Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2016.  Útgáfa 145a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um landgræðslu

1965 nr. 17 24. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. september 1965. Breytt með l. 54/1975 (tóku gildi 11. júní 1975), l. 42/1982 (tóku gildi 24. maí 1982), l. 10/1983 (tóku gildi 25. mars 1983), l. 108/1988 (tóku gildi 1. jan. 1989), l. 73/1996 (tóku gildi 19. júní 1996), l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997), l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 138/2011 (tóku gildi 1. jan. 2012).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við umhverfis- og auðlindaráðherra eða umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið og stjórn.
1. gr. Tilgangur þessara laga er:
    1. Að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs.
    2. Að græða upp eydd og vangróin lönd.
2. gr. [Landgræðsla ríkisins fer með landgræðslumál samkvæmt lögum þessum og skal hafa aðsetur í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Starfsemin greinist í eftirtalda þætti:
    1. Sandgræðslu, sem er hefting jarð- og sandfoks og græðsla gróðurlausra og gróðurlítilla landsvæða.
    2. Gróðurvernd, sem stuðlar að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu.
    3. Gróðureftirlit sem fylgist með notkun gróðurs, vinnur gegn ofnotkun hans og hvers konar skemmdum á gróðurlendum.] 1)
    1)L. 54/1975, 1. gr.
3. gr. [[[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn landgræðslumála og skipar hann landgræðslustjóra [til fimm ára í senn]. 2)] 3)
Landgræðslustjóri skal hafa háskólapróf í búfræði eða hliðstæðum greinum.
[Landgræðslustjóri ræður fulltrúa landgræðslustjóra og skulu þeir fullnægja hliðstæðum menntunarskilyrðum.] 2) Heimilt er að fela einstökum fulltrúum meðferð ákveðinna þátta starfsins, svo sem gróðurvernd, gróðureftirlit eða sandgræðslu, undir yfirstjórn landgræðslustjóra.] 4)
    1)L. 126/2011, 39. gr. 2)L. 83/1997, 78. gr. 3)L. 73/1996, 8. gr. 4)L. 54/1975, 2. gr.
4. gr. [Landgræðslustjóra er heimilt að ráða landgræðsluverði sér til aðstoðar.] 1)
    1)L. 83/1997, 79. gr.

[II. kafli. Landgræðsla.]1)
    1)L. 54/1975, 3. gr.
5. gr. [Landgræðsla ríkisins skal kosta kapps um að stöðva jarðvegseyðingu, hvort sem er af völdum uppblásturs, sandfoks eða vatnsrofs. Hún annast og græðslu eyddra og vangróinna landa. Landgræðslustjóri skal kanna eða láta kanna staðhætti, þar sem hætta stafar af jarðvegs- og sandfoki. Þau verkefni skulu ganga fyrir, sem forða eiga verðmætum gróðurlendum frá yfirvofandi hættu.
Landgræðslan hefur eftirlit með þeim löndum, sem þegar hafa verið tekin til græðslu.
Gera skal kostnaðaráætlun um hvert verk áður en hafið er.] 1)
    1)L. 54/1975, 4. gr.
6. gr. Þar sem henta þykir, skal kosta kapps um að koma upp skógi og kjarri innan landgræðslugirðinga. Skógrækt ríkisins skal veita landgræðslunni leiðbeiningar um þessa ræktun.
7. gr. Landgræðsla ríkisins skal afla sér fullkomins umráðaréttar yfir landi því, sem hún tekur til heftingar á jarð- og sandfoki eða endurgræðslu, á eftirfarandi hátt:
    1. Með samningi til svo langs tíma, sem landgræðslustjóra þykir þurfa. Eigendur eða leigutakar skulu hafa forgangsrétt að landsnytjum gegn hæfilegu gjaldi, þegar uppgræðsla er svo vel á veg komin, að nytja megi landið að dómi landgræðslustjóra.
    2. Með eignarnámi, ef umráðaréttur fæst ekki á annan hátt, sbr. lög um eignarnám, nr. 61 frá 14. nóvember 1917. 1) Eignarnám skal þó eigi framkvæma, nema rannsókn samkvæmt 40. gr. sýni, að þess sé þörf, og að fengnu áliti stjórnar [Bændasamtaka Íslands]. 2)
Áður en aflað er umráðaréttar yfir landi samkvæmt þessari grein, skal landgræðslustjóri senda [ráðuneytinu] 3) rökstuddar tillögur um málið. Ráðuneytið tekur síðan ákvörðun um framkvæmdina.
    1)l. 11/1973. 2)L. 73/1996, 8. gr. 3)L. 126/2011, 39. gr.
8. gr. [Heimilt er Landgræðslu ríkisins að styrkja sveitarfélög, upprekstrarfélög eða einstaklinga til uppgræðslu, jarðvegs- og gróðurverndaraðgerða, svo sem til að koma upp girðingum í kringum uppblásturssvæði eða vangróið land, græða það og halda við girðingum. Framlög mega nema allt að 2/ 3 kostnaðar við þessar framkvæmdir, að meðtöldum þeim framlögum, sem kunna að vera greidd samkvæmt jarðræktarlögum.
Landsvæði, sem að dómi Landgræðslunnar eru í hættu eða þar sem þröngt er í högum og þörf hagabóta, ganga fyrir með slíka aðstoð.
Aðstoð skal binda skilyrðum um meðferð landsins, og er heimilt að krefjast endurgreiðslu á framlagi, ef út af þeim er brugðið.
Landgræðslan skal setja reglur, sem staðfestar eru af [ráðherra], 1) um það, með hvaða kjörum og skilyrðum aðstoð er veitt til áburðardreifingar og annarra uppgræðsluaðgerða. Auglýsa skal þessar reglur hverju sinni.] 2)
    1)L. 126/2011, 39. gr. 2)L. 54/1975, 5. gr.
9. gr. Í nágrenni landgræðslusvæða er heimilt að taka efni til afnota við landgræðsluna svo sem vatn, jarðefni, þara og fræ. Þó má ekki taka efni þannig, að landspjöll verði að, nema brýna nauðsyn beri til. Landeigandi á rétt til bóta eftir mati, ef samningar takast ekki.
10. gr. Nú er sett girðing fast við landgræðslugirðingu eða áfast henni, og skulu þá vera hlið á henni eigi fjær en 50 metra frá landgræðslugirðingunni, svo að vinna megi tálmunarlaust að henni.
11. gr. [Landgræðslugirðingar skulu vera fjárheldar löggirðingar.
Liggi landgræðslugirðing um alfaraleið, skal vera traust hlið á henni, sem auðvelt er að fara um. Vegfarendum er skylt að loka hliðum, enda sé áminning þess efnis við hliðin. Varðar sektum, ef út af er brugðið, og bótaskyldu, ef tjón verður á gróðri af þeim sökum.
Hver, sem verður þess var, að girðing skemmist svo, að hætta sé á, að hún haldi ekki sauðfé, skal skýra hreppstjóra eða eftirlitsmanni frá því hið fyrsta.
Landgræðslustjóri getur bannað alla umferð um landgræðslusvæði, þar sem honum þykir ástæða til. Skal þá bannið auglýst við girðingarhliðin.] 1)
    1)L. 54/1975, 6. gr.
12. gr. Þegar land, sem Landgræðsla ríkisins hefur tekið til græðslu með samkomulagi, sbr. 7. gr., er svo vel gróið að dómi landgræðslustjóra, að eigi er nauðsyn frekari aðgerða frá hendi landgræðslunnar, skal afhenda það aftur eigendum. Landgræðslustjóri setur reglur um meðferð landsins.
13. gr. Land, sem Landgræðsla ríkisins hefur eignast skv. 2. tölul. 7. gr. þessara laga, má selja með samþykki [þess ráðherra er fer með ríkisjarðir], 1) þegar það hefur verið endurgrætt. Eigandi þeirrar jarðar, sem landið áður fylgdi, skal hafa forkaupsrétt og leigutaki að eiganda frágengnum. Noti hvorugur rétt sinn, skal fylgt ákvæðum laga nr. 40 frá 5. apríl 1948 2) við söluna. Hafi sveitarfélag eða bæjarfélag átt landið áður, er þeim skylt að taka við landinu, ef landgræðslustjóri krefst þess. Hann setur reglur um meðferð landsins og er kaupendum og síðari eigendum skylt að hlíta þeim. Skal þinglýsa reglunum sem kvöð á jörðinni.
    1)L. 126/2011, 39. gr. 2)l. 81/2004.
14. gr. Hefjist uppblástur eða landskemmdir að nýju á landi, sem afhent hefur verið eða selt samkvæmt 12. og 13. gr., er landeiganda skylt að græða það aftur á sinn kostnað, nema uppblásturinn og skemmdirnar séu ekki meðferð hans eða vanrækslu að kenna.
Vanræki landeigandi nauðsynlegar aðgerðir eftir aðvörun landgræðslustjóra, má landgræðslan láta vinna verkið á hans kostnað eða taka landið eignarnámi, sbr. 7. gr.
15. gr. Þegar land í eigu Landgræðslu ríkisins er að dómi landgræðslustjóra svo gróið, að nytja megi, skal gefa bændum kost á að nytja það, enda sé þess ekki þörf undir ríkisbú. Skal landgræðslustjóri annaðhvort leita tilboða um afnotaréttinn eða leigja hann samkvæmt mati. Landgræðslustjóri setur reglur um meðferð landsins.
16. gr. Komist búfé inn á landgræðslusvæði, sem halda skal friðuðu og girt er ógallaðri girðingu, skal landgræðslustjóri eða eftirlitsmaður hans láta merkja það fé og tilkynna hreppstjóra, en hann tilkynnir það eigendum fjárins. Komist sömu skepnur þrásinnis inn á svæðið, og göllum á girðingu verði eigi um kennt, getur landgræðslustjóri krafist þess, að hreppstjóri láti lóga skepnunum og komi afurðum í verð. Landgræðslan greiðir síðan þann mismun, sem á kann að vanta, að eigandi fái fullt verð. Rísi ágreiningur, skal úr honum skorið með mati tveggja dómkvaddra manna. Eigi hreppstjóri eða vandamenn hans hlut að máli, kveður sýslumaður óvilhallan mann í hans stað, er gegni skyldum hreppstjóra samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

III. kafli. Gróðurvernd.
17. gr. Land skal nytja svo, að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá, sem landspjöllum veldur með mannvirkjagerð eða á annan hátt, er skyldur að bæta þau.
18. gr. Landgræðsla ríkisins skal hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð.
Hún skal einnig fylgjast með því, að landspjöll séu eigi unnin að óþörfu, og segja fyrir um, hvernig þau skuli bæta.
Þar sem hætta er á gróðurrýrnun eða eyðingu, ber að leiðbeina búendum um meðferð lands og gróðurs.
Spilli náttúruhamfarir grónu landi, skal landgræðslan gera ráðstafanir til endurgræðslu, ef þess er kostur.
Þar, sem gróðurverndar er þörf, skal að henni unnið svo sem segir í þessum kafla og samkvæmt reglum, sem um það verða settar.
19. gr. [Í hverju sveitarfélagi skal starfa gróðurverndarnefnd sem kosin er af sveitarstjórn. Funda- og ferðakostnaður, svo og þóknun fyrir unnin störf gróðurverndarnefndar, greiðist af fé Landgræðslu ríkisins að 2/ 3 hlutum og viðkomandi sveitarfélagi að 1/ 3 hluta.] 1)
    1)L. 138/2011, 134. gr.
20. gr. [Gróðurverndarnefndir skulu í samvinnu við landnýtingarráðunaut [Bændasamtaka Íslands] 1) fylgjast með notkun afrétta og heimalanda í viðkomandi sýslu, vera ráðgefandi fyrir stjórnendur fjallskilamála í umdæminu um notkun og meðferð beitilanda og aðstoða Landgræðslu ríkisins við verndun og eflingu gróðurs.
Gróðurverndarnefndir skulu halda gerðabækur um störf sín og skila árlegum skýrslum til viðkomandi búnaðarsambanda, landnýtingarráðunautar og landgræðslustjóra. Landgræðslustjóri skal setja reglur um störf gróðurverndarnefnda.] 2)
    1)L. 73/1996, 8. gr. 2)L. 54/1975, 8. gr.
21. gr. [Berist gróðurverndarnefnd rökstudd ábending um, að gróðurverndar sé þörf á einstökum jörðum eða stærri landsvæðum, skal nefndin kynna sér málavöxtu og senda landgræðslustjóra greinargerð um málið.
Telji landgræðslustjóri, að um gróðureyðingu og/eða ranga notkun landsins sé að ræða, gerir hann tillögur um, hvernig úr skuli bæta, og leitar samkomulags við landeigendur um framkvæmd úrbóta (sbr. heimildir í 16. gr. laga um afréttarmálefni og fjallskil).
Hafi gróðurverndaraðgerðir verulegan kostnað í för með sér, má veita til þeirra styrk samkvæmt 8. gr. laga þessara.
Þar sem um afréttarlönd er að ræða eða fleiri eigendur eru að landinu, má binda stuðning Landgræðslunnar því skilyrði, að þeir stofni til félagsskapar um framkvæmdirnar. Reglur um stuðning þennan skal setja og birta á sama hátt og kveðið er á um í síðustu málsgrein 8. gr.] 1)
    1)L. 54/1975, 9. gr.
22. gr. Náist ekki samkomulag um aðgerðir milli landgræðslustjóra og landeiganda, getur landgræðslustjóri látið fram fara rannsókn á jörð eða landsvæðum samkvæmt 40. gr.
Leiði rannsókn í ljós, að brýn þörf sé gróðurverndar, getur landgræðslustjóri krafist nauðsynlegra aðgerða af landeiganda. Verði hann ekki við þeirri kröfu, getur landgræðslan á kostnað landeiganda framkvæmt aðgerðirnar, að fengnu samþykki ráðuneytisins. Styrkja má þessar framkvæmdir með allt að 1/ 3 hluta kostnaðar.
23. gr. Telji landgræðslustjóri að gróðurverndar sé þörf sakir þess að heimalönd eða afréttir hafi eigi nægilegt beitarþol fyrir þann búpening, sem á þeim gengur, skal hann leita samkomulags við landeigendur til úrbóta.
Náist ekki samkomulag, skal hann láta rannsaka beitarþol viðkomandi landa skv. 40. gr.
Leiði rannsóknin í ljós, að löndunum sé ofboðið, er landgræðslustjóra skylt að krefjast ítölu í þau.
Ítala skal gerð af ítölunefnd, er skipuð sé af þeim aðilum, sem um getur í 5. gr. laga um ítölu, nr. 39 23. maí 1959, 1) og gilda þá um störf hennar ákvæði nefndra laga.
[Ef gróðri er svo komið að skjótra verndaraðgerða telst þörf, að mati gróðureftirlits Landgræðslu ríkisins, getur [það ráðuneyti er fer með málefni landbúnaðar], 2) að höfðu samráði við sveitarstjórn þá, sem hlut á að máli, ákvarðað tímabundna takmörkun á beitarálagi þar til fullnægjandi gróðurverndaraðgerðir, að mati gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins, hafa verið gerðar eða ítala er komin til framkvæmda.] 3)
    1)l. 6/1986. 2)L. 126/2011, 39. gr. 3)L. 42/1982, 2. gr.
24. gr. Verði búandi að skerða bústofn sinn verulega vegna ítölu, skulu gróðurverndarnefnd og landgræðslan vera honum til ráðuneytis, hverra úrræða sé helst að leita til að koma í veg fyrir tekjumissi.
25. gr. Héraðsráðunautum búnaðarsambandanna er skylt að fylgjast með því, svo sem ástæður leyfa, hvort gróðri hnignar mjög í heimalöndum og afréttum sökum ofbeitar eða hvort land fer í örtröð, og skýra landgræðslustjóra frá því.

IV. kafli. Félög til landgræðslu.
26. gr. Heimilt er bændum, sveitarfélögum eða sýslufélögum að stofna félög til landgræðslu.
27. gr. Landgræðslustjóri skal semja drög að samþykktum félaga þeirra, sem um getur í 26. gr.
28. gr. Vilji þeir, sem um getur í 26. gr., stofna slíkt félag, leita þeir álits og tillagna landgræðslustjóra. Að því fengnu, geta þeir boðað til undirbúningsfundar á fyrirhuguðu félagssvæði. Þar skal kjósa nefnd, er vinni að félagsstofnuninni.
Kveðja skal til fundar eigendur allra jarða, sem ætla má að hafi not af félagsskapnum. Séu jarðir í erfðafestu, skal boða erfðafestuhafa í stað landeiganda. Eigi félag land, skal boða formann félagsstjórnar. Verði landeiganda eigi boðaður fundur nægilega snemma vegna fjarvistar, skal boða leigutaka. Kveðja skal og landgræðslustjóra eða fulltrúa hans til fundarins.
Fund skal boða með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eigi síðar en 14 dögum fyrir fundardag — og auk þess með auglýsingu í Ríkisútvarpinu tvo daga í röð, eigi síðar en viku fyrir fundardag.
29. gr. Á fundi þeim, sem boðaður hefur verið skv. 28. gr., skal ræða stofnun félags og verkefni. Bóka skal fundargerð.
Á þeim fundi og öðrum fer um atkvæðisrétt eins og hér segir: Fyrir hvert lögbýli eða afréttarland, sem metið er til verðs í fasteignamati skal koma eitt atkvæði. Þó að sami maður eigi fleiri en eina jörð, hefur hann eitt atkvæði. Ef eigendur lögbýlis eru fleiri en einn, skulu þeir gera með sér skriflegan samning um, hver fari með atkvæðisrétt býlisins. Fela má öðrum að fara með atkvæði, enda sé umboðið skriflegt. Hafi leigutaki verið boðaður vegna fjarvistar landeiganda, er hann fullgildur aðili með tillögu- og atkvæðisrétt skv. 31. gr.
Komi til fundar 1/ 3 þeirra manna, sem boðaðir eru skv. 28. gr. og atkvæðisbærir eru skv. 2. mgr. þessarar greinar, má stofna félag, ef 2/ 3 fundarmanna samþykkja.
Nú verður félag eigi stofnað á þessum fundi, og getur þá meiri hluti fundarmanna kosið nefnd, sem búi málið undir annan fund. Nefndin semur frumvarp að nýrri félagssamþykkt skv. 32. gr., gerir áætlun um kostnað af starfsemi félagsins og leitar álits landgræðslustjóra. Hún skal og afla þeirra gagna, sem fundarmenn æskja eða nauðsynleg þykja.
30. gr. Þá er nefndin hefur lokið störfum, skal hún kveðja til fundar á ný skv. 28. gr.
Á fundinum skal nefndin leggja fram öll gögn, sem hún hefur aflað. Skal þá enn ræða stofnun félags og taka ákvörðun um hana. Ef meiri hluti atkvæðisbærra fundarmanna samþykkir félagsstofnun, er öllum landeigendum á félagssvæðinu skylt að gerast félagar.
31. gr. Stofnfundur eða annar lögmætur félagsfundur getur kveðið svo á, að leigutaki skuli gerast félagi í stað landeiganda, ef leigutaki æskir þess og landeigandi mótmælir eigi. Sæki landeigandi eigi fund og nefni eigi til umboðsmann, skal leigutaki fara með umboð eiganda. Boða skal bæði landeiganda og leigutaka á fund.
32. gr. Nú er stofnun félags löglega ákveðin, og skal þá setja félaginu samþykkt þegar á stofnfundi eða á öðrum fundi, boðuðum á sama hátt. Um samþykkt ræður afl atkvæða. Þar sem félagssvæði er stórt, má ákveða í samþykkt, að félagsfundir skuli vera fulltrúafundir.
Í samþykkt félags skulu vera ákvæði um:
    a. Nafn félags, heimilisfang og varnarþing.
    b. Verkefni félags og félagssvæði.
    c. Skipun og starfssvið félagsstjórnar.
    d. Reikninga félags og endurskoðun.
    e. Greiðslu kostnaðar af starfsemi félags.
    f. Ákvæði um félagsslit.
33. gr. Félagsstjórn skal senda ráðherra samþykkt til staðfestingar ásamt umsögn landgræðslustjóra. Nú telur ráðherra samþykkt eigi svo úr garði gerða, að hana megi staðfesta, og sendir hann þá samþykkt aftur til félagsstjórnar með athugasemdum um það, er ábótavant þykir. Annars kostar staðfestir hann samþykkt, eða þá er lagfært hefur verið það, er athugavert þótti. Líða skulu minnst sex mánuðir frá stofnfundi félags og þar til samþykkt er staðfest. Samþykkt má aldrei brjóta í bága við réttarákvæði, almennar grundvallarreglur laga né réttindi einstakra manna.
34. gr. Þegar félag hefur verið stofnað skv. 26. og 30. eða 31. gr., getur sá, sem telur félagið ólöglega stofnað, vefengt félagsstofnunina fyrir ráðherra, áður en sex mánuðir eru liðnir frá stofnfundi félags. Vefenging, sem síðar berst, skal eigi tekin til greina. Hafi vefenging borist ráðherra innan lögmæts tíma, en hann eigi tekið hana til greina, má skjóta málinu til dómstóla, áður en sex mánuðir eru liðnir frá staðfestingu samþykktar.
35. gr. Aðalfund skal halda árlega og aukafundi þegar félagsstjórn telur ástæðu til eða 1/ 4 félagsmanna æskir og tilgreinir fundarefni. Láti félagsstjórn undir höfuð leggjast að boða fund í tvo mánuði, mega þeir, sem fund vilja halda, boða hann.
Fund skal boða með auglýsingu í Ríkisútvarpinu tvo daga í röð eigi síðar en 7 dögum fyrir fundardag. Þó má boða fund í félagi, sem hefur færri en 30 félagsmenn, með símtölum eða á þann hátt, sem tíðkast um boðun funda í því héraði.
Á fundi skal liggja frammi skrá yfir atkvæðisbæra félagsmenn.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Breyting á samþykkt félags þarf þó samþykki meiri hluta félagsmanna.
Verði breyting á samþykkt eigi afgreidd vegna ónógrar fundarsóknar, má boða til annars fundar. Á þeim fundi ræður afl atkvæða. Þess skal getið í fundarboði, ef ráðgert er að breyta samþykkt. Breytingar á samþykkt skulu staðfestar af ráðherra eins og um getur í 33. gr.
36. gr. Þegar eigendaskipti verða eða ábúendaskipti á jörð í erfðafestu, skal hinn nýi eigandi eða ábúandi gerast félagi. Þegar ábúendaskipti verða á jörð, þar sem leigutaki er félagsmaður í stað landeiganda, getur félagsfundur kveðið svo á, að hinn nýi leigutaki gerist félagi á sama hátt og um getur í 31. gr.
37. gr. Kostnaði af starfsemi félags við aðgerðir á sameignarlandi skal jafna niður á notendur í hlutfalli við landverð jarða samkvæmt fasteignamati að frádregnum hlunnindum.
Nú er land það, sem tekið er til græðslu, séreign margra býla, og skal þá skipta kostnaðinum milli býlanna í réttu hlutfalli við stærð þess lands, sem græða skal og heyrir til hverju býli.
Gjöld félagsmanna má taka lögtaki. Fylgir þeim lögveð í jörð í eitt ár frá eindaga, og stendur það framar öllu samningsbundnu veði.
38. gr. Land það, sem félag tekur til meðferðar samkvæmt þessum kafla, skal vera undir eftirliti landgræðslunnar, og ber henni skylda til að fylgjast með framkvæmdum félagsins. Jafnframt er félagsstjórninni skylt að hlíta fyrirmælum landgræðslustjóra, að því er varðar meðferð landsins, meðan á framkvæmdum stendur.
Girðingar vegna lands, sem tekið er til græðslu samkvæmt þessum kafla, hlíta sömu ákvæðum og landgræðslugirðingar, sbr. 10. og 11. gr.
39. gr. Stjórn félags skal í lok hvers árs semja skýrslu um starfsemi félagsins á því ári. Henni skal fylgja:
    1. Umsögn hlutaðeigandi héraðsráðunautar um girðingar og græðslu félagsins ásamt mælingum hans á því, sem unnið hefur verið það ár.
    2. Sundurliðaður reikningur yfir kostnað við friðun og græðslu lands á árinu.
Skýrslu þessa skal félagsstjórn senda Landgræðslu ríkisins.

V. kafli. Rannsóknir og fleira.
40. gr. [Rannsóknastofnun landbúnaðarins ber að annast rannsóknir á beitarþoli og orsökum gróðureyðingar, og skal fela henni að framkvæma þær rannsóknir, sem um er rætt í 7., 22. og 23. gr. þessara laga.
Rannsóknastofnun landbúnaðarins ber í samvinnu við Landgræðslu ríkisins að leita eftir nýjum plöntutegundum, sem vænlegar eru til landgræðslu.] 1)
    1)L. 54/1975, 10. gr.
41. gr. Landgræðslu ríkisins er heimilt að koma á fót gróðrarstöð til að fjölga þeim tegundum plantna, sem nothæfar reynast til landgræðslu.
42. gr.1)
    1)L. 54/1975, 11. gr.

VI. kafli. Önnur ákvæði.
43. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum til ríkissjóðs …, 1) nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum. … 2)
    1)L. 10/1983, 40. gr. 2)L. 88/2008, 233. gr.