Kosningar til ráðgjafarþingsins og þjóðfundarins 1844–1869

Fyrstu alþingiskosningarnar sem haldnar voru á Íslandi fóru fram árið 1844. Sýslur landsins, 19 talsins, og Reykjavíkurkaupstaður mynduðu kjördæmin 20 og skyldi kosinn einn þingmaður í hverju þeirra ásamt varamanni. Einnig tilnefndi Danakonungur sex þingmenn til setu á þinginu sem kallaðir voru konungkjörnir þingmenn. Kjörtímabil þingmanna var sex ár og kosið var fimm sinnum til ráðgjafarþingsins, árin 1844, 1852, 1858, 1864 og 1869. Þar sem þing var háð annað hvert ár veitti kosning þingmanni umboð til setu á þremur þingum.

Síðustu kosningarnar til ráðgjafarþingsins fóru fram áður en sex ára kjörtímabili þingmanna væri lokið sökum þess að konungur rauf þing að beiðni danskra stjórnvalda. Áttu þingkosningarnar sem á eftir fylgdu að stuðla að lausn á hinni langvinnu stjórnlagadeilu Íslendinga við danska ríkið en svo fór ekki og í stað þess að samkomulag næðist og Alþingi samþykkti tillögu danskra stjórnvalda að nýrri skipan mála setti danska þingið svonefnd stöðulög.

Auk framangreindra þingkosninga voru kjörnir 40 fulltrúar á þjóðfund í kosningum sem fóru fram vorið og sumarið 1850 í stað reglulegra þingkosninga það ár. Voru þá kjörnir tveir fulltrúar í hverju kjördæmi. Sátu 37 þeirra þjóðfundinn, sem haldinn var í Reykjavík dagana 5. júlí til 9. ágúst 1851 og einnig sex fulltrúar sem konungur hafði tilnefnt.

Kosningar fóru ekki fram samtímis í öllum kjördæmunum heldur voru fyrstu kosningarnar haldnar snemma vors og hinar síðustu síðla hausts samkvæmt ákvörðun kjörstjóra í hverju kjördæmi. Áttu þingkosningar alls staðar að vera afstaðnar fyrir septemberlok ári áður en þing átti næst að koma saman. Aðeins einn kjörfundur var heimilaður í hverju kjördæmi nema í Skaftafellssýslu þar sem leyft var að hafa tvo kjörfundi sökum þess hve víðáttumikið kjördæmið var og erfitt yfirferðar. Boða átti til kjörfundar með sex vikna fyrirvara. Sýslumenn stýrðu kjörfundi og með þeim sátu fjórir menn í kjörstjórn. Í Reykjavík stýrði bæjarfógeti kjörfundi.

Ekki voru lagðir fram skriflegir framboðslistar við kosningarnar heldur nægði að frambjóðendur tilkynntu um framboðið til sýslumanns eða lýstu því yfir á kjörfundi að þeir gæfu kost á sér til setu á ráðgjafarþinginu.

Kosið var í heyranda hljóði og fór kjörið þannig fram að kjósendur stóðu frammi fyrir kjörstjórninni og sögðu hátt og skýrt nafn þess einstaklings sem þeir greiddu atkvæði sitt. Varð sá kjörinn þingmaður sem fékk flest atkvæði.

Árið 1857 var reglum um kosningar breytt og tekið upp meirihlutakjör. Það þýddi að frambjóðandi varð að hljóta meiri hluta atkvæða til að ná kjöri sem þingmaður kjördæmisins og gat þetta þýtt að kosningarnar yrðu að fara fram í allt að þremur umferðum. Skaftafellssýslu var skipt í tvö kjördæmi við breytinguna 1857. Kjördæmin voru eftir það 21 og kjördæmakjörnir þingmenn jafnmargir þar sem öll kjördæmin voru einmenningskjördæmi, óháð fólksfjölda.