Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2003.  Útgáfa 129.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um grunnskóla

1995 nr. 66 8. mars


Tóku gildi 13. mars 1995, komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 57. gr. Breytt með l. 77/1996 (tóku gildi 19. júní 1996; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 6. gr.), l. 11/1997 (tóku gildi 26. mars 1997), l. 104/1999 (tóku gildi 30. des. 1999) og l. 48/2001 (tóku gildi 13. júní 2001).


I. kafli. Markmið og skólaskylda.
1. gr. Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla en frá því má þó veita undanþágu, sbr. 5., 7. og 8. gr.
Þegar tilgreindur er aldur nemenda í lögum þessum miðast hann við það almanaksár er nemandinn nær nefndum aldri.
2. gr. Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.
Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
3. gr. Grunnskóli er tíu ára skóli.
Hver grunnskóli skal vera einsetinn.
Hverjum grunnskóla má skipa í einingar með ákvörðun hlutaðeigandi sveitarstjórna.
4. gr. Í strjálbýli skal miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verður við komið en ekki heimavist.
Börn yngri en tíu ára skulu ekki dveljast í heimavist nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
Sveitarstjórn er heimilt að koma á fót skólaseljum frá aðalskóla.
Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.
5. gr. Sveitarstjórn getur borið fram við menntamálaráðuneytið rökstudda beiðni um tímabundna undanþágu frá því að uppfylla að fullu ákvæði 1. og 26. gr. laga þessara um skólaskyldu og skólatíma. Menntamálaráðuneytið úrskurðar hvort eða að hvað miklu leyti slík undanþága skuli veitt.
6. gr. Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita leiða til úrbóta.
Takist það ekki vísar skólastjóri málinu til úrlausnar skólanefndar sem leitar lausna á því að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.
Finnist enn ekki úrlausn getur hvor aðili, forráðamaður eða skólanefnd, vísað málinu til menntamálaráðuneytis sem leitar úrlausnar og getur úrskurðað með hvaða hætti úr skuli bætt.
7. gr. Undanþegin því að sækja grunnskóla skv. 1. gr. eru:
    a. börn sem sækja viðurkennda einkaskóla, sbr. 56. gr.,
    b. börn sem búa í skólahverfum sem fengið hafa undanþágu skv. 5. gr. að því leyti sem undanþágan kveður á um.
8. gr. Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu í samráði við umsjónarkennara telji hann til þess gildar ástæður. Forráðamaður skal þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.

II. kafli. Stjórnun grunnskóla.
9. gr. Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi, reglugerðir við þau og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.
Ráðuneytið skal fylgjast með að allir grunnskólar landsins eigi kost á sérfræðiþjónustu og að nemendur, sem ekki geta notið kennslu með fullnægjandi hætti í almennum grunnskóla, fái kennslu við hæfi.
Menntamálaráðuneytið annast söfnun og dreifingu upplýsinga um skólahald og skólastarf á grunnskólastigi.
Menntamálaráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins á þriggja ára fresti.
10. gr. Allur rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga frá þeim tíma sem lög þessi koma að fullu til framkvæmda sé ekki sérstaklega kveðið á um annað. Sveitarstjórn skal gera menntamálaráðuneytinu árlega eða oftar, sé þess krafist, grein fyrir framkvæmd skólahalds í skólahverfi sínu.
Menntamálaráðherra getur sett í reglugerð 1) nánari ákvæði um upplýsingaskyldu sveitarfélaga varðandi skólahald.
[Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frumkvæði að lausn málefna grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila.] 2)
    1)Rg. 384/1996. 2)L. 77/1996, 1. gr. Ákvæðið komi til endurskoðunar eigi síðar en 1. janúar 1999.
11. gr. Skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi. Sveitarfélag, sem rekur tvo eða fleiri grunnskóla, telst eitt skólahverfi. Þó er heimilt að skipta sveitarfélagi í fleiri skólahverfi samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar. Sveitarfélag getur átt aðild að fleiri en einu skólahverfi ef börn og unglingar á skólaskyldualdri úr því sveitarfélagi eiga skólasókn til tveggja eða fleiri skólahverfa.
Þar sem sveitarfélög sameinast um rekstur grunnskóla eða hluta hans skulu viðkomandi sveitarstjórnir gera með sér samning um stofnun skólans, rekstur hans og hvernig kostnaði skuli skipt milli aðila. Í samningnum skal m.a. kveðið á um hvernig haga skuli ráðningum starfsmanna, hjá hvaða sveitarfélagi þeir eru ráðnir, svo og hvernig endurgreiðslu annarra rekstraraðila á hlutdeild í launakostnaði skuli hagað.
[Sveitarfélag getur falið byggðasamlagi um rekstur grunnskóla þau réttindi og skyldur sem á sveitarfélagi hvíla samkvæmt lögum þessum.] 1)
    1)L. 77/1996, 2. gr.
12. gr. Í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.
Skólanefnd skal sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Hún skal staðfesta áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í skólahverfinu. Í sveitarfélögum þar sem skólahverfi eru fleiri en eitt skal áætlun um starfstíma nemenda jafnframt staðfest af viðkomandi sveitarstjórn. [Skólanefnd gerir tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi.] 1) Jafnframt skal skólanefnd stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla.
Skólanefnd fylgist með og stuðlar að því að skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu og að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda. Skólanefnd ásamt skólastjóra lítur eftir að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða á þessu sviði og gerir tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur.
    1)L. 48/2001, 1. gr.
13. gr. Skólanefnd skal kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, 1) og samþykktum viðkomandi sveitarfélags.
Varamenn í skólanefndum skulu jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
Þar sem fleiri en eitt sveitarfélag standa saman að rekstri grunnskóla, eða hluta hans, skal setja í stofnsamning ákvæði um aðild hvers og eins að skólanefnd.
Fulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra eiga rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.
Grunnskólakennarar í skólahverfinu kjósa úr sínum hópi fulltrúa til að starfa með skólanefnd. Þar sem stöðugildi við grunnskóla í skólahverfi eru 15 eða færri skal kjörinn einn kennarafulltrúi en tveir þar sem stöðugildi eru 16 eða fleiri. Varamenn kennarafulltrúa skulu jafnmargir aðalmönnum.
Skólastjóri, eða aðstoðarskólastjóri í forföllum hans, á rétt til setu á skólanefndarfundum þegar fjallað er sérstaklega um málefni viðkomandi skóla.
Foreldrafélag, eða samtök foreldra í skólahverfinu, kýs úr sínum hópi einn fulltrúa til að starfa með skólanefnd og einn varamann.
    1)l. 45/1998.
14. gr. [Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir honum faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.] 1) Skólastjóri sér um að skólanámskrá skólans sé gerð.
Skólastjóri boðar til kennarafundar svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skóla. Auk þess skal boða til slíks fundar ef þriðjungur kennara skólans æskir þess.
Í skólum, þar sem kennslumagn nemur átta fullum stöðum eða fleiri auk skólastjóra, kjósa kennarar þriggja manna kennararáð sem í umboði kennara er skólastjóra til ráðuneytis um stjórn skólans. Í öðrum skólum fer kennarafundur með hlutverk kennararáðs.
Skólastjóri skal a.m.k. tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til þess að veita upplýsingar um skólastarfið og fjalla um málefni þessara ráða.
    1)L. 48/2001, 2. gr.
15. gr. Starfsmönnum skóla er skylt að efla samstarf skóla og heimila, m.a. með því að miðla fræðslu um skólamál til foreldra og veita upplýsingar um starfið í skólanum.
Foreldrar barna í grunnskóla geta ákveðið að stofna samtök foreldra við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla.
Skólastjóri skal boða til stofnfundar slíkra samtaka óski foreldrar þess. Samtökin setja sér starfsreglur.
16. gr. Við hvern grunnskóla skal starfa foreldraráð og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess.
Í foreldraráði sitja þrír foreldrar sem ekki eru starfsmenn skólans. Foreldrar við grunnskóla velja fulltrúa í foreldraráð til tveggja ára í senn.
Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgist með að áætlanir séu kynntar foreldrum, svo og með framkvæmd þeirra.
Skólastjóri starfar með foreldraráði og veitir því upplýsingar um starfið í skólanum.
Óski foreldrar þess er skóla heimilt, með rökstuddri greinargerð, að sækja um undanþágu frá ákvæði greinar þessarar til menntamálaráðuneytisins. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir undanþágu, svo sem ef skóli er mjög fámennur.
17. gr. Nemendum grunnskóla er heimilt að stofna nemendaráð sem vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum þeirra. Skólastjóri felur einum af kennurum skólans að aðstoða nemendaráð.
Nemendaráð hvers skóla skal setja sér starfsreglur.

III. kafli. Skólahúsnæði.
18. gr. Gerð skólamannvirkja er undirbúin af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd.
Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum. Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða fyrirkomulag er blandað.
19. gr. Í skólahúsi skal, auk kennsluaðstöðu fyrir allar námsgreinar, gera ráð fyrir skólasafni; aðstöðu fyrir nemendur til náms, annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda; aðgengi og aðstöðu fatlaðra; aðstöðu til sérfræðiþjónustu við nemendur; aðstöðu til að neyta málsverðar; snyrtiherbergjum; vinnuaðstöðu fyrir kennara, skólastjórnendur og aðra starfsmenn skólans; íþróttaaðstöðu og aðstöðu fyrir almenna félagsstarfsemi nemenda og öðru því er lög þessi tilgreina. Ef henta þykir má nýta aðstöðu í nágrenni skóla fyrir einstakar greinar, svo sem íþróttir.
Við gerð heimavista skal kappkostað að þær minni sem mest á venjulegt heimili og þannig sé gengið frá að nemendur geti jafnan náð til umsjónarmanns heimavista.
20. gr. Við undirbúning að nýbyggingu og endurbótum grunnskólahúsnæðis skal farið að reglugerð 1) er menntamálaráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og kveður á um lágmarks aðstöðu og búnað.
Sveitarstjórn ákveður nafn skóla.
    1)Rg. 519/1996.
21. gr. Sveitarfélögum er skylt að annast og kosta viðhald skólahúsa og endurnýjun og viðhald búnaðar þeirra á fullnægjandi hátt.
Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um þau skólahús er byggð voru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum og eiga sveitarfélög ekki kröfur á ríkissjóð vegna viðhalds þessara mannvirkja. Verði húsnæði, er byggt var með stofnkostnaðarframlagi úr ríkissjóði, ráðstafað til annarra nota en grunnskólahalds skal samið um uppgjör þess eignarhluta er þannig myndaðist. Náist ekki samkomulag skal eignin metin af dómkvöddum mönnum.
[Eignarhlut ríkisins í skólahúsnæði skal afskrifa í 15 jöfnum áföngum og hann þannig yfirfærður til þeirra sveitarfélaga sem annast og kosta viðhald húsnæðisins. Skal það gert með því að lækka í lok hvers árs eignarhlut ríkisins, eins og hann er skráður hjá Fasteignamati ríkisins 1. ágúst 1996, um 6 2/ 3%, í fyrsta skipti 31. desember 1996. Jafnframt hækki eignarhlutur sveitarfélaga samsvarandi.
Verði breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að skólahúsnæði er ráðstafað til rekstrar á vegum ríkisins skal samsvarandi yfirfærsla á eignarhlut sveitarfélags eiga sér stað á 15 árum frá sveitarfélagi til ríkis.
Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við um húsnæði og aðstöðu sem framhaldsskólar hafa afnot af, svo sem íþróttahús og önnur íþróttamannvirki. Enn fremur eru undanskildir skólastjóra- og kennarabústaðir, óbyggðar lóðir og landréttindi.
Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.] 1)
    1)L. 77/1996, 3. gr.
22. gr. Dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja, þar á meðal skólastjóra- og kennarabústaða sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga eða í eigu sveitarfélaga einna, skulu vera í höndum skólastjóra í umboði sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn er heimilt að ráðstafa skólahúsnæði öllu eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi eða almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins. Slíkt er þó aðeins heimilt að það raski í engu skólahaldi, félagslífi nemenda eða annarri lögbundinni notkun húsnæðisins.
Að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar getur sveitarstjórn ákveðið að skólahúsnæði sé utan venjulegs skólatíma notað til gistingar og veitingareksturs. Tekjur af eignum skólans renna til sveitarsjóðs.

IV. kafli. Starfsfólk grunnskóla.
23. gr. Við hvern grunnskóla skal vera skólastjóri sem ráðinn er af sveitarstjórn að fenginni umsögn skólanefndar. Við ráðningu skólastjóra skal tekið mið af menntun umsækjanda og starfsreynslu. Skólastjóri við heimavistarskóla er jafnframt heimavistarstjóri.
Í grunnskóla þar sem starfa 12 starfsmenn eða fleiri í fullu starfi, auk skólastjóra, skal sveitarstjórn ráða aðstoðarskólastjóra að fenginni tillögu skólastjóra. Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Í skólum þar sem starfa færri en 12 starfsmenn ákveður skólastjóri í upphafi skólaárs í samráði við kennarafund og skólanefnd hver af föstum kennurum skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.
Um ráðningu kennara og annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þessa efnis gefur sveitarstjórn eða byggðarráð fyrirmæli til skóla um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna.
Við ráðningu kennara og skólastjóra skal gæta ákvæða gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara og skólastjóra.
24. gr. Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp skal skólastjóri velja umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.
1)
    1)L. 48/2001, 3. gr.
25. gr. [Sveitarstjórnir skulu greiða upphæð er svarar til 1,3% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í sveitarfélaginu í sérstakan sjóð er Samband íslenskra sveitarfélaga annast rekstur á og varðveitir.] 1) Úr sjóði þessum skulu greidd laun kennara og skólastjóra við grunnskóla vegna námsleyfa allt að einu ári. Heimilt er að veita úr sjóðnum ferðastyrki og styrki til viðbótar námsleyfi.
Sjóðnum stjórnar fimm manna stjórn. Heildarsamtök kennara á skyldunámsstigi skulu tilnefna tvo stjórnarmenn en stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þrjá. Varamenn skulu valdir með sama hætti.
Stjórn sjóðsins metur umsóknir um framlög úr sjóðnum og ákveður árlega úthlutun. Úthlutun skal lokið eigi síðar en 1. desember ár hvert.
Samband íslenskra sveitarfélaga annast og kostar skrifstofuhald fyrir stjórn sjóðsins og skulu endurskoðaðir reikningar hans birtir árlega með rekstrarreikningi sambandsins.
Öllum tekjum sjóðsins skal varið til greiðslu á launum vegna námsleyfa og styrkveitinga, sbr. 1. mgr. Tilnefningaraðilar greiða kostnað af öllum störfum fulltrúa sinna í sjóðstjórn.
Stjórn sjóðsins setur sér starfsreglur og birtir þær.
    1)L. 11/1997, 1. gr.

V. kafli. Starfstími grunnskóla.
26. gr. [Starfstími nemenda í grunnskóla skal á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Kennsludagar skulu ekki vera færri en 170.] 1)
Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur menntamálaráðherra veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum.
    1)L. 48/2001, 4. gr.
27. gr. Kennsludagur grunnskólanemenda skal hefjast að morgni og vera samfelldur með eðlilegum stundahléum og matarhléi. Stundahlé í grunnskóla skulu að lágmarki vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru og matarhlé að lágmarki 30 mínútur.
Vikulegur kennslutími hvers nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera:
   1200 mínútur (30 kennslustundir) í 1.–4. bekk
   1400 mínútur (35 kennslustundir) í 5.–7. bekk
   1480 mínútur (37 kennslustundir) í 8.–10. bekk
Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að í heild fari hann ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
Skólastjóri ákveður lengd kennslustunda í samráði við kennararáð/kennarafund. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla skal vera 40 mínútur.
Sveitarstjórn getur boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma.
28. gr. [Í grunnskóla skal miðað við að jólaleyfi nemenda sé frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði í skólanámskrá, enda sé þess gætt að hvíldartími nemenda sé ekki skertur á skólaárinu.] 1)
    1)L. 48/2001, 5. gr.

VI. kafli. Námskrár og kennsluskipan.
29. gr. Menntamálaráðherra setur grunnskólum aðalnámskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr.
Í starfi skólans skal leggja áherslu á:
    að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda,
    að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi,
    þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu,
    hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,
    skilning og frjótt, skapandi starf og jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,
    að nýta leiki barna sem náms- og þroskaleið,
    að námið nýtist nemendum í daglegu lífi, frekara námi og starfi,
    að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi,
    margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni, safna- og heimildavinnu,
    náms- og starfsfræðslu, kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvals.
Við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr.
Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.
Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, hæfileikum, getu eða áhugasviðum nemenda.
30. gr. Í aðalnámskrá 1) skal kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu. Í aðalnámskrá skal tilgreina kjarnagreinar og kveða á um uppbyggingu og skipan náms í grunnskóla, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina. Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast.
Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms á þeim sviðum sem hér verða talin:
    a. íslenska,
    b. stærðfræði,
    c. erlend tungumál, þ.e. enska og danska (eða annað Norðurlandamál),
    d. listir og verkmenntir,
    e. náttúrufræði, umhverfis- og tæknimennt,
    f. heimilisfræði,
    g. skólaíþróttir,
    h. samfélagsgreinar,
    i. kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði.
    1) Augl. 437/1996. Augl. 163/1999.
31. gr. Í hverjum skóla skal árlega gefa út skólanámskrá og er skólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar. Skólanámskrá er unnin af kennurum skólans. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá og tekur mið af sérstöðu skólans og aðstæðum. Hún er starfsáætlun skóla þar sem m.a. skal gerð grein fyrir skólatíma, skóladagatali, kennsluskipan, markmiðum og inntaki náms, námsmati, mati á skólastarfi, slysavörnum, félagslífi í skólanum og öðru því sem varðar starfsemi skólans. Skólanámskrá skal lögð fyrir skólanefnd og foreldraráð til umsagnar ár hvert.
32. gr. Í 9. og 10. bekk mega námsgreinar vera að hluta frjálst val nemenda. Verja má allt að þriðjungi námstímans í valgreinar. Heimilt er að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi sem nám, enda sé það skipulagt í samráði við skólann.
Menntamálaráðherra setur nánari reglur 1) um valgreinar.
    1)Rg. 387/1996.
33. gr. Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni er nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá.
Ríkinu er skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár.
Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.
Námsgagnastofnun skal tryggja að ætíð sé völ á námsbókum og öðrum námsgögnum sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámskrár, annaðhvort með eigin útgáfu eða útvegun frá öðrum aðilum. Menntamálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um endurgjaldslausa úthlutun námsgagna til nemenda í skyldunámi að fengnum tillögum námsgagnastjórnar.
Ef vafi leikur á að námsgögn uppfylli skilyrði gildandi laga og aðalnámskrár má vísa til menntamálaráðuneytisins sem úrskurðar í málinu.
Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd greinar þessarar.
34. gr. Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.
Í félagsstarfi skal m.a. að því stefnt að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu.

VII. kafli. Réttindi og skyldur nemenda.
35. gr. Börnum og unglingum er skylt að sækja grunnskóla fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar, sbr. 7. og 56. gr. þessara laga.
Skólaskylda barns hefst við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar eða forráðamenn barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar en segir í lögum þessum um skólaskyldu sex ára barna. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn sérfræðiþjónustu.
Ljúki nemandi öllu námi grunnskóla með tilskildum árangri á skemmri tíma en tíu árum telst hann hafa lokið skyldunámi.
Foreldrar eða forráðamenn geta sótt um eða samþykkt að skólastjóri heimili nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 9. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi og lýkur nemandi þá grunnskólanámi síðar. Heimilt er að meta þessa þátttöku nemanda í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 10. bekkjar.
Menntamálaráðherra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er ráðherra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi náms í skyldunámsgrein.
36. gr. Nemendur, sem hafa annað móðurmál en íslensku, eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku.
[Heimilt er að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í íslensku í 4. og 7. bekk. Jafnframt er heimilt að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku undanþágu frá því að þreyta samræmt próf í stærðfræði í 4. og 7. bekk hafi þeir dvalið skemur á landinu en eitt ár.] 1)
Menntamálaráðherra setur nánari reglur 2) um kennslu þessara nemenda.
    1)L. 48/2001, 6. gr. 2)Rg. 391/1996.
37. gr. Börn og unglingar, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi.
Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérdeildum eða í sérskóla.
Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla. Telji foreldrar barns eða forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla geta forráðamenn sótt um skólavist fyrir það í sérskóla.
Menntamálaráðherra setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.
    1)Rg. 389/1996.
38. gr. Sveitarfélög skulu annast rekstur sérdeilda/sérskóla fyrir nemendur sem ekki geta notið kennslu við hæfi í almennri bekkjardeild grunnskóla. Þeim er ætlað:
— að veita nemendum sérhæft námsumhverfi í lengri eða skemmri tíma,
— að veita starfsfólki almennra grunnskóla ráðgjöf og kennslufræðilegan stuðning.
Sérmenntaðir kennarar skulu annast kennslu í sérdeildum/sérskólum þar sem því verður við komið.
Menntamálaráðherra staðfestir starfsreglur sérdeilda/sérskóla að fengnum tillögum sveitarstjórna. Í starfsreglum skal kveðið á um frávik frá almennri námskrá og öðrum viðmiðunum laga um grunnskóla.
Fasteignir þeirra sérskóla er nú eru starfandi á þessu sviði skulu afhentar til þessarar starfsemi án leigu eða annarra gjalda en rekstraraðilar annast og kosta allan rekstur þeirra, þar með talið viðhald frá þeim tíma er lög þessi koma að fullu til framkvæmda.
Teljist síðar ekki þörf fyrir áframhaldandi rekstur einhverra þessara stofnana eða þeirra allra tekur ríkissjóður aftur við umráðum fasteigna þeirra og ráðstafar þeim til annarra nota.
39. gr. Í grunnskóla er heimilt að stofna nemendaverndarráð til að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi námsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og heilsugæslu.
Menntamálaráðherra setur reglugerð 1) um nemendaverndarráð.
    1)Rg. 388/1996.
40. gr. Nemandi má ekki stunda vinnu á starfstíma skóla valdi hún því að nemandinn geti ekki rækt nám sitt sem skyldi eða notið nauðsynlegrar hvíldar að dómi skólastjóra og kennara. Í slíkum tilfellum skal skólastjóri gera nemanda, forráðamanni hans og hlutaðeigandi vinnuveitanda viðvart. Verði ekki bót á ráðin skal vísa málinu til skólanefndar. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun skólanefndar getur hvor aðili, forráðamaður eða skólastjóri, vísað málinu til barnaverndarnefndar.
41. gr. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans.
Meðan mál skv. 2. mgr. eru óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Takist ekki að leysa málið innan skólans tekur skólanefnd það til meðferðar. Takist skólanefnd ekki að leysa málið þannig að allir aðilar þess verði á sáttir fer um frekari meðferð þess skv. 3. mgr. 6. gr. þessara laga, að fenginni umsögn frá sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.
Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.
Í reglugerð 1) sem menntamálaráðherra setur skal mæla nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar.
    1)Rg. 270/2000.

VIII. kafli. Sérfræðiþjónusta.
42. gr. Öllum sveitarfélögum, er standa að rekstri grunnskóla, er skylt að sjá skólanum fyrir sérfræðiþjónustu, bæði almennri og greinabundinni kennsluráðgjöf, er taki til þeirra námsgreina sem tilgreindar eru í 30. gr., námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Þar sem slík þjónusta er ekki rekin á vegum sveitarfélaga er sveitarstjórn skylt að semja um þjónustuna við önnur sveitarfélög, stofnanir, svo sem kennaramenntunarstofnanir, eða aðra aðila er veita þjónustu á þessu sviði.
Hverju sveitarfélagi er skylt að gera menntamálaráðuneyti grein fyrir skipulagi sérfræðiþjónustu við skóla. Menntamálaráðherra setur reglugerð 1) þar sem m.a. er kveðið á um lágmarksþjónustu á þessu sviði.
    1)Rg. 386/1996.
43. gr. Sérfræðiþjónustu skóla er ætlað að stuðla að því að kennslufræðileg og sálfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi. Kennurum og skólastjórnendum skal standa til boða ráðgjöf og stuðningur sérfræðiþjónustu vegna almenns skólastarfs og einnig vegna nýbreytni- og þróunarstarfa. Sérfræðiþjónusta skal gefa forráðamönnum kost á leiðbeiningum um uppeldi nemenda eftir því sem aðstæður leyfa.
Þá skulu starfsmenn sérfræðiþjónustu vinna að forvarnastarfi með athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum hafi þessir erfiðleikar áhrif á nám nemenda og gera tillögur um úrbætur. Forráðamenn nemenda geta komið með ósk um slíka athugun. Starfsmenn skóla og heilsugæslu geta lagt fram ósk um athugun að fengnu samþykki forráðamanna.
Starfsmenn sérfræðiþjónustu skulu vera kennarar með framhaldsmenntun, sálfræðingar og aðrir sérfræðingar.

IX. kafli. Námsmat.
44. gr. Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp.
Með námsmati í grunnskóla skal afla sem öruggastrar vitneskju um árangur skólastarfsins. Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat fer ekki einungis fram í lok námstímans heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu.
45. gr. Námsmat í grunnskóla skal að jafnaði framkvæmt af kennurum skólans og skulu nemendur og forráðamenn þeirra fá glöggar upplýsingar um námsárangur. Kennarar skulu gefa vitnisburð a.m.k. í lok hvers skólaárs.
Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita fræðsluyfirvöldum þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.
Nemandi og forráðamaður hans hafa rétt til að skoða metnar prófúrlausnir nemanda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð 1) sem menntamálaráðherra setur.
    1)Rg. 710/1996.
46. gr. Samræmd próf í kjarnagreinum skulu lögð fyrir samtímis í öllum 4. og 7. bekkjum grunnskóla. [Við lok grunnskóla skal gefa nemendum kost á að þreyta samræmd lokapróf í allt að sex námsgreinum sem menntamálaráðherra ákveður.] 1)
Skólum skulu jafnframt standa til boða samræmd könnunarpróf og stöðluð kunnáttupróf til greiningar á námsstöðu nemenda.
Menntamálaráðherra leggur grunnskólum til samræmd próf og greiðir kostnað af störfum trúnaðarmanna til eftirlits og umsjónar við framkvæmd samræmdra lokaprófa.
Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, eða annar aðili sem menntamálaráðherra ákveður, hefur umsjón með gerð og framkvæmd þessara prófa.
Menntamálaráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa.
    1)L. 104/1999, 1. gr. 2)Rg. 414/2000, sjá og augl. 793/2000; rg. 415/2000.
47. gr. Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið skyldunámi samkvæmt lögum. Í skírteini skal skrá vitnisburð í þeim námsgreinum er nemandi lagði stund á í 10. bekk.
Menntamálaráðuneytið gefur út viðmiðanir fyrir slík skírteini.
48. gr. Menntamálaráðherra setur í reglugerð 1) ákvæði um með hvaða hætti fylgst skuli með námsárangri nemenda í sérskólum og hjá öðrum þeim nemendum á skyldunámsaldri er taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki próf skv. 46. gr.
    1)Rg. 709/1996.
49. gr. Sérhver grunnskóli innleiðir aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Á fimm ára fresti skal að frumkvæði menntamálaráðuneytisins gerð úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla.

X. kafli. Skólaþróun, tilraunaskólar.
50. gr. Kennarar og skólastjórar grunnskóla skulu, auk námsleyfa, sbr. 25. gr., eiga kost á endurmenntun í þeim tilgangi að efla starfshæfni sína, kynnast markverðum nýjungum í skóla- og uppeldismálum og njóta stuðnings við nýbreytni- og þróunarstörf. Til þessa verkefnis skal árlega veitt fé á fjárlögum. 1)
Að frumkvæði skólastjóra mótar hver skóli áætlun um hvernig endurmenntun starfsfólks hans skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við þær áherslur sem fram koma í skólanámskrá.
    1)Rg. 220/1999.
51. gr. Menntamálaráðherra ber ábyrgð á að fram fari mat á skólum og skólastarfi sem ætlað er að tryggja að skólahald sé í samræmi við ákvæði laga og aðalnámskrár. Menntamálaráðherra getur falið Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála eða öðrum aðilum að annast framkvæmd slíks mats.
Niðurstöður af mati á skólum og skólastarfi skulu m.a. hafðar til hliðsjónar við endurskoðun aðalnámskrár.
52. gr. Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum í þróunarsjóð grunnskóla. Menntamálaráðherra hefur umsjón með sjóðnum og setur reglur 1) um styrkveitingar.
    1)Rg. 657/1996.
53. gr. Menntamálaráðherra getur, með samþykki sveitarstjórnar, haft forgöngu um þróunar- og tilraunastarf í grunnskólum. Einnig getur hann veitt sveitarfélögum og einkaskólum heimild til að reka tilraunaskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða. Slík undanþága getur t.d. varðað nám, starfstíma skóla, kennslutilhögun, stundafjölda o.s.frv., enda brjóti slíkar undanþágur ekki í bága við 2. gr. þessara laga eða þrengi hlutverk grunnskóla frá því sem þar er gert ráð fyrir.
Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.
Menntamálaráðherra er heimilt að styrkja tilraunaskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.

XI. kafli. Skólasöfn.
54. gr. Í hverjum grunnskóla skal vera skólasafn. Skólasafn er eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu og skal búnaður safnsins varðandi húsnæði, bókakost, önnur námsgögn og starfsfólk taka mið af því.
Sveitarstjórn er heimilt að sameina almenningsbókasafn og skólasafn ef það, að mati skólanefndar og skólastjóra, rýrir ekki gildi safnsins fyrir skólann.

XII. kafli. Heilsugæsla.
55. gr. Um heilsugæslu í grunnskólum fer eftir gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta skólahverfis skal hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslu.
Skólastjóra ber að fylgjast með því að nemendur njóti heilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið skv. 1. mgr.
Sveitarfélög greiða stofnkostnað húsnæðis í skólum sem ætlað er fyrir heilsugæslu og annast rekstur þess. Laun starfsmanna við heilsugæslu í skólum og sérgreindur kostnaður við þessa starfsemi greiðist sem annar kostnaður við rekstur almennrar heilsugæslu í heilsugæslustöð og fer um ráðningu starfsmanna með sama hætti.

XIII. kafli. Einkaskólar.
56. gr. Menntamálaráðherra er heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum ef þeir starfa samkvæmt reglugerð eða skipulagsskrá sem ráðuneytið staðfestir. Slíkir skólar hlíti sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar. Börn, sem sækja þessa einkaskóla, hafa undanþágu skv. 7. gr. en forstöðumaður skal fyrir upphaf hvers skólaárs senda hlutaðeigandi skólanefnd skrá um nemendur og tilkynna sömu aðilum allar breytingar á nemendaskrá jafnóðum og þær verða.
Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé.
Um námsmat í einkaskólum fer skv. 45. og 46. gr.

XIV. kafli. Gildistaka.
57. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 1996, enda hafi Alþingi þá samþykkt:
    a. Breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem rétt hafa átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, aðild að sjóðnum.
    b. Lög um ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda við grunnskóla sem tryggi þeim efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Komi upp ágreiningur milli samtaka kennara og sveitarfélags um form eða efni ráðningarréttinda getur hvor aðili um sig óskað gerðardóms í málinu.
    c. Breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra auknu verkefna er sveitarfélög taka að sér samkvæmt lögum þessum.

Menntamálaráðherra ákveður í reglugerð 1) hvaða ákvæði laga þessara koma til framkvæmda fyrir 1. ágúst 1996, þar með talið hvernig skuli, fram til þess tíma, haga ráðningu kennara og annarra starfsmanna grunnskóla sem starfa sem ríkisstarfsmenn.
    1)Rg. 349/1995.
Ákvæði til bráðabirgða. [Menntamálaráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum sem þess óska frest til 1. september 2004 til að framkvæma ákvæði 3. gr. um einsetinn grunnskóla.] 1)
[Ákvæði 2. mgr. 27. gr. um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda skal koma til framkvæmda á árabilinu 1995–2001 sem hér segir:
   Haustið 1995 fjölgar kennslustundum um sex, þannig að vikulegur kennslustundafjöldi nemenda verður að lágmarki sem hér segir:
   1.–4. bekkur: 26 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 29, 31 og 33 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 34 kennslustundir.
   Haustið 1996 fjölgi kennslustundum um 10, þannig:
   1.–4. bekkur: 27 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 30, 32 og 34 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.
   Haustið 1997 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:
   1.–4. bekkur: 28 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 31, 32 og 34 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.
   Haustið 1998 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:
   1.–4. bekkur: 29 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 32, 32 og 34 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.
   Haustið 1999 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:
   1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 32, 32 og 35 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 35 kennslustundir.
   Haustið 2000 fjölgi kennslustundum um 5, þannig:
   1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 33, 33, 35 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 36 kennslustundir.
   Haustið 2001 fjölgi kennslustundum um 7, þannig:
   1.–4. bekkur: 30 kennslustundir,
   5.–7. bekkur: 35 kennslustundir,
   8.–10. bekkur: 37 kennslustundir.] 2)
    1)L. 104/1999, 2. gr. 2)L. 77/1996, 5. gr.