Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um erfðafjárskatt

2004 nr. 14 26. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. apríl 2004. Breytt með: L. 15/2004 (tóku gildi 20. apríl 2004). L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 65/2006 (tóku gildi 27. júní 2006). L. 172/2007 (tóku gildi 29. des. 2007). L. 83/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema 22. gr. sem tók gildi 20. júní 2008). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 147/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009). L. 136/2009 (tóku gildi 1. jan. 2010). L. 65/2010 (tóku gildi 27. júní 2010). L. 77/2010 (tóku gildi 1. júlí 2010). L. 164/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011 nema 2., 6., 22. og 26. gr. sem tóku gildi 31. des. 2010; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 29. gr.). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 145/2012 (tóku gildi 1. jan. 2013 nema 4. og 5. gr. sem tóku gildi 1. apríl 2013). L. 124/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016 nema 12. og 34. gr. sem tóku gildi 31. des. 2015; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 35. gr.). L. 132/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 142/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 48. gr., sbr. einnig brbákv. í s.l.). L. 150/2019 (tóku gildi 31. des. 2019). L. 41/2020 (tóku gildi 28. maí 2020). L. 133/2020 (tóku gildi 1. jan. 2021 nema 37. og 38. gr. sem tóku gildi 17. des. 2020; komu til framkvæmda skv. fyrirmælum í 40. gr.). L. 29/2021 (tóku gildi 1. maí 2021; um lagaskil sjá 42. gr. og brbákv.). L. 32/2021 (tóku gildi 1. nóv. 2021 nema 7. og 8. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2022). L. 115/2021 (tóku gildi 1. sept. 2021 nema 39. gr. sem tók gildi 1. nóv. 2021 og 5. mgr. 48. gr. sem tekur gildi 28. febr. 2023; um lagaskil sjá 147. gr.; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2014/65/ESB, 2016/1034, reglugerð 600/2014, 2016/1033, 2017/565, 2017/567). L. 36/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Af öllum fjárverðmætum er við skipti á dánarbúi manns hverfa til erfingja hans skal greiða skatt í ríkissjóð eftir lögum þessum, sbr. þó 18. gr.
[Af öllum fasteignum hér á landi, sem eigendaskipti verða að á grundvelli lögerfða, bréferfða eða fyrirframgreiðslu arfs, skal greiða skatt eftir lögum þessum án tillits til þess hvort aðilar að ráðstöfuninni séu búsettir hér á landi eða erlendis.] 1)
Greiða skal skatt samkvæmt lögum þessum af gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér afnot eða tekjur af hinu gefna til dauðadags eða um tiltekinn tíma sem ekki er liðinn við fráfall hans.
Ekki skal greiða erfðafjárskatt af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda fari um skattlagningu samkvæmt lögum um tekjuskatt … 2)
[Ekki skal greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til lögaðila sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.] 3)
    1)L. 172/2007, 1. gr. 2)L. 129/2004, 148. gr. 3)L. 32/2021, 10. gr.
2. gr.
Erfðafjárskattur er [10%]. 1)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal engan erfðafjárskatt greiða af fyrstu [5.000.000 kr.] 2) í skattstofni dánarbús, sbr. 4. og 5. gr., og skulu erfingjar njóta skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn. [Skattfrelsismörk skv. 1. málsl. skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka næstliðins 12 mánaða tímabils. Ráðherra auglýsir ný skattfrelsismörk í upphafi hvers árs.] 2) Ákvæði þetta gildir ekki um fyrirframgreiðslu arfs.
[Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. greiða engan erfðafjárskatt maki … 3) og sambúðarmaki sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við arfleifanda og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambúðarmaka arfleifanda er ótvírætt getið.] 4)
Nú byrja búskipti eftir lát beggja hjóna og skal þá leggja erfðafjárskatt á arf erfingjanna eins og um eitt bú sé að ræða án tillits til þess hvort erfingjar beggja hjónanna eru hinir sömu eða ekki.
    1)L. 164/2010, 10. gr., sjá einnig e-lið 29. gr. s.l. 2)L. 133/2020, 36. gr.; um lagaskil sjá 40. gr. s.l. 3)L. 65/2010, 49. gr. 4)L. 65/2006, 13. gr.
3. gr.
Nú deyr maður sem tæmst hefur arfur áður en skiptum á því búi er lokið og skal þá dánarbú hans taka þann arf er hinn látni ella hefði hlotið og greiða þann erfðafjárskatt er honum hefði borið að greiða.
[Nú hafnar maður, sem undanþeginn er erfðafjárskatti, eða afsalar sér arfi eftir annan mann og skal þá erfingi, sem við arfsafsalið fær stærri arfshluta en hann ella hefði fengið, greiða erfðafjárskatt af hinum aukna arfi. Hafni maður eða afsali sér arfi beint eða óbeint til hagsbóta fyrir aðila sem undanþeginn er erfðafjárskatti skal sá erfingi sem þannig fær við arfsafsalið stærri arfshluta en hann ella hefði fengið greiða erfðafjárskatt af þeim arfshluta.] 1)
    1)L. 172/2007, 2. gr.
4. gr.
Skattstofn erfðafjárskatts er heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði skv. 5. gr.
Með heildarverðmæti skv. 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Gildir þetta um öll verðmæti sem metin verða til fjár, þ.m.t. innbú, húsbréf, fasteignaveðbréf, verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs, skuldabréf, hugverkaréttindi, líftryggingar, bifreiðar, aflaheimildir o.fl. Séu verðbréf skráð á skipulegum [markaði] 1) skal telja þau til eignar á kaupgengi eins og það er skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát arfleifanda. [Ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum [markaði] 1) skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar. Sama gildir um eignir í öðrum félögum.] 2) Inneignir hjá [bönkum og sparisjóðum] 3) og óskráð skuldabréf, sem og aðrar inneignir og útistandandi kröfur, skulu taldar að meðtöldum áföllnum vöxtum og/eða verðbótum.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal skattstofn eigna samkvæmt þessari málsgrein vera eftirfarandi:
    a. Þegar verðmæti annað en fasteign hefur verið selt nauðungarsölu skal miða við uppboðsandvirði þess.
    b. Fasteignir skulu taldar á fasteignamatsverði eins og það er skráð hjá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun] 4) á dánardegi arfleifanda. Af leigulóðarréttindum skal einnig greiða erfðafjárskatt með sama hætti. Nú er eignarréttur að fasteign háður kvöð um innlausnarrétt tiltekins aðila og skal þá leggja erfðafjárskatt á innlausnarverð sé það lægra en fasteignamatsverðið.
   Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.– 23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi matsgjörð, ekki eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.
    c. Búpeningur skal talinn á því verði sem lagt er til grundvallar síðustu álagningu opinberra gjalda fyrir dánardag arfleifanda.
    1)L. 115/2021, 148. gr. 2)L. 172/2007, 3. gr. 3)L. 41/2020, 9. gr. 4)L. 36/2022, 15. gr.
5. gr.
[Skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skulu koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem fellur á búið vegna ráðstafana skv. 17.– 21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skal einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sætir opinberum skiptum eða einkaskiptum. Þessir liðir skulu sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum. Erfðafjárskattur samkvæmt lögum þessum er ekki frádráttarbær.] 1)
    1)L. 172/2007, 4. gr.
6. gr.
Nú skipta erfingjar dánarbúi einkaskiptum og skulu þeir þá, innan þeirra tímamarka er í einkaskiptaleyfi greinir, leggja fyrir sýslumann erfðafjárskýrslu til ákvörðunar á erfðafjárskatti, sbr. 93. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. Skal skýrslan vera skilmerkilega útfyllt og gögn fylgja til skýringar þeim fjárhæðum sem þar eru greindar. Með erfðafjárskýrslu skulu fylgja a.m.k. þrjú síðustu skattframtöl arfleifanda.
Allir erfingjar skulu undirrita erfðafjárskýrsluna.
Erfingjar sem taka við fyrirframgreiddum arfi skulu afhenda sýslumanni erfðafjárskýrslu til áritunar vegna þeirra verðmæta.
Erfðafjárskýrsla samkvæmt lögum þessum skal vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
7. gr.
Sýslumaður skal yfirfara erfðafjárskýrslu og gæta þess sérstaklega að hún sé í samræmi við skiptagerð viðkomandi dánarbús.
Telji sýslumaður skýrslu áfátt að einhverju leyti getur hann veitt viðkomandi aðilum tiltekinn frest til að bæta úr eða leiðrétt sjálfur séu ágallar smávægilegir.
Þegar sýslumaður hefur yfirfarið erfðafjárskýrslu og telur hana fullnægjandi skal hann ákvarða erfðafjárskatt hvers erfingja, árita skýrsluna og tilkynna það hverjum erfingja fyrir sig.
Nú greinir erfingja á við sýslumann um skattstofn vegna tiltekinnar eignar eða annað sem áhrif hefur á fjárhæð erfðafjárskattsins og skal sýslumaður þá veita þeim allt að tveggja vikna frest til að leggja fram gögn til stuðnings kröfum sínum. Sýslumaður má lengja þennan frest um allt að tvær vikur. Að frestinum liðnum skal sýslumaður ákvarða erfðafjárskattinn á grundvelli framkominna gagna og tilkynna erfingjum með sannanlegum hætti. Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts geta þeir innan 30 daga frá því að þeim berst tilkynning sýslumanns kært ákvörðun hans til yfirskattanefndar.
Þegar endanleg niðurstaða um ágreiningsefnið liggur fyrir áritar sýslumaður skýrsluna skv. 3. mgr. Að því búnu skal sýslumaður senda skýrsluna til [ríkisskattstjóra] 1) sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.
    1)L. 136/2009, 100. gr.
8. gr.
Þegar dánarbúi er skipt opinberum skiptum skal skiptastjóri útfylla erfðafjárskýrslu í samræmi við frumvarp til úthlutunar úr búinu og undirrita hana einn en leggja hana síðan fyrir sýslumann ásamt frumvarpi til úthlutunar til bráðabirgðaákvörðunar á erfðafjárskatti áður en skiptafundur verður haldinn um frumvarpið. Innan viku frá því að skiptum er lokið skal skiptastjóri leggja skýrsluna á ný fyrir sýslumann til ákvörðunar skattsins og áritunar.
Að lokinni áritun sýslumanns skv. 1. mgr. skal hann senda skýrsluna til [ríkisskattstjóra] 1) sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.
Vilji erfingjar ekki fella sig við ákvörðun erfðafjárskatts skv. 1. mgr. geta þeir innan 30 daga frá því að þeim berst tilkynning sýslumanns kært ákvörðun hans til yfirskattanefndar, en ef erfingjar samþykkja getur skiptastjóri lokið skiptunum með því að greiða þá skattfjárhæð, sem sýslumaður hefur ákvarðað, með fyrirvara um endurheimtu. Komi til endurgreiðslu skatts að leystum ágreiningi tekur skiptastjóri upp skiptin á ný til að úthluta því sem er endurgreitt.
    1)L. 136/2009, 101. gr.
9. gr.
[Ríkisskattstjóri] 1) skal hafa lokið yfirferð erfðafjárskýrslu eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 40 dögum frá því að honum berst erfðafjárskýrslan. … 2) Geti [ríkisskattstjóri] 1) ekki vegna aðstæðna erfingja gert nauðsynlegar athuganir á erfðafjárskýrslu framlengist framangreindur frestur um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja.
    1)L. 136/2009, 102. gr. 2)L. 145/2012, 8. gr.
10. gr.
Telji [ríkisskattstjóri] 1) að eignir séu ekki réttilega taldar fram í erfðafjárskýrslu, skattstofn ekki réttur, erfðafjárskattur ekki lagður á rétta erfingja, erfðafjárskýrsla eða fylgigögn að öðru leyti ófullnægjandi eða [ríkisskattstjóri] 1) telur frekari skýringa þörf á einhverju atriði skal hann skriflega skora á erfingja eða eftir atvikum skiptastjóra að bæta úr því innan ákveðins frests og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn, þ.m.t. bókhald og bókhaldsgögn, sem [ríkisskattstjóri] 1) telur þörf á að fá. Fáist ekki fullnægjandi svar innan tiltekins tíma skal [ríkisskattstjóri] 1) áætla þá liði erfðafjárskýrslu sem hann telur óljósa eða tortryggilega og ákvarða skatt í samræmi við skýrsluna þannig breytta.
Sé erfðafjárskýrslu breytt með stoð í þessari grein, þ.m.t. ef skattstofn er áætlaður, skal [ríkisskattstjóri] 1) gera viðkomandi aðilum viðvart um breytingarnar með tilkynningu og rökstyðja ástæður þeirra.
[Ríkisskattstjóri] 1) skal gera viðkomandi sýslumanni viðvart skriflega komi fram upplýsingar um eignir eða breyttan skattstofn sem ekki koma fram í skiptagerð.
Hafi [ríkisskattstjóri] 1) grun um erfðafjárskattsvik eða að refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin [felur hann skattrannsóknarstjóra að ákveða um framhald málsins]. 2)
    1)L. 136/2009, 102. gr. 2)L. 29/2021, 35. gr.
11. gr.
Erfingi, sem telur erfðafjárskatt eða skattstofn samkvæmt ákvæðum laga þessara eigi rétt ákveðinn, getur sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til yfirskattanefndar og fer meðferð kærunnar þá eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
12. gr.
Erfingjum er skylt að láta sýslumönnum og/eða [ríkisskattstjóra og [skattrannsóknarstjóra] 1)] 2) í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þeir beiðast og unnt er að láta þeim í té.
Nú verður ágreiningur um skyldu erfingja skv. 1. mgr. og getur sýslumaður, ríkisskattstjóri eða [skattrannsóknarstjóri] 1) þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms. Gegni einhver ekki upplýsingaskyldu sinni má vísa máli til [rannsóknar lögreglu]. 3)
    1)L. 29/2021, 36. gr. 2)L. 136/2009, 103. gr. 3)L. 88/2008, 234. gr.
13. gr.
Séu verðmæti á erfðafjárskýrslu ranglega fram talin má [ríkisskattstjóri] 1) bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna.
Fella skal niður álag samkvæmt þessari grein ef erfingi færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á erfðafjárskýrslu.
    1)L. 136/2009, 102. gr.
14. gr.
Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og hafa sýslumenn og eftir atvikum [ríkisskattstjóri] 1) á hendi innheimtu þeirra [og er ríkisskattstjóra heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt]. 2) Skattur skal greiddur til innheimtumanns í því umdæmi sem skatturinn er lagður á.
Áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga erfðafjárskatts eða leysir neinn undan viðurlögum sem lögð eru á við vangreiðslu hans.
Erfðafjárskattur hvers erfingja skal reiknaður út miðað við verðmæti arfs á dánardegi arfleifanda en miðað við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu ef um fyrirframgreiddan arf er að ræða eða óskipt bú sem skipt er fyrir andlát eftirlifandi maka.
Gjalddagi erfðafjárskatts er tíu dögum eftir að sýslumaður tilkynnir erfingjum um áritun erfðafjárskýrslu, sbr. 3. og 5. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr.
Sé erfðafjárskattur hækkaður skv. 10. gr. fellur viðbótarfjárhæðin í gjalddaga tíu dögum eftir að gjaldanda var tilkynnt um hækkunina.
Hafi erfðafjárskattur ekki verið greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá gjalddaga.
Dráttarvextir samkvæmt lögum þessum skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um endurgreiðslu oftekins erfðafjárskatts samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt [lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda]. 3)
3)
    1)L. 142/2018, 26. gr. 2)L. 132/2018, 2. gr. 3)L. 150/2019, 22. gr.
15. gr.
Ekki er heimilt að gefa erfingjum út yfirlýsingu um eignarheimild þeirra að tiltekinni eign dánarbús fyrr en erfðafjárskattur af viðkomandi eign hefur verið greiddur.
Réttaráhrif fyrirframgreiðslu upp í arf miðast við það tímamark þegar erfðafjárskattur er greiddur eða, ef ekki þarf að greiða erfðafjárskatt vegna afhendingar viðkomandi eignar, þegar sýslumaður hefur áritað erfðafjárskýrslu varðandi fyrirframgreiðsluna.
Erfingjar eru ábyrgir fyrir greiðslu erfðafjárskatts einn fyrir alla og allir fyrir einn, með þeirri takmörkun þó að ekki verður innheimt hjá neinum meira en sem svarar heildararfi hans samkvæmt skiptagerð viðkomandi dánarbús.
16. gr.
Skýri erfingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um erfðafjárskatt skal hann greiða fésekt allt að fimmfaldri þeirri fjárhæð í viðbótarerfðafjárskatt sem skatturinn að réttu lagi hefði orðið hærri en hann varð. Skattur af álagi skv. 13. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
Skýri erfingi rangt eða villandi frá einhverjum þeim atriðum er varða framtal hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslu.
Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur sýslumanni eða skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi erfðafjárskýrslu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til sýslumanns eða skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. þessarar greinar.
Hafi erfingi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni skv. 12. gr. skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
Um málsmeðferð samkvæmt þessari grein gilda meginreglur 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt … 1)
    1)L. 129/2004, 148. gr.
17. gr.
Nú er eigi fyrir hendi samningur við annað ríki um að komast hjá tvísköttun á fjárverðmæti sem lög þessi taka til og greiddur hefur verið erfðafjárskattur af þeim verðmætum til opinberra aðila í öðru ríki, þá er [ríkisskattstjóra] 1) heimilt samkvæmt umsókn erfingja að lækka erfðafjárskatt hans hér á landi með hliðsjón af þessum erfðafjárskattsgreiðslum hans. Lækkun skal aldrei nema hærri fjárhæð en þeirri sem erfingja væri gert skylt að greiða hér á landi af fjárverðmætum.
    1)L. 136/2009, 102. gr.
18. gr.
Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á erfðafjárskatti erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi löggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu eignum bæði á Íslandi og erlendis.
Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga um gagnkvæm upplýsingaskipti og um innheimtu erfðafjárskatts við önnur ríki.
19. gr.
Ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt …, 1) og reglugerðir settar samkvæmt þeim skulu gilda eftir því sem við á við beitingu laga þessara, þar á meðal ef vafi leikur á hvernig meta skuli verðmæti eigna.
    1)L. 129/2004, 148. gr.
20. gr.
[Ráðherra] 1) getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 126/2011, 379. gr.
21. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2004 og taka til skipta á dánarbúum þeirra sem andast þann dag eða síðar. Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna.
[Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði laga nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004, sbr. þó ákvæði 3. málsl. 21. gr. laga þessara.] 1)
    1)L. 15/2004, 1. gr.