Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

(1705239)
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
31.05.2017 37. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.
Á fundinn kom Sigríður Á. Anderssen, dómsmáláráðherra og Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, settur ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneyti í málinu. Sigríður Á. Andersen svaraði spurningum nefndarmanna.

Næst komu Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns. Tryggvi Gunnarssson svaraði spurningum nefndarmanna.

Birgir Ármannsson, framsögumaður málsins lagði til að málið yrði afgreitt frá nefndinni. Katrín Jakobsdóttir lagðist gegn því og fór fram á atkvæðagreiðslu um þá afgreiðslu. Meiri hluti samþykkur að afgreiða málið frá nefndinni. Minni hluti lagðist gegn því.

Meiri hluti ritar undir álit þ.e. Njáll Trausti Friðbertsson, Birgir Ármannsson, Pawel Bartoszek, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir. Minni hluti skilar séráliti eða sérálitum þ.e. Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.
31.05.2017 36. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.
Nefndin fjallaði um málið, fyrirhugaða afgreiðslu og frekari gestakomur.

Jón Þór Ólafsson lagði fram eftirfarandi bókun sem Birgitta Jónsdóttir tók undir: „Tillaga um að ráðherra upplýsi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um eftirfarandi við athugun nefndarinnar á tillögu hennar til Alþingis um skipan dómara.

Hefur dómsmálaráðherra í störfum sínum, við gerð tillögu sem ráðherra lagði fyrir Alþingi um skipan 15 dómara í landsrétt, fylgt dómsorðum í dómi 412/2010 gegn fyrrum ráðherra dómsmála Árna M. Matthiesen?

Þar sem ráðherra hefur séð efni til að víkja frá áliti dómnefndar er óhjákvæmilegt eins og segir í dómi 412/2010 að ávörðun hennar sé reist á rannsókn, þar sem meðal annars er tekið tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum um störf dómnefndarinnar um það atriði varðandi umsækjendur sem ráða skulu hæfnismati, og tryggja að sérþekking njóti þar við í sambærilegu mæli og við störf dómnefndarinnar.

Sérfræðingar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk á fund sögðu að annars myndi það grafa undan trausti á dómskerfinu.

Farsælla er fyrir dómskerfið og réttaröryggi í landinu að Alþingi samþykki tillögu sem liggur fyrir nefndinni um að fresta skipun dómara í landsrétt frá 1.júní til 1.júlí, til að gefa dómsmálaráðherra ráðrúm til að senda Alþingi rökstuðning sem fullnægir áður nefndum dómi hæstaréttar.“
30.05.2017 35. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.
Nefndin fjallaði um málið.

Samþykkt að óska eftir afstöðu Bjargar Thorarensen, Trausta Fannars Valssonar, Ingibjargar Þorsteinsdóttur, Reimars Péturssonar, Hafsteins Þórs Haukssonar, Ragnhildar Helgadóttur og Ragnheiðar Elvu Þorsteinsdóttur til rökstuðnings ráðherra fyrir fund nefndarinnar í hádeginu 31. maí.
30.05.2017 34. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.
Á fundinn komu Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, og Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti, settur ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneyti í málinu.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra afhenti matslista dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöðu til nefndarinnar í trúnaði. Samþykkt að taka við listanum í trúnaði.

Dómsmálaráðherra hélt áfram að kynna sín sjónarmið við tillögugerðina og svaraði spurningum nefndarmanna.

Dómsmálaráðherra lagði fram bréf sitt til hæfnisnefndarinnar og minnisblað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með frekari skýringum á sjónarmiðum við tillögugerðina og svaraði spurningum nefndarinnar.

Hlé gert á fundi frá 14:00 - 14:07 vegna ljósritunar.

Næst kom Gunnlaugur Claessen, formaður dómnefndar um hæfni umsækjenda, á fund nefndarinnar og kynnti álit dómnefndarinnar ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

Næst komu Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, Björg Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands, Ingibjörg Þorsteinsdóttir frá Dómarafélagi Íslands og Reimar Pétursson hrl. formaður Lögmannafélags Íslands og svöruðu spurningum nefndarmanna.

Birgitta Jónsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: „Í ljósi þess hvað nefndin fær lítinn tíma er ljóst að málið verður ekki nægilega faglega unnið sem mun hafa áhrif á traust almennings á dómstólnum.“

Ákveðið að funda að nýju kl. 19:15 vegna málsins.
30.05.2017 33. fundur stjórn­skip­unar- og eftirlitsnefndar Tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.
Tillaga 2. varaformanns um að Birgir Ármannsson verði framsögumaður málsins var samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir gerði athugasemd við tillöguna í ljósi þess að ráðherra Sjálfstæðisflokksins væri með umdeilt mál fyrir nefndinni væri það óheppilegt að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins væri framsögumaður þess og sat því hjá við afgreiðsluna.

Á fundinn komu Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti sem er settur ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneyti í málinu.

Sigríður Á. Andersen kynnti málið og þau sjónarmið sem hún lagði til grundvallar tillögugerðinni ásamt því að svara spurningum nefndarmanna.

Ákveðið að funda með dómsmálaráðherra að nýju kl. 13:00.