Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 35/139.

Þskj. 1658  —  403. mál.


Þingsályktun

um orkuskipti í samgöngum.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að vinna að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa og orkusparnaði. Stefnt skal að orkuskiptum í samgöngum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst af hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Með orkuskiptum í samgöngum er stuðlað að grænu hagkerfi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, óverulegri losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum og gjaldeyrissparnaði sem nota má til uppbyggingar á innviðum, þekkingu, framleiðslugetu og nýrri atvinnustarfsemi.
    Unnið verði að stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020 og skal sú stefnumótun liggja fyrir 1. janúar 2012. Við þá vinnu skal hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi:
     1.      Markmið.
        Að því skal stefnt að Ísland verði í forustu við notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi töluvert lægra en annars staðar eða minna en 1%. Markmiðið innan ESB er 10% fyrir árið 2020.
     2.      Mikilvægi.
        Unnið verði markvisst og eins hratt og kostur er að því að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti með því að hvetja til orkusparnaðar og skapa hagrænar forsendur fyrir notkun ökutækja sem nota endurnýjanlega orkugjafa. Stefnt skal að því að hefja framleiðslu og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum sem leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, gjaldeyrissparnaðar og meira orkuöryggis.
     3.      Skattaumhverfi.
        Skattaumhverfi verði þróað áfram til að það hvetji bæði neytendur og fyrirtæki til orkuskipta í samgöngum og til framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum til samgangna. Jafnframt felist hvati til orkusparnaðar í skattkerfinu.
     4.      Orkusparnaður.
        Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar í samgöngum, m.a. með miðlun upplýsinga til almennings, umhverfismiðuðu svæðaskipulagi, breyttu skattkerfi, eflingu almenningssamgangna og fleira í samvinnu við þá aðila sem nú þegar vinna að þessum málum, svo sem Orkusetur og sveitarstjórnir.
     5.      Samstarf.
        Lykilaðgerðir sem grípa þarf til verði skipulagðar og samstaða sköpuð um þær, m.a. með klasasamstarfi með þátttöku atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis.
     6.      Rannsóknir og þróun.
        Stuðla skal að rannsóknum, tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum. Menntun og fræðsla á þessu sviði skal einnig efld.
     7.      Ísland sem tilraunavettvangur.
        Ísland er ákjósanlegur vettvangur til að reyna ýmsar nýjungar í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum. Efla skal þátttöku í erlendu samstarfi í því skyni að laða að þekkingu og fjármagn.
     8.      Stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun.
        Efla skal stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun í tengslum við orkuskipti í samgöngum og stefnt skal að sérstakri fjármögnun verkefna á þessu sviði. Fé til verkefna sem tengjast orkuskiptum í samgöngum verði aukið.
     9.      Alþjóðasamstarf.
        Ísland uppfylli allar þær skyldur og kröfur sem alþjóðasamþykktir gera til landsins varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkusparnað og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Jafnframt taki Ísland þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði eftir því sem efni þykja til.

Samþykkt á Alþingi 7. júní 2011.