Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 611. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1361  —  611. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálitum tillögu til þingsályktunar um heimild til staðfestingar ákvörðunar
sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka
(Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Málið var sent til umhverfis- og samgöngunefndar og henni gefinn kostur á að gefa álit sitt á tillögunni. Ekki bárust athugasemdir um málið.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er varðar breytingar á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES- samninginn frá 2. maí 1992 og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/29/EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að bæta og víkka út kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 23. október 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tillagan er lögð fram á Alþingi áður en sameiginlega EES-nefndin samþykkir ákvörðunina vegna brýnna hagsmuna í málinu. Nefndin vill benda á að málsmeðferðin, þar sem þingsályktunartillaga er lögð fram í aðdraganda ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, á sér þrjú fordæmi: í 480. máli á 121. löggjafarþingi, um samræmdar heilbrigðisreglur fyrir m.a. fisk og fiskafurðir, í 535. máli á 139. löggjafarþingi, um að fella flugstarfsemi og stærstan hluta iðnaðar sem losar gróðurhúsalofttegundir undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (ETS), og í 621. máli á 139. löggjafarþingi, um sameiginlegar reglur um almenningsflug, um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og um framsal sektarvalds til ESA vegna flugstarfsemi.
    Markmið tilskipunarinnar er að fella ýmsar nýjar tegundir iðnaðarstarfsemi og nýjar gróðurhúsalofttegundir undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (ETS). Meðal annars á þetta við um losun koltvísýrings og flúorkolefna vegna álframleiðslu og járnblendis, og föngun, flutning og geymslu koltvísýrings í jarðlögum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp til laga um loftslagsmál (þskj. 1189, 751. mál) í því skyni. Frumvarpið er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 8. maí 2012.Árni Þór Sigurðsson,


form.


Árni Páll Árnason,


frsm.


Bjarni Benediktsson.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Helgi Hjörvar.Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.