Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1124  —  276. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

Frá samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að láta gera úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.
    Í greinargerð tillögunnar kemur m.a. fram að ms. Herjólfur sé kominn til ára sinna og að ástæða sé til að fara yfir öryggisbúnað skipsins. Benda tillöguhöfundar á að Sigmund Jóhannsson og Friðrik Ásmundsson hafi fyrir hönd Félags áhugamanna í Vestmannaeyjum um öryggismál sjómanna vakið athygli á því að félagið telji að alvarlegar brotalamir séu í öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Enn fremur kemur fram að Herjólfur nálgist tvítugt en lífaldur slíkra skipa sé að öllu jöfnu 15 ár.
    Á fundi sínum 21. febrúar sl. tók nefndin málið til umræðu. Á þeim fundi var lögð fram tillaga um að nefndin sendi Siglingastofnun Íslands og rekstraraðila skipsins skriflegar beiðnir þar sem þess væri óskað að nefndin yrði upplýst skriflega um haffærni Herjólfs, látið yrði í té álit á því hvort öryggisbúnaður skipsins stæðist þær kröfur sem gerðar væru til skips af slíkri gerð og eftir atvikum í hvaða aðgerðir væri eðlilegt að ráðast til þess að svo yrði. Var tillaga þessi samþykkt samhljóða.
    Hinn 2. mars sl. svaraði Siglingastofnun Íslands beiðni nefndarinnar með bréfi. Var þar upplýst að öryggisbúnaður Herjólfs uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til hans samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 666/2001, um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, sbr. reglugerð nr. 893/2004. Var sérstaklega tekið fram að björgunarbátar skipsins og gúmmíbjörgunarbátar ásamt sjósetningarbúnaði uppfylltu kröfur téðrar reglugerðar. Framangreindu til viðbótar sendi Siglingastofnun nefndinni staðfestingu á haffærni ferjunnar. Í fylgiskjölum bréfs stofnunarinnar kemur fram að björgunaræfing hafi verið framkvæmd í september 2010. Í kjölfar æfingarinnar hafi Siglingastofnun gert athugasemdir við viðhald sjósetningarbúnaðar björgunarbáta og fyrirkomulag hans. Samkvæmt upplýsingum sem formanni nefndarinnar bárust munnlega frá Siglingastofnun var björgunaræfingin endurtekin í upphafi árs 2011 og reyndust þau atriði sem stofnunin hafði áður gert athugasemdir við ekki gefa tilefni til athugasemda.
    Í bréfi Siglingastofnunar kemur að auki fram að samgönguráðuneytið hafi haustið 2008 falið Siglingastofnun Íslands að skoða tvo kosti í kjölfar þess að ákveðið var að fresta áður ákveðnum kaupum á nýrri Vestmannaeyjaferju. Stofnunin svaraði bréfi ráðuneytisins í maí 2009. Í svarbréfi sínu leggur stofnunin til ýmsar endurbætur á ms. Herjólfi og áætlar að breytingarnar kosti um 140 millj. kr. og þar af um 35 millj. kr. vegna kostnaðar við nýjan björgunarbúnað. Í svarbréfinu kemur eftirfarandi m.a. fram: „Til að auka öryggi og einnig að fækka í áhöfn Herjólfs er lagt til að endurnýja björgunarbúnað og setja um borð MES björgunarbúnað.“ Í niðurlagi bréfs stofnunarinnar kemur svo fram að ekki hafi orðið af því að björgunarbúnaðurinn væri endurnýjaður.
    Af framansögðu er skilningur nefndarinnar sá að öryggisbúnaður um borð í Herjólfi sé í lagi, hann uppfylli allar kröfur sem til slíks búnaðar eru gerðar auk þess sem haffærni skipsins hefur verið staðfest. Þó virðist ekki hafa verið brugðist við tillögum Siglingastofnunar Íslands um endurnýjun björgunarbúnaðar skipsins sem að stofni til er jafngamall ms. Herjólfi en hefur verið uppfærður til samræmis við breytingar á reglum um björgunarbúnað slíkra skipa.
    Í ljósi alls framangreinds er það álit nefndarinnar að tilefni sé til þess að fram fari könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestamannaeyjarferjunnar Herjólfs. Af þeim sökum mælir nefndin með því að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestmannaeyjarferjunnar Herjólfs. Ráðherra kynni samgöngunefnd Alþingis niðurstöður könnunarinnar.
    
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. mars 2011.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Árni Johnsen.



Ólína Þorvarðardóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásbjörn Óttarsson.



Mörður Árnason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.