Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 42. máls.

Þskj. 43  —  42. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 .

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Áætlunin byggist á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun í samræmi við aðra stefnumótun við gerð Sóknaráætlunar 2020.
    Meginmarkmið byggðaáætlunarinnar verði að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.
    Til þess að ná markmiðum áætlunarinnar verði gripið til eftirfarandi aðgerða sem falla undir átta skilgreind lykilsvið:
     1.      Atvinnustefna. Kjarni atvinnustefnunnar er bætt samkeppnishæfni, nýsköpun og sjálfbær þróun atvinnulífsins þar sem byggt er á sérstöðu og styrkleikum hvers svæðis eða atvinnugreinar fyrir sig, menntun, rannsóknum og margvíslegum menningar- og samfélagslegum þáttum.
     2.      Samþætting áætlana og aukið samstarf. Samþætting opinberra áætlana, m.a. á sviði byggðamála, menntamála, orkumála, samgangna, fjarskipta og menningarmála, er hugsuð í þeim tilgangi að bæta árangur í þágu atvinnulífs og búsetuskilyrða auk betri nýtingar fjármuna.
     3.      Efling stoðkerfis atvinnulífsins. Tilgangurinn með þessu er m.a. að auka skilvirkni atvinnulífsins og gera það einfaldara. Það er meðal annars gert með því að leggja áherslu á vaxtarsamninga sem byggjast á klasahugsun og á svæðisbundin þekkingarsetur sem samþætta þverfagleg fræðasvið og staðbundnar áherslur, sérkenni og styrkleika og eru líkleg til að skila auknum árangri í nýsköpun og atvinnuþróun.
     4.      Nýsköpun og sprotafyrirtæki. Stuðningur við nýsköpun og sprotafyrirtæki verði þrenns konar. Í fyrsta lagi í gegnum menntakerfið og stoðkerfi atvinnulífsins, svo sem Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin, starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og sjóði til stuðnings nýsköpun, atvinnusköpun og sprotafyrirtækjum. Í öðru lagi í gegnum skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar. Í þriðja lagi í gegnum skilgreind verkefni, klasa eða áherslur opinberra aðila, svo sem að auka hlutfall innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum eða að þróa leiðir til að nýta eða binda koltvísýring úr útblæstri orku- og iðjuvera.
     5.      Erlend nýfjárfesting í atvinnulífinu. Til viðbótar við innlenda nýsköpun og vöxt atvinnulífsins, sem kalla má „innri vöxt“, er mikilvægt að stuðla markvisst að erlendri nýfjárfestingu í atvinnulífinu. Rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestingar mun taka til svæða sem skilgreind eru á byggðakorti Eftirlitsstofnunar EFTA og mikilvægt að atvinnuþróunarfélög eigi samstarf við Fjárfestingarstofu um kynningu á helstu kostum og styrkleikum svæða.
     6.      Efling ferðaþjónustu. Eftir mikinn vöxt, vöruþróun og nýsköpun á síðustu árum er ferðaþjónustan orðin ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og skapar um fimmtung gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Mikilvægt er að byggja nú á þeim styrkleikum sem til staðar eru og markaðssetja þá sérstaklega gagnvart erlendum ferðamönnum um leið og gætt er að gæðum og frekari vöruþróun. Horfa þarf sérstaklega til sviða þar sem sérstaða íslenskrar náttúru, afurða og náttúruauðlinda nýtist, svo sem heilsu- og lífsstílstengdrar ferðaþjónustu.
     7.      Félagsauður. Félagsauður hvers svæðis er grundvöllur atvinnulífs, þjónustu og almennrar þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Félagsauðurinn ræður því miklu um almenn búsetuskilyrði og samkeppnishæfni. Menntun, menning, félagsstarf, lýðræðisleg þátttaka í stefnumótun og framtíðarsýn eru allt atriði sem skipta máli. Jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun er sérstakt viðfangsefni sem líta þarf til.
     8.      Efling menningarstarfs og skapandi greina. Menning og listir skipa æ ríkari sess í nýsköpun og eflingu atvinnulífs um land allt og hafa þar með jákvæð áhrif á byggðaþróun. Svæðisbundnir menningarsamningar hafa reynst vel og styðja við fjölbreytt menningar- og listalíf á landsbyggðinni og efla tengsl lista og menningartengdrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að styrkja grundvöll skapandi greina með því að auka áherslu á menntun á þessu sviði. Nýta má menningarsamninga og vaxtarsamninga í þessu skyni og koma á víðtæku samstarfi við þekkingarsetur og menningarsetur í heimabyggð, framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um eflingu menntunar á sviði skapandi greina.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi, skv. 7. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, tillögu að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Í henni skal einnig gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um Byggðastofnun nr. 347/2000 segir jafnframt að í byggðaáætlun skuli gerð grein fyrir framvindu gildandi byggðaáætlunar. Lögum samkvæmt vann iðnaðarráðherra að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun og hafði við gerð hennar víðtækt samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög og fleiri.
    Haustið 2008 fól iðnaðarráðuneyti Byggðastofnun að vinna frumdrög að nýrri byggðaáætlun sem skyldi byggja á grunni gildandi áætlunar fyrir árin 2006–2009. Árið 2009 var þessi grunnur endurskoðaður með tilliti til samstarfsyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar og ákveðið að móta byggðaáætlunina þannig að hún yrði fyrst og fremst innlegg í Sóknaráætlun 2020 sem nú er unnið að.
    Hér á eftir er fyrst farið stuttlega yfir meginmarkmiðin á hverju lykilsviði fyrir sig og svo fylgir listi yfir aðgerðir sem eru leiðir til að hrinda markmiðunum í framkvæmd.

I. Atvinnustefna.

    Mikilvægur liður í Sóknaráætlun 20/20 verður greining á styrkleikum og samkeppnishæfni atvinnulífs á Íslandi, bæði einstakra landshluta og atvinnugreina. Unnið verður í nánu samráði við helstu hagsmunaaðila. Við úrvinnslu og eftirfylgni verður byggt á klasahugmyndafræði um samstarf í samkeppni. Auk niðurstöðu samkeppnisgreininga sóknaráætlunar er lagt til að þegar verði hugað að uppbyggingu klasa á sviðum þar sem sterkur vísir er þegar til staðar. Þá þarf að huga sérstaklega að samkeppnishæfni Íslands á sviði beinna erlendra fjárfestinga.

1. Samkeppnishæfni og klasar.

    Markmið: Skilgreina styrkleika og samkeppnishæfni.

    Meginhugmynd: Í samráði við helstu hagsmunaaðila verður unnin greining á styrkleikum og samkeppnishæfni atvinnulífs á Íslandi, bæði einstakra landshluta og atvinnugreina, með tilliti til nýsköpunar, rannsókna og þróunar og beinna fjárfestinga. Lögð verður áhersla á að byggja á þeim þáttum sem þegar eru til staðar. Sérstaklega verður litið til sóknarfæra sem stuðla að klasasamstarfi atvinnugreina innan landshluta. Stoðkerfi atvinnulífsins tekur svo mið af greiningunni á samkeppnishæfni við ákvarðanir um uppbyggingu og stuðning auk þess sem atvinnustefnan mun birtast í samþættingu opinberra áætlana.

     Árangursmat: Innleiðing stefnumótunar hjá stoðkerfi atvinnulífs og í samþættingu opinberra áætlana. Stofnun klasasamstarfs og samvinnuverkefni innlendra og erlendra aðila um uppbyggingu.

    Ábyrgð á framkvæmd: Stýrihópur sóknaráætlunar á vegum forsætisráðuneytis.

    Aðrir þátttakendur:
Iðnaðarráðuneyti, Nýsköpunarmiðstöð, viðskiptaráðuneyti, umhverfisráðuneyti, atvinnuþróunarfélög/sveitarfélög, Fjárfestingarstofa.

    Tímaáætlun: 2010.

2. Heildstæð orkunýtingarstefna.

    Markmið:
Að ljúka mótun heildstæðrar orkunýtingarstefnu.

    Meginhugmynd: Lokið verði við mótun heildstæðrar orkustefnu á vegum iðnaðarráðuneytisins, með áherslu á græna atvinnustarfsemi, m.a. með því að nýta endurnýjanlega orku á sjálfbæran og samfélagslega ábyrgan hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Fjallað verður sérstaklega um möguleika á nýtingu orkuauðlinda til atvinnu- og verðmætasköpunar á næstu missirum. Breyttar aðstæður, bæði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og ný eftirspurn frá umhverfisvænum iðnaði kalla á nýja nálgun við uppbyggingu og fjármögnun orkuöflunar svo við getum mætt eftirspurninni. Í tengslum við mótun atvinnustefnu verði lagðar áherslur um það til hvers kyns uppbyggingar nýta á orkuauðlindirnar og tækifærin svo kynnt markvisst fyrir mögulegum fjárfestum.
              Unnið er að því að rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái lögformlega stöðu og að á grundvelli hennar verði reglubundið lögð fram þingsályktunartillaga um orkunýtingu. Með rammaáætluninni er stefnt að langþráðri sátt um orkunýtingarkosti þannig að uppbygging sem tengist nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda verði sem markvissust.

    Árangursmat:
Kynning stefnumótunar í tveimur áföngum og samráð við hagsmunaaðila.

    Ábyrgð á framkvæmd:
Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu á vegum iðnaðarráðuneytisins.

    Aðrir þátttakendur: Orkustofnun, umhverfisráðuneyti, orkufyrirtæki, stýrihópur um sóknaráætlun, sveitarfélög, Fjárfestingarstofa, Nýsköpunarmiðstöð.

     Tímaáætlun: 2010.

3. Efling landshluta- og héraðakjarna.

    Markmið:
Að skilgreina skilvirkar vinnu- og þjónustusóknir og efla landshluta- og héraðakjarna.

    Meginhugmynd: Þessi aðgerð mun taka mið af umfjöllun á vettvangi Sóknaráætlunar 2020, en hún byggist á því að skipting landsins í vinnusóknarsvæði verði greind í skilvirkar daglegar vinnu- og þjónustusóknir. Þá verði kannað hvort efla megi kjarna svæðanna, t.d. með því að stækka svæðin með samgöngubótum, svo sem vegstyttingum og almenningssamgöngum. Þannig mætti skapa fólki til sveita betri skilyrði til að sækja vinnu utan heimilis og nýta betur þjónustufjárfestingar ríkis og sveitarfélaga, sem tengist eflingu sveitarstjórnarstigsins. Niðurstöður greininga gætu leitt til áherslubreytinga í áætlunum ríkis og sveitarfélaga og orðið hluti af heildstæðri sóknaráætlun. Eitt af markmiðunum er að almenningur og fyrirtæki geti sótt sem mest af þjónustu í skilgreindar þjónustumiðstöðvar. Þannig næst bæði hagræðing og bætt þjónusta.
              Atvinnuþróunarfélögin greini aðstæður hvert á sínu starfssvæði samkvæmt sameiginlegu verklagi og skilgreiningarkvörðum sem þau ákveða í samráði við Byggðastofnun og stýrihóp um sóknaráætlun sem samhæfir niðurstöður félaganna.

     Árangursmat: Atvinnuþróunarfélögin munu skila til Byggðastofnunar niðurstöðum sem metnar verða með hliðsjón af markmiðum og kvörðum sem settir verða sameiginlega fyrir öll svæðin. Farið verður yfir verkið og það skilgreint á fundi í upphafi og niðurstöðum og árangri lýst á fundi í verklok.

    Ábyrgð á framkvæmd:
Byggðastofnun.

    Aðrir þátttakendur: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, sveitarfélög, stýrihópur um Sóknaráætlun 2020.

     Tímaáætlun: 2010–2011.

4. Iðn- og orkugarðar – efnaverkfræðiklasi.

    Markmið:
Stuðla að uppbyggingu iðngarða sem tengjast orkuvinnslu, svo sem efnaverkfræðiklasa sem tengist íslenskum jarðhitasvæðum og háskólum.

     Meginhugmynd: Iðngarðar með áherslu á nýsköpun sem tengist jarðvarma gæti orðið lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf. Í iðngörðunum yrði byggt á efnum frá orkuvinnslu, auk hita og raforku. Efnaverkfræðiklasi er álitlegur kostur fyrir iðngarð. Hann samanstæði af mörgum fyrirtækjum sem saman mynduðu heild þar sem hver framleiðslueining styddi aðra. Hráefni sem kæmi frá jarðvarmaverum skapaði grunn að slíkum klasa. Þar sem engin ein framleiðslueining klasans mundi framleiða öll efnasambönd gæti hver og einn sérhæft sig í framleiðslu tiltekinna efna sem svo mætti nýta sem undirstöður í flóknari efnasambönd hjá öðrum. Uppbygging getur farið fram í áföngum. Hver eining gæti þurft á bilinu 30 til 50 MW af raforku til starfseminnar.
              Fjárfestingarstofa hefur þegar haft frumkvæði að mótun hugmyndar um „grænan iðngarð“ í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð og Kadeco þar sem áhersla er lögð á mögulega aðkomu erlendra aðila til að tryggja hraða uppbyggingu. Markmið þessa verkefnis er að ljúka kortlagningu allra kosta á þessu sviði samhliða því sem stutt er við þau verkefni sem þegar eru í undirbúningi. Nýsköpunarmiðstöð mun leiða könnun á mögulegri hráefnisvinnslu og staðsetningu slíkra iðngarða og efnaverkfræðiklasa auk þess að leita vísindalegs samstarfs. Fjárfestingarstofa mun leita erlendra fjárfesta og samstarfsaðila við uppbyggingu.

     Árangursmat: Skýrsla NMÍ og Fjárfestingarstofu um framgang og ákvörðun um framkvæmdir við iðngarða og efnaverkfræðiklasa.

     Ábyrgð á framkvæmd: Nýsköpunarmiðstöð.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti, orkufyrirtækin, Fjárfestingarstofa, háskólar og eftir atvikum fleiri.

    Tímaáætlun: 2011–2013.

5. Efling líftækni.

     Markmið: Efling framsækinna nýsköpunarfyrirtækja í líftækni með klasasamstarfi.

     Meginhugmynd: Líftækni gæti á næstu áratugum haft svipuð áhrif á nýsköpun og framvindu atvinnulífsins og upplýsingatæknin hefur haft síðustu áratugi. Líftækni liggur til grundvallar margvíslegum lausnum á sviði auðlindanýtingar, heilsugæslu og umhverfisverndar. Þróun líftækninnar byggist á þremur meginstoðum, þ.e. þekkingu á erfðum og flóknum lífsferlum í frumum, frumframleiðslu í lífheiminum og samþættingu líftækninnar þvert á hefðbundna atvinnuvegaskiptingu. Líftæknin verður því best byggð upp með samræmdu átaki í samstarfi allra greina og innan hennar munu skapast mörg tækifæri til uppbyggingar nýrra fyrirtækja. Hér á landi er orðinn til vísir að líftækniklasa og mögulegt að efla enn samstarfið. Komið verði á formlegu klasasamstarfi um rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði líftækni sem með samræmdum aðgerðum getur leitt til stofnunar og eflingar framsækinna líftæknifyrirtækja.

     Árangursmat: 1) myndun klasasamstarfs, 2) árangursmarkmið samstarfsaðila.

     Ábyrgð á framkvæmd: Nýsköpunarmiðstöð.

    Aðrir þátttakendur:
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, Matís, háskólar og Samtök líftæknifyrirtækja.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

6. Þróun vistvænna veiða á grunnslóð og nýting nýrra veiðistofna.

     Markmið: Efling sjálfbærrar nýtingar nytjastofna á strandsvæðum.

     Meginhugmynd: Aukin áhersla verður lögð á rannsóknir á stöðu vistkerfa á grunnslóðinni kringum landið, landnámi nýrra nytjategunda og þekktra tegunda þar sem útbreiðsla er að breytast. Meginviðfangsefni rannsóknanna verður að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun með bættri nýtingu sjávarfangs og þróun vistvænna aðferða við öflun þess. Rannsóknasetur á landsbyggðinni munu hafa mikilvægu hlutverki að gegna við framkvæmd verkefnisins.
              Nýjar nytjategundir eru að nema hér land og útbreiðsla margra þekktra tegunda við Ísland að breytast. Þróa þarf veiðar og nýtingu nýrra tegunda og bregðast við tilkomu nýrra nytjastofna á svæðum þar sem þeir hafa ekki áður verið til staðar. Miklir möguleikar eru á að efla nýtingu margvíslegs sjávarfangs á grunnslóð. Á það við ýmsar fisktegundir, en einnig fleiri sjávardýr, þörunga og þang, ásamt þróun líftæknilegra aðferða við vinnslu og nýtingu.

     Árangursmat: Árlega verði lagt mat á framþróun.

     Ábyrgð á framkvæmd: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

    Aðrir þátttakendur: Hafrannsóknastofnunin, rannsóknasetur, aðrar rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

7. Fiskeldi.

     Markmið: Fiskeldisafurðir verði samkeppnishæfar á alþjóðlegum mörkuðum.

     Meginhugmynd: Á Íslandi er stundað eldi á bleikju, laxi, þorski, lúðu, sandhverfu, regnbogasilungi og urriða auk tilraunaeldis á fleiri tegundum. Einnig eru víða gerðar tilraunir með kræklingarækt. Stórefla þarf rannsóknir og þróun á fiskeldi og framleiðslu valinna tegunda þannig að gott vald náist á öllum þáttum eldis þeirra. Þannig verði markvisst unnið að því að fiskeldi stóraukist og framleiðsla valinna tegunda verði samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum.
              Þorskeldi byggist nú aðallega á föngun og eldi á villtum þorski og er reiknað með um 2.000 tonna framleiðslu í ár. Forsenda verulegrar aukningar er að áfram verði unnið að kynbótum og framleiðslu seiða úr kynbættum efnivið. Framleiðsla bleikju er nú undir getu en forsenda aukningar er átak í markaðsöflun. Kræklingarækt hefur verið í þróun í allnokkur ár en framleiðslan verið lítil hingað til. Á næstu árum kemur í ljós hvort tekst að gera kræklingarækt arðbæra. Landssamband fiskeldisstöðva hefur látið vinna skýrslu um stöðu fiskeldis á Íslandi, framtíðaráform og stefnumótun og er í skýrslunni gerð grein fyrir helstu áherslum í rannsóknar- og þróunarstarfi í fiskeldi á næstu árum.

     Árangursmat: Árlega verði lagt mat á framþróun.

     Ábyrgð á framkvæmd: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Fiskeldisnefnd, fyrirtæki, háskólar og rannsóknastofnanir.

     Tímaáætlun: 2012–2013.

II. Samþætting áætlana og aukið samstarf.


    Stjórnvöld vinna reglubundnar áætlanir á ýmsum sviðum. Til að áætlanagerðin verði markviss hluti af heildstæðri stefnu um bætta samkeppnishæfni er unnið að því á vegum stýrihóps um sóknaráætlun að samþætta áætlanirnar. Flestar miða áætlanirnar að eflingu innviða.

8. Samþætting opinberra áætlana.

     Markmið: Auka skilvirkni við eftirfylgni stefnumótunar með samþættingu opinberra áætlana á ýmsum sviðum.

     Meginhugmynd: Stjórnvöld leggja fram margvíslegar áætlanir á borð við byggðaáætlun, samgönguáætlun, áætlun í menntamálum, umhverfisverndaráætlun, fjarskiptaáætlun og áætlanir í orkumálum. Þá er nú unnið að rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Með því að samþætta þessar áætlanir í gegnum vinnu við sóknaráætlun fyrir alla landshluta í samráði við hagsmunaaðila má ná betri árangri við eftirfylgni og framkvæmd stefnumála. Áhersla verði lögð á markvissa samþættingu opinberra áætlana við fyrirhugaðar breytingar í stjórnsýslunni. Þessi aðgerð tengist einu helsta verkefni Sóknaráætlunar 2020 og mun að líkindum verða fellt inn í þá vinnu.

     Árangursmat: Samstarfshópur ráðuneyta skili tillögum einu sinni á ári til viðkomandi ráðuneytis um samþættingu og breytingar. Árangur mælist af virkni ráðuneyta og stofnana á þessu sviði.

     Ábyrgð á framkvæmd: Forsætisráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, önnur ráðuneyti og undirstofnanir þeirra.

     Tímaáætlun: 2010–2011.

9. Fjölþjóðlegt samstarf.

     Markmið: Að stuðla að gagnvirku flæði upplýsinga og þekkingar og styðja fjölþjóðleg þekkingarnet á sviði byggðamála.

     Meginhugmynd: Á grundvelli góðrar reynslu verði Ísland áfram virkur þátttakandi í NORA, Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins NPP og ESPON.
              Samstarfsvettvangur Norðurlanda á sviði byggðamála er norræna embættismannanefndin um byggðamál (NR-K). Samstarfið felst í því að miðla reynslu, þekkingu, umræðum og kynnum í því skyni að skapa traustari grunn fyrir stefnumótun í byggðamálum. NR-K hefur veitt fjárstyrki til samstarfs grannsvæða yfir landamæri, langmest til samstarfsins á Norður-Atlantshafssvæðinu, NORA. Byggðastofnun er tengiliður Íslands við NORA. Mörg góð verkefni hafa verið styrkt með fjármunum frá NORA og Íslendingar hafa verið mjög virkir þátttakendur í verkefnum sem styrkt hafa verið.
              Meginmarkmið Norðurslóðaáætlunarinnar NPP 2007–2013 er að efla atvinnu-, efnahags- og félagslega samvinnu svæða og landa á norðurslóðum með samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Norðurslóðaáætlun er ein af fimm svæðaáætlunum Evrópusambandsins sem tilheyra Interreg IV. Norðurslóðaáætlun hefur fengið víðtæka verkefnaþátttöku og stofnanir, sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög verið virkir þátttakendur í mörgum verkefnum sem þótt hafa skilað góðum árangri. Norðurslóðaáætlun nær landfræðilega yfir mjög víðfeðmt svæði en þátttökulönd eru Skotland, Norður-Írland, Svíþjóð, Finnland og Írland auk Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Byggðastofnun er landstengiliður NPP á Íslandi.
              Fjölþjóðlegar og þverfaglegar byggðarannsóknir í ESB hófust með ESPON-áætluninni 2002. Sú áætlun er Interreg C-áætlun. Miðpunktur ESPON-starfsins er lítil stofnun í Lúxemborg en á vegum áætlunarinnar áttu á annað hundrað evrópskir háskólar og rannsóknastofnanir í rannsóknastarfi á síðasta starfstímabili hennar frá 2002–2006. Öll aðildarlönd ESB, umsóknarlöndin og Noregur, Sviss og Liechtenstein eru aðilar að ESPON og með tímabilinu 2007–2013 er Ísland líka þátttakandi. Byggðastofnun hefur starfrækt samband við ESPON og mun áfram rækja stjórnunarlegt hlutverk. Auglýst var eftir stofnun til að starfrækja faglegt net ESPON á Íslandi og hefur Byggðastofnun valið Háskólann á Akureyri til þess.

     Árangursmat: Hver áætlun skilar ársskýrslu til iðnaðarráðuneytis og lýsir starfinu og árangri af því.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti, Byggðastofnun.

     Aðrir þátttakendur: Háskólar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir í stoðkerfi atvinnulífsins.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

10. Tölfræðileg gögn um byggðaþróun.

    Markmið: Fá haldgóðar upplýsingar um stöðu og þróun atvinnu- og mannlífs.
    Meginhugmynd: Upplýsingar um þróun atvinnulífs og ýmissa samfélagslegra þátta eru forsendur markvissrar stefnumótunar um byggðaþróun. Unnið hefur verið að styrkingu upplýsingasöfnunar t.d. með alþjóðlegu samstarfi sem þarf að efla með víðtæku innlendu samráði. Stofna þarf starfshóp til að móta sameiginlegar tillögur hagsmunaaðila um söfnun, úrvinnslu og birtingu byggðatengdra upplýsinga er byggist m.a. á þeirri forvinnu sem þegar hefur farið fram hjá Byggðastofnun. Á árinu 2007 var á vegum Byggðastofnunar unnin greining á því hvaða upplýsingar væru til staðar og á hvaða formi, jafnframt því að skoðað var hvernig nágrannaþjóðir okkar safna og birta byggðatengdar upplýsingar. Víðast er lögð áhersla á upplýsingaöflun um frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun og nýja tækni, menntun og starfshæfni, ferðamennsku og ástand jaðarsvæða. Jafnframt var unnið að mati á því hvaða upplýsingar teldust mikilvægar út frá byggðalegum forsendum og hvaða svæðagrundvöllur væri nauðsynlegur.
              Mikilvægt er að tölfræðileg gögn um byggðaþróun séu ávallt tiltæk, enda eru slík gögn grundvallaratriði við stöðulýsingu og áætlanagerð á sviði byggðamála. Mikið er til af gögnum um byggðaþróun og er Hagstofa Íslands þar lykilaðili þar sem hún vinnur með og geymir mikið af byggðatengdum upplýsingum á aðgengilegu formi. Fjölmargir aðrir aðilar afla og varðveita upplýsingar en nokkuð hefur vantað upp á að gögnum sem snúa að byggðamálum sé markvisst safnað, unnið úr þeim og þau birt með reglubundnum hætti. Upplýsingar um íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjuþróun, menntunarstig, afkomu atvinnugreina, nýsköpun og áhrif þessara þátta á hagkerfi og samfélag þurfa að vera aðgengilegar og samhæfðar við alþjóðlegar samanburðarrannsóknir, bæði hvað varðar val grunnupplýsinga og framsetningu þeirra eftir úrvinnslu. Auk stöðugrar gagnaöflunar og miðlunar tölfræðilegra upplýsinga um byggðamál þarf að vera unnt að vinna sértækar greiningar með stuttum fyrirvara, t.d. þar sem búist er við breytingum, jafnt vegna nýrra sóknarfæra í atvinnulífi og aðsteðjandi vanda.

     Árangursmat: Starfshópurinn skili tillögum innan settra tímamarka.

     Ábyrgð á framkvæmd: Byggðastofnun.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Hagstofa Íslands, ríkisskattstjóri, Rannís, Ferðamálastofa, Fiskistofa, Bændasamtökin, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, rannsóknastofnanir, háskólar o.fl.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

III. Efling stoðkerfis atvinnulífsins.

    Stoðkerfi atvinnulífsins er margbrotið og er ýmist almennt eða tengt einstökum atvinnugreinum, fagsviðum eða svæðum. Mikilvægt er að gera ítarlega úttekt á stoðkerfinu í heild og leita leiða til að gera það skilvirkara og einfaldara fyrir atvinnulífið um leið. Þungamiðjan í stoðkerfinu í gegnum byggðaáætlun verður tvíþætt: Annars vegar í gegnum vaxtarsamningana þar sem aðilar á hverjum stað skilgreina styrkleika og sóknarfæri á sviði klasasamstarfs. Hins vegar í gegnum uppbyggingu þekkingarsetra. Stofnun Íslandsstofu verður skref í efldum stuðningi við útflutning á öllum sviðum með samræmdri og skilvirkri markaðssetningu.

11. Skilvirkara stoðkerfi.

    Markmið: Bæta samhæfingu og skilvirkni í stoðkerfi atvinnulífsins.

     Meginhugmynd: Myndaður verði starfshópur sem geri tillögur um bætt fyrirkomulag í stoðkerfi atvinnulífsins, aukna samhæfingu í störfum og aukið samstarf innan kerfisins. Starfshópurinn hugi m.a. að leiðum til að bæta og þróa þjónustu stoðkerfisins við konur.
              Þekking er ein helsta uppspretta verðmætasköpunar og hagvaxtar. Samstarf stjórnvalda, atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana er mikilvægt. Í því felst að þríþætt stoðkerfi vinnur saman að framleiðslu, úrvinnslu, miðlun þekkingar og markaðssetningu er lýtur að samþættingu atvinnulífs og rannsóknarumhverfis.
              Stöðugt þarf að leita leiða til að ná sem mestum árangri og nýta fjármagn og mannauð sem best. Hérlendis er stoðkerfi atvinnulífsins nokkuð fastbundið hefðbundnum atvinnugreinum, þ.e. landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu. Margar vaxtargreinar íslensks atvinnulífs falla illa að slíkri skiptingu og má þar nefna greinar eins og líftækni, ferðaþjónustu og fiskeldi. Víðast í nágrannalöndum okkar er í auknum mæli horfið frá aðgerðum sem beinast fyrst og fremst að einstökum atvinnugreinum en sjónum beint í ríkara mæli að tilteknum svæðum og þeim möguleikum sem felast í atvinnulífi, umhverfi og menningararfi þeirra. Starfshópurinn láti framkvæma ítarlega greiningu á stoðkerfinu, uppbyggingu þess, áherslum, svæðisbundnum sérkennum, virkni og fjármögnun og geri tillögur um úrbætur sem leiði til aukins árangurs og samlegðaráhrifa. Lögð er áhersla á að stoðkerfið verði einn af burðarásum samstarfs í þekkingarsetrum, sbr. 2. tillögu.

     Árangursmat: Starfshópurinn leggi fram tillögur um breytingar á grundvelli greiningar á stöðu og í samráði við aðila stoðkerfisins.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Ferðamálastofa, Bændasamtök Íslands, Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Fjárfestingarstofa, atvinnuþróunarfélög/sveitarfélög, leiðbeiningarmiðstöðvar í landbúnaði og fleiri.

     Tímaáætlun: 2010.

12. Þróun og styrking vaxtarsamninga.

     Markmið: Að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsvísu.

     Meginhugmynd: Vaxtarsamningar verða ein helsta burðarstoð atvinnuþróunar og nýsköpunar og nú er komið að endurnýjun þeirra í nýrri mynd. Verkefni á sviði nýsköpunar og þróunar sem skilgreind eru í byggðaáætluninni verði samræmd og tengd saman í gegnum vaxtarsamninga. Tilgangur þess er að efla staðbundna klasa með þátttöku þeirra í stærri heild sem getur náð meiri árangri í samstarfi, t.d. alþjóðlegu samstarfi, en einir sér. Þetta eykur einnig áhrif heimamanna á stefnumótun og framkvæmd aðgerða byggðaáætlunarinnar. Til þess að greiða götu þessa þarf að ljúka þeirri vinnu við framtíðarstefnumótun fyrir vaxtarsamninga sem hafin er. Mikilvægt er að það klasasamstarf sem stofnað hefur verið til verði sem mest sjálfbært svo svigrúm sé til þess að halda áfram að styðja og þróa nýja klasa auk þess að leggja aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun, m.a. í gegnum þekkingarsetrin.
              Lögð hefur verið mikil áhersla á vaxtarsamninga sem aðferð til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Gerðir hafa verið slíkir samningar við sjö atvinnuþróunarfélög á grundvelli byggðaáætlunar 2006–2009. Í vaxtarsamningum er ábyrgð og framkvæmd færð út í landshlutana og á vegum þeirra hefur verið unnið að ýmsum nýjum og árangursríkum verkefnum. Við framkvæmd vaxtarsamninga hefur verið lögð áhersla á aðferðafræði klasa á grundvelli sérstöðu og styrkleika hvers svæðis. Við gerð nýrra vaxtarsamninga er mikilvægt að byggt sé á því sem vel hefur tekist við framkvæmd fyrri samninga, með áherslu á skilvirka stjórnun og árangursmat.

     Árangursmat: Mikilvægt er að viðmið árangurs verkefna samningsins séu skilgreind strax í upphafi og þau endurskoðuð reglulega með hliðsjón af framvindu hvers samnings. Árangur af starfi vaxtarsamninga verði metinn með reglubundnum hætti á grundvelli þeirra markmiða og áherslna sem lýst er í byggðaáætlun, einstökum samningum og verkefnum. Við mat á árangri einstakra vaxtarsamninga verði unnið með samræmda grunnmælikvarða allra vaxtarsamninga þannig að fram komi mat á heildarárangri af starfi þeirra. Almennir mælikvarðar verða því settir öllum vaxtarsamningum. Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð eru ábyrgðaraðilar á framkvæmd árangursmats samninganna í nánu samstarfi við stjórnir samninganna.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Atvinnuþróunarfélög/sveitarfélög, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Byggðastofnun.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

13. Efling þekkingarsetra.

     Markmið: Auka rannsóknir, þróun, og nýsköpun í þágu efnahagslegra og félagslegra framfara og treysta þann árangur sem náðst hefur víða um land með myndun og starfi svæðisbundinna þekkingarsetra.

     Meginhugmynd: Þekkingarsetur vísar til samstarfs fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana og stuðningskerfisins um rannsóknir, þróun og nýsköpun í þágu félagslegra og efnahagslegra framfara. Tilgangur samstarfsins er m.a. að örva nýsköpun í fyrirtækjum og efla samkeppnishæfni svæða og er því lögð áhersla á hagnýtar rannsóknir þar sem tekið er mið af svæðisbundnum þörfum atvinnulífs, styrkleikum og tækifærum.
              Á vegum menntamálaráðuneytis hefur verið unnin áfangaskýrsla þar sem starfsemi þekkingarsetra er kortlögð og verður hún nýtt sem grundvöllur fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Við uppbyggingu þekkingarsetra verði lögð áhersla á samstarf og virkar þekkingarlínur á milli þekkingarsetra hérlendis og erlendra þekkingarsetra sem starfa á áþekkum kjarnasviðum með það að markmiði að styðja enn frekar við nýsköpun og þróun. Þannig verði þekkingarsetur á landinu hluti af alþjóðlegu netsamstarfi sem lagt getur grunn að uppbyggingu samkeppnishæfra atvinnusvæða á alþjóðavísu.
              Með auknum rannsóknum, svo og nýsköpunar- og fræðistörfum innan þekkingarsetra, má auka möguleika þeirra til að afla fjármagns til verkefna í innlenda og erlenda samkeppnissjóði.
              Vaxtarsamningar verði leiðandi í þróun klasasamstarfs fyrirtækja og opinberra aðila um rannsóknir og þróun í tengslum við þekkingarsetrin.

     Árangursmat: Aðilar þekkingarsetra gera með sér samstarfssamning með skilgreindum markmiðum og áherslum. Árangur verður metinn með hliðsjón af markmiðum þekkingarsetranna um samstarf innan stoðkerfisins.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og undirstofnanir þessara ráðuneyta auk atvinnuþróunarfélaga, sveitarfélaga og samtaka þeirra.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

     Annað: Mikilvægt er að allir samningar ríkisins er fjalla um menntun, menningu, ferðamál, rannsóknir og þróun tengist með beinum hætti starfi þekkingarsetra.

IV. Nýsköpun og sprotafyrirtæki

    Stuðningur við nýsköpun og sprotafyrirtæki er mjög mikilvægur til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum. Slík fyrirtæki renna þannig sterkari stoðum undir þau byggðarlög sem þau starfa í og bæta búsetuskilyrði. Í þessari byggðaáætlun er stuðningurinn þrenns konar. Í fyrsta lagi í gegnum menntakerfið og stoðkerfi atvinnulífsins svo sem starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, atvinnuþróunarfélögin og Byggðastofnun og sjóði til stuðnings nýsköpun, atvinnusköpun og sprotafyrirtækjum. Í öðru lagi í gegnum skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar. Í þriðja lagi í gegnum skilgreind verkefni, klasa eða áherslur opinberra aðila, svo sem að auka hlutfall innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum, að þróa leiðir til að nýta eða binda koltvísýring úr útblæstri orku- og iðjuvera, efla nýsköpun í ferðaþjónustu og svo framvegis.

14. Ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og vegna rannsókna og þróunar.

    Markmið:
Auðvelda nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að fjármagna sig sjálf og stunda rannsóknir og þróun.

     Meginhugmynd: Alþingi hefur til meðferðar frumvörp til laga um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Hagsmunaaðilar hafa kallað eftir slíku skrefi árum saman enda mikilvægt að stuðningur við nýsköpunarstarf í atvinnulífinu felist ekki aðeins í opinberu stoðkerfi eða beinum styrkjum heldur í umhverfi sem gerir þeim kleift að nýta eigin styrk og stuðning frá einkaaðilum sem hafa trú á framtíð þeirra. Með þessum lögum er fyrirtækjum bæði gert auðveldara að fjármagna sig sjálf og stunda rannsóknar- og þróunarstarf.
              Um leið og lögin taka gildi er mikilvægt að kynna þau, byggja upp skilvirkt afgreiðsluferli og hraða afgreiðslu umsókna. Kynningin verði í samvinnu við atvinnuþróunarfélög um allt land.

     Árangursmat: Gildistaka laga og reglubundin úttekt á tölum um nýtingu úrræða.

     Ábyrgð á framkvæmd: Fjármálaráðuneyti, Rannís.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti, ríkisskattstjóri og atvinnuþróunarfélög.

     Tímarammi: 2010.

15. Impra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands á Akureyri.

     Markmið: Að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni.

     Meginhugmynd: Starfsstöð Impru á Akureyri var sett á fót í desember 2002 á grundvelli markmiða byggðaáætlunar 2002–2005. Hún hefur gegnt lykilhlutverki í nýsköpunar- og þróunarstarfi á landsbyggðinni, m.a. með rekstri fjölmargra sérhæfðra verkefna sem sniðin hafa verið að þörfum tiltekinna markhópa og með tæknilegri ráðgjöf um vöruþróun og markaðssetningu.

     Árangursmat: Á tveggja ára fresti verði gerð úttekt á árangri af starfsemi Impru á Akureyri.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

16. Nýsköpunarsjóður framhaldsskólanema.

     Markmið: Efla áhuga framhaldsskólanema á iðngreinum og nýsköpun með betri nýtingu verknámsaðstöðu um land allt.

     Meginhugmynd: Stofna sjóð í samstarfi við hagsmunaaðila í atvinnulífinu sem auglýsir eftir hugmyndum að nýsköpun sem hægt er að þróa í verknámsaðstöðu framhaldsskólanna á sumrin. Góðar hugmyndir eru styrktar þannig að nemendur geti unnið í sumarleyfum að útfærslu og framleiðslu undir handleiðslu verknámskennara og nýtt þannig aðstöðu og tækjabúnað auk þess sem dregið er úr atvinnuleysi skólafólks. Þarna kynnast nemendur ekki aðeins verknámi heldur einnig nýsköpunarvinnu.

     Árangursmat: Fjöldi umsókna og þátttakenda. Gæði verkefna.
     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Menntamálaráðuneyti og framhaldsskólar, Nýsköpunarmiðstöð, Samtök iðnaðarins, fræðslumiðstöðvar, Samtök framhaldsskólanema.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

17. Heildstæð áætlun um aukna hlutdeild innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum.

     Markmið: Auka hlutdeild innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum og spara þannig gjaldeyri, draga úr koltvísýringsútblæstri og hvetja til nýsköpunar og þróunar.

     Meginhugmynd: Setja fram heildstæða áætlun um að auka hlutdeild innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum með sameiginlegu átaki fjölmargra hagsmunaaðila, skattalegum ívilnunum, uppbyggingu fjölorkustöðva og hvatningu til nýsköpunar og þróunar. Í stað þess að velja orkugjafa er ætlunin að skapa almennar forsendur fyrir orkuskiptum, enda munu tækniframfarir og viðtökur markaðarins ráða mestu um það hvaða lausnir ná útbreiðslu. Iðnaðarráðuneytið hefur unnið að orkustefnu í samgöngum í samvinnu við Vistorku. Stefnt er að því að íslenskt efnahagslíf og samfélag geti starfað að mestu án innflutts jarðefnaeldsneytis árið 2050 en markaðir verði skilgreindir áfangar á þeirri leið. Þegar áætlunin um orkuskipti í samgöngum og merki hennar verður kynnt gefst öllum hagsmunaaðilum sem vilja vinna undir merki hennar kostur á að tengja sig verkefninu uppfylli þeir kröfur um visthæfni og nýsköpun. Víða um land er unnið rannsóknar- og þróunarstarf á sviði visthæfra innlendra orkugjafa sem tengja má betur saman. Mikilvægur þáttur í áætluninni er uppbygging fjölorkustöðva svo hægt sé að ferðast um landið á innlendum orkugjöfum.

     Árangursmat: Innleiðing ívilnana, mælanlegir áfangar í notkun innlends visthæfs eldsneytis.

     Ábyrgð á framkvæmd: Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Umhverfisráðuneyti, Vistorka, fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, Nýsköpunarmiðstöð, háskólar, innflytjendur eldsneytis, hagsmunaaðilar í bílgreinum, sjávarútvegi og landbúnaði.

     Tímaáætlun: 2010.

18. Alþjóðlegt verkefni um nýtingu koltvísýrings frá stóriðju og jarðvarmaverum.

     Markmið: Koma á alþjóðlegu samstarfsverkefni um þróun leiða til að breyta koltvísýringi frá stóriðju og jarðvarmaverum í hráefni.

     Meginhugsun: Ljóst er að uppbyggingu margvíslegs iðnaðar á næstu árum mun fylgja losun gróðurhúsalofttegunda á borð við koltvísýring. Takist að þróa hagkvæmar leiðir til að nýta koltvísýringinn fremur sem hráefni í eldsneyti eða önnur efni er það því ekki aðeins mikilvægt skref í umhverfismálum heldur einnig verðmætasköpun. Einn aðili er þegar að hefja framleiðslu á eldsneyti úr náttúrulegum koltvísýringi frá jarðvarma auk þess sem slík nýting verður eðlilegur hluti iðngarða í tengslum við orkuver og efnaverkfræðiklasa. Ísland getur boðið upp á kjörskilyrði til að leiða fjölþjóðlegt þróunarverkefni á þessu sviði og mun Nýsköpunarmiðstöð hafa frumkvæði að því að koma því af stað.

    Árangursmat: Fjöldi samstarfsaðila sem skrá sig til þátttöku og umfang verkefnis.

     Ábyrgð á framkvæmd: Nýsköpunarmiðstöð.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti, innlendir og erlendir háskólar, orkufyrirtækin, stóriðjufyrirtæki.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

19. Vistvæn orkuöflun til húshitunar og niðurgreiðslur kostnaðar.

    Markmið: Minnka kostnað á rafhitunarsvæðum með innleiðingu nýrra lausna við húshitun.

     Meginhugmynd: Skoðaðar verði aðrar leiðir en bein rafkynding á svæðum sem nýta raforku til húshitunar. Hvatt verður til uppsetningar varmadælna þar sem það þykir hagkvæmt. Einnig verði könnuð hagkvæmni viðarkyndingar, sem nýta mundi grisjunarvið úr skógum landsins.
              Á undanförnum árum hefur hið opinbera varið allt að 930 millj. kr. árlega til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði auk um 250 millj. kr. í jarðhitaleit. Með þessum hætti hefur verið leitast við að jafna orkukostnað á milli þeirra svæða sem búa við hitaveitu og þeirra sem eru á svokölluðum köldum svæðum og nýta raforku og olíu til húshitunar, sem að öllu jöfnu er mun dýrara en hitaveitur. Lögð hefur verið áhersla á að draga úr notkun raforku til húshitunar og því hafa verið byggðar margar hitaveitur víða um land allt undanfarin ár og hafa þær verið styrktar af hinu opinbera til að standa undir hluta þess kostnaðar sem hlýst af lagningu veitnanna. Nú er talið að hitaveituvæðing á Íslandi hafi nánast náð hámarki hvað hagkvæmni varðar. Því þarf að leggja áherslu á aðrar lausnir til umhverfisvænnar orkuöflunar sem mætti styrkja með svipuðum hætti og hitaveitur hafa verið styrktar fram að þessu.

     Árangursmat: Lagt verður mat á þann sparnað sem hlýst af því að notendur rafhitunar breyti yfir í aðra orkugjafa svo sem varmadælur eða viðarkyndingu.

     Ábyrgð á framkvæmd: Orkustofnun/Orkusetur.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti.

     Tímaáætlun: 2011.

V. Erlend nýfjárfesting í atvinnulífinu.


    Bein erlend fjárfesting felur ekki aðeins í sér fjölgun starfa, aukin verðmæti inn í hagkerfið og mikilvæga traustsyfirlýsingu á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf heldur er hún í flestum tilfellum hvati til nýsköpunar og þróunar. Með fjárfestingum eru erlendir aðilar að leggja fjármagn í framkvæmdir og deila áhættunni með innlendum aðilum í stað þess að bjóða aðeins lánsfé gegn vöxtum. Núverandi staða Íslands á alþjóðavettvangi og samkeppni um erlendar fjárfestingar gerir okkur nauðsynlegt að bæta samkeppnisstöðuna með ívilnunum til handa erlendum fjárfestum enda skila þær sér til baka í formi verðmætasköpunar og tekjuauka. Rammalöggjöf um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga í stað stakra fjárfestingarsamninga er mikilvægt skref sem stíga þarf auk þess sem efla verður kynningarstarf atvinnuþróunarfélaga á tækifærum, kostum og styrkleikum allra landshluta í gegnum samstarf við Fjárfestingarstofu.

20. Rammalöggjöf um ívilnanir.

     Markmið: Gera ívilnanir vegna erlendra nýfjárfestinga gegnsærri og bæta samkeppnisstöðu Íslands sem fjárfestingarkosts.

     Meginhugmynd: Með rammalöggjöf um ívilnanir vegna erlendra nýfjárfestinga verður ferlið gagnvart erlendum fjárfestum mun einfaldara og gegnsærra auk þess hægt verður að kynna markvisst þær ívilnanir sem í boði eru og tengja styrkleikum og tækifærum Íslands og einstakra landshluta. Núverandi ferli, sem felur í sér sérsniðna fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna, byggða á heimildarlögum frá Alþingi og með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, er tímafrekt og ógegnsætt.
              Heimild til að veita ívilnanir er byggð á byggðakorti ESA af Íslandi og nú miðast það við landsbyggðarkjördæmin þrjú.
              Iðnaðarráðuneytið mun leggja fram frumvarp að rammalöggjöf um ívilnanir.

     Árangursmat: Gildistaka rammalöggjafar, nýfjárfestingar á grundvelli rammalöggjafar.

    Ábyrgð á framkvæmd:
Iðnaðarráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Alþingi, ESA.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

21. Markviss kynning á tækifærum fyrir erlendar nýfjárfestingar.

     Markmið: Styrkleikar og tækifæri Íslands og einstakra landshluta verði kynnt erlendum fjárfestum með markvissum og samræmdum hætti til að efla atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun.

     Meginhugmynd: Fjárfestingarstofa annist samræmda kynningu á Íslandi og einstökum landshlutum sem fjárfestingarkosti fyrir erlenda fjárfesta auk þess að samræma upplýsingaöflun og greiningarvinnu. Atvinnuþróunarfélög, í samvinnu við sveitarfélög og landshlutasamtök, verði bakhjarlar og samstarfsaðilar Fjárfestingarstofu í þessu mikilvæga verkefni og leggi áherslu á að láta vinna greiningar og upplýsingaefni um styrkleika og tækifæri einstakra svæða, landshluta eða atvinnugreina með samræmdum hætti.
              Sérstök kynningarverkefni um einstök svæði, verkefni eða greinar verði unnin í samráði við Fjárfestingarstofu og framkvæmd samkvæmt umsaminni verkefnaáætlun. Mikilvægt er að fyrir liggi skilgreindar boðleiðir, upplýsingamiðlun og verkaskipting þegar erlendir fjárfestar leita eftir upplýsingum um fjárfestingartækifæri eða staðsetningu fyrir nýfjárfestingu. Í undirbúningi að stofnun Íslandsstofu hefur komið skýrt fram að kynning á Íslandi sem fjárfestingarkosti er eitt af lykilhlutverkum stofunnar. Það starf verður undirbúið af kostgæfni.

    Árangursmat: Fjöldi skilgreindra samstarfsverkefna á sviði kynningar, fjöldi nýfjárfestingarverkefna.

    Ábyrgð á framkvæmd: Fjárfestingarstofa og atvinnuþróunarfélögin.

     Aðrir þátttakendur: Íslandsstofa, iðnaðarráðuneyti, Byggðastofnun, sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

VI. Efling ferðaþjónustu.

    Innviðir ferðaþjónustunnar hafa byggst hratt upp á undanförnum árum og greinin er nú ein af aðalútflutningsgreinum Íslendinga. Ferðaþjónustan er einnig sú atvinnugrein sem hraðast getur aukið gjaldeyristekjur og fjölgað störfum án umfangsmikilla fjárfestinga. Áherslan er því lögð á frekari vöruþróun og nýsköpun á grunni vandaðrar úttektar á auðlindum greinarinnar og stefnumótun og sýn m.a. unnin á forsendum heimamanna. Þessi vöruþróun miðar að því að skapa fleiri tækifæri til upplifunar, dreifa ferðamannastraumnum, bæði um landið og yfir árið og auka þau verðmæti sem greinin skapar um leið og sjálfbærni er lykilhugtak. Horfa þarf sérstaklega til sviða sem eiga það sameiginlegt að byggja á sérstöðu Íslands sem áfangastaðar, eru óháðir árstíðum og skapa mikil verðmæti.

22. Nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu tengd heilsu, lífsstíl, ráðstefnum og menningu.

     Markmið: Kortleggja innviði og vöruframboð, skilgreina sóknarfærin, efla nýsköpun og miðla samræmdum skilaboðum um kosti Íslands á viðkomandi sviðum.

     Meginhugmynd: Á undanförnum árum hefur mikið starf verið unnið í þróun ýmiss konar afþreyingar fyrir ferðamenn. Nýjar áherslur hafa m.a. tengst sjálfbærri þróun, heilsueflingu og útivist og menningartengdri ferðaþjónustu. Mikilvægt er að hlúð verði að sjálfbærri nýsköpun innan ferðaþjónustunnar til að auka framlegð og styrkja samkeppnisstöðu hennar gagnvart ferðaþjónustu annarra landa.
              Á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur verið unnið að samantekt um möguleika heilsu- og lífsstílstengdrar ferðaþjónustu á Íslandi. Næstu skref eru að taka á þeim veikleikum eða vöntun á vöruframboði sem greiningin leiðir í ljós og móta svo áætlun um kynningu á Íslandi sem valkosti. Skilgreina þarf markmið og stefnu í uppbyggingu heilsuferðaþjónustu og síðan byggja upp þekkingargrunn er nýtist þeim sem vilja hasla sér völl innan þessarar greinar ferðaþjónustunnar og nýtist opinberum aðilum í stuðningsverkefnum, m.a. við mótun sameiginlegs vörumerkis fyrir Ísland sem heilsulind. Þá þarf einnig að skoða þann möguleika sem stærri verkefni á þessu sviði skapa til að fá hingað erlenda og innlenda nýfjárfestingu í ferðaþjónustu. Samkeppnisgreining gæti aukið áhuga erlendra fjárfesta ekki síður en ferðamanna.
              Fundir, ráðstefnur, menningarviðburðir og hvataferðir fyrirtækja eru mikilvæg uppspretta tekna utan háannar í ferðaþjónustu. Tenging við náttúrutengda afþreyingu eða útivist skapar sóknarfæri fyrir marga landshluta. Þá rís nú ráðstefnu- og tónlistarhús í Reykjavík og menningarhús víða um land sem opnar íslenskri ferðaþjónustu nýja möguleika. Þeir verða aðeins nýttir með kynningu á Íslandi sem stað fyrir stærri fundi, ráðstefnur og menningarviðburði.
              Vinna þarf áfram með greiningu á því hvernig nýta megi betur náttúru landsins, sögu þjóðarinnar og menningu í allri sinni fjölbreytni, hvort sem um er að ræða samtímasögu og menningu nútíðar eða sagnaarfinn.

     Árangursmat: Fjöldi afþreyingarmöguleika er stendur ferðamönnum til boða samkvæmt gagnagrunni Ferðamálastofu, þjónustukaup erlendra og innlendra ferðamanna.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa.

    Aðrir þátttakendur:
Umhverfisstofnun, heilbrigðisráðuneyti, atvinnuþróunarfélög, Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, SAF og hagsmunaaðilar innan ferðaþjónustunnar.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

23. Rannsóknir og þekkingaruppbygging í ferðaþjónustu.

     Markmið: Efla hagnýtar rannsóknir og þróun í ferðaþjónustu og koma á varanlegu og markvissu samstarfi fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana.

     Meginhugmynd: Unnið verði á grunni markvissrar langtímaáætlunar þar sem hagnýt rannsóknar- og fræðsluverkefni eru skilgreind í samvinnu við hagsmunaaðila. Þróað verður hagnýtt fræðsluefni og verkefni sem nýtist fólki sem starfar í ferðaþjónustu. Hagnýtar rannsóknir og kannanir verði auknar til stuðnings við markvissa vöruþróun, atvinnuuppbyggingu og markaðssetningu. Haldið verði áfram að efla gerð hliðarreiknings við þjóðhagsreikning ( Tourism Satellite Account) um ferðaþjónustu en fyrstu tölur byggðar á þeirri aðferðafræði voru birtar síðari hluta árs 2008. Hagstofa Íslands hefur stýrt þessu verkefni í samstarfi við iðnaðarráðuneytið.

     Árangursmat: Byggt verði á endurmati frá ferðaþjónustuaðilum.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa, (Hagstofan og Rannsóknamiðstöð ferðamála).

     Aðrir þátttakendur: Nýsköpunarmiðstöð, Byggðastofnun, sveitarstjórnir, háskólar, ýmis hagsmunasamtök, fræðslusamtök atvinnulífsins og fagfélög innan ferðaþjónustunnar.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

24. Undirbúningur landnýtingaráætlunar fyrir ferðaþjónustu á hálendinu.

     Markmið: Safna saman fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum og meta frekari rannsóknaþörf svo ljúka megi gerð landnýtingaráætlunar fyrir ferðaþjónustu á hálendi Íslands.

     Meginhugmynd: Fjölmargir aðilar hafa safnað gögnum og sinnt rannsóknum á áhrifum ferðaþjónustu á hálendið og fjölfarna ferðamannastaði. Þörfin fyrir heildstæða áætlun um landnýtingu ferðaþjónustunnar á hálendinu vex með fjölda ferðamanna sem þangað sækja. Til að undirbúa gerð slíkrar landnýtingaráætlunar þarf að kortleggja fyrirliggjandi rannsóknir á áhrifum og gögn um ferðahegðun og gera áætlun um frekari rannsóknir eftir því sem þörf krefur. Í því skyni mun Ferðamálastofa kalla til samráðshóp aðila sem lýkur þeirri vinnu og gerir tillögur um næstu skref og tímasetta áætlun um gerð landnýtingaráætlunar fyrir hálendið.

     Árangursmat: Áfangaskýrsla og áætlun um rannsóknir og vinnslu landnýtingaráætlunar.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa.

     Aðrir þátttakendur: Iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Byggðastofnun, sveitarfélög, háskólar, rannsóknaraðilar á sviði ferðaþjónustu, SAF, ferðamálasamtök, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, nefnd um skipulag miðhálendisins.

     Tímaáætlun: 2011–2012.

25. Þróun gæða- og umhverfisviðmiða fyrir íslenska ferðaþjónustu.

     Markmið: Koma á samræmdu gæða- og umhverfiskerfi fyrir smá sem stór fyrirtæki.

     Meginhugmynd: Í byggðaáætlun 2006–2009 hófst vinna við að koma á gæða- og umhverfisvottunarkerfi sem nýtist íslenskri ferðaþjónustu í heild. Í þessu samhengi hefur einkum verið horft til þeirrar aðferðafræði sem unnið hefur verið eftir í nágrannalöndum okkar, svo og í Nýja-Sjálandi. Mikilvægt er að stefna áfram að því markmiði að samræma gæðakröfur innan ferðaþjónustunnar. Jafnframt er mikilvægt að veita fyrirtækjum faglegan stuðning og ráðgjöf til þess að taka þátt í þeirri vinnu.
              Samhliða aukinni vetrarferðamennsku þarf að huga sérstaklega að vottunarmálum fyrir ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á útivist og ferðalög. Vetrarferðir, og raunar einnig hálendis- eða jöklaferðir að sumarlagi, gera ríkar kröfur um undirbúning, aðgát og viðbrögð.

     Árangursmat: Fjöldi fyrirtækja sem starfa á grunni þess kerfis sem þróað verður.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa.

     Aðrir þátttakendur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands, iðnaðarráðuneyti, SAF, fræðslusamtök atvinnulífsins, ferðamálasamtök og landshlutamiðstöðvar.

     Tímaáætlun: 2010–2011.

26. Fjölgun veigamikilla ferðamannastaða.

     Markmið: Auka dreifingu ferðamanna um landið með markvissri uppbyggingu nýrra áfangastaða, svo og viðhaldi þeirra ferðamannastaða sem þegar eru til staðar.

     Meginhugmynd: Unnin verði greining á hverju landsvæði þar sem horft verður til raunverulegra framkvæmdaverkefna til að byggja upp meginferðamannastaði. Tillögunum verði í framhaldi raðað í forgangsröð og markvisst unnið að uppbyggingu samkvæmt þeirri áætlun. Ferðamálastofa sem og aðrir er koma að úthlutun styrkfjár styðjist við þessa greiningu þegar kemur að nýtingu fjármagns.

     Árangursmat: Dreifing ferðamanna sé vöktuð á landsvæðunum. Framkvæmdir metnar á grunni áætlunar með reglubundnum hætti.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa.

     Aðrir þátttakendur: Umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Byggðastofnun, þjóðgarðar, Umhverfisstofnun, Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, Vegagerðin, sveitarfélög o.fl.

     Tímaáætlun: 2010–2013.

27. Ferðaþjónusta tengd hefðbundnum atvinnugreinum.

     Markmið: Skoða sérstaklega hvernig stuðla megi að frekari uppbyggingu ferðaþjónustu tengdri landbúnaði og sjávarútvegi.

     Meginhugmynd: Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á nýtingu hefðbundins staðbundins hráefnis og landbúnaðarafurða í margvíslegum matarverkefnum. Mikilvægt er að greina hvernig til hefur tekist og hvað þarf til að efla þessa starfsemi en bændamarkaðir eða sala afurða beint frá býli geta verið vaxandi tekjulind auk þess sem svæðisbundnar afurðir í matargerð geta verið mikilvægur þáttur í upplifun ferðamanna. Þá þarf að leysa kvótamál tengd vaxandi sjóstangveiði ferðamanna.

     Árangursmat: Einföldun reglna og hindrunarlaus vöxtur greinarinnar.

     Ábyrgð á framkvæmd: Ferðamálastofa.

     Aðrir þátttakendur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og stofnanir þess.

     Tímaáætlun: 2011–2012.

VII. Félagsauður.

    Félagsauður hvers samfélags er innri styrkur þess til verkefna hvort sem er á sviði nýsköpunar, atvinnuuppbyggingar eða bættrar þjónustu og innviða. Félagsauðurinn hefur því afgerandi áhrif á búsetuskilyrði. Hann má til dæmis efla með menntun, menningarstarfi eða hvatningu til lýðræðislegrar þátttöku í ákvörðunum. Jöfn staða og tækifæri kynjanna á vinnumarkaði, tækifæri til að afla sér menntunar við hæfi, sækja þjónustu og afþreyingu og margt fleira hefur áhrif á búsetuval. Skapandi greinar efla skapandi atvinnulíf. Því er mikilvægt að taka félagsauðinn ætíð með í reikninginn í allri áætlanagerð.

28. Rannsókn á orsökum búferlaflutninga.

    Markmið:
Að lýsa orsökum búferlaflutninga.

     Meginhugmynd: Lagt er til að gerð verði rannsókn á orsökum búferlaflutninga á Íslandi og hvaða áhrifaþættir ráða búsetuvali kynjanna. Í framhaldi af því verði gerð áætlun um úrbætur, sé tilefni til.
              Árið 1997 kom út skýrslan „Búseta á Íslandi. Rannsókn á orsökum búferlaflutninga“. Skýrsla þessi vakti verðskuldaða athygli á sínum tíma.
              Margt hefur breyst í íslensku samfélagi frá útkomu skýrslunnar og upplýsingar í skýrslunni voru ekki kyngreindar. Í ljósi þess að mikill kynjahalli er orðinn á landsbyggðinni, þar sem konur eru víða mun færri en karlar, karlar leita sér mun síður menntunar en konur og ekki síst vegna upplýsinga nýrra rannsókna sem sýna aukinn launamun karla og kvenna á landsbyggðinni er ástæða til að ráðast í þessa rannsókn. Skoða þarf þær samfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað tengt atvinnulífi.

     Árangursmat: Skýrslan verður kynnt og hún birt í heild sinni þegar rannsókninni og úrvinnslu er lokið.

     Ábyrgð á framkvæmd: Byggðastofnun.

     Aðrir þátttakendur: Jafnréttisstofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Hagstofan, háskólar og rannsóknastofnanir.

     Tímaáætlun: 2012.

29. Bætt aðgengi að menntun.

     Markmið: Að bæta framboð og aðgengi að menntun á öllum skólastigum.

     Meginhugmynd:
     1.      Að þekkingarsetrin verði miðstöðvar fjarnáms í sem flestum greinum sem kenndar eru á framhalds- og háskólastigi, einkum á þeim stöðum þar sem framhalds- og háskólar eru ekki staðsettir.
     2.      Að efla framboð á starfs- og iðnnámi og gera skólum kleift að mæta ólíkum þörfum nemenda þar sem hver skóli byggi, eftir því sem hægt er, á sérkennum og styrkleikum hvers svæðis.
     3.      Að kortleggja í samvinnu við framhaldsskóla, fræðslusamtök á vinnumarkaði og Samtök iðnaðarins þau fyrirtæki í hverjum landshluta sem tekið geta nemendur á námssamning svo þeir geti lokið iðnnámi í sinni heimabyggð.

     Árangursmat: Metið af menntamálaráðuneyti. Árangur verður metinn út frá fjölda nema í námi og útskrifuðum nemum í gegnum fjarnám í samanburði við fyrri ár.

     Ábyrgð á framkvæmd: Menntamálaráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Símenntunarstöðvar, Byggðastofnun, sveitarfélög, háskólar og framhaldsskólar og samgönguráðuneyti.

     Tímaáætlun: 2011.

30. Áætlun um útrýmingu kynbundins launamunar.

     Markmið: Að skilja orsakir kynbundins launamunar eftir svæðum svo gera megi markvissa aðgerðaáætlun.

     Meginhugmynd: Rannsóknir benda til að kynbundinn launamunur sé mismunandi eftir svæðum. Frekari rannsóknir á þróun kynbundins launamunar og skýringum þess að hann er mismunandi eru mikilvægar forsendur markvissrar aðgerðaáætlunar um útrýmingu hans. Þá benda rannsóknir einnig til þess að munurinn á tekjum karla og kvenna sé mjög mismunandi eftir svæðum en sá munur getur einnig haft áhrif á þann kynjahalla sem víða gætir á landsbyggðinni og verður sífellt alvarlegra lýðfræðilegt vandamál þar sem fæðingartíðni lækkar og það fækkar í þeim aldurshópum sem samfélagið hvílir á.

     Árangursmat: Kannanir á kynbundnum launamun og tekjum karla og kvenna.

     Ábyrgð á framkvæmd: Félagsmálaráðuneyti.

     Aðrir þátttakendur: Jafnréttisstofa, Byggðastofnun, Hagstofan, háskólar og rannsóknastofnanir.

     Tímaáætlun: 2013.

31. Menning, skapandi greinar og listnám.

     Markmið: Efla fjölbreytni og nýsköpun í lista- og menningarmálum og þróun skapandi greina.

     Meginhugmynd: Fjölbreytt menningarlíf, listir og skapandi greinar hafa blómstrað víða um land. Svæðisbundnir menningarsamningar hafa skilað miklu og mikilvægt er að áfram verði stutt við fjölbreytt menningar- og listalíf á landsbyggðinni og tengsl þess við atvinnulífið verði bætt. Til að ná enn meiri árangri þarf að efla menntun á þessum sviðum. Menningarsamningar gætu í samstarfi við vaxtarsamninga og aðra álíka samninga sem kostaðir eru af ríkinu komið á fót og stutt samstarfsverkefni með framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum og þannig unnið að framgangi þessara greina. Verkefnin gætu einnig tengst hugmyndum um þekkingarsetur á landsbyggðinni, sérstaklega ef þau ættu að tengjast starfsemi á háskólastigi. Þau ættu að byggjast á menningar- og náttúrusérkennum hvers svæðis, vera sem víðtækust á sviði rit-, nytja-, sviðs- og sjónlista og hafa tengsl við atvinnulíf, t.d. framleiðslufyrirtæki.

     Árangursmat: Stjórnir vaxtar- og menningarsamninga munu meta árangur af því tveggja ára starfi sem tillagan er um. Eftirsóknarvert er að geta metið svæðisbundinn árangur af listnámi, hvort það muni hafa áhrif á starfsemi sem fyrir er á svæðinu, leiða til nýrrar starfsemi, og hvort það muni hafa áhrif á búsetu-, starfs- og námsval nemendanna.

     Ábyrgð á framkvæmd: Svæðisbundnir menningar- og vaxtarsamningar.

     Aðrir þátttakendur: Þekkingarsetur, atvinnuþróunarfélög, símenntunarstöðvar, framhaldsskólar, leikfélög, framleiðslu- og ferðafyrirtæki.

     Tímaáætlun: Gert er ráð fyrir undirbúningstímabili 2010 og að verkefninu verði hrundið í framkvæmd á árunum 2012–2013.



Fylgiskjal.


Byggðastofnun:

Byggðaþróun – Ástand og horfur.



1. INNGANGUR
    Stefnumótandi byggðaáætlun „skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum“ segir í 7. grein laga nr. 106/1999 um Byggðastofnun. Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun samkvæmt þessari lagagrein í samvinnu við Byggðastofnun, ráðuneyti, sveitarfélög og fleiri og leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu, áætlunum um aðgerðir, tengslum byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
    Byggðastefna íslenskra stjórnvalda mótast mjög af því að Ísland er hluti alþjóðlegs samfélags, markaðar og regluverks. Byggðastefna Evrópusambandsins stefnir að „byggðalegum fjölbreytileika“ 1 og líkri stefnu fylgja Norðurlönd. 2
    Á vettvangi norrænna byggðarannsókna og norræns samstarfs um byggðamál hefur athygli beinst að þróun byggðastefnu yfir í þriðju kynslóð byggðastefnu með áherslu á sérkenni svæða og „byggðalegan fjölbreytileika“. Fyrsta kynslóð byggðastefnu á Norðurlöndum var samkvæmt þessum viðhorfum mótuð á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og miðaði að því að jafna efnahagsskilyrði innanlands með hagrænum aðgerðum, styrkjum og undanþágum. Önnur kynslóð byggðastefnu óx smám saman á 10. áratugnum, framyfir aldamót, undir áhrifum vaxandi samkeppni við nýja þátttakendur í alþjóðavæðingunni, einkum lönd í Suðaustur-Asíu. Þessu fylgdu kröfur um meiri samkeppnishæfni og vöxt og þá færðust áherslur yfir á að efla svæðisbundinn vöxt til þess að mynda vöxt á landsvísu. Samkvæmt því var m.a. víða gripið til gerðar svæðisbundinna vaxtarsamninga. Áherslan á svæðin, á vöxt á landshlutavísu, og starfið á þeim grunni hefur leitt til fleiri tækifæra til ábyrgðar á landshlutastigi. Því hefur umræða um stefnumótun beinst að mikilvægi öflugs framkvæmdafólks og skilvirkrar forystu á landshlutastigi. Með breyttu samstarfi um stefnumótun og „stækkun svæða“, sameiningum, hefur verið leitast við að efla frumkvæði, forystu og ábyrgð landshlutanna. Hér virðist vegurinn fyrir 3. kynslóð byggðastefnu vera varðaður. Athyglinni verði beint að sérstöðu hvers einstaks landshluta og vaxtarskilyrðum hans, stefnan þarf að vera sveigjanleg og þeir sem bera ábyrgð á henni líka. Alþjóðavæðingin virðist þannig koma í veg fyrir eina stefnu fyrir alla byggð hvers lands og mikilvægt að marka stefnu og áætlanir til framtíðar á þessum skilningi. Hin hraðvirku áhrif í alþjóðlegu efnahagskerfi hafa orðið Íslendingum augljós á árunum 2008 og 2009.
    Lífskjör á Íslandi voru um langt árabil með því besta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Hagvöxtur hefur verið mikill, verðbólga fremur lág og lítið sem ekkert atvinnuleysi. Á síðari hluta árs 2008 urðu hins vegar alger og snögg umskipti. Ísland hefur orðið sérstaklega illa úti í þeirri heimskreppu sem nú geisar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, og stærstu bankastofnanir landsins hafa orðið gjaldþrota, en saman mynduðu þeir um 85% af bankakerfi landsins. Gjaldeyrismarkaður heima fyrir þornaði upp og alvarleg röskun varð á greiðslumiðlun til og frá landinu. Margt hefur verið rætt og ritað um orsakir þessa, en ljóst er að íslensku bankarnir höfðu vaxið mjög hratt á undangengnum árum. Þetta leiddi til þess að í árslok 2007 var íslenska bankakerfið orðið eitt hið stærsta í heimi í samanburði við verga landsframleiðslu. Það var því ljóst að fall þeirra myndi skapa djúpstæða kreppu á Íslandi. Fall íslensku krónunnar og háir vextir hafa leitt mikla erfiðleika yfir atvinnulífið. Mörg fyrirtæki hafa farið í þrot og atvinnuleysi hefur margfaldast. Skráð atvinnuleysi á árinu 2009 varð með 9,1% í maímánuði en lækkaði síðan stöðugt til septembermánaðar þegar það fór niður í 7,2%. Atvinnuleysi jókst hins vegar lítillega í októbermánuði og mældist þá 7,6%. 3 Atvinnuleysi ársins 2009 samsvarar því að stærstur hluti þeirra fjölgunar á störfum sem varð frá árinu 2000 hafi tapast. Á tímabilinu 2000–2008 fjölgaði hins vegar íbúum landsins um tæplega 37.000 eða um 13%. Þetta hefur leitt til þess að þjóðarbúskapurinn hefur færst inn í tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda. Í kjölfar bankahrunsins sömdu íslensk stjórnvöld um lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli áætlunar sem hefur þríþætt markmið: Í fyrsta lagi að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og stuðla að hækkun á gengi íslensku krónunnar, í öðru lagi að móta stefnu í ríkisfjármálum fyrir árin eftir 2009 sem viðbrögð við fyrirsjáanlegum halla í ríkisrekstrinum, og í þriðja lagi að endurreisa fjármálakerfið. Mikill vandi blasir við í ríkisfjármálunum þar sem stöðva þarf hallarekstur ríkissjóðs. Það er mat Fjármálaráðuneytisins að ná þurfi fram allt að 40–50 milljarða króna sparnaði í ríkisrekstri á fjárlögum ársins 2010. Það svarar til 10% af útgjaldaveltu ráðuneytanna.
    Grunnstoðir íslensks efnahagslífs eru þó sterkar. Landið býður uppá aðgengi að hreinum orkugjöfum, ríkulegum auðlindum í hafinu og velmenntað vinnuafl auk þess sem grunnstoðir samfélagsins eru að öðru leyti sterkar. Í þessum aðstæðum felast tækifæri þjóðarinnar til þess að vinna sig upp úr kreppunni til sjálfbærrar þróunar og þessar aðstæður – ásamt því að íbúafjöldi virðist vaxa utan höfuðborgarsvæðisins – rökstyðja að svipaðar áherslur verði lagðar í byggðaþróun nú og við síðustu byggðaáætlanir, að byggja á frumkvæði, auðlindum og mannauði í landshlutunum eins og gert er í vaxtarsamningunum, breyta byggðalegum fjölbreytileika í styrkleika eins og annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Skilgreina þarf sérkenni svæðanna, samfélög, auðlindir, sóknarfæri og veikleika og byggja áherslur og markmið á niðurstöðunum, samhæfa opinberar áætlanir og miða þær að sömu markmiðum og framtíðarsýn og draga þannig úr líkum á ágreiningi og hámarka samvirkni.
    Undirbúningur fyrir þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun hófst haustið 2008 með fundum iðnaðarráðuneytis, Byggðastofnunar og annarra undirstofnana ráðuneytisins, um það leyti sem íslenska bankakerfið hrundi. Einmitt þá má segja að skyggni til framtíðar hafi verið minnst um langan tíma, örðugt hafi verið að meta framtíðarhorfur og hverjar áherslur og aðgerðir ættu að einkenna tillögur um stefnumótandi byggðaáætlun. Ráðuneytið fól Byggðastofnun að vinna að mótun áætlunarinnar og var ákveðið að hafa vinnsluferilinn opinn og leita víða eftir viðhorfum. Því gekkst Byggðastofnun fyrir málþingi undir heitinu Byggðaþróun við breyttar aðstæður föstudaginn 28. nóvember í Reykjavík og bauð til þess fulltrúum allra ráðuneyta, atvinnuþróunarfélaga, samtaka sveitarfélaga og fjölda stofnana sem Byggðastofnun taldi áríðandi að hafa samráð við um áætlunina. Í framhaldinu vann Byggðastofnun úr viðhorfum sem fram komu á málþinginu og lagði til kynningar á vefsíðu sinni ásamt gögnum málþingsins. 4 Tillögur mótuðust áfram í samstarfi Byggðastofnunar og iðnaðarráðuneytisins og í mars 2009 voru drög að aðgerðartillögum lögð til kynningar og umsagnar á vefsíðu Byggðastofnunar. Starfsmenn Byggðastofnunar héldu síðan fundi um þau seinni hluta marsmánaðar í samstarfi við átta atvinnuþróunarfélög í jafnmörgum landshlutum auk fundar með starfsmönnum og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík. Til funda í landshlutunum voru boðaðir sveitarstjórnarmenn, stjórnir landshlutasamtaka sveitarfélaga og stjórnir og starfsfólk atvinnuþróunarfélaganna, drögin kynnt og rædd, fundarmenn beðnir um ábendingar og athugasemdir sem síðan var skilað til Byggðastofnunar í apríl og raunar fram í maí. Í júní og júlí 2009 voru tillögur þróaðar áfram í samstarfi iðnaðarráðuneytisins og Byggðastofnunar og stofnunin lagði þá fram fylgirit með tillögunni, Byggðaþróun, ástand og horfur.
    Í nóvember 2009 voru endurskoðaðar aðgerðartillögur sendar til umsagnar þeirra sem gert höfðu skriflegar athugasemdir á vormánuðum og fylgiritið birt á heimasíðu Byggðastofnunar. Í framhaldinu voru nokkur atriði þess uppfærð í byrjun desember, verkefnaskrár NPP- og NORA-áætlananna og upplýsingar um atvinnuleysi.

2. ÞRÓUN SÍÐUSTU ÁRA OG ÞRÓUNARHORFUR
2.1 Mannfjöldi, tekjur og atvinna
2.1.1 Mannfjöldi
    Mikil fjölgun fólks hefur verið á suðvesturhluta landsins síðastliðin ár sem framhald á þróun sem hefur verið viðvarandi alla 20. öldina. 5 Á tímabilinu frá 1. desember 2000 til 1. desember 2008 fjölgaði íbúum á Íslandi úr 282.845 í 319.756. Fjölgunin er 36.911 manns eða 13,05%. Hlutfallslega mesta fjölgunin á þessu tímabili varð á Suðurnesjum um 30,8%, á höfuðborgarsvæðinu um 15,2%, á Suðurlandi um 14,5%, á Vesturlandi 10,2%, á Austurlandi um 9,5% og á Norðurlandi eystra um 3,1%. Fækkun varð hins vegar á Vestfjörðum, um 9,5% og á Norðurlandi vestra um 6,1%.

Tafla 2.1.1.1 Íbúafjöldi eftir svæðum árin 2000 og 2004.

Landssvæði íbúar '00 íbúar '04 Mism. %
Höfuðborgarsvæði 175.000 183.990 8.990 5,14%
Suðurnes 16.491 17.092 601 3,64%
Vesturland 14.263 14.418 155 1,09%
Vestfirðir 8.150 7.698 -452 -5,55%
Norðurland vestra 7.873 7.598 -275 -3,49%
Norðurland eystra 28.181 28.404 223 0,79%
Austurland 11.768 12.298 530 4,50%
Suðurland 21.119 21.793 674 3,19%
Samtals: 282.845 293.291 10.446 3,69%

    Þróunin var þó ekki einsleit allt tímabilið eins og meðfylgjandi myndir og töflur bera með sér. Á árabilinu 2000–2004 var stöðug fólksfjölgun á áhrifasvæði höfuðborgarinnar, á Akureyri og allra næstu sveitarfélögum og Mið-Austurlandi sem rekja má til virkjunarframkvæmda á svæðinu. Víðast hvar annars staðar var ákveðin fækkun.

Tafla 2.1.1.2 Íbúafjöldi eftir svæðum árin 2004 og 2008

Landssvæði íbúar '04 íbúar '08 Mism. %
Höfuðborgarsvæði 183.990 201.585 17.595 9,56%
Suðurnes 17.092 21.564 4.472 26,16%
Vesturland 14.418 15.720 1.302 9,03%
Vestfirðir 7.698 7.374 -324 -4,21%
Norðurland vestra 7.598 7.395 -203 -2,67%
Norðurland eystra 28.404 29.060 656 2,31%
Austurland 12.298 12.882 584 4,75%
Suðurland 21.793 24.176 2.383 10,93%
Samtals: 293.291 319.756 26.465 9,02%


    Mynd 2.1.1.1 Þróun íbúafjöldans eftir sveitarfélögum árin 2000–2004.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Mynd 2.1.1.2 Þróun íbúafjöldans eftir sveitarfélögum árin 2004–2008.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á árabilinu 2004–2008 varð fjölgun á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess ákveðnari og náði á því tímabili frá Borgarfirði og austur fyrir Þjórsá. Á árinu 2008 mátti sjá nokkra breytingu á þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár þar sem það fjölgaði í öllum landshlutum utan Austurlands þar sem rekja má fækkun íbúa til að þess að stórframkvæmdum á svæðinu er að mestu lokið. Vísbendingar um áframhald á þessari þróun má sjá í bráðabirgðatölum Hagstofunnar um mannfjölda 1. apríl 2009. Íbúum fjölgaði þá í mörgum sveitarfélögum utan við höfuðborgarsvæðið og þar á meðal nokkrum sem hafa búið við viðvarandi fólksfækkun til margra ára. Þegar litið er til kynjaskiptingar mannfjöldans má sjá að skipting og þróun skiptingarinnar er með nokkuð mismunandi hætti eftir landssvæðum. Þannig fjölgaði körlum á landinu um tæplega 21.000 frá árinu 2000 til ársins 2008 á meðan konum fjölgaði aðeins um tæp 16.000 á sama tímabili. Þetta hefur leitt af sér að karlar eru nú fleiri ern konur á öllum landssvæðum en árið 2000 og 2004 voru konur mun fleiri en karlar á höfuðborgarsvæðinu. Þróunin hefur verið mjög mismunandi eftir landsvæðum en hlutfallslega er mestur kynjahalli á Austurlandi þar sem karlar eru tæp 7.000 á móti innan við 6.000 konum. Helsta ástæða þessa munar á Austurlandi eru stórframkvæmdirnar á Austurlandi og líklegt verður að telja að þessi munur muni minnka verulega á næstu misserum.

Tafla 2.1.1.3 Kynjaskipting eftir svæðum 2000, 2004 og 2008


og breyting á milli áranna 2000 og 2008.


Karlar 2000 2004 2008 Breyting %
Breyting
Höfuðborgarsvæðið 86.275 90.844 101.364 15.089 17,49%
Suðurnes 8.412 8.711 11.187 2.775 32,99%
Vesturland 7.312 7.447 8.181 869 11,88%
Vestfirðir 4.179 3.949 3.800 -379 -9,07%
Norðurland vestra 4.047 3.867 3.787 -260 -6,42%
Norðurland eystra 14.288 14.319 14.686 398 2,79%
Austurland 6.090 6.675 6.985 895 14,70%
Suðurland 10.990 11.226 12.548 1.558 14,18%
Samtals 141.593 147.038 162.538 20.945 14,79%
Konur 2000 2004 2008 Breyting %
Breyting
Höfuðborgarsvæðið 88.725 93.146 100.221 11.496 12,96%
Suðurnes 8.079 8.381 10.377 2.298 28,44%
Vesturland 6.951 6.971 7.539 588 8,46%
Vestfirðir 3.971 3.749 3.574 -397 -10,00%
Norðurland vestra 3.826 3.731 3.608 -218 -5,70%
Norðurland eystra 13.893 14.085 14.374 481 3,46%
Austurland 5.678 5.623 5.897 219 3,86%
Suðurland 10.129 10.567 11.628 1.499 14,80%
Samtals 141.252 146.253 157.218 15.966 11,30%

    Tilflutningar fólks úr dreifbýli í þéttbýli er alþjóðleg þróun. Byggðaaðgerðir verða að taka mið af þeirri þróun og því að fólk sækist í að búa í meira þéttbýli þar sem að oftast er að finna fjölbreyttari möguleika á ýmsum sviðum. Á sama hátt verða mælikvarðar sem nota á til að meta árangur af byggðastefnu og byggðaaðgerðum að taka mið af þessum staðreyndum. Þeir mælikvaðar sem litið verður til eru mannfjöldabreytingar og fólksflutningar, breyting á fjölda starfa, hagvexti og tekjum.
    Ef hugað er að þróun byggðamála á gildistíma Byggðaáætlunar 2006–2009 er hægt að fullyrða að nokkuð víða hefur mikið áunnist þó þróunin hafi orðið mismunandi eftir svæðum, líkt og við er að búast þar sem það er að sjálfsögðu þannig að fleiri þættir en byggðaaðgerðir einar hafa áhrif á þróun mála.


     Mynd. Hlutfallslegt atvinnuleysi í október 2009

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2.1.2 Atvinnuleysi

    Atvinnuleysi á landinu var lítið meginhluta tímabilsins frá árinu 2000 til haustsins 2008, hvort heldur sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. 6 Frá þessu voru þó tíma- og staðbundnar undantekningar. Gjörbreytt staða er nú uppi með þeirri gífurlegu aukningu sem varð í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Sú aukning hélt áfram á fyrstu mánuðum ársins 2009 og í októberlok mældist atvinnuleysi 7,6% en var í kringum 1% fyrri hluta árs 2008. Atvinnulausir karlar reyndust vera 8,0% á móti 7,6% hjá konum. Meginþungi þess atvinnuleysis er á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess. Í þessum kafla er byggt á tölum frá Vinnumálastofnun.

Mynd 2.1.2.1


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á höfuðborgarsvæðinu voru rúmlega 5.500 manns atvinnulausir í árslok 2008 en hafði fjölgaði í rúmlega 10.000 í októberlok 2009 eða 7,4%. Þetta er mikil breyting þar sem atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu voru innan við eitt þúsund á fyrri hluta ársins 2008. Á tímabilinu fyrir árið 2008 var atvinnuleysi mest á fyrri hluta árs 2003 þegar það fór í 4.000 manns og á fyrri hluta ársin 2004 þegar það fór í tæplega 4000 manns. Frá þeim tíma hafði það síðan minnkað stöðugt fram til haustsins 2008 eins og áður segir.

Mynd 2.1.2.2


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á Suðurnesjum var mjög lítið atvinnuleysi á árunum 2000–2001 en jókst nokkuð á árunum á eftir þegar það var á bilinu 200–400 manns voru atvinnulausir. Það minnkaði síðan fram til haustins 2008 þegar það margfaldaðist á stuttum tíma og stóð í tæplega 1.200 manns í árslok. Eins og á höfuðborgarsvæðinu jókst atvinnuleysið á árinu 2009 og stóð í rúmlega 1.500 manns í októberlok eða 12,6%.

Mynd 2.1.2.3


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Atvinnuleysi á Vesturlandi sveiflaðist mikið á tímabilinu 2000–2008. Það er nú í hámarki en stóð í árslok 2008 í rúmlega 300 manns. Hæst hafði það áður farið í ársbyrjun 2003 þegar það fór í tæplega 300 manns. Frá seinni hluta árs 2005 var mjög lítið atvinnuleysi á svæðinu eða á bilinu 50–100 manns alveg fram til ársins 2008 þegar að það fór að aukast. Í októberlok voru atvinnulausir á Vesturlandi tæplega 450 manns eða 4,7%.

Mynd 2.1.2.4



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Á Vestfjörðum er atvinnuleysi með því minnsta á landinu eða 2,5% og er í októberlok 2009 nálægt hæstu toppum tímabilsins frá árinu 2000. Mesta atvinnuleysið var í kringum áramótin 2000/2001 þegar það fór í 140 manns og í upphafi árs 2004 þegar það var um 130 manns. Frá þeim tíma fór atvinnuleysi minnkandi fram til haustsins 2008 með þeirri undantekningu að tímabundin aukning varð sumarið 2007.

Mynd 2.1.2.5



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árstíðasveiflur einkenna atvinnuleysi á Norðurlandi vestra framan af tímabilinu. Sjá má atvinnuleysi upp á 80–120 manns yfir vetrarmánuðina sem aftur fór niður í 20–40 manns yfir sumarmánuðina. Heldur dró úr þessum sveiflum síðustu þrjú árin og var atvinnuleysi undir 40 allt fram til hausts 2008 þegar atvinnuleysi jókst nokkuð og fór í 70 manns í árslok. Á árinu hefur atvinnuleysi aukist nokkuð og mælist í októberlok 2,2% sem er svipað og það var yfir vetrarmánuðina á árunum 2000–2005.

Mynd 2.1.2.6



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þróun atvinnuleysis á Norðurlandi eystra var að mörgu leyti lík og á Norðurlandi vestra þar sem að árstíðasveiflur eru greinilegar. Atvinnuleysi á vetrum árin 2000–2005 fór í 500–600 manns en lækkaði um 200–300 manns á sumrin. Frá árinu 2005 minnkuðu þessar sveiflur verulega um leið og atvinnuleysi minnkaði niður í 300 manns. Frá haustinu 2008 til áramóta þrefaldaðist atvinnuleysi á Norðurlandi eystra og var 940 manns í árslok. Mjög veruleg aukning varð á atvinnuleysi í upphafi árs 2009 og fór það hæst yfir 1.600 manns en minnkaði nokkuð í mars- og aprílmánuðum. Í októberlok voru tæplega 1.100 manns atvinnulausir á Norðurlandi eystra eða 8,3%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.1.2.7


    Á Austurlandi voru tæplega 400 manns atvinnulausir ársbyrjun 2001. Nokkrar sveiflur voru á atvinnuleysi á tímabilinu 2001–2004, en eftir það fram til haustsins 2008 var atvinnuleysi á Austurlandi lítið. Frá haustmánuðum hefur það farið úr tæplega 50 upp í tæplega 250 í árslok. Í upphafi árs 2009 varð veruleg aukning eins og víðast hvar annars staðar á landinu og fór hæst í 460 manns í mars en lækkaði á árinu og var í októberlok um 240 manns eða 2,8%.

Mynd 2.1.2.8



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á Suðurlandi voru miklar árstíðarsveiflur framan af tímabilinu 2000–2008 þar sem atvinnuleysi á vetrum fór í 300–400 manns. Veruleg minnkun varð á atvinnuleysi frá og með árinu 2004 allt fram til hausts 2008 þegar atvinnuleysi stóð í um 100 manns. Fram til áramóta sexfaldaðist atvinnuleysið og hélt áfram að aukast í upphafi árs 2009 og fór hæst í 1.000 manns. Í októberlok stóð það í tæplega 700 manns eða 4,6%.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.1.2.9


2.1.3 Atvinnutekjur
    Meðalatvinnutekjur hækkuðu um 37–38%, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess á tímabilinu 2000–2005, en nýrri tölur eru ekki til. 7 Mest var hækkunin á Austurlandi um 52% þar sem meðalatvinnutekjur á árinu 2005 voru rétt neðan landsmeðaltals. Minnst var hækkunin á Suðurnesjum 28% og 33% á Suðurlandi. Atvinnutekjur á landsbyggðinni voru á tímabilinu 15–20% lægri en á höfuðborgarsvæðinu. Meðalatvinnutekjur voru lægstar á Norðurlandi vestra og Suðurlandi þar sem þær voru aðeins 83% af landsmeðaltali. Líkur eru á að munur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hafi minnkað á árinu 2006 en í skýrslu um Hagvöxt landshluta 2006, sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðastofnun, kemur fram að hagvöxtur utan höfuðborgarsvæðisins var meiri árið 2006 en hagvöxtur á höfuðborgarsvæðinu. Búast má við að nú sé þessi staða breytt í kjölfar fjöldaatvinnuleysis og lækkunar launa víða í samfélaginu.

Tafla 2.1.3.1 Meðalatvinnutekjur eftir landssvæðum árin 2000–2005


2000 2001 2002 2003 2004 2005
Alls 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 106,2 105,6 105,3 106,0 106,8 106,0
Utan höfuðborgarsvæðis 90,4 91,3 91,8 90,6 89,2 90,1
Vesturland 92,1 92,9 92,2 90,7 91,1 92,1
Vestfirðir 89,6 88,5 89,7 87,2 86,2 87,1
Norðurland vestra 83,9 84,0 85,6 84,7 83,1 83,4
Norðurland eystra 89,8 91,6 92,8 91,0 90,5 90,6
Austurland 89,7 91,5 93,8 92,5 95,2 99,0
Suðurland 86,3 87,6 87,4 87,1 84,0 83,5
Suðurnes 100,2 99,4 98,9 97,6 92,1 93,0
Heimild: Hagstofa Íslands


    Meðalatvinnutekjur karla á höfuðborgarsvæðinu og utan þess fylgja nokkuð heildarþróuninni. Þannig eru meðaltekjur á höfuðborgarsvæðinu nokkuð yfir landsmeðaltali á meðan þær eru undir meðaltali utan þess. Þá eru tekjurnar lægstar á Norðurlandi vestra og Suðurlandi en hæstar utan höfuðborgarsvæðisins á Austurlandi.

Tafla 2.1.3.2 Atvinnutekjur karla eftir landssvæðum árin 2000–2005


2000 2001 2002 2003 2004 2005
Alls 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0 100,0
Höfuðborgarsvæði 105,6 104,8 104,2 105,3 106,3 105,6
Utan höfuðborgarsvæðis 92,0 93,1 93,9 92,2 90,7 91,4
Vesturland 93,8 94,7 94,0 92,1 92,9 93,8
Vestfirðir 91,5 90,3 91,8 88,7 87,6 88,9
Norðurland vestra 82,8 82,6 85,0 84,2 82,5 83,8
Norðurland eystra 92,8 94,7 96,2 93,6 93,2 93,1
Austurland 91,1 93,7 97,1 95,0 96,1 97,5
Suðurland 85,8 87,8 88,2 87,7 84,7 84,3
Suðurnes 103,3 102,4 101,6 100,2 94,3 94,8
Heimild: Hagstofa Íslands


    Meiri munur er á atvinnutekjum kvenna á höfuðborgarsvæðinu og utan höfuðborgarsvæðisins en hjá körlum. Atvinnutekjur er lægstar á Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. En minna munar á milli einstakra svæða utan höfuðborgarsvæðisins en hjá körlum.

Tafla 2.1.3.3 Atvinnutekjur kvenna eftir landssvæðum árin 2000–2005
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Alls 100 100 100 100 100 100
Höfuðborgarsvæði 109,1 109 109 109 109 108
Utan höfuðborgarsvæðis 84,8 85,2 85,3 85,1 84,0 85,2
Vesturland 85,5 85,9 85,3 85,2 84,6 86,0
Vestfirðir 85,1 83,2 83,9 82,4 82,4 83,7
Norðurland vestra 82,9 83,6 84,2 83,6 82,6 82,6
Norðurland eystra 82,5 84,5 85,0 84,9 84,4 85,7
Austurland 83,5 83,4 83,4 83,7 85,8 89,2
Suðurland 83,6 83,9 83,4 84 81,6 81,4
Suðurnes 91,5 90,8 90,9 90,3 86,3 87,9
Heimild: Hagstofa Íslands


    Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands útgefin í september 2008 (bls. 40), „Kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði“, kemur m.a. eftirfarandi fram: „Að meðaltali eru heildarlaun á höfuðborgarsvæðinu 12% hærri en á landsbyggðinni og ef tekið er tillit til vinnuframlags breikkar bilið á milli starfsmanna á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Karlar á höfuðborgarsvæðinu hafa 16% hærra heildartímakaup en karlar á landsbyggðinni en þessi munur er 29% á meðal kvenna.“ Munur á launum karla og kvenna er samkvæmt skýrslunni einnig meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Mismunur í launum er því verulegur bæði á milli kynja og einnig eftir búsetu fólks sem styður niðurstöður Hagstofunnar um atvinnutekjur hér að framan.

Mynd 2.1.3.1 Fjöldi starfa á höfuðborgarsvæðinu og utan þess 2000–2007.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 2.1.3.2

    Á tímabilinu 2000–2007 fjölgaði störfum um 20.700 á landinu öllu. Öll sú fjölgun og meiri til varð á höfuðborgarsvæðinu en þar fjölgaði störfum á þessum tímabili um 21.100 á meðan störfum utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði um 400. Ef litið er til kynjaskiptingar þá fjölgaði körlum í störfum á höfuðborgarsvæðinu um 13.900 en konum í störfum um 7.200. Meginhluta þessarar aukningar má rekja til aukningar í þjónustustarfsemi, bæði í opinbera og einkageiranum. Utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði hins vegar starfandi körlum um 1.000 en konum fjölgaði um 600. Ef dregnar eru ályktanir af tölum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi er ekki óvarlegt að ætla a.m.k. 15 þúsund störf hafi tapast frá haustmánuðum 2008 til aprílloka 2009. Ætla má að allt að 11 þúsund þeirra séu á höfuðborgarsvæðinu og um 4 þúsund á landsbyggðinni, þ.m.t. á Suðurnesjum.
    Sé litið til þróunar starfa á liðnum árum sést að hún var mjög á þann veg að störf lögðust af á landsbyggðinni. Ný störf urðu til á höfuðborgarsvæðinu, líka í landbúnaði og fiskveiðum. Þessi þróun kemur skýrt fram á töflunni hér til hliðar. 8

2.2 Hagþróun
2.2.0 Almennt
    Undanfarin ár hafa verið nokkrar sveiflur í framleiðslu í einstökum landshlutum en á tímabilinu frá 2000–2006 má segja að hagvöxtur hafi verið að mestu bundinn við þrjú svæði hér á landi. 9 Í fyrsta lagi er vöxtur á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess, frá Árnessýslu í austri og vestur í Borgarfjörð. Þá hefur verið töluverður hagvöxtur á Akureyri og nágrenni. Í þriðja lagi hefur verið mikill vöxtur á Mið-Austurlandi, vegna hinna miklu framkvæmda þar. Annars staðar á landinu var hagvöxtur lítill eða enginn á þessu tímabili. Ef litið er til íbúatalna má greina mismunandi breytingar. Á Vesturlandi hefur orðið veruleg fólksfjölgun á suðurhluta svæðisins, í Borgarbyggð, á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, á meðan að það hefur orðið fækkun á Snæfellsnesi og í Dölum. Á Norðurlandi eystra er fjölgun íbúa bundin við Akureyri og 2–3 allra næstu sveitarfélög, á meðan fólki fækkar annars staðar. Á Austurlandi er fólksfjölgun bundin við Mið-Austurland, þ.e. Fljótsdalshérað, Fljótsdalshrepp og Fjarðabyggð. Stór hluti af þeirri fjölgun eru erlendir verkamenn sem starfa við álversframkvæmdirnar. Á Suðurlandi nær fjölgunin austur að Þjórsá og jafnvel austur fyrir hana en fólki fækkar í Austur-Skaftafellssýslu og í Vestmannaeyjum.
    Íbúatölurnar sjálfar segja ekki alla söguna. Í mörgum litlum byggðarlögum fækkar fólki undir fertugu ört meðan fjöldi þeirra sem eldri eru helst stöðugur. Tölur um fólksfjölgun og vöxt útsvarstekna í einstökum sveitarfélögum voru notaðar til þess að áætla hagvöxt þar á árunum 2000 til 2006. Þessar tölur virðast gefa allgóðar vísbendingar um raunverulegan hagvöxt, einkum þó útsvarstekjurnar, en þær skýra um 80% af breytileika í hagvexti á tímabilinu. Út frá þessum vísbendingum má áætla hagvöxt á smærri svæðum en áður hefur verið gert. Mjög hraður vöxtur var á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2000 til 2006. Þessi vöxtur smitaði út frá sér til nágrannabyggðanna. Þannig má sjá að töluverður vöxtur var í Árnessýslu á þessu tímabili. Vöxtur var einnig allmikill í Borgarfirði og á Suðurnesjum. Vöxt í Borgarfirði má raunar bæði tengja við Hvalfjarðargöng, sem stytti leiðina til höfuðborgarinnar um 50 kílómetra, og uppbyggingu stóriðju á Grundartanga. Í grannhéruðum höfuðborgarinnar má fá ódýrar lóðir, auk þess sem njóta má þeirra kosta sem lítil byggðarlög bjóða (til dæmis stuttra vegalengda), en samt er ekki langt í stórar verslanir og aðra þjónustu í höfuðborginni. Þá sækja margir vinnu til Reykjavíkur og margir borgarbúar fara á degi hverjum til vinnu í grannhéruðum. Geysimikill vöxtur var á framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls en samdráttur eða stöðnun var í grannhéruðum á Austurlandi. Þá var nokkur vöxtur í Eyjafirði og í Skagafirði en annars staðar á Norðurlandi var víðast hvar lítils háttar samdráttur eða stöðnun. Byggð eflist heldur á Ísafirði en annars staðar á Vestfjörðum er stöðnun í framleiðslu eða samdráttur.
    Á utanverðu Snæfellsnesi og í Rangárvallasýslu, Vestmannaeyjum og Vestur Skaftafellssýslu var víða lítils háttar vöxtur en vísbendingar um einstaka sveitarfélög eru ekki á einn veg. Svipaða mynd og hér hefur verið dregin upp má sjá þegar fasteignaverð í þéttbýli er skoðað. Það hækkaði afar mikið á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi fram á árið 2008 en mun minna annars staðar á landinu. Þegar fasteignaverð árin 2007–2008 er skoðað sést að áhrifa höfuðborgarinnar gætir upp í Borgarfjörð, austur fyrir Selfoss og suður til Keflavíkur. Þá er verð hærra á Akureyri, Mið-Austurlandi og í Skagafirði en annars staðar á landsbyggðinni. Annars staðar á landinu er fasteignaverð yfirleitt innan við helmingur af verði í höfuðborginni.
    Enn einn mælikvarðinn sem hægt er að setja á hagþróun eða þenslu á einstökum svæðum er hversu mikið var byggt á viðkomandi svæði. Á mynd 2.2.0.1 er yfirlit yfir heildarfjölda fokheldra fermetra eftir landssvæðum á árunum 2002–2008. Þar sést gríðarlegur munur sem hefur verið á byggingarmagni á landinu á tímabilinu. Á meðan fokheldir fermetrar á Reykjanesi (Suðurnes og höfuðborgarsvæðið án Reykjavíkur) voru 1,5 milljón og 1 milljón í Reykjavík voru þeir aðeins 38 þúsund á Vestfjörðum og 94 þúsund á Norðurlandi vestra.
    Á mynd 2.2.0.1 sést vel að hversu gríðarlegur munur er á byggingarmagni eftir landssvæðum og árum. Þessar tölur renna stoðum undir það sem áður hefur verið sagt um þenslusvæði á landinu, þ.e. í kringum höfuðborgarsvæðið og síðan á Austurlandi.

Mynd 2.2.0.1 Heildarfjöldi fokheldra fermetra eftir landssvæðum
á árunum 2002–2008.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Fasteignamat ríkisins


Mynd 2.2.0.2 Heildarfjöldi fokheldra fermetra eftir landssvæðum og árum
á árunum 2002–2008.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Fasteignamat ríkisins


    Víða í þéttbýli á landsbyggðinni eru umhverfismál með þeim hætti að það laðar ekki til búsetu. Mikilvægt er að virkja íbúa til að taka þátt í að móta tillögur um hvernig samfélagið og umhverfið verði áhugaverðara og betra til búsetu. Misjafnt er eftir þéttbýliskjörnum hvar skórinn kreppir. Leggja þarf áherslu á ímynd hvers samfélags, sjálfsvirðingu og sérstöðu frekar en að leita fyrirmynda á höfuðborgarsvæðinu.

2.2.1 Atvinnugreinar
    „Rekstraraðstæður fyrirtækja hafa versnað mikið í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hruns íslensku bankanna. Þannig hefur eftirspurn eftir framleiðslu fyrirtækja almennt dregist saman. Þá hefur lækkun á gengi krónunnar, hátt vaxtastig og takmörkuð geta bankanna til þess að veita lán leitt til þess að mörg fyrirtæki hafa farið í þrot. Fyrirtæki í útflutningi njóta þó góðs af bættri verðsamkeppnisstöðu og tekjur í erlendri mynt gera þeim auðveldara fyrir að greiða af erlendum lánum.“ 10 Gert er ráð fyrir samdrætti í framleiðslu á árinu 2009 en hægum bata spáð næstu ár.
    Heildarframleiðslugeta álvera á Íslandi er tæplega 800.000 tonn eftir að álver Alcoa Fjarðaráls náði fullum afköstum upp á 350.000 tonn á síðasta ári. Áætlanir eru um nýtt í Helguvík og stækkanir á öðrum sem gætu leitt til þess að framleiðslugeta álvera á Íslandi myndi aukast um rúmlega 50%. Inni í þessum tölum er ekki hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík. Fjármálakreppan hefur leitt af sér miklu lækkun á eftirspurn og verði á áli. Útflutningsverðmæti áls verður því minna en á móti kemur að súrál ætti að lækka líka sem leiðir til lægri aðfangakostnaðar. Gert er ráð fyrir að álverð hækki á næstum árum. Lækkun álverðs leiðir að auki til lækkaðra tekna af raforkusölu í þeim tilfellum þar sem rafmagnsverði tengist álverði.
    Á fiskveiðiárunum 2007–2008 var þorskkvóti minnkaður um 63.000 tonn, úr 193.000 tonna í 130.000 tonn. Á fiskveiðiárinu 2008–2009 var hann aukinn um 30.000 tonn í 160.000 tonn. Vegna lágs gengis íslensku krónunnar og hás verðs á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt fékk útgerðin gott verð fyrir afurðir sínar. Á móti kemur að gengisfall krónunnar hafði áhrif til hækkunar á skuldum og að olíuverð hækkaði mikið. Í kjölfar þeirrar efnahagslægðar sem riðið hefur yfir hefur eftirspurn eftir dýrari sjávarafurðum dregist saman en það hefur leitt til þess að verð hefur lækkað í erlendri mynt. T.d. lækkaði verð á ferskum þorski um þriðjung á einu ári, frá fyrsta ársfjórðungi 2008. Búist er við að verð á sjávarafurðum muni enn lækka nokkuð.
    Gjaldþrotum hefur fjölgað að undanförnu, mest í byggingastarfsemi og verslun. Vegna samdráttar í innlendri eftirspurn og stöðu fasteignamarkaðarins má búast við að þessar greinar verði áfram í erfiðleikum með sinn rekstur.
    Lægra gengi krónunnar hefur leitt til þess að innlend fyrirtæki eru nú samkeppnishæfari en áður bæði á innlandsmarkaði og í útflutningi. Á móti kemur samdráttur í eftirspurn á erlendum mörkuðum. Búast má við aukningu í tekjum af erlendum ferðamönnum á árinu 2009 jafnvel þó þeim fjölgi ekki því vegna stöðu krónunnar eru tekjur af hverjum ferðamanni hærri en áður á árinu 2009. 11

2.3 Menntun, menning, samfélag
2.3.1 Samfélag
    Síðasta áratug hefur áhersla stjórnvalda í atvinnu- og byggðaþróun víðast hvar verið á alþjóðavæðingu, á að samfélög lagi sig að einum alþjóðlegum markaði, færi atvinnuþróun yfir á vaxandi greinar á þeim markaði og sæki sér menntun sem auki færni einstaklinga og samfélaga og þar með samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Um leið og finna má áherslu á alþjóðavæðingu og sjálfbæra þróun, að auðlindir séu nýttar hæfilega, í byggðastefnu evrópskra ríkja og ríkjasambanda í upphafi 21. aldar, má líka finna áherslu á byggðalega fjölbreytni, á að menning byggða og svæðasamfélaga verði vernduð og nýtt byggðum til eflingar. Byggðastefnu er þannig beitt gegn þeirri afleiðingu alþjóðavæðingarinnar að samfélög og menning verði einsleitari og ofuráhersla lögð á samkennd á stórum svæðum, en um leið á að styðja fjölbreytileika svæðanna. Umræður um fjölbreytt svæðasamfélög beinast einkum að nýtingu svæðisbundinna sérkenna, félagsauði og náttúruauðlindum og stjórnunaraðferðum við hæfi.
    Sérstakar aðstæður hvers svæðis geta varðað samfélag, menningu og náttúrufar og vegið þungt í lífsgæðum íbúa ekki síður en möguleiki til atvinnusköpunar. Á Íslandi sýna kannanir að íbúar á landsbyggðinni meta mikils þætti eins og öruggt, barnvænt umhverfi og samfélag, kyrrð og ró, stuttar vegalengdir t.d. milli heimilis og skóla og til vinnu, samstöðu íbúa, samkennd og samfélag sem býður upp á mikla þátttöku og virkni hvers og eins. Þessar aðstæður auka sjálfstraust og ánægju íbúanna með eigið samfélag og verða þar með mikilvægir búsetuþættir, verðugt viðfangsefni byggðastefnu. Jákvætt viðhorf íbúanna til eigin samfélags hlýtur að vera undirstaða uppbyggingar.
    Kenningar um sjálfsmynd samfélaga eru sóttar í hugmyndir um sjálfsmynd einstaklinga, þar sem veik sjálfsmynd er talin valda framtaksleysi og uppgjöf en sterk sjálfsmynd áræðni og dugnaði. Samfélög, þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi, þurfa að nýta sér staðbundna sérstöðu, þekkingu og menningu til að endurvekja og byggja upp sjálfsmynd íbúanna á svæðinu og ímynd þess hjá öðrum. Mikil áhersla hefur verið lögð á átaksverkefni á sviði atvinnuuppbyggingar, samgangna og menntamála en sífellt fleiri vísbendingar styðja mikilvægi félagslegra þátta, samfélagsanda og almennra búsetugæða til þess að styrkja byggð í landinu. Rannsóknir 12 á þýðingu félagslegs umhverfis fyrirtækja fyrir nýsköpunarstarfsemi og atvinnuþróun hafa sýnt fram á tengsl milli þess anda sem ríkir í byggðarlagi og þess hversu virkir íbúar, fyrirtæki og einyrkjar eru í nýsköpunarstarfi. Sjálfsmynd samfélaga byggir á einkennum, eiginleikum og sérstöðu svæðisins, er sameiningartákn með félagslegt gildi fyrir íbúana og auðveldar íbúum að finna sameiginlega upplifun. 13 Ábyrgð samfélagsins sjálfs er að halda ímynd svæðisins á lofti með því að viðhalda þekkingu og varðveita staðbundinn menningararf. Aðgerðir sem efla bjartsýni, drifkraft og jákvæð viðhorf almennings gagnvart sjálfum sér og samfélagi sínu, styrkir búsetu og nýsköpunarumhverfi byggðarlaga.

2.3.2 Menning
    Menning samfélaga, þ.e. samskipta- og starfshættir einstaklinga í samfélagi, hefur mótast af lífsbaráttu, stað og tíma. Hættir sjálfsþurftabúskaparins breyttust þegar fólk flutti úr dreifbýli í þéttbýli verkskipting jókst. Samskipta- og starfshættir í alþjóðavæddu samfélagi eru aðrir en voru og gamlar venjur, hefðir og gildi gefa eftir og falla í gleymsku. Alþjóðavæðingin hefur í för með sér alþjóðlega menningu og staðbundin gildi dofna og hverfa. Í byggðastefnu er víða lögð áhersla á að bregðast við þessari þróun, greina og efla staðbundna menningu og byggja á henni lífsgæði, störf og sjálfbæra þróun.
    Í daglegu tali um menningu er oft vísað til listgreina og bókmennta, leiklistar, tónlistar og myndlistar auk menningararfs, kvikmynda, útvarps, íþrótta og æskulýðsmála. Menningarstarf fer fram um land allt, ýmist á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða einstaklinga og einkennist gjarnan, einkum í fámennum byggðarlögum, af mikilli virkni íbúanna. 14
    Íþrótta- og æskulýðsmál eru yfirleitt í höndum sveitarfélaga og íþróttasamtaka og eru víða talin mikilvægur búsetuþáttur, íþróttir taldar þroskandi og góður forvarnakostur. Ríkið hefur lengi stutt íþróttastarf á ýmsa vegu og setti Lýðheilsustöð á laggirnar árið 2003 til þess „að viðhalda og efla heilbrigði fólks, með forvarnarstarfi og samfélagslegri ábyrgð á heilbrigði.“ 15 Starfsáherslur á þessu sviði varpa nýju ljósi á aðstæður í byggðum landsins sem í könnunum eru taldar til lífsgæða af íbúum.
    Á þessum fyrsta áratug 21. aldar hefur ríkið stutt við menningarstarfsemi utan höfuðborgarinnar með fjárstuðningi til menningarsamninga og menningarhúsa. Fyrsti menningarsamningurinn var gerður fyrir Austurland að frumkvæði heimamanna og undirritaður árið 2001. Hann varð fordæmi fyrir gerð menningarsamninga í öðrum landshlutum, alls átta. Samningarnir eru samstarfssamningar ríkis og landshlutasamtaka sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna. Þau leggja fram fjármuni á móti framlagi ríkisins, menntamálaráðuneytisins, en iðnaðarráðuneyti hefur einnig varið fjármunum til þessara samninga. Menningarráð hvers landshluta stýrir framkvæmd og veitir styrki til verkefna á starfssvæði sínu. Þannig hefur fjöldi styrkja verið veittur til menningarverkefna á landinu öllu. Mörg menningarverkefni eru líka unnin á vegum vaxtarsamninganna. Munur á þeim og verkefnum samkvæmt menningarsamningunum er m.a. að þau eru samstarfsverkefni og taka oft til stærri svæða en verkefni á vegum menningarsamninga geta verið verkefni einstaklinga, einstakra félaga eða fyrirtækja.
    Árið 1999 ákvað þáverandi ríkisstjórn að veita stofnstyrki til uppbyggingar fimm menningarhúsa utan höfuðborgarinnar og slík hús hafa verið byggð upp á Ísafirði, Akureyri og í Skagafirði. 16 17 18
    Varðveisla menningararfs er bæði menningar- og byggðamál og menningarminjar finnast á öllum svæðum. Á vegum ríkisins starfa minjaverðir á svæðum sem samsvara svæðum menningar- og vaxtarsamninga um mestallt landið. Með auknum fjárveitingum hins opinbera hafa fornleifarannsóknir vaxið mjög undanfarin ár og er sinnt bæði af einkaaðilum og ríkinu. Í þeim hafa tekið þátt bæði innlendir og erlendir sérfræðingar og má t.d. nefna Hólarannsóknina í Skagafirði. Flest söfn eru rekin af ríki eða sveitarfélögum eða í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Mikil gróska í safnastarfi hefur styrkt menningartengda ferðaþjónustu.

2.3.3 Skapandi greinar
    Segja má að frá upphafi byggðar hafi íslensk skáld haft sig í frammi við hirðir erlendra konunga og rithöfundar skráð sögu þessara kónga og ritverk sem enn teljast mikilvægar bókmenntir. Menning þessarar fámennu þjóðar hefur alið Nóbelsskáld og á síðustu árum hafa bækur margra íslenskra rithöfunda verið þýddar á erlend tungumál. Alþjóðleg velgengni tónlistarkonunnar Bjarkar hefur vakið athygli á Íslandi og sýnir hvernig skapandi greinar geta leitt til atvinnusköpunar, ímyndarsköpunar eða breytingar á ímynd samfélaga og peningalegra verðmæta. Hún styður líka þá kenningu að lítil menningarsamfélög hafi gildi og geti alið öfluga, skapandi listamenn sem fá vægi í alþjóðasamfélaginu.
    Skapandi greinar gefa tækifæri til fjölbreyttara atvinnulífs og sóknarfæra í byggðum landsins. Skapandi greinar er samheiti sem notað er fyrir listgreinar, hönnun, kvikmyndaiðnað, menningarmiðlun, margmiðlun og skyldar greinar. Tækifæri felast í samstarfi hönnuða og framleiðslufyrirtækja, hönnuðir geta m.a. aðstoðað fyrirtæki við vöruþróunarferlið og einstaklingar með rekstarþekkingu og markaðstengsl geta lagt íslenskum hönnuðum lið. Árangur af samstarfi ólíkra hagsmunaaðila veltur á færni manna í samskiptum, einkum trausti, sem er grundvöllur fyrir kraftmikla nýsköpunarstarfsemi og atvinnuþróun.
    Vægi skapandi greina má að nokkru sjá af því að dönsk stjórnvöld telja að um 10% af heildarverðmætasköpun í Danmörku verði í skapandi greinum og hafa á árinu 2009 skilgreint fjögur svið skapandi greina sem þau vilja leggja áherslu á og fjárstuðning við til þess að auka samkeppnishæfni Dana á alþjóðavísu. Þessar greinar eru tíska, tónlist, matargerð og tölvuleikir. 19
    Víða á landsbyggðinni er unnið að því að skapa svæðum sérstöðu sem byggir á menningarauði svæðisins, s.s. matarmenningu, handverki, þjóðsögum, tónlist, leiklist, bókmenntum og fornminjum. Um leið er lögð áhersla á, samkvæmt aðferðinni um menningarábata, að efla vitund og þekkingu íbúanna um umhverfi sitt, náttúru og menningu. Menning og staðbundin þekking eru lykilþættir í félags- og efnahagslegri þróun dreifbíla svæða og þeir hafa orðið grundvöllur fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í seinni tíð.

2.3.4 Menningartengd ferðaþjónusta
    Á undanförnum árum hefur áhersla verið á menningartengda ferðaþjónustu og sérhæfing aukist t.d. með heilsutengdri ferðaþjónustu og ferðaþjónustu sem tengist viðburðum, eins og fjallað er um hér á eftir. Þá hafa áherslur við markaðssetningu breyst, m.a. færst yfir á markaðssetningu svæða frá menningarlegu sjónarhorni. Til grundvallar liggur greiningarvinna þar sem fengist er við sérstöðu hvers svæðis eða sveitarfélags, söguleg, náttúruleg og menningarleg. Slík vinna sýnir íbúum nánasta samfélag og umhverfi í nýju ljósi, henni hefur fylgt gróska í safnastarfi og mörg söfn og setur verið opnuð undanfarin ár. Má t.d. nefna Þórbergssetur í Suðursveit, Galdrasýninguna á Ströndum, Vesturfarasetrið á Hofsósi, Síldaminjasafnið á Siglufirði, Draugasafnið á Stokkseyri, Landnámssetrið í Borgarnesi, Njálusetrið á Hvolsvelli. Svokallaðar bæjarhátíðir eru grein af menningartengdri ferðaþjónustu, eru af ýmsum toga og haldnar víða um land og laða til sín ferðamenn eins og íþróttamót, ekki síst hestamannamót, sem mörg draga að fjölda erlendra ferðamanna. Reynslan sýnir að samspil heildarinnar hefur úrslitaþýðingu við uppbyggingu á ferðaþjónustu, fjölbreytni og gæði þjónustuþátta, gæði grunngerðar, s.s. samgangna, stoðkerfis og að seglar svæðisins fléttist saman í eina heild og myndi áfangastað ferðamannsins. Lifandi og öflugar menningarstofnanir á borð við bókasöfn, minjasöfn, tónlistarskóla, leikfélög og kóra geta í samstarfi við ferðaþjónustuaðila staðið að fjölþættu menningarstarfi, sýningum, hátíðum og skemmtunum sem laða að innlenda og erlenda ferðamenn og auðga líf íbúanna. Fagmennska í ferðaþjónustu felst ekki síst í samstarfi, því samfélagið allt á þátt í að móta ferðavöruna, allir íbúar svæðisins eru í raun þátttakendur í ferðaþjónustunni með búsetu á áfangastaðnum. Eftirsókn er í því að byggja upp áfangastaði þar sem allt samfélagið er meðvitað um mikilvægi þess að allir séu meðvirkir og hluti af heildinni. Fjölmörg tækifæri eru í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og miklir möguleikar í nýsköpun og vöruþróun sem byggist á sögu, menningu og hefðum samfélaga og svæða.

2.3.5 Menntun
    Möguleikar til menntunar eru mjög mikilvægur búsetuþáttur, aðgengi að framhalds- og háskólanámi sem og möguleikar á störfum fyrir langskólagengna í heimabyggð. Staðsetning háskólanáms hefur mikil áhrif á námssókn og sköpun starfa fyrir langskólagengið fólk. Háskólar geta skapað sérstök sóknarfæri fyrir svæðisbundna þróun utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar og þá einkum með framboði á störfum fyrir háskólamenntað fólk. Þannig styrkja háskólar líka svæðisbundna nýsköpun. Aðgengi að menntun hefur batnað stórlega á undanförnum árum, ekki síst með símenntunarstöðvum, fjarnámi, fjölgun háskóla og háskóla- og þekkingarsetra víða um land.
    Aðgerðir ríkisins til þess að efla menntun og menningarstarf í byggðum landsins síðustu ár hafa verið fjölþættar og jafnan í nánu samstarfi við sveitarfélög. Skólar og þekkingarsetur á framhalds- og háskólastigi hafa verið styrkt sem og safna-, rannsóknar- og fræðastarf. Ríkið hefur sérstaklega beitt sér fyrir mikilli uppbyggingu í Háskólanum á Akureyri en líka stutt háskóla á Bifröst, Hvanneyri og Hólum og háskólasetur og rannsóknastofnanir á fleiri stöðum. Áhersla á fjarnám á framhalds- og háskólastigi hefur skilað sér í menntunarstöðvum víða um land.
    Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands er mikilvæg fyrir byggðaþróun þar sem stofnunin rekur þekkingar- og fræðasetur. Markmið hennar er að efla rannsóknir Háskóla Íslands á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl HÍ við atvinnu- og þjóðlíf. Í upphafi árs 2008 voru átta setur starfandi; á Hornafirði, í Vestmannaeyjum, Hveragerði, Sandgerði, Stykkishólmi, á Bolungarvík, Húsavík og Egilsstöðum: Um mitt ár 2009 tekur til starfa fræðasetur á Skagaströnd. Setrin eru faglega sjálfstæðar einingar og hafa hvert sitt áherslusvið sem tengjast sérstöðu svæðanna, en þrjú svið eru þó áberandi, umhverfisrannsóknir og landnýting, rannsóknir í ferðamálum og rannsóknir á lífríki hafsins. Starfsemi setrana hefur meðal annars mikla þýðingu fyrir svæðisbundna nýsköpun.
    Dreifmenntun er hugtak sem lýsir blöndu af menntun sem sótt er með fjarnámi og staðbundnu námi. Þannig gefst nemendum sem eru búsettir í dreifbýli kostur á að sækja nám án þess að flytja búferlum. Framboð á fjar- og dreifnámi hefur vaxið síðustu ár enda verið mikil eftirspurn eftir slíku námi og nemendur úr flestum aldurs- og samfélagshópum. Aukið framboð hefur veitt fleirum tækifæri til náms og þannig verið stuðlað að jöfnun aðstöðu til náms, óháð búsetu.
    Í skýrslu starfshóps um fjar- og dreifnám 20 kom m.a. fram að mjög mismunandi er hversu aðgengilegt fjar- og dreifnám er fyrir grunnskólanemendur. Í skýrslunni setti starfshópurinn fram sjö tillögur til að bæta aðgengi nemenda. Meðal tillagna er að sett verði á fót upplýsingaveita, sjálfsmatskerfi skólanna nái til fjar- og dreifnáms, settar verði reglur um að grunnskólanemendur hafi jafnan aðgang að fjar- og dreifnámi í framhaldsskóla, átak verði gert í útgáfu íslenskra rafrænna kennslugagna og efld verði menntun og þjálfun kennara sem taka að sér kennslu í fjar- og dreifnámi með áherslu á aukna samvinnu kennara úr ólíkum skólum.

2.4 Stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar
2.4.0 Almennt
    Stofnanir og stuðningsaðgerðir hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, sem beinast að atvinnu- og byggðaþróun, eru margháttaðar og þrátt fyrir takmarkaða samhæfingu eru þær saman nefndar stoðkerfi í einu orði. Í stoðkerfinu eru þannig stofnanir sem stöðugt sinna atvinnu- og byggðamálum, aðgerðaáætlanir og styrktarsjóðir fyrir frumkvöðlastarfsemi, rannsóknir og nýsköpun í atvinnulífi. Þá hafa stjórnvöld oft sett á laggirnar nefndir til að vinna tillögur til snöggra úrbóta við aðsteðjandi vanda í atvinnumálum ákveðinna byggða.
    Ástæða er til að bera saman árangur af starfi nefnda sem settar eru á laggirnar tímabundið til þess að bregðast við áfalli byggðarlaga og „fyrirbyggjandi aðgerða“, þróunarstarf s.s. starf atvinnuþróunarfélaga og vaxtarsamninga. Á sama hátt er vert að meta stofnanauppbyggingu með annars vegar mörgum örstofnunum og hins vegar að byggja á þeim stofnanagrunni, starfs- og samstarfshefðum stofnana, sem fyrir eru.
    Starfsemi í stoðkerfinu hefur verið efld m.a. með flutningi og tilfærslu verkefna til atvinnuþróunarfélaga, stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, aukinni starfsemi Fræðasetra Háskóla Íslands, auknu framboði fjarnáms á háskólastigi, þátttöku í erlendum samstarfsáætlunum, opnun starfsstöðva hinna ýmsu stofnana á landsbyggðinni, vaxtarsamningum, fjölbreyttum átaksverkefnum og nú síðast með eflingu Nýsköpunarsjóðs og Tækniþróunarsjóðs sem styrkt hafa mörg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Áform eru um að verja allt að 270 milljónum króna á næstu 3 árum í svonefnda öndvegisstyrki með áherslu á vistvænt eldsneyti og orkulíftækni, vistvænar byggingar og skipulag og sjálfbæra ferðaþjónustu. Viðbætur við Tækniþróunarsjóð eru jafnframt svonefndir Frumherjastyrkir með 60 milljóna framlagi og Brúarstyrkir sem eru afar mikilvæg viðbót. Af öðrum sjóðum er tengjast beint þróunarverkefnum í atvinnulífinu má nefna Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS sjóðinn.
    Aðgengi sprotafyrirtækja að styrkjum og þolinmóðu fé í öðru formi frá ýmsum opinberum sjóðum og stofnunum hefur aukist á síðustu misserum. Miklar takmarkanir hafa hins vegar verið á lánsfjármögnun til frumkvöðla og sprotafyrirtækja eftir því sem þau komast lengra áfram á þróunarbrautinni. Þessi fyrirtæki eiga það jafnan sammerkt að geta ekki lagt fram þær tryggingar í formi veða sem lánastofnanir, jafnt opinberar sem almenna bankakerfið, gera kröfu um og því hefur fjölmörgum slíkum umsóknum verið hafnað í gegnum tíðina, óháð því hvort þær hafa þótt vænlegar að öðru leyti. Brýnt er að ráða bót á þessu, annað hvort með beinum lánveitingum eða ábyrgðum.

2.4.1 Mótvægisstyrkir
    Í upphafi árs 2008 fól iðnaðarráðuneytið Byggðastofnun að hafa umsjón með og veita 360 milljónir til að efla atvinnuþróun, nýsköpun og ferðaþjónustu vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar á þeim svæðum sem verða fyrir mestum áhrifum vegna skerðingar veiðiheimilda. Við mat á því hvaða svæði yrðu fyrir mestum áhrifum vegna þorskaflaskerðingar var aflað upplýsinga um hugsanleg áhrif þess í sveitarfélögum þar sem yfir tíu tonnum af þorski var landað á fiskveiðiárinu 2006–2007. 21 Byggt var á niðurstöðum í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (2007) Um áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga 22 og skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (2007) Hagvöxtur landshluta 1998–2005, 23 auk annarra gagna sem Byggðastofnun aflaði. Styrkhæf svæði voru skilgreind á eftirfarandi hátt: Sveitarfélög þar sem hlutfall starfa í veiðum og vinnslu var 10% eða meira. Alls voru 34 sveitarfélög á skilgreindu svæði, íbúar 1. desember 2007 voru 53.214.000 sem var um 17% landsmanna. Ef miðað er við aldurshópinn 16–67 ára var markhópurinn um 35.653 einstaklingar, þar af voru 17.150 konur og 18.503 karlar, kynjahlutfallið var 49% á móti 51%.
    Samtals bárust 556 umsóknir, sótt var um fjármögnun á verkefnum að upphæð 3,4 milljarða króna. Um 200 mkr. voru til ráðstöfunar til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og 160 mkr. til að efla ferðaþjónustu (töflur 2.4.1.1 og 2.4.1.2).

Tafla 2.4.1.1 Atvinnuþróun og nýsköpun – 200 mkr.

Svæði Fjöldi umsókna

Samtals sótt um

Suðurnes 13 78.950.000
Vesturland 22 123.350.000
Vestfirðir 69 475.477.000
Norðurland vestra 44 226.078.130
Eyjafjörður 35 192.089.250
Norðausturland 25 144.985.000
Austurland 32 215.755.000
Suðurland 13 71.950.000
Samtals 253 1.528.487.060

Tafla 2.4.1.2 Ferðaþjónusta – 160 mkr.

Svæði
Fjöldi umsókna

Samtals sótt um

Höfuðborgarsvæði 22 14.040.000
Suðurnes 8 58.000.000
Vesturland 36 212.544.925
Vestfirðir 87 489.564.758
Norðurland vestra 41 264.820.000
Eyjafjörður 30 191.920.000
Norðausturland 27 149.780.000
Austurland 37 238.732.000
Suðurland 14 88.456.000
Samtals 303 1.840.966.683

Aðferð
    Við mat á umsóknum var lögð áhersla á nýsköpun, ný þróunarverkefni eða endurnýjun í starfandi fyrirtækjum, sköpun nýrra framtíðarstarfa, arðsemi, hve hratt störfin skapast og vaxtar- og markaðsmöguleikar. Samtals uppfylltu 327 umsóknir af 556 kröfur sjóðanna (töflur 2.4.1.3 og 2.4.1.4).

Matsþættir
    Mat á verkefnum byggðist á eftirfarandi:.
     1.      Viðskiptalegar forsendur
     2.      Atvinnusköpun
     3.      Hve fljótt störfin verða til
     4.      Fækkun starfa í sveitarfélaginu/fyrirtækinu
     5.      Nýnæmi/samkeppni
     6.      Líkur á árangri
     7.      Kostnaðaráætlun og verkþættir
     8.      Heildarfjármögnun

Tafla 2.4.1.3 Atvinnuþróun og nýsköpun – flokkun umsókna

Samtals
stig
Fjöldi
Hlutfall
%
I. Sérlega áhugaverðar umsóknir sem uppfylla mjög vel kröfur sjóðsins 176–200 16
II. Góðar umsóknir sem uppfylla vel kröfur sjóðsins 145–175 85
III. Umsóknir sem uppfylla vel kröfur sjóðsins 120–144 59
IV. Umsóknir sem uppfylla illa kröfur sjóðsins 81–119 40
V. Umsóknir sem uppfylla mjög illa kröfur sjóðsins 0–80 16
VI. Utan starfssviðs sjóðsins/ófullnægjandi umsókn 37
253 100%
    160 umsóknir uppfylltu kröfur sjóðsins

Tafla 2.4.1.4 Ferðaþjónusta – flokkun umsókna

Samtals stig Fjöldi
Hlutfall %
I. Sérlega áhugaverðar umsóknir sem uppfylla mjög vel kröfur sjóðsins 155–175 1 0,3
II. Góðar umsóknir sem uppfylla vel kröfur sjóðsins 125–154 72 24
III. Umsóknir sem uppfylla vel kröfur sjóðsins 105–124 94 31
IV. Umsóknir sem uppfylla illa kröfur sjóðsins 70–104 59 19
V. Umsóknir sem uppfylla mjög illa kröfur sjóðsins 0–69 75 25
VI. Utan starfssviðs sjóðsins/ófullnægjandi umsókn 2 0,7
303

100%

    167 umsóknir uppfylltu kröfur sjóðsins

Atvinnuþróun og nýsköpun – 200 mkr.
    Samtals voru veittir 76 styrkir, flestir til verkefna á Vestfjörðum að upphæð rúmlega 36 mkr. og næstflestir til verkefna á Norðurlandi vestra samtals að upphæð 31 mkr. (tafla 2.4.1.5).

Tafla 2.4.1.5 Atvinnuþróun og nýsköpun – svæði og upphæðir

    Svæði Fjöldi Styrkupphæð
    Suðurnes 3 9.600.000
    Vesturland 9 23.750.000
    Vestfirðir 15 36.100.000
    Norðurland vestra 14 31.165.000
    Eyjafjörður 13 32.400.000
    Norðausturland 11 28.000.000
    Austurland 8 26.500.000
    Suðurland 3 11.500.000
    Samtals 76 199.015.000
    Byggðastofnun annast eftirfylgni

    Flestir atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkirnir voru veittir til vöruþróunar og markaðssetningar í iðnaði og sjávarútvegi. Konur fengu 13% af fjármagninu. Að meðaltali voru styrkir til kvenna að upphæð tæplega 2 mkr. en styrkir til karla tæplega 3 mkr. (tafla 2.4.1.6).

Tafla 2.4.1.6 Atvinnuþróun og nýsköpun – kyn styrkhafa

Umsækjandi/ verkefnisstjóri Fjárhæð alls Hlutfall
%
Meðaltal Stuðull
Karlar 173.365.000 87 2.796.000 1
Konur 25.650.000 13 1.832.000 0,65
Samtals 199.015.000 100
    
Ferðaþjónusta – 160 mkr.
    Samtals voru veittir 77 ferðaþjónustustyrkir, flestir til verkefna á Vestfjörðum (tafla 2.4.1.7).

Tafla 2.4.1.7 Ferðaþjónusta – svæði og upphæðir

Svæði Fjöldi Styrkupphæð
Suðurnes 2 4.000.000
Vesturland 11 19.700.000
Vestfirðir 21 56.400.000
Norðurland vestra 12 15.900.000
Eyjafjörður 6 12.500.000
Norðausturland 7 12.000.000
Austurland 13 27.500.000
Suðurland 5 12.000.000
Samtals 77 160.000.000
Ferðamálstofu annast eftirfylgni

    Ferðaþjónustustyrkir voru veittir til vöruþróunar og markaðssetningar, afgerandi flest eða 37 verkefni tengdust sögu og menningu, 24 verkefni voru sjávartengd, annars vegar í tengslum við sjóstangaveiði og hins vegar vöruþróun á sjávarafurðum til ferðamanna.

Tafla 2.4.1.8 Styrkir til ferðaþjónustuverkefna

Umsækjandi/ verkefnisstjóri Fjármagn Hlutfall / fjöldi Meðaltal Stuðull
Karlar 112.600.000 70 / 49 2.297.000 1
Konur 47.400.000 30 / 28 1.693.000 0,74
Samtals 160.000.000 100 / 77
    Konur fengu 30% fjármagnsins eða rúmar 47 mkr. og karlar rúmar 122 mkr. Konur fengu að meðaltali rúmlega 1,6 mkr. og karlar tæplega 2,30 mkr. í styrk (tafla 2.4.1.8).

Áhrif mótvægisaðgerða að upphæð 360 mkr. á stöðu kynjanna
    Í ljósi þess að sjö af hverjum tíu umsækjendum voru karlar má ætla að þau sjónarmið, sem voru lögð til grundvallar, hafi verið hagfelldari körlum en konum. Hins vegar virðist sem matsferlið hafi ekki verið hagfelldara öðru kyninu þar sem hlutfall kvenna sem fengu styrk var það sama og þeirra sem sóttu um styrk og hlutfall karla sem fengu styrk var það sama og karla sem sóttu um styrk. Konurnar fengu hins vegar að meðaltali lægri styrki en karlar. Ætla má að styrkveitingarnar hafi jákvæðari áhrif á stöðu karla. Í besta falli viðheldur styrkveitingin núverandi kynjaskiptingu á vinnumarkaðinum en í versta falli getur hún aukið á mismunandi aðstæður kvenna og karla á vinnumarkaðinum.
    Afar mikilvægt er að samþætting kynjasjónarmiða sé höfð að leiðarljósi við alla opinbera stefnumótun og ákvarðanatöku. Því er brýnt að ríkisvaldið setji skýrar verklagsreglur um það hvernig eigi að haga slíkri vinnu og hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en hafist er handa við að skilgreina forsendur, markhópa eða svæði.

Árangursmat – janúar 2010
    Mörgum góðum verkefnum var hafnað og því er mikilvægt að áfram verði stutt við atvinnuþróun og nýsköpun í atvinnulífinu því víða á landsbyggðinni liggja ónýtt tækfæri. Jafnframt er áframhaldandi stuðningur við verkefni sem nú þegar eru komin af stað mikilvægur. Strax í upphafi vinnunnar var lögð áhersla á að meta árangur styrkveitinganna, niðurstöður munu liggja fyrir í byrjun árs 2010.

2.4.2 Mótvægisnefndir
    Forsætisráðherra skipaði á árinu 2007 nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. 24 Sambærilegar nefndir voru skipaðar vegna stöðu mála á Norðurlandi vestra 25 og Norðausturlandi 26 á fyrri hluta ársins 2008. Í nefndunum sátu fulltrúar forsætis- og iðnaðarráðuneyta og fulltrúar heimamanna á hverju svæði. Nefndirnar funduðu með helstu stofnunum, fulltrúum atvinnulífs og sveitarstjórnum á svæðunum og í framhaldi af því bárust nefndunum tillögur um margvísleg verkefni sem voru mislangt komin í útfærslu og framkvæmd. Nefndirnar funduðu einnig með fulltrúum einstakra ráðuneyta um framgang einstakra tillagna. Á fundum með ráðuneytunum komu hins vegar nær engar tillögur fram um flutning verkefna og starfa frá höfuðborgarsvæðinu. Nefndunum var ætlað að gera tillögur um mögulega styrkingu menntunar og rannsókna, uppbyggingu iðnaðar og þjónustu og flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til landshlutanna.
    Í skýrslum nefndanna er lýsing á þróun og stöðu búsetu og atvinnulífs á svæðunum, sem er almennt þannig að þetta eru þau svæði landsins þar sem byggðaþróun hefur verið svæðunum óhagstæð. Þá eru í skýrslunum tillögur sem hægt er að segja að séu almenns eðlis og sértækar tillögur um einstök verkefni á hverju svæði.
    Nefndirnar töldu að almennar aðgerðir til að bæta samgöngur, byggja upp farsímasamband og háhraðatengingar og auka öryggi í raforkumálum væru brýnar. Þá var talið efla þyrfti og standa vörðum starfsemi opinberra stofnana á svæðinu á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og fjölga störfum sem krefðust sérfræðimenntunar.
    Fimm atriði eru talin skipta höfuðmáli til að bæta aðstæður og öryggi til búsetu og atvinnuuppbyggingar en það eru samgöngur, farsími og háhraði, öryggi í raforkumálum, efling menntunar, rannsókna og nýsköpunar og efling annarrar opinberrar þjónustu.
    Stofnað hefur verið Háskólasetur Vestfjarða og Þróunarsetur á Ísafirði, gerður Vaxtarsamningur Vestfjarða og Menningarsamningur Vestfjarða (25 mkr. á ári). Á Vestfjörðum hafa verið áætlaðar vegaframkvæmdir fyrir 10 milljarða króna á næstu árum, fjarsíma- og háhraðaframkvæmdir og framkvæmdir við snjóflóðavarnir fyrir 2,5 milljarða króna. Lögð er til niðurgreiðsla flutningskostnaðar, að auka öryggi raforkuflutninga, að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun undir faglegri forystu Háskólaseturs Vestfjarða. Lögð er höfuðáhersla á sjávarútvegs- og matvælasvið, mennta- og rannsóknasvið og menningar- og ferðaþjónustusvið. Lagðar eru fram tillögur um eflingu opinberrar þjónustu í 13 opinberum stofnunum.
    Þá eru einnig nefndar sértækar aðgerðir sem sagðar eru ná til alls landsins, en það er að styrkja starfsemi rækjuvinnslustöðva, aðgerðir til flutningsjöfnunar og uppbygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum.
    Á Vestfjörðum komu fram 37 sértækar tillögur um aðgerðir. Þær fólu í sér að til yrðu allt að 80 ný störf á Vestfjörðum og að árlegur kostnaður yrði um 500 mkr.
    Menningarsamningur Norðurlands vestra hefur verið gerður (32 mkr. á ári), Vaxtarsamningur Norðurlands vestra (30 mkr. á ári), Menningarhús hefur verið endurbyggt í Skagafirði (90 mkr samtals) og framlög til Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra aukin vegna uppbyggingar nýrra námsbrauta sem tengist atvinnulífi á svæðinu (20 mkr. árið 2008) og til viðhalds á FNV (10 mkr.). Stefnt er að uppbyggingu og eflingu Háskólans á Hólum. Auka þarf aðgengi að fjarnámi á framhalds- og háskólastigi og tengja það með beinum hætti við rannsókna- og fræðistofnanir á svæðinu, t.d Verinu.
    Mótvægisaðgerðir vegna þorskaflaskerðingar hafa verið (20 mkr.) á Skagaströnd og (20 mkr.) á Sauðárkróki og að 20 mkr. verði varið til viðhalds fasteigna sýslumanns á Blönduósi. Fjármunum verður varið til skráningarstarfa við Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. Opinber verkefni hafa verið flutt til Norðurlands vestra, Fæðingarorlofssjóður til Hvammstanga 2007, Atvinnuleysistryggingasjóður til Skagastrandar, Sektarinnheimta vegna umferðarlagabrota og Þjónustuver Íbúðalánasjóðs samtals 55 störf. Þekkingarsetur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands 3 verði byggt upp á Sauðárkróki (3 stöðugildi), Þekkingarsetur á Skagaströnd (1–2 stöðugildi), uppbygging annarra fiskirannsókna á Sauðárkróki, samstarf safna á Blönduósi (2 stöðugildi) og Selaseturs Íslands eflt. Þá er talið að efla eigi Innheimtumiðstöð á Blönduósi, Vinnumálastofnun á Skagaströnd og koma upp upplýsingakerfi í málefnum fatlaðra.
    Talið er að efla þurfi og standa vörðum starfsemi opinberra stofnana á svæðinu á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar, fjölga störfum fyrir menntað fólk og að tengja saman lykilaðila með þekkingarsetrum. Mikilvægt að efla nýsköpun, ekki aðeins í frumvinnslugreinum og iðnaði heldur einnig í þjónustugreinum og list og menningarstarfsemi og byggja á félags- og menningarauði svæðisins.
    Nefndin telur að bæta þurfi samgöngur með áherslu á áframhaldandi uppbyggingu tengivega (570 mkr.) og að öðrum vegaframkvæmdum verði flýtt um eitt ár, endurbæta farsímasamband og háhraðatengingar og auka öryggi í raforkumálum. Markaðssetja þarf sérstöðu svæðisins í landbúnaði.
    Styrkja þarf heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og nýta sameiningu sjúkrahúsanna á Blönduósi og Sauðárkróki til að bæta nýtingu aðstöðu á hvorum stað.
    Á Norðurlandi vestra komu fram 11 sérgreindar tillögur um allt að 25 ný störf á sviði rannsókna, ráðgjafar og fleira og var árlegur kostnaður við framkvæmd þeirra áætlaður um 200 mkr.
    Bæta þarf samgöngur og stytta vegalengdir milli byggðakjarna, auka öryggi fjarskipta. Auka þarf framboð á menntun og góðri heilbrigðisþjónusta. Fjölga þarf störfum fyrir menntað fólk. Byggja þarf upp þróunar- og frumkvöðlasetur og rannsóknastofnanir sem nýta sérstöðu svæðisins. Auka þarf samvinnu við stjórnvöld um leiðir til eflingar landbúnaðar á sviði ræktunar og vinnslu, hámarka nýtingu lands til landbúnaðarframleiðslu. Markaðssetja sérstöðu svæðanna í landbúnaði, nýta félagsauð. Flytja opinber störf til Norðausturlands og Austurlands enda ýmsir möguleikar til staðar.
    Nefndin fyrir Norðausturland gerði tillögur um aðgerðir ríkisvaldsins sem tengjast atvinnu- og menningarmálum. Verksmiðjurekstur hefur verið til skoðunar í Mývatnssveit og á Húsavík; en ekki liggur fyrir kostnaður við þær tilraunir. Samningar eru um eftirfarandi verkefni: Menningarsamningur Eyþings (29 mkr. á ári), Vaxtarsamningur Austurlands (20 mkr. á ári), Vaxtarsamningur Norðausturlands (30 mkr. á ári), Menningarsamningur Austurlands (48 mkr. á ári), Þekkingarnet Austurlands (49 mkr. á árinu 2007). Ríkið kemur að rekstri þekkingarsetra á Húsavík, Egilsstöðum og Höfn í Hornafirði (ekki eru tilgreindar upphæðir). Starfsstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands settar upp á Húsavík (2 stöðugildi) og Egilsstöðum (2 stöðugildi). Nytjaskógaræktun er studd og að skoða þarf leiðir til eflingar landbúnaðar á sviði ræktunar og vinnslu til að hámarka nýtingu lands til landbúnaðarframleiðslu og markaðssetja sérstöðu svæða í landbúnaði.
    Á Norðausturlandi komu fram 17 sérgreindar tillögur um allt að 20 ný störf á sviði rannsókna, ráðgjafar og þjónustu í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra og Austurlandi og var áætlað að árleg útgjöld við framkvæmd þeirra yrði um 200 mkr.

2.4.3 Stofnanir og stoðkerfið
    Stuðningskerfi atvinnu- og byggðaþróunar er margþætt og eftirlit með árangri takmarkað. Færa má rök fyrir því að nýting fjármuna og mannauðs geti verið betri en nú er með betri stefnumörkun, samþættri áætlanagerð og samstarfi.
    Skilvirkara samstarf aðila stoðkerfisins á svæðis, lands- og alþjóðavísu er mikilvægt og þarf að auka. Eftirsóknarvert er að þeir fjármunir, sem varið er til kerfisins, nýtist sem best þeim verkefnum sem að er unnið og sem minnsti hluti þess fari til rekstrar og þjónustu stoðkerfisins sjálfs. Í þessu samhengi má benda sérstaklega á starf Nýsköpunarmiðstöðvar Impru og vaxtarsamninga sem hafa verið áberandi í umræðu um nýsköpun og þróun að undanförnu.
    Mat á árangri og virk eftirfylgni með verkefnum er sjálfsagður hluti hinna ýmsu eininga stoðkerfisins sem ber að efla.
    Mikilvægt er að þekkingarlínur séu opnar og virkar. Því þarf stoðkerfið að leggja aukna áherslu á þekkingaryfirfærslu og skilvirka nálgun að viðfangsefnum hverju sinni. Í þessu samhengi er rétt að huga að leiðum til að efla samstarf innan svæðisbundinna þekkingarsamfélaga með áherslu á starfsemi svæðisbundinna þekkingarsetra þar sem saman koma hinir ýmsu þættir stoðkerfisins, ólíkar fræðigreinar og fjölþætt þekking. Þekkingarlínur milli þekkingarsetra á landsvísu og alþjóðatengsl eru síðan sérlega mikilvæg í stóru, fámennu og dreifbýlu landi.
    Nú, þegar illa árar í efnahagslegu tilliti, er mikilvægara en áður að leita leiða til að efla og auka skilvirkni stoðkerfisins. Athyglin hefur beinst að þeim greinum atvinnulífsins sem fyrir eru, nýsköpunarstarfi í þeim, að byggja á mannauði og náttúrugæðum sem þar er og á styrkleikum og sérstöðu svæða. Nýsköpunarverkefni starfandi fyrirtækja eru líkleg til að skila skjótum árangri og svæðisbundin nýsköpunarverkefni sem ganga þvert á atvinnugreinar og fræðasvið er vænleg til eflingar staðbundins atvinnulífs og byggðar.
    Í öllum landshlutum starfa menningarráð í tengslum við menningarsamninga. Þessa starfsemi þyrfti að tengja betur við aðra þætti stoðkerfisins þannig að þeir aðilar sem starfa að menningu, menntun, nýsköpun, rannsóknum og þróun og ráðgjöf í atvinnumálum vinni saman á skapandi og gagnvirkan hátt og þekking þeirra sé aðgengileg og samþætt. Slíkt gæti t.d. gerst með þátttöku í starfi þekkingarsetra þar sem öll þessi öfl gætu fundið samráðsvettvang.
    Sérstakt átak verði gert fyrir konur sem vilja ráðast í eigin atvinnurekstur, til að auðvelda þeim vinnslu viðskiptahugmyndar. Styrkja þarf atvinnusköpun kvenna með áherslu á vöruþróun og þjónustugreinar. Bæta og þróa þjónustu stoðkerfisins við konur sem hafa viðskiptahugmyndir en vantar aðstoð við að hrinda þeim í framkvæmd. Nýleg könnun sýnir að konur telja stoðkerfi atvinnulífsins ekki þjóna sínum þörfum með fullnægjandi hætti. Eftirfylgni við kvennaverkefni verði stóraukin meðal annars með rekstrarráðgjöf samhliða fjárveitingum. Boðið verði upp á fleiri og sveigjanlegri úrræði sem taka mið af þörfum kvenna, s.s. ráðgjöf, handleiðslu, tölvukunnáttu, bókhaldsþekkingu, ráðgjöf fagaðila o.s.frv. Jafnframt þarf að endurvekja samstarfsverkefni Byggðastofnunar og félagsmálaráðuneytis um staðbundna atvinnu- og jafnréttisráðgjafa.
    Fyrir breyttar áherslur og aðferðir í stoðkerfi atvinnulífsins eru lykilorðin:
     *      aukið samstarf og samþætting
     *      aukin eftirfylgni og árangursmat
     *      virkar þekkingarlínur

2.4.4 Þekkingarsamfélag og þekkingarsetur


Mynd 2.4.4.1 Þekkingarsetur

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Orðið þekkingarsetur vísar til samstarfs fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana og stuðningskerfisins um rannsóknir, þróun og nýsköpun í þágu félagslegra- og efnahagslegra framfara.
    Hugmyndin um þekkingarsetur hefur þróast undanfarin ár, einkum með tilliti til nýsköpunar, frumkvöðla, rannsókna, háskóla og stuðningskerfis. Leiðir að markmiðinu er að efla menntun og nýsköpun, þekkingarsamfélagið, og að byggja á staðbundnum styrk og sérkennum og með aukinni þátttöku í alþjóðlegum þekkingarnetum. Kökuritið hér á eftir sýnir núverandi hugmyndir um þekkingarsetur í hnotskurn.
    Í þingsályktun um byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 er áhersla lögð á gildi rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Þar er gert ráð fyrir að skilgreina forgangssvið og móta fyrirkomulag samstarfs, að áfram verði unnið að uppbyggingu þekkingarsetra, stuðningi við atvinnustarfsemi og eflingu skapandi greina, að unnið verði að því að samhæfa stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni til að gera starfið markvissara og lögð áhersla á að tryggja góða tengingu við uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu en þangað munu setrin leita eftir faglegum stuðningi og þátttöku í starfi sínu. Um ofangreindar áherslur ályktaði Vísinda- og tækniráð 19. desember 2005:
    „Vísinda- og tækniráð telur að efling rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar, sem byggist á sérstöðu í héraði, sé líkleg til verðmætasköpunar á landsbyggðinni og auki því samkeppnishæfni Íslands.“ 27
    Þekkingarsetur eru líkleg til að ná fram samlegðaráhrifum ólíkra fræðasviða og vera vettvangur ólíkra sjónarmiða, þau mynda mikilvægan grunn rannsókna og þróunarstarfs og sem slík líkleg til að leiða til skilvirkrar atvinnuþróunar og eflingar byggðar. Starfsemi þekkingarsetra, sem þegar hafa myndast, byggja á staðbundnum sérkennum, tækifærum og áherslum heimamanna og eru sem slík líkleg til að skila miklum árangri.
    Haft er eftir hinum kunna fræðimanni og hugmyndafræðingi klasakenninganna, Micael E. Porter, að varasamt sé að flokka atvinnuvegina sem nýja og gamla, framsækna eða úrelta, það sem úrslitum ráði um árangur í atvinnulífinu og samkeppnislega yfirburði sé miklu frekar hvernig staðið er að hlutunum heldur en í hvaða atvinnuvegi er unnið. Upplýsinga- og þekkingarsamfélagið tekur til allra atvinnugreina samfélagsins, bæði þeirra hefðbundnu og þeirra nýju. Þekkingin er mikilvægasta auðlindin og mikilvægi náttúruauðlinda, vinnuafls og fjármagns felst aðallega í þeim skorðum sem þær setja. Án þessara auðlinda blómstrar þekkingin ekki og án þeirra getur stjórnun ekki skilað árangri, er haft eftir hagfræðingnum víðkunna, Peter F. Drucker. Hefðbundin skipting auðlinda í náttúruauðlindir, vinnuafl og fjármagn er takmarkandi og mikilvægt að tekið sé tillit til svæðisbundins félagsauðs, mannauðs, sögu og menningar þegar fjallað er um þekkingarsamfélag eða þekkingarhagkerfi, hverjar séu forsendur öflugs og framsækins atvinnulífs, auk legu eða staðsetningar.
    Markmið nútímalegrar atvinnu- og byggðastefnu er að búa til „svæði sem læra“ (e. learning regions). Ferlið er að „bræða saman“ tiltekna skjalfesta þekkingu t.d. nýjar aðferðir eða þekkingu sem er mikilvæg í nýjum greinum framleiðslu við þögla þekkingu t.d. verkvit á tilteknu sviði, sem oft tengist sögulegum aðstæðum svo að úr verði stað- eða svæðisbundin þekking sem skapar svæðinu sérstöðu og samkeppnisforskot. 28
    Áherslur Evrópusambandsins í þessu samhengi er að finna í Lissabon- og Gautaborgar- sáttmálunum sem miða að því að færa aðildarlöndin í átt „að samkeppnishæfu þekkingarsamfélagi, sem getur haldið uppi viðvarandi hagvexti, skapað fleiri og betri störf og tryggt félagslegt jafnvægi“.

Mynd 2.4.4.2 Lærandi svæði


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kerfisbundnar matsaðferðir gefa ákveðna mynd af nýsköpunarstarfi og hagrænum árangri OECD-landa. Hefðbundnar greiningar eru t.d. mat á fjárframlagi til rannsókna (inputs) og fjölda einkaleyfa (outputs) svo dæmi séu tekin. En samskipti og samstarf aðila eru taldar jafn mikilvægar og fjárfestingar í rannsóknum og þróun. Þau samskipti eru lykillinn að því að umbreyta því sem lagt er til rannsókna og þróunar í raunverulega nýsköpun, vöruþróun eða viðskiptatækifæri innan starfandi fyrirtækja. Forsenda skilvirks nýsköpunarkerfis í þekkingarsamfélagi nútímans er flæði þekkingar á milli fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana. Bæði í gegnum óformlegar leiðir en jafnframt kerfisbundnar (útgáfur, einkaleyfi).
    Flæði tækni og upplýsinga á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana er forsenda nýsköpunar. Nýsköpun og tækniþróun er árangur flókinna tengsla þátttakenda í kerfinu þar sem þátttakendur eru m.a. fyrirtæki, háskólar og opinberar rannsóknastofnanir.
    Viðtekið er að við mat á árangri og virkni nýsköpunarkerfa séu lagðar 4 megináherslur:
     *      Samskipti og samstarf fyrirtækja, aðallega sameiginlegt rannsóknastarf og annað tæknisamstarf.
     *      Samskipti á milli fyrirtækja, háskóla og opinberra rannsóknastofnana, þ.m.t. sameiginlegar rannsóknir, samvinna um einkaleyfi, sameiginlegar útgáfur og fleiri óformleg tengsl.
     *      Flæði þekkingar og tækni til fyrirtækja þ.m.t. tækniyfirfærsla.
     *      Hreyfanleiki starfsfólks, með áherslu á flutning tæknifólks innan og á milli opinberra aðila og einkafyrirtækja.
    Nýsköpunarkerfi eru gjarna greind niður eftir umfangi og viðfangsefnum. Nýsköpunarkerfi á landsvísu, staðbundin nýsköpunarkerfi, svæðisbundin nýsköpunarkerfi, nýsköpunarkerfi bundin ákveðnum atvinnugreinum og nýsköpunarkerfi sem snúa fyrst og fremst að ákveðnum þjóðfélagshópum.
    Ekki er um að ræða neina eina algilda skilgreiningu á nýsköpunarkerfum á landsvísu en sem dæmi má nefna eftirfarandi skilgreiningar (OECD 1997):
     *      „samstarfsnet opinberra stofnana og einkageira sem með starfsemi sinni og samskiptum hrinda af stað þekkingar og tækniyfirfærslu.“ 29
     *      „ólíkar stofnanir sem hver fyrir sig og sameiginlega leggja af mörkum til þróunar og miðlunar nýrrar tækni og þekkingar. Mynda vettvang fyrir stjórnvöld til að móta nýsköpunarferlin. Sem slík er um að ræða kerfi samtengdra stofnana til að mynda, varðveita og miðla þekkingu, hæfni og getu til að þróa nýja tækni.“ 30
    Svæðisbundin nýsköpunarkerfi eru skilgreind sem samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem saman leiða til þróunar nýrrar vöru eða þjónustu innan ákveðinna starfsgreina.
    Undanfarin ár hafa víða um land verið myndaðir vísar að þekkingarsetrum sem er svæðisbundinn samstarfsvettvangur atvinnulífs, háskóla, rannsóknastofnana og stuðningskerfisins með að markmiði að stuðla að efnahags- og félagslegum framförum. Sums staðar má segja að þróun ofangreindra hugmynda um þekkingarsetur sé langt komin í raun. Athugun á fjölda stöðugilda, staðsetningu og stofnanasamsetningu þekkingarsamfélagsins á landsbyggðinni sem tengst geta hugmyndum um þekkingarsetur frá í febrúar 2009, leiðir í ljós að töluverð samþjöppun hefur átt sér stað og má nefna a.m.k. 10 svæði/staði þar sem grundvöllur er fyrir starfsemi öflugra þekkingarsetra og að um sé að ræða um 340 stöðugildi. Þau eru á eftirfarandi stöðum: Vesturlandi (Borgarnes), Vestfjörðum (Ísafjörður), Norðurlandi vestra (Sauðárkrókur), Eyjafirði (Akureyri), Norðurlandi eystra (Húsavík), Austurlandi (Egilsstaðir), Suðausturlandi (Höfn Hornafirði), Suðurlandi (Selfoss), Vestmannaeyjum og Sandgerði/Reykjanesbæ. Meginkjarnar setranna eru á ofangreindum þéttbýlisstöðum en aðilar setranna koma víðar að úr nærumhverfi þeirra og eins getur verið um minni sérstök setur að ræða sem tengjast meginsetrum. Sem dæmi um þetta getum við tekið Vestfirði þar sem þekkingarsamfélagið byggir á a.m.k. 41 stöðugildi frá 10 mismunandi aðilum/stofnunum sem staðsettir eru á Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík og Patreksfirði. Þeir aðilar sem a.m.k. kæmu að Þekkingarsetri Vestfjarða væru Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Rannsókna- og fræðasetur Vestfjarða, Vaxtarsamningur Vestfjarða, Náttúrustofa Vestfjarða, Fornleifavernd, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hafrannsóknastofnun, Matís, Búnaðarsamtök Vesturlands, Háskólasetur Vestfjarða auk Galdraseturs, Sögusmiðju og Þjóðtrúarstofu.
    Taflan hér að neðan sýnir hvar þessi störf liggja og um hversu marga aðila er að ræða.

Tafla 2.4.4.1 Grunnur þekkingarsetra

Stöðugildi Aðilar
Vesturland 46,0 13
Vestfirðir 43,0 12
Norðurland vestra 40,0 15
Eyjafjörður 46,5 12
Norðausturland 30,0 8
Austurland 37,0 13
Suðausturland 10,0 5
Suðurland 30,0 10
Vestmannaeyjar 21,0 10
Reykjanes 37,5 11
Samtals 341,0

    Eftirfarandi tafla sýnir hvaða aðilar eru teknir með í talningu stöðugilda á landsvísu (utan höfuðborgarsvæðisins).

Tafla 2.4.4.2 Þekkingarsamfélagið – samsetning

Stofnun Stöðugildi Hlutfall
Atvinnuþróunarfélag 38,5 11,3%
Háskólasetur 22,0 6,5%
Hafrannsóknastofnun 23,0 6,7%
Landgræðslan 9,0 2,6%
Leiðbeiningarmiðstöðvar landbúnaði 50,0 14,7%
Matís 14,0 4,1%
Náttúrustofur 39,0 11,4%
Markaðsstofur 12,5 3,7%
Nýsköpunarmiðstöð Íslands 17,0 5,0%
Símenntunarmiðstöðvar 28,0 8,2%
Vaxtarsamningar 6,0 1,8%
Menningarsamningar 13,0 3,8%
Veiðimálastofnun 3,0 0,9%
Fornleifavernd 5,0 1,5%
Skógrækt ríkisins 12,0 3,5%
Þekkingar- og rannsóknasetur 49,0 14,4%
341,0 100,0%

    Samkvæmt ofangreindu eru Leiðbeiningarmiðstöðvar í landbúnaði, þekkingar- og rannsóknarsetur, Atvinnuþróunarfélög, Náttúrustofur, Símenntunarmiðstöðvar, Háskólasetur auk Hafrannsóknastofnunar lykilaðilar í þekkingarsamfélaginu með um 70% stöðugilda. Nýsköpunarmiðstöð er staðsett á 7 stöðum á landsbyggðinni með 17 starfsmenn eða 5,0%. Starfsmenn „hreinna“ útibúa ríkisstofnana eru 105 talsins en aðilar með blandaða fjármögnun /eignarhald eru með 236 starfsmenn eða 69,2% þekkingarsamfélagsins.
    Eins og áður sagði eru þegar til virk þekkingarsetur og eru Vestmannaeyjar, Höfn Hornafirði, Sandgerði, Ísafjörður og Húsavík dæmi um staði þar sem þekkingarsetur hafa þróast á afar jákvæðan hátt. Ef Vestmannaeyjar eru skoðaðar í þessu ljósi þá sýnir eftirfarandi tafla samsetningu þekkingarsamfélagsins. Fjölmargir aðilar koma þar við sögu og forsenda árangurs og skilvirkni er samstarf og tengsl sem er raunin.

Tafla 2.4.4.3 Vestmannaeyjar

Heiti Staður Fjöldi
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Vestmannaeyjar 2
Atvinnuþróunarfélag Vestmannaeyjar 1
Matís Vestmannaeyjar 1
Hafrannsóknastofnun Vestmannaeyjar 2
Fræðasetur Háskóla Íslands Vestmannaeyjar 2
Náttúrustofa Suðurlands Vestmannaeyjar 4
Þekkingarsetur Vestamannaeyja Vestmannaeyjar 5
Rannsóknaþjónusta Vestmannaeyja Vestmannaeyjar 1
Surtseyjarstofa Vestmannaeyjar 1
Viska, Símenntunarmiðstöð Vestmannaeyjar 2
Samtals stöðugildi 21
Fjöldi aðila 10

    Veita þarf auknu fjármagni til rannsókna og þróunarstarfs í staðbundnum þekkingarsetrum og gera þeim þar með frekar kleift að sækja um fjármögnun verkefna í erlenda og innlenda samkeppnissjóði.

Mynd 2.4.4.3 Svæðaskipting á landsbyggðinni 2009


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Augljós ávinningur er af auknu samstarfi ólíkra aðila þekkingarsamfélagsins og þá bæði á milli einstakra stofnana/einstaklinga svo og þvert á þekkingarsetrin.
    Kortið hér að ofan sýnir umfang þekkingarsamfélaga eftir landshlutum. Hafa verður í huga að skilgreining á störfum sem tilheyra svæðisbundnum þekkingarsamfélögum er ekki algild en um er að ræða sérfræðistörf á ákveðnum fagsviðum hinna ýmsu stofnana samfélagsins. Hér er ekki tekið tillit til háskóla á landsbyggðinni né opinberra stofnana sem þar starfa að öllu leyti eins og Byggðastofnun, Landmælingar Íslands, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan.
    Á næstu þremur síðum er sundurliðað yfirlit yfir þekkingarsamfélagið á landsbyggðinni skipt niður í 10 svæði þekkingarsetra. Alls eru tiltekin 341 stöðugildi.

Tafla 2.4.4.4 Grunnur þekkingarsetra

Vesturland
Heiti Staður Fjöldi
Landgræðsla Hvanneyri 2
Atvinnuráðgjöf Borgarnes 6
Vaxtarsamningur Vesturlands Borgarnes 1
Búnaðarsamtök Vesturlands Hvanneyri 11
Menningarráð Vesturlands Hvanneyri 1
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi Borgarnes 4
Veiðimálastofnun Hvanneyri 1
Atvinnuráðgjöf Snæfellsbæ 1
Hafrannsóknastofnun Ólafsvík 4
Markaðsstofa Vesturlands Borgarnes 3
Skógrækt ríkisins Hreðarvatn 3
Náttúrustofa Vesturlands Stykkishólmur 4
Háskólasetur Snæfellsness Stykkishólmur 4
Fornleifavernd Stykkishólmur 1
Landbúnaðarháskóli Íslands Hvanneyri
Viðskiptaháskólinn Bifröst Bifröst
Landmælingar Íslands Akranes
Samtals stöðugildi 46
Fjöldi aðila 13
Vestfirðir
Heiti Staður Fjöldi
Atvinnuráðgjöf Patreksfjörður 3
Rannsókna- og fræðasetur Vestfjarða Bolungarvík 3
Vaxtarsamningur Vestfjarða Ísafjörður 1
Náttúrustofa Vestfjarða Bolungarvík 8
Fornleifavernd Bolungarvík 1
Atvinnuráðgjöf Ísafjörður 2
Menningarsamningur Vestfjarða Ísafjörður 1
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Ísafjörður 3
Markaðsstofa Vestfjarða Ísafjörður 1
Hafrannsóknastofnun Ísafjörður 8
Matís Ísafjörður 3
Atvinnuráðgjöf Hólmavík 1
Búnaðarsamtök Vesturlands Ísafjörður 1
Háskólasetur Vestfjarða Ísafjörður 7
Sögusmiðjan Hólmavík
Galdrasetur Hólmavík
Samtals stöðugildi 43
Fjöldi aðila 12
Norðurland vestra
Heiti Staður Fjöldi
Atvinnuráðgjöf Hvammstangi 3
Atvinnuráðgjöf Blönduós 1
Atvinnuráðgjöf Sauðárkrókur 1
Atvinnuráðgjöf Siglufjörður 1
Vaxtarsamningur Norðurlands vestra Sauðárkrókur 1
Hátæknisetur Íslands Sauðárkrókur 1
Náttúrustofa Norðurlands vestra Sauðárkrókur 5
Matís Sauðárkrókur 1
Fornleifavernd Sauðárkrókur 1
Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda Blönduós 4
Leiðbeiningarmiðstöðin Sauðárkrókur 6
Selasetur Hvammstangi 3
Sjávarlíftæknisetur Skagaströnd 3
Menningarráð Norðurlands vestra Skagaströnd 1
Farskólinn Norðurlandi vestra Sauðárkrókur 3
Farskólinn Norðurlandi vestra Blönduós 1
Veiðimálastofnun Sauðárkrókur 1
Landgræðslan Hólum 1
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Sauðárkrókur 2
Háskólinn Hólum Hólum
Háskólinn Hólum Sauðárkrókur
Byggðastofnun Sauðárkrókur
Samtals stöðugildi 40
Fjöldi aðila 15
Eyjafjörður
Heiti Staður Fjöldi
Búgarður Akureyri 10
Matís Akureyri 4
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar Akureyri 3
Vaxtarsamningur Eyjafjarðar Akureyri 1
Skógrækt ríkisins Akureyri 3
Markaðsstofa Norðurlands Akureyri 2,5
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Akureyri 5
Menningarráð Eyþings Akureyri 1
Fornleifavernd Akureyri 1
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar Akureyri 5
Símenntun Háskólans Akureyri Akureyri 2
Hafrannsóknastofnun Akureyri 4
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar Akureyri 5
Háskólinn Akureyri Akureyri
Samtals stöðugildi 46,5
Fjöldi aðila 12
Norðausturland
Heiti Staður Fjöldi
Landgræðslan Húsavík 3
Landgræðslan Mývatnssveit 1
Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga Húsavík 8
Náttúrustofa Norðausturlands Húsavík 6
Þekkingarsetur Þingeyinga Húsavík 6
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Húsavík 2
Fræðasetur Háskóla Íslands Húsavík 1
Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn Mývatnssveit 1
Búgarður 2
Samtals stöðugildi 30
Fjöldi aðila 8
Austurland
Heiti Staður Fjöldi
Matís Neskaupstaður 3
Þróunarfélag Austurlands Egilsstaðir 4
Vaxtarsamningur Austurlands Egilsstaðir 1
Náttúrustofa Austurlands Egilsstaðir 3
Náttúrustofa Austurlands Neskaupstaður 5
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Egilsstaðir 2
Markaðsstofa Austurlands Egilsstaðir 2
Upplýsingamiðstöð Austurlands Egilsstaðir 1
Menningarsamningur Austurlands Egilsstaðir 1
Fornleifavernd Egilsstaðir 1
Landgræðslan Egilsstaðir 1
Búnaðarsamband Austurlands Egilsstaðir 4
Þekkingarnet Austurlands Egilsstaðir 6
Skógrækt ríkisins Egilsstaðir 3
Samtals stöðugildi 37
Fjöldi aðila 13
Suðausturland
Heiti Staður Fjöldi
Þekkingarnet Austurlands Höfn Hornafirði 1
Matís Höfn Hornafirði 2
Nýsköpunarmiðstöð Höfn Hornafirði 1
Háskólasetrið Höfn Hornafirði 5
Hafrannsóknastofnun Höfn Hornafirði 1
Samtals stöðugildi 10
Fjöldi aðila 5
Suðurland
Heiti Staður Fjöldi
Atvinnuþróunarfélag Suðurlands Selfoss 3
Háskólasetrið Hveragerði Hveragerði 2
Landgræðslan Gnúpverjahreppur 1
Veiðimálastofnun Selfoss 1
Menningarsamningur Suðurlands Selfoss 1
Markaðsstofa Suðurlands Selfoss 1
Búnaðarsamband Suðurlands Selfoss 12
Fræðslunet Suðurlands Selfoss 5
Vaxtarsamningur Suðurlands Selfoss 1
Skógrækt ríkisins Selfoss 3
Landgræðslan Gunnarsholt
Samtals stöðugildi 30
Fjöldi aðila 10
Vestmannaeyjar
Heiti Staður Fjöldi
Nýsköpunarmiðstöð Íslands Vestmannaeyjar 2
Atvinnuþróunarfélag Vestmannaeyjar 1
Matís Vestmannaeyjar 1
Hafrannsóknastofnun Vestmannaeyjar 2
Fræðasetur Háskóla Íslands Vestmannaeyjar 2
Náttúrustofa Suðurlands Vestmannaeyjar 4
Þekkingarsetur Vestamannaeyja Vestmannaeyjar 5
Rannsóknaþjónusta Vestmannaeyja Vestmannaeyjar 1
Surtseyjarstofa Vestmannaeyjar 1
Viska, Símenntunarmiðstöð Vestmannaeyjar 2
Samtals stöðugildi 21
Fjöldi aðila 10
Reykjanes
Heiti Staður Fjöldi
Fræðasetur Sandgerði 2
Háskólasetur Suðurnesja Sandgerði 1
Náttúrustofa Reykjaness Sandgerði 4
Rannsóknastöðin BioIce Sandgerði 10
Hafrannsóknastofnun Grindavík 4
Miðstöð Símenntunar Suðurnesjum Reykjanesbær 6
Saltfisksetur Íslands Grindavík 1
Atvinnuráðgjafi SSS 0,5
Markaðsstofa Suðurnesja Reykjanesbær 2
Menningarfulltrúi Reykjanesbæjar Reykjanesbær 1
Upplýsingamiðstöðvar 6
Stofnfiskur Reykjanesbær/Hafnir
Orf Lífrækni, Græna smiðjan Grindavík
Keilir, Miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs Reykjanesbær
Samtals stöðugildi 37,5
Fjöldi aðila 11
Heildarfjöldi stöðugilda 341

2.4.5 Svæðisbundnar þróunaráætlanir
    Starfsemi sem byggist á svæðisbundnum vaxtarsamningum og menningarsamningum þykir hafa skilað góðum árangri. Starfssvæði þessara samninga hafa ekki verið einstök sveitarfélög, heldur hafa iðnaðarráðuneyti og menntamálaráðuneyti gert þessa samninga við sveitarfélög og fleiri aðila á svæðum sem miðast við starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga. Stjórn á framkvæmd þessara samninga og verkefnum sem á þeim byggjast hefur færst til samtaka sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og menningarráða, og það fært með sér ábyrgð, yfirsýn og störf á sviðum samninganna. Þessi þróun varpar ljósi á að samstarf sveitarfélaga um atvinnu- og byggðamál er vaxandi og mikilvægt og er jafnvel forsenda fyrir því að starfsemi og störf á þessum sviðum verði til og þróist á landsbyggðinni.
    Áhersla stjórnvalda í atvinnu- og byggðaþróun á Íslandi hefur verið á þessi svæði og er enn, á að þróun byggist á svæðunum, því sem þar er, svæðisbundnum sérkennum, hefðum, mannauði og auðlindum. Áhersla er nú á aukið samstarf í svæðisbundnum þekkingarsamfélögun og sé litið til Evrópusambandsins og Norðurlanda sjást sams konar áherslur. Á þessum grundvelli byggist stefnan um þróun fyrirtækja og samfélaga í alþjóðlegri samkeppni komandi ára.
    Sú góða reynsla sem fengist hefur af vaxtarsamningum og menningarsamningum hvetur til að samstarf sveitarfélaga verði eflt á grundvelli þessara samninga, þannig að til þeirra verði sótt markmið fyrir þróunaráætlanir fyrir svæði samninganna og landshlutasamtaka sveitarfélaga og á ábyrgð sveitarfélaganna og samtaka þeirra. Á þann hátt mætti tengja svæðisbundnar áherslur samninganna á sviði atvinnu- og byggðaþróunar við áætlanir einstakra sveitarfélaga, lýsa sérkennum, auðlindum, mannauði, félagsauði og markmiðum um uppbyggingu og setja upp framtíðarsýn fyrir hvert svæði. Slíkar áætlanir þyrfti að vinna í góðri sátt á svæðunum, þannig að hvert sveitarfélag gæti byggt stefnu sína á þessari sameiginlegu svæðisstefnu eða framtíðarsýn. Á þennan hátt sköpuðust líka nýjar og skilvirkar forsendur til samspils á milli áætlana á landsvísu, s.s. áætlana einstakra ráðuneyta, og svæðisbundinna áætlana, á milli stjórnsýslustiga, þannig að draga myndi úr líkum á ágreiningi, en líkur til góðs árangurs áætlana með því að hámarka samvirkni, myndu aukast.
    Svæðaáætlanir af því tagi sem hér er lýst byggjast á sérstöðu hvers svæðis, sem elur af sér áherslur og viðfangsefni hverrar áætlunar. Eðlilega geta því efnistök verið ólík, stefna og málefni þó sameiginleg sé stefna að sjálfbærri þróun.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 2.5.0.1 Hlutfallslegur hagvöxtur landshluta 2000–2006
2.5 Landshlutar

2.5.0 Almennt
    Erfitt er að spá fyrir um áhrif efnahagskreppunnar á byggðaþróun á komandi árum. Ástand í atvinnulífi hefur að undanförnu verið verst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Mögulegt er að það hafi þau áhrif að fólki fjölgi í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, ef atvinnuástand verður betra þar. Búsetuskilyrði eru misjöfn innan landshlutanna. Alls staðar eru þó möguleikar fyrir hendi en nýting þeirra og samkeppnishæfni svæðanna byggist á samgöngum, þekkingu til nýsköpunar og stjórn- og stoðkerfi sem er fært um að styðja nýsköpun og bæta búsetuskilyrði. 31

2.5.1 Vesturland
    Suðvesturland, allt frá Árnessýslu til Borgarfjarðar, er smám saman að verða eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Greiðar samgöngur eru um svæðið og íbúar hafa góðan aðgang að allri þeirri þjónustu og þekkingarstarfsemi sem í boði er á höfuðborgarsvæðinu.
    Ferðaþjónusta er vaxandi á Snæfellsnesi og Hvalfjarðargöngin hafa breytt miklu fyrir Vesturland. Miklir möguleikar á Snæfellsnesi, t.d. Búðir, Hellnar, Breiðafjörður o.fl. Áhugi er á að efla menningartengda ferðaþjónustu, auk þess sem Snæfellsnes vill markaðssetja sig sem vistvænt svæði og nýta aðdráttarafl jökulsins. Víða þykja ónýttir ýmsir möguleikar til menningartengdrar ferðaþjónustu, t.d. í Hvalfirði.
    Með áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Grundartanga, hafnasamstarfi á svæðinu og eflingu háskóla, Viðskiptaháskólans að Bifröst og Landbúnaðarháskólans að Hvanneyri og samstarfi þeirra við atvinnulífið, munu byggðarlög á suðurhluta Vesturlands halda áfram að eflast. Þrír framhaldsskólar eru á svæðinu, á Akranesi, í Grundarfirði og svo nýr skóli í Borgarnesi. Menningarstarf er öflugt, t.d. í Reykholti og Landnámssetur í Borgarnesi. Íbúum hefur fækkað á Snæfellsnesi síðasta áratug nema í Grundarfirði. Með samgöngubótum síðustu ára, Hvalfjarðargöngum, Bröttubrekku, Vatnaleið og í Kolgrafarfirði eru góðar samgöngur af Snæfellsnesi við höfuðborgarsvæðið. Á þéttbýlisstöðunum á norðanverðu Snæfellsnesi er atvinnulíf fremur einhæft en næg atvinna. Sjávarútvegur er þó fjölbreyttur og byggist mjög á sókn á nálæg fiskimið. Ferðaþjónusta stendur traustum fótum og er vaxandi á Snæfellsnesi, m.a. vegna fjölbreyttrar náttúru á landi og sjó og góðra samgangna allan ársins hring. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og skapar ný sóknarfæri í ferðaþjónustu, t.d. má nýta land betur fyrir sumarhúsabyggð. Möguleikar eru í fiskeldi, kræklingarækt, frekari nýtingu jarðhita á svæðinu og í fullnýtingu sjávarfangs. Í því efni er vert að minnast á sjávarrannsóknasetrið Vör í Ólafsvík þar sem unnið er að rannsóknum og markaðssetningu á beitukóngi.
    Í Dalabyggð og Reykhólahreppi hefur fólki fækkað mikið og samdráttur verið í atvinnulífi, einkum í sauðfjárrækt. Möguleikar felast helst í vöruþróun í landbúnaði, ferðaþjónustu, frekari uppbyggingu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum og víðtækari nýtingu jarðhita. Ferðaþjónusta er vaxandi, ekki síst í Flatey, en mörg tækifæri eru þó enn sem komið er ónotuð á þessu svæði og skortir á þjónustu við ferðamenn. Tækifæri kunna að opnast með vegi um Arnkötludal sem tengir Strandir og Vesturland. Það gæti m.a. verið í þjónustu en einnig opnast möguleikar á samstarfi milli þessara byggðarlaga.
    Vaxtarsamningur fyrir Vesturland var gerður árið 2006. Í tengslum við hann má nefna klasastarf í ferðamálum á Vesturlandi undir heitinu „All Senses“.

2.5.2 Vestfirðir

    Þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum byggja afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi. Atvinnulíf er fremur fábreytt nema á Ísafirði, atvinna hefur verið næg en íbúum hefur samt fækkað alls staðar síðasta áratug. Flytja hefur þurft inn vinnuafl til fiskvinnslu.
    Ferðaþjónusta er vaxandi og er víða öflug eins og á Ströndum í nágrenni Hólmavíkur (Sögusmiðjan). Þá eru siglingar um Djúpið o.fl. sem tengist einnig gönguleiðum á Hornströndum. Gistirými er hins vegar veiki hlekkurinn víða, auk skorts á afþreyingu fyrir ferðamenn. Þá má og nefna samgönguörðugleika. Tækifæri eru m.a. talin felast í náttúrulegum aðstæðum, s.s. sjóstangaveiði, auk þess sem menn sjá mikil tækifæri á Hólmavík og nágrenni og vilja frekari uppbyggingu tengda ferðaþjónustu.
    Hin mörgu þjóðerni, sem nú má finna á Vestfjörðum, kunna að fela í sér möguleika til atvinnusköpunar og þróunar, t.d. á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina. Sóknarfæri felast líka í uppbyggingu rannsókna- og menntastofnana í tengslum við fyrirtæki í hefðbundnum atvinnugreinum og tengdum greinum s.s. eldi sjávardýra. Þorskeldi er í vexti og þorskeldisklasi nokkurra fyrirtækja er nýstofnaður. Á Ísafirði var nýlega sett á fót Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarsetur sem hýsir ýmsa starfsemi. Vetrarsamgöngur innan Vestfjarða hafa háð samstarfi þéttbýlisstaða, fyrirtækja og stofnana. Með greiðari og öruggari samgöngum milli þéttbýlisstaðanna opnast möguleikar og búsetuskilyrði batna.
    Í Vestur-Barðastrandarsýslu hefur fólki fækkað mikið undanfarin ár. Atvinnuástand hefur þó verið gott og jafnvel hefur þurft að flytja inn erlent vinnuafl til fiskvinnslu. Atvinnulífið er einhæft og byggist mest á sjávarútvegi. Helstu sóknarfæri auk sjávarútvegs eru í ferðaþjónustu og fiskeldi. Möguleikar eru í ferðaþjónustu, ekki síst tengt Látrabjargi, ef samgöngubætur fást. Bættar samgöngur eru algjör forsenda áframhaldandi búsetu á svæðinu. Talsverðar væntingar eru tengdar mögulegri olíuhreinsunarstöð við Hvestu í Arnarfirði, en óvíst hvað verður. Á Tálknafirði hefur mikil áhersla verið lögð á umhverfismál, en sprotafyrirtækið Villimey sem framleiðir krem úr jurtum, byggir ímynd sína m.a. á hreinleika í umhverfinu.
    Í Strandasýslu hefur fólki fækkað stöðugt. Byggð er dreifð og atvinnulíf einhæft, hefur byggst á sauðfjárrækt og hlunnindanýtingu í sveitum og sjávarútvegi á Hólmavík og Drangsnesi. Nokkur vöxtur hefur þó verið í ferðaþjónustu og Galdrasetrið á Hólmavík er dæmi um velheppnaða nýsköpun á því sviði. Árneshreppur hefur sérstöðu hvað samgöngur snertir og er oft einangraður að vetrinum. Miklar væntingar eru vegna vegar um Arnkötludal sem mun breyta mjög miklu fyrir íbúana á Ströndum, en kemur íbúum Árnesshrepps þó ekki til góða nema að takmörkuðu leyti. Sú samgöngubót mun þó breyta miklu, bæði hvað varðar samgöngur til höfuðborgarinnar, möguleika á eflingu ferðaþjónustu og samstarf sveitarfélaga, jafnvel sameiningu við Dalabyggð.
    Vaxtarsamningur fyrir Vestfirði var gerður árið 2006. Árið 2007 skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum og fór sú vinna fram í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu. Nefndin gerði tillögur um aðgerðir á ýmsum sviðum og sértækar aðgerðir um 80 ný störf og var áætlað að árlegur kostnaður við þau yrði 500 mkr.

2.5.3 Norðurland vestra
    Fólki hefur fækkað mikið í Húnaþingi undanfarin ár og atvinna dregist saman, jafnt í þéttbýli sem sveitum. Atvinnulíf byggist á landbúnaði, sjávarútvegi og þjónustu, tekjur eru almennt lágar nema á Skagaströnd. Ullarþvottastöð er starfandi á Blönduósi og þar og á Hvammstanga eru afurðastöðvar. Með veiðum og vinnslu innfjarðarækju fyrir nokkrum áratugum varð mikil uppsveifla á Hvammstanga sem ekki náðist að fylgja eftir. Aðstæður fyrir stóriðju hafa verið taldar góðar á svæðinu milli Skagastrandar og Blönduóss og með Þverárfjallsvegi stækkar atvinnu- og þjónustusvæðið til Sauðárkróks.
    Ferðaþjónusta hefur verið að eflast, ekki síst í Skagafirði. Víða er verið að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu, t.d. Grettistak, Vesturfarasetrið, Hólar, söfnin, fljótasiglingarnar o.fl. Skagfirðingar hafa skapað sér sterka ímynd sem hestamenn og söngmenn, bæði innanlands og utan, a.m.k. hvað hestamennsku varðar. Ferðaþjónustan stendur líklega veikast í A-Hún. Tækifærin eru talin felast í eflingu ferðaþjónustu, m.a. með gönguleiðum, með menningu og sögu o.fl.
    Opinber starfsemi hefur verið flutt á svæðið, Fæðingarorlofssjóður á Hvammstanga, Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á Blönduósi og Vinnumálastofnun á Skagaströnd, auk þess sem hluti af starfsemi Íbúðalánasjóðs og öll starfsemi Byggðastofnunar er á Sauðárkróki.
    Íbúum hefur fækkað í Skagafirði en þar er atvinnulíf og opinber þjónusta tiltölulega fjölbreytt, einkum á Sauðárkróki. Sjávarútvegur er öflugur og Kaupfélag Skagfirðinga er stærsta fyrirtækið á svæðinu. Menningartengd ferðaþjónusta hefur verið í þróun, t.d. tengd íslenska hestinum, vesturförum og safnastarfi, sem og matarmenningu. Einnig eru öflugar fornleifarannsóknir í Skagafirði, sérstaklega tengt Hólum. Á þessu sviði eru sóknarfæri sem og í fiskeldi og nýjum búgreinum, t.d. hrossarækt og kornrækt. Hólaskóli hefur eflst á undanförnum árum og starfar nú á háskólastigi. Háskóla- og rannsóknastarf á sviði fiskeldis, sem fram fer í tengslum við öflug útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, fela í sér tækifæri til nýsköpunar. Verið – Vísindagarðar er þekkingarsetur sem starfar í tengslum við Háskólann á Hólum, en hýsir nú einnig Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður þar einnig með aðsetur. Nú er verið að kanna möguleika á stofnun koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki. Vöruþróun í sauðfjárslátrun í samvinnu við Nýsjálendinga er athyglisverð og lofandi. Landkostir og hafnarskilyrði hafa verið talin góð fyrir orkufrekan iðnað austan við botn Skagafjarðar og þá með hliðsjón af mögulegri orkuframleiðslu jökulánna í Skagafirði.
    Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra var gerður í ársbyrjun 2008. Í janúar 2008 skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra og lauk hún störfum hálfu ári síðar. Nefndin gerði tillögur um aðgerðir á ýmsum sviðum og sértækar aðgerðir um 25 ný störf og var áætlað að árlegur kostnaður við þau yrði 200 mkr.
    Íbúum á Siglufirði fækkaði allan seinnihluta síðustu aldar og hefur haldið áfram að fækka. Ekki hefur náðst að skapa fjölbreytni í atvinnulífi og sóknarfæri er helst að finna í fullnýtingu sjávarafla og ferðaþjónustu. Uppbygging Síldarminjasafns hefur vakið athygli og hlotið viðurkenningu og aðstæður til skíðaíþrótta eru óvíða betri frá náttúrunnar hendi en á Siglufirði. Héðinsfjarðargöng munu auðvelda aðgang að fjölbreyttri þjónustu í Eyjafirði og bæta búsetuskilyrði. Nú hefur Fjallabyggð sameinast Ólafsfjarðarbæ, en Héðinsfjarðargöng skapa skilyrði fyrir slíkri sameiningu.

2.5.4 Norðurland eystra
    Nokkur íbúafjölgun hefur verið undanfarin ár á Akureyri, Grenivík, í Svalbarðsstrandarhreppi og í Eyjafjarðarsveit. Íbúum hefur hins vegar fækkað í öðrum sveitarfélögum við Eyjafjörð, einkum út með firðinum að vestan. Störfum í iðnaði hefur fækkað, sjávarútvegur eflst en fyrst og fremst hefur störfum fjölgað í þekkingar- og þjónustugreinum. Akureyri hefur eflst sem skólabær með skólum á framhalds- og háskólastigi. Eyjafjörður er fjölmennasta og öflugasta þéttbýlissvæði utan Suðvesturlands og líklegast, ásamt Miðausturlandi, til þess að laða til sín fólk og fyrirtæki utan þess svæðis.
    Sameining sveitarfélaga og bættar samgöngur hafa í för með sér bætt búsetuskilyrði, starfsskilyrði fyrirtækja, meiri samkeppnishæfni svæðisins og betri skilyrði til að flytja þangað verkefni frá ríkinu, t.d. tengd sjávarútvegi.
    Ferðaþjónusta er vaxandi og Mývatnssveit hefur sérstöðu. Einnig þar hafa menn hug á stefnumótun og frekari markaðssetningu, t.d. á vetrarferðaþjónustu. Aðrir sjá einnig tækifæri tengd vetrarferðamennsku, t.d. á Ólafsfirði. Nálægð við Akureyri er einnig talin gefa tækifæri. Ýmislegt er í vexti, t.d. Hvalaminjasafnið á Húsavík og hvalaskoðunarferðir þaðan hafa visst forskot. Húsvíkingar hugsa einnig um strandmenningu með því að gera hafnarsvæðið aðgengilegt, en slíkt verkefni er í gangi víðar. Auk Mývatns má nefna þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Talsvert er verið að vinna í kynningarmálum nyrst og austast á svæðinu en á því svæði eru samgöngur veikleiki. Menn sjá m.a. tækifæri í nýtingu jarðhita á Þeistareykjum, í Kröflu og í Bjarnarflagi, t.d. á Húsavík og nágrenni, auk menningartengdrar ferðaþjónustu. Héðinsfjarðargöng eru talin geta eflt ferðaþjónustuna á því svæði. Skemmtiferðaskip hafa viðdvöl á Akureyri og hugsanlega geta nágrannabyggðir notið enn frekar góðs af. Jarðböðin við Mývatn hafa skapað aukna möguleika í ferðaþjónustu. Áhugi er á heilsutengdri ferðaþjónustu. Hugmynd um útivistarsvæði á Langanesi og í Hrísey og þá sem hreina og umhverfisvæna eyju.
    Sóknarfæri eru á flestum sviðum og byggjast á íbúafjölda, þéttbýli og þeirri fjölbreytni sem er að finna á Eyjafjarðarsvæðinu. Vaxtarsamningur fyrir Eyjafjarðarsvæðið var endurnýjaður í ársbyrjun 2008.
    Íbúum hefur fækkað á Húsavík og atvinnulíf átt undir högg að sækja, bæði vegna tækniþróunar í fiskveiðum og -vinnslu og breytinga í vinnslu landbúnaðarafurða. Hins vegar hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu verið í sókn. Einnig má nefna ferðaþjónustuverkefni sem snertir þingeyska matarmenningu. Nálægð við ríkar orkulindir skapar sóknarfæri til framtíðar, í iðnaði, hátækni og líftækni. Í þessu ljósi eru rannsóknir á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum mikilvægar.
    Í Mývatnssveit lagðist starfsemi Kísiliðjunnar af. Fyrirtækið Grænar lausnir hefur reynt að þróa framleiðslu á vörubrettum, en þar eru afar fá störf. Ferðaþjónusta er öflug og þar eru sóknarfæri. Áhersla hefur verið á að lengja ferðamannatímann, efla afþreyingarkosti, eins og jarðböðin eru gott dæmi um, og að nýta nálægðina við þjóðgarð norðan Vatnajökuls.
    Í Norður-Þingeyjarsýslu hefur íbúum fækkað mikið undanfarin ár. Samgöngur eru erfiðar, vegalengdir langar, atvinnulíf er einhæft og tekjur lágar. Á svæðinu eru góð skilyrði til sauðfjárræktar og árstíðabundinnar ferðaþjónustu. Á Þórshöfn er staða útgerðar sterk og hefur leitt til nýsköpunar við veiðar og vinnslu á kúfiski. Samgöngubætur, ekki síst nýr vegur um Hófaskarð sem tengir austasta svæðið vestur á við, munu stækka atvinnu- og þjónustusvæði þéttbýlisstaðanna og auka möguleikana í ferðaþjónustu.
    Miklar væntingar hafa verið vegna möguleika á byggingu álvers við Bakka, ekki síst í Suður-Þingeyjarsýslu. Sú framkvæmd hefur þó frestast m.a. vegna efnahagsástandsins og óvíst um framhaldið.
    Vaxtarsamningur fyrir Norðausturland var gerður árið 2008. Um svipað leyti skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra og Austurlandi og lauk hún störfum um hálfu ári síðar. Nefndin gerði tillögur um aðgerðir á ýmsum sviðum og sértækar aðgerðir um 20 ný störf á sviði rannsókna, ráðgjafar og þjónustu í fámennum byggðarlögum á Norðurlandi eystra og Austurlandi og var áætlað að árleg útgjöld við framkvæmd þeirra yrði um 200 mkr.

2.5.5 Austurland
    Á Miðausturlandi hefur verið mikil uppbygging vegna álversins í Reyðarfirði. Þá má nefna eflingu fiskeldis, allt frá Berufirði til Seyðisfjarðar. Sóknarfæri er líka að finna í nýjum búgreinum, einkum á Fljótsdalshéraði. Möguleikar eru í ferðaþjónustu, t.d. í sérstakri náttúru og nálægð við miðhálendið í tengslum við ferjusiglingar milli Seyðisfjarðar og hafna á meginlandi Evrópu. Vonir voru bundnar við möguleika tengda millilandaflugi á Egilsstöðum, en það hefur nú lagst af. Á Austurlandi er öflugt menningarstarf og vaxandi ferðaþjónusta. Þekkingarnet Austurlands var stofnað árið 2006 og rekur m.a. háskólanámssetur á Egilsstöðum.
    Uppbygging orkufreks iðnaðar er mjög þýðingarmikil fyrir byggð á Austurlandi. Til þessa verks heyra samgöngubætur milli byggða á Miðausturlandi, uppbygging menntastofnana, opinberrar þjónustu og bygging íbúðarhúsnæðis.
    Eftir langt tímabil fólksfækkunar hefur íbúum fjölgað á Miðausturlandi en íbúum hefur áfram fækkað í sveitarfélögum norðan við Fljótsdalshérað. Uppbygging á Miðausturlandi mun hafa áhrif til norðurs þó Vatnsskarðið dragi úr þeim. Miklu skiptir fyrir byggð í Vopnafirði og norður um, þar sem atvinnulíf er einhæft, að vegasamband við Hérað verði bætt.
    Eftir mikla uppbyggingu síðustu áratugi varð afturkippur í atvinnulífi á Hornafirði, m.a. vegna hagræðingar og samdráttar í landbúnaði og sjávarútvegi sem stendur þó nokkuð traustum fótum og felur í sér færi til sóknar. Þá skapar starfsemi Nýheima skilyrði til þekkingarstarfsemi í tengslum við sjávarfang og -vinnslu auk þess sem lega Hornafjarðar og nálægð við Vatnajökul skapar sérstöðu fyrir ferðaþjónustu sem hefur verið í þróun og lofar góðu.
    Vaxtarsamningur fyrir Austurland var gerður árið 2007.
    Vaxandi ferðaþjónusta og mikill straumur sem tengist ferðum Norrænu. Þjónusta við ferðamenn er kannski helsti veikleikinn. Ýmislegt athyglisvert eins og Papeyjarferðir, steinasafnið á Stöðvarfirði, safn um sögu Frakka á Fáskrúðsfirði o.fl. Á suðausturhorninu tengist ferðaþjónustan nálægð við Jökulsárlón, jökulinn, þjóðgarðinn og öræfin. Veikleikinn er einnig sá að ferðamenn staldra ekki við á leið sinni frá Seyðisfirði og norður eða suður um landið. Eitthvað af skemmtiferðaskipum hafa einnig viðkomu á Seyðisfirði og hugsanlega mætti nýta það eitthvað.

2.5.6 Suðurland
    Á síðustu árum hefur fólki fjölgað í Árnessýslu og atvinnulíf eflst. Skilyrði virðast vera til þess að þessi þróun haldi áfram, góðir landkostir, þétt byggð og nálægð við höfuðborgarsvæðið. Selfoss er þjónustumiðstöð Suðurlands og uppbygging þar í þjónustugreinum hefur verið mikil. Suðurstrandarvegur mun bæta samband við alþjóðaflugvöll. Breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss mun auka öryggi vegfarenda. Mikill straumur ferðamanna er um Suðurland og þar er öflug ferðaþjónusta og vaxandi.
    Íbúum hefur heldur fækkað síðasta áratuginn í Rangárþingum en mun meiri fækkun hefur orðið í Vestur-Skaftafellssýslu. Mikil uppbygging er í ferðaþjónustu og einstakir náttúrustaðir fela í sér enn frekari sóknarfæri í þeirri grein. Vatnajökulsþjóðgarður mun væntanlega skapa ný tækifæri á svæðinu. Nýjar fræðigreinar og bætt markaðssetning fela í sér möguleika til þróunar í vinnslu landbúnaðarafurða, nýrra búgreina, matvælaiðnaðar og ferðaþjónustu.
    Í Vestmannaeyjum hefur fólki fækkað mikið. Eyjarnar hafa mikla sérstöðu hér á landi vegna legu sinnar, mikilvægis sjávarútvegs, sérstakrar náttúru; fuglalífs og jarðsögu, byggðarsögu og eyjasamfélagsins. Á litlu svæði má fá yfirsýn yfir þetta allt og það, ásamt góðri þjónustu, hefur skapað Vestmannaeyjum sérstöðu sem ráðstefnustað og áfangastað ferðafólks. Þessa sérstöðu má nýta til þess að þróa ferðaþjónustu enn frekar og bjóða þekkingarfyrirtækjum hagstætt starfsumhverfi. Atvinnulíf er einhæft, tengt sjávarútvegi og fiskvinnslu og sóknarfæri í þeim greinum er helst að finna í fullnýtingu sjávarfangs. Þekkingar- og rannsóknastarf í Eyjum er því mikilvægt og bættar samgöngur milli lands og Eyja eru forsenda fyrir þá fjölbreytni í atvinnulífi sem annars eru góð skilyrði fyrir. Miklar væntingar eru vegna fyrirhugaðra samgöngubóta með Landeyjahöfn. M.a. er stefnt að samstarfi við austursvæði Suðurlands og einnig búist við að ferðaþjónusta eflist verulega í Vestmannaeyjum. Tvö ný ferðaþjónustuverkefni sem nefna má eru „Pompeii Norðursins“, þar sem gera á minjar um Vestmannaeyjagosið sýnilegar og Tyrkjaránssetur. Frá árinu 2007 hefur einnig verið unnið að eflingu rannsókna- og háskólastarfs með opnun þekkingarseturs í Eyjum.
    Sunnlendingar leggja áherslu á ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar, eins og flestir aðrir. Öflug ferðaþjónusta og mikill straumur ferðamanna einkennir Suðurland. Þar er einnig talsverð þjónusta við ferðamenn. Nefna má þætti eins og Sögusetrið, ferðir á Mýrdalsjökul, Gullfoss og Geysi o.fl. Þá eru greiðar samgöngur. Veikleikar eru m.a. að fá ferðamenn til að staldra við á svæðinu nær höfuðborginni. Áhugi er á að nýta garðyrkjuna til eflingar ferðaþjónustu og Vestmannaeyingar telja sig hafa ýmsar hefðir til að byggja ferðaþjónustuna á. Þá er nálægð við óbyggðirnar talinn kostur, t.d. á Vík og Kirkjubæjarklaustri og m.a. horfa menn til Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Vaxtarsamningur fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar var undirritaður árið 2006. Verkefni sem m.a. tengjast vaxtarsamningi eru Safnaklasi Suðurlands með 50–60 þátttakendur, frumkvöðlar í matvælaframleiðslu, en ekki síst Háskólafélag Suðurlands sem stofnað var 2007 og vill auka menntastig á svæðinu með eflingu háskólastarfs sem byggir á því sem fyrir er.

2.5.7 Suðurnes
    Suðurnes eru í mikill nálægð við höfuðborgina og má segja að það sé eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Sérstaða Suðurnesja felst í staðsetningu alþjóðaflugvallarins og aðgengilegum háhitasvæðum. Uppbygging á sviði ferðaþjónustu hefur grundvallast á þessum aðstæðum og þær má nýta frekar. Bláa lónið er einn mesti ferðamannastaður landsins. Samt er erfitt að fá ferðamenn til að staldra við á Reykjanesi, annars staðar en í Bláa lóninu. Tækifærin sem menn sjá er t.d. hvalaskoðun, gönguleiðir, samgöngubætur, aukin kynning í Bláa lóninu. Þá má ekki gleyma nálægðinni við alþjóðaflugvöllinn sem skapar margs konar tækifæri, m.a. varðandi ferðaþjónustu.
    Hafnarskilyrði og nágrenni við fiskimið hafa skotið stoðum undir mikla útgerð og fiskvinnslu. Ástæða fyrir íbúafjölgun á Suðurnesjum síðustu ár er þó frekar nágrennið við höfuðborgarsvæðið og flugvöllinn. Uppbygging á Vallarsvæðinu er hafin og þar eru möguleikar til vaxtar. Má þar t.d. nefna Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem stofnuð var árið 2007 í samstarfi við Háskóla Íslands. Sem stendur er mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og meira en annars staðar á landinu.

3. BYGGÐASTEFNA ERLENDIS OG FJÖLÞJÓÐLEGT SAMSTARF
3.1 Byggðastefna Evrópusambandsins
3.1.1 Um byggðastefnu Evrópusambandsins
    Stefna ESB í byggðamálum og byggðaþróun byggist á Lissabon og Gautaborgar sáttmálunum. Í Lissabonsáttmálanum 32 er áherslan á vöxt, samkeppnishæfni og störf en í Gautaborgarsáttmálanum 33 er áhersla á sjálfbæra þróun. Í þessum sáttmálum er áhersla lögð á þróun á sviði rannsókna og tækni, þekkingarsamfélag, nýsköpun, verndun umhverfisins og aðlögunarhæfni vinnuafls. Við mótun núverandi stefnu, sem gildir fyrir tímabilið 2007–2013, var leitast við að einfalda framkvæmd stefnunnar, útdeilingu styrkja og eftirlit. Í meginatriðum ákveða stofnanir sambandsins rammann um starfið, en aðildarríkin eða svæðin hafa svigrúm til að móta áherslur út frá eigin hagsmunum og aðstæðum.
    Þrjú meginmarkmið einkenna byggðastefnuna; í fyrsta lagi að auka samleitni svæða (convergence), í öðru lagi að tryggja samkeppnishæfni og atvinnu á tilteknum svæðum og í þriðja lagi að auka samvinnu milli svæða sambandsins. Til þess að ná fram þessum markmiðum veitir Evrópusambandið tæplega 350 milljörðum evra til byggðamála á árunum 2007–2013, sem er um þriðjungur heildarfjárlaga sambandsins. Þrír uppbyggingarsjóðir veita aðallega styrki til verkefna í aðildarríkjunum; samheldnisjóður, byggðaþróunarsjóður og félagsmálasjóður.
    Ráðherraráð ESB samþykkti í byrjun október 2006 heildarramma núverandi stefnu á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórn sambandsins. 34 Tillögur framkvæmdastjórnarinnar komu fram að höfðu nánu samráði við aðildarríkin. Ákveðin grundvallarsjónarmið liggja stefnunni til grundvallar, s.s. að styrkveiting frá ESB komi til viðbótar við framlög aðildarríkjanna en ekki í þeirra stað. Jafnframt er lögð áhersla á meðalhóf og jafnrétti kynjanna við ákvörðun verkefna. Á grunni heildarrammans vinna öll aðildarríkin rammaáætlanir þar sem forgangsmál þeirra eru tilgreind ásamt lykilþáttum varðandi framkvæmd stefnunnar. Þar er m.a. að finna greiningu á félags-/hagfræðilegum aðstæðum í ríkjunum og lýsingu á því hvernig áherslur ríkjanna stuðla að því að markmiðum Lissabonsáttmálans verði náð.
    Rammaáætlanir aðildarríkjanna innihalda jafnframt tilteknar áætlanir sem þau telja að geti stuðlað að þeim markmiðum sem stefnt er að á viðkomandi svæðum. Sérhver áætlun spannar allt tímabil stefnunnar, þ.e. árin 2007–2013, og varðar yfirleitt einungis eitt af þremur meginmarkmiðum byggðastefnunnar. Sú nýbreytni er í núverandi byggðastefnu að sérhver áætlun fær einungis styrki úr einum sjóði sambandsins. Þetta er gert til þess að einfalda alla yfirsýn og eftirfylgni. Framkvæmdastjórn ESB þarf að samþykkja sérhverja áætlun til þess að tryggja að hún stuðli að heildarmarkmiðum sambandsins og falli innan rammaáætlunar viðkomandi ríkis. Þegar slíkt samþykki liggur fyrir er það í höndum aðildarríkjanna sjálfra að framkvæma áætlanirnar, velja þau verkefni sem rétt er að styrkja ásamt því að fylgjast með og meta árangur þeirra.
    Greiðslur styrkja fara fram einu sinni á ári og í þremur áföngum til hverrar áætlunar um sig. Eftirlit er aðallega í höndum aðildarríkjanna sjálfra, en framkvæmdastjórnin fylgist jafnframt með framvindu mála. Fyrir sérhverja áætlun ríkis þarf að koma upp nokkrum fjölda eftirlitsaðila til þess að fylgja á eftir verkefnum og miðla upplýsingum til framkvæmdastjórnarinnar. 35

3.1.2 Styrktarsjóðir
    Uppbyggingarsjóðirnir (Structural Funds) tveir, Byggðaþróunarsjóðurinn (ERDF) og Félagsmálasjóðinn (ESF), veita fjármunum til byggðamála, auk Samheldnisjóðsins (CF). Byggðaþróunarsjóðurinn hefur 203 milljarða evra til ráðstöfunar, Félagsmálasjóðinn 75 milljarða evra og Samheldnisjóðurinn (CF) 70 milljarða evra á sama tímabili. 36 Þessum þremur sjóðum til viðbótar er rétt að nefna Evrópska dreifbýlisþróunarsjóðinn (EAFRD) sem hefur til ráðstöfunar 78 milljarða evra á tímabilinu 2007–2013. 37
    Hlutverk Byggðaþróunarsjóðs ESB er að jafna bilið milli þróunar svæða sambandsins. Áhersluatriði sjóðsins eru m.a. rannsóknir, nýsköpun, umhverfismál og uppbygging innviða samfélagsins. Þá styrkir sjóðurinn samstarf milli svæða og yfir landamæri Sjóðurinn veitir styrki í öllum löndum sambandsins og í reglum hans eru sérstök ákvæði um styrki til strjálbýlla afskekktra svæða en Ísland flokkast að stærstum hluta sem slíkt.
    Félagsmálasjóðurinn stuðlar að bættum atvinnumöguleikum, hærra atvinnustigi og betri starfhæfni vinnuafls á viðkomandi svæðum. Þetta markmið tengist sterklega Lissabon sáttmálanum, sem er m.a. ætlað að auka samkeppnishæfni sambandsins og gera ESB að framsæknasta þekkingarhagkerfi veraldar. Sjóðurinn veitir styrki í öllum löndum.
    Hlutverk Samheldnisjóðsins er að styrkja efnahagslega og félagslega samheldni og auka þannig stöðugleika og sjálfbæra þróun svæðisins. Slíkt felst m.a. í því að bæta samgöngur, auka umhverfisvitund og leggja áherslu á notkun endurnýtanlegrar orku. Sjóðurinn styrkir einungis verkefni frá aðildarríkjum þar sem vergar þjóðartekjur á mann eru undir 90% af meðaltali sambandsins í heild.
    Evrópski dreifbýlisþróunarsjóðurinn (European Agricultural Fund for Rural Development (EAFRD)) veitir stuðning til verkefna sem stuðla að aukinni samkeppnishæfni, umhverfisvernd og bættum lífsgæðum íbúa viðkomandi svæðis, en þessir þrír þættir eru meginmarkmið byggðaþróunarstefnu sambandsins. Öll dreifbýlissvæði sambandsins geta sótt um stuðning úr sjóðnum, en einungis ákveðin svæði eru hluti af svonefndri „Leader“ nálgun, (sjá kafla 4.1.4) með forgangsverkefnum allra þriggja markmiða sem er ætlað að bæta stjórnsýslu og virkja þróunarmöguleika viðkomandi svæða. Sjóðurinn veitir styrki í öllum löndum Evrópusambandsins. 38

3.1.3 Svæðatengdar samstarfsáætlanir
    Til þess að efla samheldni styður Byggðaþróunarsjóður ESB 69 svæðatengdar samstarfsáætlanir, 39 sem hver felur í sér mýmörg verkefni. Langflestar þessar áætlanir er fjölþjóðlegar (Cross border programmes), eða 52. 40 Þeirra á meðal er Norðurslóðaáætlunin (Northern Periphery, NPP) sem Svíar stýra. Þar hefur Ísland tekið þátt í tugum verkefna og tekur þátt í 14 verkefnum 2009. (Sjá kafla 3.3.3 hér á eftir.) Í flokki fjölsvæðaáætlana 41 tekur Ísland þátt ESPON, samstarfsáætlun á sviði byggðarannsókna þar sem öll aðildar- og umsóknarlönd ESB hafa tekið þátt auk Noregs, Sviss og Liechtenstein. Byggðastofnun annast samstarf að Íslands hálfu við báðar þessar samstarfsáætlanir. (Sjá kafla 3.3.4 hér á eftir.)
    Auk þessara svæðatengdu samstarfsáætlana og í sama tilgangi og þær eru gerðar, leggur ESB á þessu starfstímabili, 2007–2013, áherslu á samstarf við fjárfestingarbanka á sviði fjármálaverkfræði. Með þessu samstarfi er leitast við að bjóða viðbótarlán til atvinnuþróunar á svæðum ESB, leggja til sérhæfða þekkingu frá þessum stóru fjárfestingarbönkum á sviði fjármála og fjárhagsstýringar, hvetja frumkvæði til þess að nýta kosti þess að blanda styrkjum og lánum til fjármögnunar og tryggja sjálfbærni til langs tíma með áframhaldandi stuðningi úr Byggðaþróunarsjóði ESB með verkferlum sem byggjast á fjármálaverkfræði. 42 Fjórar sameiginlegar stuðningsáætlanir hafa verið skilgreindar og verið er að móta þrjár af þessum fjórum áætlunum, nefndar J-áætlanir.
    JEREMIE (Joint European Resources for Micro to medium Enterprises) er sett á laggirnar að frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB, Evrópska fjárfestingarbankans (EIB) 43 og Evrópska fjárfestingarsjóðsins (EIF) 44 og á að bæta aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni. Þessi áætlun býður hlutfjárkaup, áhættufjármagn, ábyrgðir, lán og tækniráðgjöf sem hefur margföld áhrif á sjóði ESB með áframhaldandi fjármálaþjónustu í staðinn fyrir styrki.
    JESSICA (Joint European Support for Sustainable Investment in City Areas) er sett á laggirnar að frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB, EIB og Banka framkvæmdastjórnar Evrópu (CEB) 45 til þess að styðja fjárfestingar í áætlunum og verkefnum til sjálfbærrar þróunar borga. Til verkefna í JESSICA áætluninni getur fjármagn fengist frá framkvæmdaáætlunum ESB og meðfjármagn frá sveitarfélögum, bönkum, lífeyrissjóðum og fjárfestingarsjóðum.
    JASPERS (Joint Assistance in Supporting Projects in European Regions) er samstarfsverkefni framkvæmdastjórnarinnar, EIB og Evrópska enduruppbyggingar- og þróunarsjóðsins (EBRD) 46 fyrir tæknilega aðstoðarþjónustu fyrir stór verkefni í ríkjunum 12 sem gengu í ESB árin 2004 og 2007 því þessa þjónusta skorti í löndunum 12. Á vegum áætlunarinnar eru starfandi þrjár framkvæmdaskrifstofur, í Varsjá, Vín og Búkarest og unnið er að 227 verkefnum.
    JASMINE (Joint Action to Support Micro-finance Institutions in Europe) 47 er ætlað að bæta aðgengi að fjármagni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki fyrir minnihlutahópa, utangarðsfólk og þjóðernisbrot sem vilja skapa sér atvinnu.

3.1.4 Svæðastefna Evrópusambandsins (Territorial Agenda)
    Svæðastefna Evrópusambandsins (Territorial Agenda of the European Union. Towards a More Competitive and Sustainable Europe of Diverse Regions) 48 var samþykkt í Leipzig í maí 2007 á fundi ráðherra sem fara með þróun borga og svæðatengda samheldni (cohesion) í sambandslöndunum.
    Svæðastefnunni er ætlað ramma inn aðgerðamiðaða stefnu fyrir samstarf ráðherranna og framkvæmdastjórnar ESB til þess að styrkja svæðatengda samheldni, bætt lífskjör og lífsgæði með jöfnum tækifærum sem snúa að svæða- og staðbundnum möguleikum, óháð því hvar fólk býr, á miðsvæði eða jaðarsvæðum Evrópu. Stefnan byggist á Lissabonsáttmálanum um atvinnuþróun og Gautaborgarsáttmálunum um tillit til náttúrunnar og sjálfbæra þróun. Hún er sett fram í 3 köflum um starf og áherslur auk framkvæmdalýsingar í 4. kaflanum og alls í 46 greinum.
    Starfs- og áherslukaflarnir nefnast:
          I.      Viðfangsefni til framtíðar: Svæðatengd samheldni.
          II.      Nýjar ögranir: Styrking svæðatengdra sjálfsmynda, betri nýting fjölbreytileika svæða.
          III.      Svæðatengd forgangsmál fyrir þróun Evrópusambandsins.

3.1.5 Að snúa fjölbreytileika í styrk svæða
    Í grænbók framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins dags. 6.10. 2008, 49 er gerð grein fyrir undirbúningi að stefnu Evrópusambandsins um svæðatengda samheldni (territorial cohesion) sem grundvöll til þess að snúa fjölbreytileika í styrk svæða. Þessi vinna er þáttur í að tengja samheldnistefnuna (cohesion policy) byggðasvæðum og skilgreina áhersluþætti, aðferðir og gerðir svæða. Dregnar eru ályktanir um mikilvægar áherslur, t.d. að virða fjölbreytileika svæða, mikilvægi góðs grunnverks, aðgengis almennt og að opinberri þjónustu, á sjálfbærni og á samsömun, að fólki finnist það heyra til á ákveðnum stað. Þá kemur fram áhersla á svæðasamstarf, dreifistjórnun (governance), stofnanasamstarf yfir landamæri, stofnanauppbyggingu eða -gerð og t.d. vakin athygli á að umbreyting amtanna í Danmörku hafi miðað að því að auka samheldniáhersluna í samþættri áætlanagerð. (Að setja upp eitt yfirvald áætlana fyrir borgir og landbúnaðarsvæði.) Í þessu vinnuskjali í aðdraganda þessarar grænbókar er rætt um að svæðistengd viðhorf geirastefnumiða (sectoral policies) séu ofurmikilvæg og um að sums staðar sé mikil áhersla á að samþætta svæðistengdar stefnur og áætlanir, s.s. samgöngur, fjarskipti, sjálfbæra þróun og umhverfismál og að flest lönd hafi einhvers konar landsáætlanir. Bent er á mikilvægi þess að samþætta geirastefnumið (málaflokka) og svæðatengd stefnumið til þess að hámarka samvirkni og forðast ágreining stefnumiða og áætlana.

3.2 Byggðastefna á Norðurlöndum
3.2.1 Noregur
Almennt
    Norsk byggðastefna hefur byggst á því að halda beri öllu landinu í byggð. Áhersla er lögð á valfrelsi til búsetu. Mikilvægt er talið að nýta landið og auðlindir þess og ná þannig fram aukinni verðmætasköpun. Forsendan er að til staðar sé næg og fjölbreytt atvinna, sterk samfélagsgerð og fjölbreytt þjónusta. Áhersla er lögð á að dreifbýlissvæði Noregs taki þátt í átaksverkefnum með það að markmiði að efla byggðina. Lögð er áhersla á að lífsskilyrði séu þau sömu um allt land og að halda við núverandi búsetumynstri. Þetta markmið hefur verið útfært nánar á síðustu árum þannig að það gildi um byggð í einstökum landshlutum (landsdeler) sem samsvara NUTS 2 svæðaskilgreiningu og er m.a. notað innan Evrópusambandsins.
    Óhætt er að segja að byggðaaðgerðir Norðmanna eru víðtækar og til þeirra er varið miklu fjármagni. Norðmenn leggja ríka áherslu á þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og taka þátt í öllum þeim áætlunum Evrópusambandsins sem kostur er.
    Stefnumótun á sviði byggðamála byggist á samráði og samstarfi við þá sem málið varðar og breið pólitísk samstaða hefur verið um þá umfangsmiklu byggðastefnu sem rekin er.

Formið
    Fjórða hvert ár leggur norska ríkisstjórnin fram skýrslu (Stortingsmelding om distrikts- og regionalpolitikken) um þróun byggðarinnar. Þar er lýst hver þróunin hefur verið og hver sé stefna stjórnvalda í byggðaaðgerðum. Í raun eru það fylkin sem mest hvílir á varðandi framkvæmd byggðastefnunnar þó svo ríkið leggi fram stærsta hlut fjármunanna. Gerður er greinarmunur á „litlu“ og „stóru“ byggðastefnunni í Noregi. Til stóru byggðastefnunnar teljast ýmis stefnumál stjórnvalda, t.d. á sviði aðgerða í skattakerfinu, grunngerðar (samgangna, fjarskipta, menntunar, heilsugæslu), landbúnaðarstefnu, vinnumálastefnu, menntunar, landvarna og velferðarstefnu. Til litlu byggðastefnunnar teljast hefðbundnar aðgerðir á sviði atvinnu- og markaðsmála sem víða er beitt í hinum vestræna heimi. Þar má einkum nefna svæðisbundna styrki til fyrirtækja og einstakra atvinnugreina.
    Í Noregi hefur skattaleg ívilnun verið snar þáttur í byggðastefnu landsins. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið setur skorður við heimildum til að veita styrki til atvinnulífsins. Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt heimild til Norðmanna til að vera með mishá atvinnurekendagjöld og tryggingagjöld eftir landsvæðum. Hæst eru þau í þéttbýlinu í suðurhluta landsins, 14,1%, en lækka eftir því sem norðar dregur og eru engin í nyrstu héruðunum. Einnig hafa Norðmenn fengið heimild til að endurgreiða hluta flutningskostnaðar til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi. Þessu til viðbótar nota Norðmenn allar þær heimildir sem mögulegt er til að styðja við þau svæði sem eiga undir högg að sækja. Þannig eru veittir styrkir til lítilla nýstofnaðra fyrirtækja og þá horft sérstaklega til fyrirtækja í eigu kvenna.

Sérstakar aðgerðir
    Í nyrstu héruðum Noregs, Finnmörku og Norður-Troms, eru sérstakar aðgerðir í gangi vegna þess að þar hefur fækkun íbúa verið viðvarandi vandamál. Fyrir utan þær aðgerðir sem að framan eru nefndar þá er á þessu svæði veittur afsláttur af endurgreiðslu námslána, undanþága frá greiðslu gjalda af rafmagni, lægri skattar á einstaklinga, hærri barnabætur og launauppbót til leikskólakennara. 50 Hluti af byggðaaðgerðum í Noregi hefur verið flutningur opinberra stofnana frá Osló út á land. Þessar áherslur hafa verið mismiklar og breytilegar en í skýrslu frá 2006, „Effekter af utlokalisering av statlige arbeidsplasser“ er þróun þessara aðgerða rakin undanfarna áratugi. Samkvæmt skýrslunni hefur flutningur starfa farið stigvaxandi og á árunum 2000–2006 á að flytja 17 stofnanir að hluta eða að öllu leyti með samtals 1200 störf. Árið 2006 á að flytja stóran hluta, 7 stofnanir sem einkum hafa sinnt ýmis konar eftirliti. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að reynsla af flutningi stofnana hafi verið góð.

Byggðamynstur
    Í Noregi eru 19 fylki og 430 sveitarfélög. Umræða hefur verið í gangi um fækkun. Helstu verkefni sem fylkjunum er ætlað að sinna eru byggðastefna, háskóla- og framhaldsmenntun, rannsóknir, skipulagsmál, umhverfismál og stjórnun auðlinda, samgöngumál, menningarmál, heilsugæsla og sjúkrahús.
    Vert er að geta þess að stjórnvöld leggja áherslu á sterkt höfuðborgarsvæði.

Svæðisbundin uppstokkun
    Regional omstilling (mætti útleggjast sem „svæðisbundin uppstokkun“, en „omstilling“ getur haft merkingu eins og „aðlögun“ eða „endursköpun“ o.fl. í þeim dúr) er byggðaáætlun sem er á ábyrgð fylkjanna og sveitarfélaganna, en með aðkomu ríkisins og Innovasjon Norge, eða norsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar, hér eftir skammstafað IN. Regional omstilling er ein af mörgum byggðaáætlunum í Noregi. Svæðið getur verið allt frá einu sveitarfélagi til fylkis. Áætlunin er að hámarki til sex ára og er ætluð svæðum sem standa frammi fyrir alvarlegum vandamálum, svo sem fábreytni í atvinnulífi og því að verið er að leggja niður grundvallarfyrirtæki á staðnum. Einnig geta hlutir eins og það að herinn dragi úr umsvifum verið ástæða þess að áætlunin er virkjuð. 51 Markmiðið er að styrkja atvinnulíf með því að stofna ný og ábatasöm fyrirtæki og auka verðmætasköpun og fjölbreytni og möguleika fyrir bæði kynin. Skoða á samfélagið í víðu samhengi, m.a. þjónustu sveitarfélagsins við atvinnulífið. Opinber eignaraðild er mikilvæg og sömuleiðis að tengja atvinnulífið inn í átakið auk sveitarfélagsins. Höfuðábyrgðin verður að liggja hjá heimamönnum. Starfið þarf að byggjast á víðtækri þátttöku og virkni á hinum ýmsu sviðum – og styrkri stjórn. Upplýsingaflæði frá stjórn átaksins til sveitarfélagsins, atvinnulífsins, fjölmiðla og íbúanna þarf að vera gott.
    Greining skal taka mið af þróun síðustu 10 ára, íbúaþróun, þróun starfa, menntunar o.fl., spá um áframhaldandi þróun. Stefnumótun, annað stig, byggir á SVÓT-greiningu, skilgreind stefnumál, fjárhagsrammi, ábyrgð og umboð. Það þurfa að vera mælikvarðar eða mat á árangri. Svæðið á að leggja fram 25% kostnaðar, en fylkið 75%. Á sex ára framkvæmdastiginu skal áætlunin metin árlega og tekin ákvörðun um framhaldið á grundvelli þess mats. Fyrir þarf að liggja áætlun um hvernig á að meðhöndla umsóknir, um eftirfylgni, mat á verkefnum og verkefnislok og –framhald. Eigi síðar en tveimur árum fyrir lok áætlunar á að liggja fyrir áætlun um framhaldið.
    Á lokastiginu metur IN árangur ásamt stjórn áætlunarinnar. Lokamat er m.a. byggt á spurningakönnun meðal fyrirtækja á svæðinu sem áætlunin nær til. Eftirfylgni byggist á svörum við þessum spurningum:
          Hvaða hæfni hefur orðið til sem er þess virði að verði framhald á?
          Hvaða árangurskröfur er mikilvægt að halda áfram með?
          Hverjir eru viðskiptavinirnir, hvaða svæði eru þetta?
          Hvaða skipulag hentar?
          Hvað gerist ef ekki verður framhald á?
    Mikilvægir þættir við lok áætlunar eru að sveitarfélagið sé fært um að halda þróunarvinnu áfram eftir að tímabili lýkur, að það hafi virkjað atvinnulíf, hið opinbera og frumvinnslugreinar til þátttöku og að sveitarfélagið hafi not af verkefninu í frekara starf til þróunar atvinnulífs. Í framhaldinu þarf atvinnulífið að taka við ábyrgðinni af stoðkerfinu. Það er mikilvægt að tapa ekki þeirri þekkingu, reynslu og samstarfsneti sem mótaðist á áætlunartímabilinu, heldur nýta áfram á svæðinu.
    Að sumu leyti má segja að „Svæðisbundna uppstokkunar“ verkefnið taki til sömu hluta og hér á sér stað þegar stjórnvöld rjúka af stað til að leysa vandamál sem upp koma í einstökum sveitarfélögum eða á stærri svæðum með sértækum aðgerðum.
    Sjá heimasíðu Kommunal- og regionaldeparementet: www.regjeringen.no/nb/dep/ krd.html?id=504 en þaðan er hægt að sækja mikið af upplýsingum um byggðamál í Noregi.

3.2.2 Svíþjóð
Almennt
    Sænska byggðastefnan, sem í gildi er, ber nafnið „Landsstefna um svæðisbundna samkeppnishæfni, frumkvöðlastarf og atvinnu 2007–2013“. (A national strategy for regional competitiveness entrepreneurship and employment 2007–2013.)
    Hún byggir á því að allir hlutar landsins eigi að leggja sitt af mörkum til vaxtar Svíþjóðar og sjálfbærrar þróunar landsins. Byggðastefnan setur markið á að skapa vöxt, að þróunin sé sjálfbær og hátt þjónustustig fyrir konur og karla í öllum landshlutum.
    Áhersla er lögð á stað- og svæðisbundna samkeppnishæfni. Horft er til stað- og svæðisbundinna vinnumarkaðssvæða (vinnusóknarsvæða) og hvernig þau móta skilyrði til uppbyggingar í strjálbýli og landbúnaðarhéruðum, smáum og meðalstórum bæjum sem og borgum. Litið er svo á að þéttbýli, dreifbýli og sveitir hafi sterk tengsl innbyrðis.
    Markmið byggðastefnunnar eru virk, sjálfbær staðbundin vinnumarkaðssvæði sem bjóða upp á hátt þjónustustig um allt landið. Litið er svo á að aðgerðir í öllum málaflokkun hafi áhrif á byggðaþróun.
    Lögð er áhersla á samstarf allra aðila sem eiga hagsmuna að gæta í undirbúningi og framkvæmd stefnunnar. 52

Formið
    Í viðbót við Landsstefnuna um svæðisbundna samkeppnishæfni, frumkvöðlastarf og atvinnu 2007–2013 og þróunaráætlun fyrir dreifbýlið (Rural Development Programme) eru margar áætlanir sem ýmist ná til landsins alls eða hluta landsins.
    Til landsins alls nær þannig framkvæmdaáætlun fyrir uppbyggingarsjóðina og undir þá áætlun heyra átta svæðisbundnar áætlanir og jafnmargar framkvæmdaáætlanir. Þá eru 21 svæðisbundnar þróunaráætlanir og jafnmargir vaxtarsamningar.
    Lögð er áhersla á innbyrðis tengsl áætlana eins og byggðaáætlana, samgönguáætlana, áætlana um uppbyggingu innviða og húsnæðis.
    Til vaxtarsamninganna var varið 14,8 milljörðum sænskra króna árið 2007. Af þeirri upphæð komu 44% eða 6,3 milljarðar frá ríkinu. Aðrir aðilar sem leggja fram fé eru uppbyggingarsjóðirnir, lénin, sveitarfélögin og einkaaðilar.
    Á árinu 2009 áætlar sænska stjórnin að varið verði 3,5 milljörðum sænskra króna til svæðisbundinna vaxtaraðgerða. Þar inní eru niðurgreiðslur á flutningskostnaði. Af þessum 3,5 milljörðum koma 1,5 milljarðar frá uppbyggingarsjóðunum. Þessu til viðbótar er svo veittur afsláttur af raforkuverði og lækkun launatengdra gjalda, á vissum svæðum, alls tæpir 1,4 milljarðar sænskra króna.

Aðgerðir
    Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til svo árangur náist er:
     *      Að þétt sé haldið utan um aðgerðir ríkisins (sem eins og áður segir hafa allar áhrif á byggðamál).
     *      Skýrari ábyrgð svæðanna (heimafólks) á aðgerðum á tilteknum sviðum.
     *      Skýr mörk valdsviðs ríkis og sveitarfélaga.
     *      Samanburður á milli svæða nýttur til breytinga.
     *      Samstarf við uppbyggingarsjóði og byggðastefnu ESB.
    Stefnan byggir á:
     *      Stað- og svæðisbundin áhrif heimamanna og ábyrgð á ráðstöfun opinberra framlaga.
     *      Að tekið sé tillit til mismunandi forsendna einstaklingsins til þroska og samkeppnishæfni fyrirtækja á hinum mismunandi svæðum svo sem dreifbýli, litlum og meðalstórum bæjum sem og stórborgum.
     *      Stefnumiðaðar aðgerðir sem stuðla að sjálfbærum vexti í samstarfi við þátttakendur jafnt staðbundið, svæðisbundið, evrópskt og hnattrænt.
     *      Samstarf þvert á málaflokka og samræming hjá ríkinu í samstarfi við staðbundna og svæðisbundna þátttakendur.
     *      Gott aðgengi að þjónustu einkaaðila jafnt sem opinberra aðila bæði fyrir borgarana og fyrirtækin um allt land.
     *      Aukið framboð vinnuafls með stækkun vinnusóknarsvæða og auknum hreyfanleika innan og milli svæða.
     *      Svæðisbundin stefnumótun og áætlanir sem ganga út frá samvinnu og samspili á landsvísu og evrópskum vettvangi með það að markmiði að styrkja sjálfbæran vöxt jafnt staðbundið og á héraðagrunni.
    Gerð er nánari grein fyrir markmiðum einstakra svæða á sérstöku fylgiskjali.

Evrópusambandið er nálægt
    Þegar sænsk stjórnvöld mótuðu þá stefnu sem gildir gagnvart uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins fyrir árin 2007–2013 var lögð áhersla á eftirtalin lykilorð út frá þeim möguleikum og vandamálum sem Svíþjóð og svæðin í landinu stóðu frammi fyrir:
     *      Nýsköpunarumhverfi og frumkvöðlastarf. (Innovative environments and entrepreneurship)
     *      Aukin samkeppnishæfni og meira framboð vinnuafls. (Skills supply and increased labour supply)
     *      Bættar samgöngur og gagnaflutningar. (Accessibility)
     *      Árangursmiðað samstarf yfir landamæri. (Strategic cross–norder cooperation)
    Það er tekið fullt tillit til markmiða Lissabon og Gautaborgaryfirlýsinganna því sjálfbærni er alls staðar höfð að leiðarljósi.
    Svæðisbundnar þróunaráætlanir, svæðisbundnir vaxtarsamningar og svæðisbundnar áætlanir fyrir uppbyggingarsjóðina til að styrkja samkeppnishæfni svæðanna og efla atvinnu ásamt áætlun um svæðasamvinnu, eru verkfæri við framkvæmd stefnunnar sem og stað– og héraðabundin forgangsröðun og aðgerða.
    Stefnan gefur líka línuna um framkvæmd áætlana uppbyggingarsjóða ESB í Svíþjóð og er leiðbeinandi fyrir yfirvöld landsins varðandi samstarf í svæðisbundnu þróunarstarfi. Ekki fer á milli mála að sænska byggðastefnan tekur mjög mið af því að landið er aðili að Evrópusambandinu. Við inngöngu Svía í Evrópusambandið fengu þeir sérákvæði vegna norðlægrar legu landsins hvað varðar landbúnað og byggðamál.
    Samleitni stefna (cohesion policy) Evrópusambandsins felur í sér þrjú markmið á tímabilinu 2007–2013. Aðlögun (Convergence) svæða, samkeppnishæfni og atvinnu (Regional competitiveness and employment) og evrópska svæðasamvinnu. (European territorial cooperation). Svíar fá fjármuni til markmiða tvö og þrjú. Fjármagn til annars markmiðsins kemur bæði frá Byggðaþróunarsjóðnum og Félagsmálasjóðnum en þriðja markmiðið er fjármagnað í gegnum INTERREG.
    Á heimasíðu Sænska sveitarstjórnarsambandsins kemur fram að allt að 60% af málum sem Sænsku sveitarfélögin fjalla um hafa beinan eða óbeinan snertiflöt við Evrópusambandið.

Stefnan
    Stefna ríkisstjórnarinnar er að mikilvægt sé að minnka beinar niðurgreiðslur til atvinnulífsins. Þar sem þörf er á fjármögnun til viðbótar því sem markaðurinn veitir aðgang að á að stefna að því að fjárframlög séu endurgreidd. Ríkisstjórnin telur að atvinnulífið eigi að eiga aðgang að áhættufjármagni, ábyrgðum og lánum innan ramma svæðisbundnu uppbyggingarsjóðanna þar sem við á.
    Lögð er áhersla á stækkun skilvirkra svæða (functional regions) og þróað upplýsingasamfélag. Með þróun upplýsingasamfélagsins eiga borgararnir að geta unnið, notað þjónustu opinberra og einkaaðila og verið þátttakendur í samfélaginu burtséð frá hvar þeir búa. Með stækkun skilvirkra svæða er hugmyndin að tengja betur saman vinnumarkaðssvæði og draga þannig úr einhæfni, og gera sérhæfingu mögulega.
    Tekið er tillit til hinna sérstöku skilyrða sem einkenna strjálbýl svæði í Norður-Svíþjóð sem og mikilvægis borga fyrir samkeppnishæfni svæða og landsins alls. Sérstök áætlun nær til dreifbýlis þar sem tekið er á efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri þróun. (Rural Development Programme.) Strjálbýlu svæðin í Norður Svíþjóð eru sérstök stuðningssvæði í byggðalegu tilliti. Á þessum svæðum búa rúm 15% þjóðarinnar.

Byggðamynstur
    Í Svíþjóð eru 20 landsþing/lén og 290 sveitarfélög. Helstu verkefni landsþinganna/lénanna eru að sinna verkefnum sem eru sameiginleg fyrri stór landsvæði og kalla á mikið fjármagn. Skylduverkefni eru rekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa, tannlækningar, og rekstur safnvega. Valkvæð verkefni eru menningarmál, menntun, ferðamál og byggðaþróun. Fjölmennasta sveitarfélagið er með yfir 770.000 íbúa og það fámennasta er með 2.600 íbúa.

3.2.3 Finnland
Almennt
    Markmið finnskrar byggðastefnu er að skapa jafnvægi í byggðaþróun og tryggja aðgengi að þjónustu í öllu landinu, en einnig að efla samkeppnishæfni héraða og landsins í heild. Forsendur þessa eru að byggja upp þekkingu, nýsköpun, frumkvöðlastarf, atvinnulíf og innviði samfélagsins. Aðgerðunum er ætlað að byggja á styrkleikum hvers héraðs. Sameiginleg markmið byggðaaðgerða í Finnlandi byggja á Lögum um byggðaþróun (Regionsutveklingslag) og áherslum ríkisstjórnar í byggðamálum hverju sinni. Samkvæmt lögunum er eitt markmiðið að bæta aðstæður fyrir hagvöxt, örva uppbyggingu atvinnufyrirtækja og byggja upp atvinnulíf á grundvelli sérþekkingar og sjálfbærrar þróunar og að tryggja samkeppnishæfni og hagsæld héraðanna. Annað markmið er að draga úr svæðisbundnum mismun, bæta lífsskilyrði og stuðla að jafnari byggðaþróun.
    Lög um byggðaþróun vekja upp spurningu um hvernig eigi að byggja upp samkeppnishæfa byggðakjarna og efla á sama tíma svæði sem hafa átt í vök að verjast og búið við mikla fólksfækkun. Önnur grundvallarspurning er hvernig héruðin geta haft stjórn á kostnaði við velferðarþjónustu, uppbyggingu innviða og boðið upp á þjónustu í háum gæðaflokki á sama tíma og þau þurfa að veita nægjanlegum fjármunum til atvinnuuppbyggingar. Grunnforsendan í þessu samhengi er að uppbygging héraðanna leiði til almenns hagvaxtar sem aftur byggi upp hagvöxt héraðanna.
    Finnskri byggðastefnu var breytt í grundvallaratriðum á seinni hluta tíunda áratugarins. Núgildandi lög um byggðaþróun voru sett árið 2002. Finnland gerðist aðili að Evrópusambandinu árið 1995 og finnsk byggðastefna byggir að miklu leyti á þeim stuðningi sem verkefni sem falla að stuðningsaðgerðum Evrópusambandsins fá. Samkvæmt því er höfuðáherslan á tímabilinu 2007–2013 á alþjóðavæðingu og aðlögun að þeim áhrifum og möguleikum sem hún skapar. Sum héruð landsins eru með þeim afskekktustu í Evrópu, auk þess sem veðurfar skapar ákveðin vandkvæði. Vegalengdir eru víða miklar og landið strjálbýlt. Þessar aðstæður skapa í mörgum tilvikum erfið skilyrði fyrir hagþróun og samkeppnishæfni. Aldursskipting skapar víða vandkvæði og mikill brottflutningur er frá ýmsum héruðum.
    Stefnan fyrir tímabilið 2007–2013 er að styrkja samkeppnishæfni, atvinnuuppbyggingu og velferð héraða og landsins alls. Henni er einnig ætlað að taka mið af svæðisbundnum sérkennum og samrunastefnu Evrópusambandsins. Stefnan hefur skýr markmið: Að mæta með árangursríkum hætti alþjóðlegri samkeppnishæfni, að gera ráð fyrir og mæta breytingum í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og að skapa aðlaðandi aðstæður fyrir fyrirtæki og íbúa. Sértækar aðgerðir eru vegna aðstæðna í Austur- og Norður-Finnlandi sem hafa að ýmsu leyti skapast vegna vaxtar í Suður- og Vestur-Finnlandi. Skilgreind hafa verið þrjú áherslusvæði sem stuðningi uppbyggingarsjóða ESB og byggðastuðningi ríkisstjórnarinnar er beint sérstaklega að.
    Atvinnu- og efnahagsmálaráðuneytið í samvinnu við önnur ráðuneyti og Héraðsráðin bera ábyrgð á að móta áherslur byggðastefnunnar. Ráðuneytið sér einnig um samræmingu, vöktun og mat á stefnumarkandi áætlun í byggðamálum og vinnur það einnig í samvinnu við önnur ráðuneyti og héraðsráðin. Héraðsráðin eru ábyrg fyrir almennri byggðaþróun á sínum svæðum og vinna það í samráði við opinbera aðila. Þeim ber að vinna og samþykkja þessar stefnumarkandi áætlanir í samráði við opinbera aðila, sveitarfélög, samtök sem koma að byggðaþróun, en einnig að vinna tillögur að verkefnum sem ætlað er að fá stuðning ESB. 53

Stefnumarkandi áætlanir ráðuneyta í byggðamálum
    Það er í valdi ríkisins í Finnlandi að stuðla að byggðaþróun sem er í jafnvægi. Hvert ráðuneyti hefur í samræmi við hlutverk sitt, áhrif á lífskjör fólksins í landinu öllu. Ráðuneyti hafa með hliðsjón af þessu gert áætlanir um stjórnsýslustarfsemi sína eftir héruðum, sem er til nokkurra næstu ára.
    Stefnumarkandi áætlanir ráðuneyta í byggðamálum svara meðal annars spurningum eins og: Hvernig á að stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja á jaðarsvæðum? Hvernig á tryggja störf fyrir ungt fólk? Hvernig á að tryggja þjónustu ríkisins án tillits til héraða?
    Stefnumarkandi framkvæmdaáætlanir í byggðamálum og áætlunum ráðuneyta er ætlað að hafa áhrif á fjárlagagerð, sem er breytileg frá einu héraði til annars, og krefjast mismunandi ráðstafananna. Kostnaður slíkra ráðstafana er einnig breytilegur eftir íbúafjölda, atvinnuskiptingu og staðsetningu.

Formið
    Byggðastefnan er samsett úr héraðsáætlun sem er til 20–30 ára, héraðsbundinni áætlun um landnotkun til 10–20 ára og stefnumarkandi áætlun um byggðamál til fjögurra ára. Héraðsbundin áætlun um landnotkun og stefnumarkandi áætlun í byggðamálum skilgreina nánar með hvaða aðferðum er ætlað að ná þessum markmiðum. Með þessu er einnig ætlunin að ná samræmingu milli landsstjórnarinnar og sveitarstjórnanna.
    Stefnumarkandi áætlun um byggðamál er samin til fjögurra ára og tengir saman ofangreindar áætlanir og verkefni sem eru unnin samkvæmt áætlunum ESB og byggja á sérhæfingu svæða.
    Sérstakar áætlanir hafa verið gerðar af finnsku stjórninni til að ná markmiðum í byggðamálum. Þar má nefna Héraðsmiðstöðvaáætlunina, Sérfræðimiðstöðvaáætlunina og Þróunaráætlun fyrir eyjar. Eitt megineinkenni finnskra byggðaþróunaráætlana er að þær byggja á litlum og meðalstórum miðstöðvum í byggðaþróun. Áætlanirnar byggja einnig mjög á nýsköpun og byggja á samstarfi margra aðila.
    Héraðsmiðstöðvaáætlunin hófst 2001 og gilti til 2006 og náði til 34 héraða. Núgildandi áætlun er fyrir tímabilið 2007–2010 og gerir ráð fyrir tengslaneti 35 héraðsmiðstöðva þar sem byggt er á sérkennum og styrkleikum hvers héraðs. Héraðsmiðstöðvar ná til vinnusóknarsvæða sem geta einnig veitt íbúunum fjölbreytta þjónustu, auk þess sem aukin áhersla er nú lögð á hagþróun svæðisins og samkeppnishæfni. Almennt mat hagsmunaaðila var að fyrri áætlun hefði tekist vel með einstaka undantekningum.
    Sérþekkingarmiðstöðvaáætlunin (Centers of Expertice) er upphaflega frá 1994, en núgildandi áætlun er fyrir tímabilið 2007–2013. Áætlunin á að leiða saman sérhæfða þekkingu á ýmsum sviðum og hafa verið skilgreindar 22 sérþekkingarmiðstöðvar, sem ná til 45 sérþekkingarsviða allt frá líftækniiðnaði til menningarstarfsemi. Miðstöðvarnar efla samvinnu milli rannsóknastofnana, menntastofnana og fyrirtækja. Verkefnum er ætlað að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja, efla sérþekkingu í héraði og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja. Mat á árangri bendir til þess að áætlunin hafi að flestu leyti tekist vel, þó að nokkuð hafi skort á samvinnu milli sérfræðimiðstöðva og alþjóðleg tengsl fremur byggt á einstaklingum en starfsemi miðstöðvanna. Einnig hefur verið gagnrýnt að of hátt hlutfall fjármuna, sem eru lagðir í áætlunina, fari í almennan rekstur miðstöðvanna. Nýju áætluninni er ætlað að taka á þessum vandamálum, auk þess sem vaxandi áhersla er lögð á klasasamstarf. Reiknað er með 21 sérþekkingarmiðstöðvum og 13 klasasamstarfsverkefnum og að unnið verði með 63 svið mismunandi sérþekkingar. Aðrar áætlanir sem eru tengdar byggðamálum í Finnlandi eru sérstök áætlun fyrir strjálbýl svæði og Áætlun fyrir eyjar, en að auki má nefna að skilgreint hefur verið sérstakt tilraunaverkefni í Kainuhéraði í Austur-Finnlandi, en þar er gerð tilraun með sjálfstjórn svæðis sem býr við neikvæða byggðaþróun.

Byggðamynstur
    Landinu er skipt í 348 sveitarfélög og er íbúafjöldi þeirra frá rúmlega hundrað upp í rúmlega 560.000 og stærð þeirra frá 5–15.000 km2. Finnlandi er einnig skipt upp í 19 héruð en að auki eru Álandseyjar, sem njóta sjálfstjórnar. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á að veita ýmsa þjónustu í Finnlandi.
    Atvinnu- og efnahagsmálaráðuneyti Finnlands hefur umsjón með framkvæmd byggðaaðgerða. Í landinu eru reknar héraðsskrifstofur sem veita ýmiss konar þjónustu ríkisvaldsins. Þá eru einnig reknar miðstöðvar fyrir atvinnu- og efnahagsþróun (T&E miðstöðvar), en í gegnum þær er einnig hægt að fá stuðning finnska tækni- og nýsköpunarsjóðsins (Tekes). Héraðsráðin eru lögbundið samstarf sem byggir á sjálfstjórn sveitarfélaga. Þau móta og eru virkir þátttakendur í verkefnum ESB í sínum starfssvæðum. Samband sveitarfélaga er ábyrgt fyrir rekstri sjúkrahúsa og verkefna sem eru á ábyrgð Héraðsráða Finnlands.
    Sveitarfélögin veita ýmsa velferðarþjónustu í Finnlandi. Þau bera ábyrgð á starfsemi leikskóla og sérfræði- og tannlæknaþjónustu. Þau eru einnig ábyrg fyrir þjónustu við aldraða og fatlaða og ýmsri annarri velferðarþjónustu. Rekstur framhaldsskóla, iðn- og tæknimenntun er einnig á þeirra ábyrgð. Sveitarfélög sjá einnig um fullorðinsfræðslu, listnám, menningar- og afþreyingarþjónustu og rekstur bókasafna. Þá má líka nefna vatnsveitur, raforkukerfi, meðferð úrgangs, gatnakerfi, umhverfisvernd og þróun og rekstur almenningssamgangna. Sveitarfélögin leitast einnig við að stuðla að viðskiptum og atvinnusköpun á sínum svæðum og gegna mikilvægu hlutverki í skipulagi landnotkunar.

Héraðaráð
    Í Finnlandi eru 19 héruð, en að auki eru Álandseyjar sem njóta sjálfstjórnar. Héraðaráð eru lögbundin samstarfsvettvangur sveitarstjórna í Finnlandi. Þau vinna að verkefnum á sviði byggðamála og skipulagi byggðar í landinu. Héraðaráð kveða skýrt á um sameiginlegar þarfir héraða og vinna að því að efla hagsmuni svæðanna. Héraðaráðin hafa einnig önnur verkefni en þau sem kveðið er á í lögum. Fulltrúar í Héraðaráðum Finnlands eru í mörgum tilvikum áhrifamiklir fulltrúar sveitarfélaga og endurspegla pólitískan vilja íbúanna eins og hann hefur komið fram í kosningum.
    Héraðaráðin leggja bæði áherslu á áætlanagerð til langs tíma og að bregðast við málum sem eru efst á baugi hverju sinni. Ráðin koma einnig í framkvæmd og samhæfa ýmis verkefni á landsvísu eða á vettvangi Evrópusambandsins. Skipulagning fyrir einstök héruð felur í sér stefnumarkandi byggðaáætlun, sem er grundvallar skjal við þróun héraðsins. Þessu skjali fylgja tvær aðrar áætlanir og framkvæmdaáætlanir sem taka þá einnig til verkefna Evrópusambandsins.
Byggðastuðningur ESB
    Heildarstuðningur ESB vegna byggðaaðgerða fyrir tímabilið 2007–2013 er 1.600 milljónir evra, en þar af er stuðningur vegna svæðisbundinna verkefna tæplega 1.000 milljónir evra. Gert er ráð fyrir að mótframlög finnska ríkisins verði 1.900 milljónir evra. Í Norður- og Austur-Finnlandi og á Álandseyjum eru mótframlög finnska ríkisins 50%, en í Suður- og Vestur-Finnlandi 60%.
    Í Norður-Finnlandi er stefnt að því að skapa 11.000 ný störf og 1.500 fyrirtæki, stefnt að því að nota 25% af fjárhagsstuðningnum til að skapa störf í 1.000 störf í rannsókna- og þróunarstarfsemi. Megináherslur eru að örva fyrirtækjastarfsemi, nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, bæta samgöngur og samskipti og veita tæknilega aðstoð
    Í Austur-Finnlandi er stefnt að því að skapa 13.000 ný störf og yfir 2.000 fyrirtæki. Stefnt er að því að nota 35% af fjárframlögum til að búa til 800 störf í rannsókna- og þróunarstarfsemi. Megináherslur eru að örva starfsemi fyrirtækja, efla nýsköpun, tengslanet og þekkingarsetur, bæta aðgengileika svæðisins og starfsumhverfi fyrirtækja og veita tæknilega aðstoð.
    Í Vestur-Finnlandi er stefnt að því að skapa 9.800 störf, 2.000 ný fyrirtæki og að 12,5% af fjárhagsstuðningnum verði til að búa til 150 störf í rannsókna- og þróunarstarfsemi Megináherslur eru að örva starfsemi fyrirtækja, efla nýsköpun, tengslanet og þekkingarsetur, bæta aðgengileika svæðisins og starfsumhverfi fyrirtækja, þróa stærri bæjarsvæði og veita tæknilega aðstoð.
    Í Suður-Finnlandi er stefnt að því að skapa 4.200 störf, 920 ný fyrirtæki og að 15,5% af fjárhagsstuðningnum verði til að búa til 290 störf í rannsókna- og þróunarstarfsemi Megináherslur eru að örva starfsemi fyrirtækja, efla nýsköpun, tengslanet og þekkingarsetur, bæta aðgengileika svæðisins og starfsumhverfi fyrirtækja, þróa stærri bæjarsvæði, þróa þekkingarklasa og veita tæknilega aðstoð.

3.2.4 Danmörk
Almennt um byggðastefnu
    Danmörk er þéttbýl í norrænum samanburði og dönsk byggðastefna ber því vott, landslag og veðurfar líka látlaus og ferðalög auðveld milli landshluta. Þrátt fyrir það má greina ýmis vandamál á landsbyggðinni, m.a. tengd hnignun iðnaðar. Vöxtur og samkeppnisaðstaða Danmerkur er aðalmarkmið í danskri byggðastefnu og áhersla lögð á hagvöxt hvarvetna í landinu, bæði á sterkum og veikum svæðum. Fjárveitingar til veikustu svæða landsins eru tengdar samfjármögnun úr uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins og byggðastefna Danmerkur er nátengd byggðastefnu ESB.
    Skilgreind hafa verið sérstök jaðarsvæði með tilliti til lágra meðaltekna og óhagfelldrar þróunar íbúafjöldans. 16 af 98 sveitarfélögum í Danmörku eru á þessum jaðarsvæðum og þar búa um 11% þjóðarinnar. Að auki hafa verið skilgreind sérstök millibilssvæði sem ekki eru skilgreind jaðarsvæði nú en voru styrkhæf á síðasta starfstímabili uppbyggingarsjóða ESB. 54 Aðaltilgangur svæðaskiptingarinnar er að geta stutt fyrirtæki í samræmi við reglur ESB.

Formið
    Með lögum sem sett voru 2005 voru dönsku ömtin lögð niður og Danmörku skipt í 5 landshluta (regioner), Norður-Jótland, Mið-Jótland, Suður-Danmörku, Sjáland, og Höfuðborgarsvæðið (með Borgundarhólmi). 55 Í lögunum er kveðið á um landshlutaráð (regionsråd) og vaxtarráð hvers landshluta (regionalt vækstforum). Samkvæmt lögunum tóku svo landshlutaráð til starfa í hverjum landshluta 2007 með ábyrgð á atvinnu- og byggðaþróun. Verkefni hvers landshlutaráðs er í 6 málaflokkum sem tilgreindir eru í lögunum. Einn þeirra er heilbrigðisþjónustan, annar er atvinnu- og byggðaþróun landshlutans. Atvinnu- og byggðaþróunarstarfið er á fimm sviðum og tvö þeirra eru þróunaráætlun og stofnun vaxtarráðs landshlutans. Sama ár, 2005, voru sett lög um atvinnuþróun og Vaxtarráð ríkisins (Danmarks Vækstråd) 56 þar sem líka er kveðið á um hlutverk og verkaskiptingu ríkisins og landshlutanna, hlutverk ráðherra atvinnu- og byggingarmála og Vaxtarráðsins annars vegar og landshlutaráðanna og vaxtarráða landshlutanna hins vegar.
    Danska ríkisstjórnin starfrækir sérstaka ráðherranefnd um byggðastefnu samkvæmt þeirri áætlun um danska alþjóðavæðingu sem stjórnin samþykkti 2006. 57 Markmið áætlunarinnar er að Danmörk verði á öllum sviðum í fremstu röð á heimsvísu. Árlega gefur ríkisstjórnin út greinargerð sem lýsir árangri af byggðastefnunni, síðast í apríl 2008. 58 Þar sem annars staðar í stefnu stjórnvalda kemur fram hin mikla áhersla þeirra á vöxt, vaxtargreinar og vaxtarfyrirtæki.
    Dönsk byggðastefna hefur sérstaka áherslu á hinar dreifðu byggðir. Sú áhersla birtist t.d. í dreifbýlislögunum 59 frá 2007 sem hefur heimildir handa matvælaráðherranum til að styrkja atvinnu- og byggðaþróun í dreifbýli Danmerkur. Markmið laganna eru :
     1.      meiri samkeppnishæfni,
     2.      fleiri frumkvöðlar og vinnustaðir í dreifbýli,
     3.      fjölbreytileiki landslags, rík náttúra og hreint umhverfi og
     4.      eftirsóknarverð lífsgæði fyrir börn, unglinga og fullorðna í dreifbýli með tilliti til þess að styrkja sambandið milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Áherslur í atvinnuþróun
    Dönsk stjórnvöld leggja áherslu á vaxtargreinar atvinnulífsins, nýsköpun, útrás og erlenda markaði. Þá hafa þau sérstaklega lagt áherslu á nýsköpun í svonefndum skynjunar- eða upplifunargreinum (d. oplevelsesøkonomi, e. experience economy) til að byggja á sókn til framtíðar. Ríkisstjórnin hefur tilgreint þrjú áherslusvið þessara greina og að þeim er ásetningur um að beina þróunarvinnu á komandi árum. Þessi þrjú svið eru matarmenning, tónlist og tíska. 60

Byggðamynstur
    Mikil breyting varð í Danmörku 2007 með sameiningum sveitarfélaga og umbótum á starfsemi þeirra. Landshlutarnir eru 5 og sveitarfélögin 98 og að hálfu hins opinbera hefur verið lögð áhersla að dyrnar að bæjarskrifstofunni séu líka dyrnar að öllu opinbera kerfinu fyrir þegna landsins og lýsir það viðleitni stjórnvalda til þess að einfalda kerfið fyrir þegnana. Þessi mikla breyting á starfi sveitarfélaga hefur vakið mikla athygli í ESB, einkum fyrir það að með henni næst að stilla saman þróunaráætlanir sem gerðar eru í samráði sveitarfélaga og atvinnulífs annars vegar og atvinnustefnu vaxtarráðanna hins vegar.
    Eins og annars staðar í Evrópu leggja dönsk stjórnvöld áherslu á sterkt höfuðborgarsvæði.

3.3 Fjölþjóðlegt samstarf um byggðamál (ESA, EK-R, Nordregio, NORA, NPP, ESPON)
3.3.1 Byggðakort fyrir Ísland
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tók ákvörðun um nýtt byggðakort fyrir Ísland þann 6. desember 2006. Í öllum ríkjum Evrópusambandsins og EFTA þurfa að liggja fyrir slík kort því á þeim eru mörkuð þau landssvæði þar sem heimilt er að veita byggðastyrki. Raunar var ákvörðunin um að sérstakt byggðakort skyldi gilda árið 2007 en með því að íbúafjöldi Íslands fór yfir 300.000 á árinu 2006 gafst færi á að skipta landinu í tvö svokölluð NUTS III svæði og þar með að nýtt byggðakort tæki gildi 1. janúar 2008. Það leiddi til þess að Reykjanes færðist inn á styrkjasvæðið og þar með er heimilt að veita byggðastyrki á Reykjanesi.


    Mynd 3.3.1.1 Byggðastyrkjakort 2008–2013

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt ákvörðun ESA mega íslensk stjórnvöld veita byggðastyrki í öllum þeim sveitarfélögum sem nú falla undir landsbyggðarkjördæmin þrjú þ.e. Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013.
    Hámark styrks má nema allt að 15% af stofnkostnaði einstakra fjárfestinga þó er mögulegt að hækka hann um 10% þegar um millistór fyrirtæki er að ræða og um 20% þegar um lítil fyrirtæki er að ræða. Með millistóru fyrirtæki er hér átt við fyrirtæki sem er með færri en 250 starfsmenn og með litlu fyrirtæki er átt við fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn. Þá er og svigrúm fyrir stjórnvöld til að veita ákveðna tegund af rekstrarstyrkjum svo sem flutningsstyrki til framleiðslufyrirtækja.
    Öll áform um styrkveitingar á byggðakortinu ber að tilkynna til ESA.

3.3.2 NUTS flokkunarkerfið
    Flokkunarkerfi landsvæða í tölfræðilegum tilgangi (The Nomenclature of Territorial Units for Statistics. NUTS) var tekið upp á vegum Evrópsku hagstofunnar fyrir meira en 30 árum síðan. Tilgangurinn er að leggja fram einfalt og samræmt kerfi til sundurliðunar landsvæða (stjórnsýslueininga) við söfnun og úrvinnslu svæðisbundinnar tölfræði í Evrópusambandinu.
    Þetta flokkunarkerfi (hér eftir nefnt NUTS) hefur verið notað í löggjöf Sambandsins síðan 1988 en það var ekki fyrr en árið 2003 að Evrópuþingið og Ráðherraráðið samþykktu gerð (Regulation) um NUTS flokkunarkerfið.
    Ef tölfræði á svæðisgrunni á að vera samanburðarhæf þurfa landsvæði, sem bera á saman, að vera sem sambærilegust að fólksfjölda. Gert er ráð fyrir að tekið sé tillit til pólitískra aðstæðna, stjórnsýslulegra aðstæðna og stofnanafyrirkomulags við afmörkun svæðanna. Þar sem það á við er ætlast til að svæði, sem samsett eru án þess að um stjórnsýslulegar einingar sé að ræða, endurspegli efnahagslega, félagslega, sögulega, menningarlega, landfræðilega og umhverfislega þætti. Það má því segja að það er töluverður sveigjanleiki í því hvernig NUTS svæðin eru skilgreind. Það er helst íbúafjöldinn sem er fast viðmið. Þó er hægt að hafa þar nokkuð svigrúm samanber svæðaskiptingu Íslands.
    Það NUTS þrep sem landsvæði (stjórnsýslueining) fellur undir er ákveðið á grundvelli íbúafjölda þannig:


    Tafla 3.3.2.1 NUTS-þrepin
Þrep Lágmarksfólksfjöldi Hámarksfólksfjöldi
NUTS I 3.000.000 7.000.000
NUTS II 800.000 3.000.000
NUTS III 150.000 800.000
    Þar sem íbúafjöldi ríkis er undir lágmarks viðmiði NUTS þreps er viðkomandi ríki í heild NUTS svæði á því þrepi. Séu ekki til staðar stjórnsýslueiningar af viðeigandi stærð skulu slíkar einingar myndaðar úr aðliggjandi svæðum. Þessar samsettu einingar kallast „óvirkar stjórnsýslueiningar“ („non-administrative units“).
    Á meðan Ísland var með undir 300.000 íbúa var landið eitt NUTS III svæði. Þegar íbúafjöldinn fór yfir 300.000 gafst færi á að fá landinu skipt í tvö NUTS III svæði. Ákveðið var að leggja kjördæmaskiptingu landsins til grundvallar. Ástæðan fyrir því er sú að með því móti var hægt að rökstyðja það að Reykjanes yrði inni á byggðakorti af Íslandi. Það var Hagstofa Íslands sem formlega gerði tillögu til Evrópsku hagstofunnar um skiptingu Íslands í tvö NUTS III svæði. Á tillöguna var fallist og gekk skiptingin í gegn 1. janúar 2008. Við þá breytingu tók nýtt byggðakort gildi fyrir Ísland. Eins og fram kemur síðar er Íslandi skipt í höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Hin formlegu mörk eru mörk landsbyggðarkjördæmanna annars vegar og Reykjavíkurkjördæmanna og Kragans hins vegar.
    NUTS flokkunin er stigskipt þannig að í hverju landi eru þrjú stig: NUTS stig I, II og III. Fyrsta stigi er skipt upp í annað og öðru í þriðja. Þau lönd sem eru með yfir 7 milljónir íbúa skiptast í fleiri NUTS I svæði eftir íbúafjölda.
    Frekari niðurskipting er svo framkvæmd þó hún sé minna notuð. Þá er komið að því sem kallast „Staðbundnar stjórnsýslueiningar“ (Local Administrative Units. LAU). Í því kerfi eru tvö þrep. Efra þrepið, (LAU þrep 1, eða NUTS þrep 4) er skilgreint fyrir flest lönd en þó ekki öll. Neðra þrepið, (LAU þrep 2, eða NUTS þrep 5) er skilgreint á sveitarfélagastiginu. Það eru því jafnmörg LAU 2, eða NUTS 5 svæði á Íslandi og sveitarfélögin eru mörg.
    Segja má að í rauninni séu það aðeins NUTS I, II og III svæðin sem skipta máli. NUTS IV (LAU 1)og NUTS V (LAU 2) hafa ekki formlegt gildi þó þau séu til.
    Stigskipt NUTS svæðisskipting Íslands lítur þannig út:

Kódi Land NUTS I NUTS II NUTS III
IS Ísland
IS0 Ísland
IS00 Ísland
IS001 Höfuðborgarsvæði
IS002 Landsbyggð

    Á NUTS IV þrepi er Íslandi skipt í 8 svæði:
     1.      Austurland
     2.      Höfuðborgarsvæði
     3.      Norðurland eystra
     4.      Norðurland vestra
     5.      Suðurland
     6.      Suðurnes (Reykjanes)
     7.      Vestfirðir
     8.      Vesturland

    Á NUTS V þrepi er Íslandi svo skipt í 79 svæði sem eru hin sömu og sveitarfélögin í landinu.
    Til samanburðar má geta þess að Noregur er 1 NUTS I svæði, 7 NUTS II svæði og 19 NUTS III svæði.
    NUTS svæðaskilgreiningar ná nú til 31 lands. Það eru löndin á Evrópska efnahagssvæðinu og Sviss.
    NUTS svæðaskiptingin og tölfræði svæðanna er grundvöllur ákvarðana um það hvort svæðin eigi rétt á byggðastyrkjum frá ESB. Því er svæðaskiptingin mikilvæg og þörf á að gefa henni gaum.

3.3.3 Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, NPP



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


         Mynd 3.3.3.1 Starfssvæði NPP.
    Meginmarkmið Norðurslóðaáætlunar er að stuðla að bættu atvinnu- og efnahagslífi og að eflingu búsetuþátta með verkefnum með fjölþjóðlegu samstarfi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áherslur áætlunarinnar eru á nýsköpun, samkeppnishæfni, aðgengi, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og samfélags auk tengsla þéttbýlis og dreifbýlis. Verkefni innan NPP skapa mikilvæg tengsl og þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki.
    Áætlunin nær landfræðilega yfir mjög stórt svæði, en þátttökulönd eru Evrópusambandslöndin, Skotland, Norður-Írland, Svíþjóð, Finnland og Írland auk Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Aðstæður og áherslur þátttökusvæða eru margbreytilegar en hafa ákveðin sameiginleg einkenni sem m.a. felast í veðurfarsaðstæðum norðurslóða, miklu dreifbýli, löngum vegalengdum og fl. Fjölþjóðleg samvinna innan Norðurslóðaáætlunar gefur ákveðin tækifæri til að þróa og finna nýjar leiðir til bættra búsetuskilyrða í víðum skilningi.
    Mikill áhugi er fyrir þátttöku í verkefnum innan NPP, en í fyrri áætlun voru Íslendingar þátttakendur í 28 aðalverkefnum. Verkefnin hafa hátt nýsköpunargildi, víkka sjónarhorn samstarfsaðila á viðfangsefninu og efla sjálfstraust og getu til þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum á landsbyggðinni.
    Áætlunin er samkeppnissjóður sem rekin er á svipuðum forsendum og rannsóknaáætlanir innan EES-samningsins, þar sem umsóknir keppa í gæðum um það fjármagn sem til ráðstöfunar er. Umsóknir eru metnar af sérfræðinefndum í öllum aðildarlöndunum og er stuðningur háður a.m.k. 50% mótframlagi umsóknaraðila hvað íslenska þátttöku varðar. Árlegt framlag Íslands til áætlunarinnar árin 2007 til 2009 eru 400.000. og er íslensk verkefnaþátttaka styrkt með því fjármagni einvörðungu. Ákvörðun um framlag Íslands fyrir árin 2010 til 2013 liggur ekki fyrir en vonir standa til að hún verði aukin vegna mikils áhuga og góðs árangurs. Heildarfjármagn áætlunarinnar að viðbættum mótframlögum er um 7 milljónir . fyrir árin 2007–2013.     Ísland var fullgildur aðili við mótun áherslna áætlunarinnar og gerð umsóknar um Norðurslóðaáætlun 2007–2013 til Evrópusambandsins, sem samþykkt var í september 2007. Jafnframt tók Ísland þátt í nefndarstarfi við gerð árangursmælikvarða fyrir áætlunina sem slíka og einstök verkefni innan hennar. Fjárhagsleg endurskoðun og eftirlit einstakra verkefna fer fram hjá Byggðastofnun en heildarendurskoðun á þátttöku Íslands í áætluninni er hjá Ríkisendurskoðun.
    Áætluninni hafa borist 54 umsóknir um aðalverkefni á þeim 4 umsóknarfrestum sem liðnir eru og þar af hafa 27 verkefni verið samþykkt. Íslendingar hafa verið þátttakendur í 27 umsóknum og þar af hafa 14 verið samþykkt eða 52%. Samtals hafa borist liðlega 50 umsóknir um forverkefni, en þau hafa þann megin tilgang að vinna að gerð aðalumsókna, leita samstarfsaðila og frágangi mótfjármögnunar. Umsóknir um forverkefni eru ekki bundnar neinum sérstökum umsóknartíma.
    Aðalverkefni með íslenskri þátttöku eru:
     *      Roadex Network Implementing Accessibility. Samstarfsverkefni Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands, Svíþjóðar, Íslands, Grænlands, Noregs og Kanada. Íslenskur þátttakandi er Vegagerð ríkisins í samstarfi við verkfræðistofur og fleiri.
     *      New Plants for the Northern Periphery Market. Samstarfsverkefni Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands og Íslands. Íslensku þátttakendurnir eru Landbúnaðarháskólinn Hvanneyri í samstarfi við garðyrkjustöðvar og fyrirtæki.
     *      Rural Transport Solutions. Samstarfsverkefni Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands og Íslands. Íslensku þátttakendurnir eru Þróunarstofa austurlands og Fjarðabyggð í samstarfi við Vegagerðina.
     *      The THING Project – THing sites International Networking Group. Samstarfsverkefni Noregs, Íslands, Skotlands og Færeyja. Íslenski þátttakandinn er Þjóðgarðurinn Þingvöllum í samstarfi við tengda aðila.
     *      SMALLEST – Solutions for Microgeneration to Allow Energy Saving Technology. Samstarfsverkefni Skotlands, Finnlands, Norður Írlands, Færeyja, Svíþjóðar, Íslands og Grænlands. Íslenski þátttakandinn er Þróunarstofa austurlands í tengslum við fjölmarka aðila innan orkugeirans.
     *      Retail in Rural Regions. Samstarfsverkefni Íslands, Írlands, Færeyja, og Skotlands þar sem Rannsóknarsetur verslunarinnar Háskólanum Bifröst er þátttakandi í samstarfi við verslanir, Samtök verslunar, sveitarfélög og atvinnuþróunarfélög.
     *      The Sea as Our Neighbour: Sustainable Adaption to Climate Change in Coastal Communities and Habitats on Europe's Northern Periphery – Coast Adapt. Samstarfsverkefni Íslands, Norður Írlands, Írlands, Skotlands og Noregs þar sem Háskóli Íslands, Sveitarfélagið Árborg og Mýrdalshreppur eru þátttakendur en meðal tengdra aðila eru Siglingastofnun, Veðurstofa Íslands, Samtök sveitarfélaga, Skipulagsstofnun og fleiri.
     *      North Hunt, Sustainable Hunting Tourism. Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Svíþjóðar, Skotlands og Kanada. Íslenskir þátttakendur eru Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, Rannsóknasetur ferðaþjónustunnar, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar.
     *      NEED, Northern Environment Education Development. Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Noregs og Írlands. Íslenskir þátttakendur eru Fræðasetur Háskóla Íslands, Höfn Hornafirði, Háskólasetrið Húsavík, Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, Þróunarfélag Austurlands, Kirkjubæjarstofa, Þjóðgarðurinn Skaftafelli og sveitarfélögin Hornafjörður, Skaftárhreppur, Fljótsdalshérað og Norðurþing.
     *      PELLETime – Solutions for competitive pellet production in medium size enterprises. Samstarfsverkefni Íslands, Finnlands og Skotlands. Íslenskir þátttakendur eru Héraðsskógar, Austurlandsskógar og Skógrækt ríkisins
     *      Economuseum Northern Europe. Samstarfsverkefni Íslands, Færeyja, Norður Írlands, Írlands, Noregs og Kanada. Íslenskir þátttakendur eru Fruman Nýheimum, Höfn Hornafirði og Fræðslunet Austurlands.
     *      Co-Safe, The cooperation for safety in sparsely populated areas. Samstarfsverkefni Íslands, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands og Grænlands. Íslenskir þátttakendur eru FSA Háskólasjúkrahús, Akureyri og Sjúkraflutningaskólinn í samstarfi við fjölmarga innlenda aðila.
     *      OLEII, Our Life as Elderly – implementation. Samstarfsverkefni Íslands, Svíþjóðar, Noregs og Færeyja. Íslenskir þátttakendur eru Akureyrarbær, Hafnarfjarðarbær og Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.
     *      Northcharr, Sustainable Aquaculture of Arctic charr. Samstarfsverkefni Íslands, Svíþjóðar og Noregs. Íslenskir þátttakendur eru Hólalax ehf, Rifós ehf, Íslandsbleikja ehf, Silfurstjarnan ehf, Klausturbleikja ehf, Skagafjarðarveitur, FISK-Seafood, Akvaplan-Niva og Matís.
    Norðurslóðaáætlun 2007–2013 heyrir undir iðnaðarráðuneyti og Byggðastofnun rekur landsskrifstofu áætlunarinnar á Íslandi. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðum Byggðastofnunar 61 og Norðurslóðaáætlunar.

3.3.4 ESPON
    Ísland er aðili að ESPON, á öðru starfstímabili áætlunarinnar, frá 2007–2013. Byggðarannsóknir voru umfangsmiklar á fyrsta starfstímabili ESPON, European Spatial Planning Observation Network, 2002–2006, fólu í sér samstarf á annað hundrað evrópskra háskóla og rannsóknastofnana og mikla öflun og miðlun þekkingar, sem einfalt er að nálgast á heimasíðu ESPON, www.espon.eu.
    ESPON er ein af svæða- eða byggðatengdu aðgerðaáætlunum Evrópusambandsins, Interreg III C-áætlun. Aðild að ESPON eiga öll lönd Evrópusambandsins og lönd sem sótt hafa um aðild að sambandinu auk Noregs, Sviss, Liechtenstein og Íslands. Einkenni rannsóknaverkefna á vegum ESPON er samanburður milli svæða, víðtæk framsetning upplýsinga á kortum og síðan hinar miklu kröfur um fagleg vinnubrögð. Rannsóknastyrkir hafa aðallega verið veittir fjölþjóðlegum rannsóknateymum háskóla og annarra rannsóknastofnana á sviði byggðaþróunar. ESPON-rannsóknir hafa þegar haft áhrif á stefnumótun ESB í byggðamálum og svo mun áreiðanlega verða í næstu framtíð.
    Breytingar hafa orðið á ESPON frá fyrra tímabilinu. Ein breytingin kemur fram í undirheiti áætlunarinnar sem nú er European Observation Network on Territorial Development and Cohesion eða Evrópska netverkið fyrir rannsóknir á svæða- eða byggðaþróun og aðlögun. Í nafnbreytingunni birtist viðurkenning á því að gagnlegra sé að rannsaka byggðaáhrif af áætlunum og stefnumiðum sem stjórnvöld setja fremur en áætlanirnar sjálfar. Breytingar hafa líka orðið á áherslum frá fyrsta starfstímabili ESPON. Á tímabilinu 2007–2013 verða fimm megináherslur fyrir aðgerðir og rannsóknir sem taldar eru upp hér á eftir og hlutfall hverrar áherslu af útgjöldum ESPON sýnt innan sviga:
     1.      Hagnýtar rannsóknir á byggðaþróun, samkeppnishæfni og aðlögun (42,4%).
     2.      Verkefnamiðaðar rannsóknir á grundvelli óska notenda (14,4%).
     3.      Vísindavettvangar og -áhöld (13,5%).
     4.      Fjármögnun, eignarhald og þátttaka (12,2%).
     5.      Tæknileg aðstoð, greiningarstuðningur og samskipti (17,5%).
    Auglýst er eftir styrkumsóknum til undir þremur fyrstu áherslunum en hinar eru starfsáherslur. Undir annarri. áherslunni eru átta skilgreind rannsóknasvið fyrir styrkhæf verkefni.
    Byggðastofnun hefur fylgst með starfi ESPON og haft umsjón með því í umboði iðnaðarráðuneytisins. Starfsmenn Byggðastofnunar hafa setið fundi stjórnarnefndar ESPON og í mars gerði stofnunin samning við Háskólann á Akureyri um að hann gegni hlutverki tengiliðs ESPON á Íslandi, tengi íslenska og evrópska háskóla og rannsóknastofnanir á sviði byggðarannsókna og tengi þessar stofnanir og ESPON.
    Mikilvægi ESPON-starfsins veltur annars vegar á því að fylgjast með rannsókna- og stefnumótunarvinnu á sviði byggðamála í Evrópusambandinu og á öflugri þátttöku íslenskra háskóla í hinum fjölþjóðlegu byggðarannsóknum sem styrktar eru og áhrif af því starfi á umræðu og stefnumótun í byggðamálum á Íslandi.

3.3.5 EK-R
    Norðurlöndin hafa með sér samstarf á sviði byggðamála. Norræna embættismannanefndin um byggðamál (EK-R) er samstarfsvettvangur embættismanna norrænu landanna sem fara með byggðamál. Samstarfið felst í því að miðla reynslu, umræðum og kynnum af starfssystkinum og samvinnu um þróun þekkingar í því skyni að skapa traustari grunn fyrir stefnumótun í byggðamálum. Til samstarfsins er varið á árinu 2009 alla rúmlega 31 milljón danskra króna. Til grannsvæða samstarfsins er varið 10 milljónum danskra króna, til NORA rúmlega 6 milljónum danskra króna, til Nordregio 10 milljónum danskra króna og til rannsóknarverkefna, styrkja og fleira rúmum 5 milljónum danskra króna.
    EK-R hefur samþykkt fjárveitingar á árinu 2009 til samstarfs yfir landamæri á 10 norrænum svæðum þar sem stjórnmálamenn, yfirvöld og almenningur tekur þátt í hagnýtu norrænu samstarfi. Þar til viðbótar er samstarfið á Norður-Atlantshafssvæðinu, NORA. Svæðisbundið samstarf á Norðurlöndum hefur fengið nýjar evrópskar áherslur með þátttöku Norðurlanda í Interreg, landamærasvæðaáætlun ESB. Svæðisbundna samstarfið tengist einnig grannsvæðunum á Eystrasalts-, Barentshafs- og Norður-Atlantshafssvæðinu. Ráðherrar byggðamála, orkumála og atvinnumála á Norðurlöndum hafa yfirumsjón með samstarfinu en framkvæmdin er í hjá EK-R.
    Samstarfið byggir á samstarfsáætlun um byggðamál en núgildandi áætlun nær til áranna 2009–2012. Samstarfsáætlunin var samþykkt haustið 2008.
    Eins og gefur að skilja er í áætluninni leitast við að leggja línurnar um á hvað eigi að leggja höfuðáherslu í starfi EK-R á næstu árum.
    Sú sýn sem samstarfsáætlunin byggir á er þessi: Norræn samvinna á að vera kröftug í þróun nýrrar og skarpari byggðastefnu. Kjarni hinnar nýju stefnu er að í nánu samstarfi mismunandi stjórnsýslustiga og geira sé tekist á við þær áskoranir sem hnattvæðingin hefur í för með sér með það að markmiði að styrkja þróunarmöguleika Norðurlandanna á sjálfbæran hátt hvort heldur heimafyrir, á svæðagrunni eða landa.
    Áætlunin byggir á því sem nefnt hefur verið þriðja kynslóð byggðastefnu. Fyrsta kynslóðin hafi snúist um að jafna mismun, önnur kynslóðin um að vöxt og sú þriðja sem nú sé ríkjandi byggist á að öll svæði og staðbundin samfélög séu virkjuð og fléttuð inn í evrópska og



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 3.3.5.1 Norrænu grannsvæðin

hnattræna hagkerfið. Þannig verði getan til nýsköpunar og vaxtar styrkt á besta mögulegan hátt.
    Lögð er áhersla á hlutverk og mikilvægi Nordregio (Norrænu fræðastofnunina í skipulags- og byggðamálum).
    Þá eru lögð til þrjú aðgerðasvið á starfstímanum. 1) Miðlun reynslu og uppbygging þekkingar. 2) Hnattvæðing og samstarf yfir landamæri. 3) Þriðju kynslóðar byggðastefna. Á hverju aðgerðasviði eru settar fram tillögur um áherslur og verkefni sem vinna á að.
    Gengið er út frá að fjárhagsramminn sem er um starfsemina í dag verði óbreyttur út áætlunartímabilið.
    Í áætluninni er gegnið út frá að markmiðin um sjálfbærni, jafnrétti og aðgengi eru virt.
    Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2009. Því fylgir einnig formennska í nefndum. Í formennskuáætlun Íslands á sviði byggðamála má nefna að rannsókn á áhrifum háskóla á byggðaþróun, efling nýsköpunar og frumkvöðlastarfa á strjálbýlum svæðum með sérstaka áherslu á stuðning við konur og könnun á því hversu langt áhrifasvæði bæja nær út í nágrennið og hver eru tengsl samgöngubóta og byggðaþróunar.

3.3.6 Nordregio
    Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar starfar rannsóknastofnunin Nordregio sem hefur það hlutverk að stunda rannsóknir á sviði byggða- og skipulagsmála og miðla þekkingu um þau til þeirra sem um byggðamál fjalla. Unnið er nú samkvæmt norrænu rannsóknaráætluninni innan Nordregio. Núgildandi áætlunartímabil nær yfir árin 2007–2009 en unnið er að nýrri áætlun fyrir árin 2010–2012. og munu áherslur taka mið af áherslum samstarfsáætlunarinnar í byggðamálum 2009–2012. Nordregio hefur getið sér orð sem ein virtasta vísindastofnun í Evrópu á sviði rannsókna í byggðamálum. Þar innan veggja er til staðar meiri þekking á samfélögum á strjálbýlum norrænum svæðum en annars staðar. Það háir þátttöku Íslands í rannsóknarverkefnum að á Íslandi eru ekki aðgengilegar svæðisgreindar tölfræðiupplýsingar sem stuðst er við í rannsóknum á ýmsum þáttum byggðamála. Unnið er að því að leita lausna á þeim vanda. Íslendingar hafa tekið þátt í mótun rannsóknaáætlana og mati á styrkumsóknum. Nordregio hefur tekið að sér að vinna rannsóknir sem lagt var upp með í formennskuáætlun Íslands á árinu 2009.

3.3.7 Norræna Atlantssamstarfið, NORA



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 3.3.7.1

    Norræna Atlantssamstarfið (Nordisk Atlantsamarbejde – NORA) er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og norður- og vesturhluta Noregs. 62 NORA heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og er hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamstarfs. Aðalskrifstofan er í Þórshöfn í Færeyjum og eru landskrifstofur í hverju aðildarlandanna. Starfsemi NORA á Íslandi heyrir undir iðnaðarráðuneytið, en Byggðastofnun hefur umsjón með starfinu sem landskrifstofa. Ísland á þrjá fulltrúa í stjórn, en löndin skiptast á um formennsku. Á árinu 2008 tóku Færeyingar við formennskunni, en Ísland tekur næst við henni árið 2010.
    Stærstur hluti tekna NORA kemur frá Norrænu ráðherranefndinni, en einnig koma árleg framlög frá þátttökuþjóðunum, þar af leggja Íslendingar fram 500 þúsund DKK. Heildarfjármagn sem NORA hefur úr að spila árlega eru um 10 milljónir DKK. og af þeim fara á bilinu sex til sjö milljónir í verkefnastyrki.
    Starfsemi NORA er margþætt og snýst um að efla samstarf á svæðinu með ýmsu móti, ekki síst með því að veita styrki til samstarfsverkefna. NORA á samstarf við ýmsa aðila í því skyni að fylgja eftir megin stefnumálum sínum og auk verkefnastyrkjanna standa samtökin fyrir ráðstefnum og vinnufundum, t.d. á sviði umhverfismála eða atvinnumála. Má t.d. nefna ráðstefnu um sjálfbæra orkunýtingu í desember 2008 og um nýsköpun í sjávarútvegi í byrjun maí 2009. NORA hefur einnig látið gera úttektir eða rannsóknir.
    Eitt af verkefnum NORA sem hófst á árinu 2009 er greining á NORA-svæðinu, sem OECD hefur tekið að sér að gera. Fulltrúar OECD heimsækja NORA-löndin og halda fundi með stjórnmálamönnum, embættismönnum, fulltrúum háskóla og rannsóknastofnana og forsvarsmönnum fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka. Markmiðið er að skilgreina NORA- löndin sem svæði og styrkja grundvöll frekari samstarfs á svæðinu. Vonast er til að á grundvelli þessarar vinnu verði hægt að setja fram tillögur sem geti verið til leiðsagnar þegar teknar verða pólitískar ákvarðanir sem snerta svæðið og efli búsetuþróun. Þessi vinna er jafnframt hugsuð sem innlegg í norrænt samstarfs, í víðara samhengi.
    NORA veitir styrki til verkefna sem stuðla að eflingu atvinnulífs og byggða með auknu samstarfi atvinnulífs, einstaklinga og stofnana á milli landanna. Málaflokkar verkefnastyrkjanna eru auðlindir sjávar, ferðamál, upplýsingatækni, samgöngur og flutningar og efling fámennra byggðarlaga. Áhersla er lögð á samstarf innan samstarfssvæðisins og á miðlun reynslu og þekkingar í byggða- og atvinnumálum, en einnig er lögð áhersla á nýsköpun og sjálfbæra þróun. Samstarfsverkefni sem NORA hefur styrkt hafa skilað góðum árangri, ekki síst hvað varðar þekkingarmiðlun, rannsóknir, samstarf og markaðssókn. Undanfarið hefur umsóknum farið mjög fjölgandi og við fyrri úthlutun 2009 lágu fyrir 39 umsóknir og áttu Íslendingar þátt í 31 af þeim.
    Styrkfjárhæðir geta numið allt að 500 þús. DKK. á ári. Ekki er greitt fyrir meira en 50% af heildarkostnaði verkefnis og skilyrði er að um samstarfsverkefni á milli NORA-landanna sé að ræða. Á árinu 2008 var tvívegis úthlutað verkefnastyrkjum. Í maí var úthlutað 2,6 milljónum DKK. (danskra króna) til 12 verkefna og eru Íslendingar þátttakendur í níu þeirra. Í desember var úthlutað tæpum 3,3 millj. DKK. til 18 verkefna, en Íslendingar taka þátt í 13 af þeim. Íslensk þátttaka í verkefnum NORA er því mjög góð og hefur á undanförnum árum verið í u.þ.b. 70–90% verkefna.
    Innan NORA er áhugi á auknum tengslum og verkefnasamstarf við lönd við Norður- Atlantshaf, s.s. Skotland, Hjaltlandseyjar, Orkneyjar og austurströnd Kanada.
    Í október heimsótti framkvæmdastjórn NORA Kanada og lagði drög að formlegum samskiptum við ýmsa aðila þar.

Verkefni með íslenskri þátttöku, samþykkt á árinu 2008 og fyrri hluta árs 2009

Auðlindir sjávar
    Torskehelse. Rannsókn á dánartíðni eldisþorsks með notkun rafræns skráningarkerfis með það að markmiði að draga úr seiðadauða. Samstarfsverkefni Íslands, Noregs og Færeyja. Íslenskur þátttakandi: Valdimar I. Gunnarsson, Sjávarútvegi.
    Rotatorier (hjóldýr). Auka á gæði fæðisframleiðslu í þorskeldi. Samstarfsverkefni Íslands, Noregs og Færeyja, en Matís tekur þátt fyrir Íslands hönd.
    Fisk og innovation. Snýr að hagsmunabaráttu innan ESB fyrir norrænan sjávarútveg. Samstarf Íslands og Noregs. Íslenskur þátttakandi: Matís.
    Hellefisk vandringsmønster. Rannsókn á lúðu, hún merkt og fylgst með ferðum hennar. Ábyrgð verkefnis: Stjörnu-Oddi, en verkefnið er í samstarfi við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga.
    Effektiv torskeopdræt. Rannsókn í þorskeldi sem snertir aukin gæði í fiskverkun og framleiðslu eldisþorsks. Samstarf Íslands, Noregs og Færeyja. Íslenskur þátttakandi: Matís og Hraðfrystihúsið Gunnvör.
    Standard for saltfisk. Myndun samstarfsnets saltfiskverkenda og markaðsaðila. Samstarf Noregs, Íslands og Færeyja. Matís leiddi þetta verkefni, en aðrir íslenskir þátttakendur voru Vísir og Þorbjörn Fiskanes.
    Fersk opdrætstorsk. Markaðskönnun fyrir þorskafurðir. Íslenskur þátttakandi: Fiskeldishópur AVS og Hraðfrystihúsið Gunnvör.
    Nordatlantiske delikatesser. Hluti norræns verkefnis, „Nordic Delights“, sameiginleg markaðssetning á valdri matvöru, tengt sögu og menningu. Íslenskur þátttakandi: Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Höfn.
    Havpattedyr som fødevarer. Vinnufundur á vegum NAMMCO um nýtingu sjávarspendýra. Íslenskur þátttakandi: Sjávarútvegsráðuneytið.
    Tejner. Rannsóknarverkefni þar sem skoðuð er aðlögun fisks að gildrum sem hann er veiddur í. Ábyrgð verkefnis: Hafrannsóknastofnun, Ísafirði.
    Fiskefilleter og kollagen. Rannsókn á áhrifum kollagens á fiskafurðir, þorsk og síld, með betri afurðir að markmiði. Íslenskur þátttakandi: Matís.

Ferðaþjónusta

    Cruise Europe North. Móta á sameiginlega stefnu varðandi móttöku skemmtiferðaskipa á Norður-Atlantssvæðinu. Samstarf Íslands, Noregs og Færeyja. Íslenskir þátttakendur: Akureyrarhöfn og Faxaflóahafnir.
    Bådbyggertradition. Varðveisla handverks í bátasmíði. Samstarf Noregs, Íslands og Færeyja. Íslenskur þátttakandi: Síldarminjasafnið.
    Nye rejsemål. Leit að samstarfsaðila og stofnun samstarfsnets um ævintýraferðir á Norður- Atlantssvæðinu. Ábyrgð: Borea Adventures, Ísafirði.
    Netportal om får og uld. Safnasamstarf um kynningu menningararfs, sérstaklega sem lýtur að sauðfé og ull. Markaðssetning og kynning á handverki og list. Samstarf Íslands og Noregs. Ábyrgð verkefnis: Minjasafn Austurlands.
    Net-markedsføring – turisme. Gerð lifandi kynningarefnis fyrir ferðaþjónustu yfir netið. Samstarf Íslands og Færeyja. Ábyrgð: Valgerður Matthíasdóttir.
    Miami-Seatrade. Sameiginlegur sýningarbás Íslands, Grænlands og Færeyja á Seatrade Cruise Shipping Convention á Miami. Íslenskur þátttakandi: Cruise Iceland.
    Turisme og vilde dyr. Rannsókn á áhrifum ferðamennsku á villt dýralíf. Íslenskir þátttakendur: Selasetrið o.fl.
    Fiskerikultur. Rannsókn á sögu norrænna fiskimanna við Austfirði á tilteknu tímabili. Sótt um styrk til að finna samstarfsaðila. Íslenskur þátttakandi: Skálanessetur og Sagnabrunnur ehf.

Upplýsingatækni
    Rent hav. Skrá á umfang affalls við fiskveiðar til að hægt sé að hafa bæði yfirsýn og stjórn og eftirlit með því að reglum sé framfylgt. Mögulegt að gefa „grænan stimpil“ til skipa, hafna og útgerða. Samstarf Noregs, Færeyja og Íslands. Íslenskur þátttakandi: Umhverfisstofnun.
    Transatlantisk café. Að búa til fundarstað, kaffihús, þar sem norrænir gestir geta „hist“ yfir kaffibolla og spjallað saman með nútímatækni. Samstarf Færeyja, Íslands, Grænlands og Danmerkur. Íslenskir þátttakendur: Annette Finnsdóttir og Ásta Stefánsdóttir.

Samgöngur og flutningar
    Energiseminar. Vestnorrænn vinnufundur um bætta orkunýtingu í samgöngum og flutningum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar (haldinn í byrjun desember í Reykjavík). Samstarf allra NORA-landanna, auk Svíþjóðar og Álandseyja.
    Containerservice. Gera á fýsileikakönnun á gámaflutningum vestur um haf með Mosjøen í Noregi sem miðstöð. Íslenskur þátttakandi: Siglingastofnun og Eimskipafélag Íslands.

Svæðasamstarf
    Detailhandel. Rannsókn á verslun í dreifbýli, framhaldsverkefni. Samstarfsverkefni Íslands, Noregs og Færeyja. Ábyrgð verkefnis: Rannsóknasetur verslunarinnar, Bifröst.
    Matchmaking med Rusland. Samstarf um fjárfestingar og verslun, þekkingaryfirfærsla í tæknimálum o.fl. Samstarf Íslands, Noregs og Færeyja. Íslenskur þátttakandi: Háskóli Íslands.
    Vejrtjeneste for søberedskab. Þróun kerfis fyrir veðurspár á netinu. Samstarf Íslands, Noregs og Færeyja. Ábyrgð verkefnis: Ólafur Rögnvaldsson, en aðrir íslenskir þátttakendur eru Haraldur Ólafsson, Landsbjörg og Almannavarnir.
    Edderdun. Sjálfbær nýting æðardúns. Íslenskur þátttakandi: Bændasamtök Íslands.
    Lammekød. Markaðssetning á þurrkuðu eða reyktu lambakjöti og myndun samstarfsnets um verkefnið. Íslenskur þátttakandi: Matís.
    Bær. Tilraunaverkefni í berjarækt til að athuga hvaða tegundir henta best með Ísland sem tilraunasvæði. Íslenskur þátttakandi: Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Green Paper on Territorial Cohesion; Turning territorial diversity into strength: ec.europa.eu/ regional_policy/consultation/terco/paper_terco_en.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2      www.nordregio.se/pdf/R2009_1.pdf
Neðanmálsgrein: 3
    3     Vinnumálastofnun – Staðan á vinnumarkaði – Október 2009.
Neðanmálsgrein: 4
    4      www.byggdastofnun.is/page/byggdaaetlun1013
Neðanmálsgrein: 5
    5     Hagstofa Íslands www.hagstofa.is
Neðanmálsgrein: 6
    6     Vinnumálastofnun www.vinnumalastofnun.is
Neðanmálsgrein: 7
    7     Hagstofa Íslands www.hagstofa.is
Neðanmálsgrein: 8
    8     Lilja Mósesdóttir: Missir landsbyggðin af þekkingarsamfélaginu? Erindi á ársfundi Fræðasetra HÍ 2008 www.fraedasetur.hi.is/page/fraedasetur
Neðanmálsgrein: 9
    9     Hagþróun – Dr. Sigurður Jóhannesson og Sigurður Árnason, 2008. Hagvöxtur landshluta 2000–2006, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Byggðastofnun.
Neðanmálsgrein: 10
    10     Fjármálaráðuneytið: Þjóðarbúskapurinn – vorskýrsla. Þjóðhagsspá fyrir árin 2009–2014, bls.28.
Neðanmálsgrein: 11
    11     Byggt á Fjármálaráðuneytið: Þjóðarbúskapurinn – vorskýrsla. Þjóðhagsspá fyrir árin 2009–2014, bls.28–30.
Neðanmálsgrein: 12
    12     Elín Aradóttir og Kjartan Ólafsson (2004). Samfélagsandi og nýsköpunarstarf. Rannsókn á völdum landsbyggðasvæðum. Akureyri: Byggðarannsóknarstofnun Íslands
Neðanmálsgrein: 13
    13     Ray, Cristopher (2001). Culture Economies, a perspective on local rural development in Europe. Newcastel: Center for Rural Economy
Neðanmálsgrein: 14
    14     Menning, menntamálaráðuneytið, janúar 2009.
Neðanmálsgrein: 15
    15     Lýðheilsustöð: www.lydheilsustod.is/lydheilsustod/#Lydheilsa
Neðanmálsgrein: 16
    16     Ívar Jónsson: Árangursmat á samningi ríkisins og sveitarfélaganna á Austurlandi frá 14. maí 2001 og 15. mars 2005 um menningarmál. 2007
Neðanmálsgrein: 17
    17     Skýrsla samstarfshóps um menningarmál á landsbyggðinni, menntamálaráðuneytið, október 2000
Neðanmálsgrein: 18
    18      www.menntamalaraduneyti.is
Neðanmálsgrein: 19
    19     Erhvervs- og byggestyrelsen: www.oem.dk/sw25366.asp
Neðanmálsgrein: 20
    20     Menntamálaráðuneytið (2007). Skýrsla starfshóps um fjar- og dreifnám bella.stjr.is/utgafur/ skyrsla_fjar-dreifnam.pdf
Neðanmálsgrein: 21
    21     Byggðastofnun (2008). Mat á áhrifum niðurskurðar þorskheimilda fiskveiðiárið 2007–2008. Óbirt greinargerð.
Neðanmálsgrein: 22
    22     Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2007). Áhrif aflasamdráttar í þorski á fjárhag sveitarfélaga. Sambands íslenskra sveitarfélaga
Neðanmálsgrein: 23
    23     Byggðastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2007). Hagvöxtur landshluta 1998–2005. www.byggdastofnun.is
Neðanmálsgrein: 24
    24     Skýrsla nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, forsætisráðuneyti apríl 2007
Neðanmálsgrein: 25
    25     Skýrsla nefndar um atvinnu og samfélag á Norðurlandi vestra, forsætisráðuneyti maí 2008
Neðanmálsgrein: 26
    26     Skýrsla nefndar um atvinnu og samfélag á Norðurlandi eystra og Austurlandi, forsætisráðuneyti maí 2008
Neðanmálsgrein: 27
    27      www.rannis.is/files/Ályktun%20Vísinda-%20og%20tækniráðs%2019des2005_1202917358.pdf
Neðanmálsgrein: 28
    28     Dr. Karl Benediktsson, erindi.
Neðanmálsgrein: 29
    29     Freeman, 1987
Neðanmálsgrein: 30
    30     Metcalfe, 1995
Neðanmálsgrein: 31
    31     Halldór Kristjánsson og Sigríður K. Þorgrímsdóttir: Útg. Byggðastofnun, júlí 2008, www. byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Byggdarlog/Byggdarlog_loka.pdf
Neðanmálsgrein: 32
    32     Lisbon Strategy ec.europa.eu/growthandjobs/faqs/background/index_en.htm
Neðanmálsgrein: 33
    33     Gothenburg Strategy europa.eu/eur-lex/en/com/cnc/2001/com2001_0264en01.pdf
Neðanmálsgrein: 34
    34      eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2006:291:0011:0032:EN:PDF
Neðanmálsgrein: 35
    35     Byggt á skýrslu utanríkisráðherra frá apríl 2009 og á vefsíðum ESB
Neðanmálsgrein: 36
    36     Uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins ec.europa.eu/regional_policy/policy/fonds/index_ en.htm
Neðanmálsgrein: 37
    37     EAFRD eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2006:261:0032:0034:EN:PDF og europa.eu/legislation_summaries/agriculture/general_framework/l60032_en.htm
Neðanmálsgrein: 38
    38     Byggt á skýrslu utanríkisráðherra frá apríl 2009 og vefsíðum ESB
Neðanmálsgrein: 39
    39      ec.europa.eu/regional_policy/cooperation/index_en.htm
Neðanmálsgrein: 40
    40      ec.europa.eu/regional_policy/country/prordn/search.cfm?gv_pay=ALL&gv_reg=ALL&gv_ obj=11&gv_the=ALL&lan=EN&gv_per=2
Neðanmálsgrein: 41
    41      ec.europa.eu/regional_policy/cooperation/interregional/index_en.htm
Neðanmálsgrein: 42
    42     Jaspers, Jeremie, Jessica, Jasmine ec.europa.eu/regional_policy/funds/2007/jjj/index_en.htm
Neðanmálsgrein: 43
    43     European Investment Bank: www.eib.org
Neðanmálsgrein: 44
    44     European Investment Fund: www.eif.org
Neðanmálsgrein: 45
    45     The Council of Europe Bank: www.coebank.org/index.asp?ChangeLangue=EN
Neðanmálsgrein: 46
    46     European Bank for Reconstruction and Development: www.ebrd.com/
Neðanmálsgrein: 47
    47      europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/08/1312&format=HTML&aged= 0&language=EN&guiLanguage=fr
Neðanmálsgrein: 48
    48      www.bmvbs.de/Anlage/original_1005295/Territorial-Agenda-of-the-European-Union-Agreed- on-25-May-2007-accessible.pdf
Neðanmálsgrein: 49
    49     Green Paper on Territorial Cohesion; Turning territorial diversity into strength: ec.europa.eu/ regional_policy/consultation/terco/paper_terco_en.pdf
Neðanmálsgrein: 50
    50     Dómur gekk fyrir EFTA dómstólnum þann 3. maí 2006 varðandi barnabæturnar og var niðurstaðan að heimilt sé að vera með slíkar sérreglur á afmörkuðum svæðum.
Neðanmálsgrein: 51
    51     Það er raunar áhugavert að víða er tekið tillit til byggðasjónarmiða (í viðbót við varnarsjónarmiðin) þegar verið er að breyta fyrirkomulagi landvarna.
Neðanmálsgrein: 52
    52      www.regeringen.se/sb/d/1470 og www.skl.se/startsida.asp?C=24
Neðanmálsgrein: 53
    53      www.tem.fi/index.phtml?l=sv&s=2149 og www.kunnat.net/k_perussivu.asp?path =1;161;279;280;37566
Neðanmálsgrein: 54
    54     Regionale fakta om yderområder: www.ebst.dk/yderomraader
Neðanmálsgrein: 55
    55      Lov om regioner og nedlæggelse af amtskommunerne: www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id =10065
Neðanmálsgrein: 56
    56     Lov om erhvervsfremme: www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=27062#K4
Neðanmálsgrein: 57
    57     Fremgang, fornyelse og tryghed: www.globalisering.dk/multimedia/Pixi.pdf
Neðanmálsgrein: 58
    58     Regionalpolitisk vækstredegørelse: www.oem.dk/graphics/oem/Publikationer/Publikationer/2008/ Regionalpolitisk%20Vækstredegørelse%202008/site/images/Regionalpolitisk%20 Vækstredegørelse%202008.pdf
Neðanmálsgrein: 59
    59     Landdistriktsloven: www.retsinformation.dk/Forms/R0710.aspx?id=8675&exp=1
Neðanmálsgrein: 60
    60     Oplevelseszoner: www.ebst.dk/oplevelseszoner
Neðanmálsgrein: 61
    61     Byggðatofnun, www.byggdastofnun.is/ og NPP, www.northernperiphery.eu
Neðanmálsgrein: 62
    62      byggdastofnun.is/page/nora