Fjöldi alþingismanna frá 1844

Á ráðgjafarþingunum sex sem háð voru á árunum 1845–1857 áttu kjördæmakjörnir þingmenn að vera 20 og konungkjörnir þingmenn sex en þar sem enginn þingmaður var kjörinn fyrir Vestmannaeyjasýslu á þessu árabili voru kjördæmakjörnir þingmenn á þingi þá 19 talsins.

Árið 1857 var gerð sú breyting að Skaftafellssýslu var skipt í tvö kjördæmi og fjölgaði þá kjördæmakjörnum þingmönnum um einn. Frá og með þingkosningunum 1858 var þingmaður kjörinn á þing fyrir Vestmannaeyjasýslu. Kjördæmakjörnir þingmenn voru því 21 á ráðgjafarþingunum 1859–1873 en konungkjörnir þingmenn sex og þingmenn alls 27.

Með gildistöku stjórnarskrárinnar frá 1874 urðu kjördæmakjörnir þingmenn 30 en konungkjörnir þingmenn voru sex eins og verið hafði á tíma ráðgjafarþinganna. Tala kjördæmakjörinna þingmanna var óbreytt til 1904 en þá var þeim fjölgað um fjóra og tóku hinir nýju þingmenn í fyrsta sinn sæti á Alþingi við setningu þess árið 1905.

Konungkjör þingmanna var fellt niður árið 1915. Landskjörnir þingmenn komu í þeirra stað, jafnmargir og konungkjörnu þingmennirnir höfðu verið, og fór fyrsta landskjörið fram árið 1916.

Kjördæmakjörnum þingmönnum var fjölgað í 36 árið 1920 þegar þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað um tvo.

Árið 1934 urðu kjördæmakjörnir þingmenn 38 þegar þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað um tvo. Jafnframt var landskjör lagt niður og tekið upp kjör 11 jöfnunarþingmanna. Þingmenn á Alþingi urðu alls 49.

Næst breyttist tala þingmanna árið 1942 þegar kjördæmakjörnir þingmenn urðu 41 en jöfnunarþingmenn voru eftir sem áður 11. Heildarfjöldi þingmanna varð 52.

Þingsætum fjölgaði um átta árið 1959 þegar gerð var mikil breyting á kjördæmaskipulaginu og hefur þeim aldrei fjölgað jafnmikið í einum áfanga. Eftir breytinguna voru kjördæmakjörnir þingmenn 49 og jöfnunarþingmenn 11 en þingmenn alls 60.

Árið 1987 var þingsætum fjölgað um þrjú, var eitt þeirra kjördæmasæti en tvö jöfnunarþingsæti. Þingmenn á Alþingi urðu 63 og hefur fjöldi þeirra verið óbreyttur síðan.


Fjöldi alþingismanna frá 1844 
Tímabil

Kjördæma-
kjörnir
þingmenn

Konung-kjörnir
þingmenn

Lands-
kjörnir
þing-­
menn

Jöfnunar-
þingmenn

Þing-
menn alls

1844–1858

19

(áttu að vera 20)

6     25
1858–1874 21 6     27
1874–1904 30 6     36
1904–1916 34 6     40
1916–1920 34   6   40
1920–1934 36   6   42
1934–1942 38     11 49
1942–1959 41     11 52
1959–1987 49     11 60
1987–2003 50     13 63
2003– 54     9 63