Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 502  —  432. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

    Á eftir orðunum „sbr. þó 10. gr.“ í 1. málsl. 9. gr. laganna kemur: og 10. gr. a.

2. gr.

    Í stað orðanna „starfsmaður selur hlutabréfin“ í 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: eigendaskipti verða á hlutabréfunum.

3. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
    Tekjur starfsmanna, stjórnarmanna eða sérhæfðra ráðgjafa skv. 9. gr. vegna nýtingar kaupréttar í sprotafyrirtækjum, sbr. 9. málsl. 2. mgr. 18. gr., skulu skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     1.      Sprotafyrirtækið hafi fengið staðfestingu Rannís, sbr. 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, áður en kaupréttarsamningur var gerður og vinnuframlag þess sem fær kauprétt tengist eingöngu framkvæmd á hinu staðfesta verkefni.
     2.      Að lágmarki 18 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.
     3.      Kaupverð samkvæmt kaupréttarsamningi sé eigi lægra en gangverð eða, sé gangverð ekki til staðar, bókfært virði eiginfjár samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi.
     4.      Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur og nái ekki til lengri tíma en sex ára.
    Í lok hvers árs skal félagið senda ríkisskattstjóra upplýsingar um útgefna kaupréttarsamninga og þá sem hafa nýtt kauprétt á árinu ásamt helstu upplýsingum á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar þegar eigendaskipti verða á mótteknum hlutum. Ákvarðast tekjurnar sem nemur mismun á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði hlutanna. Sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr.
    Kaup á hlutabréfum samkvæmt þessari grein veita ekki rétt til frádráttar frá tekjum skv. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr.

4. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „hlutabréfin eru seld“ í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: eigendaskipti verða á hlutabréfunum.

6. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Við 2. mgr. 3. tölul. og 4. tölul. 31. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Niðurfærsla fyrra árs skal ávallt bakfærð, hafi hún verið færð til gjalda.

8. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „250.000 kr.“ í 39. gr. laganna kemur: 600.000 kr.

9. gr.

    6. tölul. 50. gr. laganna orðast svo: Kostnað vegna greiðslna, gjafa eða annars sem ólögmætt er skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

10. gr.

    Við 2. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sameining eða skipting skal þó ætíð miðast við upphafsdag innan tekjuársins og skal sameining eða skipting hafa verið samþykkt í öllum félögunum á því ári.

11. gr.

    Við 4. mgr. 96. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé fallist á beiðni skattaðila um breytingu á skattstofnum skal tilkynning þó ekki send. Á það við hvort sem breyting leiðir til hækkunar eða lækkunar á skattstofnum, enda sé breytingin ekki umfram það sem í beiðni hans greinir.

12. gr.

    Við 1. mgr. 97. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal heimild til að endurákvarða skatt skv. 96. gr. taka til síðustu tíu ára á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram vegna mútubrota skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

13. gr.

    Á eftir orðinu „hjóna“ í 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna kemur: eða samsköttuðum einstaklingi í sambúð.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. laganna:
     a.      4. mgr. fellur brott.
     b.      Við 9. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá fyrnist sök skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga vegna mútubrota á tíu árum.

15. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. laga þessara skal einnig taka til Bretlands hvað varðar greiðslur frá og með 2021. Ákvæði þetta fellur úr gildi þegar gerð hefur verið breyting á tvísköttunarsamningi Íslands og Bretlands, eða samið um nýjan samning, og hún tekið gildi.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.

16. gr.

    Í stað orðanna „og 2023“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: 2023, 2024 og 2025.

17. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2024 og 2025 vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögunum:
     a.      Í stað ártalsins „2022“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2023.
     b.      Í stað orðanna „árinu 2022“ í 2. mgr. kemur: árunum 2022–2023.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.

19. gr.

    Í stað orðsins „ríkisskattstjóri“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.

V. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

20. gr.

    Við 4. mgr. 26. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé fallist á beiðni skattaðila um breytingu á virðisaukaskatti skal tilkynning þó ekki send. Á það við hvort sem breyting leiðir til hækkunar eða lækkunar á skatti, enda sé breytingin ekki umfram það sem í beiðni hans greinir.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum:
     a.      1. og 2. tölul. 7. mgr. falla brott.
     b.      1. málsl. 1. tölul. 10. mgr. orðast svo: Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 1.440.000 kr. frá 1. janúar 2020 til og með 30. júní 2020, að hámarki 1.560.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2022 og að hámarki 1.320.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
     c.      1. málsl. 1. tölul. 11. mgr. orðast svo: Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 6.000.000 kr. frá 1. janúar 2020 til og með 30. júní 2020, að hámarki 6.500.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2022 og að hámarki 5.500.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
     d.      Á eftir orðunum „Létt bifhjól“ í 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. kemur: í flokki II.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993.

22. gr.

    Á eftir orðinu „Sviss“ í 1. mgr. f-liðar 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: í Bretlandi.

VII. KAFLI

Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.

23. gr.

    Í stað orðanna „árið 2022“ í 1. málsl. bráðabirgðaákvæðis EE kemur: árin 2022 og 2023.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005.

24. gr.

    Í stað „2022“ í 2. málsl. 9. gr. laganna kemur: 2023.

25. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 15., 16., 17., 22. og 24. gr. þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og varðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld. Um er að ræða breytingar sem snúa að ákvæði um kauprétt í sprotafyrirtækjum, stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, tímabundna lækkun skráðrar losunar koltvísýrings ( CO2) í tilviki húsbíla, og breytingar og samræmingu vegna breytinga sem gerðar hafa verið á öðrum lögum. Einnig er um að ræða breytingar í tengslum við refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna eða samskattaðs sambúðarfólks, lengingu heimildar til endurákvörðunar skatta og fyrningu sakar vegna mútubrota auk brottfalls ákvæðis vegna breyttrar málsmeðferðar við sektarákvörðun í skattrannsóknarmálum. Þá er um að ræða breytingar sem lúta að því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákveði form erfðafjárskýrslna auk hækkunar á kostnaðarverði fyrnanlegra eigna sem heimilt er að færa til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað. Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða verði lögfest þar sem kveðið er á um að frádráttur frá tekjum af atvinnurekstri vegna arðgreiðslna frá og með tilteknu ári taki einnig til Bretlands. Þá er lagt til að fjöldatakmörkun rafmagns- og vetnisbifreiða sem hlotið geta ívilnun frá virðisaukaskatti verði felld niður í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Samhliða eru lögð til ný fjárhæðarmörk vegna rafmagns- og vetnisbifhjóla auk þess sem skilyrðið um skráningu léttra bifhjóla í flokki I í ökutækjaskrá er fellt niður. Jafnframt er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði í búvörulögum, nr. 99/1993, þess efnis að lengt verði það tímabil sem afmarkar lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Lagt er til að kveðið verði á um að bakfæra skuli varúðarniðurfærslu fyrra árs, og fyrri ára ef því er að skipta, áður en niðurfærsla ársins er færð. Þá eru lagðar til breytingar sem tengjast andmælarétti við breytingu á álögðum sköttum og gjöldum að beiðni skattaðila og skattalegum réttindum og skyldum við samruna og skiptingu félaga. Að lokum er um að ræða breytingar í tengslum við innflutning hrárra og lítt saltaðra sláturafurða, hrárra eggja, ógerilsneyddrar mjólkur og mjólkurafurða frá Bretlandi og framlengingu á bráðabirgðaákvæði búvörulaga sem kveður á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis auk framlengingar á gildistíma laga um fjarskiptasjóð út árið 2023.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni einstakra ákvæða frumvarpsins eru af ýmsum toga. Ákvæði frumvarpsins má m.a. rekja til tilmæla vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um mútur í alþjóðlegum viðskiptum (e. Working Group on Bribery), sbr. skýrslu vinnuhópsins frá desember 2020 í tilefni af fjórðu úttekt hópsins um framkvæmd Íslands á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum (erlend mútubrot) frá 17. desember 1997 (mútusamningurinn). Jafnframt má rekja ákvæði frumvarpsins til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a. að löggjöf um skattalega meðferð kaupréttar og hlutabréfa hjá nýsköpunarfyrirtækjum verði endurskoðuð þannig að þeim verði gert kleift að keppa um starfsfólk og ráðgjafa með því að bjóða hlutdeild í framtíðarávinningi á grundvelli skattalegra ívilnana.
    Innflutningur hrárra og lítt saltaðra sláturafurða, hrárra eggja, ógerilsneyddrar mjólkur og mjólkurafurða frá Bretlandi miðar að því að tryggja gagnkvæma skuldbindingu um að Bretland veiti Íslandi sömu tilhliðranir og það veitir Evrópusambandinu þegar kemur að heilbrigðiseftirliti með innflutningi dýraafurða, þ.m.t. sjávarafurða. Telja verður afar mikilvægt, í efnahagslegu tilliti, að útflutningur sjávarafurða til Bretlands fái jafnframt bestu mögulegu afgreiðslu við innflutning.
    Markmið framlengingar á bráðabirgðaákvæði búvörulaga, sem kveður á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis, er að tryggja nægjanlegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, koma í veg fyrir skortstöðu og draga úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt.
    Markmið niðurfellingar á fjöldatakmörkun rafmagns- og vetnisbifreiða, sem hlotið geta ívilnun frá virðisaukaskatti í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, á rætur sínar að rekja til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar kemur m.a. fram að hraða skuli orkuskiptum með það að markmiði að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Því skuli áfram stutt við orkuskipti í samgöngum um land allt.
    Þá er í frumvarpinu kveðið á um ýmis skilyrði, viðmið og samræmingu milli lagaákvæða sem nauðsynlegt þykir að lögfesta og nánari grein er gerð fyrir í 3. kafla.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Kaupréttir í sprotafyrirtækjum.
    Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mikilvægt að stuðla að nýsköpun á Íslandi svo sem með rýmkun á reglum um kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og hvetja einstaklinga, þar á meðal starfsmenn, stjórnarmenn og sérhæfða ráðgjafa, til að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækja sem stunda nýsköpun svo þau geti í ríkari mæli notið góðs af mikilvægri sérfræðiþekkingu og viðhaldið henni. Því er lagt til að á eftir 10. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, komi ný grein, 10. gr. a, sem tekur til starfsmanna, stjórnarmanna eða aðkeyptrar vinnu ráðgjafa með sérþekkingu sem nýtist við verkefni þeirra sprotafyrirtækja sem uppfylla skilgreiningu laganna á sprotafyrirtækjum, sbr. 9. málsl. 2. mgr. 18. gr. sömu laga. Ákvæðinu er ætlað að hvetja til nýsköpunar þannig að sprotafyrirtækjum verði gert kleift í ríkara mæli að laða til sín hæfileikaríkt starfsfólk með því að bjóða þeim kauprétt í félaginu sem hluta af endurgjaldi fyrir vinnuframlag þeirra. Með kauprétti geta sprotafyrirtæki hvatt starfsfólk til að vinna að markmiðum félagsins með því að deila áhættu og árangri af framtíðarafrakstri vinnunnar. Ekki er gert ráð fyrir að kaupréttur komi í stað launa enda ber vinnuveitanda að greiða lágmarkslaun í samræmi við kjarasamninga. Kaupréttur getur hins vegar komið til álita sem tekjuviðbót fyrir sprotafyrirtæki sem hafa alla jafna ekki fjárhagslega burði til að greiða há laun og þannig gert þeim auðveldara um vik að keppa um hæfileikaríkt starfsfólk. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins verða tekjur af nýtingu kaupréttar, sem annars hefðu verið skattlagðar sem laun, skattlagðar sem fjármagnstekjur. Tillaga frumvarpsins er, líkt og 10. gr. laganna, undantekning frá meginreglu 9. gr. laganna um að skattleggja skuli tekjur manns samkvæmt kaupréttarsamningi sem launatekjur. Starfsmaður sem tekur við kauprétti sem hluta af launakjörum tekur með því mikla áhættu sem oftar en ekki raungerist þannig að ekki kemur til nýtingar kaupréttarins. Tekjur af kauprétti eru þannig frábrugðnar hefðbundnum launum þar sem vinnuveitandi einn ber rekstrarlega áhættu og launþega eru alla jafna tryggð þau laun sem hann vinnur sér fyrir. Hefur borið á því að ósanngjarnt þyki að skattleggja tekjur af kauprétti sem laun vegna þeirrar áhættu sem starfsmaður undirgengst, jafnvel þótt eitthvert vinnuframlag liggi að baki. Ekki séu því bein tengsl milli tekna af nýtingu kaupréttar og vinnuframlags starfsmanns heldur grundvallast tekjurnar á framgangi sprotafyrirtækisins í heild sinni þar sem fjölmargir innri og ytri þættir ráða för. Með breytingunni er ætlunin að koma til móts við þau sjónarmið að þegar starfsmaður sannanlega deilir áhættu og afrakstri með sprotafyrirtæki þá skuli fara með tekjur af nýtingu kaupréttar sem fjármagnstekjur. Að sama skapi er ætlunin með breytingunni ekki sú að gefa kost á að færa almenn laun í búning kaupréttar þar sem starfsmaður ber ekki áhættu sem að framan er lýst og honum eru beint eða óbeint tryggðar ákveðnar greiðslur.

3.2. Brottfellt ákvæði um afgjaldskvaðarverðmæti.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nr. 124/2015, var fellt á brott ákvæði um afgjaldskvaðarverðmæti í 2. mgr. 1. tölul. 73. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Í lögunum er enn vísað í hið brottfellda ákvæði og eru þær tilvísanir felldar brott.

3.3. Frádráttur frá tekjum af atvinnurekstri.
    Lagt er til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, að bakfæra skuli varúðarniðurfærslu fyrra árs, og fyrri ára ef því er að skipta, áður en niðurfærsla ársins er færð. Gildir það sama þótt engin niðurfærsla sé færð fyrir árið. Ákvæðið mælir þannig ekki fyrir um sjálfstæða heimild til að gjaldfæra 5% af virði eignanna sem töluliðirnir taka til á hverju ári heldur aðeins mismun milli ára. Hafi virði eignanna hækkað milli ára færist hlutfallslega meira til gjalda á yfirstandandi ári en hafi virðið lækkað myndi hlutfallslega minna vera fært til gjalda en árið áður. Skattframkvæmd hefur verið með þessum hætti um langt árabil og því er ekki um nýmæli að ræða. Með lagabreytingunni er ætlunin að skýra þessa framkvæmd.

3.4. Kostnaðarverð fyrnanlegra eigna.
    Almenna reglan er að kostnaðarverð fyrnanlegra eigna skuli færa til eignar og frádráttar (fyrningar) á líftíma þeirra. Ákvæði 39. gr. fjallar um þær fyrnanlegu eignir sem heimilt er að færa til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað, enda sé kostnaðarverð þeirra undir 250.000 kr. Þessi fjárhæð hefur ekki tekið breytingum frá árinu 2001 þegar hún var síðast hækkuð með lögum nr. 133/2001 til að koma til móts við afnám verðbólgureikningsskila. Fjárhæðin á árinu 2001 jafngildir nú um 630.000 kr. Tímabært er að hækka umrædda fjárhæð þannig að hún taki mið af hækkun verðlags en fram að árinu 2001 var fjárhæðin hækkuð reglulega samkvæmt þágildandi verðbreytingarstuðli. Breytingin stuðlar að einföldun skattskila þannig að ekki þurfi að færa verðlitlar eignir í fyrningarskrá og fyrna samkvæmt því yfir margra ára tímabil.

3.5. Heimild til endurákvörðunar lengd úr sex árum í tíu ár vegna mútubrota.
    Lagðar eru til breytingar í þá veru að nýr málsliður bætist við 1. mgr. 97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að frestur skattyfirvalda til endurákvörðunar skatts verði lengdur úr sex árum í tíu ár til samræmis við fyrningarfrest vegna brota gegn 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þ.e. vegna mútugreiðslna og mútuþægni. Breyting þessi er lögð til í því skyni að bregðast við tilmælum vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútum í alþjóðlegum viðskiptum. Með lögum nr. 30/2022, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, var brugðist við tilmælunum sem koma fram í skýrslu vinnuhópsins frá desember 2020 vegna fjórðu úttektar um framkvæmd Íslands á samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum (mútusamningurinn). Með lögunum voru m.a. gerðar breytingar á 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga þannig að refsihámark var hækkað úr fimm árum í sex ár og fyrningarfrestur refsiábyrgðar lögaðila vegna brota gegn áðurnefndum ákvæðum var lengdur úr fimm árum í tíu ár. Jafnframt voru gerðar breytingar á 264. gr. a laganna til betra samræmis við kröfur mútusamningsins. Forsendur fyrir lengingu á fyrningarfresti vegna refsiábyrgðar lögaðila vegna mútubrotamála voru tilgreindar þær að fullt tilefni væri fyrir þeirri breytingu þar sem brot af þessu tagi væru nánast undantekningarlaust framin í starfsemi fyrirtækja auk þess að vera flókin og tækju þar af leiðandi langan tíma í rannsókn. Augljóst má telja að sömu forsendur eigi við um svigrúm til endurákvörðunar skatta.
    Þá eru lagðar til breytingar á 6. tölul. 50. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að töluliðurinn gildi jafnt um kostnað vegna greiðslna, gjafa eða annars sem ólögmætt er skv. 109. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 264. gr. a sömu laga. Telja verður rétt að vísað sé til beggja ákvæðanna varðandi mútugreiðslur og mútuþægni.

3.6. Upphafsdagur og samþykkt sameiningar eða skiptingar félaga.
    Samkvæmt 59. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skal miða tekjuskatt við tekjur næsta almanaksárs á undan skattákvörðun, nema annað sé venjulegt rekstrarár í atvinnugrein aðila. Þá segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Sama á við um tímasetningu kostnaðar við öflun skattskyldra tekna, þ.e. til útgjalda skal hafa stofnast á tekjuárinu. Meginreglan samkvæmt framansögðu er þannig sú að til þeirra tekna og útgjalda, sem lögð verða til grundvallar skattlagningu hvers tekjuárs, hafi stofnast á því ári og á það jafnt við um yfirfærslu skattalegra réttinda og skyldna sem yfirfærast við sameiningu og skiptingu félaga.
    Í 1. mgr. 51. gr. er kveðið á um að uppfylli samruni þau skilyrði sem kveðið er á um í ákvæðinu skuli auk annars það félag sem við tekur taka við öllum skattalegum réttindum og skyldum þess félags sem slitið var. Í þessu felst að samruninn hafi verið samþykktur í öllum félögunum sem er ein forsenda þess að yfirteknu félagi hafi verið slitið og réttindi þess og skyldur hafi í heild sinni runnið endanlega frá því til yfirtökufélagsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 127. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, sbr. 102. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Sama gildir eftir því sem við á um samruna félaga skv. 53. gr. tekjuskattslaga.
    Forsendur þess að skipting hlutafélaga hafi ekki skattalegar afleiðingar fyrir félagið og hluthafana eru tilgreindar í 53. gr. tekjuskattslaga og það að yfirfærsla skattalegra réttinda og skyldna fari fram að því marki sem skiptingarhlutföll segja til um ræðst af því að skipting hafi verið samþykkt í öllum félögunum, sbr. áður tilvitnuð ákvæði laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.
    Í 2. mgr. 54. gr. tekjuskattslaga er kveðið á um það að heimilt sé við skiptingu að miða uppgjör rekstrar og framtalsskil þeirra félaga sem skiptingin eða slitin varða við það tímamark þegar skiptingin eða slitin eiga sér stað, þ.e. uppgjörsdag, samkvæmt samþykktum félaganna um samruna- eða skiptingaráætlun. Eðlilegt þykir í skattalegu tilliti að sett séu þau skilyrði fyrir því að samruni og skipting hafi ekki skattalegar afleiðingar fyrir hluthafa og félögin að upphaf og lok skipta eigi sér stað innan tekjuársins, þannig að skattaleg réttindi og skyldur hafi endanlega færst til hluthafa og félaganna á viðkomandi tekjuári.
    Samkvæmt framansögðu þykir rétt að hnykkja á því að skattaleg réttindi og skyldur við samruna, sem tilheyrðu yfirteknu félagi á tekjuárinu yfirfærast eðli máls samkvæmt ekki til yfirtökufélags fyrr en samruni hefur verið samþykktur í öllum félögunum og yfirtekna félaginu slitið innan þess tekjuárs. Sama gildir eftir því sem við á um yfirfærslu skattalegra réttinda og skyldna við skiptingu félags.

3.7. Andmælaréttur við breytingu á álögðum sköttum og gjöldum að beiðni skattaðila.
    Ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins er réttur aðila til að kynna sér gögn máls, tjá sig um fram komnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Ekki er talin þörf á að veita aðila færi á að tjá sig um mál áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því ef það verður talið augljóslega óþarft. Dæmi um slíkt tilvik má nefna þegar skattaðili sendir að eigin frumkvæði beiðni til skattyfirvalda um leiðréttingu á þegar álögðum sköttum og gjöldum, til hækkunar eða lækkunar, og skattyfirvöld taka beiðni hans að öllu leyti til greina. Þykir rétt að hnykkja á þessu í 96. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 26. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

3.8. Refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna eða samskattaðs sambúðarfólks.
    Fjármagnstekjur hjóna og samskattaðs sambúðarfólks skal leggja saman og telja til tekna hjá þeim aðila sem hærri hefur hreinar tekjur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir vegna þeirra fjármagnstekna sem telja bar fram hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skal hann sæta refsingu skv. 1. mgr. 109. gr. laganna í formi fésektar eða fangelsis.
    Ákvæði þetta var lögfest með 5. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 133/2021, í kjölfar tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum S-3517/2019 og S-3519/2019 og vísast til greinargerðar með lögum nr. 133/2021.
    Óeðlilegt þótti að það hjóna sem hefði hærri hreinar tekjur skv. A-lið 7. gr. laganna bæri eitt hlutlæga ábyrgð á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laganna á vanframtöldum fjármagnstekjum maka. Talið var eðlilegra að saknæmið og refsinæmið sneri að þeim sem tekjurnar tilheyrðu og taldi þær ekki fram í sameiginlegu framtali og var því ákvæðinu breytt í þá veru með fyrrnefndum lögum nr. 133/2021.
    Fram hafa komið efasemdir um að hugtakið „hjón“ taki til samskattaðs sambúðarfólks við framangreindar aðstæður, þar sem um refsiákvæði sé að ræða. Til að taka af öll tvímæli um að refsiákvæði 1. málsl. greinarinnar taki einnig til tekjuskatts samskattaðs sambúðarfólks af þeim tekjum sem tilheyra tekjulægri aðilanum en telja ber fram hjá því hjónanna eða samsköttuðum einstaklingi sem hærri hefur tekjur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr., er því lögð til sú breyting að við 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna verði bætt orðunum „eða samsköttuðum einstaklingi í sambúð“.

3.9. Brottfall ákvæðis vegna breyttrar málsmeðferðar og sektarákvörðunar í skattrannsóknarmálum.
    Lagt er til að ákvæði 4. mgr. 110. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði fellt brott þar sem það á ekki lengur við eftir þær breytingar sem áttu sér stað við sameiningu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. lög um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota, nr. 29/2021. Ákvæðið er svohljóðandi:
     „Senda skal ríkissaksóknara skrá yfir mál sem lokið er samkvæmt þessu ákvæði. Telji ríkissaksóknari að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir sektarákvörðun skv. 2. mgr. eða málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti getur hann borið málið undir dómara til ónýtingar ákvörðun skattrannsóknarstjóra.“
    Eftir sameiningu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins í Skattinn, lýkur meiri hluta skattrannsóknarmála með fésekt hjá stofnuninni nema máli sé vísað til meðferðar hjá lögreglu samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara. Ákvörðun Skattsins um sektir er nú kæranleg til yfirskattanefndar. Stórfellt brot gegn skattalögum varða aftur á móti við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga og sæta því refsimeðferð hjá lögreglu.

3.10. Afdráttarskattur breskra félaga af arði frá íslenskum félögum.
    Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, og þar með EES-samstarfinu, hafði í för með sér að ákvæði 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga á ekki lengur við um bresk félög sem fá arð frá íslenskum fyrirtækjum. Tvísköttunarsamningur ríkjanna lækkar, að uppfylltum skilyrðum, afdráttarskatt á arðinn í 5% og geta bresk félög eftir útgönguna ekki lækkað skattinn frekar líkt og félög innan EES geta gert. Sú regla er almennt við lýði að arðgreiðslur að uppfylltum tilteknum skilyrðum eru ekki skattlagðar hjá því félagi sem arðinn fær úthlutaðan, þannig að ekki komi til keðjuskattlagningar þar til arði er úthlutað til endanlegs eiganda. Við þær aðstæður er um viðbótarskatt að ræða og getur hann haft áhrif á erlenda fjárfestingu. Tilgangurinn með lagabreytingunni er þannig að stuðla að því að breskar fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum verði sem fyrr eftirsóknarverðar.
    Breyting þessi er sett fram sem bráðabirgðaákvæði og gildistími afmarkaður við það tímamark að samið hafi verið upp á nýtt milli ríkjanna. Á þeim tíma ætti að hafa gefist tækifæri til að kveða á um gagnkvæma ívilnandi meðferð við skattlagningu arðs í tvísköttunarsamningi, hvort sem það yrði með nýjum samningi eða viðauka við gildandi samning.

3.11. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.
    Líkt og fram kemur í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2022, um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, er með bráðabirgðaákvæðum laganna, sem tóku gildi með lögum nr. 37/2020, kveðið annars vegar á um hækkun á frádráttarhlutfalli nýsköpunarfyrirtækja, þ.e. úr 20 í 35 hundraðshluta, frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar við rannsóknar- og þróunarverkefni og hins vegar um hækkun á hámarki kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022 úr 600 millj. kr. og 900 millj. kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu í samtals 1.100 millj. kr. Nánar tiltekið kveður fyrra bráðabirgðaákvæðið á um að nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís) eigi rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022. Frádrátturinn næmi 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þá kveður seinna bráðabirgðaákvæðið á um að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 skuli vera samtals 1.100.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr. laganna.
    Með lögum nr. 49/2022 voru bráðabirgðaákvæðin framlengd um eitt ár þannig að þau ná til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árið 2023 vegna rekstrarársins 2022. Lögin breyttu ekki efnisinnihaldi bráðabirgðaákvæðanna að því undanskildu að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti lækkaði úr 1.100.000.000 kr. í 1.000.000.000 kr.
    Lagt er til að umrædd bráðabirgðaákvæði verði framlengd um tvö ár, þ.e. að þau taki til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2024 og 2025 vegna rekstraráranna 2023 og 2024. Jafnframt verði hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2024 og 2025 hækkað úr samtals 1.000.000.000 kr. í samtals 1.100.000.000 kr.
    Þess má geta að stuðningskerfi við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 152/2009 er til skoðunar og úttektar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er niðurstöðu hennar að vænta á árinu 2023.

3.12. Vörugjöld af húsbílum.
    Með lögum nr. 117/2018 voru gerðar viðamiklar breytingar á fyrirkomulagi álagningar vörugjalds á ökutæki sem flutt eru til landsins. Hin breytta aðferðafræði við mælingu losunar gerði það að verkum að flestir nýir húsbílar lentu í hámarksvörugjaldi sem er 65%. Með lögum nr. 33/2020 var því lögfest ákvæði til bráðabirgða XVIII við lög nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem kveðið er á um lækkun á skráðri losun húsbíla sem liggur til grundvallar álagningu vörugjalds að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ákvæðinu var bætt við lögin samkvæmt tillögu meiri hluta þáverandi efnahags- og viðskiptanefndar. Í áliti meiri hlutans kom fram að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að húsbílar sættu stórauknum álögum vörugjalds samhliða upptöku nýs alþjóðlegs staðals um mælingu á losun ökutækja. Í álitinu kom enn fremur fram að um tímabundna lausn væri að ræða og vinna þyrfti að varanlegri lausn vegna þessarar stöðu. Síðan þá hefur ákvæðið verið framlengt í tvígang um ár í senn en rennur út í lok árs 2022 að óbreyttu. Þá var nýrri málsgrein bætt við ákvæðið með lögum nr. 9/2022 til samræmis við breytingar sem gerðar voru á 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með lögum nr. 133/2021. Eins og sakir standa liggur varanleg lausn ekki fyrir og er því lagt til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur um eitt ár til viðbótar, eða til ársloka 2023.

3.13. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákveði form erfðafjárskýrslna.
    Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, skal ríkisskattstjóri ákveða form erfðafjárskýrslna. Sýslumenn fara með framkvæmd erfðamála, þar á meðal frumálagningu erfðafjárskatts. Við uppgjör dánarbús eða greiðslu á fyrirframgreiddum arfi þurfa erfingjar að fylla út erfðafjárskýrslu og skila til sýslumanns og þykir því bæði rétt og eðlilegt að það sé fremur á ákvörðunarvaldi sýslumanna en ríkisskattstjóra að kveða á um form og gerð erfðafjárskýrslna. Hagkvæmast þykir að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verði falið að ákveða form þeirra.

3.14. Ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt.
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, er kveðið á um sérstaka virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings og skattskyldrar sölu m.a. á rafmagns- og vetnisbifreiðum. Ívilnunin gildir út árið 2023 eða þar til 20.000 bifreiða fjöldamörkum er náð. Þegar litið er til talna um fjölda innfluttra rafmagnsbifreiða á síðustu mánuðum má leiða að því líkur að gildandi fjöldamörkum rafmagnsbifreiða verði náð nálægt miðju ári 2023. Í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum frá júlí sl. segir að forgangsraða þurfi áherslum og fjármagni í þær aðgerðir sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og færa Ísland markvisst í átt að settum markmiðum. Samkvæmt skýrslunni liggja mest tækifæri í orkuskiptum í samgöngum. Þar segir enn fremur að tryggja þurfi að jákvæð þróun í rafvæðingu bifreiðaflotans haldi áfram en veita þurfi sérstaka athygli aðgerðum A.8 og A.9, um orkuskipti hjá bílaleigum og í þungaflutningum. Þar hefur þróunin verið nokkru hægari en í rafvæðingu fólksbifreiða í eigu einstaklinga. Stjórnvöld eru með til skoðunar hvernig stuðningi þeirra verði háttað á næstu misserum vegna orkuskipta í samgöngum á landi. Skoðunin beinist m.a. að því hvernig stuðningi skuli fram haldið vegna kaupa einstaklinga á hreinorkubifreiðum, hvernig hvetja skuli bílaleigur í orkuskiptunum og hvernig stuðningi við vistvæna þungaflutninga skuli háttað. Gera má ráð fyrir að niðurstaða í yfirstandandi vinnu um framtíðarskipulag stuðningsúrræða stjórnvalda liggi fyrir í síðasta lagi í lok árs 2023. Í ljósi alls framangreinds og til að tryggja aukinn fyrirsjáanleika þykir rétt að fella niður 20.000 bifreiða fjöldamörk fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt þannig að virðisaukaskattsívilnun samkvæmt ákvæðinu gildi út árið 2023 óháð fjölda bifreiða sem hennar njóta.
    Með lögum nr. 33/2022 voru gerðar breytingar á ákvæði til bráðabirgða XXIV og m.a. ný og lægri fjárhæðarmörk lögfest fyrir tímabilið 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023. Á því tímabili er tollyfirvöldum við tollafgreiðslu rafmagns- og vetnisbifreiða heimilt að fella niður virðisaukaskatt að hámarki 1.320.000 kr. að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins. Þá er seljendum rafmagns- og vetnisbifreiða heimilt að undanþiggja við sölu þeirra að hámarki 5.500.000 kr. frá skattskyldri veltu sinni að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins. Ekki standa rök til annars en að sambærilegar reglur gildi um fjárhæðarmörk vegna innflutnings og sölu rafmagns- og vetnisbifhjóla. Er því lagt til að fjárhæðarmörkin vegna innflutnings og sölu á rafmagns- og vetnisbifhjólum á tímabilinu frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 verði lækkuð til jafns við þau fjárhæðarmörk sem gilda fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar á sama tímabili.
    Í 2. tölul. 10. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um sérstaka virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings á nýjum og notuðum léttum bifhjólum sem knúin eru rafmagni að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kveðið er á um sams konar virðisaukaskattsívilnun í 2. tölul. 11. mgr. vegna fyrstu sölu á nýjum eða notuðum léttum bifhjólum sem knúin eru rafmagni að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með lögum nr. 33/2022 var gerð breyting á 3. málsl. 2. tölul. 10. mgr. og fellt brott skilyrðið um að létt bifhjól í flokki I, sbr. 28. tölul. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, væri skráð í ökutækjaskrá. Eftir breytinguna nær skilyrðið um skráningarskyldu í ökutækjaskrá skv. 3. málsl. 2. tölul. 10. mgr. nú eingöngu til léttra bifhjóla í flokki II. Er það í samræmi við kröfur í gildandi umferðarlögum, nr. 77/2019, sem kveða á um að létt bifhjól í flokki I séu undanþegin skráningarskyldu. Til að tryggja samræmi er nú lagt til að gerð verði sams konar breyting á 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. ákvæðisins og að skilyrðið um að létt bifhjól í flokki I sé skráð í ökutækjaskrá verði fellt niður. Skilyrðið um skráningu létts bifhjóls í ökutækjaskrá skv. 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. mun þá eingöngu ná til léttra bifhjóla í flokki II.

3.15. Innflutningur hrárra og lítt saltaðra sláturafurða, hrárra eggja, ógerilsneyddrar mjólkur og mjólkurafurða frá Bretlandi.
    Gert er ráð fyrir breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sem lið í að styðja við gagnkvæma skuldbindingu við Bretland um sömu meðferð þegar kemur að heilbrigðiseftirliti með innflutningi dýraafurða, þ.m.t. sjávarafurða frá Íslandi, og Bretland veitir við innflutning frá Evrópusambandinu. Afar mikilvægt er, í efnahagslegu tilliti, að útflutningur sjávarafurða til Bretlands fái við innflutning bestu mögulegu afgreiðslu. Því er lagt til að upptalningu í 1. mgr. f-liðar 1. mgr. 10. gr. laganna verði breytt þannig að Bretlandi verði bætt við upptalningu á þeim löndum þaðan sem heimilt er að flytja inn hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, hrá egg, ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir.

3.16. Framlenging á bráðabirgðaákvæði búvörulaga um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis.
    Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis EE verði framlengdur um eitt ár og ákvæðið gildi þannig út árið 2023. Í ákvæðinu er kveðið á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Markmið framlengingarinnar er að tryggja nægjanlegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, koma í veg fyrir skortstöðu og draga úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt.

3.17. Sólarlagsákvæði laga um fjarskiptasjóð.
    Lögð er til framlenging á gildistíma sólarlagsákvæðis 9. gr. laga um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, út árið 2023. Að óbreyttu mundu lögin falla úr gildi í árslok árið 2022.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, til þess að íslensk stjórnvöld geti uppfyllt tilmæli vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um mútur í alþjóðlegum viðskiptum um framkvæmd og innleiðingu á ákvæðum mútusamningsins. Með undirritun og fullgildingu samningsins hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig að þjóðarrétti til að innleiða efni hans í íslensk lög.
    Framlenging bráðabirgðaákvæða í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, um tvö ár er jafnframt innan marka reglugerðar um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu (e. General Block Exemption Regulation, GBER), nr. 651/2014, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2014.
    Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þá segir í 1. mgr. 77. gr. að skattamálum skuli skipað með lögum. Ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Að öðru leyti gefur efni frumvarpsins ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Við vinnslu þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, matvælaráðuneytið, Rannís og Skattinn. Áform um samningu frumvarpsins voru kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 14.–23. september 2022 (mál nr. S-167/2022). Tvær umsagnir bárust, frá Samtökum iðnaðarins og Hugverkaráði Samtaka iðnaðarins. Báðar fjalla þær um skattfrádrátt vegna rannsókna og þróunar auk kaupréttar starfsmanna sprotafyrirtækja og er fyrirhuguðum áformum fagnað. Þá eru jafnframt lagðar fram tillögur að lagabreytingum og hvatt til samráðs við gerð frumvarpsins. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 11.–25. október (mál nr. S-191/2022). Átta umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Framvís – Samtökum vísifjárfesta, KPMG ehf., Monerium ehf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Sveini Valfells og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.
    Í umsögnunum er áformum um tímabundna hækkun skattahvata vegna rannsókna og þróunar almennt fagnað. Sama á við um áform um endurskoðun á skattalegri meðferð kaupréttar í sprotafyrirtækjum. Hins vegar þykir útfærsla kaupréttarkerfisins og skilyrði þess of þröng og ekki nægilega hvetjandi. Lagðar eru fram tillögur að breytingum á ákvæðum frumvarpsins sem tengjast kaupréttarkerfinu, andmælarétti í þeim tilfellum að ríkisskattstjóri fellst á beiðni skattaðila um breytingu á skattframtali eða álögðum sköttum, húsbifreiðum, virðisaukaskattsívilnun vegna rafmagns- og vetnisbifreiða og fyrningarálagi á grænar eignir og aðrar sambærilegar eignir.
    Brugðist hefur verið við mörgum athugasemdum sem fram koma í umsögnum og hefur frumvarpið tekið breytingum í samræmi við það. Hins vegar þykir ekki tilefni til að bregðast við athugasemdum í umsögn Samtaka verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandsins vegna húsbifreiða, virðisaukaskattsívilnunar vegna rafmagns- og vetnisbifreiða og fyrningarálags á grænar eignir og aðrar sambærilegar eignir. Í tengslum við síðastnefndu athugasemdina um að í frumvarpsdrögunum sé ekki að finna tillögu að breytingum á 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða LXX í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem kveður á um svokallaða flýtifyrningu eigna sem sé aflað á árunum 2021 og 2022, þykir rétt að benda á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði LXIX í sömu lögum er atvinnurekstraraðilum heimilt, á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023, að fyrna að fullu á kaupári niður að niðurlagsverði eignar ökutæki sem nýta eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni að því gefnu að nýorkuökutæki sé að öllu leyti nýtt í skattskyldri starfsemi lögaðila eða sjálfstætt starfandi einstaklings. Þá þykir ekki tilefni til að bregðast við athugasemdum í umsögn Bændasamtaka Íslands vegna breytingar á búvörulögum, nr. 99/1993. Við skoðun á innflutningi á kartöflum undanfarin ár er ljóst að árin 2020 og 2021, þegar fullur tollur var á kartöflum allt árið, þurftu innflytjendur að flytja inn töluvert af kartöflum yfir sumartímann eða þar til innlenda uppskeran kom á markað. Því er lagt til að bráðabirgðaákvæði EE við lögin verði framlengt í óbreyttri mynd og verða kartöflur því á lægri tollum í júní 2023 til samræmis við reynslu undanfarinna ára. Staðan verður endurmetin á næsta ári þegar í ljós kemur hvort væntingar um aukna uppskeru og tryggt innlent framboð hafi raungerst.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Mat á fjárhagsáhrifum.
    Tillögur frumvarpsins eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra.
    Gera má ráð fyrir að með lengri heimildum til endurákvörðunar skatta vegna mútubrota aukist varnaðaráhrifin. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um hugsanlegar fjárhæðir hvað endurákvarðanir varðar. Áhrif þess verða eflaust til þess að styrkja íslensk stjórnvöld í baráttunni gegn mútugreiðslum.
    Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 152/2009, ef bráðabirgðaákvæði laganna verða framlengd um tvö ár með hámarksþaki að fjárhæð 1,1 milljarður kr., er 14,5 milljarðar kr. fyrir árið 2024 og 15,3 milljarðar kr. fyrir árið 2025. Að óbreyttu hefði kostnaður varðandi stuðning við nýsköpunarfyrirtæki á árinu 2024 verið 6,5–7,5 milljarðar kr. Að þessu leyti mun frumvarpið hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði það óbreytt að lögum. Kostnaður ríkissjóðs vegna stuðningsins er að hluta til umfram fjárheimildir verði frumvarpið óbreytt að lögum en í fjármálaáætlun 2023–2027 var gert ráð fyrir að kostnaður við að gera bráðabirgðaákvæði laganna varanleg yrði 11,5 milljarðar kr. Heildaráhrifin á fjármál ríkissjóðs ættu þó með tímanum að verða jákvæð enda tilgangur breytinganna að stuðla að aukinni nýsköpun með jákvæðum áhrifum á almannahagsmuni, aukinni hagsæld og samkeppnishæfni til framtíðar. Þá má geta þess að stuðningskerfi við nýsköpunarfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 152/2009 er til skoðunar og úttektar af Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og er niðurstöðu hennar að vænta á árinu 2023.
    Framlenging á sérstakri ívilnun fyrir húsbíla þar sem veittur er afsláttur af vörugjaldi við innflutning bílsins leiðir til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem áætla má um 200 millj. kr. á árinu 2023. Afslátturinn hefur að jafnaði numið 57% af fullu vörugjaldi þeirra bíla sem um ræðir.
    Talsverð óvissa ríkir um framboð á nýjum rafmagnsbílum vegna ýmissa raskana sem rekja má m.a. til áhrifa heimsfaraldursins og síðar innrásarinnar í Úkraínu á framleiðsluferli og milliríkjaviðskipti. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir rafmagnsbílum aukist mikið, hér á landi sem annars staðar. Sé gert ráð fyrir að hlutdeild þeirra í innflutningi fólksbifreiða haldi þrátt fyrir það áfram að aukast á næsta ári, bæði hjá heimilum landsins, bílaleigum og öðrum fyrirtækjum, má áætla að tekjutap ríkisins vegna brottfellingar á 20.000 bíla fjöldamörkum gæti numið 3,8 milljörðum kr.
    Breyting á hámarksfjárhæð þeirrar lækkunar á virðisaukaskatti sem rafmagns- og vetnisbifhjól njóta, til samræmis við bíla sem nota sömu orkugjafa, breytir í flestum eða öllum tilvikum engu um veitta ívilnun þar sem reiknaður virðisaukaskattur verður eftir sem áður minni en hámarkið og því felldur niður til fulls.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa samanlagt ekki teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum.

6.2. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Ekki hefur farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Þó má leiða að því líkur að einhverjar tillögur þess geti haft ólík áhrif á karla og konur enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar.
    Hér má nefna ákvæði frumvarpsins um refsinæmi vegna vanframtalinna fjármagnstekna hjóna og samskattaðs sambúðarfólks en telja verður eðlilegt að það hjóna eða sá samskattaðra einstaklinga sem tekjurnar hefur og skýrir rangt eða villandi frá einhverju um þær beri ábyrgð í þeim tilfellum er fjármagnstekjur viðkomandi skal telja til tekna hjá hinu sem hærri hefur hreinar tekjur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Breytingin hefur í flestum tilfellum meiri áhrif á konur sem að öllu jöfnu eru tekjulægri aðilinn.
    Gera má ráð fyrir því að ákvæði frumvarpsins sem snúa að kauprétti í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hafi ólík áhrif á karla og konur þar sem karlar eru fleiri í stjórnum fyrirtækja og eiga almennt fleiri hluti í félögum.
    Lögfesting lengri heimildar til endurákvörðunar skatts úr sex árum í tíu ár vegna mútubrota hefur líklega meiri áhrif á karla en konur. Íslenskir viðskiptamenn sem sagðir eru hafa mútað opinberum starfsmönnum erlendra ríkja sem ekki eru aðilar að sáttmála OECD gegn mútum og spillingu eru t.d. í meiri hluta karlar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 3. gr.

    Lögð er til ný grein við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, 10. gr. a, og tekur hún til starfsmanna, stjórnarmanna og sérhæfðra ráðgjafa sprotafyrirtækja eins og þau eru skilgreind í 9. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna. Sprotafyrirtæki er þannig félag sem uppfyllir skilyrði um að teljast nýsköpunarfyrirtæki skv. 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, þ.e. að um sé að ræða lögaðila skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt sem stundar rannsóknir eða þróun samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Til að teljast sprotafyrirtæki þarf félag enn fremur að vera innan stærðarmarka 2. tölul. 3. mgr. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. að ekki starfi fleiri hjá félaginu en 25 starfsmenn og félagið sé með árlega veltu undir 650 millj. kr. og/eða efnahagsreikning undir 650 millj. kr. Enn fremur þarf félag að verja meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsóknar- og þróunarstarfsemi og vera stofnað í þeim tilgangi, þ.e. félagið þarf að hafa verið stofnað sérstaklega til að vinna að ákveðnu rannsóknar- eða þróunarverkefni.
    Sprotafyrirtæki sem uppfyllir skilgreiningu 9. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
    Í fyrsta lagi þarf sprotafyrirtækið að hafa fengið staðfestingu Rannís, sbr. 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, áður en kaupréttarsamningur var gerður og vinnuframlag þess sem fær kauprétt tengist eingöngu framkvæmd á hinu staðfesta verkefni. Með skilyrði um staðfestingu Rannís er leitast eftir því að verkefni sprotafyrirtækis tengist raunverulega rannsókn eða þróun sem þar til bært stjórnvald hefur metið á grundvelli sérþekkingar sinnar.
    Í öðru lagi þurfa að líða að lágmarki 18 mánuðir frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur. Þar sem verið er að mæla fyrir um undantekningu frá þeirri meginreglu að tekjur af kauprétti skuli skattleggja sem laun er nauðsynlegt að gera þá lágmarkskröfu að það líði a.m.k. 18 mánuðir frá gerð samnings þar til hann er nýttur. Flestir kaupréttarsamningar eru gerðir til nokkurra ára í senn og því ætti þetta skilyrði í flestum tilfellum ekki að koma að sök.
    Í þriðja lagi er það skilyrði að kaupverð samkvæmt kaupréttarsamningi sé eigi lægra en gangverð eða bókfært virði eiginfjár samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan að horfa skuli til gangverðs. Sé það hins vegar ekki til staðar þá er heimilt að miða við innra virði félags.
    Í fjórða lagi er skilyrði að samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur og nái ekki til lengri tíma en sex ára. Hér er fyrst og fremst ætlunin að einfalda skattframkvæmd. Samningar um kauprétt eru alla jafna til nokkurra ára, oftar en ekki frá fjórum árum til tíu ára. Í frumvarpinu er lagður til sex ára tímarammi sem ætti að ná yfir flest tilfelli hjá sprotafyrirtækjum.
    Í 2. mgr. nýrrar 10. gr. a er að finna kröfur um upplýsingamiðlun til ríkisskattstjóra, m.a. um útgefna kaupréttarsamninga og þá sem hafa nýtt sér kauprétt á árinu ásamt öðrum upplýsingum sem ríkisskattstjóri telur nauðsynlegar. Í 3. mgr. er kveðið á um fyrirkomulag skattlagningar á tekjum samkvæmt ákvæðinu, þ.e. að tímamark skattskyldu stofnast við eigendaskipti á hlutabréfum eða hlutum og ákvarðast tekjurnar sem nemur mismun á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði bréfanna eða hlutanna við eigendaskipti að þeim. Í 4. mgr. er tekið fram að kaup á hlutabréfum samkvæmt þessari grein geta ekki verið andlag að ívilnun skv. 1. tölul. B-liðar 30. gr.
    Þá er lögð til breyting á tilvísun í 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003 þar sem vísað er í hið nýja ákvæði 10. gr. a.

Um 2. og 5. gr.

    Lagt er til að orðalag 10. og 18. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði fært til samræmis við 9. gr. laganna, sbr. einnig 3. gr. frumvarpsins, hvað varðar tímamark skattskyldu og miðast þannig við eigendaskipti hvort heldur þau eru vegna sölu eða við aðrar aðstæður, svo sem vegna arfs.

Um 4. og 6. gr.

    Lagt er til að felld verði brott tilvísun 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. og 3. málsl. 1. mgr. 26. gr. tekjuskattslaga til brottfellds ákvæðis 2. mgr. 1. tölul. 73. gr. laganna þar sem eiganda leigulóðar var talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar en leigjanda mismunurinn á fasteignamati og afgjaldskvaðarverðmæti. Ákvæðið var fellt brott með lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, nr. 124/2015, m.a. með einföldun á skattframtölum og framtalsskyldum einstaklinga í huga.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að bakfæra skuli varúðarniðurfærslu fyrra árs, og fyrri ára ef því er að skipta, áður en niðurfærsla ársins er færð. Gildir það sama þótt engin niðurfærsla sé færð fyrir árið. Ákvæðið mælir þannig ekki fyrir um sjálfstæða heimild til að gjaldfæra 5% af virði eignanna sem töluliðirnir taka til á hverju ári heldur aðeins mismun milli ára. Hafi virði eignanna hækkað milli ára færist hlutfallslega meira til gjalda á yfirstandandi ári en hafi virðið lækkað yrði hlutfallslega minna fært til gjalda en árið áður.

Um 8. gr.

    Ákvæði 39. gr. tekjuskattslaga fjallar um kostnaðarverð þeirra fyrnanlegu eigna sem heimilt er að færa til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað en almenna reglan er að kostnaðarverð slíkra eigna skuli færa til eignar og dreifa (fyrna) yfir líftíma þeirra. Fjárhæðin, sem nú er 250.000 kr., hefur ekki tekið breytingum frá árinu 2001 þegar hún var síðast hækkuð með lögum nr. 133/2001 til að koma til móts við afnám verðbólgureikningsskila. Fjárhæðin á árinu 2001 jafngildir nú um 630.000 kr. Telja má að kominn sé tími á að hækka umrædda fjárhæð þannig að hún taki mið af hækkun verðlags. Breytingin stuðlar að einföldun skattskila svo að ekki þurfi að færa eignir undir tilgreindum fjárhæðarmörkum í fyrningarskrá og fyrna yfir margra ára tímabil.

Um 9. gr., 12. gr. og b-lið 14. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 6. tölul. 50. gr. laga um tekjuskatt í þá veru að töluliðurinn gildi jafnt um kostnað vegna greiðslna, gjafa eða annars sem ólögmætt er skv. 109. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og 264. gr. a sömu laga. Rétt þykir að vísa til beggja framangreindra ákvæða almennra hegningarlaga varðandi mútugreiðslur og mútuþægni.
    Þá er lagt til að heimild til endurákvörðunar skatts verði lengd úr sex árum í tíu ár vegna mútubrota, talið frá því ári sem endurákvörðun fer fram, sbr. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Með breytingunni er brugðist við tilmælum vinnuhóps Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútum í alþjóðlegum viðskiptum. Eðlilegt þykir að skattyfirvöldum sé jafnframt veittur rýmri tími til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna enda eru mútubrot flókin og taka þar af leiðandi langan tíma í rannsókn. Með lögum nr. 30/2022 var gerð breyting á 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að refsihámark var hækkað úr fimm árum í sex ár og fyrningarfrestur refsiábyrgðar lögaðila vegna brota gegn áðurnefndum ákvæðum var lengdur úr fimm árum í tíu ár.
    Jafnframt eru lagðar til afleiddar breytingar á 9. mgr. 110. gr. tekjuskattslaga þess efnis að sök skv. 109. gr. þeirra laga fyrnist á tíu árum í stað sex ára vegna mútubrota skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

Um 10. gr.

    Lögð er til breyting á 2. mgr. 54. gr. laganna þannig að hnykkt verði á því að skattaleg réttindi og skyldur við sameiningu/samruna, sem tilheyrðu yfirteknu félagi á tekjuárinu, yfirfærast ekki til yfirtökufélags fyrr en samruni hefur verið samþykktur í öllum félögunum og yfirtekna félaginu slitið innan þess tekjuárs. Sama gildir eftir því sem við á um yfirfærslu skattalegra réttinda og skyldna við skiptingu félags. Samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, er meginreglan sú að til þeirra réttinda og skyldna, sem lögð verða til grundvallar skattlagningu hvers tekjuárs, hafi stofnast á því ári. Því þykir eðlilegt í skattalegu tilliti að sett verði þau skilyrði fyrir því að samruni og skipting hafi ekki skattalegar afleiðingar fyrir hluthafa og félögin að upphaf og lok skipta eigi sér stað innan tekjuársins, þannig að skattaleg réttindi og skyldur hafi endanlega færst til hluthafa og félaganna á viðkomandi tekjuári.

Um 11. gr.

    Lagt er til að tveimur nýjum málsliðum verði bætt við 4. mgr. 96. gr. laganna. Þar er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar skattaðili leggur fram beiðni að eigin frumkvæði og óskar eftir breytingu á álögðum sköttum og gjöldum, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar, þurfi, eðli máls samkvæmt, ekki að gefa aðila færi á að tjá sig um breytinguna áður en ríkiskattsstjóri tekur ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda fallist ríkisskattstjóri á að leggja beiðni aðila til grundvallar endurákvörðun.
    Í 13. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Á hið síðastgreinda við t.d. í þeim tilfellum þegar aðili sækir um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu á grundvelli framlagðra gagna þannig að óþarft er talið að veita þurfi aðila færi á að tjá sig um breytingu eða úrlausn sem hann hefur sjálfur farið fram á og stjórnvaldið tekur að fullu til greina, enda verður að telja að afstaða aðila liggi ljós fyrir við aðstæður sem þessar.

Um 13. gr.

    Lagt er til að við 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. tekjuskattslaga verði bætt orðunum „eða samsköttuðum einstaklingi í sambúð“. Ákvæðið kveður á um að skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn vegna tekna sem telja ber fram hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skv. C-lið 7. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. laganna, skuli hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni til samræmis við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 109. gr. tekjuskattslaga. Með því eru tekin af öll tvímæli um það að við slíkar aðstæður taki refsiákvæði 1. málsl. hvort heldur til hjóna eða samskattaðs sambúðarfólks, sbr. breyttan 2. málsl.

Um a-lið 14. gr.

    Í a-lið er lagt til að ákvæði 4. mgr. 110. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði fellt brott þar sem það á ekki lengur við eftir þær breytingar sem áttu sér stað við sameiningu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. lög um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota, nr. 29/2021.
    Í ákvæði því sem fellt yrði niður er kveðið á um að skattrannsóknarstjóri skuli senda ríkissaksóknara skrá yfir þau mál sem lokið er auk þess sem ríkissaksóknari geti borið mál undir dómara til ónýtingar ákvörðun skattrannsóknarstjóra telji hann að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir sektarákvörðun. Eftir áðurnefndar breytingar lýkur meiri hluta skattrannsóknarmála með fésekt hjá Skattinum nema máli sé vísað til meðferðar hjá lögreglu samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara. Þá er ákvörðun um sektir nú kæranleg til yfirskattanefndar. Stórfellt brot gegn skattalögum varða aftur á móti við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga og fara slík mál í rannsókn og refsimeðferð hjá lögreglu.

Um 15. gr.

    Lagt er til að við tekjuskattslög verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að ákvæði 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. laganna, sem fjallar um frádrátt vegna móttekins arðs, taki einnig til Bretlands frá og með árinu 2021. Gert er ráð fyrir að ákvæðið falli úr gildi þegar gerð hefur verið breyting á tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands, eða samið um nýjan samning, og hún tekið gildi.

Um 16. og 17. gr.

    Lagt er til að bráðabirgðaákvæði laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, verði framlengd um tvö ár með þeim hætti að þau nái til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2024 og 2025 vegna rekstraráranna 2023 og 2024. Þar með eiga nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu Rannís, rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur allt að 35 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja en allt að 25 hundraðshlutum í tilviki stórra fyrirtækja enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þá verður hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki jafnframt hækkað úr samtals 1.000.000.000 kr. í samtals 1.100.000.000 kr. á árunum 2024 og 2025 en þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar eða þróunarvinnu skv. 6. gr. laganna.

Um 18. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XVIII laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., verði framlengt um eitt ár til viðbótar og gildi því út árið 2023.

Um 19. gr.

    Sýslumenn fara með framkvæmd erfðamála, þar á meðal frumálagningu erfðafjárskatts og leggja fyrir erfingja skýrslur og eyðublöð tengd erfðamálum. Lagt er til að það falli í hlut sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í stað ríkisskattstjóra að ákveða form erfðafjárskýrslna ásamt rafrænum skilum og samskiptum þeim tengdum.

Um 20. gr.

    Lagt er til að tveimur nýjum málsliðum verði bætt við 4. mgr. 26. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Þar er kveðið á um að í þeim tilvikum þegar skattaðili leggur fram beiðni að eigin frumkvæði og óskar eftir breytingu á álögðum virðisaukaskatti, hvort heldur til lækkunar eða hækkunar, þurfi, eðli máls samkvæmt, ekki að gefa aðila færi á að tjá sig um breytinguna áður en ríkisskattstjóri tekur ákvörðun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda fallist ríkisskattstjóri á að leggja beiðni aðila til grundvallar endurákvörðun.
    Í 13. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Á hið síðastgreinda við t.d. í þeim tilfellum þegar aðili sækir um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu á grundvelli framlagðra gagna þannig að óþarft er talið að veita þurfi aðila færi á að tjá sig um breytingu eða úrlausn sem hann hefur sjálfur farið fram á og stjórnvaldið tekur að fullu til greina, enda verður að telja að afstaða aðila liggi ljós fyrir við aðstæður sem þessar.

Um 21. gr.

    Í a-lið er lagt til að 1. og 2. tölul. 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt falli brott. Með breytingunni er felld brott 20.000 bifreiða fjöldatakmörkun fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar. Eftir breytinguna mun virðisaukaskattsívilnun samkvæmt ákvæðinu gilda áfram út árið 2023 óháð fjölda bifreiða sem njóta ívilnunarinnar.
    Í b-lið er lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 1. tölul. 10. mgr. sama ákvæðis þess efnis að frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023 verði fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts að hámarki 1.320.000 kr. við innflutning á rafmagns- og vetnisbifhjólum.
    Til samræmis við breytingu skv. a-lið er í b-lið lagt til að gerð verði breyting á 1. málsl. 1. tölul. 11. mgr. sama ákvæðis þess efnis að fjárhæðarmörk heimildar til undanþágu frá skattskyldri veltu við sölu á rafmagns- og vetnisbifhjólum innan lands verði 5.500.000 kr. frá 1. janúar 2023 til og með 31. desember 2023.
    Þá er í c-lið lagt til að gerð verði breyting á 3. málsl. 2. tölul. 11. mgr. sama ákvæðis til samræmis við breytingu sem gerð var á 3. málsl. 2. tölul. 10. mgr. ákvæðisins með lögum nr. 33/2022. Tillagan felur í sér að fellt er brott skilyrðið um að létt bifhjól í flokki I sé skráð í ökutækjaskrá. Skilyrðið um skráningu í ökutækjaskrá nær þá eingöngu til léttra bifhjóla í flokki II.

Um 22. gr.

    Gert er ráð fyrir að breyta upptalningu í 1. mgr. f-liðar 1. mgr. 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, þannig að Bretlandi verði bætt við upptalningu á þeim löndum þaðan sem heimilt yrði að flytja inn hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, hrá egg, ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir.

Um 23. gr.

    Gert er ráð fyrir eins árs framlengingu á gildistíma bráðabirgðaákvæðis EE við lögin þannig að það gildi út árið 2023. Í ákvæðinu er kveðið á um tímabil sem afmarka lægri innflutningstolla á tilteknar tegundir grænmetis. Með framlengingunni er tryggt nægjanlegt framboð til hagsbóta fyrir neytendur, auk þess sem komið er í veg fyrir skortstöðu og dregið úr líkum á tímabundnum verðhækkunum vegna álagningar tolla í þeim tilvikum þegar innlent vöruframboð er ekki nægjanlegt.

Um 24. gr.

    Lögð er til framlenging á gildistíma laga um fjarskiptasjóð út árið 2023.

Um 25. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.