Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1263, 116. löggjafarþing 548. mál: tekjuskattur og eignarskattur (gjaldfærsla stofnkostnaðar).
Lög nr. 60 19. maí 1993.

Lög um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum.

1. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Á eftir 31. gr. laganna ( laga nr. 75/1981) kemur ný grein er verður 31. gr. A með fyrirsögninni Niðurfærsla eigna, svohljóðandi:
     Stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði má færa niður með jöfnum fjárhæðum á fimm árum.
     Eftirtaldar eignir er heimilt að færa niður á því ári sem þær myndast:
  1. Stofnkostnað, svo sem kostnað við skráningu fyrirtækis og öflun atvinnurekstrarleyfa.
  2. Kostnað við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir og öflun einkaleyfis og vörumerkja.

     Niðurfærsla samkvæmt grein þessari er heimil til frádráttar í fyrsta skipti á því ári þegar eignanna er aflað eða lagt er í kostnað þeirra vegna. Við sölu eigna skv. a- og b-liðum 2. mgr. telst söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári að frádregnum þeim hluta sem ekki hefur verið færður niður. Um söluhagnað framleiðsluréttar í landbúnaði, sbr. 1. mgr., fer eftir 14. gr.

2. gr.

     Ákvæði 1. gr. gilda um álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1994 vegna tekna á árinu 1993 og eigna í lok þess árs. Þó skal skattaðila heimilt að miða gildistöku við álagningu á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 enda geri hann þá ekki kröfur á hendur ríkissjóði vegna hugsanlegrar íþyngjandi afturvirkni ákvæða 1. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1991.

3. gr.

     B-liður ákvæðis til bráðabirgða í 7. gr. laganna orðast svo:
     Við sölu til ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfjár- og mjólkurframleiðslu á tímabilinu 1. maí 1991 til 31. desember 1993 skal skattaðila þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 14. gr. heimilt að telja sem söluhagnað 20% söluverðs í stað söluhagnaðar skv. 2. mgr. þessarar greinar.
     Skattaðilar skv. 1. mgr., sem hafa leigt fullvirðisrétt sinn Framleiðnisjóði landbúnaðarins eða orðið að sæta niðurskurði á sauðfé samkvæmt opinberum fyrirmælum, skulu undanþegnir skilyrði 3. málsl. 4. mgr. 14. gr. um aðalstarf.

4. gr.

     Ákvæði 3. gr. öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.