Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1848, 130. löggjafarþing 855. mál: fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.).
Lög nr. 90 9. júní 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, o.fl.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
 2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
 3. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða varanlegs fósturs fellur niður 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
 4. Við 7. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar um ættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða skal miða við tímamark 4. mgr. um brottfall réttinda. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum er hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.


3. gr.

     Í stað orðsins „viku“ í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: tvær vikur.

4. gr.

     13. gr. laganna orðast svo:
     Foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Þegar kona hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr., skal þó miða við þann dag er hún hefur fæðingarorlof að því er hana varðar.
     Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
     Þrátt fyrir 2. mgr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 480.000 kr.
     Þegar starfsmaður uppfyllir skilyrði 1. mgr. en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. skal hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna skv. 6. mgr. í samræmi við starfshlutfall hans.
     Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gilda 2.–4. mgr. eins og við getur átt.
     Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi í hverjum mánuði skal þó aldrei vera lægri en sem nemur 65.227 kr. á mánuði og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 91.200 kr. á mánuði.
     Fjárhæð hámarksgreiðslu skv. 3. mgr. og lágmarksgreiðslu skv. 6. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta greiðslufjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð hámarks- eða lágmarksgreiðslna skal félagsmálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.
     Greiðslur í fæðingarorlofi skulu inntar af hendi eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.
     Réttur foreldris til greiðslna í fæðingarorlofi er bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skulu koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris.
     Foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs skv. 8. gr. en uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. á rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr., sbr. þó 9. mgr. 19. gr. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun fjárhæðar fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna foreldris skulu koma til frádráttar styrknum. Við útreikning á meðaltali heildarlauna samkvæmt þessari málsgrein skal miða við tvo mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.
     Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, svo sem um mat á starfshlutfalli sjálfstætt starfandi og þeirra sem eru undanþegnir greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt.

5. gr.

     Í stað 3. mgr. 15. gr. laganna koma þrjár málsgreinar, svohljóðandi:
     Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Tryggingastofnun ríkisins skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr.
     Skattyfirvöld skulu láta Tryggingastofnun ríkisins í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
     Þegar foreldri getur ekki tekið fæðingarorlof á þeim tíma er það tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins um skv. 2. mgr. vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna ber foreldri að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins skriflega um breytinguna.

6. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (15. gr. a.)
Leiðrétting á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
     Hafi breytingar orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru byggðar á, sbr. 3. mgr. 15. gr., skal Tryggingastofnun ríkisins leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda.
     Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins.
     Heimilt er að skuldajafna ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á móti inneign foreldris vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Fjármálaráðherra skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
     Um innheimtu ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði fer skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Félagsmálaráðherra getur þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
     Hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber Tryggingastofnun ríkisins að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.
     
     b. (15. gr. b.)
Eftirlit.
     Skattyfirvöld skulu annast eftirlit með framkvæmd laganna. Félagsmálaráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag.
     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur í reglugerð um framkvæmd eftirlitsins.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist: sem fæðist á lífi.
 2. Í stað 2. mgr. koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Foreldrar sem ættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
       Um greiðslur fer skv. 13. gr.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. Á eftir orðunum „Réttur til fæðingarstyrks“ í 1. mgr. kemur: vegna fæðingar.
 2. Í stað 2. mgr. koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Fæðingarstyrkur skal vera 40.409 kr. á mánuði. Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.
       Fjárhæð fæðingarstyrks kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta styrkfjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð fæðingarstyrks skal félagsmálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.
 4. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða varanlegs fósturs fellur niður 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
 5. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 6.      Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarstyrks sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Þegar um ættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða skal miða við tímamark 4. mgr. um brottfall réttinda. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum er hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig, vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur fengið í heild eða foreldrar skipt með sér. Réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar fellur niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
 3. Í stað 2. mgr. koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi skal vera 91.200 kr. á mánuði. Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar, ættleiðingar eða varanlegs fósturs í búsetulandinu kemur hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr.
       Fjárhæð fæðingarstyrks kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta styrkfjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð fæðingarstyrks skal félagsmálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.
 5. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til fæðingarstyrks vegna ættleiðingar eða varanlegs fósturs fellur niður 18 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.
 6. Í stað 7. mgr. koma fjórar málsgreinar, svohljóðandi:
 7.      Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.
       Enn fremur er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.
       Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarstyrks sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Þegar um ættleiðingu eða varanlegt fóstur er að ræða skal miða við tímamark 4. mgr. um brottfall réttinda. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum er hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.
       Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.


10. gr.

     Á eftir 31. gr. laganna bætist við ný grein, 31. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Sektir.
     Brot gegn lögum þessum geta varðað sektum sem renna í ríkissjóð.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað hlutfallstölunnar „0,8“ í 1. mgr. kemur: 0,65.
 2. Í stað hlutfallstölunnar „4,84“ í 3. mgr. kemur: 4,99.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 3. gr. laganna:
 1. 1. tölul. fellur brott.
 2. Í stað hlutfallstölunnar „0,85“ í 4. tölul. kemur: 1,08.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

13. gr.

     3. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
     Kostnaður af rekstri stofnunarinnar greiðist úr ríkissjóði og af öðrum tekjum hennar.

IV. KAFLI
Gildistaka.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005. Lögin taka til foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2005 eða síðar. Lögin koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 2005 og álagningu ársins 2006.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2004.