Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 1198  —  566. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðmund Kárason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Málið var sent efnahags- og viðskiptanefnd til umsagnar og gerir nefndin ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Utanríkismálanefnd hefur áður, í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, fjallað um tilskipun 2011/90/ESB, er varðar neytendalán, til mats á því hvort efnislegra aðlagana sé þörf. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA og var utanríkismálanefnd upplýst um málið með skeyti frá utanríkisráðuneyti, dags. 21. september 2012, ásamt fylgigögnum. Í því ferli, sbr. 2. og 7. gr. framangreindra reglna, hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 229/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2011/90/ESB, frá 14. nóvember 2011, um breytingu á II. hluta I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB þar sem settar eru fram viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara er veittur til 7. júní 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Tilskipunin kveður á um viðbótarforsendur sem miða skal útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar við, vegna lánssamninga fyrir neytendur, með það að markmiði að tryggja samræmdan útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
    Innleiðing framangreindrar gerðar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um neytendalán (sbr. 220. mál) sem ætlað er að innleiða tilskipun 2008/48/EB (neytendalánatilskipunina) en ákvæði tilskipunar 2011/90/ESB horfa til breytingar á II. hluta I. viðauka fyrrnefndrar tilskipunar. Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.
    Hvorki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér umtalsverðar fjárhagslegar né stjórnsýslulegar afleiðingar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 5. mars 2013.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ólafur Þór Gunnarsson.




Fylgiskjal.



Umsögn


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 26. febrúar 2013, að efnahags- og viðskiptanefnd léti í té álit sitt á tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn (566. mál).
    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um málið. Í tilskipuninni eru lagðar til breytingar sem kveða á um viðbótarforsendur sem taka skal mið af við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í tengslum við tiltekin lánaform, þar á meðal yfirdráttarheimildir og opna lánssamninga.
    Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um mál nr. 220 (neytendalán) er vakin athygli á gagnrýni einstakra nefndarmanna á þá lánaframkvæmd þegar yfirdráttarlán eru veitt án þess að tími endurgreiðslu sé markaður. Af tilskipuninni má ráða að lánveitanda beri við slíkar aðstæður og hvað viðkemur útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar að leggja til grundvallar tilgreindar forsendur varðandi endurgreiðslutímann. Ræddi nefndin hvort sú framkvæmd yrði til þess að auka formfestu við framkvæmd umræddra lána en í því gæti falist réttarbót neytendum til handa í ljósi mikils vaxtakostnaðar sem fylgir umræddum lánum.
    Með vísan til þess að:
     a.      málið hefur áður hlotið efnislega umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd, sbr. 2. og 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, auk þess sem
     b.      nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp til nýrra laga um neytendalán (sbr. 220. mál) sem ætlað er að innleiða tilskipun 2008/48/EB (neytendalánatilskipunina) en ákvæði tilskipunar 2011/90/ESB horfa til breytingar á II. hluta I. viðauka fyrrnefndrar tilskipunar,
gerir nefndin ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddri EES-gerð.
    Skúli Helgason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. mars 2013.



Helgi Hjörvar, form.,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Magnús Orri Schram,
Árni Þór Sigurðsson,

Guðlaugur Þór Þórðarson,


Pétur H. Blöndal,
Eygló Harðardóttir,
Lilja Mósesdóttir.