Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. mars 2004.  Útgáfa 130a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um varnir gegn mengun sjávar

1986 nr. 32 5. maí


Tóku gildi 21. maí 1986. Breytt með l. 47/1990 (tóku gildi 31. maí 1990 nema 14. og 15. gr. sem tóku gildi 1. jan. 1991), l. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991), l. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992), l. 57/1995 (tóku gildi 1. júní 1995), l. 7/1996 (tóku gildi 1. okt. 1996), l. 61/1996 (tóku gildi 11. júní 1996), l. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998), l. 44/1999 (tóku gildi 1. júlí 1999) og l. 164/2002 (tóku gildi 1. jan. 2003).


I. kafli. Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Tilgangur laga þessara er að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun sem stafar frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum á sjó og frá landstöðvum af völdum olíu og annarra efna, sem talin eru upp í fylgiskjali 1, og stofnað getur heilsu manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða truflað lögmæta nýtingu hafsins.
2. gr. Lög þessi ná yfir alla starfsemi skipa, loftfara, palla og annarra mannvirkja á sjó og starfsemi í landi sem hefur eða getur haft í för með sér mengun sjávar í mengunarlögsögu Íslands og stranda landsins, sbr. 1. gr. Undanþegnar lögum þessum eru aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda mannslíf eða tryggja öryggi skipa, loftfara, palla og annarra mannvirkja á sjó eða landi, svo og mengun sökum óviðráðanlegra atvika, veðurofsa eða annarra náttúruhamfara.
[Lögin gilda einnig um starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.] 1)
    1)L. 61/1996, 1. gr.
3. gr. Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu er hér greinir:
    1. Það er „mengun“ þegar örverur, efni og efnasambönd valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til óþæginda vegna ólyktar, óbragðs, hvers konar hávaða og titrings, geislunar og varmaflæðis.
    2. „Losun“ merkir að vísvitandi er hleypt í sjóinn fljótandi eða föstum efnum sem falla frá við eðlilega starfrækslu.
    3. „Úrkast“ merkir allt það sem ekki er losun, þ.e. að efnum eða hlutum er vísvitandi fleygt í sjóinn frá skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum á sjó, þar með talið að sökkva skipum, loftförum, pöllum eða öðrum mannvirkjum í sjó.
    4. Eftirfarandi telst hvorki „losun“ né „úrkast“:
    a. að koma fyrir efnum eða hlutum í sjó í öðrum tilgangi en að farga þeim,
    b. að úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berist í sjóinn en um slíkar rannsóknir og nýtingu skal ráðherra setja sérstakar reglur ef ástæða þykir til.
    5. „Sérhafsvæði“ merkir hafsvæði sem tilteknar reglur um varnir gegn mengun sjávar gilda um, svo sem vegna sérstakra umhverfisaðstæðna, í samræmi við gildandi alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar sem Ísland er aðili að.
    6. „Hafnarsvæði“ merkir það umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld á hverjum stað annast og skilgreint er í hafnarreglugerð.
    7. „Mengunarlögsaga Íslands“ er það hafsvæði sem nær yfir innsævi, landhelgi og efnahagslögsögu Íslands og landgrunn Íslands.
    8. „Mengunartjón“ merkir tjón eða skaða sem hlýst af mengun sjávar hvar sem slík mengun kann að eiga sér stað og af hvers konar völdum sem hún stafar. Mengunartjón tekur til kostnaðar vegna ráðstafana til að koma í veg fyrir tjón, frekara tjón eða skaða sem hlýst af slíkum ráðstöfunum.
    9. „Bráðamengun“ merkir mengun sjávar sem verður skyndilega og krefst tafarlausra hreinsunaraðgerða.

II. kafli. Losun í sjó.
A. Olía.
4. gr. „Olía“ merkir í lögum þessum vökvakennd olíuefni í hvaða formi sem er, þar með talin hráolía, svartolía, smurolía, olíuúrgangur og unnin olía.
Losun olíu í sjó, hvort sem er beint eða óbeint, er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1979, nema um sé að ræða olíublandað vatn sem leiðir af eðlilegum rekstri, enda sé olíumagn blöndunnar við útrás ekki meira en 15 hlutar í 1.000.000 hlutum blöndunnar.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur um losun olíu og olíublandaðs vatns í sjó frá skipum utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar, þar með talið á sérhafsvæðum, svo og frá pöllum og öðrum mannvirkjum í mengunarlögsögu Íslands utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur um meðferð olíu í olíustöðvum, á smurstöðvum og í verksmiðjum þar sem olía er notuð í miklum mæli og hætta er á bráðamengun af þeim sökum.
    1)L. 47/1990, 9. gr.
B. Lýsi.
5. gr. „Lýsi“ merkir í lögum þessum allar tegundir feitmetis sem unnið er eða kemur úr sjávarlífverum.
Losun lýsis eða grútar í sjó er óheimil á innsævi.
Við löndun feitfisks með dælingu úr skipum, svo og við vinnslu feitfisks í landi, skal vinnsluaðili sjá svo um að ekki verði mengun í sjó vegna losunar á lýsi eða grút.
Óheimilt er að setja til sjávar óhreinsað vinnsluvatn nema með leyfi [Umhverfisstofnunar]. 1)
    1)L. 164/2002, 28. gr.
C. Önnur fljótandi efni.
6. gr. „Fljótandi efni“ merkir í lögum þessum vökva sem hafa lægri gufuþrýsting en 2,8 kg/sm 2 við 37,8°C.
Losun fljótandi efna frá skipum að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 5. gr. er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar. Losun ómengaðs vatns og sjávar er þó heimil.
Utan þess hafsvæðis, sem tiltekið er í 2. mgr. 6. gr., skal losun fljótandi efna einungis heimil samkvæmt þeim reglum sem settar verða skv. 4. mgr. 6. gr.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur 2) um flokkun fljótandi efna sem flutt eru í farmgeymum skipa til eða frá íslenskum höfnum, svo og um takmörkun á losun þeirra efna, sem hættuleg eru talin, í sjó utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar. Reglur þessar skulu vera í samræmi við alþjóðasamning frá 2. nóvember 1973 um varnir gegn mengun frá skipum.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)Rg. 527/1999.
D. Sorp.
7. gr. „Sorp“ merkir í lögum þessum alls konar matarleifar, úrgang frá vistarverum og óvinnsluhæfan rekstrarúrgang, þar með taldar umbúðir farms, að undanskildum ferskum fiski og fiskúrgangi, sem til falla við eðlilega starfsemi skipa, palla og annarra mannvirkja á sjó og þarf stöðugt eða öðru hvoru að losna við.
Óheimilt er að losa sorp í sjó á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar.
Óheimilt er að losa í sjó öll þrávirk gerviefni sem fljóta eða mara í sjónum, þar með talin plastílát, kaðlar og net.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur 2) um meðferð og losun sorps frá skipum á hafsvæði utan þriggja sjómílna frá grunnlínum landhelginnar. Reglur þessar skulu vera í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)Rg. 107/1998.
E. Skolp.
8. gr. „Skolp“ merkir í lögum þessum frárennsli eða annan fljótandi úrgang frá salernum, eldhúsum, þvottahúsum og böðum, þar með talið annað vatn sem blandað er við það áður en til útrásar kemur.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur um losun á skolpi í sjó frá skipum, pöllum og öðrum mannvirkjum á sjó.
    1)L. 47/1990, 9. gr.
F. Losun annarra efna í sjó.
9. gr. Í samræmi við alþjóðasamning frá 4. júní 1974 um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum er [umhverfisráðherra] 1) heimilt, ef þörf krefur, að setja reglur 2) er takmarka losun þeirra efna í sjó frá landi, sem upp eru talin í fylgiskjali 1 með þessum lögum, vegna mengunar sem þessi efni geta valdið í sjó.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)Rg. 33/1990, rg. 785/1999 (um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun), sbr. 849/2000. Rg. 796/1999 (um varnir gegn mengun vatns), sbr. 533/2001 og 913/2003. Rg. 797/1999 (um varnir gegn mengun grunnvatns). Rg. 798/1999 (um fráveitur og skólp). Rg. 799/1999 (um meðhöndlun seyru). Rg. 800/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri í yfirborðsvatn). Rg. 801/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri í yfirborðsvatn frá atvinnustarfsemi sem stundar rafgreiningu alkalíklóríða). Rg. 802/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kadmíum í yfirborðsvatn). Rg. 803/1999 (um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á hexaklórsýklóhexani (HCH) í yfirborðsvatn). Rg. 804/1999 (um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri), sbr. 592/2001. Rg. 809/1999 (um olíuúrgang). Rg. 619/2000 (um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru kvikasilfurssambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd), sbr. 878/2002. Rg. 828/2003 (um hollustuhætti og mengunarvarnir á varnarsvæðum).

III. kafli. Móttökuaðstaða fyrir olíuúrgang, sorp og annan úrgang.
A. Olíuúrgangur frá skipum og starfsemi í landi.
10. gr. Einstaklingum og fyrirtækjum, er annast dreifingu og sölu á olíu, er skylt að taka við olíuúrgangi frá skipum og frá starfsemi í landi, einum eða í samvinnu við einstaklinga eða fyrirtæki er til þess hafa leyfi [umhverfisráðherra], 1) og tryggja viðunandi eyðingu.
Eigendur eða umráðamenn hleðslustöðva fyrir olíuflutningaskip og skipaviðgerðarstöðva skulu sjá svo um að stöðvarnar hafi aðstöðu til að taka við olíublandaðri kjölfestu og öðrum olíuúrgangi sem er eftir í skipunum þegar þau koma í stöðvarnar. Móttökuaðstaðan skal fullnægja ákvæðum gildandi alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar frá skipum og þeim þörfum, sem eru fyrir slíka móttökuaðstöðu í viðkomandi stöð, að mati [Siglingastofnunar Íslands]. 2)
Sérhver aðili í landi, sem þarf árlega að koma fyrir meira en 500 lítrum af olíuúrgangi vegna eigin notkunar á olíu, skal halda sérstakt bókhald um söfnun og afhendingu olíuúrgangs til móttakenda, og skulu starfsmenn [Umhverfisstofnunar] 3) jafnan hafa aðgang að þessu bókhaldi.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja frekari reglur 4) um söfnun og eyðingu úrgangsolíu.
[Umhverfisráðherra] 1) skal setja nánari reglur 4) um móttöku olíuúrgangs frá skipum í höfnum í þeim tilgangi að skip verði ekki fyrir ótilhlýðilegum töfum vegna losunar olíuúrgangs í land.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)L. 7/1996, 18. gr. 3)L. 164/2002, 28. gr. 4)Rg. 809/1999.
B. Sorp frá skipum.
11. gr. Hafnaryfirvöld skulu koma upp eða tryggja rekstur viðunandi aðstöðu í höfnum fyrir móttöku á sorpi frá skipum. Aðstaðan skal miðast við þarfir skipa er koma í viðkomandi höfn.
C. Annar úrgangur frá skipum.
12. gr. [Umhverfisráðherra] 1) er heimilt að setja reglur um móttökuaðstöðu fyrir annan úrgang en þann sem fjallað er um í 10. og 11. gr. Í reglugerðinni komi fram hver sé ábyrgur fyrir móttöku þessa úrgangs og eyðingu hans.
    1)L. 47/1990, 9. gr.

IV. kafli. Úrkast efna í hafið.
13. gr. [Allt úrkast efna og hluta í hafið er óheimilt, sbr. þó 2. mgr. þessarar greinar.
[Umhverfisstofnun] 1) getur heimilað að eftirtöldum efnum og hlutum sé varpað í hafið:
    a. dýpkunarefnum;
    b. náttúrulegum, óvirkum efnum, þ.e. föstum jarðefnum sem ekki hafa hlotið efnafræðilega vinnslu og samsett eru úr efnum sem ólíklegt er að losni út í hafsvæðið;
    c. fiskúrgangi frá fiskverkunarstöðvum.
Við veitingu leyfis skv. 2. mgr. skal taka mið af eðli efnanna og hlutanna, magni þeirra og aðstöðu á losunarstað.
Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um úrkast dýpkunarefna að fengnum tillögum [Umhverfisstofnunar] 1) og Siglingastofnunar Íslands. Þar skal sérstaklega kveðið á um magn þeirra mengunarefna sem vísað er til í fylgiskjali 2.
Kostnaður við eftirlit með úrkasti í hafið greiðist af leyfishafa.] 2)
    1)L. 164/2002, 28. gr. 2)L. 61/1996, 3. gr.

V. kafli. Önnur mengun sjávar.
14. gr. Óheimilt er að brenna úrgangsefni eða önnur efni á hafi úti, hvort sem er frá skipum, pöllum eða öðrum mannvirkjum, án leyfis [Umhverfisstofnunar]. 1)
Við veitingu leyfa samkvæmt fyrri málsgrein þessarar greinar skal farið eftir ákvæðum gildandi alþjóðasamninga um brennslu úrgangsefna á hafi úti og tekið tillit til þeirra áhrifa sem brennslan hefur á umhverfið.
    1)L. 164/2002, 28. gr.

VI. kafli. Ábyrgð.
15. gr. Hver sá, sem uppvís verður að því að valda mengun sjávar í mengunarlögsögu Íslands, ber fulla ábyrgð á því mengunartjóni sem mengunin veldur. Eigendum skipa er þó heimilt að takmarka fjárhagslega ábyrgð sína í samræmi við gildandi lagaákvæði.
16. gr. Ef hætta er á mengun sjávar, sem brýtur gegn ákvæðum þessara laga, skal sá, sem bæri ábyrgð á menguninni, gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir eða draga úr henni. Hann ber einnig ábyrgð á því tjóni sem aðgerðir hans valda öðrum.

VII. kafli. Viðbúnaður vegna mengunaróhappa.1)
    1)Rg. 465/1998, sbr. 203/1999.
17. gr. [Nú er sýnt að mengunarvaldi takist ekki að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skaða af völdum mengunarinnar og skulu þá hafnaryfirvöld tafarlaust hefja aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr mengun á viðkomandi hafnarsvæði og [Umhverfisstofnun], 1) í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnun Íslands, utan hafnarsvæða.] 2)
    1)L. 164/2002, 28. gr. 2)L. 61/1996, 4. gr.
18. gr. Sveitarstjórnir skulu skipuleggja viðbúnað, koma upp búnaði og þjálfa lið til hreinsunar á olíu úr sjó í samráði við [Umhverfisstofnun] 1) sem leitast við að samræma búnað einstakra sveitarfélaga með hagkvæm samnot í huga.
[Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu [Umhverfisstofnunar] 1) og að höfðu samráði við sveitarstjórnir að setja nánari reglur um framkvæmd þessara mála, svo sem um skiptingu landsins í svæði, skipan í svæðisráð, notkun mengunarvarnabúnaðar og stjórn á mengunarstað.
Ráðherra getur að fenginni tillögu [Umhverfisstofnunar] 1) og að höfðu samráði við sveitarstjórnir sett samræmda gjaldskrá vegna notkunar mengunarvarnabúnaðar.] 2)
    1)L. 164/2002, 28. gr. 2)L. 61/1996, 5. gr.
19. gr. [Umhverfisráðherra] 1) getur krafist þess að fyrirtæki með starfsemi, sem getur valdið bráðamengun, leggi fram til samþykktar áætlun um viðbúnað gegn slíkri mengun.
    1)L. 47/1990, 9. gr.

VIII. kafli. Tilkynningarskylda.
20. gr. Eigendur skipa eða skipstjórnarmenn og eigendur eða rekstraraðilar vinnu- og borpalla á sjó og fyrirtækja í landi skulu tafarlaust tilkynna [Siglingastofnun Íslands] 1) eða öðrum viðkomandi yfirvöldum um alla losun eða úrkast, sem lög þessi ná til, í hafið í mengunarlögsögu Íslands.
    1)L. 7/1996, 18. gr.

IX. kafli. Íhlutun.
21. gr. [Umhverfisstofnun] 1) getur látið fara fram athugun á skipum, vinnu- og borpöllum á sjó og hjá fyrirtækjum í landi án dómsúrskurðar ef hætta er á mengun sjávar eða mengun hefur orðið sem brýtur gegn lögum þessum. [Umhverfisstofnun] 1) leitar aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands, hafnaryfirvalda, [Siglingastofnunar Íslands], 2) Geislavarna ríkisins … 3) og annarra opinberra aðila eftir því sem þörf krefur. Athugunin skal ekki valda ótilhlýðilegri röskun á starfsemi eða ónauðsynlegum útgjöldum fyrir viðkomandi.
    1)L. 164/2002, 28. gr. 2)L. 61/1996, 6. gr. 3)L. 164/2002, 29. gr.
22. gr. [Umhverfisráðherra] 1) er heimilt, að fenginni umsögn [Umhverfisstofnunar], 2) að stöðva tiltekna starfsemi tímabundið ef hætta er á mengun sjávar er brýtur gegn lögum þessum, meðal annars vegna vanbúnaðar eða annarra ástæðna, svo sem náttúruhamfara. Skal stöðvunin vara þar til eðlilegar aðstæður fyrir starfsemina eru fyrir hendi. Ákvörðun um stöðvun starfsemi skal tilkynna viðkomandi aðilum bréflega eða með símskeyti eins fljótt og kostur er ásamt ástæðum fyrir stöðvuninni og upplýsingum um hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að starfsemi megi hefja á ný.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)L. 164/2002, 28. gr.

X. kafli. Framkvæmd og eftirlit.
23. gr. Í þeim tilgangi að treysta framkvæmd laganna er [umhverfisráðherra] 1) heimilt að setja í reglugerð 2) nánari ákvæði um búnað skipa, palla, annarra mannvirkja á sjó og fyrirtækja í landi til varnar gegn mengun sjávar af völdum olíu, sbr. þó 9. gr., og enn fremur með hvaða hætti reglubundið eftirlit með þessum búnaði skuli fara fram.
3)
[Umhverfisráðherra] 1) skal … 3) setja reglur um flokkun eiturefna og annarra hættulegra efna sem notuð eru til mengunarvarna samkvæmt lögum þessum.
[Umhverfisráðherra] 1) er heimilt … 3) að setja frekari reglur um söfnun og eyðingu úrgangsolíu.
    1)L. 47/1990, 9. gr. 2)Rg. 8/1971 (varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu), rg. 35/1994 (varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi), rg. 715/1995 (varnir gegn mengun sjávar frá skipum), rg. 786/1999 (um mengunarvarnaeftirlit), sbr. 850/2000. 3)L. 61/1996, 7. gr.
24. gr. Eftirlit og framkvæmd laga þessara og reglugerða, sem settar verða samkvæmt þeim, er í höndum [Umhverfisstofnunar], 1) með aðstoð þeirra aðila sem tilgreindir eru í 2. málsl. 21. gr. Kostnaður af reglubundnu eftirliti með mengunarvarnabúnaði greiðist úr ríkissjóði en annar kostnaður af eigendum búnaðarins.
[Umhverfisráðherra] 2) annast framkvæmd eftirtalinna alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar:
    1. Alþjóðasamþykkt frá 12. maí 1954 um varnir gegn óhreinkun sjávar af völdum olíu, með breytingum frá 1962 og 1969.
    2. Alþjóðasamningur frá 15. febrúar 1972 um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum (Óslóarsamningurinn).
    3. Alþjóðasamningur frá 29. desember 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það (Lundúnasamningurinn).
    4. Samningur frá 4. júní 1974 um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum (Parísarsamningurinn).
    5. Alþjóðasamningur frá 2. nóvember 1973 um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL).
Um aðra mengun sjávar en þá, sem kveðið er á um í lögum þessum, fer samkvæmt lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, 3) og lögum nr. 117/1985, um geislavarnir.
    1)L. 164/2002, 28. gr. 2)L. 47/1990, 9. gr. 3)l. 81/1988.
25. gr. Eftirlitsaðilar skulu hvenær sem þeir óska eiga greiðan aðgang að öllum upplýsingum um búnað til mengunarvarna og um rekstur hans, svo og öllum mælingum eða skýrslum yfir athuganir sem gerðar hafa verið á vegum eigenda eða rekstraraðila vegna mengunarvarna, hvort sem athuganir þessar eru gerðar að kröfu opinberra aðila eða að frumkvæði eigenda eða rekstraraðila.

XI. kafli. Mælingar á mengunarefnum í sjó.
26. gr. Í þeim tilgangi að meta og fylgjast með hugsanlegum breytingum á mengun hafsins skal [umhverfisráðherra] 1) láta fara fram reglulegar rannsóknir og mælingar á mengunarefnum í sjó, í sjávarlífverum og á hafsbotni.
Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rannsóknum þessum.
    1)L. 47/1990, 9. gr.

XII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
27. gr. Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum, [fangelsi allt að einu ári] 1) eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar. Dæma má fésekt jafnframt [fangelsi] 1) ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
    1)L. 82/1998, 181. gr.
28. gr. Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
29. gr. Með mál vegna brota á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
Heimilt er þó að hafnarstjóri geri sekt fyrir losun eða úrkast frá skipi á hafnarsvæði sínu, enda sé brot viðurkennt og hafi ekki valdið meiri háttar tjóni, svo og að bætur skv. 15. gr. séu greiddar eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra. Heimild þessi er takmörkuð við sektir allt að 40.000 króna enda játist sökunautar undir þessa ákvörðun og greiði sektina þegar í stað. [Hafnarstjóri skal tilkynna lögreglustjóra um þau mál sem hann lýkur með þessum hætti. Ríkissaksóknara er heimilt að fella slík málalok úr gildi eftir reglum laga um meðferð opinberra mála.] 1)
1)
[Umhverfisráðherra] 2) er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd sektargerða skv. [2. mgr.] 1)
    1)L. 92/1991, 87. gr. 2)L. 47/1990, 9. gr.
30. gr. Ef brotið er gegn ákvæðum II. og IV. kafla laga þessara og brotið tengist skipi, en málinu er ekki lokið með greiðslu sektar skv. 29. gr., skal [skipið kyrrsett] 1) og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en málinu er lokið og sekt og málskostnaður greiddur að fullu, svo og kostnaður skv. 15. gr.
Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging eða önnur trygging jafngild … 2) til greiðslu sektar og alls kostnaðar.
Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt grein þessari, málskostnaðar og kostnaðar skv. 15. gr. skal vera lögveð í skipinu.
    1)L. 19/1991, 195. gr. 2)L. 19/1991, 194. gr.
31. gr. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
32. gr. Sektir samkvæmt lögum þessum renna í sjóð sem verja skal til mengunarvarna á sjó eftir því sem nánar segir í reglugerð 1) er [umhverfisráðherra] 2) setur.
    1)Rg. 198/1991. 2)L. 47/1990, 9. gr.
33. gr. Ef aðili sinnir ekki innan tiltekins frests fyrirmælum hlutaðeigandi stjórnvalds um að vinna verk eða koma upp búnaði sem fyrir er mælt í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má ákveða honum dagsektir þar til úr er bætt.
Hámark dagsekta skal ákveðið í reglugerð og renna þær í sjóð skv. 32. gr.

XIII. kafli. Gildistaka.
34. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …

Fylgiskjal 1.
    1. Lífræn halógen-efnasambönd og efni sem geta myndað þau í hafinu, að þeim efnum undanskildum sem eru líffræðilega óskaðleg eða sem breytast fljótt í sjónum í efni sem eru líffræðilega óskaðleg.
    2. Kvikasilfur og efnasambönd þess.
    3. Kadmín og efnasambönd þess.
    4. Varanleg gerviefni sem geta flotið, marað, sokkið og valdið alvarlegri röskun á lögmætum notum hafsins.
    5. Olíur, olíukennd kolvetni og lýsi.
    6. Geislavirk efni, þar með talinn geislavirkur úrgangur.
    7. Lífræn efnasambönd fosfórs, kísils og tins og efni sem geta myndað slík efnasambönd í hafinu, að undanskildum þeim efnum sem eru líffræðilega óskaðleg eða sem breytast fljótt í sjónum í efni sem eru líffræðilega óskaðleg.
    8. Óbundinn fosfór.
    9. Eftirtalin frumefni og efnasambönd þeirra: arsen, blý, króm, nikkel, eir og sink.
    10. Efni sem sýnt er að hafi skaðleg áhrif á bragð eða lykt fæðu úr sjónum.

Fylgiskjal 2.
    1. Lífræn halógen-efnasambönd.
    1.1 DDT og efni gerð þar af, svo sem DDE og DDD.
    1.2 Önnur þrávirk, eitruð, lífræn halógen-efnasambönd.
    2. Kvikasilfur, kadmín og sambönd þessara efna.
    3. Sýra, lútur eða yfirborðsvirk efni í miklu magni.
    4. Olía og olíuúrgangur.
    5. Önnur efni sem haft geta varanleg áhrif á bragð, lykt, lit, skyggni eða aðra eiginleika hafsins og sem alvarlega geta spillt þokka umhverfisins.
    6. Hlutir og efni sem geta flotið, marað eða sokkið og sem geta valdið alvarlegri röskun á lögmætri nýtingu hafsins.