Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 621. máls.

Þskj. 1079  —  621. mál.Tillaga til þingsályktunar

um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað fyrir fram heimildar Alþingis til handa ríkisstjórninni til að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, þar sem felld verði inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB.
    Með reglugerð (EB) nr. 216/2008 er verksvið Flugöryggisstofnunar Evrópu aukið frá því sem kveðið var á um í eldri reglugerð sambandsins, nr. 1592/2002. Í 25. gr. reglugerðarinnar er að finna ákvæði þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falið sektarvald á hendur einstaklingum og lögaðilum, að fyrirmælum Flugöryggisstofnunarinnar. Í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins yrði slíkt sektarvald að óbreyttu í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gagnvart EES/EFTA-ríkjunum eftir að reglugerðin hefur verið felld inn í EES-samninginn. EES/EFTA-ríkin hafa hins vegar talið að slíkt framsal á sektarheimildum á þessu sviði til erlends yfirvalds kunni að brjóta gegn stjórnskipulegum heimildum landsréttar einstakra EES/EFTA-ríkja og hafa því lagt til að sektarvaldið verði í höndum yfirvalda viðkomandi EES/EFTA-ríkis. Ljóst er orðið að um þetta næst ekki samstaða.
    Með þingsályktunartillögu þessari er óskað eftir fyrir fram heimild Alþingis til að reglugerðin verði tekin inn í EES-samninginn Með þessari málsmeðferð er tryggð þátttaka löggjafarvaldsins í meðferð þessa máls áður en ákvörðun verður tekin í sameiginlegu EES- nefndinni um að fella reglugerðina inn í EES-samninginn.
    Í athugasemdum við tillögu þessa er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast, sbr. þó það sem að framan greinir varðandi framsal sektarvalds. Reglugerð (EB) nr. 216/2008 er prentuð sem fylgiskjal með tillögunni.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara og samþykki Alþingis.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Tíðkast hefur að veita stjórnvöldum heimild, í formi þingsályktunar, til að skuldbinda íslenska ríkið að þjóðarétti áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Innleiðing reglugerðar (EB) nr. 216/2008 hér á landi kallar á lagabreytingar. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins samningsaðila EES-samningsins hefur í för með sér að viðkomandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast ekki gildi fyrr en að liðnum tilteknum tíma frá því að viðkomandi ríki lýsir því yfir að það aflétti fyrirvaranum.
    Reglugerð (EB) nr. 216/2008, með þeirri aðlögun sem leiðir af upptöku hennar í EES- samninginn, kveður á um framsal sektarvalds íslenskra yfirvalda til ESA. Eins og áður segir hafa EES/EFTA-ríkin talið að slíkt framsal sektarvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar kunni að brjóta gegn stjórnskipulegum heimildum landsréttar einstakra EFTA-ríkja, þ.m.t. Íslands. Telja verður að handhafar framkvæmdarvaldsins hér á landi geti ekki úrskurðað um slíka túlkun um mörk hinna stjórnskipulegu heimilda í þessu sambandi, enda er slíkt fremur hlutverk Alþingis sem stjórnarskrárgjafa.
    Af framangreindu er mikilvægt að Alþingi taki afstöðu til þessa mats á heimild til framsals sektarvaldsins til ESA. Með þingsályktunartillögu þessari er því lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni fyrir fram að staðfesta þá fyrirhuguðu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kveður á um upptöku umræddrar gerðar í EES-samninginn, án stjórnskipulegs fyrirvara. Þessi tilhögun málsins var kynnt á fundi utanríkismálanefndar 9. mars sl. og samþykkti nefndin hana fyrir sitt leyti.

3. Framasal sektarvalds til ESA.
    Eins og áður segir hefur ekki verið talið víst að framsal á sektarheimildum til ESA, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, stæðist fyllilega stjórnskipulegar heimildir íslensks réttar. Utanríkisráðuneytið óskaði því eftir áliti forsætisráðuneytisins, sem aftur óskaði eftir lögfræðiáliti Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors um þetta álitaefni.
    Í áliti Stefáns Más, sem prentað er sem fylgiskjal II við þingsályktunartillögu þessa, kemur m.a. fram að taki Alþingi ákvörðun um að leiða slíkt framsal sektarvalds til ESA í lög geti verið erfitt að fullyrða að sú löggjöf brjóti í bága við stjórnarskrá. Meðal annars er skírskotað til þess í álitinu að umræddar reglur muni taka til mjög fárra aðila hér á landi og að auki gilda á mjög þröngu sviði. Jafnframt kemur fram í álitinu að Alþingi hafi, sem handhafi löggjafarvalds, ákveðið svigrúm til að meta endanlega hvort tiltekinn þjóðréttarsamningur brjóti í bága við stjórnarskrána eða ekki. Að öðru leyti vísast til álitsins um afstöðu Stefáns Más.

4. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB.
    Með reglugerð (EB) nr. 1592/2002 var Flugöryggisstofnun Evrópu, European Aviation Safety Agency, komið á fót. Með reglugerðinni var Flugöryggisstofnuninni falin ábyrgð á lofthæfis- og umhverfisvottun loftfara og tilheyrandi framleiðsluvara, íhluta og búnaðar, svo og vottun hönnunar- og framleiðslufyrirtækja, auk vottunar og eftirlits með viðhaldsstöðvum í þriðju ríkjum. Stofnunin fer meðal annars með viðamikið hlutverk á sviði stöðlunar og úttekta og annast söfnun, greiningu og rannsóknir í þágu aukins flugöryggis. Þá annast stofnunin enn fremur margvísleg verkefni tengd alþjóðlegu samstarfi og samvinnu í þágu flugöryggismála.
    Stofnunin hefur séð framkvæmdastjórninni fyrir sérþekkingu á tæknisviði og veitir henni aðstoð við að framfylgja skyldum sínum við reglu- og lagasetningu á sviði flugöryggismála. Þá hefur stofnunin unnið að því að byggja upp kerfi til að fylgjast með hvernig löggjöf sambandsins á þessu sviði er framfylgt og koma með ráðleggingar til framkvæmdastjórnarinnar á grunni þeirra upplýsinga sem þannig fást.
    Með reglugerðinni var verksvið stofnunarinnar aukið og nær nú til flugrekstrar og starfrækslu loftfara, mats á flugöryggislegum atriðum í upprunaríki flugrekenda með staðfestu utan bandalagsins, útgáfu skírteina áhafna, heimilda til rekstrar flugþjálfunar og kennslu, fluglæknasetra og vottunar flugþjálfa. Grunnkröfur til þessa eru í viðauka við reglugerðina, en nánari útfærsla reglna þar að lútandi verður í formi innleiðingarreglugerða sem framkvæmdastjórn ESB mun setja á næstu árum að tillögu stofnunarinnar.
    Reglugerðin hefur auk framangreinds að geyma þau nýmæli í 25. gr. að framkvæmdastjórn ESB er fengin heimild til að sekta þá aðila sem Flugöryggisstofnunin hefur gefið út skírteini til, og er slík sekt veitt að undangenginni ósk stofnunarinnar. Í þessu sambandi ber hins vegar að hafa í huga að stofnunin gefur samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar einungis út skírteini til tiltekinna fyrirtækja á sviði flugmála, þ.e. til hönnunarfyrirtækja í aðildarríkjunum og framleiðslu- og viðhaldsfyrirtækja í þeim ríkjum sem ekki eiga aðild að stofnuninni. Stofnunin gefur þannig ekki út skírteini fyrir viðhaldsstöðvar, flugrekendur, flugskóla o.s.frv. í aðildarríki, heldur gefur flugmálastjórn eða þar til bært yfirvald í viðkomandi ríki út slík skírteini. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn Íslands hefur einungis einn aðili hér á landi, Icelandair, fengið útgefið leyfi frá Flugöryggisstofnuninni og það leyfi, sem nær til hönnunar, er mjög takmarkað ef litið er til hönnunar loftfars í heild sinni.

5. Afleiðingar þess ef reglugerð (EB) nr. 216/2008 verður ekki innleidd hér á landi.
    Reglugerð (EB) nr. 216/2008 er grundvallarreglugerð í flugöryggismálum og mælir meðal annars fyrir um grunnkröfur um umhverfisvernd, skilyrði fyrir útgáfu skírteina vegna lofthæfis, fyrir starfrækslu loftfara og til flugmanna. Einnig mælir hún fyrir um gagnkvæma viðurkenningu þessara skírteina innan EES. Öll slík skírteini og leyfi eru og verða veitt af Flugmálastjórn Íslands. Reglugerðin er einnig grundvöllur annarra mikilvægra ESB-reglugerða, t.a.m. reglugerðar (EB) nr. 1108/2009 um flugöryggismál á flugvöllum, í flugumferðarstjórn og flugleiðsögu.
    Verði reglugerðin ekki innleidd í íslenskan rétt mun ekki verða hægt að innleiða þær gerðir ESB sem byggjast á henni, en slíkt mun leiða til þess að flugöryggismálum verður háttað með öðrum hætti á Íslandi en annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Við það mundi t.d. skapast sú réttarstaða að þau skírteini sem Flugmálastjórn gefur út á sviði flugöryggis nytu ekki viðurkenningar annars staðar í Evrópu líkt og þau gera nú. Það mundi skekkja verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á flugmarkaðanum enda mundu þau eiga erfitt með að sýna fram á að þau uppfylltu sömu flugöryggisreglur og gilda annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig mundu starfsmöguleikar einstaklinga, líkt og flugmanna og flugumferðarstjóra, takmarkast þar sem skírteini þeirra nytu ekki lengur viðurkenningar á Evrópska efnahagssvæðinu.

6. Lagabreytingar hér á landi.
    Verði umrædd reglugerð felld inn í EES-samninginn mun það kalla á breytingar á ákvæði 136. gr. loftferðalaga, nr. 60/1998, í þá veru að ESA verði veitt sektarvald vegna skírteina sem útgefin eru af Flugöryggisstofnun Evrópu.


Fylgiskjal I.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 216/2008
frá 20. febrúar 2008
um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu tilskipunar ráðsins 91/670/EBE, reglugerðar (EB) nr. 1592/2002 og tilskipunar 2004/36/EB
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 80. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Til að öruggt sé að evrópskir borgarar njóti jafnan mikillar og samræmdrar verndar í almenningsflugi skal samþykkja sameiginlegar öryggisreglur og gera ráðstafanir til að tryggja að framleiðsluvörur, aðilar og fyrirtæki í Bandalaginu fullnægi þessum reglum sem og reglum sem samþykktar eru til að vernda umhverfið. Þetta ætti að greiða fyrir frjálsum vöruflutningum, frjálsri för fólks og frjálsum flutningum fyrirtækja á innri markaðnum.
2)          Auk þess skal loftfar frá þriðja landi, sem flogið er til yfirráðasvæðisins þar sem sáttmálinn gildir, innan þess eða frá því sæta viðeigandi eftirliti á vettvangi Bandalagsins innan þeirra marka sem sett eru í samningnum um alþjóðaflugmál, sem var undirritaður í Chicago 7. desember 1944 (Chicago-samningurinn) og öll aðildarríkin eru aðilar að.
3)          Í Chicago-samningum er þegar kveðið á um lágmarksstaðla til að tryggja öryggi í almenningsflugi ásamt þar að lútandi umhverfisvernd. Grunnkröfur Bandalagsins og reglur um framkvæmd þeirra skulu tryggja að aðildarríkin ræki skyldur sínar samkvæmt Chicago-samningnum, þ.m.t. gagnvart þriðju löndum.
4)          Bandalagið skal mæla fyrir um, í samræmi við staðla og ráðlagðar starfsvenjur sem sett eru fram í Chicago-samningnum, grunnkröfur sem gilda um framleiðsluvörur, hluta og búnað til flugs, aðila og fyrirtæki, sem taka þátt í starfrækslu loftfars, og aðila og framleiðsluvörur sem koma við sögu við þjálfun og læknisskoðun flugmanna. Veita ber framkvæmdastjórninni heimild til að semja nauðsynlegar framkvæmdarreglur.
5)          Ekki er rétt að sameiginlegu reglurnar gildi um öll loftför, einkum loftför sem eru einföld í hönnun, eða sem einkum eru starfrækt staðbundið og þau sem eru heimasmíðuð eða sérstaklega sjaldgæf eða eru einungis til í fáum eintökum. Lögbundið eftirlit með slíkum loftförum skal því áfram vera í höndum aðildarríkjanna og án nokkurrar skuldbindingar, samkvæmt þessari reglugerð, fyrir önnur aðildarríki til að viðurkenna slíkt landsbundið fyrirkomulag. Hins vegar skal grípa til viðeigandi ráðstafana til að auka almennt öryggi tómstundaflugs. Einkum skal taka tillit til flugvéla og þyrlna, sem hafa lítinn hámarksflugtaksmassa, en afkastageta þeirra verður sífellt meiri, geta flogið um allt Bandalagið og eru iðnaðarframleiðsla. Því er betra að setja reglur um þær á vettvangi Bandalagsins til að kveða á um nauðsynlegt, samræmt öryggi og umhverfisvernd.
6)          Gildissvið aðgerða Bandalagsins skal vera skýrt skilgreint þannig að hægt sé að tilgreina með ótvíræðum hætti hvaða aðilar, fyrirtæki og framleiðsluvörur falla undir þessa reglugerð og framkvæmdarreglur hennar. Gildissviðið skal skýrt skilgreint með því að vísa til skrár yfir loftför sem eru undanþegin beitingu þessarar reglugerðar.
7)          Framleiðsluvörur til flugs, hlutar þeirra og búnaður, flugrekendur, sem stunda flutningaflug, sem og flugmenn og aðilar, framleiðsluvörur og fyrirtæki, sem taka þátt í eða eru notuð við þjálfun þeirra og læknisskoðun, skulu fá vottun eða leyfi þegar staðfest hefur verið að þau eru í samræmi við grunnkröfur sem Bandalagið skal mæla fyrir um í samræmi við staðla og ráðlagðar starfsvenjur sem sett eru fram í Chicago- samningnum. Veita ber framkvæmdastjórninni heimild til að semja nauðsynlegar framkvæmdarreglur til að ákveða skilyrðin fyrir útgáfu vottorðsins eða skilyrðin fyrir því að skipta því út fyrir yfirlýsingu um getu, að teknu tilliti til áhættunnar í tengslum við mismunandi tegundir starfrækslu, s.s tilteknar tegundir verkflugs og staðbundins flugs með litlum loftförum.
8)          Að því er varðar starfrækslu, sem er ekki í ábataskyni, skulu reglur um starfrækslu og leyfisveitingar miðast við hversu flókið loftfarið er og semja skal skilgreiningu í tengslum við það.
9)          Réttindin, sem tengjast flugmannsskírteini til tómstundaflugs, skulu takmarkast við þá þjálfun sem fékkst til að ná tengdum áritunum, í samræmi við framkvæmdarreglurnar.
10)          Til að ná markmiðum Bandalagsins um frjálsa vöruflutninga, frjálsa för fólks og frjálsa þjónustustarfsemi og um sameiginlega stefnu í flutningamálum skulu aðildarríkin samþykkja, án frekari krafna eða mats, framleiðsluvörur, hluta þeirra og búnað og fyrirtæki eða aðila sem hafa fengið vottun í samræmi við þessa reglugerð og reglur um framkvæmd hennar.
11)          Gefa skal nægilegt svigrúm til að bregðast við sérstökum aðstæðum, s.s. brýnum öryggisráðstöfunum eða ófyrirséðum eða takmörkuðum þörfum við starfrækslu Einnig þarf að vera unnt að tryggja sambærilegt öryggi eftir öðrum leiðum Aðildarríkin skulu geta veitt undanþágur frá kröfum í þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar, að því tilskildu að undanþágurnar hafi takmarkað gildissvið og falli undir viðeigandi eftirlit Bandalagsins.
12)          Þörf er á bættu fyrirkomulagi á öllum sviðum, sem reglugerð þessi tekur til, þannig að tiltekin verkefni, sem nú eru unnin á vettvangi Bandalagsins eða á landsvísu verði í höndum eins, sérhæfðs sérfræðiaðila. Því er þörf á því, innan núverandi stofnana- og valdskiptingarkerfis Bandalagsins, að koma á fót Flugöryggisstofnun Evrópu (hér á eftir nefnd Flugöryggisstofnunin) sem er óháð í málum er varða tæknileg atriði og hefur sjálfræði lagalega, stjórnunarlega og fjárhagslega. Í þessu skyni er bæði rétt og nauðsynlegt að hún verði Bandalagsstofnun sem er lögaðili og fer með það framkvæmdarvald sem henni er veitt í þessari reglugerð.
13)          Samkvæmt stofnanakerfi Bandalagsins er framkvæmd laga Bandalagsins fyrst og fremst á ábyrgð aðildarríkjanna. Vottunarverkefni, sem krafist er í þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar, skulu því unnin á landsvísu. Í tilteknum, skýrt skilgreindum tilvikum, skal Flugöryggisstofnunin hins vegar hafa heimild til að annast vottunarverkefni eins og tilgreint er í þessari reglugerð. Flugöryggisstofnuninni skal, af sömu ástæðum, einnig vera heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við starfrækslu loftfars, starfsréttindi áhafnar eða öryggis loftfars frá þriðja landi, þegar það er besta leiðin til að tryggja samræmi og greiða fyrir starfsemi innri markaðarins.
14)          Í reglugerð (EB) nr. 2111/2005 ( 1 ) er lögð sú skylda á Flugöryggisstofnunina að tilkynna allar upplýsingar sem kunna að skipta máli vegna uppfærslu á skrá Bandalagsins yfir flugrekendur sem af öryggisástæðum er bannað að stunda flugrekstur í Bandalaginu. Ef Flugöryggisstofnunin neitar að veita flugrekanda heimild, samkvæmt skilmálum þessarar reglugerðar, skal hún senda áfram til framkvæmdastjórnarinnar allar viðeigandi upplýsingar, sem þessi synjun var byggð á, þannig að hægt sé að bæta nafni flugrekandans í skrána, ef nauðsynlegt er.
15)          Skilvirk starfsemi kerfis Bandalagsins fyrir öryggi í almenningsflugi á þeim sviðum sem þessi reglugerð tekur til krefst þess að samvinna milli framkvæmdastjórnarinnar, aðildarríkjanna og Flugöryggisstofnunarinnar verði efld til að greina ótryggt ástand og gera ráðstafanir til úrbóta, eftir því sem við á.
16)          Efling „öryggismenningar“ og eðlilegrar starfsemi eftirlitskerfis á þeim sviðum sem þessi reglugerð tekur til krefst þess að þeir sem verða vitni að flugatvikum og atvikum tilkynni um þau tafarlaust. Greitt yrði fyrir slíkum tilkynningum með því að koma á fót umhverfi án refsiákvæða og aðildarríkin skulu grípa til viðeigandi ráðstafana til að kveða á um vernd slíkra upplýsinga og fyrir þá sem tilkynna um þær.
17)          Brýnt er að gera umsvifalaust ráðstafanir í framhaldi af niðurstöðum flugslysarannsókna til að tryggja tiltrú neytenda á flutningum í lofti, einkum þegar niðurstöðurnar tengjast galla í hönnun loftfara og/eða þáttum er varða starfrækslu þeirra.
18)          Til að stuðla að því að ná öryggismarkmiðum þessarar reglugerðar skal Bandalagið fá heimildir til þess að beita handhafa vottorða og samþykkja, sem Flugöryggisstofnunin gefur út, fjárhagslegum viðurlögum. Í samræmi við réttarkerfi Bandalagsins skal framkvæmdastjórnin beita slíkum fjárhagslegum viðurlögum að fengnum tilmælum frá Flugöryggisstofnuninni. Lögð skal áhersla á að með innleiðingu fjárhagslegra viðurlaga munu viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar við broti á reglum verða margbreytilegri, sveigjanlegri og stigskiptari samanborið við afturköllun á vottorði.
19)          Þar eð allar ákvarðanir, sem framkvæmdastjórnin tekur samkvæmt þessari reglugerð, eru háðar endurskoðun Dómstóls Evrópubandalaganna í samræmi við sáttmálann, skal Dómstóllinn, í samræmi við 229. gr., fá ótakmarkaða lögsögu að því er varðar ákvarðanir, sem framkvæmdastjórnin hefur tekið, til að leggja á sektir eða févíti.
20)          Nauðsynlegt er að bregðast við vaxandi áhyggjum af heilsu og velferð flugfarþega með því að hanna loftför með þeim hætti að öryggi og heilsa farþega sé betur tryggð.
21)          Markmiðum þessarar reglugerðar má ná með góðum árangri með samstarfi við þriðju lönd. Þegar svo háttar til er unnt að aðlaga ákvæði þessarar reglugerðar og reglur um framkvæmd hennar með samningum Bandalagsins við þessi lönd. Séu slíkir samningar ekki fyrir hendi skal aðildarríkjunum eftir sem áður heimilt, með fyrirvara um viðeigandi eftirlit Bandalagsins, að viðurkenna samþykki sem þriðja land hefur veitt fyrir erlendum framleiðsluvörum, hlutum þeirra og búnaði og fyrirtækjum og starfsfólki.
22)          Til að Flugöryggisstofnunin geti aðstoðað Bandalagið sem best skal henni heimilt að þróa sérfræðikunnáttu innan vébanda sinna um alla þætti öryggismála í almenningsflugi og umhverfisverndar sem reglugerð þessi tekur til. Henni ber að aðstoða framkvæmdastjórnina við undirbúning nauðsynlegrar löggjafar og aðstoða aðildarríkin og atvinnugreinina við framkvæmd hennar. Hún skal vera fær um að gefa út vottunarforskriftir og -leiðbeiningar og framkvæma tæknilegar rannsóknir og gefa út vottorð eftir því sem þörf krefur og henni ber að aðstoða framkvæmdastjórnina við eftirlit með beitingu þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar og hún skal fá nauðsynlegar heimildir til að sinna verkefnum sínum.
23)          Til að framkvæmdastjórnin og aðildarríkin geti haft skilvirkt eftirlit með starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar skulu þau eiga fulltrúa í stjórn hennar. Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal hafa nauðsynlegar heimildir til að semja fjárhagsáætlun og hafa eftirlit með framkvæmd hennar, samþykkja viðeigandi fjárhagsreglur, koma á gagnsæjum vinnureglum við ákvarðanatöku Flugöryggisstofnunarinnar og tilnefna forstjóra. Einnig skal Flugöryggisstofnuninni heimilt að framkvæma rannsóknir og skipuleggja viðeigandi samræmingu með framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum. Æskilegt er að Flugöryggisstofnunin aðstoði Bandalagið og aðildarríki þess á sviði alþjóðasamskipta, þ.m.t. við samræmingu reglna, viðurkenningu samþykkis og við samstarf í tæknimálum, og hafi rétt til að koma á viðeigandi samskiptum við flugmálayfirvöld þriðju landa og alþjóðastofnanir sem fara með málefni sem reglugerð þessi tekur til.
24)          Til að tryggja gagnsæi skulu hagsmunaaðilar eiga áheyrnarfulltrúa í stjórn Flugöryggisstofnunarinnar.
25)          Í þágu almannaheilla ber Flugöryggisstofnuninni að styðjast eingöngu við sérþekkingu óháðra aðila í aðgerðum sínum á sviði öryggis og fylgja nákvæmlega reglugerð þessari og reglum sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt til framkvæmdar henni. Því skal forstjórinn taka allar ákvarðanir Flugöryggisstofnunarinnar sem tengjast öryggismálum og hann skal fá mikið svigrúm til að leita ráðgjafar og skipuleggja innra starf Flugöryggisstofnunarinnar. Þegar Flugöryggisstofnunin þarf að semja drög að almennum reglum, sem landsbundin yfirvöld eiga að beita, skulu aðildarríkin þó taka þátt í ákvörðunarferlinu.
26)          Tryggja þarf að aðilar, sem ákvarðanir Flugöryggisstofnunarinnar hafa áhrif á, geti leitað réttar síns með einhverjum þeim hætti sem er í samræmi við sérstöðu flugsins. Skilgreina skal viðeigandi kæruleiðir til að unnt sé að kæra ákvarðanir forstjóra til sérstakrar kærunefndar en ákvarðanir hennar skal síðan vera unnt að kæra til Dómstóls Evrópubandalaganna.
27)          Til að tryggja fullt sjálfræði og sjálfstæði Flugöryggisstofnunarinnar skal hún hafa sjálfstæðan fjárhag og tekjur hennar fyrst og fremst vera framlag Bandalagsins og þóknanir frá notendum kerfisins. Engin fjárframlög, sem Flugöryggisstofnunin fær frá aðildarríkjum, þriðju löndum eða öðrum aðilum, skulu stofna sjálfstæði og óhlutdrægni hennar í hættu. Fjárlagagerð Bandalagsins gildir að því er varðar fjárframlag Bandalagsins og aðra styrki sem veittir eru af almennum fjárlögum Evrópusambandsins. Endurskoðunarrétturinn skal annast endurskoðun reikningsskila.
28)          Setja skal almennar reglur áður en Flugöryggisstofnunin opnar staðarskrifstofur sínar til að skýrt komi fram hvaða kröfur þurfi að uppfylla og hvað viðkomandi aðildarríki þurfi að leggja af mörkum.
29)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar reglugerðar, þ.e. að setja og beita reglum um öryggi í almenningsflugi og um umhverfisvernd á samræmdan hátt, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna þess að þessi reglugerð nær til alls Evrópubandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessum markmiðum
30)          Viðurkennt er að nauðsynlegt er að leita eftir aukinni þátttöku Evrópulanda, sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu, til að tryggja breiðan, samevrópskan grundvöll og greiða þannig fyrir auknu öryggi í almenningsflugi í allri Evrópu. Evrópulönd, sem hafa gert samninga við Bandalagið um að samþykkja og beita réttarreglum Bandalagsins á því sviði sem reglugerð þessi tekur til, skulu taka þátt í þessu starfi í samræmi við skilyrði sem samþykkt skulu innan ramma þessara samninga.
31)          Almenna markmiðið er að flytja störf og verkefni frá aðildarríkjunum til Flugöryggisstofnunarinnar, þ.m.t. störf og verkefni sem tengjast samvinnu þeirra innan vébanda Flugöryggissamtaka Evrópu (JAA), án þess að draga að neinu leyti úr því mikla öryggi sem nú er fyrir hendi og án þess að það hafi neikvæð áhrif á áætlanir um vottun. Samþykkja skal viðeigandi ráðstafanir til að nauðsynleg umskipti geti átt sér stað.
32)          Í þessari reglugerð eru settar sameiginlegar reglur um almenningsflug og Flugöryggisstofnun Evrópu komið á fót. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1592/2002 frá 15. júlí 2002 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu ( 1 ), skal því felld úr gildi.
33)          Í þessari reglugerð er mótaður viðeigandi heildarrammi um skilgreiningu og framkvæmd á sameiginlegum tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði almenningsflugs. Því skal fella úr gildi III. viðauka við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 frá 16. desember 1991 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála ( 1 ) og tilskipun ráðsins 91/670/EBE frá 16 desember 1991 um gagnkvæma viðurkenningu á flugstarfaskírteinum ( 2 ) þegar það er tímabært, sbr. þó þá vottun eða leyfisveitingu framleiðsluvara, aðila og fyrirtækja sem hefur þegar farið fram í samræmi við þessar gerðir.
34)          Í þessari reglugerð er mótaður viðeigandi heildarrammi varðandi öryggi loftfara frá þriðju löndum sem nota flugvelli í Bandalaginu. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/36/EB frá 21. apríl 2004 um öryggi loftfara frá þriðju löndum sem nota flugvelli Bandalagsins ( 3 ), skal því felld úr gildi þegar það er tímabært, sbr. þó framkvæmdarráðstafanir um söfnun upplýsinga, skoðanir á hlaði og upplýsingaskipti.
35)          Reglugerð þessi mun gilda á öllum öðrum sviðum, sem tengjast öryggi í almenningsflugi, á grundvelli tillögu sem verður lögð fram síðar í samræmi við sáttmálann.
36)          Nauðsynlegt er að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja bæði nauðsynlega vernd viðkvæmra öryggisupplýsinga og veita almenningi fullnægjandi upplýsingar um öryggi í almenningsflugi og þar að lútandi umhverfisvernd, að teknu tilliti til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1049/2001 frá 30. maí 2001 um almennan aðgang að skjölum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar ( 4 ) og viðkomandi, innlendri löggjöf. Ákvarðanir, sem Flugöryggisstofnunin tekur skv. 8. gr. þeirrar reglugerðar skulu geta orðið tilefni kæru til umboðsmanns eða málshöfðunar fyrir dómstólnum skv. 195. gr. EB-sáttmálans í fyrra tilvikinu og 230. gr. í seinna tilvikinu.
37)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari reglugerð skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 5 ).
38)          Einkum skal fela framkvæmdastjórninni vald til að samþykkja framkvæmdarreglur að því er varðar lofthæfi, veitingu flugliðaskírteina og samþykki í tengslum við það, flugrekstur, loftför, sem notuð eru af flugrekendum frá þriðju löndum, eftirlit og framfylgd sem og að samþykkja reglugerð um þóknanir og gjöld Flugöryggisstofnunarinnar. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, m.a. með því að bæta við þær nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/ 468/EB.
39)          Með skírskotun til skilvirkni skal eðlilegur frestur fyrir stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti styttur að því er varðar aðlögun á grunnkröfunum um umhverfisvernd og samþykkt á framkvæmdarreglum um umhverfisvernd.
40)          Þar sem málið er brýnt er nauðsynlegt að beita flýtimeðferðinni, sem kveðið er á um í 6. mgr. 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB, til að framkvæmdastjórnin geti ákveðið ráðstafanirnar sem aðildarríkin gera til að bregðast tafarlaust við öryggisvanda, sem og að veita undanþágur fyrir samþykkjum sem aðildarríkin leggja fram.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

I. KAFLI
MEGINREGLUR
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi reglugerð gildir um:
a)    hönnun, framleiðslu, viðhald og rekstur framleiðsluvara, hluta og búnaðar til flugs sem og starfsfólk og fyrirtæki sem tekur þátt í hönnun, framleiðslu og viðhaldi þessara framleiðsluvara, hluta og búnaðar,
b)    starfsfólk og fyrirtæki sem taka þátt í starfrækslu loftfara.
2.     Þessi reglugerð gildir ekki þegar her, tollur, lögregla eða þess háttar aðilar nýta sér framleiðsluvörur, hluta og búnað sem og starfsfólk og fyrirtæki sem um getur í 1. mgr. Aðildarríkin skulu skuldbinda sig til að tryggja að þessir aðilar taki tilhlýðilegt tillit til markmiða þessarar reglugerðar eftir því sem unnt er.

2. gr.
Markmið

1.     Meginmarkmiðið með þessari reglugerð er að koma á og viðhalda samræmdu öryggi á háu stigi í almenningsflugi í Evrópu.
2.     Önnur markmið á þeim sviðum, sem reglugerð þessi tekur til, eru sem hér segir:
a)    að tryggja mikla og samræmda umhverfisvernd,
b)    að greiða fyrir frjálsum vöruflutningum, frjálsri för fólks og frjálsri þjónustustarfsemi,
c)    að stuðla að kostnaðarhagkvæmni við reglusetningu og vottun og forðast tvíverknað á landsvísu og evrópskum vettvangi,
d)    að aðstoða aðildarríkin við að rækja skyldur sínar samkvæmt Chicago-samningnum með því að leggja grunn að sameiginlegri túlkun og samræmdri framkvæmd ákvæða hans og með því að tryggja að tekið verði tilhlýðilegt tillit til ákvæða hans í þessari reglugerð og í reglunum um framkvæmd hennar,
e)    að kynna sjónarmið Bandalagsins varðandi staðla og reglur um öryggi í almenningsflugi um heim allan með því að koma á viðeigandi samstarfi við þriðju lönd og alþjóðastofnanir,
f)    að veita öllum aðilum á alþjóðlega loftflutningamarkaðinum jöfn samkeppnisskilyrði.
3.     Leiðir til að ná markmiðunum, sem eru sett fram í 1. og 2. mgr., skulu vera:
a)    að semja og samþykkja öll nauðsynleg lög og beita þeim á samræmdan hátt,
b)    að viðurkenna, án þess að gera viðbótarkröfur, vottorð og skírteini, leyfi, samþykki eða önnur skjöl sem gefin eru út fyrir framleiðsluvörur, starfsfólk og fyrirtæki í samræmi við þessa reglugerð og reglur um framkvæmd hennar,
c)    að stofna sjálfstæða Flugöryggisstofnun Evrópu (hér á eftir nefnd Flugöryggisstofnunin),
d)    að flugmálayfirvöld aðildarríkjanna og Flugöryggisstofnunin komi öllum nauðsynlegum lögum í framkvæmd á samræmdan hátt, hver á sínu ábyrgðarsviði.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „samfellt eftirlit“: sú vinna sem þarf að fara fram til að sannreyna að skilyrðin fyrir veitingu vottorðs séu jafnan uppfyllt á meðan vottorðið er í gildi, sem og hugsanlegar verndarráðstafanir,
b)    „Chicago-samningurinn“: samningurinn um alþjóðaflugmál, ásamt viðaukum, sem var undirritaður í Chicago 7. desember 1944,
c)    „framleiðsluvara“ (product): loftfar, hreyfill eða loftskrúfa,
d)    „hlutar og búnaður“: allir mælar, búnaður, kerfi, hluti, tækjabúnaður, fylgihlutir eða aukahlutir, þ.m.t. fjarskiptabúnaður, sem eru notuð eða sem eru ætluð til notkunar við starfrækslu eða stjórn loftfars á flugi og sem er komið fyrir í loftfarinu eða fest á það. Undir þetta falla íhlutir flugskrokks, hreyfils eða loftskrúfu,
e)    „vottun“: hvers konar viðurkenning á því að framleiðsluvara, hluti hennar eða búnaður, fyrirtæki eða aðili uppfylli gildandi kröfur, þ.m.t. ákvæði þessarar reglugerðar og reglur um framkvæmd hennar, svo og útgáfa viðeigandi vottorða til staðfestingar á því að kröfurnar hafi verið uppfylltar,
f)    „hæfur aðili“: aðili sem heimilt er að úthluta vottunarverkefni undir eftirliti og ábyrgð Flugöryggisstofnunarinnar eða flugmálayfirvalda aðildarríkjanna,
g)    „vottorð“: samþykki, leyfi eða annað skjal sem gefið er út í framhaldi af vottun.
h)    „flugrekandi“: lögaðili eða einstaklingur sem starfrækir eða hefur í hyggju að starfrækja eitt eða fleiri loftför,
i)    „rekstur í ábataskyni“: hvers konar starfræksla loftfars, gegn greiðslu eða annars konar gjaldi, fyrir almenning eða ef starfrækslan er ekki fyrir almenning fer hún fram samkvæmt samningi milli flugrekanda og viðskiptavinar þar sem sá síðarnefndi stjórnar flugrekandanum ekki með neinum hætti,
j)    „flókið, vélknúið loftfar“
    i.    flugvél:
         –    með skráðan hámarksflugtaksmassa, sem er yfir 5 700 kg, eða
         –    með vottun fyrir hámarksfjölda farþegasæta í sætafyrirkomulagi fyrir fleiri en 19 eða
         –    með vottun fyrir starfrækslu með minnst tvo flugmenn í áhöfn eða
         –    búin þotuhreyfli/-hreyflum eða fleiri en einum skrúfuþotuhreyfli eða
    ii.    þyrla með vottun:
         –    fyrir hámarksflugtaksmassa, sem er yfir 3 175 kg, eða
         –    fyrir hámarksfjölda farþegasæta í sætafyrirkomulagi fyrir fleiri en níu eða
         –    fyrir starfrækslu með minnst tvo flugmenn í áhöfn eða
    iii.    veltihnita,
k)    „flugþjálfunartæki“: allar gerðir tækja þar sem hermt er á jörðu niðri eftir flugskilyrðum en til þessara tækja teljast flughermar, flugþjálfunartæki, þjálfar fyrir verklag í flugi og leiðsögu og grunnþjálfunartæki fyrir mælitæki,
l)    „áritun“: yfirlýsing sem er skráð á skírteini, þar sem sett eru fram réttindi, sérstök skilyrði eða takmarkanir sem tengjast henni.

II. KAFLI
EFNISLEGAR KRÖFUR
4. gr.
Grundvallarreglur og gildissvið

1.     Loftför, þ.m.t. ísettar framleiðsluvörur, hlutar og búnaður:
a)    sem fyrirtæki, sem Flugöryggisstofnunin eða aðildarríki hefur öryggiseftirlit með, hannar eða framleiðir, eða
b)    sem er skráð í aðildarríki, nema lögbundið öryggiseftirlit hafi verið falið þriðja landi og þau séu ekki notuð af flugrekanda í Bandalaginu eða
c)    sem eru skráð í þriðja landi og aðildarríki tryggir rekstrareftirlit með flugrekandanum, sem notar þau, eða flugrekanda með staðfestu eða sem hefur búsetu í Bandalaginu og notar þau til flugs til Bandalagsins, innan þess eða frá því eða
d)    sem er skráð í þriðja landi eða skráð í aðildarríki sem hefur falið þriðja landi lögbundið öryggiseftirlit og er notað af flugrekanda frá þriðja landi til flugs til Bandalagsins, innan þess eða frá því
skulu vera í samræmi við þessa reglugerð.
2.     Starfsfólk sem tekur þátt í starfrækslu loftfars, sem um getur í b-, c- eða d-lið 1. mgr., skal uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar.
3.     Starfræksla loftfars, sem um getur í b-, c- eða d- lið 1. mgr., skal vera í samræmi við þessa reglugerð.
4.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um loftför sem um getur í II. viðauka.
5.      Ákvæði 2. og 3. mgr. gilda ekki um loftför, sem um getur í II. viðauka, að undanskildum loftförunum, sem um getur í ii. lið a-liðar, d-lið og h-lið þeirra, þegar þau eru notuð fyrir flutningaflug.
6.     Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á réttindi þriðju landa samkvæmt alþjóðasamþykktum, einkum Chicago-samningnum.

5. gr.
Lofthæfi

1.     Loftför, sem um getur í a-, b- og c-lið 1. mgr. 4. gr., skulu uppfylla grunnkröfur um lofthæfi sem mælt er fyrir um í I. viðauka.
2.     Þegar um er að ræða loftför, sem um getur í b-lið 1. mgr. 4. gr., og framleiðsluvörur, hluta og búnað, sem komið er fyrir í þessum loftförum, skal staðfesta að þau uppfylli þessar kröfur á eftirfarandi hátt:
a)    Framleiðsluvörum skal fylgja tegundarvottorð. Tegundarvottorð og vottun um breytingar á tegundarvottorðinu, þ.m.t. viðbótartegundarvottorð, skulu gefin út þegar umsækjandi hefur sýnt fram á að viðkomandi framleiðsluvara sé í samræmi við tiltekinn tegundarvottunargrunn, sem tilgreindur er í 20. gr. og skilgreindur er til að tryggja samræmi við grunnkröfurnar sem um getur í 1. mgr., og þegar viðkomandi framleiðsluvara hefur engin sérkenni eða eiginleika sem gerir notkun ótrygga. Tegundarvottorðið skal ná yfir viðkomandi framleiðsluvöru, þ.m.t. alla ásetta hluta og búnað.
b)    Heimilt er að gefa út sérstök vottorð fyrir hluta og búnað ef sýnt er fram á að hlutarnir og búnaðurinn séu í samræmi við ítarlegar lofthæfiforskriftir sem ákveðnar hafa verið til að tryggja samræmi við grunnkröfurnar sem um getur í 1. mgr.
c)    Gefa skal út sérstakt lofthæfivottorð fyrir hvert loftfar þegar sýnt hefur verið fram á að það sé í samræmi við þá tegundarhönnun, sem samþykkt er í tegundarvottorði þess, og að viðeigandi upplýsingaskjöl, skoðanir og prófanir sýni að óhætt sé að starfrækja loftfarið. Þetta lofthæfivottorð skal haldast í gildi á meðan það er ekki fellt úr gildi tímabundið, afturkallað eða fellt endanlega úr gildi og á meðan loftfarinu er haldið við í samræmi við grunnkröfurnar, sem varða áframhaldandi lofthæfi og settar eru fram í lið 1.d í I. viðauka, og framkvæmdarreglurnar sem um getur í 5. mgr.
d)    Fyrirtæki, sem annast viðhald á framleiðsluvörum, hlutum og búnaði, skulu sanna hæfni sína og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast réttindum þeirra. Ef hæfni þeirra og geta eru ekki viðurkennd á annan hátt skal hæfnin og getan viðurkennd með útgáfu samþykkis fyrir fyrirtækið. Réttindin, sem samþykkta fyrirtækinu eru veitt, og gildissvið samþykkisins skulu tilgreind í skilmálum samþykkisins.
e)    fyrirtæki, sem annast hönnun og framleiðslu á framleiðsluvörum, hlutum og búnaði, skulu sanna hæfni sína og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast réttindum þeirra. Ef hæfni þeirra og geta eru ekki viðurkennd á annan hátt skal hæfnin og getan viðurkennd með útgáfu samþykkis fyrir fyrirtækið. Réttindin, sem samþykkta fyrirtækinu eru veitt, og gildissvið samþykkisins skulu tilgreind í skilmálum samþykkisins.
Að auki:
f)    Unnt er að krefjast þess að starfsfólk, sem annast viðhaldsvottun á framleiðsluvörum, hlutum þeirra eða búnaði að loknu viðhaldi, hafi viðeigandi skírteini („starfsskírteini“).
g)    Gefa má út samþykki til viðurkenningar á hæfni fyrirtækja, sem sjá um viðhaldsþjálfun, til að rækja þær skyldur sem fylgja því að þær hafa réttindi til útgáfu skírteinanna sem um getur í f- lið.
3.     Loftför, sem um getur í a-lið 1. mgr. 4. gr. og framleiðsluvörur, hlutar og búnaður sem komið er fyrir í þessum loftförum skulu vera í samræmi við a-, b- og e-lið 2. mgr. þessarar greinar.
4.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr.:
a)    er heimilt að gefa út flugleyfi ef sýnt hefur verið fram á að unnt sé að fljúga loftfarinu á öruggan hátt við eðlilegar aðstæður; það skal gefið út með viðeigandi takmörkunum, einkum til að vernda öryggi þriðju aðila,
b)    er heimilt að gefa út takmarkað lofthæfivottorð fyrir loftfar sem ekki hefur fengið tegundarvottorð samkvæmt a-lið 2. mgr. Í því tilviki skal sýna fram á að loftfarið sé í samræmi við sérstakar lofthæfiforskriftir og ekki skal víkja frá grunnkröfunum, sem um getur í 1. mgr., nema tryggt sé að öryggi sé fullnægjandi með hliðsjón af markmiðinu með fluginu; skilgreina skal loftför, sem eru hæf fyrir takmörkuð vottorð, og takmarkanir á notkun slíkra loftfara samkvæmt ráðstöfununum sem um getur í 5. mgr.,
c)    ef fjöldi loftfara af sömu tegund, sem eru hæf fyrir takmörkuð lofthæfivottorð, gefur tilefni til þess er heimilt að gefa út takmarkað tegundarvottorð og ákveða viðeigandi tegundarvottunargrunn.
5.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar greinar, með því að bæta við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í þessum ráðstöfunum skal tilgreina sérstaklega:
a)    skilyrðin fyrir því að ákvarða og tilkynna umsækjanda um þann tegundarvottunargrunn sem gildir fyrir tiltekna framleiðsluvöru,
b)    skilyrðin fyrir því að ákvarða og tilkynna umsækjanda um þær tilteknu lofthæfiforskriftir sem gilda fyrir tiltekna hluta og búnað,
c)    skilyrðin fyrir því að ákvarða og tilkynna umsækjanda um þær tilteknu lofthæfiforskriftir sem gilda fyrir loftför sem eru hæf til að fá takmarkað lofthæfivottorð,
d)    skilyrðin fyrir því að gefa út og miðla skyldubundnum upplýsingum til að tryggja áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara,
e)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla tegundarvottorð, takmörkuð tegundarvottorð, samþykki á breytingum á tegundarvottorðum, einstök lofthæfivottorð, takmörkuð lofthæfivottorð, flugleyfi og vottorð fyrir loftför, framleiðsluvörur, hluta þeirra eða búnað, þ.m.t.:
    i.    skilyrði um gildistíma þessara vottorða og skilyrði fyrir endurnýjun vottorða ef takmarkaður gildistími hefur verið ákveðinn,
    ii.    takmarkanir sem varða útgáfu flugleyfa. Takmarkanirnar skulu einkum taka til eftirfarandi:
         –    markmiðsins með fluginu,
         –    loftrýmisins sem flugið fer fram í,
         –    starfsréttinda flugáhafnar,
         –    flutnings annarra einstaklinga en flugáhafnar,
    iii.    loftför, sem eru hæf fyrir takmörkuð lofthæfivottorð, og tilheyrandi takmarkanir,
    iv.    lágmarksnámsefni fyrir þjálfun viðhaldsvotta til tegundarréttinda til að tryggja samræmi við f-lið 2. mgr.,
    v.    lágmarksnámsefni fyrir tegundarréttindi flugmanna og nothæfi tengdra flugherma til að tryggja samræmi við 7. gr.,
    vi.    grunnlisti yfir lágmarksbúnað (MMEL), eftir því sem við á, og viðbótarforskriftir að því er varðar lofthæfi fyrir tiltekna tegund starfrækslu til að tryggja samræmi við 8. gr.,
f)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla samþykki fyrir fyrirtæki, sem krafist er samkvæmt d-, e- og g-lið 2. mgr., og skilyrðin fyrir því að ekki þurfi að óska eftir slíku samþykki,
g)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla starfsskírteinin sem krafist er samkvæmt e-lið 2. mgr.,
h)    skyldur handhafa vottorða,
i)    hvernig sýna skuli fram á að loftför, sem um getur í 1. mgr. og falla ekki undir 2. eða 4. mgr., fullnægi grunnkröfunum.
j)    hvernig sýna skuli fram á að loftför, sem um getur í c-lið 1. mgr. 4. gr., fullnægi grunnkröfunum.
6.     Þegar framkvæmdastjórnin samþykkir ráðstafanirnar, sem um getur í 5. mgr., skal hún gæta þess sérstaklega:
a)    að þær endurspegli stöðu tækninnar og bestu starfsvenjur á sviði lofthæfi,
b)    að tekið sé tillit til reynslunnar af rekstri loftfara um heim allan og til framfara í vísindum og tækni,
c)    að gefið sé svigrúm til að bregðast tafarlaust við til að komast að orsökum slysa og alvarlegra flugatvika.
d)    að gera ekki kröfur, að því er varðar loftför sem um getur í c-lið 1. mgr. 4. gr., sem væru ósamrýmanlegar skyldum aðildarríkjanna við Alþjóðaflugmálastofnunina .

6. gr.
Grunnkröfur um umhverfisvernd

1.     Framleiðsluvörur, hlutar þeirra og búnaður skulu fullnægja kröfum um umhverfisvernd í 8. breytingu I. bindis og í 5. breytingu II. bindis í 16. viðauka við Chicago-samninginn í útgáfunni frá 24. nóvember 2005, að undanskildum viðbætunum við 16. viðauka.
2.     Ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum krafnanna, sem um getur í 1. mgr., til að færa þær til samræmis við síðari breytingar á Chicago-samningnum og viðaukum hans, sem öðlast gildi eftir samþykkt þessarar reglugerðar og gilda í öllum aðildarríkjunum, svo fremi að slík samræming rýmki ekki gildissvið þessarar reglugerðar, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti sem um getur í 5. mgr. 65. gr.
3.     Ráðstafanirnar, sem voru gerðar til að breyta veigalitlum þáttum krafnanna, sem um getur í 1. mgr., með því að bæta við þær og nota til þess eftir því sem nauðsynlegt er innihald viðbætanna sem um getur í 1. mgr., skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með eftirliti sem um getur í 5. mgr. 65. gr.

7. gr.
Flugmenn

1.     Flugmenn, sem taka þátt í starfrækslu loftfara sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 4. gr., sem og flugþjálfunartæki, einstaklingar og fyrirtæki, sem taka þátt í þjálfun, prófun, skoðun eða mati læknis á þessum flugmönnum, skulu uppfylla viðkomandi „grunnkröfur“ sem mælt er fyrir um í III. viðauka.
2.     Einstaklingur má aðeins vera í hlutverki flugmanns ef hann er handhafi skírteinis og læknisvottorðs, sem er viðeigandi fyrir starfræksluna sem á að fara fram, nema hann sé í þjálfun.
Einungis skal gefa út skírteini fyrir einstakling ef hann fer að reglunum sem settar voru til að tryggja að grunnkröfurnar um bóklega þekkingu, verklega færni, tungumálafærni og reynslu, eins og þær eru settar fram í III. viðauka, séu uppfylltar.
Einungis skal gefa út læknisvottorð fyrir einstakling ef hann fer að reglunum sem settar voru til að tryggja að grunnkröfurnar um líkamlegt hæfi, eins og þær eru settar fram í III. viðauka, séu uppfylltar. Einungis fluglæknum eða fluglæknasetrum er heimilt að gefa út þessi læknisvottorð.
Þrátt fyrir þriðju undirgrein, ef um er að ræða flugmannsskírteini til tómstundaflugs er heimilislækni, sem hefur nægilega ítarlega þekkingu á sjúkrasögu umsækjandans, heimilt, ef landslög leyfa, að gegna hlutverki fluglæknis í samræmi við nákvæmar framkvæmdarreglur, sem voru samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 65. gr., en þessar framkvæmdarreglur skulu tryggja að öryggisstiginu sé viðhaldið.
Réttindin, sem flugmanninum eru veitt og gildissvið skírteinisins og læknisvottorðsins, skulu tilgreind á slíku skírteini og vottorði.
Hægt er að uppfylla kröfurnar í annarri og þriðju undirgrein með því að samþykkja skírteini og læknisvottorð sem gefin eru út af þriðju löndum eða fyrir hönd þeirra að því er varðar flugmenn sem taka þátt í starfrækslu loftfara sem um getur í c-lið 1. mgr. 4. gr.
3.     Gefa skal út samþykki til viðurkenningar á getu fyrirtækja, sem sjá um þjálfun flugmanna, og fluglæknasetra, til að rækja þær skyldur sem tengjast réttindum þeirra til útgáfu skírteina og læknisvottorða. Gefa skal út samþykki fyrir fyrirtæki sem sjá um þjálfun flugmanna eða fluglæknasetur þegar þau eru í samræmi við reglurnar sem settar eru til að tryggja samræmi við viðkomandi grunnkröfur eins og mælt er fyrir um í III. viðauka. Réttindin sem samþykkin veita skulu tilgreind þar.
4.     Flugþjálfunartæki, sem notuð er til þjálfunar flugmanna, skulu háð vottun. Þetta vottorð skal gefið út þegar sýnt hefur verið fram á að tækið er í samræmi við reglurnar sem settar eru til að tryggja samræmi við viðkomandi grunnkröfur eins og mælt er fyrir um í III. viðauka.
5.     Einstaklingar, sem bera ábyrgð á að veita flugþjálfun eða þjálfun í flughermi eða að meta færni flugmanns, og fluglæknar skulu vera handhafar viðeigandi vottorðs. Slíkt vottorð skal gefið út þegar sýnt hefur verið fram á að hlutaðeigandi einstaklingar fari að reglunum sem settar eru til að tryggja samræmi við viðkomandi grunnkröfur eins og mælt er fyrir um í III. viðauka. Réttindin sem vottorðið veitir skulu tilgreind í því.
6.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar greinar með því að bæta við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í þessum ráðstöfunum skal tilgreina sérstaklega:
a)    mismunandi áritanir sem eru skráðar í flugmannsskírteini og læknisvottorð sem eru fullnægjandi fyrir mismunandi tegundir starfa sem framkvæmd eru,
b)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla skírteinin, áritanir skráðar í skírteini, læknisvottorð, samþykki og vottorð, sem um getur í 2., 3., 4. og 5. lið, og samkvæmt hvaða skilyrðum er ekki nauðsynlegt að krefjast slíkra vottorða og samþykkja,
c)    réttindi og skyldur handhafa skírteina, áritana skráðar í skírteini, læknisvottorða, samþykkja og vottorða sem um getur í 2., 3., 4. og 5. lið,
d)    skilyrðin fyrir því að breyta núverandi landsbundnum flugmannsskírteinum og landsbundnum flugvélstjóraskírteinum í flugmannsskírteini sem og skilyrðin fyrir því að breyta landsbundum læknisvottorðum í almenn viðurkennd læknisvottorð,
e)    með fyrirvara um ákvæði tvíhliða samninga, sem gerðir voru í samræmi við 12. gr., skilyrðin fyrir samþykki skírteina frá þriðju löndum,
f)    hvernig flugmenn loftfara, sem um getur í ii. lið a-liðar, d- og f-lið II. viðauka, þegar þau eru notuð til flutningaflugs, uppfylla viðkomandi grunnkröfur í III. viðauka.
7.     Þegar framkvæmdastjórnin samþykkir ráðstafanirnar, sem um getur í 6. mgr., skal hún gæta þess sérstaklega að þær endurspegli stöðu tækninnar hverju sinni, þ.m.t. bestu starfsvenjur og framfarir á sviði vísinda og tækni á sviði þjálfunar flugmanna. Slíkar ráðstafanir skulu einnig fela í sér ákvæði að því er varðar allar gerðir flugmannsskírteina og áritana sem krafist er samkvæmt Chicago-samningnum og flugmannsskírteini til tómstundaflugs sem tekur til starfsemi sem er ekki í ábataskyni með loftförum með skráðan hámarksflugtaksmassa, sem er 2 000 kg eða minni, og sem uppfylla ekki neina af viðmiðununum sem um getur í j-lið 3. gr.

8. gr.
Starfræksla loftfara

1.     Starfræksla loftfara, sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 4. gr., skal uppfylla grunnkröfur um lofthæfi sem mælt er fyrir um í IV. viðauka.
2.     Flugrekendur, sem stunda rekstur í ábataskyni, skulu sanna hæfni sína og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast réttindum þeirra, nema annað sé ákvarðað í framkvæmdarreglunum. Þessi hæfni og geta skal viðurkennd með útgáfu vottorðs. Réttindin, sem flugrekandanum eru veitt, og umfang starfrækslunnar skulu tilgreind í vottorðinu.
3.     Flugrekendur sem stunda flug, sem er ekki í ábataskyni, með flóknum, vélknúnum loftförum skulu lýsa yfir hæfni sinni og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast starfrækslu þess loftfars, nema annað sé ákvarðað í framkvæmdarreglunum.
4.     Öryggis- og þjónustuliðar sem taka þátt í starfrækslu loftfara, sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 4. gr., skulu uppfylla grunnkröfurnar sem mælt er fyrir um í IV. viðauka. Þeir sem stundu rekstur í ábataskyni skulu hafa undir höndum staðfestingu eins og upphaflega var sett fram í d-lið OPS 1.1005 í kafla O í III. viðauka í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91°( 1 ) en aðildarríkið ákvarðar hvort samþykktir flugrekendur eða fyrirtæki, sem sjá um þjálfun, megi gefa út slíka staðfestingu.
5.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar greinar með því að bæta við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í þessum ráðstöfunum skal tilgreina sérstaklega:
a)    skilyrði um að starfrækja loftfar í samræmi við grunnkröfurnar sem mælt er fyrir um í IV. viðauka,
b)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla vottorðin, sem um getur í 2. lið, og samkvæmt hvaða skilyrðum yfirlýsing um hæfni og getu flugrekanda til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast starfrækslu loftfarsins eigi að koma í stað vottorðs,
c)    réttindi og skyldur handhafa vottorða,
d)    skilyrði og verklag að því er varðar yfirlýsingu frá flugrekendum, sem um getur í 3. lið, og eftirlit með þeim og samkvæmt hvaða skilyrðum yfirlýsing eigi að koma í stað þess að sýnt sé fram á hæfni og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast réttindum flugrekanda sem eru viðurkennd með útgáfu vottorðs,
e)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla staðfestingu öryggis- og þjónustuliða sem um getur í 4. mgr.,
f)    við hvaða skilyrði starfræksla skal bönnuð, takmörkuð eða háð tilteknum skilyrðum í öryggisskyni,
g)    hvernig starfræksla loftfara, sem um getur í ii. lið a-liðar, d- og h-lið II. viðauka, þegar þau eru notuð til flutningaflugs, uppfylli viðkomandi grunnkröfur IV. viðauka.
6.     Ráðstafanirnar, sem um getur í 5. lið, skulu:
–    endurspegla stöðu tækninnar hverju sinni og bestu starfsvenjur á sviði starfrækslu loftfara,
–    skilgreina mismunandi tegundir starfrækslu og taka tillit til tengdra krafna og staðfestinga á samræmi sem er í réttu hlutfalli við það hversu flókin starfrækslan er og áhættuna sem í henni felst,
–    taka tillit til reynslunnar af rekstri loftfara um heim allan og til framfara í vísindum og tækni,
–    með tilliti til flutningaflugs með flugvélum og með fyrirvara um undirliðinn hér að framan, þróaðar upphaflega á grunni sameiginlegra tæknikrafna og stjórnsýslumeðferðar sem tilgreindar eru í III. viðauka við reglugerð (EBE) nr. 3922/91,
–    byggðar á áhættumati og vera í hlutfalli við umfang og gildissvið starfrækslunnar,
–    veita svigrúm til að bregðast tafarlaust við til að komast að orsökum slysa og alvarlegra flugatvika.
–    ekki gera kröfur, að því er varðar loftför sem um getur í c-lið 1. mgr. 4. gr., sem væru ósamrýmanlegar skyldum aðildarríkjanna við Alþjóðaflugmálastofnunina.

9. gr.
Loftför sem flugrekandi í þriðja landi notar til flugs til Bandalagsins, innan þess eða frá því

1.     Loftför, sem um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr. sem og áhöfn þeirra og starfræksla, skulu vera í samræmi við gildandi staðla Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Ef engir slíkir staðlar eru til skulu þessi loftför og starfræksla þeirra vera í samræmi við kröfurnar, sem mælt er fyrir um í I., III. og IV. viðauka, svo fremi að þessar kröfur stangist ekki á við réttindi þriðju landa samkvæmt alþjóðasamningum.
2.     Flugrekendur, sem stunda rekstur í ábataskyni og nota loftför sem um getur í 1. mgr., skulu sýna fram á hæfni sína og getu til að uppfylla kröfurnar sem tilgreindar eru í 1. mgr.
Hægt er að uppfylla kröfuna, sem um getur í fyrstu undirgrein, með því að samþykkja vottorðin sem gefin eru út af þriðju löndum eða fyrir hönd þeirra.
Hæfnin og getan, sem um getur í fyrstu undirgrein, skal viðurkennd með útgáfu heimildar. Réttindin, sem flugrekandanum eru veitt, og umfang starfrækslunnar skulu tilgreind í þessari heimild.
3.     Heimilt er að krefjast þess að flugrekendur, sem starfrækja flug á flóknum, vélknúnum loftförum, sem ekki er í ábataskyni, og nota til þess loftför, sem um getur í 1. mgr., lýsi yfir hæfni sinni og getu til að leysa af hendi þau skyldustörf sem tengjast starfrækslu þessara loftfara.
4.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar greinar með því að bæta við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í þessum ráðstöfunum skal tilgreina sérstaklega:
a)    hvernig loftförum, sem um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr., eða áhöfn, sem eru ekki með staðlað lofthæfivottorð eða skírteini frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, sé heimilt að fljúga til Bandalagsins, innan þess og frá því,
b)    skilyrði fyrir því að starfrækja loftfar í samræmi við ákvæði 1. mgr.,
c)    skilyrðin fyrir því að gefa út, viðhalda, breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla heimild flugrekandans, sem um getur í 2. mgr., að teknu tilliti til vottorðanna sem skráningarríkið eða ríki flugrekandans gefur út, sbr. þó reglugerð (EB) nr. 2111/2005 og reglur um framkvæmd hennar,
d)    réttindi og skyldur handhafa heimilda,
e)    skilyrði og verklag að því er varðar yfirlýsingu flugrekenda og eftirlit með þeim sem um getur í 3. mgr.,
f)    við hvaða skilyrði starfræksla skal bönnuð, takmörkuð eða háð tilteknum skilyrðum í öryggisskyni, í samræmi við 1. mgr. 22. gr.
5.     Þegar framkvæmdastjórnin samþykkir ráðstafanirnar, sem um getur í 4. mgr., skal hún gæta þess sérstaklega:
a)    að notaðar séu, eftir því sem við á, ráðlagðar starfsvenjur og leiðbeiningarskjöl Alþjóðaflugmálastofnunarinnar,
b)    að engin krafa gangi lengra en það sem krafist er af loftförum sem um getur í b-lið 1. mgr. 4. gr og af flugrekendum slíkra loftfara,
c)    að notaðar séu, eftir því sem við á, ráðstafanirnar sem gefnar eru út í samræmi við 5. mgr. 5. gr. og 5. mgr. 8. gr.,
d)    að ferlið við að afla heimildar sé einfalt, hlutfallsbundið, kostnaðarhagkvæmt og skilvirkt í öllum tilvikum og taki tillit til tengdra krafna og staðfestinga á samræmi í réttu hlutfalli við það hversu flókin starfrækslan er og áhættan sem í henni felst. Ferlið skal einkum taka tillit:
    i.    til niðurstaðna úttektaráætlunar sem Alþjóðaflugmálastofnunin hefur unnið í tengslum við alþjóðlegt eftirlit með öryggismálum (USOAP),
    ii.    til upplýsinga, sem fást úr skoðun á hlaði og skrám áætlunar um öryggisskoðanir erlendra loftfara (SAFA), og
    iii.    til annarra viðurkenndra upplýsinga um öryggisþætti með tilliti til hlutaðeigandi flugrekanda.

10. gr.
Eftirlit og framfylgd

1.     Aðildarríkin, framkvæmdastjórnin og Flugöryggisstofnunin skulu starfa saman að því að tryggja að allar framleiðsluvörur, einstaklingar eða fyrirtæki, sem falla undir þessa reglugerð, séu í samræmi við ákvæði hennar og framkvæmdarreglur.
2.     Að þvi er varðar framkvæmd 1. mgr., skulu aðildarríkin, auk þess að hafa eftirlit með vottorðum sem þau hafa gefið út, framkvæma rannsóknir, þ.m.t. skoðanir á hlaði, og gera allar ráðstafanir, þ.m.t. að setja loftför í flugbann, til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot.
3.     Að því er varðar framkvæmd 1. mgr., skal Flugöryggisstofnunin framkvæma rannsóknir í samræmi við 2. mgr. 24. gr. og 55. gr.
4.     Til að greiða fyrir því að lögbær yfirvöld grípi til viðeigandi framfylgdaraðgerða skulu aðildarríkin, framkvæmdastjórnin og Flugöryggisstofnunin skiptast á upplýsingum um brot sem hafa verið staðfest.
5.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar greinar með því að bæta við hana, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í þessum ráðstöfunum skal tilgreina sérstaklega:
a)    skilyrði fyrir söfnun, skiptum á upplýsingum og dreifingu þeirra,
b)    skilyrði fyrir framkvæmd skoðana á hlaði, þ.m.t. kerfisbundnar skoðanir,
c)    skilyrði fyrir því að setja flugbann á loftför sem uppfylla ekki kröfur þessarar reglugerðar eða framkvæmdarreglna hennar.

11. gr.
Viðurkenning vottorða

1.     Aðildarríkin skulu viðurkenna vottorð, sem gefin eru út í samræmi við þessa reglugerð, án frekari tæknikrafna eða mats. Ef upprunaleg viðurkenning varðar eitt eða fleiri tiltekin markmið skulu síðari viðurkenningar aðeins taka til þess eða þeirra markmiða.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis eða Flugöryggisstofnunarinnar, að hefja málsmeðferðina, sem um getur í 7. mgr. 65. gr., til að ákveða hvort vottorð, sem gefið er út í samræmi við þessa reglugerð, uppfylli með skilvirkum hætti þessa reglugerð og reglur um framkvæmd hennar.
Ef reglugerðin er ekki uppfyllt eða ekki uppfyllt á skilvirkan hátt skal framkvæmdastjórnin krefjast þess að útgefandi vottorðsins grípi til viðeigandi aðgerða til úrbóta og verndarráðstafana, s.s. takmarkana á vottorði eða tímabundinnar ógildingar. Ennfremur skulu ákvæði 1. mgr. falla úr gildi fyrir vottorðið frá þeim degi þegar aðildarríkjunum er tilkynnt um ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.
3.     Þegar framkvæmdastjórnin hefur nægilega sönnun fyrir því að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða af hálfu útgefanda, sem um getur í 2. mgr., til að ráða bót á annmörkum í þeim tilvikum sem reglugerðin er ekki uppfyllt eða ekki uppfyllt með skilvirkum hætti og að verndarráðstafanir séu ekki lengur nauðsynlegar skal hún ákveða að ákvæði 1. mgr. gildi á ný fyrir þetta vottorð. Þessi ákvæði skulu gilda frá þeim degi sem aðildarríkjunum er tilkynnt um þessa ákvörðun,
4.     Heimilt er að gefa út vottorð, sem ekki er unnt að gefa út í samræmi við þessa reglugerð, á grundvelli gildandi, landsbundinna reglna uns ráðstafanirnar, sem um getur í 5. gr. (5. mgr.), 7. gr. (6. mgr.) og 9. gr. (4. mgr.) hafa verið samþykktar, sbr. þó 4. mgr. 69. gr.
5.     Heimilt er að gefa út vottorð, sem ekki er unnt að gefa út í samræmi við þessa reglugerð, á grundvelli gildandi, landsbundinna reglna, eða eftir því sem við á, á grundvelli viðkomandi krafna reglugerðar (EBE) nr 3922/91 uns framkvæmdarreglurnar, sem um getur í 5. mgr. 8. gr., hafa verið samþykktar, sbr. þó 4. mgr. 69. gr.
6.     Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á reglugerð (EB) nr. 2111/2005 og reglur um framkvæmd hennar.

12. gr.
Viðurkenning á vottun þriðja lands

1.     Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar og reglur um framkvæmd hennar er Flugöryggisstofnuninni eða flugmálayfirvöldum í aðildarríki heimilt að gefa út vottorð og skírteini á grundvelli vottorða, sem flugmálayfirvöld í þriðja landi hafa gefið út, í samræmi við samninga um gagnkvæma viðurkenningu milli Bandalagsins og viðkomandi þriðja lands.
2. a)    Hafi Bandalagið ekki gert slíkan samning getur aðildarríki eða Flugöryggisstofnunin gefið út vottorð á grundvelli vottorða sem lögbær yfirvöld þriðja lands hafa gefið út á grundvelli samnings sem aðildarríkið og viðkomandi þriðja land höfðu gert með sér áður en viðeigandi ákvæði þessarar reglugerðar öðluðust gildi og sem framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hafði verið tilkynnt um. Flugöryggisstofnuninni er einnig heimilt að gefa út slík vottorð fyrir hönd aðildarríkis á grundvelli samnings sem eitthvert aðildarríkjanna hefur gert við viðkomandi þriðja land.
    b)    Ef framkvæmdastjórnin telur:
         –    að ákvæði samnings milli aðildarríkis og þriðja lands kveði ekki á um öryggi, sem er sambærilegt við það sem er tiltekið í þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar, og/eða
         –    að samningurinn mismuni aðildarríkjunum án þess að knýjandi öryggisástæður liggi því til grundvallar, eða fari í bága við utanríkisstefnu Bandalagsins gagnvart þriðja landi,
        getur hún, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 65. gr., krafist þess að hlutaðeigandi aðildarríki breyti samningnum eða hætti beitingu hans um tíma eða segi honum upp í samræmi við 307. gr. sáttmálans.
    c)    Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að segja sem fyrst upp slíkum samningum, eftir gildistöku samnings milli Bandalagsins og viðkomandi þriðja lands, að því er varðar málefni sem falla undir síðari samninginn.

13. gr.
Hæfir aðilar

Þegar hæfum aðila er falið tiltekið vottunarverkefni skal Flugöryggisstofnunin eða flugmálayfirvöld aðildarríkisins, sem um ræðir, tryggja að slíkur aðili uppfylli viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í V. viðauka.

14. gr.
Ákvæði um sveigjanleika

1.     Ákvæði þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar skulu ekki koma í veg fyrir að aðildarríki geti tafarlaust brugðist við öryggisvanda sem tekur til framleiðsluvöru, aðila eða fyrirtækis sem fellur undir ákvæði þessarar reglugerðar. Aðildarríkið skal þegar í stað tilkynna Flugöryggisstofnuninni, framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar, og ástæður fyrir þeim.
2. a)    Flugöryggisstofnunin skal meta hvort hægt sé að taka á öryggisvandanum innan þeirra heimilda sem henni eru veittar í samræmi við d-lið 18. gr. Í þessu tilviki skal hún, innan mánaðar frá því að tilkynnt er um það skv. 1. mgr., taka viðeigandi ákvörðun.
    b)    Ef Flugöryggisstofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að taka á öryggisvandanum, í samræmi við a-lið, skal hún innan tímabilsins, sem um getur í þeim lið, gefa út tilmæli, í samræmi við b-lið 18. gr., um hvort þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar skuli breytt og hvort tilkynntar ráðstafanir skuli afturkallaðar eða þeim viðhaldið.
3.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, m.a. með því að bæta við hana, og í tengslum við það hvort ófullnægjandi öryggi eða annmarki á þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar réttlæti breytingar á þeim og hvort halda megi áfram að beita ráðstöfunum, sem samþykktar eru skv. 1. mgr., í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr. Í því tilviki skulu öll aðildarríkin framkvæma ráðstafanirnar, eftir því sem við á, og ákvæði 11. gr. skulu gilda um slíkar ráðstafanir. Ef niðurstaðan er sú að ráðstafanirnar séu ekki réttlætanlegar skal hlutaðeigandi aðildarríki afturkalla þær.
4.     Aðildarríki er heimilt að veita undanþágur frá efnislegum kröfum, sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar, vegna ófyrirséðra, brýnna aðstæðna eða þarfa við starfrækslu sem vara í takmarkaðan tíma, að því tilskildu að það hafi ekki þau áhrif að dregið sé úr öryggi. Tilkynna skal Flugöryggisstofnuninni, framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um allar slíkar undanþágur um leið og þær eru endurteknar eða ef þær eru veittar til lengri tíma en tveggja mánaða.
5.     Flugöryggisstofnunin skal meta hvort undanþágurnar, sem aðildarríki hefur tilkynnt um, hafi minni áhrif til takmörkunar en gildandi ákvæði Bandalagsins og skal hún, innan mánaðar frá því tilkynnt er um þær, gefa út tilmæli, í samræmi við b-lið 18. gr., um hvort undanþágurnar samrýmist almennum öryggismarkmiðum þessarar reglugerðar eða annarrar reglu laga Bandalagsins. Ef undanþága samræmist ekki almennum öryggismarkmiðum þessarar reglugerðar eða annarrar reglu laga Bandalagsins skal framkvæmdastjórnin taka ákvörðun um að leyfa ekki undanþágu í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 7. mgr. 65. gr. Þegar svo er skal hlutaðeigandi aðildarríki afturkalla undanþáguna.
6.     Ef unnt er að veita sambærilega vernd og fæst með beitingu reglnanna um framkvæmd þessarar reglugerðar eftir öðrum leiðum er aðildarríkjunum heimilt að veita samþykki, sem víkur frá þessum framkvæmdarreglum, án mismununar á grundvelli þjóðernis. Í slíkum tilvikum skal hlutaðeigandi aðildarríki tilkynna Flugöryggisstofnuninni og framkvæmdastjórninni að það hyggist veita slíkt samþykki og færa rök fyrir því, þar sem sýnt er fram á nauðsyn þess að víkja frá viðkomandi reglu, og tilgreina skilyrðin sem sett eru til að ná fram sambærilegri vernd.
7.     Flugöryggisstofnunin skal, innan tveggja mánaða frá því að henni berst tilkynning í samræmi við 6. mgr. gefa út tilmæli, í samræmi við b-lið 18. gr., um hvort samþykki, sem gerð er tillaga um í samræmi við 6. mgr., uppfylli skilyrðin sem mælt er fyrir um í þeirri málsgrein.
Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, með því að bæta við hana, að því er varðar hvort heimilt sé að veita samþykki, sem gerð er tillaga um í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 6. mgr. 65. gr., innan mánaðar frá því að tilmæli Flugöryggisstofnunarinnar berast. Í því tilviki skal framkvæmdastjórnin tilkynna öllum aðildarríkjunum um ákvörðun sína og skulu þau einnig eiga rétt á að beita þeirri ráðstöfun. Ákvæði 15. gr. gilda um viðkomandi ráðstöfun.

15. gr.
Upplýsinganet

1.     Framkvæmdastjórnin, Flugöryggisstofnunin og flugmálayfirvöld aðildarríkjanna skulu skiptast á upplýsingum sem þau hafa undir höndum og varða beitingu þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar. Aðilar, sem falið er að rannsaka flugslys og flugatvik í almenningsflugi eða greina atvik, eiga rétt á aðgangi að þessum upplýsingum.
2.     Með fyrirvara um rétt almennings til aðgangs að skjölum framkvæmdastjórnarinnar, eins og mælt er fyrir um í reglugerð (EB) nr. 1049/2001, skal framkvæmdastjórnin samþykkja ráðstafanir um að miðla upplýsingunum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, til hagsmunaaðila, að eigin frumkvæði og í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 65. gr. Þessar ráðstafanir, sem geta verið almennar eða sértækar, skulu byggjast á nauðsyn þess:
a)    að veita aðilum og fyrirtækjum nauðsynlegar upplýsingar til að þessir aðilar geti bætt flugöryggi,
b)    að takmarka miðlun upplýsinga við það sem er alveg nauðsynlegt fyrir notendur þeirra með það fyrir augum að tryggja viðeigandi leynd þessara upplýsinga.
3.     Flugmálayfirvöld aðildarríkjanna skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir í samræmi við landslöggjöf til að tryggja viðeigandi leynd upplýsinga sem þau fá skv. 1. mgr.
4.     Flugöryggisstofnunin skal gefa út árlega öryggisskýrslu til að upplýsa almenning um almenna stöðu öryggismála. Frá gildistöku ráðstafananna, sem um getur í 5. mgr. 10. gr., skal þessi öryggisskýrsla innihalda greiningu á öllum upplýsingum sem berast skv. 10. gr. Greiningin skal vera einföld og auðskiljanleg og skal hún upplýsa hvort öryggisáhætta hafi aukist. Ekki skal upplýsa í þessari greiningu hver það er sem veitti upplýsingarnar.

16. gr.
Vernd heimildarmanna

1.     Ef einstaklingur veitir framkvæmdastjórninni eða Flugöryggisstofnun upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 15. gr., af fúsum og frjálsum vilja skal ekki upplýsa hver það er sem veitti upplýsingarnar. Ef upplýsingarnar eru veittar landsyfirvaldi skal heimildarmaður njóta verndar í samræmi við landslög.
2.     Án þess að það hafi áhrif á gildandi refsilöggjöf skulu aðildarríkin láta vera að höfða dómsmál, að því er varðar brot á lögum af óyfirlögðu ráði eða óviljandi, en þessi mál koma aðeins til kasta aðildarríkjanna ef þau hafa verið tilkynnt samkvæmt þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar.
Þessi regla gildir ekki í tilvikum þar sem um stórfellt gáleysi er að ræða.
3.     Án þess að það hafi áhrif á gildandi refsilöggjöf og í samræmi við málsmeðferðina, sem sett er fram í landslögum og venjum, skulu aðildarríkin tryggja að vinnuveitendur láti starfsmenn, sem veita upplýsingar við beitingu þessarar reglugerðar og reglna hennar um framkvæmd, ekki líða fyrir það.
Þessi regla gildir ekki í tilvikum þar sem um stórfellt gáleysi er að ræða.
4.     Þessi grein gildir með fyrirvara um landsreglur sem varða aðgang dómsmálayfirvalda að upplýsingum.

III. KAFLI
FLUGÖRYGGISSTOFNUN EVRÓPU
I. ÞÁTTUR
Verkefni

17. gr.
Stofnun og hlutverk Flugöryggisstofnunarinnar

1.     Stofna skal Flugöryggisstofnun Evrópu til framkvæmdar þessari reglugerð.
2.     Til að tryggja eðlilega framkvæmd og þróun öryggis í almenningsflugi skal Flugöryggisstofnunin:
a)    taka að sér hvers konar verkefni og skila álitsgerðum í öllum málaflokkum sem falla undir 1. mgr. 1. gr.,
b)    aðstoða framkvæmdastjórnina með því að undirbúa ráðstafanir sem gera þarf til framkvæmdar þessari reglugerð. Þegar þessar ráðstafanir taka til tæknilegra reglna, einkum reglna sem varða smíði og hönnun og starfræksluþætti, er framkvæmdastjórninni ekki heimilt að breyta þeim efnislega nema að undangengnu samráði við Flugöryggisstofnunina; Flugöryggisstofnunin skal einnig veita framkvæmdastjórninni þá tæknilegu, vísindalegu og stjórnsýslulegu aðstoð sem hún þarfnast við störf sín,
c)    gera nauðsynlegar ráðstafanir innan marka þeirra heimilda sem henni eru veittar í þessari reglugerð eða annarri löggjöf Bandalagsins,
d)    framkvæma nauðsynlega skoðun og rannsóknir til að leysa af hendi verkefni sín,
e)    annast störf og verkefni, á sínu valdsviði og fyrir hönd aðildarríkjanna, sem aðildarríkjunum hafa verið fengin með gildandi alþjóðasamningum, einkum Chicago-samningnum.

18. gr.
Ráðstafanir Flugöryggisstofnunar

Flugöryggisstofnunin skal, þegar við á:
a)    gefa út álitsgerðir sem beint er til framkvæmdastjórnarinnar,
b)    gefa út tilmæli sem beint er til framkvæmdastjórnarinnar um beitingu 14. gr.,
c)    gefa út vottunarforskriftir, þ.m.t. lofthæfireglur og ásættanlegar aðferðir við að uppfylla kröfur, sem og leiðbeiningar um beitingu þessarar reglugerðar og reglur um framkvæmd hennar,
d)    taka viðeigandi ákvarðanir um beitingu 20., 21., 22., 23., 54. og 55. gr.,
e)    gefa út skýrslur í kjölfar eftirlits með stöðlun sem fer fram skv. 1. mgr. 24. gr. og 54. gr.

19. gr.
Álitsgerðir, vottunarforskriftir og leiðbeiningar

1.     Til að aðstoða framkvæmdastjórnina við undirbúning tillagna um grundvallarreglur, gildissvið og grunnkröfur, sem leggja skal fyrir Evrópuþingið og ráðið, og við samþykkt framkvæmdarreglnanna, skal Flugöryggisstofnunin semja drög að þessum tillögum og reglum. Flugöryggisstofnunin skal leggja drögin fyrir framkvæmdastjórnina í formi álitsgerða.
2.     Flugöryggisstofnunin skal, í samræmi við 52. gr. og framkvæmdarreglurnar, sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt:
a)    semja vottunarforskriftir, þ.m.t. lofthæfireglur og ásættanlegar aðferðir við að uppfylla kröfur, og
b)    semja leiðbeiningar
sem nota skal við vottunina.
Þessi skjöl skulu endurspegla stöðu tækninnar hverju sinni og bestu starfsvenjur á sviði lofthæfi og skulu uppfærðar með tilliti til reynslunnar um heim allan af rekstri loftfara og með tilliti til framfara í vísindum og tækni.

20. gr.
Lofthæfi- og umhverfisvottun

1.     Að því er framleiðsluvörur og hluta þeirra og búnað, sem um getur í a- og b-lið 1. mgr. 4. gr., skal Flugöryggisstofnunin, þegar við á og eins og tilgreint er í Chicago-samningnum eða viðaukum hans, annast störf og verkefni hönnunar-, framleiðslu- eða skráningarríkisins fyrir hönd aðildarríkjanna í tengslum við hönnunarsamþykki. Í þessu skyni skal Flugöryggisstofnunin einkum:
a)    ákvarða og tilkynna um tegundarvottunargrunn fyrir allar framleiðsluvörur sem sótt er um tegundarvottorð eða breytingu á tegundarvottorði fyrir; vottunargrunnurinn er samsettur úr viðeigandi lofthæfireglum, ákvæðum, sem viðurkennt hefur verið að tryggi sambærilegt öryggi, og þeim sérstöku, ítarlegu tækniforskriftum sem nauðsynlegar eru þegar hönnunareiginleikar tiltekinna framleiðsluvara eða reynslan af notkun þeirra gera það að verkum að ákvæði lofthæfireglna eru ófullnægjandi eða henta ekki til að tryggja samræmi við grunnkröfur,
b)    ákvarða og tilkynna sérstakar lofthæfiforskriftir fyrir hverja framleiðsluvöru sem sótt er um takmarkað lofthæfivottorð fyrir,
c)    ákvarða og tilkynna ítarlegar lofthæfiforskriftir fyrir hvern hluta eða búnað sem sótt er um vottorð fyrir,
d)    ákvarða og tilkynna viðeigandi umhverfiskröfur fyrir hverja framleiðsluvöru sem krafist er umhverfisvottunar fyrir í samræmi við 6. gr.,
e)    annast rannsókn sem tengist vottun á framleiðsluvöru, hluta og búnaði, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila,
f)    gefa út viðeigandi tegundarvottorð eða breytingar á þeim,
g)    gefa út vottorð fyrir hluta og búnað,
h)    gefa út viðeigandi umhverfisvottorð,
i)    breyta, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla viðkomandi vottorð þegar skilyrðum fyrir útgáfu þess er ekki lengur fullnægt eða ef lögaðili eða einstaklingur, sem er handhafi vottorðsins, rækir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar,
j)    tryggja áframhaldandi lofthæfi framleiðsluvara og hluta þeirra og búnaðar, sem hún hefur eftirlit með, þ.m.t. að bregðast við öryggisvanda án ótilhlýðilegrar tafar og gefa út og miðla viðeigandi upplýsingum sem skylt er að veita,
k)    ákveða staðla og verklag til að uppfylla a-lið 4. mgr. 5. gr. að því er varðar lofthæfi fyrir loftför sem á að gefa út flugleyfi fyrir,
l)    gefa út flugleyfi fyrir loftför, að því er varðar vottun undir eftirliti Flugöryggisstofnunarinnar, í samráði við aðildarríkið þar sem loftfarið er skráð eða fyrirhugað er að skrá það.
2.     Að því er varðar fyrirtæki skal Flugöryggisstofnunin:
a)    annast skoðun og úttekt fyrirtækja sem hún vottar, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila,
b)    gefa út og endurnýja vottorð fyrir:
    i.    hönnunarfyrirtæki eða
    ii.    framleiðslufyrirtæki, sem eru á yfirráðasvæði aðildarríkja, ef viðkomandi aðildarríki óskar þess, eða
    iii.    framleiðslufyrirtæki og viðhaldsfyrirtæki sem eru utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna,
c)    breyta, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla viðkomandi fyrirtækjavottorð þegar skilyrðum fyrir útgáfu þess er ekki lengur fullnægt eða ef viðkomandi fyrirtæki rækir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar.

21. gr.
Vottun flugmanna

1.     Með tilliti til þess starfsfólks og þeirra fyrirtækja sem um getur í 1. mgr. 7. gr. skal Flugöryggisstofnunin:
a)    annast rannsóknir og úttekt fyrirtækja sem hún vottar, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila og eftir því sem við á starfsfólk þess,
b)    gefa út og endurnýja vottorð fyrirtækja sem sjá um þjálfun flugmanna og fluglæknasetra sem staðsett eru utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna og eftir því sem við á starfsfólk þeirra,
c)    breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla viðkomandi vottorð þegar skilyrðum fyrir útgáfu þess er ekki lengur fullnægt eða ef lögaðili eða einstaklingur, sem er handhafi vottorðsins, rækir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar.
2.     Með tilliti til þeirra flugþjálfunartækja sem um getur í 1. mgr. 7. gr. skal Flugöryggisstofnunin:
a)    annast tækniskoðun tækja sem hún vottar, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila,
b)    gefa út og endurnýja vottorð fyrir:
    i.    flugþjálfunartæki, sem notuð eru af þjálfunarfyrirtækjum, sem Flugöryggisstofnunin vottar, eða
    ii.    flugþjálfunartæki, sem eru á yfirráðasvæði aðildarríkja, ef viðkomandi aðildarríki óskar þess, eða
    iii.    flugþjálfunartæki sem eru utan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna,
c)    breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla viðkomandi vottorð þegar skilyrðum fyrir útgáfu þess er ekki lengur fullnægt eða ef lögaðili eða einstaklingur, sem er handhafi vottorðsins, rækir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar.

22. gr.
Vottun flugrekstrar

1.     Flugöryggisstofnunin skal bregðast, án ótilhlýðilegrar tafar, við vanda, sem hefur áhrif á öryggi flugrekstrar, með því að ákvarða aðgerðir til úrbóta og dreifa tengdum upplýsingum, þ.m.t. til aðildarríkjanna.
2.     Með tilliti til flugtímamarka:
a)    skal Flugöryggisstofnunin gefa út viðeigandi vottunarforskriftir til að tryggja samræmi við grunnkröfur og, eftir því sem við á, tengdar reglur um framkvæmd; í framkvæmdarreglunum skulu upphaflega vera öll þýðingarmikil ákvæði Q-kafla í III. viðauka við reglugerð (EBE) nr. 3922/91, að teknu tilliti til nýjustu vísinda- og tækniþekkingar,
b)    er aðildarríki heimilt að samþykkja stakar áætlanir um flugtímaforskriftir sem víkja frá vottunarforskriftunum sem um getur í a-lið; í því tilviki skal aðildarríkið tilkynna Flugöryggisstofnuninni og hinum aðildarríkjunum án tafa að það hafi í hyggju að veita samþykki fyrir slíkri stakri áætlun,
c)    skal Flugöryggisstofnunin, eftir að henni hefur borist tilkynning, innan mánaðar meta stöku áætlunina á grundvelli vísindalegs og læknisfræðilegs mats. Eftir það er hlutaðeigandi aðildarríki heimilt að veita samþykki eins og tilkynnt hefur verið nema Flugöryggisstofnunin hafi rætt áætlunina við það aðildarríki og lagt til breytingar á því; sé aðildarríkið sammála þessum breytingum er því heimilt að veita samþykki til samræmis við það,
d)    er heimilt, ef upp koma ófyrirséðar, brýnar aðstæður eða þarfir að því er varðar flugrekstur, sem vara í takmarkaðan tíma og eru þess eðlis að þær endurtaka sig ekki, að láta undanþágur frá vottunarforskriftum gilda tímabundið þar til Flugöryggisstofnunin hefur látið álit sitt í ljós,
e)    ef aðildarríki er ósammála niðurstöðum Flugöryggisstofnunarinnar, að því er varðar staka áætlun, skal það vísa málinu til framkvæmdastjórnarinnar sem ákveður hvort áætlunin uppfylli öryggismarkmið þessarar reglugerðar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 65. gr.,
f)    skal birta efni stakra áætlana sem Flugöryggisstofnunin samþykkir eða sem framkvæmdastjórnin hefur tekið jákvæða ákvörðun um í samræmi við e-lið.

23. gr.
Flugrekendur frá þriðja landi

1.     Með tilliti til flugrekenda loftfara, sem um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr., sem stunda rekstur í ábataskyni, skal Flugöryggisstofnunin:
a)    annast rannsóknir og úttekt fyrirtækja sem hún vottar, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila,
b)    gefa út og endurnýja heimildirnar, sem um getur í 2. mgr. 9. gr., nema aðildarríki sinni hlutverki og verkefnum ríkis flugrekandans með tilliti til þessara flugrekenda,
c)    breyta, takmarka, fella tímabundið úr gildi eða afturkalla viðkomandi heimildir þegar skilyrðum fyrir útgáfu þeirra er ekki lengur fullnægt eða ef viðkomandi fyrirtæki rækir ekki skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eða reglum um framkvæmd hennar.
2.     Með tilliti til flugrekenda loftfara, sem um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr., sem ekki stunda rekstur í ábataskyni, skal Flugöryggisstofnunin:
a)    taka á móti yfirlýsingunum, sem um getur í 3. mgr. 9. gr. og
b)    annast eftirlit með flugrekendum sem hún hefur fengið yfirlýsingar frá, annaðhvort sjálf eða með hjálp flugmálayfirvalda aðildarríkjanna eða hæfra aðila.
3.     Með tilliti til loftfara, sem um getur í d-lið 1. mgr. 4. gr., skal Flugöryggisstofnunin veita heimildir í samræmi við a-lið 4. mgr. 9. gr.

24. gr.
Eftirlit með beitingu reglnanna

1.     Flugöryggisstofnunin skal annast eftirlit með stöðlun á sviðum, sem falla undir 1. mgr. 1. gr., til að hafa eftirlit með því hvernig lögbær landsyfirvöld beita þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar og skal hún gefa framkvæmdastjórninni skýrslu þar að lútandi.
2.     Flugöryggisstofnunin skal annast rannsóknir á fyrirtækjum til að fylgjast með beitingu þessarar reglugerðar og reglum um framkvæmd hennar.
3.     Flugöryggisstofnunin skal meta áhrif framkvæmdar þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar, að teknu tilliti til markmiðanna sem sett eru fram í 2. gr.
4.     Hafa skal samráð við Flugöryggisstofnunina og hún skal gefa út tilmæli til framkvæmdastjórnarinnar um beitingu 14. gr.
5.     Vinnuaðferðir Flugöryggisstofnunarinnar við lausn verkefnanna, sem um getur í 1., 3. og 4. mgr., skulu háðar kröfum, sem samþykktar verða í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 65. gr., að teknu tilliti til meginreglnanna sem mælt er fyrir um í 52. og 53. gr.

25. gr.
Sektir eða févíti

1.     Að beiðni Flugöryggistofnunarinnar er framkvæmdastjórninni heimilt, með fyrirvara um 20. og 55. gr.:
a)    að leggja á einstaklinga og fyrirtæki, sem Flugöryggisstofnunin hefur veitt vottorð, sektir ef ákvæði þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar hafa verið brotin af ásettu ráði eða af gáleysi,
b)    að leggja á einstaklinga og fyrirtæki, sem Flugöryggisstofnunin hefur veitt vottorð, févíti, sem reiknast frá deginum sem ákveðinn er í ákvörðuninni, til að þvinga þessa einstaklinga og fyrirtæki til að uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar.
2.     Sektir og févíti, sem um getur í 1. mgr., skulu hafa letjandi áhrif og vera í réttu hlutfalli bæði við alvarleika málsins og fjárhagslega getu hlutaðeigandi handhafa vottorðs, einkum að teknu tilliti til þess að hvaða marki öryggi hefur verið stefnt í hættu. Fjárhæð sektanna skal ekki vera meiri en 4% af árstekjum eða ársveltu handhafa vottorðsins. Fjárhæð févíta skal ekki vera meiri en 2,5% af meðaldagsstekjum eða ársveltu handhafa vottorðsins.
3.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja ítarlegar reglur fyrir framkvæmd þessarar greinar í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 65. gr. Þá skal hún tilgreina sérstaklega:
a)    ítarlegar viðmiðanir til að ákveða fjárhæð sektar eða reglubundinna sektargreiðslna og
b)    málsmeðferð við fyrirspurnir, tengdar ráðstafanir og skýrslugjöf sem og reglur um málsmeðferð við ákvarðanatöku, þ.m.t. ákvæði um rétt til varnar, rétt á aðgangi að málsskjölum, rétt á málflutningsmanni, rétt til þagnarskyldu og tímabundin ákvæði um áætlun og innheimtu sekta og reglubundinna sektargreiðslna.
4.     Dómstóll Evrópubandalaganna skal hafa ótakmarkaða lögsögu til að endurskoða ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um sektir eða reglubundnar sektargreiðslur. Hann má fella niður, lækka eða hækka sektina eða reglubundnu sektargreiðsluna sem lögð er á.
5.     Ákvarðanir, sem teknar eru skv. 1. mgr. skulu ekki varða við hegningarlög.

26. gr.
Rannsóknir

1.     Með fyrirvara um lög Bandalagsins er Flugöryggisstofnuninni heimilt að framkvæma og fjármagna rannsóknir svo fremi að þær séu stranglega takmarkaðar við úrbætur í starfsemi á valdsviði hennar.
2.     Flugöryggisstofnunin skal samræma rannsóknar- og þróunarvinnu sína við rannsóknar- og þróunarvinnu framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna til að tryggja samræmi í stefnu og aðgerðum allra aðila.
3.     Birta skal niðurstöður rannsókna, sem Flugöryggisstofnunin hefur fjármagnað, að því tilskildu að Flugöryggisstofnunin flokki þær ekki sem trúnaðarmál.

27. gr.
Alþjóðasamskipti

1.     Flugöryggisstofnunin skal aðstoða Bandalagið og aðildarríkin í samskiptum þeirra við þriðju lönd í samræmi við viðeigandi lög Bandalagsins. Einkum skal aðstoða við samræmingu reglna og við gagnkvæma viðurkenningu að því er varðar samþykki sem staðfestir að reglum sé beitt á fullnægjandi hátt.
2.     Flugöryggisstofnunin getur átt samvinnu við flugmálayfirvöld þriðju landa og alþjóðastofnanir, sem starfa á þeim sviðum sem þessi reglugerð tekur til, innan ramma samstarfssamninga, sem gerðir eru við þessa aðila, í samræmi við viðeigandi ákvæði sáttmálans. Framkvæmdastjórnin skal hafa samþykkt slíkt fyrirkomulag fyrir fram.
3.     Flugöryggisstofnunin skal aðstoða aðildarríkin við að rækja alþjóðlegar skyldur sínar, einkum samkvæmt Chicago-samningnum.

II. ÞÁTTUR
Innra skipulag

28. gr.
Réttarstaða, staðsetning og staðarskrifstofur

1.     Flugöryggisstofnunin er Bandalagsstofnun. Hún hefur réttarstöðu lögaðila.
2.     Flugöryggisstofnunin skal hafa það rétthæfi og gerhæfi í hverju aðildarríki sem löggjöf þess framast veitir lögaðilum. Hún getur m.a. aflað og afsalað sér fasteignum og lausafé og tekið þátt í málarekstri.
3.     Flugöryggisstofnunin getur komið sér upp staðarskrifstofum í aðildarríkjunum ef þau samþykkja það.
4.     Forstjórinn er í forsvari fyrir Flugöryggisstofnunina.

29. gr.
Starfsfólk

1.     Starfsmannareglur embættismanna Evrópubandalaganna, ráðningarskilmálar annarra starfsmanna Evrópubandalaganna og reglur, sem stofnanir Evrópubandalaganna hafa samþykkt sameiginlega til beitingar þessum starfsmannareglum og ráðningarskilmálum, gilda um starfsfólk Flugöryggisstofnunarinnar, sbr. þó beitingu 39. gr. þessarar reglugerðar að því er varðar kærunefndarmenn.
2.     Með fyrirvara um 42. gr. skal Flugöryggisstofnunin hafa það vald gagnvart starfsfólki sínu sem yfirvaldi, sem skipar í stöður, er fengið samkvæmt starfsmannareglum og ráðningarskilmálum.
3.     Meðal starfsfólks Flugöryggisstofnunarinnar skulu vera embættismenn sem framkvæmdastjórnin eða aðildarríkin tilnefna eða senda til stjórnunarstarfa og er fjöldi þeirra stranglega takmarkaður. Við lausn verkefna sinna ræður Flugöryggisstofnunin annað starfsfólk eftir þörfum.

30. gr.
Sérréttindi og friðhelgi

Bókunin um sérréttindi og friðhelgi Evrópubandalaganna, sem fylgir með í viðauka við stofnsáttmála Evrópubandalaganna og sáttmálans um stofnun Kjarnorkubandalags Evrópu, gildir um Flugöryggisstofnunina.

31. gr.
Bótaábyrgð

1.     Bótaábyrgð Flugöryggisstofnunarinnar í samningamálum skal háð þeirri löggjöf sem gildir um viðkomandi samning.
2.     Dómstóll Evrópubandalaganna skal hafa vald til að kveða upp dóma á grundvelli gerðardómsákvæða í samningi sem Flugöryggisstofnunin hefur gert.
3.     Þegar um er að ræða bótaábyrgð sem er ekki samningsbundin ber Flugöryggisstofnuninni, samkvæmt almennum meginreglum í lögum aðildarríkjanna, að bæta allt tjón sem þjónustuaðilar eða starfsfólk hennar kunna að valda við skyldustörf sín.
4.     Dómstóll Evrópubandalaganna fer með dómsvald í deilumálum um bætur vegna hvers kyns tjóns sem um getur í 3. mgr.
5.     Persónuleg bótaábyrgð starfsfólks gagnvart Flugöryggisstofnuninni lýtur þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í starfsmannareglunum eða ráðningarskilmálum er gilda um starfsfólk Flugöryggisstofnunarinnar.

32. gr.
Birting skjala

1.     Með fyrirvara um ákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli 290. gr. sáttmálans, skulu eftirfarandi skjöl lögð fram á öllum opinberum tungumálum Bandalagsins:
a)    öryggisskýrslan, sem um getur í 4. mgr. 15. gr.,
b)    álitsgerðir, sem beint er til framkvæmdastjórnarinnar skv. 1. mgr. 19. gr.,
c)    almenna ársskýrslan og starfsáætlunin sem um getur í b- og c-lið 2. mgr. 33. gr.
2.     Þýðingamiðstöðin, sem þjónar stofnunum Evrópusambandsins, annast nauðsynlegar þýðingar vegna starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar.

33. gr.
Heimildir stjórnar

1.     Flugöryggisstofnunin skal hafa stjórn.
2.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal:
a)    skipa forstjóra og síðan framkvæmdastjóra á grundvelli tillögu frá forstjóra í samræmi við 39. gr.,
b)    samþykkja ársskýrslu um starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar og framsenda hana til Evrópuþingsins, ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar, endurskoðunarréttarins og aðildarríkjanna, eigi síðar en 15. júní; hún skal fyrir hönd Flugöryggisstofnunarinnar framsenda árlega til Evrópuþingsins og ráðsins (hér á eftir nefnd fjárveitingarvaldið) allar upplýsingar, sem varða matsniðurstöður, einkum upplýsingar varðandi áhrif eða afleiðingar vegna breytinga á verkefnum sem Flugöryggisstofnunni er falið,
c)    samþykkja, að fengnu áliti framkvæmdastjórnarinnar, starfsáætlun Flugöryggisstofnunarinnar fyrir næsta ár og framsenda hana til Evrópuþingsins, ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjanna fyrir 30. september ár hvert; þessi starfsáætlun skal samþykkt í samræmi við árlega fjárlagagerð Bandalagsins og áætlun Bandalagsins um lagasetningu á viðeigandi sviðum flugöryggis; álit framkvæmdastjórnarinnar skal fylgja starfsáætluninni,
d)    samþykkja viðmiðunarreglur um úthlutun vottunarverkefna til flugmálayfirvalda aðildarríkjanna og hæfra aðila í samráði við framkvæmdastjórnina,
e)    koma á málsmeðferð fyrir ákvarðanatöku forstjórans eins og um getur í 52. og 53. gr.,
f)    rækja hlutverk sitt með tilliti til fjárhagsáætlunar Flugöryggisstofnunarinnar skv. 59., 60. og 63. gr.,
g)    skipa í kærunefnd skv. 41. gr.,
h)    vera yfir forstjóra sett og einnig, í samráði við forstjóra, yfir framkvæmdastjóra,
i)    gefa álit sitt á ráðstöfunum varðandi þóknanir og gjöld sem um getur í 1. mgr. 64. gr.,
j)    setja sér starfsreglur,
k)    ákveða tungumálanotkun fyrir Flugöryggisstofnunina,
l)    bæta við skjalaskrána, sem um getur í 1. mgr. 32. gr., eftir því sem við á,
m)    ákveða stjórnskipulag og samþykkja starfsmannastefnu Flugöryggisstofnunarinnar.
3.     Stjórninni er heimilt að veita forstjóra ráðgjöf í öllum málum, sem eingöngu tengjast áætlunum um þróun flugöryggis, þ.m.t. rannsóknir eins og lýst er í 26. gr.
4.     Stjórnin skal koma á fót ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila og skal hafa samráð við hana áður en hún tekur ákvarðanir í þeim málum sem um getur í c-, e-, f- og i-lið 2. mgr. Stjórnin getur einnig ákveðið að hafa samráð við ráðgjafarnefndina um önnur málefni sem um getur í 2. og 3. mgr. Álit ráðgjafarnefndarinnar er ekki bindandi fyrir stjórnina.
5.     Stjórninni er heimilt að koma á fót starfsnefndum, sem aðstoða hana við að sinna hlutverki sínu, þ.m.t. undirbúningur ákvarðana og eftirlit með framkvæmd þeirra.

34. gr.
Skipan stjórnar

1.     Stjórnin skal skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarríki og einum fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar. Stjórnarmenn skulu valdir á grundvelli viðurkenndrar reynslu og skuldbindinga á sviði almenningsflugs, stjórnunarhæfni og sérfræðiþekkingar, sem nota á til að stuðla að framgangi þessarar reglugerðar. Þar til bær nefnd Evrópuþingsins skal upplýst að fullu um það.
Hvert aðildarríki skal tilnefna stjórnarmann og varamann sem er fulltrúi stjórnarmanns í fjarveru hans. Framkvæmdastjórnin skal einnig tilnefna fulltrúa sinn og varamann. Skipunartími er fimm ár. Heimilt er að endurnýja skipunartímann.
2.     Þátttaka fulltrúa þriðju landa í Evrópu og skilyrði fyrir slíkri þátttöku skulu vera með því fyrirkomulagi sem um getur í 66. gr., eftir því sem við á.
3.     Ráðgjafarnefndin, sem um getur í 4. mgr. 33. gr., skal tilnefna fjóra af nefndarmönnum sínum til að vera áheyrnarfulltrúar í stjórninni. Þeir skulu endurspegla, með eins almennum hætti og mögulegt er, mismunandi skoðanir fulltrúanna í ráðgjafanefndinni. Skipunartími þeirra er 30 mánuðir og heimilt að endurnýja hann einu sinni.

35. gr.
Formennska stjórnar

1.     Stjórnin kýs formann og varaformann úr sínum röðum. Varaformaður kemur í krafti embættis síns í stað formanns í forföllum hans.
2.     Skipunartíma formanns og varaformanns lýkur þegar stjórnarsetu þeirra lýkur. Með fyrirvara um þetta skal skipunartími formanns og varaformanns vera þrjú ár. Heimilt er að endurnýja skipunartímana einu sinni.

36. gr.
Fundir

1.     Formaður stjórnar boðar til fundar.
2.     Forstjóri Flugöryggisstofnunarinnar tekur þátt í umræðum.
3.     Stjórnin skal halda minnst tvo almenna fundi á ári. Að auki kemur stjórnin saman að frumkvæði formanns eða að beiðni a.m.k. þriðja hluta stjórnarmanna.
4.     Stjórnin getur boðið öllum, sem kunna að hafa áhugaverð sjónarmið, að sitja fundi sína sem áheyrnarfulltrúar.
5.     Með fyrirvara um ákvæði starfsreglna stjórnarinnar er stjórnarmönnum heimilt að leita aðstoðar ráðgjafa eða sérfræðinga.
6.     Flugöryggisstofnunin annast skrifstofuhald stjórnar.

37. gr.
Atkvæðagreiðsla

1.     Stjórnin skal taka ákvarðanir með atkvæðum tveggja þriðju hluta stjórnarmanna, sbr. þó 1. mgr. 39. gr. Ákvarðanir, sem um getur í k-lið 2. mgr. 33. gr., skulu teknar með einróma samþykki fari einhver stjórnarmanna þess á leit.
2.     Hver stjórnarmaður, sem tilnefndur er skv. 1. mgr. 34. gr., skal hafa eitt atkvæði. Í fjarveru stjórnarmanns hefur varamaður hans rétt til að neyta atkvæðisréttar síns. Hvorki áheyrnarfulltrúar né forstjóri Flugöryggisstofnunarinnar greiða atkvæði.
3.     Í starfsreglum skal kveða nánar á um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, einkum skilyrði fyrir því að stjórnarmaður megi koma fram fyrir hönd annars stjórnarmanns og kröfur er varða það hversu margir skuli sækja fund til að hann teljist lögmætur, eftir því sem við á.

38. gr.
Störf og heimildir forstjóra

1.     Forstjóri fer með stjórn Flugöryggisstofnunarinnar og skal vera algerlega óháður öðrum við embættisfærslu sína. Með fyrirvara um valdsvið framkvæmdastjórnarinnar og stjórnar Flugöryggisstofnunarinnar skal forstjórinn hvorki óska eftir né taka við fyrirmælum frá ríkisstjórnum eða öðrum aðilum.
2.     Evrópuþingið eða ráðið getur skorað á forstjóra að skýra frá störfum sínum.
3.     Hlutverk og valdsvið forstjóra skal vera sem hér segir:
a)    að samþykkja ráðstafanir Flugöryggisstofnunarinnar, skv. 18. gr., innan þeirra marka sem tilgreint er í þessari reglugerð, reglum um framkvæmd hennar og viðeigandi lögum,
b)    að taka ákvarðanir um skoðun og rannsóknir eins og kveðið er á um í 54. og 55. gr.,
c)    að úthluta vottunarverkefnum til flugmálayfirvalda aðildarríkja eða hæfra aðila í samræmi við viðmiðunarreglur sem stjórn Flugöryggisstofnunarinnar setur,
d)    að sjá um alþjóðleg verkefni og tæknisamvinnu við þriðju lönd skv. 27. gr.,
e)    að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Flugöryggisstofnunin starfi í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar, þ.m.t. að samþykkja innri stjórnsýslufyrirmæli og birta auglýsingar,
f)    að semja ár hvert drög að almennri skýrslu og leggja hana fyrir stjórnina,
g)    að fara með það vald gagnvart starfsmönnum Flugöryggisstofnunarinnar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 29. gr.,
h)    að taka saman áætlun um tekjur og gjöld Flugöryggisstofnunarinnar skv. 59. gr. og framkvæma fjárhagsáætlun skv. 60. gr.,
i)    að fela öðrum starfsmönnum Flugöryggisstofnunarinnar umboð sitt, sbr. þó reglur sem samþykktar verða í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 65. gr.,
j)    að taka ákvarðanir, með samþykki stjórnar Flugöryggisstofnunarinnar, um stofnun staðarskrifstofa í aðildarríkjunum í samræmi við 3. mgr. 28. gr.,
k)    að undirbúa og hrinda í framkvæmd árlegri starfsáætlun,
l)    að svara beiðnum um aðstoð frá framkvæmdastjórninni.

39. gr.
Skipun yfirmanna

1.     Forstjóri Flugöryggisstofnunarinnar skal skipaður á grundvelli verðleika og skjalfestrar hæfni og reynslu á sviði almenningsflugs. Stjórnin skal skipa forstjórann eða segja honum upp störfum að tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Stjórnin skal taka ákvörðun með atkvæðum þriggja fjórðu hluta stjórnarmanna. Áður en umsækjandinn, sem stjórnin tilnefnir, er skipaður, er hægt að fara fram á það að hann gefi yfirlýsingu frammi fyrir þar til bærri nefnd eða nefndum Evrópuþingsins og svari spurningum nefndarmanna.
2.     Forstjórinn getur notið aðstoðar eins eða fleiri framkvæmdastjóra. Einn af framkvæmdastjórunum skal koma í stað forstjóra í fjarveru hans eða forföllum.
3.     Framkvæmdastjórar Flugöryggisstofnunarinnar skulu skipaðir á grundvelli starfshæfni á sviði almenningsflugs Stjórnin skal skipa framkvæmdastjórana eða segja þeim upp störfum að tillögu forstjórans.
4.     Skipunartími forstjóra og framkvæmdastjóra er fimm ár. Einungis er heimilt að endurnýja skipunartíma framkvæmdastjóranna og forstjórans einu sinni.

40. gr.
Heimildir kærunefndar

1.     Kærunefnd eða -nefndum skal komið á fót innan Flugöryggisstofnunarinnar.
2.     Kærunefnd eða -nefndir skulu taka ákvarðanir um kæru ákvarðana sem um getur í 44. gr.
3. Kærunefnd eða -nefndir skulu kallaðar saman, eftir því sem þörf krefur. Framkvæmdastjórnin ákveður fjölda kærunefnda og verkaskiptingu í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 65. gr.

41. gr.
Skipun kærunefndar

1.     Í kærunefnd skulu sitja formaður og tveir aðrir nefndarmenn.
2.     Formaðurinn og hinir nefndarmennirnir skulu hafa varamenn sem koma í stað þeirra í fjarveru þeirra.
3.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skipar formann, aðra nefndarmenn og varamenn þeirra af skrá yfir hæfa umsækjendur sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt.
4.     Kærunefnd getur óskað eftir tveimur nefndarmönnum til viðbótar af skránni, sem um getur í 3. mgr., telji hún að kæran sé þess eðlis að ástæða sé til þess.
5.     Framkvæmdastjórnin ákveður hvaða hæfiskröfur nefndarmenn hverrar kærunefndar skuli uppfylla, heimildir einstakra nefndarmanna á undirbúningsstigi ákvarðana og reglur um atkvæðagreiðslu í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 65. gr.

42. gr.
Kærunefndarmenn

1.     Skipunartími kærunefndarmanna, þ.m.t. formaður og allir varamenn, skal vera fimm ár. Heimilt er að endurnýja skipunartímann.
2.     Kærunefndarmenn skulu vera óháðir. Þeir skulu ekki bundnir af fyrirmælum við ákvarðanatöku sína.
3.     Kærunefndarmönnum er ekki heimilt að sinna öðrum skyldustörfum hjá Flugöryggisstofnuninni. Kærunefndarmenn geta verið í hlutastörfum.
4.     Ekki er hægt að segja kærunefndarmönnum upp störfum eða taka þá af skránni yfir hæfa umsækjendur á skipunartíma þeirra nema mikilvægar ástæður séu fyrir því og framkvæmdastjórnin taki ákvörðun þar að lútandi að fengnu áliti stjórnarinnar.

43. gr.
Vanhæfi og vefenging

1.     Kærunefndarmönnum er óheimilt að taka þátt í kærumeðferð hafi þeir þar einkahagsmuna að gæta eða hafi þeir áður komið að málinu sem fulltrúar einhvers aðilanna að kærumeðferðinni eða hafi þeir átt þátt í að taka ákvörðunina sem kærð er.
2.     Telji kærunefndarmaður að ekki sé rétt að hann taki þátt í kærumeðferð af þeim ástæðum, sem tilgreindar eru í 1. mgr., eða af einhverri annarri ástæðu skal hann tilkynna kærunefnd um það.
3.     Hverjum aðila að kærumeðferðinni er heimilt að vefengja tiltekna kærunefndarmenn með skírskotun í ástæðu, sem nefnd er í 1. mgr., eða ef einhver slíkur nefndarmaður er grunaður um hlutdrægni. Engin slík vefenging skal tekin til greina ef viðkomandi aðili að kærumeðferðinni hefur hafið málsmeðferð þótt hann hafi haft vitneskju um að ástæða var til vefengingar. Vefenging má ekki byggjast á þjóðerni nefndarmanna.
4.     Kærunefnd ákveður, án þátttöku viðkomandi kærunefndarmanns, hvað skuli gert í þeim tilvikum sem um getur í 2. og 3. mgr. Við töku þessarar ákvörðunar tekur varamaður viðkomandi nefndarmanns sæti hans í kærunefnd.

44. gr.
Ákvarðanir sem heimilt er að kæra

1.     Heimilt er að kæra þær ákvarðanir Flugöryggisstofnunar sem teknar eru skv. 20., 21., 22., 23., 55. eða 64. gr.
2.     Kæra, sem lögð er fram skv. 1. mgr., hefur ekki áhrif til frestunar. Flugöryggisstofnuninni er þó heimilt að fresta beitingu ákvörðunarinnar, sem kærð hefur verið, telji hún að aðstæður leyfi það.
3.     Einungis er unnt að kæra ákvörðun, sem bindur ekki enda á málsmeðferð að því er varðar einn málsaðilanna, ef hún er kærð í tengslum við kæru lokaákvörðunarinnar, nema kveðið sé á um það í ákvörðuninni að hana megi kæra sérstaklega.

45. gr.
Aðilar sem hafa rétt til að kæra

Einstaklingum eða lögaðilum er heimilt að kæra ákvörðun, sem beint er að þeim, eða ákvörðun sem varðar þá beint eða óbeint þótt henni sé beint að öðrum aðila. Málsaðilum er heimilt að vera aðilar að kærumeðferðinni.

46. gr.
Tímamörk og formkröfur

Kæran og rökin fyrir henni skulu lögð skriflega fyrir Flugöryggisstofnunina innan tveggja mánaða frá því að hlutaðeigandi aðila barst tilkynning um ráðstöfunina eða, hafi hann enga tilkynningu fengið, innan tveggja mánaða frá því að hann fékk vitneskju um ráðstöfunina.

47. gr.
Bráðabirgðaendurskoðun

1.     Álíti forstjórinn kæruna tæka og vel rökstudda getur hann breytt ákvörðuninni. Þetta á ekki við ef annar aðili að kærumeðferðinni er á öndverðum meiði við kæranda.
2.     Ef ákvörðuninni er ekki breytt innan mánaðar frá því að Flugöryggisstofnuninni berst rökstuðningur fyrir kærunni skal hún ákveða, þegar í stað, hvort fresta beri beitingu ákvörðunarinnar samkvæmt öðrum málslið 2. mgr. 44. gr. og vísa kærunni til kærunefndar.

48. gr.
Rannsókn kæra

1.     Ef kæra er tæk skal kærunefnd rannsaka hvort hún er vel rökstudd.
2.     Kærunefnd skal vinna hratt að rannsókn kærunnar skv. 1. mgr. Hún skal hvetja aðila að kærumeðferðinni, eins oft og þörf krefur og innan tiltekinna tímamarka, til að gera athugasemdir við tilkynningar sem hún sjálf leggur fram eða við tilkynningar frá öðrum aðilum að kærumeðferðinni. Aðilar að kærumeðferðinni skulu hafa rétt til að gera munnlegar athugasemdir.

49. gr.
Ákvörðun í kærumeðferð

Kærunefnd er heimilt að nýta sér allar heimildir á valdsviði Flugöryggisstofnunarinnar eða vísa málinu aftur til þar til bærs aðila hjá stofnuninni. Ákvörðun kærunefndarinnar er bindandi fyrir þann aðila.

50. gr.
Höfðun máls fyrir Dómstóli Evrópubandalaganna

1.     Heimilt er að höfða mál fyrir Dómstóli Evrópubandalaganna til að ógilda þær gerðir Flugöryggisstofnunarinnar sem eru lagalega bindandi fyrir þriðja aðila, vegna aðgerðarleysis af hálfu Flugöryggisstofnunarinnar og tjóns sem starfsemi hennar veldur.
2.     Einungis er heimilt að höfða mál fyrir Dómstóli Evrópubandalaganna til að ógilda ákvarðanir Flugöryggisstofnunarinnar, sem eru teknar skv. 20., 21., 22., 23., 55. eða 64. gr., eftir að allar málsmeðferðir til áfrýjunar innan Flugöryggisstofnunarinnar hafa verið fullreyndar.
3.     Flugöryggisstofnunin skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að hlíta úrskurði Dómstóls Evrópubandalaganna.

51. gr.
Bein kæra

Aðildarríkin og stofnanir Bandalagsins geta kært ákvarðanir Flugöryggisstofnunarinnar beint til Dómstóls Evrópubandalaganna.

III. ÞÁTTUR
Starfsaðferðir

52. gr.
Málsmeðferð við samningu álitsgerða, vottunarforskrifta og leiðbeininga

1.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal, eins fljótt og auðið er eftir gildistöku þessarar reglugerðar, koma á gagnsærri málsmeðferð við útgáfu álitsgerða, vottunarforskrifta og leiðbeininga sem um getur í a- og c-lið 18. gr.
Slík málsmeðferð skal:
a)    byggjast á fyrirliggjandi sérþekkingu hjá flugmálayfirvöldum aðildarríkjanna,
b)    ef þörf krefur, fela í sér þátttöku viðkomandi sérfræðinga frá viðeigandi hagsmunaaðilum,
c)    tryggja að Flugöryggisstofnunin birti skjöl og hafi víðtækt samráð við hagsmunaaðila í samræmi við tímaáætlun og málsmeðferð sem skyldar Flugöryggisstofnunina til að veita skrifleg svör í samráðsferlinu.
2.     Þegar Flugöryggisstofnunin semur álitsgerðir, vottunarforskriftir og leiðbeiningar skv. 19. gr., sem aðildarríkjunum ber að fara eftir, skal hún koma á málsmeðferð um samráð við aðildarríkin. Henni er heimilt í þessu skyni að stofna starfshóp og skal hvert aðildarríki hafa rétt til að tilnefna sérfræðing í hann.
3.     Ráðstafanir, sem um getur í a- og c-lið 18. gr., og málsmeðferð, sem komið er á skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal birta í opinberu riti Flugöryggisstofnunarinnar.
4.     Koma skal á sérstakri málsmeðferð til að Flugöryggisstofnunin geti þegar í stað brugðist við öryggisvanda, sem upp kemur, og til að hún geti tilkynnt viðeigandi hagsmunaaðilum til hvaða aðgerða þeir skuli grípa.

53. gr.
Málsmeðferð við ákvarðanatöku

1.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal koma á gagnsærri málsmeðferð við töku einstakra ákvarðana eins og kveðið er á um í d-lið 18. gr.
Slík málsmeðferð skal:
a)    tryggja að einstaklingar og lögaðilar, sem ákvörðuninni er beint að, og aðrir málsaðilar, sem hafa beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, fái tækifæri til að láta álit sitt í ljós,
b)    kveða á um að ákvörðun skuli tilkynnt viðkomandi einstaklingum eða lögaðilum og birt,
c)    kveða á um að einstaklingar eða lögaðilar, sem ákvörðunin beinist að, og aðrir málsaðilar séu upplýstir um úrræði sem þeim standa til boða samkvæmt lögum og samkvæmt þessari reglugerð,
d)    tryggja að ákvörðunin sé rökstudd.
2.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal koma á málsmeðferð þar sem tilgreint er hvernig ákvörðun skal tilkynnt, að teknu tilhlýðilegu tilliti til kærumeðferðarinnar.
3.     Koma skal á sérstakri málsmeðferð til að Flugöryggisstofnunin geti þegar í stað brugðist við öryggisvanda, sem upp kemur, og til að hún geti tilkynnt viðeigandi hagsmunaaðilum til hvaða aðgerða þeir skuli grípa.

54. gr.
Skoðun í aðildarríkjunum

1.     Með fyrirvara um framkvæmdarvaldið, sem framkvæmdastjórninni er falið í sáttmálanum, skal Flugöryggisstofnunin aðstoða framkvæmdastjórnina við eftirlit með beitingu þessarar reglugerðar og reglna um framkvæmd hennar með því að annast eftirlit með stöðlun af hálfu lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna eins og tilgreint er í 1. mgr. 24. gr. Embættismenn, sem hafa heimild samkvæmt þessari reglugerð, og þeir, sem landsyfirvöld senda til að taka þátt í slíkum skoðunum, hafa í þessu skyni og í samræmi við lagaákvæði viðkomandi aðildarríkis vald til þess:
a)    að rannsaka viðeigandi skrár, gögn, verklagsreglur og annað efni sem hefur áhrif á það hvort takast megi að koma á flugöryggi sem er í samræmi við þessa reglugerð,
b)    að taka afrit af eða gera útdrætti úr slíkum skrám, gögnum, verklagsreglum eða öðru efni,
c)    að óska eftir munnlegum skýringum á staðnum,
d)    að fara inn á öll athafnasvæði, allt land eða í öll farartæki sem eru málinu viðkomandi.
2.     Embættismenn hjá Flugöryggisstofnuninni, sem hafa heimild til skoðunar, sem um getur í 1. mgr., skulu, þegar þeir gegna embættisskyldu sinni, geta framvísað skriflegri heimild þar sem fram koma efnisatriði og tilgangur skoðunar svo og hvaða dag skoðun hefst. Flugöryggisstofnunin skal tilkynna hlutaðeigandi aðildarríki um skoðunina með góðum fyrirvara og hverjir hinir viðurkenndu embættismenn eru.
3.     Viðkomandi aðildarríki skal fallast á skoðanirnar og skal sjá til þess að viðeigandi aðilar eða einstaklingar geri það einnig.
4.     Þegar skoðun, sem fer fram samkvæmt þessari grein, felur í sér skoðun fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja gilda ákvæði 55. gr. Andmæli fyrirtæki skoðuninni skal hlutaðeigandi aðildarríki veita embættismönnum, sem Flugöryggisstofnunin hefur veitt heimild, nauðsynlega aðstoð til að gera þeim kleift að framkvæma skoðunina.
5.     Koma skal skýrslum, sem eru samdar samkvæmt þessari grein, á framfæri á opinberu tungumáli eða tungumálum aðildarríkisins þar sem skoðun fór fram.

55. gr.
Rannsókn á fyrirtækjum

1.     Flugöryggisstofnunin getur sjálf framkvæmt alla nauðsynlega rannsókn á fyrirtækjum eða falið hana flugmálayfirvöldum aðildarríkjanna eða hæfum aðilum við beitingu 7., 20., 21., 22. 23. gr. og 2. mgr. 24. gr. Þessum rannsóknum skal háttað í samræmi við lagaákvæði aðildarríkisins þar sem hún á að fara fram. Í því skyni hafa aðilar með heimild, samkvæmt þessari reglugerð, vald:
a)    til að rannsaka viðeigandi skrár, gögn, verklagsreglur og annað efni sem viðkemur framkvæmd verkefna Flugöryggisstofnunarinnar,
b)    til að taka afrit af eða gera útdrætti úr slíkum skrám, gögnum, verklagsreglum eða öðru efni,
c)    til að óska eftir munnlegum skýringum á staðnum,
d)    til að fara inn á athafnasvæði, land eða í farartæki viðkomandi fyrirtækis,
e)    til að framkvæma skoðanir á loftförum í samvinnu við aðildarríkin.
2.     Aðilar, sem hafa heimild til rannsóknanna, sem um getur í 1. mgr., skulu, þegar þeir gegna embættisskyldu sinni, geta framvísað skriflegri heimild þar sem fram koma efnisatriði og tilgangur rannsóknarinnar.
3.     Flugöryggisstofnunin skal tilkynna aðildarríki um rannsóknina með góðum fyrirvara, enda fari rannsóknin fram á yfirráðasvæði þess, og hverjir hinir viðurkenndu aðilar eru. Embættismenn hlutaðeigandi aðildarríkis skulu, að beiðni Flugöryggisstofnunarinnar, aðstoða viðurkenndu aðilana við skyldustörf þeirra.

56. gr.
Árleg starfsáætlun

Árleg starfsáætlun skal stuðla að stöðugum úrbótum í flugöryggi í Evrópu og uppfylla markmið, umboð og verkefni Flugöryggisstofnunarinnar eins og þau eru sett fram í þessari reglugerð. Þar skal koma skýrt fram hvaða umboðum og verkefnum Flugöryggisstofnunarinnar hefur verið bætt við, hverjum hefur verið breytt eða eytt samanborið við næstliðið ár. Framsetning árlegu vinnuáætlunarinnar skal byggjast á aðferðafræðinni sem notuð er af framkvæmdastjórninni sem hluti af verkgrundaðri stjórnun.

57. gr.
Almenn ársskýrsla

Í almennu ársskýrslunni skal lýst með hvaða hætti Flugöryggisstofnunin hefur hrint árlegri vinnuáætlun sinni í framkvæmd. Þar skal koma skýrt fram hvaða umboðum og verkefnum Flugöryggisstofnunarinnar hefur verið bætt við, hverjum hefur verið breytt eða eytt samanborið við næstliðið ár. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar og árangur metinn með tilliti til markmiða og tímaáætlunar, sem sett voru, áhættu í tengslum við þessa starfsemi, notkunar úrræða og almennra aðgerða Flugöryggisstofnunarinnar.

58. gr.
Gagnsæi og upplýsingar

1.     Reglugerð (EB) nr. 1049/2001 gildir um skjöl í vörslu Flugöryggisstofnunarinnar.
2.     Flugöryggisstofnuninni er heimilt að veita upplýsingar að eigin frumkvæði á sviðum sem falla undir hlutverk hennar. Hún skal einkum sjá til þess að almenningur og hagsmunaaðilar fái með skjótum hætti hlutlausar, áreiðanlegar og auðskiljanlegar upplýsingar um starf hennar til viðbótar við þá birtingu sem um getur í 3. mgr. 52. gr.
3.     Öllum einstaklingum eða lögaðilum er heimilt að beina erindum skriflega til Flugöryggisstofnunarinnar á hverju því tungumáli sem um getur í 314. gr. sáttmálans. Þeir skulu eiga rétt á að fá svar á sama tungumáli.
4.     Upplýsingar, sem Flugöryggisstofnunin safnar í samræmi við þessa reglugerð, skulu falla undir reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 45/ 2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið, og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).

IV. ÞÁTTUR
Fjárhagslegar kröfur
59. gr.
Fjárhagsáætlun

1.     Flugöryggisstofnunin hefur tekjur:
a)    af framlögum frá Bandalaginu,
b)    af framlögum frá þriðju löndum í Evrópu, sem Bandalagið hefur gert samninga við, eins og um getur í 66. gr.,
c)    af þóknunum frá umsækjendum og handhöfum vottorða og samþykkis sem Flugöryggisstofnunin gefur út,
d)    af innheimtum gjöldum fyrir útgefið efni, þjálfun og aðra þjónustu, sem Flugöryggisstofnunin veitir, og
e)    af öllum frjálsum fjárframlögum frá aðildarríkjum, þriðju löndum eða öðrum aðilum, svo fremi að slík fjárframlög stofni ekki sjálfstæði og óhlutdrægni Flugöryggisstofnunarinnar í hættu.
2.     Til útgjalda Flugöryggisstofnunarinnar skal telja kostnað vegna starfsmanna, stjórnunar, grunnvirkja og rekstrar.
3.     Jöfnuður skal vera milli tekna og útgjalda.
4.     Fjárhagsáætlanir vegna reglusetningar og þóknanir, sem ákvarðaðar eru og innheimtar fyrir vottunarstarfsemi, skulu aðskilin í fjárhagsáætlun Flugöryggisstofnunarinnar.
5.     Stjórnin skal árlega gera fjárhagsáætlun um tekjur og útgjöld stofnunarinnar fyrir næsta fjárhagsár sem byggð er á drögum að fjárhagsáætlun um tekjur og útgjöld.
6.     Eigi síðar en 31. mars, skal stjórnin framsenda fjárhagsáætlunina, sem um getur í 4. mgr. og inniheldur drög að yfirliti um stöðugildi og drög að vinnuáætlun, til framkvæmdastjórnarinnar og til þeirra ríkja sem Bandalagið hefur gert samninga við eins og um getur í 66. gr.
7.     Framkvæmdastjórnin skal senda fjárveitingavaldinu fjárhagsáætlunina ásamt fyrstu drögum að fjárlögum Evrópusambandsins.
8.     Á grundvelli fjárhagsáætlunarinnar skal framkvæmdastjórnin fella þá fjárhagsáætlun inn í fyrstu drög að fjárlögum Evrópusambandsins, sem hún telur nauðsynlega fyrir yfirlitið um stöðugildi, og þá styrkfjárhæð sem veita skal af fjárlögum og skal hún leggja þetta fyrir fjárveitingavaldið í samræmi við 272. gr. sáttmálans.
9.     Fjárveitingavaldið heimilar fjárveitingar í formi styrks til Flugöryggisstofnunarinnar. Fjárveitingavaldið skal samþykkja yfirlitið yfir stöðugildi fyrir Flugöryggisstofnunina.
10.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal samþykkja fjárhagsáætlunina. Hún verður endanleg í framhaldi af lokasamþykkt fjárlaga Evrópusambandsins. Ef við á, skal leiðrétta fjárhagsáætlunina til samræmis við fjárlögin.
11.     Hafi stjórn Flugöryggisstofnunarinnar í hyggju að hrinda í framkvæmd verkefni, sem kann að hafa veruleg áhrif á fjármögnun fjárhagsáætlunarinnar, skal hún tilkynna fjárveitingavaldinu það eins skjótt og unnt er, einkum ef um er að ræða verkefni er varða fasteignir, s.s. kaup eða sölu bygginga. Hún skal tilkynna framkvæmdastjórninni um þetta.
Hafi aðili, sem er hluti af fjárveitingavaldinu, tilkynnt að hann hafi í hyggju að skila áliti skal hann senda stjórninni álit sitt innan sex vikna frá tilkynningu verkefnisins.

60. gr.
Framkvæmd og eftirlit með fjárhagsáætlun

1.     Forstjórinn sér um framkvæmd fjárhagsáætlunar Flugöryggisstofnunarinnar.
2.     Gjaldkeri Flugöryggisstofnunarinnar skal senda gjaldkera framkvæmdastjórnarinnar bráðabirgðareikningsskil, eigi síðar en 1. mars eftir lok fjárhagsársins, ásamt skýrslu um stjórn fjárhagsáætlunar og fjármála á því fjárhagsári. Gjaldkeri framkvæmdastjórnarinnar skal gera samstæðu úr drögum að reikningsskilum stofnana og sjálfstæðra aðila í samræmi við 128. gr í reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 frá 25. júní 2002 um fjárhagsreglugerðina sem gildir um fjárlög Evrópubandalaganna ( 1 ).
3.     Gjaldkeri framkvæmdastjórnarinnar skal senda endurskoðunarréttinum drög að reikningsskilum Flugöryggisstofnunarinnar, eigi síðar en 31. mars eftir lok fjárhagsársins, ásamt skýrslu um stjórn fjárhagsáætlunar og fjármála á því fjárhagsári. Skýrslan um stjórn fjárhagsáætlunar og fjármála á því fjárhagsári skal einnig framsend til Evrópuþingsins og ráðsins.
4.     Þegar forstjóra Flugöryggisstofnunarinnar berast athugasemdir endurskoðunarréttarins við drögin að reikningsskilum Flugöryggisstofnunarinnar, skal hann skv. 129. gr. reglugerðar (EB, KBE) nr. 1605/ 2002 ganga frá endanlegum reikningsskilum Flugöryggisstofnunarinnar á eigin ábyrgð og senda þau til stjórnar Flugöryggisstofnunarinnar til umsagnar.
5.     Stjórnin skal skila áliti um endanleg reikningsskil stofnunarinnar.
6.     Forstjórinn skal framsenda endanleg reikningsskil, eigi síðar en 1. júlí eftir lok fjárhagsársins, til Evrópuþingsins, ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og endurskoðunarréttarins ásamt áliti stjórnar Flugöryggisstofnunarinnar.
7.     Endanleg reikningsskil skulu birt.
8.     Forstjórinn skal senda endurskoðunarréttinum svar við athugasemdum réttarins eigi síðar en 30. september. Hann skal einnig senda svarið til stjórnar Flugöryggisstofnunarinnar.
9.     Fari Evrópuþingið þess á leit skal forstjórinn láta því í té allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að greiðlega gangi að leysa hann undan ábyrgð fyrir viðkomandi fjárhagsár eins og kveðið er á um í 3. mgr. 146. gr. reglugerðar (EB, KBE) nr. 1605/2002.
10.     Fyrir 30. apríl árið N + 2 skal Evrópuþingið, að fengnum tilmælum frá ráðinu sem tekur ákvörðun með auknum meirihluta, leysa forstjórann undan ábyrgð á framkvæmd fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið N.

61. gr.
Barátta gegn svikum

1.     Í því skyni að berjast gegn svikum, spillingu og annarri ólögmætri starfsemi gilda ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/ 1999 frá 25. maí 1999 um rannsóknir Evrópuskrifstofunnar um aðgerðir gegn svikum (OLAF) ( 1 ) án takmarkana.
2.     Flugöryggisstofnunin skal gerast aðili að samstarfssamningi milli stofnana frá 25. maí 1999 milli Evrópuþingsins, ráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna um innri rannsóknir Evrópuskrifstofunnar um aðgerðir gegn svikum (OLAF) ( 1) og skal þegar í stað setja viðeigandi ákvæði sem gilda skulu um starfsmenn stofnunarinnar.
3.     Í ákvörðunum um fjármögnun og í samningum og gerningum til framkvæmdar þessum ákvörðunum skal sérstaklega tilgreint að endurskoðunarréttinum og Evrópuskrifstofunni um aðgerðir gegn svikum sé heimilt að framkvæma vettvangsskoðun, ef þörf krefur, hjá þeim sem fá fjárframlag frá Flugöryggisstofnuninni og þeim aðilum sem annast úthlutun þess.

62. gr.
Mat

1.     Innan þriggja ára frá því að Flugöryggisstofnunin hefur starfsemi sína og á fimm ára fresti þaðan í frá skal stjórn stofnunarinnar láta utanaðkomandi aðila gera sjálfstætt mat á framkvæmd þessarar reglugerðar.
2.     Við matið skal rannsaka hve vel Flugöryggisstofnunin gegnir hlutverki sínu. Einnig skal þar meta áhrif þessarar reglugerðar og Flugöryggisstofnunarinnar og starfsvenja hennar að því er varðar að koma á háu öryggisstigi í almenningsflugi í Evrópu. Við matið skal hafa hliðsjón af sjónarmiðum hagsmunaaðila, bæði á evrópskum vettvangi og á landsvísu.
3.     Stjórn Flugöryggisstofnunarinnar skal taka við niðurstöðum matsins og beina tilmælum um breytingar á þessari reglugerð og Flugöryggisstofnuninni og starfsvenjum hennar til framkvæmdastjórnarinnar en hún getur sent þær Evrópuþinginu og ráðinu ásamt sínu áliti og viðeigandi tillögum. Þessu getur fylgt tímasett aðgerðaáætlun ef við á. Birta skal niðurstöður matsins og tilmælin opinberlega.

63. gr.
Fjárhagsákvæði

Stjórnin skal samþykkja fjárhagsreglur fyrir Flugöryggisstofnunina að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina. Þær mega ekki víkja frá reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB, KBE) nr. 2343/2002 frá 19. nóvember 2002 um fjárhagslega rammareglugerð fyrir þá aðila sem um getur í 185. gr. reglugerðar ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 frá 25. júní 2002 um fjárhagsreglugerðina sem gildir um fjárlög Evrópubandalaganna ( 2 ) nema sérstök þörf sé á slíku fráviki vegna reksturs Flugöryggisstofnunarinnar og framkvæmdastjórnin hafi áður veitt samþykki sitt.

64. gr.
Reglugerð um þóknanir og gjöld

1.     Samþykkja skal ráðstafanirnar, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar reglugerðar, með því að bæta við hana, varðandi þóknanir og gjöld, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti, sem um getur í 4. mgr. 65. gr.
2.     Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við stjórnina um drögin að ráðstöfununum sem um getur í 1. mgr.
3.     Í ráðstöfununum, sem um getur í 1. mgr., skal einkum tiltaka fyrir hvað þóknanir og gjöld, samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 59. gr., skuli innheimt, fjárhæð þóknana og gjalda og með hvaða hætti greiðsla þeirra skuli fara fram.
4.     Þóknanir og gjöld skulu tekin:
a)    fyrir útgáfu og endurnýjun vottorða og tilheyrandi, viðvarandi eftirlitsstarfsemi,
b)    fyrir veitingu þjónustu; þau skulu endurspegla raunkostnað þjónustunnar hverju sinni,
c)    fyrir afgreiðslu kæra.
Allar þóknanir og gjöld skulu gefin upp og greidd í evrum.
5.     Fjárhæð þóknana og gjalda skal ákveðin þannig að tryggt sé að tekjur af þeim nægi að jafnaði til að greiða fullan kostnað af veittri þjónustu. Þóknanir og gjöld, þ.m.t. þau sem voru innheimt 2007, skulu talin til tekna Flugöryggisstofnunarinnar.

IV. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
65. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera einn mánuður.
4.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og ákvæði 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
5.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. og b-liður 5. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í c-lið 3. mgr., b- og e- lið 4. mgr. 5. gr. a, ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera tuttugu dagar.
6.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 1., 2. og 4. mgr., b-liður 5. mgr. og 6. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
7.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gildir 6. gr. ákvörðunar 1999/468/EB.
Framkvæmdastjórnin skal ráðfæra sig við nefndina, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, áður en hún tekur ákvörðun.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í b-lið 6. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
Þegar aðildarríki vísar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar til ráðsins er ráðinu heimilt að taka aðra ákvörðun með auknum meirihluta innan þriggja mánaða.

66. gr.
Þátttaka þriðju landa í Evrópu

Þriðju löndum í Evrópu er frjálst að taka þátt í starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar ef þau eru aðilar að Chicago-samningnum og hafa gert samninga við Evrópubandalagið sem fela í sér samþykkt og beitingu laga Bandalagsins á þeim sviðum sem reglugerð þessi og reglur um framkvæmd hennar taka til.
Samkvæmt viðeigandi ákvæðum þessara samninga verður komið á fyrirkomulagi þar sem tilgreint er m.a. eðli og umfang og ítarlegar reglur um þátttöku þessara landa í starfsemi Flugöryggisstofnunarinnar, þ.m.t. ákvæði um fjárframlög og starfsfólk.

67. gr.
Flugöryggisstofnunin tekur til starfa

1.     Frá 28. september 2003 skal Flugöryggisstofnunin annast vottunarverkefnin sem henni ber skylda til að sjá um skv. 20. gr. Fram til þess dags skulu aðildarríkin halda áfram að framfylgja gildandi lögum og reglugerðum.
2.     Á aðlögunartímabili, sem bætist við og er 42 mánuðir frá deginum sem um getur í 1. mgr., er aðildarríkjunum heimilt að halda áfram að gefa út vottorð og samþykki þrátt fyrir ákvæði 5., 6., 12. og 20. gr. og með þeim skilyrðum sem framkvæmdastjórnin tilgreinir í ráðstöfunum sem samþykktar eru vegna beitingar þeirra. Þegar aðildarríkin gefa út vottorð og skírteini í þessu sambandi, á grundvelli vottorða sem þriðju lönd hafa gefið út, skal í ráðstöfununum, sem framkvæmdastjórnin samþykkir, tekið tilhlýðilegt tillit til meginreglnanna sem mælt er fyrir um í b- og c-lið 2. mgr. 12. gr.

68. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu mæla fyrir um viðurlög við brotum á þessari reglugerð og reglum um framkvæmd hennar. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

69. gr.
Niðurfelling

1.     Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 er hér með felld úr gildi, sbr. þó ákvæði annarrar undirgreinar. Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu reglugerðina sem tilvísanir í þessa reglugerð og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í VI. viðauka.
2.     Tilskipun ráðsins 91/670/EB fellur hér með úr gildi frá og með gildistöku ráðstafananna sem um getur í 6. mgr. 7. gr.
3.     Ákvæði III. viðauka við tilskipun ráðsins 3922/ 91/EB falli brott frá og með gildistöku samsvarandi ráðstafana sem um getur í 5. mgr. 8. gr.
4.     Ákvæði 11. gr. gilda um framleiðsluvörur, hluta þeirra og búnað og fyrirtæki og aðila þar sem vottun þeirra hefur farið fram eða verið viðurkennd í samræmi við gerðirnar sem um getur í 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
5.     Tilskipun 2004/36/EB fellur hér með úr gildi frá og með gildistöku ráðstafananna sem um getur í 5. mgr. 10. gr. í þessari reglugerð og með fyrirvara um framkvæmdarreglurnar sem um getur í 2. mgr. 8. gr. í þeirri reglugerð.

70. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Ákvæði 5., 6., 7., 8., 9. og 10. gr. gilda frá þeim dögum sem tilgreindir eru í viðkomandi framkvæmdarreglum en eigi síðar en 8. apríl 2012.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Strassborg 20. febrúar 2008.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J. LENARCIC
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
Grunnkröfur um lofthæfi sem um getur í 5. gr.

1.     Heilleiki framleiðsluvara (products): Tryggja verður heilleika framleiðsluvara við öll fyrirsjáanleg flugskilyrði á endingartíma loftfarsins. Sýna verður fram á með mati eða greiningu, sem studd er prófunum þegar þess er þörf, að allar kröfur hafi verið uppfylltar.
1.a.    Burðarvirki og efni: heilleiki burðarvirkis skal tryggður innan alls starfræksluramma loftfarsins og nægilega langt út fyrir hann, þ.m.t. knúningskerfi loftfarsins, og skal viðhaldið á endingartíma loftfarsins.
1.a.1.    Allir hlutar loftfars verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði án skaðlegrar formbreytingar eða brots ef brot þeirra gæti dregið úr heilleika burðarvirkis. Undir þetta falla allir hlutar, sem hafa massa sem skiptir máli, og búnaður til að halda þeim.
1.a.1.a.    Taka verður tillit til hvers kyns samsetningar álags, sem eðlilegt er að gera ráð fyrir, innan og nægilega langt út fyrir þyngdarmörk, þyngdarmiðjusvið, starfræksluramma og endingartíma loftfarsins. Undir þetta fellur hviðuálag, álag vegna flugbragða, þrýstingsjöfnunar, hreyfanlegra flata og stýri- og knúningskerfa, jafnt í flugi sem á jörðu.
1.a.1.b.    Taka verður tillit til álags og líklegrar bilunar sem orsakast af nauðlendingu á láði eða legi.
1.a.1.c.    Taka verður tillit til kvikra áhrifa í svörun burðarvirkja við slíku álagi.
1.a.2.    Loftfarið skal vera laust við óstöðugleika vegna fjöðrunar lofts og óhóflegan titring.
1.a.3.    Framleiðsluferlin og efnin, sem notuð eru við smíði loftfarsins, verða að tryggja að burðareiginleikar þess séu þekktir og endurtakanlegir í framleiðslu. Gera verður grein fyrir öllum breytingum á nothæfi efnisins í tengslum við starfræksluumhverfið.
1.a.4.    Áhrif lotuálags og neikvæð áhrif umhverfis og skaða vegna óhappa eða staðbundinna skemmda mega ekki verða til þess að heilleiki burðarvirkis fari niður fyrir ásættanleg mörk fyrir þann styrk sem eftir er. Koma verður á framfæri öllum nauðsynlegum leiðbeiningum til að tryggja áframhaldandi lofthæfi í þessu tilliti.
1.b.    Knúningsafl: sýna verður fram á heilleika knúningskerfisins (þ.e. hreyfils og, eftir atvikum, loftskrúfunnar), innan alls starfræksluramma knúningskerfisins og nægilega langt út fyrir hann, og viðhalda honum á endingartíma knúningskerfisins.
1.b.1.    Knúningskerfið verður að framleiða, innan tilgreindra marka, þann kný eða afl sem krafist er af því við öll tilskilin flugskilyrði, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa og umhverfisskilyrða.
1.b.2.    Framleiðsluferlin og efnin, sem notuð eru við smíði knúningskerfisins, verða að tryggja að viðbrögð burðarvirkisins séu þekkt og endurtakanleg í framleiðslu. Gera verður grein fyrir öllum breytingum á hæfi efnisins í tengslum við starfræksluumhverfið.
1.b.3.    Áhrif lotuálags og neikvæð áhrif umhverfis- og starfræksluskilyrða og sennilegra bilana hluta í framhaldi af því mega ekki verða til þess að heilleiki knúningskerfisins fari niður fyrir ásættanleg mörk. Koma verður á framfæri öllum nauðsynlegum leiðbeiningum til að tryggja áframhaldandi lofthæfi í þessu tilliti.
1.b.4.    Koma verður á framfæri öllum leiðbeiningum, upplýsingum og kröfum sem eru nauðsynlegar fyrir öruggan og réttan skilflöt milli knúningskerfisins og loftfarsins.
1.c.    Kerfi og búnaður
1.c.1.    Loftfarið má ekki hafa hönnunareiginleika eða hönnunarþætti sem reynslan hefur sýnt að geta verið hættulegir.
1.c.2.    Loftfarið, þ.m.t. kerfin, tækin og búnaðurinn sem krafist er fyrir tegundarvottun eða samkvæmt starfrækslureglum, verður að starfa eins og ráðgert er við öll fyrirsjáanleg starfræksluskilyrði innan starfræksluramma loftfarsins og nægilega langt út fyrir hann, að teknu tilliti til starfræksluumhverfis kerfisins, tækisins eða búnaðarins. Önnur kerfi, tæki og búnaður, sem ekki er gerð krafa um við tegundarvottun eða samkvæmt starfrækslureglum, hvort sem þau starfa eðlilega eða ekki, mega ekki draga úr öryggi né hafa áhrif til hins verra á eðlilega starfsemi annars kerfis, tækis eða búnaðar. Kerfi, tæki og búnað verður að vera hægt að starfrækja án þess að til þess þurfi verulega leikni eða líkamsstyrk.
1.c.3.    Kerfi, tæki og tilheyrandi búnaður í loftfari, hvort sem þau eru skoðuð hvert fyrir sig eða í innbyrðis samhengi, verða að vera hönnuð á þann hátt að stök bilun, sem ekki hefur verið sýnt fram á að sé afar ósennilegt að geti orðið, valdi ekki neyðarástandi og þannig verður að ríkja öfugt samband milli líkinda á bilun og því hversu alvarleg áhrif bilunin hefur á loftfarið og þá sem í því eru. Með tilliti til viðmiðunarinnar hér að framan fyrir staka bilun er viðurkennt að taka verður tilhlýðilegt tillit til stærðar og heildarútfærslu loftfarsins og að þetta geti komið í veg fyrir að viðmiðuninni um staka bilun sé fylgt að því er varðar suma hluta og sum kerfi í þyrlum og litlum loftförum.
1.c.4.    Áhöfnin eða starfsfólk, sem annast viðhald, skal fá þær upplýsingar, eftir því sem við á, sem eru nauðsynlegar fyrir öruggt flug, og upplýsingar um ótryggt ástand á skýran, samkvæman og ótvíræðan hátt. Kerfi, búnað og stjórntæki, þ.m.t. skilti og tilkynningar, skal hanna og staðsetja þannig að sem minnst hætta sé á mistökum sem gætu leitt til þess að hættuástand skapaðist.
1.c.5.    Gera skal varúðarráðstafanir með tilliti til hönnunar til að draga úr innri og ytri hættum sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að geti steðjað að loftfarinu og þeim sem í því eru, þ.m.t. vernd gegn þeim möguleika að veruleg bilun eða truflun verði í einhverjum búnaði loftfarsins.
1.d.    Áframhaldandi lofthæfi
1.d.1.    Semja verður leiðbeiningar um áframhaldandi lofthæfi til að tryggja að á endingartíma loftfarsins sé fylgt lofthæfistaðli samkvæmt tegundarvottun á loftfarinu.
1.d.2.    Gefa verður kost á skoðun, stillingum, smurningu, fjarlægingu eða skiptum á hlutum og búnaði eftir því sem nauðsynlegt er fyrir áframhaldandi lofthæfi.
1.d.3.    Leiðbeiningar um áframhaldandi lofthæfi skulu vera í formi handbókar eða handbóka eftir umfangi upplýsinganna sem veita þarf. Handbækur skulu vera með hagnýtu fyrirkomulagi og innihalda leiðbeiningar um viðhald og viðgerðir, þjónustuleiðbeiningar og reglur um verklag við bilanaleit og skoðun.
1.d.4.    Í leiðbeiningum um áframhaldandi lofthæfi skulu tilgreindar lofthæfitakmarkanir þar sem fram kemur tími fyrirskipaðra skipta á hlutum, tíminn milli skoðana og tilheyrandi skoðunarreglur.
2.    Þættir í starfrækslu framleiðsluvara sem varða lofthæfi
2.a.    Sýna skal fram á að tekið hafi verið á eftirfarandi atriðum við starfrækslu viðkomandi framleiðsluvara til að tryggja fullnægjandi öryggi fyrir þá sem eru um borð eða á jörðu niðri.
2.a.1.    Ákveða skal hvers konar starfrækslu loftfarið er samþykkt fyrir og þær takmarkanir og upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir öryggi í starfrækslu, þ.m.t. takmarkanir og afköst við mismunandi umhverfisaðstæður.
2.a.2.    Loftfarið skal vera viðráðanlegt með tilliti til öryggis og láta að stjórn við öll fyrirsjáanleg starfræksluskilyrði, þ.m.t. þótt bilun verði í einu eða, eftir atvikum, fleiri knúningskerfum. Taka skal tilhlýðilegt tillit til líkamsstyrks flugmanns, umhverfis í stjórnklefa, vinnuálags á flugmann og annarra mannlegra þátta og til þess á hvaða stigi flugið er og hversu lengi það varir.
2.a.3.    Unnt skal vera að færa sig hnökralaust af einu stigi flugsins yfir á það næsta án þess að það útheimti verulega leikni flugmanns, árvekni, líkamsstyrk eða vinnuálag við þau starfræksluskilyrði sem gera má ráð fyrir.
2.a.4.    Loftfarið skal vera nægilega stöðugt til að tryggt sé að ekki séu gerðar óhóflegar kröfur til flugmanns, að teknu tilliti til þess á hvaða stigi flugið er og hversu lengi það varir.
2.a.5.    Setja verður verklagsreglur um eðlilega starfrækslu og um bilunar- og neyðaraðstæður.
2.a.6.    Viðvaranir eða aðrar hindranir, sem koma eiga í veg fyrir að farið sé út fyrir eðlilegan flugramma fyrir viðkomandi tegund, skulu vera til staðar.
2.a.7.    Eiginleikar loftfarsins og kerfa þess verða að vera þannig að hægt sé að snúa aftur frá flugi á mörkum flugramma á öruggan hátt.
2.b.    Upplýsingar um takmarkanir á starfrækslu og aðrar upplýsingar, sem eru nauðsynlegar fyrir öryggi í starfrækslu, skulu vera tiltækar flugverjum.
2.c.    Í starfrækslu skulu framleiðsluvörur vera varðar gegn hættum vegna innri og ytri skilyrða, þ.m.t. umhverfisaðstæður.
2.c.1.    Einkum mega ekki koma upp ótryggar aðstæður sem stafa af fyrirbærum eins og m.a. slæmu veðri, eldingum, árekstrum við fugla, hátíðnisviðum, ósoni o.s.frv. sem eðlilegt er að gera ráð fyrir við starfrækslu framleiðsluvara.
2.c.2.    Farþegarými skulu innréttuð þannig að farþegum sé tryggður viðeigandi ferðamáti og viðunandi vernd fyrir öllum hættum sem reikna má með að geti steðjað að þeim í starfrækslu eða orsakast af neyðaraðstæðum, þ.m.t. hætta sem stafar af eldi, reyk, eitruðum lofttegundum og skyndilegri þrýstingsminnkun. Gera skal ráðstafanir til að gefa farþegum öll þau tækifæri, sem eðlileg geta talist, til að komast hjá alvarlegum meiðslum og yfirgefa loftfarið skjótt, og ráðstafanir til að vernda þá gegn áhrifum hraðaminnkunarkrafta ef nauðlenda þarf á landi eða vatni. Til staðar skulu vera skýr og ótvíræð skilti eða fyrirmæli, eftir því sem nauðsyn krefur, til að leiðbeina þeim sem eru í flugvélinni um viðeigandi öryggishegðun og um staðsetningu og rétta notkun öryggisbúnaðar. Greiður aðgangur skal vera að tilskildum öryggisbúnaði.
2.c.3.    Fyrirkomulag áhafnarklefa skal vera með þeim hætti að það auðveldi starfrækslu, þ.m.t. búnaður sem gerir áhöfnina meðvitaða um aðstæður, og einnig skal fyrirkomulagið auðvelda áhöfn að hafa stjórn á öllum fyrirsjáanlegum aðstæðum og neyðaraðstæðum. Umhverfi í áhafnarklefa má ekki gera áhöfninni erfitt um vik að sinna störfum sínum og áhafnarklefinn skal hannaður þannig að komist verði hjá truflunum í starfi og rangri notkun stjórntækja.
3.    Fyrirtæki (þ.m.t. einstaklingar sem taka að sér hönnun, framleiðslu eða viðhald)
3.a.    Gefa skal út samþykki fyrir fyrirtæki þegar eftirfarandi skilyrði hafa verið uppfyllt:
3.a.1.    Fyrirtækið skal hafa öll nauðsynleg tilföng miðað við umfang verksins. Þessi tilföng eru m.a. eftirfarandi: aðstaða, starfsfólk, tæki, tól og efniviður, skráning verkefna, ábyrgð og verklagsreglur, aðgangur að viðeigandi gögnum og skráahald.
3.a.2.    Fyrirtækið skal reka og viðhalda stjórnunarkerfi með það fyrir augum að tryggja samræmi við grunnkröfur um lofthæfi og vinna að því markmiði að bæta stöðugt þetta kerfi.
3.a.3.    Fyrirtækið skal koma á fyrirkomulagi með öðrum viðeigandi fyrirtækjum, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja að alltaf ríki samræmi við grunnkröfurnar um lofthæfi.
3.a.4.    Fyrirtækið skal koma á tilkynningarkerfi um atvik og/eða viðbragðskerfi fyrir atvik sem nota skal í stjórnunarkerfinu, sem um getur í lið 3.a.2, og í tengslum við fyrirkomulagið, sem um getur í lið 3.a.3, til að vinna að því markmiði að auka stöðugt öryggi framleiðsluvara.
3.b.    Skilyrðin, samkvæmt liðum 3.a.3 og 3.a.4, gilda ekki um fyrirtæki sem sjá um viðhaldsþjálfun.

II. VIÐAUKI
Loftför sem um getur í 4. mgr. 4. gr.

Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 4. gr. gilda ekki um loftför sem falla undir einn eða fleiri af flokkunum sem tilgreindir eru hér á eftir:
a)    söguleg loftför sem uppfylla viðmiðanirnar hér á eftir:
    i.    einföld loftför:
         –    sem voru upphaflega hönnuð fyrir 1. janúar 1955 og
         –    sem hætt var að framleiða fyrir 1. janúar 1975,
    eða
    ii.    loftför sem hafa ótvírætt sögulegt gildi:
         –    loftför sem eru hluti af sögulegum atburði eða
         –    loftför sem eru dæmi um mikilvæg skref í þróun flugsins eða
         –    loftför sem hafa gegnt stóru hlutverki í herjum aðildarríkis,
b)    loftför sem eru sérstaklega hönnuð eða hefur verið breytt í rannsóknar- eða tilraunaskyni eða af vísindalegum ástæðum og sem líklegt er að verði framleidd í mjög fáum eintökum,
c)    loftför sem eru smíðuð a.m.k. að 51 hundraðshluta í eigin þágu af leikmanni eða leikmannasamtökum sem eru hvorki rekin í hagnaðarskyni né í viðskiptalegum tilgangi,
d)    loftför sem hafa verið í þjónustu hers, nema loftfarið sé af tegund með hönnunarstaðli sem Flugöryggisstofnunin hefur samþykkt,
e)    flugvélar, þyrlur og aflknúnar fallhlífar sem hafa ekki fleiri en tvö sæti, hámarksflugtaksmassa eins og hann er skráður af aðildarríkjunum sem er ekki meiri en:
    i.    300 kg fyrir landfis/þyrlu með einu sæti eða
    ii.    450 kg fyrir landfis/þyrlu með tveimur sætum eða
    iii.    330 kg fyrir láðs- og lagarfis eða fis á flotum/þyrlu á flotum með einu sæti eða
    iv.    495 kg fyrir láðs- og lagarfis eða fis á flotum/þyrlu á flotum með tveimur sætum, að því tilskildu að hægt sé að nota fisið/þyrluna bæði sem fis/þyrlu á flotum og sem landfis/-þyrlu og hámarksflugtaksmassi sé innan marka beggja flokka, eftir því sem við á,
    v.    472,5 kg fyrir landfis með tveimur sætum og fallhlífakerfi, sem fest er á flugskrokkinn, til að bjarga loftfarinu í heilu lagi,
    vi.    315 kg fyrir landfis með einu sæti og fallhlífakerfi, sem fest er á flugskrokkinn, til að bjarga loftfarinu í heilu lagi,
    og fyrir flugvélar með ofrishraða í lendingarham eða minnsta stöðuga hraða í lendingarham, sem er að hámarki 35 hnúta sýndur flughraði (CAS),
f)    þyrilflugur með einu eða tveimur sætum með hámarksflugtaksmassa sem er ekki meiri en 560 kg,
g)    svifflugur með tómamassa sem er ekki meiri en 80 kg, ef um einsætur er að ræða, en 100 kg ef um tvísætur er að ræða, þ.m.t. svifflugur þar sem flugtak er af fæti,
h)    eftirlíkingar af loftförum sem uppfylla viðmiðanirnar í a- eða d-lið hér að framan en hönnun burðarvirkis þeirra er svipuð upprunalega loftfarinu,
i)    ómönnuð loftför með rekstrarmassa sem er ekki meiri en 150 kg,
j)    öll önnur loftför sem eru með hámarkstómamassa, þ.m.t. eldsneyti sem eru ekki meira en 70 kg.

III. VIÐAUKI
Grunnkröfur um veitingu flugmannsskírteina sem um getur í 7. gr.

1.     Þjálfun
1.a.    Almennt
1.a.1.    Einstaklingur, sem fer í þjálfun til að fljúga loftfari, verður að vera nægilega þroskaður námslega, líkamlega og andlega til að afla sér, viðhalda og sýna fram á viðeigandi bóklega þekkingu og verklega færni.
1.b.    Bókleg þekking
1.b.1.    Flugmaður verður að afla sér og viðhalda þekkingu sem á við um þau verkefni sem þarf að sinna í tengslum við loftfarið og í réttu hlutfalli við þá áhættu sem tengist tegund verkefnis. Slík þekking skal a.m.k. fela í sér eftirfarandi:
    i.    lög og reglur um loftferðir,
    ii.    almenna þekkingu á loftförum,
    iii.    tæknimál í tengslum við flokk loftfarsins,
    iv.    afkastagetu í flugi og gerð áætlana,
    v.    mannlega getu og takmarkanir hennar, afkastagetu og takmarkanir,
    vi.    veðurfræði,
    vii.    leiðsögu,
    viii.    verklagsreglur í flugi, þ.m.t. stjórnun samvinnu,
    ix.    flugeðlisfræði,
    x.    fjarskipti og
    xi.    færni, sem er ekki tæknilegs eðlis, þ.m.t. að bera kennsl á hættur og bilanir og hvernig eigi að bregðast við þeim.
1.c.    Sýnt fram á bóklega þekkingu og viðhald hennar
1.c.1.    Öflun og viðhald bóklegrar þekkingar skal sýnd með stöðugu mati meðan á þjálfun stendur og, eftir því sem við á, með prófum.
1.c.2.    Viðhalda skal viðeigandi hæfni á sviði bóklegrar þekkingar. Sýna skal fram á að þetta sé gert með reglulegu mati, athugunum, prófum eða eftirliti. Tíðni athugana, prófa og eftirlits skal vera í réttu hlutfalli við áhættuna í tengslum við verkefnið.
1.d.    Verkleg færni
1.d.1.    Flugmaður skal tileinka sér og viðhalda verklegri færni sem við á um starf hans í loftfarinu. Slík færni skal vera í réttu hlutfalli við áhættuna, sem tengist tegund verkefnis, og skal taka til, ef það á við um verkefnin sem þarf að sinna í tengslum við loftfarið, eftirfarandi:
    i.    verkefna áður en flug hefst og meðan á flugi stendur, þ.m.t. ákvörðun á afkastagetu, massa og jafnvægi loftfars, skoðun og viðhald loftfarsins, gerð eldsneytisáætlunar, mat á veðurútliti, gerð leiðaráætlunar, takmarkanir á loftrými og tiltækar flugbrautir,
    ii.    flugvalla og umferðahringi,
    iii.    varúðarreglna og ráðstafana til að forðast árekstur,
    iv.    stjórnar loftfars eftir kennileitum,
    v.    flugbragða, þ.m.t. við hættulegar aðstæður og tengd „trufluð“ flugbrögð, eftir því sem er tæknilega mögulegt,
    vi.    venjulegs flugtaks og lendingar og flugtaks og lendingar í hliðarvindi,
    vii.    flugs, þar sem einungis er stuðst við mælitæki, eftir því sem við á, fyrir tegund verkefnis,
    viii.    verklagsreglna, þ.m.t. færni í hópvinnu og stjórnun samvinnu, eftir því sem við á um tegund starfrækslu, hvort heldur um er að ræða einn flugmann eða fleiri en einn flugmann í áhöfn,
    ix.    leiðsögu og framkvæmdar flugreglna og tengdra verklagsreglna, þar sem stuðst er við, eftir því sem við á, kennileiti eða leiðsögutæki,
    x.    starfrækslu við óvenjulegar aðstæður og neyðaraðstæður, þ.m.t. að hermt er eftir bilun í búnaði loftfars,
    xi.    að fylgja verklagsreglum um flugumferðarþjónustu og fjarskipti,
    xii.    tiltekinna þátta varðandi gerð eða flokk loftfars,
    xiii.    viðbótarþjálfunar í verklegri færni sem kann að vera krafist til að draga úr áhættu í tengslum við sérstök verkefni og
    xiv.    færni, sem er ekki tæknilegs eðlis, þ.m.t. að bera kennsl á hættur og bilanir og hvernig eigi að bregðast við þeim, þar sem notuð er fullnægjandi matsaðferð í tengslum við mat á tæknilegri færni.
1.e.    Sýnt fram á verklega færni og viðhald hennar
1.e.1.    Flugmaður skal sýna fram á getu til að fara eftir verklagi og flugbrögðum með hæfni sem hæfir starfi hans í loftfarinu með því:
    i.    að starfrækja loftfarið innan takmarka þess,
    ii.    að ljúka öllum flugbrögðum af lipurð og nákvæmni,
    iii.    að sýna góða dómgreind og flugmennsku,
    iv.    að beita flugþekkingu,
    v.    halda alltaf góðri stjórn á loftfarinu með þeim hætti að tryggt sé að verklag eða flugbragð beri góðan árangur og
    vi.    færni sem er ekki tæknilegs eðlis, þ.m.t. að bera kennsl á hættur og bilanir og hvernig eigi að bregðast við þeim, þar sem notuð er fullnægjandi matsaðferð í tengslum við mat á tæknilegri færni.
1.e.2.    Viðhalda skal viðeigandi hæfni á sviði verklegrar færni. Sýna skal fram á að þetta sé gert með reglulegu mati, athugunum, prófum og eftirliti. Tíðni athugana, prófa og eftirlits skal vera í réttu hlutfalli við áhættuna í tengslum við verkefnið.
1.f.    Tungumálafærni
    Flugmaður skal hafa sýnt fram á tungumálafærni sem á við um þau verkefni sem hæfir starfi hans í loftfarinu. Slík færni, sem sýnt er fram á, skal fela í sér:
    i.    að geta skilið skjöl með veðurupplýsingum,
    ii.    að nota öll flugkort fyrir flugleið, brottflug og aðflug og flugupplýsingaskjöl sem tengjast þeim og
    iii.    að geta átt fjarskipti við aðra flugliða og flugleiðsöguþjónustu á öllum stigum flugs, þ.m.t. við undirbúning flugs
1.g.    Flugþjálfunartæki
    Ef flugþjálfunartæki er notað til þjálfunar eða til að sýna fram á að verkleg færni hafi náðst eða hafi verið við haldið, skal það viðurkennt fyrir tiltekna afkastagetu á þeim sviðum sem eru viðeigandi til að ljúka tengdu verkefni. Einkum skal eftirlíkingin af flugham, stjórnunareiginleikum, afkastagetu loftfars og kerfishögun vera dæmigerð fyrir loftfarið.
1.h.    Þjálfunarnámskeið
1.h.1.    Þjálfun skal fara fram með þjálfunarnámskeiðum.
1.h.2.    Þjálfunarnámskeið skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    i.    þróa skal námsefni fyrir hverja tegund námskeiðs og
    ii.    þjálfunarnámskeiðið skal veita yfirlit yfir bóklega þekkingu og verklega flugkennslu (þ.m.t. í flugþjálfa), eftir því sem við á.
1.i.    Kennarar
1.i.1.    Bókleg kennsla
    Kennarar sem eru með viðeigandi starfsréttindi skulu annast bóklega kennslu. Þeir skulu:
    i.    búa yfir viðeigandi þekkingu á því sviði sem kennt er og
    ii.    geta notað viðeigandi kennsluaðferðir.
1.i.2.    Flugkennsla og kennsla í flughermi
    Flugkennsla og kennsla í flughermi skal veitt af kennurum með viðeigandi starfsréttindi, sem hafa eftirfarandi réttindi og hæfi:
    i.    uppfylla kröfur um bóklega þekkingu og reynslu sem er viðeigandi fyrir þá kennslu sem á að veita,
    ii.    geta notað viðeigandi kennsluaðferðir,
    iii.    hafa æft kennsluaðferðir í þeim flugbrögðum og verklagi sem fyrirhugað er að veita flugkennslu í,
    iv.    hafa sýnt fram á getuna til að kenna á þeim sviðum sem veita á flugkennslu á, þ.m.t. kennsla í aðgerðum fyrir flug, eftir flug og kennsla á jörðu niðri og
    v.    fái reglulega upprifjunarþjálfun til að tryggja að kennslan sé ávallt í samræmi við það nýjasta sem er í boði.
    Flugkennarar skulu einnig hafa rétt til þess að gegna hlutverki flugstjóra loftfarsins, sem kennt er á, nema þegar verið er að þjálfa á nýjar tegundir loftfara.
1.j.    Prófdómarar
1.j.1.    Einstaklingar, sem bera ábyrgð á að meta færni flugmanna, skulu:
    i.    uppfylla kröfurnar sem gerðar eru til flugkennara og flugkennara sem kenna í flughermi,
    ii.    geta metið getu flugmanna og framkvæmt flugpróf og athuganir.
2.     Kröfur um reynslu
2.a.1.    Einstaklingur, sem gegnir hlutverki flugliða, kennara eða prófdómara, skal afla sér og viðhalda fullnægjandi reynslu af þeim verkefnum sem framkvæmd eru, nema framkvæmdarreglurnar kveði á um að sýnt sé fram á hæfni í samræmi við lið 1.e.
3.     Þjálfunarfyrirtæki
3.a.    Kröfur sem gerðar eru til þjálfunarfyrirtækja
3.a.1.    Þjálfunarfyrirtæki sem veitir þjálfun fyrir flugmenn skal uppfylla eftirfarandi kröfur.
    i.    hafa yfir að ráða öllum þeim tilföngum sem nauðsynleg eru fyrir þau ábyrgðarsvið sem tengjast starfsemi þeirra. Þessi tilföng eru m.a. eftirfarandi: aðstaða, starfsfólk, tæki, tól og efniviður, skráning verkefna, ábyrgð og verklagsreglur, aðgangur að viðeigandi gögnum og skráahald,
    ii.    taka í notkun og viðhalda stjórnunarkerfi í tengslum við öryggi og staðal um þjálfun og miða að stöðugum úrbótum á þessu kerfi og
    iii.    koma á fyrirkomulagi með öðrum viðeigandi fyrirtækjum, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja að alltaf ríki samræmi við framangreindar kröfur.
4.     Líkamlegt hæfi
4.a.    Læknisfræðilegar viðmiðanir
4.a.1.    Allir flugmenn skulu reglulega sýna fram á líkamlegt hæfi til að geta gegnt með fullnægjandi hætti hlutverki sínu, að teknu tilliti til tegundar verkefnisins. Sýna skal fram á samræmi með viðeigandi mati, sem byggist á bestu starfsvenjum í fluglæknisfræði, að teknu tilliti til tegundar verkefnis og hugsanlega skerts andlegs og líkamlegs atgervis sökum aldurs. Líkamlegt hæfi, sem felur í sér líkamlegt og andlegt hæfi, merkir að flugmaður sé ekki með sjúkdóm eða fötlun sem gerir hann óhæfan:
    i.    til að inna af hendi þau verkefni sem nauðsynleg eru til að starfrækja loftfar eða
    ii.    til að gegna þeim störfum sem honum eru falin, hvenær sem er, eða
    iii.    til að skynja umhverfið með réttum hætti.
4.a.2.    Ef ekki er hægt að sýna fram á líkamlegt hæfi með fullnægjandi hætti er heimilt að gera ráðstafanir til úrbóta sem veita sambærilegt flugöryggi.
4.b.    Fluglæknar
4.b.1.    Fluglæknir:
    i.    skal vera með starfsréttindi og leyfi til að stunda læknisstörf,
    ii.    skal hafa fengið þjálfun í fluglæknisfræði og reglulega upprifjunarþjálfun í fluglæknisfræði til að tryggja að matsstöðlum sé viðhaldið,
    iii.    skal hafa aflað sér hagnýtrar þekkingar og reynslu af starfsaðstæðum flugmanna.
4.c.    Fluglæknasetur
4.c.1.    Fluglæknasetur skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    i.    hafa til umráða öll þau tilföng sem nauðsynleg eru fyrir þær skyldur sem tengjast réttindum þeirra. Þessi tilföng eru m.a. eftirfarandi:
    aðstaða, starfsfólk, tæki, tól og efniviður, skráning verkefna, ábyrgð og verklagsreglur, aðgangur að viðeigandi gögnum og skráahald,
    ii.    taka í notkun og viðhalda stjórnunarkerfi í tengslum við öryggi og staðal um læknismat og miða að stöðugum úrbótum á þessu kerfi og
    iii.    koma á fyrirkomulagi með öðrum viðeigandi fyrirtækjum, eftir því sem þörf krefur, til að tryggja að alltaf ríki samræmi við þessar kröfur.

IV. VIÐAUKI
Grunnkröfur um flugrekstur sem um getur í 8. gr.

1.     Almennt
1.a.    Flug skal ekki fara fram ef flugverjar o g, eftir því sem við á, allt annað starfsfólk flugrekstrarsviðs, sem tekur þátt í undirbúningi og framkvæmd þess, kunna ekki skil á þeim lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem lúta að framkvæmd skyldustarfa þeirra og mælt er fyrir um svæðin, sem á að fara um, flugvelli, sem fyrirhugað er að nota, og tilheyrandi flugleiðsöguvirki.
1.b.    Flug skal fara fram með þeim hætti að verklagsreglum, sem tilgreindar eru í flughandbókinni eða, ef þess er krafist, í flugrekstrarhandbókinni, um undirbúning og framkvæmd flugs, sé fylgt. Til að auðvelda þetta verður gátlistakerfi að vera tiltækt til notkunar, eftir því sem við á, fyrir flugverja á öllum stigum starfrækslu loftfarsins við venjuleg skilyrði, óvenjuleg skilyrði og neyðarskilyrði og neyðartilvik. Setja skal verklagsreglur um öll neyðartilvik sem skynsamlegt er að ætla að sjá megi fyrir.
1.c.    Áður en hvert flug hefst skal ákvarða hlutverk og skyldur allra flugverja. Flugstjórinn skal bera ábyrgð á starfrækslu og öryggi loftfarsins og öryggi allra flugverja, farþega og farms um borð.
1.d.    Hlutir eða efni sem geta stofnað heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfinu í verulega hættu, s.s. hættulegur varningur, vopn og skotfæri, skulu ekki vera um borð í loftfari, nema sérstakar öryggisreglur og leiðbeiningar séu notaðar til að draga úr hættunni í tengslum við það.
1.e.    Öll nauðsynleg gögn, skjöl, skrár og upplýsingar til að skrá hvort farið sé að skilyrðunum, sem tilgreind eru í lið 5c, skulu geymd fyrir hvert flug og höfð tiltæk í lágmarkstíma í samræmi við tegund starfrækslu.
2.     Flugundirbúningur
2.a.    Ekki skal hefja flug nema gengið hafi verið úr skugga um með öllum eðlilegum ráðum, sem tiltæk eru, að öll eftirfarandi skilyrði hafi verið uppfyllt:
2.a.1.    Fullnægjandi virki, sem nauðsynleg eru fyrir flugið og örugga starfrækslu loftfarsins, þ.m.t. fjarskiptavirki og leiðsögutæki séu tiltæk til að framkvæma flugið, að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga frá upplýsingaþjónustu flugmála.
2.a.2.    Áhöfnin þarf að kunna skil á og farþegarnir að fá upplýsingar um staðsetningu og notkun viðkomandi neyðarbúnaðar. Fullnægjandi upplýsingar varðandi verklag í neyðartilvikum og notkun öryggisbúnaðar í farþegarými verður að vera tiltækt fyrir flugverja og farþega þar sem tilteknar upplýsingar eru notaðar.
2.a.3.    Flugstjórinn skal vera fullviss um:
    i.    að loftfarið sé lofthæft eins og tilgreint er í lið 6,
    ii.    að, ef þess er krafist, loftfarið sé skráð með tilhlýðilegum hætti og að viðeigandi vottorð þar að lútandi séu um borð í loftfarinu,
    iii.    að mælitæki og búnaður, eins og tilgreint er í lið 5, sem krafist er fyrir framkvæmd þess flugs, séu uppsett í loftfarinu og starfhæf nema veitt sé undanþága í gildandi lista yfir lágmarksbúnað (MEL) eða sambærilegu skjali,
    iv.    að massi loftfarsins og staðsetning þyngdarmiðju séu þannig að flugið geti farið fram innan þeirra takmarkana sem mælt er fyrir um í lofthæfiskjölunum,
    v.    að öllum handfarangri, lestarfarangri og farmi sé hlaðið á réttan hátt og festur og
    vi.    að ekki verði í neinum tilvikum farið út fyrir starfrækslutakmarkanir loftfarsins, eins og þær eru tilgreindar í 4. lið, í fluginu.
2.a.4.    Upplýsingar varðandi veðurskilyrði fyrir brottfararflugvöll, ákvörðunarflugvöll og, eftir því sem við á, varaflugvöll, sem og skilyrði á flugleið, verða að vera tiltækar fyrir flugliða. Sérstaklega verður að huga að aðstæðum í lofthjúpnum sem geta verið hættulegar.
2.a.5.    Ef fljúga á inn í veðurskilyrði, þar sem vitað er um ísingu eða búast má við henni, skal loftfarið hafa vottorð, tækjabúnað og/eða hafa verið meðhöndlað til öruggrar starfrækslu fyrir slík skilyrði.
2.a.6.    Fyrir flug samkvæmt sjónflugsreglum skulu veðurskilyrði á tilskilinni flugleið vera þannig að mögulegt sé að fljúga í samræmi við slíkar reglur. Fyrir flug samkvæmt blindflugsreglum skal velja ákvörðunarflugvöll eða -flugvelli og, eftir því sem við á, varaflugvöll eða -flugvelli, þar sem loftfarið getur lent, að teknu sérstöku tilliti til þeirra veðurskilyrða sem spáð er, hvort flugleiðsöguþjónusta sé tiltæk, hvort aðstaða sé á jörðu niðri og hvort blindflugsreglur séu samþykktar af ríkinu þar sem ákvörðunar- og/eða varaflugvöllurinn er staðsettur.
2.a.7.    Magn eldsneytis og olíu um borð skal vera nægilegt til að tryggja að hægt sé að ljúka fyrirhuguðu flugi með öruggum hætti, að teknu tilliti til veðurskilyrða, hvers konar þátta sem hafa áhrif á afköst loftfarsins og hvers konar tafa sem búist er við í fluginu. Auk þess skal varaeldsneyti vera um borð til nota í viðlögum. Ákveða skal verklagsreglur um eftirlit og stjórnun eldsneytisnotkunar á flugi.
3.     Starfræksla flugs
3.a.    Uppfylla skal öll eftirfarandi skilyrði að því er varðar starfrækslu flugs:
3.a.1.    ef við á um tegund loftfars, í flugtaki og lendingu og þegar flugstjórinn telur nauðsynlegt í öryggisskyni skulu allir flugverjar sitja í vinnureitum sínum og nota aðhaldsbúnaðinn, sem er til staðar, að teknu tilliti til tegundar loftfarsins,
3.a.2.    ef við á um tegund loftfars, skulu allir flugliðar, sem eru á flugvakt, vera í vinnureitum sínum með öryggisbeltin fest á flugleið nema þegar þeir þurfa að sinna líkamlegum þörfum eða, ef þess gerist þörf, starfrækslu,
3.a.3.    ef við á um tegund loftfars og starfrækslu, skal flugstjórinn sjá til þess, fyrir flugtak og lendingu, í akstri og hvenær sem þörf krefur í öryggisskyni, að allir farþegar sitji rétt og séu tryggilega festir,
3.a.4.    flug skal fara fram með þeim hætti að viðeigandi aðskilnaði sé haldið frá öðrum loftförum og að fullnægjandi hindranabil sé tryggt á öllum stigum flugsins; slíkur aðskilnaður skal a.m.k. vera sá sem krafist er í gildandi flugreglum,
3.a.5.    flugi skal ekki haldið áfram nema þekkt skilyrði haldi áfram að vera a.m.k. sambærileg þeim sem eru tilgreind í 2. lið; ennfremur, fyrir flug sem byggist á blindflugsreglum, skal ekki halda áfram aðflugi að flugvelli niður fyrir tilteknar, tilgreindar hæðir eða lengra en að tiltekinni stöðu ef viðmiðanirnar um skyggni, sem mælt er fyrir um, eru ekki uppfylltar,
3.a.6.    í neyðartilvikum skal flugstjórinn sjá til þess að farþegar fái leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við aðstæðum í neyðartilvikum, eftir því sem við á,
3.a.7.    flugstjóri verður að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að truflun af völdum óviðráðanlegra farþega hafi eins litlar afleiðingar fyrir flugið og mögulegt er,
3.a.8.    loftfari skal ekki ekið á athafnasvæði flugvallar eða þyrli þess snúið fyrir afli, nema sá sem er við stýrið hafi viðeigandi réttindi og hæfi,
3.a.9.    nota skal gildandi verklagsreglur um eftirlit og stjórnun eldsneytisnotkunar á flugi, eftir því sem við á.
4.     Takmarkanir á afkastagetu loftfars og takmarkanir á starfrækslu
4.a.    Loftfar skal starfrækt í samræmi við skjöl um lofthæfi þess og allar tengdar verklagsreglur og takmarkanir, eins og tilgreint er í samþykktri flughandbók þess eða sambærilegum skjölum, eftir því sem við á. Flughandbók eða sambærileg skjöl skulu vera tiltæk fyrir flugverja og uppfærð fyrir hvert loftfar.
4.b.    Loftfarið skal starfrækt í samræmi við gildandi skjöl um umhverfisvernd.
4.c.    Ekki skal hefja flug eða halda því áfram nema áætluð afköst loftfars, að teknu tilliti til allra þátta sem hafa veruleg áhrif á afkastagetu þess, geri kleift að öll stig flugs séu framkvæmd innan gildandi vegalengda/svæða og hindranabila með fyrirhuguðum starfrækslumassa. Afkastaþættir, sem hafa veruleg áhrif á flugtak, flugleið og aðflug/lendingu, eru einkum:
    i.    verklagsreglur,
    ii.    málþrýstingshæð á flugvelli,
    iii.    hitastig,
    iv.    vindur,
    v.    stærð, halli og ástand flugtaks-/lendingarsvæðis og
    vi.    ástand flugskrokksins, fullbúins hreyfils eða kerfa, að teknu tilliti til hugsanlegra skemmda.
4.c.1.    Taka skal tillit til slíkra þátta beint sem færibreytna, sem varða starfrækslu, eða óbeint með frávikum eða vikmörkum, sem heimilt er veita þegar gögn um afkastagetu eru áætluð, eftir því sem við á um tegund starfrækslu.
5.     Mælitæki, gögn og búnaður
5.a.    Loftfar skal búið öllum leiðsögubúnaði, fjarskiptabúnaði og öðrum búnaði, sem nauðsynlegur er fyrir fyrirhugað flug, að teknu tillit til reglna um flugumferð og flugreglna sem gilda á hvaða stigi flugsins sem er.
5.b.    Ef við á, skal loftfar vera búið öllum nauðsynlegum öryggis-, læknis-, rýmingar- og björgunarbúnaði, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem tengist starfrækslusviðum, tilskildum flugleiðum, flughæð og lengd flugsins.
5.c.    Öll gögn, sem eru nauðsynleg til að flugverjar geti framkvæmt flugið, skulu uppfærð og tiltæk um borð í loftfarinu, að teknu tilliti til gildandi reglna um flugumferð, flugreglna, flughæðar og starfrækslusviða.
6.     Áframhaldandi lofthæfi
6.a.    Ekki skal starfrækja loftfarið nema:
    i.    það sé í lofthæfu ástandi,
    ii.    búnaður til starfrækslu og neyðarbúnaður, sem nauðsynlegur er fyrir fyrirhugað flug, sé nothæfur,
    iii.    lofthæfiskjal loftfarsins sé gilt og
    iv.    viðhald loftfarsins fari fram í samræmi við viðhaldsáætlun þess.
6.b.    Áður en hvert flug hefst eða sams konar röð samfelldra fluga skal framkvæma fyrirflugsskoðun á loftfarinu til að ákvarða hvort það sé nothæft fyrir fyrirhugað flug.
6.c.    Í viðhaldsáætluninni skal einkum vera að finna viðhaldsverkefni og -tíðni, sérstaklega þau sem hafa verið tilgreind sem lögboðin í leiðbeiningunum um áframhaldandi lofthæfi.
6.d.    Loftfarið skal ekki starfrækt nema aðili eða fyrirtæki með tilskilin réttindi gefi út afhendingarvottorð (viðhaldsvottorð) að viðhaldi loknu. Á undirrituðu afhendingarvottorði (viðhaldsvottorði) skulu einkum vera grunnupplýsingar um það viðhald sem fór fram.
6.e.    Allar skrár, sem sýna fram á lofthæfi loftfarsins, skulu geymdar þar til nýjar upplýsingar, sem eru sambærilegar að því er varðar umfang og nákvæmni, hafa komið í stað upplýsinganna, sem þar er að finna, en þó eigi skemur en 24 mánuði, ef um er að ræða nákvæmar viðhaldsskrár. Ef loftfar er leigt út skal geyma allar skrár, sem sýna fram á lofthæfi loftfarsins, a.m.k. út leigutímabilið.
6.f.    Allar breytingar og viðgerðir skulu uppfylla grunnkröfur um lofthæfi. Geyma skal gögn til rökstuðnings sem styðja að kröfur um lofthæfi hafi verið uppfylltar.
7.     Flugverjar
7.a.    Ákvarða skal fjölda og samsetningu áhafnar að teknu tilliti:
    i.    til vottunartakmarkana loftfarsins, þ.m.t., eftir því sem við á, viðeigandi sýnikennsla í neyðarrýmingu,
    ii.    til útfærslu loftfarsins og
    iii.    til tegundar og lengd starfrækslu.
7.b.    Öryggis- og þjónustuliðar skulu:
    i.    hljóta þjálfun og gangast undir próf reglulega til að ná og viðhalda fullnægjandi hæfni til að gegna þeim öryggisstörfum sem þeim eru falin og
    ii.    gangast reglulega undir mat á því hvort líkamlegt hæfi þeirra gerir þeim kleift að gegn störfum sem þeim eru falin með öruggum hætti. Sýna verður fram á að kröfur séu uppfylltar með viðeigandi mati sem byggist á bestu starfsvenjum í fluglæknisfræði.
7.c.    Flugstjórinn skal hafa heimild til að gefa allar skipanir og grípa til allra viðeigandi aðgerða í því skyni að vernda starfræksluna og tryggja öryggi loftfarsins og einstaklinga og/eða eigna sem þar eru um borð.
7.d.    Í neyðartilviki, sem stofnar starfrækslunni eða öryggi loftfarsins og/eða einstaklinga um borð í hættu, skal flugstjórinn grípa til allra aðgerða sem hann telur nauðsynlegar til að tryggja öryggi. Ef slík aðgerð felur í sér brot á staðbundnum reglum eða verklagsreglum skal flugstjórinn bera ábyrgð á að tilkynna viðeigandi staðaryfirvöldum um það án tafar.
7.e.    Ekki skal herma eftir óeðlilegum neyðartilvikum ef farþegar eða farmur er um borð.
7.f.    Flugverjar mega ekki láta getuna til að sinna verkefnum/taka ákvarðanir skerðast þannig að það ógni flugöryggi vegna áhrifa þreytu, að teknu tilliti til m.a. uppsafnaðrar þreytu, svefnleysis, fjölda fluga sem flogin eru, næturvakta eða breytinga milli tímabelta. Hvíldartímabil skulu veita flugverjum nægan tíma til að jafna sig eftir undangengnar vaktir svo þeir verði vel úthvíldir fyrir upphaf næstu flugvaktar.
7.g.    Flugverji skal ekki sinna skyldustörfum, sem honum eru falin um borð í loftfari, ef hann er undir áhrifum geðvirkra efna eða áfengis eða ef hann er ófær til vinnu sökum meiðsla, þreytu, lyfjagjafar, veikinda eða annarra svipaðra ástæðna.
8.     Viðbótarkröfur vegna reksturs í ábótaskyni og starfrækslu flókinna, vélknúinna loftfara
8.a.    Starfræksla í atvinnuskyni og starfræksla flókinna, vélknúinna loftfara skal ekki fara fram nema eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
8.a.1.    Flugrekandinn skal hafa beint eða óbeint í gegnum samninga þau tilföng sem nauðsynleg eru með tilliti til stærðar og umfangs starfrækslunnar; Þessi tilföng eru m.a. eftirfarandi: loftför, aðstaða, stjórnunarfyrirkomulag, starfsfólk, skráning verkefna, ábyrgð og verklagsreglur, aðgangur að viðeigandi gögnum og skráahald,
8.a.2.    Flugrekandinn skal einungis nota starfsfólk með viðeigandi réttindi og þjálfun og hrinda í framkvæmd og viðhalda þjálfunar- og eftirlitsáætlunum fyrir flugverja og annað hlutaðeigandi starfsfólk,
8.a.3.    Flugrekandinn skal útbúa lista yfir lágmarksbúnað loftfars eða sambærilegt skjal að teknu tilliti til eftirfarandi:
    i.    í skjalinu skal kveðið á um starfrækslu loftfars við tilgreind skilyrði með sérstök mælitæki, búnað eða þætti sem eru óstarfhæf við upphaf flugs,
    ii.    skjalið skal útbúið fyrir hvert loftfar, að teknu tilliti til viðkomandi starfrækslu- og viðhaldsskilyrða flugrekandans og
    iii.    listinn yfir lágmarksbúnað loftfars skal byggjast á grunnlista yfir lágmarksbúnað (MMEL), ef hann er til staðar, og skal ekki fela í sér minni takmarkanir en grunnlistinn yfir lágmarksbúnað loftfars,
8.a.4.    Flugrekandinn skal taka í notkun og viðhalda stjórnunarkerfi með það fyrir augum að tryggja samræmi við grunnkröfur um starfrækslu og vinna að því markmiði að bæta stöðugt þetta kerfi og
8.a.5.    Flugrekandinn skal koma á og viðhalda slysavarna- og öryggisáætlun, þ.m.t. tilkynningaráætlun um atvik sem skal notuð af stjórnunarkerfinu til að stuðla að markmiðinu um stöðugar úrbætur á öryggi starfrækslu.
8.b.    Rekstur í ábataskyni og starfræksla flókinna, vélknúinna loftfara skal einungis fara fram í samræmi við flugrekstrarhandbók flugrekandans. Slík handbók skal hafa að geyma öll nauðsynleg fyrirmæli, upplýsingar og verklag fyrir öll loftför, sem starfrækt eru, og fyrir starfsfólk flugrekstrarsviðs þannig að það geti sinnt skyldustörfum sínum. Tilgreina skal takmarkanir sem gilda um flugtíma, flugvaktir og hvíldartíma fyrir flugverja. Flugrekstrarhandbókin og síðari endurskoðun hennar verða að samrýmast samþykktri flughandbók og er breytt eftir því sem nauðsynlegt er.
8.c.    Flugrekandinn skal setja verklagsreglur, eftir því sem við á, til að truflun af völdum óviðráðanlegra farþega hafi eins litlar afleiðingar fyrir örugga starfrækslu flugs og mögulegt er.
8.d.    Flugrekandinn skal þróa og viðhalda öryggisáætlunum, sem lagaðar eru að loftfarinu og tegund starfrækslu, þ.m.t. einkum:
    i.    öryggi stjórnklefa,
    ii.    gátlistar fyrir verklag við leit í loftfari,
    iii.    þjálfunaráætlanir,
    iv.    vernd rafeinda- og tölvukerfa til að koma í veg fyrir truflun og bjögun af ásettu ráði og
    v.    skýrslu um ólöglegt athæfi.
    Ef öryggisráðstafanir geta haft skaðleg áhrif á öryggi starfrækslu skal meta áhættuna og viðeigandi verklag þróað til að draga úr öryggisáhættu en mögulega þarf að nota sérhæfðan búnað.
8.e.    Flugrekandinn skal tilnefna einn af flugliðunum sem flugstjóra.
8.f.    Nota skal vaktaskipan til að koma í veg fyrir þreytu. Að því er varðar flug eða röð fluga þarf slík vaktaskipan að taka til flugtíma, flugvakta, vinnutíma og aðlögunar hvíldartíma. Takmarkanir, sem settar eru innan vaktaskipunarinnar, skulu taka tillit til allra viðeigandi þátta sem stuðla að þreytu, s.s. fjölda fluga sem flogin eru, þegar flogið er yfir tímabelti, svefnleysis, truflunar á dægursveiflu, næturvinnu, staðsetningarflugs, uppsafnaðs vinnutíma á tilteknu tímabili, þegar úthlutuðum verkefnum er dreift á flugverja og einnig þegar áhöfn er aukin.
8.g.    Verkefnin, sem tilgreind eru í lið 6.a og þau sem lýst er í liðum 6.d og 6.e, skulu sæta eftirliti fyrirtækis, sem ber ábyrgð á stjórnun áframhaldandi lofthæfis og verður að uppfylla, auk þessara krafna í lið 3.a í I. viðauka, eftirfarandi skilyrði:
    i.    fyrirtækið skal vera viðurkennt til að sjá um viðhald á framleiðsluvörum, hlutum og búnaði á eigin ábyrgð eða hafa gert samning við slíkt viðurkennt fyrirtæki að því er varðar þessar framleiðsluvörur, hluta og búnað og
    ii.    fyrirtækið skal útbúa handbók fyrirtækisins, þar sem mælt er fyrir um notkun og leiðbeiningar til hlutaðeigandi starfsfólks, lýsingar á öllum verklagsreglum fyrirtækisins í tengslum við áframhaldandi lofthæfi, þ.m.t., eftir því sem við á, lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi milli fyrirtækisins og samþykkta viðhaldsfyrirtækisins.

V. VIÐAUKI
Viðmiðanir fyrir hæfa aðila sem um getur í 13. gr.

1.    Aðilinn, forstöðumaður hans og starfsmenn, sem annast skoðun, mega ekki hafa afskipti, hvorki bein né sem viðurkenndir fulltrúar, af hönnun, framleiðslu, markaðssetningu eða viðhaldi framleiðsluvaranna, hlutanna, búnaðarins, kerfishlutanna eða kerfanna eða af rekstri þeirra, þjónustu eða notkun. Þetta útilokar þó ekki að hlutaðeigandi fyrirtæki og hæfi aðilinn geti skipst á tæknilegum upplýsingum.
2.    Aðilinn og starfsmenn hans, sem annast vottunarverkefni, skulu gæta þess að þau séu í hvívetna unnin af tæknilegri færni og faglegri ráðvendni og þeir skulu vera óháðir öllum áhrifum og þrýstingi, einkum af efnahagslegum toga, sem gæti haft áhrif á mat þeirra eða niðurstöður rannsókna, sérstaklega af hálfu einstaklinga eða hópa einstaklinga sem niðurstöður vottunarverkefnanna hafa áhrif á.
3.    Aðilinn skal ráða til sín starfsfólk og hafa aðstöðu til að vinna á fullnægjandi hátt þau tæknilegu verkefni og stjórnunarverkefni sem tengjast vottunarferlinu; hann skal einnig hafa til umráða nauðsynlegan búnað fyrir athuganir sem heyra til undantekninga.
4.    Starfsfólk, sem ber ábyrgð á rannsóknum, skal hafa:
    –    trausta tækni- og starfsþjálfun,
    –    næga þekkingu á þeim kröfum sem gerðar eru við vottunarverkefni sem þeir framkvæma og næga starfsreynslu af slíku ferli,
    –    tilskilda kunnáttu í að útbúa yfirlýsingar, skrár og skýrslur til að sýna fram á að þessar rannsóknir hafi farið fram.
5.    Hlutleysi rannsóknarmanna þarf að vera tryggt. Laun þeirra mega hvorki vera bundin fjölda þeirra rannsókna sem gerðar eru né niðurstöðum slíkra rannsókna.
6.    Aðilinn verður að hafa ábyrgðartryggingu nema eitt aðildarríki sé bótaskylt samkvæmt landslögum þess.
7.    Starfsmenn aðilans skulu fara með allar upplýsingar, sem þeir fá við að inna af hendi störf sín samkvæmt þessari reglugerð, sem trúnaðarmál.

VI. VIÐAUKI
SAMSVÖRUNARTAFLA

Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 Þessi reglugerð
1. gr. 1. gr.
1. mgr. 2. gr. 1. mgr. 2. gr.
a- til e-liður 2. mgr. 2. gr. a- til e-liður 2. mgr. 2. gr.
f-liður 2. mgr. 2. gr.
3. mgr. 2. gr. 3. mgr. 2. gr.
a- til g-liður 3. gr. a- til g-liður 3. gr.
h- til l-liður 3. gr.
a- til c-liður 1. mgr. 4. gr. a- til c-liður 1. mgr. 4. gr.
d-liður 1. mgr. 4. gr.
2. og 3 mgr. 4. gr.
2. mgr. 4. gr. 4. mgr. 4. gr.
5. mgr. 4. gr.
3. mgr. 4. gr. 6. mgr. 4. gr.
1. mgr. 5. gr. 1. mgr. 5. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 2. mgr. 5. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 2. mgr. 5. gr.
a- til c-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr. a- til c-liðar í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr.
d-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr. d-og e-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr.
e-og f-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr. f- og g-liður í fyrstu undirgrein 2. mgr. 5. gr.
3. mgr. 5. gr.
3. mgr. 5. gr. 4. mgr. 5. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 4. mgr. 5. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 5. mgr. 5. gr.
a- til d-liður í fyrstu undirgrein 4. mgr. 5. gr. a- til d-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr.
i. til iii. liður e-liðar í fyrstu undirgrein 4. mgr. 5. gr. i. til iii. liður e-liðar í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr.
iv. til vi. liður e-liðar í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr.
f- til i-liður í fyrstu undirgrein 4. mgr. 5. gr. f- til i-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr.
j-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr.
Inngangsorð fyrstu undirgreinar 5. mgr. 5. gr. Inngangsorð fyrstu undirgreinar 6. mgr. 5. gr.
a-, b- og c-liður í fyrstu undirgrein 5. mgr. 5. gr. a-, b- og c-liður í fyrstu undirgrein 6. mgr. 5. gr.
d-liður í fyrstu undirgrein 6. mgr. 5. gr.
6. gr. 6. gr.
7. gr.
8. gr.
9. gr.
10. gr.
Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 Þessi reglugerð
1. mgr. 8. gr. 1. mgr. 11. gr.
2.–4. mgr. 11. gr.
2. mgr. 8. gr. 5. mgr. 11. gr.
6. mgr. 11. gr.
9. gr. 12. gr.
13. gr.
1. mgr. 10. gr. 1. mgr. 14. gr.
2. mgr. 14. gr.
2. mgr. 10. gr. 3. mgr. 14. gr.
3. mgr. 10. gr. 4. mgr. 14. gr.
4. mgr. 10. gr. 5. mgr. 14. gr.
5. mgr. 10. gr. 6. mgr. 14. gr.
6. mgr. 10. gr. 7. mgr. 14. gr.
11. gr. 15. gr.
16. gr.
12. gr. 17. gr.
Inngangsorðin í 13. gr. Inngangsorðin í 18. gr.
a-liður 13. gr. a-liður 18. gr.
b-liður 18. gr.
b-liður 13. gr. c-liður 18. gr.
c-liður 13. gr. d-liður 18. gr.
e-liður 18. gr.
14. gr. 19. gr.
Inngangsorðin í 1. mgr. 15. gr. Inngangsorðin í 1. mgr. 20. gr.
a- til j-liður 1. mgr. 15. gr. a- til j-liður 1. mgr. 20. gr.
k- og l-liður 1. mgr. 20. gr.
2. mgr. 15. gr. 2. mgr. 20. gr.
21. gr.
22. gr.
23. gr.
1. og 2. mgr. 16. gr. 1. og 2. mgr. 24. gr.
3. mgr. 24. gr.
3. mgr. 16. gr. 4. mgr. 24. gr.
4. mgr. 16. gr. 5. mgr. 24. gr.
25. gr.
17. gr. 26. gr.
18. gr. 27. gr.
19. gr. 28. gr.
Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 Þessi reglugerð
20. gr. 29. gr.
21. gr. 30. gr.
22. gr. 31. gr.
23. gr. 32. gr.
1.–4. mgr. 24. gr. 1.–4. mgr. 33. gr.
5. mgr. 33. gr.
1. og 2. mgr. 25. gr. 1. og 2. mgr. 34. gr.
3. mgr. 34. gr.
26. gr. 35. gr.
27. gr. 36. gr.
28. gr. 37. gr.
1. og 2. mgr. 29. gr. 1. og 2. mgr. 38. gr.
a- til j-liður 3. mgr. 29. gr. a- til j-liður 3. mgr. 38. gr.
k- og l-liður 3. mgr. 38. gr.
30. gr. 39. gr.
31. gr. 40. gr.
32. gr. 41. gr.
33. gr. 42. gr.
34. gr. 43. gr.
35. gr. 44. gr.
36. gr. 45. gr.
37. gr. 46. gr.
38. gr. 47. gr.
39. gr. 48. gr.
40. gr. 49. gr.
41. gr. 50. gr.
42. gr. 51. gr.
43. gr. 52. gr.
44. gr. 53. gr.
45. gr. 54. gr.
Inngangsorðin í 1. mgr. 46. gr. Inngangsorðin í 1. mgr. 55. gr.
a- til d-liður 1. mgr. 46. gr. a- til d-liður 1. mgr. 55. gr.
e-liður 1. mgr. 55. gr.
2. og 3. mgr. 46. gr. 2. og 3. mgr. 55. gr.
56. gr.
57. gr.
1. og 2. mgr. 47. gr. 1. og 2. mgr. 58. gr.
Reglugerð (EB) nr. 1592/2002 Þessi reglugerð
3. mgr. 47. gr.
4. mgr. 47. gr. 3. mgr. 58. gr.
5. mgr. 47. gr.
4. mgr. 58. gr.
Inngangsorðin í 1. mgr. 48. gr. Inngangsorðin í 1. mgr. 59. gr.
a-liður 1. mgr. 48. gr. a- og b-liður 1. mgr. 59. gr.
b- og c-liður 1. mgr. 48. gr. c- og d-liður 1. mgr. 59. gr.
e-liður 1. mgr. 59. gr.
2. og 3. mgr. 48. gr. 2. og 3. mgr. 59. gr.
4. mgr. 59. gr.
4. ti1 10. mgr. 48. gr. 5. til 11. mgr. 59. gr.
49. gr. 60. gr.
50. gr. 61. gr.
51. gr. 62. gr.
52. gr. 63. gr.
53. gr. 64. gr.
54. gr. 65. gr.
55. gr. 66. gr.
56. gr. 67. gr.
68. gr.
57. gr. 69. gr.
59. gr. 70. gr.

Fylgiskjal II.


Stefán Már Stefánsson:
Álitsgerð

um hvort ákvæði reglugerðar (EB) nr. 216/2008, einkum ákvæði 25. gr. reglugerðarinnar, stangist á við íslensku stjórnarskrána.


Unnin að beiðni forsætisráðuneytisins.
(10. janúar 2011.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB C 185, 8.8.2006, bls. 106.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 14. mars 2007 (Stjtíð. ESB C 301 E, 13.12.2007, bls. 103), sameiginleg afstaða ráðsins frá 15. október 2007 (Stjtíð. ESB C 277 E, 20.11.2007, bls. 8) og afstaða Evrópuþingsins frá 12. desember 2007. Ákvörðun ráðsins frá 31. janúar 2008.
Neðanmálsgrein: 3
(1)    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2111/ 2005 frá 14. desember 2005 um að stofna skrá Bandalagsins yfir flugrekendur sem er bannað að stunda flugrekstur innan Bandalagsins og um að upplýsa flugfarþega um hvaða flugrekendur annast flutning og um niðurfellingu 9. gr. tilskipunar 2004/36/EB (Stjtíð. L 344, 27.12.2005, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB L 240, 7.9.2002, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 334/2007 (Stjtíð. ESB L 88, 29.3.2007, bls. 39).
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB L 373, 31.12.1991, bls. 4. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 8/2008 (Stjtíð. ESB L 10, 12.1.2008, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB L 373, 31.12.1991, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 76. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 2111/2005.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 145, 31.5.2001, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/ 512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. ESB L 377, 27.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 248, 16.9.2002, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1525/2007(Stjtíð. ESB L 343, 27.12.2007, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 136, 31.5.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. EB L 357, 31.12.2002, bls. 72.