Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 723. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1923  —  723. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.    Tillaga þessi gengur út á það að Alþingi feli utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Minni hlutinn telur málefnið þarft og ætti það skilið ítarlega umfjöllun. Engu síður telur minni hlutinn vandséð hvernig hægt verði að afgreiða málið á meðan verkaskipting um málaflokkinn er svo óskýr sem raun ber vitni. Ofan á það bætast beinlínis rangar forsendur við málatilbúnaðinn.

Hernaðarumsvif á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands.
    Í tillögunni er m.a. fjallað um ógnanir sem geta verið af öðrum völdum en hernaðarlegum. Það hefur verið staðhæft að verulega hafi dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar. Minni hlutinn telur of sterkt til orða tekið og telur að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til þess sem raunverulega er að gerast í kringum Ísland. Ekki þarf annað en að fylgjast með fréttum til sjá að ástandinu er öfugt farið. Í skýrslu frá kanadísku varnar- og utanríkismálastofnuninni frá því í mars 2010 segir m.a.: „Norðurskautsríkin eru kannski að tala um samvinnu, en þau eru öll að búa sig undir átök.“ Nefna má yfir 60 flug herflugvéla frá Rússlandi á síðustu árum yfir Noreg, Ísland og lofthelgi Bretlands sem ekki láta vita af ferðum sínum og senda ekki merki frá flugvélum sínum, svo veldur hættu fyrir farþegaflug. Bandaríkjamenn eru nýbúnir að uppfæra ratsjárkerfið í Thule, Norðmenn hafa fært aðalherstöðvar sínar norður á bóginn og hafa keypt fimm nýjar freigátur sem eru af fréttum að dæma dýrustu hergögn í norskri sögu. Danir eru nú með eina sameiginlega norðurskautsherstöð í stað minni bækistöðva á Grænlandi og í Færeyjum til að gera starfið á svæðinu markvissara og einbeittara. Kanadamenn hafa ráðgert fjárfestingar í nýjum varðskipum, þjálfunarbúðum, djúpsjávarskipalægi og einnig er þar ráðgert að koma á fót sérstakri herdeild fyrir norðurskautið.
    Af því sem hér sagði má ráða að sú fullyrðing utanríkisráðherra „að verulega hefur dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands“ er röng. Í raun má telja fullyrðinguna varasama og óábyrgt að setja slíkt fram í greinargerð með tillögu til þingsályktunar. Enda þótt viðkomandi ríki séu með framantöldu einungis að standa vörð um fullveldishagsmuni sína og ekki sé sjáanlegur áhugi hjá neinu þeirra til að koma af stað vígbúnaðarkapphlaupi á svæðinu, má marka skarpa drætti í hernaðaruppbyggingu þar. Íslensk stjórnvöld verða að hafa augun opin fyrir samhengi þeirra breytinga sem eru að verða á svæðinu við breytt hagsmunamat og uppbyggingu sem á sér stað.

Verkaskipting óljós.
    Fyrir liggur að miðað við forsendur tillögunnar fellur hugtakið þjóðaröryggi og verkaskipting þar um milli utanríkis- og innanríkisráðuneytis. Sem dæmi má nefna ógnir og hættur á borð við mengunarslys, farsóttir, skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, netglæpi eða efnahagsþrengingar eða yfir höfuð hvernig tryggja má að nægileg þekking sé til staðar hjá borgaralegum stofnunum um þjóðaröryggismál, en öll þau verkefni eru á hendi innanríkisráðherra og velferðarráðherra. Utanríkisráðherra sér hins vegar um varnarmál, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir svo sem Atlantshafsbandalagið, Sameinuðu þjóðirnar o.s.frv.
    Af þessu má ráða að viðfangsefni tillögunnar fellur ekki nema að litlu leyti undir verksvið utanríkisráðuneytisins. Því má spyrja: af hverju lagði innanríkisráðherra ekki tillöguna fram?
    Ekki bólar á því að ríkisstjórnin greiði úr málum hvað varðar verkaskiptingu milli ráðuneyta og ráðherra, því samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands (675. máli þessa þings) verður meðferð mála gerð óskýrari.
    Svo aðeins eitt dæmi sé tekið af málasviði öryggismála, sem viðfangsefni þessarar tillögu fellur að stórum hluta undir, verður ábyrgð málaflokksins innan Stjórnarráðsins dreift svo víða og á svo óskýran hátt að engin leið virðist til að greiða úr flækjunni. Á sviði öryggismála má í frumvarpinu finna dæmi um minnst átta flokka ráðherra: ráðherra sem fer með málefni almannavarna- og öryggismálaráðs (b-liður 492. gr. frv.), ráðherra sem fer með málefni almannaöryggis (sami stafliður sömu greinar frv.), ráðherra sem fer með málefni lögreglu og löggæslu (a-liður 436. gr. frv.), ráðherra sem fer með málefni varna gegn ofanflóðum (c-liður 239. gr. frv.), ráðherra sem fer með málefni varnar- og öryggissvæða (d-liður 542. gr. frv.), ráðherra sem fer með málefni varnarsvæða (b-liður 370. gr. frv.), ráðherra sem fer með málefni öryggissvæða (d-liður 490. gr. frv.) og ráðherra sem fer með varnarmál og samskipti við önnur ríki (b-liður 492. gr. frv.).
    Ef af samþykkt frumvarpsins í 675. máli yrði, hvernig færi með afdrif þeirrar tillögu sem hér er til umfjöllunar og vinnu á grundvelli hennar? Yrði verkaskipting milli innanríkis- og utanríkisráðherra skýrari? Yrði pólitískt umboð ráðherranna skýrara og hvað með pólitíska ábyrgð?

Þjóðaröryggisstefnu þarf að byggja á skýrum forsendum.
    Í athugasemdum með tillögu utanríkisráðherra segir: „Þjóðaröryggisstefnu þarf að byggja á skýrum forsendum.“ Hér hittir ráðherrann naglann á höfuðið: skýrar forsendur liggja ekki fyrir – hvorki til grundvallar því umhverfi sem þingmannanefndinni er ætlað að starfa í né um efnislegan grundvöll þjóðaröryggisstefnunnar sjálfrar.

Niðurstaða minni hlutans.
    Í ljósi alls framangreinds leggur minni hlutinn eindregið til að Alþingi fresti því að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögur að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Vegna rangra forsendna og ályktunar um að verulega hafi dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands. Einnig og sérstaklega í ljósi þess að þingmannanefndinni er falið að skila tillögu til utanríkisráðherra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en í júní 2012. Fullvíst má telja að ríkisstjórnin verði ekki fyrir þann tíma búin að leysa úr sínum viðfangsefnum um málefnaskiptingu milli ráðuneyta. Minni hlutinn telur misráðið að ætla þingmönnum að vinna að þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland við slíkar aðstæður.

Alþingi, 29. ágúst 2011.Ragnheiður E. Árnadóttir,


frsm.


Einar K. Guðfinnsson.