Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um hvalveiðar

1949 nr. 26 3. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 10. maí 1949. Breytt með: L. 40/1979 (tóku gildi 1. júní 1979). L. 23/1991 (tóku gildi 17. apríl 1991). L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 157/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við matvælaráðherra eða matvælaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Rétt til að stunda hvalveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er ákveðin í reglugerð nr. 299 15. júlí 1975, til að landa hvalafla, þótt utan þeirrar landhelgi sé veitt, og til að verka slíkan afla í landi eða í fiskveiðilandhelgi Íslands, hafa þeir einir, er fengið hafa til þess leyfi [ráðuneytisins]. 1) [Slík leyfi má aðeins veita aðilum er fullnægja skilyrðum til að mega stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.] 2) Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar [Hafrannsóknastofnunar]. 3)] 4)
2)
Leyfishafi skal á hverjum tíma veita allar þær upplýsingar um starfsemi sína og starfsháttu, sem [ráðuneytið] 1) telur nauðsynlegar.
    1)L. 126/2011, 24. gr. 2)L. 23/1991, 5. gr. 3)L. 157/2012, 1. gr. 4)L. 40/1979, 1. gr.
2. gr.
Erlend skip má ekki nota til hvalveiða nema með leyfi [ráðherra]. 1) Skulu slík leyfi eigi veitt til lengri tíma en eins árs í senn. Eigi skal þetta þó skerða þau leyfi, sem þegar hafa verið veitt.
    1)L. 126/2011, 24. gr.
3. gr.
Óheimilt er að veiða:
    a. Hvalkálfa og hvali, sem kálfar fylgja.
    b. Tilteknar tegundir hvala og hvali undir tiltekinni lágmarksstærð, eftir því, sem [ráðuneytið] 1) ákveður nánar í reglugerð með hliðsjón af alþjóðasamningum um hvalveiðar, sem Ísland er eða kann að gerast aðili að.
    1)L. 126/2011, 24. gr.
4. gr.
Með reglugerð 1) getur [ráðuneytið]: 2)
    a. Bannað hvalveiðar á tilteknum svæðum.
    b. Takmarkað veiðar við ákveðinn tíma árs.
    c. Takmarkað heildarveiðimagn, veiðimagn ákveðins fyrirtækis, leiðangurs eða landstöðvar.
    d. Takmarkað veiðibúnað.
    e. Bannað íslenskum ríkisborgurum og þeim, sem heimilisfang eiga á Íslandi, að taka þátt í hvalveiðum, sem ekki eru háðar jafnströngum fyrirmælum og þeim, sem á Íslandi gilda.
    f. Sett hvers konar önnur ákvæði, sem talin eru nauðsynleg vegna þátttöku Íslands í alþjóðasamningum um hvalveiðar.
    1)Rg. 163/1973, sbr. 304/1983, 239/1984, 862/2006, 822/2007, 456/2008, 58/2009, 263/2009, 359/2009, 1116/2013, 263/2014 og 186/2019. Rg. 489/2009, sbr. 533/2018. Rg. 1035/2017. 2)L. 126/2011, 24. gr.
5. gr.
Verkun hvalafla má einungis fara fram á þeim stöðum, sem [ráðuneytið] 1) samþykkir. Ráðuneytið setur nánari fyrirmæli um fyrirkomulag verkunarinnar, þannig, að af henni hljótist sem minnst ónæði fyrir aðra. Jafnframt skulu sett fyrirmæli um nýtingu hvals til fullnustu.
    1)L. 126/2011, 24. gr.
6. gr.
[Ráðuneytið] 1) setur reglur um eftirlit með hvalveiðum samkvæmt lögum þessum, og skal þar gert ráð fyrir, að skipaðir verði opinberir eftirlitsmenn, er laun taki úr ríkissjóði.
Jafnframt skal ákveða gjald fyrir leyfi samkvæmt 1. gr. laga þessara til að standast kostnaðinn af eftirlitinu.
    1)L. 126/2011, 24. gr.
7. gr.
Útgerðarmaður hvalveiðiskips ber ábyrgð á því, að ekki sé brotið í bága við lög þessi með notkun skipsins.
8. gr.
[Ráðuneytið] 1) getur gefið sérstakt leyfi til hvalveiða í vísindalegu augnamiði. Leyfið skal háð þeim skilyrðum, sem ráðuneytið ákveður, og þarf þá ekki að fylgja fyrirmælum laga þessara.
    1)L. 126/2011, 24. gr.
9. gr.
Ráðningarkjör hvalveiðimanna skulu ákveðin þannig, að tekjur byggist að miklu leyti á tegund, stærð og verðmæti veiddra hvala, en ekki einungis á fjölda þeirra.
Engin laun má greiða fyrir ólöglega hvalveiði, jafnvel þótt fullnægjandi ástæður séu færðar fyrir veiði hvalsins.
10. gr.
[Brot gegn lögum þessum og reglugerðum eða ákvæðum leyfisbréfa settum samkvæmt þeim skulu varða sektum 2.000–40.000 gullkrónum, sbr. lög nr. 4 11. apríl 1924.
Auk þess má láta brot varða fangelsi allt að 6 mánuðum þegar sakir eru miklar eða þegar um ítrekað brot er að ræða.
Brot samkvæmt framansögðu skulu og varða upptöku á veiðitækjum skipsins, byssum, skotlínu, skutlum og skotfærum, svo og öllum afla skipsins.
[Kyrrsetja skal] 1) skip, sem staðið er að meintum ólöglegum veiðum, þegar það kemur til hafnar, og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn skipstjóra skipsins eða máli hans lokið á annan hátt og sekt og kostnaður hefur verið greitt að fullu. Þó er heimilt að láta skip laust fyrr, ef sett er bankatrygging, eða önnur trygging jafngild, … 1) fyrir greiðslu sektarinnar og málskostnaðar.
Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt þessari grein og kostnaðar skal vera lögveð í skipinu.] 2)
    1)L. 92/1991, 27. gr. 2)L. 40/1979, 2. gr.