
    c)    árið 2006 voru meira en 30% raforkunnar framleidd með einni tegund jarðefnaeldsneytis og verg landsframleiðsla á mann á markaðsvirði fór ekki yfir 50% af meðaltali vergrar landsframleiðslu á mann á markaðsvirði í Bandalaginu.
    Viðkomandi aðildarríki skal leggja fyrir framkvæmdastjórnina landsáætlun um fjárfestingar í endurbótum og uppfærslu á grunnvirkjum og í hreinni tækni. Landsáætlunin skal einnig kveða á um fjölbreytta samsetningu orkugjafa og fjölbreyttar birgðalindir fyrir upphæð sem samsvarar, eftir því sem unnt er, markaðsvirði endurgjaldslausu úthlutunarinnar að því er varðar fyrirhugaðar fjárfestingar, m.t.t. nauðsynjar þess að takmarka eftir föngum beintengdar verðhækkanir. Viðkomandi aðildarríki skal leggja árlega fyrir framkvæmdastjórnina skýrslu um fjárfestingar í uppfærslu grunnvirkja og í hreinni tækni. Taka má með fjárfestingar sem eru gerðar frá og með 28. júní 2009.
    2. Draga skal endurgjaldslausa úthlutun á aðlögunartímabilinu frá þeim fjölda losunarheimilda sem viðkomandi aðildarríki hefði að öðrum kosti boðið upp skv. 2. mgr. 10. gr. Árið 2013 skal endurgjaldslaus bráðabirgðaúthlutun í heild ekki vera meiri en 70% af árlegu meðaltali sannprófaðrar losunar áranna 2005–2007 frá slíkum orkuframleiðendum fyrir þann fjölda sem samsvarar endanlegri brúttónotkun í hlutaðeigandi aðildarríki og skal smám saman draga úr endurgjaldslausri úthlutun þannig að árið 2020 verði hún úr sögunni. Að því er varðar aðildarríki, sem ekki voru hluti af kerfi Bandalagsins árið 2005, skal reikna losun hvers þeirra út frá sannprófuðum gögnum um losun samkvæmt kerfi Bandalagsins árið 2007.
    Viðkomandi aðildarríki getur ákveðið að einungis rekstraraðili stöðvarinnar, sem um er að ræða, megi nota losunarheimildir, sem úthlutað er samkvæmt þessari grein, til að skila inn losunarheimildum skv. 3. mgr. 12. gr. að því er varðar losun frá stöðinni á árinu sem losunarheimildum er úthlutað fyrir.
    3. Úthlutun til rekstraraðila skal grundvallast á úthlutun samkvæmt sannprófaðri losun 2005– 2007 eða fyrirframákveðnum viðmiðunum um skilvirkni á grundvelli vegins meðaltals losunar frá þeirri raforkuframleiðslu sem er hagkvæmust m.t.t. gróðurhúsalofttegunda og fellur undir kerfi Bandalagsins fyrir stöðvar sem nota mismunandi eldsneytistegundir. Vægið getur endurspeglað hlutdeild mismunandi eldsneytistegunda í raforkuframleiðslu hlutaðeigandi aðildarríkis. Í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni, sem um getur í 2. mgr. 23. gr., skal framkvæmdastjórnin leggja til leiðbeiningar til að tryggja að aðferðirnar við úthlutunina valdi ekki óþarfa röskun á samkeppni og lágmarki neikvæð áhrif á hvatningu til að draga úr losun.
    4. Aðildarríki sem beitir þessari grein skal krefjast þess af raforkuframleiðendum og rekstraraðilum netkerfa sem hafa gagn af þessu að þeir leggi fram skýrslu tólfta hvern mánuð um framkvæmd fjárfestinganna sem um getur í landsáætluninni. Aðildarríki skulu leggja skýrslu um þetta fyrir framkvæmdastjórnina og birta skýrslurnar.
    5. Aðildarríki, sem hyggst úthluta losunarheimildum á grundvelli þessarar greinar, skal, eigi síðar en 30. september 2011, leggja fyrir framkvæmdastjórnina umsókn með tillögum um úthlutunaraðferðir og um hverja úthlutun fyrir sig. Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:
    a)    gögn sem færa sönnur á að aðildarríkið uppfylli a.m.k. eitt skilyrðanna sem eru sett fram í 1. mgr.,
    b)    skrá yfir stöðvar, sem umsóknin gildir fyrir, og fjölda losunarheimilda sem úthluta skal hverri stöð í samræmi við 3. mgr. og leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar,
    c)    landsáætlunin sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr.,
    d)    ákvæði um vöktun og framfylgd að því er varðar fyrirhugaðar fjárfestingar samkvæmt landsáætluninni,
    e)    upplýsingar sem staðfesta að úthlutunin valdi ekki óþarfa röskun á samkeppni.
    6. Framkvæmdastjórnin skal meta umsóknina m.t.t. þáttanna sem koma fram í 5. mgr. og getur hafnað henni eða einstökum hlutum hennar innan sex mánaða frá viðtöku viðeigandi upplýsinga.
    7. Tveimur árum fyrir lok þess tímabils, sem aðildarríki getur staðið fyrir bráðabirgðaúthlutun til stöðva í raforkuframleiðslu, sem voru í rekstri eigi síðar en 31. desember 2008, skal framkvæmdastjórnin meta framþróunina í framkvæmd landsáætlunarinnar. Ef framkvæmdastjórnin telur, í kjölfar beiðni frá hlutaðeigandi aðildarríki, að hugsanlega þurfi að lengja tímabilið getur hún lagt viðeigandi tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið, þ.m.t. skilyrðin sem uppfylla þyrfti ef tímabilið yrði lengt.“
13.    Eftirfarandi komi í stað 11. gr. og 11. gr. a:
     „11. gr.
     Framkvæmdarráðstafanir á landsvísu
    1. Hvert aðildarríki skal birta og leggja fyrir framkvæmdastjórnina, eigi síðar en 30. september 2011, skrá yfir stöðvar á yfirráðasvæði sínu, sem falla undir þessa tilskipun, og alla endurgjaldslausa úthlutun til hverrar stöðvar á yfirráðasvæði sínu, sem reiknuð er í samræmi við reglurnar sem um getur í 1. mgr. 10. gr. a og í 10. gr. c.
    2. Eigi síðar en 28. febrúar ár hvert skulu lögbær yfirvöld gefa út þann fjölda losunarheimilda sem úthluta skal á því ári og sem er reiknaður í samræmi við 10. gr., 10. gr. a og 10. gr. c.
    3. Aðildarríkjum er óheimilt að gefa út endurgjaldslausar losunarheimildir skv. 2. mgr. til stöðva ef framkvæmdastjórnin hefur hafnað því að þær yrðu teknar upp í skrána sem um getur í 1. mgr.
     11. gr. a
     Notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga frá verkefnistengdum aðgerðum í kerfi Bandalagsins áður en alþjóðasamningur um loftslagsbreytingar öðlast gildi
    1. Ákvæði 2.–7. mgr. þessarar greinar gilda án þess að hafa áhrif á beitingu 3. og 4. mgr. 28. gr.
    2. Hafi rekstraraðilar eða umráðendur loftfara ekki notað allar þær einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem aðildarríkin heimiluðu þeim að nota á tímabilinu 2008 til 2012, eða réttur til að nota ávinnsluheimildir hefur verið veittur skv. 8. gr., geta rekstraraðilar farið fram á það við lögbært yfirvald að það gefi út losunarheimildir þeim til handa, sem gilda frá 2013 og áfram, í skiptum fyrir einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem gefnar hafa verið út í tengslum við skerðingu losunar fram til 2012, frá tegundum verkefna sem uppfylltu kröfur vegna notkunar í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012.
    Lögbært yfirvald skal annast slík skipti, sé þeirra óskað, til og með 31. mars 2015.
    3. Hafi rekstraraðilar eða umráðendur loftfara ekki notað allar þær einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem aðildarríkin heimiluðu þeim að nota á tímabilinu 2008 til 2012, eða réttur til að nota ávinnsluheimildir hefur verið veittur skv. 8. gr., skulu lögbær yfirvöld heimila rekstraraðilum að skiptast á einingum vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningum frá verkefnum sem voru skráð fyrir 2013 og gefnar voru út í tengslum við skerðingu losunar frá og með 2013 fyrir losunarheimildir sem gilda frá og með 2013.
    Fyrsta undirgreinin gildir um einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar fyrir allar tegundir verkefna sem uppfylltu kröfur vegna notkunar í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012.
    4. Hafi rekstraraðilar eða umráðendur loftfara ekki notað allar þær einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem aðildarríkin heimiluðu þeim að nota á tímabilinu 2008 til 2012, eða réttur til að nota ávinnsluheimildir hefur verið veittur skv. 8. gr., skulu lögbær yfirvöld heimila rekstraraðilum að skiptast á einingum vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningum sem gefnar voru út í tengslum við skerðingu losunar frá og með 2013 fyrir losunarheimildir frá nýjum verkefnum sem gilda frá og með 2013 í löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun.
    Fyrsta undirgreinin gildir um einingar vottaðrar losunarskerðingar fyrir allar tegundir verkefna sem uppfylltu kröfur vegna notkunar í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012 þar til þessi lönd hafa fullgilt viðeigandi samning við Bandalagið eða til ársins 2020, hvort sem kemur á undan.
    5. Hafi rekstraraðilar eða umráðendur loftfara ekki notað allar þær einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem aðildarríkin heimiluðu þeim að nota á tímabilinu 2008 til 2012, eða réttur til að nota ávinnsluheimildir hefur verið veittur skv. 8. gr., og ef samningaviðræðum um alþjóðasamning um loftslagsbreytingar er ekki lokið þann 31. desember 2009, er heimilt að nota ávinnsluheimildir frá verkefnum eða annarri starfsemi sem dregur úr losun í kerfi Bandalagsins í samræmi við samninga sem gerðir hafa verið við þriðju lönd og skal þá tilgreina umfang notkunarinnar. Í samræmi við slíka samninga skal rekstraraðilum gert kleift að nota ávinnsluheimildir frá verkefnistengdum aðgerðum í þessum þriðju löndum til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt kerfi Bandalagsins.
    6. Í öllum samningum, sem um getur í 5. mgr., skal vera kveðið á um notkun ávinnsluheimilda í kerfi Bandalagsins frá tegundum verkefna sem uppfylltu kröfur um notkun í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012, þ.m.t. endurnýjanleg orka eða tækni á sviði orkunýtni sem stuðlar að miðlun tækni og sjálfbærri þróun. Í öllum slíkum samningum má einnig kveða á um notkun ávinnsluheimilda frá verkefnum þar sem grunnástandið, sem miðað er við, er undir mörkum endurgjaldslausrar úthlutunar, sem um getur í 10. gr. a, eða undir mörkunum sem löggjöf Bandalagsins krefst.
    7. Þegar alþjóðasamningur um loftslagsbreytingar hefur náðst skulu eingöngu viðurkenndar í kerfi Bandalagsins ávinnsluheimildir frá verkefnum í þriðju löndum sem hafa fullgilt samninginn frá og með 1. janúar 2013.
    8. Öllum starfandi rekstraraðilum skal vera heimilt að nota ávinnsluheimildir á tímabilinu 2008 til 2020, annaðhvort að þeim fjölda sem þeim hefur verið úthlutað á tímabilinu 2008 til 2012 eða að þeim fjölda sem samsvarar hundraðshluta sem er ekki lægri en 11% af því sem þeim hefur verið úthlutað á tímabilinu 2008 til 2012, hvort heldur er hærra.
    Rekstraraðilar skulu geta notað ávinnsluheimildir umfram þau 11% sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein, að þeim fjölda sem samsvarar samanlagðri, endurgjaldslausri úthlutun til þeirra á tímabilinu 2008 til 2012 og samanlögðum rétti til að nota verkefnatengdar ávinnsluheimildir sem jafngilda tilteknum hundraðshluta af sannprófaðri losun þeirra á tímabilinu 2005 til 2007.
    Nýir aðilar, m.a. nýir aðilar á tímabilinu 2008 til 2012 sem hvorki fengu endurgjaldslausa úthlutun né höfðu rétt til að nota einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar á tímabilinu 2008–2012, og nýir geirar skulu geta notað ávinnsluheimildir að þeim fjölda sem samsvarar hundraðshluta sem er ekki lægri en 4,5% af sannprófaðri losun þeirra á tímabilinu 2013 til 2020. Umráðendur loftfara skulu geta notað ávinnsluheimildir að þeim fjölda sem samsvarar hundraðshluta sem er ekki lægri en 1,5% af sannprófaðri losun þeirra á tímabilinu 2013 til 2020.
    Samþykkja skal ráðstafanir til að tilgreina nákvæman hundraðshluta sem gildi samkvæmt fyrstu, annarri og þriðju undirgrein. Að minnsta kosti þriðjungi viðbótarfjöldans sem verður skipt milli starfandi rekstraraðila, að frátöldum fyrsta hundraðshlutanum sem um getur í fyrstu undirgrein, skal skipt milli þeirra rekstraraðila sem höfðu að meðaltali minnstu, samanlögðu, endurgjaldslausu úthlutunina og minnstu notkunina á verkefnatengdum ávinnsluheimildum á tímabilinu 2008 til 2012.
    Þessar ráðstafanir skulu tryggja að heildarnotkun ávinnsluheimilda, sem leyft er að nota, fari ekki yfir 50% af skerðingu starfandi geira alls staðar í Bandalaginu miðað við losunina 2005 í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2020 og 50% af skerðingu nýrra geira og flugsamgangna alls staðar í Bandalaginu á tímabilinu frá upptökudegi í kerfi Bandalagsins til 2020.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    9. Frá og með 1. janúar 2013 má beita ráðstöfunum til að takmarka notkun tilgreindra ávinnsluheimilda frá tegundum verkefna.
    Þessar ráðstafanir skulu einnig fela í sér ákvörðun á því frá og með hvaða degi notkun ávinnsluheimilda, skv. 1.–4. mgr., skal vera í samræmi við þessar ráðstafanir. Dagsetningin skal vera í fyrsta lagi sex mánuðum og eigi síðar en þremur árum eftir að ráðstafanirnar eru samþykktar.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr. Framkvæmdastjórnin skal vega og meta hvort leggja beri fyrir nefndina drög að ráðstöfununum sem gera skal ef aðildarríki fer fram á það.“
14.    Í 1. mgr. 11. gr. b bætist eftirfarandi undirgrein við:
    „Bandalagið og aðildarríki þess skulu einungis heimila verkefnatengdar aðgerðir ef höfuðstöðvar allra þátttakendanna í verkefninu eru annaðhvort í landi sem hefur gert alþjóðasamning í tengslum við slík verkefni eða í landi, stjórnsýslueiningu eða svæðisbundinni einingu sem tengist kerfi Bandalagsins skv. 25. gr.“
15.    Ákvæðum 12. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „1a. Eigi síðar en 31. desember 2010 skal framkvæmdastjórnin kanna hvort markaðurinn fyrir losunarheimildir sé nægilega vel verndaður gegn innherjasvikum eða markaðsmisnotkun og leggja fram tillögur, ef við á, til að tryggja slíka vernd. Nota má viðeigandi ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) (*) með tilhlýðilegum breytingum þannig að þær gildi um vöruviðskipti.“
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *) Stjtíð. ESB L 96, 12.4.2003, bls. 16.;
    b)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „3a. Skylda til að skila inn losunarheimildum myndast ekki að því er varðar losun sem staðfest er að er hafi verið fönguð og flutt til varanlegrar geymslu í stöð sem hefur gildandi leyfi í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu (*).“
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *) Stjtíð. ESB L 140, 5.6.2009, bls. 114,
    c)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „5. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda með fyrirvara um 10. gr. c.“
16.    Í stað 13. gr. komi eftirfarandi:
     „13. gr.
     Gildi losunarheimilda
    1. Losunarheimildir, sem eru gefnar út frá og með 1. janúar 2013, gilda fyrir losun á átta ára tímabilum sem hefjast 1. janúar 2013.
    2. Fjórum mánuðum eftir upphaf hvers tímabils, sem um getur í 1. mgr., skal lögbært yfirvald afturkalla losunarheimildir sem ekki eru lengur í gildi og hefur ekki verið skilað inn og afturkallaðar í samræmi við 12. gr.
    Aðildarríkin skulu gefa út losunarheimildir til aðila fyrir yfirstandandi tímabil, sem komi í stað heimilda sem þeir höfðu en hafa verið afturkallaðar í samræmi við fyrstu undirgrein.“
17.    Í stað 14. gr. komi eftirfarandi:
     „14. gr.
     Vöktun á losun og skýrslugjöf
    1. Eigi síðar en 31. desember 2011 skal framkvæmdastjórnin samþykkja reglugerð um vöktun á losun og skýrslugjöf vegna hennar og, ef við á, gögn um starfsemi í tengslum við starfsemina sem er tilgreind í I. viðauka að því er varðar vöktun og skýrslugjöf á gögnum um tonnkílómetra vegna umsóknar skv. 3. gr. e og 3. gr. f, sem skal byggð á meginreglunum um vöktun og skýrslugjöf sem settar eru fram í IV. viðauka, og skal hún tilgreina hnatthlýnunarmátt hverrar gróðurhúsalofttegundar um sig í tengslum við kröfurnar um vöktun og skýrslugjöf fyrir viðkomandi lofttegund.
    Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skal samþykkt í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    2. Í reglugerðinni, sem um getur í 1. mgr., skal taka tillit til nákvæmustu og nýjustu rannsóknarniðurstaðna sem tiltækar eru, einkum frá milliríkjanefndinni um loftslagsbreytingar, og þar geta einnig verið tilgreindar kröfur til rekstraraðila um að þeir gefi skýrslu um losun í tengslum við framleiðslu á vörum sem eru framleiddar í orkufrekum iðnaði og geta átt í alþjóðlegri samkeppni. Í reglugerðinni geta einnig verið tilgreindar kröfur um að þessar upplýsingar verði sannprófaðar af óháðum aðila.
    Þessar kröfur geta m.a. verið um skýrslugjöf um umfang losunar frá raforkuframleiðslu sem fellur undir kerfi Bandalagsins og tengist framleiðslu á slíkum vörum.
    3. Aðildarríkin skulu sjá til þess að hver rekstraraðili stöðvar eða umráðandi loftfars gefi lögbæru yfirvaldi skýrslu um losun stöðvarinnar eða, frá 1. janúar 2010, loftfarsins, sem hann starfrækir, á almanaksárinu eftir lok þess, í samræmi við reglugerðina sem um getur í 1. mgr.
    4. Reglugerðin, sem um getur í 1. mgr., getur falið í sér kröfur um notkun sjálfvirkra kerfa og snið upplýsingaskipta til að samræma samskipti varðandi vöktunaráætlunina, árlegu skýrsluna um losun og sannprófunarstörfin milli rekstraraðilans, sannprófandans og lögbærra yfirvalda.“
18.    Ákvæðum 15. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Eftirfarandi komi í stað fyrirsagnarinnar:
         „Sannprófun og faggilding“
    b)    Eftirfarandi málsgreinar bætast við:
        „Eigi síðar en 31. desember 2011 skal framkvæmdastjórnin samþykkja reglugerð um sannprófun losunarskýrslna á grundvelli meginreglnanna sem settar eru fram í V. viðauka og um faggildingu sannprófenda og eftirlit með þeim. Í henni skulu tilgreind skilyrði fyrir faggildingu og afturköllun faggildingar, fyrir gagnkvæmri viðurkenningu og jafningjamati á faggildingarstofnunum, ef við á.
        Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skal samþykkt í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.“
19.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „15. gr. a
     Upplýsingagjöf og þagnarskylda
    Aðildarríki og framkvæmdastjórnin skulu sjá til þess að allar ákvarðanir og skýrslur, sem varða fjölda og úthlutun losunarheimilda og vöktun, skýrslugjöf og sannprófun losunar, séu tafarlaust birtar á skipulegan hátt og að aðgangur án mismununar sé tryggður að þeim.
    Ekki er heimilt að afhenda upplýsingar, sem falla undir þagnarskyldu, öðrum aðila eða yfirvaldi nema með skírskotun til gildandi laga, reglna eða stjórnsýsluákvæða.“
20.    Í stað 4. mgr. 16. gr. komi eftirfarandi:
    „4. Sektir vegna umframlosunar í tengslum við losunarheimildir sem voru gefnar út frá og með 1. janúar 2013 skulu hækka í samræmi við evrópska vísitölu neysluverðs.“
21.    Ákvæðum 19. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Losunarheimildir, sem eru gefnar út frá og með 1. janúar 2012, skulu vistaðar í skrá Bandalagsins svo að framkvæma megi aðgerðir í tengslum við umsjón vörslureikninga sem opnaðir hafa verið í aðildarríkjunum og við úthlutun, innskil og afturköllun losunarheimilda samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar sem um getur í 3. mgr.
        Hvert aðildarríki skal geta framkvæmt heimilaðar aðgerðir samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eða Kýótóbókuninni.“
    b)    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4. Í reglugerðinni, sem um getur í 3. mgr., skal koma fram viðeigandi fyrirkomulag þannig að á vegum skrár Bandalagsins geti farið fram viðskipti og önnur starfsemi sem liður í að koma á þeirri tilhögun um getur í 1. mgr. b í 25. gr. Í reglugerðinni skulu einnig koma fram aðferðir vegna breytinga- og atvikastjórnunar sem gilda fyrir skrá Bandalagsins að því er varðar álitaefni í 1. mgr. þessarar greinar. Í henni skal koma fram viðeigandi fyrirkomulag fyrir skrá Bandalagsins til að tryggja að aðildarríki geti sýnt frumkvæði að því er varðar betri nýtni, stjórnun rekstrarkostnaðar og ráðstafanir í tengslum við gæðaeftirlit.“
22.    Ákvæðum 21. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað annars málsliðar 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „Í skýrslunni skal sérstakur gaumur gefinn að skipulagi við úthlutun losunarheimilda, skráahaldi, beitingu framkvæmdarráðstafana fyrir vöktun og skýrslugjöf, sannprófun og faggildingu og að málum sem varða það hvort farið er að ákvæðum þessarar tilskipunar og skattalega meðferð losunarheimilda, sé um slíkt að ræða.“
    b)     Í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3. Framkvæmdastjórnin skal skipuleggja skipti á upplýsingum milli lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum um þróun mála sem varða úthlutun, notkun losunarskerðingareininga og eininga vottaðrar losunarskerðingar í kerfi Bandalagsins, skráahald, vöktun, skýrslugjöf, sannprófun, faggildingu, upplýsingatækni og eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar.“
23.    Í stað 22. gr. komi eftirfarandi:
     „22. gr.
     Breytingar á viðaukunum
    Heimilt er að breyta viðaukunum við þessa tilskipun, að frátöldum I. viðauka, II. viðauka a og II. viðauka b, í ljósi skýrslnanna sem kveðið er á um í 21. gr. og reynslunnar af beitingu þessarar tilskipunar. Heimilt er að breyta IV. og V. viðauka til að bæta vöktun, skýrslugjöf og sannprófun losunar.
    Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar með því að auka við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.“
24.    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 23. gr.:
    „4. Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 4. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.“
25.    Í stað 24. gr. komi eftirfarandi:
     24. gr.
     Málsmeðferð við að taka einhliða með aðra starfsemi og lofttegundir
    1. Frá og með 2008 er aðildarríkjum heimilt, í samræmi við þessa tilskipun, að láta viðskipti með losunarheimildir ná til starfsemi og gróðurhúsalofttegunda sem ekki eru tilgreindar í I. viðauka, að teknu tilliti til allra viðkomandi viðmiðana, einkum áhrifa á innri markaðinn, hugsanlegrar röskunar á samkeppni, heilleika kerfis Bandalagsins í umhverfislegu tilliti og áreiðanleika fyrirhugaðs vöktunar- og skýrslugjafarkerfis, svo fremi framkvæmdastjórnin samþykki að bæta við þessari starfsemi og gróðurhúsalofttegundum
    a)    í samræmi við málsmeðferðina í stjórnsýslunni, sem um getur í 2. mgr. 23. gr., ef viðbótin á við um stöðvar sem ekki falla undir I. viðauka eða
    b)    í samræmi við málsmeðferðina í stjórnsýslunni með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr., ef viðbótin á við um starfsemi og gróðurhúsalofttegundir sem ekki eru tilgreindar í I. viðauka. Þessar ráðstafanir miða að því að breyta veigalitlum þáttum í þessari tilskipun með því að auka við hana.
    2. Þegar framkvæmdastjórnin hefur samþykkt að taka með aðra starfsemi og lofttegundir getur hún jafnframt heimilað útgáfu viðbótarlosunarheimilda og heimilað öðrum aðildarríkjum að taka með aðra slíka starfsemi og lofttegundir.
    3. Framkvæmdastjórnin getur, að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis, samþykkt reglugerð um vöktun og skýrslugjöf vegna losunar í tengslum við starfsemi, stöðvar og gróðurhúsalofttegundir sem ekki eru tilgreindar sem samsetning í I. viðauka, ef sú vöktun og skýrslugjöf getur farið fram með nægilegri nákvæmni.
    Þessi ráðstöfun, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skal samþykkt í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.“
    26. Eftirfarandi grein bætist við:
     „24. gr. a
     Samræmdar reglur fyrir verkefni sem draga úr losun
    1. Auk viðbótanna, sem kveðið er á um í 24. gr., er heimilt að samþykkja framkvæmdarráðstafanir vegna útgáfu losunar- eða ávinnsluheimilda í tengslum við verkefni sem eru undir stjórn aðildarríkjanna og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en falla ekki undir kerfi Bandalagsins.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    Slíkar ráðstafanir skulu ekki leiða til þess að skerðing losunar verði tvítalin eða hindra framkvæmd annarra stefnumótandi ráðstafana sem draga úr losun sem fellur ekki undir kerfi Bandalagsins. Aðeins skal samþykkja slíkar ráðstafanir ef viðbót er ekki möguleg skv. 24. gr. og við næstu endurskoðun á kerfi Bandalagsins skal vega og meta hvort samræma skuli í öllu Bandalaginu hvaða losun falli undir kerfið.
    2. Samþykkja má framkvæmdarráðstafanir með ítarlegum fyrirmælum um ávinnsluheimildir að því er varðar verkefni á vettvangi Bandalagsins sem um getur í 1. mgr.
    Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    3. Aðildarríki getur hafnað því að gefa út losunarheimildir eða ávinnsluheimildir í tengslum við tilteknar tegundir verkefna sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á eigin yfirráðasvæði.
    Slík verkefni verða framkvæmd á grundvelli samnings aðildarríkisins þar sem verkefnið er unnið.“
27.    Eftirfarandi málsgreinar bætist við 25. gr.:
    „1a. Gera má samninga til þess að tryggja að losunarheimildir verði viðurkenndar í kerfi Bandalagsins og öðrum bindandi kerfum um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem hafa algilt losunarþak sem hefur verið fastsett fyrir önnur lönd eða stjórnsýslueiningar eða svæðisbundnar einingar.
    1b. Heimilt er að gera valfrjálsa samninga við þriðju lönd eða stjórnsýslueiningar eða svæðisbundnar einingar um tæknilega og stjórnsýslulega samræmingu hvað varðar losunarheimildir innan kerfis Bandalagsins eða önnur skyldubundin kerfi um viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem hafa algilt losunarþak.“
28.    Eftirfarandi komi í stað 27., 28. og 29. gr.:
     27. gr.
     Útilokun lítilla stöðva sem falla undir jafngildar ráðstafanir
    1. Aðildarríkjum er heimilt, að höfðu samráði við rekstraraðila, að útiloka frá kerfi Bandalagsins þær stöðvar sem hafa tilkynnt lögbæra yfirvaldinu um losun sem nemur innan við 25 000 tonnum af koltvísýringsígildi og, sé brennsla hluti af starfseminni, eru með nafnvarmaafli undir 35 MW, að undanskilinni losun frá lífmassa, á hverju næstliðinna þriggja ára á undan tilkynningunni skv. a-lið, og sem falla undir ráðstafanir sem hafa í för með sér sambærilega skerðingu á losun, ef umrætt aðildarríki uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
    a)    það tilkynnir framkvæmdastjórninni um hverja slíka stöð og tilgreinir jafngildar ráðstafanir sem hafa verið gerðar fyrir þá stöð sem skila sambærilegu framlagi til skerðingar á losun og fyrir er, áður en leggja þarf fram skrá yfir stöðvar skv. 1. mgr. 11. gr. og í síðasta lagi þegar sú skrá er lögð fyrir framkvæmdastjórnina,
    b)    það staðfestir að vöktunarfyrirkomulag sé fyrir hendi til að meta hvort einhver stöðvanna losi 25 000 tonn eða meira af koltvísýringsígildi, að undanskilinni losun frá lífmassa, á einu almanaksári. Aðildarríki geta heimilað einfaldaðar ráðstafanir fyrir vöktun, skýrslugjöf og sannprófun að því er varðar stöðvar þar sem meðaltal árlegrar, sannprófaðar losunar frá 2008 til 2010 er minna en 5000 tonn á ári, í samræmi við 14. gr.,
    c)    það staðfestir að stöð verður tekin í kerfi Bandalagsins á ný ef hún losar 25 000 tonn eða meira af koltvísýringsígildi, að frátalinni losun frá lífmassa, á einu almanaksári eða ef ráðstafanirnar, sem eiga við um þá stöð og munu skila sambærilegu framlagi til skerðingar á losun, eru ekki lengur í gildi,
    d)    það birtir upplýsingarnar, sem um getur í a-, b- og c-lið, svo að almenningur geti komið á framfæri athugasemdum við þær.
    Einnig er heimilt að undanþiggja sjúkrahús kerfinu ef þau gera sambærilegar ráðstafanir.
    2. Líta skal svo á að útilokunin hafi verið samþykkt ef framkvæmdastjórnin andmælir ekki innan sex mánaða tímabils eftir að þriggja mánaða tímabili birtingar, þar sem almenningur getur komið á framfæri athugasemdum, lýkur.
    Þegar stöðin hefur skilað inn losunarheimildum fyrir það tímabil sem hún er í kerfi Bandalagsins skal hún vera útilokuð og aðildarríkið skal þá ekki lengur gefa út endurgjaldslausar losunarheimildir til stöðvarinnar skv. 10. gr. a.
    3. Þegar stöð er tekin inn í kerfi Bandalagsins á ný skv. 1. mgr. c skal heimildum, sem gefnar eru út skv. 10. gr. a, úthlutað frá og með því ári þegar stöðin er tekin inn aftur. Draga skal losunarheimildir, sem gefnar eru út til þessara stöðva, frá fjöldanum sem aðildarríkinu, þar sem stöðin er, ber að bjóða upp skv. 2. mgr. 10. gr.
    Þessar stöðvar skulu vera í kerfi Bandalagsins til loka viðskiptatímabilsins.
    4. Gera má einfaldaðar kröfur um vöktun, skýrslugerð og sannprófun til að ákvarða losun á árunum þremur fyrir tilkynninguna skv. a-lið 1. mgr. að því er varðar stöðvar sem ekki hafa verið í kerfi Bandalagsins á tímabilinu 2008 til 2012.
     28. gr.
     Aðlögun eftir að Bandalagið hefur samþykkt alþjóðasamning um loftslagsbreytingar
    1. Innan þriggja mánaða frá því að undirritaður er af hálfu Bandalagsins alþjóðasamningur um loftslagsbreytingar sem leiðir, eigi síðar en 2020, til bindandi skerðingar á losun gróðurhúsalofttegunda sem er meiri en 20% miðað við gildi ársins 1990, eins og fram kemur í skuldbindingu sem Evrópuþingið samþykkti í mars 2007 um að draga úr losun um 30%, skal framkvæmdastjórnin leggja fram skýrslu þar sem einkum eru metnir eftirfarandi þættir:
    a)    eðli þeirra ráðstafana sem samþykktar hafa verið á grundvelli alþjóðlegra samningaviðræðna ásamt skuldbindingum annarra iðnríkja um að draga úr losun á sambærilegan hátt og Bandalagið og skuldbindingum þróunarlanda, sem best eru stödd efnahagslega, um að leggja sitt af mörkum í samræmi við ábyrgð sína og getu,
    b)    áhrif alþjóðasamningsins um loftslagsbreytingar og þar með valkostir sem nauðsynlegir eru á vettvangi Bandalagsins til að nálgast metnaðarfyllra markmiðið, 30% skerðingu, á yfirvegaðan, gagnsæjan og sanngjarnan hátt og að teknu tilliti til þeirrar vinnu sem farið hefur fram samkvæmt fyrsta skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar,
    c)    samkeppnishæfni framleiðsluiðnaðar í Bandalaginu í tengslum við áhættu á kolefnisleka,
    d)    áhrif alþjóðasamningsins um loftslagsbreytingar á aðra atvinnuvegi í Bandalaginu,
    e)    áhrifin á landbúnað í Bandalaginu, þ.m.t. áhætta á kolefnisleka,
    f)    viðeigandi fyrirkomulag við að taka með losun og fjarlægingu í tengslum við landnotkun, breytta notkun lands og skógrækt í Bandalaginu,
    g)    nýskógrækt, endurræktun skóga, varnir gegn skógeyðingu og hnignun skóga í þriðju löndum ef komið verður á alþjóðlega viðurkenndu kerfi í þessu samhengi,
    h)    þörf fyrir frekari stefnumörkun og ráðstafanir af hálfu Bandalagsins í ljósi skuldbindinga þess og aðildarríkjanna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
    2. Á grundvelli skýrslunnar, sem um getur í 1. mgr., skal framkvæmdastjórnin, eins og við á, leggja fram tillögu að nýrri löggjöf fyrir Evrópuþingið og ráðið um breytingu á þessari tilskipun skv. 1. mgr. með það að markmiði að breytta tilskipunin öðlist gildi þegar Bandalagið samþykkir alþjóðasamninginn um loftslagsbreytingar og að staðið verði við skuldbindinguna um að draga úr losun samkvæmt því samkomulagi.
    Tillagan skal vera byggð á meginreglunum um gagnsæi, efnahagslega skilvirkni og kostnaðarhagkvæmni ásamt sanngirni og samstöðu þegar aðgerðum er deilt milli aðildarríkja.
    3. Tillagan skal gera rekstraraðilum kleift, eins og við á, að nota, auk ávinnsluheimildanna sem kveðið er á um í þessari tilskipun, einingar vottaðrar losunarskerðingar, losunarskerðingareiningar eða aðrar samþykktar ávinnsluheimildir frá þriðju löndum sem hafa fullgilt alþjóðasamninginn um loftslagsbreytingar.
    4. Tillagan skal einnig fela í sér, eins og við á, aðrar nauðsynlegar ráðstafanir sem stuðla að því að bindandi skerðing, í samræmi við 1. mgr., náist á gagnsæjan, yfirvegaðan og sanngjarnan hátt og einkum skal hún fela í sér framkvæmdarráðstafanir til að rekstraraðilar í kerfi Bandalagsins geti notað aðrar tegundir verkefnatengdra ávinnsluheimilda en þær sem um getur í 2.–5. mgr. 11. gr. a eða aðrar aðferðir sem innleiddar eru í tengslum við alþjóðasamninginn um loftslagsbreytingar, eftir því sem við á.
    5. Tillagan skal fela í sér viðeigandi bráðabirgða- og frestunarráðstafanir uns alþjóðasamningurinn um loftslagsbreytingar öðlast gildi.
     29. gr.
     Skýrsla til að tryggja betri starfsemi kolefnismarkaðarins
    Ef framkvæmdastjórnin hefur, á grundvelli reglubundinna skýrslna um kolefnismarkaðinn sem um getur í 5. mgr. 10. gr., vísbendingar um að kolefnismarkaðurinn starfi ekki eðlilega skal hún leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið. Ef við á geta fylgt skýrslunni tillögur sem hafa að markmiði að auka gagnsæi kolefnismarkaðarins og fjalla um ráðstafanir til að bæta starfsemi hans.“
29.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „29. gr. a
     Ráðstafanir ef verðsveiflur verða mjög miklar
    1. Ef verð á losunarheimildum er meira en þrefalt hærra í sex mánuði samfellt en meðalverð losunarheimilda á kolefnismarkaðnum í Evrópu tvö undanfarin ár skal framkvæmdastjórnin þegar í stað kalla saman nefndina sem komið var á fót með 9. gr. ákvörðunar nr. 280/2004/EB.
    2. Ef verðþróunin, sem um getur í 1. mgr., samsvarar ekki breytingum á grundvallarþáttum markaðarins er unnt að samþykkja aðra hvora eftirfarandi ráðstafana, að teknu tilliti til umfangs verðþróunarinnar:
    a)    ráðstöfun sem heimilar aðildarríkjum að flýta uppboði á hluta þess fjölda sem bjóða skal upp,
    b)    ráðstöfun sem heimilar aðildarríkjum að bjóða upp allt að 25% þeirra losunarheimilda sem eftir eru í varasjóði nýrra aðila.
    Þessar ráðstafanir skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 4. mgr. 23. gr.
    3. Þessar ráðstafanir skulu taka ítrasta tillit til skýrslna framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins og ráðsins skv. 29. gr. og annarra viðeigandi upplýsinga frá aðildarríkjunum.
    4. Mæla skal fyrir um fyrirkomulag við beitingu þessara ákvæða í reglugerðinni sem um getur í 4. mgr. 10. gr.“
30.    Í stað I. viðauka komi I. viðauki við þessa tilskipun.
31.    Ákvæðum II. viðauka a og II. viðauka b er bætt við eins og fram kemur í II. viðauka við þessa reglugerð.
32.    III. viðauki falli brott.

2. gr.
Lögleiðing

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 2012.
Þau skulu þó samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að 2. mgr. 9. gr. a tilskipunar 2003/87/EB, sem var felld inn með 10. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar, og 11. gr. tilskipunar 2003/ 87/EB eins og henni var breytt með 13. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar eigi síðar en 31. desember 2009.
Frá og með 1. janúar 2013 skulu aðildarríkin beita þeim ákvæðum sem um getur í fyrstu undirgrein 1. gr. Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanirnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það hinum aðildarríkjunum.

3. gr.
Bráðabirgðaákvæði

Ákvæði tilskipunar 2003/87/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2004/101/EB, tilskipun 2008/ 101/EB og reglugerð (EB) nr. 219/2009, gilda áfram til 31. desember 2012.

4. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

5. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 23. apríl 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING P. NECAS
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI

Eftirfarandi komi í stað viðauka I við tilskipun 2003/87/EB:

„I. VIÐAUKI
FLOKKAR STARFSEMI SEM ÞESSI TILSKIPUN GILDIR UM

1.    Stöðvar, eða hlutar þeirra, sem eru notaðar fyrir rannsóknir, þróun og prófun á nýjum vörum og aðferðum, og stöðvar, sem nota eingöngu lífmassa, falla ekki undir þessa tilskipun.
2.    Markgildin hér á eftir eiga almennt við um framleiðslugetu eða -afköst. Ef margar tegundir starfsemi, sem falla undir sama flokk, eru reknar í sömu stöðinni er afkastageta þessara tegunda starfsemi lögð saman.
3.    Þegar heildarnafnvarmaafl stöðvar er reiknað til þess að ákveða hvort hún verði tekin með í kerfi Bandalagsins skal leggja saman nafnvarmaafl allra tæknieininga í stöðinni þar sem eldsneyti er brennt. Þessar einingar geta tekið til allra tegunda af kötlum, brennurum, hverflum, hiturum, bræðsluofnum, brennsluofnum, glæðingarofnum, hitunarofnum, þurrkofnum, hreyflum, efnarafölum, tengibrunaeiningum (chemical looping combustion units), afgaslogum og eftirbrennurum eða hvarfakútum (thermal or catalytic post- combustion units). Einingar, sem hafa nafnvarmaafl undir 3 MW, og einingar, sem nota eingöngu lífmassa, teljast ekki með við þessa útreikninga. „Einingar, sem nota eingöngu lífmassa“ eru m.a. einingar þar sem jarðefnaeldsneyti er eingöngu notað við gangsetningu eða stöðvun.
4.    Ef eining er notuð við tiltekna starfsemi og viðmiðunarmörkin fyrir eininguna eru ekki gefin upp sem heildarnafnvarmaafl skulu mörkin fyrir þessa starfsemi vega þyngra þegar ákvörðun er tekin um upptöku í kerfi Bandalagsins.
5.    Ef í ljós kemur að farið hefur verið yfir markgildin fyrir einhverja tegund starfsemi í þessum viðauka í tiltekinni stöð skulu allar einingar, sem brenna eldsneyti, aðrar en einingar sem brenna hættulegum úrgangi eða sorpi, koma fram í leyfinu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda.
6.    Frá 1. janúar 2012 skal taka með allar flugferðir sem enda eða hefjast á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis sem sáttmálinn gildir um.
Starfsemi Gróðurhúsalofttegundir
Bruni eldsneytis í stöðvum með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW (að undanskildum stöðvum til brennslu á hættulegum úrgangi eða sorpi) Koltvísýringur
Hreinsun jarðolíu Koltvísýringur
Framleiðsla á koksi Koltvísýringur
Brennsla eða glæðing, einnig kögglun, málmgrýtis (þ.m.t. brennisteinsgrýti) Koltvísýringur
Framleiðsla á hrájárni eða stáli (fyrsta eða önnur bræðsla), þ.m.t. samfelld málmsteypa, þar sem afkastagetan er meiri en 2,5 tonn á klukkustund Koltvísýringur
Framleiðsla eða vinnsla á járnríkum málmum (þ.m.t. járnblendi) þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW Vinnslan tekur m.a. til völsunarstöðva, ofna til endurhitunar, glæðingarofna, smiðja, málmsteypna og eininga til yfirborðsmeðhöndlunar og sýruböðunar Koltvísýringur
Framleiðsla á hrááli Koltvísýringur og perflúorkolefni
Framleiðsla á endurunnu áli þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW Koltvísýringur
Framleiðsla eða vinnsla á járnlausum málmum, þ.m.t. framleiðsla á málmblöndum, hreinsun, steypumótun o.s.frv. þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli (þ.m.t. eldsneyti sem er notað sem afoxunarefni) sem er yfir 20 MW Koltvísýringur
Framleiðsla á sementsgjalli í hverfiofnum með afkastagetu sem er yfir 500 tonnum á dag eða í annars konar ofnum þar sem framleiðsluafköstin eru yfir 50 tonnum á dag Koltvísýringur
Framleiðsla á kalki eða glæðing á dólómíti eða magnesíti í hverfiofnum eða annars konar ofnum sem hafa framleiðslugetu sem er yfir 50 tonnum á dag Koltvísýringur
Framleiðsla glers, einnig glertrefja, þar sem bræðsluafköstin eru meiri en 20 tonn á dag Koltvísýringur
Framleiðsla á leirvörum með brennslu, einkum þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteini, þaksteini og leirmunum eða postulíni, þar sem framleiðslugetan er yfir 75 tonnum á dag Koltvísýringur
Framleiðsla á einangrunarefni úr steinull þar sem notað er gler, berg eða gjall og bræðsluafköstin eru yfir 20 tonnum á dag Koltvísýringur
Þurrkun eða glæðing á gifsi eða framleiðsla á gifsplötum og öðrum gifsvörum þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW Koltvísýringur
Framleiðsla á pappírsdeigi úr timbri eða öðrum trefjaefnum Koltvísýringur
Framleiðsla á pappír eða pappa þar sem framleiðslugetan er meiri en 20 tonn á dag Koltvísýringur
Framleiðsla kinroks, sem felur í sér kolun á lífrænum efnum á borð við olíu, tjöru og sundrunar- og eimingarleif, þar sem í rekstri eru brennslueiningar með heildarnafnvarmaafli sem er yfir 20 MW Koltvísýringur
Framleiðsla á saltpéturssýru Koltvísýringur og nituroxíð
Framleiðsla á adipínsýru Koltvísýringur og nituroxíð
Framleiðsla á glýoxali og glýoxýlsýru Koltvísýringur og nituroxíð
Framleiðsla á ammoníaki Koltvísýringur
Framleiðsla á lífrænum íðefnum í lausu með sundrun, umbreytingu, oxun, að hluta eða til fulls, eða með svipuðum ferlum þar sem framleiðslugetan er meiri en 100 tonn á dag Koltvísýringur
Framleiðsla á vetni (H2) og tilbúnu gasi með umbreytingu eða hlutaoxun þar sem framleiðslugetan er meiri en 25 tonn á dag Koltvísýringur
Framleiðsla á natríumkarbónati (Na2CO3) og natríumbíkarbónati (NaHCO3) Koltvísýringur
Föngun gróðurhúsalofttegunda frá stöðvum, sem falla undir þessa tilskipun, í því skyni að flytja þær til geymslu í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB Koltvísýringur
Flutningur gróðurhúsalofttegunda eftir leiðslum til geymslu í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB Koltvísýringur
Geymsla gróðurhúsalofttegunda í jörðu á stað sem hefur hlotið leyfi samkvæmt tilskipun 2009/31/EB Koltvísýringur
FLUGSAMGÖNGUR Koltvísýringur
Flugferðir sem hefjast eða enda á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis sem sáttmálinn gildir um.
Þessi starfsemi felur ekki í sér:
a)    flugferðir, sem eingöngu eru til flutninga, í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra landa, annarra en aðildarríkja, ef þær eru rökstuddar með viðeigandi upplýsingum um stöðu flugs í flugáætluninni,
b)    herflug herloftfara og toll- og lögregluflug,
c)    flug í tengslum við leit og björgun, flug í tengslum við slökkvistarf, flug í mannúðarskyni og sjúkraflug, sem viðurkennt er af viðeigandi, lögbæru yfirvaldi,
d)    flug sem er eingöngu samkvæmt sjónflugsreglum eins og þær eru skilgreindar í 2. viðauka við Chicago-samninginn,
e)    flug sem endar á flugvellinum þar sem loftfarið tók flugið og þar sem engin lending á sér stað í millitíðinni,
f)    æfingaflug, eingöngu að því er varðar öflun vottorðs eða áritunar ef um áhafnir flugklefa er að ræða, þar sem þetta er rökstutt af viðeigandi athugasemd í flugáætluninni, ef flugið er hvorki til farþega- eða farmflutninga né fyrir staðsetningu eða flutning á loftfarinu,
g)    flug sem er eingöngu vegna vísindarannsókna eða til að skoða, prófa eða votta loftför eða búnað, hvort sem er í lofti eða á jörðu niðri,
h)    flug loftfara með staðfestan hámarksflugtaksmassa sem er minni en 5700 kg,
i)    flugferðir sem farnar eru í samræmi við ákvæði um skyldur um opinbera þjónustu, sem settar eru fram í samræmi við reglugerð (EBE) nr. 2408/92, eins og tilgreint er í 2. mgr. 299. gr. sáttmálans, eða á flugleiðum þar sem flutningsgetan, sem í boði er, er ekki meiri en 30000 sæti á ári og
j)    flug sem félli undir þessa starfsemi ef ekki væri fyrir tilstilli þessa liðar og er á vegum umráðanda loftfars í flutningaflugi sem annast annaðhvort:
    –    færri en 243 flugferðir á hverju tímabili í þrjú samfelld, fjögurra mánaða tímabil eða
    –    flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 10000 tonn.
    Flugferðir sem eingöngu eru til flutninga, í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra aðildarríkis má ekki undanskilja að því er varðar þennan lið.“

VIÐAUKI II

Eftirfarandi viðaukum skal skotið inn sem II. viðauka a og II. viðauka b við tilskipun 2003/87/EB

„II. VIÐAUKI A
AUKNING Á HUNDRAÐSHLUTA LOSUNARHEIMILDA, SEM BJÓÐA SKAL UPP Á VEGUM AÐILDARRÍKJA SKV. A-LIÐ 2. MGR. 10. GR. Í ÞVÍ AUGNAMIÐI AÐ EFLA SAMSTÖÐU OG VÖXT Í BANDALAGINU OG DRAGA ÚR LOSUN OG LAGA SIG AÐ ÁHRIFUM VEGNA LOFTSLAGSBREYTINGA

Hlutdeild aðildarríkis
Belgía 10 %
Búlgaría 53 %
Tékkland 31 %
Eistland 42 %
Grikkland 17 %
Spánn 13 %
Ítalía 2 %
Kýpur 20 %
Lettland 56 %
Litháen 46 %
Lúxemborg 10 %
Ungverjaland 28 %
Malta 23 %
Pólland 39 %
Portúgal 16 %
Rúmenía 53 %
Slóvenía 20 %
Slóvakía 41 %
Svíþjóð 10 %

II. VIÐAUKI B
SKIPTING LOSUNARHEIMILDA SEM AÐILDARRÍKIN SKULU BJÓÐA UPP SKV. C-LIÐ 2. MGR. 10. GR. SEM ENDURSPEGLAR FYRRI VIÐLEITNI SUMRA AÐILDARRÍKJA TIL AÐ DRAGA ÚR LOSUN GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDA SEM NEMUR 20%

Aðildarríki Skipting, í prósentum, á þeim 2% sem miðast við grunnár Kýótóbókunarinnar
Búlgaría 15 %
Tékkland 4 %
Eistland 6 %
Ungverjaland 5 %
Lettland 4 %
Litháen 7 %
Pólland 27 %
Rúmenía 29 %
Slóvakía 3 %
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB C 27, 3.2.2009, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB C 325, 19.12 2008, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 17. desember 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 6. apríl 2009.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 33, 7.2.1994, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB C 68 E, 21.3.2009, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB L 52, 21.2.2004, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. ESB L 49, 19.2.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/101/EB frá 27. október 2004 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins að því er varðar verkefniskerfi Kýótóbókunarinnar (Stjtíð. ESB, L 338, 13.11.2004, bls. 18).
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2003/ 87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi (Stjtíð. ESB, L 8, 13.11.2004, bls. 3).
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 219/2009 frá 11. mars 2009 um að laga allmarga gerninga sem falla undir málsmeðferðina sem um getur í 251. gr. sáttmálans, að ákvörðun ráðsins 1999/468/EB með hliðsjón af málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun – aðlögun að málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun – annar hluti (Stjtíð. ESB, L 87, 32.3.2009, bls. 109).
Neðanmálsgrein: 13
(13)    Stjtíð. EB C 321, 31.12 2003, bls. 1.