Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.

Þingskjal 31  —  31. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967.
    Á síðustu mánuðum hafa vindar lýðræðis og frelsis blásið um Mið-Austurlönd og Norður- Afríku. Íbúar ríkja á þessu svæði, ekki síst ungt fólk og konur, hafa risið upp og gert réttmætar kröfur um aukin mannréttindi, félagslegt réttlæti og mannúðlegra samfélag. Þær umbætur sem þar er krafist eru meðal helstu grunngilda hvers samfélags, þ.e. virðing fyrir lýðræði, mannréttindum og jafnrétti.
    Á sama tíma og jákvæð lýðræðisþróun verður í þessum heimshluta er deila Palestínumanna og Ísraela óleyst. Palestínumenn hafa í áratugi búið við hernám og mannréttindabrot sem ganga gegn reglum þjóðaréttar og ályktunum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins.
    Árið 1974 viðurkenndi allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna Frelsishreyfingu Palestínumanna (PLO) sem hinn réttmæta fulltrúa Palestínumanna. Árið 1988 lýsti PLO yfir stofnun Palestínuríkis og kallaði eftir friðarumleitunum sem mundu byggjast á tveggja ríkja lausninni svokölluðu. Síðan 1988 hafa alls 127 ríki viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki.
    Palestínumenn gera þá kröfu að fá að njóta sjálfsákvörðunarréttar í eigin ríki. Síðan 29. nóvember 1947 hefur alþjóðasamfélagið gert ráð fyrir stofnun ríkis araba í Palestínu. Var það gert með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 sem kveður á um stofnun ríkja gyðinga og araba í Palestínu. Ályktunin kom aldrei að fullu til framkvæmda þar sem aðeins ríki gyðinga var stofnað í maí 1948, en ekki ríki araba. Sérstök áhersla er lögð á þá staðreynd að Frelsishreyfing Palestínumanna og heimastjórn Palestínu (PNA) hafa gefið vopnaða baráttu upp á bátinn, viðurkennt Ísraelsríki og fallist á landamærin frá því fyrir sex daga stríðið 1967 sem framtíðarlandamæri.
    Ísland hefur um langt árabil stutt sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki Palestínumanna, lagt áherslu á friðsamlega lausn deilumála Palestínumanna og Ísraela og talið brýnt að alþjóðasamfélagið knýi fram samkomulag deiluaðila. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt stutt að deilumál Palestínumanna og Ísraela verði til lykta leidd í samningaviðræðum og hafa stutt friðarferlið sem miðar að þeirri niðurstöðu. Stjórnvöld hér á landi hafa enn fremur í orði og verki lýst fullum stuðningi við öryggi og tilverurétt Ísraelsríkis. Alþingi samþykkti þannig 18. maí 1989 þingsályktun um deilur Palestínumanna og Ísraela þar sem segir meðal annars: „Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.“ Þá samþykkti Alþingi 30. apríl 2002 þingsályktun þar sem þess var krafist „að hafnar [yrðu] friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra“.
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á „að byggja upp pólitísk tengsl við heimastjórn Palestínu og að Íslendingar styðji sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstætt ríki þeirra“. Utanríkisráðherra hefur fylgt stefnu ríkisstjórnarinnar eftir með samskiptum við ráðamenn Frelsishreyfingar Palestínumanna og heimastjórnar Palestínu og við stjórnvöld í Ísrael, Egyptalandi og Jórdaníu. Utanríkisráðherra hefur átt samráð við utanríkismálanefnd Alþingis um málefni Palestínu og heimsótti Vesturbakkann, Gasa og Austur-Jerúsalem í júlí 2011 í samræmi við vilja meiri hluta utanríkismálanefndar. Í ítarlegum viðræðum utanríkisráðherra við palestínska ráðamenn hefur komið fram skýr ósk um viðurkenningu Íslands á Palestínuríki og um stuðning við umsókn þess um aðild að Sameinuðu þjóðunum.
    Ríki öðlast einkum stöðu innan alþjóðasamfélagsins með viðurkenningu annarra ríkja. Viðurkenning byggist á pólitísku mati þess ríkis sem hana veitir. Í viðurkenningu felst þó að ríkin sem hana veita telja að ríkið sem þau viðurkenna uppfylli hlutlæg skilyrði þjóðaréttar fyrir tilvist sjálfstæðra ríkja sem geta borið réttindi og skyldur að þjóðarétti. Er almennt litið svo á að ríki þurfi að hafa 1) landsvæði, 2) íbúa, 3) ríkisstjórn sem fari raunverulega með stjórn á viðkomandi landsvæði og 4) sjálfstæði til að hafa samskipti við önnur ríki. Viðurkenning á nýju ríki alþjóðasamfélagsins er því fyrst og fremst utanríkispólitísk aðgerð byggð á þjóðréttarlegum grunni. Viðurkenning ríkis er þannig tvíhliða gjörningur sem grundvallast á fullveldi og gagnkvæmni og er óháð formlegu samþykki frá alþjóðasamfélaginu þótt það kunni síðar að koma til í formi aðildar ríkisins að alþjóðastofnunum.
    Telja verður að Palestína uppfylli framangreind skilyrði þjóðaréttar fyrir tilvist sjálfstæðra ríkja sem geti talist fullgildir aðilar að þjóðarétti. Þó hefur verið bent á að það skorti á full yfirráð Palestínu yfir landsvæði sínu sökum ólögmæts hernáms Ísraels. Það er hins vegar ein af grundvallarreglum þjóðaréttar að ólögmætar aðgerðir einstakra ríkja geti ekki skapað þeim rétt sér til handa. Yfirráð landsvæðis í krafti valdbeitingar eru ekki talin leiða til lögmætra ríkisyfirráða að þjóðarétti. Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað um hið ólögmæta hernám Ísraels á landi Palestínu á þessum grundvelli og því er ljóst að óháð því hversu lengi hernámið hefur staðið skapar það Ísrael ekki rétt yfir umræddu landi. Samkvæmt því verður að líta svo á að með vísan til lögmætisreglu þjóðaréttar sé fyllilega réttmætt að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki þótt það skorti á full yfirráð Palestínu yfir landsvæði sínu vegna hins ólöglega hernáms Ísraels.
    Þessi niðurstaða styðst enn fremur við ýmis fordæmi. Kósóvó er nærtækt dæmi þar sem ríkisstjórn landsins hefur enn í dag ekki full yfirráð yfir öllu landsvæði þess. Mörg ríki, að Íslandi meðtöldu, viðurkenndu þó Kósóvó árið 2008. Ísland viðurkenndi einnig Eystrasaltsríkin árið 1991 án þess að ríkisstjórnir landanna hefðu að fullu öðlast yfirráð yfir löndum sínum.
    Einnig er rétt að líta til þess að heimastjórn Palestínu hefur náð góðum árangri við að framfylgja efnahags- og þróunaráætlun sinni og hefur nú fært ótvíræðar sönnur á það með uppbyggingu innviða og burðarstofnana að Palestínuríki er fært um að standa á eigin fótum. Nýlegar úttektir Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans hafa leitt til yfirlýsinga allra þessara stofnana um að palestínska heimastjórnin standist fyllilega viðmið um að geta haldið úti rekstri ríkis. Þá ályktaði alþjóðleg samráðsnefnd um uppbyggingu Palestínu undir forsæti Noregs á fundi sínum 19. september 2011 að Palestínumenn hefðu átt mikilli velgengni að fagna á sviði efnahagsuppbyggingar á undanförnum árum.
    Með Óslóarsamkomulaginu árið 1993 var dregin upp áætlun um samningaferli þar sem friðarsamningar Palestínumanna og Ísraela skyldu byggjast á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 (1967) og 338 (1973). Þessi afstaða hefur verið áréttuð í fjölmörgum ályktunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt öryggisráðsályktun nr. 242 ber Ísrael að draga til baka her sinn frá svæðum sem voru hernumin í sex daga stríðinu árið 1967. Þá er miðað við grænu línuna svonefndu sem er vopnahléslínan frá árinu 1949. Eins og fyrr segir hafa Palestínumenn fallist á að landamærin eins og þau voru fyrir sex daga stríðið 1967 séu grundvöllur friðarumleitana.
    Árið 2002 hnykktu leiðtogar Arababandalagsins á þessari afstöðu á leiðtogafundi í Beirút. Þar lýstu arabaríkin þeim vilja sínum að stofna til eðlilegra samskipta við Ísrael með því skilyrði að Ísrael drægi her sinn til baka miðað við landamærin eins og þau voru fyrir sex daga stríðið árið 1967.
    Sameinuðu þjóðirnar bera ríka ábyrgð á málefnum Palestínu, ekki eingöngu í sögulegu tilliti, heldur einnig sem sá vettvangur alþjóðasamfélagsins sem skal stuðla að heimsfriði og öryggi. Sameinuðu þjóðunum ber að tryggja virðingu fyrir alþjóðalögum og mannréttindum. Harðneskjuleg afstaða Ísraels mun ekki breytast án utanaðkomandi þrýstings og Palestínumenn eru of veikburða til að knýja fram breytingu. Lítil merki eru um að hægt verði að endurlífga friðarferlið í náinni framtíð. Ólögmæt landtaka Ísraels, sem hefur verið helsti spillir friðarviðræðna, hefur þvert á móti haldið áfram á hernumdu svæðunum. Endurvakið friðarferli þarf því að fela í sér miklu ákveðnari aðkomu stofnana alþjóðasamfélagsins að lausn málsins.
    Í ljósi þessa er eðlilegt að Palestínumenn hafi valið þá friðsamlegu leið að leggja mál sitt í dóm Sameinuðu þjóðanna með formlegri beiðni um aðild að stofnuninni sem lögð var fram 23. september 2011. Íslensk stjórnvöld hafa lýst stuðningi sínum við aðildarumsóknina og hafa jafnframt lýst því yfir að kjósi Palestínumenn að óska stuðnings við Palestínuríki með ályktun í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna muni hún hljóta stuðning Íslands.
    Viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki er í samræmi við málflutning Íslands og alþjóðasamfélagsins um að Ísraelar og Palestínumenn leiti sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og samþykkta Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindabrot á hernumdu svæðunum eru sérstakt áhyggjuefni og mikilvægt að nýta áfram hvert tækifæri til að hvetja alla deiluaðila til að láta þegar í stað af öllum ofbeldisverkum og til að virða mannréttindi og mannúðarlög.
    Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að Palestínumenn leiði innri deilumál sín til lykta. Þess er krafist að Hamas-samtökin hætti öllum ofbeldisverkum og viðurkenni rétt Ísraelsríkis til að njóta friðar og öryggis meðal ríkjanna á svæðinu. Jafnframt er skorað á Hamas-samtökin að virða þá samninga sem Frelsishreyfing Palestínumanna hefur gert fyrir hönd Palestínumanna.
    Viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki mun ekki breyta því ein og sér að landið verður áfram hernumið. Viðurkenning er hins vegar ein leið til að stuðla að betra jafnvægi í samskiptum Palestínumanna og Ísraela án þess að lögmæti Ísraelsríkis sé á nokkurn hátt dregið í efa. Árið 1949 óskaði Ísrael eftir aðild að Sameinuðu þjóðunum, en ári fyrr hafði Ísrael lýst einhliða yfir sjálfstæði sínu sem byggðist á fyrrnefndri ályktun allsherjarþingsins nr. 181. Ísraelsk stjórnvöld á þessum tíma færðu rök fyrir því að niðurstaða í landamæradeilu þeirra við Palestínumenn ætti ekki að vera skilyrði viðurkenningar á Ísraelsríki og fyrir fullri aðild þess að Sameinuðu þjóðunum. Þess í stað ætti að leysa úr deilumálunum við samningaborðið, helst með leiðsögn Sameinuðu þjóðanna og með Ísrael sem fullgilt aðildarríki að stofnuninni. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem studdu aðildarumsókn Ísraels. Nú, 62 árum síðar, er löngu tímabært að sömu rök gildi um Palestínumenn og þeir hljóti einnig þau réttindi að fá sæti við sama borð og aðrar þjóðir heims og að Palestína verði viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki.