Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1302, 138. löggjafarþing 485. mál: hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl. (ein hjúskaparlög).
Lög nr. 65 22. júní 2010.

Lög um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).


I. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Í stað orðanna „karls og konu“ í 1. gr. laganna kemur: tveggja einstaklinga.

2. gr.

     1. málsl. 7. gr. laganna orðast svo: Tveir einstaklingar mega stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri.

3. gr.

     Í stað orðsins „maður“ í 1. málsl. 8. gr. laganna kemur: einstaklingur.

4. gr.

     Í stað orðsins „mann“ í 11. gr. laganna kemur: þann.

5. gr.

     Við lögin bætist ný grein, svohljóðandi:
     Einstaklingar í staðfestri samvist, sem stofnað hefur verið til samkvæmt lögum nr. 87/1996, og hefur ekki verið slitið, geta fengið samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Einstaklingar sem óska eftir slíkri viðurkenningu skulu báðir undirrita yfirlýsingu þess efnis sem beint skal til Þjóðskrár. Breytingin miðast við þann dag þegar yfirlýsing er lögð fram í Þjóðskrá.
     Einstaklingar í staðfestri samvist, sbr. 1. mgr., geta einnig stofnað til hjúskapar skv. IV. kafla. Vottorð um að viðkomandi séu í staðfestri samvist kemur þá í stað könnunarvottorðs skv. III. kafla.
     Staðfest samvist, sem stofnað hefur verið til samkvæmt lögum nr. 87/1996, hefur sömu réttaráhrif og hjúskapur. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 114. gr. er ávallt heimilt að höfða mál skv. 113. gr. vegna staðfestrar samvistar fyrir íslenskum dómstólum hafi staðfesting farið fram hér á landi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 123. gr. er íslenskum stjórnvöldum ávallt heimilt að leysa úr málum vegna staðfestrar samvistar sem stofnað hefur verið til hér á landi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952.

6. gr.

     2. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skal t.d. einstaklingur í hjúskap, sem dvelur a.m.k. tvo mánuði í öðru sveitarfélagi en þar, sem hann telst eiga heimilisfang, án þess að um sé að ræða undantekningu frá tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. 3. gr., tilkynna aðsetur sitt, hvort sem um er að ræða slit á samvistum við maka hans eða ekki.

III. KAFLI
Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. gildir einnig um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

8. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði þessarar greinar gildir einnig um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

9. gr.

     Orðin „eða staðfestri samvist“ og orðin „eða stofnun staðfestrar samvistar“ í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.

10. gr.

     Orðin „staðfestar samvistir“ í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Karl og kona“ í 1. málsl. kemur: Tveir einstaklingar.
  2. 2. málsl. fellur brott.


VI. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum.

12. gr.

     100. gr. laganna orðast svo:
     Við slit á óvígðri sambúð getur annar sambúðarmaka eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.

13. gr.

     Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður sem verður 3. málsl., svohljóðandi: Með kenningu til föður í lögum þessum er einnig átt við kenningu til foreldris barns sem getið er við tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæði 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Orðin „einstaklingar í staðfestri samvist“ í 1. mgr. falla brott.
  2. Orðin „staðfestri samvist eða“ í 2. og 3. mgr. falla brott.


IX. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.

15. gr.

     Orðin „eða staðfestri samvist“ og „eða staðfestingu samvistar“ í e-lið 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
  1. Orðin „og samvistarmaki“ í 2. mgr. falla brott.
  2. Orðin „staðfestrar samvistar“ í 1. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 6. mgr. falla brott.
  3. Orðin „eða staðfestrar samvistar“ tvívegis í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
  4. Orðin „staðfestri samvist“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.


17. gr.

     Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í a-lið 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: eða sambúðarmaki.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í 3. mgr. kemur: eða sambúðarmaki.
  2. Í stað orðanna „sambúðarmaka eða samvistarmaka“ í 3. mgr. kemur: eða sambúðarmaka.


X. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gilda ákvæði 6. gr.


20. gr.

     5. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst móðir þess.
     Kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst foreldri barns sem þannig er getið. Sama á við um konur sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
     Maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst faðir barns sem þannig er getið. Sama á við um mann og konu sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
     Maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á annarri konu en eiginkonu sinni eða sambúðarkonu, sbr. 3. mgr., samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun verður ekki dæmdur faðir barns sem getið er með sæði hans.
     Maður sem gefið hefur sæði í öðrum tilgangi en greinir í 4. mgr. telst faðir barns sem getið er með sæði hans nema sæðið hafi verið notað án vitundar hans eða eftir andlát hans.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. Í stað „1. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. kemur: 3. mgr. 6. gr.
  2. Í stað orðsins „kjörmóðir“ í 2. mgr. kemur: foreldri.


23. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „kjörmóður“ í 1. og 2. mgr. kemur: foreldri.
  2. Í stað orðanna „mann eða kjörmóður skv. 2. mgr. 6. gr.“ í 3. mgr. kemur: foreldri.


XI. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

24. gr.

     Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ í 1. tölul. 3. mgr. 39. gr. a laganna falla brott.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

25. gr.

     Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ í 1. tölul. 3. mgr. 40. gr. a laganna falla brott.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, með síðari breytingum.

26. gr.

     Orðin „hvort sem viðkomandi var í hjúskap eða staðfestri samvist“ í 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. laganna falla brott.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum.

27. gr.

     1. tölul. 3. mgr. 100. gr. laganna orðast svo: Hjón, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í skráðri sambúð.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

28. gr.

     2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
     Sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig tveir einstaklingar sem búa saman, enda hafi óvígð sambúð þeirra verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram.

XVI. KAFLI
Breyting á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum.

29. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði í lögum þessum um hjón og maka eiga einnig við um einstaklinga í óvígðri sambúð eða sambúð af öðru tagi sem staðið hefur samfleytt í eitt ár. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.

30. gr.

     Orðin „staðfestri samvist“ í 4. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

31. gr.

     Orðin „samvistarmaka“ og „samvistarmaki“ í 1. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

32. gr.

     Orðin „eða samvistarmakar“ í c-lið 22. gr. laganna falla brott.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum.

33. gr.

     Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: eða sambúðarmaki.

34. gr.

     2. málsl. 5. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna skv. 1. og 3. mgr. liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

35. gr.

     2. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna skv. 1. mgr. liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

36. gr.

     2. málsl. 4. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

37. gr.

     49. gr. laganna orðast svo:
     Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð. Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman eða von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.

XX. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.

38. gr.

     Í stað orðanna „karl og konu eða tvo einstaklinga af sama kyni“ í 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: tvo einstaklinga.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.

39. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 17. gr. laganna:
  1. Orðin „staðfestri samvist, sbr. lög nr. 87/1996“ í 1. málsl. falla brott.
  2. Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
  3. 3. málsl. fellur brott.


XXII. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

40. gr.

     Í stað orðanna „óvígð sambúð eða staðfest samvist“ í 2. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur: eða óvígð sambúð.

41. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 16. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 1. málsl. kemur: hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga.
  2. Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
  3. 3. málsl. fellur brott.
  4. Í stað orðanna „stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar“ í 4. málsl. kemur: eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.


XXIII. KAFLI
Breyting á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998, með síðari breytingum.

42. gr.

      Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 12. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 1. málsl. kemur: hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga.
  2. Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
  3. 3. málsl. fellur brott.
  4. Í stað orðanna „stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar“ í 5. málsl. kemur: eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.


XXIV. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum.

43. gr.

     Orðin „eða staðfest samvist“ í 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

44. gr.

     Í stað orðanna „óvígða sambúð eða staðfesta samvist“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: eða óvígða sambúð.

45. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Þeim er nýtur lífeyris skv. 9. gr. og uppfyllir skilyrði 2. mgr. 8. gr. um hjúskap eða óvígða sambúð er skylt að tilkynna stjórn sjóðsins skriflega og án tafar ef maki eða sambúðaraðili fellur frá ellegar hjúskap eða óvígðri sambúð er slitið.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

46. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Einstaklingar í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er eða skrá má í þjóðskrá skv. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi verið samvistum í samfellt eitt ár hið skemmsta. Ríkisskattstjóra er heimilt að leita umsagnar Þjóðskrár þyki leika vafi á um að skráningarskilyrði séu uppfyllt.
  3. 4. mgr. fellur brott.


47. gr.

     80. gr. laganna orðast svo:
     Hjón sem samvistum eru, sbr. 5. gr., svo og tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafa samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr., skulu telja saman allar eignir sínar og skuldir og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni.

48. gr.

     Orðin „og einstaklinga í staðfestri samvist“ í 3. málsl. 1. mgr. 116. gr. laganna falla brott.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum.

49. gr.

     Orðin „einstaklingur í staðfestri samvist með arfleifanda“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, með síðari breytingum.

50. gr.

     Í stað orðanna „í sambúð eða staðfestri samvist“ í a-lið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: eða í sambúð.

51. gr.

     Í stað orðanna „staðfestri samvist“ í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: hjónabandi.

52. gr.

     Í stað orðanna „karlmaður sá og kona, sem leggja kynfrumurnar til, eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: karlmaður sá eða kona, sem leggur kynfrumurnar til, og maki viðkomandi eða sambúðarmaki.

53. gr.

     Í stað orðanna „karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, slíta hjúskap eða óvígðri sambúð eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð slíta henni“ í 1. málsl. 4. mgr. 10. gr. laganna kemur: par sem samþykkti geymslu fósturvísanna slítur hjúskap eða óvígðri sambúð sinni.

XXVIII. KAFLI
Gildistaka og brottfall laga.

54. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2010.
     Við gildistöku laga þessara falla brott lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 11. júní 2010.