Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um brunavarnir

2000 nr. 75 23. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2001. Breytt með: L. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003). L. 67/2007 (tóku gildi 4. apríl 2007). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 166/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009). L. 29/2009 (tóku gildi 2. apríl 2009). L. 161/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 10/2011 (tóku gildi 12. febr. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 114/2014 (tóku gildi 4. des. 2014 nema 2. mgr. 6. gr. sem tók gildi 1. jan. 2016; EES-samningurinn: II. viðauki reglugerð 305/2011). L. 65/2016 (tóku gildi 23. júní 2016; EES-samningurinn: tilskipun 2014/34/ESB). L. 137/2019 (tóku gildi 31. des. 2019).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
[Markmið laga þessara er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit, forvarnir og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.] 1)
    1)L. 161/2010, 1. gr.
2. gr. Gildissvið.
Lögin gilda um eldvarnir og slökkvistörf vegna eldsvoða og viðbúnað við mengunaróhöppum á landi [nema kveðið sé á um annað í lögum þessum]. 1) [Lögin gilda enn fremur um björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði.] 2) Lögin taka ekki til eldvarna í skipum [með haffærisskírteini], 2) loftförum, almennum vinnuvélum, bifreiðum eða öðrum vélknúnum ökutækjum.
    1)L. 166/2008, 23. gr. 2)L. 161/2010, 2. gr.
3. gr. Skilgreiningar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    Atvinnuhúsnæði: Húsnæði þar sem almenningur kemur saman, dvelur, sækir þjónustu og þar sem hvers konar atvinnustarfsemi fer fram.
    Bráð hætta: Þegar ætla má að fólk geti ekki forðað sér til öruggs staðar við eldsvoða eða mengunaróhapp.
    Brunahönnun: Sérstök hönnun sem tekur til brunavarna í mannvirkjum.
    Brunavarnir: Eldvarnir, starfsemi slökkviliðs og aðrar aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem mælt er fyrir um í þessum lögum.
    Eldsvoði: Þegar eldur er laus og nauðsyn er sérstakra slökkviráðstafana.
    Eldvarnir: [Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða eða hindra útbreiðslu elds.] 1)
    Mannvirki: [Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, samgöngumannvirki, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.] 2)
   [ Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis, og hvers kyns óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.] 1)
    Mengunaróhapp: [Þegar bráðamengun verður og eiturefni eða önnur efni berast eða kunna að berast í umhverfið og tafarlaus úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á umhverfi, heilsu fólks eða eignum.] 1)
   [ Mengunartjón: Tjón eða skaði sem hlýst af mengun umhverfis, hvar sem slík mengun kann að eiga sér stað á landi og af hvers konar völdum sem hún er. Mengunartjón tekur einnig til kostnaðar vegna ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón eða frekara tjón, og til skaða sem hlýst af slíkum ráðstöfunum.
    Reykköfun: Athafnir slökkviliðs þegar loft undir þrýstingi er notað til öndunar við slökkvistarf í afmörkuðu rými eða þar sem mengunaróhapp hefur orðið.
    Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.] 1)
    Vara: Hvers kyns lausafjármunir, svo sem allar framleiðsluvörur og hráefni.
    1)L. 161/2010, 3. gr. 2)L. 10/2011, 1. gr.

II. kafli. Stjórn og skipan brunamála.
4. gr. Yfirstjórn brunamála.
[[Ráðherra] 1) fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) er ráðherra til aðstoðar um málefni er falla undir lög þessi, sbr. lög um mannvirki.] 3)
    1)L. 126/2011, 307. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)L. 161/2010, 4. gr.
5. gr.1)
    1)L. 161/2010, 5. gr.
6. gr. Samræming brunavarna.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) vinnur að samræmingu brunavarna í landinu og stuðlar að samvinnu þeirra sem starfa að brunavörnum. Stofnunin skal með sjálfstæðum athugunum og úttektum leiðbeina sveitarstjórnum um kröfur sem gerðar eru til eldvarnaeftirlits og slökkviliða. [Að beiðni slökkviliðsstjóra getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) gert úttekt á brunavörnum mannvirkja í rekstri þar sem tilteknir starfsmenn eru þjálfaðir í brunavörnum og slökkvistarfi, sbr. 3. mgr. 24. gr.] 2) Við úttektir og athuganir skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) leita umsagnar slökkviliðsstjóra áður en niðurstaða stofnunarinnar er send viðkomandi sveitarfélagi.
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 161/2010, 6. gr.
7.–8. gr.1)
    1)L. 161/2010, 5. gr.
9. gr. Brunamálaskóli.
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) starfrækir Brunamálaskóla sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Skólinn skal hafa umsjón með menntun slökkviliðsmanna, bóklegri og verklegri, og fræðslu þeirra í starfi. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt með samningi að fela menntastofnun starfrækslu Brunamálaskólans. Enn fremur er heimilt að gera samning við slökkvilið eða aðra fagaðila um framkvæmd einstakra þátta í starfsemi skólans.
Ráðherra skipar til fjögurra ára í senn fjögurra manna fagráð, og jafnmarga menn til vara, sem er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) til ráðgjafar um fagleg málefni Brunamálaskólans. Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Félag slökkviliðsstjóra tilnefna hvert sinn fulltrúa í fagráð og skipar ráðherra formann.
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um starfsemi Brunamálaskólans og hlutverk fagráðs.] 3)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 792/2001. 3)L. 161/2010, 7. gr.
10. gr. Ábyrgð sveitarstjórna.
Sveitarstjórn hver í sínu umdæmi ber ábyrgð á starfsemi slökkviliðs og framkvæmd eldvarnaeftirlits. Sveitarfélag ber kostnað af þessari starfsemi.

III. kafli. Eftirlit og skyldur sveitarfélaga.
11. gr. Starfsemi slökkviliðs.
Sveitarfélagi er skylt að sjá um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Sveitarfélögum ber að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, t.d. úðakerfi í meiri háttar byggingum. Í sveitarfélagi þar sem vatnsöflun er erfið skal leita annarra lausna til að tryggja nauðsynlegar brunavarnir.
[Björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum með sérhæfðum björgunarbúnaði skal vera eitt af verkefnum slökkviliðs samkvæmt lögum þessum.] 1)
[Í reglugerð 2) skal kveða á um lágmarkskröfur um tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða, svo og um vatnsöflun til slökkvistarfa. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um búnað og þjálfun slökkviliðsmanna vegna mengunaróhappa á landi og vegna björgunar á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum að fengnum tillögum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 3) og í samráði við Umhverfisstofnun.] 1)
    1)L. 161/2010, 8. gr. 2)Rg. 747/2018, sbr. 1278/2021. 3)L. 137/2019, 19. gr.
12. gr. Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.
Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga er sú starfsemi slökkviliðs sem hefur eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir. Hlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga er að:
    a. [framkvæma í samvinnu við byggingarfulltrúa öryggisúttekt og eftir atvikum lokaúttekt, sbr. lög um mannvirki, gefa umsagnir um brunavarnir við meðferð byggingarleyfisumsókna óski byggingarfulltrúi þess og hafa þannig eftirlit með því að nýbyggingar og lóðir fullnægi kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra er heimiluð], 1)
    b. [gera úttekt á mannvirkjum … 1) og starfsemi í þeim, með tilliti til brunavarna, og á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar úrgangs eða geymslu eldfimra efna, og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir], 2)
    [c. [hafa, í samvinnu við byggingarfulltrúa, eftirlit með því hvort fólk tekur sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki hafi verið veitt fyrir breyttri notkun þess og grípa til viðeigandi þvingunarúrræða skv. VIII. kafla laga þessara og X. kafla laga um mannvirki ef þörf krefur.] 1) Ef ljóst þykir að hætta skapist af slíkri búsetu skal enn fremur kæra málið til lögreglu], 2)
    [d.] 2) leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum eftir atvikum um hvaðeina er varðar brunavarnir og eldsvoða vegna viðkomandi starfsemi,
    [e.] 2) [hafa eftirlit með því að eigendur og forráðamenn mannvirkis í rekstri sinni skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í samræmi við leiðbeiningar sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 3) gefur út. Ef ljóst þykir að hætta skapist af ástandi brunavarna og eigandi eða forráðamaður mannvirkis sinnir ekki tilmælum slökkviliðsstjóra um úrbætur án ástæðulauss dráttar, eða ef um ítrekuð brot viðkomandi eiganda eða forráðamanns er að ræða, skal kæra málið til lögreglu], 1)
    [f.] 2) halda skrá yfir öll mannvirki og aðra staði þar sem eldsvoði getur valdið sérstakri hættu á manntjóni eða umtalsverðu tjóni á umhverfi eða öðrum verðmætum.
Heimilt er að fela skoðunarstofum eftirlit skv. 1. mgr., eftir því sem við á.
[Sveitarfélagi er heimilt að setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir aðkomu slökkviliðs við gerð öryggis- og lokaúttekta skv. a-lið 1. mgr. og um innheimtu þeirra. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem fram koma þau rök sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjald skal ekki vera hærra en nemur kostnaði við úttektina. Gjöldum þessum fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.] 1)
    1)L. 161/2010, 9. gr. 2)L. 67/2007, 3. gr. 3)L. 137/2019, 19. gr.
13. gr. Brunavarnaáætlun.
Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur [samþykki [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) og viðkomandi sveitarstjórnar]. 2) Brunavarnaáætlun skal endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá því að hún hlaut samþykki. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) gefur út leiðbeiningar um efni og gerð brunavarnaáætlunar.
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 161/2010, 10. gr.
[13. gr. a.
Mannvirki innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka sem eru fyrirhuguð eða tilkomin vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis skulu háð sérstöku öryggismati sem framkvæmt er af notanda mannvirkis og staðfest af [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]. 1) Öryggismat þetta skal endurskoða að jafnaði á fimm ára fresti. [Ráðherra] 2) setur að fengnum tillögum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) reglugerð um útfærslu og framkvæmd öryggismats, svo og þau gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar verður að telja til að matið byggist á öruggum forsendum. Í reglugerð þessari skal einnig kveðið á um hlutverk slökkviliða vegna eld- eða sprengihættu í þessu sambandi.
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) annast framkvæmd eldvarnaeftirlits vegna mannvirkja samkvæmt grein þessari og setur um það reglur sem hljóta skulu staðfestingu ráðherra.] 3) [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimil gjaldtaka vegna eldvarnaeftirlits, öryggismats og endurskoðunar öryggismats. Gjaldið má þó ekki vera hærra en nemur rökstuddum kostnaði við gerð eða endurskoðun öryggismats og framkvæmd eldvarnaeftirlits.] 4)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 126/2011, 307. gr. 3)L. 161/2010, 11. gr. 4)L. 166/2008, 25. gr.
14. gr. Samstarf sveitarfélaga.
Sveitarfélög geta haft samvinnu sín á milli um brunavarnir.
Tvö sveitarfélög eða fleiri geta samið um sameiginlegt slökkvilið. Sveitarfélagi er einnig heimilt að semja við annað sveitarfélag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðs að hluta. Um slíkt skal gera skriflegan samning sem skal tilkynna til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 1)
    1)L. 137/2019, 19. gr.

IV. kafli. Slökkvilið og slökkvistarf.
15. gr. Slökkviliðsstjóri.
[Sveitarstjórn ræður slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri ræður annað starfslið slökkviliðsins. Í forföllum slökkviliðsstjóra er varaslökkviliðsstjóri yfirmaður slökkviliðs.] 1)
Slökkviliðsstjóri skal hafa hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 17. gr., og starfað að lágmarki í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður eða hafa háskólamenntun með sérmenntun í brunamálum. Fáist ekki slökkviliðsstjóri til starfa sem uppfyllir framangreind hæfisskilyrði er sveitarstjórn heimilt að höfðu samráði við [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2) að ráða slökkviliðsstjóra tímabundið til starfa, þó ekki lengur en til tveggja ára í senn.
Semji sveitarfélög um sameiginlegt slökkvilið, sbr. 14. gr., skulu viðkomandi sveitarfélög ráða slökkviliðsstjóra sem er yfirmaður slökkviliðs á svæðinu.
    1)L. 161/2010, 12. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr.
16. gr. Skyldur slökkviliðsstjóra.
Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Hann hefur umsjón með öllum tækjum slökkviliðs og eftirlit með virkni brunahana í umdæminu í samráði við rekstraraðila viðkomandi vatnsveitu.
Slökkviliðsstjóri stjórnar slökkvistarfi við eldsvoða og hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Við þessi störf er löggæslulið og opinberir eftirlitsaðilar undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Lögregla sér slökkviliði fyrir greiðum aðgangi að vettvangsstað, stöðvar umferð um nærliggjandi götur, girðir af svæði sem slökkvilið þarf til að gegna störfum sínum, verndar brunarústir sem rannsaka þarf eða bjarga verðmætum úr og varðveitir muni sem bjargað er frá bruna þar til þeir eru afhentir réttum aðila.
Slökkviliðsstjóri skal tilkynna án tafar mengunaróhöpp til heilbrigðiseftirlits.
Slökkviliðsstjóra ber að sjá um fræðslu slökkviliðsmanna og þjálfun þeirra í brunavörnum, [björgunarstörfum] 1) og viðbrögðum við mengunaróhöppum og að haldnar séu reglubundnar æfingar slökkviliðs.
Slökkviliðsstjóri vinnur brunavarnaáætlun, sbr. 13. gr., á starfssvæði sínu og leggur hana fyrir sveitarstjórn.
    1)L. 161/2010, 13. gr.
17. gr. Hæfi og löggilding slökkviliðsmanna.
Slökkviliðsmenn sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn skulu hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi í slökkviliði að lágmarki í fjögur ár. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) veitir slíka löggildingu.
[Slökkviliðsmenn sem stunda reykköfun skulu hafa staðist læknisskoðun, þrekpróf, þolpróf og aðra mælingu líkamsástands samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð. 2)] 3)
[Ráðherra skal að fenginni tillögu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) setja reglugerð 2) um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu, um reglubundna læknisskoðun vegna reykköfunar og um réttindi og skyldur slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna.] 3)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 792/2001. Rg. 1088/2013. 3)L. 161/2010, 14. gr.
18. gr. Slysatrygging slökkviliðsmanna.
Slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra skulu tryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi í samræmi við áhættu starfsins. Lágmarkstrygging þeirra skal vera í samræmi við skilmála um slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Þeir sem verða fyrir tjóni við störf samkvæmt lögum þessum eiga rétt á að fá tjónið bætt úr sveitarsjóði, enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Náist ekki samkomulag um bætur skal tjónið metið af dómkvöddum mönnum.
19. gr. Þjónustuskylda í slökkviliði.
Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri sem hafa búsetu í sveitarfélagi eru skyldir til þjónustu í slökkviliði. Þeim er skylt að koma til æfinga í störfum slökkviliðs allt að 20 klukkustundir á ári og auk þess skulu þeir koma hvenær sem eldsvoða ber að höndum samkvæmt nánari reglum um útköll.
Sveitarstjórn skipar menn í slökkvilið, sbr. 1. mgr., að fengnum tillögum slökkviliðsstjóra. Um þóknun fyrir störf í slökkviliði fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar að höfðu samráði við samtök slökkviliðsmanna.
Í sveitarfélögum þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum má takmarka skyldur skv. 1. og 2. mgr. eða fella þær niður.
20. gr. Sérstök heimild slökkviliðs.
[Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku, á öllum þeim stöðum þar sem skoðunar eða eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum. Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgangi inn í íbúðarhús sem tekið hefur verið í notkun án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum úrskurði dómara.] 1)
Heimilt er slökkviliði, lögreglu eða þeim sem þessir aðilar kveðja til að fjarlæga hvern þann sem truflar slökkvistarf eða gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja starf slökkviliðs.
Slökkviliði er heimilt að veita aðstoð við slökkvistarf eða viðbrögð við mengunaróhappi utan eigin umdæmis. Slökkviliðsstjóri ákveður hverju sinni hvernig aðstoð er veitt án þess að brunavörnum í umdæmi slökkviliðs sé stofnað í hættu að hans mati. Það sveitarfélag sem aðstoðar nýtur greiðir kostnað við hana. Verði ágreiningur um kostnað skal hann ákveðinn af dómkvöddum matsmönnum.
    1)L. 161/2010, 15. gr.

V. kafli. Almennar skyldur.
21. gr. Skylda til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón af völdum eldsvoða og mengunaróhappa.
Sé eldur laus eða hafi mengunaróhapp orðið á landi eða bráð hætta er á að slíkt atvik verði skal sá er þess verður vís leitast við að bjarga fólki frá bráðri lífshættu og vara þá við sem nærstaddir eru. Geti hann það ekki skal hann tafarlaust kveðja til slökkvilið eða aðra tiltæka hjálp.
[Þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum er hverjum manni skylt að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf eða aðgerðir vegna mengunaróhapps. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds eða mengunar. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við störf sín þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum.
Fjártjón sem hlýst af ráðstöfunum vegna eldsvoða skv. 2. mgr. telst brunatjón og skal viðkomandi vátryggingafélag bæta það sé eign brunatryggð. Sveitarstjórn greiðir kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs og vátryggingafélag greiðir ekki. Sveitarstjórn greiðir einnig kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða vegna mengunaróhapps í þeim tilvikum þegar sá sem veldur mengunaróhappi er ekki ábyrgur fyrir kostnaði við slíkar aðgerðir samkvæmt öðrum lögum.] 1)
    1)L. 161/2010, 16. gr.
22. gr. Meðferð elds og eldfimra efna.
Fara skal þannig með eld, eldfim efni og önnur hættuleg efni að sem allra minnst hætta sé á því að eldsvoði eða tjón af völdum mengunar geti af því hlotist.

VI. kafli. Skyldur eigenda og forráðamanna mannvirkja.
23. gr. Brunavarnir mannvirkja.
[Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.] 1)
Eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunavarnir, byggingarmál, öryggismál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.
Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í því, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki [byggingarfulltrúa] 2) og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi. [Áður en byggingarfulltrúi veitir samþykki sitt skal hann leita álits slökkviliðsstjóra.] 2)
[Ef breytingar eru gerðar á atvinnuhúsnæði með það að markmiði að nýta það til búsetu ber eiganda að afla sér tilskilinna leyfa áður en fólk tekur sér þar búsetu.] 1)
    1)L. 67/2007, 4. gr. 2)L. 161/2010, 17. gr.
24. gr. [Sérstök eldhætta eða hætta á mengun frá mannvirki eða lóð þess.
Skylt er að láta fara fram sérstaka brunahönnun á mannvirki og/eða lóð þegar um er að ræða nýtt mannvirki þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Brunahönnun skal lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar, sé hún til staðar, að öðrum kosti byggingarfulltrúa. Byggingarnefnd eða byggingarfulltrúi skal leita álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt.
Sé um að ræða lóð eða mannvirki sem þegar er byggt og er í rekstri og þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða skal slökkviliðsstjóri gera úttekt á brunavörnum þess, gera kröfu um úrbætur ef ástæða er til og leggja hana fyrir eiganda eða forráðamann. Sé brunavörnum slíks mannvirkis og lóðar í veigamiklum atriðum ábótavant getur slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi gert kröfu um að gerð sé brunahönnun á mannvirkinu.] 1)
Slökkviliðsstjóri getur að höfðu samráði við sveitarstjórn lagt svo fyrir að í mannvirkjum, sbr. 2. mgr., séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna, t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi. Slíkar ráðstafanir skulu koma fram í brunavarnaáætlun. Eigandi mannvirkis greiðir kostnað af slíkum ráðstöfunum.
Ráðherra skal að fengnum tillögum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) setja reglugerð 3) um brunahönnun mannvirkja.
    1)L. 10/2011, 2. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)Rg. 112/2012, sbr. 1173/2012, 350/2013, 280/2014 og 360/2016.

[VI. kafli A. Markaðssetning vöru sem áhrif hefur á brunaöryggi.]1)
    1)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. Kröfur um brunaöryggi vöru.
Hver sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöru sem getur haft áhrif á öryggi mannvirkja og fólks gagnvart eldi skal ábyrgjast að varan fullnægi öllum öryggiskröfum sem um hana gilda, í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun vörunnar. Óheimilt er að flytja inn eða selja vöru sem uppfyllir ekki þessar kröfur.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vörur sem falla undir þessa grein og skilyrði sem þær þurfa að uppfylla.] 1)
    1)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. a. Vörur til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti.
Sá sem ber ábyrgð á markaðssetningu búnaðar og verndarkerfa sem ætluð eru til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti skal ábyrgjast að búnaðurinn og verndarkerfin fullnægi þeim heilbrigðis- og öryggiskröfum sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun. Óheimilt er að markaðssetja búnað og verndarkerfi sem uppfylla ekki þessar kröfur.
Áður en búnaður og verndarkerfi sem falla undir þessa grein eru sett á markað skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans útbúa viðeigandi tæknigögn og framkvæma eða láta framkvæma mat á því hvort búnaðurinn og verndarkerfin uppfylla heilbrigðis- og öryggiskröfur. Samræmismat skal framkvæmt af tilkynntum aðila eftir því sem við á og í samræmi við kröfur sem skilgreindar eru í reglugerð. Framleiðandi skal á grundvelli samræmismats gefa út samræmisyfirlýsingu og festa CE-merkingu á viðkomandi búnað og verndarkerfi og sérstaka merkingu sem gefur til kynna „sprengivörn“ því til staðfestingar. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans ber allan kostnað af samræmismati og CE-merkingu.
Ráðherra tilkynnir viðeigandi stjórnvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu um þá íslensku aðila sem hafa heimild til að annast samræmismat samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Ráðherra annast einnig eftirlit með tilkynntum aðilum hér á landi en getur falið [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að annast það fyrir sína hönd. Tilkynntur aðili skal hafa faggildingu og faglega þekkingu til að framkvæma samræmismat. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. og ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Sé tilkynntur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.
Búnaður og verndarkerfi sem falla undir þessa grein eru álitin uppfylla heilbrigðis- og öryggiskröfur ef þau uppfylla ákvæði samhæfðra evrópskra staðla eða hluta slíkra staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) birtir á vefsíðu sinni lista yfir staðla sem varða búnað og verndarkerfi er falla undir þessa grein. Ráðherra getur með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðla samkvæmt þessari málsgrein.
Ráðherra setur reglugerð 2) um nánari framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um:
    a. Skilgreiningu á skyldum og ábyrgð framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila.
    b. Kröfur um samræmismat í samræmi við þá hættu sem stafað getur af búnaði eða verndarkerfi sem undir þessa grein falla. Samræmismat getur m.a. falið í sér kröfu um ESB-gerðarprófun, gæðatryggingu í framleiðslu, sannprófun vöru, gerðarsamræmi, gæðatryggingu vöru, innra eftirlit með framleiðslu eða sannprófun eintaka.
    c. Gerð og form samræmisyfirlýsingar, þ.m.t. tungumálakröfur, kröfur um CE-merkingu og aðrar merkingar. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að samræmisyfirlýsing og leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál séu á íslensku.
    d. Kröfur sem gerðar eru til tilkynnts aðila og um hlutverk hans og skyldur við framkvæmd samræmismats og eftir atvikum afturköllun vottorða.
    e. Kröfur um gerð og afhendingu tæknigagna og annarra gagna, þ.m.t. tungumálakröfur. Heimilt er í reglugerð að krefjast þess að slík gögn séu á íslensku.
    f. Heilbrigðis- og öryggiskröfur sem búnaður og verndarkerfi sem falla undir þessa grein þurfa að uppfylla.
    g. Kröfur sem gerðar eru til framleiðanda, viðurkennds fulltrúa, innflytjanda og dreifingaraðila um vistun gagna og upplýsinga vegna markaðseftirlits.
    h. Birtingu staðla.] 3)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 313/2018. 3)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. b. Opinbert markaðseftirlit.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) hefur eftirlit með því að vara á markaði sem fellur undir 25. gr. og 25. gr. a uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Stofnunin fylgist með vöru á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um slíka vöru og tekur við ábendingum þess efnis.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur falið skoðunarstofu, sem faggilt er í samræmi við ákvæði laga um faggildingu o.fl., að skoða vöru á markaði og meta hvort hún uppfyllir ákvæði laga þessara. Skoðun fer fram með faglegu mati sem lýtur að skilgreindum reglum. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur falið faggiltri prófunarstofu að prófa vöru og meta hvort hún uppfyllir ákvæði laga þessara. Beiting réttarúrræða skv. 25. gr. d og 25. gr. e skal vera í höndum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit við innflutning.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd markaðseftirlits og beitingu réttarúrræða samkvæmt þessum kafla.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. c. Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun], 1) eða eftir atvikum þeim sem hefur verið falið markaðseftirlit skv. 2. mgr. 25. gr. b, er heimilt að skoða vöru hjá framleiðanda, viðurkenndum fulltrúa hans, innflytjanda og dreifanda, taka sýnishorn af vöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem skrá yfir birgja og þá sem hafa vöruna á boðstólum, samræmisyfirlýsingu, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga, tæknigögn og annað sem að mati [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) er nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.
Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifandi ber kostnað vegna þeirra sýnishorna sem tekin eru til rannsóknar skv. 1. mgr. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem nauðsynlegur er til rannsóknar.
Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifandi ber allan kostnað af innköllun vöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi hans eða innflytjandi bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi eða dreifandi greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans, innflytjanda eða dreifanda er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings, enda sé það gert í samráði við [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
Sá sem markaðssetur vöru sem fellur undir 25. gr. og 25. gr. a hér á landi skal halda skrá yfir allar slíkar vörur sem hann hefur á boðstólum.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. d. Réttarúrræði [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar].1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru sem fellur undir 25. gr. og 25. gr. a ef hún uppfyllir ekki heilbrigðis- og öryggiskröfur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, sem og aðrar kröfur þeirra, þ.m.t. um CE-merkingar og aðrar merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk, svo sem samræmisyfirlýsingu, samræmisvottorð, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
Leiki rökstuddur grunur á að vara uppfylli ekki heilbrigðis- og öryggiskröfur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, sem og aðrar kröfur, getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) fyrirskipað innköllun hennar, innkallað eða ákveðið tímabundið bann við sölu eða afhendingu hennar á meðan mat á viðkomandi vöru fer fram. Ef í ljós kemur að vara sem lýst hefur verið yfir að samræmist ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim skapar hættu á því að heilbrigðis- eða öryggiskröfum verði ekki fullnægt getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) fyrirskipað innköllun þeirrar vöru eða bannað eða takmarkað markaðssetningu hennar.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að beita dagsektum, allt að 500.000 kr. á dag, til að knýja á um þær skyldur sem lög þessi kveða á um eða að látið sé af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir og kostnað má innheimta með fjárnámi.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að birta skýrslur um niðurstöður markaðseftirlits á vef stofnunarinnar, enda hafi ábyrgðaraðilum verið veittur sanngjarn frestur til úrbóta. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) skal gefa út verklagsreglur um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og birta á vef stofnunarinnar.
Ákvæði VIII. kafla um þvingunarúrræði og viðurlög gilda ekki vegna eftirlits með markaðssetningu vöru sem hefur áhrif á brunaöryggi og fellur undir þennan kafla.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. e. Stjórnvaldssektir.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur lagt stjórnvaldssektir á lögaðila sem brýtur gegn 25. gr., 25. gr. a eða gegn ákvörðunum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) skv. 25. gr. d.
Stjórnvaldssektir geta numið allt að 5.000.000 kr.
Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Málskot frestar aðför.
Heimild [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 7. mgr. rofnar þegar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 65/2016, 1. gr.
[25. gr. f. Kærur.
Stjórnvaldsákvarðanir [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) sem teknar eru á grundvelli ákvæða þessa kafla, að undanskildum ákvörðunum um stjórnvaldssektir, sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Kæruheimild 36. gr. gildir ekki vegna markaðssetningar vöru sem hefur áhrif á brunaöryggi og fellur undir þennan kafla.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 65/2016, 1. gr.

VII. kafli. Tilkynningar um eldsvoða og rannsóknir.
26. gr. Tilkynningarskylda.
Þeim sem verður fyrir brunatjóni er skylt að tilkynna það til hlutaðeigandi lögreglustjóra svo fljótt sem unnt er.
27. gr. Lögreglurannsókn.
Lögregla rannsakar eldsvoða þegar eftir brunatjón samkvæmt ákvæðum laga um meðferð [sakamála] 1) og kveður til sérfróða menn eftir því sem hún telur þörf á. Hún tilkynnir [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 2)3) um eldsvoðann og rannsókn sína.
Að lokinni rannsókn sendir lögreglan afrit af rannsóknargögnum til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar], 2) hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra og vátryggingafélags nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum.
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)L. 161/2010, 20. gr.
28. gr. Rannsókn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar].1)
Verði manntjón eða mikið eignatjón í eldsvoða skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun], 1) óháð lögreglurannsókn, rannsaka eldsvoðann, kröfur eldvarnaeftirlits og hvernig að slökkvistarfi hafi verið staðið.
Vátryggingafélög skulu senda [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) upplýsingar ár hvert um bætt tjón af völdum bruna og mengunaróhappa á landi.
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur krafið sveitarfélög nauðsynlegra upplýsinga um stöðu brunavarna og um búnað og starfsemi slökkviliða í sveitarfélaginu.] 2)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 161/2010, 21. gr.

VIII. kafli. Þvingunarúrræði og viðurlög.
29. gr. Aðgerðir til að knýja fram úrbætur.
[Ef ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim eru brotin skal slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Byggingarfulltrúi eða eftir atvikum heilbrigðisfulltrúi viðkomandi sveitarfélags aðstoðar slökkviliðsstjóra til að knýja eiganda og eftir atvikum forráðamann mannvirkis til úrbóta.] 1)
Slökkviliðsstjóri getur beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja fram úrbætur vegna mannvirkis …, 2) [starfsemi í því eða á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar sorps og annars úrgangs eða geymslu eldfimra efna [eða vegna brota á ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim] 2)]: 1)
    1. veitt skriflega áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
    2. fyrirskipað öryggisvakt á kostnað eiganda eða forráðamanns og veitt skriflega áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
    3. bannað notkun mannvirkis að hluta eða að öllu leyti þar til úr hefur verið bætt og krafist lokunar.
[Sé ákvæðum 2. mgr. beitt skal eigandi eða umráðamaður mannvirkis eða lóðar bera kostnað af eftirliti með því að farið hafi verið að kröfum um úrbætur. Sveitarfélag skal setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein og um innheimtu þeirra. Gjöld skulu ekki vera hærri en nemur kostnaði við framkvæmd eftirlitsins. Gjöldum samkvæmt þessari málsgrein fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi. [Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.] 2)] 1)
[Slökkviliðsstjóri getur ákveðið að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda eða forráðamanns mannvirkis.] 2) Kostnað má innheimta með fjárnámi.
    1)L. 67/2007, 5. gr. 2)L. 161/2010, 22. gr.
30. gr. Öryggisvakt.
Ef unnt er að tryggja lágmarksöryggi fólks með aðgerðum til bráðabirgða skal slökkviliðsstjóri fyrirskipa að staðin verði öryggisvakt, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 29. gr., á kostnað eiganda eða forráðamanns meðan unnið er að úrbótum. Notkun mannvirkis er heimil meðan unnið er að úrbótum.
31. gr. Lokun mannvirkis.
Slökkviliðsstjóri skal krefjast lokunar mannvirkis, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr., ef um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða, enda verði öryggisvakt ekki við komið. Ef aðili sinnir ekki úrbótum innan tilskilins frests, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 29. gr., getur slökkviliðsstjóri jafnframt krafist lokunar mannvirkis.
Slökkviliðsstjóri skal tafarlaust tilkynna hlutaðeigandi sveitarstjórn, eiganda og/eða forráðamanni mannvirkis fyrirhugaða lokun. Að því loknu skal lögreglustjóri loka mannvirki þar til gerðar hafa verið viðeigandi úrbætur að mati slökkviliðsstjóra og lögreglustjóra.
32. gr. Dagsektir.
Í áminningu skv. 1. og 2. tölul. 29. gr. skal koma fram að sinni aðili ekki úrbótum innan tilskilins frests sé heimilt að krefjast dagsekta eftir að frestur er liðinn þar til úr hefur verið bætt … 1). [Slökkviliðsstjóri tekur ákvörðun um að leggja á dagsektir samkvæmt þessari grein.] 1) Dagsektir renna til viðkomandi sveitarsjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    1)L. 67/2007, 6. gr.
33. gr. Íhlutun [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) og ráðherra.
Telji [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að brotin séu ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim og slökkviliðsstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) benda slökkviliðsstjóra á það sem bæta þarf úr. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) hefur rétt til að beita sömu þvingunarúrræðum og slökkviliðsstjóri ef ekki er úr bætt.
Telji [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim ber stofnuninni að undangenginni viðvörun til sveitarstjórnar að tilkynna það [ráðuneytinu]. 2) Telji ráðherra að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni getur ráðuneytið gripið til nauðsynlegra aðgerða á kostnað viðkomandi sveitarfélags.
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 126/2011, 307. gr.
34. gr. Refsingar.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum. Séu sakir miklar varða brot fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot hans framin í starfi hans hjá lögaðilanum.
35. gr. Málsmeðferð.
Við meðferð mála samkvæmt þessum kafla skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á.

IX. kafli. Málsmeðferð og ýmis ákvæði.
36. gr. Ágreiningur um framkvæmd laganna.
Rísi ágreiningur um ákvörðun annars aðila en [ráðherra] 1) um framkvæmd laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim er heimilt að kæra umrædda ákvörðun til ráðherra sem kveður upp endanlegan úrskurð á stjórnsýslustigi. Þetta gildir þó ekki um lögreglurannsókn skv. 27. gr. Um kærurétt og málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
Ef upp kemur ágreiningur á milli slökkviliðsstjóra annars vegar og eiganda eða forráðamanns hins vegar um úrræði þau sem mælt er fyrir um í 29.–32. gr. er heimilt að vísa þeim ágreiningi til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 2)
Heimilt er að kæra ákvörðun sem tekin er á grundvelli VIII. kafla til ráðherra og skal það gert innan mánaðar frá því að hún var tilkynnt.
    1)L. 126/2011, 307. gr. 2)L. 137/2019, 19. gr.
37. gr.1)
    1)L. 161/2010, 23. gr.
38. gr. Námsstyrkir.
Heimilt er [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) að veita þeim sem starfa að brunamálum styrki til náms á sviði brunamála í samræmi við fjárlög hverju sinni.
[[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) annast úthlutun styrkja.] 2) Ráðherra setur ákvæði um styrki og úthlutun þeirra í reglugerð. 3)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)L. 161/2010, 24. gr. 3)Rg. 266/2001.
[38. gr. a. Þjónustuaðilar brunavarna.
Þeir sem bjóða þjónustu við viðhald, skoðun, áfyllingu og þrýstiprófun handslökkvitækja og reykköfunarbúnaðar skulu hafa starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 1) Skilyrði til að öðlast slíkt starfsleyfi er að viðkomandi þjónustuaðili uppfylli kröfur reglugerðar 2) sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað vegna starfseminnar og að þeir starfsmenn sem annast uppsetningu, viðhald og skoðun slíks búnaðar hafi lokið námi og staðist próf sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) heldur.
Þeir sem annast uppsetningu, viðhald og þjónustu brunaviðvörunarkerfa og slökkvikerfa, svo og þeir sem annast brunaþéttingar mannvirkja, skulu hafa starfsleyfi frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) og skulu viðkomandi starfsmenn hafa lokið námi sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) viðurkennir.
Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis skv. 1. og 2. mgr. er að sett hafi verið upp fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi vegna starfseminnar í samræmi við kröfur sem ákveðnar eru í reglugerð.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) getur svipt þjónustuaðila starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef þjónustuaðili hlítir ekki fyrirmælum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 1) eða brýtur ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.
Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari kröfur um framkvæmd þessarar greinar, þ.m.t. um veitingu starfsleyfis fyrir starfsmenn þjónustuaðila og um nám þeirra og próf.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 1) er heimilt að innheimta gjald við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þessari grein og fyrir námskeiðshald. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem fram koma þau rök sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.] 3)
    1)L. 137/2019, 19. gr. 2)Rg. 1067/2011, sbr. 1353/2021. 3)L. 161/2010, 25. gr.
39. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra setur með reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að fenginni tillögu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]. 2)
Reglugerð 3) um brunavarnir í samgöngumannvirkjum setur ráðherra að fengnum tillögum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar] 2) og að fenginni umsögn [þess ráðherra er fer með samgöngumál]. 4)
Við setningu reglugerða samkvæmt lögum þessum skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði sem varða skyldur sveitarfélaga.
    1)Rg. 914/2009, sbr. 1355/2021. Rg. 1067/2011, sbr. 1353/2021. Rg. 1068/2011, sbr. 1354/2021. Rg. 1088/2013. Rg. 723/2017, sbr. 1352/2021. Rg. 747/2018, sbr. 1278/2021. 2)L. 137/2019, 19. gr. 3)Rg. 614/2004, sbr. 1356/2021. 4)L. 126/2011, 307. gr.
[40. gr. Innleiðing.
Ákvæði VI. kafla A eru til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti (endurútgefin).] 1)
    1)L. 65/2016, 2. gr.
[41. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001
Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru samkvæmt eldri lögum skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi.
    1)L. 65/2016, 2. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Á árunum 2001 til og með 2005 er Brunamálastofnun heimilt að veita þeim sveitarfélögum tímabundinn fjárstuðning sem sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs, sbr. 14. gr., eftir reglum 1) sem ráðherra setur að fenginni umsögn brunamálaráðs. Heildarfjárstuðningur skal ákveðinn í fjárlögum hvers árs og skal hann ekki vera lægri ár hvert en sem nemur mismun á innheimtu brunavarnagjaldi annars vegar og kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar hins vegar.
    1) Rgl. 739/2001.
II.
Í sveitarfélögum skal liggja fyrir brunavarnaáætlun, sbr. 13. gr., innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara. Brunamálastofnun gefur út leiðbeiningar um efni og gerð slíkra áætlana innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.
III.
Ákvæði 15. gr. um hæfisskilyrði slökkviliðsstjóra gilda ekki um þá slökkviliðsstjóra sem ráðnir hafa verið til starfa fyrir gildistöku laga þessara.
IV.
Endurskoða skal ákvæði laga þessara og annarra laga sem fjalla um byggingarefni og öryggi bygginga, sem og ákvæði reglugerða á þeim byggðum, með það fyrir augum að sameina réttarheimildir um byggingar og önnur mannvirki og einfalda framkvæmd þeirra, þar með að heimila notkun skoðunarstofa í eftirliti með gerð og viðhaldi bygginga og annarra mannvirkja.
[V.
Ef í ljós kemur að atvinnuhúsnæði er í óleyfi nýtt til búsetu er slökkviliðsstjóra heimilt að krefjast þess, í samvinnu við byggingarfulltrúa, að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum í húsnæðinu til að tryggja öryggi fólks þrátt fyrir að búseta sé þar óheimil samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Eigi síðar en 1. janúar 2009 skulu eigendur slíks húsnæðis hafa aflað sér leyfis samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir breyttri notkun húsnæðisins þannig að búseta verði þar heimil. Fáist ekki slíkt leyfi skal eigandi eigi síðar en 1. mars 2009 rýma húsnæðið og láta af hinni ólögmætu notkun, enda hafi slökkviliðsstjóri ekki fyrir þann tíma fyrirskipað lokun þess skv. 31. gr. Þótt ekki fáist leyfi fyrir búsetu í húsnæðinu á eigandi mannvirkis ekki rétt á skaðabótum vegna kostnaðar hans af úrbótum skv. 1. málsl.] 1)
    1)L. 67/2007, 7. gr.