Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2000. Útgáfa 125b. Prenta í tveimur dálkum.
Sjómannalög
1985 nr. 35 19. júní
I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr. Lög þessi gilda um alla sjómenn á íslenskum skipum. Samgönguráðherra getur sett reglur um að tiltekin ákvæði laga þessara eða lögin í heild taki ekki til sjómanna á einstökum flokkum skipa, svo og sjómanna á skipum sem eigi ná tiltekinni lágmarksstærð.
2. gr. Eftirtalin ákvæði laga þessara gilda, eftir því sem við á, um menn sem ráðnir eru á skip af útgerðarmanni eða skipstjóra til annarra starfa en skipsstarfa og um menn sem ráðnir hafa verið á skip af öðrum en útgerðarmanni eða skipstjóra:
1. 2. mgr. 8. gr. um lágmarksaldur,
2. 3. mgr. 8. gr. og 33. gr. um læknisskoðun,
3. 17. gr. um rétt konu til að fara úr skiprúmi ef hún verður vanfær,
4. 26. gr. um rétt til launa, ferðakostnaðar o.fl. ef skip ferst eða verður dæmt óbætandi,
5. 5. mgr. 37. gr. um greiðsluskyldu ríkissjóðs á kostnaði vegna umönnunar og heimferðar sökum kynsjúkdóms og berkla,
6. 38. gr. um greiðsluskyldu ríkissjóðs á tilteknum kostnaði vegna sjómanns sem er veikur eða hefur slasast,
7. 39. gr. um skyldu skipstjóra til að annast um útför o.fl.,
8. 2. mgr. 41. gr. um greiðsluskyldu ríkissjóðs á kostnaði við útför,
9. 2. og 3. mgr. 57. gr. um varnir gegn slysum og heilsutjóni,
10. 58. gr. og 1. mgr. 60. gr. um almenna reglu á skipi og greiðslu skaðabóta,
11. 61. og 62. gr. um viðurværi og hreinlæti,
12. 64. gr. um hvíldar- og matartíma,
13. 67. gr. um heimild til að taka með sér varning o.fl.,
14. 68. gr. um eigur sem skildar eru eftir um borð,
15. 70. og 71. gr. um agavald skipstjóra,
16. V. kafli um brot á lögum þessum og um refsingar eftir því sem við getur átt.
3. gr. Allir þeir, sem staddir eru um borð í skipi, eru skyldir til að vinna þau verk eftir megni sem skipstjóri metur nauðsynleg vegna öryggis skips eða manna sem á skipi eru.
4. gr. Samtök sjómanna og útgerðarmanna geta samið um betri réttindi sjómönnum til handa en leiðir af ákvæðum laga þessara.

Ákvæði laga þessara um réttindi sjómanna skulu í engu skerða fyllri rétt þeirra samkvæmt kjarasamningum.
5. gr. Með skipverja er í lögum þessum átt við hvern þann sjómann sem á skip er ráðinn til skipsstarfa.

Yfirmenn teljast: stýrimenn, vélstjórar, loftskeytamenn og brytar, svo og aðrir skipverjar sem skipstjóri eða útgerðarmaður hefur ráðið til sambærilegra og/eða sérhæfðra starfa.
II. kafli.
Ráðningarsamningur o.fl.
1. Um samningsgerðina o.fl.
6. gr. Útgerðarmaður skal sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur (skiprúmssamningur) við skipverja. Samningur skal vera í tvíriti og heldur hvor sínu eintaki. Í samningnum skal meðal annars greina:
1. fullt nafn skipverja, fæðingarár og dag, heimili og nafnnúmer,
2. stöðu hans á skipinu,
3. nafn og heimilisfang nánasta aðstandanda eða ættingja,
4. ferð þá eða tímabil sem skipverjinn er ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og uppsagnarfrest sé um það samið,
5. umsamið kaup, m.a. fyrir aukavinnu eða yfirvinnu,
6. önnur hlunnindi.

Samgönguráðuneytið getur sett nánari reglur um form og efni samninga samkvæmt 1. mgr. og getur jafnframt mælt fyrir um notkun sérstakra eyðublaða í þessu augnamiði og sér ráðuneytið þá einnig um útgáfu og dreifingu þeirra.

Skipstjóri getur, í umboði útgerðarmanns, ráðið skipverja og gilda þá um það ákvæði 1. mgr. Skipstjóri getur einnig, með sama skilorði, vikið skipverja úr skiprúmi eða sagt honum upp störfum, sbr. 23.–25. gr.

Eftir því sem við verður komið skal ráðgast við yfirvélstjóra um ráðningu skipverja til starfa í vélarrúmi, við fyrsta stýrimann um ráðningu háseta, við bryta um ráðningu aðstoðarmanna hans, svo og við aðra yfirmenn um ráðningu undirmanna þeirra.

Sérhver skipverji skal hafa sjóferðabók sem samgönguráðuneytið lætur gera. Skipstjóri geymir sjóferðabók skipverja meðan skipverji er í skiprúminu.

Samgönguráðherra setur nánari reglur
1) um gerð sjóferðabóka.

Lögskráningarstjóra er skylt að afhenda sjóferðabók hverjum skipstjóra og skipverja í fyrsta sinn sem hann er lögskráður á íslenskt skip eða síðar ef sjóferðabók hefur glatast eða er fullnotuð. Skal sjóferðabókin ávallt sýnd við lögskráningu og þegar sanna á siglingatíma.
1)Rg. 162/1987.
7. gr. Samgönguráðuneytið skal láta útbúa og kosta hentuga útgáfu af sjómannalögum eins og þau eru á hverjum tíma.

Skipstjóri skal sjá til þess að um borð í skipi sé ætíð eintak af sjómannalögum, eins og þau eru á hverjum tíma, sem allir skipverjar geti kynnt sér.
8. gr. Við ráðningu nýliða skal skipstjóri sjá um að nýliðanum sé leiðbeint um störf þau sem hann á að sinna. Enn fremur skal honum sýndur björgunarbúnaður sá og viðvörunarbúnaður sem á skipinu er og leiðbeint um grundvallaratriði við notkun þeirra.

Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á skipi nema um skólaskip eða æfingaskip sé að ræða. Samgönguráðherra getur sett reglur um hærra aldurslágmark skipverja við tiltekin störf allt fram til átján ára aldurs.

Útgerðarmaður getur krafist þess að sá sem vill ráða sig á skip leggi fram við ráðningu sína vottorð læknis þess efnis að hann sé ekki haldinn einhverjum sjúkdómi eða meiðslum sem geri hann ófæran til að gegna skipsstörfum.

Samgönguráðherra setur nánari reglur um læknisskoðun samkvæmt 3. mgr.
1)
1)Rg. 304/1993, sbr. 385/1999.
2. Um ráðningartímann.
9. gr. Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningum vera einn mánuður nema á íslenskum fiskiskipum sjö dagar. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur.

Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns skal vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið og á það einnig við um skipverja sem starfað hefur sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni.
10. gr. Hafi eigi verið samið um hvar skipverji fer af skipi verður samningi einungis sagt upp á þann veg að skipverji fari af skipi í íslenskri höfn sem skipið kemur til. Útgerðarmaður, sem sagt hefur skipverja upp starfi, skal greiða eðlilegan ferðakostnað hans til útgerðarstaðar skips eða til heimilis hans hafi það eigi í för með sér meiri kostnað.

Eigi skipverji ekki heimili á Íslandi eða hafi hann ekki verið ráðinn á skip í íslenskri höfn er unnt að segja samningi upp á þann veg að skipverji fari úr skiprúmi í erlendri höfn. Þetta á þó ekki við um hafnir þar sem skip kemur einungis til mjög stuttrar dvalar svo sem til að taka eldsneyti eða vistir, vegna minni háttar viðgerða eða til að færa sjúkan skipverja á land eða ef einungis er um neyðarhöfn að ræða.

Sé skipverji ráðinn um ákveðinn tíma eða hafi hann sagt upp stöðu sinni með tilteknum uppsagnarfresti og endi ráðningarsamningur meðan skip er í ferð þá skal samningurinn gilda þar til skipið kemur til hafnar. Þetta gildir þó ekki um þær hafnir erlendis sem um getur í 2. mgr.

Sé skipverji ráðinn um ákveðinn tíma eða til ákveðinnar ferðar og verði hann kyrr á skipinu eftir að ráðningartíminn er liðinn eða ferðinni er lokið en eigi gerður nýr samningur um höfn þá þar sem skipverji skal víkja úr skiprúmi gilda ákvæði 9. gr. og 1. og 2. mgr. þessarar greinar eftir atvikum.
11. gr. Skipverji, sem verið hefur í sama skiprúmi eða verið hefur á skipum sama útgerðarmanns í níu mánuði og sem sagt hefur upp samningi sínum með umsömdum uppsagnarfresti, getur, þó að annað hafi verið ákveðið í samningi, farið úr skiprúmi í hvaða höfn sem vera skal nema erindi skips í höfn sé það sem um getur í 2. mgr. 10. gr.
12. gr. Ef gefa skal sjóferðaskýrslu eða halda sjóferðapróf er skipverji skyldur til að dvelja þar á staðnum þar til því er lokið gegn kaupi og dvalarkostnaði þann tíma.
13. gr. Skipverja, sem rétt hefur til að fara úr skiprúmi, skal skylt að vinna nauðsynleg störf á skipinu sé þess krafist, þó eigi lengur en í 48 stundir frá því að skip kom til hafnar. Þetta á þó eigi við um lausn úr skiprúmi skv. 18. gr.
14. gr. Ef yfirvöld í erlendri höfn, þar sem skipverji skyldi fara úr skiprúmi af hvaða ástæðu sem er, banna honum landvist eða heimta þær tryggingar fyrir landvistarleyfi hans er hann eigi getur sett getur hann krafist þess að vera enn um sinn á skipinu þar til það kemur til hafnar þar sem hann getur yfirgefið skipið en skylt er honum þá að gegna áfram stöðu sinni á skipinu fram til þess tíma eftir ákvörðun skipstjóra.
15. gr. Skipverji, sem á lögheimili á Íslandi og hefur ekki getað farið úr skiprúmi í íslenskri höfn á síðustu fjórum mánuðum, á rétt á ókeypis heimferð ef hann hefur verið á sama skipi eða hjá sama útgerðarmanni samfleytt í níu mánuði.

Ríkissjóður og útgerðarmaður greiða ferðakostnað til helminga.

Heimilt er að draga heimsendingu í allt að einn mánuð ef þess má vænta að skipið komi innan þess tíma til hafnar þaðan sem töluvert ódýrara eða auðveldara er að hefja heimferðina.

Skipverja ber að tilkynna skipstjóra um vilja sinn til heimferðar með minnst 20 daga fyrirvara.
3. Um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi.
16. gr. Ef skipverji sannar að hann hafi, eftir að ráðningarsamningur var gerður, fengið kost á hærri stöðu á öðru skipi eða aðstæður hans hafa breyst svo frá því að hann réð sig á skipið að það sé velferðarmál fyrir hann að geta losnað úr skiprúmi þá á hann rétt til þess að krefjast lausnar úr skiprúmi ef hann fær annan dugandi mann í sinn stað enda auki það ekki útgerðarmanni kostnað.

Þegar þannig stendur á á skipverji aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann er í skiprúminu.
17. gr. Ef kona, sem er skipverji, verður vanfær getur hún krafist lausnar úr skiprúmi ef hagsmunir hennar eða barnsins krefjast þess og á hún þá aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hún var í skiprúminu.
18. gr. Ef skipverji fær, eftir að skiprúmssamningur var gerður, vitneskju um að maki hans, barn eða foreldri hafi látist eða orðið fyrir alvarlegu slysi eða veikindum getur hann krafist lausnar úr skiprúmi og á hann þá aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann var í skiprúminu.
19. gr. Skipverji getur krafist lausnar úr skiprúmi ef:
1. skipið verður óhaffært eða íbúðir skipverja eru heilsuspillandi að mati réttra yfirvalda og skipstjóri bætir eigi úr því,
2. skipstjóri neitar að skoðun fari fram samkvæmt 63. gr. eða
3. skipverji hefur orðið að þola misþyrmingar á skipinu og skipstjóri veitir honum eigi vernd þótt eftir því hafi verið leitað.

Skipverji, sem fær lausn úr skiprúmi eftir ákvæðum 1. mgr., á rétt á bótum, ferðakostnaði og fæðiskostnaði eftir því sem segir í 25. gr.
20. gr. Skipverji getur krafist lausnar úr skiprúmi ef í ljós kemur eftir að hann var ráðinn í skiprúm að:
1. hætta er á að skipið verði hernumið eða verði fyrir tjóni af völdum hernaðar eða þess háttar hætta eykst til muna frá því sem áður var eða
2. illkynjuð farsótt geisar á áætlunarstað skipsins eða á öðrum þeim stað þar sem skipinu er ætluð viðkoma.

Skipverji skal bera fram kröfu um lausn af þessum sökum svo skjótt sem við verður komið eftir að hann fær vitneskju um aðstæður. Sé ferð þá eigi hafin hefur hann rétt til að krefjast lausnar þegar í stað en ella í fyrstu höfn sem skipið kemur í eftir að hann fékk vitneskju um þessi atvik.

Fái skipverji lausn af þeim ástæðum sem frá er greint í 1. mgr. á hann rétt á að útgerðarmaður greiði helming ferðakostnaðar hans til heimilis hans eða til ráðningarstaðar ef útgerðarmaður kýs það heldur. Hafi útgerðarmaður eða skipstjóri vitað af ástandi því sem greinir í 1. mgr. skal útgerðarmaður greiða allan ferðakostnað skipverja.

Ákvæði 3. mgr. á þó ekki við ef unnt reynist að útvega skipverja sambærilega stöðu á öðru íslensku skipi eða á skipi, sem tekið hefur verið á leigu af íslenskum útgerðarmanni, þar í höfn sem skipverji fer úr skiprúmi.
21. gr. Ef skipverji er ráðinn til ákveðinnar ferðar og ferðinni er breytt til muna á hann rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi með skilmálum 2. mgr. 20. gr.

Fái skipverji lausn úr skiprúmi af þessum sökum á hann rétt á kaupi fyrir 15 daga eftir að hann fer úr skiprúmi en á íslenskum fiskiskipum skal þó miðað við 7 daga. Auk þess á hann rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til ráðningarstaðar ef hann fer úr skiprúmi áður en ferð hefst en ella til þess staðar þar sem samið var um að hann færi úr skiprúmi.
22. gr. Ef skip missir rétt til að sigla undir íslenskum fána á skipverji rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Um greiðslu á kaupi, ferðakostnaði og fæðispeningum fer þá sem segir í 25. gr.

Sé skip selt öðrum innlendum útgerðarmanni er skipverja heimilt að krefjast lausnar úr skiprúmi en segja verður þá skipverji skiprúmi sínu lausu þegar eftir að hann fær vitneskju um þetta.

Eigi skipverji rétt á lausn úr skiprúmi af þessum sökum á hann rétt til kaups í sex vikur nema uppsagnarfrestur sé skemmri tími. Innan þess tíma ber skipverja að vinna venjuleg skipsstörf uns skipið er afhent hinum nýja eiganda. Ákvæði þessarar málsgreinar eiga því aðeins við að skipið sé afhent hinum nýja eiganda áður en ráðningu hefði lokið fyrir uppsögn.

Eigi heimilar það skipverja að krefjast lausnar úr skiprúmi þótt skipstjóraskipti verði á skipinu.
4. Um rétt skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi.
23. gr. Skipstjóri getur vikið skipverja úr skiprúmi ef:
1. skipverji verður lengur en um stundarsakir ófær til vinnu vegna veikinda eða slysa,
2. skipverji er haldinn sjúkdómi sem öðrum mönnum á skipi stafar hætta af,
3. læknisskoðun skv. 33. gr. leiðir í ljós að skipverji er eigi fær til að vinna starf sitt þótt eigi sé hann sjúkur.

Ákvæði 36. gr. um rétt skipverja til launa o.fl. eiga við um brottvikningu úr skiprúmi eftir 1. mgr.
24. gr. Skipstjóri getur enn fremur vikið skipverja úr skiprúmi ef:
1. skipverji reynist óhæfur til þess starfa sem hann var ráðinn til,
2. skipverji kemur ekki til skips á ákveðnum tíma og skipið á að láta úr höfn eða ráða verður annan mann í hans stað,
3. skipverji verður sekur um mikil afglöp í starfi sínu svo sem það að hann óhlýðnast ítrekað skipunum yfirmanna sinna eða beitir aðra menn ofbeldi sem á skipi eru staddir,
4. skipverji er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra, eða er undir áhrifum fíkniefna um borð,
5. skipverji verður sekur um þjófnað eða annan meiri háttar glæp eða leynir manni á skipsfjöl,
6. skipverji leynir tollskyldum varningi eða þeim varningi sem útflutningsbann gildir um á fráfararstað skipsins eða innflutningsbann á ákvörðunarstað þess eða
7. skipverji ber ágreining, sem rís af starfi hans á skipinu, undir erlend stjórnvöld.

Ef skipstjóri vill víkja skipverja úr skiprúmi skv. 3.–7. tölul. 1. mgr. skal hann skýra skipverja frá því hið fyrsta og eigi síðar en 7 dögum eftir að hann fékk vitneskju um þau atvik sem brottvikning byggist á nema sérstakar ástæður réttlæti lengri frest.

Skipverji, sem vikið er úr skiprúmi samkvæmt þessari grein, á ekki rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu. Ef skipverji gat ekki komið til skips vegna veikinda eða meiðsla, sem hann á ekki sök á, skal hann þó eiga rétt til kaups samkvæmt fyrirmælum 36. gr.
25. gr. Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. á hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. Hafi skipverja, sem starfað hefur samfellt í þjónustu sama útgerðarmanns í 15 ár eða lengur, verið vikið úr starfi án nægrar ástæðu skal hann auk þessa eiga rétt á sérstakri uppbót sem nemi eins mánaðar launum sé um yfirmann að ræða en ella skal miðað við laun fyrir 15 daga.

Hafi verið samið við skipverja um tiltekinn stað þar sem hann skyldi víkja úr skiprúmi á hann, auk þess sem fyrr var greint, rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til þess staðar. Verði ráðningarsamningi eigi sagt upp nema skipverji geti vikið úr skiprúmi í íslenskri höfn, sbr. 1. mgr. 10. gr., á hann rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til íslenskrar hafnar eða til heimilis síns eigi hann heimili á Íslandi.

Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga þó ekki við ef skipverji víkur úr skiprúmi eftir uppsögn á þeim stað sem fyrir fram hafði verið um samið eða sem leiðir af reglum 10. gr. samkvæmt ákvörðun skipstjóra áður en uppsagnarfrestur er úti þannig að skipverji haldi kaupi og öðrum fríðindum þar til fresturinn er á enda runninn.
26. gr. Farist skip eða verði það fyrir sjótjóni og sé dæmt óbætandi eða verði af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanns um ófyrirsjáanlegan tíma, þó ekki skemmri tíma en þrjá mánuði, er skiprúmssamningi slitið nema öðruvísi sé um samið. Skipverja er þó skylt að taka þátt í björguninni og að vera viðstaddur er sjóferðaskýrsla er tekin og á hann rétt á kaupi og dvalarkostnaði þann tíma er hann þarf að bíða á staðnum þess vegna eða hann þarf að bíða eftir ferð heimleiðis.

Ef skiprúmssamningi er slitið af þeim sökum sem segir í 1. mgr. á skipverji rétt á ferðakostnaði, nauðsynlegum klæðnaði og fæðispeningum til heimilis síns og greiðir ríkissjóður þann kostnað.

Verði skiprúmssamningi slitið erlendis af þeim ástæðum sem greinir í 1. mgr. á skipverji rétt til launa á meðan hann er atvinnulaus af þessum sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði frá ráðningarslitum ef hann er stýrimaður, vélstjóri, bryti eða loftskeytamaður, en í einn mánuð frá sama tíma ef hann gegnir annarri stöðu á skipi.
5. Um kaup skipverja.
27. gr. Skipverji tekur kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu. Þurfi hann að ferðast frá ráðningarstað til skips tekur hann kaup frá og með þeim degi er sú ferð hefst.

Skipverji tekur kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skiptir þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. Um vinnu skipverja fer sem segir í kjarasamningum og lögum þessum.

Skipverji á ekki rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hann hliðrar sér hjá að vinna án þess að næg ástæða sé til.
28. gr. Við útreikning kaups fyrir hluta úr mánuði skal við það miðað að kaup fyrir hvern dag sé
1/
30 af mánaðarkaupi eða samkvæmt kjarasamningi eftir því sem við á.

Standi ferð lengur yfir en áætlað var við ráðningu á skipverji rétt á tiltölulegri viðbót við kaupið hafi eigi verið á annan veg samið.
29. gr. Fækki skipverjum meðan ferð stendur yfir skulu kaupgreiðslur, sem af því leiðir, skiptast á milli þeirra sem eftir eru að tiltölu við aukna vinnu hvers þeirra um sig hafi þeir eigi fengið hana greidda sem yfirvinnu.

Fækki stýrimönnum meðan ferð stendur yfir skulu kaupgreiðslur, sem af því leiðir, skiptast á milli skipstjóra og stýrimanns eða stýrimanna í hlutfalli við aukna vinnu hvers þeirra um sig hafi þeir eigi fengið hana greidda sem yfirvinnu.
30. gr. Um rétt til greiðslu í erlendri mynt fer eftir því sem landslög ákveða á hverjum tíma.

Skipverji getur krafist þess að kaup hans sé greitt mánaðarlega eftir ávísun til nafngreinds manns hér á landi eða lagt inn á íslenska innlánsstofnun.

Skipverji getur, sér að kostnaðarlausu, sent kaup sitt heim til Íslands með tilstilli íslensks ræðismanns. Ríkissjóður ber þann kostnað sem af þessu leiðir og ábyrgist peningasendingarnar.
31. gr. Skipverji getur krafist þess að
2/
3 hlutar af ógreiddu kaupi hans séu greiddir nafngreindum manni gegn umboði.

Greiðslur samkvæmt 1. mgr. má eigi stöðva né lækka án samþykkis skipverjans fyrr en ráðningu hans er slitið nema svo sé að annar hluti kaupsins hrökkvi eigi fyrir greiðslum á skaðabótakröfum er útgerðarmaður á á hendur honum og rísa af starfi hans á skipinu, kröfum yfirvalda á hendur honum sem útgerðarmanni að lögum er skylt að tryggja með því að halda eftir kaupi skipverjans eða um sé að ræða kröfu útgerðarmanns vegna tjóns sem leiðir beint af tollalagabroti skipverja.

Heimilt er að halda eftir þriðjungi af þeim hluta kaups er skipverji sjálfur getur tekið á móti þar til skipverji fer úr skiprúmi, þó aldrei hærri upphæð en hálfsmánaðarkaupi.
32. gr. Mánaðarlega skal skipverja látið í té sundurliðað launauppgjör til hans nema kjarasamningar mæli fyrir um skemmri uppgjörsfrest.

Komi það í ljós er reikningar eru gerðir upp að skipverji hafi fengið meira greitt en honum bar þá er það fé eigi afturkræft ef svo er að ráðningu skipverja sé slitið af þeim ástæðum einhverjum sem ræðir um í 19., 22. gr., 1. tölul. 23. gr., 25., 26. og 40. gr.
6. Umönnun og kaup sjúkra skipverja.
33. gr. Skyldur er skipverji til að láta lækni rannsaka heilsufar sitt ef skipstjóri krefst þess.

Hafi skipstjóri ástæðu til að ætla að skipverji sé sjúkur skal hann sjá til þess að skipverji gangist undir læknisskoðun sé þess kostur.

Læknisskoðun samkvæmt 1. og 2. mgr. skal framkvæmd skipverja að kostnaðarlausu.
34. gr. Veikist skipverji eða slasist skal skipstjóri sjá um að hann fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi, þar með talið hjúkrun, læknishjálp, lækningaefni og framfæri, sé hann utan heimilis síns enda getur skipstjóri, ef um skammtímaforföll er að ræða, skyldað skipverja til að dvelja á útgerðarstað skips.

Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skal skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu.

Geti sjúkur skipverji eigi sjálfur gætt muna sinna skal skipstjóri sjá um að þeirra sé gætt.

Sé sjúkur eða slasaður skipverji skilinn eftir erlendis skal skipstjóri fela hann umsjá íslensks ræðismanns eða sjá honum sjálfur fyrir góðri umönnun ef ræðismaður er eigi á þeim stað og tilkynna þetta þeim ræðismanni sem næstur er og jafnframt nánustu aðstandendum skipverja ef hann óskar þess.
35. gr. Sé sjúkur eða slasaður skipverji skilinn eftir erlendis í umsjá íslensks ræðismanns getur ræðismaðurinn krafist tryggingar vegna þeirra útgjalda sem útgerðarmaður skal standa skil á samkvæmt 37. og 41. gr. varðandi umönnun og greftrun skipverja.

Skipverji getur krafist þess að hann fái í hendur kaupgreiðslur sem hann á rétt til nema telja verði að fé það skuli ganga til greiðslu útgjalda sem skipverji á að bera sjálfur eða hann sé af heilsufarsástæðum óhæfur til að ráðstafa fjármunum sínum.
36. gr. Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns.

Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni.

Skipverji, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnu, á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóma sem stafa af vinnunni skal fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr.

Skipverji á ekki rétt á kaupi þann tíma, sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi, né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Nú vill skipverji neyta réttar síns samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins.
37. gr. Með þeim undantekningum, sem greindar eru í 4.–6. mgr., greiðir útgerðarmaður allan eðlilegan kostnað af umönnun sjúkra skipverja meðan ráðningu þeirra er ekki slitið, sbr. 1. mgr. 34. gr.

Sé skipverji veikur eða slasaður er ráðningu hans er slitið á hann rétt á að útgerðarmaður kosti umönnun hans í veikindunum í allt að sex vikur eða í allt að tólf vikur sé skipverji íslenskur og njóti umönnunar erlendis. Þetta tímabil telst frá því að skipverji er skráður úr skiprúmi eða frá því að skipið lét úr höfn hafi hann eigi verið skráður úr skiprúmi. Sé íslenskur skipverji skilinn eftir erlendis á hann auk þess rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til heimilis síns hér á landi. Sé hægt að útvega honum stöðu eigi lægri en þá er hann áður hafði og eigi verr launaða á skipi sem fara á hingað til lands eða til hafnar sem hægara er að senda hann frá heim til sín þá er hann skyldur að taka þeirri stöðu ef heilsa hans leyfir.

Fari skipverji úr skiprúmi vegna veikinda eða meiðsla eða sé hann við fráför úr skiprúmi haldinn þess háttar veikindum eða lemstrum sem réttlætt geta uppsögn úr skiprúmi á skipverji, auk þess sem fyrr greinir, rétt á að útgerðarmaður greiði ferðakostnað og fæðiskostnað til útgerðarstaðar skips eða til heimilis hans hafi það eigi í för með sér aukinn kostnað. Eigi skipverji ekki heimili á Íslandi getur útgerðarmaður þó valið þann kost að greiða ferðakostnað og fæðispeninga skipverja þangað sem skipverji var staddur þegar hann réðst í skiprúm nema yfirvöld á þeim stað neiti honum um landgöngu eða banni honum landvist eða heimti þær tryggingar fyrir landvistarleyfi hans er hann eigi getur sett.

Ef skipverji á sjálfur sök á veikindunum eða meiðslunum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða hafi hann leynt þeim sviksamlega er hann réðst á skipið á hann ekki rétt á að útgerðarmaður greiði honum ferðakostnað eða fæðispeninga eftir 1.–3. mgr.

Sé skipverji, sem er heimilisfastur á Íslandi, haldinn berklum eða kynsjúkdómi greiðir ríkissjóður kostnað við umönnun og heimferð skipverjans eftir 2. og 3. mgr.

Greiðslur, sem skipverji fær af þessum sökum frá sjúkrasamlagi eða almannatryggingum eða vegna slysatryggingar sem keypt hefur verið honum til handa, skulu dregnar frá þeirri upphæð sem útgerðarmanni eða ríkissjóði er skylt að inna af hendi samkvæmt 2. og 3. mgr.
38. gr. Hafi skipstjóri, við fráför veiks eða slasaðs skipverja úr skiprúmi erlendis, orðið að reiða af hendi fé vegna heimferðar skipverja, umönnunar hans eða honum til aðstoðar á annan hátt, eftir lögum eða fyrirmælum sem gilda á þeim stað en útgerðarmanni ber ekki að greiða eftir íslenskum rétti, skal ríkissjóður bæta útgerðarmanni skipsins þau útgjöld sem óhjákvæmileg voru í þessu sambandi.

Samgönguráðherra getur sett nánari reglur um umönnun sjúkra eða slasaðra skipverja og um heimsendingu þeirra.
1)
1)Rg. 163/1987 (um umönnun sjúkra eða slasaðra skipverja og um ráðstafanir vegna andláts skipverja).
7. Andlát skipverja og greftrun.
39. gr. Ef skipverji deyr skal skipstjóri tilkynna einhverjum hinna nánustu vandamanna hins látna um andlátið svo skjótt sem við verður komið. Skipstjóri sér um útför hins látna eða líkbrennslu hafi venslamenn eigi gert aðrar ráðstafanir. Andist skipverji erlendis skal hinum næsta íslenska ræðismanni einnig tilkynnt um andlátið. Hafi líkbrennsla farið fram skal skipstjóri annast heimsendingu öskunnar.

Svo skjótt sem við verður komið skal skipstjóri láta gera skrá yfir muni þá sem hinn látni hefur látið eftir sig í skipinu og skal skrá þessi staðfest af tveimur vottum. Hafi skipverji andast erlendis skal skipstjóri senda eða afhenda hinum næsta íslenska ræðismanni skrá þessa eða staðfest eftirrit hennar. Sé miklu óhagræði bundið að geyma muni hins látna um borð skulu þeir einnig afhentir hinum næsta íslenska ræðismanni.
40. gr. Deyi skipverji telst kaup hans til dánardags og að þeim degi meðtöldum enda hafi hann eigi áður misst rétt til kaups vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum.

Nú hverfur skip í hafi án þess að upplýst verði hvenær skiptapann ber að höndum og skulu lok launagreiðslna til horfinna skipverja þá miðast við þann tíma sem telja mátti eðlilegan fyrir það skip að ná til næsta áfangastaðar frá þeim stað sem síðast spurðist um skipið.

Deyi skipverji á þeim tíma er hann á rétt til kaups samkvæmt 27. gr. eða 36. gr. á eftirlifandi maki eða börn, sem eru á framfæri hins látna eftir almennum framfærslureglum, rétt til launa fyrir einn mánuð umfram það sem segir í 1. og 2. mgr. enda hafi skipverjinn verið í þjónustu útgerðarmanns í síðustu sex mánuði áður en hann andaðist. Hafi skipverji verið samfellt í starfi hjá sama útgerðarmanni í fjögur ár eða lengur skal, auk þess sem fyrr segir, greiða eins mánaðar kaup sem hjá fiskimönnum miðist við kauptryggingu fyrir einn mánuð eins og hún er á hverjum tíma en hjá farmönnum skal greiðslan vera sem nemur eins mánaðar grunnlaunum viðkomandi skipverja.

Óheimilt er að framselja eða veðsetja samningsbundnar dánarbætur og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak né halda bótagreiðslu til opinberra gjalda.
41. gr. Útgerðarmaður greiðir allan venjulegan kostnað við greftrun skipverja eða líkbrennslu, svo og þann kostnað er leiðir af heimsendingu ösku eða líkamsleifa ef því er að skipta, hafi skipverji andast meðan útgerðarmanni bar að kosta umönnun hans.

Ríkissjóður greiðir þau útgjöld sem um ræðir í 1. mgr. ef skipverji hefur við andlát sitt átt rétt til umönnunar samkvæmt 5. mgr. 37. gr. Ákvæðum 6. mgr. 37. gr. og 38. gr. skal beitt eftir því sem við getur átt um útgjöld vegna andláts eða greftrunar skipverja.

Samgönguráðherra getur sett nánari reglur um ráðstafanir vegna andláts skipverja.
1)
1)Rg. 163/1987.
8. Ráðningarsamningur skipstjóra.
42. gr. Útgerðarmaður skal sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipstjóra þar sem kveðið sé á um ráðningarkjör hans.
43. gr. Ákvæði laga þessara um skiprúmssamninga skulu gilda eftir því sem við getur átt um ráðningarsamning við skipstjóra með þeim breytingum sem leiðir af 44.–48. gr.
44. gr. Sé eigi annað ákveðið í samningnum um lengd ráðningartímans getur hvor aðili um sig sagt samningnum upp með þriggja mánaða fyrirvara.
45. gr. Útgerðarmaður getur vikið skipstjóra úr stöðu hans hvenær sem er.

Sé skipstjóra vikið úr stöðu áður en ráðningartími hans er úti og án þess að heimild sé til þess samkvæmt 47. gr. á hann rétt á bótum fyrir það tjón sem frávikningin bakar honum.

Sé eigi annað sannað um upphæð tjónsins á skipstjóri rétt á þriggja mánaða kaupi og auk þess ferðakostnaði og fæðispeningum til hafnar þeirrar er ráðningunni skyldi slitið í samkvæmt samningnum eða til íslenskrar hafnar hafi honum verið vikið úr stöðu erlendis.

Sé skipstjóra heitið hluta af farmgjaldi eða afla skips eða af öðrum tekjum af ferðinni eða af ágóða útgerðarmanns af útgerðinni og ráðningu er slitið áður en ferðinni er lokið eða reikningsárið liðið á hann rétt til að fá svo mikinn hluta þessarar þóknunar sem svarar til aflafengs hans ef um hluta af afla er að ræða ella til starfstíma hans að tiltölu við ferðina alla eða reikningsárið allt.
46. gr. Skipstjóri skal hafa sama rétt og skyldur og aðrir skipverjar í veikinda- og slysatilvikum og um getur í 36. gr.
47. gr. Sé skipstjóra vikið úr stöðu sinni vegna ódugnaðar, óráðvendni eða vegna stórkostlegra yfirsjóna eða hirðuleysis við starf hans á hann ekki rétt til launa lengur en hann gegnir starfi.
48. gr. Farist skip eða verði það fyrir sjótjóni og sé dæmt óbætandi eða verði af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanns um ófyrirsjáanlegan tíma, þó ekki skemmri tíma en þrjá mánuði, er ráðningu skipstjóra þar með slitið sé eigi annað ákveðið í samningi. Skipstjóri er þó skyldugur til að dvelja á staðnum þar til skipverjum, skipi og farmi hefur verið ráðstafað og á hann þá rétt á launum þann tíma og dvalarkostnaði.
III. kafli.
Um skipsstörfin.
1. Yfirmenn og stjórn.
49. gr. Skipstjóri hefur í öllum efnum hið æðsta vald á skipinu.
50. gr. Stýrimenn eru skipstjóra til aðstoðar við siglingu skipsins og þær athuganir og útreikninga sem tilheyra henni og við bókun í leiðarbók og dagbók skipsins. Stýrimenn skulu auk þess sinna öðrum þeim störfum sem skipstjóri felur þeim.

Riti stýrimaður í leiðarbók eða dagbók ábyrgist hann að rétt sé ritað.

Í umboði skipstjóra hefur fyrsti stýrimaður eftirlit með öðrum skipverjum, skipi, áhöldum þess og útbúnaði, að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af 53., 54. og 55. gr. Hann skal sjá um nauðsynlega skráningu á mótteknum og afhentum farmi og hafa eftirlit með lestun, losun og búlkun farms.

Forfallist 1. stýrimaður eða sé hann fjarverandi kemur næstæðsti stýrimaður, sem er til staðar, í hans stað.
51. gr. Ef skipstjóri forfallast eða sé hann fjarverandi og beri eitthvað það að höndum sem hann hefur enga fyrirskipun gert um skal æðsti stýrimaður, sem er til staðar, ráða fram úr því sem ekki má fresta.
52. gr. Deyi skipstjóri eða verði hann óhæfur til skipstjórnar eða víki hann úr stöðu sinni kemur æðsti stýrimaður í hans stað þar til nýr skipstjóri tekur við skipstjórn. Útgerðarmanni skal þegar í stað tilkynnt um framangreind tilvik.
53. gr. Yfirvélstjóri stjórnar og ber ábyrgð á vélgæslunni. Hann skal sjá um óaðfinnanlegan rekstur, meðferð og viðhald á vélbúnaði skipsins, tilheyrandi lögnum og útbúnaði, svo og á þeim hluta af bol skipsins sem lykur um vélarúm, ásamt tilheyrandi geymum og göngum.

Hann hefur umsjón með eldsneytisforða skipsins og öðrum nauðsynjum til reksturs og viðhalds véla, veitir þeim móttöku og athugar magn þeirra og gæði.

Hann ákveður verkaskiptingu og starfstilhögun hinna vélstjóranna og annarra starfsmanna í vél.

Yfirvélstjóri skal tafarlaust tilkynna skipstjóra ef hann verður var við galla eða bilun á þeim hlutum skipsins, áhöldum og útbúnaði sem að framan greinir.

Yfirvélstjóri ber ábyrgð á fyrirskipuðum skoðunum og eftirliti á vélbúnaði skipsins. Ef yfirvélstjóri forfallast eða sé hann fjarverandi og beri eitthvað það að höndum sem hann hefur enga fyrirskipun gert um skal sá æðsti hinna vélstjóranna, sem til staðar er, ráða fram úr því sem ekki má fresta.

Vélstjóri ritar í vélabók og ábyrgist að rétt sé ritað.
54. gr. Bryti skal einkum sjá um matargerð og framreiðslu matar. Hann hefur umsjón með vistum og sér um hreingerningu á þeim rýmum sem skipstjóri ákveður.
55. gr. Loftskeytamaður sér einkum um fjarskiptaþjónustu, auk annarra starfa sem skipstjóri felur honum.

Hann ber ábyrgð á rekstri, meðhöndlun og viðhaldi á fjarskiptabúnaði skipsins ásamt tilheyrandi útbúnaði og varahlutum.

Verði loftskeytamaður var við galla eða bilun í þeim útbúnaði sem að framan greinir skal hann láta skipstjóra vita af því tafarlaust.

Loftskeytamaður heldur sérstaka dagbók og ábyrgist að rétt sé ritað.
56. gr. Um frekari starfsskyldur þeirra yfirmanna, sem frá er greint í 50.–55. gr., svo og um starfsskyldur annarra yfirmanna fer eftir ráðningarsamningi eða kjarasamningi, venju eða reglum sem samgönguráðherra setur.
2. Starfstilhögun og varúðarreglur.
57. gr. Þegar verkum er skipt skal taka tillit til stöðu hvers skipverja á skipinu og þess gætt eftir föngum að hann taki framförum í kunnáttu í starfi sínu.

Þeim manni er verkum stjórnar er skylt að gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum og sjúkdómum. Á sama hátt er skipverja skylt að hlýðnast fyrirmælum um notkun öryggisbúnaðar og öðrum varúðarreglum.

Samgönguráðherra getur sett reglur til varnar sjúkdómum og slysum í skipum.
3. Almennar starfsskyldur.
58. gr. Skipstjóri og aðrir yfirmenn skulu koma sómasamlega fram við undirmenn sína. Líkamlegri refsingu má aldrei beita.

Allir skulu skipsmenn hegða sér sómasamlega, kurteislega og friðsamlega og gæta nákvæmlega þeirra fyrirmæla sem sett verða um góða siði og reglu á skipinu. Þegar skipverji fær skipun frá yfirboðara sínum skal hann láta á sér skilja með skýrum svörum að hann hafi skilið skipunina.

Skipverji skal hlýða skipunum yfirboðara sinna er að starfinu lúta, vera umhyggjusamur um skip og farm og vinna störf sín með áhuga og trúmennsku.
4. Um upphaf vistar skipverja og fjarveru hans.
59. gr. Skipverji er skyldur að koma á ákveðnum tíma í skiprúmið. Eftir það má hann ekki fara frá skipi leyfislaust.

Skipverja, sem ekki er staddur á skipi en veit eða má vita að hann muni bráðlega verða kvaddur til skips, er skylt, eftir því sem honum er unnt, að fylgjast með ferðum skipsins og vera tilbúinn að taka upp störf sín að nýju þegar þess er þörf enda skal útgerðarmaður eða skipstjóri veita honum greiðar upplýsingar um ferðir skips, eftir því sem frekast er unnt.

Geti skipverji ekki mætt til skips á réttum tíma skal hann tafarlaust skýra skipstjóra frá því.

Skipverji, sem ekki kemst til skips af ástæðum sem útgerðarmanni verður ekki um kennt, skal sjálfur bera hallann af.
5. Bótaskylda skipverja.
60. gr. …
1)

Fari skipverji fyrirvaralaust úr starfi eða áður en uppsagnarfrestur er liðinn án lögmætrar ástæðu á útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi skipverja er nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrest eða helming þess tíma sem eftir er af uppsagnarfrestinum, þó aldrei lægri fjárhæð á fiskiskipum en sem nemur sjö daga kauptryggingu en föstum launum í sjö daga á kaupskipum.
1)L. 50/1993, 29. gr.
6. Viðurværi skipverja og aðbúð.
61. gr. Skipstjóri skal sjá um að skipverjar fái nægan mat og góðan. Samgönguráðherra getur sett nánari reglur um það efni.

Ef nauðsyn ber til að matur sé dreginn af skipverjum á ferð skal greiða þeim sanngjarnar bætur af þeim sökum.
62. gr. Skipstjóri skal hafa eftirlit með heilbrigðismálum og hreinlæti á skipinu.

Samgönguráðherra getur sett reglur um vistarverur skipverja, viðhald á þeim og hreinlæti í þeim.
7. Haffærisskoðun.
63. gr. Ef meiri hluti skipshafnar ber sig upp við skipstjóra yfir því að skipið sé ekki haffært í ferð þá sem því er ætluð þá er skipstjóra skylt að láta fara fram aukaskoðun á skipinu samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum um eftirlit með skipum og reglugerðum sem settar kunna að vera samkvæmt þeim lögum. Komi kvörtunin fram í erlendri höfn þar sem aukaskoðun getur eigi farið fram samkvæmt áðurnefndum reglum skal skipstjóri snúa sér til réttra yfirvalda þar á staðnum og fara fram á að skoðunarmenn séu útnefndir til að dæma um haffæri skipsins.

Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við ef kvörtun, sem þar segir, er borin fram af yfirvélstjóra eða fyrsta stýrimanni og hún lýtur að þeim hluta skips, áhalda þess eða útbúnaðar er viðkomandi yfirmaður hefur umsjón með.

Komi fram við skoðunina að umkvartanir um óhaffæri skipsins höfðu eigi við skynsamleg rök að styðjast skulu þeir sem kærðu greiða kostnaðinn við skoðunina og skaðabætur svo sem segir í 60. gr.

Ef skoðunargerð fer fram erlendis samkvæmt grein þessari skal ræðismaður sá, er málið hefur haft með höndum, en ella skipstjóri, tafarlaust senda [Siglingastofnun Íslands]
1) skýrslu um skoðunina.
1)L. 7/1996, 16. gr.
8. Hvíldar- og matartími o.fl.
64. gr. Skipverjum skal ætlaður hæfilegur tími til hvíldar og matar.

Um lágmarkshvíldartíma skipverja fer eftir ákvæðum í lögum og kjarasamningum.
65. gr. Á sunnudögum eða öðrum helgidögum, sem lögteknir eru hér á landi, má eigi setja skipverja til vinnu við þau störf sem fresta má.

Skipverjum skal, ef þess er kostur, gefið tækifæri til að halda guðsþjónustu á skipinu á helgidögum þessum.
9. Landgönguleyfi skipverja.
66. gr. Eigi má neita skipverja um landgönguleyfi í frístundum hans nema því aðeins að nauðsynlegt sé að hann fari eigi frá skipinu vegna öryggis skips, farms eða manna sem á skipinu eru vegna nauðsynlegra skipsstarfa, eða vegna þess að skipið er búið til brottferðar eða flytja á það til innan hafnar.

Skipstjóri skal, ef nauðsyn krefur og þess er kostur, sjá til þess að skipverjar í landgönguleyfi séu ferjaðir til og frá skipi þeim að kostnaðarlausu.

Ákvæði 2. mgr. 59. gr. á einnig við um skipverja í landgönguleyfi, eftir því sem við verður komið.
10. Farangur skipverja og aðrar eigur þeirra.
67. gr. Skipverja er heimilt að hafa með sér á skipinu hæfilega mikið af farangri er hann þarf til eigin nota enda sé það eigi til baga fyrir skip eða farm og eigi hætt við að af því stafi óregla á skipinu. Söluvarning fyrir sig eða aðra má hann eigi hafa á skipinu nema með leyfi skipstjóra.

Skipverja er skylt að greiða venjulegt farmgjald fyrir varning sem hann hefur ólöglega með sér á skipinu og bæta skaða þann er af því hlýst.

Skipverja er óheimilt að hafa með sér á skipi fíkniefni eða hættuleg efni. Sama gildir um vopn og skotfæri nema skipstjóri gefi sérstakt leyfi til þess.

Ef skipstjóri hefur rökstuddan grun um að ólöglegur varningur sé á skipinu getur hann látið rannsaka hirslur skipverja. Skipverjar þeir, er rannsakað er hjá, mega vera viðstaddir rannsóknina. Varning, sem skipverji hefur með sér ólöglega, getur skipstjóri tekið í sínar vörslur, látið flytja á land eða varpa útbyrðis ef nauðsyn krefur.
68. gr. Skipstjóri skal taka í gæslu sína þá muni sem skipverji skilur eftir í skipinu við ráðningarslit. Skal hann, svo fljótt sem unnt er, gera skrá um muni þessa sem staðfest sé og undirrituð af tveimur vottum.

Telji skipstjóri vandkvæðum bundið að geyma munina getur hann komið þeim í geymslu á kostnað eiganda eða selt þá fyrir reikning eiganda en að frádregnum kostnaði. Hið sama á við hafi skipverji eigi, áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að hann yfirgaf skip, snúið sér til skipstjóra eða útgerðarmanns með ósk um að fá munina afhenta sér.
69. gr. Útgerðarmaður bætir skipverjum þær eigur þeirra sem farist hafa eða skemmst við skiptapa, eldsvoða í skipi eða annað sjótjón eftir reglum sem samgönguráðherra setur.
1)
1)Rg. 224/1999.
11. Um agavald skipstjóra.
70. gr. Skipstjóri eða sá, sem gengur í hans stað í fjarveru hans eða forföllum, getur þröngvað skipverjum til hlýðni með valdi ef það er nauðsynlegt til að halda góðri reglu á skipinu.

Þá er skip er í háska statt eða skipverjar gera samblástur eða önnur nauðsyn rekur til er leyft að grípa til hvers kyns nauðsynjaúrræða til að koma á hlýðni og góðri reglu og er hver af skipverjum skyldur til að veita yfirmanni sínum aðstoð sína, jafnvel ótilkvaddur.

Bíði sá tjón við þetta sem mótþróann sýndi ber enginn ábyrgð á því ef eigi var beitt meira harðræði en atvik kröfðu.
71. gr. Sé skipverji grunaður um að hafa drýgt meiri háttar glæp og sé skipið eigi statt í innlendri höfn skal skipstjóri, svo fljótt sem auðið er, taka bráðabirgðaskýrslu um málið samkvæmt því sem fyrir er mælt í 75. gr. Ef meintur glæpur var unninn í landi eða landhelgi annars ríkis skal rannsókn þessi því aðeins fara fram að yfirvöld á þeim stað annist eigi meðferð málsins.

Þar til íslenskur ræðismaður eða íslensk yfirvöld geta tekið málið í sínar hendur skal skipstjóri gæta þess eftir föngum að hinn grunaði hverfi eigi af skipi og er heimilt að byrgja hann inni eða hefta á annan hátt ef þörf krefur og ábyrgist skipstjóri að hann sé eigi beittur óþörfu harðræði af þeim sökum.
IV. kafli.
Ágreiningur út af starfsskyldum eða réttarstöðu sjómanna.
72. gr. Samgönguráðherra er heimilt að koma á fót föstum gerðardómi
1) er skipaður sé einum eða fleiri óvilhöllum mönnum sem dæmi um ágreining út af reikningsgerð úgerðarmanns eða skipstjóra eða um ágreining sem rís af starfi skipverja ef báðir (eða allir) málsaðilar óska þess og verður þá úrskurður gerðardómsins um efnisatriði máls bindandi fyrir báða aðila eftir sömu reglum og almennt gilda um gerðardóma. Kostnaður við störf gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði. Ef þinghöld fara fram utan Reykjavíkur skal [héraðsdómurum]
2) á hverjum stað skylt að aðstoða gerðardóminn varðandi aðstöðu til þinghalds, eftir því sem unnt er. Samgönguráðherra getur sett nánari reglur um starfsemi gerðardómsins og um kostnað við málsmeðferð.

Ef skip er statt erlendis og ágreiningur rís út af reikningsgerð skipstjóra eða útgerðarmanns eða út af starfi skipverja má leggja þann ágreining undir úrskurð þess ræðismanns íslensks sem fyrst næst til. Er báðum aðilum þá skylt að hlíta úrskurði ræðismannsins þar til íslenskur dómstóll eða gerðardómur samkvæmt 1. mgr. hefur lagt dóm á málið.
1)Rg. 384/1991. 2)L. 92/1991, 83. gr.
V. kafli.
Um brot á lögum þessum og um refsingar.
1. Almenn ákvæði.
73. gr. Refsiákvæðum þessa kafla skal því aðeins beitt að aðrar og þyngri refsingar liggi eigi við broti samkvæmt öðrum lögum.

Ákvæði 2. tölul.
4. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eiga við um brot á lögum þessum.
74. gr. [Yfirsjónir þær, sem ræðir um í 1. mgr. 80. gr., skulu eigi sæta opinberri málssókn nema skipstjóri eða útgerðarmaður krefjist þess.]
1) Krafa um málssókn skal gerð svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi áður en ár er liðið frá því að yfirsjónin var drýgð.

Mál út af brotum gegn 76., 77., 79. og 85. gr. skulu lögð fyrir samgönguráðuneytið til umsagnar áður en málshöfðun er ákveðin. Sé um algeran skiptapa að ræða, hafi skip steytt á grunni og orðið að leita hjálpar annarra eða hafi annað sjóslys orðið er manntjón hlaust af eða annað verulegt tjón má eigi fella niður málssókn fyrr en leitað hefur verið umsagnar samgönguráðuneytisins.

Um rannsókn og málsmeðferð út af brotum samkvæmt ákvæðum þessa kafla fer annars að hætti opinberra mála.
1)L. 53/1990, 1. gr.
75. gr. Skipstjóri eða sá, sem kemur í hans stað, framkvæmir ef nauðsyn ber til og eftir því sem við verður komið frumrannsókn á meintum brotum skipverja. Ef unnt er skulu tveir óvilhallir vottar vera viðstaddir rannsóknina og sé annar þeirra úr hópi yfirmanna. Skyldir eru skipverjar að aðstoða skipstjóra við rannsókn þessa.

Við rannsóknina skal yfirheyra skipverja þann er fyrir sök er hafður, svo og vitni þau er með þarf til sönnunar í málinu, en einnig skulu önnur sönnunargögn könnuð eftir því sem ástæða þykir til og er þá einnig heimilt að leggja hald á muni ef óhjákvæmilegt er vegna sönnunar. Rannsóknarvottar geta látið skipstjóra leggja spurningar fyrir þá sem yfirheyrðir eru.

Framburður hinna yfirheyrðu skal ritaður í leiðarbók skipsins eða dagbók eða í sérstaka prófbók og skal lesa það sem bókað var upp fyrir þeim sem hlut eiga að máli. Skipstjóri og vottarnir staðfesta með undirskrift sinni að rétt sé bókað og geta vottarnir látið bóka þær athugasemdir er þeim þykir rannsóknin gefa tilefni til.

Er íslensk rannsóknaryfirvöld eða erlend rannsóknaryfirvöld, sem til þess hafa lögsögu og heimild, æskja þess skal skipstjóra skylt að leggja fram þær prófanir sem um getur í 1.–3. mgr. og veita aðra aðstoð við framhaldsrannsókn málsins.
2. Refsiákvæði.
76. gr. Ef skipstjóri misbeitir agavaldi sínu eða beiti hann ónauðsynlegri harðneskju við skipverja, vanræki skyldur sínar við veika eða slasaða skipverja eða láti hann skipverja eigi fá lögboðið viðurværi varðar það sektum, [fangelsi allt að tveimur árum eða fangelsi allt að fjórum árum ef miklar sakir eru].
1)
1)L. 82/1998, 176. gr.
77. gr. Í refsidómi samkvæmt 76. gr. má enn fremur, ef sérstaklega miklar sakir eru, ákveða að dómfelldi skuli sviptur rétti til skipstjórnar ákveðinn tíma eða ævilangt. Skal þá jafnframt tekið fram í dóminum hvort dómfelldi megi gegna stýrimannsstöðu meðan hann er sviptur skipstjóraréttindum.

Dómstóll sá, er dæmir slíkan dóm, skal, svo fljótt sem unnt er, senda samgönguráðuneytinu eftirrit af dóminum, svo og skipstjóraskírteini dómfellda. Ef dómurinn heimilar dómfellda að gegna stýrimannsstöðu lætur ráðuneytið honum í té stýrimannsskírteini þar að lútandi.

Þegar tvö ár að minnsta kosti eru liðin frá dómsuppsögn og sérstakar ástæður mæla með því getur samgönguráðherra veitt dómfellda aftur rétt til skipstjórnar enda þótt sá tími, sem tilgreindur er í dóminum, sé eigi liðinn.
78. gr. Brjóti útgerðarmaður eða skipstjóri annars á móti skyldum þeim sem honum eru lagðar á herðar í lögum þessum varðar það sektum.
79. gr. Ákvæði 76.–78. gr. gilda einnig um þann mann sem gengur í stað skipstjóra í forföllum hans eða fjarveru.
80. gr. Ef skipverji annaðhvort vanrækir að koma til skips á ákveðnum tíma eða hverfur frá skipi í þeim tilgangi að koma sér hjá vinnu skal hann sæta sektum.

Strjúki skipverji eða fari frá skipi þegar svo er ástatt að skipi eða mönnum er með því stefnt í voða eða séu að öðru leyti miklar sakir getur refsingin orðið …
1) fangelsi allt að einu ári.

Strjúki skipverji með kaup er hann hefur eigi unnið fyrir skal honum refsað fyrir svik hvort sem hann er kominn í skiprúmið eða eigi nema ætla megi að tilgangur hans hafi eigi verið sá að draga sér kaup það sem hann hafði fengið greitt en hafði eigi enn unnið fyrir.
1)L. 82/1998, 176. gr.
81. gr. …
1)
1)L. 53/1990, 2. gr.
82. gr. Ef skipverji ræðst á skipstjóra eða annan yfirmann með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi varðar það [fangelsi allt að einu ári]
1) eða fangelsi allt að tveimur árum ef miklar sakir eru. Séu málsbætur má beita sektum.
1)L. 82/1998, 176. gr.
83. gr. Ef skipverjar eða nokkur hluti þeirra gerir samblástur þá varðar það [fangelsi allt að tveimur árum]
1) eða sektum ef málsbætur eru. Þó getur refsing hvatamanns eða foringja samblástursins orðið fangelsi allt að 6 árum, svo og refsing annarra samblástursmanna, ef þeir hafa beitt líkamlegu ofbeldi eða mikið fjártjón hefur hlotist af samblæstrinum.
1)L. 82/1998, 176. gr.
84. gr. Ef skipverjar krefjast skoðunargerðar á skipi samkvæmt 63. gr. og það reynist við skoðunargerðina að engin skynsamleg rök voru til að telja skipið óhaffært varðar það sektum.
85. gr. Verði skipverji valdur að sjóslysi með hirðuleysi sínu, óvarkárni eða vanrækslu á skyldustörfum sínum varðar það sektum [eða fangelsi allt að fjórum árum].
1)

Sé hinn seki stýrimaður eða vélstjóri má enn fremur ákveða í dóminum að hann skuli sviptur rétti til stýrimennsku eða vélstjórnar um ákveðinn tíma eða ævilangt. Í dóminum má þó heimila honum að gegna lægri stýrimanns- eða vélstjórastöðu en þeirri er hann áður hafði þann tíma sem tiltekinn er í dóminum. Um eftirrit af dóminum og um atvinnuskírteini dómfellda fer svo sem segir í 77. gr.

Þegar eitt ár að minnsta kosti er liðið frá dómsuppsögn getur samgönguráðherra, ef ástæða þykir til þess, veitt stýrimanni eða vélstjóra, sem sviptur hefur verið rétti til stýrimennsku eða vélstjórnar, heimild til að gegna nánar tiltekinni lægri stýrimanns- eða vélstjórastöðu eða jafnvel, ef sérstakar ástæður mæla með því, veitt honum aftur að fullu atvinnuréttindi þau er hann var sviptur, hvort tveggja enda þótt sá tími, sem til var greindur í dóminum, sé eigi liðinn.

Ákvæði 2. og 3. mgr. eiga einnig eftir atvikum við um aðra yfirmenn.
1)L. 82/1998, 176. gr.
86. gr. Hafi skipverji óleyfilegan varning með sér á skip og skipi eða farmi stendur háski eða áhætta af varningi þessum þá varðar það sektum eða [fangelsi allt að tveimur árum]
1) ef sakir eru miklar.
1)L. 82/1998, 176. gr.
87. gr. Verði sjómaður, sem ákvæði þessara laga taka til, sekur um yfirsjón í skyldustörfum sínum með öðrum hætti en áður var sagt eða raski hann góðri háttsemi eða reglu varðar það sektum eða [fangelsi allt að tveimur árum]
1) ef sakir eru miklar.
1)L. 82/1998, 176. gr.
88. gr. Sektir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð.
VI. kafli.
Gildistaka o.fl.
89. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

…