Ferill 691. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1033  —  691. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (miðlun og form gagna, fjarþinghöld, birting ákæra o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

1. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Tilkynning eða gagn sem á grundvelli laga þessara er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli er heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Dómari getur ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu málsins.
    Þegar lög þessi eða venja áskilja áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun telst slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu.
    Gagn sem miðlað er á stafrænu eða rafrænu formi telst komið til viðtakanda þegar það er aðgengilegt þannig að unnt sé að kynna sér efni þess. Gagn þarf ekki jafnframt að afhenda á pappírsformi.
    Gögn sem birt eru eftir fyrirmælum 156. gr. eða 156. gr. a skulu, þrátt fyrir þessa grein, birt á því formi og á þann hátt sem þar er lýst.

2. gr.

    Í stað orðanna „afrit af málskjölum“ í 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna kemur: eintak málskjala.

3. gr.

    Við 9. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Dómari getur heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað enda verði því háttað þannig að allir sem viðstaddir eru geti fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.
    Ákærða eða sakborningi verður þó ekki gert, gegn vilja sínum, að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað nema ríkar ástæður séu fyrir hendi. Sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara getur krafist úrskurðar þar um.
    Dómstólasýslan setur leiðbeinandi reglur um fjarþinghöld, þar á meðal um skýrslugjöf fyrir dómi.

4. gr.

    Í stað orðanna „undirrita heit í þingbók“ í 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: staðfesta heit.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Við“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Hæstarétt.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Það sem skráð er í þingbók skal varðveita þannig að það sé öruggt og aðgengilegt.
     c.      Í stað orðsins „undirritar“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: staðfestir.
     d.      Í stað orðsins „undirrita“ í 6. málsl. 2. mgr. kemur: staðfesta.

6. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Við Hæstarétt, Landsrétt og hvern héraðsdómstól skal haldin dómabók sem hefur að geyma dóma, svo og úrskurði eftir því sem við á, sem fela í sér niðurstöðu máls, staðfesta af dómara.


7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þau skulu staðfest af dómstól um framlagningu. Sá sem leggur fram skjal skal afhenda það dómara og aðilum máls eintak þess, svo og brotaþola ef mætt er af hans hálfu í málinu.
     b.      Í stað orðanna „varðveita í skjalasafni hlutaðeigandi dómstóls“ í 2. mgr. kemur: hlutaðeigandi dómstóll varðveita.
     c.      Í stað orðsins „afrit“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: annað eintak.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „afrit af málskjölum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eintak málskjala;
     b.      Í stað orðanna „afrit af ákæru og greinargerð“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eintak ákæru og greinargerðar.
     c.      Í stað orðanna „afrit af þeim hlutum“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: þá hluta.
     d.      Í stað orðanna „endurrit úr þingbók eða dómabók“ í 2. mgr. kemur: eintak þingbókar eða dómabókar.
     e.      Í stað orðsins „endurrit“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: eintök.
     f.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Áður en þau eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna, þar á meðal ef það hefði í för með sér hættu á sakarspjöllum að þau kæmust til vitundar almennings.
     g.      Orðið „afrit“ í 1. málsl. 4. mgr. fellur brott.
     h.      Í stað orðanna „eftirgerð af hljóð- eða myndupptökum“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: hljóð- eða myndupptökur.
     i.      Í stað orðanna „afrita af hljóðupptökum“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: hljóðupptaka.
     j.      Í stað orðanna „afrit eða eftirgerð“ í 6. mgr. kemur: eintak.
     k.      Orðið „afrits“ í 1. málsl. 7. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Við“ í 1. mgr. kemur: Hæstarétt.
     b.      Í stað orðanna „Dómstólsýslan setur nánari reglur um eftirfarandi atriði fyrir“ í 2. mgr. kemur: Að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig setur dómstólasýslan nánari reglur um eftirfarandi atriði fyrir Hæstarétt.
     c.      Orðin „þar á meðal rafræna færslu þeirra“ í a-lið 2. mgr. falla brott.
     d.      Í stað orðanna „endurritum af dómum og úr þingbók“ í f-lið 2. mgr. kemur: dómum og þingbókum.
     e.      Á undan orðunum „form og frágang“ í g-lið 2. mgr. kemur: rafræna staðfestingu, sem og afhendingarmáta.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 37. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „afrit“ í 1. málsl. kemur: eintak.
     b.      Í stað orðanna „afrit af einstökum skjölum“ í 3. málsl. kemur: eintak tiltekinna skjala.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 47. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „afrit“ kemur: eintak.
     b.      Í stað orðanna „afrit af skjölum“ 2. málsl. kemur: eintak skjala.
     c.      Í stað orðanna „afrit af einstökum skjölum“ í 3. málsl. kemur: eintak tiltekinna skjala.

12. gr.

    Í stað orðsins „skjalfest“ í 2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna kemur: skráð.

13. gr.

    Við 1. mgr. 62. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögregla getur ákveðið að skýrslugjöf fari fram í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, enda leiki ekki vafi á auðkenni skýrslugjafa og tryggt þykir að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hver tekur skýrsluna, hver gefur hana“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: lögreglunúmer þess sem tekur skýrsluna, hver gefur hana, lögreglunúmer og auðkennisnúmer starfsmanna lögreglu sem viðstaddir eru.
     b.      Á eftir orðunum „nöfn sín“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: lögreglunúmer eða auðkennisnúmer starfsmanns lögreglu.

15. gr.

    Í stað orðanna „afrit af skjali eða annars konar upplýsingum“ í 2. mgr. 68. gr. laganna kemur: annað eintak skjals eða annars konar upplýsingar.

16. gr.

    Í stað orðanna „afrit af skránni“ í 2. málsl. 71. gr. laganna kemur: eintak skrárinnar.

17. gr.

    Í stað orðsins „undirrita“ í 2. málsl. 2. mgr. 84. gr. laganna kemur: staðfesta.

18. gr.

    Í stað orðsins „afrit“ í 3. málsl. 1. mgr. 85. gr. laganna kemur: önnur eintök.

19. gr.

    Í stað orðanna „afrit af“ í 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laganna kemur: eintak.

20. gr.

    Við 1. mgr. 113. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Dómari getur ákveðið að skýrslugjöf ákærða fari fram í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni ákærða og tryggt þykir að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Ákærða verður þó ekki gert, gegn vilja sínum, að gefa skýrslu á þann hátt nema ríkar ástæður séu fyrir hendi.

21. gr.

    4. mgr. 116. gr. laganna orðast svo:
    Nú er vitni statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm og getur þá dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Ef sérstaklega stendur á getur dómari þó ákveðið að skýrslutaka fari einungis fram með hljóði enda megi ekki ætla að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnis og skýrslutöku verði hagað þannig að viðstaddir heyri orðaskipti við vitnið.

22. gr.

    Við 2. mgr. 120. gr. laganna bætist: eða 156. gr. a.

23. gr.

    Við 2. málsl. 1. mgr. 122. gr. laganna bætist: og starfsmann lögreglu aðeins gera grein fyrir auðkennisnúmeri sínu.

24. gr.

    Orðin „endurrit af“ í 1. mgr. 129. gr. laganna falla brott.

25. gr.

    Í stað orðanna „frumritum eða afritum nauðsynlegra gagna og endurritum úr þingbók“ í 1. mgr. 139. gr. laganna kemur: nauðsynlegum gögnum og þingbók.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 148. gr. laganna:
     a.      5. málsl. orðast svo: Sakborningur staðfestir skýrsluna og fær afhent eintak hennar.
     b.      8., 9. og 10. málsl. falla brott.

27. gr.

    Í stað orðsins „bréflega“ í 2. málsl. 1. mgr. 149. gr. laganna kemur: skriflega.

28. gr.

    Á eftir tilvísuninni „156. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. 150. gr. laganna kemur: eða 156. gr. a.

29. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 154. gr. laganna kemur einn nýr málsliður, svohljóðandi: Ákæru á að fylgja skrá yfir gögnin og tilkynning um það hver fari með málið fyrir ákæruvaldið, hvaða vitni það óskar eftir að verði leidd í málinu og hvaða sönnunargagna það telji nauðsynlegt að afla að öðru leyti.

30. gr.

    Við 3. mgr. 155. gr. laganna bætist: eða 156. gr. a.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 156. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „afrit af henni“ í 3. málsl. 2. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. kemur: eintak hennar.
     b.      Í stað orðsins „afriti“ tvívegis í 4. málsl. 2. mgr. kemur: eintaki.
     c.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Að birtingu lokinni afhendir ákærandi dómara ákæru ásamt birtingavottorði eða annarri staðfestingu á birtingu.

32. gr.

    Á eftir 156. gr. laganna kemur ný grein, 156. gr. a, svohljóðandi:
    Heimilt er að birta ákæru fyrir ákærða í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og telst hún þá réttilega birt þegar ákærði hefur staðfest móttöku hennar.
    Við birtingu ákæru í stafrænu pósthólfi skal þess gætt að gefa ákærða kost á að óska eftir verjanda, sbr. 4. mgr. 156. gr.
    Um birtingu ákæra í stafrænu pósthólfi fer að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Ríkissaksóknari setur nánari fyrirmæli um birtingu gagna eftir þessari grein í stafrænu pósthólfi.

33. gr.

    Í stað orðanna „afrit af gögnum“ í 2. málsl. 157. gr. laganna kemur: eintak gagna.

34. gr.

    Í stað orðanna „afrit af greinargerð“ í 1. málsl. 1. mgr. 174. gr. laganna kemur: eintak greinargerðar.

35. gr.

    Í stað orðanna „afrit af skjölum“ í 1. málsl. 3. mgr. 179. gr. laganna kemur: eintök skjala.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 185. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Endurrit af dómi eða úrskurði“ í 2. mgr. kemur: Eintak dóms eða úrskurðar.
     b.      Í stað orðsins „endurrit“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: eintak.
     c.      Við 4. málsl. 3. mgr. bætist: eða 156. gr. a.

37. gr.

    Í stað orðsins „endurrit“ tvívegis í 2. málsl. 3. mgr. 186. gr. laganna kemur: eintak.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 192. gr. laganna:
     a.      Á undan orðunum „hvort loka eigi“ í b-lið kemur: hvort ákærði eða sakborningur taki þátt í þinghaldi gegnum fjarfundabúnað.
     b.      Í stað orðanna „afrit af gögnum“ í c-lið kemur: gögn.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 194. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „endurritum úr þingbók“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: þingbók.
     b.      Í stað orðanna „á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: Landsrétti.
     c.      Í stað orðanna „afrit af greinargerðinni“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eintak greinargerðarinnar.

40. gr.

    Í stað orðsins „bréflegri“ í 1. málsl. 2. mgr. 199. gr. laganna kemur: skriflegri.

41. gr.

    Í stað orðanna „endurriti af héraðsdómi “ í 1. málsl. 5. mgr. 201. gr. laganna kemur: eintaki héraðsdóms.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 202. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „endurrit, sem og hljóðupptökur af munnlegum framburði fyrir héraðsdómi og afrit þeirra málskjala“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: dómur, úrskurðir og þingbók sem og hljóðupptökur og uppritun af munnlegum framburði fyrir héraðsdómi og þau málskjöl.
     b.      Orðin „í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á.“ í 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „Landsréttur setur“ í 3. mgr. kemur: Landsrétti er heimilt að setja.

43. gr.

    Í stað orðanna „afrit af henni“ í 4. málsl. 1. mgr. 203. gr. laganna kemur: eintak hennar.

44. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 213. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „endurritum úr þingbók“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: þingbók.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Gögnin sendir Landsréttur til Hæstaréttar, ásamt athugasemdum ef Landsréttur svo kýs.
     c.      Í stað orðanna „afrit af greinargerðinni“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: eintak greinargerðarinnar.

45. gr.

    Í stað orðanna „endurrit dóms“ í 1. málsl. 3. mgr. 214. gr. laganna kemur: eintak dómsins.

46. gr.

    Í stað orðanna „endurrit af dómi“ í 3. málsl. 3. mgr. 217. gr. laganna kemur: eintak dóms.

47. gr.

    Í stað orðanna „endurriti af dómi“ í 1. málsl. 5. mgr. 218. gr. laganna kemur: eintaki dóms.

48. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 219. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „afrit þeirra málskjala og endurrita“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þau málskjöl, dómur, úrskurðir, þingbók og uppritanir.
     b.      Orðin „í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „Hæstiréttur setur“ í 3. mgr. kemur: Hæstarétti er heimilt að setja.

49. gr.

    Í stað orðanna „afrit af henni“ í 4. málsl. 1. mgr. 220. gr. laganna kemur: eintak hennar.

II. KAFLI

Breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

50. gr.

    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein, 1. gr. a, svohljóðandi:
    1. Tilkynning eða gagn sem á grundvelli laga þessara er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli er heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Dómari getur ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu málsins.
    2. Þegar lög þessi eða venja áskilja áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun telst slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu.
    3. Gagn sem miðlað er á stafrænu eða rafrænu formi telst komið til viðtakanda þegar það er aðgengilegt þannig að unnt sé að kynna sér efni þess. Gagn þarf ekki jafnframt að afhenda á pappírsformi.
    4. Gögn sem birta skal eftir fyrirmælum XIII. kafla skulu, þrátt fyrir þessa grein, birt á því formi og á þann hátt sem þar er lýst.

51. gr.

    Í stað orðanna „endurrit af málskjölum“ í 2. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: eintak málskjala.

52. gr.

    Við 8. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    4. Dómari getur heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað enda verði því háttað þannig að allir sem viðstaddir eru geti fylgst með því sem fram fer. Telst það fullnægjandi mæting af hálfu málsaðila.
    5. Dómstólasýslan setur leiðbeinandi reglur um fjarþinghöld, þar á meðal um skýrslugjöf fyrir dómi.

53. gr.

    Í stað orðanna „undirrita heit í þingbók“ í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: staðfesta heit.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Við“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Hæstarétt.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Það sem skráð er í þingbók skal varðveita þannig að það sé öruggt og aðgengilegt.
     c.      Í stað orðsins „undirritar“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: staðfestir.
     d.      Í stað orðsins „undirrita“ í 5. málsl. 2. mgr. kemur: staðfesta.

55. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 1. Við Hæstarétt, Landsrétt og hvern héraðsdómstól skal haldin dómabók sem hefur að geyma dóma, svo og úrskurði eftir því sem við á, sem fela í sér niðurstöðu máls, staðfesta af dómara.
     b.      Á eftir orðunum „skrá við“ í 2. mgr. kemur: Hæstarétt.

56. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þau skulu staðfest af dómstól um framlagningu. Sá sem leggur fram skjal skal afhenda dómara og aðilum máls eintak þess.
     b.      Í stað orðins „myndrit“ tvívegis í 2. málsl. og einu sinni í 3. málsl. 2. mgr. kemur: annað eintak.

57. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eftirrit af málskjölum“ í 1. mgr. kemur: eintak málskjala.
     b.      Í stað orðanna „endurrit“ og „eftirrit“ í 2. mgr. kemur: eintök.
     c.      Orðið afrit í 1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „afrita af hljóðupptökum“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: hljóðupptaka.
     e.      Í stað orðsins „eftirrit“ í 5. mgr. kemur: afhendingu.
     f.      Orðið „eftirrits“ í 1. málsl. 6. mgr. fellur brott.

58. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Dómstólsýslan setur nánari reglur um eftirfarandi atriði fyrir“ kemur: Að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig setur dómstólasýslan nánari reglur um eftirfarandi atriði fyrir Hæstarétt.
     b.      Orðin „þar á meðal rafræna færslu þeirra“ í b-lið falla brott.
     c.      Orðin „endurritum af“ í f-lið falla brott.
     d.      Á undan orðunum „form og frágang“ í g-lið 2. mgr. kemur: rafræna staðfestingu, sem og afhendingarmáta.

59. gr.

    4. mgr. 51. gr. laganna orðast svo:
    4. Ef vitni er statt fjarri þingstað, það hefði sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm eða það er til þess fallið að greiða fyrir meðferð málsins að öðru leyti, getur dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af því á dómþingi gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, eftir atvikum í hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafa á auðkenni vitnis og tryggt þykir að það geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Skýrslutöku í gegnum fjarfundabúnað skal hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið.

60. gr.

    Orðin „endurrit af“ í 1. mgr. 62. gr. laganna falla brott.

61. gr.

    Í stað orðanna „eftirrit af skjalinu“ í 2. málsl. 4. mgr. 67. gr. laganna kemur: eintak skjalsins.


62. gr.

    Í stað orðanna „frumritum eða afritum nauðsynlegra gagna og endurritum úr“ í 1. mgr. 74. 
gr. laganna kemur: nauðsynlegum gögnum og.

63. gr.

    2. mgr. 80. gr. laganna fellur á brott.


64. gr.

    Í stað orðsins „undirrita“ í 3. mgr. 81. gr. laganna kemur: staðfesta.

65. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „vottar“ í a-lið 1. mgr. kemur: staðfestir.
     b.      Í stað orðanna „samrit hennar er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður vottar“ í b-lið 1. mgr. kemur: eintak hennar er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður staðfestir.
     c.      Í stað orðsins „samrit“ í a-lið 3. mgr. kemur: eintak.

66. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 84. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „samriti“ í 1. og 2. málsl. kemur: eintaki.
     b.      Í stað orðsins „samrit“ tvívegis í 3. málsl. kemur: eintakið.

67. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 86. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „samrit“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eintak.
     b.      Í stað orðsins „samriti“ tvívegis í 3. mgr. kemur: eintaki.

68. gr.

    Í stað orðsins „samrits“ og „samrit“ í 93. gr. laganna kemur: eintaks; og: eintak.


69. gr.

    Í stað orðsins „undirrituð“ í 2. málsl. 109. gr. laganna kemur: staðfest.

70. gr.

    Í stað orðanna „Endurrit af dómi eða úrskurði“ í 3. málsl. 3. mgr. 115. gr. laganna kemur: Eintak dóms eða úrskurðar.

71. gr.

    Í stað orðanna „endurrit af dómi þá í té nýtt endurrit“ í 2. málsl. 3. mgr. 116. gr. laganna kemur: eintak dóms þá í té nýtt eintak.

72. gr.

    Í stað orðanna „endurrit af skjalinu“ í 1. málsl. 1. mgr. 121. gr. laganna kemur: eintak skjalsins.

73. gr.

    Á eftir orðunum „af endurritum“ í f-lið 1. mgr. 129. gr. laganna kemur: og eintakagerð.


74. gr.

    Í stað orðsins „eftirriti“ í 3. málsl. 2. mgr. 145. gr. laganna kemur: eintaki.

75. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 147. gr. laganna:
     a.      Orðin „og í þeim fjölda sem Landsréttur ákveður“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     b.      Orðið „eitt“ í 3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „og skulu þau vera í því horfi sem Landsréttur mælir fyrir um“ í 4. málsl. 3. mgr. falla brott.
     d.      6. mgr. orðast svo: Landsrétti er heimilt að setja reglur um frágang málsgagna aðila í kærumálum.

76. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 148. gr. laganna:
     a.      Orðið „eitt“ í 4. málsl. fellur brott
     b.      5. málsl. fellur brott.

77. gr.

    Í stað orðsins „endurrit“ í 1. málsl. 3. mgr. 150. gr. laganna kemur: eintak.

78. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 154. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „endurriti“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eintaki.
     b.      Í stað orðsins „bréflega“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: skriflega.

79. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 155. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „endurriti af dóminum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eintaki dómsins.
     b.      2. mgr. orðast svo: Landsréttur skal halda eftir eintaki áfrýjunarstefnu skv. 1. mgr.

80. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 156. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður en til þeirra teljast endurrit“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: en til þeirra teljast dómur, úrskurðir og þingbók, uppritun.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Landsrétti er heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna aðila og dómsgerða.


81. gr.

    Í stað orðsins „bréfleg“ í 1. málsl. 1. mgr. 158. gr. laganna kemur: skrifleg.

82. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 159. gr. laganna:
     a.      Orðin „í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. fellur brott.

83. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 160. gr. laganna:
     a.      Orðin „í frumriti eða ljósrit eða eftirrit þeirra“ í 4. málsl. 1. mgr. 160. gr. laganna falla brott.
     b.      Í stað orðsins „eftirrit“ í 5. málsl. kemur: eintak.

84. gr.

    Í stað orðsins „endurriti“ í 3. málsl. 2. mgr. 169. gr. laganna kemur: eintaki.

85. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 171. gr. laganna:
     a.      Orðin „og í þeim fjölda sem Hæstiréttur ákveður“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Orðið „eitt“ í 4. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      Orðin „og skulu þau vera í því horfi sem Hæstiréttur mælir fyrir um“ í 5. málsl. 2. mgr. falla brott.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                 Hæstarétti er heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna aðila í kærumálum.

86. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 172. gr. laganna:
     a.      Orðið „eitt“ í 3. málsl. fellur brott.
     b.      5. málsl. fellur brott.

87. gr.

    Í stað orðanna „endurrit dóms“ í 1. málsl. 4. mgr. 174. gr. laganna kemur: eintak dómsins.

88. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 178. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „endurriti“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eintaki.
     b.      Í stað orðsins „bréflega“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: skriflega.

89. gr.

    2. mgr. 179 gr. laganna orðast svo:
    Hæstiréttur skal halda eftir eintaki áfrýjunarstefnu skv. 1. mgr.

90. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 180. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einnig skal hann þá skila málsgögnum en til þeirra teljast dómur, úrskurðir, þingbók og uppritanir sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Hæstarétti er heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna aðila og dómsgerða.

91. gr.

    Í stað orðsins „bréfleg“ í 1. málsl. 1. mgr. 182. gr. laganna kemur: skrifleg.

92. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 183. gr. laganna:
     a.      Orðin „í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. fellur brott.

93. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 84. gr. laganna:
     a.      Orðin „í frumriti og ljósrit eða eftirrit þeirra“ í 4. málsl. falla brott;
     b.      Í stað orðsins „eftirrit“ í 7. málsl. kemur: eintak.

III. KAFLI

Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

94. gr.

    Á eftir orðunum „vera skrifleg“ í 1. málsl. 2. mgr. 117. gr. laganna kemur: hvort heldur sem er stafræn, rafræn eða bréfleg.

95. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2024.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem flestar miða að því að gera samskipti þeirra sem vinna á grunni löggjafarinnar tæknilega hlutlaus og skapa forsendur til að nýta tæknilausnir í ríkari mæli í réttarvörslukerfinu. Lagðar eru til breytingar sem miða að því að gera réttarfarslöggjöfina hlutlausa um afhendingarmáta gagna og tilkynninga og heimila m.a. í auknum mæli notkun rafrænna lausna í stað undirritana með eigin hendi, festa í sessi í almennum ákvæðum heimildir til að nota fjarfundabúnað við rekstur einka- og sakamála fyrir dómi og við skýrslugjöf hjá lögreglu, auk þess að heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala við rannsókn og meðferð sakamála sem nú krefjast tiltekins birtingarmáta.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á undanförnum misserum hefur dómsmálaráðuneytið unnið að því með stofnunum á málefnasviði þess að gera réttarvörslukerfið stafrænt og er réttarvörslugátt samheiti yfir verkefni sem unnið hefur verið að í því skyni. Á meðal þeirra atriða sem lögð er áhersla á er að gögn verði aðgengileg rafrænt, þvert á stofnanir og að aðgangurinn verði öruggur fyrir ytri aðila, til að mynda lögmenn og málsaðila. Þá hefur í sama augnamiði verið unnið að því í ráðuneytinu að koma birtingum gagna í sakamálum, þar á meðal birtingu ákæru, í stafrænt form og því að gera bráðabirgðaheimildir til notkunar á fjarfundabúnaði varanlegar í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.
    Víða í réttarfarslöggjöf er gert ráð fyrir því að gögn séu send eða afhent á pappírsformi eða í tilteknum fjölda eintaka, að þau séu undirrituð eða árituð með eigin hendi o.s.frv. Þá er í lögum um meðferð sakamála að meginreglu áskilið að ákæra sé birt af lögreglumanni, fangaverði eða öðrum starfsmanni ellegar af stefnuvotti nema hún sé birt á dómþingi af dómara. Í lögunum er gert ráð fyrir að ákæra sé birt á pappírsformi og hún í kjölfarið afhent dómara á pappírsformi ásamt birtingarvottorði. Um kvaðningu vitna og birtingu dóma fer eftir sömu reglum ef ekki tekst að birta á annan hátt. Þá gera lög um gjaldþrotaskipti ráð fyrir því að kröfulýsingar á hendur þrotabúi séu afhentar skiptastjóra skriflega. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur sá áskilnaður verið túlkaður sem svo að átt sé við pappírsform.
    Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að réttarvörslukerfið verði einfaldara, notendavænna og að málsmeðferð verði greiðari, án þess að gæðum og réttaröryggi verði fórnað. Ætlunin er að þær bæti aðgengi að dómstólunum og einfaldi samskipti, m.a. við lögreglu, auki skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi þeirra sem vinna eftir réttarfarslöggjöf og hafi jákvæð umhverfisáhrif með því að skapa forsendur fyrir að draga úr ferðalögum og notkun pappírs. Með breytingunum er ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi réttarfarslöggjöf fyrir því að framangreind markmið náist.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Hér á eftir verður vikið að helstu atriðunum sem frumvarpið felur í sér en nánari grein er gerð fyrir breytingatillögum í skýringum við einstakar greinar þess.

3.1. Brottfall áskilnaðar um pappírsform, eintakafjölda gagna, undirritun með eigin hendi og önnur atriði af svipuðum meiði.
    Málsmeðferðarreglur þeirrar löggjafar sem er til umfjöllunar í frumvarpi þessu og venjur við framkvæmd þeirra miðast í mörgum tilvikum við að gögn séu afhent á pappírsformi. Sömuleiðis að samskipti af ýmsum toga séu bréfleg og að skjöl séu undirrituð með eigin hendi. Frumvarp þetta miðar að því að gera málsmeðferð hlutlausa um það og þá tækni sem beitt er hverju sinni. Við það skapast forsendur til að nýta stafræna og rafræna tækni í auknum mæli í réttarvörslukerfinu. Til samræmis við framangreint er sömuleiðis horfið frá því að eintakafjöldi gagna og undirritun með eigin hendi séu áskilin lögum samkvæmt, auk þess sem lagðar eru til nokkrar orðalagsbreytingar sem betur þykja lýsa tæknilega hlutlausri málsmeðferð.
    Lagt er til að fest verði ákvæði í lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála sem taki af öll tvímæli um að stafræn og rafræn málsmeðferð í réttarvörslukerfinu sé að þessu leyti jafngild því að hún fari fram á pappír. Sem dæmi um stafræna málsmeðferð má sjá fyrir sér gagnaskil um vefviðmót, en sú aðferð hefur verið viðhöfð undanfarin ár fyrir tilstilli hugbúnaðarins réttarvörslugáttar í rannsóknarmálum lögreglu fyrir héraðsdómstólum. Væru gögn og/eða tilkynningar á hinn bóginn send með öruggum sendingarmáta með tölvupósti myndi sú aðferð teljast rafræn. Verði frumvarpið að lögum verður mælt fyrir um að tilkynning eða gagn sem á grundvelli löggjafarinnar er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli sé heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Sömuleiðis skuli áskilnaði um áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun teljast fullnægt með rafrænni staðfestingu, en dómstólasýslan geti sett nánari reglur um hvort tveggja þegar kemur að meðferð mála fyrir dómi.
    Samhliða lögfestingu ákvæðis um tæknilegt jafngildi í lög um meðferð sakamála og lög um meðferð einkamála er lögð til nokkur breyting á orðalagi þessara lagabálka, en í dag miðast orðalag þeirra að miklu leyti við notkun pappírs. Í þeim efnum er að ýmsu að hyggja. Þannig má til að mynda ekki búast við því að pappírsnotkun í réttarvörslukerfinu leggist af heldur verði nokkuð um hana áfram. Því þarf að horfa til þess að orðnotkun verði í reynd hlutlaus að þessu leyti og taki mið af hvort tveggja, stafrænum og rafrænum lausnum, en samtímis notkun pappírs. Þá verður að taka mið af því að þótt þeir sem aðkomu eiga að málum í réttarvörslukerfinu geti fyrir tilstilli stafrænna lausna haft aðgang að sama málsgagninu, eða eftir atvikum, ákvörðunum lögreglu, sektargerðum, dómum, úrskurðum eða þingbókum, þá verði í sama vetfangi að gæta að því að gögn verða ekki einvörðungu til á stafrænu formi, heldur einnig á pappír eða þau varðveitt rafrænt. Einnig þykir nauðsynlegt að gera ráð fyrir að frumrit sem slík geti haft sjálfstæða þýðingu, eftir atvikum stafræn frumrit. Þá verður að gera greinarmun á annars vegar aðstöðu til að kynna sér gagn, svo sem á lögreglustöð eða hjá ákæranda, það er án þess að það sé afhent eða því miðlað til viðtakanda, og hins vegar aðstöðu til að kynna sér gagn gegnum vefviðmót eða á annan stafrænan máta. Einnig er mikilvægt að taka mið af því að samkvæmt þeirri löggjöf sem um ræðir, er gagn sem afhent er oftast nær áfram í vörslum þess sem afhendir eintak þess.
    Til að ná utan um atriði af þessu tagi í framkvæmd og með hliðsjón af þeim réttaráhrifum sem við þau eru bundin, er í frumvarpinu lagt til að hugtakið eintak verði notað yfir það þegar málsgögnum, dómi, úrskurði eða þingbók, eða eftir atvikum annars konar gögnum á grundvelli laga um meðferð einkamála eða laga um meðferð sakamála er miðlað, þar á meðal með afhendingu, til viðtakanda. Það kann að vera gert á pappír eða á stafrænu eða rafrænu formi. Að gildandi rétti er hugtakið eintak til að mynda notað um það þegar tilnefndum eða skipuðum verjanda eða réttargæslumanni er skv. 37. og 47. gr. laga um meðferð sakamála heimilað að láta skjólstæðingum sínum í té eintak gagna máls eða kynna honum þau á annan hátt. Einnig um eintak stefnu sem afhenda skal dómara við þingfestingu einkamála í héraði og um málsgögn í slíkum málum við kæru og áfrýjun til Hæstaréttar og Landsréttar, svo frekari dæmi séu tekin. Meðal annars í því ljósi þykir hugtakið heppilegt um fjölbreytt form og afhendingarmáta og mega koma í stað ýmissa orða sem oft eiga við um bréflega meðferð. Að mestu verði horfið frá notkun orða á borð við afrit, eftirrit, myndrit, símrit og svo framvegis, nema talið sé varlegra að halda í eldra orðalag vegna sjálfstæðrar merkingar hverju sinni. Þannig þykir hugtakið eintak í flestum tilvikum vera samheiti orða sem í gildandi löggjöf vísa til pappírs án þess að frumrit, eftir atvikum á pappír eða stafrænu formi, sé látið af hendi, en þykir einnig mega nota yfir þá aðstöðu að gagni sé miðlað til viðtakanda um stafrænt viðmót, en samtímis varðveitt hjá þeim sem veitir þann aðgang. Í þeim tilvikum þar sem ekki er talin þörf á að nota hugtakið eru ekki lagðar til breytingar í þá veru.
    Þá eru einnig lagðar til ýmsar aðrar orðalagsbreytingar með sama markmið um tæknilega hlutlausa löggjöf í huga. Má þar m.a. nefna að horfið er frá því að lýsa ítarlega í almennum ákvæðum hvernig málsgögn eru lögð fram fyrir dómi og ekki er talið nauðsynlegt að í löggjöf sé mælt fyrir um atriði á borð við fjölda eintaka, heldur er dómstólasýslunni og dómstólum eftirlátið að kveða nánar á um miðlunar- og afhendingarmáta fyrir dómi í almennum reglum sem dómstólasýslan setur, auk þess sem Hæstarétti og Landsrétti eru heimilaðar nánari reglusetningar fyrir dómstigin tvö um þetta efni.
    Þá er talið nægjanlegt að tilgreina að gögn skuli staðfest af dómstól um framlagningu í dómsmálum í stað þess að mæla fyrir um vottun þeirra og merkingu í áframhaldandi töluröð líkt og nú er mælt fyrir um í téðum lagabálkum við meðferð mála fyrir Landsrétti og við héraðsdómstóla. Er þá jafnframt gætt að því að fara ekki á svig við þann greinarmun, sem að gildandi rétti þykir nauðsynlegt að gera, á annars vegar því að gagn berist dómstól og hins vegar þeim þætti almennrar meðferðar dómsmála að þau gögn sem óskað er framlagningar á verði hluti af málsgögnum. Að því er aðrar orðalagsbreytingar varðar er lagt til að horfið verði frá því að tala um undirritanir nema þegar beinlínis er gert ráð fyrir að nafn viðkomandi sé ritað með eigin hendi. Í meginþorra tilvika er sama tilgangi náð með því að vísa til staðfestingar viðkomandi, sem getur farið fram með rafrænum lausnum eða á annan viðurkenndan máta sem löggjöfin, eða eftir atvikum reglur eða fyrirmæli, heimila.
    Þá er þess að geta að ýmis hugtök sem í tímans rás hafa verið notuð um bréflega meðferð mála í réttarvörslukerfinu þykja geta staðið óhreyfð þrátt fyrir nýja málsmeðferðarmöguleika með fulltingi stafrænna og rafrænna lausna. Svo dæmi séu tekin þykja orðin skrifleg og tilkynning jafn vel eiga við hvort sem hin skriflega meðferð er með tilstilli pappírs, rafrænna eða stafrænna lausna eða hvort heldur sem tilkynning berst um vefviðmót, með tölvupósti eða faxtæki, eða með bréfi á pappírsformi sem afhent er viðkomandi í eigin persónu eða í póstkassa á heimili eða starfstöð. Þannig sé með orðunum skrifleg og tilkynning fyrst og fremst átt við að það sé gert með rituðum texta en ekki munnlega.

3.2. Aukið samræmi dómstiga.
    Með frumvarpinu er lagt til að sams konar lagaákvæði gildi eftirleiðis fyrir öll dómstigin um dóma- og þingbækur í málum sem rekin eru eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála og laga um meðferð sakamála og þau mál sem koma til úrlausnar allra dómstiganna. Þá er ætlunin að reglur sem dómstólasýslunni er falið að setja skv. 2. mgr. 15. gr. fyrrgreindu laganna og 2. mgr. 17. gr. hinna síðarnefndu taki sömuleiðis til allra dómstiga, að því gættu að horfa verði til ólíkra aðstæðna sem uppi eru á hverju dómstigi fyrir sig að höfðu samráði á því stigi.

3.3. Varanleg heimild til að mæta fyrir dóm sem og gefa skýrslu fyrir dómi og hjá lögreglu í gegnum fjarfundabúnað.
    Með lögum nr. 32/2020 sem tóku gildi hinn 9. maí 2020 var sérstökum bráðabirgðaheimildum bætt við lög um meðferð einkamála og lög um meðferð sakamála sem vegna heimsfaraldurs kórónuveiru heimiluðu lögreglu og dómstólum til 1. október 2020 að beita rafrænum lausnum og fjarfundabúnaði í auknum mæli við rannsókn sakamála og við meðferð einka- og sakamála fyrir dómi, þar á meðal að halda þinghald og taka skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. Heimildirnar hafa í þrígang verið framlengdar, fyrst til 31. desember 2021 með lögum nr. 121/2020, síðar til 31. desember 2023 með lögum nr. 136/2021 og loks til 30. júní 2024 með lögum nr. 98/2023. Þessar bráðabirgðaheimildir reyndust vel og stuðluðu að því að lögregla og dómstólar gætu áfram sinnt lögbundnum verkefnum þrátt fyrir samkomubann og fjarlægðartakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins.
    Á meðan faraldurinn stóð yfir fjallaði Landsréttur um heimild til skýrslugjafar í gegnum fjarfundabúnað í að minnsta kosti tveimur úrskurðum í sakamálum, annars vegar frá 1. október 2020 í máli nr. 551/2020 og hins vegar frá 8. desember 2020 í máli nr. 702/2020. Í báðum tilvikum voru staðfestir úrskurðir héraðsdóms um að heimilt væri að taka skýrslu af lykilvitnum sem búsett voru erlendis í gegnum fjarfundabúnað, í öðru tilvikinu brotaþola. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu með vísan til þeirra aðstæðna sem þá voru fyrir hendi vegna kórónuveirufaraldursins að sú tilhögun setti ekki skorður við rétti ákærða til að fá að spyrja eða láta spyrja vitni, sbr. d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, eða græfi að öðru leyti undan rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í úrskurði Landsréttar frá 20. júní 2023 í máli nr. 455/2023 var komist að gagnstæðri niðurstöðu, en í því máli hafði brotaþoli óskað eftir því að gefa skýrslu í gegnum fjarfundabúnað þar sem hún væri búsett erlendis og væri með tvö börn sem hún gæti ekki skilið ein eftir. Í úrskurðinum var tilurð og tilgangur bráðabirgðaheimildanna rakinn með vísan til lögskýringargagna og vísað til þess að með þeim hafi dómara verið veitt víðtækari heimild til að ákveða að skýrsla væri tekin af vitni á dómþingi í gegnum fjarskiptatæki en leiddi af 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála. Í því ákvæði er m.a. að finna bann við því að vitni gefi skýrslu í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki ef ætla má að úrslit máls geti ráðist af framburði þess. Taldi rétturinn að þar sem skýrslutaka í gegnum fjarfundabúnað fæli í sér undantekningu frá meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi og að ætla mætti að úrslit máls gætu ráðist af framburði brotaþola, yrði ekki fallist á að næg efni væru til að heimila að brotaþoli gæfi skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. Því var úrskurður héraðsdóms sem heimilað hafði að skýrsla brotaþola yrði gefin í gegnum fjarfundabúnað felldur úr gildi. Af forsendum úrskurðarins verður ráðið að þar sem samkomu- og ferðatakmarkanir, sem í gildi voru vegna kórónuveirufaraldursins þegar fyrri úrskurðir réttarins voru kvaddir upp, höfðu verið afnumdar væru ekki nægileg efni, á grundvelli faraldursins, til að heimila brotaþola að gefa skýrslu í gegnum fjarfundabúnað og víkja þannig til hliðar fyrrgreindri bannreglu 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála.
    Umræddar bráðabirgðaheimildir til að halda þinghald, svo sem þingfestingu eða aðalmeðferð, í gegnum fjarfundabúnað falla að óbreyttu úr gildi í júnílok 2024. Hvað meðferð sakamála varðar sérstaklega þá hefur það m.a. þá þýðingu að ekki verður unnt að taka skýrslu af vitni fyrir dómi í gegnum fjarfundabúnað í þeim tilvikum þegar ætla má að úrslit máls geti ráðist af framburði þess, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála. Þá er engar heimildir að finna í XVII. kafla laganna (skýrslugjöf ákærða fyrir dómi) til að taka skýrslu af ákærða í gegnum síma eða fjarfundabúnað. Í VIII. kafla laga um meðferð sakamála (skýrslutaka við rannsókn máls) er ekki heldur sérstaklega gert ráð fyrir að lögreglu sé heimilt að taka skýrslu í gegnum fjarfundabúnað, hvorki af sakborningi né vitni. Við meðferð einkamála horfir þetta öðruvísi við enda er þar heimilt undir tilteknum kringumstæðum að taka skýrslu fyrir dómi af málsaðila eða vitni í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála, og þar er ekki að finna bannreglu að því er varðar lykilvitni sambærilega þeirri sem 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála inniheldur.
    Að þessu leyti er markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu að veita dómstólum, og lögreglu við rannsókn máls, meira svigrúm en áður til að ákveða að þinghald, þar með taldar skýrslugjafir, verði háð í gegnum fjarfundabúnað. Við slíkar breytingar er nauðsynlegt að gæta að meginreglum um réttláta málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það gildir bæði um meðferð einkamála og meðferð sakamála en hefur þó sýnu meiri þýðingu varðandi síðarnefndu málin enda grundvallaratriði að réttindi ákærða séu tryggð við rannsókn og meðferð máls fyrir dómi, jafnvel þótt notast sé við fjarfundabúnað.
    Eftir því sem næst verður komist hafa hvorki íslenskir dómstólar né Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað um mál þar sem þinghald var í heild sinni haldið í gegnum fjarfundabúnað. Mannréttindadómstóllinn hefur á hinn bóginn nokkrum sinnum fjallað um mál þar sem þinghald var að hluta háð í gegnum fjarfundabúnað, þar á meðal í tengslum við réttindi ákærða. Grundvallardómur á þessu sviði er dómur í máli Marcello Viola gegn Ítalíu frá 5. október 2006, en þar háttaði svo til að ákærða, sem var í sérstakri gæslu í fangelsi, var gert að fylgjast með og taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað úr fangelsinu. Um það sagði dómstóllinn að jafnvel þótt þátttaka ákærða í gegnum fjarfundabúnað væri ekki sem slík í andstöðu við mannréttindasáttmála Evrópu þyrfti slíkt fyrirkomulag að þjóna lögmætu markmiði og jafnframt þyrfti að tryggja að sönnunarfærsla gæti farið fram í samræmi við 6. gr. sáttmálans. Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu varð sú að það að ákærða hefði verið gert að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað hefði þjónað lögmætum markmiðum, þ.e. til verndar allsherjarreglu, til að firra glæpum, til verndar vitnum og brotaþolum og til að tryggja málsmeðferð innan hæfilegs tíma. Þá hefði ákærða verið unnt að fylgjast með þinghaldi í hljóði og mynd, aðrir viðstaddir í dómssal hafi séð og heyrt í honum og hann hafi getað ávarpað dóminn. Að lokum hafði ákærði tækifæri til að ráðfæra sig við verjanda í einrúmi. Niðurstaða dómstólsins var í ljósi alls þessa sú að ekki hefði verið brotið gegn 6 gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu sambandi má einnig benda á dóm í máli Sakhnovskiy gegn Rússlandi frá 2. nóvember 2010, þar sem nánar er fjallað um réttindi ákærða til að njóta óhindrað aðstoðar lögmanns sem og að þótt ákærði njóti að meginreglu réttar til að vera viðstaddur í eigin persónu þinghöld á fyrsta dómstigi sé sá réttur ekki jafn afdráttarlaus á æðra dómstigi. Einnig dóm í máli Medvedev gegn Rússlandi frá 27. júní 2017, en af honum verður ráðið mikilvægi þess að rökstutt sé með vísan til lögmæts markmiðs að ákærða verði gert að taka þátt í þinghaldi einvörðungu í gegnum fjarfundabúnað. Til þessara sem og fleiri dóma Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið litið við gerð frumvarpsins.
    Við gerð frumvarpsins hefur einnig verið horft til leiðbeininga Evrópuráðsins frá 2021 um notkun fjarfundabúnaðar við meðferð mála fyrir dómi (e. Guidelines on videoconferencing in judicial proceedings). Í leiðbeiningunum eru m.a. tíunduð þau atriði sem aðildarríkjum Evrópuráðsins er nauðsynlegt að huga sérstaklega að við notkun fjarfundabúnaðar fyrir dómi svo ekki sé grafið undan rétti málsaðila til réttlátrar málsmeðferðar, þar á meðal virkum rétti til að bera mál undir dómstóla, rétti til virkrar þátttöku við meðferð máls, jafnræði málsaðila, sönnunarfærslu og lögmannsaðstoð. Um leiðir til að tryggja réttindi málsaðila segir svo samandregið, bæði um einka- og sakamál:
    Ákvörðun um að halda þinghald í gegnum fjarfundabúnað. Tryggja skal dómara lagalegan grundvöll til að ákveða að þinghald fari fram í gegnum fjarfundabúnað og skal dómari byggja ákvörðun sína á hvort það megi teljast sanngjarnt og eðlilegt í því tiltekna máli sem er til meðferðar. Haft skal samráð við málsaðila um hvort þinghald fari fram í gegnum fjarfundabúnað og nánari útfærslu þess og skal málsaðilum gefast kostur á að fara fram á að þinghald verði haldið í eigin persónu. Ákvörðun dómara skal sæta endurskoðun (kæru).
    Réttur til virkrar þátttöku. Málsaðilum skal gefinn kostur á að prófa fjarfundabúnað fyrir eða í upphafi þinghalds og meðan á þinghaldi stendur skal dómstóll fylgjast með því að búnaðurinn virki sem skyldi og að þátttakendur og almenningur sem með fylgist heyri bæði og sjái það sem fram fer. Verði tæknilegir örðugleikar til þess að fresta þarf þinghaldi skal bókað um það. Þá skal sérstaklega gætt að aðstæðum þeirra sem teljast í viðkvæmri stöðu, svo sem barna, fatlaðs fólks og innflytjenda.
    Auðkenning og friðhelgi einkalífs. Staðreyna ber auðkenni þeirra sem taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað án þess þó að það sé gert á of íþyngjandi hátt. Þess skal gæta að það að þinghald sé haldið í gegnum fjarfundabúnað verði ekki til að stofna friðhelgi einkalífs þátttakenda í hættu.
    Opinber málsmeðferð og upptökur. Tryggja ber meginregluna um opinbera málsmeðferð svo sem með því að gera almenningi kleift að fylgjast með beinu streymi frá þinghaldi sem haldið er í gegnum fjarfundabúnað eða gera upptökur aðgengilegar á vef dómstóls að þinghaldi loknu. Þá skal vera óheimilt að taka eða streyma hljóði og/eða mynd úr þinghaldi sem haldið er í gegnum fjarfundabúnað nema með leyfi viðkomandi dómstóls.
    Skýrslugjafir vitna og sérfræðinga. Eftir því sem framast er unnt skulu skýrslugjafir vitna og sérfræðinga í gegnum fjarfundabúnað fara fram á sama hátt og almennt gildir að landslögum þegar viðkomandi er staddur í dómsal. Þá skal leitast við að tryggja að vitni eða sérfræðingur verði ekki fyrir óeðlilegum þrýstingi eða áhrifum við skýrslugjöf í gegnum fjarfundabúnað.
    Sönnunarfærsla. Málsaðilum skal leiðbeint um á hvaða hátt þeir geti kynnt gögn þegar þinghald er haldið í gegnum fjarfundabúnað og þá skal búa svo um hnútana að allir þátttakendur geti séð og/eða heyrt gögn sem þannig er fjallað um. Tryggja skal að málsaðilar geti tekið virkan þátt í sönnunarfærslu.
    Túlkar. Ef túlkaþjónusta er nauðsynleg er æskilegt að túlkur sé á sama stað eða hafi augnsamband við þann sem tekur þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað og túlkað er fyrir.
    Samkvæmt leiðbeiningunum þarf í sakamálum að auki að huga að þremur atriðum. Í fyrsta lagi skal ákvörðun dómara um að ákærði taki þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað gegn vilja sínum byggjast á lögmætu markmiði, svo sem til að vernda allsherjarreglu, til verndar heilsu manna, til að firra glæpum eða til verndar frelsi, öryggi eða rétti vitna og brotaþola til lífs. Einnig má hér líta til þess hvort það að ákærði eða sakborningur taki þátt í gegnum fjarfundabúnað sé nauðsynlegt til að málsmeðferðin fari fram innan hæfilegs tíma. Í öðru lagi þarf að huga að því að ákærði geti tekið virkan þátt í þinghaldi. Þannig sjái hann og heyri aðra þátttakendur og þeir hann og að brugðist verði við tæknilegum örðugleikum sem upp kunna að koma. Þá ber að upplýsa ákærða um að ef hann trufli endurtekið þinghald sé dómara heimilt að setja hann á hljóðlausa stillingu. Í þriðja lagi þarf á öllum stigum að tryggja að ákærði geti á virkan hátt notið aðstoðar verjanda, þar á meðal ráðfært sig við verjanda í einrúmi og í trúnaði meðan á þinghaldi stendur.
    Við undirbúning þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu hefur verið tekið tillit til framangreindra sjónarmiða sem birtast í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og leiðbeiningum Evrópuráðsins. Mikilvægt er að hafa hliðsjón af þeim við beitingu löggjafarinnar. Nánar vísast um þetta til skýringa við 3., 20., 21., 52. og 59. gr. frumvarpsins.

3.4. Birting ákæru og annarra gagna sem birta skal á sama hátt í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    
Með tillögu að nýrri 156. gr. a laga um meðferð sakamála er lagt til að framvegis verði heimilt að birta ákæru ásamt fyrirkalli í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda – Ísland.is. Með fleiri afleiddum breytingum er lagt til að hið sama gildi um önnur gögn þar sem lögin áskilja eftir atvikum sama birtingarhátt og gildir um ákærur, það er kvaðningu vitnis, sbr. 2. mgr. 120. gr., birtingu sektarboðs, sbr. 3. mgr. 150. gr. og birtingu dóms, sbr. 3. mgr. 185. gr. Sama mun þá eiga við um birtingu áfrýjunarstefnu en um það er nánar fjallað í 201. gr. og 218. gr. laganna.
    Veturinn 2022–2023 fjallaði vinnuhópur á vegum dómsmálaráðherra um stafrænar birtingar, þar á meðal um birtingu ákæra, en í hópnum áttu sæti fulltrúar frá ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og dómstólasýslunni, auk dómsmálaráðuneytis. Vinnuhópurinn tók sérstaklega til athugunar þrjár mismunandi leiðir í þessu sambandi:
     a.      Að gagn (ákæra) teljist réttilega birt þegar það hefur verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi.
     b.      Að gagn (ákæra) teljist réttilega birt þegar það hefur verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi og viðkomandi hefur skráð sig inn í pósthólfið eftir það.
     c.      Að gagn (ákæra) teljist réttilega birt þegar það hefur verið gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi og viðkomandi hefur skráð sig inn í pósthólfið og opnað gagnið.
    Það varð niðurstaða vinnuhópsins að hver og ein leið hefði kosti og galla í för með sér með tilliti til réttaröryggissjónarmiða, tæknilegra útfærslna og kostnaðar. Þannig væri til að mynda ljóst að þótt leið a væri á margan hátt hagkvæmasti og einfaldasti birtingarhátturinn þá gengi hún að sama skapi lengst gagnvart réttindum borgarans og kallaði að líkindum á umtalsverða endurskoðun á XXIX. kafla laga um meðferð sakamála sem fjallar um endurupptöku útivistarmáls í héraði. Sú leið fæli jafnframt í sér hættu á auknu álagi hjá dómstólum við meðferð endurupptökubeiðna, sem græfi undan þeim ávinningi sem fælist í birtingu ákæru í stafrænu pósthólfi á fyrri stigum. Hvað leið c varðar þótti ekki einsýnt að ávinningur þeirrar birtingaraðferðar væri verulegur, enda áskildi hún að viðkomandi opnaði það gagn sem honum væri gert aðgengilegt í stafrænu pósthólfi. Í raun væri þá hverjum og einum í lófa lagið að láta hjá líða að opna skjalið og komast þannig hjá birtingu. Það aftur gæti leitt til þess að áfram þyrfti að birta mjög stóran hluta ákæra í eigin persónu eða eftir öðrum aðferðum sem notast er við að gildandi lögum.
    Að höfðu nánara samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti og Stafrænt Ísland og að teknu tilliti til m.a. umsagnar réttarfarsnefndar um drög að frumvarpinu, sem nánari grein er gerð fyrir í kafla 5, er gerð tillaga um leið sem lýsa má sem samblandi af leiðum b og c. Nánar tiltekið að ákæra teljist réttilega birt í stafrænu pósthólfi þegar viðkomandi hefur staðfest móttöku hennar þar. Aftur á móti er ekki gerð krafa um að hann hafi kynnt sér efni ákæru eða að efni hennar hafi komist til vitundar hans. Í framkvæmd er fyrirhugað að þetta fari fram þannig að þegar viðkomandi skráir sig inn í pósthólfið eftir að ákæra hefur verið gerð aðgengileg þar birtist honum gluggi þar sem gerð er grein fyrir því að verði pósturinn opnaður muni birtingaraðila verða send staðfesting á móttöku skjalsins. Jafnframt verði í glugganum að finna nánari upplýsingar um að opni viðkomandi ekki póstinn muni annarra leiða verða leitað til birtingar gagnsins, eftir atvikum með aðkomu lögreglu. Ákveði ákærði að opna póstinn mun birtingaraðila sjálfkrafa berast staðfesting á móttöku án þess að vakta þurfi það sérstaklega. Jafnframt muni þá birtast nánari leiðbeiningar um rétt til aðstoðar verjanda ef það á við. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að stefna Stafræns Íslands hefur verið sú að notkun hins stafræna pósthólfs sé ekki vöktuð, svo sem hvort skjal sé sótt eða það skoðað eða að fylgst sé með innskráningum notenda. Það að viðkomandi notandi hafi í raun frumkvæði að því að staðfesting sé send birtingaraðila samræmist þessari stefnu. Til samanburðar má geta þess að skv. 156. gr. c dönsku réttarfarslaganna telst skjal, þar á meðal ákæra, réttilega birt í stafrænu pósthólfi (d. E-boks) þegar móttakandi hefur unnið með það á einhvern hátt, svo sem ef skjalið er opnað, því eytt, áframsent og svo framvegis. Ekki er aftur á móti gerð tillaga með þessu frumvarpi um að vaktað verði hvort móttakandi vinni með skjalið heldur, sem fyrr greinir, að hann verði upplýstur um að sendanda verði send staðfesting á móttöku kjósi hann að opna skjalið.
    Þessi aðferð þykir sameina kosti þess að gera birtingar stafrænar, svo sem varðandi kostnað og tímasparnað, án þess að vegið sé að réttaröryggi. Þá þykir sú leið ekki kalla á breytingar á ákvæðum laganna um endurupptöku útivistarmála í héraði og ekki eru taldar miklar líkur á að dómsmálum af því tagi fjölgi umtalsvert. Í því sambandi er einnig rétt að geta þess að jafnvel þótt farin væri leið a eins og henni er lýst að framan og heimildir til endurupptöku rýmkaðar samhliða, getur falist í því veruleg fyrirhöfn og óhagræði fyrir borgarana að óska endurupptöku og í eftirfarandi málsmeðferð auk þess sem dómur sem birta skal eftir sömu reglum, og getur til að mynda falið í sér refsingu eða réttindamissi, stendur þar til fallist er á endurupptökubeiðni. Þá er rétt að halda til haga að með frumvarpinu er ekki gerð tillaga um að afnema aðra birtingarhætti, heldur að stafræn birting bætist við sem fullgild og sjálfstæð birtingaraðferð. Það er talið til bóta enda sé birting fyrir ákærða í stafrænu pósthólfi tryggari birtingaraðferð en þær sem að gildandi lögum má notast við þegar ekki er kostur á að birta fyrir ákærða sjálfum, svo sem fyrir lögmanni hans eða öðrum lögráða manni sem fengið hefur skriflegt umboð frá ákærða til að taka við birtingu ellegar fyrir heimilismanni eða öðrum sem dvelur eða hittist fyrir á skráðu lögheimili hans. Sama á við um birtingu í Lögbirtingablaði sem notast má við ef óvíst er um dvalarstað ákærða.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið gætt að réttinum til réttlátar málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sérstaklega hefur verið litið til a-liðar 3. mgr. 6. gr. sáttmálans, en samkvæmt honum skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi fá án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir, sem og b-liðar 3. mgr. 6. gr. sem tryggir ákærða nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína. Megintilgangur birtingar ákæru í þessu samhengi er sá að ákærði fá vitneskju um útgáfu ákæru og innihald hennar og geti tekið til varna sem og upplýsingar um næstu skref, þar á meðal hvenær honum ber að mæta fyrir dómara og afleiðingar þess ef hann gerir það ekki. Svo sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vikið að, m.a. í dómum sínum í málum Pélissier og Sassi gegn Frakklandi frá 25. mars 1999 og Giosakis gegn Grikklandi (nr. 3) frá 3. maí 2011, felur a-liður 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu aftur á móti ekki í sér áskilnað um tiltekinn birtingarhátt ákæru. Í þessu sambandi skiptir því mestu máli að birting ákæru þjóni tilgangi sínum og að nauðsynlegum upplýsingum sé með henni miðlað til ákærða.
    Vel þykir mega nýta stafrænt pósthólf til að birta ákæru fyrir ákærða án þess að réttindum hans samkvæmt framangreindu sé stofnað í hættu og þykir slík birting jafnframt tryggari heldur en birting í Lögbirtingablaði eða fyrir öðrum en ákærða sjálfum. Þó verður að gæta að því að ekki hafa allir þeir sem bornir eru sökum aðgang að stafrænu pósthólfi, svo sem erlendir ferðamenn, auk þess sem aðrir kunna af einhverjum orsökum að eiga óhægt um að nýta sér pósthólfið sem skyldi. Því má telja líklegt að nokkuð verði áfram um birtingar í eigin persónu eða á annan lögmæltan hátt.
    Loks þarf að huga að ýmsum atriðum varðandi framkvæmd birtingar ákæru í stafrænu pósthólfi, til að mynda hvenær ljóst má vera að slík birting hafi ekki tekist og því þurfi að birta í eigin persónu, sem og hvernig staðið verði að því að gefa ákærða kost á að óska eftir verjanda við birtingu. Því er lagt til að ríkissaksóknari setji fyrirmæli um birtingu ákæra, og annarra gagna sem krefjast sambærilegrar birtingar, í stafrænu pósthólfi, hliðstæðum þeim reglum sem embættið hefur nú þegar sett um rafrænar gagnasendingar og birtingar í stafrænu pósthólfi, nr. 5/2023. Að öðru leyti vísast nánar til skýringa við 32. gr. frumvarpsins.

3.5. Nafnleysi lögreglumanna og annars starfsfólks lögreglu.
    
Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á 66. gr. um meðferð sakamála að lögreglumönnum verði eftirleiðis nægjanlegt að undirrita skýrslur samkvæmt ákvæðinu með lögreglunúmeri sínu og annað starfsfólk lögreglu með auðkennisnúmeri þegar sakborningur og vitni gefa skýrslu við rannsókn máls. Sú breyting er gerð til samræmis við breytingu af sama tagi sem gerð var á 1. mgr. 122. gr. laganna á árinu 2019 með lögum nr. 76/2019. Þá er jafnframt lagt til að sömu reglur muni eftirleiðis einnig gilda um annað starfsfólk lögreglu sem vinnur við rannsóknir mála og kann sem slíkt að þurfa að gefa skýrslu við meðferð mála fyrir dómi. Þessar breytingar miða að því að vernda lögreglumenn og annað starfsfólk lögreglu fyrir mögulegu ónæði og jafnvel ógn við öryggi þeirra og fjölskyldna þeirra.

3.6. Brottfall áskilnaðar um pappírsform kröfulýsinga við gjaldþrotaskipti.
    
Í dómaframkvæmd hefur áskilnaður 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um að kröfulýsing skuli verið skrifleg verið skýrð svo að krafa ásamt fylgigögnum verði að berast á pappír innan kröfulýsingarfrests á þann stað sem tiltekinn er í innköllun vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 4. tölul. 1. og 2. mgr. 85. gr. laganna. Er þessi skilningur m.a. lagður til grundvallar í dómi Hæstaréttar frá 6. september 2013 í máli nr. 557/2013 og í dómi réttarins frá 26. nóvember 2010 í máli nr. 619/2010. Ekki þykja efni til að binda kröfuhafa um að lýsa kröfu á hendur þrotabúi á pappír heldur er í frumvarpinu lagt til að sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi sé ekki bundinn við að kröfulýsing sé send bréflega, heldur verði heimilt að koma kröfulýsingu til skiptastjóra stafrænt, rafrænt eða bréflega.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Svo sem rakið er í köflum 3.3 og 3.4 þarf að huga sérstaklega að 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við notkun fjarfundabúnaðar við rannsókn sakamála og við meðferð einka- og sakamála fyrir dómi, sem og við birtingu ákæra í stafrænu pósthólfi. Þessi ákvæði fjalla um réttláta málsmeðferð og fela í sér bæði almennar og sértækar skyldur þar um. Í köflum 3.3 og 3.4 er fjallað nánar um þessar skyldur í samhengi við ákvæði frumvarpsins og með vísan til þess sem þar er rakið þykir ljóst að notkun fjarfundabúnaðar og birting í stafrænu pósthólfi samræmist hvort tveggja ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála, svo lengi sem það leiðir ekki til þess að vegið sé að réttaröryggi og réttindum þeirra sem hlut eiga að máli. Með vísan til þess sem hér hefur rakið þykir ekki ástæða til að ætla annað en að ákvæði frumvarpsins um heimild dómara til ákveða að þinghald fari fram í gegnum fjarfundabúnað, sem og ákvæði sem heimila birtingar í stafrænu pósthólfi, séu í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Önnur ákvæði frumvarpsins, svo sem um stafræna og rafræna miðlun gagna, þykja ekki gefa tilefni til sérstakrar athugunar að þessu leyti.
    Hvað varðar notkun fjarfundabúnaðar skiptir hér einkum máli að virt séu einstaklingsbundin réttindi ákærða, svo sem réttur til virkar þátttöku í máli, til að njóta aðstoðar verjanda o.s.frv., ásamt meginreglum réttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu og að þinghöld séu háð í heyranda hljóði. Jafnframt þarf að gæta að réttindum annarra sem taka þátt í þinghaldi. Það hvort og hvernig þessi réttindi verða tryggð í hverju máli fyrir sig verður ekki lýst tæmandi í lagatexta enda veltur það á atvikum hverju sinni. Á hinn bóginn hefur í kafla 3.3 og í skýringum við viðeigandi lagaákvæði verið leitast við að tilgreina þau atriði sem dómara ber að líta til við undirbúning og framkvæmd þinghalds í gegnum fjarfundabúnað, m.a. í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu og leiðbeininga Evrópuráðsins.
    Hvað varðar birtingu ákæra í stafrænu pósthólfi, og eftir atvikum annarra gagna sem birta skal á sama hátt og ákærur, skiptir höfuðmáli að birting þjóni markmiði sínu sem er að ákærði öðlist vitneskju um útgáfu ákæru og innihald hennar og geti tekið til varna, sem og fengið upplýsingar um næstu skref, þar á meðal hvenær honum ber að mæta fyrir dómara og afleiðingar þess ef hann gerir það ekki, sbr. a- og b-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því markmiði þykir mega ná með þeirri leið sem lögð er til með frumvarpinu, þ.e. að ákæra teljist réttilega birt hafi hún verið gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi þegar viðkomandi hefur staðfest móttöku, án þess að vegið sé að réttinum til réttlátrar málsmeðferðar.

5. Samráð.
    Áform um þær breytingar á réttarfarslöggjöf sem frumvarpið varðar voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-164/2023) á tímabilinu 5. september til 25. september 2023 og barst ein umsögn frá einstaklingi. Í umsögninni var m.a. vakin athygli á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fjallað um mögulegar leiðir við birtingu ákæru í starfrænu pósthólfi. Drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-218/2023) á tímabilinu 1. nóvember til 20. nóvember 2023 og bárust alls sjö umsagnir, frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, Öryrkjabandalagi Íslands og frá einum einstaklingi. Þá barst ráðuneytinu umsögn frá dómstólasýslunni hinn 1. desember 2023. Að auki aflaði ráðuneytið einnig sérstaklega umsagnar réttarfarsnefndar um þann hluta frumvarpsins sem lýtur að birtingu ákæru og annarra gagna í stafrænu pósthólfi stjórnvalda. Jafnframt fundaði ráðuneytið sérstaklega um frumvarpið með dómstólasýslunni, réttarfarsnefnd og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Stafrænu Íslandi.

5.1. Birting ákæru og annarra gagna sem birta skal á sama hátt í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
    Flestar umsagnir sem bárust um frumvarpið lúta að birtingu ákæru og annarra gagna sem birt eru með á sams konar hátt í stafrænu pósthólfi og er því rétt að rifja upp í því sambandi að í frumvarpinu eins og það var kynnt í samráðsgátt var lögð til sú leið að slík gögn teldust rétt birt þegar móttakandi hefði skráð sig inn í pósthólfið eftir að gögnin hefðu verið gerð aðgengileg þar. Þær athugasemdir sem bárust við þennan þátt frumvarpsins voru nokkuð mismunandi.
    Í umsögn einstaklings er þannig einkum varað við því að víkja frá meginreglu laga um rafræna birtingu, nr. 105/2021, af hálfu stjórnvalda með birtingu ákæru vegna samræmis- og jafnræðissjónarmiða þar sem undantekningar geti flækt framkvæmd rafrænna birtinga. Í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna er m.a. talið afar mikilvægt að stafræn birting verði ekki metin fullgild nema viðtakandi hafi í það minnsta staðfest móttöku hennar á sama hátt. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands er m.a. fjallað um kosti stafrænnar meðferðar en að sama skapi vakin athygli vakin á misjöfnum aðgangi landsmanna að stafrænum lausnum. Bandalagið telur málsmeðferð verða að byggjast á forsendum notandans og að gæta verði að því að útiloka ekki hluta notenda með því að líta svo á að gögn sem gerð séu aðgengileg séu þar með birt þar sem afhending sé ekki hið sama og móttaka.
    Í umsögnum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara kemur fram að birtingum væri best fyrir komið með því að birting teljist hafa farið fram þegar viðkomandi gögn hafa verið gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi. Í umsögnunum að þessu leyti er m.a. talið neikvætt að birtingaraðilar fylgist með innskráningum þeirra sem birta á fyrir í stafrænu pósthólfi og bent er á að samkvæmt meginreglu 7. gr. laga um stafrænt pósthólf, nr. 105/2021, teljist það sem komi fram í stafrænu pósthólfi réttilega birt þegar það sé gert aðgengilegt þar. Í umsögnunum er jafnframt lýst áhyggjum af því að það miða birtingu í stafrænu pósthólfi við innskráningu þess sem birta á fyrir, auk þess sem efasemdum var lýst yfir um að sú leið væri tæknilega framkvæmanleg. Svipuð sjónarmið koma fram í umsögn dómstólasýslunnar að þessu leyti, en stofnunin telur enga þeirra þriggja leiða við stafrænar birtingar sem um er fjallað í frumvarpinu vega að réttaröryggi borgarana og telur að sá einfaldleiki sem felst í því að ákæra og gögn sem birta skal á sams konar hátt teljist birt þegar þau hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfinu vegi þungt. Tryggja megi réttaröryggi með einföldum hætti með því að lengja þann frest sem einstaklingar hafa til þess að óska eftir endurupptöku útivistarmáls í héraði skv. 1. mgr. 187. gr. laga nr. 88/2008 og gefa þeim sem ekki hafi aðgang að rafrænum skilríkjum eða geti ekki nýtt sér stafrænar lausnir kost á að standa fyrir utan stafræna kerfið.
    Í umsögn réttarfarsnefndar er fjallað um mögulegar leiðir við að birta ákæru og önnur gögn sem birta skal á sams konar máta í stafrænu pósthólfi. Nefndin telur að við mat á því hvort efni séu til að breyta lögum um meðferð sakamála að þessu leyti verði að horfa til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segi að öllum beri réttur til að fá úrlausn um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól, sbr. og a- til e-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lúti með ólíkum hætti að rétti sakaðs manns til að taka til varna, sbr. lög nr. 62/1994. Í umsögninni greinir m.a. frá því að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sem litið hafi verið til í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands við túlkun á landsrétti, hafi réttur sakaðs mann til að vera viðstaddur réttarhöld yfir sér og taka til varna verið talinn ótvíræður þáttur í rétti manna til réttlátrar málsmeðferðar. Til samræmis við þau réttindi sé það meginregla laga um meðferð sakamála að birta skuli ákæru og fyrirkall fyrir ákærða sjálfum og við frávik frá þeirri meginreglu megi ekki ganga lengra en nauðsyn beri til svo unnt sé að viðhalda eðlilegri hagkvæmni og skilvirkni í réttarvörslukerfinu.
    Nefndin telur þá kosti helsta við frumvarpið að ákæra og þau gögn sem birta skal á sams konar máta, teljist birt þegar ákærði hefur skráð sig inn í stafrænt pósthólf þegar gögnin hafi verið birt þar, vera aukið hagræði og skilvirkni. Meðal ókosta þeirrar leiðar sé fyrst og fremst að bætt sé við nýrri leið til birtingar ákæru og fyrirkalls án þess að tryggt sé að ákærði fái í reynd vitneskju um þessi gögn. Ákærði muni njóta lakari réttarverndar ef sú leið væri farin en að gildandi lögum, sbr. þó ef birting ætti sér stað í Lögbirtingarblaði á grundvelli 3. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008. Hugsanlega megi þó bæta úr þessu með endurskoðun á 187. gr. laganna um endurupptöku máls, en í því ljósi sé ekki rétt að ganga lengra, til dæmis með því að láta réttaráhrif birtingar taka mið af því þegar ákæra er komin í pósthólf ákærða óháð því hvort fyrir liggi að ákærði hafi skráð sig þar inn.
    Að höfðu nánar samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti og Stafrænt Ísland eftir að umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda lauk, sbr. kafli 3.4, og að teknu tilliti til m.a. umsagnar réttarfarsnefndar, hefur verið gerð sú breyting á frumvarpinu að nú er gerð er tillaga um að ákæra og önnur gögn sem birta skal á sama hátt, teljist réttilega birt í stafrænu pósthólfi þegar viðkomandi hefur staðfest móttöku þar. Aftur á móti er ekki gerð krafa um að ákærði hafi kynnt sér efni ákæru eða að það hafi komist til vitundar hans. Um þetta vísast nánar til kafla 3.4.

5.2. Varanleg heimild til að mæta fyrir dóm sem og gefa skýrslu fyrir dómi og hjá lögreglu í gegnum fjarfundabúnað.
    Að auki er í umsögn ríkissaksóknara er lýst ánægju með að heimildir til notkunar fjarfundabúnaðar við skýrslugjafir fyrir dómi, sem í gildi hafa verið á grunni bráðabirgðaheimilda við lög um meðferð sakamála frá vormánuðum 2020, verði festar í sessi i lögunum. Þó er talin ástæða til að nánar sé fjallað um það í lagatextanum sjálfum hvenær og hvernig heimildum af því tagi verði beitt. Í umsögn dómstólasýslunnar er sömuleiðis lýst ánægju með að lagt sé til að heimildir til fjarþinghalda og notkunar fjarfundabúnaðar verði gerðar varanlegar, en þó talið mikilvægt að útfæra nánar í stórum dráttum í lagatexta hvenær slíkar heimildir eigi við og við hvaða aðstæður. Í ljósi þessara ábendinga hefur verið aukið við lagatexta 13., 20, 21 og 59. gr. frumvarpsins um hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo skýrslugjöf getið farið fram í gegnum fjarfundabúnað. Um frekari sjónarmið við beitingu ákvæðanna er fjallað í skýringum við nefnd ákvæði frumvarpsins.

5.3. Aðrar ábendingar.
    Af hálfu dómstólasýslunnar kemur fram að stofnunin styðji þær tillögur sem fram koma í 9. gr. frumvarpsins um að hún fái heimild til að setja reglur um afhendingarmáta dómskjala, en telur að betur færi á að í b-lið ákvæðisins væri tekið fram að hafa beri samráð við dómstólana við undirbúning þeirra reglna sem gert er ráð fyrir að dómstólasýslan setji. Við því hefur verið brugðist með breytingu á 9. og 58. gr. frumvarpsins. Þá hvetur dómstólasýslan sömuleiðis til þess að orðalag frumvarpsins um hið tæknilega hlutleysi verði einfaldað að nokkru leyti. Í tilefni af þeirri ábendingu hefur verið farið aftur yfir efni frumvarpsins með tilliti til hugtakanotkunar og gerðar nokkrar breytingar án þess þó að þeirri aðferðafræði sem lagt var upp með við samningu þess og löggjöfin að öðru leyti byggist m.a. á, og gerð er grein fyrir í kafla 3.1, hafi verið raskað.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja er lýst ánægju með frumvarpið en m.a. talið ákjósanlegt að einnig mætti birta megi stefnur í stafrænu pósthólfi sem falla myndi að markmiðum frumvarpsins um tæknilegt hlutleysi og aukna nýtingu tæknilausna. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að birtingar á stefnum voru ekki til umfjöllunar við undirbúning frumvarpsins og einkaaðilar hafa enn sem komið er ekki aðgang að hinu stafræna pósthólfi. Það útilokar þó ekki að breyttur birtingarháttur stefna komi til athugunar síðar.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi réttarfarslöggjöf fyrir því að framangreind markmið náist og er það hluti af þeim áherslum sem í fjármálaáætlun eru lagðar á stafrænt dómskerfi. Það verði gert með því að gera réttarfarslöggjöfina hlutlausa um afhendingarmáta gagna, heimila notkun rafrænna staðfestinga o.s.frv., auk þess að heimila notkun fjarfundabúnaðar við rannsókn og meðferð sakamála í auknum mæli sem og stafræna birtingu ákæra og annarra skjala sem nú krefjast tiltekins birtingarmáta.
    Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld eða hafi að öðru leyti áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Þó má ætla að kostnaður vegna pappírsnotkunar innan réttarvörslukerfisins minnki nokkuð auk þess sem kostnaður vegna umsýslu, þar á meðal við birtingar, minnki.
    Hvorki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á sveitarfélögin né á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að nýtt ákvæði, 2. gr. a, verði tekið upp í lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sem leggi málsmeðferð á stafrænan og rafrænan máta samkvæmt lögunum að jöfnu við málsmeðferð sem miðast við pappír. Almennt verði þannig jafngilt að gögn og tilkynningar berist á milli þeirra sem aðkomu eiga að málum sem rekin eru samkvæmt lögunum á hvern þann máta sem ákvæðið heimilar, auk þess sem rafræn staðfesting verði lögð að jöfnu við undirritun með eigin hendi. Þá mun ákvæðið einnig taka til meðferðar mála samkvæmt ýmsum öðrum lagabálkum vegna ákvæða sem vísa um málsmeðferð, eftir atvikum að hluta, til laga um meðferð sakamála. Má þar til að mynda nefna 18. gr. laga um nálgunarbann, nr. 85/2011 og brottvísun af heimili og 2. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Í 1. mgr. 2. gr. a er kveðið á um að tilkynningu eða gagni sem á grundvelli laganna er afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli sé heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafar. Megintilgangur þessarar heimildar er að kveða á um það í lögunum að rafræn og stafræn gögn og tilkynningar séu jafngildar þeim sem berast milli hlutaðeigandi á pappír, án þess þó að leggja bann við notkun pappírs. Ætlunin er ekki að mæla fyrir um breytingu á réttarfari sem slíku, heldur að heimila annan afhendingarmáta og form hvers kyns gagna og tilkynninga við málsmeðferð samkvæmt lögunum en á pappír. Þannig er lagður grunnur að því að unnt verði að nýta þær tæknilausnir sem nú er völ á í ríkari mæli við meðferð mála samkvæmt lögum um meðferð sakamála, hvort heldur sem er við meðferð mála hjá lögreglu eða dómstólum.
    Með þeim sem aðkomu eiga að máli á grundvelli laganna er til að mynda átt við lögreglu, ákæruvald, lögmenn, dómara, starfsfólk dómstóla, málsaðila, brotaþola, vitni eða hvern þann annan sem málsmeðferð laganna tekur til hverju sinni.
    Líkt og rakið er í kafla 3.1 er hugtakinu eintak ætlað að hafa víðtæka skírskotun til þess þegar gögnum er miðlað til móttakanda á grundvelli laga um meðferð sakamála, ýmist á stafrænu, rafrænu eða pappírsformi, eða að viðkomandi sé veitt aðstaða til að kynna sér efni þess.
    Þá skal einnig einu gilda við beitingu heimildarinnar hvort um sé að ræða skriflegt, áritað, staðfest eða undirritað gagn eða tilkynningu, og jafnframt hvort tilkynningu eða gagni sé beint að viðtakanda í frumriti, afriti, eftirriti eða endurriti, eða annars konar riti. Í öllum tilvikum sé staf- og rafrænt form jafngilt pappír, enda leiki ekki vafi á uppruna tilkynningar eða gagns eða frá hverjum það stafi. Hér verður þó eftir sem áður að gera þá kröfu að dómari geti ákveðið að frumrit gagns verði lagt fram í dómi, enda telji hann það nauðsynlegt, svo sem fyrir sönnunarfærslu dómsmáls.
    Í 2. mgr. 2. gr. a er kveðið á um að þegar lögin eða venja áskilji áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun sé heimilt að fullnægja þeim áskilnaði með rafrænni staðfestingu. Hér er ekki ætlunin að binda tiltekna aðferð við rafræna staðfestingu í lög, heldur er miðað að því að draga úr óþarfa undirritunum og áritunum með eigin hendi, hverju nafni sem þær eru nefndar, þegar unnt er að staðfesta með rafrænni auðkenningu, öruggri innskráningu á vef eða öðrum viðurkenndum tæknilausnum frá hverjum tilkynning eða gagn stafar. Til samræmis við fyrirætlan um jafngilda málsmeðferð er vert að árétta að um heimild til rafrænna staðfestinga er að ræða og því verður eftir sem áður unnt staðfesta ýmis gögn með því að undirrita þau með eigin hendi. Að því er hina rafrænu staðfestingu varðar, þá kann til að mynda í sumum tilvikum að vera nægjanlegt að mynd af undirritun með eigin hendi sé notuð til staðfestingar á skjali eða þá að tilkynning eða eintak gagns sé sent úr tölvupóstfangi sem þekkt er eða staðfest á öðrum vettvangi að sendandinn notar. Í öðrum tilvikum kann þó að þurfa að gera ríkari kröfur til rafrænna staðfestinga, svo sem eftir mikilvægi og réttaráhrifa sem við þær eru bundnar. Með e-lið 9. gr. frumvarpsins er ætlunin að fela dómstólasýslunni að setja reglur um rafræna staðfestingu við meðferð mála fyrir dómi og vísast um skýringar á því atriði til skýringa á því ákvæði.
    Ákvæði 3. mgr. jafngildisákvæðisins þykja ekki þarfnast skýringa. Um 4. mgr. þess vísast til umfjöllunar í kafla 3.4 og skýringa við 31. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til sú orðalagsbreyting að í stað orðsins afrit verði hugtakið eintak notað um þegar dómara er skv. 3. mgr. 7. gr. laga um meðferð sakamála heimilað að láta málskjöl af hendi án þess að þau séu afhent viðtakanda fyrir fullt og allt. Nánar er fjallað um hugtakið eintak í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr.


Um 3. gr.

    Með þessari grein er lagt til að við 9. gr. laganna bætist þrjár nýjar málsgreinar sem fjalla um almenna heimild til að taka þátt í þinghaldi, þar með talið í þingfestingu og aðalmeðferð, fari fram í gegnum fjarfundabúnað. Nánari ákvæði um skýrslugjafir í gegnum fjarfundabúnað fyrir dómi í sakamálum er að finna í 20. og 21. gr. frumvarpsins.
    Með nýrri 2. mgr. 9. gr. er nánar tiltekið lögð til almenn heimild fyrir dómara til að ákveða að taka megi þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað að því tilskildu að allir sem eru viðstaddir, bæði þeir sem hlut eiga að málsmeðferðinni og almenningur, geti fylgst með því sem fram fer. Ekki þykja efni til að binda hendur dómara nánar í þeim efnum, svo með áskilnaði um að ávallt sé hægt að fylgjast með þinghaldi bæði í hljóði og mynd heldur ráðist það af atvikum hverju sinni, svo sem á hvaða stigi málsmeðferð er og hvort skýrslugjafir fari fram í þinghaldi. Í einhverjum tilvikum kann þannig að vera nægilegt að viðkomandi heyri öll orðaskipti. Þá er í ljósi meginreglunnar um opinbera málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð sakamála, ekki lagt til að heimilt verði að halda þinghald einungis í gegnum fjarfundabúnað, til að mynda þannig að þinghald verði háð á lokuðum fjarfundi sem einungis dómari og málsaðilar hafi aðgang að. Í því felst einnig að málsaðilum og öðrum er ávallt heimilt að mæta í dómsal kjósi þeir svo, jafnvel þótt sumir taki þátt í gegnum fjarfundabúnað. Þá þykir æskilegt að dómari ráðfæri sig við málsaðila áður en ákvörðun er tekin um að heyja þing í gegnum fjarfundabúnað og nauðsynlega útfærslu þess eftir því sem efni standa til. Í þeim efnum er m.a. mikilvægt að huga að tækjabúnaði og öryggi og öðrum ráðstöfunum sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja skilvirkni og varna því að gengið sé á rétt ákærða til réttlátrar málsmeðferðar.
    Í tillögu að nýrri 3. mgr. 9. gr. er fjallað sérstaklega um réttindi ákærða, eða eftir atvikum sakbornings ef um dómskýrslu á rannsóknarstigi er að ræða, til að vera viðstaddur þinghald sem hann varðar.
Þátttaka í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað getur verið til mikils hagræðis, til að mynda ef viðkomandi sætir afplánun í fangelsi eða gæsluvarðhaldi, en þó verður að gæta varfærni svo að ekki leiki vafi á að réttindi viðkomandi séu að fullu tryggð. Þar á meðal réttur til að koma fyrir dóm í eigin persónu, til virkrar þátttöku í þinghaldi og til aðstoðar verjanda ásamt meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þátttaka í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað, svo sem við þingfestingu eða aðalmeðferð, kemur þannig fyrst og fremst til álita ef dómari og allir málsaðilar, þar með talið ákærði, eru ásáttir um það fyrirkomulag, það er til hagræðis og fært með tilliti til tækjabúnaðar og öryggis. Heimildinni er því ekki ætlað að takmarka eða afnema rétt ákærða til að koma fyrir dómara augliti til auglitis og taka þar afstöðu til sakarefnis kjósi hann það frekar. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir því að í fyrirkalli verði ákærði boðaður til þingfestingar sem fari fram í gegnum fjarfund heldur verði hefðbundið fyrirkall skv. 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála. Það hvort talið verði skynsamlegt að þingfesting fari fram á fjarfundi verður að ráðast í kjölfar birtingar ákæru ásamt fyrirkalli af atvikum hvers máls.
    Í þessu ljósi er jafnframt lagt til að ákærða eða sakborningi verði ekki gert, gegn vilja hans, að taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað nema ríkar ástæður standi til þess, en með ríkum ástæðum í þessu tilliti er átt við aðstæður þar sem slíkt er nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu, til verndar heilsu manna, til að firra glæpum og til verndar frelsi, öryggi eða rétti vitna og brotaþola til lífs. Í þessu tilliti hefur mjög verið horft til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu og leiðbeininga Evrópuráðsins sem gerð var grein fyrir í kafla 3.3. Þá er kveðið á um það að sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara um þátttöku ákærða eða sakbornings í gegnum fjarfundabúnað geti krafist úrskurðar dómara þar um, en sá úrskurður yrði þá jafnframt kæranlegur til Landsréttar samkvæmt nýrri kæruheimild sem lögð er til með 37. gr frumvarpsins.
    
Svo sem rakið er í kafla 3.3 þarf að horfa til ýmissa atriða bæði við ákvörðun um hvort þinghald verði haldið í gegnum fjarfundabúnað sem og við framkvæmd þess. Því er lagt til að í nýrri 4. mgr. 9. gr. laganna verði dómstólasýslunni falið að setja leiðbeinandi reglur þar um, þar á meðal um skýrslugjöf fyrir dómi í gegnum fjarfundabúnað í sakamálum en um hana er að öðru leyti fjallað nánar í 20. og 21. gr. frumvarpsins. Slíkar reglur gætu eftir atvikum fjallað um undirbúning ákvörðunar um þátttöku í þinghaldi og skýrslugjöf í gegnum fjarfundabúnað, svo sem æskilega staðsetningu skýrslugjafa, í hvaða málum slíkt kemur einkum til greina og í hvaða málum það kæmi síður til greina, sem og til hvaða ráðstafana er rétt að grípa til að tryggja réttindi ákærða og annarra skýrslugjafa. Jafnframt gætu slíkar reglur fjallað um tæknibúnað og öryggismál, svo fleiri dæmi séu tekin.

Um 4. gr.

    Lögð er til sú breyting á 2. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála að hugtakið staðfesta, sem líkt og rakið er í kafla 3.1 hefur víðtækari skírskotun en hugtakið undirrita, verði notað um það þegar annað hæfur maður en löggiltur dómtúlkur gengst undir heit um að annast þýðingu á framburði fyrir dómi. Þá er dómstólum veitt aukið svigrúm um framkvæmd slíkrar staðfestingar með því að það verði ekki lengur gert að áskilnaði að slíkt heit verði undirritað í þingbók viðkomandi sakamáls. Við það þykja skapast aukin tækifæri til að beita nútíma- eða, eftir atvikum, framtíðartæknilausnum við að gangast undir heit af því tagi, án þess þó að dregið verði úr mikilvægi þeirra.


Um 5. gr.

    Með a-lið er lagt til að Hæstarétti verði bætt við í upptalningu þeirra dómstiga sem hafa skuli þingbækur til nota í sakamálum skv. 1. mgr. 13. gr. laga um meðferð sakamála. Í framkvæmd eru slíkar þingbækur notaðar við meðferð sakamála fyrir Hæstarétti og er því ekki um breytingu á framkvæmd að ræða, en rétt þykir að 13. gr. laga um meðferð sakamála sé samræmd að þessu leyti líkt og fjallað er um í kafla 3.2.
    Með b-lið 5. gr. er lagt til að felldur verði á brott texti úr 1. mgr. 13. gr. laga um meðferð sakamála sem kveður á um að dómara sé rétt að rita á tölvu það sem ella væri fært í þingbók og rafræna varðveislu þess sem ritað er í þingbók á því formi þar sem ekki þykir ástæða til að tilgreina það sérstaklega í löggjöf. Á grunni b-liðar 17. gr. laganna setur dómstólasýslan reglur um þingbækur og nægjanlegt þykir að kveðið sé á um þingbækur í því ákvæði og 1. mgr. 13. sömu laga án þess að tiltaka sérstaklega form þeirra.
    Þær breytingar sem mælt er fyrir um með c- og d-lið 5. gr. lúta að því að skipta orðinu undirrita út fyrir orðið staðfesta til að veita aukið svigrúm við framkvæmd laganna með tilliti til tæknilegra lausna, án þess þó að leggja bann við undirritun með eigin hendi.


Um 6. gr.

    Líkt og rakið er í skýringum við 5. gr. um þingbækur, er miðað að samræmi milli dómstiga með því að Hæstarétti verði bætt við upptalningu þeirra dómstiga sem halda skulu dómabækur. Rétt eins og við Landsrétt og héraðsdómstóla landsins er nú þegar haldin dómabók við Hæstarétt og er því í reynd ekki um breytingu á framkvæmd að ræða.
    Þar sem við Hæstarétt eru þó einvörðungu kveðnir upp dómar, en ekki úrskurðir, er orðalagi 14. gr. breytt til að taka tillit til þess.
    Loks er lagt til að kveðið verði á um að dómari staðfesti dómabók í stað þess að undirrita dómabók til að veita svigrúm með tilliti til tæknilegra lausna við framkvæmd laganna.


Um 7. gr.

    Með a-lið 7. gr. er lögð til breyting á orðalagi 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, í þá veru að eftirleiðis verði kveðið á um að dómstóll staðfesti framlagningu skjala sem lögð eru fram í dómsmáli í stað þess að kveðið verði á um að þau skuli merkt í áframhaldandi töluröð og vottuð um framlagningu. Með breytingunni er ætlunin að skapa aukið svigrúm fyrir dómstóla um þá aðferð sem notuð verði við að tilgreina hvaða skjöl og önnur gögn eru hluti af framlögðum málsgögnum, en gæta samtímis að því að nauðsynlegt er að gildandi rétti að gera greinarmun á því að annars vegar því að gagn berist dómstól og hins vegar þeim þætti almennrar meðferðar dómsmála að þau skjöl og önnur gögn sem óskað er framlagningar á verði hluti af málsgögnum. Hér er einnig rétt að árétta að þó svo að ákvæðið mæli einvörðungu fyrir um framlagningu skjala er einnig heimilt að leggja fram annars konar gögn sem einnig geta orðið að málsgögnum viðkomandi dómsmáls. Má þar í dæmaskyni nefna mynd- og hljóðupptökur sem og aðra hluti en skjöl á pappírsformi. Með því að kveða á um staðfestingu dómstóls í stað vottunar er horft til þess að unnt sé að staðfesta framlagningu af hálfu dómstóls á fleiri máta en með vætti í dómsal án þess að afsláttur verði gefinn af réttaröryggi eða nauðsynlegri festu og gegnsæi við rekstur dómsmála.
    Með a-lið 7. gr. er einnig horfið frá því að mæla fyrir um fjölda eftirrita skjala sem lögð skulu fram og þess í stað lagt til að tilgreint verði að afhenda skuli dómara skjal, svo og aðilum máls og brotaþola eintak þess ef mætt er af hálfu brotaþola í máli. Í því samhengi ber að gæta að því að til samræmis við ákvæði 1. mgr. 15. gr. skulu frumrit afhent dómara ef þau eru tiltæk, eftir atvikum stafræn frumrit, og ef frumvarpið verður að lögum mun 2. gr. a laganna heimila stafræna og/eða rafræna framlagningu eftir því sem við á, án þess að eintök á pappír þurfi að fylgja í kjölfarið. Þannig þykja skapast enn frekari tækifæri til tæknilega hlutlausrar málsmeðferðar.
    Með b-lið er lagt til að framvegis verið í 2. mgr. 15. gr. laganna kveðið á um að hlutaðeigandi dómstóll skuli varðveita þar tilgreind gögn í stað þess að tilgreina þar sérstaklega að það skuli gert í skjalasafni. Skylda skv. 2. mgr. 15. gr. myndi þannig áfram hvíla á dómstólnum en heimilað verði að inna skylduna af hendi á fleiri vegu þar sem sjá má fyrir sér aðrar aðferðir til öruggrar varðveislu gagna.
    Með c-lið er lögð til sú orðalagsbreyting að orðin „annað eintak“ verði notuð í stað orðsins afrit um það málsgagn sem eftir verður þegar dómari lætur frumrit skjals af hendi úr málsgögnum á meðan máli er ólokið og annað eintak skjalsins þarf að liggja fyrir í málsgögnum.

Um 8. gr.

    Þær breytingar sem ráðgerðar eru með 8. gr. eiga það sammerkt að varða orðalag 16. gr. laganna á þann veg sem fjallað er um í kafla 3.1 og skýringu við 1. gr. og þarfnast því ekki frekari skýringa.

Um 9. gr.

    Sú breyting sem lögð er til með a-lið 9. gr. er eftir því sem við á af sama meiði og þær breytingar sem ráðgerðar eru með a-lið 5. og 6. gr. og fjallað hefur verið um í skýringum við þau ákvæði og í kafla 3.2.
    Með b-lið 9. gr. er ætlunin að fela dómstólasýslunni að setja reglur um þar tilgreind atriði fyrir öll dómstigin og því hefur Hæstarétti verið bætt við í upptalningu dómstiga samkvæmt ákvæðinu. Mælt er fyrir um að dómstólasýslan hafi samráð við hlutaðeigandi dómstig við reglusetninguna. Líkt og vikið er að í kafla 3.2 kunna þó ólíkar aðstæður að vera fyrir hendi við meðferð dómsmála eftir því um hvaða dómstig er að ræða og því má sjá fyrir sér að reglur sem dómstólasýslan setur kunni til að mynda að verða kaflaskiptar í því tilliti. Þá er að sama skapi talið mikilvægt að dómstólasýslan hafi samráð við dómstigin áður en reglur eru settar um hvert og eitt þeirra en gæti að sama skapi að samræmi milli dómstiga að því marki sem kostur er. Þá er til þess að líta að með 42. og 48. gr. frumvarpsins er annars vegar Landsrétti og hins vegar Hæstarétti heimilað að setja reglur um málskjöl og dómsgerðir við meðferð kæru- og áfrýjunarmála fyrir þeim dómstólum. Með því að dómstólasýslan setji eftirleiðis almennar reglur fyrir öll þrjú almenn dómstig landsins er við það miðað að reglur Hæstaréttar og Landsréttar geti orðið löggjöfinni og almennum reglum á grundvelli g-liðar 2. mgr. 17. gr. laganna til fyllingar. B-liður 9. gr. frumvarpsins varðar m.a. þá aðstöðu sem fjallað er um í skýringum við c-lið 5. gr. þess og þykir ekki þarfnast frekari skýringa við en þar er vísað til. Með d-lið 9. gr. er gerð sú orðalagsbreyting að eftirleiðis muni þar tilgreint að heimild dómstólasýslunnar taki til þess að setja reglur um aðgang almennings að dómum og þingbók í stað þess að slík heimild varði reglur um endurrit slíkra gagna. Sú breyting þykir ekki þurfa frekari skýringa við.
    Loks er hugtakinu rafrænni staðfestingu bætt við g-lið 2. mgr. 17. gr. laganna með e-lið 9. gr. frumvarpsins. Með því er ætlunin að veita dómstólasýslunni heimild til að mæla fyrir um hvaða kröfur verði gerðar til rafrænnar staðfestingar fyrir dómi. Er þá horft til þess að unnt verði að gera ólíkar kröfur eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni og haft í huga að í sumum tilvikum geti til að mynda fullgild rafræn auðkenning verið óþörf eða jafnvel of kostnaðarsöm, en í öðrum geti slík auðkenning verið talin nauðsynleg. Þá er með e-lið 9. gr. frumvarpsins einnig ráðgert að reglusetningarheimild lagaákvæðisins muni eftirleiðis, auk þess að taka til forms og frágangs dómskjala líkt er hún gerir að gildandi rétti, einnig varða afhendingarmáta slíkra skjala. Því verði dómstólasýslunni falið að setja reglur fyrir dómstóla landsins, að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig, um form, frágang og afhendingarmáta dómskjala. Með því er miðað að samræmi milli dómstóla landsins, að því marki sem kostur er, um þessi atriði við meðferð sakamála. Í þeim efnum þarf þó að reikna með því að nái frumvarpið fram að ganga, þurfi að játa dómstólum nauðsynlegt svigrúm til að innleiðingar á breyttu verklagi og eftir atvikum uppfærslu á þeim búnaði sem ætla verður að þurfi að vera við staðar vegna breytinga á lögum og reglum settum á grunni þeirra.

Um 10.–12. gr.

    Með þessum greinum er mælt fyrir um orðalagsbreytingar af svipuðum og sama meiði og áður hefur verið fjallað um í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr. Þessar tillögur eiga það sammerkt að miða að því að gera orðalag þar tilgreindra lagaákvæða tæknilega hlutlausara.

Um 13. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna skal skýrslutaka af sakborningi og vitni skv. 61. gr. fara fram fyrir luktum dyrum og sé þess kostur skal hún fara fram á lögreglustöð eða í öðru sérútbúnu húsnæði. Lagt er til að við ákvæðið bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um að lögregla geti þrátt fyrir þetta ákveðið að skýrslugjöf fari fram í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, enda leiki ekki vafi á auðkenni skýrslugjafa og að tryggt þyki að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Æskilegt er að lögregla ráðfæri sig við sakborning og verjanda áður en ákvörðun um það er tekin og ef því er að skipta einnig við brotaþola og réttargæslumann þegar skýrsla er tekin af brotaþola. Þá verður að gera þá kröfu að ekki sé ástæða til að efast um að það sé í raun veru sakborningur eða vitni sem gefur skýrslu og að skýrslugjöfin sé óþvinguð – það er að skýrslugjafi verði ekki fyrir utanaðkomandi truflun eða þrýstingi. Um síðastnefnda atriðið má nánar hafa hliðsjón af umfjöllun um 21. gr.
    Skýrslugjöf í gegnum fjarfundabúnað getur verið til hagræðis en mikilvægt er að skýrslugjafa séu eftir sem áður tryggð þau réttindi sem leiðir af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum laga um meðferð sakamála, þar á meðal rétt til að njóta aðstoðar tilnefnds verjanda eða réttargæslumanns. Þá geta rannsóknarhagsmunir komið í veg fyrir að heimildinni verði beitt en slíkt ræðst af atvikum hverju sinni. Loks er bent á að skv. 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála má leggja fyrir héraðsdóm m.a. ágreining um réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns, þar á meðal kröfu um tilteknar rannsóknaraðgerðir, ellegar réttindi brotaþola, réttargæslumanns eða lögmanns. Verði frumvarp þetta að lögum mun ákvörðun lögreglu um skýrslugjöf í gegnum fjarfundabúnað falla þar undir.

Um 14. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um breytingar á 66. gr. laga sem miða að nafnleynd lögreglumanna og annars starfsfólks lögreglu, þannig að nægjanlegt sé að lögreglumenn og annað starfsfólk sem kemur að rannsókn sakamála undirriti skýrslu með lögreglunúmeri eða auðkennisnúmeri við skýrslugjöf vitnis eða sakbornings. Líkt og rakið er í kafla 3.5 er sú breyting gerð til samræmis við breytingu af sama toga sem gerð var á 1. mgr. 122. gr. laganna á árinu 2019 með lögum nr. 76/2019. Breytingin miðar að því að vernda lögreglumenn og annað starfsfólk lögreglu fyrir mögulegu ónæði og jafnvel ógn við öryggi þeirra og fjölskyldna þeirra.

Um 15.–16. gr.

    Með greinunum er lagt til að orðið afrit víki fyrir orðinu eintak af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 1. gr.

Um 17. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um breytingu af sama toga og gerð er í 4. gr., þess efnis að orðið staðfesta verði notað í stað orðsins undirrita þar sem hið fyrra þykir hafa tæknilega víðtækari skírskotun eins og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 1. gr.

Um 18.–19. gr.

    Með greinunum er lagt til að orðið afrit víki fyrir orðinu eintak af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og í skýringum við 1. gr.


Um 20. gr.

    Með þessari grein er lagt til að dómari geti ákveðið að skýrslugjöf ákærða fyrir dómi fari fram í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, enda leiki að mati dómara ekki vafi á auðkenni ákærða og tryggt þyki að hann geti gefið skýrslu án utanaðkomandi þrýstings eða truflunar. Ljóst er að meginreglan verður áfram sú að ákærði mæti í dómsal til að gefa skýrslu en með þessu er lögð til heimild sem kæmi einkum til álita þegar dómari og málsaðilar eru ásáttir um það, það er til hagræðis fyrir meðferð máls og það þykir ekki stofna sönnunarfærslu í hættu, þar á meðal meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þá verður að gera þá kröfu að ekki sé ástæða til að efast um að það sé í raun og veru ákærði sem gefur skýrslu og að skýrslugjöfin sé óþvinguð, það er að ákærði verði ekki fyrir utanaðkomandi truflun eða þrýstingi. Um síðastnefnda atriðið má nánar hafa hliðsjón af umfjöllun um 21. gr.
    Í skýringum við 3. gr. er fjallað sérstaklega um rétt ákærða til virkrar þátttöku í meðferð máls og önnur réttindi sem eru þættir í réttlátri málsmeðferð og þarf sem endranær að vera tryggt að þessi réttindi séu virt svo til greina komi að ákærði gefi skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. Heimild þeirri sem lögð er til með þessari grein er því ekki ætlað að takmarka eða afnema rétt ákærða til að mæta í dómsal og gefa skýrslu þar. Af þeim ástæðum er jafnframt lagt til að sérstaklega verði tekið fram í ákvæðinu að ákærða verði ekki gegn vilja sínum gert að gefa skýrslu í gegnum fjarfundabúnað nema ríkar ástæður séu fyrir hendi. Með ríkum ástæðum er, á sama hátt og rakið er í skýringum við 3. gr., átt við aðstæður þar sem slíkt er nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu, til verndar heilsu manna, til að firra glæpum og til verndar frelsi öryggi eða rétti vitna og brotaþola til lífs. Vísast nánar um þetta til kafla 3.3 um dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og leiðbeiningar Evrópuráðsins um notkun fjarfundabúnaðar við meðferð dómsmála.
    Þá skal jafnframt tekið fram að skv. n-lið 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála sæta úrskurðir héraðsdómara um atriði varðandi skýrslugjöf ákærða kæru til Landsréttar. Ágreiningur um það hvort ákærði gæfi skýrslu í gegnum fjarfundabúnað fyrir dómi félli þar undir.

Um 21. gr.

    Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála getur dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af vitni á dómþingi í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið. Þessari heimild verður þó ekki beitt ef ætla má að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnisins. Með þessari grein frumvarpsins er lagt að dómari geti ákveðið að skýrslugjöf vitnis fari fram í gegnum fjarfundabúnað með hljóði og mynd, og á það við hvort heldur sem ætla má að framburður vitnis geti ráði úrslitum máls eður ei. Ef sérstaklega stendur á geti dómari á hinn bóginn ákveðið að skýrslutaka vitnis fari einungis fram með hljóði, t.d. í gegnum síma, enda megi ekki ætla að úrslit máls geti ráðist af framburðinum. Til greina kæmi til að mynda að beita þessari heimild ef vitni á óhægt um vik af tæknilegum orsökum að gefa skýrslu í mynd. Það hvort skýrslugjöf vitnis geti farið fram í gegnum fjarfundabúnað verður að ráðast af atvikum þess máls sem til meðferðar er og því hvort tryggja megi réttindi ákærða á fullnægjandi hátt, þar á meðal rétt hans til að spyrja spurninga, sbr. d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem og meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu.
    Þá þarf einnig í þessu samhengi að vera unnt að staðreyna að vitni sé í raun og veru sá/sú sem það segist vera sem og að skýrslugjöf þess sé óþvinguð og vitni verði ekki fyrir utanaðkomandi truflun eða áhrifum. Skv. 1. mgr. 122. gr. laga um meðferð sakamála ber dómara m.a. að láta vitni gera grein fyrir nafni sínu og kennitölu, eða eftir atvikum lögreglunúmeri, leiða athygli þess að þeirri refsi- og siðferðisábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislegum röngum framburði, svo og að þess kunni að verða krafist að vitni staðfesti framburði sinn með eiði eða drengskaparheiti. Ekki þykir rétt að binda hendur dómara við mat á því hvort frekari staðfestingar á auðkenni eða aðstæðum vitnis sé þörf, en í þeim efnum gæti þó til að mynda komið til greina að vitni gæfi skýrslu í húsakynnum annars dómstóls, á lögreglustöð, í sendiráði eða hjá öðrum aðila sem gæti staðfest auðkenni þess og að vitni gefi skýrslu án truflunar. Ætla verður að þörf á því verði meiri eftir því sem skýrslugjöf hefur meiri þýðingu fyrir úrslit máls.
    Þá skal jafnframt tekið fram að skv. n-lið 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála sæta úrskurðir héraðsdómara um atriði varðandi skýrslugjöf vitna kæru til Landsréttar. Ágreiningur um það hvort vitni gæfi skýrslu í gegnum fjarfundabúnað félli þar undir.
    
Þá er rétt að geta þess að ákvæðum XVIII. kafla laganna um vitni verður beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 132. gr. laganna.

Um 22. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laganna skal ákærandi sjá um að kvaðning vitnis sé birt og skal það gert á sama hátt og birting ákæru skv. 156. gr. Með 32. gr. frumvarpsins er lagt til að ákærur megi birta í stafrænu pósthólfi og með þessari grein er lagt til að það sama gildi um kvaðningu vitnis. Um þetta vísast nánar til skýringa við þá grein.

Um 23. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 2. málsl. 1. mgr. 122. gr. laganna þess efnis að starfsmenn lögreglu gefi upp auðkennisnúmer sitt við skýrslugjöf fyrir dómi. Líkt og rakið er í kafla 3.5 gera lögreglumenn einungis grein fyrir sér með lögreglunúmeri við þær aðstæður. Sömu sjónarmið þykja eiga við um nauðsyn nafnleyndar annarra starfsmanna lögreglu þegar þeir gefa skýrslu fyrir dómi.

Um 24. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um að orðalagið „endurrit“ falli brott þegar rætt er um þann hluta þingbókar máls sem matsmanni er látið í té af hálfu matsbeiðanda af sömu ástæðum og fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr. Með breytingunni er þó ekki ætlunin að breyta efnislegu inntaki ákvæðisins.


Um 25. gr.

    Með ákvæðinu er annars vegar lagt til að fella á brott tilgreiningu á frumritum eða afritum nauðsynlegra gagna eða endurriti þingbókar þegar dómari í máli sendir skriflegt erindi vegna gagnaöflunar fyrir öðrum dómi skv. 1. mgr. 139. gr. laganna. Ekki þykir þörf á að sérstaklega sé tilgreint að um frumrit, afrit eða endurrit geti verið að ræða, auk þess sem hugtakið afrit getur átt illa við um stafræn gögn, svo sem rakið hefur verið í kafla 3.1. Með breytingunum er þó ekki ætlunin að breyta efnislegu inntaki ákvæðisins.

Um 26. gr.

    Hér er með a-lið lagt til að orðið staðfestir verði notað í 1. mgr. 148. gr. laga um meðferð sakamála þegar sakborningur, sem að gildandi rétti undirritar skýrslu á vettvangi, myndi eftirleiðis staðfesta skýrslu lögreglu sem stendur hann að broti. Einnig að orðið eintak verði notað yfir það afrit skýrslunnar sem lögregla afhendir sakborningi. Báðar þessar breytingar miða að því að skapa forsendur fyrir rafrænum og stafrænum lausnum á þann hátt sem fjallað hefur verið um í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr. frumvarpsins. Vert er að árétta að um heimild til rafrænna staðfestinga er að ræða og því verður eftir sem áður heimilt staðfesta ýmis gögn með því að undirrita þau með eigin hendi.
    Með b-lið 26. gr. er mælt fyrir um brottfall sérákvæðis um rafræna undirritun, rafræna afhendingu skýrslu lögreglu og reglugerðarheimild ráðherra vegna rafrænnar undirritunar og rafrænnar afhendingar þar sem ákvæði 2. gr. a (sbr. 1. gr. frumvarpsins) mun eftirleiðis heimila slíka málsmeðferð.

Um 27. gr.

    Hér er lagt til að orðið skriflega komi í stað orðsins bréflega í 1. mgr. 149. gr. laganna. Orðið bréflega þykir vísa til málsmeðferðar á pappír á meðan orðið skriflega þykir hafa víðtækari merkingu og megi nota um hvort heldur sem er málsmeðferð á pappír eða fyrir tilstilli rafrænna og stafrænna lausna.

Um 28. gr.

    Í 3. mgr. 150. gr. laganna kemur fram að sinni sakborningur ekki sektarboði skv. 1. mgr. 150. gr. innan 30 daga eftir það hafi sannanlega borist honum eða verið birt skv. 156. gr. geti héraðssaksóknari eða lögreglustjóri sent málið til héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Með 32. gr. frumvarpsins er lagt til að ákærur megi birta í stafrænu pósthólfi og með þessari grein er lagt til að það sama gildi um birtingu sektarboðs að þessu leyti. Um þetta vísast nánar til skýringa við þá grein.

Um 29. gr.

    Hér er lagt til að framvegis verði ekki tilgreint í 154. gr. laganna að ákæra, skrá og sýnileg sönnunargögn, verði send héraðsdómi í nægilega mörgum eintökum, heldur verði látið við það sitja að þessi gögn skuli send héraðsdómi ásamt tilkynningu um það hver fari með málið fyrir ákæruvaldið, hvaða vitni það óskar eftir að verði leidd í málinu og hvaða sönnunargagna ákæruvaldið telji nauðsynlegt að afla að öðru leyti. Ekki þykir lengur ástæða til að mæla fyrir um nægilegan fjölda eintaka gagna þegar heimilt verður að miðla gögnum til dómstóla rafrænt og stafrænt.

Um 30. gr.

    Í 3. mgr. 155. gr. laganna kemur fram að þegar dómari hefur gefið út fyrirkall sendi hann það ásamt ákæru til ákæranda sem hlutist um birtingu skv. 156. gr. laganna. Með 32. gr. frumvarpsins er lagt til að ákærur megi birta í stafrænu pósthólfi og er því lagt að hér verði bætt við tilvísun til þeirrar birtingaraðferðar. Um þetta vísast nánar til skýringa við þá grein.


Um 31. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins afrit á fjórum stöðum í 156. gr. laganna. Aðrar breytingar varða einvörðungu beygingu annarra orða í 156. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til skýringa við 1. gr. og kafla 3.1.

Um 32. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ný grein bætist við lögin sem heimilar lögreglu og ákæruvaldi að birta tiltekin gögn í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nánar tiltekið Ísland.is, sbr. samnefnd lög nr. 105/2021. Þessi heimild nær til þeirra gagna sem að gildandi lögum skal birta skv. 156. gr. laganna, en auk ákæru og fyrirkalls eru þau kvaðning vitnis skv. 2. mgr. 120. gr., birting sektarboðs skv. 3. mgr. 150. gr. og birting dóms skv. 3. mgr. 185. gr. Með 22. og 27. gr. og c-lið 35. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum til að heimila birtingu samkvæmt hinni nýju grein.
    Með 1. mgr. er lagt til að ákæra og önnur gögn, sem sama gildir um, teljist réttilega birt þegar þau hafa verið gerð aðgengileg ákærða, eftir atvikum vitni, dóm- eða sektarþola, í stafrænu pósthólfi þegar viðkomandi hefur staðfest móttöku þeirra. Nánar um hvernig það verður framkvæmt vísast til umfjöllunar í kafla 3.4.
    Samkvæmt 4. mgr. 156. gr. laganna skal ákærði við birtingu ákæru spurður hvort hann óski eftir verjanda og þá hverjum ef því er að skipta og skal afstöðu ákærða getið í vottorði um birtinguna. Rétt þykir að árétta þessa skyldu með 2. mgr. hins nýja ákvæðis enda ljóst að það þarf að gera á annan hátt en þegar ákærða er birt ákæra í eigin persónu. Horft er til þess að svo megi gera gagnvirkt þannig að ákærði geti óskað eftir verjanda á mínum síðum á Ísland.is, en jafnframt má fullnægja þessari skyldu með greinargóðum leiðbeiningum um hvernig ákærði geti borið sig öðruvísi að við það. Mikilvægast er í því sambandi að ákærði geti á einfaldan og skjótan hátt upplýst lögreglu eða ákæruvald um að hann óski eftir verjanda og þá hverjum ef því er að skipta.
    Með 3. mgr. er tekið fram að um birtingu ákæru fari að öðru leyti eftir lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, sbr. nú lög nr. 105/2021.
    Með 4. mgr. er að lokum lagt til að ríkissaksóknari setji nánari fyrirmæli um birtingu ákæra og annarra gagna sem birta skal á sama hátt í stafrænu pósthólfi. Það er talið nauðsynlegt til að tryggja samræmda framkvæmd við birtingu í stafrænu pósthólfi. Í slíkum fyrirmælum má m.a. fjalla nánar um í gegnum hvaða skjalaveitu gagn verður birt, fyrir hverjum skal og skal ekki birta gagn í rafrænu pósthólfi sem og hvenær ljóst má teljast að birting í stafrænu pósthólfi hafi ekki tekist og því sé nauðsynlegt að nota aðrar birtingaraðferðir.

Um 33.–35. gr.

    Með 33.–35. gr. er mælt fyrir um að orðið eintak verði notað í stað orðsins afrit í 157. gr., 1. mgr. 174. gr. og 3. mgr. 179. gr. laganna. Aðrar breytingar varða eingöngu beygingu annarra orða í þeim ákvæðum laganna. Um ástæður þessara tillagna vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.
    

Um 36. gr.

    Með ákvæðunum er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 2. og 3. mgr. 185. gr. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við fyrri ákvæði frumvarpsins.
    Samkvæmt 3. mgr. 185. gr. laganna skal í ákveðnum tilvikum birta dóm eftir þeim reglum sem gilda um birtingu ákæru skv. 156. gr. laganna. Með 32. gr. frumvarpsins er lagt til að ákærur megi birta í stafrænu pósthólfi og er því lagt að hér verði bætt við tilvísun til þeirrar birtingaraðferðar. Um þetta vísast nánar til skýringa við þá grein.

Um 37. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 3. mgr. 186. gr. laganna um dóma og úrskurði. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 38. gr.

    Í samræmi við það sem fram kemur í 3. gr. og skýringum við hana er lagt til að sakborningi eða ákærða verði veitt sjálfstæð heimild til að kæra úrskurð dómara um að hann skuli taka þátt í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað. Tekið skal fram að þessi kæruheimild á við ef ákærða eða sakborningi er gegn vilja sínum gert að mæta til þinghalds í gegnum fjarfundabúnað. Ef einungis er uppi ágreiningur um hvort skýrslugjöf ákærða fari í gegnum fjarfundabúnað fer um kæruheimild eftir n-lið 1. mgr. 192. gr. laganna.
    Þá er með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru i kafla 3.1 lagt til að í stað þess að vísa til afrita í c-lið 1. mgr. 192. gr. verði eftirleiðis vísað til gagna án þess að ætlunin sé að breyta efnislegri merkinu kæruheimildarinnar.

Um 39. gr.

    Í a-lið er mælt fyrir um að orðið endurrit falli brott, en um nánari skýringu þess vísast til skýringar við 24. gr. og þau sjónarmið sem rakin eru í kafla 3.1.
    Með b-lið er lagt til að orðin „á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður“ í 4. málsl. 1. mgr. 194. gr. laganna falli brott og í stað þeirra komi orðið Landsréttur. Með því verður eftirleiðis ekki mælt fyrir um form og fjölda eintaka málsgagna í kærumálum samkvæmt lögunum fyrir Landsrétti, heldur verður látið við það sitja að kveða á um að gögn málsins skuli senda Landsrétti. Ástæða þessa er sú að á grunni jafngildisákvæðis í 1. gr. frumvarpsins, sem verður 2. gr. a í lögunum, verði frumvarpið að lögum, yrði jafngilt að miðla gögnum til Landsréttar á stafrænu, rafrænu eða bréflegu formi og er því ekki lengur nauðsynlegt að mæla fyrir um fjölda eintaka gagna líkt og gert er að gildandi rétti. Í því sambandi verður þó að hafa hugfast að með e-lið 9. gr. frumvarpsins er jafnframt ráðgert að dómstólasýslan setji reglur um form, frágang og afhendingarmáta dómskjala skv. g-lið 2. mgr. 17. gr. laganna, og þá geti Landsréttur sett nánari reglur þar um á grunni 3. mgr. 202. gr. sömu laga, sbr. 4. mgr. 195. gr. laganna. Frekari útfærslu á gagnaframlagningu verður því að finna í reglum.
    Loks er lagt til með c-lið að orðið eintak komi í stað orðsins afrit í 3. mgr. 194. gr. laganna af þeim ástæðum sem áður eru raktar í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr.

Um 40. gr.

    Hér er lagt til að orðið skrifleg komi í stað orðsins bréfleg í 2. mgr. 199. gr. laganna. Orðið bréfleg þykir vísa til málsmeðferðar á pappír á meðan orðið skrifleg þykir hafa víðtækari merkingu og mega nota um hvort heldur sem er málsmeðferð á pappír eða fyrir tilstilli rafrænna og stafrænna lausna.

Um 41. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðið eintak komi í stað orðsins endurrit af þeim ástæðum sem áður eru raktar í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr.

Um 42. gr.

    Með a-lið er mælt fyrir um að í stað orðsins endurrit í 2. mgr. 202. gr. laganna verði eftirleiðis vísað til dóms, úrskurða og þingbókar en þessi gögn eru meðal dómsgerða sem héraðsdómur afhendir ríkissaksóknara skv. 1. mgr. sama lagaákvæðis. Ljóst er að dómur sá sem skotið er til Landsréttar heyrir til þessara gagna, sem og þingbók málsins, en ekki er einhlítt að úrskurður eða úrskurðir hafi verið kveðnir upp við meðferð málsins í héraði og kann því að vera að enginn slíkur liggi fyrir. Að öðru leyti vísast til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í kafla 3.1 og skýringum við fyrri ákvæði frumvarpsins.
    Í b-lið er einnig lagt til að orðin „í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á“ í 2. málsl. 2. mgr. 202. gr. laganna falli brott. Með því verður eftirleiðis ekki mælt fyrir um fjölda eintaka málsgagna í málum sem áfrýjað er til Landsréttar samkvæmt lögunum, heldur látið við það sitja að kveða á um að gögn málsins skuli senda Landsrétti. Ástæða þessa er sú að á grunni jafngildisákvæðis 1. gr. frumvarpsins, sem verður 2. gr. a verði frumvarpið að lögum, yrði jafngilt að miðla gögnum til Landsréttar á stafrænu, rafrænu eða bréflegu formi og er því ekki lengur nauðsynlegt að mæla fyrir um fjölda eintaka gagna líkt og gert er að gildandi rétti. Líkt og rakið var í skýringum við 35. gr. frumvarpsins verður þó í því sambandi að hafa hugfast að jafnframt er ráðgert að dómstólasýslan setji reglur um form og frágang dómskjala skv. g-lið 2. mgr. 17. gr. laganna, og þá geti Landsréttur sett nánari reglur þar um á grunni 3. mgr. 202. gr. sömu laga verði frumvarpið að lögum. Frekari útfærslu á gagnaframlagningu verður því að finna í reglum.
    Með c-lið er mælt fyrir um að Landsrétti sé heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna og dómsgerða. Líkt og rakið var í skýringum við e-lið 9. gr. og 35. og 38. gr. er ráðgert, með vísan til núgildandi regluheimildar í g-lið 2. mgr. 17. gr. laganna, að dómstólasýslan geti sett samræmdar reglur fyrir dómstóla landsins, að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig, um form og frágang dómskjala, þ.m.t. afhendingarmáta og miðlun gagna og tilkynninga. Er þá einkum horft til aukins samræmis milli dómstiga að því marki sem það er nauðsynlegt, sér í lagi við raf- og stafræna málsmeðferð. Því er 3. mgr. 202. gr. laganna ætlað að vera þeim almennu reglum sem dómstólasýslan setur til fyllingar. Í því sambandi er rétt að geta þess að á grunni 4. mgr. 195. gr. laganna verður reglum um áfrýjunarmál beitt um kærumál eftir því sem við getur átt og því væri rétt að taka mið af meðferð slíkra mála við framangreinda reglusetningu.

Um 43. gr.

    Með þessari grein er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. 203. gr. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í kafla 3.1.

Um 44. gr.

    Þær breytingar sem mælt er fyrir um á málsmeðferð kærumála fyrir Hæstarétti skv. 213. gr. laganna svara til þeirra breytinga sem ráðgerðar eru á meðferð kærumála fyrir Landsrétti skv. 194. gr. laganna með 39. gr. frumvarpsins. Þar af er þó sérstaklega vert að árétta að ráðgert er með e-lið 9. gr. frumvarpsins að dómstólasýslan setji reglur um form, frágang og afhendingarmáta dómskjala skv. g-lið 2. mgr. 17. gr. laganna, og þá geti Hæstiréttur sett nánari reglur þar um á grunni 3. mgr. 219. gr. sömu laga, sbr. 4. mgr. 214. gr. laganna. Frekari útfærsla á gagnaframlagningu verður því að finna í reglum.

Um 45. gr.

    Með þessari grein er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 3. mgr. 214. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 46. gr.

    Með þessari grein er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 3. mgr. 217. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 47. gr.

    Með þessari grein er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 5. mgr. 218. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 48. gr.

    Þær breytingar sem mælt er fyrir um á meðferð áfrýjaðra mála fyrir Hæstarétti skv. 219. gr. laganna svara til þeirra breytinga sem ráðgerðar eru á meðferð áfrýjunarmála fyrir Landsrétti skv. 202. gr. laganna með 42. gr. frumvarpsins.


Um 49. gr.

    Með þessari grein er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins afrit í 1. mgr. 220. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.


Um 50. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt ákvæði, 1. gr. a, verði tekin upp í lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem leggi málsmeðferð á stafrænan og rafrænan máta samkvæmt lögunum að jöfnu við málsmeðferð sem miðast við pappír. Almennt verði þannig jafngilt að gögn og tilkynningar berist á milli þeirra sem aðkomu eiga að málum sem rekin eru samkvæmt lögunum á hvern þann máta sem ákvæðið heimilar, auk þess sem rafræn staðfesting verði lögð að jöfnu við undirritun með eigin hendi.
    Um skýringar á 1.–4. mgr. ákvæðisins vísast til skýringa á 1.–4. mgr. sams konar ákvæðis sem ætlunin er að verði að 2. gr. a í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins, sbr. einnig almennar skýringar í kafla 3.1 sem þar er vísað til. Þess er þó að gæta að með þeim sem aðkomu eiga að máli á grundvelli laga um meðferð einkamála er til að mynda átt við lögmenn, dómara, starfsfólk dómstóla, málsaðila, vitni eða hvern þann annan sem málsmeðferð laganna tekur til hverju sinni.
    Í þessu frumvarpi er ekki mælt fyrir um breytingar á birtingu skv. VIII. kafla laga um meðferð einkamála.

Um 51. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til sú orðalagsbreyting að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit um þá aðstöðu að dómari láti af hendi eintak málskjala skv. 4. mgr. 6. laga um meðferð einkamála án þess að málsskjöl séu afhent viðtakanda fyrir fullt og allt. Um sams konar aðstöðu er að ræða og í 3. mgr. 7. gr. laga um meðferð sakamála og fjallað hefur verið um í skýringum við 2. gr. frumvarpsins, en umfjöllun um hugtakið eintak er jafnframt í kafla 3.1 og skýringum við 1. gr.

Um 52. gr.

    Með þessari grein er lagt til að við 8. gr. laganna bætist tvær nýjar málsgreinar sem fjalla um almenna heimild dómara til að ákveða að þinghald, þar með talið þingfesting og aðalmeðferð, fari fram í gegnum fjarfundabúnað. Nánar er fjallað um skýrslugjafir fyrir dómi í einkamálum í 59. gr. frumvarpsins.
    Nánar tiltekið er lagt til með nýrri 4. mgr. 8. gr. laganna að dómari geti heimilað þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundabúnað að því tilskildu að allir sem eru viðstaddir, bæði þeir sem hlut eiga að málsmeðferðinni og almenningur, geti fylgst með því sem fram fer. Ekki þykja þó efni til að binda hendur dómara í þeim efnum, svo með áskilnaði um að ávallt sé hægt að fylgjast með þinghaldi bæði í hljóði og mynd heldur ráðist það af atvikum hverju sinni, svo sem á hvaða stigi málsmeðferð er og hvort skýrslugjafir fari fram í þinghaldi. Í einhverjum tilvikum kann þannig að vera nægilegt að viðkomandi heyri öll orðaskipti. Þá er í ljósi meginreglunnar um opinbera málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð einkamála, ekki lagt til að heimilt verði að halda þinghald einungis í gegnum fjarfundabúnað, til að mynda þannig að þinghald verði háð á lokuðum fjarfundi sem einungis dómari og málsaðilar hafi aðgang að. Í því felst einnig að málsaðilum og öðrum er ávallt heimilt að mæta í dómsal kjósi þeir svo, jafnvel þótt sumir taki þátt í gegnum fjarfundabúnað.
    
Ljóst er að mikið hagræði getur verið fólgið í því bæði fyrir málsaðila og málsmeðferðina í heild sinni að halda þinghald í gegnum fjarfundabúnað, bæði með tilliti til tímasparnaðar og kostnaðar, og þykir þannig ekkert því til fyrirstöðu að heimildinni verði beitt í talsverðum mæli við meðferð einkamála, svo fremi sem réttaröryggi sé tryggt að öðru leyti. Í því sambandi er þó álitið æskilegt að dómari ráðfæri sig við málsaðila áður en ákvörðun er tekin um að heyja þing í gegnum fjarfundabúnað og um nauðsynlega útfærslu þess eftir því sem efni standa til. Í því tilliti er m.a. mikilvægt að huga að tækjabúnaði og öryggi og öðrum ráðstöfunum sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja skilvirkni og varna því að gengið sé á rétt ákærða til réttlátrar málsmeðferðar.
    
Svo sem rakið er í kafla 3.3 þarf að horfa til ýmissa atriða bæði við ákvörðun um hvort þinghald verði haldið í gegnum fjarfundabúnað sem og við framkvæmd þess. Því er lagt til með nýrri 5. mgr. 8. gr. laganna að dómstólasýslunni verði falið að setja leiðbeinandi reglur þar um, þar á meðal um skýrslugjöf fyrir dómi. Þær reglur gætu eftir atvikum fjallað um undirbúning ákvörðunar um þátttöku í þinghaldi og skýrslugjöf, í gegnum fjarfundabúnað, svo sem æskilega staðsetningu skýrslugjafa, í hvaða málum slíkt fyrirkomulag kæmi einkum til greina, og í hvaða málum það kæmi síður til greina, sem og til hvaða ráðstafana þykir rétt að grípa til svo að réttindi málsaðila og skýrslugjafa verði ekki fyrir borð borin. Jafnframt gætu slíkar reglur fjallað um tæknibúnað og öryggismál, svo fleiri dæmi séu tekin.

Um 53. gr.

    Ákvæðið, sem varðar breytingu á 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála, er efnislega samhljóða 4. gr. frumvarpsins sem varðar sams konar breytingu á 2. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála. Um skýringu ákvæðisins vísast eftir því sem við á til skýringa við 4. gr.

Um 54. gr.

    Ákvæðið, sem varðar breytingar á 11. gr. laga um meðferð einkamála, lýtur að sams konar breytingum á þeim lögum og mælt er fyrir um á 13. gr. laga um meðferð sakamála með 5. gr. frumvarpsins. Um skýringar á einstaka stafliðum ákvæðisins vísast því eftir því sem við á til skýringa við 5. gr., sbr. einnig þar tilgreindur kafli 3.2 í frumvarpinu.

Um 55. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 12. gr. laga um meðferð einkamála sem svara til þeirra breytinga sem með 6. gr. og a-lið 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til á 14. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um meðferð sakamála. Um skýringar á þessum breytingum vísast því til skýringa við þær greinar frumvarpsins að teknu tilliti til þess að hér ræðir um breytingu á lögum um meðferð einkamála.

Um 56. gr.

    Í þessu tilviki er mælt fyrir um breytingar á 13. gr. laga um meðferð einkamála sem eru af sama toga og þær breytingar sem mælt er fyrir um á 15. gr. laga um meðferð sakamála með 7. gr. frumvarpsins. Greinin þykir því ekki þarfnast annarra skýringar en þar eru raktar, að teknu tilliti til þess að hér ræðir um breytingu á lögum um meðferð einkamála.

Um 57. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 14. gr. laga um meðferð einkamála sem eru af sama toga og mælt er fyrir um með 8. gr. frumvarpsins um breytingu á 16. gr. laga um meðferð sakamála. Um skýringar á greininni vísast því eftir því sem við á til skýringa við 8. gr. frumvarpsins.

Um 58. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um breytingar á 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála. Þessar breytingar eru af sama meiði og þær sem ætlunin er að gera á 2. mgr. 17. gr. laga um meðferð sakamála með d-lið 9. gr. frumvarpsins. Um skýringar á greininni vísast því eftir því sem við á til skýringa við 9. gr.

Um 59. gr.

    Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laganna getur dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af vitni í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki ef vitni er statt fjarri þingstað eða það hefði annars sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem eru staddir á dómþingi heyri orðaskipti við vitnið. Lagt er til að þessi heimild verði rýmkuð þannig að dómari geti ákveðið að vitni gefi skýrslu í gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, ekki einungis í þeim tilvikum sem nú greinir í ákvæðinu, heldur einnig ef dómari telur það greiða fyrir málsmeðferð að öðru leyti. Það gæti til dæmis átt við ef það kemur í veg fyrir óþarfa tafir við skýrslutökur fyrir dómi. Ekki þykir tilefni til að áskilja að skýrslugjöf vitnis fari fram bæði í hljóði og mynd heldur ráðist það af atvikum og mikilvægi framburðar hverju sinni hvort slíkt teljist nauðsynlegt.
    Þá þarf einnig í þessu samhengi að vera unnt að staðreyna að vitni sé í raun og veru sá/sú sem það segist vera, sem og að skýrslugjöf þess sé óþvinguð og verði ekki fyrir utanaðkomandi truflun eða áhrifum. Skv. 1. mgr. 56. gr. laga um meðferð einkamála ber dómara m.a. að láta vitni gera grein fyrir nafni sínu, kennitölu og heimili og leiða athygli þess að þeirri refsiábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislegum röngum framburði, svo og að þess kunni að verða krafist að vitni staðfesti framburði sinn með eiði eða drengskaparheiti. Ekki þykir rétt að binda hendur dómara við mat á því hvort frekari staðfestingar á auðkenni eða aðstæðum vitnis sé þörf, en í þeim efnum gæti þó til að mynda komið til greina að vitni gæfi skýrslu í húsakynnum annars dómstóls, á lögreglustöð, í sendiráði eða hjá öðrum aðila sem gæti staðfest auðkenni þess og að vitni gefi skýrslu án truflunar. Ætla verður að þörf á því verði meiri eftir því sem skýrslugjöf hefur meiri þýðingu fyrir úrslit máls.
    Þá skal jafnframt tekið fram að skv. b-lið 1. mgr. 143. gr. laga um meðferð einkamála sæta úrskurðir héraðsdómara um atriði varðandi skýrslugjöf vitna kæru til Landsréttar. Ágreiningur um það hvort vitni gæfi skýrslu í gegnum fjarfundabúnað félli þar undir.
    
Þá er rétt að taka fram að endingu að skv. 2. mgr. 49. gr. laganna fer eftir skýrslugjöf aðila fyrir dómi m.a. eftir 4. mgr. 51. gr. Því er ekki nauðsynlegt að gera breytingar á því ákvæði til að heimila skýrslugjöf aðila í gegnum fjarfundabúnað. Þá verður ákvæðum VIII. kafla sömu laga um vitni beitt um skýrslugjöf matsmanns eftir því sem við á, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna.

Um 60. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um sams konar breytingu á 1. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála og ráðgerð er á 1. mgr. 129. gr. laga um meðferð sakamála með 24. gr. frumvarpsins. Um skýringar ákvæðisins vísast því til skýringa við þá grein frumvarpsins.

Um 61. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um að orðið eintak verði notað fremur en eftirrit um skjal sem aðila máls ber að leggja fram að framkomnum mótmælum gagnaðila samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður þeirrar orðnotkunar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.


Um 62. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um breytingar á 1. mgr. 74. gr. laga um meðferð einkamála sem eru af sama meiði og þær sem ætlunin er að gera á 1. mgr. 139. gr. laga um meðferð sakamála með 25. gr. frumvarpsins. Um skýringar á greininni vísast því eftir því sem við á til skýringa við þá grein frumvarpsins og kafla 3.1 að því leyti sem vísað er til þess kafla frumvarpsins í þeirri frumvarpsgrein.

Um 63. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um að 2. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála falli brott. Tilurð ákvæðisins má rekja til sjónarmiða um varðveislu eintaks stefnu máls ef stefnandi hefur aðeins uppi kröfur í máli sem unnt er að fullnægja með aðför. Stefna í máli þar sem þetta á við kann að verða árituð af dómstól skv. 1. mgr. 113. gr. sömu laga og hafa þau málalok sama gildi og dómur, sbr. 2. mgr. þess ákvæðis laga um meðferð einkamála. Til samræmis við þá ráðagerð að mæla ekki lengur fyrir um fjölda eintaka í lögunum og þar sem það þykir nægjanlegt að héraðsdómstóll haldi eftir eintaki stefnu sem miðlað er til héraðsdóms, eftir atvikum bréflega, rafrænt eða stafrænt, þykja ekki efni til að mæla fyrir um framlagningu annars eintaks stefnu til héraðsdóms eins og tilgreint er í 2. mgr. 80. gr. laganna. Verði frumvarpið að lögum mun héraðsdómstóll því eftirleiðis varðveita eintak hinnar árituðu stefnu, líkt og aðrar dómsúrlausnir, án þess að sérstaklega sé mælt fyrir um form hins varðveitta gagns í lögum um meðferð einkamála.

Um 64. gr.

    Lögð er til sú breyting á orðalagi 3. mgr. 81. gr. laga um meðferð einkamála að tiltekið verði að drengskaparheit sé staðfest í stað þess að slíkt heit sé undirritað. Með því er haft í huga að hið nýja orðalag veiti meira svigrúm um framkvæmd með tilliti til tæknilegra lausna við framkvæmd laganna, án þess þó að lagt sé bann við undirritunum með eigin hendi.

Um 65. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðið staðfestir verði notað í a- og b-lið 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála í stað orðsins vottar um þær athafnir stefnuvotts, lögbókanda eða póstmanns sem þar greinir. Með því er haft í huga að hið nýja orðalag veiti meira svigrúm um framkvæmd með tilliti til tæknilegra lausna við framkvæmd laganna, án þess þó að lagt sé bann við vottun með eigin hendi.
    Þá er mælt fyrir um að orðið eintak verði notað í stað orðsins samrit í b-lið 1. mgr. 83. gr. og a-lið 3. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 66.–68. gr.

    Í 66., 67. og 68. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að orðið eintak verði notað í stað orðsins samrit, í viðeigandi beygingum, á þar tilgreindum stöðum í 84., 86. og 93. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 69. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um þá breytingu á 109. gr. laga um meðferð einkamála að orðið staðfest komi í stað orðsins undirrituð þegar aðilar máls gangast undir skriflega dómsátt. Sem fyrr greinir þykir hið nýja orðalag veita aukið svigrúm með tilliti til tæknilegra lausna við framkvæmd laganna, án þess þó að lagt sé bann við því að málsaðilar staðfesti dómsátt með því að undirrita hana með eigin hendi.

Um 70. og 71. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit um dóm eða úrskurð sem aðilum máls skal vera til reiðu í kjölfar uppkvaðningar skv. 3. mgr. 115. gr. og 3. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Breytingarnar eru að því leyti af sama toga og þær sem með 36. og 37. gr. frumvarpsins eru lagðar til á 2. og 3. mgr. 185. gr. og 3. mgr. 186. gr. laga um meðferð sakamála. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast að öðru leyti til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 72. gr.

    Hér er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 1. mgr. 121. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.


Um 73. gr.

    Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til með notkun orðsins eintak í lögum um meðferð einkamála er lagt til að gerð eintaka verði aukið við 1. mgr. 129. gr. laganna um þau atriði sem teljast skuli til málskostnaðar við meðferð einkamála.


Um 74. gr.

    Hér er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins eftirrit um ný gögn sem kærandi greinir frá í kæru til Landsréttar og lætur fylgja henni en eru ekki í frumriti. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 75. gr.

    Með ákvæðinu er að mestu mælt fyrir um samsvarandi breytingar á 147. gr. laga um meðferð einkamála og lagðar eru til með 39. gr. frumvarpsins á 194. gr. laga um meðferð sakamála.
    Með a-lið 75. gr. er þannig lagt til að orðin „og í þeim fjölda sem Landsréttur ákveður“ í 1. málsl. 3. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála falli brott. Með því verður eftirleiðis ekki mælt fyrir um form og fjölda eintaka málsgagna í kærumálum samkvæmt lögunum fyrir Landsrétti, heldur verður látið við það sitja að kveða á um að gögn málsins skuli senda Landsrétti. Ástæða þessa er sú að á grunni ákvæðis 1. gr. frumvarpsins, sem verður 1. gr. a verði það að lögum, yrði jafngilt að miðla gögnum til Landsréttar á stafrænu, rafrænu eða bréflegu formi og er því ekki lengur nauðsynlegt að mæla fyrir um fjölda eintaka gagna líkt og gert er að gildandi rétti. Í því sambandi verður þó að hafa hugfast að jafnframt er ráðgert að dómstólasýslan setji reglur um form og frágang dómskjala skv. g-lið 2. mgr. 15. gr. laganna, og þá geti Landsréttur sett nánari reglur þar um á grunni 6. mgr. 147. gr. sömu laga. Frekari útfærsla á gagnaframlagningu verður því að finna í reglum.
    Tillaga í b-lið 75. gr. lýtur einnig að því að ekki verður þörf á að tilgreina fjölda eintaka sem afhent eru gagnaðila. Þar er lagt til að orðið „eitt“ falli brott.
    Þá þykir, vegna g-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um meðferð einkamála og 6. mgr. 147. gr. sömu laga ekki þörf á að í 3. mgr. 147. gr. laganna sé einnig vísað til þess horfs sem kærumálsgögn skuli vera í. Því er einnig mælt fyrir um það með c-lið 75. gr. frumvarpsins að orðin „og skulu þau vera í því horfi sem Landsréttur mælir fyrir um“ falli brott.
    Með d-lið 75. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að Landsrétti sé heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna í kærumálum. Svo sem vísað er til í skýringum við 58. gr. frumvarpsins er dómstólasýslunni með vísan til núgildandi regluheimildar í g-lið 2. mgr. 15. gr. laganna ætlað að setja samræmdar reglur fyrir dómstóla landsins, að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig, um form, frágang og afhendingarmáta dómskjala. Er þá einkum horft til aukins samræmis milli dómstiga að því marki sem það er nauðsynlegt, sér í lagi við rafræna og stafræna málsmeðferð. Því er 6. mgr. 147. gr. laganna ætlað að vera þeim almennu reglum, sem dómstólsýslan setur til fyllingar. Í því sambandi er rétt að geta þess að á grunni 4. mgr. 150. gr. laganna verður reglum um áfrýjunarmál beitt um kærumál eftir því sem við getur átt og því væri rétt að taka mið af meðferð slíkra mála við framangreinda reglusetningu.
    Með d-lið ákvæðisins er orðinu „aðila“ einnig bætt við 6. mgr. 147. gr. laga um meðferð einkamála til þess að taka af allan vafa um að þar tilgreindar reglur Landsréttar eigi hvort tveggja við um málsgögn sóknar- og varnaraðila í kærumálum fyrir réttinum. Viðbótin kemur einkum til vegna þess að með 76. gr. frumvarpsins er fallið frá því að Landsréttur mæli fyrir um horf kærumálsgagna varnaraðila. Nægjanlegt þykir að mælt sé fyrir um heimild til reglusetningar vegna kærumálsgagna aðila í einu lagi í 6. mgr. 147. gr. laganna.

Um 76. gr.

    Þær breytingar sem ráðgerðar eru á 148. gr. laga um meðferð einkamála með 76. gr. frumvarpsins leiða af breytingartillögum 75. gr. þess og þykja ekki þarfnast frekari skýringa en tilgreindar eru í skýringum við það ákvæði. Í því sambandi er þó vert að árétta að þær reglur sem Landsrétti er heimilt að setja á grunni 6. mgr. 147. gr. laganna þykja nægjanlegar þegar kemur að því að mæla fyrir um gögn varnaraðila í kærumálum fyrir réttinum.

Um 77. gr.

    Hér er lagt til að orðið eintak verði notað í stað orðsins endurrit í 3. mgr. 150. gr. laganna. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 78. gr.

    Með a-lið er lögð til sams konar breyting og í fyrri ákvæðum frumvarpsins þannig að orðið eintak komi í stað orðsins endurrit í 1. mgr. 154. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.
    Þá er með b-lið einnig lögð til breyting á orðalagi þannig að eftirleiðis verði orðið skrifleg notað í stað orðsins bréfleg um þá tilkynningu skv. 5. mgr. 154. gr. laga um meðferð einkamála að Landsréttur synjar um áfrýjunarleyfi. Er þá haft í huga að orðið skrifleg hafi víðtækari skírskotun á meðan hið fyrra vísi fremur til þess að tilkynning sé á pappír. Líkt og rakið er í kafla 3.1 þykir orðið skrifleg vísa til ritaðrar málsmeðferðar og á það því fremur við en orðið bréfleg þegar tilkynningar eru sendar með fulltingi rafrænna og stafrænna lausna, en getur einnig átt við um það að tilkynning sé rituð á pappír.

Um 79. gr.

    Með a-lið er lögð til sams konar breyting og í fyrri ákvæðum frumvarpsins þannig að orðið eintak komi í stað orðsins endurrit í 1. mgr. 155. gr. laga um meðferð einkamála. Um ástæður vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.
    Sú breyting sem mælt er fyrir um í b-lið 79. gr. leiðir af því að ef frumvarpið verður að lögum verður ekki lengur mælt sérstaklega fyrir um eintakafjölda gagna heldur verður nægjanlegt að tilgreina að Landsréttur haldi eftir eintaki áfrýjunarstefnu skv. 1. mgr. 155. gr. við áfrýjun máls til réttarins. Að öðru leyti mun fara á sams konar vegu um útgáfu slíkrar stefnu af hálfu Landsréttar, að teknu tilliti til þess að rafrænar og stafrænar lausnir kunna að gefa færi á öðru verklagi en viðtekið hefur verið með því að eintökum áfrýjunarstefnu hefur verið skilað á pappírsformi til réttarins.

Um 80. gr.

    Í a-lið er lagt til að orðin „í þeim fjölda eintaka sem hann telur þörf á“ í 2. málsl. 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála falli brott. Með því verður eftirleiðis ekki mælt fyrir um fjölda eintaka málsgagna í málum sem áfrýjað er til Landsréttar samkvæmt lögunum, heldur látið við það sitja að kveða á um að gögn málsins skuli senda Landsrétti. Ástæða þessa er sú að á grunni jafngildisákvæðis 1. gr. frumvarpsins, sem verður 1. gr. a laganna verði frumvarpið að lögum, yrði jafngilt að miðla gögnum til Landsréttar á stafrænu, rafrænu eða bréflegu formi og er því ekki lengur nauðsynlegt að mæla fyrir um fjölda eintaka gagna líkt og gert er að gildandi rétti. Líkt og vísað er til í skýringum við 58. gr. frumvarpsins verður þó í því sambandi að hafa hugfast að jafnframt er ráðgert að dómstólasýslan setji reglur um form og frágang dómskjala samkvæmt g-lið 2. mgr. 15. gr. laganna, og þá geti Landsréttur sett nánari reglur þar um á grunni 4. mgr. 156. gr. sömu laga, verði frumvarpið að lögum. Frekari útfærsla á gagnaframlagningu verður því að finna í reglum.
    Með a-lið er einnig mælt fyrir um að í stað orðanna „endurrit, þar á meðal“ í 2. málsl. 1. mgr. 156. gr. laganna komi „dómur, úrskurðir og þingbók, uppritun“. Þessi breyting á orðalagi helgast af því að þessi gögn eru þau gögn úr málsmeðferð einkamáls í héraði sem stafa frá dómstólnum en teljast ekki til framlagðra málsgagna hins áfrýjaða máls, en samkvæmt því sem mælt er fyrir um síðar í sama málslið skal áfrýjandi einnig skila þar tilgreindum málskjölum sem hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Landsrétti til réttarins. Ljóst er að dómur sá sem skotið er til Landsréttar heyrir til þessara gagna, sem og þingbók málsins, en ekki er einhlítt að úrskurður eða úrskurðir hafi verið kveðnir upp við meðferð málsins í héraði og kann því að vera að enginn slíkur liggi fyrir. Þá er orðinu uppritun aukið við málsliðinn á undan munnlegum framburði fyrir héraðsdómi þar sem orðið endurrit hafði áður þá merkingu að vísa til þess að þessi framburður yrði ritaður eftir þeim sem hafði gefið skýrslu. Upp- eða endurritaður framburður er ekki hluti af þingbók skv. 11. gr. laganna, heldur leiðir áskilnaður um framlagningu endurrits munnlegs framburðar af gildandi 2. málsl. 1. mgr. 156. gr. Orðið uppritun þykir að þessu leyti hafa sömu merkingu, án þess að geta jafnframt verið skýrt sem afrit eða önnur útgáfa þeirra gagna sem fjallað er um í málsliðnum.
    Með b-lið er mælt fyrir um að Landsrétti sé heimilt að setja nánari reglur um frágang málsgagna og dómsgerða. Svo sem vísað er til í skýringum við 58. gr. er dómstólasýslunni með vísan til núgildandi regluheimildar í g-lið 2. mgr. 15. gr. laganna ætlað að setja samræmdar reglur fyrir dómstóla landsins, að höfðu samráði við hlutaðeigandi dómstig, um form og frágang dómskjala, þar með talið afhendingarmáta og miðlun gagna og tilkynninga. Er þá einkum horft til aukins samræmis milli dómstiga að því marki sem það er nauðsynlegt, sér í lagi við rafræna og stafræna málsmeðferð. Því er 4. mgr. 156. gr. laganna ætlað að vera þeim almennu reglum, sem dómstólsýslan setur, til fyllingar.
    Með b-lið er orðinu „aðila“ jafnframt bætt við 4. mgr. 156. gr. laga um meðferð einkamála til þess að taka af allan vafa um að þar tilgreindar reglur Landsréttar eigi hvort tveggja við um málsgögn áfrýjanda og stefnda. Viðbótin kemur einkum til vegna þess að með 82. gr. frumvarpsins er felld á brott tilvísun til 3. mgr. 159. gr. laganna án þess að ætlunin sé að reglur Landsréttar varði eftirleiðis einungis áfrýjanda.


Um 81. gr.

    Hér er mælt fyrir um orðalagsbreytingu af sama toga og mælt er fyrir um í b-lið 78. gr. frumvarpsins. Þannig verði orðið skrifleg eftirleiðis notað í stað orðsins bréfleg í tilviki tilkynningar stefnda skv. 1. mgr. 158. gr. laga um meðferð einkamála þess efnis hvort hann hyggist skila greinargerð. Er þá haft í huga að orðið skrifleg hafi víðtækari skírskotun á meðan hið fyrra vísi fremur til þess að tilkynning sé á pappír. Líkt og rakið er í kafla 3.1 þykir orðið skrifleg vísa til ritaðrar málsmeðferðar og á það því fremur við en orðið bréfleg þegar tilkynningar eru sendar með fulltingi rafrænna og stafrænna lausna, en getur einnig átt við um það að tilkynning sé rituð á pappír.

Um 82. gr.

    Með a-lið er mælt fyrir um að orðin „í þeim fjölda sem Landsréttur ákveður í“ í 2. mgr. 159. gr. laga um meðferð einkamála falli brott. Í lagaákvæðinu er fjallað um málsgögn stefnda í málum sem áfrýjað er til Landsréttar, en um skýringu á þessu ákvæði vísast eftir því sem við á til skýringa á a-lið 80. gr. frumvarpsins sem varðar málsgögn áfrýjanda fyrir réttinum.
    Með b-lið er mælt fyrir um brottfall 3. mgr. 159. gr. laga um meðferð einkamála þar sem nægjanlegt þykir að breytt 4. mgr. 156. gr. gr. laganna, sbr. b-liður 80. gr. frumvarpsins, vísi til málsgagna aðila máls sem áfrýjað er til Landsréttar.

Um 83. gr.

    Með a-lið er mælt fyrir um að fellt verði brott það orðalag 1. mgr. 160. gr. laga um meðferð einkamála að sérstaklega sé tilgreint að þar tilgreind framlögð gögn aðila skuli afhent í frumriti og ljósriti eða eftirriti þeirra þar sem nægjanlegt þykir að kveðið sé á um að gögnin séu afhent réttinum. Stafliðurinn þykir ekki þarfnast frekari skýringa.
    Með b-lið er mælt fyrir um að orðið eintak komi í stað endurrits í 1. mgr. 160. gr. sömu laga af þeim ástæðum sem raktar eru í kafla 3.1 og í skýringum við 1. gr.

Um 84. gr.

    Hér er einnig mælt fyrir um að orðið eintak komi í stað endurrits, að þessu sinni í 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála sem varðar kæru til Hæstaréttar. Ástæður orðalagsbreytingarinnar eru sem fyrr af þeim toga sem rakinn er í kafla 3.1 og í skýringum við 1. gr.

Um 85. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um breytingar á 171. gr. laga um meðferð einkamála vegna kæra til Hæstaréttar sem svara að öllu leyti til þeirra breytinga sem ráðgerðar eru með 75. gr. frumvarpsins á 147. sömu laga vegna kæra til Landsréttar. Um skýringar á ákvæðinu vísast því eftir því sem við á til skýringa við 74. gr. frumvarpsins.

Um 86. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um breytingar á 172. gr. sömu laga sem svara að öllu leyti til þeirra breytinga sem ráðgerðar eru með 76. gr. frumvarpsins á 148. gr. sömu laga og þykja því ekki þarfnast frekari skýringa.

Um 87. gr.

    Hér er lagt til að orðið eintak verði notað um dóm í stað orðsins endurrit í 4. mgr. 174. gr. laganna um það þegar Hæstiréttur sendir Landsrétti og eftir atvikum héraðsdómara dóm Hæstaréttar. Breytingin er af sama toga og sú sem mælt er fyrir um á 3. mgr. 150. gr. sömu laga með 77. gr. frumvarpsins að því er varðar úrskurði Landsréttar. Um ástæður orðnotkunarinnar vísast til kafla 3.1 og skýringa við 1. gr.

Um 88. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um sams konar breytingar á 178. gr. laga um meðferð einkamála vegna umsóknar um áfrýjunarleyfi og ráðgerðar eru með 78. gr. frumvarpsins á 154. gr. sömu laga að því er slíka umsókn var varðar fyrir Landsrétti. Um skýringar vísast því eftir því sem við á til skýringa við 78. gr. frumvarpsins.

Um 89. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um sams konar breytingar á 2. mgr. 179. gr. laga um meðferð einkamála vegna útgáfu áfrýjunarstefnu fyrir Hæstarétti og ráðgerð er með b-lið 79. gr. frumvarpsins á 2. mgr. 155. gr. sömu laga að því er útgáfu áfrýjunarstefnu fyrir Landsrétti varðar. Um skýringar ákvæðisins vísast því eftir því sem við á til skýringa við b-lið 79. gr.

Um 90. gr.

    Með ákvæðinu er mælt fyrir um sams konar breytingar á 180. gr. laga um meðferð einkamála vegna málsmeðferðarinnar fyrir Hæstarétti og ráðgerð er með 80. gr. frumvarpsins á 156. gr. sömu laga að því er málsmeðferðina fyrir Landsrétti varðar. Um skýringar ákvæðisins vísast því eftir því sem við á til skýringa við 80. gr.

Um 91. gr.

    Hér er um að ræða sams konar breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 182. gr. laganna að því er varðar tilkynningu stefnda um hvort hann hyggist halda uppi vörnum við meðferð máls sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar og ráðgerð er með 81. gr. frumvarpsins á 1. mgr. 158. gr. laganna að því er meðferð þess háttar mála fyrir Landsrétti varðar. Um skýringu á 91. gr. vísast því til skýringar við 81. gr. eftir því sem við á, hvað varðar tilkynningu stefnda við meðferð áfrýjaðs máls fyrir Hæstarétti.

Um 92. gr.

    Hér ræðir um breytingu af sama toga á 183. gr. laganna og ráðgerð er með 82. gr. frumvarpsins á meðferð áfrýjaðra mála fyrir Landsrétti. Um skýringu á 92. gr. vísast því til skýringar við 82. gr. eftir því sem við á.

Um 93. gr.

    Hér ræðir um sams konar breytingu á 1. mgr. 184. gr. laganna að því er málsmeðferð fyrir Hæstarétti varðar og ráðgerð er með 83. gr. frumvarpsins á meðferð áfrýjaðra mála fyrir Landsrétti. Um skýringu á 93. gr. vísast því til skýringar við 83. gr. eftir því sem við á.

Um 94. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði á um það í 2. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að þeim sem lýsir kröfu á hendur þrotabúi sé heimilt að koma skriflegri kröfulýsingu á framfæri við skiptastjóra á fleiri formum en einungis á pappír. Líkt og fjallað er um í kafla 3.6 hefur í dómaframkvæmd sá áskilnaður að kröfulýsing skuli verið skrifleg verið skýrður svo að krafa ásamt fylgigögnum verði að berast á pappír innan kröfulýsingarfrests á þann stað sem tiltekinn er í innköllun vegna gjaldþrotaskipta, sbr. 4. tölul. 1. og 2. mgr. 85. gr. sömu laga. Með því að taka berum orðum fram að kröfulýsing megi vera hvort heldur sem er stafræn, rafræn eða bréfleg er kröfuhöfum því játuð heimild til að bera kröfu sína upp á þá þrjá vegu. Auk hins viðtekna bréflega máta geti þannig kröfuhafi til að mynda framvegis beint kröfu til skiptastjóra, innan þeirra tímamarka sem 6. mgr. 117. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. áskilur, með tölvupósti til skiptastjóra eða gegnum vefviðmót eða á annan stafrænan máta sem sjá má fyrir sér að unnt kunni að verða að bjóða upp á.

Um 95. gr.

    Í greininni er fjallað um gildistöku og þarfnast ákvæðið ekki skýringa.