Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 811, 150. löggjafarþing 319. mál: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Lög nr. 137 22. desember 2019.

Lög um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Stofnunin.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er sjálfstæð stofnun sem lýtur sérstakri stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir ráðherra.

2. gr.

Hlutverk.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði húsnæðismála, mannvirkjamála, rafmagnsöryggismála og mála er varða byggingarvörur og brunavarnir svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Stofnunin skal stuðla að því að jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði, m.a. með húsnæðisstuðningi, lánveitingum, rannsóknum, upplýsingagjöf, áætlanagerð og eftirliti. Einnig skal stofnunin leitast við að tryggja að almenningur hafi aðgang að öruggu og vistvænu húsnæði á viðráðanlegu verði og í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu, þannig að almenningur hafi raunverulegt val um búsetuform.
     Stofnunin gegnir jafnframt samræmingarhlutverki, sinnir samstarfi við sveitarfélög um stjórnsýslu húsnæðis- og mannvirkjamála og stuðlar að fyrirsjáanleika, skilvirkni og gæðum mannvirkjagerðar.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast umsýslu Húsnæðissjóðs.

3. gr.

Verkefni.
     Um verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fer samkvæmt lögum um mannvirki, lögum um húsnæðismál, lögum um almennar íbúðir, lögum um húsnæðisbætur, lögum um byggingarvörur, lögum um brunavarnir, lögum um timbur og timburvöru, lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, efnalögum, lögum um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun, lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun og öðrum lögum eftir því sem við getur átt.
     Stofnunin skal stýra formlegum samráðsvettvangi með hagsmunaaðilum á þeim fagsviðum sem undir hana heyra með það að markmiði að auka samstarf um gerð og öryggi mannvirkja.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.

4. gr.

Stjórn.
     Með yfirstjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fer fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Skulu formaður stjórnar og þrír stjórnarmenn skipaðir án tilnefningar en einn stjórnarmaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tveir varamenn skulu skipaðir án tilnefningar. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.
     Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Stjórnin setur sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í starfsreglum þessum skal m.a. fjallað sérstaklega um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir í einstökum málum og þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála. Ráðherra skal staðfesta starfsreglur stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Reglurnar skulu birtar opinberlega.
     Formanni stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir stofnunina en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formaður stjórnar, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórnin felur honum að vinna fyrir sig.

5. gr.

Forstjóri og aðrir starfsmenn.
     Ráðherra skipar forstjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Um laun og önnur launakjör forstjóra fer skv. 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
     Forstjóri ræður aðra starfsmenn til stofnunarinnar.

6. gr.

Hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra.
     Forstjóri skal hafa menntun á háskólastigi og hafa þekkingu og reynslu á málefnasviði stofnunarinnar auk reynslu af stjórnun, fjármálum og rekstri. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu eða reynslu af málaflokkum sem heyra undir stofnunina.
     Stjórnarmenn og forstjóri skulu vera lögráða og mega ekki hafa verið sviptir forræði á búi sínu á síðustu fimm árum. Þeir mega ekki hafa hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, eða sætt íþyngjandi stjórnvaldsviðurlögum sem einstaklingur eða fyrirsvarsmaður lögaðila á framangreindum sviðum. Þá mega þeir ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið, nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.

7. gr.

Þátttaka stjórnarmanna í meðferð mála.
     Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skal ekki taka þátt í ákvörðunum um afgreiðslu einstakra mála nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð stofnunarinnar eða annað sé ákveðið í lögum. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um afgreiðslu einstakra mála.
     Stjórnarmenn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef þeir eru vanhæfir til meðferðar máls skv. II. kafla stjórnsýslulaga.
     Erindi stjórnarmanna, sem og sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og félaga sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, sem lúta að ákvörðunum þeim tengdum, skulu lögð fyrir stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til samþykktar eða synjunar. Stjórninni er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða ákvarðanir þurfi eða þurfi ekki sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur.

8. gr.

Þátttaka starfsmanna í atvinnurekstri.
     Forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækis eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar getur þó veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem hún setur, sbr. einnig 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Eignarhlutur í félagi telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess.
     Starfsmönnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er óheimilt að starfa við hönnun mannvirkja. Um þátttöku í öðrum atvinnurekstri fer skv. 20. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

III. KAFLI
Þagnarskylda og meðferð gagna.

9. gr.

Þagnarskylda.
     Stjórnarmenn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, forstjóri, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu stofnunarinnar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.
     Sá sem veitir viðtöku upplýsingum sem trúnaður ríkir um skv. 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

10. gr.

Samþykki til miðlunar trúnaðarupplýsinga.
     Heimilt er að miðla til utanaðkomandi aðila upplýsingum sem trúnaður skal ríkja um skv. 9. gr. að fengnu skriflegu samþykki þess viðskiptamanns sem í hlut á. Í samþykki skal koma fram til hvaða upplýsinga það tekur, til hvaða aðila heimilt er að miðla upplýsingum á grundvelli þess og í hvaða tilgangi upplýsingunum er miðlað.

11. gr.

Vinnsla upplýsinga.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að afla og vinna með upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verður háttað, gögn varðveitt og niðurstöður birtar, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

IV. KAFLI
Fjármögnun o.fl.

12. gr.

Tekjur.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fjármagnar þau verkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum þessum með þeim hætti sem hér segir:
 1. Með framlögum úr ríkissjóði á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum hverju sinni.
 2. Með framlögum úr Húsnæðissjóði.
 3. Með þjónustugjöldum.


13. gr.

Húsnæðissjóður.
     Húsnæðissjóður er í eigu ríkisins og ber ríkið ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast stjórnun og daglega umsýslu sjóðsins, þ.m.t. umsýslu lánasafns, uppgjör, bókhald og gerð ársreikninga.
     Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjármagna lánveitingar á samfélagslegum forsendum samkvæmt lögum um húsnæðismál og hluta af rekstri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Óheimilt er að ráðstafa eignum og tekjum sjóðsins til annars en verkefna sem heyra undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lögum samkvæmt.
     Ráðstöfunarfé Húsnæðissjóðs er:
 1. Tekjur af eigin fé sjóðsins og afborgunum, vöxtum og verðtryggingu af lánum í eigu sjóðsins.
 2. Lán sem sjóðurinn tekur frá ríkissjóði í samræmi við áætlaða lánsþörf byggða á húsnæðisáætlunum.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi og fjármögnun Húsnæðissjóðs í reglugerð.

14. gr.

Eignastýring o.fl.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal varðveita og ávaxta það fé sem hún hefur umsjón með.
     Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar getur, að fengnu samþykki ráðherra, tekið ákvörðun um að fela öðrum varðveislu eigna stofnunarinnar, að nokkru leyti eða öllu.
     Ráðherra setur reglugerð um innra eftirlit stofnunarinnar, þ.m.t. áhættustýringu og innri endurskoðun.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.

15. gr.

Húsnæðisgrunnur og byggingagátt.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal starfrækja rafrænan gagnagrunn, húsnæðisgrunn, sem heldur utan um gögn og upplýsingar um húsnæðismál. Einnig skal stofnunin starfrækja rafræna byggingagátt sem sveitarfélög skulu nota við útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd stjórnsýslu byggingarmála, auk þess að halda utan um upplýsingar um mannvirki og mannvirkjagerð um land allt.

16. gr.

Gjaldtaka.
     Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá sem stjórn stofnunarinnar setur. Gjaldtaka skal aldrei vera hærri en nemur þeim kostnaði sem hlýst af því að veita þjónustuna.

17. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um skipulag starfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

18. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 31. desember 2019.
     Við gildistöku laga þessara skal Mannvirkjastofnun lögð niður og tekur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Mannvirkjastofnunar. Frá sama tíma tekur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun einnig við hlutverki, verkefnum og skyldum þess hluta Íbúðalánasjóðs sem tilheyrir rekstri Húsnæðisstofnunar samkvæmt starfsþáttayfirliti í ársreikningi Íbúðalánasjóðs 2018, sbr. skýringu 4 í ársreikningnum. Að auki tekur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun yfir starfsemi og eignir leigufélagsins Bríetar ehf. sem heyrir undir ÍLS-sjóð samkvæmt starfsþáttayfirlitinu, sbr. skýringu 13 í ársreikningi Íbúðalánasjóðs 2018.
     Eignir og réttindi þess hluta Íbúðalánasjóðs sem tilheyrir rekstri Húsnæðisstofnunar samkvæmt starfsþáttayfirliti í ársreikningi Íbúðalánasjóðs 2018, sbr. skýringu 4 í ársreikningnum, skulu renna til Húsnæðissjóðs, að undanskildu lausafé og rekstrareignum.
     Íbúðalánasjóður, sem fær nafnið ÍL-sjóður við gildistöku laga þessara, sinnir áfram þeim verkefnum og fer með þau réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar Íbúðalánasjóðs sem flytjast ekki til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Húsnæðissjóðs.
     Skiptingin miðaðist við 1. janúar 2018 og miðast endanlegar fjárhæðir við uppgjör 31. desember 2019. Öll lán Íbúðalánasjóðs sem veitt hafa verið eftir 1. janúar 2018 teljast til lánasafns Húsnæðissjóðs.
     Skuldabréf sem gefin hafa verið út á milli Húsnæðisstofnunar og ÍLS-sjóðs sem endurgjald fyrir lánasafnið sem fylgir Húsnæðisstofnun verða eign ÍL-sjóðs eftir gildistöku laga þessara og verður Húsnæðissjóður skuldari.

19. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum:
  1. Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
   1. Í stað orðanna „Íbúðalánasjóður veitir“ fjórum sinnum í greininni kemur: veitt eru.
   2. Orðin „gefin eru út í nafni Íbúðalánasjóðs (íbúðabréf) eða“ í orðskýringunni Fjármögnunarbréf falla brott.
   3. Á eftir orðskýringunni Fjármögnunarbréf kemur ný orðskýring, svohljóðandi: HMS-veðbréf eru skuldabréf sem kaupandi eða eigandi íbúðarhúsnæðis gefur út til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með veði í íbúðarhúsnæði.
   4. Á eftir orðunum „sem Íbúðalánasjóður“ í orðskýringunni Húsnæðislán kemur: annaðist og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
   5. Orðskýringin Íbúðabréf orðast svo: Íbúðabréf eru markaðshæf skuldabréf sem gefin voru út í nafni Íbúðalánasjóðs og sjóðurinn seldi á almennum markaði í því skyni að afla fjár fyrir lánveitingar sínar.
   6. Í stað orðsins „gefur“ í orðskýringunni ÍLS-veðbréf kemur: gaf.
   7. Orðin „eða ÍLS-veðbréfi“ í lok greinarinnar falla brott.
  2. 4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

  3. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
        Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með framkvæmd laga þessara að því leyti sem framkvæmdin er ekki falin öðrum. Skal stofnunin vera ráðgefandi fyrir ráðherra og önnur stjórnvöld í húsnæðismálum.
        Helstu verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt lögum þessum eru:
   1. Að vinna að stefnumótun á sviði húsnæðismála og annast greiningu og útgáfu upplýsinga á sviði húsnæðismála og meta húsnæðisþörf.
   2. Að annast og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á sviði húsnæðismála og koma á framfæri við almenning upplýsingum er varða húsnæðismál og stuðla að útgáfu upplýsinga um þau mál.
   3. Að halda utan um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og gera áætlanir um húsnæðis- og búsetuþörf.
   4. Að annast lánveitingar í samræmi við ákvæði laga þessara.
   5. Að eiga og reka leiguhúsnæði á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði eru á að fá fjármögnun á almennum markaði.
   6. Að sinna öðrum verkefnum í samræmi við markmið laga þessara samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

  4. III. kafli laganna, Íbúðalánasjóður, fellur brott.
  5. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóði“ í öllum beygingarföllum í 7. tölul. 1. mgr. og 4. mgr. 14. gr., 3. mgr. 14. gr. a, 14. gr. b, 1. mgr. 15. gr. og fyrirsögn 15. gr., 1. og 2. mgr. 16. gr., 18. gr., 1. og 3. mgr. 19. gr., 20. gr., 2. og 4. mgr. 21. gr., 29. gr., 1. og tvívegis í 3. mgr. 30. gr., 33. gr., 1. mgr. 35. gr., á fjórum stöðum í lokamálsgrein 36. gr., 4. og 5. mgr. 37. gr., tvívegis í 1. mgr. 39. gr., tvívegis í 1. mgr. og í 2. mgr. 40. gr., í þriðja sinn í 4. mgr. og í 7. og 8. mgr. 47. gr. og í lokamálsgrein 48. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  6. Í stað orðanna „ÍLS-veðbréf“, „ÍLS-veðbréfið“, „ÍLS-veðbréfi“ og „ÍLS-veðbréfa“ í orðskýringunni Almenn lán í 2. gr., níu sinnum í 19. gr. og fyrirsögn 19. gr., tvívegis í 2. mgr. og tvívegis í 4. mgr. 21. gr. og í 4. mgr. 36. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli og tölu: HMS-veðbréf.
  7. Í stað orðsins „sjóðsins“ í öllum beygingarföllum í 1. mgr. 16. gr., tvívegis í 18. gr., í 2. mgr. 21. gr., í 2. og 3. mgr. og tvívegis í 6. mgr. 47. gr. og í 4., 5. og 6. mgr. 48. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: stofnunin.
  8. 17. gr. laganna orðast svo:
  9.      Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal halda mismunandi lánaflokkum stofnunarinnar aðgreindum í bókhaldi.
  10. 3. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
  11.      Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ákvarðar vexti HMS-veðbréfa með hliðsjón af markmiðum lánveitingar og markaðsvöxtum á útgefnum ríkisskuldabréfum að viðbættu álagi til að mæta rekstrarkostnaði, áætluðum útlánatöpum og vaxtaáhættu stofnunarinnar.
  12. 22.–24. og 28. gr. laganna falla brott.
  13. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóði“ í 2. og 3. mgr. 26. gr. laganna kemur: ÍL-sjóði.
  14. Orðin „og 28.“ í 4. mgr. 36. gr. laganna falla brott.
  15. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóðs“ í 42. gr. laganna kemur: ÍL-sjóðs, Húsnæðissjóðs, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
  16. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ tvívegis í 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: ÍL-sjóður.
  17. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 1. og 2. mgr., tvívegis í 3. mgr., í fyrsta, annað og fjórða sinn í 4. mgr., tvívegis í 5. mgr. og þrisvar í 6. mgr. 47. gr. og í 1. mgr., 5. mgr. og tvívegis í 6. mgr. 48. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðissjóður og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  18. 49. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, fellur brott.
 2. Lög um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í öllum beygingarföllum í 5. tölul. 3. gr., 6. mgr. 7. gr., 3. mgr. 8. gr., þrisvar í 9. gr., tvisvar í 10. gr., tvisvar í 11. gr., 3. mgr. 12. gr., 5. tölul. 1. mgr. 13. gr., 4. mgr. 16. gr., þrettán sinnum í 17. gr., átta sinnum í 18. gr. og fyrirsögn 18. gr., 19. gr. og fyrirsögn 19. gr., sjö sinnum í 20. gr., sex sinnum í 21. gr., 6. mgr. 23. gr., 2. mgr. 24. gr., tvisvar í 25. gr., tvisvar í 26. gr., 3. mgr. 27. gr., sex sinnum í 28. gr., 6. mgr. 29. gr., fjórum sinnum í 32. gr., 1. mgr. 33. gr., þrisvar í 34. gr., 2. mgr. 35. gr., 2. mgr. 36. gr., 1. mgr. 37. gr., 1. mgr. 52. gr. og fyrirsögn 52. gr., tvisvar í 53. gr., tíu sinnum í 54. gr., þrisvar í 55. gr., fjórum sinnum í 56. gr., fjórum sinnum í 57. gr., sex sinnum í 60. gr., tvisvar í 61. gr. og í fyrirsögn 61. gr., tvisvar í 62. gr. og þrisvar í 2. tölul. og í 3., 4. og 6. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  2. Í stað orðanna „Mannvirkjastofnun, sbr. 5. gr.“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  3. 5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

  4. Verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
        Helstu verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt lögum þessum eru:
   1. að tryggja samræmingu á byggingareftirliti og eldvarnaeftirliti og starfsemi slökkviliða um land allt í samráði við viðkomandi stjórnvöld,
   2. að annast gerð leiðbeininga, verklagsreglna og skoðunarhandbóka á fagsviði stofnunarinnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila,
   3. að bera ábyrgð á markaðseftirliti með byggingarvörum samkvæmt lögum um byggingarvörur,
   4. að annast aðgengismál,
   5. að hafa eftirlit með framkvæmd laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996,
   6. að starfrækja rafrænt gagnasafn um mannvirki og mannvirkjagerð um land allt, sbr. 61. gr.,
   7. að annast kynningu og fræðslu fyrir almenning og hagsmunaaðila,
   8. að gefa út byggingarleyfi og annast eftirlit með þeim framkvæmdum sem falla undir 3. mgr. 9. gr.,
   9. að standa fyrir námskeiðum til réttinda fyrir hönnuði og byggingarstjóra og veita hönnuðum, iðnmeisturum og slökkviliðsmönnum löggildingu,
   10. að bera ábyrgð á starfrækslu Brunamálaskóla fyrir slökkviliðsmenn, þ.m.t. slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmenn,
   11. að gefa út starfsleyfi til byggingarstjóra og skoðunarstofa sem starfa samkvæmt lögum þessum og hafa eftirlit með starfsemi þeirra,
   12. að gefa út starfsleyfi til þjónustu- og eftirlitsaðila brunavarna og samþykkja brunavarnaáætlanir sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum laga um brunavarnir,
   13. að annast og stuðla að rannsóknum á sviði brunavarna, mannvirkjamála og manngerðs umhverfis í samvinnu við hagsmunaaðila og annast og stuðla að útgáfu upplýsinga um þau mál,
   14. að annast eldvarnaeftirlit vegna mannvirkja innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka sem eru fyrirhuguð eða tilkomin vegna rannsókna og vinnslu vetniskola,
   15. að taka þátt í starfi Staðlaráðs Íslands um gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði mannvirkjamála og tilnefna aðila til þátttöku í starfi Evrópusamtaka um tæknisamþykki (EOTA),
   16. að eiga samstarf við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum og á alþjóðavettvangi,
   17. að vera ráðuneytinu og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um mannvirkjamál og veita umsögn um álitamál á því sviði.

  5. 6. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, fellur brott.
  6. 9. og 11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum falla brott.
 3. Lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í öllum beygingarföllum hvarvetna nema í ákvæðum til bráðabirgða í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  2. Í stað orðsins „Sjóðurinn“ í 3. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 23. gr. og „sjóðnum“ í 5. mgr. 23. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: stofnunin.
 4. Lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 5. Lög um byggingarsamvinnufélög, nr. 153/1998, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóði“ í c-lið 3. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  2. Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 7. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 6. Lög um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóði“ í 2. tölul. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 7. Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóðs“ í 1. mgr. 116. gr. laganna kemur: Húsnæðissjóðs og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar; og í stað orðanna „þessir sjóðir“ í sömu málsgrein kemur: þessir aðilar.
 8. Lög um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, með síðari breytingum: 2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
 9. Lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóði“ í 1. og 2. mgr. 78. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 10. Lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum: 11. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.
 11. Lög um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara, nr. 166/2011, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 1. mgr. 1. gr. og 1. og 3. mgr. 3. gr. og „Íbúðalánasjóðs“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: ÍL-sjóður.
 12. Húsaleigulög, nr. 36/1994, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 2. mgr. 86. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 13. Lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóð“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: ÍL-sjóð.
  2. Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóðs“ í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: eða ÍL-sjóðs.
 14. Lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, með síðari breytingum: Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóður“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: ÍL-sjóður, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 15. Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum: Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóður“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: ÍL-sjóður, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 16. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum:
  1. Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóði“ í 2. og 5. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur: ÍL-sjóði og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
  2. Á eftir orðinu „Íbúðalánasjóður“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laganna kemur: ÍL-sjóður, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 17. Lög um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Íbúðalánasjóður“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: ÍL-sjóður.
 18. Lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, með síðari breytingum: Orðið „Íbúðalánasjóður“ í b-lið 2. tölul. 2. gr. laganna fellur brott.
 19. Lög um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 20. Lög um byggingarvörur, nr. 114/2014: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 21. Efnalög, nr. 61/2013, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 10. gr. a laganna og fyrirsögn greinarinnar kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
  2. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í 1. mgr. 47. gr. d laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 22. Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 2. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
 23. Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 2. og 3. mgr. 4. gr. og 2. og 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
 24. Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
  2. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 25. Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 26. Lög um notkun raflagna og raffanga í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli, nr. 135/2007, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 1. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
  2. Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í 2. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 27. Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í 6. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 28. Skipulagslög, nr. 123/2010, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 6. tölul. 2. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
 29. Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Mannvirkjastofnun getur út“ í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út.
 30. Lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 31. Lög um timbur og timburvöru, nr. 95/2016, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 32. Lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun, nr. 42/2009, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 33. Vopnalög, nr. 16/1998, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnunar“ í 33. gr. b laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
 34. Lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Mannvirkjastofnun“ í öllum beygingarföllum hvarvetna í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
 35. Lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, með síðari breytingum: Í stað orðsins „Vinnumálastofnun“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Öll störf hjá Íbúðalánasjóði og Mannvirkjastofnun eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsmönnum stofnananna skal boðið starf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Embætti forstjóra Íbúðalánasjóðs og forstjóra Mannvirkjastofnunar eru lögð niður við gildistöku laga þessara.
     Þrátt fyrir 18. gr. er ráðherra heimilt að skipa forstjóra og stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fyrir 31. desember 2019 og skal stjórnin hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða starfsmönnum Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar annað starf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sbr. 1. mgr.
     Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2019.