Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 97. máls.

Þingskjal 97  —  97. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012 um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan
marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012, frá 30. apríl 2012, um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012, frá 30. apríl 2012, um breytingu á bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra.
    Með tilskipuninni eru settir upp ferlar við ákvörðun á því hvort mannvirki teljist til mikilvægra samfélagsinnviða og sett fram samræmd nálgun á því hvernig mikilvægir samfélagsinnviðir verða best verndaðir, í þeim tilgangi að tryggja öryggi borgaranna.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra.
    Með tilskipuninni eru settir upp ferlar við ákvörðun á því hvort mannvirki teljist til mikilvægra samfélagsinnviða og sett fram samræmd nálgun á því hvernig mikilvægir samfélagsinnviðir verða best verndaðir, í þeim tilgangi að tryggja öryggi borgaranna. Ákvörðun ESB um samræmda nálgun á þessu sviði tengist því að öryggi mikilvægra samfélagsinnviða í einu landi ESB tengist óhjákvæmilega öryggi í öðru aðildarríki. Öryggið gangi þvert á landamæri og þvert á málaflokkasvið.
    Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Madrid og Lundúnum á árunum 2004 og 2005 hóf ESB vinnu til þess að tryggja öryggi samfélagsinnviða í Evrópu og samþykkti sérstaka áætlun þar að lútandi (European Programme for Critical Infrastructure Protection – EPCIP). Þessi áætlun tekur til hvers kyns ógna sem geta beinst að samfélagsinnviðum en mest áhersla er lögð á hættu sem stafar af hryðjuverkaárásum. Innan áætlunarinnar eru settar á stofn sérfræðinefndir og menn skiptast á upplýsingum um bestu framkvæmd og ræða sameiginleg markmið með vernd samfélagsinnviða. Áætlunin felur eingöngu í sér samstarf en ekki bindandi réttarreglur.
    Tilskipunin felur í sér bindandi réttarreglur er lúta að því að fylgja ferlum við að benda á og tilnefna mannvirki sem mikilvægan samfélagsinnvið, skyldu íslenskra stjórnvalda til þess að upplýsa hlutaðeigandi aðildarríki ESB og EES um hvaða mannvirki teljist til mikilvægra samfélagsinnviða og skyldu til að framkvæma áhættumat. Þá er kveðið á um að sá sem rekur mannvirki sem telst til mikilvægra samfélagsinnviða skuli teljast tengiliður við stjórnvöld, gera skal öryggisáætlanir sem rekstraraðilar skuldbinda sig til þess að fylgja, auk þess að aðildarríki skulu útnefna tengilið gagnvart öðrum ríkjum. Tilskipunin miðar að því að tilnefning mikilvægra samfélagsinnviða gerist í áföngum og er fyrst um sinn fjallað um orku og samgönguvirki, en stefnt að því að fella fjarskipta- og upplýsingatæknigeirann undir tilskipunina á síðari stigum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Engin lög á Íslandi fjalla beinlínis um það efni og leiðir sem kveðið er á um í tilskipun 2008/114/EB. Unnt er að fullnægja kröfum tilskipunarinnar um áhættumöt og öryggisáætlanir innan ramma almannavarnalaga, nr. 82/2008. Í þeim lögum er hins vegar ekki kveðið á um tilnefningar mannvirkja sem mikilvægra samfélagsinnviða. Verður því að setja sérstök ákvæði í lög þar um, svo og um skyldur sem lagðar eru á þá aðila sem reka þau mannvirki, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Fyrirhugað er að innanríkisráðherra leggi fram lagafrumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar að þessu leyti. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingarnar muni hafa umtalsverðan kostnað eða stjórnsýslulegar afleiðingar í för með sér.




Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 101/2012

frá 30. apríl 2012

um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn, um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,
með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 86. og 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Bókun 31 við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2011 frá 19. júlí 2011 ( 1 ).

2)        Rétt er að auka samstarf samningsaðilanna þannig að það taki til tilskipunar ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra ( 2 ).


ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:


1. gr.


Eftirfarandi málsgrein bætist við á eftir 8. mgr. 10. gr. bókunar 31 við samninginn:

9.    (a) Samningsaðilarnir skulu starfa saman á sviðum sem eftirfarandi gerð tekur til:

                –     32008 L 0114 tilskipunar ráðsins 2008/114/EB frá 8. desember 2008 um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd þeirra (Stjtíð. ESB L 345, 23.12.2008, bls. 75).

    (b) Í því skyni að ná þeim markmiðum sem sett eru í tilskipun 2008/114/EB skulu samningsaðilarnir viðhafa viðeigandi samstarf sem nefnt er í 80. gr. samningsins.

    (c) Með vísan til 3. mgr. 79. gr. samningsins skal VII hluti (ákvæði um stofnanir) samningsins, að undanskildum 1. og 2. þætti 3. kafla, eiga við um þessa málsgrein.     


2. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni. ( * ).

3. gr.



Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. apríl 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Gianluca Grippa

starfandi formaður.





Fylgiskjal II.


TILSKIPUN RÁÐSINS 2008/114/EB
frá 8. desember 2008
um að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að efla vernd     þeirra
(Texti sem varðar EES)

RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 308. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Í júní 2004 fór leiðtogaráðið fram á undirbúning heildaráætlunar til þess að vernda þýðingarmikil grunnvirki. Framkvæmdastjórnin brást við og samþykkti 20. október 2004 orðsendingu um vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í baráttunni gegn hryðjuverkum þar sem settar eru fram tillögur um hvernig hægt er að efla forvarnarstarf í Evrópu, viðbúnað og viðbrögð við hryðjuverkaárásum á þýðingarmikil grunnvirki.
2)        Hinn 17. nóvember 2005 samþykkti framkvæmdastjórnin grænbók um Evrópuáætlun um vernd þýðingarmikilla grunnvirkja þar sem kynntir eru ýmsir möguleikar á því að fastsetja áætlunina og koma á fót upplýsinga- og viðvörunarkerfi vegna þýðingarmikilla grunnvirkja. Viðbrögðin við grænbókinni leiddu í ljós að greinileg þörf var á ramma Bandalagsins til að vernda þýðingarmikil grunnvirki. Viðurkennt var að nauðsynlegt væri að auka getuna til að vernda þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og draga úr veikleikum að því er varðar slík grunnvirki. Lögð var áhersla á vægi meginreglnanna um dreifræði, meðalhóf og fyllingu, og enn fremur á skoðanaskipti hagsmunaaðila.
3)        Í desember 2005 bað dóms- og innanríkismálaráðið framkvæmdastjórnina um að gera tillögu að Evrópuáætlun um vernd þýðingarmikilla grunnvirkja og ákvað að miða hana við alla áhættuþætti en forvarnarstarf gegn hryðjuverkaárásum yrði sett í forgang. Samkvæmt þessari nálgun er rétt að taka tillit til tæknilegra ógna af völdum manna og náttúruhamfara við vernd þýðingarmikilla grunnvirkja en ógn sem stafar af hryðjuverkaárásum verður áfram forgangsatriði.
4)        Í apríl 2007 samþykkti ráðið niðurstöður um Evrópuáætlun um vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu og ítrekaði að aðildarríkin bæru endanlega ábyrgð á því að sjá um fyrirkomulag til að vernda þýðingarmikil grunnvirki innan landamæra sinna, og fagnaði því framtaki framkvæmdastjórnarinnar að þróa evrópska aðferð til að greina og auðkenna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að bæta vernd þeirra.
5)        Þessi tilskipun er fyrsti áfanginn í nálgun sem miðar að því að greina og auðkenna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og meta þörfina á að bæta vernd þeirra. Í þessari tilskipun er lögð áhersla á orku- og flutningageirana og er rétt að endurskoða hana í því skyni að meta áhrif hennar og þörfina á að fella fleiri geira undir gildissvið hennar, m.a. upplýsinga- og fjarskiptatæknigeirann.
6)        Aðildarríkin og eigendur eða rekstraraðilar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu bera frumábyrgð og endanlega ábyrgð á slíkum grunnvirkjum.
7)        Í Bandalaginu eru allmörg þýðingarmikil grunnvirki þess eðlis að röskun þeirra eða eyðing hefði veruleg áhrif þvert á landamæri. Þetta geta verið áhrif yfir landamæri þvert á geira sem leiða af víxltengslum milli samtengdra grunnvirkja. Rétt er að greina og auðkenna slík grunnvirki út frá sameiginlegri aðferð. Rétt er að mat á öryggiskröfum fyrir slík grunnvirki sé unnið út frá sameiginlegri lágmarksnálgun. Tvíhliða áætlanir um samvinnu aðildarríkja á sviði verndar þýðingarmikilla grunnvirkja eru viðurkenndar og skilvirkar leiðir til að fjalla um þýðingarmikil grunnvirki sem ná yfir landamæri. Rétt er að Evrópuáætlun um vernd þýðingarmikilla grunnvirkja byggist á slíku samstarfi. Upplýsingar, sem varða tilnefningu tiltekins grunnvirkis sem þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu, skulu teljast til trúnaðarflokkaðra upplýsinga í samræmi við gildandi löggjöf Bandalagsins og viðkomandi aðildarríkis.
8)        Þar sem fyrir hendi er sértæk reynsla, sérþekking og sérstakar kröfur í ýmsum geirum að því er varðar vernd þýðingarmikilla grunnvirkja er rétt að þróa og koma til framkvæmda nálgun Bandalagsins við vernd þýðingarmikilla grunnvirkja með tilliti til sérstakra einkenna hvers geira og fyrirliggjandi ráðstafana þeim tengdum, að meðtöldum gildandi ráðstöfunum á vettvangi Bandalagsins, á landsvísu eða á svæðisvísu, og þar sem við á, samkomulags um gagnkvæma aðstoð yfir landamæri milli eigenda eða rekstraraðila þýðingarmikilla grunnvirkja sem er þegar fyrir hendi. Að teknu tilliti til þess að einkageirinn hefur í ríkum mæli komið að áhættustjórnun, áætlanagerð fyrir áframhaldandi rekstur fyrirtækja og endurreisnarstarf eftir hamfarir er rétt að með nálgun Bandalagsins sé hvatt til fullrar þátttöku einkageirans.
9)        Varðandi orkugeirann, einkum aðferðir við raforkuframleiðslu og -flutning (að því er varðar rafveitur) er talið að raforkuframleiðsla geti, þar sem við á, tekið til raforkuflutningaeininga kjarnorkuvera en útiloki sérstakar kjarnorkueiningar sem falla undir viðeigandi löggjöf um kjarnorku, þ.m.t. sáttmálar og lög Bandalagsins.
10)         Þessi tilskipun kemur til viðbótar gildandi ráðstöfunum sem til eru í ýmsum geirum á vettvangi Bandalagsins og í aðildarríkjunum. Þar sem fyrirkomulag Bandalagsins er þegar fyrir hendi er rétt að beita því áfram til að stuðla að heildarframkvæmd þessarar tilskipunar. Forðast ber tvítekningu gerða eða ákvæða, eða ósamræmi milli þeirra.
11)         Öryggisáætlanir rekstraraðila eða samsvarandi ráðstafanir, þ.m.t. greining á mikilvægum mannvirkjum, áhættumat og greining, val og forgangsröðun gagnráðstafana og verklagsreglna, skulu vera fyrir hendi í öllum tilnefndum þýðingarmiklum grunnvirkjum í Evrópu. Með það í huga að komast hjá óþarfa vinnu og tvítekningu skal hvert aðildarríki fyrst meta það hvort eigendur eða rekstraraðilar tilnefndra þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu hafi yfir að ráða viðeigandi öryggisáætlunum eða samsvarandi ráðstöfunum. Þar sem slík áætlun er ekki fyrir hendi skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar. Hvert aðildarríki ber ábyrgð á því að ákveða hvers konar aðgerðir eigi best við að því er varðar öryggisáætlanir rekstraraðila.
12)        Líta skal svo á að ráðstafanir, meginreglur, viðmiðunarreglur, þ.m.t. ráðstafanir Bandalagsins, enn fremur tvíhliða og/eða marghliða samvinnuáætlanir, þar sem kveðið er á um áætlun, sem er svipuð eða samsvarandi öryggisáætlun rekstraraðila, eða þar sem gert er ráð fyrir öryggistengifulltrúa eða samsvarandi, fullnægi kröfum þessarar tilskipunar að því er varðar öryggisáætlun rekstraraðila og öryggistengifulltrúa.
13)         Tilgreina skal öryggistengifulltrúa fyrir öll þýðingarmikil, tilnefnd grunnvirki í Evrópu í því skyni að greiða fyrir samvinnu og samskiptum við hlutaðeigandi yfirvöld sem hafa með höndum vernd þýðingarmikilla grunnvirkja á landsvísu. Með það í huga að komast hjá óþarfa vinnu og tvítekningu skal hvert aðildarríki fyrst meta það hvort eigendur eða rekstraraðilar tilnefndra þýðingarmikill grunnvirkja í Evrópu hafi þegar á að skipa öryggistengifulltrúa. Þar sem slíkur öryggistengifulltrúi er ekki tiltækur skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar. Hvert aðildarríki ber ábyrgð á því að ákveða hvers konar aðgerðir eiga best við að því er varðar tilnefningu öryggistengifulltrúa.
14)         Nauðsynlegt er að samskipti séu bæði milli eigenda eða rekstraraðila þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu og aðildarríkjanna og milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar til að tryggja skilvirka greiningu áhættuþátta, ógna og veikra punkta í tilteknum geirum. Hvert aðildarríki skal safna upplýsingum um þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu. Rétt er að framkvæmdastjórnin fái heildstæðar upplýsingar frá aðildarríkjunum um áhættuþætti, ógnir og veika punkta í þeim geirum þar sem þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu hafa verið greind, enn fremur þar sem við á upplýsingar um hugsanlegar umbætur á þýðingarmiklum grunnvirkjum í Evrópu og um það hvernig geirar eru hver öðrum háðir, og gæti slíkt verið grunnur að mótun tiltekinna tillagna framkvæmdastjórnarinnar um að bæta vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu eftir því sem þörf er á.
15)        Til greina kemur að þróa sameiginlega aðferðafræði við greiningu og flokkun áhættuþátta, ógna og veikra punkta mannvirkja í því skyni að greiða fyrir umbótum við vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu.
16)         Rétt er að eigendur eða rekstraraðilar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu fái aðgang að bestu starfsvenjum og aðferðafræði sem varðar vernd slíkra grunnvirkja og þá fyrst og fremst fyrir milligöngu lögbærra yfirvalda í aðildarríkjunum.
17)         Skilvirk vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu krefst samskipta, samræmingar og samstarfs á landsvísu og á vettvangi Bandalagsins. Þessu verður best náð með því að tilnefna tengiliði vegna verndar slíkra grunnvirkja í hverju aðildarríki og skal hver þeirra samræma atriði sem varða vernd þessara grunnvirkja innanlands, einnig með öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni.
18)        Rétt er að tryggja einsleit og örugg upplýsingaskipti innan ramma þessarar tilskipunar í því skyni að þróa starfsemi sem stuðlar að vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu á svæðum þar sem þagnarskylda er nauðsynleg. Brýnt er að virt sé trúnaðarkvöð samkvæmt gildandi landslögum eða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1049/2001 um almennan aðgang að skjölum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ) að því er varðar tilteknar staðreyndir um mannvirki innan þýðingarmikilla grunnvirkja sem hægt væri að nota til að skipuleggja og framkvæma aðgerðir sem hefðu í för með sér óviðunandi afleiðingar fyrir viðkomandi mannvirki. Trúnaðarupplýsingar skal vernda í samræmi við löggjöf Bandalagsins og aðildarríkis þar að lútandi. Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu virða viðeigandi öryggisflokkunarstig sem sendandi skjals hefur tilgreint.
19)        Upplýsingaskipti um þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu skulu fara fram í tryggu og öruggu umhverfi. Forsenda upplýsingaskipta er trúnaðarsamband, þannig að fyrirtæki og samtök séu aldrei í vafa um að viðkvæm trúnaðargögn þeirra njóti nægilegrar verndar.
20)        Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að koma á sameiginlegri nálgun til að greina og tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og sameiginlegri nálgun við mat á þörfinni á að bæta vernd slíkra grunnvirkja, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðin er umfangsmikil, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
21)        Í þessari tilskipun er tekið tillit til þeirra grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem einkum eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.

SAMÞYKKT TILSKIPUN þESSA:

1. gr.
Efni

Með þessari tilskipun er komið á aðferð til að greina og auðkenna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu og jafnframt komið á sameiginlegri nálgun að því er varðar mat á þörfinni á að bæta vernd slíkra grunnvirkja til að stuðla að vernd almennings.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „þýðingarmikið grunnvirki“: mannvirki, kerfi eða hluti þess sem er starfrækt í aðildarríki og skiptir sköpum svo viðhalda megi lífnauðsynlegri samfélagslegri starfsemi, heilbrigði, öryggi, efnahagslegri eða félagslegri velferð borgaranna og sem er þess eðlis að röskun þess eða eyðing hefði veruleg áhrif innan aðildarríkis þegar ekki yrði unnt að viðhalda slíkri starfsemi,
b)    „þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu“: afar mikilvægt grunnvirki sem er starfrækt í aðildarríkjum, þess eðlis að röskun þess eða eyðing hefði veruleg áhrif innan tveggja aðildarríkja hið minnsta. Meta skal vægi áhrifanna út frá þverlægum viðmiðunum. Meðtalin eru áhrif þess að geirar eru hver öðrum háðir vegna annarra tegunda grunnvirkja,
c)    „áhættugreining“: athugun á því hvaða ógn getur steðjað að, í því skyni að meta veika punkta þýðingarmikilla grunnvirkja og hugsanleg áhrif af röskun þeirra eða eyðingu,
d)    „viðkvæmar upplýsingar sem tengjast vernd þýðingarmikilla grunnvirkja“: staðreyndir um þýðingarmikið grunnvirki sem nýta mætti, ef þær væru birtar, til þess að undirbúa og hrinda í framkvæmd aðgerð sem á að valda röskun eða eyðingu þýðingarmikilla grunnvirkja,
e)    „vernd“: öll starfsemi sem miðar að því að tryggja virkni, samfelldni og heilleika þýðingarmikilla grunnvirkja í því skyni að koma í veg fyrir, draga úr eða hlutleysa ógn, áhættu eða veika punkta,
f)    „eigendur eða rekstraraðilar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu“: aðilar sem bera ábyrgð á fjárfestingu í mannvirki, kerfi eða hluta þess, og/eða daglegum rekstri þess, sem telst til þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu samkvæmt þessari tilskipun.

3. gr.

Greining þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu

1.     Hvert aðildarríki skal greina hugsanleg þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu samkvæmt þeirri aðferð sem kveðið er á um í III. viðauka og skulu þau bæði standast þverlægar og geirabundnar viðmiðanir og samrýmast skilgreiningunum sem eru settar fram í a- og b-lið 2. gr.
Framkvæmdastjórnin getur aðstoðað aðildarríkin, fari þau þess á leit, við að greina hugsanleg þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu.
Framkvæmdastjórnin getur vakið athygli viðkomandi aðildarríkja á hugsanlegum þýðingarmiklum grunnvirkjum sem gætu uppfyllt þau skilyrði sem gerð eru vegna tilnefningar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu.
Aðildarríkin og framkvæmdastjórnin skulu viðhalda stöðugu ferli við greiningu hugsanlegra þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu.
2.     Þverlægar viðmiðanir, sem um getur í 1. mgr., skulu m.a. vera eftirfarandi:
a)    manntjónsviðmiðun (út frá hugsanlegum fjölda dauðaslysa eða áverka),
b)    efnahagsleg viðmiðun (út frá vægi efnahagslegs tjóns og/eða hnignunar vöru eða þjónustu, þ.m.t. hugsanleg umhverfisáhrif),
c)    áhrif á almenning (út frá áhrifum á tiltrú almennings, líkamlegum þjáningum og röskun á daglegu lífi, þ.m.t. stöðvun grundvallarþjónustu).
Þverlæg viðmiðunarmörk skulu byggjast á umfangi áhrifa af röskun eða eyðingu tiltekins grunnvirkis. Þau aðildarríki, sem tiltekið þýðingarmikið grunnvirki hefur áhrif á, skulu í hverju tilviki fyrir sig ákvarða þau nákvæmu mörk sem eiga við um þverlægar viðmiðanir. Hvert aðildarríki skal upplýsa framkvæmdastjórnina árlega um fjölda þeirra grunnvirkja í hverjum geira sem komið hafa til tals að því er varðar þverlæg viðmiðunarmörk.
Geirabundnar viðmiðanir skulu taka tillit til einkenna einstakra geira sem þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu varða.
Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu í sameiningu þróa viðmiðunarreglur vegna beitingar þverlægra viðmiðana og geirabundinna viðmiðana og ákvarða viðmiðunarmörk vegna greiningar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu. Viðmiðanirnar skulu trúnaðarflokkaðar. Aðildarríkjunum er ekki skylt að beita slíkum viðmiðunarreglum.
3.     Þeir geirar, sem nota skal með hliðsjón af framkvæmd þessarar tilskipunar, eru orku- og flutningageirarnir. Undirgeirar eru skilgreindar í I. viðauka.
Ef henta þykir, og í tengslum við endurskoðun þessarar tilskipunar, eins og mælt er fyrir um í 11. gr., kann að vera unnt að greina fleiri geira síðar, í þeim tilgangi að koma þessari tilskipun til framkvæmda. Upplýsinga- og fjarskiptatæknigeirinn skal hafa forgang.

4. gr.

Tilnefning á þýðingarmiklum grunnvirkjumí Evrópu

1.     Hvert aðildarríki skal tilkynna öðrum aðildarríkjum, sem gætu orðið fyrir verulegum áhrifum af völdum þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu, um greiningu þess og ástæður fyrir því að það er tilnefnt sem hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu.
2.     Ef hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu er á yfirráðasvæði aðildarríkis skal það ríki hefja tvíhliða og/eða marghliða viðræður við önnur aðildarríki sem gætu orðið fyrir verulegum áhrifum af þess völdum. Framkvæmdastjórnin getur tekið þátt í slíkum viðræðum en skal þó ekki hafa aðgang að ítarlegum upplýsingum sem gætu gert kleift að greina tiltekið grunnvirki með vissu.
Aðildarríki getur, ef það hefur ástæðu til að ætla að það muni geta orðið fyrir verulegum áhrifum af völdum hugsanlegs þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu, en aðildarríkið, sem hefur slíkt grunnvirki á yfirráðasvæði sínu, hefur ekki enn greint það sem slíkt, upplýst framkvæmdastjórnina um að það óski eftir að taka þátt í tvíhliða og/eða marghliða viðræðum um þetta atriði. Framkvæmdastjórnin skal tafarlaust greina aðildarríkinu, sem hefur hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu, frá þessari ósk og greiða fyrir samkomulagi aðilanna.
3.     Aðildarríkið, sem hefur hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu, skal tilnefna það sem þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu í kjölfar samkomulags milli þess aðildarríkis og þeirra aðildarríkja sem gætu orðið fyrir umtalsverðum áhrifum.
Gerð er krafa um samþykki þess aðildarríkis sem hefur þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu.
4.     Aðildarríkið, sem hefur tilnefnt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu, skal upplýsa framkvæmdastjórnina árlega um fjölda tilnefndra þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu fyrir hvern geira og um fjölda aðildarríkja sem háð eru hverju tilnefndu þýðingarmiklu grunnvirki í Evrópu. Aðeins þau aðildarríki, sem þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu getur haft veruleg áhrif á, skulu upplýst um hvert það er.
5.     Aðildarríkið, sem hefur þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði sínu, skal upplýsa eiganda eða rekstraraðila grunnvirkisins um að það hafi verið tilnefnt sem þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu. Upplýsingar varðandi tilnefningu grunnvirkis sem þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu skulu trúnaðarflokkaðar í viðeigandi flokka.
6.     Greiningu og tilnefningu þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu skal, í samræmi við 3. gr. og þessa grein, ljúka eigi síðar en 12. janúar 2011 og endurskoðuð árlega.

5. gr.

Öryggisáætlanir rekstraraðila

1.     Í öryggisáætlun rekstraraðila skal felast greining á mannvirkjum þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu og þeim öryggislausnum sem eru tiltækar eða sem er beitt til að vernda þær. Í II. viðauka er mælt fyrir um skyldubundin atriði öryggisáætlunar rekstraraðila þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu.
2.     Hvert aðildarríki skal ganga úr skugga um hvort sérhvert þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði þess hafi tiltæka öryggisáætlun rekstraraðila eða hvort til staðar séu samsvarandi ráðstafanir til að bregðast við þeim atriðum sem skilgreind eru í II. viðauka. Komist aðildarríki að því að slík öryggisáætlun rekstaraðila eða samsvarandi er fyrirliggjandi og uppfærð reglulega er frekari framkvæmdaraðgerða ekki þörf.
3.     Komist aðildarríki að því að slík öryggisáætlun rekstaraðila eða samsvarandi áætlun hefur ekki verið gerð skal það tryggja með öllum þeim ráðstöfunum, sem þykja viðeigandi, að öryggisáætlun rekstraraðila sé gerð og að þar sé fjallað um þau atriði sem skilgreind eru í II. viðauka.
Hvert aðildarríki skal ganga úr skugga um að öryggisáætlun rekstraraðila eða samsvarandi áætlun sé fyrirliggjandi og endurskoðuð reglulega innan eins árs frá því að þýðingarmikið grunnvirki er tilnefnt sem þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu. Í einstaka tilviki er heimilt að lengja það tímabil í samráði við yfirvald í aðildarríkinu og með tilkynningu til framkvæmdastjórnarinnar.
4.     Ef fyrirkomulag vegna eftirlits eða umsjónar er þegar fyrir hendi að því er varðar þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu skal þessi grein ekki hafa áhrif á slíkt fyrirkomulag og skal lögbært yfirvald aðildarríkis, sem um getur í þessari grein, annast eftirlitið í samræmi við gildandi fyrirkomulag.
5.     Litið er svo á að ráðstafanir, þ.m.t. ráðstafanir Bandalagsins, sem tiltekinn geiri krefst eða vísa til þess að þörf er á áætlun, sem er áþekk eða samsvarar öryggisáætlun rekstraraðila, og eftirliti lögbærs yfirvalds með slíkri áætlun, fullnægi öllum kröfum aðildarríkja samkvæmt þessari grein eða kröfum sem eru samþykktar með vísan til hennar. Í þeim viðmiðunarreglum vegna beitingar, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., skal vera viðmiðunarskrá yfir slíkar ráðstafanir.

6. gr.

Öryggistengifulltrúar

1.     Öryggistengifulltrúi skal starfa sem tengiliður eiganda eða rekstraraðila þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu og viðkomandi yfirvalds í aðildarríki vegna öryggistengdra málefna.
2.     Hvert aðildarríki skal meta hvort öryggistengifulltrúi eða sambærilegur aðili sé til staðar fyrir hvert þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu á yfirráðasvæði þess. Komist aðildarríki að raun um að slíkur öryggistengifulltrúi, eða sambærilegur aðili, sé til staðar er frekari framkvæmdaraðgerða ekki þörf.
3.     Ef aðildarríki kemst að því að öryggistengifulltrúi eða sambærilegur aðili er ekki til staðar fyrir tilnefnt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu skal það tryggja með öllum viðeigandi ráðstöfunum að slíkur öryggistengifulltrúi eða sambærilegur aðili verði tilnefndur.
4.     Hvert aðildarríki skal koma á fót viðeigandi boðskiptaleið milli hlutaðeigandi yfirvalds aðildarríkis og öryggistengifulltrúa eða sambærilegs aðila í því skyni að skiptast á viðeigandi upplýsingum varðandi þekktar hættur og ógnir í tengslum við viðkomandi þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu. Þessi boðskiptaleið er með fyrirvara um kröfur aðildarríkis að því er varðar aðgang að viðkvæmum upplýsingum og trúnaðarflokkuðum upplýsingum.
5.     Litið er svo á að ráðstafanir, þ.m.t. ráðstafanir Bandalagsins, sem tiltekinn geiri krefst eða vísa til þess að þörf er á öryggistengifulltrúa eða sambærilegum aðila, fullnægi öllum kröfum aðildarríkja samkvæmt þessari grein eða kröfum sem eru samþykktar samkvæmt henni. Í þeim viðmiðunarreglum vegna beitingar, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., skal vera viðmiðunarskrá yfir slíkar ráðstafanir.

7. gr.
Skýrslugjöf

1.     Hvert aðildarríki skal gera mat á ógnum í tengslum við undirgeira þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu innan árs frá því að þýðingarmikið grunnvirki á yfirráðasvæði þess hefur verið tilnefnt sem slíkt innan þessara undirgeira.
2.     Hvert aðildarríki skal á tveggja ára fresti skila skýrslu til framkvæmdastjórnarinnar um tegundir áhættuþátta, ógna og veikra punkta eftir geirum þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu, þegar slíkt grunnvirki í Evrópu hefur verið greint skv. 4. gr. á yfirráðasvæði þess.
Framkvæmdastjórnin getur, í samvinnu við aðildarríkin, þróað sameiginlegt snið fyrir slíkar skýrslur.
Hver skýrsla skal trúnaðarflokkuð í viðeigandi flokki eftir því sem viðkomandi aðildarríki telur þörf á.
3.     Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu á grundvelli skýrslna, sem um getur í 2. mgr., meta fyrir hvern geira um sig hvort rétt er að skoða frekari verndarráðstafanir á vettvangi Bandalagsins að því er varðar þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu. Hefja skal þetta ferli í tengslum við endurskoðun þessarar tilskipunar eins og mælt er fyrir um í 11. gr.
4.     Framkvæmdastjórnin getur þróað, í samvinnu við aðildarríkin, sameiginlegar aðferðafræðilegar viðmiðunarreglur um framkvæmd áhættugreininga að því er varðar þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu. Aðildarríkjunum er ekki skylt að beita slíkum viðmiðunarreglum.

8. gr.
Stuðningur framkvæmdastjórnarinnar við þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu

Framkvæmdastjórnin skal, fyrir milligöngu hlutaðeigandi yfirvalds í aðildarríki, aðstoða eigendur eða rekstraraðila tilnefndra þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu með því að veita þeim aðgang að bestu tiltæku starfsvenjum og aðferðafræði og skal enn fremur aðstoða við þjálfun og upplýsingaskipti um nýja tækniþróun sem tengist vernd þýðingarmikilla grunnvirkja.

9. gr.

Viðkvæmar upplýsingar sem tengjast vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu

1.     Hver sá aðili sem hefur undir höndum trúnaðarflokkaðar upplýsingar samkvæmt þessari tilskipun fyrir hönd aðildarríkis eða framkvæmdastjórnarinnar skal hafa viðeigandi öryggisheimild.
Aðildarríkin, framkvæmdastjórnin og hlutaðeigandi eftirlitsaðilar skulu tryggja að viðkvæmar upplýsingar, sem varða vernd þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu og lagðar hafa verið fyrir aðildarríkin eða framkvæmdastjórnina, séu ekki notaðar til annars en til verndar þýðingarmikilla grunnvirkja.
2.     Þessi grein skal einnig eiga við um óskráð upplýsingaskipti á fundum þar sem viðkvæm málefni eru rædd.

10. gr.

Tengiliðir vegna verndar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna tengilið vegna verndar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu.
2.     Tengiliðir vegna verndar þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu skulu samræma mál er varða vernd slíkra grunnvirkja í tilteknu aðildarríki, ásamt öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni. Tilnefning tengiliðs vegna verndar þýðing-armikilla grunnvirkja í Evrópu útilokar ekki að önnur yfirvöld í aðildarríkinu komi að málefnum er varða vernd slíkra grunnvirkja.

11. gr.

Endurskoðun

Endurskoðun þessarar tilskipunar skal hefjast 12. janúar 2012.

12. gr.

Framkvæmd

Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun eigi síðar en 12. janúar 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða og samsvörunartöflu yfir viðkomandi ákvæði og þessa tilskipun.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin setja nánari reglur um slíka tilvísun.

13. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

14. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 8. desember 2008.
Fyrir hönd ráðsins,
B. KOUCHNER
forseti.

____

I. VIÐAUKI


Skrá yfir þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu eftir geirum


Geiri Undirgeiri
I.      Orka 1. Raforka Grunnvirki og búnaður til framleiðslu og flutnings á rafmagni að því er varðar raforku til veitukerfa
2. Olía Olíuframleiðsla, hreinsun, meðferð, geymsla og flutningur um leiðslur
3. Jarðgas Jarðgasframleiðsla, hreinsun, meðferð, geymsla og flutningur um leiðslur birgðastöðva fyrir fljótandi jarðgas
II.      Flutningar 4. Flutningar á vegum
5. Járnbrautarflutningar
6. Flutningar í lofti
7. Flutningar á skipgengum vatnaleiðum
8. Flutningar á hafi og stuttum sjóleiðum og hafnir

Greining aðildarríkjanna á þýðingarmiklum grunnvirkjum sem geta talist þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu skv. 3. gr. Því felst í skráningu geira þýðingarmikilla grunnvirkja í Evrópu ekki í sjálfu sér almenn skylda til þess að tilnefna þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu fyrir hvern geira.

___





II. VIÐAUKI


GERÐ ÖRYGGISÁÆTLUNAR FYRIR REKSTRARAÐILA ÞÝÐINGARMIKILLA GRUNNVIRKJA


Í öryggisáætlun rekstraraðila skal felast greining á mannvirkjum þýðingarmikils grunnvirkis og þeim öryggislausnum sem tiltækar eru eða sem er beitt til að vernda þau. Gerð öryggisáætlunar rekstraraðila vegna þýðingarmikils grunnvirkis í Evrópu tekur a.m.k. til eftirfarandi:

1.    greiningar á mikilvægum mannvirkjum,

2.    áhættugreiningar sem byggist á aðstæðum þar sem mikil hætta er á ferð, veikum punktum hvers mannvirkis og hugsanlegum áhrifum og 3. greiningar, vals og forgangsröðunar gagnráðstafana og verklagsreglna, þar sem gerður er greinarmunur á eftirfarandi:

    —    varanlegum öryggisráðstöfunum, þar sem greindar eru nauðsynlegar fjárfestingar og viðeigandi aðferðir vegna öryggismála, sem unnt er að beita við allar aðstæður. Undir þennan lið falla upplýsingar sem varða almennar ráðstafanir, s.s. tæknilegar ráðstafanir (þ.m.t. uppsetning búnaðar til greiningar, aðgangsstýringar, verndar og forvarna), skipulagsráðstafanir (þ.m.t. aðferðir til viðvarana- og hættustjórnunar), ráðstafanir vegna eftirlits og sannprófunar, samskipti, vitundarvakning og þjálfun, og öryggi upplýsingakerfa,

    —    kvarðaðar öryggisráðstafanir sem hægt er að virkja eftir mismunandi stigi áhættu og ógnar.

___



III. VIÐAUKI


Aðferð sem aðildarríkin skulu beita til að greina þau þýðingarmiklu grunnvirki
sem geta talist þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu skv. 3. gr.


Samkvæmt 3. gr. ber hverju aðildarríki að greina þau þýðingarmiklu grunnvirki sem geta talist þýðingarmikil grunnvirki í Evrópu. Hvert aðildarríki skal beita þessari aðferð sem felst í eftirtöldum þrepum í þessari röð.

Hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu, sem ekki fullnægir kröfum einhvers eftirtalinna þrepa, telst „ekki þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu“ og er þessari aðferð ekki beitt gagnvart því. Hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu sem fullnægir kröfunum skal falla undir næstu þrep aðferðarinnar.

1. þrep

Hvert aðildarríki skal beita geirabundnum viðmiðunum við fyrsta val á þýðingarmiklum grunnvirkjum innan tiltekins geira.

2. þrep

Hvert aðildarríki skal beita skilgreiningunni um þýðingarmikil grunnvirki, sem er að finna í a-lið 2. gr., gagnvart hugsanlegu þýðingarmiklu grunnvirki í Evrópu sem greint hefur verið í 1. þrepi.

Vægi áhrifanna ákvarðast annaðhvort út frá aðferðum í hverju aðildarríki við að greina þýðingarmikil grunnvirki eða með vísun til þverlægra viðmiðana á viðeigandi stigi í ríkinu. Að því er varðar grunnvirki sem tryggja grunnþjónustu skal taka tillit til þess hvaða aðrir kostir eru tiltækir og hversu lengi röskun varir eða hversu langan tíma endurheimt mun taka.

3. þrep

Hvert aðildarríki skal beita þeim þætti skilgreiningar á þýðingarmiklum grunnvirkjum í Evrópu, sem er að finna í b-lið 2. gr., sem nær yfir landamæri gagnvart þeim hugsanlegum þýðingarmiklum grunnvirkjum í Evrópu sem staðist tvö fyrstu þrepin í þessari aðferð. Hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu sem uppfyllir skilgreininguna skal fylgja næsta þrepi aðferðarinnar. Að því er varðar grunnvirki sem tryggja grunnþjónustu skal taka tillit til þess hvaða aðrir kostir eru tiltækir og hversu lengi röskun varir eða hversu langan tíma endurheimt mun taka.

4. þrep

Hvert aðildarríki skal beita þverlægum viðmiðunum gagnvart öðrum hugsanlegum þýðingarmiklum grunnvirkjum í Evrópu. Þverlægar viðmiðanir skulu taka mið af: alvarleika áhrifanna, að því er varðar grunnvirki sem tryggja grunnþjónustu, því hvaða aðrir kostir eru tiltækir, og því hversu lengi röskun varir eða hversu langan tíma endurheimt mun taka. Hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu, sem ekki uppfyllir þverlægu viðmiðanirnar, skal ekki teljast þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu.

Hugsanlegt þýðingarmikið grunnvirki í Evrópu, sem hefur farið í gengum þetta ferli, skal aðeins tilkynnt þeim aðildarríkjum sem gætu orðið fyrir verulegum áhrifum vegna slíks grunnvirkis.


______________________

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 262, 6.10.2011, bls. 64, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 54, 6.10.2011, bls. 81.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 345, 23.12.2008, bls. 75.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Álit frá 10. júlí 2007 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 116, 26.5.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. EB L 145, 31.5.2001, bls. 43.