Gagnleg vefföng
Markmið, uppbygging og starfsemi
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995), starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi og samvinnu aðildarlandanna og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum. Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var gefin út svonefnd Parísaryfirlýsing sem m.a. kvað á um að stofna skyldi formlegan vettvang fyrir þingmenn til að koma saman einu sinni á ári. Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992.
Aðild að ÖSE-þinginu eiga þjóðþing 56 ríkja Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum og þar af á Alþingi þrjá. Hlutverk ÖSE-þingsins er m.a. að meta árangurinn af starfi ÖSE, ræða mál sem eru á dagskrá leiðtogafunda ÖSE og koma ályktunum þingsins á framfæri við þá, þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í ÖSE-ríkjunum. Þá hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi og hefur sú starfsemi aukist mjög að umfangi síðustu ár í samvinnu við aðrar fjölþjóðastofnanir.
Þingið kemur saman til þingfundar í júlí ár hvert og skal fundur þess eigi standa lengur en fimm daga. Aðildarríkin taka að sér að halda þingfundi til skiptis. Formaður ráðherraráðs ÖSE (Chairman-in-office) ávarpar þingið og gefur skýrslu um málefni ÖSE og verkefni sem unnið er að hjá stofnuninni. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
Auk þingfunda starfar stjórnarnefnd (Standing Committee), framkvæmdastjórn (Bureau) og þrjár málefnanefndir á vegum þingsins. Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórn- og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd).
Málefnanefndir þingsins koma saman á þingfundinum og á vetrarfundi sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert þar sem nefndarmenn hlýða á framlag embættismanna ÖSE. Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok þingfundar ár hvert. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefni sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varaformann og undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Auk þess getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa (Special Representatives) og þingið skipað aukanefndir til að útbúa skýrslur og taka afstöðu til aðkallandi mála. Forseta þingsins er einnig heimilt að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
Stjórnarnefndin kemur saman þrisvar sinnum árlega, á vetrarfundi, þingfundi að sumri og á haustfundi í október. Á haustfundinum fer fram árleg málefnaráðstefna ÖSE-þingsins. Stjórnarnefndin er skipuð forseta ÖSE-þingsins, varaforsetunum níu, gjaldkera, formönnum málefnanefndanna þriggja og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, alls 69 fulltrúum. Framkvæmdastjórn þingsins er skipuð forseta þess, varaforsetum og gjaldkera, ásamt stjórnum nefndanna. Hún undirbýr störf þingsins, fylgist með því að ákvörðunum þingsins sé framfylgt og tekur ákvarðanir um málefni sem upp kunna að koma á milli þing- og stjórnarnefndafunda.
Nefnd um stjórnmál og öryggismál
Birgir Þórarinsson, formaður.Nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál
Dagbjört Hákonardóttir.