Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 114  —  114. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Hlutafélögum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: samlagshlutafélögum.
     b.      Í stað orðsins „Sameignarfélögum“ í 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. kemur: Samlagsfélögum og sameignarfélögum.
     c.      Í stað orðsins „sameignarfélag“ í 3. málsl. 3. tölul. 1. mgr. kemur: samlagsfélag eða sameignarfélag.
     d.      Í stað orðsins ,,sameignarfélags“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: samlagsfélags eða sameignarfélags.
     e.      4. málsl. 2. mgr. fellur brott.

2. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna orðast svo: Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu ,,hlutareiganda“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð.
     b.      Á eftir orðinu ,,hlutafélagi“ í 2. mgr. kemur: eða samlagshlutafélagi.
     c.      Á eftir orðinu ,,félagi“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.
     d.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Hafi aðili eignast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða við upphaflegt kaupverð hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996, eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 17. gr., sé það hærra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Söluhagnaður eigna telst mismunur á söluverði þeirra og stofnverði, að teknu tilliti til fenginna fyrninga og áður fengins söluhagnaðar eftir því sem nánar er ákveðið í 11.–27. gr.
     b.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Við ákvörðun söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum sem skattaðili hefur eignast fyrir lok reikningsársins 2001 skal stofnverð ákvarðast í samræmi við endurmat þessara eigna og fengnar fyrningar við framtalsgerð á árinu 2002. Sama gildir um stofnverð ófyrnanlegra eigna sem notaðar eru í atvinnurekstri og eigna sem ekki hafa verið teknar í notkun í lok reikningsársins 2001, sbr. 33. gr.
             Við ákvörðun söluhagnaðar af ófyrnanlegum eignum sem einstaklingur hefur eignast fyrir árslok 2001 og ekki eru tengdar atvinnurekstri hans skal stofnverð þeirra hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

5. gr.

    Orðin „þegar stofnverð og fyrningar hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr., sbr. einnig 36. gr.“ í 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    12. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra að frádregnum áður fengnum niðurfærslum skv. 31. gr. A og söluhagnaði, sbr. 4. mgr. þessarar greinar og 4. mgr. 10. gr., hins vegar. Ef skattaðili hefur eignast hina seldu eign fyrir árslok 1978 er honum heimilt að nota gildandi fasteignamat í árslok 1979 í stað stofnverðs. Frá fasteignamati leigulóðar í þessu sambandi skal draga afgjaldskvaðarverðmæti, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 74. gr.
     b.      Orðin „framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.
     c.      Orðin „framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr.“ í 4. málsl. 4. mgr. falla brott.
     d.      2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Hagnaður af sölu telst mismunur á söluverði og kaupverði, eftir að frá því hafa verið dregnar fengnar fyrningar og niðurfærsla skv. 6. mgr.
     e.      Orðin „framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til þess árs þegar hann er tekjufærður“ í 3. málsl. 6. mgr. falla brott.

9. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra og stofnverði, sbr. 4. mgr. 10. gr.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Orðin „framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. og orðið „framreiknaður“ í 4. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      3. mgr. orðast svo:
             Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr. þessarar greinar og 4. mgr. 10. gr.
     c.      2. málsl. 4. mgr. fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, í árslok 2001 ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
     b.      4. mgr. orðast svo:
             Við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð þeirra að frádregnu jöfnunarverðmæti, sbr. 3. mgr., eða upphaflegu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 1996 ef það er hærra. Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, í árslok 1996 ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra eða jöfnunarverðmæti þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.
     c.      Orðin „annarra en eigin bréfa“ í 1. málsl. 5. mgr. falla brott.
     d.      6. málsl. 5. mgr. fellur brott.
     e.      3. málsl. 7. mgr. orðast svo: Kaupverð hlutabréfa sem rekstraraðili hefur fengið afhent sem stofnfjáreigandi skal þó ákvarðað sem kaupverð samkvæmt framangreindu þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli frá árslokum 1996 til ársloka 2001 enda hafi hlutabréfin verið eignfærð í atvinnurekstrinum.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Orðin „þegar kaupverð og eigin úttekt hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Orðin „en að undanskildum 65% af fjárfestingarsjóði, sbr. 11. tölul. 31. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi:
             Þó skal hagnaður af sölu eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 2001 ákvarðast sem hlutur hans í eigin fé félagsins í byrjun árs 2001 eða sem raunverulegt kaupverð að frádreginni eigin úttekt, sé það hærra, þegar kaupverð og eigin úttekt hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár til ársloka 2001.

13. gr.

    Orðin „án tillits til verðbreytinga, sbr. 26. gr.“ í 20. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

15. gr.


    26. gr. laganna fellur brott.

16. gr.


    2. mgr. 27. gr. laganna fellur brott.

17. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Orðið „framreiknaðs“ í 4. tölul. fellur brott.
     b.      5. tölul. orðast svo: Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þó skal telja framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni, að viðbættum áður áunnum lífeyrisréttindum og framtíðarlífeyrisréttindum, skapa réttindi til greiðslu ellilífeyris umfram þau meðallaun sem greitt hefur verið af síðustu fimm ár miðað við að ellilífeyrir sé tekinn með jöfnum greiðslum frá 67 ára aldri.
             Við mat á áunnum réttindum skal leggja saman áunnin réttindi í tryggingadeildum lífeyrissjóða miðað við 67 ára aldur. Einnig skal leggja saman áunnin réttindi í séreign og þau umreiknuð miðað við útgreiðslu lífeyris með jöfnum greiðslum í fimmtán ár frá 67 ára aldri.
             Við mat á framtíðarréttindum til ellilífeyris skal miðað við að áfram sé greitt í tryggingadeild lífeyrissjóðs til 67 ára aldurs 10% iðgjald af meðallaunum síðustu fimm ára. Miða skal við að lífeyrissparnaður í séreign sé greiddur með jöfnum greiðslum í fimmtán ár frá 67 ára aldri.
             Við útreikning áunninna réttinda og framtíðarréttinda skal miða við 3,5% vexti.
             Hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða það bundið í lögum skal það aldrei teljast til skattskyldra tekna.
             Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessa töluliðar, þ.m.t. um hvaða upplýsingar unnt er að krefja launagreiðendur, sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega vegna framkvæmdar ákvæðisins.
     c.      Í stað orðanna „barnabótaauki, vaxtabætur og húsnæðisbætur“ í 7. tölul. kemur: og vaxtabætur.
     d.      8. tölul. orðast svo: Matshækkun búfjár skv. 2. tölul. 74. gr., enda kemur matslækkun ekki til frádráttar tekjum.
     e.      Við greinina bætist nýr töluliður svohljóðandi: Húsaleigubætur, sbr. lög nr. 138/1997.

18. gr.

    4. málsl. 2. mgr. 30. gr. laganna fellur brott.

19. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. tölul. kemur nýr töluliður svohljóðandi: Niðurfærslu vörubirgða í lok reikningsárs um allt að 5% af matsverði, sbr. 4. tölul. 74. gr.
     b.      Orðin „framreiknaðar samkvæmt ákvæðum 26. gr.“ í 7. tölul. falla brott.
     c.      Við 8. tölul. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Orðin „að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 36. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi:
             Fyrningargrunnur eigna, sem skattaðili hefur eignast fyrir lok reikningsársins 2001, og fengnar fyrningar þeirra ákvarðast í samræmi við endurmat stofnverðs við framtalsgerð á árinu 2002.

21. gr.

    36. gr. laganna fellur brott.

22. gr.


    37. gr. laganna fellur brott.

23. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „119.508“ í 1. málsl. kemur: 150.000.
     b.      2. málsl. fellur brott.

24. gr.

    44. gr. laganna fellur brott.

25. gr.


    53. gr. laganna fellur brott.

26. gr.

    Í stað tilvísunar í „7. tölul. 31. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 57. gr. A laganna kemur: 8. tölul. 31. gr.

27. gr.

    Á eftir 57. gr. B laganna kemur ný grein, 57. gr. C, svohljóðandi:

Yfirfærsla einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag.


    Stofni einstaklingur í atvinnurekstri einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum atvinnurekstrarins og hefur með höndum sams konar rekstur eða starfsemi skal sú yfirfærsla ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     a.      Eigandi rekstrarins skal bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr.
     b.      Félagið er tekur við rekstrinum skal skráð hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu, sbr. 2. gr.
     c.      Við yfirfærsluna fær eigandi rekstrarins eingöngu hluti í félaginu sem gagngjald fyrir allar eignir og skuldir rekstrarins.
     d.      Tilkynningu til hlutafélagaskrár um stofnun félagsins skal auk þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt lögum um einkahlutafélög fylgja stofnefnahagsreikningur, endurskoðaður af endurskoðanda eða skoðunarmanni, og yfirlýsing um yfirfærslu einkareksturs yfir í einkahlutafélag. Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingunni skal enn fremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins.
    Við yfirfærsluna skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum rekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, enda séu skilyrði 8. tölul. 31. gr. uppfyllt. Þó ber sá sem stundaði reksturinn ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opinberu gjalda sem varða reksturinn fyrir yfirfærslu hans. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Stofnverð hluta í einkahlutafélaginu ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í stofnefnahagsreikningi.

28. gr.


    Í stað 1. mgr. 59. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Endurgjald fyrir vinnu þeirra sem reikna skulu sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. skal eigi vera lægra en launatekjur launamanns hefðu orðið ef starfið hefði verið unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Ríkisskattstjóri setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds og framkvæmd þessara ákvæða að öðru leyti. Við ákvörðun lágmarks reiknaðs endurgjalds skal höfð hliðsjón af kjarasamningum og raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.
    Færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið er í reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr., skal skattstjóri hækka endurgjaldið til samræmis við þá fjárhæð, sem til viðmiðunar er samkvæmt þeim reglum, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi gjaldandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning sem gefa skattstjóra tilefni til að fallast á lægra reiknað endurgjald. Skattstjóri skal við ákvörðun sína gæta að umfangi starfs, starfsemi og afkomu rekstrarins svo og starfstíma og aðstöðu viðkomandi manns, aldurs hans og heilsu.
    Ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi manns með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi má ekki mynda tap umfram það sem nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. Reiknað endurgjald elli- og örorkulífeyrisþega við eigin atvinnurekstur skal ekki ákveðið hærra en svo að ekki myndist við það tap á rekstrinum.

29. gr.


    Í stað tilvísunarinnar „7. tölul. 1. mgr. 31. gr.“ í 3. mgr. 3. tölul. 62. gr. laganna kemur: 8. tölul. 1. mgr. 31. gr.

30. gr.


    Í stað hlutfallstölunnar „26,08“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 25,75.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „20“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. tölul. kemur: 15.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar ,,13“ í 2. mgr. 2. tölul. kemur: 10.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „30“ í 1. mgr. kemur: 18.
     b.      Á eftir orðinu „sameignarfélaga“ í 2. mgr. kemur: og samlagsfélaga.
     c.      Í stað hlutfallstölunnar „38“ í 2. mgr. kemur: 26.

33. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 74. gr. laganna:
     a.      Orðin „og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr.“ í 2. málsl. 1. tölul. falla brott.
     b.      Orðin „og að teknu tilliti til endurmats samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV og verðbreytinga eftir árið 1979 skv. 26. gr.“ í 1. mgr. 3. tölul. falla brott.
     c.      Orðin „án endurmats“ í 2. mgr. 3. tölul. falla brott.
     d.      Við 4. tölul. bætist við nýr málsliður svohljóðandi: Þó skal heimilt að draga allt að 5% frá þannig reiknuðu matsverði.
     e.      Orðin „eftir að stofnverð, fyrningar og niðurfærslur hafa verið hækkaðar eða lækkaðar í samræmi við ákvæði 26. gr.“ í 8. tölul. falla brott.

34. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 78. gr. laganna kemur nýr málsliður svohljóðandi: Sama gildir um sambærileg markaðsverðbréf og skuldabréf gefin út af aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „3.651.749“ á tveimur stöðum í greininni kemur: 4.720.000.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „1,2“ kemur: 0,6.

36. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „1,2“ í 1., 2. og 3. mgr. kemur: 0,6.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „3.651.749“ í 2. og 3. mgr. kemur: 4.720.000.

37. gr.


    Í stað orðanna ,,skriflega rökstudda kæru“ í 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna kemur: rökstudda kæru, skriflega eða rafræna, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

38. gr.


    Á eftir 105. gr. laganna kemur ný grein, 105. gr. A, svohljóðandi:

Áætlanagerð og hagrannsóknir.


    Fjármálaráðherra getur óskað eftir skýrslum frá skattstjórum, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, í því formi er hann ákveður, um framtaldar tekjur og eignir, álagða skatta og önnur atriði er varða áætlanagerð og hagrannsóknir fjármálaráðuneytisins.

39. gr.


    7. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
    Skattstjóra er heimilt að krefjast þess að aðilar, sem um ræðir í 3. gr., setji tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum svo og fyrir skattgreiðslum annarra aðila sem þeir eru ábyrgir fyrir.

40. gr.


    Við 4. mgr. 117. gr. laganna bætast sex nýir málsliðir svohljóðandi: Til að mæta þeim kostnaði sem fjármálaráðherra hefur af gerð bindandi álita skal greiða gjald er miðast við þá vinnu sem hann hefur af gerð álits í hverju tilviki. Þegar beiðni um álit er lögð fram skal greiða grunngjald að fjárhæð 50.000 kr. Viðbótargjald sem miðast við umfang máls skal greiða áður en fjármálaráðherra lætur álitið uppi. Um fjárhæð viðbótargjaldsins fer eftir gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur. Ráðherra getur ákveðið, í þeim tilvikum þegar máli hefur verið vísað frá eða beiðni er dregin til baka, að endurgreiða gjald samkvæmt þessari málsgrein. Ákvörðun um fjárhæð gjalds samkvæmt þessari málsgrein er hvorki hægt að bera undir yfirskattanefnd né dómstóla.

41. gr.


    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal heimilt að fella meginmál þeirra inn í lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og gefa þau út með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum svo breytt.

42. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæðum til bráðabirgða í lögunum:
     a.      Ákvæði til bráðabirgða XLI, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 149/2000, orðast svo:
             Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2001 skal árið 2002 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
             Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.865.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 7.730.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
             Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.865.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.865.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
             Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.
     b.      Við bætast fimm ný ákvæði, svohljóðandi:
        A. (I.)
             Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2002 skal árið 2003 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
             Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.980.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 7.960.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
             Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.980.000 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.980.000 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
             Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.
             Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2003 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst 2002 til desember 2002. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2002 vegna tekna á árinu 2001 umfram 3.980.000 kr. hjá einstaklingi og umfram 7.960.000 kr. hjá hjónum.
             Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 5. mgr. skulu vera fyrstu dagar mánaðanna ágúst 2002 til og með desember 2002. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar.
             Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 5. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Ákvörðun skattstjóra er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar skattstjóra. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því kæra barst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
             Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
             Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal bæta 2,5% álagi við mismuninn.
             Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.
        B. (II.)
             Við framtalsgerð á árinu 2003 skal leysa upp endurmatsreikning sem myndaður hefur verið skv. 37. gr. gildandi laga og færa með öðru eigin fé í efnahagsreikningi.
         C. (III.)
             Heimilt er að færa til frádráttar rekstrartekjum eftirstöðvar rekstrartapa áranna 1994 til og með 2001 í samræmi við ákvæði 8. tölul. 31. gr., eftir að eftirstöðvarnar hafa verið framreiknaðar samkvæmt verðbreytingarstuðlum fyrir hvert ár til ársloka 2001.
        D. (IV.)
             Aðilar sem fengið hafa frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. 2. mgr. 13. gr., 4. mgr. 14. gr., 2. mgr. 16. gr., 5. mgr. 17. gr. eða 2. mgr. 27. gr. fyrir gildistöku laga þessara skulu hækka söluhagnaðinn eða eftirstöðvar hans samkvæmt verðbreytingarstuðlum fyrir hvert ár til ársloka 2001.
        E. (V.)
             Hækka skal fjárhæðir sem um ræðir í B-lið 69. gr. og 78. gr. sem hér segir:
              a.      1. janúar 2002 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 3,0% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2003 vegna tekna á árinu 2002 og eigna í lok þess árs.
              b.      1. janúar 2003 skulu umræddar fjárhæðir hækka um 2,25% og kemur breytingin til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 vegna tekna á árinu 2003 og eigna í lok þess árs.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.
43. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „5.277.058“ í a-lið 3. gr. laganna kemur: 6.332.500.

44. gr.

    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Lögin falla úr gildi 31. desember 2002.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
45. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „4,34“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: 5,11.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
46. gr.

    Við 2. tölul. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um mann sem launagreiðandi skal ákveða endurgjald fyrir skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr.

47. gr.


    2. tölul. 5. gr. laganna orðast svo: Endurgjald manns, maka hans og barns vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, sjálfstæða starfsemi eða hjá lögaðila skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

48. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Manni sem ber að reikna sér endurgjald, sbr. 2. tölul. 4. gr., ber að tilkynna skattstjóra um áætlaðar tekjur sínar á staðgreiðsluárinu í samræmi við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, sbr. 59. gr. laga nr. 75/1981, fyrir 20. janúar ár hvert á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Launagreiðandi sem hefur í þjónustu sinni starfsmann sem ákveða skal endurgjald fyrir skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 skal við staðgreiðslu reikna honum endurgjald í samræmi við reglur ríkisskattstjóra, sbr. 59. gr. sömu laga.
    Telji skattstjóri að endurgjald, sbr. 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr., á staðgreiðsluári sé lægra en samræmist reglum ríkisskattstjóra skv. 59. gr. laga nr. 75/1981 skal hann ákvarða endurgjaldið í samræmi við þær reglur. Þó má skattstjóri víkja frá lágmarki endurgjalds samkvæmt reglum ríkisskattstjóra við ákvörðun sína á grundvelli skriflegra skýringa og nauðsynlegra gagna.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum.
49. gr.

    25. gr. laganna fellur brott.

50. gr.


    3. málsl. 1. mgr. 80. gr. laganna orðast svo: Birta skal reglur reikningsskilaráðs í B-deild Stjórnartíðinda.

51. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við fyrstu reikningsskil eftir gildistöku laga þessara skal leysa upp endurmatsreikning sem myndaður hefur verið skv. a-lið 1. mgr. 25. gr. laga um ársreikninga og færa með öðru óráðstöfuðu eigin fé félagsins.
    Endurmatsreikning sem myndaður hefur verið skv. b-lið 25. gr. þessara laga má aðeins leysa upp ef hin endurmetna eign er seld, tekin úr notkun eða fullafskrifuð, svo og ef forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.
52. gr.

    30. gr. laganna fellur brott.

53. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við fyrstu reikningsskil eftir gildistöku laga þessara skal leysa upp endurmatsreikning sem myndaður hefur verið skv. 30. gr. laga um bókhald og færa með öðru óráðstöfuðu eigin fé efnahagsreiknings.

VII. KAFLI
Gildistaka laganna.
54. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2003. Þó skulu ákvæði 1. gr., a-, b- og c-liðir 3. gr., b- og c-liðir 17. gr., c-liður 19. gr., 34. gr., a-liður 35. gr., b-liður 36. gr., 37. gr., 38. gr., 39. gr., 40. gr., 41. gr., a-liður 42. gr., 43. gr. og 50. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2002. Ákvæði 45. gr. öðlast gildi 1. janúar 2003 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu á því ári og álagningu á árinu 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir viðamiklum breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt auk breytinga á lögum um sérstakan eignarskatt, lögum um tryggingagjald, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Í stórum dráttum má skipta þessum breytingum í fjóra meginþætti.
    Í fyrsta lagi er um að ræða margvíslegar breytingar á skatthlutföllum og viðmiðunarstærðum skattkerfisins bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þannig lækka tekjuskattar fyrirtækja umtalsvert og sama má segja um eignarskatta fyrirtækja. Eignarskattar einstaklinga lækka einnig verulega, auk nokkurrar lækkunar á tekjuskatti þeirra, jafnt á almenna skatthlutfallinu og viðmiðunarmörkum „hátekjuskattsins“. Á móti er gert ráð fyrir tiltölulega lítilli hækkun á tryggingagjaldi til þess að geta stigið stærri skref en ella í skattalækkunum. Í öðru lagi er afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum og reikningsskilum sem er stórt skref í átt að aðlögun okkar kerfis að kerfum annarra ríkja. Í þriðja lagi er lagt til að skattaleg meðferð einstaklinga í atvinnurekstri við yfirfærslu rekstrar í einkahlutafélag lúti sömu reglum og yfirfærslur milli annarra félagaforma. Í fjórða lagi eru ýmsar aðrar breytingar er fyrst og fremst snúa að túlkun og framkvæmd laganna, auk nokkurra lagfæringa. Hér á eftir er gerð frekari grein fyrir hverjum þessara þátta.

1. Skattabreytingar fyrirtækja og einstaklinga.
    Sem fyrr segir er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á skattalögum, sem varða bæði einstaklinga og fyrirtæki. Tekjuskattar fyrirtækja lækka verulega og sama má segja um eignarskatta fyrirtækja og einstaklinga. Nokkur lækkun verður einnig á tekjuskatti einstaklinga auk þess sem skattskylda húsaleigubóta fellur niður. Á móti er gert ráð fyrir lítilsháttar hækkun á tryggingagjaldi. Breytingarnar taka gildi á árunum 2002–2003.
    Ekki er auðvelt að meta áhrif þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs. Ef einungis er horft til brúttóáhrifa, þ.e. án tillits til hugsanlegra áhrifa þeirra á almenna framvindu efnahagsmála og þar með einnig á afkomu ríkissjóðs, má ætla að tekjur ríkissjóðs gætu lækkað um nálægt 7 milljarða króna á næstu þremur árum. Þessi fjárhæð gefur hins vegar engan veginn rétta mynd af stöðunni þar sem hér er alveg litið fram hjá ýmsum veigamiklum efnahagslegum áhrifum þessara aðgerða sem munu m.a. birtast í auknum fjárfestingum, aukinni atvinnu, aukinni tekjumyndun og almennt auknum umsvifum í þjóðarbúskapnum. Meðal annars má ætla að þessar aðgerðir muni leiða til bæði aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til útlanda. Jafnframt má ætla að lækkun eignarskatta skili sér að hluta í auknum þjóðhagslegum sparnaði og að hluta í aukinni veltu. Öll þessi atriði eru í reynd grundvallarforsenda þess að gripið er til þessara aðgerða.
    Niðurstöður útreikninga á efnahagslegum áhrifum aðgerðanna benda til þess að nettóáhrif skattalækkana af þessari stærðargráðu á afkomu ríkissjóðs séu um það bil helmingur þeirrar fjárhæðar sem áður var nefnd, eða nálægt 3,5 milljörðum króna. Jafnvel má telja sennilegt að jákvæðu áhrifin verði mun meiri, ekki síst þegar fram í sækir. Í þessu sambandi má benda á að þegar tekin var ákvörðun um samræmdan fjármagnstekjuskatt, sem m.a. fól í sér umtalsverða lækkun á skattlagningu arðs, söluhagnaðar af hlutabréfum og húsaleigu, var gert ráð fyrir að hugsanlegt tekjutap mundi skila sér til baka vegna aukinna umsvifa og viðskipta á fjármagnsmarkaði. Sú varð líka raunin og reyndar gott betur þar sem skatttekjurnar tvö- til þrefölduðust frá því sem áður var og urðu miklu meiri en jafnvel bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir fyrirfram. Þetta sýnir hve erfitt er að meta áhrif svo umfangsmikilla skattkerfisbreytinga sem hér um ræðir og því allt eins líklegt að hér sé varlega áætlað.
    Enn fremur er fróðlegt að skoða hvernig tekjur ríkissjóðs af tekjusköttum fyrirtækja hafa þróast á undanförnum árum. Árið 1991 skiluðu tekjuskattar fyrirtækja rétt um 5 milljörðum króna í ríkissjóð. Þessi fjárhæð var tvöfalt hærri árið 2000, hvort tveggja reiknað á verðlagi þess árs. Á sama tíma hafði skatthlutfallið hins vegar lækkað úr 45% í 30%. Þótt hér blandist vissulega inn í áhrif efnahagsuppsveiflunnar má heldur ekki gleyma þætti skattalækkunarinnar í þessari uppsveiflu.
    Veigamestu atriði frumvarpsins varðandi skattabreytingar eru eftirfarandi:
     *      Lækkun tekjuskatts hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaða ábyrgð úr 30% í 18% á árinu 2002 sem kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2003. Á sama tíma lækkar tekjuskattur sameignarfélaga og samlagsfélaga úr 38% í 26%.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -2.700 m.kr.
     *      Afnám verðbólguleiðréttinga frá 1. janúar 2002.
         –          Áhrif á tekjur ríkissjóðs eru óveruleg.
     *      Hækkun fríeignamarka eignarskatts og sérstaks eignarskatts einstaklinga um 20% vegna eigna í árslok 2001 til að koma í veg fyrir hækkun eignarskatta vegna sérstakrar hækkunar fasteignamats.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -1.000 m.kr. ef ekki kæmi til þessi hækkun.
     *      Afnám sérstaks eignarskatts lögaðila og einstaklinga í árslok 2002.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -800 m.kr.
     *      Helmings lækkun almenns eignarskatts lögaðila og einstaklinga, þ.e. úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -3.100 m.kr.
     *      Lækkun á tekjuskatti einstaklinga úr 26,08% í 25,75% frá 1. janúar 2002.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -1.250 m.kr.
     *      Hækkun frítekjumarka í sérstökum tekjuskatti einstaklinga um 15% vegna tekna á árinu 2001.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -600 m.kr.
     *      Skattskylda húsaleigubóta afnumin á árinu 2002.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs -150 m.kr.
     *      Hækkun almenna tryggingagjaldsins um 0,77% sem kemur til framkvæmda í staðgreiðslu frá 1. janúar 2003.
                  Brúttóáhrif á tekjur ríkissjóðs 2.500 m.kr. Þar af greiða atvinnufyrirtæki þrjá fjórðu hluta.
    Auk framantaldra breytinga sem allar felast í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir lækkun stimpilgjalds frá 1. janúar 2003 sem áætlað er að kosti ríkissjóð um 900 m.kr. á ári. Jafnframt er á döfinni að heimila fyrirtækjum að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt frá 1. janúar 2002 að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Frumvörp þessa efnis verða lögð fyrir Alþingi á næstunni.
    Nú er tæplega áratugur frá því að gripið var til umfangsmikilla skattalækkana á fyrirtæki til þess að treysta stöðu atvinnulífsins og koma efnahagslífinu upp úr þeirri lægð sem það var í. Hæst bar verulega lækkun tekjuskatts fyrirtækja og afnám aðstöðugjalds. Með þessu varð skattalegt umhverfi fyrirtækja hér á landi með því besta sem þekktist í okkar helstu viðskiptalöndum.
    Frá þessum tíma hafa hins vegar orðið stórfelldar breytingar á alþjóðavettvangi sem hafa gjörbreytt þessari stöðu. Samhliða auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum hafa augu stjórnvalda í vaxandi mæli beinst að því að treysta samkeppnisstöðu fyrirtækja, meðal annars með lækkun fyrirtækjaskatta. Af hálfu atvinnulífsins hefur verið brugðist við þessum breyttu aðstæðum með aukinni hagræðingu, sameiningu fyrirtækja o.fl. Þessi þróun var og er nauðsynleg til þess að fyrirtæki geti mætt sífellt aukinni samkeppni erlendra keppinauta þar sem landamæri skipta sífellt minna máli og fjármagn og fyrirtæki leita einfaldlega til þeirra landa sem bjóða hagstæðustu aðstæðurnar.
    Íslenskt atvinnulíf býr að mörgu leyti við erfiðari aðstæður en erlend fyrirtæki, meðal annars vegna smæðar markaðarins, fjarlægðar frá erlendum mörkuðum og þar með meiri flutningskostnaðar o.fl. Þess vegna skiptir jafnvel enn meira máli hér á landi en annars staðar að skapa atvinnulífinu starfsskilyrði sem eru ekki aðeins sambærileg við önnur lönd heldur betri.
    Enn fremur bendir margt til þess að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug. Þetta á bæði við um tekjuskattshlutfallið, sem í dag er rétt undir meðallagi OECD-ríkjanna, en var langt fyrir neðan það fyrir tæplega áratug. Einnig er rétt að hafa í huga að samhliða lækkun skatthlutfallsins hér á landi var skattstofninn breikkaður með afnámi ýmissa frádráttarheimilda og er skattstofninn því óvíða jafn breiður og hér. Eins má halda því fram að álagning eignarskatta á fyrirtæki líkt og hér er gert sé að verða einsdæmi meðal vestrænna ríkja, enda hafa flest ríki sem enn lögðu eignarskatta á fyrirtæki í upphafi síðasta áratugar fellt þá niður. Sömu sögu má segja um álagningu stimpilgjalds sem rýrir samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja. Tillögur OECD í nýlegri úttekt á íslenska skattkerfinu hníga einnig í sömu átt.
    Álagning eignarskatta í núverandi mynd er að mörgu leyti barn síns tíma og endurspeglar viðhorf til skattlagningar sem voru ríkjandi þegar eignamyndun og fjármagnsstraumar voru með öðrum hætti en nú er. Aukin alþjóðavæðing og opnari fjármagnsmarkaðir leiða hins vegar glöggt í ljós ýmsa augljósa galla eignarskatta og gera endurskoðun álagningar þeirra mjög brýna. Þetta á sérstaklega við um eignarskatta fyrirtækja sem hafa neikvæð áhrif á fjárfestingu og hvetja til aukinnar eyðslu og halda þar með aftur af framleiðni- og hagkvæmniþróun í atvinnulífinu.
    Með upptöku samræmds fjármagnstekjuskatts með 10% skatti á nafnvexti sem áður voru skattfrjálsir og lækkun skatta á öðrum fjármagnstekjum má enn fremur segja að veigamiklar forsendur fyrir álagningu eignarskatta á einstaklinga hafi brostið. Enda hefur verið á það bent að skattlagning á fjármagnstekjum getur orðið afar há þegar áhrif eignarskatta eru tekin með í reikninginn. Það er því mjög náið samhengi milli fjármagnstekjuskatts og eignarskatta og nauðsynlegt að taka tillit til þess við mat á heildarskattlagningu fjármagns. Af ýmsum ástæðum var þó á þessum tíma ekki talið tímabært að afnema eignarskatta samhliða álagningu fjármagnstekjuskatts, ekki síst þar sem fyrstu áætlanir gáfu til kynna að fjármagnstekjuskatturinn mundi skila miklu minni tekjum en eignarskattarnir.
    Af þessum ástæðum er eðlilegt að stíga myndarlegt skref í átt til lækkunar eignarskatta einstaklinga. Jafnframt eru gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að nýleg hækkun fasteignamats leiði til hækkunar eignarskatta einstaklinga á næsta ári með hækkun fríeignamarka. Loks eru frítekjumörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga, sem stundum er ranglega nefndur „hátekjuskattur“, hækkað enda leggst skatturinn núorðið í auknum mæli á fólk með tekjur rétt yfir meðaltali þar sem viðmiðunarmörkin hafa dregist verulega aftur úr almennri launaþróun undanfarin ár. Þá er einnig rétt að hafa í huga að nú þegar hefur verið ákveðið að lækka tekjuskattshlutfallið um 0,33% um næstu áramót.
    Til þess að auka svigrúm ríkissjóðs til lækkunar á tekju- og eignarsköttum er í þessu frumvarpi gert ráð fyrir hækkun almenna tryggingagjaldsins um 0,77 prósentustig sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu frá 1. janúar 2003.
    Efnahagsleg rök fyrir þessum breytingum eru margvísleg. Hér er valin sú leið að lækka skatta á fjármagn og hækka skatta á vinnuafl sem er rökrétt miðað við ríkjandi aðstæður hér á landi og stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Einnig er rétt að hafa í huga að tryggingagjöld hér á landi eru tiltölulega lág miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum jafnvel þótt tekið sé tillit til lífeyrisiðgjalda. Hér eru jafnframt á ferðinni einhverjar umfangsmestu skattalækkunaraðgerðir sem gripið hefur verið til gagnvart atvinnulífinu hér á landi. Enginn vafi er á að þær munu örva atvinnulífið og skapa forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu þess, bæði fyrir tilstilli innlendra og erlendra fyrirtækja, og þannig renna traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Af þessum ástæðum geta þessar aðgerðir fyllilega samrýmst áframhaldandi traustri og aðhaldssamri hagstjórn þar sem þær munu, þegar upp er staðið, stuðla að stækkun skattstofna sem vegur upp á móti þeirri tekjulækkun sem verður í upphafi. Hins vegar er áfram mikilvægt að gæta ítrasta aðhalds í ríkisfjármálum.

2. Afnám verðbólguleiðréttinga.
    Árið 1998 skipaði fjármálaráðherra nefnd til skoða verðbólgureikningsskil. Verkefni nefndarinnar var að draga fram og meta kosti þess og galla að hverfa frá verðbólgureiknisskilum, jafnframt því að gera tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar. Nefndin skilaði skýrslu sinni til fjármálaráðherra í júní sl. ásamt þeirri megintillögu að lögum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt þannig að öll ákvæði laganna um leiðréttingar fyrir áhrif verðlagsbreytinga verði felld niður. Jafnframt lagði hún til að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga.
    Í frumvarpinu er að finna lagalega útfærslu á tillögum nefndarinnar, en skýrsla hennar ásamt fylgiskjölum fylgir hér með sem fylgiskjal I. Til frekari glöggvunar er þó í eftirfarandi umfjöllun tæpt á helstu atriðum tillagnanna.
    Verðbólguleiðréttingar skattskila hafa tíðkast hér á landi í rúmlega tvo áratugi. Upphaf þeirra verður rakið til laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, en áður en þau lög komu til framkvæmda voru gerðar veigamiklar breytingar á þeim með lögum nr. 7/1980 og aftur með lögum nr. 25/1978. Þannig breytt voru lög um tekjuskatt og eignarskatt síðan endurútgefin sem lög nr. 75/1981 sem enn eru í gildi.
    Allan áttunda áratuginn ríkti hér á landi ástand óðaverðbólgu og ekki seinna vænna að margra áliti að takast á við vandann við reikningsskil og skattálagningu. Á ýmsum tímum höfðu þó verið gerðar tímabundnar breytingar á ákvæðum skattalaga í því augnamiði að lagfæra skattstofna vegna áhrifa hennar. Má þar nefna endurmat fyrnanlegra eigna, flýtifyrningar, verðstuðulsfyrningar, niðurfærslu vörubirgða og skattfrelsi söluhagnaðar eftir tiltekinn eignarhaldstíma.
    Markmið fyrrgreindra lagabreytinga á árum 1978 og 1981 var hins vegar það að bæta afkomuhugtakið sjálft og allt eignamat með því að aðlaga það verðbólgunni. Tekið var upp árlegt endurmat fastafjármuna og fyrningareglum var breytt, svo og reglum um skattlagningu söluhagnaðar. Verðbreytingarfærslan var innleidd en hún hafði meðal annars þann tilgang að færa áhrif verðbreytinga á peningalegar eignir og skuldir í rekstrarreikning þannig að afkoma eftir færslu verðbreytingarfærslunnar sýni raunverðsbreytingu á eigin fé sem stafar af rekstri. Þessi mismunur á peningalegum eignum annars vegar og skuldum hins vegar gefur tilefni til gjaldfærslu ef eignir eru hærri en skuldir, en tekjufærslu ef skuldir eru umfram eignir sem svarar til almennra verðlagsbreytinga.

Hækkun verðbreytingarstuðuls milli ára, %

1980 45,51 1991 19,16
1981 54,91 1992 6,18
1982 53,49 1993 1,17
1983 53,78 1994 3,11
1984 71,67 1995 1,84
1985 26,72 1996 3,21
1986 28,68 1997 6,08
1987 28,43 1998 2,02
1988 17,95 1999 1,27
1989 18,48 2000 5,61
1990 22,24 2001 4,18

     Umfang verðbólguleiðréttinga. Áhrifin af verðbólguleiðréttingum skattalaga hafa verið mikil, einkum á því tímabili þegar verðbólgan var sem hæst. Fyrstu fimm árin eftir að lögin komu til framkvæmda var verðleiðrétting samkvæmt ákvæðum skattalaga yfir 40% en framtalsárið 1984 fór hún í tæp 72%. Næstu sjö árin þar á eftir var verðbreytingin á bilinu 19% til 29% en hefur síðan verið undir 7%. Á framtalsárinu 2001 er verðbreytingarstuðullinn 1,0418 og verðbreytingin milli ára því 4,18%. Í töflunni hér að framan er til fróðleiks stillt upp hækkun verðbreytingarstuðuls milli ára frá upphafi.
     Áhrif verðbólguleiðréttinga. Með því að falla frá verðleiðréttum skattskilum er í raun farið að skattleggja nafnverðsafkomu í stað raunverðsafkomu sem á verðbólgutímum getur leitt til hugsanlegrar ofsköttunar. Þá þykja verðbólgureikningsskil fræðilega réttari, auk þess að ná betur því markmiði að sýna raunverulega afkomu og efnahag fyrirtækja. Með verðleiðréttum skattskilum er verið að leitast við að skattleggja raunhagnað fyrirtækjanna. Á hinn bóginn er ljóst að taka má tillit til hugsanlegrar ofsköttunar eftir öðrum aðferðum en beinum verðleiðréttingum.
    Verðleiðrétting skattskila fyrir áhrifum verðbólgu getur verið vandkvæðum bundin og hafa fáar þjóðir lögleitt slíkar reglur og þá eingöngu þjóðir þar sem veruleg verðbólga ríkir. Sú leið sem valin var hér á landi felur í raun í sér mjög mikla einföldun þar sem verðleiðréttingin miðast við heildarstærðir í byrjun reikningsárs og reglur um árlegt endurmat eigna og afskriftir eru hafðar einfaldar. Þrátt fyrir að aðferðin sé einföld er nokkur vinna við að gera skattskil í samræmi við verðbólguákvæði skattalaga bæði hjá þeim sem framkvæma uppgjörið og hjá þeim sem vinna við skatteftirlit.
    Þegar verðbólga er lág minnkar þörfin fyrir að leiðrétta skattstofna vegna hennar. Miðað við núverandi aðstæður má því spyrja hvort ástæða sé til að viðhalda þessum verðleiðréttingum og leggja í þá vinnu sem því fylgir. Auk þess er allur samanburður við reikningsskil erlendra fyrirtækja ómarktækur vegna verðbólguleiðréttra reikningsskila hér á landi, en eins og áður hefur komið fram hefur ekkert af nágrannaríkjum okkar talið ástæðu til að taka upp árlegar verðleiðréttingar á sama hátt og við. Vaxandi alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja kallar einnig á samræmingu í reikningsskilum við önnur lönd.
     Áhrif verðbólguleiðréttinga á skattskil. Í skýrslu nefndar um verðbólgureikningsskil, sbr. fylgiskjal I, er að finna niðurstöður athugunar nefndarinnar á áhrifum verðleiðréttra skattskila á skattgreiðslur rúmlega 10 þúsund fyrirtækja fyrir rekstrarárin 1998 og 1999. Leitast var við að endurreikna skatta þessara fyrirtækja eftir að færslur vegna verðbólguleiðréttinga voru teknar út. Ekki er um að ræða sama hóp fyrirtækja bæði árin, en niðurstöðurnar ættu þó að gefa nokkuð góða mynd af útkomunni þessi tilteknu ár. Rétt er að vekja athygli á að ekki er tekið með í þessa útreikninga sjálfstæð starfsemi eða atvinnurekstur einstaklinga.
    Þegar á heildina er litið hækka heildargreiðslur tekjuskatts lítillega bæði árin, en breytingin er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Breytingin er meiri árið 1999, en þá var verðbreytingarfærslan hærri og félögin fleiri. Í stórum dráttum virðast það helst hafa verið fjármálafyrirtækin sem nutu lægri skatta á þessum árum vegna verðbreytingarfærslunnar, enda þau fyrirtæki jafnan með mikla gjaldfærslu vegna stöðu peningalegra eigna og skulda þeirra. Aðrar greinar hafa í fljótu bragði greitt hærri skatta vegna leiðréttingarinnar. Við brottfall verðbólguleiðréttingarinnar snýst staðan við. Til skamms tíma litið ætti ríkissjóður því ekki að verða af tekjum vegna afnáms verðbólguleiðréttinga í skattskilum en vegna hækkunar á yfirfæranlegu tapi gætu áhrifin til lengri tíma litið leitt til lægri skattgreiðslu fyrirtækja.
    Að lokum er rétt að vekja athygli á því að við afnám verðbólguleiðréttinga má búast við að eignarskattsstofninn lækki þar sem varanlegir rekstrarfjármunir verða ekki framreiknaðir árlega en ekki hefur það verið metið sérstaklega. Að öðru leyti er vísast til skýrslu nefndarinnar, sbr. fylgiskjal I. með þessu frumvarpi.
     Verðbólguleiðréttingar í reikningsskilum. Í gegnum tíðina hafa skattalögin verið sá grunnur sem ársreikningagerð fyrirtækja hefur öðru fremur byggst á og mótast af. Svo er að vissu marki enn a.m.k hvað varðar minni fyrirtæki. Mikill fjöldi smárra fyrirtækja hefur lagt höfuðáherslu á gerð ársreikninga í samræmi við ákvæði skattalaga og gerð þeirra gagna sem fylgja skulu skattframtalinu. Minna var hirt um þýðingu reikningsskilalegra hugtaka um afkomu eða fjárhagsstöðu.
    Á ýmsum tímum hafa verið gerðar tímabundnar breytingar á ákvæðum skattalaga sem áttu að taka nokkurt mið af verðbólgu og lagfæra skattstofna vegna áhrifa hennar. Þessar breytingar höfðu einnig áhrif á reikningsskil fyrirtækja. Sem dæmi má nefna heimildir til flýtifyrninga og einskiptis endurmat eigna.
    Með lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var tekin upp verðbólguleiðrétting í skattskilum. Mat eigna var aðlagað verðbólgunni með árlegum framreikningi þeirra.
    Það er ekki fyrr en með lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald, sem fram koma ákvæði um árlegt endurmat í reikningsskilum og ákvæði um að taka tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag félaga. Í lögunum er heimilað að leiðrétta liði efnahagsreiknings, þar með talið eigið fé, vegna áhrifa verðbólgu og skulu þá slíkar leiðréttingar einnig taka til rekstrarreiknings.
    Verðbólguleiðréttingar í lágri verðbólgu hafa ekki sömu þýðingu og þegar mikil verðbólga ríkir. Til þess að íslensk og erlend reikningsskil verði samanburðarhæf er nauðsynlegt að hverfa frá leiðréttum reikningsskilum og til þeirra aðferða sem almennt eru notaðar í samanburðarlöndum. Ekkert annað OECD ríkjanna en Ísland leiðréttir reikningsskil fyrir áhrifum verðbólgu þrátt fyrir að nokkur verðbólga sé í þeim ríkjum. Mikilvægt er að saman fari afnám verðleiðréttra reikningsskila og skattskila.
    Erlendir viðskiptaaðilar skilja almennt ekki afkomuhugtak íslenskra fyrirtækja og er erfitt að skýra fyrir þeim framreikning á kostnaðarverði eigna og þá sérstaklega verðbreytingarfærslu. Jafnframt má nefna, sem er þó einna þýðingarmest í þessu sambandi, að alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja og allt starfsumhverfi þeirra krefst þess að reikningsskilin verði samanburðarhæf við reikningsskil erlendra fyrirtækja.

3.     Yfirfærsla á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að færa eigur einstaklings í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft. Markmiðið með þessari breytingu er að gera einstaklingum í atvinnurekstri kleift að breyta um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar komi. Eingöngu er gert ráð fyrir að hægt sé að breyta einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag en ekki í hlutafélag eða önnur rekstrarform.
    Við skattframkvæmd er litið svo á að þegar einstaklingur í atvinnurekstri stofnar einkahlutafélag sem tekur við eða kaupir atvinnurekstur hans fari fram sala eða afhending á þeim eignum sem tengst hafa atvinnurekstrinum. Einkahlutafélagið er meðhöndlað sem sjálfstæður skattaðili og því telst yfirfærsla eigna til félagsins frá einkarekstrinum sala. Uppgjör söluhagnaðar hefur farið eftir ákvæðum 10.–27. gr. gildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt og er hann skattlagður eins og aðrar atvinnurekstrartekjur.
    Á undanförnum árum hefur hlutafélagaformið (einkahlutafélög) rutt sér til rúms hér á landi. Þannig þykir eftirsóknarvert að styðjast við lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem hafa að geyma skýrar reglur um ábyrgð, stofnun og form einkahlutafélaga.
    Í gildandi lögum er að finna ákvæði er fjalla um sameiningar og skiptingar félaga (IV. kafli laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt). Samkvæmt umræddum ákvæðum hefur skipting eða sameining hlutafélaga, samvinnufélaga og sameignarfélaga ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann er lætur eignarhlut sinn í hlutafélagi, samvinnufélagi eða sameignarfélagi af hendi enda séu skilyrði umræddra ákvæða uppfyllt að öðru leyti.
    Með vísan til framangreinds þykir eðlilegt að einstaklingum sem stundað hafa rekstur í eigin nafni verði heimilt að umbreyta rekstrarforminu og færa reksturinn yfir í einkahlutafélag án þess að til skattskyldu verði stofnað enda er í raun ekki um yfirfærslu eigna að ræða heldur fyrst og fremst umbreyting á rekstrarformi. Á hinn bóginn þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt eigi aðilar að njóta þeirrar heimildar sem um ræðir í 1. mgr. Nánar er fjallað um þau skilyrði í athugasemdum með 26. grein frumvarpsins.
    Við yfirfærslu rekstrarins skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum einstaklingsrekstrarins þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, sbr. 7. tölul. 31. gr. enda um samskonar rekstur eða starfsmemi að ræða. Þó ber sá sem stundaði einstaklingsreksturinn ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opinberru gjalda sem varða reksturinn fyrir yfirfærslu hans. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Kaupverð hluta í einkahlutafélaginu ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í einstaklingsrekstrinum við yfirfærsluna.

4.     Aðrar breytingar.
    Aðrar breytingar frumvarpsins eru allmargar og sumar hverjar nokkuð umfangsmiklar, án þess þó að hafa í för með sér efnislegar breytingar á lögunum. Í ljósi þess er rétt að fjalla sérstaklega um þrjár þeirra. Í fyrsta lagi er nánari útfærsla á skattalegri meðferð samlagsfélaga, samlagshlutafélaga og eigenda þeirra. Í öðru lagi er ítarlegri skilgreining á reiknuðu endurgjaldi. Í þriðja lagi er nánari útfærsla á skattalegri meðferð og frádráttarbærni lífeyrisiðgjalda.
     Skattaleg meðferð samlagsfélaga, samlagshlutafélaga og eigenda þeirra. Engin ákvæði eru um samlagshlutafélög í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Í lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög er hins vegar vikið að samlagshlutafélögum. Taka lögin til samlagshlutafélaga eftir því sem við á samkvæmt 134. gr. sömu laga. Samlagshlutafélag öðlast rétthæfi við skráningu í hlutafélagaskrá skv. 1. mgr. 10. gr., sbr. 134. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og eru því lögaðilar. Einkenni samlagshlutafélaga er það að einn félagsmaður að minnsta kosti ber beina og ótakmarkaða ábyrgð á meðan aðrir félagsmenn bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli þess hlutafjár sem þeir hafa greitt til rekstrarins.
    Þessu félagsformi hefur verið skipað á bekk með hlutafélögum með tilliti til skattskyldu. Þannig var að finna ákvæði um samlagshlutafélög í eldri skattalögum, en með lögum nr. 30/1971 féll það ákvæði niður. Ástæða þess er talin sú að menn hafa á þeim tíma ekki talið félagsform þetta skipta miklu máli, þar sem það tíðkaðist lítt hér á landi. Að stofni til er enn í gildi reglugerð nr. 245 frá 1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er samlagshlutafélaga getið ásamt hlutafélögum. Þótt ekki hafi á undanförnum árum verið sérstaklega minnst á þessi félög í skattalögum, verður að telja eðlilegast að skipa þeim með hlutafélögum í þessu tilliti, þ.m.t. reglur 9. gr. laganna um skattalega meðferð arðs og fella undir skilgreiningu 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, enda virðast þessi félög hafa verið talin félög með takmarkaðri ábyrgð í skattalögum, þótt þeirra sé ekki sérstaklega getið í félagarétti.
    Með samlagsfélögum í frumvarpi þessu er átt við félag þar sem minnst einn félagsaðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Þetta félagsform hefur hingað til verið sjaldgæft hér á landi, en þó hefur nokkuð farið að bera á því á síðustu árum. Í ljósi þess að mismunandi skatthlutfall gildir um lögaðila þykir eðlilegt að félög þessi skattleggist með sama hlutfalli og sameignarfélög og lúti sömu skilyrðum skattalega og þau félög.
    Ekki hafa verið sett sérstök lög um samlagsfélög fremur en sameignarfélög. Samlagsfélögum svipar hins vegar mjög til sameignarfélaga og eru reglur um þau félög taldar gilda um samlagsfélög þar sem sérstakar ástæður leiða ekki til annars. Ákvæði laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð eru keimlík um bæði þessi félagsform. Almennt hefur verið talið að óeðlilegt sé að aðrar og vægari kröfur séu gerðar um skattalega stöðu samlagsfélaga en sameignarfélaga, þar sem sömu rök eiga við um skattalega meðferð beggja þessara félagsforma.
     Breytingar á reglum um reiknað endurgjald. Á undanförum árum hafa einstaklingar í atvinnurekstri í auknum mæli verið að færa rekstur sinn yfir í einkahlutafélagaformið. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi á tekjuskattlagningu lögaðila er ljóst að sú þróun heldur áfram, jafnvel í ríkari mæli en áður. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila (sameignarfélagi, hlutafélagi, samlagshlutafélagi, einkahlutafélagi o.fl.), sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri. Þetta er gert með tillögum að breytingum um ítarlegra orðalag í 7. gr. og 59. gr. gildandi laga sem fjalla um reiknað endurgjald í atvinnurekstri. Með þeim breytingum er reynt að koma í veg fyrir að hluthafar eða hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun langt undir því sem almennt getur talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila.
     Skattaleg meðferð framlags launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda. Á 125. löggjafarþingi var lagt fram stjórnarfrumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem laut m.a. að skattalegri meðferð framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóða. Efnahags- og viðskiptanefnd gerði breytingartillögu við þá tillögu sem fram kom í frumvarpinu og var hún samþykkt og frumvarpið varð að lögum nr. 86/2000, sbr. 5. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Með lögum nr. 86/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var lögfest sú venjuhelgaða regla að launagreiðanda sé heimilt að draga iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda frá skattskyldum tekjum. Fram að þeim tíma var ekki að finna í lögum skýr ákvæði um rétt launagreiðenda til að draga iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda starfsmanna sinna frá sem rekstrarkostnað. Samkvæmt núgildandi ákvæði telst framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ekki til skattskyldra tekna. Þó skal telja til skattskyldra tekna framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni skapa réttindi umfram þau meðallaun sem greitt hefur verið af síðustu fimm ár miðað við að ellilífeyrir sé tekinn með jöfnum greiðslum frá 65 ára aldri. Samkvæmt ákvæðinu skal við mat á réttindum til ellilífeyris miðað við að áfram sé greitt í lífeyrissjóð af meðallaunum launþegans síðustu fimm ára eftir því sem lög og kjarasamningar mæla fyrir um. Þá skulu aldrei teljast til skattskyldra tekna iðgjöld í lífeyrissjóð hafi um þau verið samið í kjarasamningum eða þau bundin í lögum.
    Framkvæmd ákvæðisins hefur valdið nokkrum vandkvæðum. Það leiðir einkum af því að forsendur fyrir útreikningum á því með hvaða hætti meta skulu áunnin lífeyrisréttindi og þau lífeyrisréttindi sem gert er ráð fyrir að aflað verði til framtíðar eru nokkuð óljósar. Því eru í frumvarpi þessu lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðinu með það að markmiði að skýra það og auðvelda framkvæmd þess um leið og leitast er við að breyta efnisreglu þess sem minnst.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er lagðar til breytingar á 2. gr. laganna sem fjallar um skattskyldu lögaðila. Breytingar sem hér eru lagðar til felast í því að samlagshlutafélög eru sérstaklega tilgreind í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. til að taka af öll tvímæli um skattlagningu þessa félaga forms. Sama máli gegnir um samlagsfélögin sem lagt er til að verði sérstaklega tilgreind í 3. tölul. 1. mgr. sem mun þá eftir breytinguna fjalla um skattskyldu samlags- og sameignarfélaga. Markmið þessara breytinga er eins og áður sagði að taka af öll tvímæli um skattalega meðferð samlagsfélaga og samlagshlutafélaga.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan eru engin ákvæði um samlagshlutafélög í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en í lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög er hins vegar vikið að samlagshlutafélögum. Taka lögin til samlagshlutafélaga eftir því sem við á samkvæmt 134. gr. sömu laga. Samlagshlutafélag öðlast rétthæfi við skráningu í hlutafélagaskrá samkvæmt 1. mgr. 10. gr., sbr. 134. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög og eru því lögaðilar. Litið er á félagsform þetta sem blöndu af einkahlutafélagi og samlagsfélagi sem hefur verið skipað á bekk með hlutafélögum með tilliti til skattskyldu. Þar af leiðandi fellur sérhver afhending verðmæta úr slíku félagi til eigenda undir 9. gr. laganna um skattalega meðferð arðs. Ekki hafa heldur verið sett sérstök lög um samlagsfélög fremur en sameignarfélög, en með samlagsfélögum er átt við félag þar sem minnst einn félagsaðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Samlagsfélögum svipar hins vegar mjög til sameignarfélaga, og eru reglur um þau félög taldar gilda um samlagsfélög, þar sem sérstakar ástæður leiða ekki til annars.

Um 2. gr.


    Hér er ekki um eiginlega efnisbreytingu að ræða á 7. gr. gildandi laga um skattskyldar tekjur heldur er verið að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila (sameignarfélagi, hlutafélagi, samlagshlutafélagi, einkahlutafélagi o.fl.), sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í einkarekstri. Þessi breyting er gerð í tengslum við aðrar breytingar frumvarpsins um lækkun tekjuskatthlutfalls lögaðila í þeim tilgangi að girða fyrir að hluthafar eða hlutareigendur ákvarði sér laun langt undir því sem almennt getur talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila.

Um 3. gr.


    Í a-, b- og c-liðum greinarinnar eru lagðar til breytingar á 9. gr. gildandi laga um skattskyldan arð til að taka af öll tvímæli um skattalega meðferð á afhendingu verðmæta til eigenda félaga sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., þ.m.t. samlagshlutafélaga, óháð því hvernig ábyrgð þeirra er háttað.
    Í d-lið greinarinnar er lögð til breyting vegna afnáms verðbólguleiðréttinga. Breytingin lýtur að því að tilvísun í 26. gr. laganna fellur brott.

Um 4. gr.


    Í 10. gr. gildandi laga er að finna sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna og skattalega meðferð hans, þ.m.t. verðbólguleiðréttingar.
    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að bætt verði við gildandi ákvæði, sem fjallar almennt um söluhagnað eigna, tveimur nýjum málsgreinum vegna afnáms verðbólguleiðréttinga. Í fyrri málsgreininni er fjallað um söluhagnað af fyrnanlegum eignum í atvinnurekstri sem skattaðili hefur eignast fyrir lok rekstrarársins 2001. Valin er sú leið að miða við lok rekstrarársins 2001 þar sem ýmis fyrirtæki hafa annað reikningsár en almanaksárið.
    Í síðari málsgreininni er almennt ákvæði um hvernig ákvarða skuli stofnverð söluhagnaðar af ófyrnanlegum eignum einstaklinga utan atvinnurekstrar sem hann hefur eignast fyrir árslok 2001. Er lagt til að stofnverðið ákvarðist í samræmi við þær reglur sem í gildi voru um framreikning stofnverðs við sölu eigna á árinu 2001.

Um 5.–7. gr.


    Tillögur að breytingum í þessum þremur greinum, sem fjalla um söluhagnað eigna sem heimilt er að fyrna, eru tilkomnar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 8. gr.


    Í greininni eru einungis efnisbreytingar á 14. gr. gildandi laga sem lúta að afnámi verðbólguleiðréttinga. Í ákvæði þessu er fjallað um hvernig fara beri með söluhagnað eigna sem ekki er heimilt að fyrna. Hér er um að ræða ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, sölu á bújörðum og sölu aflahlutdeildar. Þá ná ákvæði greinarinnar einnig til eigna einstaklinga sem eru utan atvinnurekstrar svo sem sumarhús, hesthús, jarðir o.fl. svo og íbúðarhúsnæðis sem er umfram tilgreind stærðarmörk.

Um 9. gr.


    Þessi breyting á 15. gr. gildandi laga er gerð vegna afnáms verðbólguleiðréttinga, en heimilt verður að framreikna stofnverð lausafjár sem ekki má fyrna, sem skattaðili hefur eignast fyrir lok reikningsársins 2001, eftir þeim reglum sem fram koma í 4. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 4. gr. frumvarps þessa.

Um 10. gr.


    Grein þessi fjallar um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Ekki er um að ræða aðrar efnisbreytingar en þær sem lúta að afnámi verðbólguleiðréttinga.

Um 11. gr.


    Í a-, b-, d- og e-liðum eru lagðar til breytingar á 17. gr. gildandi laga vegna afnáms verðbólguleiðréttinga, en núgildandi grein tekur til söluhagnaðar af eignarhlutum í félögum.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að fella brott ákvæði um sölu eigin bréfa þar sem hún telst ekki vera skattskyld samkvæmt gildandi reglum.

Um 12. gr.


    18. gr. fjallar um hagnað af sölu eignarhluta í sameignarfélögum og samlögum, en þær breytingar sem hér eru lagðar til eru eingöngu vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 13. gr.


    20. gr. fjallar um hagnað af sölu eigna sem falla undir atvinnurekstur eða sölu eigna þegar þeirra hefur verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði. Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 14.–16.gr.


    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru allar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga, þar á meðal er brottfall 26. gr. gildandi laga. Sú grein tekur til þess hvernig ákvarða á árlegan verðbreytingarstuðul til notkunar við endurmat á eignum og skuldum aðila eftir því sem við á.

Um 17. gr.


    28. gr. gildandi laga fjallar um hvað ekki telst til tekna.
    Í a-lið greinarinnar eru lagðar til breytingar er varða afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum.
    Í b-lið greinarinnar eru lagðar til ýmsar breytingar er varða skattalega meðferð og frádráttarbærni lífeyrisiðgjalda.
    Eins og áður er komið fram hefur við framkvæmd ákvæðisins komið í ljós að það er ekki nægjanlega skýrt orðað og hefur það valdið erfiðleikum. Einkum skortir nokkuð á forsendur fyrir útreikning þeirra viðmiðunarfjárhæða sem skattskyldan miðar við. Til að eyða þeirri óvissu er lagt til að við ákvæðið verði bætt nokkrum atriðum sem gera forsendur útreikningsins skýrari. Rétt er að taka fram að um óverulegar efnisbreytingar á ákvæðinu er að ræða. Fyrst og fremst er verið að skapa þær reikningslegu forsendur sem skort hefur og kveða skýrar á um atriði er valdið hafa vafa.
    Þannig er í fyrsta lagi lagt til að í 2. málsl. 1. mgr. verði bætt inn orðunum "að viðbættum áunnum lífeyrisréttindum og framtíðarlífeyrisréttindum". Með þessu er tekinn af allur vafi um það að tillit verði bæði tekið til áunninna lífeyrisréttinda sem og þeirra framtíðarlífeyrisréttinda sem launþeginn kann að afla sér. Með orðinu meðallaun í 2. málsl. 1. mgr. er átt við tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr.
    Í annan stað er lagt til að við mat á áunnum réttindum skuli leggja saman áunnin réttindi í tryggingadeildum lífeyrissjóða miðað við 67 ára aldur í stað 65 ára aldur nú. Það byggist á því að almennt er taka ellilífeyris miðuð við 67 ára aldur og lífeyrissjóðir miða útreikning lífeyrisréttinda lífeyrissjóða við það aldursmark.
    Í þriðja lagi er lagt til að miðað verði við að lífeyrissparnaður í séreign verði greiddur út með jöfnum greiðslum í fimmtán ár frá 67 ára aldri. Nauðsynlegt er að lögfesta tiltekið aldursmark sem miða skal útreikning lífeyrisréttinda við þannig að unnt sé að meta að hvaða marki greiðslur til öflunar lífeyrisréttinda eru skattfrjálsar. Aldursmarkið 82 ár byggist á mati tryggingastærðfræðinga á meðalaldri sjóðfélaga lífeyrissjóða.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að við mat á framtíðarréttindum til ellilífeyris verði miðað við að áfram sé greitt í tryggingadeild lífeyrissjóðs til 67 ára aldurs 10% iðgjald af meðallaunum síðustu fimm ára. Við mat á réttindunum skal við það miðað að lífeyrissparnaður í séreign sé greiddur með jöfnum greiðslum í fimmtán ár frá 67 ára aldri. Með þessu er lagt til að miðað verði við fasta hlutfallstölu í stað þess að vísa til laga og kjarasamninga almennt. Þessi breyting ætti að leiða til mun einfaldari framkvæmdar þar sem ekki þarf að skoða sérstaklega hvaða lög og kjarasamningar gilda um hvern og einn einstakling. Eðlilegt þykir að miðað sé við 10% þar sem það er lögbundið lágmark til öflunar lífeyrisréttinda.
    Í fimmta lagi er lagt til að við útreikning áunninna réttinda og framtíðarréttinda skuli miða við 3,5% vexti. Þetta er sama vaxtaviðmið og miðað er við við núvirðisreikning væntanlegs lífeyris, sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.
    Loks er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um framkvæmd þessa töluliðar, þ.m.t. hvaða upplýsinga unnt sé að krefja launagreiðendur, sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega um vegna framkvæmdar ákvæðisins.
    Í c-lið greinarinnar eru orðin barnabótaauki og húsnæðisbætur felld brott. Húsnæðisbætur voru afnumdar með lögum nr. 79/1989 og með lögum nr. 65/1997 var barnabótaauki afnuminn, en með breytingum þessum láðist að fella brott tilvísun í 28. gr.
    Í d-lið eru gerðar breytingar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Í e-lið er lagt til að skattskylda húsaleigubóta verði afnumin.

Um 18. gr.


    2. mgr. B-liðar 30. gr. fjallar um hækkun heildarfyrningargrunns íbúðarhúsnæðis í atvinnurekstri. Þær breytingar sem lagðar eru til hér eru vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 19. gr.


    31. gr. fjallar um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri.
    Í a-lið greinarinnar er lagt til að veitt verði heimild til niðurfærslu vörubirgða í tengslum við afnám verðbólguleiðréttinga um allt að 5% af matsverði þeirra.
    Í b-lið greinarinnar er að finna leiðréttingar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að fjármálaráðherra setji reglur um hvernig skilgreina beri orðalagið ,,með sambærilegum hætti“ í 8. tölul. 31. gr.

Um 20. gr.


    Greinin fjallar um fyrningargrunn eigna.
    Í a-lið greinarinnar eru gerðar breytingar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að fyrningargrunnur og fengnar fyrningar haldist eins og ákvarðað verður við framtalsgerð á árinu 2002. Með þessu ákvæði er verið að viðhalda hlutfalli ófyrnanlegs hluta eignarinnar eftir samþykkt þessa frumvarps.

Um 21.–22. gr.


    Í 36. gr. gildandi laga er fjallað um fyrningargrunn eigna og í 37. gr. um færslu endurmatsreiknings í tengslum við verðbreytingar eigna. Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 23. gr.


    41. gr. fjallar um kostnaðarverð þeirra eigna sem heimilt er að færa til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað. Fjárhæðin hefur hækkað á hverju ári samkvæmt verðbreytingarstuðli.
    Í a-lið greinarinnar er sú hámarksfjárhæð sem leyfilegt er að fyrna á einu ári hækkuð sérstaklega vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Í b-lið eru lagðar til breytingar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 24. gr.


    Í gildandi lögum fjallar 44. gr. annars vegar um fyrningu eigna á móti skattskyldum hluta söluhagnaðar, en það ákvæði er einnig 13. gr., og hins vegar um sérstakar aukafyrningar á móti verðbreytingartekjum. Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru vegna afnáms verðbólguleiðréttinga.

Um 25. gr.


    Greinin fjallar um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga og er hún því ein megingrein verðbólguleiðréttinga í skattskilum. Í henni kemur fram hvernig skattlagning fjármunatekna og frádráttur fjármagnskostnaðar frá tekjum tekur mið af áhrifum verðbólgunnar. Miðað við gildandi reglur hefur verðbólguleiðrétting þau áhrif að frádráttur vegna vaxtakostnaðar verður alla jafna lægri en ella þar sem á móti kemur tekjufærsla í samræmi við skuldir rekstrarins. Á móti kemur að vaxtatekjur eru einnig alla jafna lægri vegna gjaldfærslu verðbólguleiðréttinga í samræmi við peningaverðseignir. Með afnámi verðbreytingarfærslunnar sem hér er lagt til er því verið að skattleggja nafnverðsvaxtatekjur að fullu, þ.m.t gengishagnað, en til frádráttar kemur að fullu allur fjármagnskostnaður, þ.m.t. gengistap, á árinu þrátt fyrir að gengishagnaður og gengistap komi ekki til greiðslu fyrr en með greiðslu afborgana á næstu árum.

Um 26. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    Með þessari grein er lagt til að heimilt verði að færa eigur einstaklings í atvinnurekstri yfir í einkahlutafélag án þess að yfirfærslan hafi í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft. Með umræddri breytingu frestast skattlagning þess hagnaðar sem myndast við yfirfærsluna þar til hlutir eiganda einkahlutafélagsins, sem hann fékk sem gagngjald fyrir rekstur sinn, verða seldir.
    Í greininni eru talin upp fjögur skilyrði sem uppfylla verður til að unnt sé að njóta þeirrar heimildar sem getið er í 1. mgr. Í fyrsta lagi skal eigandi einstaklingsrekstrarins bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, sbr. 1. gr. laganna. Í öðru lagi skal félagið sem tekur við einstaklingsrekstrinum vera skráð hér á landi og bera ótakmarkaða skattskyldu, sbr. 2. gr. laganna. Í þriðja lagi skal eigandi einstaklingsrekstrarins eingöngu fá við yfirfærsluna hluti í félaginu sem gagngjald fyrir allar eignir og skuldir einstaklingsrekstrarins. Í fjórða og síðasta lagi skal auk þeirra upplýsinga sem krafist er við tilkynningu til hlutafélagskrár um stofnun félagsins samkvæmt lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, fylgja stofnefnahagsreikningur sem skal vera endurskoðaður af endurskoðanda eða skoðunarmanni og yfirlýsing um að um sé að ræða yfirfærslu einkareksturs yfir í einkahlutafélag. Stofnefnahagsreikningur ásamt yfirlýsingunni skal enn fremur fylgja fyrsta skattframtali félagsins. Eru ákvæðin um stofnefnahagsreikning í samræmi við kröfur 2. mgr. 6. gr. laga um einkahlutafélög þegar um er að ræða kaup einkahlutafélags á öðru fyrirtæki í tengslum við stofnun þess.
    Við yfirfærslu rekstrarins skal félagið taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum einstaklingsrekstrarins, þ.m.t. eftirstöðvum rekstrartapa frá fyrri árum, að því skilyrði uppfylltu að um sams konar rekstur eða starfsemi sé að ræða eftir breytinguna. Þó ber sá sem stundaði einstaklingsreksturinn ótakmarkaða ábyrgð á greiðslu þeirra opinberru gjalda sem varða reksturinn fyrir yfirfærslu hans. Eignir og skuldir skulu yfirfærast á bókfærðu verði. Kaupverð hluta í einkahlutafélaginu ákvarðast jafnt bókfærðu eigin fé í einstaklingsrekstrinum við yfirfærsluna.

Um 28. gr.


    59. gr. er nokkuð breytt frá orðalagi núgildandi greinar. Annars vegar eru ákvæði um að skattyfirvöld setji viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald flutt úr lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda í lögin um tekjuskatt og eignarskatt þar sem þau eiga betur heima. Hins vegar eru ákvæðin um reglur þessar styrkt og kveðið nánar á um viðmiðun þeirra. Eins og í núgildandi ákvæði getur skattstjóri fallist á lægra reiknað endurgjald séu til þess málefnalegar ástæður og það sé eðlilegt í ljósi rekstrarins. Sömu takmarkanir og nú eru fyrir hækkun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi með tilliti til taps í rekstri.

Um 29. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 30. gr.


    Í þessari grein er lögð til breyting á skatthlutfalli tekjuskatts einstaklinga í 67. gr. Lagt er til að skatthlutfall tekjuskatts lækki úr 26,08% í 25,75%, sbr. ákvörðun ríkisstjórnarinnar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga snemma á þessu ári. Þessi breyting kemur til framkvæmda 1. janúar 2002 vegna staðgreiðslu á árinu 2002 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2003.

Um 31. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á afdráttarskatti aðila með takmarkaða skattskyldu, sbr. 71. gr., í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 30. gr. frumvarpsins en þær lúta að lækkun á skatthlutfalli lögaðila.

Um 32. gr.


    Lagt er til að skatthlutfall hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 72. gr., lækki úr 30% í 18% á árinu 2002 og komi til framkvæmda við álagningu 2003. Jafnframt lækkar skatthlutfall sameignarfélaga og samlagsfélaga úr 38% í 26%. Varðandi frekari skýringar við þessa grein vísast til almennra athugasemda.

Um 33. gr.


    74. gr. fjallar um mat skattskyldra eigna, en breytingar þær sem hér eru lagðar til í a-, b-, c- og d-liðum tengjast allar afnámi verðbólguleiðréttinga.

Um 34. gr.


    Breyting sú sem hér er lögð til er tilkomin vegna rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA. Í áliti frá stofnuninni kemur fram að sá greinarmunur sem gerður er á innlendum markaðsverðbréfum, ríkisskuldabréfum og hlutdeildarskírteinum gefnum út af ríkissjóði og hliðstæðum erlendum bréfum fari í bága við ákvæði EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga.

Um 35. og 36. gr.


    Þær breytingar á 83. gr. og 84. gr. sem hér eru lagðar til varða lækkun á skatthlutfalli eignarskatts úr 1,2% í 0,6% jafnt hjá einstaklingum sem lögaðilum. Auk þess er lögð til 20% hækkun á fríeignamarki einstaklinga vegna sérstakrar hækkunar fasteignamats. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 37. gr.


    Hér er lagt til að heimilt verði skv. 99. gr. að leggja inn rafræna kæru til skattstjóra en það er í samræmi við þær tækniframfarir er orðið hafa við skattskil.

Um 38. gr.


    Lagt er til að bætt verði við nýrri grein eftir 105. gr., þ.e. gr. 105 A, vegna þarfar ráðuneytisins á upplýsingum úr skattframtölum vegna áætlanagerðar og hagrannsókna ýmiss konar.

Um 39. gr.


    Samkvæmt gildandi ákvæði í 114. gr. er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra geti krafið aðila með takmarkaða skattskyldu um sérstaka tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum. Sú breyting sem hér er lögð til lýtur að því að í stað fjármálaráðherra verði það skattstjóri sem fari með þessa heimild.

Um 40. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum hefur ríkisskattstjóri heimild til að taka gjald fyrir útgáfu bindandi álita, sbr. lög nr. 91/1998, um bindandi álit. Lagt er til að fjármálaráðherra verði veitt sams konar heimild fyrir útgáfu bindandi álita er varða túlkun tvísköttunarsamninga. Einnig eru lagðar til breytingar á fjárhæð gjaldsins frá því sem verið hefur.

Um 41. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 42. gr.


    Um a-lið.
    Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að viðmiðunarmörk sérstaka tekjuskattsins við álagningu 2002 vegna tekna á árinu 2001 hækki um 15% frá því sem að ákveðið var í bráðabirgðaákvæði nr. II í lögum nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Um b-lið.
    Um A-lið (I.). Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að sérstaki tekjuskatturinn verði framlengdur um eitt ár. Lagt er til að viðmiðunarmörkin verði hækkuð um 3% í samræmi við almennar launahækkanir á árinu 2002.
    Um B-lið (II.). Lagt er til að endurmatsreikningur sem myndaður hefur verið vegna verðbólguleiðréttinga verði lagður niður og færður með öðru eigin fé í efnahagsreikningi. Breyting þessi hefur engin skattaleg áhrif.
    Um C-lið (III.). Í þessu bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að verðleiðréttingar rekstrartapa frá fyrri árum reiknist til ársloka 2001 og haldist óbreytt eftir það.
    Um D-lið (IV.). Í þessu bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að verðleiðréttingar frestaðs söluhagnaðar og eftirstöðva hans reiknist til ársloka 2001 og haldist óbreytt eftir það.
    Um E-lið (V.). Lagt er til að fjárhæðir í B-lið 69. gr. laganna um vaxtabætur og 78. gr. laganna sem lýtur að hámarki frádráttar vegna hlutabréfaeignar og stofnsjóðsinnstæðna verði hækkaðar um 3,0% 1. janúar 2002 og 2,25% 1. janúar 2003 í samræmi við breytingar sem ákveðnar hafa verið á barnabótum og persónuafslætti.

Um 43. gr.


    Í þessari grein er lögð til breyting á fríeignamörkum sérstaka eignarskattsins fyrir gjaldárið 2002 vegna sérstakrar hækkunar á fasteignamati.

Um 44. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu verður sérstakur eignarskattur síðast álagður á gjaldárinu 2002.

Um 45. gr.


    Um skýringu á þessari grein vísast til almennra athugasemda.

46.–48. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á staðgreiðslulögum vegna breytinga á 7. gr. og 59. gr. laga tekjuskattslaganna, sbr. 2. gr. og 27. gr. frumvarps þessa.

Um 49. gr.


    Í 25. gr. laga um ársreikninga er heimilað að taka tillit til áhrifa verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag. Lagt er til að greinin verði felld brott og þar með verðbólguleiðréttingar í reikningsskilum. Um frekari skýringar um niðurfellingu þess ákvæðis vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 50. gr.


    Samkvæmt 80. gr. laganna skal Reikningsskilaráð stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir við gerð reikningsskila. Ráðinu er með þessu ákvæði falið að setja reglur sem falla undir niðurlagsákvæði 1. mgr. 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943, sbr. lög nr. 95/1994. Í stað þess að auglýsa í Lögbirtingarblaðinu skrá yfir útgefnar reglur og álit þá er lagt til með þessari breytingu að birting reglna ráðsins í B-deild Stjórnartíðinda sé fullnægjandi.

Um 51. gr.


    Í a-lið 1. mgr. 25. gr. laganna, sem lagt er til að fella niður skv. 47. gr. frumvarpsins, er heimilað að leiðrétta liði ársreiknings, þar á meðal eigið fé, vegna áhrifa verðbólgu. Verðlagsleiðréttingar þessar ber að færa á endurmatsreikning meðal eigin fjár og í 3. mgr. 25. gr. er lagt til að ráðstafa megi þessum endurmatsreikningi með þeim hætti sem nánar greinir frá í liðum 3. mgr. 25. gr. Ráðstöfun þessi er í samræmi við heimild félaga með takmarkaða ábyrgð til ráðstöfunar á öðru eigið fé sem ekki er eyrnamerkt samkvæmt lögum eða samþykktum til annarra þarfa félagsins.
    Í b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna er um að ræða sértækt endurmat þar sem heimilað er að hækka bókfært verð fastafjármuna þegar raunverði þeirri er verulega hærra en kostnaðarverð eða framreiknað kostnaðarverð og hækkunin talin varanleg. Þetta sértæka endurmat ber að færa á sérstakan endurmatsreikning meðal eigin fjár og nánar er tilgreint í lagagreininni, sem lagt er til að felld verði niður, hvernig megi ráðstafa þessum sérstaka endurmatsreikningi. Lagt er til að á meðan ekki eru þau tilvik fyrir hendi hjá félögunum sem heimila ráðstöfun reikningsins sé hann látinn halda sér í bókum félaganna og ársreikningi.

Um 52. gr.


    Í 30. gr. laganna er heimilað að taka tillit til áhrifa verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag. Um frekari skýringar varðandi niðurfellingu þessa ákvæðis vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 53. gr.


    Í 30. gr. laga um bókhald, sem lagt er til að fella niður skv. 52. gr. frumvarpsins, er heimilað að taka tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag starfseminnar. Verðlagsleiðréttingar þessar ber að færa á endurmatsreikning meðal eigin fjár. Lagt er til að þessi endurmatsreikningur verði leystur upp og sameinaður öðru eigin fé starfseminnar.

Um 54. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Skýrsla og tillögur nefndar um verðbólgureikningsskil.


(22. júní 2001.)



Inngangur.
    Snemma árs 1998 skipaði fjármálaráðherra nefnd til að fjalla um verðbólgureikningsskil. Nefndin var skipuð í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt hafði verið á Alþingi árið áður. Verkefni nefndarinnar var að draga fram og meta kosti þess og galla að hverfa frá verðbólgureikningsskilum og gera tillögur um lagabreytingar ef hún teldi nauðsyn á því.
    Nefndina skipa:
        Jón Guðmundsson, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu, formaður,
        Guðmundur Guðbjarnason, viðskiptafræðingur hjá ríkisskattstjóra,
        Ólafur Nilsson, löggiltur endurskoðandi, tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda,
        Ragnheiður Snorradóttir, lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu,
        Rúnar Bj. Jóhannsson, löggiltur endurskoðandi, tilnefndur af iðnaðarráðherra og
        Stefán Svavarsson, dósent og löggiltur endurskoðandi, tilnefndur af Háskóla Íslands.
    Ritari nefndarinnar var Hermann Jónasson, lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu, þar til hann hætti störfum í ráðuneytinu. Nefndin hélt alls 17 fundi. Á nokkra fundi hjá nefndinni komu þeir Björn Rúnar Guðmundsson, hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu, Vilhjálmur Bjarnason og Stefán Þór Jansen, starfsmenn Þjóðhagsstofnunar.
    Nefndin hefur farið ítarlega yfir röksemdir með og móti verðleiðréttum skattskilum og reikningsskilum við þær verðbólguaðstæður sem nú eru. Meðaltal verðlagsbreytinga á tíunda áratugnum var um 3% á ári samkvæmt vísitölu neysluverðs. Árleg verðbreyting samkvæmt verðbreytingastuðlum skattalaga hefur verið undir 7% síðustu 10 ár. Verðbreytingastuðull samkvæmt ákvæðum skattalaga frá árinu 1992 fór lægst í 1,0117 (1,17%) framtalsárið 1993 en fór hæst í 1,0618 (6,18%) framtalsárið 1992. Stuðullinn er 1,0418 (4,18%) fyrir framtalsárið 2001. Yfirlit um verðbreytingastuðla er að finna í fskj. 2
    Nefndin hefur lagt á það áherslu að áður en tillögur um afnám verðleiðréttra skattskila verði lagðar fram þurfi að liggja fyrir heildstæðar upplýsingar um það hvaða áhrif verðbólguleiðréttingar skattalaga gætu haft á skattgreiðslur fyrirtækja og tekjur ríkissjóðs.
    Með tilkomu staðlaðs skattframtals lögaðila hafa skapast nokkuð góðar aðstæður til að gera athuganir á þessum áhrifum. Staðlað skattframtal lögaðila var tekið upp fyrir þremur árum. Í fyrstu vantaði töluvert á að lögaðilar skiluðu á hinu nýja framtalsformi en þau skil hafa aukist ár frá ári. Áður lágu mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir hjá skattyfirvöldum á tölvutæki formi um ársreikninga. Nú er aftur á móti að verða til góður gagnagrunnur um margvíslegar stærðir í ársreikningum þótt enn vanti á að allir lögaðilar geri skil í þessu formi.
    Þjóðhagsstofnun fær reglulega hjá skattyfirvöldum þann gagnagrunn sem fæst með þessum hætti og hefur reyndar bætt við upplýsingum úr framtölum sem skilað er á pappír og úr ársreikningum eftir föngum. Þar er því að finna miklar upplýsingar um lögaðila á tölvutæku formi. Nefndin leitaði til stofnunarinnar eftir þessum gögnum til að endurreikna skatta þeirra lögaðila sem eru í gagnagrunninum miðað við tilteknar forsendur. Niðurstaða þeirra útreikninga er í kaflanum Áhrif verðbólguleiðréttinga á skattskil.
    Þá hefur nefndin farið yfir hvaða greinum þurfi að breyta í lögum um tekju- og eignarskatt og lögum um bókhald og ársreikninga ef verðbólguleiðréttingar verða lagðar af. Ljóst er að ákvæði um verðlagsbreytingar koma víða fyrir í lögum. Í fskj. 3, með skýrslu þessari eru tilgreindar 24 greinar í lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem þarf að breyta.
    Reglur og aðferðir við gerð reikningsskila annars vegar og skattskila hins vegar hafa ekki almennt farið saman. Síðastliðin tuttugu ár hafa mörg fyrirtæki gert verðleiðrétt reikningsskil með aðferðum sem í ýmsu eru frábrugðnar þeim aðferðum sem skattalög mæla fyrir um, m.a. vegna þess að hinar síðarnefndu aðferðir hafa leitt til misvísandi niðurstöðu rekstrar- og efnahagsreiknings innan hvers tímabils. Nefndin telur hins vegar afar mikilvægt að þegar nú er hugað að afnámi verðleiðréttinga, komi breyting á reglum skattskila annars vegar og breyttar aðferðir við gerð reikningsskila að þessu leyti hins vegar til framkvæmda á sama tíma.

Kostir og gallar verðleiðréttra reikningsskila.
    Að mati nefndarinnar er þýðingarmikið að skoða hvaða kostir fylgja því að hverfa frá verðleiðréttum reikningsskilum og hvaða kostir eru því samfara að fylgja enn um sinn óbreyttum reglum.
    Varðandi þá kosti að falla frá verðleiðréttingum reikningsskila má fyrst nefna að verðbólguleiðréttingar í lágri verðbólgu hafa ekki sömu þýðingu og þegar mikil verðbólga ríkir. Til þess að íslensk reikningsskil og erlend reikningsskil verði samanburðarhæf er nauðsynlegt að hverfa frá verðleiðréttum reikningsskilum og til þeirra aðferða sem almennt eru notaðar í samanburðarlöndum. Ekkert annað OECD ríkjanna en Ísland leiðréttir reikningsskil fyrir áhrifum verðbólgu þrátt fyrir að nokkur verðbólga ríki í þeim ríkjum.
    Erlendir viðskiptaaðilar skilja almennt ekki afkomuhugtak íslenskra fyrirtækja og er erfitt að skýra fyrir þeim framreikning á kostnaðarverði eigna og þá sérstaklega verðbreytingarfærslu. Jafnframt má nefna sem er þó einna þýðingarmest í þessu sambandi að alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja og allt starfsumhverfi þeirra krefst þess að reikningsskilin verði samanburðarhæf við reikningsskil erlendra fyrirtækja.
    Með því að falla frá verðleiðréttum skattskilum er farið að skattleggja nafnverðsafkomu í stað raunverðsafkomu en taka má tillit til hugsanlegrar ofsköttunar eftir öðrum aðferðum en beinum verðleiðréttingum.
    Varðandi kosti þess að viðhalda núverandi verðleiðréttum reikningsskilum má nefna að verðbólgureikningsskil þykja fræðilega rökrétt og ná því markmiði að sýna afkomu og efnahag fyrirtækja á raunverðlagi. Niðurstöður sýna rauntölur og raunbreytingar en ekki nafnverðsbreytingar. Áhrif verðbólgu sem ekki eru leiðrétt í reikningsskilum geta skekkt þann grundvöll sem stjórnendur fyrirtækja nota til að taka ýmsar ákvarðanir sínar um reksturinn. Samsöfnun lítillar verðbólgu eru býsna mikil þegar til lengdar lætur. Þannig svarar 2% verðbólga á ári í tuttugu ár til þess að almennt verðlag hafi hækkað um 49% og 4% verðbólga hækkar verðlag á sama tíma um 119%.
    Með verðleiðréttum skattskilum er verið að leitast við að skattleggja raunhagnað fyrirtækjanna. Án verðleiðréttinga í skattskilum verður afkoman smátt og smátt sýnd betri eða verri en hún er í raun og veru og skattálögur aðrar. Það eru einkum afskriftir og kostnaðarverð seldra vara sem verða vanmetin og fjármagnskostnaður eða fjármunatekjur ofmetin.

Verðbólguleiðréttingar í skattskilum.
    Upphaf verðbólguleiðréttinga á Íslandi má rekja til róttækra breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt sem komu til framkvæmda við álagningu skatta árið 1980. Þá hafði verðbólgan verið mjög há um nokkurra ára skeið sem leiddi til þess að þáverandi afkomuhugtak og bókfært verð eigna og eigin fjár atvinnurekstrarins gat gefið misvísandi mynd af afkomu og fjárhagsstöðu fyrirtækja. Tekjuskattsstofn var annað hvort of hár eða of lágur miðað við verðleiðrétta afkomu fyrirtækja.
    Markmið lagabreytinganna var að bæta afkomuhugtakið og eignamat og aðlaga það að verðbólgunni. Tekið var upp árlegt endurmat (framreikningur) fastafjármuna, fyrningareglum var breytt svo og reglum um skattlagningu söluhagnaðar. Verðbreytingafærslan var innleidd en samkvæmt henni voru tekjur og gjöld leiðrétt um fjárhæð sem fundin var sem tiltekið hlutfall (verðbreytingastuðull) af mismun peningalegra eigna og skulda. Miðað var við stöðu þessara eigna og skulda eins og þær voru í upphafi reikningsárs. Nánari samantekt á sögulegum aðdraganda og efnisreglum lagasetningarinnar er að finna í fskj. 1.
    Nefndin telur að áhrifin af verðbólguleiðréttingum skattalaga hafi verið mikil einkum á því tímabili þegar verðbólgan var sem hæst. Fyrstu fimm árin eftir að lögin komu til framkvæmda var verðleiðrétting samkvæmt ákvæðum skattalaga yfir 40% en framtalsárið 1984 fór hún í tæp 72%. Næstu sjö árin þar á eftir var verðbreytingin á bilinu 19% til 29% en hefur síðan verið undir 7%. Ljóst var því að leiðrétting vegna áhrifa verðbólgu var nauðsynleg en nú hefur dregið úr þeirri þörf.
    Verðleiðrétting skattskila fyrir áhrifum verðbólgu getur verið vandkvæðum bundin og hafa fáar þjóðir lögleitt slíkar reglur og þá eingöngu þjóðir þar sem veruleg verðbólga ríkir. Sú leið sem valin var hér á landi er í raun mjög einföld þar sem verðleiðréttingin miðast við heildarstærðir í byrjun reikningsárs og reglur um árlegt endurmat eigna og afskriftir hafðar einfaldar. Þrátt fyrir að aðferðin sé einföld er nokkur vinna við að gera skattskil í samræmi við verðbólguákvæði skattalaga bæði hjá þeim sem framkvæma uppgjörið og að því er varðar eftirlit skattyfirvalda.
    Sem dæmi um einföldun við verðbólguleiðréttingu skattalaga má nefna í þessu sambandi:
     1.      Eignir sem keyptar eru á reikningsárinu eru ekki endurmetnar á því ári en það leiðir til vanmats þeirra við skilyrði verðbólgu.
     2.      Varanlegir rekstrarfjármunir sem seldir eru á reikningsárinu eru endurmetnir með verðbreytingarstuðli söluárs en það kann að leiða til ofmats þeirra og lægri söluhagnaðar eða hærra sölutaps.
     3.      Á kaupári er afskrifað í heilt ár af kaupverði án tillits til hvenær keypt er á því ári en engar afskriftir eru á söluári. Afskriftir geta því verið ofmetnar eða vanmetnar á viðkomandi reikningsári.
     4.      Verðbreytingafærsla er miðuð við stöðu peningalegra eigna og skulda í byrjun reikningsárs, þ.e. efnahagsreikningi sl. árs. Verulegar breytingar innan ársins t.d. vegna kaupa eða sölu á varanlegum rekstrarfjármunum geta leitt til umtalsverðrar skekkju í þessum útreikningi.
     5.      Verðbreytingarfærslan var á fyrstu árunum miðuð við breytingu á meðaltali vísitölu byggingarkostnaðar milli ára en ekki innan viðkomandi reikningsárs. Síðar var því breytt þannig að stuðullinn miðast við breytingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils.
    Þegar verðbólga er lág minnkar þörfin fyrir að leiðrétta skattstofna vegna hennar. Miðað við núverandi aðstæður má því spyrja hvort ástæða sé til að viðhalda þessum verðleiðréttingum og leggja í þá vinnu sem því fylgir. Eins og áður hefur komið fram hefur ekkert af nágrannaríkjum okkar talið ástæðu til að taka upp árlegar verðleiðréttingar á sama hátt og við enda ekki búið við eins hátt verðbólgustig.

Verðbólguleiðréttingar í reikningsskilum.
    Í gegnum tíðina hafa skattalögin verið sá grunnur sem ársreikningagerð fyrirtækja hefur öðru fremur byggst á og mótast af. Svo er að vissu marki enn a.m.k hvað varðar minni fyrirtæki. Mikill fjöldi smárra fyrirtækja hefur lagt höfuðáherslu á gerð ársreikninga í samræmi við ákvæði skattalaga og gerð þeirra gagna sem fylgja skulu skattframtalinu. Minna var hirt um þýðingu reikningsskilalegra hugtaka um afkomu eða fjárhagsstöðu.
    Á ýmsum tímum hafa verið gerðar tímabundnar breytingar á ákvæðum skattalaga sem áttu að taka nokkuð mið af verðbólgu og lagfæra skattstofna vegna áhrifa hennar. Þessar breytingar höfðu einnig áhrif á reikningsskil fyrirtækja. Sem dæmi má nefna heimildir til flýtifyrninga og einskiptis endurmat eigna.
    Með lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var í raun ákveðið að hafna forsendu hefðbundinna reikningsskila um stöðugt verðlag. Sú úrlausn sem fest var í umrædd lög miðaðist við þá tegund verðbólgureikningsskila, sem nefnd hefur verið staðverðsreikningsskil. Afleiðing þess að hafna forsendunni um stöðugt verðlag er tvíþætt. Annars vegar er nauðsynlegt að framreikna kostnaðarverð efnislegra eigna og hins vegar þarf að taka tillit til áhrifa verðbólgu á peningalegar eignir og skuldir.
    Upplýsingagildi íslenskra ársreikninga batnaði stórlega við það að taka ofangreindar verðbólguleiðréttingar inn í reikningsskilin.
    Fljótlega varð þó ljóst að leiðréttingaraðferðir skattalaga fullnægðu í vissum tilvikum ekki þeim fyrirtækjum sem gerðu miklar kröfur til afkomumælinga innan einstakra ára vegna þeirrar einföldunar sem felast í ákvæðum laganna um útreikning á áhrifum verðbólgu. Niðurstöður í skattskilum gátu orðið ónákvæmar og jafnvel misvísandi um afkomu innan einstakra reikningstímabila.
    Í ársbyrjun 1982 gaf reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda út leiðbeiningar til félagsmanna sinna um ársreikningagerð þar sem byggt var á ákvæðum skattalaga varðandi verðleiðréttingar svo og hlutafélagalögunum. Leiðbeiningar um frávik frá aðferðum skattalaga við útreikning á áhrifum verðlagsbreytinga á ársreikninga fyrirtækja gaf félagið út í ársbyrjun 1985. Tilgangur þessara leiðbeininga var að móta stefnu um notkun svonefndrar fráviksaðferðar í þeim tilvikum sem reglur skattalaga um endurmat eigna, afskriftir og reiknaða verðbreytingarfærslu voru taldar gefa misvísandi niðurstöðu um afkomu og fjárhagsstöðu fyrirtækja.
    Telja verður að þetta framtak félagsins hafi öðru fremur orðið til þess að stuðla að meira samræmi í ársreikningagerð en ella hefði orðið. Helstu þættir sem fráviksaðferðin tekur á eru:
     1.      Endurmat (framreikningur) eigna er að jafnaði miðað við kaupmánuð.
     2.      Afskriftir eru reiknaðar miðað við eignarhaldstíma innan hvers reikningsárs.
     3.      Þegar reiknuð eru áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir er tekið tillit til þeirra breytinga sem verða á stöðu þessara eigna og skulda innan ársins.
     4.      Vísitalan sem notuð er miðast við breytingar innan reikningsársins í stað milli ára eins og var upphaflega í skattalögunum.
    Það var ekki fyrr en með lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, að fram komu ítarleg ákvæði um árlegt endurmat í reikningsskilum og ákvæði um að taka tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag félaga.
    Í reynd hafa því einkum tvær aðferðir verið notaðar við verðleiðréttingu reikningsskila hér á landi frá árinu 1982, sem báðar hafa verið taldar góðar og gildar. Það er annars vegar reikningsskil í samræmi við ákvæði skattalaga sem flest minni félög og fyrirtæki einstaklinga nota og hins vegar fráviksaðferð Félags löggiltra endurskoðenda sem flest stór eða stærri félög nota.

Áhrif verðbólguleiðréttinga á skattskil.
    Nefndin taldi nauðsynlegt að gera sér grein fyrir umfangi verðbólguleiðréttinga í skattframtölum atvinnurekstrarins eftir atvinnugreinum.
    Nefndin fékk Þjóðhagsstofnun til að endurreikna skatta félaga fyrir rekstrarárin 1998 og 1999 þannig að leiðréttingar vegna verðlagsbreytinga væru teknar út úr skattstofni til tekjuskatts eftir því sem unnt væri. Þjóðhagsstofnun hefur eins og áður greinir safnað saman fjárhagslegum upplýsingum úr stöðluðum skattframtölum félaga og bætt við það safn upplýsingum allmargra félaga sem ekki töldu fram á stöðluðu skattframtali. Árin eru tekin fyrir hvort fyrir sig því að ekki er um sama hóp félaga að ræða og seinna árið voru talsvert fleiri sem töldu fram á stöðluðu framtali.
    Þau ákvæði skattalaga sem gera ráð fyrir útreikningi á áhrifum verðlagsbreytinga með tilteknum hætti eru einkum eftirfarandi:
     *      Reglur um endurmat á fyrningarstofnum varanlegra rekstrarfjármuna og útreikning afskrifta af endurmetnum stofni.
     *      Reglur um útreikning á áhrifum verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir og heimild til að verja hluta tekjufærslu vegna þessa til sérstakra fyrninga.
     *      Reglur um útreikning söluhagnaðar.
    Þjóðhagsstofnun reiknaði út skatta þeirra félaga sem eru í gagnagrunninum samkvæmt fyrirliggjandi skattstofnum bæði árin. Síðan voru leiðréttingar vegna verðbólgu teknar út eftir því sem unnt var og skattar reiknaðir að nýju. Jafnframt voru rekstrartöp þeirra félaga sem voru með taprekstur endurreiknuð með sama hætti. Í fskj. 4, eru töflur sem sýna breytingu á sköttum og tapi fyrir og eftir leiðréttinguna skipt eftir atvinnugreinum. Nefndin telur að útreikningarnir gefi nokkuð góða hugmynd um áhrif verðbólguleiðréttingar í einstökum atvinnugreinum samkvæmt reglum skattalaga.
    Helstu niðurstöður fyrir rekstrarárið 1998 eru þessar:
     *      Verðbreytingastuðull ársins var 1,0127 (1,27%).
     *      Alls voru 9.404 félög í gagnagrunninum þar af voru 2.937 félög sem greiddu skatt.
     *      Þá voru 5.925 með rekstrartap og 575 greiddu engan skatt eða höfðu ekkert yfirfæranlegt tap, þ.e. þau notuðu væntanlega aukafyrningar þannig að tekjuskattsstofn varð á núlli.
     *      Við endurreikning skattstofna með tilliti til afnáms verðbólguleiðréttinga fjölgar félögum um 196 sem eiga að greiða skatt en heildarskattgreiðslur þeirra sem greiða skatt hækka um 196,2 millj. kr. eða 3,55%.
     *      Heildartap ársins lækkar um 2.939,6 millj. kr. Félögum með rekstrartap fjölgar um 33 eða 0,6%. Félög sem verða hvorki með tap eða hagnað verða alls 346.
     *      Skattgreiðslur flestra atvinnugreina hækka nokkuð. Mest hækkar fiskvinnslan eða um 20,9 millj. kr. sem er 16,29% og fjármálaþjónusta sem hækkar um 55 millj. kr. sem er 11,38%. Tapið eykst einnig mest í þessum greinum hjá þeim félögum sem eru með taprekstur.
    Helstu niðurstöður fyrir rekstrarárið 1999 eru þessar:
     *      Verðbreytingastuðull ársins var 1,0561 (5,61%).
     *      Alls voru 10.121 félög í gagnagrunninum þar af voru 3.185 félög sem greiddu skatt, 6.225 voru með tap og 711 með engan skatt eða ekkert yfirfæranlegt tap, þ.e. þau gerðu aukafyrningar væntanlega þannig upp að tekjuskattsstofn varð á núlli.
     *      Við endurreikning skattstofna með tilliti til afnáms verðbólguleiðréttinga fækkar félögunum um 12 sem greiða skatt en heildarskattgreiðslurnar hækka um 404,1 millj. kr. eða 5,82%.
     *      Tap hækkar um 5.179,6 millj. kr. Félögum með tap fjölgar um 308 eða 4,9%. Félög sem verða hvorki með tap eða hagnað verða alls 415.
     *      Áhrifin eru ekki jafn einsleit og árið áður. Sumar atvinnugreinar fá lægri skatta og aðrar hækka umtalsvert. Til dæmis lækkar fiskvinnslan um 26 millj. kr. en fjármálaþjónusta hækkar um 292 millj. kr. sem er 41% hækkun. Það er jafnframt um 72% af nettóhækkun allra félaga sem greiddu skatt. Tapið eykst mest í fiskvinnslu, fasteignaviðskiptum og fiskveiðum svo og fjármálaþjónustu.

    Rétt er að vekja athygli á að ekki er tekið með í þessa útreikninga sjálfstæð starfsemi eða atvinnurekstur einstaklinga heldur aðeins félög (lögaðilar) sem skiluðu stöðluðu skattframtali.
    Þegar á heildina er litið er hækkun skattgreiðslna ekki veruleg hvorugt árið en breytingin er mismunandi í einstökum atvinnugreinum. Breytingar rekstrarárið 1999 eru meiri enda verðbreytingastuðullinn hærri og félögin fleiri. Hin mikla breyting á sköttum fjármálafyrirtækja kemur ekki á óvart þar sem slík fyrirtæki eru jafnan með mikla gjaldfærslu vegna stöðu peningalegra eigna og skulda þeirra. Til skamms tíma litið mun ríkissjóður ekki verða af tekjum vegna afnáms verðbólguleiðréttinga í skattskilum en vegna hækkunar á yfirfæranlegu tapi gætu áhrifin til lengri tíma litið leitt til lægri skattgreiðslu fyrirtækja.
    Við afnám verðbólguleiðréttinga má búast við að eignarskattsstofninn lækki þar sem varanlegir rekstrarfjármunir verða ekki framreiknaðir árlega en nefndin hefur ekki látið meta það sérstaklega.
    Nefndin telur í ljósi þessara upplýsinga að ekki þurfi að búast við verulegum breytingum á skattbyrði atvinnurekstrar vegna afnáms verðbólguleiðréttinga við núverandi aðstæður þegar á heildina er litið. Þó er nauðsynlegt að huga að stöðu einstakra atvinnugreina.

Tillögur nefndarinnar.
    Mikil umræða fer nú fram í þjóðfélaginu um afnám verðbólgureikningsskila. Vaxandi alþjóðavæðing fyrirtækja kallar á meiri samræmingu í reikningsskilagerð en áður og er unnið að slíkri samræmingu á alþjóðavettvangi. Verðleiðrétt reikningsskil eins og hér þekkjast eru ekki notuð hjá OECD-ríkjunum. Vegna verðbólguleiðréttinga verður samanburður við reikningsskil erlendra fyrirtækja erfiður.
    Nefndin hefur rætt þessi mál ítarlega og telur að reynslan af verðbólgureikningsskilum okkar hafi í öllum aðalatriðum verið góð. Við þær aðstæður sem voru í verðlagsmálum þegar verðleiðrétting var tekin upp var nauðsynlegt að bregðast við með þeim hætti sem gert var. Verðleiðréttu reikningsskilin voru mun betri við þessar aðstæður en hefðbundin reikningsskil. Núverandi aðstæður eru aftur á móti allt aðrar. Verðbólgan er komin á annað stig en áður og þrátt fyrir bakslag á allra síðustu mánuðum er áfram búist við því að verðbólgan á Íslandi verði lág eða svipuð og í nágrannaríkjunum. Því er eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé rétt að afnema verðleiðréttu reikningsskilin hér á landi og taka upp sambærilegar aðferðir og viðhafðar eru í þeim löndum sem við berum okkur saman við og eigum samskipti við.
    Það er álit nefndarinnar að stefna eigi að afnámi verðleiðréttinga bæði í skattframtölum og í reikningsskilum atvinnurekstrarins og að þegar verði hafist handa við undirbúning að slíkri breytingu. Niðurstöður nefndarinnar eru þessar:
    Nefndin leggur til að lögum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt þannig að öll ákvæði laganna um leiðréttingar fyrir áhrifum verðlagsbreytinga verði felld niður. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur virðast skammtímaáhrif á skatttekjur ríkissjóðs í heild vera lítil en breytileg innan einstakra atvinnugreina.
    Nefndin telur að kanna þurfi nánar ýmis ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt sem varða skattlagningu atvinnurekstrar eftir að tekin hefur verið ákvörðun um afnám verðbólguleiðréttinga. Í því sambandi þarf að huga að breytingum á lögum sem dregið geta úr áhrifum niðurfellingarinnar. Þau atriði sem nefndin telur að þurfi að kanna nánar eru m.a. eftirfarandi:
     *      Reglur um söluhagnað, bæði hjá rekstraraðilum og einstaklingum. Má þar til dæmis nefna sölu ófyrnanlegra eigna svo sem jarða, sumarbústaða, eignarhluta í félögum o.fl.
     *      Fyrningareglur þarf að skoða með tilliti til þess hvort heimila eigi hraðari fyrningar á fyrstu árum eignarhaldstíma (fyrning af bókfærðu verði).
     *      Kanna hvort heimila eigi niðurfærslu birgða með hliðstæðum hætti og heimilt var fyrir tilkomu verðlagsleiðréttinga.
     *      Ýmis ákvæði sem tengjast upphafsári afnáms verðbólguleiðréttinga.
    Fleiri þætti mætti nefna, en við slíka breytingu þarf að huga að sambærilegum reglum í nágrannalöndum okkar og helstu viðskiptalöndum til að tryggja samkeppnistöðu íslensks atvinnulífs.
    Nefndin leggur til að gerðar verði breytingar á lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með þeim hætti að fella niður heimild til árlegrar leiðréttingar fyrir áhrifum verðlagsbreytinga þótt þar sé um heimildarákvæði að ræða.
    Nefndin hefur rætt nokkuð hvort æskilegt væri að afnema verðbólgureikningsskilin í áföngum. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að eðlilegast væri að breytingin kæmi að fullu til framkvæmda á sama tíma. Ef talið yrði nauðsynlegt að milda áhrifin á skattgreiðslur fyrirtækja væri það gert með tímabundnum ákvæðum í skattalögum.
    Nefndin telur mikilvægt að breytingar skattalaga vegna þessa efnis og breytingar á almennum reikningsskilaaðferðum hér á landi með afnámi leiðréttinga fyrir áhrifum verðlagsbreytinga fylgist að þannig að breytingarnar komi til framkvæmda á sama tíma. Fallist ráðherra á hugmyndir nefndarinnar ætti að vera unnt að hefja þegar undirbúning að breytingunum sem ættu að geta komið til framkvæmda frá og með skattárinu og reikningsárinu 2002, en þó því aðeins að nauðsynlegar lagabreytingar hafi náð fram að ganga fyrir næstu áramót.

Fylgiskjöl:
    1.    Sögulegur aðdragandi verðbólgureiknisskila.
    2.    Verðbreytingastuðlar.
    3.    Ákvæði tekjuskattslaga sem fjalla um verðbólgureiknisskil.
    4.    Töflur um áhrif verðbólguleiðréttinga samkvæmt samræmdum skattframtölum félaga rekstrarárin 1998 og 1999.


Fskj. 1.

Saga verðbólguleiðréttinga skattalaga og reikningsskila.



Inngangur.


    Verðbólguleiðréttingar skattskila hafa tíðkast hér á landi í 22 ár. Upphaf þeirra verður rakið til frumvarps sem lagt var fram á Alþingi á 99. löggjafarþingi 1977–1978. Frumvarpið varð að lögum nr. 40/1978 sem lög um tekjuskatt og eignarskatt. Áður en þau lög komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1980 voru gerðar veigamiklar breytingar á þeim á 101. löggjafarþinginu 1979–1980 með lögum nr. 7/1980. Þá var aftur gerð breyting á lögunum með lögum nr. 25/1981 og þannig breytt voru lög um tekjuskatt og eignarskatt endurútgefin sem lög nr. 75/1981. Halda lögin enn því númeri. Ákvæði í nefndum lögum laut að ákvörðun á skattstofnum að teknu tilliti til verðbólgunnar bæði hjá lögaðilum og einstaklingum með atvinnurekstur sem og einstaklinga utan atvinnurekstrar að því er varðar skattlagningu söluhagnaðar.
    Þar sem verðbólguleiðréttingar bæði við skattskil fyrirtækja svo og við reikningsskil þeirra hafa svo lengi verið við líði hér á landi þykir við hæfi að draga upp mynd að aðdraganda að lögum nr. 40/1978 svo og breytingum á lögum um reikningsskil fyrirtækja varðandi verðleiðréttingar. Með lögum 40/1978 voru gerðar róttækar breytingar á skilgreiningum afkomu og eigin fé með því að taka tilliti til almennra verðlagsbreytinga sem voru miklar á þessum tíma og árin á undan.

I.

    Í inngangi að athugasemdum við fyrrnefnt lagafrumvarp sem varð að lögum nr. 40/1978 eru taldar upp helstu stefnubreytingar frá gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem í frumvarpinu felast og undir 4. tölul. segir:
    Veruleg breyting er ráðgerð á fyrningarreglum og reglum um skattlagningu söluhagnaðar.
    Að því er varðar fyrningar munar mest um þá ráðgerðu breytingu að reikna fyrningar af endurmatsverði með lægri hundraðshlutum en samkvæmt gildandi lögum. Endurmatið er byggt á breytingum á vísitölu byggingarkostnaðar og reiknast eins fyrir allar eignir. Fyrningarákvæðum frumvarpsins er ætlað að koma í stað fjölmargra fyrningarákvæða gildandi laga, þ.á m. verðstuðulsfyrninga. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um skerðingu fyrninga þegar fjármögnun fyrnanlegra eigna byggist að nokkru eða öllu á lánsfé.


    Í kaflanum Fyrningar og söluhagnaður segir svo í athugasemdum:
    Gert er ráð fyrir að fyrningar verði reiknaðar af endurmatsverði með lægri hundraðhlutum heldur en samkvæmt gildandi lögum. Endurmatið miðast við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Í árslok á hverju ári skal ríkisskattstjóri birta verðbreytingarstuðul er miðist við þá hækkun sem orðið hefur á meðaltali gildandi byggingarvísitölu frá árinu á undan og skal þessi stuðull gilda fyrir allar eignir. Fengnar fyrningar skulu hækkaðar á sama hátt. Þá er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir endurmati á þeim eignum sem skattaðili hefur eignast fyrir gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir skerðingu frádráttar vegna fyrninga þegar fyrnanlegar eignir eru að einhverju eða öllu leyti fjármagnaðar með lánfé.

    Þá segir um söluhagnaðinn:
    Hagnaður af sölu fyrnanlegra eigna verður samkvæmt ákvæðum frumvarpsins þannig að fullu skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma. Hagnaðurinn telst mismunur á söluverði annars vegar og stofnverði (kostnaðarverði) þeirra að frádregnum áður fengnum fyrningum, framreiknuðu með verðbreytingarstuðli, hins vegar. Sá munur, sem þá stendur eftir sem söluhagnaður, ætti að svara til hagnaðar sem myndast hefur, t.d. vegna þjóðfélagslegra aðgerða eða breytinga, svo sem vegna fenginna fyrninga umfram slit eigna við öflun tekna…
    Svipað ákvæði gildir um söluhagnað af ófyrnanlegum fasteignum, þ.m.t. lönd, lóðir og ófyrnanleg náttúruauðæf, og söluhagnað af fyrnanlegum fasteignum.

    Í athugasemdum við 26. gr. frumvarpsins, sem fjallar um árlegan útreikning verðbreytingarstuðuls til notkunar við ákvörðun verðmæti eigna, söluhagnaðar og fyrningum segir svo:
    Greinin hefur að geyma ákvæði um árlegan útreikning verðbreytingarstuðuls til framreiknings á stofnverði (eða fasteignamati) eigna við ákvörðun á söluhagnaði. Sami verðbreytingarstuðull er notaður til framreiknings á stofnverði eigna til fyrninga og á fengnum fyrningum. Einnig er stuðullinn notaður við framreikning söluhagnaðar þegar skattlagningu söluhagnaðar er frestað.
    Verðbreytingarstuðullinn er sá sami fyrir allar eignir og miðar við breytingar á byggingarvísitölu, sbr. lög nr. 93/1975. Útreikningurinn fer þannig fram að reiknað er meðaltal þeirrar vísitölu sem í gildi hefur verið útreikningsárið (ársfjórðungsleg vísitala) og á verðbreytingarstuðullinn að sýna hækkun sem orðið hefur á sömu meðaltalsvísitölu frá árinu áður.

    Eins og fram kemur var verðbreytingarstuðullinn miðaður við breytingar á byggingarvísitölu sem reiknuð var út ársfjórðungslega en með verðbreytingarstuðli sem reiknaður var út fyrir árið 1991 og til og með 1997 byggðist á byggingarvísitölu sem reiknuð var út mánaðarlega. Verðbreytingarstuðullinn sem reiknaður var út fyrir árið 1998 og síðar miðast nú við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils. Vísitala þessi er reiknuð út mánaðarlega. Sérstaklega reiknaður verðbreytingarstuðull sem byggðist á vísitölu neysluverð til verðtryggingar gilti einnig að vali skattaðila á árinu 1997.
    Í 37. gr. frumvarpsins eru ákvæði um að árlegar verðbreytingar samkvæmt 36. gr. laganna skuli færast til hækkunar eða lækkunar fyrningargrunni eigna og áður fengnum fyrningum. Mismunur breytinganna færist síðan á sérstakan reikning, endurmatsreikning, sem teljast skal til eigin fjár.
    Í 3. tölul. 74. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við mat á lausafé til eignarskatts skuli tekið tillit til verðbreytinga á hliðstæðan hátt og gert skal við ákvörðun fyrninga og söluhagnaðar.
    Í 44. og 45. gr. frumvarpsins er kveðið á um takmörkun á fyrningarrétti þeirra sem fjármagnað höfðu fyrnanlegar eignir með lántökum. Þessar greinar sem tóku gildi með lögum nr. 40/1978 komu aldrei til framkvæmda og voru leystar af hólmi með nýjum ákvæðum í 53. gr. laganna um verðbreytingarfærslu.

    Í athugasemdum í frumvarpinu við þessar greinar segir svo:
    Eins og þegar hefur komið fram gerir frumvarpið ráð fyrir því að stofnverð eigna sé árlega endurmetið til fyrninga. Ekki hefur þótt rétt að heimila fulla fyrningu af endurmetnu stofnverði í þeim tilvikum sem fyrnanlegar eignir eru fjármagnaðar að einhverju eða öllu leyti með lánsfé, en frumvarpið gerir ráð fyrir því að fjármagnskostnaður, þar með taldar verðbætur og gengistap af lánum, sé gjaldfært óháð fyrningum. Ótakmarkaðar endurmatsfyrningar samhliða gjaldfærslu alls fjármagnskostnaðar myndi í reynd auka mismunun milli þess atvinnurekstrar sem fjármagnar fyrnanlegar eignir með eigin fé og hins sem fjármagnar þær með lánsfé.
    Í þessum greinum eru sett fram skerðingarákvæði til að draga úr þessum mismunun í þeim tilvikum sem skuldir skattaðila í heild fara fram úr eignum hans, að undanskildum fyrnanlegum eignum, er gert ráð fyrir því að fyrnanlegar eignir séu að hluta til fjármagnaðar með lánsfé. Skerðing á fyrningum er síðan reiknuð út frá þessum mismun eigna og skulda. Reiknað er árlegt tillag í sérstakan reikning, mótreikningsfyrninga, sem er ákveðið hlutfall af þeirri fjárhæð sem skuldir eru umfram þessar eignir, þ.e. eignir í atvinnurekstri, aðrar en fyrnanlegar eignir. Hlutfallið miðast við sama verðstuðul og endurmat eigna, og er mótreikningurinn eða eftirstöðvar hans síðan framreiknaður árlega með árlegum verðbreytingarstuðli. Í lok hvers árs er síðan reiknuð fyrning af mótreikningnum, nokkurs konar neikvæð fyrning, sem er tekjufærð á móti almennum fyrningum.
    Við ákvörðun eignarskattsstofns er mótreikningur fyrninga dreginn frá eftirstöðvum fyrningarverðs eigna í heild.
    Með lagasetningu þessari var gerð tilraun til að aðlaga tekjuhugtakið að þeim verðbólgutímum sem höfðu lengi gengið. Skattalög höfðu ekki tekið mikið mið af verðbólgu og má rekja helstu galla skattlagningar til þeirra áhrifa sem verðbólgan hafði haft. Ákvæði um skattfrelsi söluhagnaðar, aukaafskriftir vörubirgða og fastafjármuna, verðstuðulsfyrningu o.fl. eru allt ákvæði sem var ætlað að draga úr áhrifum verðbólgu. Þessi ákvæði tóku þó ekki mið af breytilegri stöðu hinna ýmsu atvinnurekstraraðila.

II.


    Með frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sem lagt var fram á Alþingi haustið 1979 og varð að lögum nr. 7/1980 voru gerðar breytingar sem fólu í sér efnisbreytingar á vissum þáttum skattlagningarinnar. Einkum þeim þáttum sem tengdir voru skattlagningu eða frádráttarbærni fjármunatekna og fjármagnskostnaðar og varðar tekju- eða gjaldfærslu vegna verðbreytinga. Ákvæðum 44. og 45. gr. laganna sem takmörkuðu fyrningarrétt þeirra sem fjármagnað höfðu fyrnanlegar eignir með lántökum var fellt niður en í stað þess var lögfest ákvæði um verðbreytingarfærslu sem gekk í báðar áttir þ.e. gjaldfærsla ef peningalegar eignir voru hærri en skuldir en tekjufærsla ef skuldir voru hærri en peningalegar eignir. Þeirri megin hugsun sem í ákvæðum 44. og 45. gr. fólst var haldið en í breyttri og víðtækari mynd.
    Með lögum nr. 40/1978 var stigið stórt skref í þá átt til þeirra sjónarmiða sem fram koma í svokölluðu vísitölureikningsskilum öðru nafni staðverðsreikningsskil. Með breytingartillögum frumvarpsins voru ákvæði þessi gerð þannig innbyrðis að samræmi verði og áhrif verðbreytinga mæld á báða vegu, þ.e. bæði á ágóða og tap vegna verðbreytinga.
    Reglur 53. gr. laganna hafa þann tilgang að færa áhrif verðbreytinga á peningalegar eignir og skuldir í rekstrarreikning þannig að afkoma eftir færslu verðbreytingarfærslunnar sýni raunverðsbreytingu á eigin fé sem stafar af rekstri. Reglur þessar eru mjög einfaldar og eru auðveldar í framkvæmd.. Engar leiðréttingar fara fram á einstökum liðum, heldur þarf aðeins að finna mismun á veltufjármunum (peningalegum eignum, þ.m.t. vörubirgðum) og skuldum hins vegar. Þessi mismunur gefur tilefni til tekjufærslu eða gjaldfærslu sem svarar til almennum verðlagsbreytingum. Lög nr. 40/1978 gerðu aðeins ráð fyrir tekjufærslu, en sú aðferð þótti ekki samræmast almennum reglum um leiðréttingu vegna áhrifa verðbreytinga og tryggðu ekki óbreytt raunvirði eigin fjár í ársbyrjun og árslok í þeim tilvikum að peningalegar eignir eru hærri en skuldir. Breytingartillögur frumvarpsins gengu út á það að reglan væri almenn og hlutlaus og hefði því sömu áhrif hjá aðilum með sambærilegan rekstur, sem hún hafði ekki fyrir breytinguna.

    Í athugasemdum um 22. gr. frumvarpsins sem varð 53. gr. laganna segir svo:
    Grein þessi kemur í stað 44. og 45. gr. laga nr. 40/1978 og byggir á sömu meginhugsun og þar. Um nánari skýringar á þessum hugmyndum og áhrifum þeirra vísast til almennra athugasemda. Það eru einkum tvö efnisatriði sem lagt er til að breytt verði frá 44. og 45. gr. laganna. Annars vegar er lagt til að séu skattalega óverðtryggðar eignir hærri en skuldir, og aðilar því að tapa á verðbólgunni, skuli heimiluð gjaldfærsla sem verðrýrnunin munarins nemur.
    Með þessari breytingu gengur reglan í báðar áttir en eðlilegt þykir að taka jafnt tillit til hagnaðar og taps vegna verðbreytinga. Ef það er ekki gert er hætt við að skattaðilar stofni til fjárfestingar og skulda beinlínis vegna ákvæða laganna. Slíkt er mjög óæskilegt og nauðsynlegt að þessi mikilvæga regla um útreikning vegna verðbreytinga sé hlutlaus og hafi svipuð áhrif hjá aðilum með sambærilegan rekstur og aðstæður. Hins vegar er lagt til að mótreikningur fyrninga verði lagður niður en tekjufærslu samkvæmt greininni verði þess í stað heimilt að dreifa að vissu marki með flýtifyrningum, sbr. 18. gr. frumvarpsins og athugasemda við þá grein.


III.


    Í „Greinargerð fjármálaráðherra um könnun ríkisskattstjóra á áhrifum tiltekinna þátta í…“ lögum nr. 40/1978 og nr. 7/1980 á skattbyrði sem lagt var fram á Alþingi haustið 1981 (147. mál) segir m.a. svo:
     Með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 7/1980 um breytingu á þeim lögum var mörkuð ný stefna varandi áhrif verðbólgunnar á skattlagningu í atvinnurekstri sem fólst í mjög róttækum breytingum á þeim skattlagningarreglum sem gilt höfðu þar sem stefnt var að aðlögun tekjuhugtaksins að verðbólgunni. Beindist breytingin einkum að þeim þáttum sem tengdust skattlagningu fjármunatekna og frádráttarbærni fjármagnskostnaðar, fyrningu á árlega endurmetnu stofnverði eigna og tekju- eða gjaldfærslu vegna verðbreytinga.
    Meginbreytingin varðandi skattalega meðferð fjármunatekna og fjármagnsgjalda í atvinnurekstri er fólgin í því að til tekna skuli telja eða til gjalda, eftir því sem við á, verðbætur á höfuðstól og vexti eða gengismun án tillits til þess hvort eða að hvaða marki sú hækkun fæst greidd eða er greidd á árinu. Breytingin er fólgin í því að samkvæmt eldri lögum var gengismunur annaðhvort gjaldfærður á fimm árum með jafnri fjárhæð árlega eða uppfærður á þá eign sem lánið hafði verið til kaupa á og fyrndur á eftirstöðvum fyrningatíma eignarinnar.
    Önnur meginbreytingin er varðandi einskiptis endurmat eigna er aðilar í atvinnurekstri áttu fyrir gildistöku laganna og endurmat fenginna fyrninga, svo og fyrningu eigna af árlega endurmetnu stofnverði eða kostnaðarverði þeirra. Hins vegar var hundraðshluti fyrninga sem gilti samkvæmt eldri lögum jafnframt almennt lækkaður.
    Þriðja meginbreytingin varðar þá þætti sem tengdir eru skattlagningu fjármunatekna og frádráttarbærni fjármagnsgjalda og leiðréttingu vegna áhrifa almennra verðlagsbreytinga á peningaverðseignir að frádregnum skuldum. Í greinargerð fyrir frumvarpi, sem varð að lögum nr. 7/1980, er bent á að verðbólga undanfarinna ára hafi haft í för með sér gífurlegan tilflutning verðmæta milli aðila í þjóðfélaginu án þess að tekið hafi verið tillit til þess í skattlagningu. Eigendur sparifjár og annarra peningaeigna hafi þannig mátt þola verulega rýrnun eigna þessara án skattalegrar umbunar og jafnvel skattskyldu á neikvæðum vöxtum. Skuldarar hafi notið samsvarandi verðrýrnunar skuldanna án þess að tillit hafi verið tekið til þess við skattlagningu en vextir og verðbætur af skuldum aftur á móti heimilaðir að fullu til frádráttar.
    Ákvæði 53. gr. laganna felur í raun í sér að peningakröfueigendur í atvinnurekstri geta gjaldfært mun á verðbólgustigi og fjármunatekjum ef vextir eru neikvæðir en til tekna koma endanlega einungis vextir umfram verðbólgustig. Á sama hátt geta skuldarar í rekstri einungis að lokum gjaldfært þann hluta fjármagnskostnaðar sem umfram er verðbólgustig en þegar vextir eru lægri en verðbólgustigið fær skattaðili í reynd tekjufærslu vegna skuldanna. Með þessu er skattlagningin miðuð við raunvirði peningaeigna og skulda þar sem tekið sé tillit til áhrifa verðbólgunnar. Ef vextir eru almennt undir verðbólgustiginu hafa þessar reglur í för með sér að almennt munu skuldarar í rekstri missa vaxtafrádrátt með því að fá tekjufærslu í samræmi við skuldir þeirra. Þeir sem eiga peningaverðseignir í rekstri umfram skuldir munu almennt losna við að fá til tekna vextina með því að fá gjaldfærslu í samræmi við þessar eignir. Regla þessi stefnir að því að tryggja óbreytt raunvirði eigin fjár í árbyrjun og ársloka.


    Í kafla II. greinargerðarinnar segir svo:
     Framangreindar breytingar frá reglum eldri skattalaga er lúta að fyrningum af endurmetnu stofnverði, meðferð fjármagnskostnaðar og reiknuðum verðbreytingarfærslum leiða til þess að skattbyrðin flyst til aðila sem fjármagna fjárfestingar og rekstur með lánsfjármagni frá aðilum sem fjármagna þessa þætti með eigin fé. Þeirra aðila, sem fyrst og fremst hafa orðið fyrir verulegri þyngingu á skattbyrði miðað við reglur eldri skattalaga, er að leita meðal þeirra sem reikna sér verðbreytingarfærslu til tekna en þyngingin vegur þó misjafnlega og fer eftir því hvernig framangreindir tveir þættir vega hjá hverjum og einum og að hvaða marki heimildarákvæði 44. gr. laganna um sérstakar fyrningar eru nýttar.

IV.


    Í gegnum tíðina hafa skattalögin verið sá grunnur sem ársreikningagerð fyrirtækja hefur öðru fremur byggst á og mótast af. Svo er að vissu marki enn a.m.k hvað varðar minni fyrirtæki. Mikill fjöldi smárra fyrirtækja hefur lagt höfuðáherslu á gerð ársreikninga í samræmi við ákvæði skattalaga og gerð þeirra gagna sem fylgja skulu skattframtalinu. Minna var hirt um þýðingu reikningsskilalegra hugtaka um afkomu eða fjárhagsstöðu.
    Allan áttunda áratuginn hafði geysast hér óðaverðbólga og ekki seinna vænna að margra áliti að takast á við vandann við reikningsskil og skattálagningu. Á ýmsum tímum hafa verið gerðar tímabundnar breytingar á ákvæðum skattalaga sem áttu að taka nokkuð mið af verðbólgu og lagfæra skattstofna vegna áhrifa hennar. Af eldri ákvæðum í skattalögum um þetta efni má nefna:
     1.      Einskiptis endurmat fyrnanlegra eigna (1962 og 1971 og að lokum 1979).
     2.      Flýtifyrningar.
     3.      Verðstuðulsfyrningar (sem ekki höfðu áhrif á eftirstöðvar fyrningarverðs).
     4.      Niðurfærsla vörubirgða og skuldunauta.
     5.      Skattfrjáls söluhagnaður eigna í atvinnurekstri eftir tiltekinn eignarhaldstíma.
    Þessi ákvæði höfðu einnig áhrif á reikningsskil fyrirtækjanna en umræddar breytingar á endurmati eigna og fyrninga og niðurfærslu voru færðar í bækur fyrirtækjanna.

    Á árinu 1978 voru sett ný lög um hlutafélög, nr. 32/1978, og voru þar ítarleg ákvæði um gerð ársreikninga í XII. kafla þeirra. Var í kaflanum að finna margvísleg ákvæði bæði um efnisinnihald og form allra helstu þátta ársreiknings svo sem ársskýrslu, rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar á tilteknum atriðum sem var litið á sem hluta ársreikningsins. Þótt þessi lög hafi verið sett á sama árinu og Alþingi samþykkti ný lög um tekjuskatt og eignarskatt þar sem fjallað var að hluta um sama grundvallarefnið, þ.e. reikningsskil atvinnurekstrarins, annars vegar til skattskila og hins vegar til samningu ársreikninga hlutafélaga, var tekið mjög mismunandi á efninu, sem er athyglisvert þegar tekið er tilliti til þeirrar verðbólgu sem geisað hafði á þessum árum og umræðu um reikningsskil fyrirtækja í því sambandi. Í hlutafélagalögunum var gert ráð fyrir svonefndri kostnaðarverðsreglu eins og í bókhaldsögunum frá 1968 við mat á eignum og gjaldfærslu afskrifta og ekki tekið á verðbólguvandanum við reikningsskilagerð. Segja má til skýringar að í reikningsskilum almennt var ekki farið að ræða leiðir og aðfarir til að taka mið af áhrifum almennra verðlagsbreytinga á ársreikninga fyrirtækja nema þá með tilliti til skattálagningar. Áhugi manna beindist frekar að sjálfri skattlagningunni og áhuga á að finna varanlegar leiðir til ákvörðunar á skattstofnum þannig að félögin gengu ekki á vanmetnar eignir sínar vegna skattgreiðslna. Ákvæði hlutafélagalaganna um samningu ársreikninga komu til framkvæmda frá og með reikningsárinu 1979 þótt meginefni laganna tæki gildi 1. janúar 1980.
    Engin breyting var gerð á lögum um bókhald eða þeim kafla laga um samvinnufélög er kveða á um samningu ársreikninga með tilliti til verðbólgu samhliða upptöku verðbólgureikningsskila skattalaganna frekar en í hlutafélagalögunum. En með ákvæðum í 57. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, var við lögin bætt nýju ákvæði, ákvæði til bráðabirgða XI, og orðaðist svo: „ Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laga nr. 51/1968, um bókhald, XII. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og laga nr. 46/1937, um samvinnufélög, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 91. gr. þessara laga, er öllum bókhaldsskyldum aðilum heimilt að miða gerð ársreikninga sinna við ákvæði þessara laga að því er varðar endurmat, fyrningar og færslu vegna verðbreytinga. Lögin raska þó ekki ákvæðum tilvitnaðra laga um að eignir í ársreikningi skuli ekki tilfæra með hærra verði en raunverulega svarar til verðmætis þeirra.“
    Í ræðu framsögumanns nefndarinnar er frumvarpið kom til 2. umræðu víkur hann að þessu breytingarákvæði og segir: Það er ljóst, að hvorki lög um hlutafélög né lög um bókhald gera ráð fyrir stöðugu endurmati, eins og hér er gert ráð fyrir. Þess vegna þótti nauðsynlegt að taka það fram í þessum lögum, að þetta væri heimilt þrátt fyrir ákvæði þessara laga um gerð ársreikninga og einnig væri heimilt að miða varasjóðstillag, arðsúthlutun og úthlutun á tekjuafgangi við niðurstöðu rekstrarreiknings samkvæmt skattalögum, þrátt fyrir ákvæði þessara laga um svipuð efni.
    Það næsta sem gerist í lagasetningu um bókhald og ársreikninga er að með lögum nr. 69/1989 um breyting á lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, eru gerðar breytinga á XII. kafla laganna um ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Þar kemur fram að hækkun á bókfærðu verði fastafjármuna sem stafar af því að raunvirði þeirra er verulega hærra en bókfært verð þeirra í efnahagsreikningi síðasta reikningsár skuli færa í endurmatsreikning svo og skuli gerð mótbókun við gjaldfærslu vegna reiknaðra áhrifa verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir. Þá er ákvæði um ráðstöfun endurmatsreiknings. Gildistökuákvæðið varðandi ráðstöfun endurmatsreiknings er gert afturvirkt til upphafs árs 1979. Hliðstætt ákvæði um árlegt endurmat eigna og er í skattalögunum er ekki að finna í breyttum lögum um hlutafélög.
    Samsvarandi ákvæði koma fram í lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, varðandi endurmatsreikning að frátöldu gildistökuákvæðinu.
    Með lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt var í raun ákveðið að hafna forsendu hefðbundinna reikningsskila um stöðugt verðlag. Sú úrlausn sem fest var í umrædd lög miðaðist við þá tegund verðbólgureikningsskila, sem nefnd hefur verið staðverðsreikningsskil. Afleiðing þess að hafna forsendunni um stöðugt verðlag er tvíþætt. Annars vegar er nauðsynlegt að framreikna kostnaðarverð efnislegra eigna og hins vegar þarf að taka tillit til áhrifa verðbólgu á peningalegar eignir og skuldir.
    Almennt var álitið að með framreikningi væri verið að reyna að nálgast endurkaupsverð sambærilegra fjármuna með einhvers konar endurmati og í því sambandi skiptir ekki litlu máli að hækkun eigna vegna framreikningsins væri færð á sérstakan endurmatsreikning. En með framreikningi eigna er aðeins verið að sýna kaupmátt þess fjár sem látið var af hendi þegar eign var keypt, þ.e. hvert er verðgildi peninganna sem afhentir voru á núverandi verðlagi. Staðverðsreikningsskil byggjast í raun á sömu grundvallarreglum um reikningsskil og hefðbundin reikningsskil þ.e. reglunni um að skrá skuli eignir við upphaflegu kostnaðarverði og reglunni um að tekjur séu aðeins færðar í reikningsskil við sölu eigna eða við innlausn. Munurinn er þó sá að við gerð staðverðsreikningsskila er þeirri forsendu hefðbundinna reikningsskila hafnað að mælieiningin sé stöðug. Í hefðbundnum reikningsskilum eru viðskipti skráð við kaupmætti þeirra króna, þegar þau fóru fram. Forsenda hefðbundinna reikningsskila er að mælieiningin, þ.e. krónan, sem mælingarnar miðast við, sé stöðug. Endurmatið er í raun ekki endurmat, heldur framreikningur á kostnaðarverði fyrir áhrifum almennra verðbreytinga og hlutverk afskrifta er ekki til vitnis um raunverulega rýrnun, þannig að bókfært verð segi til um raunvirði. Grundvallarhugsunin er sú að ekki komi fram hagnaður í rekstrarreikningi nema kaupmáttur eigin fjár hafi aukist á því tímabili sem hann tók til.

V.


    Fljótlega varð þó ljóst að hinar einföldu leiðréttingaaðferðir skattalaga fullnægðu í vissum tilvikum ekki þeim fyrirtækjum sem gerðu miklar kröfur til nákvæmni varðandi rekstrarafkomu sem stærri fyrirtæki vildu gera til afkomumælinga innan einstakra ára vegna þeirrar einföldunar sem felast í ákvæðum laganna um útreikning á áhrifum verðbólgu. Niðurstöður í skattskilum gátu orðið ónákvæmar og jafnvel misvísandi um afkomu innan einstakra reikningstímabila.
    Í ársbyrjun 1982 gaf reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda út leiðbeiningar til félagsmanna sinna um ársreikningagerð þar sem byggt var á ákvæðum skattalaga varðandi verðleiðréttingar svo og hlutafélagalögunum. Leiðbeiningar um frávik frá aðferðum skattalaga við útreikning á áhrifum verðlagsbreytinga á ársreikninga fyrirtækja gaf félagið út í ársbyrjun 1985. Tilgangur þessara leiðbeininga var að móta stefnu um notkun svonefndrar fráviksaðferðar í þeim tilvikum sem reglur skattalaga um endurmat eigna, afskriftir og reiknaða verðbreytingarfærslu voru taldar gefa misvísandi niðurstöðu um afkomu og fjárhagsstöðu fyrirtækja.
    Telja verður að þetta framtak félagsins hafi öðru fremur orðið til að auðvelda mönnum að framkvæma þær miklu breytingar sem lögin höfðu í för með sér, jafnframt því sem þetta framtak stuðlaði að meira samræmi í ársreikningagerð en ella hefði orðið.
    Sem dæmi um einföldun við verðbólguleiðréttingu skattalaga má nefna í þessu sambandi:
     1.      Eignir sem keyptar eru á reikningsárinu eru ekki endurmetnar á því ári en það leiðir til vanmats þeirra við skilyrði verðbólgu.
     2.      Varanlegir rekstrarfjármunir sem seldir eru á reikningsárinu eru endurmetnir með verðbreytingarstuðli söluárs en það kann að leiða til ofmats þeirra og lægri söluhagnaðar eða hærra sölutaps.
     3.      Á kaupári er afskrifað í heilt ár af kaupverði án tillits til hvenær keypt er á því ári en engar afskriftir eru á söluári. Afskriftir geta því verið ofmetnar eða vanmetnar á viðkomandi reikningsári.
     4.      Verðbreytingafærsla er miðuð við stöðu peningalegra eigna og skulda í byrjun reikningsárs, þ.e. efnahagsreikningi sl. árs. Verulegar breytingar innan ársins t.d. vegna kaupa eða sölu á varanlegum rekstrarfjármunum geta leitt til umtalsverðrar skekkju í þessum útreikningi.
     5.      Verðbreytingarfærslan var á fyrstu árunum miðuð við breytingu á meðaltali vísitölu byggingarkostnaðar milli ára en ekki innan viðkomandi reikningsárs. Síðar var því breytt þannig að stuðullinn miðast við breytingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils.

    Helstu þættir sem fráviksaðferðin tekur á eru:
     1.      Endurmat (framreikningur) eigna er að jafnaði miðað við kaupmánuð.
     2.      Afskriftir eru reiknaðar miðað við eignarhaldstíma innan hverseikningsárs.
     3.      Þegar reiknuð eru áhrif verðlagsbreytinga á peningalegar eignir og skuldir er tekið tillit til þeirra breytinga sem verða á stöðu þessara eigna og skulda innan ársins.
     4.      Vísitalan sem notuð er miðast við breytingar innan reikningsársins stað milli ára eins og var upphaflega í skattalögunum.

    Það er ekki fyrr en með lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, er fram komu ákvæði um árlegt endurmat í reikningsskilum og ákvæði um að taka tillit til áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag félaga. Í lögunum er heimilað að leiðrétta liði efnahagsreiknings, þar með talið eigið fé, vegna áhrifa verðbólgu og skulu þá slíkar leiðréttingar einnig taka til rekstrarreiknings. Með samþykkt laganna voru ársreikningskaflar hlutafélagalaganna og samvinnufélagalaganna felldir niður og ein og sömu lögin giltu um ársreikninga þessara félagaforma. Lög þessi voru sett í framhaldi af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) en Evrópusambandið, ESB, hafði gefið út tvær félagatilskipanir, sem eru númer 4 og 7, um reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga með takmarkaða ábyrgð. Var talið að nauðsynlegt að samræma íslenska löggjöf um reikningsskil ákvæðum þessara félagatilskipana.
    Samkvæmt 32. gr. fjórðu félagatilskipunar er það meginregla að reikningsskil skuli grundvallast á upphaflegu kostnaðarverði en gefinn er kostur á því í 33. gr. að heimila í löggjöf aðildarríkjanna, þar til annað yrði ákveðið, að leiðrétta megi reikningsskil fyrir áhrifum verðbólgu, án þess að það sé skýrt nákvæmlega í greininni. Í lögum um ársreikninga eru ekki settar reglur um hvernig þessi verðbólguleiðréttingar eigi að fara fram en samkvæmt almennum athugasemdum við III. kafla frumvarpsins um ársreikninga var gert ráð fyrir að tekið yrði tillit til áhrifa verðbólgu í samræmi við viðteknar reikningsskilavenju hér á landi og sömu reglur sem mótast höfðu af framkvæmd skattalaga og fráviksaðferð Félags löggiltra endurskoðenda yrðu viðhafðar.
    Í 30. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, er að finna samsvarandi ákvæði varðandi matsreglur vegna áhrifa almennra verðlagsbreytinga á rekstur og efnahag hjá þeim bókhaldsskyldu aðilum sem ekki ber skylda til að fara eftir lögum um ársreikninga í reikningsskilum sínum.
    Í reynd hafa því einkum tvær aðferðir verið notaðar við verðleiðréttingu reikningsskila hér á landi frá árinu 1982, sem báðar hafa verið taldar góðar og gildar. Það er annars vegar reikningsskil í samræmi við ákvæði skattalaga sem flest minni félög og fyrirtæki einstaklinga nota og hins vegar fráviksaðferð Félags löggiltra endurskoðenda sem flest stór eða stærri félög nota.



Fskj. 2.

    I.        Verðbreytingarstuðar framtalsáranna 1980–2001, reikningsáranna 1979–2000.
    II.    Verðbreytingarstuðar framtalsáranna 1961–1979, reikningsáranna 1960–1978
            ef verðbreytingarstuðlar hefðu verið í gildi á þeim árum.


I. Raunverul. stuðull 1980–1998. II. Útreiknaður stuðull 1961–1979.
Framt.ár Stuðull Hækkun Framt.ár Stuðull Hækkun
2001 1,0418 4,18%
2000 1,0561 5,61%
1999 1,0127 1,27%
1998 1,0202 2,02% 1979 1,4815 48,15%
1997 1,0608 6,08% 1978 1,2814 28,14%
1996 1,0321 3,21% 1977 1,2543 25,43%
1995 1,0184 1,84% 1976 1,4875 48,75%
1994 1,0311 3,11% 1975 1,4699 46,99%
1993 1,0117 1,17% 1974 1,2418 24,18%
1992 1,0618 6,18% 1973 1,1884 18,84%
1991 1,1916 19,16% 1972 1,1473 14,73%
1990 1,2224 22,24% 1971 1,1718 17,18%
1989 1,1848 18,48% 1970 1,2305 23,05%
1988 1,1795 17,95% 1969 1,0822 8,22%
1987 1,2843 28,43% 1968 1,0438 4,38%
1986 1,2868 28,68% 1967 1,1757 17,57%
1985 1,2672 26,72% 1966 1,1410 14,10%
1984 1,7167 71,67% 1965 1,1535 15,35%
1983 1,5378 53,78% 1964 1,0603 6,03%
1982 1,5349 53,49% 1963 1,1250 12,50%
1981 1,5491 54,91% 1962 1,1022 10,22%
1980 1,4551 45,51% 1961 1,0578 5,78%




Fskj. 3.

Ákvæði í lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjalla um verðbólguleiðréttingar.


    Þær greinar laga um tekjuskatt og eignarskatt sem orðin „verðbreyting/verðbreytingarfærsla/tekjuærsla,“ „endurmat/endurmeta,“ „framreikningur/umreikningur“ kemur fyrir í eru: 9., 10., 11., 12., 13., 14., 15., 16., 17., 18., 20., 21., 26., 27., 28., 30., 31., 35., 36., 37., 41, 44., 53. og 74. gr.

    9. gr., 3. mgr. [Nú er félagi slitið án þess að um sameiningu félaga sé að ræða, sbr. 56. gr., og skal þá teljast til arðs úthlutun við félagsslit sem er umfram kaupverð bréfanna. Einnig telst til arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð. Hafi aðili eignast hlutabréfin fyrir árslok 1996 er honum heimilt að miða við upphaflegt kaupverð hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 eða jöfnunarverðmæti hlutabréfanna, sbr. 3. mgr. 17. gr., sé það hærra.] 1)
1)
L. 154/1998, 2. gr.

Sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna.
     10. gr., 1. mgr. Söluhagnaður eigna telst mismunur á söluverði þeirra og stofnverði, að teknu tilliti til fenginna fyrninga, áður fengins söluhagnaðar og verðbreytinga eftir því sem nánar er ákveðið í 11.–27. gr.

Söluhagnaður eigna sem heimilt er að fyrna.
     11. gr. Hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna skv. 32. gr., og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign.
    Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra, að frádregnum áður fengnum fyrningum hins vegar, þegar stofnverð og fyrningar hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr., sbr. einnig 36. gr.

    12. gr. Við ákvörðun söluhagnaðar af fyrnanlegum fasteignum, sem skattaðili hefur eignast fyrir árslok 1978, skal stofnverð og fengnar fyrningar ákvarðast í samræmi við endurmat þessara eigna á árinu 1979, sbr. bráðabirgðaákvæði IV 1) að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 26. gr. eftir þann tíma.
1) Um þetta brbákv. vísast til Lagasafns 1983.

    13. gr., 2. mgr. Þegar skattskyldur söluhagnaður er ekki tekjufærður á söluári samkvæmt heimild í þessari grein skal hækka hann eða lækka samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. fram til þess árs þegar hann er tekjufærður.

Söluhagnaður eigna sem ekki er heimilt að fyrna.
     14. gr. Hagnaður af sölu fasteigna, sem ekki er heimilt að fyrna skv. 32. gr., þar með talin ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, svo sem lóðarréttindi, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign.
    Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra að frádregnum áður fengnum [niðurfærslum skv. 31. gr. og] 1) söluhagnaði, sbr. 4. mgr. þessarar greinar, og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. hins vegar. Við ákvörðun á söluhagnaði íbúðarhúsnæðis, sem fyrnt hefur verið sérstakri fyrningu skv. 3. mgr. 44. gr., 2) skal sú fyrning dregin frá stofnverði framreiknuð með verðbreytingarstuðli fyrningarárs. Ef skattaðili hefur eignast hina seldu eign fyrir árslok 1978 er honum heimilt að nota gildandi fasteignamat í árslok 1979, að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 26. gr., í stað stofnverðs. Frá fasteignamati leigulóðar í þessu sambandi skal draga afgjaldskvaðarverðmæti, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 74. gr.
    Skattaðila er jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað söluhagnaðar skv. 2. mgr.
    Skattaðili getur farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðast liðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr., með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið, að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.
    [Hagnaður af sölu þeirra réttinda sem um ræðir í 50. gr. A telst að fullu til tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu réttindi. Hagnaður af sölu telst mismunur á söluverði annars vegar og kaupverði, eftir að frá því hafa verið dregnar fengnar fyrningar og niðurfærsla skv. 6. mgr., og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. hins vegar. Þegar ákveða skal hagnað af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skal á hverjum tíma litið svo á að fyrst sé seldur sá hluti aflahlutdeildar í sömu fisktegund sem skattaðili keypti fyrst en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að öll keypt aflahlutdeild í tegundinni hefur verið seld.
    Á því ári sem skattskyldur hagnaður af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skv. 5. mgr. færist til tekna er skattaðila heimilt að færa niður stofnverð aflahlutdeildar, sem keypt hefur verið á tekjuárinu eða á síðustu 12 mánuðum áður en salan fór fram, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, enda kaupi hann aflahlutdeild í sjávarútvegi innan þess tíma og færi hana niður um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef aflahlutdeild er ekki keypt innan tilskilins tíma samkvæmt þessari málsgrein telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist, framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til þess árs þegar hann er tekjufærður, að viðbættu 10% álagi. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein er því aðeins heimil að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.] 3)
    
Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um söluhagnað af íbúðarhúsnæði sem er undir stærðarmörkum þeim er greinir í 16. gr. og er í eigu manna, sbr. 5. mgr. þeirrar greinar.
1) L 111/1992, 1. gr. 2) 3. mgr. 44. gr. var felld niður með 8. gr. l. 8/1984. 3) L 118/1997, 1. gr. Um heimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðar af aflahlutdeild fyrir 23. desember 1997, sjá 2. mgr. 4. gr. s.l.

    15. gr., 1. mgr. Hagnaður af sölu lausafjár, sem eigi er heimilt að fyrna skv. 32. gr., annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári, og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Hagnaður af sölu þessara eigna telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og stofnverði þeirra að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. hins vegar.

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði.
    16. gr., 2., 3. og 4. mgr. Maður getur farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn, framreiknaður skv. 2. mgr. 13. gr., til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum innan þessara tímamarka telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinnar nýju eignar. Ef eignarinnar er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn, framreiknaður, með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist.
    [Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst mismunur á söluverði þess annars vegar og stofnverði þess að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr., og 25% af innlausn innstæðu húsnæðissparnaðarreiknings, í tengslum við kaup, byggingu eða endurbætur íbúðarhúsnæðisins, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um húsnæðissparnaðarreikninga, hins vegar þegar stofnverðið, söluhagnaðurinn og 25% innstæðuinnlausnar hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr.] 2)
    Þegar maður selur íbúðarhúsnæði sem hann hefur byggt eða endurbætt og salan fer fram innan [tveggja] 1) ára frá því síðast var lagt í byggingarkostnað, skal einungis sá hluti söluhagnaðarins teljast skattskyldur sem svarar til þess hlutfalls af heildarbyggingarkostnaði sem í var lagt innan [tveggja] 1) ára frá söludegi. Áður en þetta hlutfall byggingarkostnaðar er reiknað skal umreikna hann samkvæmt ákvæðum 26. gr.
2) L. 47/1985, 1. gr.

Söluhagnaður af eignarhlutum í félögum.
    17. gr., 2., 4.,5. og 7. mgr.
    
2. mgr.: [Hagnaður af sölu hlutabréfa telst mismunur á söluverði þeirra annars vegar og kaupverði þeirra hins vegar, [sbr. þó 4. mgr.] 1) [Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. til söluárs, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.] 2) Kaupverð hlutabréfa, sem skattaðili hefur eignast við samruna hlutafélaga skv. 56. gr., skal ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa er hann lét af hendi. [Kaupverð hlutabréfa í B-deild stofnsjóðs samvinnufélags sem skattaðili hefur eignast við sértækt endur mat A-deildar stofnsjóðs samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um samvinnufélög skal ákvarðast jafnt fjárhæð hækkunar séreignarsjóðshluta A-deildar yfirfærðs stofnsjóðs. ] 3) [Kaupverð hlutabréfa sem seljandi hefur eignast vegna kaupréttar skv. 8. gr. A skal ákvarðast jafnt gangverði því sem lagt var til grundvallar við ákvörðun tekna samkvæmt því ákvæði.] 4) Þegar ákveða skal hagnað af sölu hlutabréfa skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar á hendi sama eiganda.
    4. mgr.: Við sölu á hlutabréfum, sem seljandi hefur eignast fyrir árslok 1996, skal skattskyldur söluhagnaður vera söluverð bréfanna að frádregnu jöfnunarverðmæti þeirra, sbr. 3. mgr., eða upphaflegu kaupverði hlutabréfanna þegar það hefur verið hækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. til ársloka 1996 ef það er hærra. Þó skal kaupverð hlutabréfa í eigu rekstraraðila, þar með talið einstaklinga, ákvarðast sem upphaflegt kaupverð þeirra eða jöfnunarverðmæti í árslok 1996 þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr., til söluárs, enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum.] 1)
[… 1)] 6)
    5. mgr.: [Lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr., geta farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, annarra en eigin bréfa, um tvenn áramót frá söludegi. Sama gildir um einstaklinga í atvinnurekstri enda séu hlutabréfin eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist. Þegar skattskyldur söluhagnaður er ekki tekjufærður á söluári samkvæmt heimild í þessari málsgrein skal hann hækkaður eða lækkaður samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. fram til þess árs þegar hann er tekjufærður.] 2)
    7. mgr.: [Við sölu hlutabréfa í sparisjóði, sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, skal skattskyldur söluhagnaður þeirra bréfa sem stofnfjáreigandi fékk í skiptum fyrir stofnbréf sín vera söluverð bréfanna að frádregnu kaupverði þeirra. Kaupverð hlutabréfa í eigu stofnfjáreigenda skal ákveðið sem stofnfé sjóðsins endurmetið til ársloka 1996, skv. 23. gr. laga nr. 113/1996, að viðbættu innborguðu stofnfé frá þeim tíma þar til sparisjóðnum var breytt í hlutafélag. Kaupverð hlutabréfa sem rekstraraðili hefur fengið afhent sem stofnfjáreigandi skal þó ákvarðað sem kaupverð samkvæmt framangreindu þegar það hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. þessara laga, frá árslokum 1996 til söluárs, enda hafi hlutabréfin verið eignfærð í atvinnurekstrinum. Kaupverð hlutabréfa í sparisjóði sem sjálfs eignarstofnun hefur eignast samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996 ákvarðast sem raunvirði hreinnar eignar sparisjóðsins í árslok 1996 að frádregnu kaupverði hlutabréfa í eigu stofnfjár eigenda, sbr. framangreint. Raunvirði hreinnar eignar skal ákveðið samkvæmt þeim reglum sem gilda um ákvörðun á jöfnunarverðmæti hlutabréfa, sbr. 3. mgr.] 9)
1) Sbr. 3. gr. laga nr. 154/1998. 2) Sbr. 3. gr. laga nr. 95/1998. 3) Sbr. 2. gr. laga nr. 30/2001.
4) Sbr. 3. gr. laga 86/2000. 6) Sbr. 4. gr. laga nr. 98/1996. 9) Sbr. 1. gr. laga nr. 60/2001.

    18. gr., 2. mgr. Hagnaður af sölu eignarhluta telst mismunur á söluverði hans annars vegar og kaupverði hins vegar. Kaupverð eignarhluta í hendi seljanda ákveðst sem hlutur hans í eigin fé félagsins í byrjun þess árs sem salan fer fram á eða sem raunverulegt kaupverð að frádreginni eigin úttekt, sé það hærra, þegar kaupverð og eigin úttekt hefur verið hækkað eða lækkað samkvæmt verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr. [Til eigin fjár í þessu sambandi telst skattskyld hrein eign félagsins að meðtöldu stofnfé en að undanskildum 65% af fjárfestingarsjóði, sbr. 11. tölul. 31. gr.] 1)
1)
L. 8/1984, 3. gr.

Ýmis ákvæði um söluhagnað.
     20. gr. Falli sala eigna undir atvinnurekstur skattaðila eða hafi eigna verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði telst hagnaður af sölu þeirra ávallt að fullu til skattskyldra tekna á söluári án tillits til verðbreytinga, sbr. 26. gr. Með sama hætti telst söluhagnaður af rekstrarvörubirgðum og öðrum hliðstæðum eignum sem ætlaðar eru til notkunar í atvinnurekstri ávallt til skattskyldra tekna.

    21. gr. Bætur vegna altjóns eða eignarnáms teljast söluverð eigna, og reiknast söluhagnaður og fer um meðferð hans eftir ákvæðum 10.–27. gr. eftir því sem við á. Í slíkum tilvikum er skattaðila þó heimilt að færa skattskyldan söluhagnað til tekna með jöfnum fjárhæðum á allt að fimm árum, í fyrsta sinn á söluári. Ef um er að ræða eign sem ekki er heimilt að fyrna er heimilt að verja söluhagnaðinum til öflunar sams konar eignar innan þriggja ára. Söluhagnaðurinn telst þá ekki til tekna en færist til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna.
    Þrátt fyrir frestun eða dreifingu skattskylds söluhagnaðar samkvæmt þessari grein skal honum ekki breytt samkvæmt verðbreytingarstuðli .

     25. gr. Þegar seld er sérgreind fasteign eða mannvirki, ásamt lóð, landi eða réttindum tengdum þessum eignum, í heild eða að hluta, skal söluverðinu skipt í sama hlutfalli og hinar seldu eignir eru metnar til fasteignamats á söludegi. Sama gildir um skiptingu söluverðs mannvirkja eingöngu. Þegar um lóðarréttindi er að ræða skal afgjaldskvaðarverðmætið, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 74. gr., dregið frá fasteignamati áður en hlutfallið er reiknað.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um ákvörðun stofnverðs.
    Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um skiptingu söluverðs milli mannvirkis og leigulóðar þegar selt er mannvirki sem stendur á leigulóð og endurmetið var í hendi seljanda á árinu 1979 á grundvelli upphaflegs stofnverðs.

     26. gr. Verðbreytingarstuðull til notkunar við ákvörðun á verðmæti eigna, söluhagnaði og fyrningum eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum skal reiknaður árlega, í fyrsta sinn fyrir árið 1980. [Stuðullinn skal miðast við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils. Miða skal breytinguna við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hafi aðili annað reikningsár en almanaksárið skal miða stuðulinn við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð tekjuárs og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð eftir lok þess tekjuárs.] 1)
    Ríkisskattstjóri skal birta verðbreytingarstuðul í lok hvers tekjuárs og gildir hann fyrir það ár.
1) L. 141/1997, 1. gr.

     27. gr. Nú selur skattaðili eign með skattskyldum söluhagnaði og hluti söluandvirðis hennar er greiddur með skuldaviðurkenningum til þriggja ára eða lengri tíma og er honum þá heimilt að telja það hlutfall af söluhagnaðinum, sem svarar til hlutdeildar skuldaviðurkenninganna af heildarsöluverðmætinu, til tekna hlutfallslega eftir afborgunartíma skuldaviðurkenninganna, þó ekki á lengri tíma en sjö árum. [Þó fellur þessi heimild niður ef skuldaviðurkenning er seld á þeim tíma sem heimilt er að dreifa söluhagnaði.] 1) Til skuldaviðurkenninga í þessu sambandi teljast ekki þær skuldir sem hvíla á hinni seldu eign og kaupandi tekur að sér að greiða. Skattstjóra skal tilkynnt um notkun þessarar heimildar með fyrsta framtali eftir söludag. Þessa heimild má skattaðili þó aðeins nota að því marki sem hann hefur ekki getað notað hinn skattskylda söluhagnað til að fyrna aðrar eignir, eða lækka stofnverð sams konar eigna, í samræmi við ákvæði þessara laga.
    [Þegar skattskyldum söluhagnaði er dreift samkvæmt þessari grein skal hækka hann eða lækka samkvæmt verðbreytingastuðli, sbr. 26. gr., fram til þess árs sem hann er tekjufærður.] 1)
    Sé heimild skv. 1. mgr. notuð kemur hún í stað annarra heimilda laga þessara til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar. Frestun tekjufærslu samkvæmt þessari grein kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.
1) L. 85/1991.

    28. gr., 4. og 8. tölul. Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla telst ekki til tekna:
    4. tölul.: Eignaauki sem stafar af aukavinnu sem maður leggur fram utan venjulegs vinnutíma við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota. Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis, sbr. 14. og 16. gr., telst þó sem mismunur heildarandvirðis að frádregnum beinum kostnaði við söluna annars vegar og framreiknaðs stofnverðs án eigin aukavinnu hins vegar.
    8. tölul.: Endurmatshækkun fyrnanlegra eigna samkvæmt ákvæðum laga þessara né matshækkun búfjár samkvæmt 2. tölul. 74. gr., enda kemur matslækkun ekki til frádráttar tekjum.

    2. mgr. B-liðar 30 gr. Hafi maður beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tölul. A-liðs 1. mgr. 7. gr., án þess að hún verði talin falla undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. samt sem áður gilda um slíkan kostnað eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. [Útleiga manns á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi í þessu sambandi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árslok nemi [27.000.000] 12) kr. eða meira ef um einstakling er að ræða, en [54.000.000] 12) kr. ef hjón, sbr. 63. gr., eiga í hlut.] 16) [Fjárhæðir samkvæmt þessari málsgrein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.] 12)
12) Sbr. 4. gr. laga nr. 149/2000. 16) Sbr. 4. gr. laga nr. 8/1984.

    31. gr., 7. tölul. Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:
7.    [Eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu [átta] 7) árum á undan tekjuári, framreiknaðar samkvæmt ákvæðum 26. gr., enda hafi fullnægjandi grein verið gerð fyrir rekstrartapinu og eftirstöðvum þess á því tekjuári þegar tapið myndaðist.] 8) [Þó er ekki heimilt að nýta rekstrartap til frádráttar tekjum ef veruleg breyting hefur orðið á þeim rekstri eða starfsemi sem í hlut á, svo sem með breytingu á eignaraðild að lögaðila eða á tilgangi rekstrar, nema sýnt þyki að umræddar breytingar hafi verið gerðar í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi.] 9)
7)
L. 137/1996, 4. gr. 8) L. 85/1991, 4. gr. 9) L. 147/1994, 3. gr.

     35. gr. Verðmæti sem fyrning er reiknuð af hverju sinni telst fyrningargrunnur eigna. Fyrningargrunnur eigna telst stofnverð þeirra, sbr. 2. mgr. 10. gr., að teknu tilliti til verðbreytinga skv. 36. gr. Þegar stofnverð eigna hækkar eða lækkar eftir að hafin er nýting þeirra skal breytingin færð til hækkunar eða lækkunar fyrningargrunni þess árs þegar breytingin verður.

    36. gr. Fyrningargrunn fyrnanlegra eigna, eins og hann er í byrjun hvers rekstrarárs, skal hækka samkvæmt verðbreytingarstuðli viðkomandi árs, sbr. 26. gr. Sama á við um stofnverð eigna þótt ekki sé hafin nýting þeirra við öflun tekna enda séu þær í eigu skattaðila í byrjun þess rekstrarárs þegar verðbreyting er reiknuð.
    Heildarfjárhæð áður fenginna fyrninga, eins og hún er í byrjun þess rekstrarárs, þegar verðbreyting er reiknuð, skal breyta á sama hátt og fyrningargrunni.
    Ef fyrningargrunnur lækkar á einhverju ári samkvæmt verðbreytingarstuðli skulu áður fengnar fyrningar einnig lækkaðar. Fyrningargrunnur skal þó ekki lækkaður niður fyrir stofnverð.

    37. gr. Árlegar verðbreytingar samkvæmt 36. gr. færast til hækkunar eða lækkunar fyrningargrunni eigna og áður fengnum fyrningum. Mismunur breytinganna færist síðan á sérstakan reikning, endurmatsreikning, sem teljast skal til eigin fjár.

     41. gr. Þegar kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna er undir [128.697 kr.] 1) er heimilt að færa það að fullu til gjalda á því ári þegar þeirra er aflað þótt endingartími sé lengri en þrjú ár. [Fjárhæðir samkvæmt þessari málsgrein skulu hækka árlega með verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr.] 2)
1) Sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 65/1997. 2) Sbr. 5. gr. laga nr. 149/2000. Ákvæðið kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2002 vegna tekna og eigna á árinu 2001.

    44. gr. [Til viðbótar fyrningu skv. 38. og 55. gr. er heimilt að fyrna eignir, sbr. 32. gr., um fjárhæð jafna skattskyldum hluta söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum á sama rekstrarári og söluhagnaður færist til tekna.] 1) Einnig er heimilt að fyrna sömu eignir um fjárhæð er nema má allt að 40% af þeirri fjárhæð sem færð er til tekna samkvæmt ákvæðum 53. gr. Þegar 60% af tekjufærslu ársins skv. 53 . gr. eru hærri en fjármagnskostnaður skv. 51. gr. að frádregnum fjármagnstekjum skv. 8. gr. er heimilt, auk fyrninga skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar, að fyrna þessar eignir um fjárhæð er nemur allt að þessum mun að viðbættum 6% af þeim stofni er tekjufærsla skv. 53. gr. er reiknuð af.
    Heimilt er að fyrna sérstakri fyrirframfyrningu þá varanlegu rekstrarfjármuni sem ætlaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri, sbr. 32. gr., en ekki hafa verið teknir í notkun í ársbyrjun, enda hafi beinn fjármagnskostnaður á byggingartíma verið eignfærður. Skal hundraðshluti þessarar fyrirframfyrningar nema að hámarki sama hundraðshluta og tekjufærsla skv. 53. gr. og reiknast hann af fjárhæð sem er jafnhá fjárfestingu í þessum rekstrarfjármunum í lok næst liðins árs. Fyrirframfyrning samkvæmt þessari málsgrein og 2. málsl. 1. mgr. skal þó aldrei vera hærri en nemur heildarfjárhæð tekjufærslu samkvæmt 53. gr. vegna viðkomandi árs.
1)
    Eigi má mynda rekstrartap vegna fyrninga samkvæmt þessari grein, og ekki má nota þær til að fresta yfirfærslu rekstrartapa frá fyrri árum.
1) L. 8/1984, 8. gr.

     Tekjur og gjöld vegna verðbreytinga.
     53. gr. Hjá lögaðilum skal árlega tekið tillit til þeirra áhrifa sem almennar verðbreytingar hafa á eignir þeirra og skuldir, eftir því sem nánar er ákveðið í grein þessari. Sama á við hjá þeim mönnum er hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi varðandi þær eignir þeirra og skuldir sem rekstrinum eru tengdar.
    Árlega skal reikna tiltekinn hundraðshluta af mismun eigna þeirra, er um ræðir í 3. mgr., og skulda þeirra, er um ræðir í 4. mgr., og færa þá fjárhæð, er þannig reiknast, til gjalda skv. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. séu eignirnar hærri, en til tekna skv. B-lið 7. gr. séu skuldirnar hærri.
    Til eigna skattaðila við útreikning skv. 2. mgr. teljast allar óverðtryggðar eignir, eignir sem ekki hækka í verði við almennar verðhækkanir svo og þær eignir sem eru verðtryggðar eða hækka í verði við almennar verðhækkanir, en verðtryggingin eða verðhækkunin telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum þessum. Hér til teljast t.d. sjóðseign, innlendar og erlendar bankainnstæður, viðskiptakröfur, viðskiptavíxlar og aðrar skammtímakröfur, skuldabréf og aðrar langtímakröfur, fyrirframgreiðslur og vörubirgðir. Til eigna í þessu sambandi teljast hins vegar ekki verðtryggðar eignir, eignir sem halda verðgildi sínu við almennar verðhækkanir eða eignir sem heimilt er að endurmeta samkvæmt lögum þessum án þess að verðbætur af þeim, hækkun á peningaverði þeirra eða endurmat þeirra teljist til tekna samkvæmt lögum þessum. Til þessara eigna teljast t.d. fyrnanlegar eignir, íbúðarhúsnæði og aðrar ófyrnanlegar fasteignir og eignarhlutar í félögum. Helmingur af matsverði bústofns telst til eigna við útreikning þennan. Niðurfærsla skv. 4. tölul. og 2. mgr. 5. tölul. 74. gr. skal dregin frá viðkomandi eignum áður en útreikningur fer fram.
    Til skulda skattaðila skv. 2. mgr. teljast hvers konar skuldir, sbr. 76. gr., en þar með telst þó ekki hlutafé, stofnsjóðir, stofnfé, endurmatsreikningur, [fjárfestingarsjóður] 1) og aðrir eiginfjárreikningar. [Skuldir og inneignir stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga, sbr. 1., 2. og 4. tölul. 2. gr., svo og skuldir og inneignir hluthafa í hlutafélögum og ógreidd hlutafjárloforð, teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan nema því aðeins að skuldir þessar og inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Skuldir og inneignir eignaraðila sameignarfélaga, sbr. 3. tölul. 2. gr., teljast ekki til eigna eða skulda við útreikning þennan.] 2) Ekki teljast heldur til skulda í þessu sambandi ógreiddar uppbætur á innlagðar afurðir mjólkurbúa og sláturhúsa. Hjá mönnum, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, teljast ekki með í þessu sambandi skuldir og inneignir þeirra hjá atvinnurekstrinum og ekki heldur skuldir og eignir þessara aðila sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
    Þegar heildarskuldir skattaðila skv. 76. gr. eru hærri en heildareignir hans skv. 73. gr. í lok reikningsárs skal sá hluti reiknaðrar tekjufærslu samkvæmt þessari grein falla niður sem umfram er tap ársins og ójöfnuð töp frá fyrri árum. Með tapi ársins er í þessu sambandi átt við skattskyldar tekjur ársins að frádregnum frádráttarbærum gjöldum ársins án tillits til verðbreytingarfærslu. Hjá mönnum, er stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er með heildareignum og heildarskuldum í þessari málsgrein átt við allar framtalsskyldar eignir þeirra og skuldir án tillits til þess, hvort þær eru tengdar rekstrinum eða ekki. Til eigna í þessu sambandi telst þó ekki verðmæti íbúðarhúsnæðis til eigin nota og einkabifreiðar allt að 500.000 kr. og til skulda teljast ekki þær skuldir sem sannanlega hafa verið notaðar til öflunar þessara eigna. Fjárhæð í 4. málsl. þessarar málsgreinar er grunnfjárhæð og skal hún hækkuð eða lækkuð árlega samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr., í fyrsta skipti við álagningu skatta ársins 1982.
    Hinn reiknaði hundraðshluti skv. 2. mgr. skal vera jafn hundraðshluta verðbreytinga milli ára, sbr. 26. gr.
    Verðbreytingarfærslu samkvæmt þessari grein skal reikna í lok hvers reikningsárs og skal miða við stöðu eigna og skulda í lok næst liðins reikningsárs. 1) L. 8/1984, 9. gr. 2) L. 97/1988, 5. gr.

    74. gr., 1. og 3. tölul. Við mat skattskyldra eigna gilda eftirfarandi reglur:
    1. Allar fasteignir, hverju nafni sem nefnast, skal telja til eignar á gildandi fasteignamatsverði. Sé fasteignamatsverð ekki fyrir hendi skal eignin talin til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 10. gr., að frádregnum fengnum fyrningum og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr., eða á áætluðu fasteignamatsverði sambærilegra eigna, hvort sem hærra er. Skattstjóri skal áætla fasteignamatsverð í þessu sambandi með hliðsjón af gildandi ákvæðum um fasteignamat.
    Eiganda leigulóðar skal talið afgjaldskvaðarverðmæti hennar til eignar en leigjanda skal talinn til eignar mismunur fasteignamatsverðs og afgjaldskvaðarverðmætis.
    3. Lausafé, þar með talin skip og loftför, telst til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 10. gr., að frádregnum heimiluðum og notuðum fyrningum og að teknu tilliti til endurmats samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV 1) og verðbreytinga eftir árið 1979 skv. 26. gr.
     (2. mgr.) Lausafé manna, sem ekki er heimilt að fyrna og ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, skal telja til eignar á upphaflegu kaup- og kostnaðarverði án endurmats. [Þó skal ár hvert heimilt að færa niður verð bifreiða um 10% af því verði sem þær voru taldar til eignar hjá framteljanda árið áður.] 2)
1)
Um þetta brbákv. vísast til Lagasafns 1983. 2) L. 145/1995, 10. gr.

Fskj. 4.

Töflur um áhrif verðbólguleiðréttinga á tekjuskatt og yfirfæranlegt tap samkvæmt samræmdum skattframtölum félaga rekstrarárin 1998 og 1999.


Samræmt skattframtal rekstraraðila 2000 (rekstur 1999)
Fjárhæðir í millj. kr.


Félög með skattgreiðslur Skattar
fyrir
Fjöldi Skattar
eftir
Fjöldi Mism. %
A Landbúnaður, dýraveiðar og skógrækt 40.367 39 35.749 36 -4.618 -11,44
B Fiskveiðar 303.214 141 294.344 130 -8.870 -2,93
CB Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu
annarra en orkugjafa
59.161 4 65.668 5 6.507 11,00
DA Matvæla- og drykkjavöruiðnaður 251.860 97 229.096 94 -22.764 -9,04
Þar af fiskvinnsla 101.542 55 75.149 48 -26.393 -25,99
D Annar iðnaður 775.195 370 793.448 364 18.253 2,35
E Veitur 227 3 201 2 -26 -11,64
F Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð 748.823 444 758.060 454 9.236 1,23
G Verslun og ýmis viðgerðarþjónusta 2.329.998 746 2.422.757 752 92.759 3,98
H Hótel- og veitingahúsarekstur 59.632 46 54.219 40 -5.413 -9,08
I Samgöngur og flutningar 251.845 94 209.000 97 -42.844 -17,01
J Fjármálaþjónusta og vátryggingar 713.643 69 1.005.757 82 292.114 40,93
K Fasteignaviðskipti, leigustarfsemi og ýmis
sérhæfð þjónusta
1.193.725 855 1.265.005 840 71.279 5,97
L Opinber stjórnsýsla; almannatryggingar 0 0 0 0 0
M Fræðslustarfsemi 1.957 13 1.930 14 -27 -1,36
N Heilbrigðis- og félagsþjónusta 124.403 115 123.141 110 -1.262 -1,01
O Önnur samfélagsþjónusta,
menningarstarfsemi o.fl.
70.803 117 67.985 116 -2.818 -3,98
R Engin starfsemi 6.879 11 11.700 17 4.821 70,08
S Ótilgreind starfsemi 8.495 21 6.309 20 -2.185 -25,73
Samtals 6.940.227 3.185 7.344.368 3.173 404.141 5,82

Samræmt skattframtal rekstraraðila 2000 (rekstur 1999)
Fjárhæðir í millj. kr.


Félög með
rekstrartap
Tap fyrir Fjöldi Tap eftir Fjöldi Mism. % Fj. Fyrir Eftir
A Landbúnaður,
dýraveiðar og
skógrækt
-626.990 127 -707.576 134 80.585 12,85 7 7 3
B Fiskveiðar -8.831.075 297 -9.782.162 343 951.087 10,77 46 45 10
CB Námugröftur og
vinnsla hráefna úr
jörðu annarra
-301.970 12 -285.478 11 -16.492 -5,46 -1 1 1
DA Matvæla- og
drykkjavöruiðnaður
-16.982.576 305 -18.641.873 316 1.659.297 9,77 11 17 9
Þar af fiskvinnsla -14.776.674 176 -16.390.887 190 1.614.213 10,92 14 12 5
D Annar iðnaður -7.538.744 620 -7.627.785 650 89.041 1,18 30 37 13
E Veitur -69.026 19 -69.549 20 523 0,76 1 2 2
F Byggingastarfsemi
og mannvirkjagerð
-3.049.532 555 -3.244.083 580 194.551 6,38 25 56 21
G Verslun og ýmis
viðgerðarþjónusta
-9.442.919 1.300 -9.783.037 1.334 340.118 3,60 34 75 35
H Hótel- og
veitingahúsarekstur
-2.481.486 291 -2.750.265 308 268.779 10,83 17 14 3
I Samgöngur og
flutningar
-3.426.643 242 -3.816.392 253 389.749 11,37 11 19 5
J Fjármálaþjónusta og
vátryggingar
-2.878.606 88 -2.305.607 90 -572.999 -19,91 2 25 10
K Fasteignaviðskipti,
leigustarfsemi og
ýmis sérhæfð
þjónusta
-13.088.792 1.550 -14.701.472 1.668 1.612.680 12,32 118 203 100
L Opinber stjórnsýsla,
almannatryggingar
-2.191 2 -2.288 2 97.697 4,46 0 1 1
M Fræðslustarfsemi -78.766 33 -80.272 34 1.506 1,91 1 5 3
N Heilbrigðis- og
félagsþjónusta
-103.158 73 -111.647 79 8.488 8,23 6 6 5
O Önnur samfélagsþjónusta, menningarstarfsemi o.fl. -2.271.167 317 -2.414.305 322 143.138 6,30 5 22 18
R Engin starfsemi -727.070 233 -700.943 228 -26.127 -3,59 -5 134 133
S Ótilgreind starfsemi -447.833 161 -503.393 161 55.561 12,41 0 42 43
Samtals -72.348.544 6.225 -77.528.127 6.533 5.179.584 7,16 308 711 415



Samræmt skattframtal rekstraraðila 1999 (rekstur 1998)
Fjárhæðir í millj. kr.


Félög með skattgreiðslur Skattar
fyrir
Fjöldi Skattar
eftir
Fjöldi Mismunur % Fj.
A Landbúnaður, dýraveiðar og
skógrækt
43.931 43 45.310 44 1.379 3,14 1
B Fiskveiðar 507.778 134 516.513 155 8.736 1,72 21
CB Námugröftur og vinnsla
hráefna úr jörðu annarra en
orkugjafa
45.510 4 47.887 5 2.378 5,22 1
DA Matvæla- og
drykkjavöruiðnaður;
246.333 86 270.226 99 23.893 9,70 13
Þar af fiskvinnsla 127.995 50 148.851 60 20.856 16,29 10
D Annar iðnaður 671.850 360 691.851 391 20.001
E Veitur 51 1 54 1 3 5,24 0
F Byggingastarfsemi og
mannvirkjagerð
505.303 378 514.869 398 9.566 1,89 20
G Verslun og ýmis
viðgerðarþjónusta
1.827.943 724 1.860.725 757 32.782 1,79 33
H Hótel- og veitingahúsarekstur 48.834 52 49.245 56 411 0,84 4
I Samgöngur og flutningar 149.900 94 157.436 105 7537 5,03 11
J Fjármálaþjónusta og
vátryggingar
486.081 56 541.415 61 55.334 11,38 5
K Fasteignaviðskipti,
leigustarfsemi og ýmis
sérhæfð þjónusta
844.762 779 875.697 816 30.935 3,66 37
M Fræðslustarfsemi 2.110 16 2.088 18 -22 -1,03 2
N Heilbrigðis- og félagsþjónusta 80.786 77 82.055 80 1.270 1,57 3
O Önnur samfélagsþjónusta,
menningarstarfsemi o.fl.
57.011 89 58.250 97 1.239 2,17 8
R Engin starfsemi 2.575 14 2.917 20 341 13,26 6
S Ótilgreind starfsemi 10.728 29 11.099 29 371 3,46 0
Samtals 5.531.658 2.937 5.727.820 3.133 196.162 3,55 196


Samræmt skattframtal rekstraraðila 1999 (rekstur 1998)
Fjárhæðir í millj. kr.


Félög með
rekstrartap
Tap, fyrir Fjöldi Tap, eftir Fjöldi Mismunur % Fj. Fyrir Eftir
A Landbúnaður,
dýraveiðar og
skógrækt
-501.518 101 -485.226 103 -16.293 -3,25 2 5 2
B Fiskveiðar -9.401.346 294 -9.362.610 312 -38.736 -0,41 18 47 8
CB Námugröftur og
vinnsla hráefna úr
jörðu annarra
-194.060 11 -188.846 14 -5.214 -2,69 3 5 1
DA Matvæla- og
drykkjavöruiðnaður;
-11.062.630 286 -10.579.807 284 -482.823 -4,36 -2 15 4
Þar af fiskvinnsla -9.003.370 167 -8.633.211 168 -370.159 -4,11 1 12 1
D Annar iðnaður -7.464.883 615 -7.015.727 603 -449.155 -12 31 12
E Veitur -64.000 15 -60.454 15 -3.546 -5,54 0 0 0
F Byggingastarfsemi
og mannvirkjagerð
-3.102.150 540 -2.955.254 537 -146.896 -4,74 -3 38 21
G Verslun og ýmis
viðgerðarþjónusta
-9.367.015 1.303 -8.952.215 1.304 -414.800 -4,43 1 53 19
H Hótel- og
veitingahúsarekstur
-2.196.743 282 -2.141.662 284 -55.081 -2,51 2 9 3
I Samgöngur og
flutningar
-3.441.094 217 -3.193.257 214 -247.837 -7,20 -3 18 10
J Fjármálaþjónusta og
vátryggingar
-5.312.740 85 -4.641.202 86 -671.538 -12,64 1 12 6
K Fasteignaviðskipti,
leigustarfsemi og
ýmis sérhæfð
þjónusta
-10.676.462 1367 -10.385.009 1405 -291.454 -2,73 38 161 86
M Fræðslustarfsemi -50.551 33 -47.878 30 -2.672 -5,29 -3 1 2
N Heilbrigðis- og
félagsþjónusta
-74.881 63 -72.802 61 -2.079 -2,78 -2 5 4
O Önnur
samfélagsþjónusta,
menningarstarfsemi
-1.659.440 302 -1.609.509 302 -49.931 -3,01 0 21 13
R Engin starfsemi -623.584 225 -585.865 219 -37.719 -6,05 -6 113 113
S Ótilgreind starfsemi -446.261 151 -422.500 150 -23.761 -5,32 -1 41 42
Samtals -65.644.532 5.892 -62.704.980 5.925 -2.939.551 -4,48 33 575 346

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga,
lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum
nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til margvíslegar breytingar á gildandi skattalögum. Breytingunum er m.a. ætlað að örva atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum en miða einnig að því að draga úr skattbyrði einstaklinga. Á móti er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á tryggingagjaldi. Í athugasemdum við frumvarpið eru raktar breytingar á þeim lögum sem í hlut eiga og sett fram mat á áætluðum áhrifum þeirra á tekjuhlið ríkissjóðs. Talsverðum vandkvæðum er bundið að spá fyrir um tekjutap ríkissjóðs í kjölfar slíkra breytinga þegar til lengri tíma er litið. Þar veldur mestu óvissan um í hvaða mæli lækkun tekna verður vegin upp af hækkun tekna vegna vaxandi umsvifa í þjóðarbúskapnum en tilgangurinn með þessum ráðstöfunum er einmitt að stuðla að betri skilyrðum fyrir hagvexti. Í athugasemdum frumvarpsins er því lagt mat á áhrif breytinganna með því að áætla annars vegar tekjutapið að óbreyttu miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2002 og hins vegar tekjuávinninginn af aukinni veltu sem talið er að skattalækkanirnar hafi í för með sér. Niðurstöður þeirrar áætlunar koma fram í töflunni hér fyrir neðan.

Breytingar á skattalögum 2002 2003 Samtals
Tekjuskattur fyrirtækja lækki úr 30% í 18% frá 1. jan. 2002
-2.700 -2.700
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja falli niður í árslok 2002
-400 -400
Eignarskattur fyrirtækja lækki úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002
-1.100 -1.100
Fríeignamörk í eignarsk. einstaklinga hækki um 20% í árslok 2001
-1.000 -1.000
Fríeignamörk í sérst. tekjuskatti einstakl. hækki um 15% á árinu 2001
-600 -600
Sérstakur eignarskattur einstaklinga falli niður í árslok 2002
-400 -400
Eignarskattur einstaklinga lækki úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002
-2.000 -2.000
Tekjuskattur einstaklinga lækki um 0,33% frá 1. jan. 2002
-1.250 -1.250
Skattlagning húsaleigubóta falli niður frá 1. jan. 2002
-150 -150
Tryggingagjald hækki um 0,77% frá 1. jan. 2003
2.500 2.500
Skattalækkun að óbreyttum efnahagsumsvifum
-3.000 -4.100 -7.100
Tekjur af auknum efnahagsumsvifum
3.500
Nettóáhrif skattalækkana
-3.000 -4.100 -3.600

    Þessir útreikningar benda þannig til þess að verði frumvarpið lögfest lækki tekjur ríkissjóðs að óbreyttu um rúmlega 7 milljarða króna á ársgrundvelli frá árinu 2003 en á móti komi um 3,5 milljarða króna tekjur af auknum efnahagsumsvifum í kjölfar þessara aðgerða. Nettóáhrifin á afkomu ríkissjóðs yrðu samkvæmt þessu í kringum 3,5 milljarðar króna þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda.
    Í tekjuáætlun frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2002 hefur þegar verið gert ráð fyrir þeim breytingum á skattalögum sem hefðu áhrif á það ár.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um bókhald og ársreikninga, ásamt viðeigandi breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, til að nema úr gildi ákvæði um verðbólgureikningsskil hér á landi. Sú breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur og útgjöld ríkissjóðs.
    Frumvarpið snýr einkum að breytingum á tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld svo nokkru nemi þótt gera þurfi einhverjar breytingar á prósentum og fjárhæðarmörkum í skattkerfum o.þ.h. Fjármálaráðuneytið fyrirhugar því að koma ákvæðum frumvarpsins í framkvæmd innan óbreytts útgjaldaramma.