Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. nóvember 2016. Útgáfa 145b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um alferðir
1994 nr. 80 19. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 30. maí 1994. EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 84/450/EBE og 90/314/EBE. Breytt með l. 62/2005 (tóku gildi 1. júlí 2005), l. 34/2007 (tóku gildi 30. mars 2007), l. 167/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 125/2013 (tóku gildi 31. des. 2013).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innanríkisráðherra eða innanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið og orðskýringar.
1. gr. Lög þessi gilda um samninga, sem gerðir eru á milli farkaupa og ferðaheildsala eða ferðasmásala, um kaup á alferðum, svo og um aðra viðskiptahætti þar að lútandi.
2. gr. Í lögum þessum merkja eftirfarandi hugtök:
Alferð er fyrir fram ákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klst. eða í henni felst gisting:
a. flutnings,
b. gistingar,
c. annarrar þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.
Það telst alferð þótt reikningar séu gerðir sérstaklega fyrir hvert atriði.
Ferðaheildsali er sá sem setur saman alferð og býður hana til sölu, hvort heldur beint eða gegnum ferðasmásala.
Ferðasmásali er sá sem býður til sölu alferð sem ferðaheildsali hefur sett saman.
Farkaupi er einstaklingur eða lögpersóna sem:
a. gerir samning um kaup á alferð (aðalsamningsaðili),
b. aðalsamningsaðilinn semur um kaup á alferð fyrir,
c. fengið hefur alferð framselda frá aðalsamningsaðila eða þeim sem aðalsamningsaðili samdi um kaup á alferð fyrir.
II. kafli. Gerð og efni samnings.
3. gr. Í bæklingum og auglýsingum um alferðir skal tilgreina verð og allar upplýsingar sem ferðina snerta á greinargóðan og nákvæman hátt. Upplýsingar í bæklingi eru bindandi fyrir ferðaheildsala, nema farkaupa hafi verið tilkynnt um breytingar áður en samningur er gerður, samkomulag hafi orðið um breytingar eða verðbreytingar séu heimilaðar skv. 7. gr.
4. gr. Samning um kaup á alferðum skal gera skriflega eða á annan hátt sem er ótvíræður og aðgengilegur fyrir farkaupa. Farkaupi skal fá afrit af samningnum.
Áður en samningur um alferð er gerður veitir ferðaheildsali eða smásali farkaupa almennar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til vegabréfa og vegabréfsáritana og frest til að útvega slíkt, auk upplýsinga um heilbrigðisráðstafanir sem krafist er í viðkomandi ríkjum. Skulu upplýsingarnar veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt.
Ferðaheildsali eða smásali skal einnig veita farkaupa nánari upplýsingar um þau atriði sem eru nauðsynleg til að alferð sé farin. Skulu þær veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt.
III. kafli. Afpöntun, framsal og verðbreytingar á alferð.
5. gr. Afpanti farkaupi alferð getur seljandi krafist þóknunar sem er ákveðin með tilliti til þess hvenær afpantað er og hvers eðlis alferðin er. Áður en samningur er gerður skal farkaupa tilkynnt hvaða skilmálar gilda um afpantanir.
Farkaupi hefur rétt til að afpanta alferð vegna stríðsaðgerða, borgarastyrjaldar, lífshættulegra smitsjúkdóma eða annars sem hefur afgerandi áhrif á framkvæmd alferðar á áfangastað eða nálægt honum þegar a.m.k. 14 dagar eða færri eru til brottfarar. Í slíkum tilvikum á farkaupi kröfu á því að fá fulla endurgreiðslu að frádregnu staðfestingargjaldi. Þetta gildir þó ekki ef farkaupi hefði mátt sjá fyrir um framangreinda atburði og ástand er samningur var gerður.
Áður en samningur um alferð er gerður skal seljandi veita farkaupa upplýsingar um það hvaða möguleikar eru á að gera tryggingarsamning eða tryggja sig á annan hátt gegn fjárhagslegu tjóni í þeim tilvikum að farkaupi getur ekki tekið þátt í alferð.
6. gr. Þegar farkaupi getur ekki nýtt sér alferð getur hann framselt bókun sína til aðila sem fullnægir þátttökuskilyrðum. Ferðaheildsali eða ferðasmásali skal fá vitneskju um þetta með sanngjörnum fyrirvara áður en ferðin hefst.
Framseljandi alferðar og framsalshafi eru þá sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgir gagnvart ferðaheildsala eða smásala að því er varðar greiðslu á eftirstöðvum og öllum aukakostnaði er kann að leiða af slíku framsali.
7. gr. Verð það, sem sett er fram í samningnum, skal haldast óbreytt nema því aðeins að þar sé skýrt tekið fram að verð geti hækkað eða lækkað og nákvæmlega sé tilgreint hvernig reiknað skuli út breytt verð. Einungis skal heimila breytingar á:
a. flutningskostnaði, þar með töldum eldsneytiskostnaði,
b. álögum, sköttum eða sérgreiðslum fyrir tiltekna þjónustu, svo sem lendingargjöldum eða gjöldum fyrir að fara um borð eða frá borði í höfnum og á flugvöllum,
c. gengi því sem á við um hina tilteknu alferð.
Síðustu tuttugu daga fyrir brottfarardag má ekki hækka verð það sem í samningi segir.
IV. kafli. Vanefndir ferðaheildsala eða ferðasmásala og réttindi farkaupa.
8. gr. Geri ferðaheildsali breytingar á alferð áður en hún hefst ber honum að tilkynna það farkaupa svo fljótt sem unnt er. Sé um verulega breytingu að ræða ber farkaupa að tilkynna ferðaheildsala eða smásala eins fljótt og unnt er hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör.
Um leið og farkaupa er tilkynnt um breytingar á alferð skal upplýsa hann um tilkynningarskyldu hans skv. 1. mgr., sem og um afleiðingar þess að sinna henni ekki. Eins skal upplýsa hann um það hvert ber að beina slíkri tilkynningu.
9. gr. Ef farkaupi riftir samningi skv. 1. mgr. 8. gr. eða ef ferðaheildsali aflýsir ferðinni á farkaupi rétt á að fá fulla endurgreiðslu eða taka í staðinn aðra alferð sambærilega að gæðum eða betri ef ferðaheildsali eða smásali getur boðið slík skipti. Ef ferðin, sem boðin er í staðinn, er ódýrari fær farkaupi verðmismuninn endurgreiddan. Ef ferðin er dýrari greiðir farkaupi mismuninn.
10. gr. Verði farkaupi fyrir tjóni vegna verulegra breytinga á ferðatilhögun eða vegna þess að ferð hefur verið aflýst á hann rétt á skaðabótum, nema því aðeins að ferðinni sé aflýst:
a. vegna þess að fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sú lágmarkstala sem til þarf enda sé farkaupa tilkynnt um aflýsingu skriflega innan ákveðins frests sem samið hefur verið um fyrir fram
b. eða breytt vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna sem sá er ber þær fyrir sig fær engu um ráðið og hefði ekki getað komið í veg fyrir afleiðingar þeirra.
11. gr. Ef alferðin fullnægir ekki ákvæðum alferðarsamnings getur farkaupi krafist þess að ráðin sé bót á því, nema það hafi í för með sér óeðlilegan kostnað eða veruleg óþægindi fyrir ferðaheildsala eða smásala. Ef ekki er hægt að bæta úr því sem á vantar eða einungis með lakari þjónustu á farkaupi rétt á verðlækkun á ferðinni sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt er.
Ef verulegur hluti þeirrar þjónustu, sem samningur kveður á um, er ekki veittur eða er verulega ófullnægjandi getur farkaupi rift samningnum nema ferðaheildsali eða ferðasmásali ráði bót á vandanum innan sanngjarnra tímamarka farkaupa að kostnaðarlausu. Ef flutningur er þáttur alferðar og farkaupi kýs að rifta samningi getur hann krafist þess að vera fluttur sér að kostnaðarlausu til þess staðar þar sem alferð hófst eða á annan stað sem aðilar hafa samið um.
Farkaupi verður að tilkynna þeim er hann gerði alferðarsamning við eða fulltrúa hans, eins fljótt og kostur er, um hverja þá vanefnd er hann verður var við á framkvæmd samnings. Þessa skyldu verður að taka skýrt fram í samningnum.
12. gr. Ferðaheildsali og ferðasmásali bera sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð gagnvart farkaupa á því að staðið sé við framkvæmd samningsins, hvort sem hún er í höndum þeirra sjálfra eða annarra þjónustuaðila.
13. gr. Verði farkaupi fyrir meiðslum eða eignatjóni vegna þess að alferð er ófullnægjandi á hann rétt á skaðabótum, nema því aðeins að vanefnd á framkvæmd samnings verði ekki rakin til vanrækslu seljanda eða annars þjónustuaðila af því að vanefndirnar eru:
a. sök farkaupa,
b. sök þriðja aðila sem ekki tengist þeirri þjónustu sem samið var um og eru ófyrirsjáanlegar eða óhjákvæmilegar,
c. vegna óviðráðanlegra aðstæðna (force majeure) eða atburðar sem veitandi þjónustunnar gat með engu móti séð fyrir eða komið í veg fyrir.
14. gr. Ferðaheildsali eða ferðasmásali getur takmarkað skaðabætur sem honum ber að greiða skv. 13. gr. í samræmi við takmarkanir sem kveðið er á um í landslögum eða alþjóðasamningum sem gilda um einstaka þætti alferðar.
V. kafli. Skyldur farkaupa.
15. gr. Farkaupa ber að hlýða fyrirmælum fararstjóra og starfsmanna annarra þjónustuaðila við framkvæmd alferðarsamnings.
Sé um að ræða verulegar vanefndir farkaupa á skyldum hans samkvæmt lögum þessum og 1. mgr. getur ferðaheildsali eða ferðasmásali útilokað hann frá frekari þátttöku í viðkomandi alferð eða komið í veg fyrir að hann hefji hana og krafið hann um fullt verð fyrir ferðina. Ef ferð er hafin verður farkaupi sjálfur að standa straum af viðbótarkostnaði sem leiðir af útilokun hans frá ferðinni.
VI. kafli. Gildistaka o.fl.
16. gr. [Ráðherra] 1) er heimilt að setja nánari reglur 2) um framkvæmd þessara laga, m.a. um efni upplýsingabæklings til farkaupa, afpöntunarskilmála og aðrar upplýsingar um alferðir og atriði sem taka þarf fram í samningi.
1)L. 126/2011, 193. gr. 2)Rg. 156/1995.
17. gr. Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum [Neytendastofu]. 1)
[Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð.
Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. [laga um Neytendastofu]. 2)
Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.] 3)
1)L. 62/2005, 13. gr. 2)L. 125/2013, 6. gr. 3)L. 34/2007, 1. gr.
18. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
19. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi gilda ekki um alferðir sem samið hefur verið um fyrir gildistöku þessara laga.