Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 630  —  335. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og
samfélaginu í heild.


Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson,
Haraldur Einarsson, Helgi Hjörvar, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason, Össur Skarphéðinsson.

    

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum þar sem horfið verði frá refsistefnu og byggt á lausnamiðuðum og mannúðlegum úrræðum, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.
    Heilbrigðisráðherra skipi í þessu skyni starfshóp til að vinna að mótun stefnunnar. Landlæknir, stjórn SÁÁ, ríkislögreglustjóri, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, Rauði Kross Íslands og velferðarsvið Reykjavíkurborgar tilnefni einn fulltrúa hver en einn fulltrúa skipi heilbrigðisráðherra án tilnefningar og verði hann formaður starfshópsins.
    Verkefni starfshópsins verði að:
     a.      gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa lagabreytingar og/eða nýja löggjöf,
     b.      líta til löggjafar annarra ríkja þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu tengdri neyslu ólöglegra vímuefna og tillagna alþjóðlegra nefnda og stofnana á sviði rannsókna í forvörnum gegn vímuefnaneyslu,
     c.      skapa heildstæða stefnu, sem leggur höfuðáherslu á mannúðlega nálgun og vernd mannréttinda, sem dregur úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu og með því stuðla að auknu trausti jaðarhópa til samfélagsins og þeirra stofnana sem eiga að veita þeim þjónustu og skjól.
    Við starfið verði leitað aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga eftir þörfum.
    Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á þriggja mánaða fresti og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps, sbr. c-lið, fyrir 1. maí 2015 og leggi fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    „Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra, en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri. Við þurfum að horfa á stefnuna og spyrja okkur einlæglega og heiðarlega; virkar hún? Ef hún virkar ekki, höfum við hugrekki til að breyta henni?“ (Kofi Annan, World Economic Forum, janúar 2014).
    Á síðustu árum hafa margir málsmetandi menn vakið máls á því viðhorfi að ríkjandi refsistefna í vímuefnamálum hafi mistekist og nauðsynlegt sé að horfast í augu við það. Þannig hafa fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, Mexíkó, Kólumbíu og Brasilíu, sem í góðri trú framfylgdu þeirri stefnu í sínum löndum, nú stigið fram og viðurkennt að refsistefna og harka gagnvart neytendum ólöglegra vímuefna hafi verið röng aðferð. Fyrrgreindir forsetar áttu flestir sæti í alþjóðaráði um vímuefnastefnu ásamt Kofi Annan, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Sumarið 2011 gaf ráðið út skýrslu þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir því að stríðið gegn fíkniefnum hafi ekki náð tilætluðum árangri og leita þurfi markvissari leiða sem byggja á mannúðlegum og vísindalegum grunni til að vinna gegn samfélagslega neikvæðum afleiðingum misnotkunar á ólöglegum vímuefnum. Er í skýrslunni lagt til að horfið verði frá refsingum við vímuefnaneyslu og þess í stað litið á neysluna sem heilbrigðisvandamál sem meðhöndla þurfi með þeim úrræðum sem heilbrigðiskerfið býður upp á.
    Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að starfshópur verði skipaður sem hafi það meginhlutverk að leggja drög að nýrri stefnu í vímuefnamálum þar sem höfuðáhersla verði lögð á mannúðlega nálgun, vernd mannréttinda og leiðir til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Í vinnu starfshópsins verði leitað aðstoðar erlendra og innlendra sérfræðinga eftir því sem þörf er á hverju sinni og leitað eftir víðtæku samráði við alla þá sem hagsmuna eiga að gæta. Lagt er til að starfshópurinn skili heildstæðum tillögum að stefnu í málaflokknum, þar á meðal tillögum að nauðsynlegum lagabreytingum til að ná markmiðum þingsályktunarinnar. Miðað er við að starfshópurinn skili fyrir 1. maí 2015 af sér skýrslu með tillögum að breyttri nálgun, þar sem farið verði heildstætt yfir allt kerfi fíkniefnamála, frá lögum sem banna vörslu fíkniefna yfir í heildstæð meðferðar- og skaðaminnkunarrúrræði auk þeirra samfélagsverkefna sem nauðsynlegt er að ráðast í. Ráðherra leggi síðan fram frumvarp byggt á niðurstöðum starfshópsins eigi síðar en á haustþingi 2015.

II. Markmið nýrrar stefnu.
    Helstu markmið þeirrar nýju stefnu sem hér er lögð til eru:
     1.      að veita neytendum vímuefna og aðstandendum þeirra mannúðlega þjónustu og öfluga mannréttindavernd,
     2.      að lágmarka margvísleg skaðvænleg áhrif sem neysla ólöglegra vímuefna hefur fyrir neytendur efnanna, aðstandendur þeirra og samfélagið allt,
     3.      að auka traust vímuefnaneytenda til þeirra stofnana samfélagsins sem hafa það hlutverk að veita borgurunum þjónustu og mannréttindavernd,
     4.      að efla rannsóknir og upplýsta umræðu um vímuefni, afleiðingar neyslu þeirra og stefnumótun í málaflokknum,
     5.      að minnka til lengri tíma eftirspurn eftir ólöglegum vímuefnum, fyrir tilstuðlan öflugra forvarna og gagnvirkra meðferðar- og félagslegra úrræða.
    Það felst engin uppgjöf í því að viðurkenna að ólöglegum vímuefnum verður ekki eytt úr samfélagi okkar. Þvert á móti felast í því mikil tækifæri til að horfa á málin frá nýju og heildrænna sjónarhorni. Með nýrri nálgun, sem byggist fyrst og fremst á mannúð og virðingu fyrir mannréttinum, má takast á við margar skaðlegar hliðarverkanir vímuefnavandans og bæta þannig lífsskilyrði vímuefnaneytenda og aðstandenda þeirra til hagsbóta fyrir samfélagið í heild, jafnvel þótt slík stefna hafi ekki það höfuðmarkmið að útrýma vímuefnanotkun í eitt skipti fyrir öll. Það er hagur samfélagsins að sem flestir séu þátttakendur í samfélaginu og sem fæstir lifi og hrærist í undirheimunum.
    Sú stefnubreyting sem boðuð er með þessari þingsályktunartillögu hefur að meginmarkmiði að takmarka skaðleg áhrif sem neysla ólöglegra vímuefna hefur á neytendur efnanna, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild. Má þar nefna ýmis heilbrigðisvandamál á borð við vannæringu, alnæmi og lifrarbólgu; félagsleg vandamál á borð við heimilisleysi, barnaverndarvanda, brotnar fjölskyldur o.fl.; og ofbeldis- og auðgunarbrot í tengslum við vímuefnaviðskipti, bæði gagnvart vímuefnaneytendum og aðstandendum þeirra.
    Það er trú flutningsmanna að með því að hlúa betur að þeim sem ánetjast hafa ólöglegum vímuefnum, viðurkenna mannréttindi þeirra og mæta þörfum þeirra af mannúð megi bæta lífsskilyrði og lífslíkur þessara einstaklinga umtalsvert, án tillits til þess hvort þeir kjósa að hætta neyslu eða ekki. Með því að efla samfélagslega þátttöku og sporna gegn útskúfun vímuefnaneytenda verður hægara um vik að veita þeim viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu, auk þess sem samfélagsleg þátttaka neytenda getur einnig dregið úr ýmsum skaðlegum samfélagsáhrifum sem neyslan hefur í för með sér. Með afnámi refsinga fyrir neyslu ólöglegra vímuefna verður auðveldara að opna umræðuna, efla vísindarannsóknir og forvarnir sem gæti til lengri tíma haft þau jákvæðu áhrif að draga úr eftirspurn eftir vímuefnum.
    Sú stefnubreyting sem boðuð er í tillögunni fellur vel að markmiðum þeim sem sett eru fram í starfsáætlun landlæknis fyrir 2014. Í áætluninni kemur fram að vinna skuli markvisst að heilsueflandi samfélagi sem stuðli að heilbrigði og vellíðan. Meðal meginverkefna embættisins þar að lútandi er að „draga úr skaðlegum áhrifum áfengis-, tóbaks- og vímuefnaneyslu með markvissum aðgerðum og fræðslu“ og í öðru lagi eigi að „stuðla að öruggum aðstæðum og sporna gegn ofbeldi og slysum í samfélaginu.“
    Í stefnu í áfengis- og vímuvörnum til 2020, sem gefin er út af velferðarráðuneytinu í janúar 2014, er lögð áhersla á að „bæta skilvirkni og gæði þjónustu með samþættingu og samfellu hennar fyrir þá einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda, auk þess sem þekking, mannafli og fjármunir munu nýtast betur“. Í inngangi stefnunnar segir m.a.:
    „Með viðurkenndum og gagnreyndum aðgerðum er unnt að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem neysla áfengis og annarra vímugjafa hefur á einstaklinginn og samfélagið í heild og tryggja velferðarsamfélag þar sem öllum er skapað það umhverfi sem best verður á kosið. Stefna og aðgerðir skulu byggjast á bestu fáanlegu vísindagögnum um skilvirkni og hagkvæmni. Ef vísindagögn skera ekki úr álitamálum skal fara með gát og hafa að leiðarljósi að stuðla að heilbrigði og velferð fólks.“
    Framangreind stefna stjórnvalda er ekki ítarlega útfærð og er sett fram með það fyrir augum að unnin verði aðgerðaráætlun til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd. Það er mat flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu að ágætur samhljómur sé milli markmiða tillögunnar og nýsamþykktrar stefnu stjórnvalda. Með samþykki þingsályktunartillögunnar fengi heilbrigðisráðherra umboð frá Alþingi til að hefja útfærslu á stefnu stjórnvalda í þeim farvegi sem tillaga þessi mælir fyrir um.

III. Hvatinn að nýrri nálgun í vímuefnamálum.
    Hvatinn að endurskoðun ríkjandi stefnu í vímuefnamálum er þríþættur. Í fyrsta lagi er orðið tímabært að horfast í augu við þá staðreynd að neyslu ólöglegra vímuefna verður ekki útrýmt úr samfélagi okkar, í öðru lagi er ljóst að ríkjandi stefna hefur skapað mörg ófyrirséð samfélagsleg vandamál og í þriðja lagi hefur ríkjandi refsistefna þær afleiðingar að vímuefnaneytendur njóta ekki þeirra mannréttinda sem þeim ber.

1. Stríðið gegn fíkniefnum hefur ekki náð tilætluðum árangri.
    Frá því að ríkjandi stefna í vímuefnamálum var mörkuð fyrir rúmum 50 árum hefur lítið áunnist í baráttunni gegn vímuefnaneyslu. Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum sem háð hefur verið á heimsvísu hefur ekki orðið til þess að neysla ólöglegra vímuefna eða framboð þeirra hafi minnkað. Þá hefur ríkjandi stefna kostað gríðarlega fjármuni og samfélagslegar fórnir sem litlu hafa skilað til að ná því markmiði sem lagt var upp með, þ.e. að vinna gegn neyslu ólöglegra vímuefna og skapa heilbrigt samfélag þar sem borgararnir njóti frelsis, öryggis og áhyggjuleysis í samfélagi sem er laust við vímuefnatengda glæpi.
    Líkt og skýrt var frá í inngangi hér að framan er að verða vitundarvakning víða um heim um neikvæðar afleiðingar ríkjandi refsistefnu og nauðsyn þess að leitað verði nýrra leiða til að takast á við neyslu ólöglegra vímuefna. Í skýrslu alþjóðaráðs um vímuefnastefnu er lagt til að horft verði frá refsistefnunni og þess í stað byggt á mannúðlegum lausnum á vettvangi heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins.

2. Ríkjandi refsistefna hefur skapað mörg ófyrirséð vandamál.
    Auk þess sem ekki hefur tekist að ráða niðurlögum neyslu ólöglegra vímuefna á undanförnum áratugum, hefur hagkerfi fíkniefnaheimsins stöðugt vaxið í skjóli refsistefnunnar og glæpatíðni tengd fíkniefnaheiminum er viðvarandi vandamál. Lögreglan á æ erfiðara með að takast á við gríðarlega fjársterka undirheima og miklum fjármunum og mannafla er varið í refsivörslukerfið.
    Þá hefur ríkjandi refsistefna haft slæmar afleiðingar fyrir vímuefnaneytendur og aðstandendur þeirra. Vímuefnaneytendum hefur verið ýtt út á jaðar samfélagsins og þeir eiga sér ekki tilverurétt nema í undirheimum ólöglegra vímuefna og í klóm skipulagðrar glæpastarfsemi. Það er ekki hentugur íverustaður fyrir veikt fólk. Ekkert vinnst með því að ýta vímuefnaneytendum út á jaðar samfélagsins þar sem þeir upplifa sig utangarðs eða sem glæpamenn, útskúfaðir af samfélaginu og finna enga leið til að komast aftur inn í samfélag sitt. Þá eru þeir neytendur vissulega til sem eiga í engum sérstökum vanda og valda hvorki öðrum einstaklingum né samfélaginu neinum skaða þótt þeir neyti vímuefna af og til. Þeir sem hins vegar eiga við vanda að stríða vegna vímuefnaneyslu þurfa á aðstoð sérfræðinga að halda, ekki refsingum eða útskúfun. Slíkt gerir aðeins illt verra og vinnur gegn því grundvallarmarkmiði að draga úr neikvæðum áhrifum vímuefnaneyslu á neytendur, aðstandendur þeirra og samfélagið í heild.

3. Neytendur vímuefna njóta ekki fullrar mannréttindaverndar.
    Vímuefnaneytendur eiga sama rétt til heilsu og heilbrigðisþjónustu og aðrir borgarar. Í flestum tilvikum þykir sjálfsagt að veita veiku fólki heilbrigðisþjónustu og vista þá sem á þurfa að halda á viðeigandi heilbrigðisstofnun í stað þess að dæma þá til fangelsisvistar.
    Sú staðreynd að neysla þessara efna er ólögleg raungerist með þeim hætti að þeir sem hafa ánetjast ólöglegum vímuefnum lifa fyrir utan ramma laganna og líta á yfirvöld fyrst og fremst sem óvin. Þessi raunveruleiki endurspeglast svo í því að mannréttindavernd þessa hóps er í mörgum tilvikum afar bágborin enda leitar fólk sér hvorki hjálpar né stuðnings yfirvalda. Sem dæmi má nefna svokölluð burðardýr í innflutningi ólöglegra vímuefna, sem í mörgum tilvikum hafa verið beitt ofbeldi, hótunum og ólögmætri nauðung. Burðardýrin leita sér ekki hjálpar eða réttarverndar þótt mörg dæmi sýni að meðferð þeirra svipi til mansals. Þolendur slíkra brota eiga að njóta réttarverndar og fráleitt að refsa þeim með fangelsisdómi.
    Framangreind umfjöllun um mansal er einungis sett fram sem dæmi um ofbeldi, nauðung og hótanir sem vímuefnaneytendur verða fyrir í undirheimunum. Taka þarf þessi málefni til gagngerar skoðunar. Sem dæmi um önnur mannréttindi sem vímuefnaneytendur fara oft á mis við eru réttur til heilsu og viðeigandi heilbrigðisþjónustu, réttur til félagslegs öryggis, réttur til aðgangs að dómstólum og réttlátrar málsmeðferðar, réttur til friðhelgi einkalífs, réttur til friðhelgi fjölskyldulífs og réttur til að njóta jafnræðis fyrir lögum.

4. Samhljómur við stefnu stjórnvalda.
    Heilbrigðisráðherra samþykkti nýverið stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Samkvæmt henni á að vinna aðgerðaáætlun byggða á áherslum stefnunnar á árinu 2014. Það er mat flutningsmanna að sú tillaga sem hér er lögð fram fellur að mestu leyti vel að þeim markmiðum sem koma fram í stefnu heilbrigðisráðherra, svo sem að tryggja eigi aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggist á þekkingu og kröfum um gæði og að draga eigi úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum. Verði tillagan samþykkt hefur ráðherra umboð Alþingis til að vinna útfærslu stefnunnar, eftir þeim farvegi sem tillaga þessi mælir fyrir um.

IV. Verkefni starfshópsins.
    Markmið þessarar tillögu er að sköpuð verði heildstæð stefna um að draga skuli úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu á mannúðlegan, raunsæjan og hagkvæman hátt til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Meðal þess sem starfshópurinn þarf að taka til sérstakrar skoðunar til að markmið tillögunnar náist er:
     1.      Afnám refsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum.
     2.      Leiðir til að tryggja vernd fyrir þolendur ofbeldis og misnotkunar í undirheimunum.
     3.      Gerð úttektar á úrræðum til áhættu- og skaðaminnkunar og tillögur til úrbóta.
     4.      Gerð úttektar á þeim meðferðarúrræðum sem til staðar eru og tillögur til úrbóta.
     5.      Gerð úttektar á félagslegri þjónustu fyrir vímuefnaneytendur og tillögur til úrbóta.
     6.      Gerð úttektar á þjónustu og stuðningi fyrir aðstandendur og tillögur til úrbóta.
     7.      Leiðir til að efla upplýsingagjöf og ráðgjöf fyrir neytendur og aðstandendur þeirra.
     8.      Leiðir til að efla forvarnir og upplýsta umræðu í samfélaginu.

1. Afnám refsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum.
    Refsingar fyrir vímuefnaneyslu hafa ekki skilað þeim árangri að draga úr framboði og eftirspurn eftir ólöglegum vímuefnum. Glæpavæðing neyslunnar hefur ýtt neytendum út á jaðar samfélagsins og niður í undirheima þar sem líkur á að smitast af sjúkdómum á borð við HIV og lifrarbólgu C aukast verulega, auk þess sem neytendur verða þar iðulega fórnarlömb margháttaðs ofbeldis og nauðungar. Samfélagið hefur brugðist þegar kemur að því að veita þessum þolendum ofbeldis í undirheimunum vernd gegn margþættum ofbeldis- og nauðungarbrotum.
    Reynslan hefur sýnt að ólögmæti neyslunnar hefur lítil sem engin áhrif á þá ákvörðun að prófa að neyta ólöglegra vímuefna. Flestir prófa ólögleg vímuefni vegna tískustrauma, hópþrýstings félaga eða félagslegra aðstæðna og er það oft í tengslum við neyslu áfengis. Glæpavæðing neyslunnar hefur ekki skilað þeim árangri að fækka neytendum og minnka framboð. Sá árangur sem náðst hefur á Íslandi í þá átt að neyslu unglinga hefur seinkað, er fyrst og fremst að þakka umbótum í fræðslu, fremur en hótunum um refsingar. Þá er stjórnlaus neysla og afturhvarf í fyrri neyslu megineinkenni fíknisjúkdóma og lagalegar hótanir um refsingar virka ekki á þá sem ánetjast hafa efnunum, ekki frekar en þær neikvæðu félagslegu, efnahagslegu og heilsufarslegu afleiðingar sem neyslan veldur, óháð viðbrögðum yfirvalda. Eðli fíknar er slíkt að neyslan heldur áfram þrátt fyrir augljósar neikvæðar afleiðingar. Það er því misskilningur á hugtakinu fíkn að ætla að hótanir hafi fælingarmátt.
    Til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda vegna vímuefnaneyslu, leiti sér þeirrar hjálpar, þarf að ríkja traust til yfirvalda og meðferðaraðila. Koma þarf fram við fólk á mannúðlegan hátt svo að það megi halda mannlegri reisn í stað þess að upplifa sig sem annars flokks. Með því móti er mun líklegra að neytendur nái sér á strik í kjölfar viðeigandi meðferðar.
    Þar sem sú leið hefur verið farin að leggja af refsingar fyrir vörslu neysluskammta vímuefna, annaðhvort vægra vímuefna eða allra efna líkt og í Portúgal, hefur neysla þeirra ekki aukist mikið heldur þvert á móti minnkað í langflestum flokkum. Það verður verkefni starfshópsins að útfæra annars vegar hámarksmagn efna sem hafa má í fórum sínum án refsingar og hins vegar hvort varsla neysluskammta allra vímuefna skuli falla hér undir.

2. Leiðir til að tryggja vernd fyrir þolendur ofbeldis.
    Í tillögum alþjóðaráðs um fíkniefnastefnu er ekki aðeins mælt með því að ríkjandi refsistefna fyrir neyslu verði endurskoðuð, heldur einnig að endurskoðuð verði refsistefna gagnvart þeim einstaklingum sem lifa og hrærast í neðstu stigum hins ólöglega heims fíkniefnaviðskipta. Í mörgum tilvikum er um að ræða einstaklinga sem beittir eru miklu ofbeldi, hótunum, kúgun og ólögmætri nauðung. Þá hafa yfirvöld sætt nokkurri gagnrýni fyrir að draga lappirnar í rannsóknum á orsökum dauðsfalla vímuefnaneytenda.
    Ríkinu ber skylda til að tryggja og vernda mannréttindi allra borgara sinna. Ofbeldi, kúgun, hótanir og óútskýrð dauðsföll má ekki láta óáreitt og finna verður leiðir til að takast á við þennan vanda. Ein leið að því marki er að efla traust þolenda ofbeldisins til yfirvalda, til að mynda með endurskoðun refsistefnunnar, mannúðlegri framkomu og eflingu félagslegra úrræða og sálgæslu. Það getur verið afar þungbært fyrir þolendur ofbeldis að þurfa að afplána refsingu í fangelsi eða á öðrum stofnunum og hitta þar fyrir sjálfa kvalara sína eða félaga úr hópi þeirra. Í staðinn ætti að leitast við að veita þessum þolendum öfluga vernd, enda er í flestum tilvikum um að ræða veika og langt leidda vímuefnaneytendur. Þá mætti kanna leiðir á borð við hjálparsímanúmer eða neyðarþjónustu fyrir þá sem óttast yfirvofandi ofbeldi o.s.frv. Slík úrræði geta þó aðeins virkað ef traust er til staðar.
    Leiðir til lausna á þessum vandamálum er best að vinna í samráði við þá sem best til þekkja, þolendurna sjálfa og starfshópurinn ætti því að leita samráðs við þá, eftir því sem mögulegt er, um útfærslur sem virka.

3. Úttekt á meðferðarúrræðum.
    Hér á landi hafa lengi verið til staðar öflug meðferðarúrræði byggð á gagnreyndum aðferðum fyrir sjúklinga með vanda á ýmsum stigum, allt frá áfengismeðferð til meðferðar vegna alvarlegrar misnotkunar harðari vímuefna. Lagt er til að starfshópurinn geri úttekt á annars vegar þörfinni fyrir meðferðir, hve mikil hún er og hvaða ólíku meðferðarform þurfa að vera til staðar, og hins vegar þeim meðferðarúrræðum sem þegar eru til staðar og hvort þau anni þeirri þörf sem til staðar er, varðandi pláss og ólíkar þarfir.
    Vímuefnaneytendur eru hver öðrum ólíkir, eru í mismunandi neyslu, með ólíkan bakgrunn og félagslegar aðstæður og misgott geðheilbrigði. Til dæmis hefur verið bent á að um 80% kvenna sem leita sér lækninga vegna fíknar hafa orðið fyrir ofbeldi og taka þarf mið af því við mat á meðferðarþörf þeirra og veita þeim þjónustu til að vinna úr afleiðingum þess. Þeir eru einnig til sem ekki þurfa á eiginlegri vímuefnameðferð að halda og viðtalstímar með sálfræðingi eða félagsráðgjafa eða þátttaka í annars konar úrræðum kann að vera nægileg fyrir fjölda fólks.
    Tryggja verður grundvöll þeirra meðferðarúrræða sem þegar eru til staðar og hafa gefið góða raun, bæði faglega og með nauðsynlegu fjármagni. Meðferðarúrræði þarf stöðugt að endurskoða með hliðsjón af vísindalegum rannsóknum og framförum á þessu sviði og tryggja þarf að slíkar rannsóknir geti þróast í takt við samfélagsgerð hverju sinni.

4. Úttekt á úrræðum til áhættu- og skaðaminnkunar.
    Vinna þarf að verkefnum sem hafa þann tilgang að draga úr áhættu og skaða sem neytendur ólöglegra vímuefna geta valdið sjálfum sér og öðrum í samfélaginu. Við útfærslu íslenskrar stefnu á þessu sviði þarf að horfa sérstaklega til neyslumynstra hér á landi. Fíklum sem sprauta rítalíni í æð hefur fjölgað mikið að undanförnu sem leitt hefur til aukins fjölda smitaðra af HIV og lifrabólgu C. Þar sem víman er skammvinn sprauta þeir sig allt upp í 20 sinnum á dag sem eykur smithættuna sem því nemur. Neysla efnisins gerir áhættuhegðun þessa hóps mikla þar sem sprautunálum er deilt með öðrum og stundað er óvarið kynlíf. Kanna þarf hvort ekki sé rétt að fara að einhverju leyti svipaða leið og farin hefur verið erlendis þar sem langt leiddum fíklum býðst að fá sprautur og lyf sem hjálpa til við að vinna úr fráhvörfum og neikvæðum afleiðingum þeirra á samfélagið sem og aðstöðu á viðeigandi stöðum, en það minnkar líkur á smitsjúkdómum og kemur í veg fyrir dauðsföll vegna of stórra skammta. Þar sem sú leið hefur verið farin erlendis hefur ýmsum smáglæpum, sem rekja má til fjármögnunar á neyslu, fækkað mikið og þá er einnig auðveldara að ná til fíkla til að hjúkra þeim, fræða þá og bjóða þeim ráðgjöf.
    Á síðustu árum hefur Rauði krossinn í Reykjavík starfrækt Frú Ragnheiði sem er verkefni sem byggist á hugmyndafræði um skaðaminnkun og er ætlað að ná til jaðarhópa samfélagsins með það að markmiði að draga úr skaðsemi lifnaðarhátta jaðarhópa og draga þannig úr þörf fyrir dýrari úrræði í heilbrigðiskerfinu síðar meir. Athygli vekur hins vegar að verkefnið er aðeins starfrækt 10 klst. á viku og unnið af sjálfboðaliðum. Verkefni sem þessi eru mjög mikilvæg til að draga úr neikvæðum áhrifum mikillar neyslu á samfélagið og skoða þarf hvernig hægt sé að gera slík úrræði að varanlegum hluta heilbrigðiskerfisins svo að það nái til fleira fólks og árangurinn verði meiri.
    Aðgerðir sem miða að skaðaminnkun eru mikilvægur þáttur verkefnisins þar sem aðgerðir, eins og þær sem nefndar eru hér að framan, auka lífsgæði þeirra sem glíma við mikla fíkn, draga úr skaða í samfélaginu og auðvelda fólki að snúa baki við fíkniefnum fyrir tilstuðlan aukinnar og skilvirkari aðstoðar.

5. Úttekt á félagslegri þjónustu fyrir vímuefnaneytendur.
    Flutningsmenn leggja einnig áherslu á mikilvægi þess að félagsþjónusta, hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum, hlúi vel að vímuefnaneytendum og fjölskyldum þeirra. Afar mikilvægt er að þessir samfélagshópar mæti skilningi og fái góða þjónustu í félagslega kerfinu. Miða ætti að því að vinna með einstaklingum og fjölskyldum á lausnamiðaðan hátt í þágu fjölskyldnanna sjálfra hvort sem um er að ræða barnaverndarmál, húsnæðismál eða aðra félagslega þjónustu.
    Stöðu gistiskýla og annarrar félagslegrar aðstöðu fyrir vímuefnaneytendur sem hvergi eiga höfði sínu að að halla þarf að kanna sérstaklega. Gistiskýlin eru mikilvæg tenging tveggja heima og geta verið góður vettvangur til að mynda það traust sem nauðsynlegt er að ríki milli vímuefnaneytenda og samfélagsins. Gera þarf úttekt á fjölda gistiskýla og þeirri þjónustu sem þar er boðið upp á og hvort þörf sé á frekari úrræðum. Til að mynda gilda misjafnar reglur um neyslu í þessum skýlum og heimilum, en skoða ætti þann möguleika að fólki verði ekki alfarið úthýst á þeim grundvelli að það sé í neyslu. Einnig eru skýlin yfirleitt lokuð á daginn og þá hafa margir hafa engan samstað og ekkert við að vera þar til skýlin opna að nýju síðdegis.
    Starfshópurinn þarf einnig að huga að úrræðum og félagslegum aðstæðum neytenda eftir að þeir hafa lokið meðferð. Skapa þarf samfellda þjónustu þannig að þeir sem farið hafa í gegnum vímuefnameðferð eigi kost á eftirmeðferð við hæfi hvers og eins til að hefja nýtt líf án vímuefna. Nú er það tilviljunum háð hvort til eru úrræði við hæfi sem hjálpa fólki að fóta sig í lífi og starfi að lokinni meðferð. Án slíkra úrræða að meðferð lokinni er hætt við að fólk lendi á götunni og fari aftur í neyslu. Margir upplifa tómleika og ýmiss konar erfiðleika í kjölfar mikillar neyslu vímuefna og hjálpa þarf þeim til að takast á við slíkar afleiðingar og aðlagast vímuefnalausu lífi.
    Þá er mikilvægt að hafa hugfast að alltaf verður til hópur sem engum árangri mun ná í að lifa vímefnalausu lífi. Úrræði sem gera ráð fyrir að einstaklingur sé í neyslu þurfa líka að vera til staðar. Þeir sem eru veikastir í fíkninni gætu þurft ævilangrar lyfjagjafar með (vímuefnagjafar) eins og á við um fólk með aðra langvinna sjúkdóma. Starfshópurinn þarf að kanna hvernig koma ætti til móts við þennan hóp, sem að öðrum kosti þyrfti að eiga líf sitt undir glæpamönnum.

6. Úttekt á þjónustu og stuðningi fyrir aðstandendur.
    Sífellt eykst vitund um mikilvægi fjölskyldunnar fyrir vímuefnaneytendur og þá sem eru að reyna að fóta sig að nýju eftir neyslu. Þetta á ekki síst við um börn og ungmenni sem eiga við vímuefnavandamál að stríða, fjölþætt geðheilbrigðisvandamál sem og hegðunarvandamál. Leita þarf leiða til að hjálpa aðstandendum vímuefnaneytenda, bæði börnum þeirra og foreldrum. Stuðningur fjölskyldunnar getur skipt sköpum fyrir neytandann og því þarf einnig að fræða og hjálpa fjölskyldum vímuefnaneytenda að takast á við hin margvíslegu vandamál sem fylgja vímuefnaneyslu náinna ættingja. Mikilvægt er til að mynda að losa aðstandendur undan þeirri ánauð að hjálpa neytandanum, yfirleitt af fullkomnu vanmætti, t.d. með því að semja um og greiða niður vímuefna- og smálánaskuldir, semja við félagsmálayfirvöld fyrir hönd neytandans o.s.frv. Mikilvægt er að starfshópurinn hugi að þessum málaflokki og hlusti eftir óskum og tillögum þeirra sem hlut eiga að máli, þar á meðal sérstaklega aðstandendanna sjálfra.

7. Leiðir til að efla upplýsingagjöf og ráðgjöf til neytenda og aðstandenda þeirra.
    Upplýsingar og ráðgjöf um þá þjónustu sem í boði verður fyrir neytendur og aðstandendur þeirra þarf að vera fullnægjandi, hvort heldur um er að ræða meðferðarúrræði, þjónustu og úrræði eftir meðferð, skaðaminnkunarúrræði eða aðstoð og þjónustu fyrir aðstandendur. Tryggja þarf að upplýsingaþjónusta og heildstæð ráðgjafarþjónusta standi til boða á þeim vettvangi sem neytendum hentar best, hvort heldur er þeim sem eru í neyslu eða þeim sem eru í batameðferð, sem og aðstandendum. Það verður verkefni starfshópsins að finna bestu leiðirnar í þessum efnum, eftir atvikum í samráði við þá sem nýta þurfa sér þjónustuna. Í fylgiskjali má sjá þá leið sem farin var í Portúgal og það verður verkefni starfshópsins að meta hvort fara skuli sambærilega leið eða hvort finna beri aðrar leiðir.

8. Leiðir til að efla forvarnir og upplýsta umræðu í samfélaginu.
    Forvarnir eru lykilatriði til að vinna gegn aukinni neyslu vímuefna. Þær þurfa að vera raunhæfar og miðla heiðarlegum og réttum upplýsingum til fólks. Reynslan hefur kennt okkur að raunsæ og heiðarleg fræðsla skilar mestum árangri en ekki offors, hræðsluáróður eða jafnvel hótanir og refsingar. Horfa þarf til þess að skilaboðin nái þeim markhópi sem þeim er beint að og að aðferðirnar byggist á gagnreyndri þekkingu. Forvarnir þurfa þó ekki síst að beinast að hugarfari þjóðarinnar allrar gagnvart vímuefnum almennt, áfengi jafnt sem öðrum. Flutningsmenn telja afar mikilvægt að forvarnir byggist á gagnreyndri þekkingu og að kannað verði til hlítar í vinnu starfshópsins hvernig breyta og bæta megi forvarnastarf hér á landi.
    Þá þarf einnig að hvetja til hugrekkis í umræðunni til að ýta undir vitundarvakningu í samfélaginu um raunverulegar aðstæður og líf þeirra minnihlutahópa sem hér um ræðir. Þeir eiga í fæstum tilvikum nokkuð skylt við þá harðsnúnu glæpamenn sem stunda alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi. Fordómar eiga sinn þátt í þeirri útskúfun sem þessir einstaklingar hafa orðið fyrir og valda því, meðal annarra þátta, að alger trúnaðarbrestur ríkir milli þeirra og samfélagsins. Þá skiptir einnig sköpum að þeir sem farið hafa í vímuefnameðferð geti orðið virkir samfélagsþegnar, enda dregur þá verulega úr kostnaði fyrir samfélagið og neikvæðum áhrifum vímuefnaneyslu. Jákvætt viðhorf gagnvart þeim sem eru í afturbata skiptir höfuðmáli hvað þetta varðar, á vinnumarkaði, í menntakerfinu og samfélaginu öllu.
    
V. Árangur af breyttri nálgun.
    Þar sem horft hefur verið til nýrra leiða í vímuefnamálum hefur náðst góður árangur. Eins og áður hefur komið fram sýnir reynslan í Portúgal að vímuefnastefnan þar í landi frá aldamótum hefur á mannúðlegan hátt minnkað eftirspurn eftir flestum fíkniefnum og lækkað kostnað fyrir samfélagið. Þar að auki hefur vímuefnatengdum glæpum fækkað mikið sem er mikilvægur þáttur í að stemma stigu við samfélagslega neikvæðum afleiðingum vímuefnaneyslu. Þeim sem engra vímuefna neyta hefur einnig fjölgað umfram það sem gerst hefur í öðrum löndum en mikilvægt er að horfa ekki fram hjá því að neysla ólöglegra vímuefna hefur aukist jafnt og þétt á síðustu áratugum. Neysla sumra efna, sérstaklega harðari vímuefna, hefur hins vegar minnkað í Portúgal síðustu ár á meðan neysla á kannabisefnum hefur haldist í hendur við neyslu í öðrum löndum. Þá hefur náðst að stemma stigu við útbreiðslu HIV og annarra sjúkdóma sem smitast meðal sprautufíkla.
    Hingað til hefur árangur af stríðinu gegn fíkniefnum verið mældur á rangan hátt þannig að það magn ólöglegra vímuefna sem gert er upptækt hefur verið talinn árangur. Ekki hefur verið litið nægilega til þess grundvallaratriðis að árangur í baráttu gegn fíkniefnum felst í að fækka neytendum og minnka skaðann sem sjúkdómur þeirra veldur. Magn, sem gert er upptækt af lögreglu, mælir ekki slíkan árangur. Það hefur sést á síðustu árum hérlendis að lögreglan hefur gert upptækt töluvert magn ólöglegra vímuefna en sú staðreynd hefur þó hvorki haft áhrif á framboðið né eftirspurnina. Framboð efna hefur aukist og afbrot tengd vímuefnaneyslu hafa einnig aukist. Sprautufíklum hefur fjölgað, sem og þeim sem greinast með HIV. Árangur í baráttu gegn neyslu vímuefna verður aðeins raunverulegur ef það dregur úr þeim þáttum sem hér hafa verið nefndir. Miklum árangri í þá átt hefur verið náð í Portúgal. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sú stefna, sem hér er lögð til, hefur ekki einungis að markmiði að draga úr neyslu vímuefna, heldur hefur hún það markmið fyrst og fremst að vernda og tryggja mannréttindi og hlúa að veiku fólki fremur en að refsa því fyrir veikindi sín.
    Til að stefnumótun í vímuefnamálum skili þeim árangri sem að er stefnt er nauðsynlegt að stefnumótunarstarfið verði faglega unnið. Í leiðarvísi um stefnumótun í fíkniefnamálum, sem unninn var af International Drug Policy Consortium, eru góðar leiðbeiningar um hvernig slíku stefnumótunarstarfi verði best háttað. Þar er m.a. lagt til að sett verði skýr tímasett markmið og gerðar verði kostnaðar- og aðgerðaáætlanir til að fylgja þeim eftir og að fundnir verði raunhæfir mælikvarðar til að unnt sé að leggja mat á árangur stefnunnar með reglubundnum hætti.

VI. Fjármögnun.
    Verkefni það sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu þarfnast fjármagns. Hér er ekki aðeins lagt til að lög og reglur verði endurskoðaðar heldur að hugsað verði fyrir nýju heildstæðu og samþættu kerfi sem felur í sér nýja nálgun í vímuefnamálum. Því er afar mikilvægt að verkefninu verði veitt það fjármagn sem það krefst svo að hægt sé að standa að því á faglegan og metnaðarfullan hátt.

VII. Niðurlag.
    Vitundarvakning er að verða um allan heim um fórnarkostnaðinn sem hlotist hefur af stríðinu gegn fíkniefnum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þau áhrif sem glæpavæðing vímuefnaneyslu hefur haft á alþjóðlega glæpastarfsemi. Þar sem stríðið gegn fíkniefnum er háð sem harðast eru samfélagslegar afleiðingar þess geigvænlegar svo liggur við stríðsástandi. Nú er kominn vísir að vitundarvakningu á Íslandi. Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu mælast til þess að hér verði leitað nýrra leiða til að takast á við vímuefnamisnotkun, leiða sem hafa gefið góða raun í þeim löndum þar sem stjórnvöld hafa borið gæfu til að hugsa út fyrir kassann. Neytendur vímuefna og aðstandendur þeirra eiga rétt á aðstoð við að komast heilir frá vímuefnavandanum. Almenningur á skilið að skattpeningum þeirra sé varið í verkefni sem einhverjar líkur eru á að skili raunhæfum árangri. Með þingsályktunartillögu þessari eru lagðar fram raunhæfar hugmyndir að nýrri nálgun, samfélaginu í heild til góða.

VIII. Ítarefni.
Report of the Global Commission on Drug Policy, June 2011.
http://www.globalcommissionondrugs.org/wp-content/themes/gcdp_v1/pdf/Global_Com mission_Report_English.pdf

Drug Policy Guide (International Drug Policy Consortium), March 2011. dl.dropboxusercontent.com/u/64663568/library/IDPC-Drug-Policy-Guide_2nd-Edit ion.pdf

Executive Summary: External Evaluation National Plan Against Drugs and Drug Addictions 2005–2012 (PNCDT), Lisbon 2013.
www.idt.pt/EN/Reports/Documents/2013/UK_SICAD.pdf

Drug policy profiles – Portugal, EMCDDA, Lisbon, June 2011.
http://www.emcdda.europa.eu/attachements.cfm/att_137215_EN_PolicyProfile_Portugal _WEB_Final.pdf

Drug Policy in Portugal: The Benefits of Decriminalizing Drug Use, Open Society Foundations, August 2011.
http://www.opensocietyfoundations.org/sites/default/files/drug-policy-in-portugal-english -20120814.pdf

Drug Decriminalization in Portugal, Lessons for Creating Fair and Successful Drug Policies, Cato Institute, 2009.
http://www.cato.org/sites/cato.org/files/pubs/pdf/greenwald_whitepaper.pdf

Vísir - Góð reynsla af að líta ekki á fíkniefnaneyslu sem afbrot. 28. júní 2012.
http://www.visir.is/god-reynsla-af-ad-lita-ekki-a-fikniefnaneyslu-sem-afbrot/article/2012 120628828

Læknablaðið, 07/08 tbl. 97. árg. 2011 – Fjölgun HIV-smitaðra er áhyggjuefni – segir Valgerður Rúnarsdóttir á Vogi.
www.laeknabladid.is/tolublod/2011/07/nr/4278

SÁÁ – HIV faraldur á Íslandi. 31. maí 2011.
saa.is/islenski-vefurinn/felagsstarf/pistlar/nr/116690/

Vísir – Nýgreindir með HIV_alnæmi aldrei fleiri en nú á Íslandi. 1. desember 2010.
http://www.visir.is/nygreindir-med-hiv/alnaemi-aldrei-fleiri-en-nu-a-islandi/article/20104 30793962

Vísir – Vilja aðgerðir vegna HIV sýkinga. 8. október 2011.
http://www.visir.is/vilja-adgerdir-vegna-hiv-sykinga/article/2011111009066

Vísir – Allir sem greinst hafa með HIV notuðu rítalín frá læknum. 6. júní 2011.
http://www.visir.is/allir-sem-greinst-hafa-med-hiv-notudu-ritalin-fra-laeknum/article/201 1110609379

mbl.is – Sprauta sig 15–20 sinnum á dag. 20. janúar 2013.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/20/sprauta_sig_15_20_sinnum_a_dag/

Rauði kross Íslands – Frú Ragnheiður - Skaðaminnkun.
http://www.raudikrossinn.is/page/rki_reykjavikurdeild_fruragnheidur

Rótin, félag kvenna með áfengis- og fíknivanda – Opið bréf til heilbrigðisráðherra:
www.rotin.is/afoll-og-afengismedferd-opid-bref-til-heilbrigdisradherra/


Fylgiskjal.


Lög nr. 30 frá 29. nóvember 2000
um skilgreiningu réttarfyrirkomulags sem gildir um neyslu ávana- og fíkniefna og geðvirkra efna, svo og um heilsufarslega og félagslega vernd fyrir þá sem neyta slíkra efna án ávísunar frá lækni


Þjóðþing lýðveldisins setur hér með eftirfarandi almenn lög í landinu, sbr. c-lið 161. gr. stjórnarskrárinnar:

1. gr.
Markmið

     1.      Með lögum þessum er skilgreint réttarfyrirkomulag sem gildir um neyslu ávana- og fíkniefna og geðvirkra efna, svo og um heilsufarslega og félagslega vernd fyrir þá sem neyta slíkra efna án ávísunar frá lækni.
     2.      Þær plöntur, efni og efnablöndur, sem falla undir réttarfyrirkomulag, þetta eru taldar upp í töflum I til IV í lögum nr. 15 frá 22. janúar 1993.

2. gr.
Neysla

     1.      Neysla, öflun og varsla til eigin neyslu á plöntum, efnum eða efnablöndum, sem tilgreindar eru í töflunum sem vísað er til í 1. gr. telst vera reglugerðarbrot.
     2.      Í skilningi laga þessara teljast öflun og varsla á fyrrgreindum efnum til eigin neyslu ekki ná til magns umfram það sem telja má meðalneyslu einstaklings í tíu daga.

3. gr.
Meðferð að eigin frumkvæði

     1.      Ákvæði laga þessara eiga ekki við þegar neytandi – eða forráðamaður neytanda ef um er að ræða ólögráða einstakling – óskar eftir aðstoð heilbrigðisstofnunar á vegum hins opinbera eða í einkarekstri.
     2.      Lækni er heimilt að gera heilbrigðisyfirvöldum viðvart ef hann verður í starfi sínu var við misnotkun á plöntum, ávana- og fíkniefnum eða geðvirkum efnum ef það er mat hans að þörf sé á meðferð læknis eða heilsugæslu í þágu sjúklingsins, fjölskyldu hans eða samfélagsins, sem sjúklingurinn hefur ekki efni á.
     3.      Um tilvik sem kveðið er á um í málsgreinunum hér að framan skal ríkja trúnaðarskylda, enda læknar, tæknifólk og annað heilbrigðisstarfsfólk bundið þagnarskyldu og skal þeim ekki skylt að bera vitni í rannsóknar- eða dómsmálum, hvort heldur er til þess að veita upplýsingar um eðli og árangur meðferðar eða til þess segja deili á neytandanum.

4. gr.
Haldlagning og kennsl

     1.      Lögregluyfirvöld skulu bera kennsl á neytandann og er einnig heimilt að gera á honum leit og leggja hald á plönturnar, efnin og efnablöndurnar, sbr. 1. gr., sem fundist hafa í vörslu neytandans og gera þau upptæk og semja síðan viðeigandi lögregluskýrslu sem framsend skal til lögbærrar nefndar í viðkomandi héraði.
     2.      Þegar ekki er unnt að bera kennsl á neytandann á þeim stað og á þeirri stund sem atvik á sér stað er lögregluyfirvöldum heimilt, ef nauðsyn ber til, að beita varðhaldi til þess að tryggja að neytandinn mæti fyrir nefndina, sbr. reglur laga um varðhald í því skyni að afla upplýsinga um deili á mönnum.

5. gr.
Málsmeðferð, ákvörðun refsingar og fullnusta

     1.      Málsmeðferð og ákvörðun viðeigandi refsingar er í höndum nefndar, sem nefnist „fíkniefnavarnanefnd“, er sérstaklega skipuð í þessum tilgangi og hefur starfsaðstöðu hjá héraðsstjórnvöldum .
     2.      Héraðsstjórnvöld hafa vald til þess að innheimta fésektir og framfylgja annarri refsingu.
     3.      Í héruðum þar sem tíðni mála er meiri er heimilt að skipa fleiri en eina nefnd með tilskipun þess efnis frá þeirri ríkisstofnun sem fer með ávana- og fíkniefnamál.
     4.      Héraðsstjórnvöld og IDPT (Ávana- og fíkniefnavarnastofnun Portúgals) skulu veita nefndunum stjórnsýslulega aðstoð og faglega aðstoð.
     5.      Kostnaður sem tengist starfi nefndanna skal greiddur af IDPT.

6. gr.
Miðlæg skrá

    IDPT skal halda miðlæga skrá yfir mál er varða brot sem fjallað er um í lögum þessum og skal skráin haldin í samræmi við reglugerð sem gefin er út af þeirri ríkisstofnun sem fer með ávana- og fíkniefnamál.

7. gr.
Skipun og samsetning nefnda

     1.      Nefndirnar sem kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. skulu skipaðar þremur mönnum og er formaður skipaður af þeirri ríkisstofnun sem fer með ávana- og fíkniefnamál.
     2.      Einn nefndarmaður skal vera lögfræðingur, skipaður af dómsmálaráðherra en sú ríkisstofnun sem fer með ávana- og fíkniefnamál skal skipa hina tvo nefndarmennina og skulu þeir valdir úr röðum lækna, sálfræðinga, félagsfræðinga, félagsráðgjafa eða annara með viðeigandi faglega þekkingu á svið fíkniefnaávana. Skulu þeir í starfi sínu varast alla mögulega beina árekstra við hagsmuni sem lúta að meðferð og siðareglum.
     3.      Dómsmálaráðherra og sú ríkisstofnun sem fer með ávana- og fíkniefnamál skulu gefa út reglugerðir um skipulag nefndanna, verklag þeirra og starfsreglur en staða nefndarmanna skal ákveðin með sameiginlegri tilskipun fjármálaráðherra, ráðherra umbóta- og stjórnsýslumála og þeirrar ríkisstofnunar sem fer með ávana- og fíkniefnamál.
     4.      Nefndarmenn skulu bundnir þagnarskyldu um persónuupplýsingar sem fram koma við meðferð mála, með fyrirvara um lagareglur um verndun almannaheilsu og um meðferð sakamála, þar sem við á.

8. gr.
Lögsaga

     1.      Mál skulu rekin fyrir nefndinni í því héraði þar sem neytandi hefur heimilisfesti, en ef ókunnugt er um heimilisfang þá fyrir nefndinni í héraðinu þar sem komið var að neytandanum.
     2.      Kærur vegna viðurlaga sem nefndirnar ákvarða skulu lagðar fyrir dómstólinn í umdæminu þar sem viðkomandi nefnd hefur höfuðstöðvar sínar.

9. gr.
Samstarf við aðrar stofnanir

     1.      Neytandi sem gengst sjálfviljugur undir meðferð getur valið að nota hina opinberu heilbrigðisþjónustu eða einkarekna heilbrigðisstofnun sem hefur tilskilin leyfi.
     2.      Í því skyni að framfylgja ákvæðum laga þessara skulu nefndirnar og héraðsstjórnvöld njóta aðstoðar hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, lögreglu og stjórnsýslu.

10. gr.
Mat á eðli og aðstæðum neyslu

     1.      Nefndin skal taka skýrslu af neytandanum og afla þeirra upplýsinga sem þörf er á til þess að komast að niðurstöðu um hvort neytandinn sé háður neyslunni eða ekki, hvaða efna var neytt, við hvaða aðstæður neyslan átti sér stað og hvar, og svo hverjar séu efnahagsaðstæður neytandans.
     2.      Neytandinn getur farið fram á að meðferðarfulltrúi að hans vali taki þátt í málsmeðferðinni og skal nefndin setja reglur um slíka þátttöku.
     3.      Í því skyni að komast að niðurstöðu skv. 1. mgr. geta nefndin eða neytandinn gert tillögu um eða farið fram á læknisfræðilegar rannsóknir, svo sem blóð- eða þvagprufur eða aðrar prófanir eftir því sem við á.
     4.      Byggi nefndin skilgreiningu sína á eðli neyslunnar ekki á niðurstöðum læknisfræðilegrar rannsóknar, sbr. 3. mgr., er neytanda heimilt að fara fram á að slík rannsókn verði gerð og skulu þá niðurstöður rannsóknarinnar greindar með það fyrir augum að endurskoða hugsanlega upphaflega niðurstöðu nefndarinnar.
     5.      Nefndin skal fela rannsóknina heilbrigðisstofnun með öll tilskilin leyfi en neytandinn ber kostnaðinn ef hann velur einkastofnun. Rannsóknin skal gerð innan 30 daga.

11. gr.
Málsmeðferð frestað tímabundið

     1.      Nefndin skal fresta málsmeðferð tímabundið ef neytandi sem ekki er með sögu um fyrri brot á lögum þessum telst ekki vera haldinn ávana.
     2.      Nefndin skal fresta málsmeðferð tímabundið ef neytandi, sem haldinn er ávana en er ekki með sögu um fyrri málsmeðferð vegna brota á þessum lögum, fellst á að gangast undir meðferð.
     3.      Nefndin getur frestað málsmeðferð tímabundið ef neytandi, sem haldinn er ávana og er einnig með sögu um fyrri málsmeðferð vegna brota á þessum lögum, fellst á að gangast undir meðferð.
     4.      Ákvörðun um að fresta málsmeðferð verður ekki hnekkt.


12. gr.
Fallist á meðferð

     1.      Ef neytandi sem haldinn er ávana fellst á að gangast undir meðferð skal nefndin tilkynna það til þeirrar opinberu heilbrigðisstofnunar eða einkastofnunar sem neytandinn valdi, enda hafi neytandanum verið kynntir þeir kostir sem til boða standa.
     2.      Velji neytandinn einkarekna heilbrigðisstofnun skal hann bera kostnaðinn af meðferðinni.
     3.      Stofnunin sem vísað er til í 1. mgr. skal tilkynna nefndinni á þriggja mánaða fresti hvort meðferðinni sé haldið áfram eða ekki.


13. gr.
Tími og áhrif frestunar

     1.      Fresta má málsmeðferð í allt að tvö ár en frestinn má framlengja um eitt ár til viðbótar með rökstuddri ákvörðun nefndarinnar.
     2.      Nefndin skal fella mál niður, sem ekki verður þá upp tekið aftur, ef:
              a.      ekki verður um að ræða endurtekið brot af hálfu neytanda sem ekki er haldinn ávana;
              b.      neytandi sem haldinn er ávana gengst undir meðferð og rýfur hana ekki að tilefnislausu.
     3.      Að öðru leyti en sem kveðið er á um í fyrri málsgrein skal málsmeðferð haldið áfram.
     4.      Fyrningarfrestur málsmeðferðar skal rofinn meðan á frestun hennar stendur.

14. gr.
Frestun viðurlaga þegar fallist er á að gangast undir meðferð

     1.      Nefndinni er heimilt að fresta ákvörðun um að beita viðurlögum ef neytandi sem haldinn er ávana samþykkir að gangast undir meðferð hjá opinberri eða einkarekinni heilbrigðisstofnun.
     2.      Heimilt er að fresta viðurlögum í allt að þrjú ár.
     3.      Ef neytandi gengst ekki undir meðferð eða rýfur meðferð á frestunartímanum af ástæðum sem raktar verða til hans sjálfs skal frestunin afturkölluð og viðurlögum við brotinu beitt.
     4.      Nefndin skal lýsa málsmeðferð lokið ef ekkert hefur komið í ljós á fresttímanum sem leitt gæti til afturköllunar á frestinum.
     5.      Neitun að gangast undir meðferð samkvæmt ákvæðum 11. gr. og framhald málsmeðferðar skv. ákvæðum 13. gr. skulu ekki skerða gildi ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.
     6.      Ákvæði 2. mgr. 12. gr. og 4. mgr. 13. gr. gilda með samsvarandi hætti.

15. gr.
Viðurlög

     1.      Neytendum sem ekki eru haldnir ávana má beita sektum eða öðrum viðurlögum.
     2.      Neytendur sem haldnir eru ávana skal beita viðurlögum öðrum en sektum.
     3.      Nefndin skal ákvarða viðurlög í samræmi við þörfina til þess að koma í veg fyrir neyslu ávana- og fíkniefna og geðvirkra efna.
     4.      Þegar viðurlög eru ákvörðuð skal nefndin taka mið af aðstæðum neytandans og eðli og aðstæðum neyslunnar, þar sem sérstaklega er tekið mið af eftirfarandi:
              a.      alvarleika brotsins,
              b.      saknæmisstigi,
              c.      tegund plantna, efna eða efnablanda sem neytt er,
              d.      hvort neyslan hafi átt sér stað á almannafæri eða inni á heimili,
              e.      ef um neyslu á almannafæri var að ræða, þá hvar hún átti sér stað,
              f.      ef um er að ræða neytanda sem ekki er haldinn ávana, þá hvort um venjubundna eða tilfallandi neyslu var að ræða,
              g.      persónulegum aðstæðum neytanda, einkum efnahagslegum og fjárhagslegum.

16. gr.
Sektir

     1.      Þegar um er að ræða plöntur, efni eða efnablöndur í töflum I-A, I-B, II-A, II-B og II-C skal sektin ákvörðuð frá PTE 5,000 hið lægsta og allt að fjárhæð sem nemur jafngildi lágmarksmánaðarlauna.
     2.      Þegar um er að ræða efni eða efnablöndur í töflum I-C, III og IV skal sektin ákvörðuð á bilinu PTE 5,000 til PTE 30,000.
     3.      Fjárhæð sektanna skal ráðstafað sem hér segir:
              a.      60% skal renna til ríkisins,
              b.      20% skal renna til SPTT (Forvarna- og meðferðarþjónusta),
              c.      10% skal renna til héraðsstjórnvalda,
              d.      10% skal renna til IPDT.

17. gr.
Önnur viðurlög

     1.      Í stað sektar er nefndinni heimilt að gefa út aðvörun.
     2.      Með fyrirvara um ákvæði 2. mgr. 15. gr. er nefndinni heimilt að beita eftirfarandi viðurlögum í stað sekta eða sem meginviðurlögum:
              a.      banni við að gegna tilteknum störfum, einkum störfum sem háð eru leyfisveitingu af hálfu hins opinbera þegar starfið er þess eðlis að neytanda eða þriðja aðila geti stafað hætta af,
              b.      banni við að sækja tiltekna staði,
              c.      banni við því að neytandi sé í fylgd með tilteknum einstaklingum, hýsi þá eða taki á móti þeim,
              d.      farbanni,
              e.      skyldu til að gefa sig fram með reglubundnum hætti á stað sem nefndin tiltekur,
              f.      leyfissviptingu, sviptingu réttar til að öðlast eða endurnýja skotvopnaleyfi, til varnar, veiða, skotfimi í keppni eða til afþreyingar,
              g.      haldlagningu muna sem tilheyra neytandanum sem honum eða samfélaginu stafar hætta af eða sem hvatt geta til glæpsamlegs eða annars saknæms athæfis,
              h.      sviptingu umráða yfir niðurgreiðslum eða bótum sem greiddar eru til hans persónulega af hálfu opinberra aðila eða þjónustustofnana og færist þá umráðarétturinn til þeirrar stofnunar sem fer með málið eða fylgist með meðferðarferlinu hafi neytandinn samþykkt að gangast undir meðferð.
     3.      Í stað viðurlaganna sem kveðið er á um hér að framan er nefndinni heimilt, með samþykki neytandans, að gera neytandanum að greiða fjárhæð til góðgerðastofnunar sem rekin er af hinu opinbera eða af einkaaðilum, eða að sinna samfélagsþjónustu án launa samkvæmt reglum í 3. og 4. mgr. 58. gr. hegningarlaga.
     4.      Nefndinni er heimilt að fresta framkvæmd viðurlaga samkvæmt framansögðu og ákveða í þeirra stað tilteknar skyldur skv. ákvæðum 19. gr.

18. gr.
Aðvaranir

     1.      Nefndinni er heimilt að veita aðvörun telji hún, í ljósi persónulegra aðstæðna neytanda, tegundar neyslunnar og tegundar þeirra plantna, efna eða efnablanda sem neytt var, að neytandinn muni halda sig frá frekari neyslu.
     2.      Aðvörunin skal vera í formi munnlegrar áminningar þar sem neytandinn er varaður með skýrum hætti við afleiðingunum af athæfi sínu og hvattur til þess að halda sig frá neyslu.
     3.      Nefndin skal veita aðvörunina þegar ákvörðunin um að beita henni liggur fyrir.
     4.      Nefndin skal veita aðvörun þegar í stað ef neytandinn lýsir yfir að hann afsali sér rétti til þess að kæra.

19. gr.
Frestun á beitingu viðurlaga

     1.      Þegar um er að ræða neytanda sem er fíkill og engin raunhæf meðferðarúrræði eru tiltæk, eða neytanda sem neitar að gangast undir meðferð, er nefndinni heimilt að fresta framkvæmd viðurlaganna en gera neytandanum þess í stað að mæta með reglubundnum hætti til heilsugæsluþjónustu svo oft sem veitendur þjónustunnar telja nauðsynlegt með það fyrir augum að bæta heilsufar hans en einnig má binda frestunina því skilyrði að neytandinn fallist á ráðstafanirnar sem kveðið er á um í 3. mgr.
     2.      Þegar um er að ræða neytanda sem ekki er fíkill getur nefndin valið að fresta viðurlögum ef það er niðurstaða nefndarinnar, í ljósi persónulegra aðstæðna neytandans, tegundar neyslunnar og tegundar þeirra plantna, efna eða efnablanda sem neytt var, að sú ráðstöfun sé vænlegust til þess að ná því markmiði að koma í veg fyrir neyslu, enda samþykki neytandinn skilyrðin sem sett eru af nefndinni samkvæmt ákvæðum eftirfarandi málsgreina.
     3.      Nefndin kann að leggja til aðrar lausnir til eftirfylgni sem kunna að vera sérlega ráðlegar í ljósi málavaxta í hverju máli þannig að tryggð sé virðing fyrir reisn einstaklingsins og með samþykki hins síðarnefnda og skulu síkar ráðstafanir valdar úr þeim ráðstöfunum sem kveðið er á um í a- til d-lið 2. mgr. 17. gr.
     4.      Reglur um reglubundna mætingu skv. 1. mgr. skulu gefnar út af heilbrigðisráðherra.

20. gr.
Frestun á beitingu viðurlaga

     1.      Frestun skal vara frá einu og upp í þrjú ár frá þeim degi sem ákvörðunin verður endanleg, að frátöldum þeim tíma sem neytandinn kann að vera sviptur frelsi vegna þvingunaraðgerða, fangelsisdóms eða í varúðarskyni.
     2.      Nefndin skal ákvarða timalengd ráðstafana skv. 3. mgr. 19. gr., sem skal þó aldrei vera meiri en sex mánuðir að hámarki.

21. gr.
Reglubundin mæting

     1.      Þegar frestað er framkvæmd viðurlaga með reglubundinni mætingu á heilsugæsluþjónustu skal nefndin tilkynna heilsugæslustöðinni í hverfi neytandans eða annarri heilsugæslustofnun sem um hefur samist við hann.
     2.      Stofnunin sem vísað er til í 1. mgr. skal tilkynna nefndinni um reglubundnar mætingar neytandans, eða fjarvistir ef um þær er að ræða og þá um ástæður ef þær eru kunnar.

22. gr.
Tilkynning um ráðstafanir

     1.      Stofnunum og stjórnvöldum sem leitað er samstarfs við vegna eftirlits með því hvort ráðstöfunum sé fylgt, skal tilkynnt um ákvörðun um að fresta framkvæmd viðurlaga.
     2.      Stofnanir og stjórnvöld sem vísað er til í 1. mgr. skulu tilkynna nefndinni ef vanrækt er að hlíta ráðstöfunum og fer þá skv. 2. og 3. mgr. 23. gr.

23. gr.
Áhrif frestunar

     1.      Nefndin skal lýsa yfir að viðurlög séu niður fallin ef engar aðstæður eru uppi sem leiða mundu til afturköllunar á frestinum á þeim tíma sem fresturinn rennur út.
     2.      Frestun á beitingu viðurlaga skal afturkölluð ef neytandinn vanrækir ítrekað meðan frestunin varir að hlíta þeim ráðstöfunum sem ákvarðaðar voru.
     3.      Ef frestun er afturkölluð koma viðurlögin sem ákvörðuð voru til framkvæmda.

24. gr.
Tímalengd viðurlaga

Viðurlögin sem kveðið er á um í 2. mgr. 17. gr. og eftirfylgd sem kveðið er á um í 19. gr. skulu að lágmarki gilda í einn mánuð en að hámarki í þrjú ár.

25. gr.
Hlýðni við viðurlög og eftirfylgd

Stjórnvöldum í héraði skal tilkynnt um ákvörðun um að beita viðurlögum eða eftirfylgd og skulu þau tilkynna þeim stofnunum og stjórnvöldum sem nauðsynlegt er að eiga samstarf við til þess að beita viðurlögunum.

26. gr.
Önnur lög

Þar sem þessi lög kveða ekki sérstaklega á um annað skulu almennar reglur um reglugerðarbrot gilda.

27. gr.
Gildi í sjálfsstjórnarhéruðum

Í sjálfsstjórnarhéruðum skulu landfræðileg dreifing og samsetning nefndarinnar, vald til að skipa nefndarmenn, skilgreining stofnana sem þátt taka í málsmeðferðinni og skipting fjárhæða sekta ákveðin með tilskipunum í viðkomandi héruðum.

28. gr.
Brottfall lagaákvæða

Við gildistöku laga þessara falla úr gildi 40. gr., nema að því er varðar ræktun, og 41. gr. laga nr. 15 frá 22. janúar 1993 ásamt öllum öðrum ákvæðum sem reynast ósamrýmanleg því fyrirkomulagi sem komið er á með þessum lögum.

29. gr.
Gildistaka

Lögleiðing sú, sem gert er ráð fyrir hér, skal öðlast gildi á öllu yfirráðasvæði Portúgals hinn 1. júlí 2001 og skulu allar eftirlits-, tækni-, skipulags- og fjárhagsráðstafanir sem þörf er á til þess að beita því meðferðar- og eftirfylgdarfyrirkomulagi sem kveðið er á um í lögum þessar samþykktar innan 180 daga frá birtingu laganna.

Samþykkt hinn 19. október 2000.
          Forseti þingsins, António de Almeida Santos.
          Kunngert 14, nóvember 2000. Til birtingar Forseti lýðveldisins, Jorge Sampaio.
          Undirritað 14, nóvember 2000. António Manuel de Oliveira Guterres, forsætisráðherra.