Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 14. janúar 2013. Útgáfa 141a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um vexti og verðtryggingu
2001 nr. 38 26. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. júlí 2001. EES-samningurinn: tilskipun 2000/35/EB. Breytt með l. 51/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 159/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009), l. 23/2009 (tóku gildi 31. mars 2009), l. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010), l. 151/2010 (tóku gildi 29. des. 2010) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið.
1. gr. Lög þessi gilda um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.
Lög þessi gilda einnig um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
2. gr. Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.
II. kafli. Almennir vextir.
3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.
III. kafli. Dráttarvextir.
5. gr. Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum.
Nú er ekki samið um gjalddaga kröfu og er þá heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Sé greiðslukrafan sett fram á mánaðardegi sem ekki er til í næsta mánuði skal skuldari greiða dráttarvexti frá og með síðasta degi þess mánaðar.
Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er ætíð heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi er dómsmál er höfðað um kröfu, sbr. þó 9. gr.
6. gr. Dráttarvextir skulu vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana (grunnur dráttarvaxta) auk [sjö hundraðshluta álags] 1) (vanefndaálag), nema um annað sé samið skv. 2. mgr. þessarar greinar. … 1) Seðlabankinn skal birta dráttarvexti samkvæmt þessari málsgrein eigi skemur en viku fyrir gildistökudaga dráttarvaxta sem eru [fyrsta dag hvers mánaðar]. 1)
Heimilt er að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta skv. 1. mgr., að undanskildum neytendalánum. Einnig er heimilt að semja um fastan hundraðshluta dráttarvaxta, að undanskildum neytendalánum.
1)L. 159/2008, 1. gr.
7. gr. Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.
IV. kafli. Vextir af skaðabótakröfum.
8. gr. Kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skulu á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málsl. 4. gr.
Sé fjárhæð skaðabótakröfu miðuð við verðlag síðar en hið bótaskylda atvik varð ber krafan þó vexti skv. 1. mgr. frá þeim tíma.
9. gr. Skaðabótakröfur skulu bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geta þó, ef sérstaklega stendur á, ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.
V. kafli. Ýmis ákvæði um vexti.
10. gr. Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.
Seðlabankinn skal fyrir lok hvers mánaðar birta í Lögbirtingablaði vexti af óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum skv. 4. gr. og vexti af skaðabótakröfum skv. 8. gr. og skal hver tilkynning lögð til grundvallar í samræmi við lög þessi næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist. Jafnframt skal Seðlabankinn birta í Lögbirtingablaði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., þ.e. grunn dráttarvaxta og vanefndaálag. Seðlabankinn skal um hver áramót birta í B-deild Stjórnartíðinda töflu er sýnir vexti samkvæmt þessari málsgrein á hverjum tíma á næstliðnu ári.
Auk vaxta skv. 2. mgr. getur Seðlabankinn birt í Lögbirtingablaði aðra vexti lánastofnana.
11. gr. Sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og krafist vaxta með tilvísun til 4. eða 8. gr. eða dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. má dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og dráttarvaxta krafist skv. 2. mgr. 6. gr. skal þó tiltaka hundraðshluta vanefndaálags í stefnu eða hundraðshluta dráttarvaxta sé samið um fasta dráttarvexti.
12. gr. Sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skulu þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Ekki skal bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana.
Við útreikning vaxta skulu taldir 30 dagar í hverjum mánuði og 360 dagar í ári, nema um annað sé samið eða venja standi til annars.
VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.] 1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
1)L. 51/2007, 1. gr.
15. gr. Seðlabankinn getur að fengnu samþykki [ráðherra] 1) ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna og lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.
Seðlabankinn setur nánari reglur 2) um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
1)L. 126/2011, 322. gr. 2) Rgl. 492/2001, sbr. rgl. 278/2010 og rgl. 369/2010.
16. gr. Þegar skuldbindingum með ákvæðum um verðtryggingu er þinglýst skal þess gætt að verðtryggingarinnar sé getið í þinglýsingabókum og skulu þær koma fram á vottorðum þinglýsingarstjóra um efni þinglýsingabóka.
VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
18. gr. [Ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljast ógild skal peningakrafan bera vexti skv. 1. málsl. 4. gr., enda eigi önnur ákvæði þessarar greinar ekki við. Hið sama á við ef samningur kveður á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja er ógilt, og skulu þá bæði ákvæði samningsins um vexti og verðtryggingu fara eftir því sem kveðið er á um í 4. gr. og því sem greinir nánar í þessari grein.
Sé lánssamningur til lengri tíma en fimm ára skal að loknu uppgjöri skv. 5. mgr. miða við lægstu vexti á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 10. gr. Um verðtryggingu skal þá miða við vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr., frá uppgjörsdegi. Afmörkun þeirra skuldbindinga sem falla undir þessa málsgrein skal vera í samræmi við skilyrði ákvæðis B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Ákvæði þessarar málsgreinar eru frávíkjanleg ef skuldari kýs að lánssamningur hans beri heldur vexti í samræmi við 4. gr. eða ef samið er um betri kjör honum til handa.
Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.
Skuldara skal heimilt að greiða peningakröfur að fullu, án uppgreiðslugjalds, teljist samningsákvæði um verðtryggingu og vexti ógild, sbr. 1. mgr., með áföllnum vöxtum skv. 1. mgr.
Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skal upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar. Hafi skuldari notið greiðslujöfnunar á grundvelli ákvæða laga nr. 63/1985, eða samkvæmt sérstöku samkomulagi, skal hún falla niður og fjárhæð á jöfnunarreikningi bætast við höfuðstól lánsins. Nýti skuldari sér rétt til verðtryggingar veðláns skv. 2. mgr. skal greiðslujöfnun aftur taka gildi, nema skuldari óski sérstaklega eftir að vera undanþeginn greiðslujöfnun, og skal greiðslumark skv. 3. gr. laga nr. 63/1985 taka gildi á því tímamarki sem umreikningur láns samkvæmt þessari málsgrein miðast við.
Ef útreikningur á uppgjöri skv. 5. mgr. leiðir til þess að krafa sé að fullu greidd skal lánveitandi gefa út fullnaðarkvittun, hlutast til um afléttingu veðbanda og gefa út þær yfirlýsingar sem nauðsyn krefur. Ef skuldari á að loknum útreikningi skv. 5. mgr. kröfu á lánveitanda skal lánveitandi greiða þá fjárhæð sem upp á vantar eigi síðar en 30 dögum frá því að krafa er gerð um endurgreiðslu.
Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings. Leiðrétting nær bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili samkvæmt eftirfarandi reglum:
a. Greiðsluuppgjör. Reiknaður skal mismunur allra þeirra greiðslna sem skuldari innti af hendi og þess sem hefði átt að greiða miðað við vexti skv. 4. gr. og aðra skilmála lánssamnings.
b. Höfuðstólsleiðrétting. Breytingar á höfuðstól vegna ólögmætrar verðtryggingar sem reiknaður hefur verið á höfuðstól láns meðan hver aðili var skuldari láns skal koma til sérstaks uppgjörs sem miðast við dagsetningu aðilaskipta að lánssamningi og miðast réttur eða skylda hvers aðila til leiðréttingar við þann dag.
Sé aðili ekki lengur skuldari láns skal mismunur vegna greiðslna og leiðrétting höfuðstóls vegna ólögmætrar verðtryggingar koma til sérstaks uppgjörs. Sé aðili enn skuldari skal mismunur greiðslna færður á höfuðstól láns eða dreginn frá honum samkvæmt öðrum ákvæðum þessarar greinar.
Ákvæði þessarar greinar um greiðslur úr hendi skuldara eiga, eftir því sem við á, við um greiðslur sem inntar hafa verið af hendi af öðrum aðilum fyrir skuldara, sem og ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga, og jafnframt greiðslur sem kröfuhafi hefur fengið vegna fullnustugerða. Sanni ábyrgðarmaður eða veðeigandi rétt sinn skulu greiðslur til þeirra ganga fyrir öðrum greiðslum til skuldara við uppgjör skv. 6. og 7. mgr.
Ef ágreiningur um rétt til greiðslu rís innbyrðis á milli skuldara skv. 7. mgr. eða skuldara og þriðja manns skv. 8. mgr. skal kröfuhafi greiða uppgjörsfjárhæð inn á geymslureikning í samræmi við ákvæði laga nr. 9/1978 með þeim skilmálum að deiluaðilar sanni rétt sinn til greiðslunnar með gildu samkomulagi eða að fullnaðardómur hafi gengið um ágreining þeirra.] 1)
1)L. 151/2010, 1. gr.
VIII. kafli. Gildistaka.
19. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I. Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í samræmi við vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, meðalútlánsvexti viðskiptabanka og sparisjóða eða meðalútlánsvexti sem Seðlabanki Íslands birtir, eða vísað er með öðrum almennum hætti til vaxta á markaði, og skulu þá vextir af þessum peningakröfum, eftir gildistöku laganna, vera jafnháir vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. að viðbættum 3,5% þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða og jafnháir vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 2,5% þegar um verðtryggða peningakröfu er að ræða.
Nú segir í lánssamningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í samræmi við hæstu lögleyfðu vexti á hverjum tíma, hæstu vexti á markaðnum eða vísað er með öðrum almennum hætti til hæstu vaxta á markaði og skulu þá vextir af þessum peningakröfum eftir gildistöku laganna vera jafnháir vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. að viðbættum 4,5% þegar um óverðtryggða peningakröfu er að ræða og jafnháir vöxtum skv. 2. málsl. 4. gr. að viðbættum 3,5% þegar um verðtryggða peningakröfu er að ræða.
II. Nú segir í peningakröfu í íslenskum krónum, þar með talinni skaðabótakröfu, niðurstöðu dómsmáls eða öðrum gerningi, gerðri fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir eftir gildistöku laganna reiknaðir skv. 1. mgr. 6. gr. laga þessara.
III. Nú segir í lánssamningi í erlendum gjaldmiðli, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðu dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma, dráttarvextir samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands eða dráttarvextir samkvæmt vaxtalögum, eða vísað er með öðrum hætti til dráttarvaxta sem Seðlabankinn ákvað skv. 11. gr. laga nr. 25/1987, og skulu þá dráttarvextir þessir vera ákvarðaðir með sama hætti næstu fimm árin eftir gildistöku laga þessara, en að þeim tíma loknum skulu þeir vera jafnháir þeim dráttarvöxtum í hlutaðeigandi gjaldmiðli sem síðast voru auglýstir af Seðlabankanum í Lögbirtingablaði fimm árum eftir gildistöku laganna.
IV. Nú segir í lánssamningi, innlánsskilríki eða öðrum gerningi í íslenskum krónum, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að fjárhæðir breytist með reikningsgengi SDR eða EUR (SDR- eða EUR-gengisvísitölu) sem Seðlabanki Íslands reiknar út og birtir og skal þá í hverjum mánuði miðað við opinbert viðmiðunargengi EUR eða SDR (kaupgengi) skv. 15. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, á 21. degi undanfarandi mánaðar. Nú er gengi ekki skráð á 21. degi mánaðar og skal þá lagt til grundvallar það kaupgengi er skráð var næst á undan þeim degi. Óheimilt er að taka við innlánum á reikninga sem stofnaðir hafa verið með fyrrgreindum kjörum fyrir gildistöku laga þessara.
V. Vísitala neysluverðs, sbr. 14. gr. laga þessara, með grunninn 100 í maí 1988, skal í hverjum mánuði margfölduð með stuðlinum 19,745. Útkoman, án aukastafa, skal gilda sem vísitala fyrir næsta mánuð á eftir, í fyrsta sinn fyrir apríl 1995 gagnvart fjárskuldbindingum sem samið hefur verið um fyrir 1. apríl 1995 og eru með ákvæðum um lánskjaravísitölu þá sem Seðlabankinn reiknaði og birti mánaðarlega samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., sbr. reglugerð nr. 18/1989. Hagstofa Íslands skal birta mánaðarlega í Lögbirtingablaði vísitölu skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar.
Verði gerð breyting á grunni vísitölu neysluverðs skal Hagstofan birta í Lögbirtingablaði margfeldisstuðul fyrir þannig breytta vísitölu í stað stuðulsins sem getið er í 1. mgr.
Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um lánskjaravísitölu í lögum og hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum öðrum og samningum sem í gildi eru 1. apríl 1995.
VI. Eigi skemur en viku fyrir gildistökudag laga þessara skal Seðlabankinn birta dráttarvexti skv. 6. gr.
[VII. Vísitala sem reiknuð er og birt í janúarmánuði 2008 og grundvallast á verðupplýsingum miðað við verðlag tvo fyrstu virka daga janúar skal gilda um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í febrúar 2008.] 1)
1)L. 51/2007, 2. gr.
[VIII. Vísitala sem reiknuð er og birt í janúarmánuði 2008 og grundvallast á verðupplýsingum miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan janúar skal gilda um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í mars 2008.] 1)
1)L. 51/2007, 2. gr.
[IX. Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laganna skulu dráttarvextir sem leggjast á skattkröfur nema fimmtán hundraðshlutum á ársgrundvelli, þó aldrei hærri en almennir dráttarvextir, frá og með 1. apríl til og með 31. desember 2009.] 1)
1)L. 23/2009, 6. gr.
[X. Hafi húsnæðislán til neytanda verið greitt út í íslenskum krónum eða umbreyting úr erlendum myntum er hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðast að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fer um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greinir í 18. gr. laganna. Afmörkun þeirra skuldbindinga sem falla undir þessa grein skal vera í samræmi við skilyrði ákvæðis B-liðar 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Sé slíkur lánssamningur til lengri tíma en fimm ára skal þó, ef skuldari kýs, að loknu uppgjöri skv. 5. mgr. 18. gr. laganna miða vexti næstu fimm ára þar á eftir við lægstu vexti á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 10. gr. laganna. Um verðtryggingu skal þá miðað við vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr., frá uppgjörsdegi. Að liðnum fimm árum skulu vaxtakjör endurskoðuð og er þá lánveitanda heimilt að ákveða vaxtakjör sem miðast við sambærilegar lánveitingar hans á þeim tíma er til endurskoðunar kemur. Lánveitanda ber að hafa frumkvæði að uppgjöri vegna lána sem falla undir 1. málsl. þessa ákvæðis og skal slíkt uppgjör fara fram innan 90 daga frá gildistöku laga þessara. Ákvæði þetta tekur jafnframt til lánssamninga og eignaleigusamninga sem einstaklingar hafa gert við fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 161/2002, vegna kaupa á bifreið til einkanota.] 1)
1)L. 151/2010, 2. gr.
[XI. Fjármálafyrirtæki sem veitt hefur lán er fellur undir ákvæði ákvæðis til bráðabirgða X skal eigi síðar en 60 dögum eftir gildistöku laga þessara senda skuldara útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár sem af uppgjörinu leiðir. Slíkan útreikning skal jafnframt senda ábyrgðarmanni eða veðeiganda, sbr. 8. mgr. 18. gr. laganna. Sanni ábyrgðarmaður eða veðhafi ekki rétt sinn til greiðslna innan þeirra tímamarka sem fjármálafyrirtæki setur í tilkynningu skv. 1. málsl. þessa ákvæðis er fjármálafyrirtæki heimilt að færa höfuðstól til samræmis við útreikning eða endurgreiða skuldara ofgreitt fé óski hann þess. [Ráðherra] 1) er heimilt að fela umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja samkvæmt þessari grein, óska eftir upplýsingum um forsendur útreikninga og kveða á um úrbætur ef þörf krefur. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framsetningu útreiknings á uppgjöri vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar í reglugerð. 2)] 3)
1)L. 126/2011, 322. gr. 2)Rg. 178/2011. 3)L. 151/2010, 2. gr.
[XII. Ef í lánssamningi er kveðið á um ólögmæta verðtryggingu í formi gengistryggingar skal með samningi kröfuhafa og skuldara vera heimilt að færa höfuðstól lánsins í erlendar myntir eins og um gilt erlent lán hafi verið að ræða frá stofntíma kröfunnar. Falla þá niður heimildir til leiðréttingar greiðslna og höfuðstóls samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Heimild þessi gildir í 90 daga frá gildistöku laga þessara og skal staðfest með skriflegum og sannanlegum hætti.] 1)
1)L. 151/2010, 2. gr.
[XIII. Ef gengið hefur dómur um kröfu samkvæmt lánssamningi með óheimilli gengistryggingu skal endurupptaka heimil skv. XXIII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, án tillits til þess hvort tímafrestir séu liðnir samkvæmt ákvæðum 137. gr. sömu laga. Sama skal gilda um úrskurði um gjaldþrotaskipti. Skuldara er jafnframt heimilt að óska eftir endurupptöku fullnustugerða hafi slíkar gerðir farið fram á grundvelli lánssamninga sem höfðu að geyma ólögmæt ákvæði um gengistryggingu. Heimildir til endurupptöku samkvæmt þessu ákvæði falla niður að liðnum níu mánuðum frá gildistöku laga þessara.] 1)
1)L. 151/2010, 2. gr.
[XIV. Fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknast frá 16. júní 2010.] 1)
1)L. 151/2010, 2. gr.
[XV. Leysi lánveitandi til sín veðsetta eign skuldara eða eign samkvæmt kaupleigusamningi og reynist eftirstöðvar skuldbindingar skuldara vera hærri en innlausnarverð lánveitanda, þrátt fyrir að eftirstöðvar samningsins hafi verið endurreiknaðar í samræmi við 18. gr., á skuldari rétt á að greiða eftirstöðvar skuldbindingar sinnar með eftirfarandi skilmálum:
a. Fjárhæð eftirstöðva skuldbindingar skuldara skal aldrei ákvarðast hærri en sem nemur mismun á eftirstöðvum skuldbindingar, að teknu tilliti til útreiknings skv.18. gr., og því verði sem lánveitandi hefur sannanlega fengið við endursölu bifreiðarinnar. Seljist bifreið hins vegar ekki innan sex mánaða frá því að útreikningur skv. 18. gr. lá fyrir skal miðað við matsverð bifreiðar. Skuldara er heimilt, á eigin kostnað, að óska eftir óháðu mati löggilts bifreiðasala á matsverði bifreiðar og skal við það mat tekið tillit til hæfilegs kostnaðar við sölu bifreiðarinnar. Fallist lánveitandi ekki á það mat getur hann aflað mats dómkvadds matsmanns. Frá matsverði skal draga áfallin gjöld, svo sem bifreiðagjöld, vátryggingar og stöðumælasektir, sem og áfallinn kostnað vegna vanefnda.
b. Helming eftirstöðva skuldar sinnar skv. a-lið skal skuldari eiga rétt á að greiða á allt að þremur árum gegn því að eftirstöðvar að öðru leyti falli niður. Eftirstöðvar skuldar skv. 1. málsl. skulu bera vexti og verðtryggingu skv. 4. gr. laganna.
c. Lánveitandi getur ekki leitað fullnustu vegna eftirstöðva skuldbindingarinnar í íbúðarhúsnæði skuldara þar sem hann hefur skráð lögheimili og heldur heimili.] 1)
1)L. 151/2010, 2. gr.