Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 776  —  481. mál.
Tillaga til þingsályktunarum samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að hvetja mennta- og menningarmálaráðherra f.h. Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) til að útvíkka og styrkja samstarf RÚV við KNR (Útvarp Grænlands) og ÚF (Útvarp Færeyja) með því að auka framboð á fréttum og fréttatengdu efni frá Færeyjum og Grænlandi. Ríkisútvarpið geri sjónvarpsútsendingar frá Færeyjum og Grænlandi aðgengilegar í svo miklum mæli sem unnt er. Til lengri tíma litið verði stefnt að samstarfi milli stöðvanna um framleiðslu á efni, svo sem sjónvarpsþáttaröðum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 5/2010 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi.
    Ríkissjónvarpsstöðvar vestnorrænu ríkjanna framleiða allar fréttaefni í einhverjum mæli. Einnig eru nokkrar sjónvarpsþáttaraðir og sjónvarpsmyndir framleiddar í löndunum. Vestnorrænu ríkissjónvarpsstöðvarnar hafa unnið saman og til að mynda hafa stöðvar hvers ríkis veitt hinum aðstoð við framleiðslu fréttaefnis frá viðkomandi ríki.
    Vestnorrænu ríkin eru nágrannar og eiga sér sterk menningarleg tengsl. Samgangur, m.a. ferðamennska, milli landanna er mikill og löndin eiga sér sameiginlega sögu sem og margvísleg menningarleg líkindi. Samvinna milli landanna og gagnkvæmur áhugi fer vaxandi. Verði þessari þingsályktunartillögu hrint í framkvæmd mun það ekki aðeins hafa í för með sér aukna þekkingu á nágrannaríkjunum heldur einnig uppfylla þörf og eftirspurn sem þegar er fyrir hendi.
    Ekki munu felast veruleg útgjöld í framkvæmd þessarar tillögu þar sem um væri að ræða samninga um skipti á eigin framleiðslu. Þetta mætti til dæmis gera með samningi um að nota ákveðið magn af fréttaefni frá hinum vestnorrænu ríkissjónvarpsstöðvunum í hverri viku eða mánuði. Líklega mun falla til einhver kostnaður við umsýslu, þýðingar á efni og við að stofna til samstarfsins. Á móti kemur að kostnaður við sýningar á efninu (kaup á efni) yrði lítill sem enginn.